145. löggjafarþing — 138. fundur
 23. ágúst 2016.
náttúruvernd, 1. umræða.
frv. GÞÞ o.fl., 87. mál (rusl á almannafæri, sektir). — Þskj. 87.

[18:04]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Einhver kynni að segja að þetta sé mjög lítið mál vegna þess að það er mjög stutt, en þetta er hins vegar stórmál. Það er svo stutt að ég get lesið það án þess að taka mikinn tíma frá þinginu. Það hljómar svo, virðulegi forseti:

Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Öllum sem fara um hálendið og þjóðvegi landsins er óheimilt að fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri nema í þar til gerð ílát. Brot á ákvæði þessu varðar refsingu, sbr. 90. gr.

Og í 90. gr. kemur, virðulegi forseti:

Það varðar mann sektum að lágmarki 100.000 kr. ef hann brýtur ákvæði 2. mgr. 17. gr.

Lög þessi, ef þau ná fram að ganga, öðlast þegar gildi.

Hér er um það að ræða að okkar mestu verðmæti felast í náttúrunni af mörgum ástæðum. Núna kemur það beint fram í því að stærsta atvinnugreinin okkar sem skapar mestu útflutningstekjurnar er ferðaþjónustan. Ástæðan fyrir því að fólk vill koma hingað er sú að því finnst náttúra Íslands falleg, en hún er ekki falleg nema við göngum skynsamlega um hana og erum ekki með sóðaskap. Ég fékk hugmyndina að þessu frumvarpi þegar ég keyrði um fylki Bandaríkjanna þar sem á mörgum stöðum er afskaplega snyrtilegt, en maður sér líka reglulega þegar maður keyrir um þjóðvegina, sem oft eru í gegnum eyðimerkur eða ýmsa stórbrotna og fagra staði, að þar stendur á skiltum að fólk þurfi að borga óheyrilega háar fjárhæðir í sekt ef það hendir rusli. Þetta eru skýr skilaboð.

Einhver kynni að spyrja hvort þetta fari ekki gegn því sem ég hef oft talað um á þessum vettvangi, þ.e. frelsi. Ég held að því sé öfugt farið því að frelsinu fylgir ábyrgð. Það er alveg ljóst að þeir sem henda rusli búa til gríðarlega mikil útgjöld fyrir hið opinbera, fyrir skattgreiðendur, vegna þess að það er dýrt að tína upp eftir þess háttar sóðaskap.

Þessi tillaga fékk nokkra umræðu þegar ég kynnti hana fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þá kom m.a. fyrrverandi borgarstjóri sem lét sig þessi mál varða og taldi þetta eiga við meira en bara víðernin, þ.e. ekki síður borgarsamfélögin og sveitarfélögin. Mér finnst það vera sjónarmið sem menn þurfa að ræða. Miðað við umræðuna sem skapaðist þá skildist mér að hægt væri að hafa svona ákvæði í lögreglusamþykktum nú þegar. Umgengnin er orðið vandamál á mörgum svæðum, t.d. í okkar ástkæru höfuðborg, Reykjavík.

Ég heyrði í einum atvinnurekanda sem sagði mér að ferðamenn hefðu stoppað hann um daginn og spurt hann hvort borgarstarfsmenn væru í verkfalli. Hann kannaðist ekki við það og spurði af hverju væri spurt að því. Það var til komið vegna þess að það var svo sóðalegt á götunum í borginni. Það er eitthvað sem við þurfum auðvitað að laga sem allra fyrst.

Það hlytist gríðarlegur skaði af því ef almennt rusl væri að finna um hálendið okkar og kringum þjóðvegina, sums staðar er mikið rusl. Ég tel að við eigum að flýta okkur í að klára mál sem þetta, sem ég mundi ætla að væri góð samstaða um, og gefa skýr skilaboð um að slíkt verði ekki liðið.

Virðulegi forseti. Ég mælist til að þetta frumvarp fari til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.



[18:08]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er reyndar pínulítið ósammála hv. þingmanni um það sem hann sagði um frelsið, vegna þess að ég tel þetta vera frelsisskerðingu en hins vegar fullkomlega lögmæta. Ég vil hins vegar hrósa honum fyrir það að kalla hlutina það sem þeir eru. Þetta kemur oft upp í umræðu um tjáningarfrelsi. Þegar menn telja sig skerða það með réttu þá hætta þeir að kalla það skerðingu á tjáningarfrelsi. Þetta er auðvitað skerðing á frelsi en eins og ég segi algjörlega lögmæt, hér eru mjög skýrir, augljósir og ríkir almannahagsmunir í húfi sem réttlæta þetta fullkomlega. Þannig að ég ætla ekkert að kýta við hv. þingmann um það í sjálfu sér.

Spurning mín varðar hins vegar ekki það heldur langar mig að vita hvort hv. þingmaður geti varpað ljósi á það hvaðan þessi upphæð kemur. Það stendur 100 þús. kr. í frumvarpinu, hljómar ekkert verri en einhver önnur upphæð, en ég velti fyrir mér hvort upphæðin sé fengin frá einhverjum ákveðnum stað, hvort einhver ákveðin viðmið hafi ráðið því hvaða upphæð var valin eða hvort þetta sé einfaldlega tala sem er talin vera nógu ógnvekjandi til þess að menn stundi einfaldlega ekki þessa iðju.



[18:09]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alltaf hollt að velta því fyrir sér eins og hv. þingmaður nefnir hvenær við erum að skerða frelsi fólks. Það má alveg segja að það sé verið að skerða frelsi fólks til þess að henda rusli. En þá kemur maður náttúrlega að því sem ég held að allir hugmyndafræðingarnir sem voru að berjast fyrir frelsi og leggja út af frelsi sögðu, að frelsi fylgdi alltaf ábyrgð. Ef maður hendir rusli þá hefur það afleiðingar í för með sér. Það er eins og þegar við, án þess að ég vilji bera það saman, heftum frelsi fólks til þess að skaða annað fólk líkamlega og með öðrum hætti. Ég held að þetta sé mjög eðlileg frelsisskerðing. En það er hins vegar alltaf hollt að velta þessu upp.

Varðandi upphæðina þá skal ég viðurkenna að slíkar sektir tíðkast að vísu í miklu fleiri löndum. Ég nefndi Bandaríkin vegna þess að ég og mín fjölskylda höfum ferðast þar um og þetta vakti athygli mína þá. Þar var eitt mjög frægt átak, svo ég leyfi mér nú að sletta enskri tungu, virðulegi forseti, (HHG: Passa sig.) sem var kallað „Don't Mess vith Texas“. Þetta stóra ríki, sem er náttúrlega landfræðilega miklu stærra en flest Evrópuríki og fjölmennara en mörg í það minnsta, fór í heildarátak til að uppræta sóðaskap. Það voru miklu hærri upphæðir í sektir þar en 100 þús. kr. Maður getur aldrei komist að neinni vísindalegri niðurstöðu þegar kemur að þessum upphæðum. En hv. þingmaður hitti naglann á höfuðið þegar hann spurði hvort hugsunin væri sú að þetta væri ógnvekjandi tala.



[18:12]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti minnir á að þingmálið er íslenska og leggur til þýðinguna „abbast upp á Texas“. [Hlátur í þingsal.]



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.