145. löggjafarþing — 134. fundur
 17. ágúst 2016.
fjármálastefna 2017–2021, síðari umræða.
stjtill., 741. mál. — Þskj. 1213, nál. 1523, 1548, 1549 og 1550, brtt. 1525.

og 

fjármálaáætlun 2017–2021, síðari umræða.
stjtill., 740. mál. — Þskj. 1212, nál. 1523, 1548, 1549 og 1550, brtt. 1524.

[15:52]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og vil nota tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með að við séum komin á þann stað að við séum farin að tileinka okkur þessi vinnubrögð. Það ætti að þykja fullkomlega sjálfsagt að við værum með langtímaáætlun í ríkisfjármálum og ekki í rauninni bara ríkisfjármálum heldur opinberum fjármálum því að hér er verið að vísa til fjármála sveitarfélaganna líka. Samkomulag hefur náðst milli ríkis og sveitarfélaga um stóru línurnar á næstu árum. Jafn sjálfsagt og þetta ætti að vera er þetta í fyrsta skipti sem við gerum þetta og erum þá að læra af þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við þegar kemur að opinberum fjármálum. Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að við munum sjá breytta menningu þegar kemur að opinberum fjármálum. Þrátt fyrir að við verðum vonandi áfram ósammála um ýmsa hluti og tökumst á í pólitíkinni er enginn vafi að það er best fyrir íslenska þjóð ef menn ná saman um aga og langtímahugsun í opinberum fjármálum. Allir munu hagnast á því og það er enginn vafi á því að það er grunnur að stöðugleika í landinu og ætli hann sé ekki eitt stærsta, ef ekki stærsta, hagsmunamál almennings og ekki síst þeirra sem minna hafa á milli handanna.

Einhver kynni að spyrja: Af hverju langtímaáætlun? Ég held að það sé einfaldast frá því að segja að það er bara almenn skynsemi. Það er skynsamlegt að setja sér áætlanir til langs tíma sem ég held að sé eiginleiki allra þeirra sem hafa náð árangri, t.d. í fyrirtækjarekstri, en ekki síður þegar kemur að opinberum rekstri.

Sömuleiðis yrði mjög mikilvægt fyrir þá aðila sem sinna hinum ýmsu störfum hjá hinu opinbera, t.d. forstöðumenn og stjórnendur stofnana, að geta litið lengra fram í tímann en til eins ár í senn og gert áætlanir í takt við það. Þetta er upptaktur að slíkum vinnubrögðum.

Ég vil nota tækifærið hér til að upplýsa það sem mér fannst áhugavert þegar við í hv. fjárlaganefnd fórum til Svíþjóðar til að ræða við þarlenda. Við ræddum við alla þá aðila sem hafa af þessu reynslu og koma að þessu, hvort sem það voru pólitískir fulltrúar, embættismenn, eftirlitskerfi eða fulltrúar í eftirlitskerfum.

Það er áhugavert að svo virðist sem í því landi, eins og þeim löndum sem best hefur gengið, hafi náðst samstaða um þessi vinnubrögð. Þegar við tölum um þessi vinnubrögð snýr þetta ekki bara að vinnubrögðum þingsins og framkvæmdarvaldsins heldur líka að því hvernig pólitísk umræða er. Þar er fullyrt, ég hafði svo sem heyrt það áður, og kemur fram í minnispunktum sem fyrri hv. fjárlaganefnd gerði eftir sína heimsókn til Svíþjóðar að ef einhverjir stjórnmálamenn þykja óábyrgir í opinberum fjármálum eigi þeir ekki upp á pallborðið hjá almenningi. Skiptir þá engu máli í hvaða stjórnmálaflokki þeir eru. Ég get ekki alveg fullyrt það án þess að hafa gert á því úttekt en hins vegar vantar ekkert upp á pólitísk deilumál í þessum löndum. Það er bara samstaða um þessi vinnubrögð og þessa nálgun. Þetta snýr svona að einföldum hlutum, ef stjórnmálamenn lofa útgjöldum er spurningin hvernig þeir ætla að fjármagna þau og hvaða úttektir menn hafi gert á því hvernig hægt sé að láta enda ná saman.

Allir sem hlusta á þessi orð mín átta sig á því að við eigum nokkuð í land til að ná þessari menningu í umræðunni í opinberum fjármálum og ríkisfjármálum. Ég vonast hins vegar til þess að við séum á réttri leið og að við munum ná þangað sem ég er að vísa til í opinberri umræðu og sömuleiðis í framkvæmdinni.

Það verður að taka mið af nokkru þegar við erum að ræða þessa hluti. Í fyrsta lagi er hér um langtímaáætlun að ræða. Þetta eru stóru línurnar og ekki fjárlög. Þetta eru ekki fjárlög einstakra ára, eðli máls samkvæmt taka þau breytingum. Hins vegar er þetta uppleggið varðandi stóru þættina og eðli málsins samkvæmt geta ríkisstjórnir, hvort sem það er ný ríkisstjórn sem mundi taka við eftir kosningar eða á sínu tímabili, gert breytingar á þessu. Þá þurfa menn líka að gera breytingar á ríkisfjármálaáætluninni ef þeir breyta þessu í stórum dráttum en innan fjárlaganna, það er ekki verið að semja fimm fjárlög fram í tímann svo það sé algjörlega sagt. Það má ekki telja að svo sé, það mun rugla umræðuna.

Vegna þess að lögin tóku gildi 1. janúar á þessu ári erum við ekki að framkvæma nákvæmlega eins og verður gert á næstu árum. Þannig er hugsunin t.d. sú að áætlunin komi fram á vorin, fjármálaráðið fari yfir hana og komi með sínar umsagnir og við göngum frá henni á vorþingi. Ekki gafst tími til þess núna af augljósum ástæðum. Við í meiri hluta fjárlaganefndar ákváðum vegna þess skamma tíma sem við höfum, því að það er stutt í kosningar eins og menn vita og áætlanir gera ráð fyrir, að fara yfir þá áætlun sem er til staðar og koma með athugasemdir um það sem við töldum að betur mætti fara án þess að koma með beinar tillögur. Við vonumst til þess að það geti verið innlegg og grundvöllur í umræðuna í framhaldinu, ég tala nú ekki um fjárlagagerð.

Það er eðlilegt þegar við erum að gera þetta í fyrsta skipti að menn hafi ekki náð fullkomnun í því að vinna áætlun sem þessa, og ná því seint, en ég ætla að fara yfir helstu þætti sem við bendum á. Ég fer ekki í allt saman, einfaldlega vegna þess að tíminn er of stuttur, en við ákváðum að gera eins og okkur finnst að fjárlaganefndarmenn eigi að gera, að vera gagnrýnin á það sem hér kemur fram. Vonandi er hægt að laga það og taka það sérstaklega fyrir á næstunni.

Förum fyrst í það sem við köllum veikleika og sóknarfæri. Ég fer ekki yfir vinnulagið, menn geta lesið sér til um það, það er meira tæknilegt. Við vekjum athygli á því að það vantar umfjöllun um þróun eigna. Það er mjög mikilvægt að við setjum það inn í næstu ríkisfjármálaáætlun því að það er auðvitað stór þáttur í því hvernig hvernig þátturinn eignir ríkisins þróast.

Í undirkaflanum um spár um hagvöxt og aðhaldsstig ríkisfjármála vekjum við athygli á því að sleitulaus hagvöxtur er forsendan fyrir áætluninni. Það er mjög mikilvægt núna að mínu áliti, í aðdraganda kosninga, þar sem forsendurnar sem við gerum ráð fyrir eru tilkomnar af því að spár þeirra aðila sem spá fyrir um þessi mál liggja til grundvallar. Hagstæð skilyrði hafa leitt til hjöðnunar verðbólgu erlendis. Margir umsagnaraðilar sem komu fyrir nefndina lögðu áherslu á sveiflujöfnunina, að hún mætti vera meiri til að ríkisfjármálastefnan styddi betur við peningamálastefnuna. Á þetta reynir náttúrlega mjög, ekki bara á meirihlutaflokkana í ríkisstjórn heldur alla stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga, hvernig menn nálgast þessa hluti. Það er mjög freistandi að lofa mjög miklu í aðdraganda kosninga. Það hefur kannski oft verið lenskan. Það er sjálfsagt og eðlilegt að menn lofi því sem þeir ætla að standa við. Menn þurfa þá að hafa í huga á hvaða forsendum áætlun byggir og sömuleiðis gera ráð fyrir tekjum á móti þeim útgjöldum sem þeir lofa.

Hér er gert ráð fyrir því að við lækkum skuldir verulega og ef áætlanir ná fram að ganga verðum við með skuldminnstu þjóðum heims. Þá miða ég sérstaklega við lönd OECD. Það er forsendan fyrir því að við getum tekið við áföllum. Ég vek athygli á því að ástæðan fyrir því að við höfum getað unnið jafn vel úr þeirri stöðu sem upp kom eftir fjármálahrunið var sú að ríkissjóður var nær skuldlaus. Sömuleiðis hafði verið greitt verulega inn á lífeyrisskuldbindingar á árunum fyrir fjármálahrunið. Ef það hefði ekki verið hefði staðan verið jafnvel illviðráðanleg eins og við sjáum í þeim löndum sem fengu fjármálahrunið og eru í mjög erfiðri stöðu. Það er m.a. vegna þess að þau lönd voru gríðarlega skuldsett fyrir fjármálahrunið og þegar skuldsetningin varð enn meiri eftir það sér hver maður hvað það þýðir. Bjartsýnustu spár um lækkun skulda þýða að skuldir verða þrátt fyrir lækkunina 662 milljarðar kr. árið 2021 og vaxtagjöldin á ári 39 milljarðar kr. Það er umtalsverð lækkun. Ef ég man rétt voru vaxtagjöldin um 80 milljarðar kr. þegar þessi ríkisstjórn tók við og hún hefur lækkað skuldirnar um tugi milljarða. Engu að síður eru þetta miklir fjármunir og ég held að við vildum flest nýta þá í eitthvað annað.

Það er rétt að hafa þau varnaðarorð að ef hagvöxtur reynist ekki jafn mikill og spáð er mun það hafa mikil áhrif. Það er mikilvægt í þeim áætlunum sem við gerum að við tökum mið af því að það er ekki alveg sjálfgefið að þessir hlutir gangi eftir. Auðvitað höfum ekki neinar betri upplýsingar eins og staðan er í dag, en ég held að það sé skynsamlegt að hafa það í huga að hlutirnir geta breyst og ef þeir breytast til verri vegar hefur það áhrif.

Við nefnum sérstaklega skattamálin. Þrátt fyrir að stigin hafi verið góð skref á þessu kjörtímabili í að auka skilvirkni skattkerfa erum við enn neðarlega þegar við berum okkur saman við önnur ríki OECD í þeim efnum. Nú geta menn haft allar skoðanir á því hversu háir skattar eigi að vera, en það væri betra ef það væri meiri samstaða um að skattkerfin væru skilvirk og einföld því að það þýðir einfaldlega að þau skila meiru, það eru minni líkur á skattundanskotum og erfiðara að stunda skattsvik — ef einhver munur er á skattundanskotum og skattsvikum.

Skatttekjur hins opinbera eru innan OECD hvergi hærra hlutfall en á Íslandi að Danmörku undanskilinni. Skattar á fyrirtæki að frádregnu tryggingagjaldi eru nánast hvergi hærri en á Íslandi. Við erum með sérstaka skatta á fjármálafyrirtæki og sjávarútveg sem valda m.a. miklum vaxtamun og eðli máls samkvæmt verri samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Það er í sjálfu sér jákvætt, virðulegi forseti, að við erum eina ríkið innan OECD, síðast þegar það var tekið út, sem er með nettóskatttekjur af sjávarútvegi. Allar aðrar þjóðir innan OECD nota skattpeninga almennings til að greiða niður þann undirstöðuatvinnuveg. Það hlýtur að vera fagnaðarefni. Eðli máls samkvæmt eru allra handa hugmyndir um það hvernig menn vilja breyta fyrirkomulagi í tengslum við sjávarútveginn og sjálfsagt að ræða það og skoða, en það væri vont ef við gengjum einhverja þá leið sem gerði það að verkum að við værum á svipuðum stað og önnur OECD-ríki, þ.e. að við værum að nota skatttekjur almennings til að greiða niður útveginn sem við gerðum sannarlega fyrir ekkert svo mörgum árum.

Neysluskattar eru enn óskilvirkir. Við þurfum að líta á jaðarskatta einstaklinga. Jaðarskattarnir koma út af flóknu samspili tekjuskatta og bóta og sú staða getur hæglega komið upp að þó að viðkomandi einstaklingur hækki eitthvað í launum verði hækkunin í raun mjög lítil og jafnvel eru þess dæmi, þótt ég voni að þau séu ekki á Íslandi, að það bara hækki ekki nokkurn skapaðan hlut og jafnvel lækki, jafn skrýtið og það er.

Við ræddum líka Fæðingarorlofssjóðinn og miðað við þær upplýsingar sem við fengum í nefndinni munu þær að öllu óbreyttu kalla á hækkun tryggingagjaldsins um 0,35%, en mér skilst að flestir, ef ekki allir, stjórnmálaflokkar hafi haft það að markmiði að lækka tryggingagjaldið þannig að ef menn fara þá leið að hækka það þurfum við að líta sérstaklega til þess.

Einnig er í töflu fjallað um tryggingagjaldið og mörkun þess. Ég held að við þurfum að fara vel yfir þann skattstofn af augljósum ástæðum.

Við leggjum sömuleiðis áherslu á að það væri nauðsynlegt og æskilegt að beita útgjaldareglu til að auka aðhaldsstig í góðæri því að sem betur fer erum við núna að fara, að öllu óbreyttu, í hagvaxtarskeið. Við þurfum líka að vera aðhaldssöm þegar kemur að stjórn efnahagsmála og ríkisfjármála í uppsveiflu. Við höfum mörg dæmi þess að það hafi ekki gengið eftir, því miður.

Við förum ekki í gegnum alla þætti, en við vekjum athygli á því t.d. að samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir 30% hækkun til utanríkisráðuneytisins og auknum framlögum til vinnumarkaðsmála þrátt fyrir að atvinnuleysi minnki stöðugt. Sumar þessar hækkanir til utanríkisráðuneytisins eru nokkuð sem við erum búin að skuldbinda okkur til og tengist þá hækkun landsframleiðslu, en annað tengist því að gert er ráð fyrir að fara í gegnum svið sem við í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar teljum að væri æskilegra að atvinnulífið mundi sinna. Ég get farið betur í það á eftir ef einhver hefur áhuga á að spyrjast fyrir um það.

Við leggjum áherslu á að það á ekki að hækka útgjöld nema fyrir liggi stefnumörkun um útgjöldin. Alveg eins og versta leiðin sem til er þegar menn eru að spara er að vera með flatan niðurskurð á það sama við þegar menn eru í betri færum til að bæta í. Þá eiga menn ekki að fara í flata prósentuhækkun, þvert á móti. Hugsunin með langtímaáætlun ríkisfjármálaáætlunarinnar er líka að menn setji sér markmið um það hvaða árangri menn ætla að ná. Það skiptir engu máli hvort það eru heilbrigðismál, menntamál, félagsmál eða hvað það er, menn eiga að setja sér töluleg og skilgreind markmið um hvaða árangri á að ná og síðan eiga menn að leita þeirra leiða sem hagkvæmastar eru til að ná þeim árangri til þess að við getum gert eins vel og mögulegt er og nýtt skattfé almenningsins eins vel og mögulegt er.

Við vekjum athygli á aðgerðum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Þar hafa 30 af 110 tillögum náð fram að ganga. Stærstu sameiningarnar eru vegna sýslumanna, lögreglustjóraembætta og heilbrigðisstofnana, en betur má ef duga skal. Þetta eru einungis 30 af 110 tillögum og það er mikilvægt að við göngum betur til verka og setjum okkur markmið um hvenær við ætlum að ná árangri eða klára þau verkefni sem menn ætla að fara í. Ef menn vilja ekki fara í einhverjar af þessum tillögum á bara að blása þær af borðinu og koma með einhverjar aðrar tillögur í staðinn.

Samband íslenskra sveitarfélaga lagði á það áherslu fyrir nefndinni að það vildi stytta grunnskólann og taldi að með því væri hægt að ná auknum árangri í menntamálum. Ég tel að við eigum að skoða það. Við vekjum athygli á því út af styttingu framhaldsskólans að þeir fjármunir sem þar sparast fara inn í kerfið þannig að þar eru komnir auknir fjármunir sem nýtast í framhaldsskólanum.

Sömuleiðis vekjum við athygli á því að af því að útgjöldin á stjórnsýslusviði menntamála hafa aukist um 340 millj. kr. frá 2013 er að okkar mati svigrúm til að nýta þá fjármuni í háskólana ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Eitthvað í þessu er einskiptiskostnaður, en það þyrfti að fara sérstaklega yfir þetta því að ef við gætum gert betur á einhverju skólastigi er það án nokkurs vafa á háskólastiginu.

Við förum sérstaklega í innkaupa- og útboðsmálin sem eru meðal þess sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt mikla áherslu á. Það er að koma í ljós að pottur er víða brotinn þegar kemur að innkaupamálum hins opinbera. Nú hefur verið unnið skipulega að því að laga það. Verkefnastjórn á vegum hæstv. fjármálaráðherra hefur staðið fyrir sameiginlegum innkaupum stofnana. Um daginn buðu fimm stofnanir innan A-hluta ríkisrekstrarins út hluti eins og tölvur og pappír. Sparnaður við innkaup þessara fimm stofnana var um 90 millj. kr. og það eru ekki litlir peningar.

Við leggjum áherslu á að ljúka innleiðingu rafrænna reikninga hjá Fjársýslunni, uppfæra innkaupastefnu ríkisins og að allar ríkisstofnanir færi fjárhagsbókhald í Orra til að fá fulla yfirsýn og upplýsingar um einstök innkaup.

Við tókum sérstaklega fyrir húsnæðismál ríkisstofnananna. Þar teljum við mikla möguleika til að spara fyrir ríkið og sömuleiðis ná betri árangri, hafa húsnæði sem hentar betur fyrir viðkomandi stofnanir. Það er hins vegar ákveðinn galli að ríkissjóður gjaldfæri ekki fjárbindingu í húsnæði og að hún kemur ekki fram í leiguverði. Það hefur sýnt sig í öðrum löndum að ef opinberar stofnanir greiða markaðsleigu minnkar fermetrafjöldinn. Alþjóðleg viðmið fyrir fermetrafjölda á stöðugildi hjá ýmsum öðrum þjóðum eru 16 fermetrar. Þeir eru 23 fermetrar hér en hefur samt sem áður fækkað þó nokkuð. Af augljósum ástæðum þarf að skapa hvata til að draga úr þessari húsnæðisþörf.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert tillögu sem hefur verið samþykkt í fjárlögum, þ.e. þingið hefur samþykkt heimild að tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um t.d. að selja Tollhúsið og finna þeirri starfsemi annan stað, sem og Þjóðskjalasafnið. Lengi hefur verið heimild fyrir því að selja lögreglustöðina og finna þeirri starfsemi annan stað. Þetta eru allt saman dæmi um hús sem eru á góðum stöðum fyrir ýmislegt en kannski ekki endilega þá starfsemi sem þar er. Þetta er nokkuð sem við munum fjalla meira um í hv. fjárlaganefnd á næstu dögum.

Við vekjum athygli á þeirri miklu breytingu sem er á efnahagslífinu vegna ferðaþjónustunnar. Umfang ferðaþjónustunnar hefur aukist gríðarlega. Gjaldeyristekjurnar hafa aukist um 100 milljarða á síðustu tveimur árum. Hlutur ferðaþjónustu í útflutningstekjum hefur farið úr 18% frá árinu 2010 og verður nú samkvæmt spám 34%. Ísland er í 18. sæti af 141 yfir samkeppnishæfustu ferðamannalöndin. Styrkurinn er í mannauði sem og því að landið er opið og vel tengt flugumferð. Öryggi og hreinlæti eru líka meðal kosta landsins samkvæmt þessari úttekt. Það er mikilvægt að við höldum því og hækkum samkeppnishæfnina enn frekar. Það er mikilvægt að forgangsraða miðað við þessar breyttu forsendur í þessari undirstöðuatvinnugrein og þá erum við að vísa sérstaklega til samgöngumála, innviða og fjarskiptamála.

Sömuleiðis bendum við í þessum kafla á að það er hægt að hægja á framkvæmdum sem gert er ráð fyrir varðandi Stjórnarráð og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Það liggur fyrir að við erum að fara í mjög stórar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eins og nýjan spítala. Það er skynsamlegt hjá hinu opinbera að fara í framkvæmdir þegar svona slaki er í efnahagslífinu. Það er augljóslega ekki hægt að gera það þegar kemur að spítalanum af ástæðum sem við þekkjum. En sömuleiðis er út af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar gríðarleg þörf á að byggja hér fleiri hjúkrunarheimili og sömuleiðis styrkja hagkvæmari úrræði, úrræði sem henta betur fyrir þá sem þurfa ekki að vera á hjúkrunarheimili á næstu árum og áratugum af þeirri einföldu ástæðu að á næstu tíu árum mun þeim sem eru 67 ára og eldri fjölga um 50%. Við leggjum til að menn hægi á framkvæmdum við Stjórnarráðið og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu en líti frekar til hjúkrunarheimila.

Enn fremur vekjum við athygli á því, og ég held að það sé mikilvægt að menn ræði það málefnalega, að við erum að taka mikla áhættu þegar við setjum 70–90 milljarða af ríkisfé inn í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Nú er enginn vafi á að það er mjög mikilvægt að fara í þessa framkvæmd, en hér er um að ræða ríkisfyrirtæki að fullu á ábyrgð skattgreiðenda sem eiga að fjármagna hana með beinum hætti. Við vonumst til þess að hér muni allt ganga mjög vel um alla framtíð og ferðaþjónustan verði áfram eins og hún er í dag, en reynslan kennir okkur að það er ekki sjálfgefið. Við þurfum ekki nema að skoða umræður í þessum sal um Íbúðalánasjóð þegar menn voru að fara að stórauka hlutverk hans. Það er nákvæmlega eins og Isavia, það er bara fyrirtæki sem er á ábyrgð skattgreiðenda og reyndar er þar líka ríkisábyrgð á lánum sem er annað mál. Þegar illa fór, sem svo sannarlega gerðist, fór reikningurinn beint á skattgreiðendur og hefur hann núna verið frá fjármálahruni sem samsvarar nýjum spítala, þ.e. rúmlega 50 milljarðar kr. fyrir tiltölulega lítinn húsnæðisbanka.

Ég er ekki að spá einu eða neinu öðru en því að ég er bara að vekja athygli á því að það skiptir máli fyrir okkur að dreifa áhættunni, þótt ekki væri annað, en hins vegar mega menn skoða ýmislegt annað sem tengist Isavia. Ég ætla ekki að fara í það hér en ég vek athygli á því að þegar við erum að tala um blandaða fjármögnun erum við að gera svipað og það sem gerist hjá öðrum þeim þjóðum sem við berum okkur saman við, um 80% af flugfarþegum sem fara til og frá Evrópu og innan Evrópu eru á flugvöllum sem ýmist eru í einkaeigu eða í blandaðri eigu.

Ég vísaði í breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar sem kallar á aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að breyta hlutunum í samræmi við það. Svo sannarlega er lögð mikil áhersla á heilbrigðismál í þessari langtímaáætlun og sömuleiðis er heildstæð áætlun um uppbyggingu Landspítalans sem kemur nú í fyrsta skipti. Við vekjum hins vegar athygli á því að það þarf að vera gagnsærra og betra launakerfi hjá hinu opinbera, þar með talið í heilbrigðiskerfinu, og vekjum athygli á mikilvægi heimahjúkrunar. Hið sama á við um markmið með sjúkratryggingalögunum. Þau lög hafa tekið að fullu gildi og hafa það að markmiði að gæða- og kostnaðargreina þjónustuna og nýta, þegar það er mögulegt, það sem tæki til að borga fyrir eða semja við þá aðila sem eru með hagkvæmustu lausnirnar á hverjum tíma. Þetta er einfaldlega að erlendri fyrirmynd, þetta er fyrirmynd frá Norðurlöndunum og hefur gefist vel í öðrum löndum. Við höfum stigið fyrstu skrefin, hæstv. heilbrigðisráðherra gerði það með því að vinna á biðlistunum, m.a. á Landspítalanum, með því að gera afkastatengda samninga sem var í fyrsta skipti gert, ef ég man rétt, á DRG-kerfinu. Hann hefur stigið sambærileg skref þegar kemur að heilsugæslunni, að kostnaðargreina þá þjónustu og borga eftir módeli sem hefur gengið vel, sérstaklega í Salahverfinu í Kópavogi.

Við sjáum miklar breytingar á íslensku þjóðfélagi vegna þess að þeir ánægjulegu hlutir eru að gerast að fólk verður eldra en var áður og þá eru uppi áætlanir og samkomulag um að hækka lífeyristökualdur úr 67 í 70 ár. Ég held að það sé alveg kominn tími á það. 70 ára aldursmarkið kom fyrst fram í Þýskalandi árið 1891 þegar Bismarck var þar kanslari. Þá var meðalaldurinn 47 ár. Árið 1971 var hann á Íslandi 74,5 ár og á þessu ári er hann 82,3 ár, hefur hækkað um átta ár frá 1971, og mun hækka um önnur fjögur ár til ársins 2065 ef spár ná fram að ganga.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að minnka þá aldursmismunun sem er til staðar í íslensku samfélagi og mun flytja sérstakt þingmál um að við munum fella úr gildi þær reglur í lögum sem banna fólki 70 ára og eldra að vinna hjá hinu opinbera. Ég tel það hvorki réttlátt né skynsamlegt. Það er augljóst að frá því að þau lög voru sett, 1954 ef ég man rétt, hefur mikið breyst. Þetta er jákvæð breyting. Við eigum að fagna henni, en við þurfum hins vegar að búa okkur undir hana. Einn þátturinn sem snýr að þeim undirbúningi er að gefa fólki aukinn sveigjanleika og það eigum við að gera.

Ef við tölum um tengsl samgönguáætlunar og langtímaáætlunar í ríkisfjármálum þarf að samræma þau betur. Ýmislegt annað er í þessu nefndaráliti sem er um 18 síður, ef ég man rétt, og ég næ ekki að fara yfir þær síður í smáatriðum en hef tiplað á ýmsu og kannski því stærsta.

Ég vil að lokum segja það sem ég sagði í upphafi: Hér er um að ræða tímamótavinnu. Ég vil óska öllum sem að henni hafa komið til hamingju, ekki síst hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra. Það er ánægjulegt að þessi lög eru komin í gegn og við farin að vinna eftir þeim. Þetta eru fyrstu skrefin og ég er alveg sannfærður um að þetta eru mikil heillaskref fyrir íslenska þjóð.



[16:22]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kom víða við og sannarlega væri hægt að spyrja um marga hluti. Fjármálastefnan og fjármálaáætlunin er hvort tveggja mjög merkilegt plagg og náttúrlega hápólitískt þannig að þar er ríkisstjórnin að segja hvernig hún mundi forgangsraða næstu fimm árin fengi hún að ráða.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að með þeirri áætlun sem birtist fyrir heilbrigðisþjónustuna til næstu fimm ára sé verið að svara því kalli sem 86 þús. manns kröfðust með undirskrift sinni, þ.e. að forgangsraða ætti fjármunum til heilbrigðismála fyrst og fremst. Telur hv. þingmaður að þessi áætlun sé að svara því kalli? Ég vil draga það í efa. Við getum bara horft á tölurnar fyrir spítalaframkvæmdir eða spítalaþjónustuna þar sem gert er ráð fyrir að frá árinu 2007 sé aukningin 2,3 milljarðar, það er þá bæði fyrir Landspítalann og fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri, þegar Landspítalinn hefur sagt að bara vegna mannfjöldaþróunar og hækkandi meðalaldurs þyrfti hann að fá rúma 2 milljarða. Svo er aukin viðhaldsþörf upp á aðra rúma 2 milljarða. Tækjakaupin þyrftu að fara í tæpan hálfan milljarð, þannig að við erum strax farin að sjá það, að ég tel, að á fyrsta árinu og næstu árum á eftir muni spítalaþjónusta í landinu lenda í vanda og í raun þurfi að draga úr þjónustu frekar en að auka í hana eins og þjóðin hefur kallað eftir.



[16:25]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Enginn vafi er á að þessi langtímaáætlun forgangsraðar í þágu heilbrigðisþjónustunnar eins og ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur gert allt kjörtímabilið. Það er alveg sama hvaða tölur við nefnum eða skoðum í því, þetta snýst ekki bara um hvað menn ætla að gera, heldur geta menn bara skoðað tölurnar eins og þær liggja fyrir, að það hefur verið gert. Í fyrsta skipti er komin langtímaáætlun, fjármögnunaráætlun um Landspítalann og þar er gert ráð fyrir fjármunum upp á þrjú hjúkrunarheimili. Við leggjum hins vegar áherslu á — þetta eru ekki fjárlög heldur langtímaáætlun — eins og kom fram í máli mínu að við teljum að forgangsraða eigi enn frekar til þess málaflokks og tölum t.d. um það að í stað þess að fara í stjórnarráðsbyggingarnar strax ættum við frekar að fara í hjúkrunarheimili, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta eru ekki fjárlög, þetta er langtímaáætlun, en við vekjum athygli á því að við þurfum líka að fara aðrar leiðir og þá eigum við að læra af þeim þjóðum sem gengur betur. Þá erum við að tala um að framkvæma sjúkratryggingalögin, að við kostnaðargreinum þjónustuna og semjum við þá aðila sem veita þjónustuna, þar með talið Landspítalann. Landspítalinn hefur kallað eftir þessu alla vega í áratug, jafnvel lengur, af því að hann vill vera með sambærilega fjármögnun eins og þeir spítalar sem Landspítalinn ber sig saman við á Norðurlöndum. Þetta er leið sem við viljum þróa okkur í vegna þess að það er besta leiðin til að ná þeim markmiðum sem við viljum ná, því að markmiðin eru auðvitað að veita bestu þjónustuna, vera með flestar aðgerðir, taka niður biðlistana og ekki hafa komið fram, mér vitanlega, neinar aðrar betri aðferðir en þessar. Þessi langtímaáætlun ber fyrst og fremst öll einkenni þess, og svo sannarlega líka nefndarálit meiri hlutans, að verið er að forgangsraða í heilbrigðismálum eins og hefur verið gert allt þetta kjörtímabil. Það er fagnaðarefni.



[16:27]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. En hann fyrirgefur mér væntanlega þó að ég geti ekki lesið það út úr tölunum sem birtar eru í áætluninni að verið sé að svara því kalli að raða heilbrigðismálunum fremst.

En hv. þingmaður talaði um að dreifa þyrfti áhættunni af uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji það ekki vera áhættu ef ríkisvaldið eða ríkissjóður á ekki en rekur svo innviði á stærsta flugvelli landsins og gáttinni út í önnur lönd, hvort það varði hreinlega ekki þjóðaröryggi að ríkið haldi utan um og byggi upp innviðina á Keflavíkurflugvelli?



[16:28]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af heilbrigðismálunum. Hér eru áætlanir um uppbyggingu Landspítalans og uppbyggingu hjúkrunarheimila. Menn geta skoðað það hvernig var sparað á síðasta kjörtímabili, bæði hlutfallslega og í tölum, og séð síðan samanburðinn varðandi það sem er gert núna. Menn geta ekki, þegar menn skoða þetta, komist að neinni annarri niðurstöðu en þeirri að forgangsraðað hefur verið til heilbrigðismála. Það verður hins vegar aldrei nóg. Það vita allir þeir sem að málaflokknum hafa komið, það er eðli málaflokksins. En bæði í ríkisfjármálaáætluninni og í fjárlögum undanfarinna ára í tíð núverandi ríkisstjórnar, og sömuleiðis í nefndarálitinu, er alltaf verið að forgangsraða í þágu heilbrigðismálanna.

Varðandi Keflavíkurflugvöll er ekki verið að leggja til að selja Keflavíkurflugvöll, heldur er verið að tala um að setja fjármagn upp á 70–90 milljarða inn í það verkefni. Á sama tíma, við getum farið betur í það á eftir, er verið með flugvelli sem samkvæmt upphaflegum hugmyndum áttu að heyra beint undir Isavia en eru mjög illa farnir. Við erum ekki að nýta innanlandsflugið. Ef við setjum alla áhættuna á þetta varðandi aukninguna, þessa gríðarlegu fjármuni, þá erum við auðvitað að auka mjög áhættu ríkisins (Forseti hringir.) og skattgreiðenda, það segir sig sjálft. Þannig að spurningin (Forseti hringir.) á ekki alveg við, virðulegi forseti.



[16:29]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst nefndarálit meiri hlutans ágætt, ýmsir punktar í því sem ég er sammála þó svo að ég sé nú ekki alltaf sammála stefnunni.

Hér er talað um útgjaldavöxt málefnasviða á bls. 8 í nefndarálitinu. Meiri hlutinn hefur áhyggjur af því að kannski sé verið að færast of mikið í fang varðandi útgjöldin, það megi lítið út af bregða og leggur í raun til að þegar fjármálaáætlun komi til endurskoðunar verði miðað við lægri útgjaldaramma. Það er t.d. bent á að á seinni hluta tímabilsins sé gert ráð fyrir 30% aukningu framlaga til utanríkismála og svo er talað um aukin framlög til vinnumarkaðsmála. Þarna er bent á eitthvað sem meiri hlutinn vill væntanlega draga úr. Nú er þetta tvennt kannski tiltölulega lítið í stóra samhenginu, utanríkismálin t.d., þótt auðvitað sé alltaf eðlilegt að spara þar sem það er hægt, en þetta eru þannig séð ekki stóru upphæðirnar. Hvar sér hv. þingmaður fyrir sér að sé hægt að draga saman á móti? Á sama tíma erum við örugglega sammála um að við stöndum frammi fyrir áskorunum t.d. í vegamálum og uppbyggingu ýmissa innviða, jafnvel tækjakosti, tölvukosti og öðru sem hefur setið á hakanum. Hvar sér hv. þingmaður fyrir sér að sé raunverulega hægt að ná fram einhverjum sparnaði á útgjaldahliðinni?



[16:31]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð um að nefndarálitið sé ágætt. Ég held að það hljóti að hjálpa stjórnarandstöðu að fá svona plagg vegna þess að það er mjög gagnrýnið og ég tel að það hafi verið okkar hlutverk. Ég er ekki viss um að meiri hluta fjárlaganefndar geri það almennt með þeim hætti, í það minnsta hafa menn stundum verið í því að reyna að fegra hlutina. Nú er bjart fram undan, en hins vegar eiga menn alltaf að hafa varann á sér.

Við fórum mjög vel yfir þetta en eins og kom fram þá komum við hins vegar ekki með tillögur um breytingar innan ríkisfjármálaáætlunarinnar. Það mun bíða þeirra sem taka við eftir næstu kosningar. En margt smátt gerir eitt stórt og þetta eru allt saman peningar. Við erum að vísa hér í ýmislegt. Í utanríkismálunum vísum við í hagræðingaraðgerðirnar. Við vísum í stjórnsýsluna í vinnumarkaðsmálunum, það hefur vakið athygli hvernig hún hefur þróast svo einhver dæmi séu tekin. Við tölum um útboðsmálin og húsnæðismál ríkisins og breytta forgangsröðun hvað þá hluti varðar.

Svo sannarlega er rétt hjá hv. þingmanni með innviðina, við þurfum að finna leiðir til þess að fara í uppbyggingu þeirra og fjármagna þá. Þegar við skoðum þá breyttu stöðu sem við Íslendingar erum í varðandi ferðamennina, þeir nýta mikið þessa innviði, keyra á vegunum, þeir nýta því miður of lítið flugvelli, við vekjum athygli á því, þá er það nokkuð sem við þurfum að nálgast, við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að fjármagna það. Ætlum við að láta íslenska skattgreiðendur greiða allt sem snýr að uppbyggingu fyrir ferðamenn? Auðvitað eru íslenskir skattgreiðendur oft líka ferðamenn, en menn hljóta að horfa til þess sérstaklega að það er kannski ekki skynsamlegt að íslenski skattgreiðandinn greiði fyrir alla þá innviðauppbyggingu. Við vekjum athygli á þessu (Forseti hringir.) af góðri ástæðu en fórum nú ekki lengra í þessu fyrsta nefndaráliti um ríkisfjármálaáætlun.



[16:34]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður leiddi umræðuna eiginlega beint inn í næstu spurningu mína, en hún var einmitt um vegamálin, um ferðamennina. Við í 3. minna hluta, Björt framtíð, teljum að hægt sé að skattleggja ferðaþjónustuna í meira mæli en nú er gert, þá er ég að tala sérstaklega um efra þrep virðisaukaskatts í gistingu. Þar er pólitískur áherslumunur.

Í nefndarálitinu er talað um að það þurfi jafnvel að fara í vegaframkvæmdir þar sem gæti verið um að ræða einkarekstur eða slíkt. Hæstv. samgönguráðherra hefur líka talað um að hugsanlega þurfum við að fara í einhverjar vegaframkvæmdir, samgönguframkvæmdir, þar sem notendurnir eru í meira mæli að borga. Það er ýjað að þessu líka í nefndarálitinu. Gæti hv. þingmaður gæti farið aðeins nánar ofan í það hvað við sjáum fyrir okkur í þeim efnum? Við erum örugglega sammála um að við þurfum að fara (Forseti hringir.) í massífa uppbyggingu í vegamálum, en annaðhvort verðum við að skattleggja fyrir því, með sköttum, (Forseti hringir.) eða fara í einhvers konar notendagjöld á vegum úti. Hvað erum við að tala um í þeim efnum?



[16:35]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga að ferðaþjónustan er mjög ung atvinnugrein. Við virðumst sem betur fer enn þá uppfylla þær væntingar sem ferðamenn gera en það má lítið út af bregða. Maður finnur það þegar maður ferðast sjálfur um landið að það er bæði að finna ferðaþjónustu sem er að innihaldi mjög góð og líka annað þar sem menn virðast vera fyrst og fremst að hugsa um stundargróða en ekki langtímahagsmuni. Auðvitað þurfum við að taka mið af því að við erum að bera saman ferðaþjónustuna við atvinnugreinar sem hafa verið til í áratugi og fengu jafnvel stuðning þegar þær voru að byrja. Við höfum nú ekki stutt ferðaþjónustuna með beinum styrkjum, ég vona að við séum ekki að fara þangað, en við skulum hafa það í huga að þegar við skattleggjum þá hefur það áhrif.

Hins vegar er það mín upplifun sem ferðamaður út um allan heim, kannski ekki allan heim en mjög víða, að þar borgar maður fyrir þá þjónustu sem maður fær. Þegar maður keyrir vegi t.d. í Evrópu þá borgar maður fyrir það. Ef maður notar salernisaðstöðu á þeim stöðum sem maður kemur á finnst manni alveg sjálfsagt að greiða fyrir það því allt kostar þetta peninga. Spurningin er þá hver borgar. Ég verð að viðurkenna (Forseti hringir.) það, virðulegi forseti, að mér finnst eðlilegt að þeir ferðamenn sem hingað koma og nota þjónustuna borgi fyrir hana.



[16:36]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé enginn ágreiningur í þessum sal um mikilvægi aðferðafræðinnar sem hér er undir, þ.e. að skipulega og agað sé unnið að ríkisfjármálum og það séu gerðar áætlanir a.m.k. til meðallangs tíma. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að undirbyggja grunn fyrir gerð þjóðhagsáætlunar til langs tíma þar sem ekki er horft bara einhver ár heldur jafnvel áratugi inn í framtíðina og Alþingi vel að merkja samþykkti slíkt í vor, þannig að undirbúningur á að vera hafinn undir það í stjórnkerfinu, þingsályktunartillögu sem ræðumaður lagði fram.

Þegar sagt er að hér sé verið að vinna með áætlun af þessu tagi í fyrsta sinn er rétt að hafa það innan gæsalappa því að sjálfsögðu hefur verið stuðst við svona áætlanagerð allmörg undanfarin ár. Þannig kom fram ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma strax vorið 2009 þar sem lagðar voru línur um það hvernig við kæmum ríkisfjármálunum aftur í sjálfbært horf og kæmumst út úr hremmingunum. Sú áætlun var síðan uppfærð og dreift sem þingskjali og gefin út sem sérstakt rit, bæði 2011 og 2012. Það er því rétt að hafa þann fyrirvara á því tali um að verið sé að vinna með áætlanagerð af þessu tagi í fyrsta sinn. En í skilningi um opinber fjármál erum við vissulega komin á nýjan stað, það er rétt.

Það sem ég tel vera aðalveikleika þessarar áætlunar er að það er í anda hægri stefnunnar keyrt á mjög lágu hlutfalli frumgjalda ríkisins af vergri framleiðslu. Þessi áætlun er örlítið skárri en það sem hæstv. fjármálaráðherra sýndi í fyrra og hittiðfyrra þar sem gert var ráð fyrir að þessi frumgjöld færu beinlínis lækkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Nú eiga þau að standa í stað. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að fjárfestingarstig ríkisins verður næstu árin allt of lágt, algerlega ósjálfbært, eða 1,3–1,5% af vergri landsframleiðslu. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hver eru rök meiri hlutans fyrir því að það gangi upp, t.d. miðað við þær upplýsingar sem hellast yfir okkur úr öllum áttum um ástand vegakerfisins sem er gjörsamlega að brotna niður í höndunum á okkur og þolir ekki þessa auknu umferð o.s.frv.? (Forseti hringir.) Hvernig réttlæta fulltrúar meiri hlutans það að keyra áfram næstu árin á óbreyttu og svona allt of lágu fjárfestingarstigi ríkisins?



[16:39]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Án þess að vilja karpa svona um verklagið leikur enginn vafi á því að lögin um opinber fjármál eru tímamót hvað þetta varðar. Núna er það þannig að við munum ræða langtímaáætlun í ríkisfjármálum á vormánuðum, sem aldrei hefur verið gert áður og það er uppleggið fyrir viðkomandi ríkisstjórnir í framtíðinni. Það er gott að um það sé samstaða. Þetta eru auðvitað gríðarlega stórar breytingar, eðli málsins samkvæmt, en menn hafa ekki bara sett puttann út í loftið á undanförnum áratugum heldur hafa með ýmsum hætti horft til lengri tíma. En þetta verklag er nýtt. Ég held við ættum að fagna því.

Virðulegi forseti. Eitt af því sem þetta snýst um þegar við hugsum til lengri tíma er sveiflujöfnunin. Við leggjum áherslu á það í nefndarálitinu og ég vek aftur athygli á því að við komum ekki með breytingartillögur út af þeim ástæðum sem ég nefndi áður heldur vekjum athygli á því sem okkur finnst þurfa að skoða sérstaklega. Það er alveg rétt með innviðauppbygginguna og það hefur ekki verið viðhald á vegum t.d. eða nýframkvæmdir, það hefur verið mjög lítið um það á undanförnum árum. Menn geta deilt um það hvort menn hafi forgangsraðað rétt í kjölfar fjármálahrunsins. En það sem við þurfum alltaf að taka mið af eru stóru hagsmunirnir í þessu. Það er ekki bara litið til langs tíma til þess að líta til langs tíma, menn hugsa þetta sem sveiflujöfnun líka. Vandi okkar núna t.d. þegar við erum að fara í Landspítalann, sem er mjög mikilvægt og löngu komin þörf á, er það hvaða áhrif það hefur á aðrar framkvæmdir. Það er alveg gríðarlega eftirspurn núna. Það eru byggingarkranar úti um allt. Við erum aftur að flytja inn erlent vinnuafl. Við viljum auðvitað ekki ganga þannig fram, og það er verkefni þeirra sem vinna úr þessu í framhaldinu, að við setjum verðbólguna af stað og ógnum þeim stöðugleika sem hefur sem betur fer verið hér. Hins vegar get ég verið sammála hv. þingmanni, og það er tekið fram hvað eftir annað í áætluninni, (Forseti hringir.) að æskilegt væri að forgangsraða enn frekar til þess að fara í innviðauppbyggingu.



[16:41]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel reyndar að núverandi ríkisstjórn hafi gert mikil mistök með því að halda ekki þeim takti sem var settur af stað í tíð fyrri ríkisstjórnar þegar aukið var við fjárfestingar í innviðum með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar á árunum 2012/2013, heldur að slá það allt saman af og halda síðan bara óbreyttu hlutfalli sem er ekki sjálfbært. Sagan kennir okkur að fjárfestingar ríkisins þurfa að vera að lágmarki 2–2,5% af vergri landsframleiðslu bara til þess að halda í horfinu. Þar til viðbótar þyrftu sveitarfélögin að fjárfesta fyrir svona 1,5%, en hvorugur aðilinn gerir það. Fjárfestingarstig hins opinbera er háskalega lágt.

Já, það þarf auðvitað að gæta að hagstjórnaráhrifum slíkra hluta. Það má m.a. mæta því með því að slíkar fjárfestingar séu fullfjármagnaðar, að sjálfsögðu, það væri ekki gáfulegt að fara að auka framkvæmdir fyrir lánsfé við núverandi aðstæður í hagkerfinu. Séu þær fullfjármagnaðar og þeim dreift skynsamlega, t.d. viðhalds- og nýbyggingaframkvæmdir í vegamálum þannig að þær dreifst jafnt út um landið, þenslan er ekkert að drepa menn á mörgum öðrum svæðum á landinu, þá er margt hægt að gera í þeim efnum.

Hv. þingmaður talar gjarnan um skuldina (Forseti hringir.) sem liggur í framtíðarlífeyrisskuldbindingum ríkisins. Það er gott, við þurfum að fara að huga að því að borga inn á þær. (Forseti hringir.) En við erum að búa til alveg sams konar skuld með því að ganga á innviði samfélagsins.



[16:43]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður fagnar því að við viljum greiða inn á lífeyrisskuldbindingarnar. Fyrrverandi hæstv. fjármála- og forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sem beitti sér mest fyrir því, fékk engin fagnaðaróp þegar hann stóð fyrir því á sínum tíma. Það er vonandi að menn séu að öðlast betri skilning á því. Það hefur verið lagt mikið upp úr viðhaldi á vegum í tíð þessarar ríkisstjórnar en auðvitað má gera betur. En ef við tölum um mistök þá hefði verið betra að mínu áliti, við erum að tala um fortíðarmistök, að menn hefðu farið eftir því sem Göran Persson lagði til þegar hann kom í heimsókn eftir fjármálahrunið og lagði á það áherslu að menn færu strax í skipulagsbreytingar hjá hinu opinbera en færu ekki í flatan niðurskurð og sömuleiðis að menn mundu reyna að halda uppi framkvæmdastiginu eins mikið og mögulegt væri. En það er eitthvað sem er búið. Við breytum því ekki. Á þeim tíma flúðu iðnaðarmenn landið og það hefði verið hægt að fá verkin mun ódýrara en núna. Við erum í þeim vanda, alveg eins og hv. þingmaður nefndi, (Forseti hringir.) að það þarf að raða þessu án þess að koma með þenslu. Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna. En við erum sammála um að það þarf að fara í innviðauppbyggingu.



[16:44]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar telur nauðsynlegt að gerðar séu langtímaáætlanir í opinberum fjármálum sem þessar, þó að ljóst sé að spár um efnahagsumsvif svo langt fram í tímann séu háðar ákveðinni óvissu. Í því ljósi er mikilvægt að stjórnvöld séu meðvituð um að reynist hagvöxtur ekki jafn mikill og áætlað hefur verið næstu fimm árin getur það haft áhrif á tekjur hins opinbera og áætlaður hagnaður hæglega snúist í halla.

Fyrsti minni hluti vill jafnframt benda á að hagvöxtur segir ekki til um hagsæld meðal íbúa landsins og er langt því frá að vera mælikvarði á hag og hamingju landsmanna. Þar skiptir mestu forgangsröðun fjármuna til velferðarmála og réttlát skipting þjóðarkökunnar. Með lögum um opinber fjármál sem samþykkt voru á síðasta þingi var stigið stórt umbótaskref í undirbúningi fyrir fjárlagagerð og betri yfirsýn fengin yfir opinber fjármál og áhrif þeirra á hagkerfið. Lögin voru unnin að mestu á síðasta kjörtímabili, m.a. með þátttöku Samfylkingarinnar.

Þá grein sem kom ný inn í lög um opinber fjármál með nýrri ríkisstjórn og fjallar um fjármálareglu gat Samfylkingin hins vegar ekki sætt sig við vegna þess hversu takmarkandi hún er fyrir sveiflujöfnun í hagkerfinu. Samfylkingin vill fella lagagreinar um fjármálareglu úr gildi en gera þess í stað þá kröfu að ný ríkisstjórn setji sér sveiflujafnandi fjármálareglu fyrir kjörtímabil miðað við aðstæður hverju sinni.

Fyrir stöðugleika skiptir öllu máli að ríkisfjármálastefna stjórnvalda og peningamálastefna Seðlabanka Íslands vinni saman að því að draga úr hagsveiflum og tryggja efnahagslegan stöðugleika. Ef ríkissjóður fer í miklar fjárfestingar og lækkar samtímis skatta í uppsveiflu er voðinn vís og aukast líkur á að neikvæður spírall myndist sem við Íslendingar þekkjum allt of vel. Seðlabankinn bendir á í umsögn sinni um fjármálastefnuna að ef ekki sé talið álitlegt að draga úr fjárfestingum opinberra aðila á tímabilinu þurfi að draga úr öðrum útgjöldum eða afla hinu opinbera aukinna tekna, t.d. með hærri sköttum.

Ljóst er að veikleikar fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar eru á tekjuhliðinni og eru tilkomnir vegna þess að sitjandi ríkisstjórn hefur afsalað sér tekjum á kjörtímabilinu. Ríkisstjórnin hefur lækkað veiðigjöld umtalsvert, afnumið auðlegðarskatt og orkuskatt, dregið úr jöfnunarhlutverki tekjuskattskerfisins og gefið ferðamönnum afslátt af virðisaukaskatti. Þá var sérstakur bankaskattur innheimtur sem gekk þó beint til lánastofnana til að niðurgreiða verðtryggð húsnæðislán sumra heimila, mest þó hjá efnamestu skuldurunum. Samanlagt hafa tekjur ríkissjóðs lækkað um tugi milljarða á kjörtímabilinu. Á sama tíma er fjárfestingarþörf mikil í samgöngukerfinu og bót á velferðarþjónustu og almannatryggingum afar aðkallandi.

Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar gagnrýnir harðlega þessa forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Samfylkingin leggur áherslu á að breytingar verði gerðar á sköttum og gjöldum þannig að svigrúm myndist fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins og betri skóla, fyrir samgöngukerfið og löggæslu og einnig til að bæta kjör almennings á öllum stigum lífsins.

Fyrsti minni hluti tekur undir gagnrýni Alþýðusambands Íslands á þá forgangsröðun í ríkisfjármálum sem fram kemur í fjármálaáætluninni til næstu fimm ára og skorti á að félagsleg velferð sé undirbyggð og unnið sé að auknum jöfnuði í samfélaginu. Nái áætlunin fram að ganga mun misskipting aukast og innviðir velferðarsamfélagsins veikjast. Um þetta eru skýr merki víða í áætluninni.

Frú forseti. Í fjármálaáætluninni eru boðaðar breytingar á barnabótum. Barnabætur hér á landi eru nú þegar nánast eins og styrkur til fátækra og mjög ólíkar barnabótum annars staðar á Norðurlöndunum. Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar, samkvæmt nýrri fjármálaáætlun, er að barnabætur verði eingöngu stuðningur við tekjulægstu fjölskyldurnar og er þar farið að tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um endurskoðun barnabótakerfisins. Sjóðurinn ráðlagði ríkisstjórninni að einfalda kerfið og beina greiðslum til lágtekjuheimila með hærra skerðingarhlutfalli miðað við laun. Einnig lagði sjóðurinn til að einstæðir foreldrar fengju ekki hærri greiðslur en sambýlisfólk. Þannig verði einungis greidd ein föst fjárhæð fyrir börn undir 18 ára aldri og aldrei með fleiri börnum en þremur. Slíkt fyrirkomulag þekkist hvergi annars staðar á Norðurlöndunum.

Það vekur furðu 1. minni hluta að ríkisstjórnin leiti í hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um útfærslu barnabóta þegar beinast liggur við að líta til annarra norrænna ríkja. Þar eru bætur almennt ekki tekjutengdar og markmið þeirra er að jafna stöðu barnafólks við þá sem ekki eru með börn á framfæri. Ótekjutengdar barnabætur draga jafnframt síður úr sjálfstæði og atvinnuþátttöku kvenna en tekjutengdar bætur. Ungar fjölskyldur á Norðurlöndunum munar um stuðninginn sem barnabætur veita og jöfnunarhlutverk þeirra er mikilvægt fyrir samfélagið allt. Jafnaðarmenn tækju ekki einu sinni til athugunar tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um barnabætur í líki fátækrastyrks. Barnabótakerfi norrænu ríkjanna er fyrirmynd Samfylkingarinnar enda góð reynsla af þeim fyrir börn og foreldra þeirra. Verði jafnaðarmenn í næstu ríkisstjórn munu þeir standa við bakið á barnafjölskyldum og hækka barnabætur þannig að fleiri njóti þeirra.

Þá bendir 1. minni hluti á það sérstaklega að í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi verði 500 þús. kr. á mánuði en ekki 600 þús. kr. líkt og boðað hefur verið. Jafnframt er lenging fæðingarorlofsins í 12 mánuði ekki fjármögnuð sérstaklega samkvæmt áætluninni heldur bent á að breyting á fæðingarorlofi verði að rúmast innan tryggingagjaldsins. Ef sú leið er farin eingöngu er líklegt að hækka þurfi tryggingagjaldið til að lengja fæðingarorlofið. 1. minni hluti vill að annarra leiða verði leitað til að brúa bilið sem kann að myndast með breytingunni á milli framlags með tryggingagjaldi í Fæðingarorlofssjóð og kostnaðar við lengra fæðingarorlof.

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur hins vegar kynnt áform um bæði lenginguna og hækkun hámarksgreiðslunnar. Verði frumvarp hæstv. ráðherra að lögum þarf því að breyta áætluninni og gera ráð fyrir töluvert meira fjármagni til fæðingarorlofsins.

Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að útgjöld vegna vaxtabóta fari smám saman lækkandi á komandi árum eftir því sem tekjur heimila hækki og skuldastaða batni. Í áætluninni er samt sem áður gengið út frá þeirri forsendu að fjárhæðir og frítekjumörk í kerfinu verði hækkaðar árlega þannig að heildarframlög til kerfisins haldist óbreytt að raunvirði. Hins vegar er tekið fram að til skoðunar séu áform um aukinn stuðning við þá sem kaupa sína fyrstu fasteign og gæti það eftir atvikum falið í sér að framlög til vaxtabóta yrðu látin fjara út smám saman yfir tíma, samhliða því sem stuðningur við fyrstu kaup yrði aukinn í annarri mynd.

Nú voru slíkar hugmyndir kynntar á blaðamannafundi í Hörpu 15. ágúst sl. Því má gera ráð fyrir að vaxtabætur falli niður eins og fjármálaáætlunin boðar. Í því ljósi verður að meta nýjar hugmyndir ríkisstjórnarinnar um stuðning við fyrstu íbúðarkaup. Meta þarf í fyrsta lagi hvort skattalækkunin af séreignarsparnaðinum sé hærri en vaxtabæturnar og í öðru lagi hvort staða ungs fólks verði í raun betri við boðaðar breytingar.

Samhliða skuldaleiðréttingunni svokölluðu fyrr á kjörtímabilinu lækkuðu stjórnvöld vaxtabætur, létu barnabætur tapa verðgildi sínu og gerðu tekjuskerðingar bótanna þar að auki grimmari. Það eru því aðeins hinir tekjuhærri og þeir sem skulda mest sem standa betur eftir hina svokölluðu skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar.

Það fólk sem hafði áður fallið innan skilgreininga vaxtabóta sjá afborganir sínar lækka lítillega en vaxtabæturnar lækka miklu meira. Mörg heimili sitja því eftir með mun minna ráðstöfunarfé en áður. Hinir efnaminni borga því sjálfir fyrir leiðréttinguna svokölluðu en ekki kröfuhafar föllnu bankanna eins og lofað var.

Þeir sem koma best út úr fyrri kerfisbreytingu ríkisstjórnarinnar, þ.e. lækkun vaxtabóta á móti sérstakri skuldaniðurfærslu, eru þau heimili sem áttu áður ekki rétt á vaxtabótum vegna mikilla eigna og hárra tekna. Ríkisstjórnin lagði því allt kapp á að nýta almannafé til að lækka skuldir auðugasta fólksins í landinu. Hinir tekjulægri og eignalitlu sitja hins vegar margir hverjir eftir í verri stöðu. Fyrir það fólk hefði verið miklu betra ef ríkisstjórnin hefði ekki reynt að standa við neitt af því sem Framsóknarflokkurinn lofaði fyrir síðustu kosningar.

Ekki er hægt að lesa út úr fjármálaáætluninni hvort húsnæðisstuðningur við leigjendur sé að fullu fjármagnaður. Á Íslandi er tæplega þriðjungur heimila í leiguhúsnæði. Það er algjörlega óásættanlegt ef enn einu sinni á að skilja þann hóp eftir án húsnæðisstuðnings sem sambærilegur er við þann sem þeir fá sem kaupa sér íbúð. Auk þess bendir 1. minni hluti á að uppbygging almennra leiguíbúða er án fullnægjandi fjármögnunar og fjölga þarf íbúðum á næstu árum í samræmi við þörf.

Frú forseti. Í fjármálaáætluninni er minnst á að verið sé að vinna að breytingum á almannatryggingakerfinu til einföldunar og hagsbóta fyrir aldraða. Nú hefur félags- og húsnæðismálaráðherra sett frumvarp þess efnis á vef ráðuneytisins til umsagnar. Breytingarnar eru sagðar kosta rúma 5 milljarða kr. árið 2017 og alls 33 milljarða kr. á næstu tíu árum. Fjárhagsáætlunin gerir ekki ráð fyrir þessum kostnaði.

Í texta með fjármálaáætluninni segir að markmið stjórnvalda sé að stuðningur við aldraða, sem eru með mjög lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga, verði aukinn. Hvergi virðist hins vegar gert ráð fyrir fjármunum til að ná því markmiði.

Í umræðum um fjáraukalagafrumvarp 2015 og um fjárlagafrumvarp 2016 lagði 1. minni hluti ríka áherslu á að bætur almannatrygginga hækkuðu á sama tíma og almennar launahækkanir urðu í landinu, og með sama hætti og lægstu laun að 300 þús. kr. mánaðargreiðslum. Þessu hafnaði ríkisstjórnin og hv. stjórnarþingmenn. Í því ljósi verður afar ótrúverðugt ófjármagnað markmið fjármálaáætlunarinnar um kjarabætur fyrir þá sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar.

Hefðu greiðslur almannatrygginga hækkað 1. maí, í sama hlutfalli og lægstu laun, hefði sú breyting kostað ríkissjóð rúma 5 milljarða á árinu 2016 eða um það bil það sama og það kostaði ríkissjóð að taka fyrra skref ríkisstjórnarinnar við fækkun skattþrepa í tekjuskattskerfinu. Ríkisstjórnin ákvað að forgangsraða með þeim hætti að rétta þeim sem eru með 700 þús. kr. á mánuði 6 þús. kr. á mánuði, öðrum minna og þeim með lægstu launin ekkert og neita um leið öldruðum og öryrkjum um kjarabót í samræmi við hækkanir lægstu launa.

Samfylkingin hefur á sinni stefnuskrá að bæta kjör aldraðra og öryrkja og tryggja að þeim hópum sé ekki haldið fátækustum á Íslandi eins og gert er nú og áætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára gerir ekki ráð fyrir að bæta úr því.

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt um uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar undanfarin ár. Ákall um 86 þús. Íslendinga um að heilbrigðiskerfið verði endurreist og að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðiskerfisins er einstakt. Stjórnmálamenn verða að svara því hvernig skuli ná því markmiði og beina fjármunum í þau verkefni. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára mætir á engan hátt þessum kröfum og gerir ekki ráð fyrir fjármunum sem munu breyta heilbrigðisþjónustunni til hins betra.

Slæm staða Landspítalans er með þeim hætti að ástæða er til að hafa áhyggjur af öryggi sjúklinga ef ekki verður bætt hratt úr á næstu árum. Ef krafa fólks gengi eftir um að 11% af vergri landsframleiðslu færi til heilbrigðismála fengi Landspítalinn um 18 milljarða kr. aukningu. Það er gott langtímamarkmið og ekki raunhæft að gera ráð fyrir slíkri hækkun í einu skrefi en þangað ætti Ísland að stefna.

Til að halda í horfinu með sömu þjónustu og viðhaldi húsnæðis og nú er þyrfti Landspítalinn 5,3 milljarða kr. til viðbótar á næsta ári. Fjölgun sjúklinga á spítalanum er nú um 1,7% á ári. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að aukning til sjúkrahúsþjónustu sem bæði tekur til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri verði 2,3 milljarðar kr. Ef þessi áætlun ríkisstjórnarinnar verður að veruleika er ljóst að þjónusta Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri mun dragast saman á næstu árum. Við það verður ekki unað og mótmælir 1. minni hluti þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar harðlega. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum til næstu fimm ára er í hróplegri mótsögn við ákall almennings.

Sjúklingum hefur fjölgað vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar en uppbygging sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva hefur ekki fylgt þeirri þróun undanfarna áratugi. Aftur á móti hefur hlutur sjúklinga í rekstri kerfisins vaxið jafnt og þétt. En sjúklingar eiga ekki að þurfa að taka upp veskið þegar þeir þurfa á læknishjálp að halda, og Íslendingar munu seint sætta sig við lakari og dýrari þjónustu en þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar.

Við í Samfylkingunni viljum bæta heilbrigðisþjónustuna og það er hægt ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Skýr forgangsröðun, samtakamáttur og skipulag mun skila okkur betri stöðu á fáum árum. Fyrst og síðast þurfa stjórnvöld að afla tekna til að setja í heilbrigðisþjónustuna. 1. minni hluti leggur til og finnst það liggja beinast við að fullt verð fáist fyrir afnot af auðlindunum, svo sem veiðiheimildum og að það renni til heilbrigðismála.

Mikið hefur verið rætt um stöðu lækna á Íslandi, enda áhyggjuefni að ungir læknar snúi ekki aftur heim að loknu námi. Vandi Landspítalans er m.a. sá að þar er þörf fyrir mun fleiri lækna en þar starfa. Staða hjúkrunarfræðinga er ekki síður áhyggjuefni. Á næstu þremur árum komast um það bil 700–900 hjúkrunarfræðingar á eftirlaunaaldur. Í staðinn útskrifast aðeins um 450 hjúkrunarfræðingar úr námi og margir þeirra munu velja sér önnur störf. Fækkun hjúkrunarfræðinga hefði víðtækari áhrif á næstu árum en fækkun lækna og það verður að finna leiðir til að fjölga í stéttinni. Fleiri stéttir, sem konur fylla að mestu, þurfa jafnframt athygli stjórnvalda svo sem geislafræðingar, sjúkraþjálfarar og líftæknifræðingar. Það þarf að grípa til aðgerða nú þegar og efla háskólana á þessum sviðum og gera ráð fyrir kostnaði sem þessu fylgir í fjármálaáætlun stjórnvalda.

Ásamt því að rétta við stöðu sjúkrahúsanna verður að auka fjárveitingu á næstu fimm árum til þess að efla heilsugæsluna um allt land, byggja við Sjúkrahúsið á Akureyri, eyða löngum biðlistum eftir nauðsynlegum aðgerðum hratt og örugglega, hefja uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða og langveika þar sem búið er vel að fólki með persónulegri þjónustu, bæta aðgengi að geð- og sálfræðiþjónustu með áherslu á börn og ungt fólk og lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð. Þá er mikilvægt að staðið verði við áætlanir um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut.

Halda mætti að almenn sátt ríkti um þessi markmið en svo virðist ekki vera. Í ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára er ekki að finna þá aukningu á fjárframlögum sem nauðsynleg er til að viðhalda núverandi ástandi, hvað þá til að bæta þjónustuna. Ef við ætlum að fá betri heilbrigðisþjónustu á næstu árum verður ný ríkisstjórn, sem skilur að heilbrigði er undirstaða velmegunar og hamingju, að gera nýja fjármálaáætlun.

Staða framhaldsskólanna hefur verið erfið undanfarin ár. Mikil hagræðing átti sér stað á öllu framhaldsskólastiginu árin fyrir hrun. Þegar krafa var gerð um aðhald eftir hrun var því sáralitla fitu að skera.

Nú eykst kostnaður skólanna enn tímabundið umfram fjárveitingar vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs. Í sumum skólum verður nánast rekið tvöfalt bóknámskerfi næstu þrjú árin og það verkefni verður að fjármagna með því að auka við fjárveitingu til framhaldsskólanna á næstu þremur árum umfram það sem fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir. Síðustu tvö ár fjármálaáætlunarinnar eru skaplegri fyrir rekstur framhaldsskólanna. 1. minni hluti leggur á það ríka áherslu að skólarnir fái að lokum að njóta hagræðingarinnar sem til verður vegna styttra stúdentsprófs þegar breytingin hefur gengið yfir og þeim verði gert mögulegt að bjóða upp á fjölbreyttara námsframboð og auka þjónustu við nemendur. Þá kallar 1. minni hluti eftir því að engum verði meinaður aðgangur að bóknámi í opinbera framhaldsskólakerfinu vegna aldurs.

Staða háskólanna lítur aftur á móti illa út ef fyrirliggjandi áætlun kemst til framkvæmda. Hún lítur illa út allt áætlunartímabilið. Ef ekki verða gerðar breytingar munu háskólarnir verða að fækka námsbrautum og/eða fækka nemendum. Viðvarandi fjárskortur mun hafa verulega neikvæð áhrif á vísindastarf, framþróun í atvinnusköpun og að lokum á samkeppnisstöðu Íslands.

Fyrsti minni hluti telur nauðsyn á því að sett sé metnaðarfull menntastefna sem tekur tillit til þess að í nútíma samfélagi eru háskólarnir mikilvægur drifkraftur. Í samræmi við menntastefnuna yrði síðan gerð fjármálaáætlun sem gerði mögulegt að uppfylla stefnuna.

Ferðaþjónustan er á örstuttum tíma orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar en enginn heldur almennilega um stjórnartaumana.

Núverandi stjórnvöld virðast ófær um að sinna því mikilvæga hlutverki að setja fram stefnu um hvernig sé hagkvæmast og best að ferðaþjónustan þróist til framtíðar, meta kostnað við ágang ferðamanna og hvað teljast megi æskilegt rekstrarumhverfi atvinnugreinar í miklum vexti. Í fjármálaáætluninni er ekki að sjá að gert sé ráð fyrir fjármögnun á innviðauppbyggingu sem nauðsynleg er. Ef ekkert verður að gert er líklegt að orðspor Íslands sem ferðamannastaðar skaðist, ferðamönnum fækki og fjárfestingar í greininni beri sig ekki og það allt með slæmum fjárhagslegum afleiðingum.

Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að gripið sé til aðgerða áður en illa fer og minnir á áherslur Samfylkingarinnar í þeim efnum sem eru að heilbrigðisþjónusta og sjúkraflutningar verði styrkt um allt land, lögreglunni verði gert kleift að sinna íbúum jafnt sem ferðamönnum, viðhald vega verði aukið umtalsvert og öryggismál ferðamanna verði bætt með markvissari hætti.

Á sama tíma og ferðamönnum fjölgar stórkostlega lækka skatttekjur af hverjum og einum þeirra. Greininni er leyft að vaxa með byltingarkenndum hætti og ferðamenn greiða á sama tíma virðisaukaskatt af gistingu og afþreyingu í lægra þrepi. Ef horfið væri frá þeirri undanþágu fengjust um 10 milljarðar kr. í ríkissjóð, hið minnsta.

Fyrsti minni hluti telur nauðsynlegt að stýra þróuninni og skapa ferðaþjónustunni almenn rekstrarskilyrði sem gefa tekjur til að byggja upp innviði. Þannig greiði ferðamenn virðisaukaskatt í almennu þrepi fyrir gistiþjónustu og afþreyingu. Það skapar tekjur í ríkissjóð sem rynnu til uppbyggingar sem nýtist greininni og um leið íbúum um allt land.

Ásamt því að verulega verði bætt í þá fjármuni sem ætlaðir eru í viðhald vegakerfisins er nauðsynlegt að samgönguáætlun og fjármálaáætlun verði samhljóma en svo verður ekki nema að gerð sé breyting á fjármálaáætluninni og áætluð fjárframlög til samgöngumála verði hækkuð.

Frú forseti. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára teiknast upp framtíðarsýn sem ekki samræmist væntingum landsmanna til þess velferðarsamfélags sem við viljum byggja á Íslandi. Komist hún til framkvæmda afsalar ríkissjóður sér tugum milljarða króna árlega í tekjur sem nýta mætti til að bæta lífskjör almennings. Þær skattalækkanir sem ráðist hefur verið í á kjörtímabilinu hafa fyrst og síðast miðast að þeim sem mest eiga og fátt verið aðhafst sem gagnast má fólki með lágar og millitekjur.

Af áætlun ríkisstjórnarinnar að dæma er jafnframt ljóst að innviðir samfélagsins verða ekki byggðir upp á næstu árum og opinber þjónusta verður áfram holuð að innan. Svar ríkisstjórnarinnar við þeirri þróun er aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni, í skólum og samgöngum. Svarið er einkarekstur en ekki uppbygging á opinberri þjónustu. Það er ekki framtíðarsýn sem hugnast 1. minni hluta eða Samfylkingunni sem leggur áherslu á jöfn tækifæri landsmanna til að njóta góðrar heilbrigðisþjónustu, menntunar og öryggis í daglegu lífi.



[17:09]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún vekur upp margar spurningar. Nú geta menn haft allar skoðanir á uppbyggingu á barnabótakerfinu en ég verð að viðurkenna að ég get ekki skilið hvernig það getur aukið á misskiptingu ef barnabótakerfið er þannig byggt upp að það snúi fyrst og fremst að þeim sem minnst hafa. Menn geta haft þá skoðun að það sé ekki rétt eða eigi að gera það öðruvísi en tekjutengdar barnabætur hljóta frekar að minnka muninn á milli tekjuhópa, ekki auka misskiptinguna eins og kom fram hjá hv. þingmanni.

Það sem vakti athygli mína var að í nefndaráliti 1. minni hluta er mjög mikið um útgjöld og mjög stórar upphæðir. Ég er að reyna að átta mig á því hvernig eigi að fjármagna þessa hluti. Það kemur þó skýrt fram að það eigi að hækka skatta á ferðaþjónustu um 10 milljarða. Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann sem talar um gjald fyrir auðlindir í nefndarálitinu og í ræðu sinni: Hvaða gjald er um að ræða? Síðan vil ég líka spyrja hv. þingmann um veiðiheimildir en hún talaði um fullt verð fyrir veiðiheimildir: Hvernig er það dregið fram? Sömuleiðis er talað um aðra fjármögnun fyrir hækkun á útgjöldum fæðingarorlofs, ekki hækkun tryggingagjalds. Það væri ágætt að fá sömuleiðis svar við því. Einnig hvort það sé rétt skilið að hugsunin sé sú, ef Samfylkingin hefur eitthvað um það að segja, að koma aftur á þessum eignarskatti, sem lenti nú fyrst og fremst á eldri borgurum, sem kallaður var auðlegðarskattur. Það má skilja það þegar maður les nefndarálitið að það sé vilji Samfylkingarinnar.



[17:12]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. En fyrst um barnabæturnar. Barnabætur ættu að leggjast með hverju barni og jafna stöðu barnafólks við stöðu annarra. Við í Samfylkingunni viljum að tekjuskatturinn sé þrepaskiptur og þar komi tekjutengingin inn en að stefnt skuli að því að barnabætur verði ótekjutengdar nema hugsanlega á ofurlaun, það mætti skoða það. Ég vil líta til norrænu ríkjanna eftir fyrirmynd fyrir breytingum á skattkerfinu. Norrænu ríkin eru talin bestu velferðarríki heimsins og þar hafa jafnaðarmenn verið oftast við í meiri hluta ríkisstjórnar og ráðið því hvernig samfélögin hafa verið byggð upp. Pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar hefur þar verið áhrifaríkastur og almannahagur varinn. Auðvitað eigum við langt í land með okkar skattkerfi að ná því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum en þangað eigum við að stefna.

Hv. þingmaður talaði um veiðigjöld. Ég vil að við förum leið Færeyinga og bjóðum út aflaheimildirnar. Núverandi ríkisstjórn hefur lækkað veiðigjöldin um 9 milljarða. Við getum a.m.k. fengið það til baka með því að bjóða út aflaheimildirnar og enn meira ef boðið verður í með svipuðum hætti og nú gerist í Færeyjum.

Aðeins sú einföldun sem hæstv. ríkisstjórn fór í í tekjuskattskerfinu með því að taka út milliþrepið kostaði okkur 11 milljarða. (Forseti hringir.) Orkuskatturinn kostaði okkur 2 milljarða og auðlegðarskatturinn rúma 10. Ég skal ræða betur um auðlegðarskattinn í seinna andsvari mínu.



[17:14]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta prinsipp varðandi barnabæturnar er nákvæmlega það sama og hv. þingmaður gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir, að leiðréttingin væri í raun ekki tekjutengd, hún kom að vísu fyrst og fremst millistéttinni til góða. Það er nákvæmlega sama prinsipp með barnabæturnar af því að ég er að tala um ótekjutengdar barnabætur þannig að það er alla vega ekki hægt að tala um það í því samhengi að það sé eitthvert sérstakt jöfnunartæki.

Hv. þingmaður, ef ég skil hana rétt, telur að það eigi að setja aftur á eða hækka orkuskattinn og tekjuskatt einstaklinga en það kemur ekki fram með beinum hætti í álitinu. Ég spurði hv. þingmann um gjaldið fyrir auðlindirnar af því að í álitinu er bara vísað í því samhengi til veiðiheimildanna og ef ég skil hv. þingmann rétt þá vill hún bjóða út veiðiheimildir. Færeyingar buðu að vísu út bara mjög lítinn hluta, en það væri gott að fá að vita hvernig hv. þingmaður sér það fyrir sér, hvort hér eigi bara að bjóða út lítinn hluta eða hversu stóran og á hvaða forsendum. En ég skil hv. þingmann þannig, hún leiðréttir mig ef ég hef rangt fyrir mér, að hún vilji endurvekja svokallaðan auðlegðarskatt. Þá væri ágætt ef hv. þingmaður mundi skýra betur þessa aðra fjármögnun fæðingarorlofs, hvort sú fjármögnun eigi að tengjast eitthvað útgjöldunum eins og gert hefur verið með tryggingagjaldinu, eða hvaða skattahækkanir um er að ræða.

Ég skal nú viðurkenna að þetta er orðið svolítið mikið, við erum komin með orkuskattinn, hækkun á tekjuskatti einstaklinga, 10 milljarða skattahækkun á ferðaþjónustuna. En það er óljóst hvaða auðlindir er um að ræða sem á að taka gjald fyrir og þá hvernig. Sömuleiðis varðandi útboðsleiðina og veiðiheimildir. Hvað er hv. þingmaður nákvæmlega að tala um þar? Er hann að tala um allar veiðiheimildir?



[17:17]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Spurningar hv. þingmanns eru margar og efni í langar umræður en ég þarf að finna leið til að svara þeim á tveimur mínútum.

Í fyrsta lagi varðandi stuðning við barnafjölskyldur. Það er augljóst mál að við þurfum að styðja betur við bakið á barnafjölskyldum, hvort sem það er í gegnum barnabótakerfi sem við þurfum að bæta og á ekki bara að vera fyrir fátækasta fólkið heldur líka leggjast með barnafjölskyldum með millitekjur að minnsta kosti. Við þurfum að lengja fæðingarorlofið og hækka viðmiðunargreiðslurnar þar. Það að fæðingum skuli fækka hér á landi er ekki bara fréttir heldur er það stórt efnahagsmál. Það er mjög mikilvægt að við gerum ungu fólki kleift að eignast börn. Það er mikilvægt fyrir framtíð landsins og efnahaginn. Þess vegna finnst mér, þó að það standi styr um það, að líklegt sé að það þurfi að hækka tryggingagjaldið ef það á að standa undir kostnaði við Fæðingarorlofssjóð, til að ná fram kostnaði við bæði hækkun á viðmiðunargreiðslum og lengingu fæðingarorlofsins. Mér finnst það óásættanlegt. Ég vil ekki hækka tryggingagjaldið vegna þess að það lendir harkalegast á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þess vegna segi ég: Þá borgum við úr ríkissjóði mismuninn, við finnum leiðir til þess að standa með barnafjölskyldum svo að þær hafi bókstaflega efni á því að eignast börn vegna þess að það skiptir mjög miklu máli fyrir efnahag okkar til framtíðar.

Varðandi auðlegðarskattinn þá er það eignarskattur og á honum voru gallar sem við hv. þingmaður þekkjum bæði. En það er hins vegar hægt að sníða þessa galla af og taka skatta af stóreignarmönnum og setja í ríkissjóð til þess að bæta velferðarkerfið.



[17:19]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að fara svolítið vel yfir nefndarálit 2. minni hluta Vinstri grænna sem fjallar um þingsályktunartillögur um fjármálaáætlun og fjármálastefnu sem byggja á lögum um opinber fjármál sem eiga að koma í staðinn fyrir lög nr. 88/1997. Þau lög mynda grundvöll og ramma utan um opinber fjármál með tilliti til stefnumörkunar, áætlanagerðar og framsetningar fjárlaga. Fyrirliggjandi þingsályktunartillögur fela hins vegar í sér útlistanir á stefnumiðum og áherslum stjórnvalda í fjármálum hins opinbera hverju sinni, auk markmiðasetningar og spár um þróun opinberra fjármála á gildistímanum. Þingsályktunartillögurnar eru þannig stefnumótandi, ekki síður en lögin, og bera merki ríkjandi afla hverju sinni.

Ráðstafanir til að færa meðferð opinberra fjármála í betra horf voru vissulega tímabærar og verða vonandi til góðs fyrir íslenskt samfélag. Í því ljósi er fyrirliggjandi þingsályktunartillaga fagnaðarefni en hið sama verður ekki sagt um ýmsar ráðagerðir og stefnumál sem þar eru kynnt og sumar forsendna tillögunnar virðast hæpnar, ekki síst þær sem snúa að verðmati á þeim eignum sem féllu í hlut ríkisins vegna svonefnds stöðugleikaframlags.

Samkvæmt lögum um opinber fjármál ber að leggja fram ár hvert þingsályktunartillögu um þessar stefnur, þ.e. aðra um stefnuna og hina um áætlunina. Milli þessara þingsályktunartillagna þarf að vera röklegt samhengi eigi þær að koma að tilætluðum notum. Fjármálastefnunni er að því leyti áfátt að þar er hvorki að finna greinargerð um hvernig fylgt verði grunngildum sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. laga um opinber fjármál né umfjöllun um skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlunar samkvæmt 7. gr. laganna. Þar sem svo er ekki myndar fjármálastefnan ekki þann grundvöll undir fjármálaáætlunina sem henni er ætlað. Þá er auðvitað athugavert að tillögunum var útbýtt sama dag á Alþingi og þær teknar til fyrri umr. á sama þingfundinum en vitaskuld ætti þingið að taka stefnuna til meðferðar áður en áætlunin kemur til umfjöllunar þannig að stefnan hafi verið vegin og metin áður en að áætluninni kemur. Ég vona svo sannarlega að þetta verði ekki viðhaft framvegis því að það kemur niður á þeirri gagnsemi sem þeim aðferðum sem hér er um að ræða er ætlað að ná og voru innleiddar með lögum um opinber fjármál.

Sá ljóður er líka á framkvæmd laga um opinber fjármál að fjármálaráðið hefur ekki fjallað um tillögurnar eins og vera ber samkvæmt 13. gr. Mat ráðsins á því hvort fylgt sé grunngildum fjármálastefnunnar og farið að skilyrðum um hana liggur því ekki fyrir eins og skylt er.

Við hittum fjármálaráð í morgun í fjárlaganefnd. Það er að marka sér stefnu, starfsaðferðir og annað slíkt. Vonandi verður það til góða. Vissulega er þetta núna gert í fyrsta sinn.

Sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi eru grunngildin sem stefnan og áætlunin byggjast á og í 7. gr. laganna er mælt fyrir um að þessar áætlanir skuli uppfylla þau skilyrði að heildarjöfnuður á fimm ára tímabili verði ávallt jákvæður, að árlegur halli fari aldrei yfir 2,5% af vergri landsframleiðslu og enn fremur verði heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, lægri en 30% af vergri landsframleiðslu. Fyrrgreind skilyrði sættu allmikilli gagnrýni úr ýmsum áttum, þar á meðal af hálfu þingmanna Vinstri grænna. Við lögðumst gegn þessum ákvæðum þegar frumvarpið var til umfjöllunar á þingi. Bent var á að hin þröngu skilyrði laganna gætu orðið til þess að takmarka möguleika hins opinbera til að bregðast við efnahagsörðugleikum með örvunaraðgerðum og minnt á að strangar og íþyngjandi reglur gætu reynst svo hamlandi og andstæðar settum markmiðum að þær stæðu í vegi fyrir efnahagslegri uppbyggingu. Getur þá farið svo að reglurnar verði sniðgengnar eða brögðum beitt til að komast fram hjá þeim eins og við þekkjum svo sem í núverandi fjárlögum. Gagnrýnin á viðmiðin sem sett voru fram í aðdraganda setningar laga um opinber fjármál er því enn í góðu gildi. Meginmarkmið laga um opinber fjármál, samanber 1. mgr. 1. gr. laganna, er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Þetta á einnig við um þingsályktunartillögurnar sem hér eru til umfjöllunar og gerðar eru á grundvelli laganna og tekur nefndarálitið því mið af þessum forsendum.

Samkvæmt þeim áformum sem birtast í þingsályktunartillögunni verður hlutfall tekjuskatts af vergri landsframleiðslu óbreytt á gildistíma hennar, 18,1–18,2%. Þá er gert ráð fyrir að hlutfall skatta af vöru og þjónustu af vergri landsframleiðslu hækki úr 11,5% í 11,9% á næsta ári og verði nálægt því til loka áætlunartímabilsins.

Sem kunnugt er hefur verið dregið úr hlut tekjuskatts í fjáröflun ríkisins á starfstíma núverandi ríkisstjórnar og enn fremur horfið frá beitingu tekjuskattsálagningar í tekjujöfnunarskyni sem innleidd var á starfstíma vinstri stjórnarinnar á síðasta kjörtímabili með þriggja þrepa skattkerfi þar sem álagningarprósenta réðst af fjárhæð tekna og álagningu auðlegðarskatts. Núverandi ríkisstjórn lét það verða meðal sinna fyrstu verka að falla frá frekari álagningu auðlegðarskatts, álagningarprósenta tekjuskatts á einstaklinga hefur verið lækkuð og milliþrep skattstigans verður afnumið um næstu áramót. Eins og gefur að skilja koma þessar ráðstafanir ekki öðrum skattgreiðendum að gagni en þeim sem eru vel haldnir með tekjur og dregið var úr tekjujöfnunaráhrifum tekjuskattsálagningarinnar með framangreindum skattbreytingum.

Stjórnvöld hafa einnig fellt niður almenn vörugjöld, og tollar á annan varning en matvæli hafa verið felldir niður eða niðurfelling þeirra boðuð. Þá var gerð veigamikil breyting á virðisaukaskattskerfinu er lægra þrep þess var hækkað úr 7% í 11%, eins og við munum, en almenna þrepið lækkað úr 25,5% í 24%. Þessar breytingar tóku gildi 1. janúar 2015 og var markmið þeirra til lengri tíma að auka tekjur ríkisins af virðisaukaskatti. Breytingar síðustu ár á álagningu óbeinna skatta hafa hins vegar orðið til þess að hlutdeild þeirra í skatttekjum ríkisins hefur lækkað nokkuð en ætlunin er að aukin hlutdeild virðisaukaskatts verði til þess að hækka hlutfall óbeinna skatta á áætlunartímabilinu. Er gert ráð fyrir því að beinir skattar nemi um 43% skatttekna A-hluta ríkissjóðs á árunum 2017–2021 en skattar á vöru og þjónustu verði um 51% skatttekna á sama tímabili.

Rétt er að halda því til haga að úr röðum framsóknarmanna á Alþingi heyrðust andmæli gegn fyrrnefndum virðisaukaskattsbreytingum sem fólu það í sér að skattlagning á matvæli jókst. Þau sem mölduðu í móinn gáfust þó upp á andstöðu sinni gegn fyrirheitum um tilteknar skattkerfisbreytingar til mótvægis. Var þar um að ræða hækkun á barnabótum og vaxtabótum sem var, þegar til kom, að mestu tekin til baka með tilfærslu á skerðingarmörkum en almenningur sat uppi með hærri matarreikning og lægri ráðstöfunartekjur.

Hið háa hlutfall skatta á vöru og þjónustu, þar sem hlutdeild virðisaukaskatts er yfirgnæfandi, ber vott um að við mótun skattstefnunnar hefur verið litið fram hjá hlutverki skattkerfisins við kjarajöfnun. Neytendur vöru og þjónustu greiða allir sama virðisaukaskattshlutfallið án tillits til tekna eða efnahags og þar sem virðisaukaskattur leggst á ýmsar nauðsynjar sem almenningur þarfnast er augljóst að hlutfallsleg skattbyrði þeirra sem hafa úr það litlu að spila að tekjur þeirra renna að mestu til framfærslu verður snöggtum meiri en hinna tekjuhærri sem geta lagt hluta tekna sinna til hliðar. Er þetta að sjálfsögðu gagnrýnivert enda merki þess að ríkisstjórnin hirði lítt um að beita skattkerfinu til kjarajöfnunar. Skattstefnan sem birtist í fjármálaáætluninni mun verða til þess að auka bilið milli ríkra og fátækra og hafnar 2. minni hluti henni því eindregið.

Ríkisskuldir og stefna stjórnvalda í þeim efnum skipa veigamikinn sess í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlunina. Er það að vonum þar sem skuldastaða ríkisins er ávallt mikilvægur þáttur ríkisfjármála. Við fjármálahrunið haustið 2008 lentu miklar skuldir á ríkissjóði sem enn gætir í verulegum mæli og er því þessi þáttur ríkisfjármálanna fyrirferðarmeiri en ella væri og stefnumörkun í skuldamálum ríkisins mikilvæg að sama skapi.

Í árslok 2012 jafngiltu skuldir ríkissjóðs um 87% af vergri landsframleiðslu og var það fyrsta árið eftir fjármálahrunið sem heildarskuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkuðu. Var það meðal vísbendinga um að vinstri stjórnin hefði náð tökum á ríkisfjármálunum og lagt þann grunn sem þau hafa síðan staðið á. Þetta hlutfall var um 67% í árslok 2015 og samkvæmt tillögunni sem við fjöllum hér um er stefnt að því að þegar í lok ársins 2017 verði það um 30% eins og gert er ráð fyrir í fjármálareglu um skuldaviðmið fyrir ríkissjóð. Þess ber að geta að fyrri ríkisstjórn gerði áætlanir um jöfnuð í ríkisfjármálum tvisvar á starfstíma sínum. Þáverandi fjármálaráðherra lagði skýrslu um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 fyrir Alþingi í júní 2009 og haustið 2011 kom ritið Ríkisbúskapurinn 2012–2015. Skýrsla um áætlun í ríkisfjármálum frá fjármálaráðuneytinu. Í fyrrgreindum ritum er lýst markmiðum um lækkun ríkisskulda miðað við stöðu efnahagsmála og horfur á ritunartíma þeirra og mörkuð sú meginstefna sem í sjálfu sér er enn fylgt.

Lækkun ríkisskulda niður fyrir hið lögbundna hámarkshlutfall og efnahagslegur stöðugleiki eru kynnt sem leiðarhnoða stjórnvalda. Í samræmi við þetta áforma stjórnvöld að nýta svokölluð stöðugleikaframlög sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja greiddu í tengslum við uppgjör þeirra og fyrirheit um afléttingu gjaldeyrishafta.

Skuldareglan í lögum um opinber fjármál er vissulega krefjandi og knýr stjórnvöld til þess að lækka opinberar skuldir verulega. Ekkert er við það að athuga að stefnt verði að lækkun ríkisskulda hér eftir sem hingað til, enda eru miklar skuldir íþyngjandi, en vakin skal athygli á því að áform um aðgerðir í þessa veru byggjast á frekar veikum forsendum og virðast á stundum ganga gegn settum markmiðum. Víða í hinum vestræna heimi eru hagfræðingar og stjórnmálamenn að hverfa frá slíkum viðmiðum og jafnframt hefur komið fram gagnrýni á þá niðurskurðarstefnu sem einkennt hefur ráðstafanir í opinberum fjármálum á Vesturlöndum og talin er geta dýpkað og lengt kreppur með þeim afleiðingum að ójöfnuður aukist og velferðarkerfið veikist.

Samkvæmt áætlunum stjórnvalda um lækkun brúttóskulda ríkisins er gert ráð fyrir því að vaxtagreiðslur ríkisins verði um 20 milljörðum kr. lægri við lok áætlunartímabilsins en þær voru vorið 2015. Á það fé sem þannig verður handbært að ganga til uppbyggingar á innviðum samfélagsins, til að lækka skatta og til að treysta grunnþjónustu ríkisins.

Með tilliti til þess að talin er hætta á að eftirspurnarþensla verði til þess að hrinda af stað verðbólgu og skapa viðskiptahalla við útlönd vekja fyrirheit um lækkun skatta og annarra opinberra gjalda athygli og undrun enda eru slíkar ráðstafanir síst til þess fallnar að draga úr eftirspurnarþenslu. En þótt áætlun stjórnvalda virðist helst til laus í reipunum hvað þetta snertir, og andstæð þeim sjónarmiðum sem hafa ítrekað birst í skýrslum peningastefnunefndar þar sem varað er við skattalækkunum og þær taldar stríða gegn markmiðum um að lækka stýrivexti, ber þó enn meira á ágöllum hennar þegar litið er til hinna svonefndu stöðugleikaframlaga og ætlaðs þáttar þeirra í lækkun ríkisskulda.

Ekki verður hjá því komist að rifja upp í þessari umfjöllun að þegar áætlanir stjórnvalda um uppgjör slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og afléttingu fjármagnshafta voru kynntar í júní 2015 var gert ráð fyrir 39% stöðugleikaskatti á heildareignir slitabúa fjármálafyrirtækjanna sem féllu haustið 2008 og gerðu áætlanir stjórnvalda ráð fyrir því að slíkur skattur gæti skilað allt að 850 milljörðum í ríkissjóð. Voru í tengslum við þetta sett lög um stöðugleikaskatt. Lyktir mála urðu hins vegar þær að gengið var til nauðasamninga um uppgjör slitabúanna. Það leiddi til þess að í stað skattsins greiddu slitabúin ríkissjóði stöðugleikaframlög og var heildarupphæð þeirra metin í kringum 379 milljarða við gerð nauðasamninganna. Eftir þessa gerninga á ríkissjóður allt hlutafé í Íslandsbanka, 98,2% í Landsbankanum og 13% í Arion banka. Stærsti einstaki hluti stöðugleikaframlaganna fólst í hlutafé í Íslandsbanka sem verðmetið var upp á tæplega 185 milljarða við uppgjörið. Mat á verðmæti hlutafjár í bönkunum sem gekk upp í greiðslu stöðugleikaframlags byggðist á bókfærðu virði eigin fjár þeirra árið 2015.

Hvorki hefur verið gert verðmat á eign ríkisins í hlutafé í bönkunum né teknar ákvarðanir um sölu hlutafjár utan að samkvæmt fjárlögum núverandi árs er gert ráð fyrir að selja 30% eignarhlut í Landsbankanum og nota söluandvirðið til að greiða niður skuldabréfaflokkinn RIKH 18. Engu að síður hvíla áform um lækkun ríkisskulda mjög á sölu hlutafjár ríkisins í viðskiptabönkunum og verður að segjast að þar ríkir mikil óvissa um útkomuna. Verðmæti hlutafjár í evrópskum bönkum hefur farið lækkandi á þessu ári og þótt það gefi ekki endilega fyrirheit um sambærilega þróun hér á landi blasir við að verðmat á þeim eignum ríkisins sem bundnar eru í hlutafé í viðskiptabönkunum er háð mikilli óvissu og getur af þeim sökum ekki orðið grundvöllur trúverðugrar áætlunar um lækkun ríkisskulda.

Það er einnig gagnrýnivert að ekkert plan B er í áætlunum stjórnvalda. Það er ekki brugðist við því hversu veikburða áform þeirra eru um lækkun ríkisskulda. Engin önnur leið er kynnt en sala hlutafjár í viðskiptabönkunum og öðrum stöðugleikafyrirtækjum sem tekin voru upp í þessum nauðasamningum né lögð fram áætlun um viðbrögð við því ef áform ganga ekki eftir en á því eru einmitt allverulegar líkur og er raunar komið fram að ekki á að selja hlut ríkisins í Landsbankanum á þessu ári.

Hið almenna velferðarkerfi felur það í sér að hið opinbera tekur ábyrgð á framkvæmd tiltekinna grunnþátta varðandi velferð og öryggi allra einstaklinga í tilteknu samfélagi og aflar til þess fjár með skattheimtu. Almenna velferðarkerfið grundvallast á samtryggingu þannig að fjármunir færast milli tekjuhópa og viðfangsefna með það að markmiði að unnt verði að tryggja öllum heilbrigðisþjónustu, framfærslu, menntun, húsnæði og viðhlítandi löggæslu svo nefndir séu nokkrir þættir hins almenna velferðarkerfis sem hefur í senn að viðfangsefni að tryggja velferð í samtímanum og byggja hana upp til framtíðar.

Þess er ítrekað getið í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlunina að áætlanir ríkisstjórnarinnar um þróun opinberra fjármála séu til þess fallnar að styrkja velferðarkerfið og bæta þjónustuna við landsmenn. Þessar fullyrðingar eiga sér hins vegar enga stoð í þeim áformum sem hér er lýst.

Því er haldið fram að unnt sé að gera hvort tveggja í senn, bæta velferðarkerfið og lækka skatta. Þessar ráðagerðir grundvallast á því að verulegur árangur náist við lækkun ríkisskulda en eins og þegar hefur verið bent á eru áform um það lítt útfærð.

Heilbrigðismál eru meðal stærstu og mikilvægustu þátta velferðarkerfisins og útgjöld til þeirra mikilvæg að sama skapi. Í áætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að á árabilinu 2017–2021 aukist framlög ríkisins til heilbrigðismála um 30 milljarða umfram launa- og verðlagsbreytingar. Í þeirri upphæð munu vera 45% þess útgjaldasvigrúms sem á að myndast í tengslum við afkomumarkmið þau sem sett eru í áætluninni og áformað er að leyfi útgjöld upp á í kringum 42 milljarða. Gangi þessar áætlanir eftir er reiknað með að heildarútgjöld til heilbrigðismála aukist um 18% að raunvirði á tímabilinu.

Það skal ekki gert lítið úr þeim útgjaldaauka sem ætlaður er til heilbrigðismála á tímabilinu en þar sem áformin um hin auknu útgjöld eru mjög tengd afkomumarkmiðum sem byggjast á ströngu aðhaldi í fjárfestingum ríkisins og útgjöldum verður að teljast líklegt að áætlanirnar séu hreint ekki til þess fallnar að styrkja velferðarkerfið í heild sinni. Þess er líka vert að geta að greint er frá því í áætluninni að nákvæm útfærsla á því hvernig áætluðu útgjaldasvigrúmi skuli varið til einstakra málaflokka liggur ekki fyrir en boðað er að áform um það verði að finna í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 sem þó er búið að segja að þessi ríkisstjórn muni ekki leggja fram. Því verður mat á fyrirætlunum ríkisstjórnar í þessum efnum að bíða þar til þær skýrast eitthvað.

Þótt fjármálaáætlunin sé laus í reipunum og upplýsingagildi hennar rýrt hvað heilbrigðismálin varðar kemur þó fram að áformað er að reisa þrjú ný hjúkrunarheimili á áætlunartímabilinu og er kostnaðarhlutdeild ríkisins metin á 4,7 milljarða. Þessi áform eru ekki útskýrð á neinn hátt utan að hjúkrunarheimilin þrjú muni verða á höfuðborgarsvæðinu. Spurningar hljóta að vakna um það á hvaða forsendum þessar áætlanir byggjast og enn fremur hlýtur að verða að svara því hvort þessi byggingaráform séu nægjanleg miðað við hækkandi hlutfall aldraðra af heildarfólksfjölda og þá miklu þörf sem þegar hefur skapast fyrir hjúkrunarrými fyrir aldraða og sýnt er að verði á komandi árum. Ekki er ljóst af áætlunum stjórnvalda hvort eða að hve miklu leyti uppbygging hjúkrunarrýma fyrir aldraða muni mæta þörfinni fyrir slíka þjónustu né hvernig ætlunin er að sinna þessum málaflokki fyrir landið í heild.

Mennta- og menningarmál eru veigamikill þáttur velferðarkerfisins enda sá hluti þess sem byggir einstaklingana upp til framtíðar og stuðlar að félagslegum hreyfanleika. Í fjármálaáætlun þessara ára, 2017–2021, er þess getið að helstu markmið stjórnvalda í menntamálum séu að styðja við gæðaþróun í háskóla- og rannsóknastarfsemi og stuðla að bættri námsframvindu nemenda. Í því skyni hefur m.a. verið lagt fram frumvarp til laga um námslán og námsstyrki, þ.e. LÍN, sem við fjölluðum um hér í gær, en hvorki kemur fram hvernig sú breyting á fyrirkomulagi námslána á að verða til þess að bæta námsframvindu né eru færð rök fyrir því að skortur á námsframvindu sé vandamál í skólakerfinu, og tengsl þessa við gæðaþróun í háskóla- og rannsóknastarfi eru með öllu óljós. Loks er ljóst að með boðuðum breytingum samkvæmt frumvarpinu er alvarlega vegið að jafnrétti til náms og félagslegir þættir fyrir borð bornir í mjög mörgum efnum.

Fleiri kyndugar yfirlýsingar um aðgerðir eða áform í menntamálum og ætluð áhrif þeirra er að finna í fjármálaáætluninni. Því er t.d. haldið fram að stytting námstíma framhaldsskólastigsins úr fjórum vetrum í þrjá muni draga úr brottfalli nemenda á því skólastigi. Engin haldbær rök eða rannsóknir benda til þess að svo verði. Raunar benda fyrirliggjandi rannsóknir til þess að félagslegar aðstæður ráði meiru um lengd námstíma og ætti því að beita kröftunum í að styrkja stoðþjónustu innan skólanna.

Fjárhagsleg áform varðandi framhaldsskólastigið ganga út á að framlög til þess vaxi um nálægt 3,2 milljarða sem nemur um 12% að raungildi á þessu árabili og að auki falli til umtalsverður rekstrarsparnaður sökum styttingar á námstíma. Gangi þessi áform eftir ætti fjárhagur framhaldsskólanna að vænkast verulega og er það vel enda hefur fjárhagsstaða þeirra verið bágborin undanfarin ár. Þar sem von er á verulegum umskiptum hvað þetta snertir, ef ríkisstjórnaráformin og áform menntamálaráðherra ganga eftir, hefði þurft að leggja fram þótt ekki væri nema grófa áætlun um árlega þróun breytinga á fjárhag framhaldsskólanna og notkun þeirra fjármuna sem ætlað er að bætist við rekstrarfé þeirra til að áformin virðist trúverðug. Því miður hefur það ekki reynst þannig. Þar sem það var ekki gert blasir við að ríkisstjórnin telur sig geta stundað tilraunastarfsemi með rekstur framhaldsskólanna, bæði hvað snertir starfsemi þeirra og fjárhag, og gert á þeim grundvallarbreytingar án þess að markmið með breytingunum eða leiðir til að ná þeim hafi verið skilgreind á viðhlítandi hátt. Stytting námstíma virðist því fyrst og fremst þjóna sparnaðartilgangi í áætlunum stjórnvalda með því að nemendum og kennurum fækkar og því er full ástæða til að óttast um gæði skólastarfs í framhaldsskólunum. Þess ber líka að geta að enn hefur ekki náðst samkomulag um að greiða að fullu launabætur. Það er því óbeinn niðurskurður til framhaldsskólanna og margra annarra opinberra stofnana.

Vakin er athygli á því í þingsályktunartillögunni að gæðum kennslu á háskólastigi muni hafa hrakað nokkuð á undanförnum árum þar sem fjárveitingar til háskólanna hafa ekki fylgt fjölgun nema. Útgjaldaauki til mennta- og menningarmála beinist nær allur að byggingu Húss íslenskra fræða sem ætlunin er að rísi á áætlunartímabilinu. Boðað er að lögð verði áhersla á að hækka fjárframlög á hvern nemanda í háskólum en nemendum verður ekki fjölgað. Það hlýtur að teljast ansi ódýr leið til að fylgja eftir stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs um að fjárframlög á hvern nemanda nái meðaltali OECD-landanna árið 2016 og Norðurlandanna árið 2020. Aðfarirnar benda til þess að ríkisstjórnin líti svo á að hámarksfjölda háskólanema hafi verið náð og að hlutfall þeirra af heildarfjölda í hverjum árgangi muni fara lækkandi í framtíðinni. Rektor Háskóla Íslands hefur m.a. lýst undrun sinni á þessari tilhögun og bent á að hún geti leitt til þess að nemum fækki í þúsundatali. Sætir það í sjálfu sér allmiklum tíðindum og hefði mátt fylgja þessari stefnumörkun eftir með greinargerð um þýðingu hennar fyrir möguleika fólks til að afla sér framhaldsmenntunar á komandi tímum, auk einhvers konar stefnumörkunar að því er varðar menntunarstig þjóðarinnar í heild sem er full ástæða til að hafa áhyggjur af í höndum núverandi stjórnvalda. Slíkum áhyggjum er einmitt lýst í sameiginlegri yfirlýsingu rektora allra háskóla landsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Rektorar allra háskóla á Íslandi lýsa miklum vonbrigðum með að háskólar verði skildir eftir í þeirri sókn í íslensku samfélagi sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017–2021 gerir ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir verulegri heildarútgjaldaaukningu sem endurspeglast ekki í fjárveitingum til háskóla- og rannsóknastarfs.“

Áhyggjur rektoranna eru afar skiljanlegar í ljósi þess að samkvæmt opinberri stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs ætti að auka framlög til háskóla- og vísindastarfsemi.

Einnig er vikið að því í tillögunni að óbeinn stuðningur ríkisins við námsmenn í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna hafi aukist og verið um 47% af útlánum sjóðsins árið 2014. Tafla yfir heildarútgjöld til háskólastarfsemi og stuðning við námsmenn sýnir á hinn bóginn að gert er ráð fyrir nokkru lægri útgjöldum vegna stuðnings við námsmenn í ár en næstu tvö ár á undan. Kemur það ekki heim og saman við fullyrðingar um síaukinn fjárstuðning. Stjórnvöld áforma breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og er auðsætt að vel þarf að gæta þess að það meginmarkmið sjóðsins að gefa Íslendingum fjárhagslegt færi á framhaldsnámi verði ekki fyrir borð borið. Frumvarpið um LÍN sem við ræddum hér í gær, eins og ég sagði áðan, gefur því miður ekki tilefni til bjartsýni um framtíðarhlutverk sjóðsins í höndum núverandi ríkisstjórnarflokka.

Húsnæðismál eru meðal mikilvægustu þátta velferðar enda þurfa allir þak yfir höfuðið. Útgjöld vegna húsnæðis, hvort sem er vegna kaupa eða leigu, eru jafnan meðal þeirra stærstu sem einstaklingar og fjölskyldur takast á við og svigrúm til útgjaldalækkunar eða hagræðingar getur reynst takmarkað. Þverpólitísk vinna á vettvangi Alþingis vorið 2016 skilaði umtalsverðum breytingum og úrbótum á frumvörpum húsnæðismálaráðherra sem urðu að lögum í júní sl. Enda þótt það húsnæðiskerfi sem lögð voru drög að vorið 2016 reynist eins vel og björtustu vonir standa til er ljóst að þess er nokkuð að bíða að áhrifa þess taki að gæta að marki og því fyrirsjáanlegt að þúsundir einstaklinga muni búa við húsnæðisvanda á næstu árum.

Sem kunnugt er hefur húsnæðisstefna ríkisstjórnarflokkanna einkum miðað að því undanfarna áratugi að styðja við séreignarstefnu sem felst í eignarhaldi íbúa á því íbúðarhúsnæði sem þeir búa í. Boðað er að þeirri stefnu verði fylgt framvegis. Eins og fram kemur í fjármálaáætluninni felst meginstuðningur ríkisins við íbúðareigendur í vaxtabótum sem fela í sér að byrðar lánagreiðenda vegna fjármagnskostnaðar eru lækkaðar með opinberri niðurgreiðslu á vöxtum. Vaxtabætur eru bæði tekju- og eignatengdar og ráðast af hjúskaparstöðu. Tekju- og eignatenging hefur orðið til þess að heildarupphæð vaxtabóta lækkaði verulega á milli álagningar opinberra gjalda fyrir árin 2014 og 2015, um 25,7%, og fjölskyldum sem njóta vaxtabóta fækkaði um 21,3% á sama tíma. Er því ljóst að meginstuðningur ríkisins við íbúðareigendur er mun minni að vöxtum nú og fellur færri í skaut en á fyrri árum.

Einnig kemur fram í fjármálaáætluninni að ætlunin sé að endurskoða vaxtabótakerfið með það að markmiði að beina virkni þess í ríkari mæli að lágtekjufólki og er svo að skilja að þar verði fylgt ráðum sem gefin eru í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Optimal Reform and Distributional Analysis of the Personal Income Tax, sem kom út í október árið 2015. Ætla má að umtalsverðar breytingar á meginstuðningi ríkisins við íbúðareigendur séu fram undan en þar sem ekkert hefur enn komið fram um áform stjórnvalda sem skýrir eðli þeirra eða umfang eru engin tök á að fjalla um þau hér og nú.

Lögin sem samþykkt voru í vor um almennar íbúðir fela í sér nýskipan félagslegs íbúðakerfis, heimila stofnun og starfsemi almennra íbúðafélaga sem starfrækt verða sem sjálfseignarstofnanir með það að markmiði að kaupa og reka íbúðarhúsnæði. Munu félögin njóta stofnframlags ríkis og sveitarfélaga og verða þau ekki starfrækt í hagnaðarskyni. Óskandi er að þessi tilhögun verði að þeim notum sem ætlað er en um það verður ekki dæmt þar sem engin reynsla er komin á starfsemi almennu íbúðafélaganna.

Eins og kunnugt er hefur ríkið starfrækt Íbúðalánasjóð til að annast lánveitingar vegna húsnæðiskaupa. Á síðustu árum hefur sjóðurinn ratað í vandræði og hlotið framlög úr ríkissjóði sem nema yfir 50 milljörðum samanlagt. Fram kemur í fjármálaáætluninni að rekstur sjóðsins sé ekki talinn í jafnvægi til lengri tíma litið og því álitið vænlegast að leggja starfsemina niður. Verði það ekki gert eru taldar líkur á að fjárhagstap gæti fallið á ríkissjóð en hvorki er reynt að meta hversu mikið það gæti orðið né gerð grein fyrir ráðstöfunum sem grípa þyrfti til varðandi þau verkefni sem Íbúðalánasjóður hefur sinnt, t.d. þau sem lúta að jöfnun búsetutækifæra og lánveitingum til félagslegra verkefna í húsnæðismálum.

Þau áform um útgjöld ríkisins vegna húsnæðisstuðnings sem lýst er í fjármálaáætluninni fela í sér lækkun heildargreiðslna til þessa málefnasviðs um 3,7% á milli áranna 2017 og 2021 og bera vott um þá viðleitni sem víða er að finna í tillögunni til að draga úr hlutdeild hins opinbera með það að markmiði að rýma til fyrir markaðsöflum. Þessar ráðagerðir vita sannarlega ekki á gott fyrir hina tekjulágu í samfélaginu.

Á málefnasviðinu almanna- og réttaröryggi er löggæsla og vernd borgaranna gegn ofbeldi og annarri lögleysu meðal mikilvægustu velferðarmála. Þetta á ekki síst við um almenna löggæslu. Síðustu ár hefur þróun almennrar löggæslu einkennst af samdrætti og fækkun starfandi lögreglumanna úr 712 árið 2007 í 640 árið 2015, þ.e. sem nemur um 10%. Hnignun almennu löggæslunnar er tilfinnanleg og augljós og viðbótarfjárveitingar á árunum 2014 og 2015 megnuðu aðeins að lagfæra ástandið lítillega. Nauðsynlegt er að fjölga í starfsliði almennu lögreglunnar um allt land til að öryggi almennings og lögreglumanna sjálfra verði borgið. Ekki síst þarf þar að huga að fræðslu og símenntun lögreglu, saksóknara og dómara á sviði kynbundins ofbeldis hvers konar en ábendingar hafa borist, m.a. frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, um að aukinna aðgerða sé þörf gegn kynbundnu ofbeldi og mansali.

Í fjárlögum fyrir árið 2016 eru tæplega 21.500 milljónir ætlaðar til almanna- og réttaröryggis. Þar af er áformað að verja rúmlega 12.000 milljónum, um 58%, til löggæslumála. Þetta er a.m.k. 10% of lítið. Áætlanir stjórnvalda ganga út á hækkun framlags til almanna- og réttaröryggis úr tæplega 22.000 milljónum árið 2017 í um 26.000 milljónir árið 2021. Það er u.þ.b. 19,6% hækkun og er mikilvægt að sem stærstur hluti hennar renni til almennu löggæslunnar.

Þar sem tími minn er á þrotum, virðulegi forseti, og ég á eftir að fara yfir fæðingarorlof, barnabætur, fjárfestingu, umhverfis- og loftslagsmál o.fl. ætla ég að láta staðar numið í bili og biðja um að ég verði sett aftur á mælendaskrá.



[17:49]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mér sönn ánægja að mæla fyrir áliti 3. minni hluta Bjartrar framtíðar í þessu mikilvæga máli og er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að sitja í fjárlaganefnd og vinna lög um opinber fjármál með fjárlaganefnd í góðri samvinnu og fá tækifæri til að fá fyrstu fjármálaáætlunina í hendur og vinna nefndarálit upp úr henni. Það verklag sem við erum að fara inn í og fjármálaáætlun er fyrsta skrefið og er gríðarlega mikilvægt. Ég bind vonir við að það muni auka á stöðugleika, aga og festu í ríkisfjármálunum og grundvallaratriðið er að hugsa aðeins lengra fram í tímann og vera með stefnumótun í þessum 34 málefnasviðum og svo málaflokkana undir hverju málefnasviði. Það er gríðarlega mikilvægt.

Stjórnsýslan hefur unnið gott starf. Mér finnst ástæða til að hrósa henni fyrir framlagið því að maður sér að þarna er ný hugsun í gangi. Ég vil líka taka fram að við göngum út frá því að verklagið eigi eftir að slípast og meiri samræming verði kannski milli ráðuneytanna.

Það sem ég vil gera athugasemdir við í þessari fyrstu fjármálaáætlun er að þar sem við erum bara með málefnasviðin og sjáum hvaða fjárveiting fer í ákveðið málefnasvið sjáum við ekki hvernig þeir fjármunir deilast síðan niður á málefnaflokkana, við sjáum bara heildarsummuna. Við vitum því ekki alltaf hvort í einhverjum málefnaflokkum eða málaflokkum eigi að fara í sparnað eða auka kannski í öðrum, það liggur ekki alveg fyrir. Svo finnst mér líka að markmiðin eða aðgerð og verkefni sem ráðuneytin útlista, sem er afrakstur af stefnumótunarvinnu sem hefur farið fram í ráðuneytunum, séu mjög metnaðarfull og það er gott. En mér finnst ég alveg sjá hjá flestum ráðuneytum að fjárveiting fylgir ekki þessum metnaðarfullu verkefnum. Það sem maður mundi vilja sjá í framhaldinu í fjármálaáætlun framtíðarinnar er að stefnumótunin miðist við fjárframlögin þannig að verkefnin séu skilgreind og þeim forgangsraðað síðan út frá fjárheimildum sem hverju málefnasviði er ætlað.

Ég skipti þessu niður í helstu málefnasviðin. Auðvitað hefði svona nefndarálit getað orðið miklu lengra, en einhvern tímann verður maður að hætta.

Það er fyrst háskólastigið. Það eru vonbrigði finnst mér að ekki sé gert ráð fyrir auknu fjármagni í háskólastigið á næstu fimm árum svo neinu nemur. Það virðist í rauninni vera treyst á það að nemendum fækki allverulega. Við vitum að á háskólastiginu eru framlög á hvern nemanda lægri en að meðaltali í OECD-ríkjunum og lægri en annars staðar á Norðurlöndunum. Þó er það stefna Vísinda- og tækniráðs að framlag á hvern háskólanema verði sambærilegt við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum árið 2020. Við erum ekki að ná því markmiði miðað við þessa áætlun.

Síðan er ítrekað verið að tala um að fjárframlög á hvern nemanda hafi verið hækkuð bæði í framhaldsskólum og í háskólum. Þau hafa þó ekki hækkað í samræmi við þann fjölda nemenda sem verið hefur í skólakerfinu þar sem ekki hefur verið tekið tillit til fjölgunar nemenda undanfarinna ára. Fjárframlögin á hvern nemanda hækka þá ekki nema skólar fari að takmarka verulega aðgang að námi. Það hafa þeir ekki gert. Við vorum lengi vel á þeim stað að hlutfall háskólamenntaðra var hér á landi lægra en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Svo er ekki lengur, en ég velti fyrir mér hvort eigi að hverfa af þeirri braut vegna þess að við greiðum framlög fyrir færri nemendur en raunverulega stunda nám. Í fjármálaáætluninni segir orðrétt: „Til að auka gæði í háskóla- og rannsóknarstarfsemi verður áhersla lögð á að hækka framlög á hvern ársnema í stað þess að auka á umfang kerfisins.“ Ég veit ekki hvernig á að skilja þetta öðruvísi en að stjórnvöld telji að hlutfall háskólamenntaðra sé orðið ásættanlegt og nú eigi gagngert að fækka nemendum. Á sama tíma liggur ekki fyrir nein pólitísk ákvörðun um það hvaða námsbrautir eigi undan að láta en það hlýtur að vera pólitísk ákvörðun. Við vitum til dæmis að skortur er á raungreina- og tæknimenntuðu fólki, en ég sé ekkert í áætluninni sem gefur til kynna hvernig eigi að bregðast við því, hvort við ætlum að fækka nemendum í háskólum, hvort fækka eigi í félagsvísindadeild eða hvar á að fækka. Mér finnst stefnan akkúrat í þessum málaflokki ekki nógu góð og ekki metnaðarfull.

Síðan tekur 3. minni hluti undir með Ríkisendurskoðun sem bendir á í umsögn sinni að á sama tíma og gert sé ráð fyrir styttingu náms til stúdentsprófs sé ekki fjallað um það hvernig eigi að bregðast við tvöföldum útskriftarárgangi á háskólastigi sem hlýtur að vera óhjákvæmileg afleiðing af styttingu framhaldsskólans. Á einhverjum tímapunkti munu flykkjast fleiri nemar í háskóla landsins.

Síðan gagnrýnir 3. minni hluti einnig að ekki sé að finna í fjármálaáætlun framtíðarsýn varðandi húsnæðismál Listaháskólans en mjög brýnt er að skólinn fái sem fyrst viðeigandi húsnæði.

Á framhaldsskólastiginu erum við líka á sama stað, þ.e. hlutföll útgjalda til framhaldsskólastigsins eru undir meðaltali OECD-ríkjanna. Við vitum og það hefur ekki farið fram hjá neinum að framhaldsskólarnir hafa búið við mjög þröngan kost undanfarin ár. Gert er ráð fyrir 12% raunvexti á tímabilinu. Einnig er fyrirhugað að sá sparnaður sem næst vegna styttingar náms og minni árganga verði eftir í framhaldsskólakerfinu. Það er jákvætt og ég vona að það gangi eftir. Víða er orðin uppsöfnuð þörf á kaupum á tölvum og öðru slíku í framhaldsskólanum því að hann hefur verið þungur lengi.

Í Hvítbók um umbætur í menntun kemur fram að einungis 14% nemenda skrái sig í starfsnámsbrautir að loknum grunnskóla sem er mjög lágt hlutfall miðað við Norðurlandaþjóðirnar eða Evrópuríkin. Nauðsynlegt er að fjölga nemendum í verknámi eins og ítrekað hefur verið bent á, en ekkert liggur fyrir hvernig eigi að ná því markmiði. Eins og ég sagði áðan eru dæmi um að skólar hafi ekki getað endurnýjað nauðsynlegan tækjabúnað sem er nauðsynlegur í verknámi. Við köllum því eftir skýrari stefnu frá stjórnvöldum hvað þetta varðar.

Ég hef gagnrýnt læsisátakið og set spurningarmerki við það fjármagn sem er sett í það átak en um er að ræða 660 milljónir á fimm árum. Í ljósi þess að töluvert vantar upp á að fjárveitingar til framhaldsskóla- og háskólastigs nái þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sjálf sett þá finnst mér þessi forgangsröðun gagnrýniverð og slíkt átak ætti að rúmast innan fjárheimilda Menntamálastofnunar og grunnskóla landsins.

Ég vil koma aðeins á rannsóknir og þróun. Gert er ráð fyrir auknu fjármagni í rannsóknir, þróun og nýsköpun sem er jákvætt og stefnan í þessum málaflokki í heild er bara skynsamleg, en ég vil vekja athygli á að það er áhyggjuefni hversu illa styrkir virðast skila sér út fyrir stórhöfuðborgarsvæðið. Sem dæmi má nefna að rúmlega 90% af styrkupphæðum Tækniþróunarsjóðs fóru á höfuðborgarsvæðið og Suðurnes árið 2015. Ég tel mjög mikilvægt að greina hvað býr hér að baki og að stjórnvöld reyni eftir fremsta megni að tryggja að hið opinbera styrkjakerfi á þessu sviði nýtist sem víðast á landinu. Nú veit ég ekki hvað veldur, hvort það eru miklu færri umsóknir eða verri umsóknir eða hvað það er. Mér finnst að fara þurfi aðeins ofan í saumana á þessu og reyna að dreifa viðkomandi sjóðum sem víðast en þó auðvitað þannig að alltaf verði tryggt að verkefni sem eru styrkt uppfylli öll skilyrði.

Heilbrigðismálin eru auðvitað risastór flokkur. Ráðgert er að auka fjármagn til þeirra fjögurra málefnasviða sem heyra undir heilbrigðismálin um 14% á tímabilinu. Þar vega þyngst framkvæmdir við nýjan Landspítala sem er löngu tímabær framkvæmd, bygging sjúkrahótels og tækjakaup. Almenn sátt virðist um að heilbrigðismál séu sett í forgang og nauðsynlegt sé að efla heilbrigðiskerfið eftir langvarandi niðurskurð.

Mig langar aðeins að ítreka og minna á að ekki er síður mikilvægt að nýta vel fjármagnið sem þegar er sett í heilbrigðiskerfið. Fyrirhugað er að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað. Það er mjög skynsamlegt, en ekki er að sjá að meira fé verði sett í málaflokkinn sem neinu nemur næstu fimm árin. Það er skortur á heimilislæknum þótt sérnámsstöðum hafi fjölgað. Björt framtíð telur því að hægt sé að bæta þjónustu og hagræða með því að nýta miklu betur þekkingu og reynslu þeirra fjölbreyttu heilbrigðisstarfsstétta sem við eigum hér á landi. Það er mjög oft sem aðrar starfsstéttir en læknar geta sinnt þeim sem leita til heilsugæslunnar og mun meira en nú er gert. Við sjáum dæmi um árangursríka þróun í nágrannalöndunum þar sem nefna má hjúkrunarfræðinga sem hafa víða leyfi til að ávísa getnaðarvörnum og sjúkraþjálfara sem eru fyrstu meðferðaraðilar varðandi stoðkerfisvanda.

Síðan er mjög athyglisvert að aukning sjúkdóma sem rekja má til lífsstíls hefur í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir heilbrigðiskerfið og virðist bara aukast. Má segja að það sé í raun óskiljanlegt að við leggjum ekki allt kapp á að hemja þróunina með öllum ráðum og beita forvörnum í stað lyfja.

Í Lyfjastefnu til ársins 2020 er fjallað um mikilvægi forvarna sem lið í því að minnka lyfjanotkun. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Sem dæmi má nefna að ef tækist að fækka sjúklingum með sykursýki II um 10% (þ.e. um 1.500 sjúklinga) með hreyfingu og breyttu mataræði mundi beinn kostnaður lækka um 750 millj. kr. á ári. Svipuð dæmi er hægt að nefna um aðra sjúkdóma, s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, offitu, þunglyndi, o.fl.“

Þetta eru engar smá upphæðir. Það yrði hátt í milljarð ef 10% sjúklinga sem nú þurfa að taka sykursýkislyf mundu ekki þurfa þess ef þeim tækist að breyta um lífsstíl. Það er ekki alltaf þannig að auðvelt sé fyrir fólk að breyta um lífsstíl. Fólk fær aðstoð við það. 3. minni hluti telur því borðleggjandi að starfsstéttir eins og næringarfræðingar og sjúkraþjálfarar séu hluti af þjónustu heilsugæslunnar og komi í rauninni að meðferð allra sjúklinga sem gætu fengið bót meina sinna með því að breyta um mataræði og auka hreyfingu. Það er mjög gott markmið að hreyfiseðlar verði öllum aðgengilegir frá og með árinu 2017, en það þarf að fara að okkar mati í mjög markvissar aðgerðir þar sem allt kapp er lagt á að aðstoða fólk við að velja heilsusamlegan lífsstíl. Þarna er hægt að spara gríðarlega mikla peninga og bæta lífsgæði fólks.

Geðrænir sjúkdómar, við höfum rætt um þá í þinginu og samþykkt geðheilbrigðisstefnu til fjögurra ára. Það er gott en gera þarf enn betur í þeim málum. Við leggjum til að aðgengi t.d. að sálfræðingum í framhaldsskólum eigi að vera mjög gott. Einnig leggjum við áherslu á að fjarheilbrigðisþjónusta verði nýtt í meiri mæli.

Fyrirhugað er að reisa fimm ný hjúkrunarheimili og styrkja daggjaldagrunn hjúkrunarheimila en rekstur þeirra margra hefur verið þungur. Það er bara jákvætt. En Björt framtíð leggur áherslu á að mikilvægt sé að tryggja aðgengi að dvöl á hjúkrunarheimili þegar þörf krefur, en á sama tíma séum við líka með áherslu á að auka heimaþjónustu til eldri borgara. Það er þjónusta sem felur í sér aukin lífsgæði og kostnaður er minni.

Svo viljum við líka leggja áherslu á að við á hverjum tíma reynum að tryggja nægan fjölda af hæfu starfsfólki í heilbrigðiskerfinu. Það er jafnvel kannski ein stærsta áskorunin, þ.e. að eiga nóg af hæfu heilbrigðisstarfsfólki til að standa undir velferðarkerfinu. Þar skiptir máli menntun, þjálfun og góð laun. Það þarf að huga að þessu.

Til umhverfismála eykst fjármagn lítillega á næstu fimm árum, í þann málaflokk, eiginlega er mjög lítil aukning. Á sama tíma eru miklar áskoranir. Ísland hefur skrifað undir Parísarsamkomulagið og skuldbindur sig til að fara í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við þurfum að gera það. Það þarf ekki endilega alltaf að kosta peninga. Björt framtíð leggur áherslu á að við séum að búa til hvata þannig að umhverfisvænsta lausnin sé sú hagkvæmasta. Það er jákvætt að setja peninga í að byggja upp rafhleðslustöðvar og það er mjög metnaðarfull stefna sem ríkisstjórnin hefur að árið 2020 sé hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum 10%. En ég vil þá vekja athygli á því og gera athugasemdir við það að þegar stjórnvöld eru með svona metnaðarfulla stefnu og ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta ekki einu sinni keypt sér bíla sem nýta endurnýjanlegt eldsneyti þá fallast manni svolítið hendur. Það er ekki að sjá að stefna ríkisins þegar kemur að innkaupum á bifreiðum fyrir hið opinbera sé umhverfisvæn. Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn um þetta en svörin hafa ekki verið endilega mér að skapi.

Það er ljóst að vegakerfið, svo ég fari aðeins inn í samgöngurnar, þarf að bæta. Tafla er í nefndarálitinu sem sýnir framlög til vegamála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það er mikil aukning ferðamanna og aukning í samgöngum eykur álag á vegakerfið, og svo höfum við þurft að draga úr framkvæmdum eftir hrunið þannig að það er gríðarlega mikil uppsöfnuð þörf í vegakerfinu. Líka er eiginlega alveg óásættanlegt að ekki sé enn búið að samþykkja samgönguáætlun. Þarna er risastór málaflokkur sem er að mörgu leyti í ólestri. Við skulum kannski ekki gleyma því að við erum fámenn þjóð í dreifbýlu landi og við gerum miklar kröfur, víða eru malarvegir og við erum enn þá með einbreiðar brýr, jafnvel á þjóðveginum. Við þurfum að gera mun betur í þessum málaflokki.

Ferðaþjónustan er orðin mjög mikilvægur atvinnuvegur á Íslandi, eða mikilvæg atvinnugrein. Ég var með fyrirspurn einhvern tíma til atvinnuvegaráðherra um framlög til rannsókna í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Í ljós kom að framlög til rannsókna í ferðaþjónustunni voru 170 millj. kr. árið 2013 meðan það voru t.d. 2,9 milljarðar í sjávarútvegi og hátt í milljarður í landbúnaði og 1,3 milljarðar í iðnaði. Við höfum ekki rannsakað þessa atvinnugrein mikið og vissulega er mismunandi hversu mikil þörf er fyrir rannsóknir. En samkvæmt fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir 500 milljónum í rannsóknir í ferðaþjónustu á tímabilinu sem þýðir í rauninni enn minni framlög en undanfarin ár. Ég vona að það sé þá einhver ákvörðun sem byggi á einhverjum rökum að við teljum að við þurfum ekki að rannsaka þessa atvinnugrein meira en þetta.

Margt jákvætt hefur verið gert eins og að auka fjármagn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og breyta líka úthlutunarreglunum og koma til móts við sveitarfélögin, það skiptir miklu máli. 3. minni hluti telur að ekki sé lengur þörf á ívilnandi aðgerðum fyrir ferðaþjónustuna, sem er vissulega ung atvinnugrein en samt ekki svo ung, og að kominn sé tími til að ferðaþjónusta og gisting fari í efra þrepið. En það er auðvitað ekki gert í einu vetfangi. Það þarf að plana það og eiginlega þyrfti að fara að gera það vegna þess að við eigum að geta haft meiri tekjur af þeirri atvinnugrein en nú er. Ríkisstjórninni er tíðrætt um skilvirkni í skattkerfinu. Þá vill 3. minni hluti bara benda á að það er mun einfaldari skattlagning að hækka virðisaukaskatt í efra þrepið og sleppa gistináttagjaldinu sem skilar tiltölulega litlu í ríkissjóð en er gjald sem krefst töluverðrar umsýslu. Svo minni ég á að eiginlega allar atvinnugreinar búa við 24% virðisaukaskatt af starfsemi sinni. Mér finnst orðið mjög erfitt að réttlæta það að ferðaþjónustan eigi að vera undanskilin. Ef þetta efra þrep þykir of íþyngjandi fyrir ferðaþjónustuna þá hlýtur sú spurning að vera áleitin hvort efra þrepið sé þá ekki of hátt fyrir íslenskt atvinnulíf yfir höfuð og hvort þetta efra þrep sé þá bara ekki of hátt. Þá skulum við bara taka þá umræðu.

Aðeins um skuldastöðu og vaxtakostnað. Ráðgert er að greiða niður skuldir. Það er mjög gott, það er mikilvægt, vegna þess að vaxtakostnaður hefur verið of mikill. Ég vona bara að þetta gangi eftir. Þetta byggir samt á spám eða markmiðum um sölu ríkiseigna og arðgreiðslna.

Aðeins um lífeyrisskuldbindingarnar líka. Fyrirhugað er að greiða inn á lífeyrisskuldbindingarnar vegna B-deildar, það er líka mjög mikilvægt. Þar er mikil áhætta sem er ekki svo langt inn í framtíðina, þannig að ég tek undir þetta. Síðan er fjallað um í áætluninni að ráðgert sé að hækka eftirlaunaaldur úr 67 árum upp í 70. Það er afar nauðsynlegt, en hækkunin á ekki að taka að fullu gildi fyrr en eftir 24 ár. Ég tek nú undir með meiri hluta fjárlaganefndar að það er allt of langur tími. Þótt vissulega þurfi tíma í svona breytingu þá þarf hún að ganga hraðar í gegn.

Ég fer þá aðeins í skatta og tekjur. Tekjuskattsþrepum hefur verið fækkað úr þremur í tvö. Að mati 3. minni hluta hefur stjórnarmeirihlutinn misst sjónar á því mikilvæga hlutverki sem tekjuskattskerfið þjónar til tekjujöfnunar í samfélaginu. Við teljum að þessi fækkun þrepa gangi á svig við það markmið að auka jöfnuð í samfélaginu. Það er vissulega mikilvægt verkefni að einfalda skattkerfið, en að mati Bjartrar framtíðar væri mikilvægara í því markmiði að gera það í gegnum virðisaukaskattskerfið.

Síðan er alltaf þessi spurning hvort við getum ekki fengið meiri arð af auðlindum. Við teljum svo vera. Þar getum við líka nefnt raforkuna, sjávarauðlindina og ferðaþjónustuna, svo dæmi séu tekin. Við eigum að geta haft meiri tekjur. Stjórnvöld hafa líka afsalað sér, það er kannski ekki gott að nota orðið afsala sér, en það eru þeir tekjustofnar sem menn því miður hafa ekki verið að sækja.

Mig langar líka aðeins að koma inn á sveitarfélögin. Það er áhyggjuefni að staða þeirra batnar ekki mikið á meðan ríkissjóður tekur verulega við sér. Sveitarfélögin hafa gagnrýnt með hvaða hætti tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er háttað. 3. minni hluti tekur undir þær áhyggjur og þá gagnrýni og telur brýnt að farið verði ofan í saumana á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Það kemur kannski ekki á óvart en mér finnst það ekki ásættanlegt að stefna og sýn varðandi Íbúðalánasjóð skuli ekki vera skýrari. Hún er það kannski ekki hjá neinum flokki, en við þurfum öll að líta í eigin barm. Þetta er svona eins og heit kartafla, Íbúðalánasjóður. Það er í rauninni þannig að útistandandi ríkisábyrgðir vegna sjóðsins nema 900 milljörðum kr. Það er einhvern veginn ýjað að því að leggja þyrfti hann niður en svo er ekkert meira um það. Stefna stjórnvalda í þessum málaflokki er því ekki alveg skýr.

Gert er ráð fyrir því í fjármálaáætluninni að samþykktur verði búvörusamningur til tíu ára. Þá er skemmst frá því að segja að Björt framtíð hefur lagt fram frávísunartillögu um það mál þannig að það verði unnið betur. Þetta er gríðarleg skuldbinding. Ég geri engar athugasemdir við að samningur gildi til langs tíma, það getur verið gott og mikilvægt fyrir atvinnuvegi að hafa fyrirsjáanleika inn í framtíðina, en slíkur samningur yrði auðvitað að vera þannig að sátt væri um hann.

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að tala um skuldaniðurfellinguna sem 3. minni hluti var alfarið á móti og taldi að þarna væri verið að dreifa 80 milljörðum til ákveðinna heimila og nota í rauninni skattpeninga til þess á ómarkvissan og óskynsamlegan hátt. Á sama tíma var uppsöfnuð þörf á uppbyggingu innviða orðin gríðarlega mikil og ráðherrar í ríkisstjórninni hafa sumir hverjir tekið undir þau sjónarmið að meira fé vanti til viðhalds og verkefna í mikilvægum málaflokkum eins og vegamálum og menntamálum. Eins var áformum um uppbyggingu nýs Landspítala frestað í upphafi kjörtímabils vegna þess að ekki var til „fjármagn fyrir steypu“. Þá vill 3. minni hluti árétta að ráðherrar í ríkisstjórninni ákváðu sjálfir að forgangsraða hlutunum með þessum hætti. Ef við hefðum nýtt þessa 80 milljarða á annan hátt til dæmis með því að nota hluta til að greiða niður skuldir og svo í uppbyggingu í menntamálum, heilbrigðismálum og þar sem þess væri þörf værum við í annarri stöðu í dag. Umræðan um fjármálaáætlun ber auðvitað keim af því að sú ákvörðun var tekin og staðan væri betri ef hún hefði ekki verið tekin að mati 3. minni hluta.

Aðeins um veikleika í áætluninni. Búist er við áframhaldandi hagvexti út allt tímabilið sem vonandi gengur eftir. Síðan er þess vænst að ríkið geti selt hlut sinn í fjármálafyrirtækjum og einnig gerum við ráð fyrir arðgreiðslum sem hafa verið töluverðar undanfarin ár. Það er þá forsenda þess að hægt verði að lækka skuldir ríkisins svo einhverju nemi. Síðan hefur verið bent á að fjármálastefnan þyrfti að styðja betur við peningamálastefnu Seðlabankans. Það er vissulega undirliggjandi þensla í hagkerfinu. Utanaðkomandi þættir sem hafa svolítið kannski bjargað okkur, eins og lágt olíu- og hrávöruverð, sem hefur haldið verðbólgunni í skefjum og svo hefur krónan verið að styrkjast. 3. minni hluti tekur undir þær áhyggjur. En það er auðvitað mikil áskorun að stýra efnahagsmálum á þenslutíma þegar jafnframt er mikil þörf fyrir innviðauppbyggingu. Svo hefur reynslan sýnt okkur að erfiðara er að stýra þegar vel gengur en jafnvel á krepputímum. Svo eru kosningar fram undan, þannig að við eigum eftir að sjá lögð fram fjárlög hérna þar sem ýmislegt gæti komið í ljós. En ég get tekið undir það sem kom fram í nefndaráliti meiri hlutans að það þarf að passa sig og stíga varlega til jarðar. Við megum ekki missa okkur.

Mig langar að enda á að nefna að mér finnst merkilegt hvað litlar kerfisbreytingar hafa í raun verið gerðar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Menn hafa verið að sameina einhverjar stofnanir og stundum með ærnum tilkostnaði. Vissulega var framhaldsskólinn styttur. Það var breyting sem var keyrð í gegn í rauninni án mikils samráðs eða þá nokkurs samráðs eða undirbúnings. Þau sparnaðaráform sem við höfum séð hafa einkennst af flötum niðurskurði í stað þess að kafa ofan í málaflokkana og hlutirnir hugsaðir upp á nýtt. Það getur alltaf verið gott að spyrja sig hvernig væri ef við værum að búa til þetta kerfi í dag, hvernig við mundum gera það frá grunni. Það sem væntanlega stendur því fyrir þrifum að oftar sé ráðist í gagngerar endurbætur á einstaka sviðum er sú staðreynd að of algengt er að ný ríkisstjórn hætti við verkefni sem mikil vinna hefur verið lögð í, sóknaráætlun landshlutanna er gott dæmi um það. Svo er líka, því miður, allt of lítil hefð fyrir því að í mikilvægum stefnumálum sé gerð tilraun til að ná þverpólitískri sátt þannig að menn vinni mál sem ná út yfir kjörtímabil, út yfir setu einstaka ráðherra. Það er von 3. minni hluta að með lögum um opinber fjármál festum við í sessi langtímahugsun og vönduð vinnubrögð við stefnumótun þannig að við getum farið að taka einstaka málaflokka, vonandi þverpólitískt, og gera á þeim breytingar sem við teljum að séu góðar til framtíðar og getum treyst því að því ferli verði haldið áfram þó að stjórnarskipti verði eftir tvö ár eða fjögur ár eða hvernig sem það er.

Að því sögðu lýk ég máli mínu og endurtek hvað ég er ánægð með að hafa fengið tækifæri til að fá að mæla fyrir þessu nefndaráliti við fjármálaáætlunina. Maður hafði ekkert annað nefndarálit til að miða við því að þetta eru fyrstu nefndarálitin sem eru skrifuð við fjármálaáætlun, þannig að ég mun lesa þau í framtíðinni mér til ánægju og yndisauka, nefndarálitin við fjármálaáætlun framtíðarinnar.



[18:18]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg prýðilega ræðu og ágætisnefndarálit. Það er svolítið annar tónn en hjá stjórnarandstöðunni sem kemur fram hér. Ég er sérstaklega ánægður með kaflann um forvarnirnar. Það er í rauninni það eina sem við getum gert í alvöru til þess að minnka heilbrigðiskostnað, að vera með alvöruforvarnir. Það er algjörlega söngur í mínum eyrum að heyra hv. þingmann tala með þessum hætti. Þetta var það sem ég lagði áherslu á þegar ég var í stól heilbrigðisráðherra og vonast til þess að almenn samstaða verði um að breyta hugsunarhætti landsmanna, því að þetta er gríðarlega mikilvægt.

Ég ætla aðeins að spyrja hv. þingmann út í hluti sem snúa að tekjuöfluninni hjá henni. Það liggur fyrir að hv. þingmaður leggur til hækkun á virðisauka á gistingu, bara svo ég skilji þetta rétt, og hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Mér fannst ekki alveg skýrt varðandi arð af auðlindum, hvað hv. þingmaður var að vísa í þá. Mér finnst það ekki alveg nógu skýrt í textanum. Ef hv. þingmaður mundi upplýsa mig og aðra um það og hugsanlega líka ef það eru aðrar auknar tekjur sem hafa farið fram hjá mér við lestur álitsins væri gott að fá það.



[18:20]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir andsvarið. Við þurfum einhvern veginn að ná saman með þetta með forvarnirnar vegna þess að það er borðleggjandi hversu miklum sparnaði er hægt að ná. Það stendur meira að segja í lyfjastefnunni, þannig að það eru allir meðvitaðir um þetta. Ég hef áhyggjur af því að við teljum alltaf að fólk geti einhvern veginn sjálft breytt um mataræði, það viti hvað er hollt og gott mataræði, það geti komið sér í ræktina. En það er auðvitað ekki þannig. Hv. þingmaður var á máli sem ég flutti um skýrar merkingar á matvælum svo að neytendum sé ljóst þegar þeir skoða matvælaumbúðir hvort þær innihaldi mikinn sykur, það þurfi ekki að vera sérfræðingur í þeim efnum til þess. Við erum sammála þarna.

Varðandi tekjuöflunina er það sem við horfum til að við teljum að hægt sé að fá meiri arð af sjávarútveginum t.d. Í því sambandi var svekkjandi að við skyldum ekki þegar makríllinn kom bjóða hann út og athuga hvort við gætum ekki látið markaðslögmálið ráða þar. Það var atriði sem við í Bjartri framtíð lögðum áherslu á. Ég held ekki að það sé endalaust hægt að taka arð af sjávarútvegi. Við verðum að vera meðvituð um að við ríkisstyrkjum ekki sjávarútveg eins og er gert víða annars staðar en hins vegar er þarna aðgangur að gríðarlega mikilvægri auðlind. Þegar vel gengur er sjálfsagt að þjóðin fái arð án þess þó að það setji fyrirtækin í hættu. Við teljum að það sé svigrúm þarna.

Eins varðandi raforkuverð. Ég er svo sem sammála þeirri stefnu sem Landsvirkjun hefur fylgt, eða ég tel að Landsvirkjun hafi fylgt, það er kannski nóg komið núna af sölu á mjög lágri raforku fyrir stórar verksmiðjur, þess vegna eru menn að skoða sæstrenginn, (Forseti hringir.) hvort sem hann er raunhæfur eða ekki. En það er gríðarlega mikilvægt að við fáum eins mikinn arð og við getum fyrir þá mikilvægu auðlind sem er hrein raforka.



[18:23]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get haldið áfram að ræða forvarnirnar. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar sýna að jafningjarnir skipta hvað mestu máli og sömuleiðis heilbrigðar tómstundir þegar kemur að því að halda fólki frá fíkniefnum og áfengi. Ég held að við eigum að nota sömu aðferðir þegar kemur að yngra fólkinu. Það er í rauninni alveg óskiljanlegt að við séum enn þá eftir lengingu skóladagsins og skólaársins með jafn margar hreyfistundir og þegar við settum grunnskólann eða barnaskólann af stað á sínum tíma. En við getum rætt það við betra tækifæri.

Ég vil spyrja hv. þingmann um tvennt í tengslum við tekjuöflunina. Nú hefur verið nokkur umræða um það þegar aflaheimildir hafa farið úr viðkomandi sveitarfélögum. Gott dæmi núna er Þorlákshöfn, það hefur verið mikil umræða um það. Nú er óhjákvæmilegt ef við förum þessa útboðsleið að það gerist mjög reglulega, hjá því verður ekki komist. Hefur hv. þingmaður einhverjar áhyggjur af því? Það sem er að gerast t.d. í Færeyjum er að þar eru mjög sterkir aðilar sem kaupa mest af þessu, þótt þeir hafi í rauninni boðið út mjög lítið, en það breytir því ekki að þangað hlýtur þetta að leiða, sérstaklega ef þetta verður almenn leið.

Síðan varðandi raforkuverðið og kannski frekar sæstrenginn sem er að mörgu leyti, ég skal alveg viðurkenna það, spennandi hugmynd. Það er alveg sama hvernig við nálgumst þetta, við munum þurfa að virkja meira. Við getum deilt um hversu mikið, það þarf auðvitað að skoða það, en við komumst ekki hjá því að virkja meira ef við ætlum að fara í það verkefni. Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn mjög hófsamur þegar kemur að auknum virkjunum. (Forseti hringir.) Ég held að við eigum að fara mjög varlega í þær, virðulegi forseti. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því.



[18:25]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi stöðuna í sjávarútveginum þegar fyrirtæki selja kvóta burt úr byggðarlögum, við þekkjum þetta eins og hv. þingmaður nefndi úr Þorlákshöfn en það er ekki langt síðan þetta gerðist á Djúpavogi og einnig á Húsavík. Ég held að þetta sé óhjákvæmilegt alveg óháð því hvort við erum með uppboðsleið eða ekki. Það er mikið áhyggjuefni. En í fljótu bragði finnst manni eðlilegt að við notum þann arð sem verður til, vegna þess að þarna eru fyrirtæki að hagræða og væntanlega verður þá til meiri arður, til að styðja við þau byggðarlög sem verða fyrir skaða. Þarna situr fólk með fasteignir sínar og atvinnumöguleikarnir eru yfirleitt ekki mjög miklir þannig að það er alveg borðleggjandi að það eigi að styðja við fólkið og síðan að nýta byggðakvóta. Það er bjargræði sem við höfum. Hann er að sumu leyti umdeildur en það er mjög mikilvægt að nýta hann til þess að bregðast við í byggðarlögum þar sem kvótinn er allt í einu farinn eða stór hluti hans og fólk situr beinlínis eftir í súpunni. Ég mundi vilja sjá miklu meiri stuðning við byggðarlög sem hafa lagt sitt til samfélagsins en eru síðan sett út á guð og gaddinn þegar kvótinn er farinn. Við getum gert miklu betur þarna.

Ég er sammála með sæstrenginn að það er spennandi hugmynd og sjálfsagt að kanna hana ofan í kjölinn. En ef þetta þýðir að við þurfum að fara í stórfelldar virkjanir get ég alveg sett spurningarmerki við það. Það sem mér finnst skipta mestu máli eins og staðan er í dag er að ef við förum út í virkjunarframkvæmdir sé a.m.k. alveg ljóst að við fáum góðan arð fyrir vikið. Ef við förum út í náttúruna, og við munum að sjálfsögðu fylgja rammaáætlun í þeim efnum, eða ég ætla að vona að næsta ríkisstjórn gerir það líka, þá þarf að vera alveg á hreinu að það sé þess virði og að við fáum eitthvað fyrir okkar snúð.



[18:27]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni í dag hér í þingsal um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021. Rétt eins og hefur komið fram í gagnrýni minni hlutans er margt sem þarf að athuga, sér í lagi tek ég undir þá gagnrýni sem lýtur að heilbrigðiskerfinu. Það virðist ekki vera sett nógu mikið í heilbrigðiskerfið. Það virðist heldur ekki vera þannig í þingsályktunartillögunni, í þessari fjármálaáætlun, að það eigi að bæta úr því eins og þörf er á.

Við erum náttúrlega búin að ganga í gegnum rosalega sérstakt tímabil í heilbrigðiskerfinu. Læknar og hjúkrunarfræðingar hafa farið í verkfall upp á margar vikur sem er alveg einstakt fyrir norrænt velferðarríki þannig að ég tek undir það sem minni hlutinn hefur sagt um kröfu þess efnis að við þurfum að auka útgjöld til heilbrigðiskerfisins. Þá langar mig til að minna á þær kannanir sem þingflokkur Pírata hefur látið gera undanfarin þrjú ár sem snúa að því hvernig almenningur vill láta forgangsraða sameiginlegu skattfé sínu. Þar hefur ítrekað komið í ljós að almenningur vill að skattfé sé varið í heilbrigðiskerfi.

Það er ekki bjóðandi að greiðsluþátttaka sjúklinga sé bara að aukast meðan við erum í góðæri, erum alla vega að stíga inn í góðæri. Á sama tíma hafa innviðir heilbrigðiskerfisins algerlega molnað í sundur. Ég veit ekki hversu mörg húsnæði á vegum Landspítalans innihalda myglu. Sömuleiðis þurfum við að passa upp á að launakjör heilbrigðisstéttarinnar séu samkeppnishæf miðað við útlönd, þá sér í lagi Norðurlöndin.

Mig langar einnig til að vekja athygli á því að það er í raun og veru ekki gert neitt verulegt varðandi menntakerfið, sérstaklega háskólakerfið, í samhengi við LÍN-frumvarpið sem kom frá hæstv. menntamálaráðherra í gær. Það virðist ekki vera heil brú á milli fjármálaáætlunar og þeirra útláta sem virðast felast í því frumvarpi. Stærsti áhættuþátturinn í því máli er einmitt hversu margir einstaklingar sem eiga rétt á námslánum muni taka námslán. Það hefur ekki verið kannað til hlítar af menntamálaráðherra eða menntamálaráðuneytinu hvernig skipting námsmanna er sem ekki taka námslán. Sömuleiðis þarf algerlega að skoða og áhættugreina það hvort einhver hætta sé á því að erlendir EES-ríkisborgarar komi hingað til lands til að sækja þennan styrk en danski ríkissjóðurinn hefur lent í verulegum kostnaðaraukandi vandræðum, liggur við að segja, kostnaðurinn hefur farið úr 5 milljörðum dönskum yfir í 340 milljarða danska á um tíu árum við það að borga undir þá EES-ríkisborgara sem eiga rétt á námsstyrk þar. Mér þykir svolítið sérstakt að sjá að þetta virðist ekki ríma nógu vel saman og það er í sjálfu sér ámælisvert þar sem við erum greinilega að reyna að búa til heila brú með fjármálaáætluninni og reyna að sjá til framtíðar. Það er mjög áhugavert þegar maður les hérna um stuðning við námsmenn að það er bara ekkert gert ráð fyrir því í fjármálaáætluninni, eins og t.d. þessum kostnaðaraukandi aðgerðum sem breytingar á námslánasjóðnum fela í raun og veru í sér. Það er mjög áhugavert.

Sömuleiðis verð ég að taka undir með minni hlutanum varðandi ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan er náttúrlega sívaxandi grein á Íslandi. Nú veit ég ekki hvort það er meira en ein og hálf milljón ferðamanna sem koma hingað á hverju ári. Þetta er gífurlega mikið álag á vegakerfið og heilbrigðiskerfið og alla innviði okkar. Mér finnst ríkisstjórnin ekki hafa gert nógu mikið á því sviði, hvorki til að afla tekna af ferðamönnum né að byggja upp þá innviði sem þarf til þess að við getum tekið á móti svona mörgu fólki. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við höfum ekki efni á að missa þann iðnað sem ferðaþjónustan er, að ferðaþjónustan hrynji. Það þýðir bara að við þurfum að hugsa svolítið vel um hana, búa vel að ferðaþjónustunni, og þá sérstaklega að skapa öryggi þannig að ferðamenn upplifi sig örugga á Íslandi. Það gengur ekki að ferðamenn séu ítrekað að keyra á einbreiðar brýr af því að þeir hafa aldrei séð einbreiða brú áður. Sjúkraflutningar eru einfaldlega ekki nógu hraðir. Það eru fleiri þúsund manns sem fara gullna hringinn á degi hverjum á sumrin og það þarf að vera viðbúnaður við því eins og er á öðrum stórum ferðamannastöðum í heiminum. Þá er sjúkralið á staðnum. Reyndar hefur því verið breytt og það er verið að koma því á að það sé sjúkralið og læknir í viðbragðsstöðu á helstu ferðamannastöðum landsins. Það er gott, en það er líka kostnaðaraukandi fyrir ríkið.

Ein leið er að hækka gistináttagjaldið og það þarf náttúrlega líka að renna til sveitarfélaganna, þau bera líka einhverja byrði sem tengist því að styrkja innviði fyrir ferðaþjónustuna. Að sama skapi tek ég sér í lagi undir þá röksemdarfærslu sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir kom með að það væri svolítið erfitt að verja það að ferðaþjónustan væri í lægra skattþrepi miðað við flestar aðrar greinar, sem eru í efra þrepi en ekki neðra.

Síðan er annað sem mætti athuga betur. Ég veit að þegar maður keyrir í gegnum Tékkland þarf að borga vegskatt. Maður kaupir bara límmiða sem settur er á rúðuna. Þetta kostar nokkur þúsund krónur og á að fara upp í kostnaðinn við að keyra á vegakerfinu á bíl sem maður borgar ekki skatt af í því landi. Mér finnst þetta vera mögulega leið sem við getum farið. Það er mjög auðvelt að fylgjast með erlendum bílum sem koma hingað til lands, t.d. í gegnum Norrænu. Ég held að þetta ætti ekki að vera neitt sérstaklega mikið mál. Og sömuleiðis er önnur mjög einföld leið til að auka tekjur ríkissjóðs af ferðamönnum, það er að hætta með eða lækka Tax Free-endurgreiðslur sem ferðamenn fá. Það er bara reglugerðarbreyting og ég hef minnst á þetta áður í þessum þingsal. Þarna eru nokkrir milljarðar sem við erum að láta til baka í hendur ferðamanna. Ég skil ekki alveg af hverju. Nú eru tímar þar sem við þurfum að byggja upp innviði, þar sem vegakerfið okkar er sprungið. Við þurfum á þessum peningum að halda. Ferðamenn nota innviðina okkar til jafns við okkur. Ég held að þetta væri mjög einföld leið. Það bjóða ekki öll lönd upp á Tax Free. Við erum ekki í einhverri sérstakri samkeppni við önnur lönd um að geta boðið upp á sérstaka skattafslætti fyrir túrista. Ég sé ekki af hverju ferðamenn ættu að þurfa einhverja sérstaka skattafslætti af þessum böngsum og lundum sem þeir kaupa. Þetta er eitthvað sem mætti athuga, sér í lagi þar sem þetta er mjög einfalt að laga.

Ég ætla ekki að vera í pontu mikið lengur en ég set smáspurningarmerki við heildarmynd þessarar þingsályktunartillögu, um það hvort hún birti í raun og veru framtíðarsýn velferðarsamfélags eða framtíðarsýn neyslusamfélags. Þá horfi ég sérstaklega til kaflans um ungt fólk og fjármögnun á húsnæði þar sem er í sömu andrá sagt að fólk eigi að hafa raunverulegt val um búsetuform en samt eiga allir að eignast hlutina. Mér finnst þetta vera svolítið mikil stýring í átt til þess að við þurfum að vera efnishyggjuleg. Ég set spurningarmerki við það, hvort við séum að reyna að ýta undir neyslusamfélag í stað þess að vera með framtíðarsýn.

Að lokum langar mig til að undirstrika að það er mjög mikilvægt að umboðsmanni Alþingis verði tryggð ákveðin grunnrekstrarframfærsla til þess að geta sinnt sinni vinnu, sérstaklega frumkvæðisrannsóknum. Það kom upp fyrir fjárlögin í fyrra, fyrir fjárlagaárið 2016, að það sem umboðsmaður hafði gengið út frá að hann mundi fá átti að taka í burtu frá honum. En hann þarf mun meira en það. Það þarf að gera upp húsið sem hann er í, það er fínn salur þar á efstu hæð sem Alþingi gæti notað fyrir fræðslu og umboðsmaður sömuleiðis. Við þurfum líka að huga að fræðsluhlutverki stofnana ríkisins. Ég held að þarna sé prýðilegt tækifæri til að búa til einhvers konar vettvang þar sem bæði umboðsmaður og Alþingi geta verið með fræðslu og fleira í þessum fallega sal efst uppi í Þórshamri. Sömuleiðis er alveg óboðlegt, verður bara að segjast, að framkvæmdir við lyftu hjá umboðsmanni hafi ekki farið fram, þannig að hreyfihamlaðir geta ekki farið þar upp, hann er á efstu hæð í gömlu húsi, einu af fyrstu steinsteypuhúsunum í Reykjavík og það er hægara sagt en gert að labba upp alla þessa stiga. Þetta er ekki fyrir aldraða eða öryrkja eða einhverja sem eiga erfitt með gang eða þá sem eru bundnir við hjólastól. Umboðsmaður Alþingis á að sjálfsögðu að vera aðgengilegur fyrir alla. Þetta er mjög vandræðalegt og ég hvet til þess að leyst verði úr þessu sem fyrst.

Að öðru leyti langar mig að undirstrika mikilvægi þess að eftirlitsstofnunum Alþingis, bæði umboðsmanni Alþingis og ríkisendurskoðanda, verði tryggðir þeir fjármunir sem þær þurfa til þess að geta sinnt sinni vinnu af sóma. Þetta eru mjög mikilvægar stofnanir fyrir lýðræðið. Það er mikilvægt að við styrkjum þau eftirlitsembætti sem við erum með. Það er ástæða fyrir því að við erum með þau og þau eru þarna til þess að styrkja lýðræðið og hafa eftirlit með okkur og vera ákveðið úrskurðarvald og varnagli. Við megum ekki gleyma því. Ég fagna því í fyrsta lagi að þessum viðhorfum sé flaggað í þingsályktunartillögunni og vona að það verði áfram stefna ríkisstjórnarinnar og hún muni ekki hvika frá henni.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra en þetta. Á heildina litið er þetta mjög merkilegt plagg, gaman að fá að glugga í það, það hefði verið gaman að geta tekið meiri þátt í þeirri vinnslu. En ég þakka minni hluta og meiri hluta hv. fjárlaganefndar fyrir þá góðu vinnu sem þau eru búin að leggja í við þetta plagg.



[18:41]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í þessa umræðu um fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Ég ætla helst að skoða nokkra þætti sem lúta að velferðarmálum.

Hér hafa á undan mér talað fjórar hv. þingkonur Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Pírata. Þrjár þeirra mynda minni hluta í fjárlaganefnd og skila alltaf af sér frábærri vinnu. Það vildi ég, frú forseti, að þær væru í meiri hluta svo þessi áætlun liti öðruvísi út.

Fyrst langar mig aðeins að lýsa yfir miklum áhyggjum af þróun barnabóta. Þegar hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar sem og fulltrúi okkar í fjárlaganefnd, Oddný G. Harðardóttir, var fjármálaráðherra þá hækkaði hún barnabætur fyrir fjárlagaárið 2013, enda voru þær orðnar allt of lágar. Þessi ríkisstjórn hefur því miður unnið að skerðingu barnabóta og hefur meira að segja lýst því yfir að markmiðið sé að bæturnar nái eingöngu til tekjulægstu heimilanna. Ég er búin að sitja í þingsal með tölvuna mína og skoða barnabætur annars staðar á Norðurlöndunum, í Danmörku og Svíþjóð. Ég tek dæmi af íslenskri meðaltekjufjölskyldu með milljón á mánuði, hjón með milljón á mánuði samanlagt í laun. Þau eiga börn sem eru 1 og 3 ára, 13 og 15 ára, þetta er sem sagt fjögurra barna fjölskylda og þær eru allnokkrar á Íslandi. Þessi hjón fá á mánuði í barnabætur 14 þús. kr. Byggju þau í Danmörku eða Svíþjóð fengju þau á mánuði 81 þús. kr. Þarna munar 67 þús. kr. á mánuði. Yfir árið gera þetta 804 þús. kr. sem þessi fjölskylda hefur minna í ráðstöfunartekjur til að framfleyta börnunum sínum. Þarna erum við í Samfylkingunni einmitt að benda á að þetta norræna kerfi, að það séu ótekjutengdar barnabætur, það jafnar aðstöðu fjölskyldna innan sömu tekjubila óháð því hvort það eru þar börn á framfæri eða ekki. Önnur hjón á Íslandi sem eru með milljón á mánuði og eiga engin börn fá auðvitað engar barnabætur, en þessi fjölskylda á Íslandi með fjögur börn fær bara í skattafslátt, ef svo má segja, 14 þús. kr. á mánuði til að bæta upp þyngri framfærslu. Það sjá allir að það er algjörlega óraunhæft að það dugi til þess að jafna innan tekjubils eftir ólíkri framfærslu. Þetta er sláandi munur. Við í Samfylkingunni munum sannarlega hækka barnabæturnar og snúa við þeim áformum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að gera þær að algjörum fátæktarbótum.

Þá komum við inn í húsnæðismálin. Þar ætla ég að lýsa yfir áhyggjum. Við náðum að klára í mikilli sátt frumvarp um almennar leiguíbúðir og nýtt húsnæðisbótakerfi í stað húsaleigubótakerfisins. Áætlunin var um 2.300 íbúðir á fimm árum. Fyrir það fyrsta er það of lítið. Þegar búið var að uppfæra stofnkostnaðartölur fyrir húsnæði voru allar líkur á að þetta næði ekki að verða nema í mesta lagi um 1.500 íbúðir á fimm ára tímabili, en þær þyrftu að vera a.m.k. 5 þús. á þessu tímabili eða jafnvel mun fleiri ef tekið er mið af mati ASÍ á þörfinni fyrir íbúðir. Það þarf því að auka verulega í stofnframlögin svo hægt sé að byggja fleiri leiguíbúðir sem fyrst og fremst gagnast þeim sem eru með lægri tekjur og ungu fólki.

Þá komum við að almannatryggingakerfinu. Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ekki tekist að breyta því á kjörtímabilinu þrátt fyrir að það hafi legið fyrir fullbúið frumvarp þegar hún gekk inn í ráðuneytið en hún hóf vinnuna að nýju, hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir, og er nú búin að skila svipuðu frumvarpi sem á að auka útgjöld til almannatrygginga um allt að 33 milljarða á næstu 10 árum og 5 milljarða á næsta ári. Þessarar aukningar sér því miður ekki stað í ríkisfjármálaáætlun og þetta boðaða frumvarp hennar er því væntanlega skot í loftið ef við ætlum að taka mark á áætluninni. Auðvitað væri æskilegt að það væri mark á henni takandi en miðað við innihaldið er kannski ágætt að hún eigi ekki eftir að ná fram að ganga.

Svo komum við að heilbrigðisþjónustunni. Það er það síðasta sem ég ætla að ræða varðandi þessa áætlun. Ég vil byrja á að segja að nú í vor samþykkti Alþingi samhljóða frumvarp um greiðsluþátttöku sjúklinga, frumvarp sem hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson lagði fram og sátt náðist um, en við í minni hlutanum lögðum ríka áherslu á að við gætum ekki samþykkt það nema með auknum fjárveitingum. Við fengum hæstv. heilbrigðisráðherra á fund nefndarinnar áður en við afgreiddum út málið. Hann hafði haft samráð við hæstv. fjármálaráðherra og við samþykktum frumvarpið og settum í nefndarálit það sem okkur fór á milli, að það væri 300–400 millj. kr. fjárveiting inn í heilsugæsluna þegar á þessu ári en síðan að þakið yrði ekki hærra en 50 þús. kr. á ári fyrir greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Það hafði átt að verða 95 þús. kr. fyrir almenna sjúklinga, en fyrir harðfylgni okkar í minni hlutanum náðum við því niður í 50 þús. Vil ég líka nota tækifærið og lofa framsögumann málsins, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, sem stóð sig einstaklega vel í því að leiða þetta mál til lykta. En það er ekki búið að gera neina breytingartillögu út af þessari lækkun á þakinu. Það harma ég.

Talandi um greiðsluþátttöku þá er greiðsluþátttaka almennings á Íslandi 35 milljarðar, sem heimilin draga upp úr vasanum og leggja á borðið til þess að borga fyrir heilbrigðisþjónustu og hjálpartæki. Þá er ekki tekinn hér inn ferðakostnaður. Þetta eru 35 milljarðar. Frumvarpið um greiðsluþátttökuna snerist eingöngu um 6,5 af þessum milljörðum. Þeir lækka núna aðeins út af lækkuninni á þakinu, en mestmegnis var bara verið að endurdreifa þeim, þannig að eftir stendur að greiðsluþátttaka íslenskra heimila verður allt að 33 milljarðar á ári. Það er þannig varðandi kröfuna um að útgjöld til heilbrigðiskerfisins verði a.m.k. 11% af vergri landsframleiðslu, krafa sem 86 þús. Íslendingar undirrituðu, að það er langur vegur frá að við náum að uppfylla hana, því að auðvitað á þessi aukning ekki að koma úr vasa almennings og það þarf að lækka greiðsluþátttökuna. Við þurfum að leggja fram áætlanir, mjög markvissar áætlanir um hvernig við ætlum að auka fjármuni inn í heilbrigðisþjónustuna og draga úr greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Stærstu póstarnir eru útgjöld vegna lyfja, það eru útgjöld vegna hjálpartækja, það eru útgjöld vegna tannlækninga, heilsugæslu- og sérfræðiþjónustu, sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar og fleira. Sumt af þessu, eins og sjúkraþjálfunin og iðjuþjálfunin, eru nú komin með betri hætti inn í greiðsluþátttökuna eftir frumvarp ráðherra og því ber að fagna, en eins og ég segi eigum við langt í land og þurfum að vera mjög markviss þegar við ákveðum hvernig við aukum fjármuni inn í heilbrigðiskerfið á næstu árum.

Það kemur fram í nefndaráliti hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur að bara til þess að halda í horfinu varðandi sömu þjónustu og viðhald húsnæðis á Landspítalanum á næsta ári þyrfti til viðbótar 5,3 milljarða, en það er langur vegur að verið sé að leggja það inn í starfsemina og samanlagt eiga Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri að fá 2,3 milljarða til viðbótar á næsta ári. Ef þessi áætlun nær fram að ganga, sem við skulum vona að hún geri ekki því að við verðum búin að fá betri og réttlátari ríkisstjórn þegar fjárlög verða lögð fram, þá mun verða raunniðurskurður á rekstri Landspítalans á næsta ári.

Ég vil að lokum fagna því að við séum búin að stíga það skref sem unnið hefur verið að frá því eftir hrun þegar byrjað var að vinna lögin um opinber fjármál. Það voru fjórir fjármálaráðherrar sem komu að þeirri vinnu en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hóf vinnuna. Þá tóku við af honum samfylkingarkonurnar Oddný G. Harðardóttir og Katrín Júlíusdóttir og að lokum varð Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og kláraði vinnuna. Alþingi afgreiddi frumvarpið sem lög frá Alþingi og fjármálaáætlunin og fjármálastefnan eru hluti af þeirri löggjöf. Þótt okkur greini á um pólitískar áherslur og fáum aukin tækifæri til að ræða pólitískar áherslur með þessum áætlunum þá er mikilvægt að benda á hversu miklu máli það skiptir að við búum til slíkar áætlanir til að koma meiri festu á umgjörð ríkisfjármála og fyrirsjáanleika, ekki aðeins fyrir almenning heldur líka fyrir stofnanir og þá fjárliði, þannig að vitað sé við hverju má búast og líka til þess að stefnan sé mörkuð með fjármunum en ekki einungis orðum, svo að við sjáum hvað fram undan er.

Ég ætla að leyfa mér, þótt ég sé krítísk á ýmislegt í þessari stefnu núverandi ríkisstjórnar, að óska hv. fjárlaganefnd til hamingju með það að vera að afgreiða stefnuna og áætlunina frá sér.



[18:54]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og kom fram í ræðu hennar snýst þetta um stóru tölurnar og stóru áætlanirnar. Þetta eru ekki fjárlög. Þegar menn fara í útgjöld sem svara nokkur hundruð milljónum þá finna menn þau ekki í þessari áætlun. Ætli það séu ekki 700 milljarðar á hverju ári fyrir sig, rúmlega það, það er sá rammi sem við erum að vinna með. Auðvitað geta menn rætt það sem þeir vilja undir þessum lið eins og almennt er. En ef menn ræða um greiðsluþátttökuna, menn eru hér að fara yfir söguna, þá er sagan þessi: Ég setti þessa vinnu af stað á sínum tíma sem ráðherra og fól hv. þingmönnum Pétri Blöndal og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að vinna það mál. Því miður setti vinstri stjórnin þá vinnu ofan í skúffu og það gerðist ekkert fyrr en á þessu kjörtímabili. Greiðsluþátttaka okkar hefur verið á svipuðum stað og á Norðurlöndunum. Þó var hún lægst alla vega á síðustu árum í tíð okkar sjálfstæðismanna, þ.e. ekki þessari síðustu ríkisstjórn heldur ríkisstjórninni sem við vorum í áður.

Virðulegi forseti. Mér finnst nokkuð bratt þegar hv. þingmenn og fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem skáru hlutfallslega mest niður í heilbrigðismálum — og tölurnar liggja alveg fyrir, líka varðandi uppsagnir starfsmanna o.s.frv. — koma og tala með þessum hætti og tala niður þær áherslur sem núverandi ríkisstjórnarmeirihluti hefur haft í heilbrigðismálum. Við getum séð þær á öllum tölum og við sjáum þær líka í þessum áætlunum. Ef menn vilja ræða sömuleiðis niður í smáatriði um húsnæðismálin, sem er sjálfsagt undir þessum lið, þá hvet ég hv. þingmann og aðra þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, Pírata og Bjartrar framtíðar að reyna nú að eiga orð (Forseti hringir.) við meiri hlutann í Reykjavík þegar kemur að lóðaframboði því að sú staða sem þar er uppi er að hækka (Forseti hringir.) verulega verð á (Forseti hringir.) íbúðum, sérstaklega hjá ungu fólki.



[18:57]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að það var hann sem heilbrigðisráðherra sem setti af stað ásamt Samfylkingu vinnu um greiðsluþátttökukerfi vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu. Ég vil leiðrétta þingmanninn því að hann sagði að vinstri stjórnin hefði stungið þeirri vinnu ofan í skúffu. Það er ekki alls kostar rétt því að á síðasta kjörtímabili, í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem Guðbjartur heitinn Hannesson var velferðarráðherra og þar með heilbrigðisráðherra, innleiddum við nýtt lyfjagreiðslukerfi. Með þeim breytingum sem við samþykktum í vor og eru mjög til bóta, sérstaklega eftir að við náðum þakinu niður, þá munu almennir sjúklingar, við sem erum á vinnualdri og erum vinnufær, borga að hámarki fyrir lyf og heilbrigðisþjónustu sem fellur undir greiðsluþátttökuna 112 þús. kr. á ári og lífeyrisþegar og börn að hámarki 74 þús. kr. á ári.

Eins og ég fór yfir í máli mínu þá er stór hluti af útgjöldum heimilanna ekki inni í þessu greiðsluþátttökukerfi. Verkefnið fram undan er að draga úr þeirri greiðsluþátttöku því umfram þessa fjármuni, þessar 112 þús. kr. og 74 þús. kr. á ári, er fólk að reiða miklu hærri fjárhæðir fram úr eigin vasa vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja af því að það fellur ekki undir greiðsluþakið.

Það hefur verið niðurskurður í heilbrigðiskerfinu frá aldamótum. Við vitum hvað gerðist hér haustið (Forseti hringir.) 2008 sem olli enn frekari niðurskurði. Ég ber engan (Forseti hringir.) kinnroða yfir því að telja þetta metnaðarlausar (Forseti hringir.) áætlanir hjá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um endurreisn heilbrigðiskerfisins.



[18:59]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nefnd hv. þm. Péturs Blöndals var starfandi þegar ég fór úr heilbrigðisráðuneytinu. Það var ekkert gert með þá vinnu sem þar var unnin. Hins vegar tók, eins og hv. þingmaður nefndi, hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson málið upp seinna á kjörtímabilinu og tók þá einungis út lyfin sem var auðvitað skref í rétta átt, en að mínu áliti er skynsamlegra að hafa þetta allt undir eins og við gerðum þetta núna.

Ég er svo sem ekki að sýta það að hv. þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi skipt um skoðun og komið á vagninn með það, ég þakka hv. þingmönnum fyrir þá vinnu sem þeir lögðu í til að koma málinu í gegn. En, virðulegi forseti, hv. þingmenn geta ekki komið og sagt þetta þegar fyrir liggur að meira og minna allar uppsagnir opinberra starfsmanna á síðasta kjörtímabili voru í heilbrigðisgeiranum. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, á meðan önnur störf voru varin og bætt í annars staðar eins og í utanríkismálunum og umhverfisráðuneytinu og undirstofnunum þess. Það er sjálfsagt að vilja gera enn betur, en að tala með þessum hætti og láta að því liggja að hér sé um það að ræða að þessi ríkisstjórn — það er kominn ríkisreikningur, ekki bara fjárlög heldur ríkisreikningur sem sýnir að það er búið að auka útgjöld og framlög til heilbrigðismála, bæði í milljörðum og hlutfallslega. Og að koma hér og tala svo með þeim hætti eins og hér er gert, það verður hver og einn að eiga það við sig. En þeir sem hafa áhuga á málinu geta flett upp í ríkisreikningum, borið saman hvernig að þessu var unnið, ekki bara í (Forseti hringir.) milljörðum heldur líka hlutfallslega. Þá sjá menn það (Forseti hringir.) í verki hverjir hafa lagt áherslu á heilbrigðismálin.



[19:02]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvelt að leika með tölur en ég er hér með svar heilbrigðisráðherra til hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur um greiðsluþátttöku og biðtíma eftir aðgerðum í heilbrigðiskerfinu. Þá er spurt um heildarútgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu. Árið 2010 í miðju hruninu voru þau 7,1% af landsframleiðslu. Árið 2015 eru þau enn 7,1% landsframleiðslu. Auðvitað er landsframleiðslan mun meiri árið 2015 (Gripið fram í.) en allt tal um uppsagnir verður auðvitað að taka mið af því hvaða aðstæður voru uppi. (Gripið fram í.) Ég verð að segja að ríkisstjórn með þingmenn innan borðs sem stóðu hér og gerðu lítið gagn annað en að níða niður ráðherra þáverandi ríkisstjórnar og sýndu lítinn skilning og lögðu lítið af mörkum, koma svo í ríkisstjórn með arfleifð frá þeirri ríkisstjórn sem er batnandi hagur ríkissjóðs og efnahagslegur stöðugleiki og leyfa sér svo að tala eins og hér hafi ekki orðið efnahagshrun og það sé hægt að bera saman fjárlagaárið 2010 og 2011 við fjárlagaárin 2017–2021. Það þurfa að vera miklu metnaðarfyllri áform en voru hér í mesta niðurskurðinum eftir hrunið. (GÞÞ: Hver var að …) Að tala eins og að þessi ríkisstjórn sé metnaðarfull í samanburði við fyrri ríkisstjórn er í besta falli óskammfeilið. Ég ítreka þau orð mín, frú forseti, að hér þarf að auka útgjöld til heilbrigðismála langt umfram það sem ríkisfjármálaáætlun gerir ráð fyrir.



[19:04]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að fara yfir álit 2. minni hluta í fjárlaganefnd og taka m.a. fyrir fæðingarorlof, barnabætur, fjárfestingu og umhverfis- og loftslagsmál. Ég byrjaði að fjalla um velferðarmálin áður en ræðutíma mínum lauk áðan og var búin að taka fyrir heilbrigðis-, mennta-, húsnæðis- og löggæslumál og nú ætla ég að fara í fæðingarorlofið.

Fæðingarorlof og barnabætur eru meðal þeirra félagslegu ráðstafana sem miklu skipta fyrir ungar fjölskyldur og velferð barna og ungmenna. Það er hafið yfir allan vafa að tilhögun fæðingarorlofsgreiðslna hefur skipt miklu fyrir framþróun kynjajafnréttis og orðið til þess að feður taka ríkari þátt í umönnun ungbarna en áður. Málaflokkurinn er því einkar mikilvægur þáttur velferðarkerfisins og aðgerðir stjórnvalda á þessum vettvangi lýsandi fyrir stefnu þeirra og áherslur í velferðar- og jafnréttismálum.

Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi, samanber lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum. Tryggingagjaldið var lækkað um 0,5 prósentustig, úr 7,35% í 6,85% 1. júlí sl. í tengslum við kjarasamninga sem voru gerðir snemma á þessu ári og er frekari lækkun tryggingagjaldsins áformuð á næstu árum. Stjórnvöld áforma að auka hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldi þannig að ráðstöfunarfé sjóðsins aukist í samræmi við þann útgjaldaauka sem fyrirsjáanlegt er að verði við það að greiðslur úr sjóðnum verði með svipuðum hætti og þær voru árið 2009, en því markmiði er lýst yfir í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlunina. Má af þessu ráða að miklar breytingar séu í vændum varðandi tryggingagjald og ráðstöfun þess og líklegt, með tilliti til þess hvers eðlis þær breytingar eru, að útgjöld ríkissjóðs vegna fæðingarorlofs séu stórlega vanmetin.

Hámarksmánaðargreiðsla fæðingarorlofs árið 2008, áður en skerðingar vegna fjármálahrunsins komu til, voru 535.700 sem jafngildir í kringum 761.000 á núverandi verðlagi og þangað er stefnt samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar. Lækkun hámarksgreiðslna hefur orðið til þess að feður taka síður fæðingarorlof nú en á fyrri árum þegar greiðslur voru hærri. Því skal ekki dregið úr mikilvægi þess að hækka greiðslurnar en þar sem fæðingarorlof er til muna skemmra hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum ætti vitaskuld að vera markmið að lengja það til jafns við það sem þar gerist ef ætlunin væri að starfrækja hér norrænt velferðarkerfi. Útspil hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur yfirbragð þess að kosningar eru í nánd því að það er ekki að finna í ríkisfjármálaáætlun að gert sé ráð fyrir þeim útgjöldum sem hún hefur rætt í fjölmiðlum. Þingflokkur Vinstri grænna hefur ítrekað lagt fram þingmál um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla enda verður ekki við annað unað en að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, komi að boðlegum úrræðum fyrir barnafjölskyldur á því viðkvæma æviskeiði sem fellur milli kerfa í núverandi stöðu.

Barnabætur, fjárhæð sem greidd er vegna barna á framfæri framteljenda til skatts, eru afar mikilvægar fyrir framfærslu ungra fjölskyldna og til að tryggja að engin börn verði með öllu afskipt hvað efnaleg gæði varðar og fela einnig í sér viðurkenningu á því að ætla þurfi nokkurt fé til framfærslu barna og ungmenna. Barnabætur fela þannig í sér vörn gegn fátækt og eru meðal öflugustu tækja félagskerfisins til að stuðla að jöfnuði og tryggja börnum lágmarksafkomu þar sem þessar greiðslur verða oft til að lyfta barnafjölskyldum upp fyrir fátæktarmörk. Upphæð barnabóta hér á landi ræðst af tekjum foreldra, hjúskaparstöðu og barnafjölda en annars staðar á Norðurlöndum er algengast að hverju barni sé ætluð ákveðin upphæð án tillits til tekna framfærenda.

Tvær yfirlýsingar í fjármálaáætluninni marka stefnu stjórnvalda varðandi barnabætur á næstu fimm árum. Önnur felur í sér fyrirheit um endurskoðun barnabótakerfisins og einföldun þess í samræmi við tillögur í greinargerð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um tekjuskattslagningu einstaklinga en hin er yfirlýsing um að framlög ríkisins vegna barnabóta verði óbreytt að raunvirði á áætlunartímanum. Gangi þessi áform eftir er sýnilega að vænta mikilla breytinga á greiðslu barnabóta og kjörum barnafjölskyldna þar með.

Því er haldið fram í tillögunni að ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á það á undanförnum árum að standa vörð um barnabætur og bæta kjör tekjulágra barnafjölskyldna. Við álagningu opinberra gjalda fyrir árið 2016 lækkuðu þó heildargreiðslur vegna barnabóta og þeim fjölskyldum sem öðlast barnabætur fækkaði um 7,4% frá fyrra ári. Þetta bendir ekki til annars en að þáttur barnabóta í fjárhag barnafjölskyldna fari minnkandi þegar á heildina er litið. Ríkisstjórnin hefur ekki gert grein fyrir hugmyndum sínum um tilhögun barnabóta í framtíðinni heldur aðeins vísað til skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hugmyndir. Umfjöllun um nýja tilhögun barnabóta verður að sjálfsögðu að bíða þess að ríkisstjórnarflokkarnir sýni og skýri fyrirætlanir sínar í þessum efnum en umfjöllunin í tillögu að fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 og þróun mála upp á síðkastið gefur sterklega til kynna að þessi mikilvægi þáttur velferðarkerfisins geti verið í hættu í meðförum núverandi ríkisstjórnar.

Eins og vænta mátti hafði fjármálahrunið haustið 2008 óheillavænleg áhrif á opinbera fjárfestingu sem hefur verið á bilinu 2,5–3% af vergri landsframleiðslu frá 2009 en gjarnan er litið svo á að þetta hlutfall megi ekki vera lægra en 4% til að hafa við afskriftum og tryggja eðlilega uppbyggingu innviða samfélagsins.

Því miður gefur ríkisfjármálaáætlunin ekki fyrirheit um þann vöxt sem augljóslega þarf að verða á opinberri fjárfestingu eftir langt stöðnunar- og hnignunarskeið heldur einmitt hið gagnstæða. Gert er ráð fyrir því að árleg fjárfesting A-hluta ríkissjóðs verði um 1,3% af vergri landsframleiðslu á fyrri hluta tímabilsins og hækki aðeins í 1,5% á síðari hluta þess. Búist er við því að fjárfesting A-hluta sveitarfélaganna verði tæp 1% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu.

Í fréttabréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga, 3. tbl. 2016, sem fjallar um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga á árabilinu 2016–2019 er bent á að hið lága fjárfestingarstig sveitarfélaganna geti leitt til vandkvæða. Ástæðan er að fjárfestingarstigið er of lágt til að hafa við þörfinni og munu afleiðingarnar birtast landsmönnum í feysknum innviðum nærsamfélagsins. Ljóst er að stjórnvöld hafa knúið fram stranga aðhaldsstefnu í fjárfestingum sveitarfélaganna í því skyni að halda aftur af þenslu í hagkerfinu en á sama tíma er stuðlað að aukinni einkaneyslu með skattkerfisbreytingum. Eins og gefur að skilja kemur þessi hagstjórnaraðferð illa við innviði sveitarfélaganna og þar með sameiginlega hagsmuni allra landsmanna. Af þeim sökum mótmælir 2. minni hluti henni sem skaðvaldi í félagslegu tilliti.

Þess er og að minnast, þegar fjallað er um fjárhag sveitarfélaganna og ófullnægjandi fjárfestingaráform þeirra, að sveitarfélögin voru skylduð til að gefa eftir tekjur vegna séreignarsparnaðar sem efnt var til í tengslum við niðurfellingu verðtryggðra fasteignalána, þ.e. leiðréttingarinnar svonefndu. Hefur þessi tekjumissir að sjálfsögðu veikt fjárhagsgrunn sveitarfélaga bæði í bráð og lengd og er meðal dæma um tilfærslu fjármuna frá samneyslu til einkaneyslu á yfirstandandi kjörtímabili. Nýlega fram komið frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð felur það í sér að skattafsláttur vegna séreignarsparnaðar verður framlengdur. Horfur eru því á enn frekari tekjumissi sveitarfélaga af þessum sökum. Þörf er á ráðstöfun til að bæta sveitarfélögunum tekjutapið eigi þau að geta rækt hlutverk sitt og skyldur.

Áform um opinbera fjárfestingu í innviðum eru rýr og langt frá því nægjanleg. Hlýtur þetta óhjákvæmilega að koma víða niður á samfélaginu. Látið skal við það sitja að benda á samgöngumál og ferðaþjónustu sem dæmi um úrræðaleysi og vandræðagang ríkisstjórnarinnar. Eins og kunnugt er hefur ferðamönnum fjölgað mjög hérlendis á síðustu árum og reynir þetta mjög á tiltekna innviði sem ekki eru undir það búnir að taka við öllu því fólki sem vill heimsækja landið. Þetta eru kallaðir vaxtarverkir í áætlunum ríkisstjórnarinnar og eru álitnir geta verið háskalegir en ekkert bólar þó á raunhæfum áætlunum til að bregðast við ástandinu. Isavia, rekstraraðili flugvalla og flugleiðsögu, hefur gert viðamiklar áætlanir um uppbyggingu samgöngumannvirkja á Keflavíkurflugvelli í því skyni að bregðast við aukinni umferð um völlinn og standa þar yfir miklar framkvæmdir nú þegar. Með sama hætti hefði þurft að bregðast við þörf fyrir endurnýjun og uppbyggingu samgöngumannvirkja á landsbyggðinni, enda vitað mál að ferðafólkið staðnæmist ekki á Keflavíkurflugvelli heldur leggur leið sína um landið. Uppbygging samgangna á landsbyggðinni er hins vegar látin mæta afgangi í áætlun stjórnvalda og átelur 2. minni hluti það harðlega enda lýsir þessi vanræksla skeytingarleysi um hag samfélagsins sem mun hafa miklu víðtækari og alvarlegri afleiðingar en þeir vaxtarverkir sem fjallað er um í fjármálaáætluninni. Framlög til Vegagerðarinnar, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, eru langtum lægri nú en meðaltal fyrri ára og einungis er áformuð lítilvæg hækkun fram til ársins 2018. Hér er í raun verið að boða viðvarandi vanrækslu þessara mikilvægu innviða um langt árabil sem hlýtur að vera öllum landsmönnum, en ekki síst landsbyggðarfólki, ærið áhyggjuefni.

Í fjárlögum fyrir árið 2016 eru 14.000 milljónir ætlaðar til umhverfismála og skiptist heildarupphæðin þannig að 22% renna til náttúruverndar, skógræktar og landgræðslu, 22% til rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands, 24% fara í meðhöndlun úrgangs, 9% í varnir gegn náttúruvá og 22% ganga til stjórnsýslu umhverfismála.

Breytingin milli áranna 2017 og 2021 nemur aðeins 1,2% og er það furðanlega lítil hækkun með tilliti til þess hversu mikilvægur málaflokkurinn er og enn fremur þess að áætlaður vöxtur vergrar landsframleiðslu á tímabilinu er um 14,5%. Ríkisstjórnin hefur því sýnilega ekki áform um að sinna umhverfismálum af myndugleik og í samræmi við auknar skuldbindingar sem alþjóðlegar ráðstafanir í umhverfis- og loftslagsmálum hafa leitt af sér. Minnt er á sóknaráætlun í loftslagsmálum sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið annast og gildir til ársins 2018. Áætlunin gegnir m.a. hlutverki við að rækja alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum sem samþykktar voru á 21. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í lok ársins 2015 en hið alþjóðlega samkomulag sem þar tókst um að hemja og stöðva þær athafnir manna sem stuðla að hlýnun loftslags á jörðinni tekur gildi árið 2020. Telja má fullvíst að þá verði þörf aukins atbeina hins opinbera í loftslagsmálum en ekki er neinar upplýsingar að hafa í ríkisfjármálaáætluninni um áform ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Áætlanir um heildarfjárveitingu til málaflokksins lýsa samdrætti og ljóst er að auknum alþjóðlegum skuldbindingum í loftslagsmálum verður ekki sinnt með viðunandi hætti nema það verði á kostnað annarra þátta sem síst mega við því. Almennt er það áhyggjuefni að umræða um loftslagsmál virðist algjörlega einangruð við umhverfismálaflokkinn þegar áform um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ættu að sjást í mun fleiri köflum fjármálaáætlunarinnar. Þannig væri um að ræða leiðarstef í samgöngumálum og atvinnumálum, auk þess sem fjalla þyrfti með afgerandi hætti um græna skatta og grænkun hagkerfisins í öllum greinum.

Áform um útgjöld til orku- og eldsneytismála og reifun á þeim ber enn fremur með sér að áætlanir stjórnvalda á þessu sviði eru veigalitlar. Útgjaldaauki til orku- og eldsneytismála er aðeins ætlaður 4%, þ.e. um 10% undir áætluðum vexti vergrar landsframleiðslu á þessu árabili. Samkvæmt því sem fram kemur í áætluninni er stefnt að því að nýta sem fyrst olíu og gas sem kynni að finnast í efnahagslögsögu Íslands. Ekki er greint frá því hvernig sú nýting ætti að falla að markmiðum um samdrátt í útblæstri koltvísýrings eða öðrum markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum en ljóst er að fjármunum verður varið í þessu skyni. Bent skal á að heillavænlegra væri að nýta það fé til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis hér á landi og stuðla að enn frekari notkun endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. með því að þeir verði nýttir í almenningssamgöngum.

Frú forseti. Ég hef látið ógert að tala um m.a. þróunarsamvinnuna og samstarf um öryggis- og varnarmál sem þó var gerð grein fyrir við 1. umr. málsins. Því er haldið fram í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár að stefnan sem þar er útlistuð sé velferðarstefna en ég tel raunina allt aðra. Mér finnst hún akkúrat ekki fela í sér stuðning við helstu þætti velferðarkerfisins. Erindi hennar er hið gagnstæða, þ.e. að draga úr jöfnuði, hamla uppbyggingu innviða og sneiða af félagslega kerfinu. Slík stefna er ekki velferðarstefna heldur er hér komin dæmigerð og vel þekkt hægri stefna sem snýst ekki um velferð almennings eða samtryggingu heldur fer fram hjá henni inn á vaxtarsvæði sérhyglinnar þar sem hver er sjálfum sér næstur.

Bent hefur verið á mörg dæmi um það hér að framan, í umfjöllun um einstaka þætti tillögunnar, hversu fjarri hún er velferðarstefnu og er sú umfjöllun þó alls ekki tæmandi. Hið augljósa blasir við, stefnt er í átt frá velferðarkerfinu í stað þess að styrkja það og heildarhagsmunum samfélagsins er stefnt í tvísýnu með áformum um vanrækslu á viðhaldi og uppbyggingu innviða. Nægir þar að nefna, eins og hv. framsögumaður meiri hlutans fór yfir, að samgönguáætlun og ríkisfjármálaáætlun tala ekki saman svo munar mörgum milljörðum. Stefna í loftslagsmálum og umhverfismálum virðist afar laus í reipunum og metnaðarlaus og fjarri því að vera í samræmi við mikilvægi þessara málaflokka eða þær skuldbindingar sem gerðar hafa verið í umhverfis- og loftslagsmálum. Af þessum sökum getur 2. minni hluti ekki fallist á þessar þingsályktunartillögur um fjármálaáætlun og fjármálastefnu fyrir næstkomandi fimm ár.



[19:18]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í lok umræðunnar og ætla ekki að lengja hana mikið. Hún hefur um margt verið alveg prýðileg. Hugmyndin er að hún snúist fyrst og fremst um stóru línurnar og hvaða markmið við setjum okkur varðandi skuldir og afkomu og hvernig við deilum þessu í stóra samhenginu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst nokkuð bratt af hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að reyna að gera lítið úr því sem hefur verið gert á undanförnum árum þegar kemur að heilbrigðismálum og því sem lagt er upp með í þessari áætlun. Einnig finnst mér skrýtið þegar menn tala um afkomu heimilanna í landinu að þeir taki einn bótaflokk út og ræði hann sérstaklega eins og hann sé upphaf og endir á öllu. Að vísu er mikil mótsögn í því eins og kemur fram hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að tala um að þeir vilji sjá tekjujöfnun en eru síðan á móti því að lagt sé upp með það að barnabætur séu fyrst og fremst fyrir tekjulágar fjölskyldur. Það er einfaldlega mótsögn í því. Ef ég skil hv. þingmenn rétt vilja þeir hafa þær ótekjutengdar og þegar þannig liggur á hv. þingmönnum gagnrýna þeir þá hluti sem eru ótekjutengdir og vísa ég þá t.d. í leiðréttinguna svokölluðu.

Hins vegar er áhugavert að sjá hvað það er mikil áhersla á skattahækkanir hjá hv. þingmönnum, sérstaklega Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þó að það hafi líka verið aðeins hjá hv. þingmönnum Bjartrar framtíðar. Þar er af ýmsu að taka, það eru skattar á ferðaþjónustuna, það á að hækka tekjuskatt almennings, það á að koma á eignarskatti sem fór svo illa með eldra fólk sem var í skuldlitlu eða skuldlausu húsnæði, hækka svokallaðan auðlegðarskatt og ýmislegt annað kom á daginn þegar maður hlustaði á hv. þingmenn.

Mér leiðist að hlusta á þá möntru að núverandi ríkisstjórnarmeirihluti hafi ekki lagt áherslu á heilbrigðismálin. Það var þannig, og allir geta flett því upp sem vilja, að á síðasta kjörtímabili bitnuðu uppsagnirnar hlutfallslega og sömuleiðis í upphæðum fyrst og fremst í heilbrigðisstéttunum og á Landspítalanum. Önnur opinber þjónusta var varin. Það vita allir að það þurfti að spara á þessum tíma, enginn heldur því fram að það hafi verið auðvelt, engan veginn, og enginn heldur því fram að það hafi ekki verið nauðsynlegt, en það sem er óskiljanlegt er af hverju menn lögðu svona mikla áherslu á að spara í heilbrigðismálunum en bættu í t.d. í utanríkismálunum og umhverfismálunum, þá sérstaklega eftirlitsstofnununum. Maður hefði ætlað að þær stofnanir væru ekki með minna aðhaldsstig eða sparnaðarstig en heilbrigðismálin en því var ólíkt farið. Menn geta kannað þetta ef þeir vilja því að ríkisreikningur fer nákvæmlega yfir þessa hluti.

Þessari stefnu hefur verið breytt. Það er útúrsnúningur, eins og kom fram hjá einum hv. þingmanni Samfylkingarinnar, að vísa til vergrar landsframleiðslu hvað þetta varðar. Hlutfallið í öllum málaflokkum er alla jafna mun hærra þegar verg landsframleiðsla er lág, en þegar hún eykst, sérstaklega ef hún eykst mikið, er hlutfallið lægra þó að upphæðirnar séu miklu hærri.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leiðrétta meira það sem kom fram hjá hv. stjórnarandstöðu. Ég ætla bara að segja, eins og ég sagði í upphafi míns máls í dag, að ég vonast til þess að þetta sé skref í þá átt að við ræðum af meiri ábyrgð um ríkisfjármálin, að við lítum til lengri tíma en við höfum gert áður og séum að skapa þannig stjórnmálamenningu að gerð verði sú krafa til allra stjórnmálamanna, alveg sama í hvaða flokki þeir eru, á vettvangi Alþingis, ríkisstjórnar og á sveitarstjórnarstiginu, að þeir sýni ábyrgð bæði í orði og í verki þegar kemur að opinberum fjármálum. Ef við gerum það erum við búin að stíga risastórt skref í þá átt að gera lífskjör almennings betri hér á landi. Ekkert þjóðfélag sem við viljum bera okkur saman við sem hefur náð þeim árangri og lífskjörum sem þau þjóðfélög hafa náð hefur náð því án þess að viðhafa öguð vinnubrögð og langtímahugsun í opinberum fjármálum.