145. löggjafarþing — 137. fundur
 22. ágúst 2016.
endurgreiðsla tannlæknakostnaðar til aldraðra.

[15:23]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það kom fram hér á dögunum að þrátt fyrir reglugerð frá árinu 2013 sem gerir ráð fyrir endurgreiðslu frá sjúkratryggingum vegna tannlæknakostnaðar til aldraðra og öryrkja virðist hún ekki skila sér í þeim mæli sem hún ætti að gera. Það kom fram að gjaldskrá, viðmiðunargjaldskrá, hefur ekki hækkað síðan 2004 og það hefur leitt af sér að endurgreiðsla til sjúklinga sem þurfa á tannlæknaþjónustu að halda hefur einungis verið brotabrot af raunupphæð og raunútgjöldum sjúklingsins. Þetta hefur m.a. annars leitt til þess að þeir sem eiga rétt á 100% endurgreiðslu fengu sem dæmi einungis 43%. Þeir sem áttu rétt á að fá 2/3 hluta kostnaðar endurgreidda fengu einungis 28% endurgreidd frá Sjúkratryggingastofnun og sá hópur sem átti að fá u.þ.b. helming endurgreiddan fékk einungis 19%.

Ég verð að fá að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig standi á þessu. Hvernig stendur á því að þessi reglugerð, að viðmiðunargjaldskráin hefur ekki verið uppfærð frá 2004? Það eru 12 ár síðan það var og við vitum öll að verðlagið hefur breyst alveg gífurlega. Þetta er einstaklega óheppilegt ástand og algjörlega óásættanlegt fyrir þá aldraða og öryrkja sem þurfa á mikilli tannlæknaþjónustu að halda og hjálp á því sviði. Það eru alltaf fleiri og fleiri aldraðir sem halda tönnunum sínum, sem er í sjálfu sér mjög gott, en þegar heilsan fer að bila og viðkomandi hættir að geta burstað almennilega í sér tennurnar eða fer á lyf sem geta valdið munnþurrki og tannbólgum þá hrannast vandamálin upp og það mjög hratt, bæði tannskemmdir og tannholdsbólgur. Það er því mjög slæmt að þessi hópur skuli ekki fá þá niðurgreiðslu sem hann á rétt á. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig á því stendur.



[15:26]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það er skoðun mín einnig, og deili henni með hv. þingmanni, að þetta er afar óheppileg staða og ekki viðunandi. Skýringarnar á því hvers vegna svona er komið eru örugglega ótalmargar. Sú reglugerð sem vitnað er til var sett 13. maí árið 2013. Sú breyting sem hún kvað á um var ófjármögnuð. Frá því ári lá einnig fyrir samningur við tannlækna um tannlæknakostnað barna upp að 18 ára aldri. Sá samningur var einnig ófjármagnaður. Það svigrúm sem við höfðum við heilbrigðisútgjöldin var nýtt til þess að fjármagna númer eitt útgjöldin vegna barnatannlækninganna. Síðan hef ég lagt ofuráherslu á það að reyna að draga úr greiðsluþátttöku almennings í íslenska heilbrigðiskerfinu og sem betur fer var gríðarleg samstaða um það mál hér í þingsal á vormánuðum. Við byrjuðum í vor að lokinni þeirri lagasetningu um greiðsluþátttökuna, breytingarnar á henni, að fá útreikninga m.a. á þessari reglugerð með það í huga að gera tillögur til þingsins um hækkaða kostnaðarhlutdeild ríkisins. Við erum því með það í undirbúningi en eins og ég vil ítreka þá voru hin tvö málin sett í forgang.



[15:27]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að heyra að hæstv. ráðherra sé sammála mér í því að fólk eigi ekki að þurfa að veigra sér við að sækja sér tannlæknaþjónustu. En það er nú bara þannig, sér í lagi í þessu kerfi sem við erum með akkúrat núna, að þar sem tannlæknaþjónusta er vanalega einkarekin þá er engin opinber leið, eins og t.d. í Noregi þar sem er mun blandaðra kerfi, fyrir þá þjóðfélagshópa sem þurfa mest á stuðningi okkar að halda. Við erum að tala um langveika, við erum að tala um aldraða, við erum að tala um þegar tannheilsa fer ört versnandi á mjög skömmum tíma og mjög mikill kostnaður sem því fylgir, þá er náttúrlega rosalega erfitt að fá einungis u.þ.b. 43% af þeirri endurgreiðslu sem fólk á í raun rétt á. Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra muni beita sér fyrir því að settar verði þær 600 milljónir sem standa upp á í sjúkratryggingasjóð til þess að koma til móts við þá gagnrýni sem komið hefur fram.



[15:28]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim útreikningum sem við fengum í hendurnar fyrir ekki mjög löngu síðan eru rúmar 800 milljónir til þess að uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar. Það eru, eins og ég gat um áðan, aðrir liðir í útgjöldum ákveðinna útgjaldaliða hjá sjúkratryggingum sem við erum með sama hætti að fara yfir og skoða, hvort ekki sé hægt að gera úrbætur. En það er langur vegur frá að það sé ásættanleg staða að hlutdeildin hafi setið föst frá árin 2004 í þessum tiltekna þætti. Það er mikill og ríkur vilji til þess að bæta þar úr og ég vonast eftir því að geta kynnt tillögur þar að lútandi innan tiltölulega skamms tíma.