145. löggjafarþing — 145. fundur
 5. september 2016.
veiðigjöld og fjármögnun rannsókna í sjávarútvegi.

[15:32]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem verður kosið um núna er hvernig þjóðin á að fá að njóta tekna af auðlindum sínum. Arðgreiðslur í sjávarútvegi hafa hækkað frá því að hafa verið 5,3 milljarðar á árinu 2011 í 13,5 milljarða á síðasta ári. Veiðigjöld hafa á sama tíma lækkað frá því að vera 13 milljarðar árið 2011 eða 2012 í að vera 5,3 milljarðar á síðasta ári. (Gripið fram í.) Þetta eru opinberar tölur, virðulegi forseti.

Æ sér gjöf til gjalda, segir máltækið, kannski veiðigjalda í þessu tilfelli. Ég vil spyrja hæstv. atvinnuvegaráðherra hvernig hann telji rétt að fjármagna rannsóknir, atvinnuþróun og nýsköpun í auðlindagreinum eins og sjávarútvegi úr því að hann og hans ríkisstjórn sér ástæðu til að lækka svo mjög veiðigjaldið á sjávarútvegsfyrirtækin. Það var eitt af fyrstu verkum þessarar ríkisstjórnar að afnema fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem byggði á því að nýta veiðigjöldin til samfélagslegra verkefna, til þess að fjármagna rannsóknir í sjávarútvegi, til þess að sinna nýsköpun og atvinnuþróun en líka til þess að standa undir mjög mikilvægri innviðauppbyggingu á borð við stór samgöngumannvirki sem allir atvinnuvegir þurfa á að halda, ekki síst sjávarútvegurinn.

Ég vil spyrja virðulegan ráðherra: Hvernig vill hæstv. ráðherra fjármagna þessa hluti úr því að veiðigjöldin eiga ekki að koma þar inn? Hvernig vill hann tryggja fjármögnun t.d. innviðauppbyggingar í framtíðinni? Sér ráðherrann fyrir sér að auðug atvinnugrein eins og sjávarútvegurinn eigi ekki að skila frekari tekjum í ríkissjóð en nú er? Sér hann fyrir sér óbreytt ástand í þeim efnum?



[15:34]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að segja að það þekkja það allir sem eitthvað fylgdust með á þeim tíma að sú fjárfestingaráætlun sem hér var nefnd var vitanlega ekkert nema kápan eða umbúðirnar einar. Það var ekki búið að fjármagna hana að neinu leyti og þetta var einhver óskalisti sem fyrri ríkisstjórn setti fram. (Gripið fram í.) Jú, þetta er alveg hárrétt. Síðan vil ég segja, því að hér er talað um að einn atvinnuvegur eigi að fjármagna innviði landsins, að það er náttúrlega ekki boðlegt að ætlast til þess að einn atvinnuvegur eigi að fjármagna innviði, samgöngur eða eitthvað slíkt. Við hljótum þá að spyrja í rauninni hvert annað: Viljum við að eingöngu þessi atvinnugrein sem nýtir auðlindir landsins borgi auðlindagjald eða viljum við að allar atvinnugreinar sem nýta auðlindir landsins með einhverju hætti greiði gjald fyrir það? Hóflegt gjald, ætla ég þá að leyfa mér að segja, sem dregur ekki úr mætti viðkomandi atvinnugreinar til þess að fjárfesta.

Ég væri til í að ræða þau mál, hvort við eigum ekki að hafa það þannig að þær atvinnugreinar sem nýta auðlindirnar greiði fyrir einhvers konar hóflegt gjald. Það má aldrei vera þannig að það dragi úr fjárfestingum. Það verður líka að vera þannig ef innheimt er slíkt gjald — og nú ætla ég að tala eins og við framsóknarmenn höfum ályktað um — að hluti af því renni til rannsókna, renni til byggðamála þess vegna eða til byggðanna aftur og hluti í ríkissjóð. Það hefur ekki verið reglan fram að þessu. Þetta er hins vegar eitthvað sem við í Framsóknarflokknum höfum lýst yfir og höfum mikinn áhuga á að sjá gerast í framtíðinni.

Mun það duga til að fara í alla þá innviðauppbyggingu sem hv. þingmaður virðist vera að tala um? Nei, örugglega ekki. Þá höldum við að sjálfsögðu áfram að fjármagna aðra innviðauppbyggingu úr ríkissjóði eins og gert hefur verið. Gleymum því ekki að hvort sem um er að ræða sjávarútvegsfyrirtæki eða einhver önnur þá greiða þau sjálfsagt til ríkissjóðs háa skatta og gjöld af starfsemi sinni önnur en þau gjöld sem hér rætt er um.

Ég er mjög upptekinn af því að við horfum ekki eingöngu á sjávarútveginn þegar við ræðum þessi afnotagjöld eða hvað við köllum þau, heldur verðum við að horfa á stóru myndina. Og enn og aftur, þau auðlindagjöld sem hér er um rætt og hv. þingmaður hefur talað fyrir í mörg, mörg ár er bara landsbyggðarskattur. (Forseti hringir.) Hér er landsbyggðarþingmaðurinn, fyrir hönd Samfylkingarinnar, enn og aftur að tala fyrir því að skattleggja landsbyggðina sérstaklega hátt.



[15:36]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra fer hér með mikil öfugmæli og því fer fjarri að hægt sé að tala um veiðileyfagjöldin í auðugustu atvinnugrein landsins sem landsbyggðarskatt því að þau gjöld væri svo auðveldlega hægt að láta renna til byggðanna til þess að næra og styrkja samfélagsleg verkefni sem þær sjávarbyggðir þurfa mest á að halda sem urðu harðast fyrir barðinu á því kvótakerfi sem sveltir ákveðnar byggðir, eins og málum er háttað. Það er ekki rétt sem ráðherrann segir hér að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar hafi verið tómur pappír. Hún var fullfjármögnuð, meðal annars af þeim veiðileyfagjöldum sem lögð voru á en þessi ríkisstjórn lækkaði úr 13 milljörðum árið 2012 í 5,3 milljarða á síðasta ári.

Ég spurði raunar ráðherrann almennt um tekjur af auðlindanýtingu en tók sjávarútveginn sem dæmi því að það er auðvitað borðleggjandi dæmi sem auðugasta atvinnugrein landsins. Það hefur ekki verið reglan að láta tekjur af auðlindanýtingu renna til rannsókna og nýsköpunar, (Forseti hringir.) sagði ráðherrann. Það var svolítið skemmtilegt að heyra þau ummæli (Forseti hringir.) vegna þess að það var nú einmitt það sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði til í þeirri fjárfestingaráætlun (Forseti hringir.) sem þessi ríkisstjórn afnam strax í upphafi þessa kjörtímabils.



[15:38]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur löngu komið fram að þessi fjárfestingaráætlun var orðin tóm. Þetta var marklaust plagg. Það vita allir. Mig langar hins vegar að ítreka það sem ég sagði áðan um þetta auðlindagjald sem Samfylkingin hefur talað fyrir mjög lengi, hún fékk meira að segja fjögur ár til að reyna að hrinda því í framkvæmd en gat það ekki. Það er svo auðvelt að láta þessa peninga renna til byggðanna að ríkisstjórn hv. þingmanns hafði fjögur ár til að gera það en gat það ekki. Það er svo rosalega einfalt að gera þetta. Við eigum að hætta að tala um þetta með þessum hætti og fara að byggja undir þessa atvinnugrein eins og aðrar, leyfa henni að vaxa og dafna. Hún borgar eins og aðrar atvinnugreinar sín gjöld og skatta til landsins. Við getum hins vegar farið yfir það hvort við eigum að dreifa þessu öðruvísi með einhverjum hætti öðruvísi. Það var það sem ég nefndi áðan að Framsóknarflokkurinn hefði talað um. Framsóknarmenn hafa barist fyrir því að auðlindagjaldið renni með einhverjum hætti aftur til byggðanna, inn í atvinnugreinina og í ríkissjóð.