145. löggjafarþing — 141. fundur
 29. ágúst 2016.
ferðavenjukönnun.
fsp. SSv, 752. mál. — Þskj. 1252.

[15:55]
Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ljóst er að umræðan um samgöngumál er mjög samtvinnuð umræðunni um loftslagsmál. Því hefur jafnvel verið haldið fram þegar við horfum til breytinga á lífsháttum og neyslumynstri o.s.frv. að þá séu mestu sóknarfæri okkar í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í gegnum breytingar á samgönguvenjum og ferðavenjum.

Þar sem ég er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður og borgarfulltrúi í Reykjavík vill svo til að ég vissi þar um plagg, sem hefur verið gert a.m.k. tvisvar ef ekki oftar af hendi höfuðborgarinnar, sem er ferðavenjukönnun og snýst um það að við sjáum þróun þess hvernig ferðavenjur fólks eru, þ.e. hversu mikið fer fólk í strætó, hversu mikið hjólar það, hversu mikið gengur það og hversu mikið notar það einkabíl. Vegna þess að þær kannanir tala síðan við áætlanir hins opinbera á hverjum tíma um uppbyggingu kerfanna, um það að hve miklu leyti við þurfum að bæta í að því er varðar sérstakar akreinar fyrir almenningssamgöngur eða sérstakar akreinar fyrir reiðhjól, að styrkja samgöngunet fyrir þá sem kjósa að ganga o.s.frv. Höfuðborgarsvæðið er það svæði samgöngukerfisins á Íslandi sem mest mæðir á. Þarna býr samgönguráðherra vel að geta nýtt sér slíkar upplýsingar sem höfuðborgarsvæðið hefur lagt sig fram um að halda til haga til að geta metið þróun þessa hlutar daglegs lífs hjá almenningi á Íslandi.

Við eigum orðið allnokkur ár þar sem við höfum verið að auka áherslur til að mynda á almenningssamgöngur um landið allt. Við höfum verið að bæta í strætó og við vitum að töluverð aukning hefur verið á notkun strætó úti um land. Við vitum líka að töluverð aukning hefur verið á því að fólk notfæri sér strætó jafnvel milli byggðakjarna, það er búsett á einum þéttbýlisstað og vinnur á öðrum og nýtir sér strætó til að komast á milli. En við höfum ekki tölurnar. Við höfum ekki tölurnar nákvæmlega um hvernig fólk gerir þetta og hvernig það vill gera þetta. Það sama gildir um strætó og reiðhjól. Við sjáum að það vex mjög mikið að fólk noti reiðhjól allt árið um kring. Við sjáum dúðaðar hjólakempur í roki og byl um hávetur. Þetta eru mikilvægar breytingar og mikilvægar breytingar í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem er eitt af okkar stærstu verkefnum.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki rétt og tilefni til að láta (Forseti hringir.) gera ferðavenjukönnun fyrir landið allt.



[15:58]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hreyfa þessu máli. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að ferðavenjukannanir gegna mikilvægu hlutverki að því leyti að þær geta gefið ákveðna mynd af því hvernig rétt er að þróa samgöngukerfi og stuðla að því að við fjárfestum rétt. Til að hægt sé að skipuleggja slíkt kerfi með hagkvæmni og heildarábata að leiðarljósi er nauðsynlegt að afla upplýsinga um upphafs- og endastöð þeirra sem nota samgöngukerfið og hvernig. Þetta á sérstaklega við um uppbyggingu þéttbýliskjarna en getur líka verið mikilvægt víðar um land svo skipuleggja megi samgöngukerfið heildstætt.

Ferðakannanir hafa verið unnar af hálfu ríkisins í rúman áratug og hefur Vegagerðin komið að gerð þeirra, oftast í samvinnu við aðra. Flestar ná aðeins til höfuðborgarsvæðisins, eins og hv. þingmaður nefndi, en nokkrar fjalla einnig um aðra landshluta og byggðarkjarna. Þá hafa verið unnar ferðavenjukannanir á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega. Þær hafa, eins og hv. þingmaður nefndi, verið notaðar við ákvörðunartöku.

Innanríkisráðuneytið hefur síðustu tvö ár verið þátttakandi í ítarlegum rannsóknum á skóla- og vinnusóknarsvæðum í samstarfi við Byggðastofnun, Skipulagsstofnun, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ráðgjafarfyrirtækið Viaplan, sem hefur annast rannsóknirnar. Hafa þær verið styrktar af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Lokið er rannsókn á ferðavenjum innan vinnu- og skólasóknarsvæðisins á höfuðborgarsvæðinu, á Miðausturlandi einnig. Nú er verið að vinna að gerð slíkrar áætlunar á Vestfjörðum. Þá verða sambærilegar rannsóknir unnar á vinnu- og skólasóknarsvæði Akureyrar og Húsavíkur á næstunni. Áform eru um að gera slíkar úttektir á öllum vinnu- og skólasóknarsvæðum landsins til að greina mörk þeirra, m.a. hvernig fólk ferðast daglega og hversu langt eða lengi það er reiðubúið til að aka, hjóla eða fara með strætó getum við sagt eða eftir atvikum annars konar rútukostum, eða ganga til og frá skóla eða vinnu.

Notkun samgöngukerfisins hefur einnig breyst mikið síðustu ár og ekki síst núna á allra síðustu missirum vegna fjölgunar ferðamanna. Verulegar líkur eru á því að breyttir lífshættir og tækniþróun hafi haft og komi til með í enn ríkari mæli að hafa áhrif á ferðavenjur. Ekki síst í því ljósi hef ég íhugað hvort ekki sé þörf á að efla reglulegar rannsóknir á ferðavenjum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land.

Við þekkjum það að víða erlendis eru kannanir framkvæmdar reglulega á því hvaðan fólk er að koma og hvert það er að fara innan samgönguneta, þá sérstaklega vegamannvirkja. Þetta eru ítarlegri upplýsingar en við höfum verið að safna, en rannsóknirnar eru að sjálfsögðu töluvert kostnaðarsamar. Við þurfum að mínu mati áður en ákvörðun verður tekin um að fara í slíkar rannsóknir á landsvísu að kanna hvernig afla megi upplýsinga sem þessara á sem skilvirkastan hátt. Mér skilst að í nágrannalöndum okkar hafi verið horft til þess að notfæra þróun í tækni- og upplýsingakerfum betur. Í því sambandi þarf auðvitað að stíga varlega til jarðar út af persónuverndarsjónarmiðum.

Kjarni málsins og kannski það stutta svar við fyrirspurn hv. þingmanns er að ég tel að ferðavenjukannanir séu mjög mikilvægar í að meta það og skoða hvernig við eigum að þróa hlutina til lengri tíma. Ég held að mjög mikilvægt sé líka að líta á samspil milli þeirra sem aka á sínum eigin bílum og þeirra sem fara aðrar leiðir. Ég held að það sé mikilvægt, ekki einungis nefnilega á höfuðborgarsvæðinu, þótt það sé kannski með dálítið öðrum formerkjum heldur en annars staðar, en ekki síst á vegum landsins, og að við gerum okkur grein fyrir því hvers konar umferð þar er um að tefla, því að við erum líka hreinlega að horfa á það hvers konar umferð er á vegakerfi og samgönguinnviðum landsins.

Ég tek því undir með hv. þingmanni að slíkar rannsóknir þyrfti að gera. Við höfum núna eins og gefur að skilja, ekki síst í kjölfarið á þessari fyrirspurn, farið yfir þetta svið eins og ég hef reynt að gera í þessu svari og komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að gera slíkar heildstæðar kannanir.



[16:03]
Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og má segja að tilganginum sé náð með fyrirspurninni, því að það var einfaldlega mitt markmið með fyrirspurninni að hvetja ráðherrann til dáða í þessu efni. Ég tel að markmiðið með henni hafi skilað sér að öllu leyti þegar þessi ítarlegi skilningur ráðherrans kemur fram í hennar góða svari.

Ekki er síður mikilvægt en að kortleggja venjur eða ferðavenjur almennings að gera sér grein fyrir því sem mætti kannski kalla ferðavæntingar almennings, þ.e. með hvaða hætti fólk mundi vilja sjá kerfið þróast, af því að kerfið er náttúrlega í stöðugri skoðun. Þá eigum við ekki síst að hlusta eftir því hvaða væntingar ungt fólk hefur til þess hvernig innviðir og samgöngukerfi eigi að þróast vegna þess að þar erum við hreinlega í samkeppni um búsetukosti við löndin í kringum okkur. Við sjáum að það vex ekki ungu fólki í augum að flytja utan þegar það hefur vegið og metið kosti og galla við að búa á Ísland. Þá erum við með samgöngukerfið meðal annars undir. Við erum auðvitað með fæðingarorlofskerfið, leikskólana, lánasjóðinn, húsnæðiskerfið, mjög margt annað sem ungt fólk horfir til þegar það ber saman kosti og möguleika. En eitt af því sem einkennir svo mikið daglegt líf og ég held að við þekkjum öll sem höfum búið um lengri eða skemmri tíma erlendis, er sá möguleiki að komast á milli staða án þess að vera háður einkabíl, þ.e. geta með tiltölulega auðveldum hætti nýtt sér almenningssamgöngur, treyst því að það sé gott, þétt og öruggt kerfi til að komast á milli staða. Þar held ég að við verðum að gæta þess að vera ekki eftirbátar nágrannaþjóða okkar.



[16:05]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég held að óhætt sé að segja að sú unga kynslóð sem vex núna úr grasi lítur á sjálfa sig sem miðdepil í heiminum, ef við orðum það bara þannig. Ég efast um að hún muni víla það fyrir sér, ungviðið okkar, að fara þangað sem henni sýnist til að leita að ævintýrum og tækifærum. En við þurfum auðvitað að gera okkur grein fyrir því á Íslandi þegar við skipuleggjum öll okkar mál að við viljum hafa okkar unga fólk hér. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við viljum endilega að það fari til útlanda og komi til baka aftur, það er það sem við viljum. Við viljum hafa það þannig að fólkið komi heim og við höldum áfram að þróa okkar ágæta land og okkar samfélag.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég held að fróðlegt væri að gera sér betur grein fyrir væntingum kynslóðanna. Ég gæti trúað því að það sé ögn mismunandi á milli kynslóða hvernig fólk lítur á samgöngukerfið og hvað það vill sjá í notkun. Ég býst líka við að töluvert mikill munur sé sums staðar á landinu miðað við höfuðborgarsvæðið eða stærri þéttbýliskjarna. Ég hef enga almennilega tilfinningu fyrir því sjálf hvernig það er í raunveruleikanum. Maður getur haft einhverja skoðun á því að hér á þessu svæði séu sjónarmið með einhverjum öðrum hætti, en áhugavert væri að spyrja að því. Ef maður vill ráðast í stórar kannanir þarf auðvitað að spyrja að sem flestu. Það er ekki síst spennandi að spyrja að því hvernig fólk vill hafa hlutina.