145. löggjafarþing — 141. fundur
 29. ágúst 2016.
fjármögnun samgöngukerfisins.
fsp. SSv, 751. mál. — Þskj. 1251.

[15:38]
Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek að hluta til upp þráðinn þar sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sleppti honum í samtali hér við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, en fyrirspurnin lýtur að fjármögnun samgöngukerfisins til framtíðar.

Það liggur auðvitað fyrir að íslenska samgöngukerfið er verulega vanrækt nú um stundir og liggur fyrir líka í samþykktri ríkisfjármálaáætlun til fimm ára að hún er í raun vanræksluáætlun. Hún er áætlun um að halda áfram að vanrækja þessa mikilvægu innviði, bæði að því er varðar nýframkvæmdir og viðhald. Hér er um að ræða slíka lykilinnviði samfélagsins að það er mjög mikill ábyrgðarhluti að láta hjá líða að horfa til þess með ábyrgum hætti. Ljóst er að núverandi samgönguráðherra ætlar ekki að berjast fyrir því að þeirri stöðu verði breytt, enda eru svo sem kunnugleg stefnumið Sjálfstæðisflokksins skammt undan, sem eru vaxandi aðkoma einkafjármagnsins í öllum þáttum samfélagsins. Það er þekkt aðferð að svelta samfélagið þar til almenningur kallar eftir einkafjármagni og einkaframtaki inn í innviðina.

Eins og sakir standa hafa aukinheldur markaðir tekjustofnar ekki skilað sér svo viðunandi sé til samgönguframkvæmda á Íslandi. Tekjustofnarnir hafa ekki verið fullnýttir og ekki nýtt heldur það augljósa tækifæri sem felst í því að jafnvel hækka bensíngjaldið með lækkandi bensínverði, sem er augljóst tækifæri til að bæta í í fjármögnun kerfisins.

Meginmarkmið skattlagningar á ökutæki og eldsneyti er auðvitað bæði tekjuöflun og fjármögnun innviða en ekki síður það mikilvæga markmið sem hlýtur að vera alltaf til hliðar en þó óaðskiljanlegt frá því markmiði sem er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samgönguráðherra sem ber ábyrgð á þróun og uppbyggingu samgangna í landinu hlýtur að horfa til þess að tekjuöflun sé alltaf í takti við meginmarkmið varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Auðvitað má velta fyrir sér líka aðkomu samgönguráðherrans og samgönguráðuneytisins almennt í því að tryggja stöðu grænna sjónarmiða í þessu efni, að samgöngukerfið sé þannig uppbyggt að þeir sem nýta það helst standi straum af viðhaldi þess og uppbyggingu. Þannig værum við bæði að bæta þennan tekjugrunn samfélagsins og innviðanna og auk þess gæta að hinu mikilvæga umhverfissjónarmiði.

Eins og kom fram í orðaskiptum hv. þingmanns við fjármála- og efnahagsráðherra áðan er fjárfestingarhlutfallið allt of lágt í þessa mikilvægu innviði á Íslandi eða 1,3% af vergri landsframleiðslu sem fer í vegagerð. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða markmið og hvaða leiðir sér hæstv. ráðherra til þess að fjármagna samgöngukerfi (Forseti hringir.) sem er komið að fótum fram?



[15:41]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég held einmitt að mjög gagnlegt sé fyrir okkur að ræða svolítið framtíðina þegar kemur að þessum málum. En ég verð að hafna þeirri fullyrðingu hv. þingmanns að hér sé af hálfu þessa ráðherra og ríkisstjórnarinnar rekin sveltistefna í ríkisfjármálum. Það er auðvitað fjarstæðukennt þegar við blasir að verið er að búa til svigrúm til að fara í auknar framkvæmdir. Ríkisfjármálaáætlunin ber það líka með sér að svigrúm eykst á komandi árum. Ég get bara sagt við hv. þingmann að það er alveg fjarstæðukennt ef hún heldur að ég muni ekki berjast meðan ég hef afl til við að fá aukna peninga í þessa hluti.

Eins og þingmaðurinn veit er þetta kannski ekki einhlítt svar þessari spurningu. Við erum með margslungið samgöngukerfi, flugvelli, hafnir og vegi, umferðar- og öryggismál. Það er því af mörgu að taka þegar við lítum á þetta. Margir koma að fjármögnuninni í samgöngukerfinu; ríki, sveitarfélög, einkaaðilar og notendur sjálfir. Almenn stefnumörkun um uppbyggingu samgöngukerfis og rekstur sem snýr að ríkinu og þar með fjármögnun er sett fram í samgönguáætlun sem lögð er fyrir þingið og við vitum að er núna til umræðu í nefnd. Ég mun eingöngu fjalla um þetta mál út frá fjármögnun framkvæmda í samgöngum sem eru á ábyrgð ríkisins eins og það er skilgreint að lögum.

Við erum með, eins og þingmaðurinn þekkir, hafnir sem eru að hluta til hjá sveitarfélögum. Svo erum við líka með opinber hlutafélög, eins og Isavia sem annast rekstur Keflavíkurflugvallar. Hann er að fullu fjármagnaður með gjöldum á notendur. Miðað er við að svo verði áfram þó svo að einstakir liðir í gjaldtökunni taki breytingum í átt að meira gagnsæi og betri tengingar verði við kostnað. Innanlandsflugið er hins vegar á ábyrgð ríkisins. Þar er í gildi þjónustusamningur við Isavia um rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvalla landsins í samræmi við samgönguáætlun. Notendagjöld standa því undir þriðjungi rekstrarkostnaðar við flugvelli. Að öðru leyti er þetta fjármagnað úr ríkissjóði með þjónustusamningum.

Vegakerfið, framkvæmdir, viðhald og þjónusta, hefur til þessa verið fjármagnað með mörkuðum tekjustofni og eldsneyti skattað með svokölluðu sérstöku vörugjaldi. Undanfarin ár eins og við þekkjum hefur hlutfall eldsneytisskatta sem varið hefur verið til vegamála farið minnkandi. Það hefur verið svo um töluvert árabil. En á móti hafa að hluta komið framlög úr ríkissjóði. Með nýjum lögum um fjárreiður ríkisins eru markaðir tekjustofnar aflagðir og það boðar auðvitað nýja tíma í fjármögnun samgöngukerfisins. Við gildistöku laga um opinber fjármál, auk þróunar í átt að orkuskiptum í samgöngum sem fer nú fram í fjármálaráðuneytinu er verið að endurskoða þetta fyrirkomulag, gjaldtökumál í samgöngum. Ég vonast til að sjá þær tillögur núna á haustmánuðum. Við gætum jafnvel fjallað um þær að einhverju leyti í aðdraganda þeirra kosninga sem fram undan eru.

Á undanförnum árum hefur dregið verulega úr framlögum til samgöngumála þó svo að síðustu tvö ár hafi framlög lítillega hækkað. Svigrúm í ríkisfjármálum hefur aukist. Það er hins vegar ekki ótakmarkað og augljóst að þörf er á að forgangsraða. Áherslur í ríkisfjármálum eru á heilbrigðismál, menntamál og velferðarmál. Vandséð er að ríkissjóður geti við núverandi aðstæður lagt nægilegt fé af mörkum við uppbyggingu vegakerfisins á þann hátt sem við mundum helst vilja sjá og á þeim hraða sem við mundum helst vilja sjá við þá miklu umferð sem við nú þekkjum á þjóðvegakerfi landsins. Þess vegna tel ég að við þurfum að horfa til þess að athuga hvort fjölbreyttari leiðir séu færar til að ná því markmiði að betur gangi að komast á þann stað sem við teljum best.

Meðal þess sem kemur til greina að mínu áliti er að leita eftir samstarfi við lífeyrissjóði og aðra fjárfesta um einstaka framkvæmdir. Slíkt fyrirkomulag getur verið beggja hagur. Þjóðin fær ný og öruggari samgöngumannvirki og fjármagnseigendur, þ.e. lífeyrissjóðir, fá örugga langtímaávöxtun á sína fjármuni. Við þekkjum þetta ágætlega úr rekstri og uppbyggingu Hvalfjarðarganga og það hefur heppnast mjög vel þótt við höfum ekki gengið mikið lengra í þeim efnum. Við horfum mjög til Noregs og fylgjumst með því sem þar fer fram, þar sem slíkt samstarf hefur gengið alveg ljómandi vel. Ég held að við getum lært af öðrum þjóðum í þessu efni og ættum að skoða það nánar. Lengra er málið náttúrlega ekki komið að sinni.

Uppbygging og rekstur samgöngumannvirkja er gríðarlega mikilvægt og umfangsmikið verkefni sem varðar íbúa og atvinnulíf miklu. Mikilvægt er að við horfum til þess hvernig við getum skipulagt hlutina til framtíðar miðað við þær áskoranir sem nú blasa við okkur. Ekki er hægt að stilla því þannig upp að með þessu sé með einhverjum hætti verið að draga úr skyldum ríkisins og þeim miklu skyldum sem á ríkinu hvíla, heldur miklu frekar að segja sem svo: Það verkefni sem blasir við okkur núna er mjög stórt í sniðum og hefur farið vaxandi og skynsemi er fólgin í því að skoða hvort hægt sé að leita fjármögnunar með fleiri leiðum en við höfum notað til þessa.



[15:47]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í þessa umræðu. Það er auðvitað öllum ljóst að samgönguinnviðirnir munu að óbreyttu ekki halda í við álagið sem hraðvaxandi ferðaþjónusta veldur á þeim innviðum með miklu sliti á vegum og aukinni slysahættu. Dauðaslysum er farið að fjölga í umferðinni, á vegunum, fjölgaði úr þremur í níu á milli áranna 2014–2015 og slitið á vegunum er öllum ljóst. Þetta horfir allt í eina átt.

Hins vegar hef ég á tilfinningunni að fjármögnunin sé kannski ekki vandamálið þegar kemur að spurningunni um að halda við samgönguinnviðum og innviðum almennt. Eins og hefur komið fram í umræðum um ríkisfjármálaáætlun er 400 milljarða yfirflot á ríkissjóði. Þetta virðist vera spurning um vilja (Forseti hringir.) en ekki vöntun á fjármunum. Það er það sem ég hef þungar áhyggjur af, (Forseti hringir.) forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar og viljaleysi hennar til að fjárfesta í innviðum.



[15:48]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hef áhyggjur af því eins og margur þegar rætt er um samgönguáætlun til framtíðar. Það er alveg ljóst að þegar ráðherra leggur fram þessa samgönguáætlun á sínum tíma segir hún að þetta sé áætlun sem hún treysti sér til að standa við. Nú er búið að samþykkja ríkisfjármálaáætlun þar sem munar heilmiklum fjármunum, mörgum milljörðum. Því hlýtur spurning til ráðherrans að vera sú hvort hún geti stutt ríkisfjármálaáætlun sem harmónerar ekki við þá samgönguáætlun eða hvort hún geri ráð fyrir því að vinnan í samgöngunefnd beinist að því að skera hana niður til að mæta ríkisfjármálaáætlun.

Það hefði líka verið skynsamlegt að taka inn einhverja aura á eldsneyti þegar ljóst er að heimsmarkaðsverð á olíu er eins lágt og það er núna meðan verið er að ná inn peningum í ríkiskassann. Síðan verður maður auðvitað að spyrja: Hvað líður vinnu um innanlandsflugið og nefnd skilaði af sér um, getur ráðherra frætt okkur eitthvað nánar um það, (Forseti hringir.) þar sem lagt var til að lækka ætti verð á innanlandsflugi? Nú síðast er dæmi um fullorðinn einstakling(Forseti hringir.) og tvö börn frá Egilsstöðum til Reykjavíkur og til baka upp á 76 þús. kr., sem nær náttúrlega ekki nokkurri átt.



[15:49]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Bara örstutt athugasemd vegna þess að ég veit að mörgum finnst markaðir tekjustofnar í grundvallaratriðum góð hugmynd. Það kemur í ljós að mörgum innan stjórnsýslunnar finnst það vond hugmynd út af vandamálum sem geta stafað þar af. Mér finnst áhugavert að hugsa um vegakerfið og fjármögnun þess í því sambandi vegna þess að það er ákveðin tilhneiging hjá fólki til að hugsa með sér: Við notum einhverjar greiðslur af olíusölu eða einhverju því um líku til að greiða fyrir samgöngukerfin. Þá gleymir það því að við hljótum að horfa fram á miklar breytingar í því hvernig samgöngur virka í framtíðinni, og er reyndar eins gott að svo verði. Það þýðir að tekjustofnarnir sem væru notaðir til að fjármagna gatnakerfið mundu breytast mjög mikið ef þeir væru markaðir. Mig langaði að nefna þetta því að það er m.a. af þeim ástæðum sem mér finnst gott að tekjustofnar séu ekki lengur markaðir til þess að fjármagna þetta kerfi, því að það mun taka miklum breytingum í framtíðinni, vonandi og sem betur fer.



[15:51]
Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Mig langar vegna þess að hæstv. ráðherra hefur afar stuttan tíma til að bregðast við hér í lokin að spyrja hana að tvennu. Annars vegar er það hvað hún telji að eigi að vera meginmarkmiðið með fjármögnun samgöngukerfisins. Komið hefur fram að farnar hafa verið ýmsar leiðir, bæði með beinum framlögum úr ríkissjóði og svo með mörkuðum tekjum sem við þekkjum umræðuna um, sem hefur verið í tengslum við ríkisfjármálaáætlanir og breytta sýn á rekstur ríkisins. Þar aftur á móti glötum við ákveðnu samhengi á milli þess hvernig við innheimtum gjöld og hvernig við síðan ráðstöfum þeim, þ.e. umhverfissjónarmiðunum. Ég vildi fá að heyra aðeins í ráðherranum með þau sjónarmið, af því að þau eru mikilvæg frá hennar sjónarhóli.

Síðan sem fulltrúi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, sem er núna á lokametrunum fyrir kosningar að klára að vinna mál o.s.frv., langar mig að árétta spurningu sem kom fram í máli hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur sem snýst um það snúna viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir varðandi samgönguáætlun. Hæstv. ráðherra hefur talað um ríkisfjármálaáætlun og að það sé hið besta mál og gríðarlega gott plagg inn í framtíðina, leggur síðan sjálf fram tillögu til samgönguáætlunar þar sem gert er ráð fyrir meira fé og hæstv. ráðherra talaði sérstaklega um það þegar hún mælti fyrir samgönguáætlun að þetta væri áætlun sem hún treysti sér til að standa með vegna þess að hún var jú gagnrýnd ansi hressilega fyrir að þetta væru of lágar tölur. Nú spyr ég: Ef við ætluðum að vera skikkanlegir þingmenn sem værum í góðum takti við framkvæmdarvaldið, eigum við þá að skera þessa samgönguáætlun niður í samræmi við ríkisfjármálaáætlun?



[15:53]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég stóð hér og talaði fyrir samgönguáætlun, sem var reyndar lögð fram á undan ríkisfjármálaáætlun og er sverari en samgönguáætlun. Engu að síður er ég gagnrýnd mjög mikið fyrir að reka mikla sveltistefnu í samgöngumálum, allt með það.

Ég lít ekki þannig á varðandi samgönguáætlun og tölurnar sem þar birtast að það þurfi upp á punkt og prik að sjá þess stað í tölum fyrir hvert ár ríkisfjármálaáætlunar af því að það er svigrúm til staðar innan áranna. Ég sagði við þingið að mig langaði til að geta lagt fram áætlun sem talaði beint við ríkisfjármálaáætlunina. Það er augljóst að það var fullmikil bjartsýni af minni hálfu því að samgönguáætlun er að vissu leyti stefnumarkandi skjal. Og líka að það verður að vera þannig að hægt sé að bregðast við aukningu innan áranna. Þess vegna er svo mikilvægt að í samgönguáætluninni felist markmið sem eru viðráðanleg fyrir ríkissjóð að mæta.

Varðandi hinn þáttinn sem hv. þingmaður nefnir, og mér finnst reyndar afar mikilvægur, þá tökum við úr sambandi ákveðna tengingu sem er á milli háttalags, getum við kannski orðað það, og síðan fjármuna sem renna í samgöngukerfið þegar við tökum eldsneytisgjöldin af. Reyndar finnst mér bagalegt hversu mikið af því hefur þó farið í ríkissjóð sem átti að fara í samgöngukerfið. Það í mínum huga alveg skýrt að í vinnunni um framtíðarfjármögnun samgöngukerfisins er fráleitt annað en að taka mið af hagsmunum í umhverfismálum, bæði finnst mér það nauðsynlegt og skynsamlegt út frá hnattrænum sjónarmiðum og eins hér innan lands. Annað er að mínu áliti útilokað. Ég held að það komi aldrei til að menn líti ekki til þess þegar verið er að skipuleggja peninga í samgöngukerfið.