145. löggjafarþing — 143. fundur
 31. ágúst 2016.
störf þingsins.

[15:03]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Nefnd á vegum heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum fíkniefnaneyslu hefur skilað af sér og í samtali við Stöð 2 í gær sagði formaður nefndarinnar að niðurstaðan væri veruleg afstöðubreyting í fíkniefnamálum. Og hver er hún? Jú, helsta tillagan er sú að fangelsa ekki fyrir það að bera á sér neysluskammta fíkniefna heldur sekta frekar fyrir athæfið.

Virðulegi forseti. Þetta hefur ekki verið viðhaft hér, fólki hefur ekki verið hent í fangelsi fyrir það eitt að bera á sér neysluskammta. Þetta veit starfshópurinn auðvitað en leggur til að lögum verði breytt svo þau verði í takt við það hvernig þeim hefur verið framfylgt. Hér er því ekki um neina raunverulega breytingu að ræða nema kannski að lögð er enn meiri áhersla á sektirnar. En það á ekki að sekta fólk eins og mig sem velur sér áfengi sem sinn vímugjafa, bara hina sem velja sér önnur vímuefni. Þá er mikið talað um skaðaminnkun í þessum tillögum en það gleymist alveg að gera grein fyrir því hvernig sekta á fíkniefnaneytendur, hvernig sektir fara með hugmyndum um skaðaminnkun og þeirri hugmyndafræði að aðstoða eigi fíkla við að komast úr heimi fíknar.

Svo er líka eftirtektarvert að fulltrúi ríkislögreglustjóra í nefndinni treystir sér ekki til að greiða atkvæði með þessum tillögum, sem sumum þykja vera stórt skref í rétta átt. Af hverju er það? Af því að hlutverk nefndarinnar var, með leyfi forseta, að „skapa heildstæða stefnu, sem leggur höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda“.

Mig langar þess vegna til að vita hvernig fulltrúi ríkislögreglustjóra gat verið á móti tillögunum. Með því að vera á móti hlýtur hann beinlínis að ganga gegn tilgangi og meginverkefni hópsins, ekki nema þessi fulltrúi lögreglunnar hafi viljað ganga lengra og lögleiða önnur fíkniefni eins og gert er með áfengi. Ef svo væri gæti ég skilið það og tekið undir því að það er morgunljóst að vímuefnaneytendur (Forseti hringir.) verða ekki edrú eða bættir borgarar með neikvæðum hvötum frá ríkinu. Þarna þarf að beita forvörnum og aðstoð umfram allt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:06]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Greinilegt er á umræðunni hér á Alþingi að kosningar eru í nánd. Margir þingmenn býsnast yfir því hvað útgerðin greiðir lítið til samfélagsins og hóta að hækka það svo um munar svo hægt verði að bæta í heilbrigðiskerfið eða eitthvað annað sem nauðsynlegt er að bæta. Ekki þarf annað en að skoða skipasölurnar til að sjá að kosningar eru í nánd því að sjaldan hafa fleiri litlar útgerðir verið til sölu. Ég trúi því ekki að þeir þingmenn sem á tyllidögum vilja að hér þrífist blönduð útgerð, allt frá smábátum til togara, geri sér grein fyrir því hvað neikvæð umræða um fjölskylduútgerð sægreifa, eða hvaða nöfn þeir kunna að nota, geta haft á þessa útgerðarflóru sem er þó enn við lýði, sem betur fer.

Eftir því sem við sáum fleiri óvissufræjum fyrir kosningar fjölgar þeim einyrkjum sem fyllast ótta um starfsöryggi sitt og afkomu og selja. Hverjir kaupa? Það eru þeir stóru. Mikið hefur verið rætt undanfarið um svokallaða uppboðsleið, líkt og Færeyingar gerðu tilraun með. Hver var útkoman þar? Örfá fyrirtæki keyptu sem voru meira og minna í eigu útlendinga. Er það það sem við viljum?

Hvar endar markaðshyggja vinstri manna? Reynum að sjá fyrir okkur hver útkoman verður hér á landi. Hverjir koma til með að kaupa? Verða það litlu fjölskyldufyrirtækin, einyrkjarnir eða kannski bara stóru fyrirtækin sem eru meira og minna í eigu lífeyrissjóða og stórra fjárfesta?

Hvert er eðli markaðarins? Það er að þeir sterku kaupa. Hvað gerist hjá þeim sem ekki fær? Bíður hann með sinn bát í ár eða lengur og vonar að hann fái næst? Hver hefur efni á því? Er það einyrkinn sem hefur engar aðrar tekjur eða sá stóri sem hefur fleiri tekjuleiðir? Hvað þarf sá stóri að kaupa oft til að sá litli keppi ekki oftar um veiðiheimildir?

Tölum skýrt en ekki í blekkingum. Það er pólitísk ákvörðun ef við viljum fækka einyrkjum í útgerð og hafa fá og stór sjávarútvegsfyrirtæki sem geta vafalaust greitt talsvert hærri veiðigjöld. Uppsjávarfyrirtækin hafa fengið (Forseti hringir.) að hagræða að vild og standa vel. Viljum við sjá þá þróun í bolfiskinum?



[15:08]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Undanfarið hefur heyrst sú skoðun að samkeppnisstaðan á fjölmiðlamarkaði sé ójöfn, hún sé ósanngjörn og komi í veg fyrir að einkareknir fjölmiðlar sem flestir eða allir verða að reiða sig á auglýsingatekjur geti vaxið og dafnað og þar með sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Ég er sammála þessu viðhorfi. Það er þó nauðsynlegt að hafa eitt í huga. Ef við ætlum að taka RÚV út af auglýsingamarkaði eða skerða tekjur félagsins kannski um milljarð eða meira verður að svara þeirri spurningu hvort og þá hvernig bæta eigi félaginu upp tekjumissinn. Á að auka framlög úr ríkissjóði eða draga úr þjónustu? Þetta er lykilspurning sem verður að svara. Það er ekki hægt að ákveða einhliða að breyta tekjumódeli RÚV nema ákveða framtíð þess í leiðinni.

Rekstur einkarekinna, lítilla fjölmiðla er þungur og það verður að styðja þá og styrkja. Fjölmiðlun er einn af hornsteinum lýðræðis og lýðræðislegrar umræðu í þjóðfélaginu. Það er skylda okkar að hlúa að þessum miðlum þótt ekki sé nema til að tryggja að sem flestar raddir fái að heyrast í þjóðfélagsumræðunni.

Það er hins vegar ekki sjálfgefið að sú aðgerð að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði með einu pennastriki gagnist nógu vel. Það er t.d. ekki víst að auglýsendur beini auglýsingum sínum jafnt á alla aðra miðla. Það er hætta á að þeir smæstu verði út undan.

Annar möguleiki er að hækka verðskrá RÚV á auglýsingum verulega til að gefa öðrum á þessum markaði aukið rými til athafna. Það er of lítill munur á verði auglýsinga sem leiðir til þess að auglýsendur velja oft RÚV.

Loks vil ég nefna þann möguleika að setja þak á auglýsingatekjur RÚV. Í dag nema þessar tekjur um 2,2 milljörðum á ári. Hægt væri að setja þak á þessa upphæð þannig að hún verði t.d. 1,5 milljarðar á ári og síðan gæti sú upphæð smám saman lækkað. Þá yrði að bæta félaginu upp tímabundið þennan tekjumissi. Þetta er umræða sem við verðum að taka í tengslum við framtíð Ríkisútvarpsins.



[15:10]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sveitarfélögin í landinu sinna mikilvægri grunnþjónustu. Það er Alþingi til vansa að frumvarp sem leiðréttir hlut þeirra í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er óafgreitt eftir að hafa legið hér inni í nærfellt ár og kom fram á árinu 2015 frá hæstv. innanríkisráðherra. Sveitarfélögin áttu að fá bætta þá hlutdeild sem þau urðu af vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar sem nemur um 4,8 milljörðum kr. Sveitarfélögin hafa frá hruni, flest ef ekki öll, þurft að skera niður í mikilvægri grunnþjónustu og stakkur stærri sveitarfélaganna sérstaklega er nú um stundir mjög þröngt skorinn.

Það er mikilvægt að grunnþjónusta í sveitarfélögunum líði ekki fyrir það að hér á Alþingi séu ekki afgreidd mál sem tryggja sveitarfélögunum auknar tekjur í samræmi við samninga sem ríkið og sveitarfélögin hafa þegar gert. Slíkir samningar verða að ganga eftir og Alþingi má ekki liggja á liði sínu við það að skapa sveitarfélögunum þau rekstrarskilyrði sem ríkisstjórnin og sveitarfélögin hafa komið sér saman um. Málefni sveitarfélaganna og sú grunnþjónusta sem þar er varðar hvert heimili í landinu og ég legg áherslu á að ramminn sem þeim er sniðinn þarf að vera hafinn upp yfir flokkapólitík og upp yfir gíslatöku í nefndum þingsins.



[15:12]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Þegar dregur nær kosningum eykst eðlilega spenna og pólitískur titringur. Það mátti og greina í umræðunni á Alþingi í gær um búvörulög og búvörusamning, við greinum þetta í opinberri umræðu. Í umræðu um búvörulögin var að greina slíkan spennutón en þrátt fyrir allt fannst mér sú umræða afar góð og málefnaleg og mun vafalítið taka á sig frekari mynd þegar við ræðum það mál áfram og svo síðar um tollasamninginn.

Þessi spenna kristallast vel í þeirri pólitísku spurningu hversu mörg mál og hvaða mál þingið ætti að klára og mikilvægt er að klára eða yfir höfuð ástæða til að klára áður en yfir lýkur, áður en þingið lýkur störfum, við klárum hina pólitísku baráttu og þjóðin kýs sína fulltrúa.

Virðulegi forseti. Ég mundi auðvitað helst vilja að þessi hæstv. ríkisstjórn sæti sem lengst. Verk hennar tala sínu máli en fyrst og síðast er þessari hæstv. ríkisstjórn umhugað um að klára þann sáttmála sem hún gerði og lofaði þjóð sinni.

Það hefur þessi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sannarlega gert og er umhugað um að ljúka vel við. Það er ástæða til að benda á það hér hver verk þessarar hæstv. ríkisstjórnar hafa verið því að stóra myndin er afar hagfelld. Auðvitað erum við í kapphlaupi við tímann en þannig verður það ekki alltaf. Þrátt fyrir að nú séu uppi óvenjulegar aðstæður með styttra kjörtímabil hefur hingað til, hæstv. forseti, verð ég að segja, í góðri samvinnu við þingflokksformenn, stjórn og stjórnarandstöðu, sem ég vil jafnframt hrósa, verið haldið uppi góðum vinnubrag og það er engin ástæða til annars en að ætla að við klárum þetta með sóma.



[15:14]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Aðalfundur eignarhaldsfélags Kaupþings fór fram í gær. Þar voru bónusgreiðslur til um 20 starfsmanna félagsins samþykktar með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þessa ákvörðun nema að nú er nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Þær hugmyndir sem voru ræddar í þinginu í gær voru margar hverjar mjög áhugaverðar. Ég hef því óskað eftir því að eiga sérstaka umræðu við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um málið og ég vona svo sannarlega að sú umræða fari fram sem fyrst.

Það var samt annað sem ég ætlaði að ræða í dag. Í dag eru fréttir af verulegri aukningu umferðar um Hvalfjarðargöngin það sem af er þessu ári. Þetta er í samræmi við upplifun fólks sem keyrir þessa leið um göngin og Vesturlandsveg og margir hverjir á hverjum degi. Mikill þungi umferðar kemur úr þeim sveitarfélögum sem liggja hvað næst Hvalfjarðargöngunum norðan megin en eins og fram kom fyrir nokkru síðan aka um 2.000 bílar þessa leið dag hvern úr þeim sveitarfélögum. Þar er m.a. um að ræða fólk sem sækir vinnu og skóla í höfuðborginni. Þessir einstaklingar borga talsvert í ferðakostnað til að komast til og frá vinnu eða skóla. Það er óhætt að segja að mörgum finnist þessi kostnaður ósanngjarn þar sem þetta er eina leiðin úr höfuðborginni þar sem gjaldtaka fer fram. Öll gerum við okkur grein fyrir því að umferðarþunginn er orðinn mikill um Hvalfjarðargöngin og Vesturlandsveg og nauðsynlegt verður áður en langt um líður að fara í úrbætur á þessum vegum. Auk þess hafa átt sér stað umræður um fyrirhugaða Sundabraut sem verður vonandi að veruleika innan einhverra ára og tel ég að hún verði mikil samgöngubót fyrir svæðið.

Í þessu samhengi langar mig að minnast á þingsályktunartillögu sem ég lagði fram í þinginu 5. október 2015. Hún fjallaði um að þeim skattskyldu mönnum sem þurfa að greiða háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Tel ég að það fyrirkomulag sem tillagan kveður á um, þ.e. að taka upp skattafslátt vegna ferða til og frá vinnu, gæti verið skref í rétta átt við að styrkja atvinnusvæði víða um landið og jafnframt jákvætt fyrir fólk sem þarf að greiða talsverðar upphæðir til að komast til og frá vinnu eða í skóla. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga nái fram að ganga, (Forseti hringir.) hún væri mikið framfaraskref.



[15:17]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ein af aukaafurðum þess þegar viðskiptabankarnir voru á sínum tíma afhentir kröfuhöfum (Gripið fram í.) var sú að 3% eignarhlutur í Landsbanka Íslands var afhentur völdum starfsmönnum. Það má segja að þetta sé framlag hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar til nýfrjálshyggjukapítalistagræðgisvæðingarinnar, svo notuð séu hans eigin orð. Þessi 3% klíka hefur síðan stjórnað Landsbankanum þrátt fyrir þessa litlu eignaraðild og þjóðin sem á þennan banka hefur ekki haft nein tækifæri til að hafa áhrif á rekstur hans eða hvernig hann fer fram. Hvernig hefur þetta kristallast? Þetta hefur m.a. kristallast í því hvernig farið var með eignarhluta ríkisins í Borgun sem var seldur fyrsta manni sem bankaði á dyrnar með hörmulegum afleiðingum sem síðan hafa kristallast. Þetta hefur líka komið fram í því að það mál ætlar engan endi að taka.

Nú hefur komið í ljós að það virðist svo sem það sé einhver leyniþráður á milli Landsbankans og eigenda Borgunar. Þannig bárust fréttir af því mjög nýverið að Landsbanki Íslands hefði selt einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu til eins af lykilstjórnendum Borgunar undir því verði sem Landsbankinn hafði áður fengið tilboð í, þ.e. Landsbankinn hafði fengið tilboð í þessa eign mánuði áður og seldi hana mánuði síðar lykilstjórnanda í Borgun á lægra verði.

Ég hlýt að spyrja: Hversu lengi á þetta mál að ganga svona án þess að Fjármálaeftirlitið geri neitt? Hversu lengi á þetta mál að ganga svona án þess að kjörnir fulltrúar á Alþingi hafi neitt um það að segja? Hversu lengi eiga menn sem sitja í skjóli 3% eignaraðildar og víla og díla, afsakið orðbragðið, um málefni þjóðarinnar sem á eign þessa í bankanum? Er ekki kominn tími til að hreinsa út þessa bankastjórn?



[15:19]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú er verulega illt í efni svo ekki sé meira sagt. Staðan sem komin er upp vegna framkvæmda í tengslum við Bakkaverkefni svokallað er með fádæmum slæm. Nú standa menn frammi fyrir því að uppbygging og ferli sem hefur verið unnið að árum saman er í hættu. Um er að ræða 80 milljarða fjárfestingu sem stefnt er í voða vegna kærumála.

Helst dettur mér í hug að hér sé um meinbægni að ræða því samfélagslegir hagsmunir eru gríðarlegir og margir eiga mikið undir. Menn hafa unnið samkvæmt öllum reglum á öllum stigum málsins. Sveitarfélög sem að málinu koma hafa unnið samkvæmt ákvæðum skipulagslaga og í þeim öllum er aðalskipulag í gildi. Vera má að menn sem stóðu fyrir kærumálum hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þeirra og hafi hugsað þessa aðgerð sem prófmál inn í framtíðina. Ef svo er er þetta algerlega út í hött og fráleitt að koma inn á lokastigi í þessu verkefni til að fá framtíðarsýn í meðferð framkvæmda.

Ákvæði um hraun sem njóta sérstakrar verndar hafa verið í lögum frá 1999 og því einkennilegt að nú vilji menn kollvarpa öllu sem gert hefur verið á grunni nýrra laga. Þetta mál snýst í raun um stutta línulögn yfir Eldhraun. Við skulum hafa í huga að Eldhraun hefur verið brotið víðsvegar og við þurfum ekki að horfa lengra en til nágrannasveitarfélaga höfuðborgarinnar til að sjá það. Skiptir máli hvar á landinu er verið að framkvæma, spyr sá sem ekki veit?

Þetta verkefni hefur verið unnið í breiðri sátt og pólitískri samstöðu fram að þessu. Það er því ekki undarlegt að heimamönnum sé brugðið og finnist það jafnvel sorglegt þegar einstaka þingmenn gleðjast yfir því að framkvæmd skuli vera komin í uppnám og menn standi frammi fyrir miklu tjóni. Nú er mál að linni. Við verðum að finna leiðina út úr þessum ógöngum og koma þessum málum í þann farveg að hægt sé að vinna áfram í breiðri sátt að uppbyggingu til framtíðar og við glötum ekki trúverðugleika okkar.



[15:21]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Krafan um ofurskatt á ofurlaun er vöknuð á ný af fullum þunga og að gefnu tilefni því hvað er til ráða þegar samþykktir eru kaupaukar til starfsmanna fjármálafyrirtækja sem nema milljörðum króna í samfélagi þar sem barnafjölskyldur, láglaunafólk, aldraðir og öryrkjar eiga varla í sig eða á. Hvers konar samfélag er það sem horfir þegjandi upp á slíkan ójöfnuð? Við getum ekki sem siðað samfélag sætt okkur við það brjálæði að menn sem hafa það að aðalstarfi að hirða eignir af fólki og fyrirtækjum í umboði kröfuhafa skuli fá í kaupauka tugföld árslaun verkamanns.

Nú hafa stjórnarþingmenn sagt í fjölmiðlum að ómögulegt sé fyrir löggjafann að hafa áhrif á þetta og ekki sé hægt að taka geðþóttaákvarðanir þegar menn geri eitthvað sem talið sé óæskilegt því að málið varði ekki almannahagsmuni, eins og það er orðað. Ég vil andmæla þessu sjónarmiði sem hefur komið fram opinberlega því að málið varðar almannahagsmuni og það er hlutverk löggjafans að setja lagaramma um almenn ásættanleg skilyrði til að tryggja frið og sátt í samfélaginu.

Ofurgreiðslur í kaupaukum eru ögrun við almennt velsæmi. Þær ýta undir úlfúð og vinnudeilur, grafa undan jafnvægi og sátt í samfélaginu og þeim hefur verið mótmælt af aðilum vinnumarkaðarins, almenningi, þingmönnum og fleirum. Það væri óskandi að þessi vinnustaður gæti tekið hlutverk sitt alvarlega sem löggjafa og stemmt á að ósi varðandi þessa ósvinnu með lagasetningu.



[15:24]
Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Fyrst nokkur orð um ofurbónusana. Þeir eru til skammar og samræmast ekki gildum siðaðs samfélags. Ætlum við virkilega ekkert að læra af hinum fleygu orðum fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Styrmis Gunnarssonar, í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem hann sagði:

„Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Ég neita að búa í slíku samfélagi.

Að öðru máli sem skiptir okkar samfélag miklu máli en það er tillaga til þingsályktunar sem lögð hefur verið fram þar sem 25 þingmenn úr öllum flokkum óska eftir því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um flugvöll í Vatnsmýrinni. Ég vona að þetta mál komi til umræðu sem allra, allra fyrst á Alþingi. Ég fagna einnig aðkomu Ólafar Nordal að málinu í gær með bréfi sem hún sendi til borgarstjóra.

Bara til þess að menn geri sér grein fyrir hvað við erum að tala um mikilvægt mál er ég með nokkrar staðreyndir um sjúkraflug úr BS-ritgerð í hjúkrun frá árinu 2014. Það eru farin 500 sjúkraflug á ári og 100 þyrluflug á Íslandi. 20% af þeim eru svokölluð forgangsflug þar sem líf liggur við. Aldur sjúklinga er allt frá nýfæddum börnum til 95 ára gamals fólks. Flest eru flugin frá Akureyri og næst koma Vestmannaeyjar. Sjúklingar eru oftast fluttir suður vegna hjarta- og æðasjúkdóma eða alvarlegra áverka. Af niðurstöðum í ritgerðinni má álykta að sjúklingar sem fluttir eru með sjúkraflugi til Landspítalans séu að jafnaði alvarlega veikir eða slasaðir. Þá fer sjúkraflugum þar sem um bráða og mögulega lífsógn er að ræða fjölgandi. (Forseti hringir.) Þess vegna er flugvallarmálið eitt mikilvægasta mál í okkar samfélagi í dag.



[15:26]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ef maður ætlar að komast eitthvert skiptir ekki bara máli hversu stór skref maður tekur, það skiptir verulegu máli og mestu máli að maður taki þau í rétta átt. Mig langar að fagna nýútkominni skýrslu heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, en hún er komin í kjölfar vinnu starfshóps sem m.a. sá sem hér stendur tók þátt í. Ég fagna því sérstaklega, ekki aðeins að hún sé komin fram heldur að þar hefur tekist að fá alla helstu aðila til að taka skrefin í rétta átt. Það hefur verið gagnrýnt, m.a. af hv. þm. Björt Ólafsdóttur, og af góðri ástæðu að mati þeirra sem eru sammála henni, eins og ég, að þetta sé ekki stórt skref, ekki stórt stökk. Það er rétt. En það er einkenni þess að þetta er hóflegt skref, þetta er yfirvegað skref og þetta er í raun og veru mjög sjálfsagt skref vegna þess að hér erum við að tala um það að breyta fyrirkomulagi vímuefnamála í þá átt að áherslan sé á mannúð, að áherslan sé á það að hjálpa þeim bágstöddu í staðinn fyrir það að ala á refsingum og hatri, en það hefur því miður oft verið einkenni stefnu stjórnvalda hér sem víðar um heiminn gagnvart vímuefnamálum og það er röng átt. Það voru skref í ranga átt, virðulegi forseti.

Að vísu er ekki tími til að ræða þessa skýrslu hér og nú en vonandi gefst tækifæri til þess síðar. Þar er margt sem er mjög mikilvægt fyrir réttindi fólks sem er í vímuefnaneyslu, hvort sem það á við vandamál að stríða eða ekki. Þótt skrefið þyki ekki mjög stórt fyrir þá sem vilja ganga lengra, eins og ég vil og hv. þm. Björt Ólafsdóttir vill og fleiri, er þetta í það minnsta til tilbreytingar skref í rétta átt.



[15:28]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sem talaði á undan mér að lýsa ánægju minni yfir þeirri skýrslu sem lögð var fram í gær. Starfshópur hefur unnið að því í tvö ár að koma með tillögur að því sem kallað er að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu og það er virkilega ánægjulegt að skýrslan er komin fram. Gerðar eru tillögur um að í stað þess að fangelsa fólk fyrir að vera með neysluskammta á sér komi fjársektir. Í flestum tilfellum er það væntanlega ungt fólk sem er með neysluskammta á sér. Það er náttúrlega ekki gott fyrir neinn að fara í fangelsi en ég held að það sé sérstaklega óhollt fyrir ungt fólk að fara í fangelsi.

Ég fagna því líka að lagt er til að brot af þessu tagi verði ekki til þess að fólk lendi á sakaskrá. Það er sérstaklega ánægjulegt að það sé tekið í burtu.

Síðan er lagt til að fjölgað verði afeitrunarplássum sem tiltæk eru með litlum fyrirvara. Það er líka gott, virðulegi forseti.

Eitt atriði enn er að einstaklingi sem sprautar vímuefnum í æð verði tryggður aðgangur að gjaldfrjálsri nálaskiptaþjónustu. Þetta er líka mjög góð tillaga vegna þess að það skiptir máli að fólk, sem er komið á þann stað í lífinu að það sprautar sig, noti þó a.m.k. verkfæri til þess sem (Forseti hringir.) skaðar það ekki enn frekar. Ég fagna þessari skýrslu.



[15:30]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa ánægju minni með gang þingstarfanna frá því að þing kom saman í ágúst, bæði hér í þingsal og ekki síður við vinnu í nefndum með fjölda mála. Staðreyndin er að þingmenn allra flokka vinna af krafti í nefndum, sækja nefndarfundi og lesa heilu doðrantana milli nefndarfunda. Það kemur hins vegar fyrir að ekki er fjölmenni í þingsalnum enda vitum við það öll sem hér störfum að þegar þingmenn hafa ekki í hyggju að blanda sér í umræður í þingsal um einstök máls getur tími þeirra nýst mun betur í vinnu sé vinnunni sinnt annars staðar en í þingsalnum. Enginn vandi er að fylgjast með umræðum í þingsal nokkurn veginn hvar í heiminum sem þingmenn eru staddir.

Það skiptir okkur öll máli sem hér störfum að mest af þeirri vinnu sem við höfum lagt í skili sér áfram með einhverjum hætti í gegnum þingið. Eitt af þeim málum sem mér er mikið í mun að Alþingi taki fyrir og ljúki með formlegum hætti sem fyrst er heimild til fullgildingar Parísarsamningsins í loftslagsmálum. Þrátt fyrir að fullgildingin krefjist ekki lagabreytingar er mikilvægt að Alþingi taki samninginn til umfjöllunar. Parísarsamningurinn er það mikilvægur fyrir framtíð okkar allra að æskilegt er að Alþingi samþykki sérstaka heimild til fullgildingar samningsins fyrir Íslands hönd. Því fyrr sem Ísland fullgildir samninginn því betra, því að Parísarsamningurinn tekur fyrst gildi 30 dögum eftir að 55 aðilar sem eru ábyrgir fyrir a.m.k. 55% af útblæstri í heiminum hafa fullgilt samninginn. Fullgilding af Íslands hálfu á árinu 2016 yrði því lóð á vogarskálar þess að samningurinn öðlist sem fyrst fullt gildi.



[15:32]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ástandið í Tyrklandi er grafalvarlegt. Í gær bárust fréttir af því að alþjóðasamtök dómara, Evrópusamtök dómara og dómarafélög víðs vegar hafi mótmælt fjöldahandtökum og fangelsunum á tyrkneskum dómurum. Undanfarin ár hefur verið þrengt að tyrkneskum dómstólum og um 3 þúsund tyrkneskir dómarar voru handteknir strax eftir valdaránstilraunina þar í landi.

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, hefur óskað eftir fundi með forsætisráðherra um málið. Ég fagna því. Það er því miður rík ástæða til að óttast um mannréttindi í Tyrklandi. Það eru ekki bara dómarar sem hafa verið handteknir, þingmenn, aðallega kúrdískir, hafa verið sviptir þinghelgi eða sitja undir hótunum um slíkt. Fjöldi blaðamanna hefur verið fangelsaður.

Formaður Dómarafélagsins bendir á að eitt og sér geti Ísland kannski ekki lyft neinu grettistaki en vonast til að Ísland láti í sér heyra því að þrátt fyrir allt sé Tyrkjum ekki sama um hvað sagt er um þá í öðrum löndum.

Það er hárrétt. Í síðustu viku lögðum ég og fleiri þingmenn fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi skoraði á tyrknesk stjórnvöld að standa vörð um lýðræði, frelsi þjóðernisminnihlutahópa, borgaraleg réttindi og frjálsa fjölmiðlun í Tyrklandi. Það leið ekki langur tími þar til a.m.k. sú er hér stendur fékk bréf frá tyrkneska konsúlnum í Noregi um að ég væri að misskilja stöðuna í Tyrklandi.

Við þessar aðstæður er það skylda annarra ríkja (Forseti hringir.) að láta í sér heyra og Ísland á að gera það þótt smátt sé. Kannski væri einn liður í því hreinlega að taka þessa þingsályktunartillögu á dagskrá og samþykkja hana.



[15:35]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er enn langt í land að hægt að segja að búið sé að jafna orkuverð í landinu þótt bæði hæstv. iðnaðarráðherra og fleiri þingmenn eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hafi fullyrt að ríkisstjórnin sé búin að jafna orkuverð í landinu. Það kom fram að í síðasta fjárlagafrumvarp vantar í það minnsta 400 milljónir upp á að jafna dreifingu rafmagns og dreifingu á flutningi á orku þar sem ekki er búið við jarðvarmaveitu. Það getur verið allt að þrefaldur munur á kostnaði við að kynda og greiða fyrir rafmagn á heimilum hér á höfuðborgarsvæðinu og víða úti um land. Ég fékk upplýsingar um það nýlega að í Ólafsvík hefðu orkureikningar hækkað, sem áttu þvert á móti að lækka vegna þess að það var samþykkt frumvarp um jöfnun innbyrðis meðal dreifiveitna og átti það að stuðla að lækkun þar sem menn eru með rafmagnskyndingar og fjarvarmaveitur. Það fylgdi því líka að það gæti hækkað á sumum stöðum, sem hefur komið í ljós að hefur gerst. Ég tel mjög brýnt að það sé greint nákvæmlega hvernig niðurstaðan hefur verið þegar upp er staðið, hvort virkilega séu heimili þar sem mikill orkukostnaður var fyrir sem standa frammi fyrir því að hann hækki enn frekar þegar jöfnun innbyrðis í kerfinu átti að vera til góða.

Það var líka eitt sem við vinstri græn gagnrýndum harðlega og það var að inni í þessari jöfnun voru ekki stóriðjufyrirtækin eða stórnotendur, eingöngu þeir sem voru innan dreifiveitna. Ég tel mjög mikilvægt að jafna aðstöðumun fólks úti um land hvað varðar orkukostnað, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, háhraðatengingu (Forseti hringir.) og menntun, því að þetta er gífurlegt byggðamál og skiptir miklu máli.