145. löggjafarþing — 145. fundur
 5. september 2016.
skattlagning bónusa og arðgreiðslna.

[15:24]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Mikil umræða hefur verið að undanförnu um háa bónusa. Fólk er eðlilega reitt enda eru áformin ekki í takt við þau viðmið sem við sem samfélag settum okkur eftir hrun. Hæstv. fjármálaráðherra sagði við þetta tilefni að bónusarnir lyktuðu af sjálftöku en bætti því við, sem skiptir líka máli, að bónusgreiðslur væru meðhöndlaðar eins og tekjur. Og svona gríðarlega háar tekjur launafólks eru skattlagðar tæplega til helminga. Ég hef áhuga á að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem segir þessar greiðslur lykta af sjálftöku: Hvað finnst honum þá um háar arðgreiðslur fyrirtækjaeigenda í sinn eigin vasa? Það er auðvitað þannig, eins og hv. ráðherra veit, að eigendur fyrirtækja ákveða sjálfir hve mikið þeir greiða sér í arð þegar hagnaður er af rekstri þeirra.

Það er kannski allt í lagi, en það sem ég vek athygli á í þessu sambandi er að hér erum við að ræða margfaldar upphæðir á við þá bónusa sem hæstv. ráðherra fyrirlítur. Arðgreiðslurnar eru ekki hundrað milljónir, þær eru taldar í milljörðum. Það er það sem skiptir máli þegar við ræðum um misskiptingu í þessu landi, þegar við ræðum um ríka eina prósentið, það eru þessar stærðir sem skipta máli. Það sem skiptir máli er hvernig við í stjórnmálunum og lagakerfið tökum á þessu því að bónusar eru skattlagðir hátt í 50% en fjármagnstekjuskattur er aðeins 20%.

Það er staðreynd að þau fyrirtæki sem bera mestan hagnað og borga sem mestan arð í íslensku samfélagi eru sjávarútvegsfyrirtækin. Bara frá því að hæstv. fjármálaráðherra tók við hafa arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja verið á milli 12–14 milljarðar á ári en á sama tíma hefur hann og ríkisstjórn hans lækkað veiðigjöld sem þessu nemur, með þeim rökum að greinin hafi bara ekki efni á þeim.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra fyrir mér hvernig hann raðar því upp fyrir sér að Kaupþingsmenn sem launþegar beiti sjálftöku varðandi 100 millj. kr. þegar (Forseti hringir.) fáir eigendur fyrirtækja, sér í lagi í sjávarútvegi, greiða sér milljarða í arð árlega. (Forseti hringir.) Hvaða form af sjálftöku er það í huga hv. ráðherra (Forseti hringir.) og hvaða hlutverki finnst honum hann sjálfur hafa í þessum gjörningi (Forseti hringir.) þar sem hér er fyrirkomulag sem býður upp á 20% skatt af þessum (Forseti hringir.)



[15:26]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Það er erfitt að bregðast við öllum þessum spurningum á tveimur mínútum en ég ætla að gera mitt besta. Ég sagði að mér fyndist þetta hafa yfirbragð sjálftöku vegna þess hvernig þessi fyrirtæki hafa orðið til. Hluthafahópurinn er ekki hluthafahópur sem fjárfesti í þessum félögum heldur endaði hann uppi sem hluthafahópur eftir nauðarsamningagerð þegar félögin höfðu þurft á því að halda að fara dómstólaleiðina því að þau lentu í greiðsluerfiðleikum. Maður hefur á tilfinningunni að það séu mörg þúsund á bak við þessi félög en að það sé ofboðslega þröngur píramídi sem taki ákvörðun um þessa hluti efst í hluthafahópnum. Þar með kemur það yfirbragð sem ég lýsti með þessum hætti.

Mig langar til að vekja athygli á því að það skiptir máli að bónusarnir eru skattlagðir eins og laun, en eftir því hvort fyrirtækin sem þarna eiga undir greiða sérstakan fjársýsluskatt eða ekki geta skattgreiðslur vegna þessara bónusgreiðslna orðið allt að tæpum 59%. Það er nú ekki hægt að gera lítið úr því hvers konar gríðarleg skattlagning er á þessar greiðslur nú þegar samkvæmt lögum. En það fer á endanum eftir því, og ég á eftir að komast til botns í því, hvort þessi félög teljast falla undir sérstaka fjársýsluskattinn.

Varðandi arðgreiðslur annarra fyrirtækja í landinu, hvort sem það eru sjávarútvegsfyrirtæki eða önnur, finnast mér þau sjónarmið sem ég viðraði áðan alls ekki eiga við. Það er auðvitað með allt öðrum hætti. Þau félög eru skattlögð í tvígang: Í fyrsta lagi er óheimilt að greiða út arð nema það sé óráðstafað fé og þar hafi verið hagnaður á fyrri árum; sá hagnaður hefur verið skattlagður með tekjuskatti og síðan er arðgreiðslan skattlögð með fjármagnstekjuskattinum eins og hér var nefnt. Það verður að hafa í huga að endanlegur skattur vegna hagnaðar er í raun og veru (Forseti hringir.) miklu meiri og það er allt annað yfirbragð á arðgreiðslum (Forseti hringir.) vegna hagnaðar í atvinnustarfsemi (Forseti hringir.) en því sem við ræðum hér um.



[15:29]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að stilla þessu tvennu upp saman því að ég er sammála því að þessar bónusgreiðslur eru algerlega úr takti við annað. En þegar við skoðum háu fjárhæðirnar í íslensku samfélagi, þetta ríka eitt prósent, það fáa fólk sem hefur það svo langsamlega best — þar koma peningarnir inn. Þetta eru fyrirtækjaeigendur sem gengur vel og greiða sér mikinn arð í eigin vasa. Það er gott ef fyrirtækjum gengur vel en ég vil sjá þann pening fara aftur í fjárfestingu innan fyrirtækisins svo það geti stækkað og verið þjóðhagslega hagkvæmt, sú hringrás öll.

Hæstv. fjármálaráðherra skautar algerlega fram hjá spurningu minni. Ég spurði um tvískinnunginn. Auðvitað er það sjálftaka að greiða sér arð, alveg eins og hitt er sjálftaka. Finnst honum í lagi (Forseti hringir.) að bjóða upp á svo lága skatta á þessar gríðarlegu upphæðir?



[15:30]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki fallist á að það sé sjálftaka þegar menn greiða sér arð í atvinnustarfsemi. Það er bara ekki í nokkru samhengi við þá umræðu sem verið er að vísa til og tengist bónussamningunum sem ég hef farið yfir hér. Því er haldið fram að við höfum lækkað veiðigjöldin svo mjög að það muni milljörðum og að mismunurinn hafi verið greiddur út í arð. Það er alrangt. Þessi ríkisstjórn hefur tekið á annan tug ef ekki á þriðja tug milljarða í veiðigjöld umfram það sem gert var á síðasta kjörtímabili.

Þó að reglunum hafi verið breytt hefur engin ríkisstjórn nokkru sinni tekið jafn há veiðigjöld innheimt í ríkiskassann og við höfum gert á þessu kjörtímabili (BjÓ: Þetta er bull.) Ég ætla að senda hv. þingmanni sem kallar hér fram í yfirlit yfir þessar greiðslur þannig að hún geti dregið til baka þau orð sín sem hún kallar hér fram í, að þetta sé bull, því að það er staðreynd.

Að öðru leyti verð ég að segja eins og er að mér finnst skattlagningin eðlileg. Og það er líka rangt sem hér er sagt að (Forseti hringir.) það sé of mikið um að menn taki út arð og setji ekki aftur inn í starfsemina. Ég vek t.d. athygli á því hvað (Forseti hringir.) stærsta fyrirtækið á Íslandi í sjávarútvegi, Samherji, hefur gert í því efni. (Forseti hringir.) Ég hvet menn til að líta eftir því hversu ofboðslega hátt hlutfall hagnaðarins (Forseti hringir.) hefur farið aftur í innri fjárfestingu í því félagi og ekki verið greitt út sem arður.