145. löggjafarþing — 138. fundur
 23. ágúst 2016.
þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, fyrri umræða.
þáltill. PVB o.fl., 827. mál. — Þskj. 1559.

[16:39]
Flm. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Flutningsmenn eru auk mín þau Páll Valur Björnsson, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall, þingmenn Bjartrar framtíðar.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 29. október 2016 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:

„Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“

Svarmöguleikarnir yrðu tveir, já eða nei.““

Árið 2009 samþykkti Alþingi þann 16. júlí að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Var það gert og hófust viðræður Íslands og Evrópusambandsins og stóðu fram yfir áramótin 2012/2013 þegar gert var hlé á virkum viðræðum fyrir kosningarnar 2013. Eftir kosningarnar 2013 hélt þetta hlé áfram en þá höfðu báðir stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, talað fyrir því fyrir kosningar að haldin yrði sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla (Gripið fram í: Það er rangt.) um það hvort áfram skyldi halda eða ekki.

Árið eftir var lögð fram stjórnartillaga á Alþingi um að draga umsókn Íslands til baka en hún komst ekki í gegnum þingið. Síðar var sent einhliða bréf frá hæstv. þáverandi utanríkisráðherra til Evrópusambandsins þar sem lagt var til eða réttara sagt tilkynnt að umsóknin væri ekki lengur gild og vakti það mjög mikla úlfúð, mikil mótmæli, undirskriftasafnanir o.s.frv. hér á Íslandi enda hafði sú ákvörðun ekki verið tekin á Alþingi, þ.e. ákvörðun Alþingis frá 2009 um að sækja um aðild hafði ekki formlega verið dregin til baka.

Þess vegna leggjum við þessa tillögu til þingsályktunar fram. Hún er orðrétt eins og tillaga sem var lögð fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga þá, fyrir utan að hér er komin inn dagsetning, sú dagsetning sem rætt er um að verði dagsetning þingkosninga í haust. Við teljum mikilvægt að þetta mál sé leitt til lykta. Það er augljóst að íslensk pólitík virðist ekki megna að taka ákvörðun um hvernig skuli halda áfram að fylgja eða fylgja ekki ákvörðun Alþingis frá 2009. Því er mikilvægt að fara út í þá fáheyrðu aðgerð að hafa sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli áfram viðræðum eða ekki.

Það skal tekið fram að ekki eru dæmi um að haldnar hafi verið þjóðaratkvæðagreiðslur um að hefja viðræður eða halda áfram viðræðum við Evrópusambandið þó svo að mörg dæmi séu um það að þegar samningaviðræðum er lokið séu haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur um það hvort þjóðir samþykki inngöngu eða ekki. Það hefur alltaf staðið til frá 2009 þegar Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að það yrði gert með því fororði að samningurinn yrði lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Við tökum það sérstaklega fram í annars frekar snaggaralegri spurningu að það standi til.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt um þessa tillögu, hún skýrir sig sjálf. Við teljum mikilvægt að fá úr því skorið hvert áframhaldið eigi að vera og að það sé gott að hafa þessa þjóðaratkvæðagreiðslu með þingkosningum. Auðvitað er það til sparnaðar, en auk þess fer vel á því að það Alþingi sem tekur við eftir kosningar hafi skýra leiðsögn í þessu mikilvæga máli.



[16:44]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til að koma hingað upp til að andmæla texta í greinargerð þessarar þingsályktunartillögu þar sem því er haldið fram að stjórnarflokkarnir hafi í aðdraganda síðustu kosninga, báðir — hv. þm. Óttarr Proppé sem flutti ræðuna tók fram að báðir flokkarnir hafi gefið fyrirheit um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður á kjörtímabilinu í aðdraganda kosninganna. Ég skora á hv. þingmann að styðja þessa fullyrðingu með dæmum. Í aðdraganda kosninganna var Framsóknarflokkurinn mjög skýr í sinni afstöðu til aðildar. Hún var ekki æskileg. Við færðum mikil rök fyrir því hvers vegna ætti ekki að halda áfram viðræðum og það var fjarri okkur sem stóðum í þeirri kosningabaráttu nokkurn tímann að gefa fyrirheit um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Í aðdraganda síðustu kosninga voru engin slík fyrirheit gefin. Ég vil bara koma þessu á framfæri. Ef hv. þingmaður hefur dæmi um annað þá mundi ég gjarnan vilja sjá þau.

Annað sem mætti segja. Í kosningunum sjálfum kom náttúrlega í ljós að flokkar sem töluðu skýrt fyrir aðild að Evrópusambandinu fengu minna en 20% af atkvæðum. Það segir kannski ákveðna sögu.

En ég er með aðra spurningu sem ég vildi beina til hv. þingmanns. Telur hann að það sé gott eftir að hafa gert eitt bjölluat í Brussel, leggjandi þar inn umsókn sem var án samhengis við vilja þjóðarinnar — er ekki algjört skilyrði að þjóðinni hugnist aðild áður en lagt er í það að leita eftir samningi um aðild? Núna hafa skoðanakannanir í fimm ár í röð sýnt að þjóðinni hugnast ekki aðild. Í augnablikinu eru 70% andvíg, 30% hlynnt. Af þeim 30% sem teljast vera hlynnt aðild þá eru þau með fyrirvara. (Forseti hringir.) Setur hv. þingmaður fyrirvara við sinn áhuga á aðild að Evrópusambandinu eða er hann tilbúinn að ganga í það eins og er?



[16:46]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég tel allar líkur til þess að mér mundi hugnast að ganga í Evrópusambandið, en auðvitað geri ég við það fyrirvara um að samningurinn sem næðist við Evrópusambandið væri þóknanlegur, væri almennilegur. Ég geri þann fyrirvara að þegar sá samningur liggur ljós fyrir verði hann lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.

Árið 2009 tekur lýðræðislega kjörið Alþingi þá ákvörðun að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er sama aðferðafræði og öll önnur lönd sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu hafa viðhaft. Lýðræðislega kjörið Alþingi hefur ekki tekið aðra ákvörðun hvorki fyrir né eftir kosningarnar 2013. Mér finnst því mikilvægt að sú ákvörðun standi eða þá að lögð sé fram fyrir Alþingi tillaga um annað, svo ég svari þeirri spurningu hv. þingmanns.

Þegar Alþingi tekur ákvörðun 2009 er, eins og við munum í skoðanakönnunum, talsverður vilji fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, en allar skoðanakannanir hafa verið með þeim fyrirvara að ljúka ætti samningum og sjá hvernig þeir litu út.

Þegar ég vitnaði áðan í loforð um þjóðaratkvæðagreiðslur vitnaði ég í umræður í aðdraganda kosninganna 2013, þá sérstaklega formann (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins, sem orðaði það sem svo (Forseti hringir.) ef ég man rétt, að það væri (Forseti hringir.) tilvalið að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabilsins.



[16:49]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svör hans og ég skil hann þá þannig rétt að hann hafi ekki dæmi um að talsmenn Framsóknarflokksins hafi í aðdraganda kosninga gefið fyrirheit um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, enda var það hrein stefna okkar og um það rætt í kosningabaráttu okkar að láta ekki tala okkur inn á það að lofa slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum óbundin af slíkum loforðum og hafa því engin slík loforð verið svikin. Enginn sem kaus Framsóknarflokkinn átti von á því að við mundum standa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, það er mikilvægt að hafa í huga.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann telji Evrópusambandið tilbúið að taka upp þráðinn. Það er ekki nóg að ég hafi bent á það að þjóðin sjálf hafi ekki áhuga á aðild. Einnig hefur komið fram hjá Juncker að hann telji alls ekki tímabært að halda áfram með stækkun sambandsins, alla vega ekki fyrr en árið 2019. Mér þætti ákaflega fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður hafi einhverjar heimildir fyrir því að Evrópusambandið óski eftir því að halda áfram viðræðum. Það þarf nú tvo til að halda áfram slíkum viðræðum sem rak í strand hérna eins og hv. þingmanni er kunnugt um áður en gengið var til kosninga 2013. Þær voru strandaðar. Það hafði ekki náðst að klára nema 11 af 33 köflum og ekki búið að opna kaflann um sjávarútveg og landbúnaðarmál. Íslenskir samningamenn voru ekki tilbúnir að gefa afslátt af þeim fyrirvörum sem gerðir voru á íslenska þinginu. Hvernig er hægt að halda áfram með viðræður sem hafa strandað, hvað sem kemur út úr þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu? Verði niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar jöfn, 50:50, helmingurinn vill halda áfram viðræðum, hinn helmingurinn vill það ekki, eru þá þingmenn bundnir af svo óljósri leiðsögu eða eru þeir bundnir af sannfæringu sinni?



[16:51]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru dálítið margar spurningar en ég skal reyna að svara þeim sem flestum.

Almennt eru þjóðaratkvæðagreiðslur leiðbeinandi fyrir þingmenn. Ég mundi segja að þetta væri fyrst og fremst leiðbeining auðvitað. Mér þætti aftur mjög skrýtið að þingið mundi ekki fylgja þeirri leiðbeiningu, og það hefur nú aldeilis þótt sérstakt þegar það hefur ekki verið gert, eins og t.d. þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána.

Þegar viðræðurnar voru stoppaðar af í upphafi árs 2013 var það einhliða ákvörðun íslenskra stjórnvalda. Viðræðurnar sigldu ekki í strand. Það var einhliða ákvörðun íslenskra stjórnvalda að setja þær á ís fram yfir kosningar 2013. Ný ríkisstjórn sem tók við 2013 kaus að halda þeim áfram á ís. Ríkisstjórnin hefur á þessu kjörtímabili ekki lagt fyrir og fengið samþykkt á Alþingi ákvörðun um að snúa til baka ákvörðun Alþingis frá 2009 um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þjóðþing og ríkisstjórnir allra aðildarlanda Evrópusambandsins, utan reyndar Króatíu sem gekk í sambandið eftir að Ísland sótti um aðild 2009, samþykktu að ganga til viðræðna við Ísland um aðild að Evrópusambandinu. Mér vitanlega hafa þessar samþykktir ekki verið dregnar til baka þannig að ég hef ekkert fyrir mér í því annað en að vilji Evrópusambandsins og ríki Evrópusambandsins til að halda áfram og ljúka aðildarviðræðum við Íslendinga standi eins og áður.



[16:53]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma aðeins inn á leiðbeiningarhlutverk þjóðaratkvæðagreiðslna. Eftir því sem tíminn líður hef ég sjálfur minni og minni trú á ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum vegna þess að mér finnst það ekki lengur skrýtið og það kemur mér ekkert lengur á óvart að stjórnmálamenn hunsi einfaldlega vilja almenning sama hversu skýr hann er. Það er ekki bara vegna reynslu minnar sem borgari í þessu landi eða eftir að hafa fylgst með stjórnmálum heldur líka eftir veru mína á Alþingi, sérstaklega í kjölfar alþingiskosninga. Menn geta vissulega alltaf deilt um það eftir á hvað þeir hafi nákvæmlega meint en það var alla vega skilningur minn, eins barnalegur og hann nú reyndist vera, fyrir kosningarnar 2013 að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hygðust fara í þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál. Það var minn skilningur, kannski var hann rangur, en það var vissulega minn skilningur og fjölmargra annarra. Það er þess vegna að menn túlkuðu orðin þannig, það er vegna þess að menn skildu þetta þannig. Það stendur eftir, sama hvað menn sögðu.

Með hliðsjón af því að það virðast lítil takmörk sett fyrir því hvað stjórnmálamenn eru reiðubúnir til þess að gera, sama hversu skýr þjóðarviljinn er hverju sinni, þá finnst mér orðið sífellt mikilvægara að ákvarðanir sem eru teknar í þjóðaratkvæðagreiðslu séu bindandi. Ég nefni sem dæmi Icesave-málin. Þau voru lagafrumvörp. Það var beinlínis hluti af lagasetningarferlinu að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að forseti lýðveldisins neitaði að skrifa undir lögin. Þannig að þegar þjóðin hafnaði þeim þá voru þetta einfaldlega ekki lög landsins alveg sama hvað stjórnmálamönnum fannst um það, það var þá bara það sem gerðist. Það er óhjákvæmilega bindandi. Ég er þeirrar skoðunar að svona tillaga væri betri ef hún fæli í sér verkefni fyrir ráðherra sem væri bundið samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að þetta hefði einhver raunveruleg áhrif.

Spurning mín er þessi: Er hv. þingmaður reiðubúinn til þess að breyta tillögunni í þá átt ef tækifæri gefst til?



[16:55]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þessi þingmaður væri alveg reiðubúinn til þess að breyta tillögunni þannig að hún yrði bindandi. Ég held að það sé engin spurning um að þróunin verði sú að við sjáum ákvarðanir í fleiri málum færðar út til þjóðarinnar og þær verði mögulega bindandi. Ég vil hins vegar ekki deila með hv. þingmanni þeirri skoðun að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur séu tilgangslausar. Ég neita algjörlega að samþykkja að það geti nokkurn tímann orðið ásættanlegt að stjórnmálamenn eða Alþingi, stjórnmálaflokkar, hunsi vilja sem kemur fram í þjóðaratkvæðagreiðslum eða kjósi, án þess að rökstyðja það verulega vel, að ganga á bak orða sinna. Það þykir mér alvarlegt mál. Það sem mér þykir vera kannski grunnurinn að mesta óvinafagnaðinum og mestu gerjuninni, mestu mótmælunum sem við höfum séð síðustu árin, er einmitt að almenningur hefur upplifað að stjórnmálin, stjórnmálamenn standi ekki við ákvarðanir sínar. Það er einmitt í þeim anda sem þessi tillaga er lögð fram. Hún er lögð fram til þess að knýja áfram að stjórnmálin á Íslandi og hv. Alþingi þrýsti á ríkisstjórn sína að fara að vilja Alþingis (Forseti hringir.) sem var samþykktur hérna 16. júlí 2009.



[16:58]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrt svar í upphafi andsvars síns.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það er ekki ásættanlegt að þingmenn eða stjórnmálamenn hunsi vilja almennings. Vandinn er sá að þeir gera það bara samt, alveg sama hversu hundóánægður maður er með það og alveg sama hversu hundóánægður almenningur er með það enda vitum við að hérna var framin alla vega tilraun til þess að slíta þessum viðræðum af hæstv. þáverandi utanríkisráðherra á sínum tíma þrátt fyrir mótmælin, þrátt fyrir tillögu um að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu og þrátt fyrir teikn á lofti um að þjóðin mundi hafna inngöngu í ESB á endanum, alla vega miðað við þær aðstæður sem þá ríktu og ríkja væntanlega enn þá, í það minnsta samkvæmt skoðanakönnunum. Þá hefði verið kjörið tækifæri til þess að kála málinu endanlega hefði maður haldið, ef menn treystu sér í umræðuna sem ég hygg að þeir geri ekki þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. ef hún er bindandi.

Ástæðan fyrir því að mér þykir svo mikilvægt að svona hlutir séu bindandi er sú að mér finnst stjórnmálin ekki ásættanleg eins og þau eru. Ég er fæddur árið 1980. Alla mína tíð hefur fólk kvartað undan því að stjórnmálamenn standi ekki við neitt og um leið og kosningum lýkur þá sé allt svikið. Þetta er orðræða sem hefur alltaf verið til staðar. Ég er ekki sáttur við orðræðuna hvort sem hún er sönn eða ekki, vegna þess að hún dregur svo mikið úr tiltrú á stjórnmálunum. En vandinn er sá að þessi skortur á tiltrú er að verulegu leyti réttmætur. Það er vegna þess að stjórnmálamenn geta einfaldlega hunsað þjóðarvilja og gera það. Það er tilfellið sama hvort okkur líkar vel við það eða ekki.

Sömuleiðis er sannfæringarfrelsi þingmanna auðvitað í stjórnarskrá lýðveldisins sem verður ekkert trompað með einhverri tillögu. Þess vegna finnst mér enn þá mikilvægara að svona tillögur hafi beinar lagalegar afleiðingar, afleiðingar sem verða til við ákvörðun þjóðarinnar sjálfrar.



[17:00]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir margt í ræðu hv. þingmanns, þess vegna tel ég mikilvægt að breytingartillögur við stjórnarskrá Íslands, um þjóðaratkvæðagreiðslur og utanumhald um þær, verði samþykktar sem fyrst og verði sem skýrastar.

Ég vil samt minna hv. þingmann á það, þrátt fyrir að hann sé kannski dálítið svartsýnn á stjórnmálin og samskipti stjórnmálanna við almenning, að við horfum nú fram á að það er verið að flýta kosningum. Það er að undirlagi ríkisstjórnarinnar, traust til ríkisstjórnarinnar var orðið það lítið að hún sá sér ekki annað fært en að sækjast eftir endurnýjuðu umboði í kosningum áður en kjörtímabilinu var lokið. Ég vil meina að þetta sé ekki ótengt því og tilraunum þessarar ríkisstjórnar til að ganga á bak loforða sinna, eða því sem stór hluti almennings í það minnsta upplifði sem loforð, um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna og tilraunum til að draga umsóknina til baka án þess að leggja þá ákvörðun fyrst fyrir Alþingi. Ég held að sá trúnaðarbrestur sem varð í þeirri snerru hafi að mörgu leyti verið upphafið að því fullkomna vantrausti sem varð til þess að við göngum nú til kosninga fyrr en ella.



[17:02]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu Bjartrar framtíðar, allra þingmanna úr þeim flokki, um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna, eða eins og þau segja: Að taka upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Ég kem upp til að gera ýmsar athugasemdir við þessa tillögu. Ég mun líka í ræðu minni fjalla örlítið um þær umræður sem voru rétt á undan þar sem menn ræddu kosti og galla ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslna, en á þeim hef ég líka skoðanir.

Víkjum fyrst að þessari þingsályktunartillögu. Eins og ég kom inn á í andsvörum við flutningsmann er ekkert á vísan að róa með það að Evrópusambandið hafi áhuga á því að taka upp þráðinn. Það er einkennilegt að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu eitthvað sem er ekki á valdi okkar sem þingmanna að fylgja eftir. Yfirleitt er þjóðinni boðið upp á val í þjóðaratkvæðagreiðslum. Afstaða Svisslendinga til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslna er að þær séu lýðskrum. Svisslendingar nota bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Þjóðin, kjósendur í Sviss, hafa valdið til þess að kalla eftir málum til sín, bæði hafa þeir frumkvæðisrétt og líka málskotsrétt til að skjóta málum til þjóðaratkvæðis. Það eru þá bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Gallinn við ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur að mati þeirra sem hafa fjallað um þetta er sú hætta að þær séu notaðar í þeim tilgangi, þær séu nánast lýðskrum. Þær eru ekki bindandi, þær vekja ótal spurningar eins og kom fram í andsvörum áðan um hvort þingmenn séu bundnir af þessu eða ekki eða hvort þeir eigi að fylgja eigin sannfæringu, hvað þeir eigi að gera ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er ekki mjög afgerandi, þjóðin skiptist nánast í jafnar fylkingar um það hvað eigi að gera. Hvert er þá hlutverk og ábyrgð hins réttkjörna fulltrúa á þingi og skylda hans við stjórnarskrána að fylgja sannfæringu sinni og þeim loforðum sem hann gaf kjósendum sínum? Ég verð að segja fyrir sjálfan mig að ég komst hingað inn á þing í krafti þess að ég sagði: Ég er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Ég mun aldrei ýta á neinn annan takka en þann sem dregur úr líkum á að við verðum aðilar að Evrópusambandinu. Það er alveg ljóst. Það er skylda mín við kjósendur mína. Ég mundi aldrei hafa sagt að ég mundi berjast hér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það að halda áfram viðræðum sem fyrri ríkisstjórn hafði stoppað án þess að spyrja kóng eða prest. Og hér erum við sökuð um að hafa stoppað þær án þess að spyrja kóng eða prest. Það á að vera eitthvert tilræði. En stjórnvöld sem beinlínis sóttu um, þau stoppuðu þær. Hv. flutningsmaður hafði mjög þung orð um næstu ríkisstjórn sem barðist beinlínis gegn aðild og stöðvaði síðan aðildarviðræðurnar sem hafði rekið í strand, svo sannarlega, eins og lesa má um í skýrslum um málið og framvindu þessara viðræðna. Þær kostuðu alveg ógnarlega mikið átak í íslenska stjórnkerfinu á tíma sem við þurftum á stjórnkerfinu að halda til þess að vinna úr þeim stórkostlegu vandamálum sem hér voru. Það var lagt í þessa lautarferð með þeim fögru fyrirheitum um að þetta mundi taka stuttan tíma, 18 mánuði, og þá gætum við verið orðin aðilar að ESB, þeirri mildu móður sem mundi bjarga öllum málum, evran mundi kippa öllu í liðinn og hin milda Merkel mundi bjarga okkur — eins og hún hefur ekki bjargað Grikkjum.

Nú höfum við séð hver bjargræðisleið þríeykisins er. Nú höfum við séð að evran er ekki lausnin, hún er núna kölluð stærsta efnahagsvandamál Evrópu. Sjálft myntbandalagið er efnahagsvandamálið. Mjög virtir hagfræðingar hafa skrifað um þetta vandaðar greinar sem ég held að menn verði eiginlega að fara að skoða. Þetta er ekki lengur sama Evrópusambandið og sótt var um aðild að 2009. Bara á þeirri forsendu eru allar forsendur brostnar fyrir því að halda áfram með viðræðurnar. Það þarf a.m.k. að fjalla um það alveg upp á nýtt hvernig Evrópusambandið er í dag. Á hvaða leið er það, hvernig hefur það reynst í þeim erfiðleikum sem dunið hafa yfir? Það er ekki lengur stækkandi samband, það er að hnigna og Bretar eru á leiðinni út. Ég ætla rétt að nefna að þetta er mjög mikilvægt ríki í viðskiptum okkar, þ.e. Bretar. Ég var að kíkja á það rétt áðan að heildarútflutningur okkar til Bretlands er jafn mikill og allur útflutningur okkar til Þýskalands og Spánar samtals. Þetta er verulega stór viðskiptaaðili. Þetta þýðir að ef það hefur verið einhver viðskiptaleg ástæða fyrir því að vera í Evrópusambandinu hefur sú ástæða minnkað um tvö risastór lönd.

Ég verð bara að segja að það er ekkert hægt að taka upp þráðinn í viðræðum við ESB sem er orðið allt annað ESB. Það er heldur ekki hægt að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu 29. október 2016 þegar það stendur í lögum að það þurfi að vera þrír mánuðir til að ræða, til að þjóðin fái ráðrúm til að ræða. Það er ekki að ástæðulausu sem ákvæðið er í lögum. Hérna er boðað að það eigi að koma frumvarp til breytingar á þeim lögum. Það er ástæða fyrir því að þjóðin þarf þrjá mánuði til þess að fjalla um málið. Í Sviss taka menn sér miklu lengri tíma en þrjá mánuði til að ræða almennt efni þjóðaratkvæðagreiðslna, sem eru vissulega bindandi. En að gera það með einhverri skemmri skírn er ekki hægt. Allar forsendur eru gerbreyttar.

Ég vil nefna það að í aðdraganda þessarar umsóknar, sem var stöðvuð og menn vilja setja í gang aftur, voru gefnar miklar væntingar um að hægt væri að fá varanlegar undanþágur. Það kom í ljós að það er ekki hægt. Það er hægt að fá tímabundnar undanþágur en það þarf síðan að aðlaga sig að reglum sambandsins sem eru ófrávíkjanlegar. Menn héldu lengi í þá tálsýn að við gætum undanþegið allt okkar hafsvæði undan hafsvæðum Evrópusambandsins, gætum áfram átt okkar 200 mílur og alla þá deilistofna sem þar synda. Svo voru menn komnir yfir í að það yrðu kannski bara staðbundnu stofnarnir. Makríllinn einn, deilistofn, hefur gefið okkur tugi milljarða frá hruni. Það var vissulega heppni. En ef við hefðum verið aðilar í Evrópusambandinu hefði öllum þeim makríl verið landað í Skotlandi, Írlandi og í Evrópusambandsríkjunum. Við værum í miklu verri stöðu. Ég held að þjóðin átti sig alveg á þessu.

Það sem ég velti fyrir mér er: Hvað er það í þessu sem flutningsmenn átta sig ekki á? Hvaða keilur eru þeir að reyna að slá með því að boða til rándýrrar skoðanakönnunar sem er ekki einu sinni bindandi fyrir þingmenn? Fyrir þjóð þar sem 70% þjóðarinnar lýsir yfir að hún vilji ekki ganga í þetta samband. Síðustu fimm ár hafa á bilinu 60–70% af þeim sem taka afstöðu, einhverjir eru óvissir en er ég bara að tala um þá sem taka afstöðu, verið andvígir aðild að þessu sambandi. Við höfum haft góðan tíma til að kynnast sambandinu vel. Það má vel skilja að hér hafi menn í einhverju stundarbrjálæði og taugaveiklun í hruninu látið telja sér trú um að Evrópusambandið væri lausn á einhverjum vanda, en það er svo sannarlega ekki hægt að halda því lengur fram. Langdregnasta efnahagsbjörgunaraðgerð allra tíma er Grikkland. Hræðilegt. 50% af gamla fólkinu fær ekki lyfin sín. Það eru engar krabbameinslækningar þar. Það er meira að segja ekki til gjaldmiðill í sumum sveitaþorpum. þeir nota einhvern nýjan gjaldmiðil af því að það eru engar evrur í þorpinu. Sögurnar sem maður heyrir frá Grikklandi eru hræðilegar. Það er verið að selja sólarstrendurnar, einkavæða þær. Það er eflaust draumur einhverra en ég held ekki þeirra sem flytja þessa þingsályktunartillögu.

Ég bið menn að opna augun. Vissulega er alltaf gaman að tala fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum en ég vil þá að þær séu bindandi. Ég talaði hér og barðist fyrir því að Icesave-samningunum yrði skotið til þjóðarinnar. Það var bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég held að við ættum að innleiða í stjórnarskrána ákvæði um að þjóðin hafi rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um mál. Ég styð það og ég styð líka það að hún hafi frumkvæðisrétt. Mér þykir leiðinlegt ef þessu þingi tekst ekki að ljúka þessum mikilvægu málum. En ég hef enga trú á því að þingmenn séu að slá sér upp með því að hafa skoðanakannanir meðal þjóðarinnar sem kosta 250 milljónir. Ef við ætlum að spyrja þjóðina að einhverju skulum við spyrja hana: Hugnast þér aðild að Evrópusambandinu, já eða nei? Ef fólki hugnast hún ekki er þetta ekkert annað en bjölluat. Hvaða þjóð sækir um aðild að bandalagi sem hún vill ekki ganga í?



[17:12]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins meira inn í þessar ágætu umræður um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur og ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Hv. þingmaður fór stuttlega inn á að það væri ekki víst að Evrópusambandið vildi halda áfram umræðunum. Svo heyrðist mér hv. þingmaður kvarta undan því að þau, þ.e. Framsóknarflokkurinn væntanlega, eða stjórnarflokkarnir, væru sökuð um eitthvert tilræði. Það vita allir að hæstv. utanríkisráðherra á þeim tíma gerði tilraun til að slíta þessu og básúnaði það í fjölmiðlum að núna væri þessu lokið o.s.frv. Hann gerði þetta. Það þýðir ekkert að rífast um það. (Gripið fram í: Það var búið að slíta viðræðum.) Ja, sá hæstv. ráðherra sá alla vega tilefni til þess að senda þetta bréf og lýsa því þannig í fjölmiðlum að þá væri málinu lokið og að sú aðgerð hefði átt þátt í því. Það var alveg skýrt. Og aftur: Það þýðir ekkert að rífast um það. Þetta gerðist, það sáu þetta allir.

En burt séð frá því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki best að klára þetta mál einfaldlega með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þessi vilji verður skýr og þá er málið saltað, væntanlega þar til aðstæður breytast aftur. Því að þetta heldur áfram að vera bitbein. Ég veit að hv. þingmaður er fullkomlega sannfærður í sinni afstöðu og það er góðra gjalda vert og var það auðvitað líka fyrir einhverjum árum síðan, væntanlega á þeim forsendum sem þá voru uppi. En ég hygg að þetta verði áfram í umræðunni, þetta verður áfram kosningamál. Er ekki kominn tími til að útkljá málið og samþykkja þingsályktunartillögu sem felur hæstv. utanríkisráðherra að taka upp samninga aftur og sjá hvernig því lýkur? Setja skilyrði þingsályktunartillögunnar um að þjóðin verði að samþykkja það líka og þar af leiðandi skilyrði um samþykki Alþingis, greiða atkvæði um þetta og klára það? Er ekki hv. þingmaður sannfærður um að þjóðin mundi segja nei?



[17:14]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningunni sem beint er til mín er hvort ekki væri gott að útkljá málið í eitt skipti fyrir öll, (Gripið fram í.) fyrir næstu áratugina. Málið er að Bretar gengu meira að segja í Evrópusambandið. En spurningin var ekkert útkljáð. Sjálfstæði og fullveldi þjóðar er aldrei útkljáð mál. Á meðan við erum fullvalda og sjálfstæð þjóð mun alltaf hluti íbúa landsins segja: Kannski væri betra að tilheyra einhverju stærra dæmi, vera hluti af einhverju stærra fullveldi, vera með í þessu nýja hernaðarbandalagi sem Evrópusambandið er að verða. Í viðtali við Die Welt talar Juncker opinskátt um það að mikið væri gott að hafa her til að geta aðeins staðið uppi í hárinu á Rússum. Þetta er raunverulega á vef BBC, þið getið flett þessu upp. Árið 2015 talað hann um að mikið væri það gott ef það væri evrópskur her. Þetta er andi leiðtoganna í þessu sambandi. Við verðum ekki í neinum færum til að hafa áhrif á stefnu þessa sambands sem minnsta aðildarríkið. Bretland sem er miklu stærra aðildarríki en við getum nokkurn tíma orðið ákvað að hætta því að þeir geta ekki haft nein áhrif. Þess vegna eru þeir að ganga úr Evrópusambandinu. Það ættu að vera mikilvæg skilaboð fyrir okkur.

Ég held að spurningin um fullveldi og sjálfstæði þjóðar muni aldrei verða útkljáð meðan til er ríkjabandalag sem býður hinum fullvalda og sjálfstæðu þjóðum að ganga í sambandið. Það er það sem veldur þessu. Ef enginn væri að bjóða okkur inn væri enginn hópur að sækja um, hér er enginn að sækja um inngöngu í Bandaríkin eða Kína eða Rússland. Hugsanlega væri það, en það (Gripið fram í.) verður alltaf umræða um þetta. Ég er til í hana. En svo lengi sem hún er mun ég berjast gegn því að við munum láta af hendi fullveldi og sjálfstæði landsins.



[17:16]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki verið ósammála hv. þingmanni um að umræðunni lýkur aldrei um sjálfstæði og fullveldi þjóða og allt það. En við erum aðilar að fleiri samtökum en EES. Við erum t.d. í WTO. Við erum í ýmsum samtökum þjóða. Það eru hins vegar ekki sífellt að koma upp aftur og aftur þingmál ýmist um að fara úr þeim samtökum eða ganga í einhver ný. Ekki aftur og aftur. Ekki árum saman. Ekki þannig að það einkenni stjórnmálaumræðu um árabil. Þetta mál, ESB sérstaklega, ólíkt t.d. EES sem ég hefði nú haldið að menn gætu aldeilis rifist um, er sífellt í umræðunni. Það er sífellt verið að velta því fyrir sér og ræða hvað ef þessir kaflar yrðu opnaðir og hvað ef hitt og menn rífast meira að segja um það hvaða orð eigi að nota yfir þetta, aðlögunarviðræður eða hvað. Það er eitthvað sem við rökræðum kannski einhvern tíma seinna.

Ég get svo sem lítið annað sagt en að ég er ósammála þeirri niðurstöðu hv. þingmanns að vegna þess að umræðunni ljúki aldrei endanlega sé þar af leiðandi ekki sniðugt að halda þjóðaratkvæðagreiðslur, þá séu ekki rök fyrir því að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið til þess að útkljá það. Óháð þeim efnisatriðum sem hv. þingmaður fer inn á, snýst aðalmálið fyrir mér um sjálfsákvörðunarréttinn, eitthvað sem ég trúi að við hv. þingmaður eigum sameiginlegt að telja til grunnatriða í mannlegu samfélagi, sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og hópa af öllum stærðum og gerðum.

Það er einmitt þess vegna sem mér finnst þetta mál eiga heima í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, til þess að kjósendur sjálfir geti ákveðið hvað eigi að gera og við getum farið að tala um einhverjar aðrar lausnir sem ég tel að sé algerlega kominn tími til að við ræðum líka, með hliðsjón af því að þjóðin mundi segja nei við ESB. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að svo yrði.



[17:19]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stjórnvöld fengu fjögur ár til að ljúka samningum við Evrópusambandið. Þau töldu að það mundi taka átján mánuði en höfðu heilt kjörtímabil til að gera þetta og þessi stjórnvöld gáfust upp. Evrópusambandið gafst upp. Viðræðurnar strönduðu. Það er niðurstaða Hagfræðistofnunar sem tók þetta út. Ég trúi þeirri niðurstöðu. Fyrir utanríkismálanefnd þar sem ég sit kom líka fjöldi gesta sem lýsti þessu ferli og hvers vegna ekki hefði verið hægt að klára þetta. Það er alveg sama hvort við höldum bindandi eða ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, það er ekki hægt að klára þetta. Ekki með þeim skilyrðum sem við setjum. Þessi 30% sem þó vilja ganga í Evrópusambandið setja skilyrði fyrir þeim áhuga. Hin 70% vilja bara ekki ganga inn. En þau 30% sem vilja ganga inn gera það með skilyrðum um að við fáum að halda í ákveðin mikilvæg atriði sem eru auðlindir, sjávarútvegur, að verja landbúnað okkar, ekki gegna herskyldu í Evrópusambandinu og hitt og þetta, alls konar skilyrði. Fullt af þessu er hugsanlega ekki hægt að ná. Ég set t.d. það skilyrði að við þurfum ekki að taka upp evruna. Það skilyrði er ekki í boði. Núna er bara ekki í boði að ganga í Evrópusambandið en ekki í myntbandalagið. Myntbandalagið er án undantekninga. Danir eru með undantekningu, Bretar voru það. Svíar hafa enga slíka undanþágu og ekki Pólverjar, þeir draga bara lappirnar, þeir forðast eins og þeir mögulega geta að ganga inn í það efnahagsvandamál sem evran er.

Þannig að ég segi: Áður en haldið er áfram með einhverjar aðildarumsókn, segjum sem svo að það væri meiningin, að menn vildu alveg endilega skoða Evrópusambandið upp á nýtt, þá er þetta allt annað en hér blasti við 2009. Ég mundi segja: Þetta er ótímabært. Ég held að við ættum ekki að fara að leggja þessa spurningu fyrir þjóðina og síst af öllu að skammta henni nauman tíma til að ræða spurninguna.



[17:21]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög ánægjulegt að heyra hvað hv. þingmaður er viss í sinni sök um hversu andstyggilegt fyrirbæri Evrópusambandið er og hann vilji alls ekki sjá að Ísland gangi þar inn. (Gripið fram í.) Ég leyfi mér að vera mjög ósammála hv. þingmanni. En það er akkúrat þetta ósamkomulag og þessi mismunandi sýn á Evrópusambandið og mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu sem heldur áfram í umræðunni, sem deyr ekki í umræðunni. Þess vegna erum við að leggja til að þessum samningaviðræðum verði áfram haldið, leiddar til lykta þannig að við sjáum hvaða samningur væri í boði svo hægt sé einmitt að taka afstöðu til hans.

Mig langaði samt aðallega til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann hefur talað hátt um að Evrópusambandið sé breytt. Vissulega hafa aðstæður í Evrópu breyst. En í grunninn er Evrópusambandið, samningar og reglur þess, ekki breytt frá 2009 fyrir utan það að Króatía hefur gengið inn. Hv. þingmaður talar um Evrópuher. Það er alveg ljóst að sá her er ekki til. Evrópa er ekki hernaðarbandalag, heldur hefur þvert á móti einkennt þá áratugi sem Evrópusambandið hefur verið við lýði óvenjulangur friðartími í Evrópu eða löndum Evrópusambandsins. En mig langaði að spyrja hv. þingmann fyrst og fremst hvort honum finnist að afstaða hans gegn aðild að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) sé svo rétt að hún sé sterkari en samþykkt Alþingis sem samþykkti (Forseti hringir.) árið 2009 að sækja um aðild og leiða aðildarviðræður til lykta.



[17:23]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óttari Proppé fyrir að koma með þessa spurningu. En ég vil ekki þakka fyrir það að menn geri mér upp skoðanir eða orð. Ég hef ekki sagt að Evrópusambandið sé óhuggulegt fyrirbæri eða eitthvað slíkt. Ég hef engin slík orð notað. Ég sagði að talað hafi verið um að myntbandalagið sé efnahagsvandamál. Ég hef talað um að forsendur hafa breyst. Ég hef margoft sagt að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að vera aðili að bandalaginu. Það má vel vera að það þjóni hagsmunum einhverra annarra þjóða sem standa nær þeim meginstefnum sem þar ríkja. Það getur vel verið. Ég hef aldrei sagt að það sé slæmt í þeim skilningi. Ég hef bara bent á og fært rök fyrir því og skoðað mjög vandlega út frá mörgum hliðum yfir margra ára tímabil og mín niðurstaða hefur verið óbreytt, óhögguð, og ég sé að obbi landsmanna, 70% þjóðarinnar eða af þeim sem taka afstöðu, eru á sömu línu og finnst hagsmunum þeirra ekki þjónað með því að stjórnsýslan fari í mjög langt og þungt ferli við það að leiða til lykta eitthvert bjölluat sem mun síðan leiða bara til þess að þessu verður hafnað, alveg eins og gerðist í Noregi tvisvar. Í Noregi var þó alla vega hægt að semja um eitthvað. Það er ekki lengur hægt eftir að Austur-Evrópuríkin gengu inn. Um leið og sá innlimunar- og stækkunarprósess hófst hjá Evrópusambandinu breyttist nálgun og stækkunarferlið þannig að menn gátu ekki samið sig frá meginreglum Evrópusambandsins.

Menn geta ekki samið sig frá því að verið er að ræða um að koma á her. Ég geri mér fulla grein fyrir að ekki er her þar í dag. Það eru margir herir í löndunum, í nokkrum ríkjum eru herir. En núna er sífellt talað um nánara samstarf þessara herja og það sé til að auka styrk Evrópusambandsins. Ég er undrandi á því ef hv. þingmaður kannast ekki við þá umræðu. Það eru margir forvígismenn (Forseti hringir.) þessa sambands sem tala fyrir nauðsyn þess að koma á hernaðarbandalagi.



[17:25]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir að margar hugmyndir eru um hvernig Evrópusambandið eigi að þróast og margt hefur verið sagt þar að lútandi. Þær hugleiðingar breyta ekki því hvernig sambandið er. Hv. þingmaður talaði um það áðan og hefur notað orðið bjölluat oftar en einu sinni. Sem mér þykir frekar leiðinlegt orðalag yfir formlega samþykkt Alþingis og formlegt ferli sem hefur farið fyrir öll ríki í Evrópu og verið samþykkt og farið eftir mjög föstum prótókól, umsóknarferli og samningaferli sem allar þjóðir sem hafa gengið í Evrópusambandið frá því að stofnþjóðirnar gengu þar inn hafa farið í gegnum. Í mörgum tilvikum hefur það ferli hafist án þess að það hafi verið ljóst, eða jafnvel að það hafi verið ljóst, að ekki hafi verið meirihlutavilji þjóðarinnar fyrir inngöngu áður en samningaviðræðum væri lokið. Ég vil bara segja að einhver stikkprufa á vinsældum óljósrar aðildar er ekki endilega best, segir ekki endilega alla söguna.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann telur að umsókn Íslands (Forseti hringir.) og umsóknarferlinu eigi að ljúka, hvað hann telji bestu leiðina til að gera það eða hvort hann telji ekki að samþykkt Alþingis frá 2009 sé enn í gildi.



[17:28]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þingsályktunartillögur binda ekki ókomnar ríkisstjórnir heldur aðeins þær sem sitja. Sú ríkisstjórn sem nú er að völdum er óbundin af þeirri þingsályktunartillögu sem vísað var til um aðildarumsókn. Hún var í fullum rétti til að afturkalla umsóknina. Og það er óforskammað af Evrópusambandinu ef það er skilningur þess að hér hafi ekki viðræðum verið slitið endanlega. Að þær hafi verið settar á ís eða eitthvað slíkt þar til vilhallari ríkisstjórn kemur aftur og heldur áfram viðræðum. Það þætti mér gróft, mjög gróft, í samskiptum Evrópusambandsins og Íslands. (Gripið fram í.) Hér var lýðræðislega kjörin ríkisstjórn sem ákvað að fylgja þeim málum og því umboði sem hún hafði fengið frá kjósendum sínum. Það er alveg skýrt í mínum huga.

En við erum sammála um hversu leiðinlegt það er að stunda bjölluat í Brussel, við erum alveg sammála um að það er átakanlegt. Þá bið ég flutningsmenn þessarar tillögu að draga hana til baka þar til hér er ríkjandi áhugi á aðild að Evrópusambandinu. Vinnum fyrst þá vinnu, byrjum á byrjuninni. Áttum okkur á því að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki inngöngu í sambandið, og hún er farin að þekkja þetta samband nokkuð vel og náið. Við skulum fyrst kynna Evrópusambandið eins og það er, vinna í því að þjóðin átti sig á hvað það er. Og síðan, ef hún hefur áhuga, að hefja þá að sjálfsögðu viðræður. En það er enginn áhugi á því nú. Við skulum ekki eyða mörg hundruð milljónum í viðbót. Það kostar 200–300 milljónir að halda þessa skoðanakönnun sem kölluð er ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Það mun kosta mörg hundruð milljónir, ef ekki milljarða, að klára þetta eða leiða til lykta, sem ég held reyndar að sé ekki hægt. Vegna þess að á tímabilinu, það er ekki eins og þetta séu einhverjir samningar, við þurfum að uppfylla eða sýna getu til að uppfylla þessi skilyrði. Og það kostar fjárfestingar sem væri betra að setja í velferðarkerfið okkar, innviðina okkar og annað sem við raunverulega (Forseti hringir.) getum bætt.



[17:30]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrst ætla ég að segja að mér finnst jákvætt við þessa tillögu að hún vekur upp áhugaverðar umræður um eðli þjóðaratkvæðagreiðslna m.a. og vissulega hefur aðeins verið farið inn á Evrópusambandsaðild efnislega.

Mig langar að byrja á því að nefna það sem ég hef nefnt í andsvörum og er skoðun sem ég styrkist sífellt í og hún er sú að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að vera bindandi (FSigurj: Heyr, heyr.) og ættu ellegar ekki að heita þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil þakka hv. þingmanni sem flutti málið fyrir að taka þann möguleika til greina að breyta tillögunni þannig að atkvæðagreiðslan verði bindandi. Ég mundi sjá það fyrir mér að tillagan fæli í sér að fela hæstv. utanríkisráðherra að taka upp aðildarviðræður að nýju eða hvernig sem það væri útfært nákvæmlega lagatæknilega séð, en alla vega að lögð yrði fram hefðbundin þingsályktunartillaga eins og við afgreiðum hér mjög reglulega nema að samþykki Alþingis væri háð samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá tæki þingsályktunin gildi samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og að sjálfsögðu líka með því skilyrði að Alþingi mundi samþykkja hana sem reyndar lítur nú ekki út fyrir að verði tilfellið, því miður, óháð þessum breytingum.

Annað sem mig langar að gagnrýna við þessa tillögu er það sem hv. 2. þm. Reykv. n. kom stuttlega inn á, en það eru tímamörkin. Það er þó frekar einföld breyting að mínu mati, ekkert mál að breyta þeim. Það eru kosningar reglulega á Íslandi. Að jafnaði, fyrir utan núna í október, eru kosningar af einhverju tagi á Íslandi á þremur af hverjum fjórum árum, þ.e. alþingiskosningar, sveitarstjórnarkosningar og síðan forsetakosningar. Ég hef engar áhyggjur af þessum kostnaði fyrir utan það að í samhengi við fjárlög og mikilvægi lýðræðisins eru 250–300 milljónir einfaldlega ekki há tala. Ég veit að margir geta hneykslast yfir því ef þeir líta á eigin fjárhag en við erum að tala um fjárlög. Þegar um er að ræða fjárlög lýðveldisins Íslands ráðum við léttilega við að auka þó nokkuð mikið við lýðræðið á Íslandi, ekki bara í þessu máli heldur almennt. Sjálfur vil ég benda á að Svisslendingar, eins og hv. 2. þm. Reykv. n. nefnir oft, halda þjóðaratkvæðagreiðslur fjórum sinnum á ári. Þá eru bara ákveðnar dagsetningar þar sem menn fara og greiða atkvæði um allan fjárann. Ekki veit maður til þess að Sviss sé rjúkandi rústir eða í bullandi fátækt vegna þess að þeir hafi eytt öllum peningunum sínum í þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er ekki þannig.

Mér finnst reyndar alltaf gaman að minnast á það að í Sviss er gengið lengra en nokkur hér hefur stungið upp á, af stjórnarskrártæknilegum ástæðum. Þar er föst tala kjósenda sem þarf að biðja um þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki prósenta eða hlutfall kosningarbærra manna þannig að eftir því sem þjóðinni fjölgar lækkar prósentan af kjósendum sem þarf til þess að neyða hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar af leiðandi verða þær smátt og smátt tíðari með tímanum. Og þrátt fyrir að hægt sé að gagnrýna Sviss fyrir slaka kosningaþátttöku þá erum við að tala um Sviss. Ekki Sómalíu, ekki Argentínu heldur Sviss, eitt best heppnaða ríki í sögu mannkyns, þori ég að fullyrða, og vissulega efnahagslega.

Nú er ég að átta mig á því hvað ég hef lítinn tíma hérna. Ég hef verið þeirrar skoðunar að frá upphafi hefði þetta ferli haft gott af því að fara í svokallaða tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að það hefði verið þjóðaratkvæðagreiðsla um þingsályktunina í upphafi, nr. 1 frá 137. þingi, og síðan aftur þegar samninguri hefði legið fyrir. Þótt þetta tíðkist ekki mundi ég segja að það sé í raun og veru einn af veikleikum Evrópusambandsins. Skynjun almennings þar og annars staðar er sú að lýðræðislegur brestur sé til staðar. Hvort sem það er lögtæknilega rétt eða ekki er skynjunin í það minnsta sú og mér finnst mikilvægt að bregðast við því. Ég held að við hefðum getað sýnt mjög gott fordæmi með því að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég fullyrði alla vega að við værum á öðrum stað í umræðunni ef svo hefði verið. Við værum ekki að kýta um þetta hérna. Það væri skýrara hver leiðsögnin væri, spurningar um lögmæti væru útkljáðar og sömuleiðis hygg ég að það hefði haft áhrif á viðræðurnar sjálfar vegna þess að meðan á umsóknarferlinu stóð var deilt um þetta í þingsal og víðar í samfélaginu, eðlilega, vegna þess að lögmætið var ekki jafn skýrt og það hefði getað verið.

Ég ætla aðeins að tala um Brexit. Óháð því hvað mér finnst um þá niðurstöðu held ég að niðurstaðan í hinni ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um að segja skilið við Evrópusambandið endurspegli þá skynjun almennings að hann hafi ekki verið spurður nógu ítarlega og hann hafi ekki verið nógu vel upplýstur frá upphafi um hvað þetta fyrirbæri væri, Evrópusambandið, hverjir væru kostirnir og hverjir gallarnir. Auðvitað var umræðan þar á margan hátt algerlega úti á túni eins og gengur og gerist í pólitíkinni og allt það en ég held samt að þetta endurspegli ekki bara að kjósendur í Bretlandi hafi farið eftir röngum gögnum, ég held líka að ástæðan sé að hluta til réttmæt skynjun almennings. Það er tilhneiging meðal stjórnmálamanna í Evrópusambandinu eins og annars staðar að kæra sig ekkert sérstaklega mikið um hvað almenningi finnst, svo lengi sem markmiði stjórnmálamannanna er náð. Þetta er auðvitað mannlegur galli sem mun alltaf endurspeglast í stjórnmálum og þess vegna þykir mér svo mikilvægt að svona ákvarðanir í þjóðaratkvæðagreiðslu séu bindandi. Mér finnst það vera mjög mikið grundvallaratriði.

Hvað varðar Evrópusambandið efnislega, svo ég noti örfáar mínútur í það, þá hef ég oftast sagt, þó að ég eigi til að skipta um skoðun, milli daga jafnvel, að ég gæti ekki gert upp hug minn um hvort ég væri hlynntur því að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu fyrr en samningaviðræðum væri lokið. Ef þær eru komnar í strand, þá eru þær bara komnar í strand. Þá er það bara niðurstaðan. En það átti eftir að opna tvo kafla, landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann. Lykilkaflarnir. Það er endalaust hægt að tala um hvað hefði verið hægt og hvað hefði ekki verið hægt. Þá gleymist alltaf að Evrópusambandið er í sífelldri mótun og þróun. Hvað ef Evrópusambandið hefði ekki tekið neitt af þessu í mál eftir að við hefðum opnað kaflana og rætt þá? Ókei, þá hefði það verið niðurstaðan. Allt í lagi, meinti ég, virðulegi forseti. Biðst forláts á enskunni eða hvaða tungumál þetta var. En hvað varðar evruna eru auðvitað alltaf kostir og gallar. Það er alltaf hægt að finna ákveðin tímabil þar sem tiltekin peningaverkfæri eru góð og tiltekin peningaverkfæri eru slæm. Akkúrat núna á Íslandi t.d. er mjög fínt að vera með verðtryggt lán. Vextirnir eru það lágir að greiðslubyrðin er mun lægri en af óverðtryggðu láni. Einmitt núna. En ef maður tekur fyrir tímabilið frá 2008–2010, tja, ekki svo mikið. Þá voru aðrar aðstæður. Það er alveg eins með evruna eða hvaða gjaldmiðil sem er. Evran hefur ákveðna styrkleika sem felast fyrst og fremst í stærð hagkerfisins. Hún hefur ákveðna veikleika sem felast í ósveigjanleikanum sem henni fylgir. Það er svolítið erfitt að útskýra fyrir fólki sem telur að einhver ákveðin peningaverkfæri séu einfaldlega góð eða einfaldlega slæm að þau eru alltaf hvort tveggja. Þetta eru verkfæri sem hafa alltaf kosti og galla. Evran er engin undantekning á því.

Nú gætu lærðari menn en ég farið út í það hvaða mistök hafa verið gerð við upptöku evrunnar. Eftir stendur að hún er stærsti gjaldmiðill í 500 milljón manna samfélagi sem kallast Evrópusambandið. Þetta er gríðarlega stórt hagkerfi. Það er enn þá til staðar. Það eru vissulega vandræði en það er enn þá til staðar. Ég hef ekki trú á þessum dómsdagsspám um Evrópusambandið. Ég hef ekki trú á þeim þótt eitt ríki fari úr því. Það mætti líka færa þau rök að það sé bara fínt að það fordæmi sé til. Þá geta menn í framtíðinni a.m.k. gert ráð fyrir að sá möguleiki sé raunhæfur, að það sé mögulegt að ríki fari úr sambandinu og það þurfi að vera til einhver áætlun um það hvernig skuli standa að því. Svo gæti það bara komið aftur til baka. Mörgum finnst fáránlegt að vera alltaf að skipta um skoðun. Ekki mér. Mér finnst það reyndar mjög sjálfsagt.

Síðast en ekki síst langar mig aðeins að ýta við því sem er oft sagt um þessar viðræður, að þetta séu aðlögunarviðræður. Samt man ég ekki eftir einu einasta þingmáli sem við höfum afgreitt á þinginu sem var ætlað að taka til baka allan þann lagalega skaða sem ESB-umsóknin á að hafa valdið okkur. Ekki einu máli. Hins vegar vorum við í dag að greiða atkvæði um tvö EES-mál. Þar greiddu þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins atkvæði með EES-máli, sem er aðlögunarmál. Þetta eru allt aðlögunarmál vegna þess að EES þýðir aðgengi að markaðnum gegn því að við tökum upp þessi mál.

Mig langar á lokasekúndunum að vitna í umsögn frá Viðskiptaráði Íslands við eitt þingmálið í dag. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Að mati Viðskiptaráðs ætti löggjöf hér á landi að vera í samræmi við löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu eftir því sem mögulegt er.“

Ástæðan er ekki sú að Viðskiptaráði sé illa við Ísland, vilji brenna fánann og skipta um þjóðsöng heldur vegna þess að það er skynsamlegt að hafa samhæfðar reglur. Nú langar mig gjarnan að lengja ræðuna, virðulegi forseti, en skal virða klukkuna í þetta sinn.

(Forseti (EKG): Sem endranær, væntanlega.)



[17:41]
Flm. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Þó svo að ekki hafi margir hv. þingmenn tekið þátt í henni hefur hún verið mjög lífleg og sýnir kannski ágætlega fram á hvað Evrópusambandið er stórt mál, hvað það kemur víða við og hvað það hefur margt að segja um íslensk stjórnmál, íslenskan veruleika. Staðreyndin er sú að Evrópusambandið er stærsta ríkjabandalag okkar heimshluta og hefur þróast mjög mikið á þeim áratugum sem það hefur verið til.

Ákvörðun Breta, eins og hv. þingmaður benti á áðan, í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um að ganga úr Evrópusambandinu í svokölluðu Brexit-kosningunni er enn ein þróunin í þróunarferli Evrópusambandsins. Evrópusambandið gengur fyrst og fremst út á fjórfrelsið, sameiginlegan markað 500 milljón manna í tæplega þrjátíu löndum núna. Þetta fjórfrelsi hefur Íslendingum þótt eftirsóknarvert. Íslendingar gengu í þetta samband að miklu leyti með EES-samningnum og ánægja okkar hefur almennt verið nokkuð góð með að hafa þetta aðgengi að markaðnum. Þrátt fyrir að það sé vissulega dálítið skrýtið að við tökum upp bunka af reglugerðum og löggjöf sem við tökum vissulega beint upp frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn og EES-aðlögun hérna, þá er mjög mikið af þeirri löggjöf, sérstaklega þegar kemur að umhverfismálum, heilbrigðismálum, neytendamálum o.s.frv., mjög kærkomin viðbót við íslenska löggjöf og hefur í raun og veru gert okkur kleift að hafa miklu fullkomnari löggjöf en við ættum auðvelt með að þróa ein og sér.

Umræðan um Brexit-kosningarnar í Bretlandi og þá ákvörðun, sem kom mjög mörgum á óvart að Bretar skyldu taka, að ganga úr Evrópusambandinu, sýndi kannski fram á að menn hafa meiri trú á Evrópusambandinu sem stöðugleikaverkfæri en mætti halda frá almennri umræðu. Efasemdarmenn um Evrópusambandið hafa vissulega verið mjög háværir í umræðunni, sérstaklega eftir efnahagshrunin 2008, sér í lagi efnahagsvandræðin í Grikklandi og vandræði evrunnar á þessum árum. Samt er þeirri ákvörðun Breta að segja sig frá Evrópusambandinu almennt tekið sem óvissuákvörðun, að Bretland sé að sigla inn í óvissutíma. Þessi ákvörðun hefur haft mjög neikvæð áhrif á gengi breska pundsins og frekar valdið usla en hitt. Það er dálítið merkilegt að upplifa það meira að segja á Íslandi þar sem hafa mælst í skoðanakönnunum efasemdir um að við eigum að ganga í Evrópusambandið hrátt og án þess að vita nákvæmlega hvernig samningurinn lítur út. Meira að segja hér hefur umræðan um Brexit verið í þá áttina að við séum að sigla inn í meiri óvissutíma í Evrópu og okkar nágrenni heldur en hitt. Það þykir mér vera merki um þann hug sem við berum raunverulega til Evrópusambandsins. Og eins og hv. 10. þm. Reykv. n. benti á áður þá hefur evran, sem er gjaldmiðill mörg hundruð milljón manna samfélags, þrátt fyrir allt verið sterk og stöðugri en flestir gjaldmiðlar í heiminum síðustu árin, eftir 2008, þó svo að hún hafi vissulega gengið í gegnum ýmsar hremmingar.

Mig langar að nota síðustu mínúturnar af ræðu minni til að ræða hvað flutningsmönnum þessarar tillögu gengur til með að leggja til að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin meðfram alþingiskosningum 29. október. Vissulega skal ég taka undir með hv. þingmönnum sem hafa talað að það er stuttur fyrirvari á þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri sérstaklega stuttur fyrirvari á þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem ekki hefði verið mikið rætt og væri ekki vel þekkt í íslensku samfélagi. En það vill svo til að umsóknaraðildin að Evrópusambandinu eða samningaviðræður við Evrópusambandið í fjögur ár gera það að verkum að Íslendingar hafa ágæta hugmynd um Evrópusambandið og um hvað ræðir. Ástæðan fyrir því að 29. október er tekinn fram í tillögunni er sú að það er dagsetningin sem hefur verið í umræðunni fyrir þingkosningar núna í haust. Það er tekið fram sérstaklega í greinargerðinni að breytist sú dagsetning, því að hún er vissulega ekki fastákveðin enn þá, verði þessari tillögu breytt til samræmis við það. Hugsunin er að tengja þessa þjóðaratkvæðagreiðslu við alþingiskosningar. Bæði er það gert í hagræðingarskyni, til að nota ferðina ef svo má að orði komast, að kjósa um þetta málefni um leið og við göngum til kosninga þar sem hægt er að reikna með því að stór hluti þjóðarinnar muni greiða atkvæði hvort sem er, en líka til að tengja það þingkosningum frekar en öðrum kosningum. Ég held að mikilvægt sé að niðurstaða úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er um áframhald á viðræðum sem eru ákveðnar með samþykkt Alþingis, að þessi leiðbeining komi fram við þingkosningar og verði leiðbeining handa nýju Alþingi sem komi saman eftir þær kosningar. Það er ástæðan fyrir því að við leggjum þessa tillögu fram. Hún er ekki lögð fram í fyrsta skiptið núna. Hún er í raun og veru orðrétt, fyrir utan dagsetninguna, endurtekning á tillögu sem var lögð fram á síðasta löggjafarþingi, þá 626. mál, en það náði ekki fram að ganga þá. Þá var gert ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslan mundi eiga sér stað meðfram forsetakosningum núna í sumar en nú eru næstu kosningar sem sé áætlaðar 29. október og því leggjum við tillöguna fram og miðum við þá dagsetningu.

Ég endurtek að væri þetta nýtt mál sem þyrfti alvarlegrar og mikillar kynningar við hjá þjóðinni gæti ég vissulega tekið undir að þetta væri stuttur fyrirvari en þar sem hér er um mál að ræða sem hefur verið eitt stærsta málið í íslenskri umræðu a.m.k. síðan 2009 tel ég að íslenskum kjósendum sé vel treystandi fyrir því að taka afstöðu til spurningarinnar: Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar, já eða nei? Ég held að íslenskum kjósendum sé vel treystandi til að mynda sér skoðun á þeirri spurningu á þeim tveimur mánuðum sem eru væntanlega fram að alþingiskosningum 29. október.

Ég hef lokið máli mínu, takk.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til stjórnsk.- og eftirln. [Tillagan átti að ganga til utanríkismálanefndar; sjá leiðréttingu á 145. fundi.]