145. löggjafarþing — 144. fundur
 1. september 2016.
hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála.

[10:39]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra er vinsæll í dag, (Gripið fram í: Nú?) enda heilbrigðismálin ofarlega í hugum landsmanna. Ég er á nokkuð svipuðum slóðum og hv. þm. Oddný Harðardóttir. Fyrir liggur að í vor tóku fulltrúar allra flokka við stærstu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar þar sem 86.761 Íslendingur skrifaði undir áskorun til stjórnvalda um að framlög til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu yrðu aukin í 11%. Það var heilmikið rætt um þá tölu, hvort það væri rétta viðmiðunartalan. Undir þetta skrifuðu 86.761 Íslendingur. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur réttilega sagt að framlög hafi verið aukin. Það er rétt. En mig langar að spyrja: Þegar við ræðum þessi 11% er átt við heildarútgjöld, ef við miðum bara við opinberu útgjöldin af landsframleiðslu ættu þau kannski að vera rúmlega 9% af vergri landsframleiðslu. Allir fulltrúar allra flokka tóku við þessari söfnun, tóku henni vel og sögðust allt vilja gera. En síðan hefur ríkisfjármálaáætlun til fimm ára verið samþykkt sem snýst um það hvernig þessir tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vilja skipta þjóðarkökunni til næstu fimm ára. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað gerir fjármálaáætlunin, því að ekki er alveg einfalt að lesa það út úr áætluninni, ráð fyrir að hlutfall til heilbrigðismála af vergri landsframleiðslu verði árið 2021 þegar áætluninni lýkur? Hvert verður hlutfall til heilbrigðismála af vergri landsframleiðslu? Er það ekki mikilvæg tala til að hafa í pólitískri umræðu þegar rúmlega 86 þúsund Íslendingar (Forseti hringir.) hafa skrifað undir áskorun í fjölmennustu undirskriftasöfnun sögunnar um að þetta skuli vera hlutfallið til heilbrigðismála?



[10:41]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að heilbrigðismálin eru sá málaflokkur sem er mikið til umræðu í aðdraganda kosninga. Það er mjög af hinu góða að mínu mati. Ég fagna þeirri umræðu. Ég geri líka kröfur til þess að sú umræða sé málefnaleg og byggð á réttum grunni. Mér finnst hv. þingmaður, hér fyrirspyrjandi, nálgast hana með þeim hætti. Það er alveg augljóst mál að það kemur víða við sálina hjá fólki þegar eins og á síðasta kjörtímabili eru teknir 27 milljarðar út úr rekstri Landspítalans. Eðlilega vekur það upp sár. Eðlilega vilja menn berja fljótt til baka þann gjörning. (Gripið fram í.) Með sama hætti hefur það áhrif á heilbrigðisþjónustu annars staðar í kerfinu. Spurt er úr sal af hverju það hafi ekki verið gert. Það eru margir sem hafa áhuga á því að koma í fyrirspurn og ég beini þeim tilmælum til virðulegra og hv. þingmanna að setja sig á mælendaskrána í stað þess að grípa sífellt frammí fyrir manni þegar maður er að reyna að svara hv. fyrirspyrjanda.

Það er spurt út í undirskriftasöfnun og hvernig fjárframlög og fjármálaáætlunin mætir henni. Hún mætir henni að mínu viti ágætlega. Ekki til fulls. Við erum töluvert frá því markmiði sem sett hefur verið fram og er umdeilanlegt, hvort 11% af landsframleiðslu eigi að ganga til þessa málaflokks. Það hefur legið fyrir í svörum manna að það nemi tugum milljarða króna, ef við ætlum að ná því. Ég er ekki á þeim stað að það sé endilega hin æskilegasta viðmiðun. Ég er á þeim stað að fjárframlög til málaflokksins eigi að taka mið af þeim verkefnum sem við getum sinnt og viljum sinna innan heilbrigðisþjónustunnar. Ég skal enn og aftur ítreka í umræðunni um heilbrigðismálin, (Forseti hringir.) með fullri virðingu fyrir Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi, að það er fleira gert á sviði heilbrigðisþjónustu í þessu landi en að vinna góð verk við Fossvog og Hringbraut.



[10:44]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra svarar því til að áætlunin mæti ekki þessu hlutfalli. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Áætlunin gerir ráð fyrir 3% hagvexti, þannig að raunaukningin til heilbrigðismála, ef hún á að ná einhverju tilteknu hlutfalli af landsframleiðslu, hlýtur þá að verða ansi mikil og spyr því hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst okkur hvert þetta hlutfall sé og hvort hann sé reiðubúinn þá síðar, ef það liggur ekki fyrir, að koma fram með það, því að þetta eru mikilvægar tölur sem þurfa að liggja fyrir. Hins vegar vil ég segja, því að hæstv. ráðherra vísaði til síðasta kjörtímabils og Landspítalans, við skulum ekki gleyma þeim tölum sem við þekkjum öll og að Landspítalinn hefur átt við niðurskurðarkröfu að etja allt frá aldamótum, allt frá árinu 2000. Það er ekki sanngjarnt hjá hæstv. ráðherra að mínu viti að nefna hér einungis síðasta kjörtímabil þegar allir vita að hagkerfið á Íslandi hrundi, þó að sumir stjórnmálamenn virðist vilja gleyma því stundum í umræðum. Það var gríðarlega erfiður tími fyrir samfélagið allt. (Forseti hringir.) Við verðum að horfa hreinlega á þróunina t.d. frá aldamótum og hún er hluti af því að erfiðara var fyrir heilbrigðiskerfið að takast á við hrunið.



[10:45]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kynnti sem sagt fjárlaganefndinni öll framlögin til mismunandi málaflokka í heilbrigðismálum þegar fjármálaáætlunin var lögð fram. Ég skal koma þeirri kynningu til hv. fyrirspyrjanda. Ég er því miður ekki með þetta allt í kollinum eða á hraðbergi og skal glaður koma þeim upplýsingum á framfæri. Þær liggja allar fyrir. Það er um að ræða verulega aukningu á mörgum sviðum heilbrigðismálanna í þeirri áætlun sem þarna liggur fyrir, en við getum endalaust tekist á um það hvort þetta sé nægilega mikið hér eða nægilega mikið þar.

Þegar rætt er um samdráttinn í heilbrigðisþjónustu og Landspítalinn nefndur sérstaklega þá getur maður vissulega tekið fleiri svið heilbrigðismálanna. Það sem ég er að benda á er að við erum þokkalega sammála um að þessi málaflokkur þurfi meiri umhyggju. Við verðum þá líka að standa saman um það og vera einhuga í því að bæta fjármunum inn í hann. Ég minnist t.d. tillagna sem lágu hér (Forseti hringir.) fyrir við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári, fyrir fjárlög (Forseti hringir.) ársins 2016. Ég bið (Forseti hringir.) hv. þingmann að ganga aðeins inn í huga (Forseti hringir.) sjálfs sín og skoða þær tillögur sem þar (Forseti hringir.) komu fram, bæði frá (Forseti hringir.) stjórn og stjórnarandstöðu og spyrja sig hvort þær samrýmist þeim kröfum (Forseti hringir.) sem uppi eru í dag.