145. löggjafarþing — 146. fundur
 5. september 2016.
samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, frh. síðari umræðu.
stjtill., 783. mál (EES-reglur). — Þskj. 1338, nál. 1593 og 1601.

[17:14]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Þessi samningur var gerður síðastliðið haust. Þá var strax fjallað um hann í Bændablaðinu undir fyrirsögninni „Reiðarslag og nær öruggt talið að margir þurfi að bregða búi“. Þetta var forsíða Bændablaðsins í september 2015 rétt eftir að upplýst varð um þennan samning. Þar er vísað í viðtöl við ýmsa forsvarsmenn bænda, bæði úr kjúklingaræktinni, svínakjötsframleiðslu og einnig þá sem hafa nautakjötsframleiðslu á sinni könnu og síðan talsmenn Bændasamtakanna almennt. Meðal annars er vitnað í Jón Magnús Jónsson, alifuglabónda að Reykjum og varaformann Félags kjúklingabænda, en hann segir, með leyfi forseta:

„Hugmyndin um aukna niðurfellingu á tollum af innfluttu kjúklingakjöti er hreint reiðarslag fyrir framleiðendur kjúklingakjöts á Íslandi. […] Tollar á magn umfram þessi þúsund tonn er föst krónutala og ég hef ekki heyrt neitt um að hún eigi að breytast umfram það sem hún er í dag. Gangi þetta eftir er ég hræddur um að framleiðendur verði alvarlega að hugsa sinn gang og jafnvel pakka saman og hætta starfsemi.“

Áfram segir í þessari frétt Bændablaðsins frá 24. september í fyrra:

„Samningar á milli Íslands og Evrópusambandsins um tollaniðurfellingar á landbúnaðarvörum kom íslenskum bændum og flestum öðrum mjög á óvart. Á sama tíma hafa forsvarsmenn innflutningsverslunarinnar fagnað tíðindunum, en fjölmargt í þessum samningum vekur samt furðu.“

Svo er vísað í það síðar í fréttinni.

Ég tek hér aftur upp úr þessari forsíðufrétt, með leyfi forseta:

„Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir þær greinar og ég tel að stjórnvöld hafi vanrækt að meta áhrif samningsins til fulls.“

Hér var verið að vísa í kjúklingaræktina og svínakjötsframleiðsluna. Ég held áfram:

„„Sama gildir að mörgu leyti um nautakjötsframleiðsluna. Ég taldi að það væri vilji stjórnvalda að efla þá grein en ekki flytja hana að enn stærri hluta til útlanda,“ segir Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ. Hann vekur athygli á því að stjórnvöld tilkynni um nýjan samning um tollamál sem stóð til að ræða um í viðræðum um nýja búvörusamninga.“

Þetta var reyndar nokkuð sem við ræddum fyrir helgina þegar samningurinn var til umræðu á fimmtudag eða föstudag. Þá beindum við nokkrir stjórnarandstæðingar þeirri spurningu til talsmanna ríkisstjórnarinnar hvort það væri órjúfanlegt samhengi á milli búvörusamninganna annars vegar og þessara tollasamninga hins vegar. Við fengum engin skýr svör um það. Það sem við getum okkur hins vegar til um er að þarna hafi átt sér stað einhver hrossakaup milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt áherslu á að fá þennan tollalækkunarsamning í gegn en Framsóknarflokkurinn hafi verið með sínar áherslur á búvörusamningnum.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að svona eiga þessi mál náttúrlega ekki að ganga fyrir sig. Það á að meta hvorn samninginn um sig á eigin forsendum og við eigum að ræða þá á eigin forsendum. Mín tillaga er, og áhersla okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefur verið sú við þessar umræður, að þessu máli eigi að skjóta á frest. Staðfestingu þessa samkomulags eigi að skjóta á frest. Þó að málið hafi að sönnu fengið nokkra umræðu í sumar og það sé að því leyti skömminni skárra en að hraða málinu gegnum þingið síðastliðið vor eins og til stóð að gera, þá á enn eftir að rannsaka ýmsa þætti málsins áður en það verður til lykta leitt. Á þetta vil ég leggja áherslu í upphafi míns máls.

Síðan um efni málsins. Það eru tilteknir þættir sem við hljótum að horfa til þegar við hugum að landbúnaðarmálunum. Ég er nú búinn að týna einhverjum gögnum sem ég hafði í höndunum áðan en það ætti ekki að koma að sök, ég held að ég kunni nokkurn veginn það sem ég vildi koma á framfæri. Það eru nokkrir meginþættir sem við hljótum að horfa til þegar við hugum að lagaumgjörð og tollaumgjörð landbúnaðarframleiðslunnar, bæði hvað varðar skipulag framleiðslunnar innan lands og viðskipti með landbúnaðarvörur innan lands og út yfir landsteinana. Hvað er það sem við horfum þá fyrst og fremst til? Jú, við viljum hafa heilnæma matvöru á boðstólum fyrir landsmenn. Þetta er kannski boðorð númer eitt, að búa til kerfi sem tryggir heilnæma matvöru á boðstólum. Það er ekkert gefið í þeim efnum. Ef við förum víða um heiminn þá er slík vara ekki á boðstólum. Það er leitun á landi á gervöllu byggðu bóli sem býður upp á heilnæmari matvöru en Íslendingar gera. Minni sýklalyf er að finna í kjöti sem hér er í verslunum en nokkurs staðar annars staðar sem mér er alla vega kunnugt um. Þetta hefði ég talið að væri auðlind í sjálfu sér.

Þá hafa komið hér margir og tekið undir þetta, jafnvel stuðningsmenn þessara breytinga, og sagt: Já, þetta er alveg rétt, en við verðum að treysta neytendum. Neytendur munu velja heilnæmu vöruna ef hún er á boðstólum við hliðina á vöru sem sannarlega er lakari að gæðum að þessu leyti. Ég held ekki. Ég held að það muni ekki gerast. Það sem mun gerast er að fátækt fólk mun kaupa það sem ódýrast er. Ef til boða stendur svínakál annars vegar og hins vegar heilnæmt kál ræktað innan lands, þá er hætt við því að fátæki maðurinn velji svínakálið. Ég óttast að það muni gerast. Ég óttast að þetta muni gerast líka í kjötframleiðslunni. Vita menn hvaðan ódýru kjúklingarnir sem eru á boðstólum í Bretlandi eru komnir? Halda menn að þeir séu allir komnir frá Bretlandi? Nei. Það sagði mér ágætur vinur minn sem er nú þekktur fyrir annað en að vilja ekki frjálst flæði vöru og þjónustu að sig óaði við því hvað það væri sem hann væri að láta ofan í sig og sín börn og nefndi sérstaklega kjúklinga og sagði að þeir kjúklingar sem væru ódýrastir í Bretlandi væru komnir frá Tælandi og Kína. Þar er það staðreynd að gæðaeftirlit með matvöru er miklu minna en gerist í Evrópu. En þessi vara kemur þangað inn og mundi að öllum líkindum koma hingað til Íslands líka.

Viljum við þetta? Viljum við ekki setja upp einhverjar varnir fyrir okkur og börnin okkar þannig að hér sé fyrst og fremst heilnæm matvara á boðstólum? Það á að vera markmið okkar, að sjálfsögðu. Það er ekki okkar markmið að reyna að samræma okkur niður á við, niður í óheilnæmari matvöru. Er það markmiðið? Nei. Það getur varla verið markmiðið. Við ætlum að reyna að standa vörð um búðarhillurnar á Íslandi þannig að þar sé fyrst og fremst að finna heilnæma matvöru. Það er markmiðið sem löggjafinn á að setja sér og ekki að horfa til hins, að reka hagsmuni einhverra tiltekinna búðareigenda, ekki að reka hagsmuni verslunarinnar eins og menn hafa gert hér á ýmsum öðrum sviðum. Það er nóg af talsmönnum hér þegar kemur að því að verja fyrirtækin en þegar kemur að því að verja einstaklingana, börnin, fátæka fólkið, hefur stundum verið skortur á talsmönnum slíkra sjónarmiða.

Þetta er markmið okkar númer eitt, að tryggja að heilnæm matvara sé á boðstólum. En það er ekki nóg, við viljum tryggja heilnæma matvöru á hagkvæmu verði. Auðvitað viljum við gera það líka. Auðvitað viljum við stuðla að því að verðlag á matvörunni sé sem hagkvæmast og sem best. Við vorum að ræða um daginn um mjólk og mjólkurafurðir. Þá voru hér aftur uppi fyrst og fremst talsmenn verslunarfyrirtækja sem horfðu algerlega fram hjá því að verð á mjólk og mjólkurafurðum á Íslandi hefur lækkað að raungildi á undanförnum árum, að raungildi, ekki í krónum talið, raungildi, miklu meira, um 20%. Þarf ekki að horfa til þess? Þarf ekki að horfa til þess að tryggja fyrirkomulag sem gefur okkur heilsusamlega matvöru á hagkvæmu verði? Auðvitað eigum við að horfa til þess, hvort sem er í mjólkinni eða öðru. Þetta viljum við helst að fari saman, heilnæm matvara og að hún sé á hagkvæmu verði.

Þriðji þátturinn sem ég vil nefna, sem hlýtur að vera markmið hjá okkur, er að stuðla að matvælaöryggi og sjálfbærni í matvælaframleiðslu, að því marki sem hægt er. Hér erum við að horfa inn í framtíðina. Það er ekki göfug framtíðarhugsun að ætla að fara að flytja kýr og naut í flugvélum á milli landa. Við höfum annað með sætin í flugvélunum og plássið í flugvélum að gera en að setja þar kýr og naut og svín og kjúklinga í öndvegi. Við eigum að flytja fólk og nauðsynlega vöru. Við eigum að stuðla að því að framleiða landbúnaðarvöruna í nærumhverfi okkar. Þetta er það sem felst í hugtakinu matvælaöryggi, að samfélagið verði sjálfu sér nægt í þessum efnum. Hvað þýðir það? Þá þurfum við að tryggja að hér sé fólk til staðar í þessum framleiðslugreinum, sem vinni við að framleiða matvæli í nærumhverfinu. Þá þurfum við náttúrlega að taka alvarlega varnaðarorð eins og birtust á forsíðu Bændablaðsins þar sem segir að samningurinn sem við erum að tala um hér sé reiðarslag og nær öruggt talið að margir þurfi að bregða búi. Þurfum við ekki að hlusta á þetta? Þessi varnaðarorð? Það sem er veruleikinn í þessu máli og er alveg hárrétt er það sem kemur fram í tilvitnuðum orðum formanns Bændasamtakanna, Sindra Sigurgeirssonar, þegar hann segir að við séum með þessu móti að flytja störf til útlanda. Það er það sem við erum að gera. Flytja störf til útlanda. Hann er ekkert einn um að segja þetta. Mig langar til að vitna hér í álitsgerð, samþykkt verkalýðsfélagsins Framsýnar, sem er einnig frá síðastliðnu hausti, 20. október 2015. Þetta eru samtök með þúsundir launamanna innan sinna vébanda, sennilega hátt í þriðja þúsund manns, sem starfa í matvælaframleiðslu á Íslandi. Þau segja, með leyfi forseta:

„Nýgerður milliríkjasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með búvörur og gagnkvæma niðurfellingu tolla vekur upp margar spurningar er viðkemur framtíð landbúnaðar á Íslandi og afleiddra starfa í matvælaiðnaði og þjónustu er tengist landbúnaði.

Á félagssvæði Framsýnar eru nokkur öflug matvælafyrirtæki sem veita tugum starfsmanna vinnu. Ljóst er að starfsemi þeirra verður sett í mikið uppnám gangi stefna stjórnvalda eftir í breytingum á tollvernd búvara.

Matvælaiðnaður á Íslandi er ein af stærstu undirgreinum iðnaðarins með um 17% af heildarveltu í iðnaði, fyrir utan fiskvinnslu. Á síðasta ári störfuðu um 4.000 starfsmenn við matvælaframleiðslu sem flestir eiga það sameiginlegt að vera í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands.

Framsýn gagnrýnir samráðsleysi stjórnvalda við verkalýðshreyfinguna sem hefur mikilla hagsmuna að gæta gagnvart þeim fjölda starfa sem er í hættu verði samningurinn staðfestur af Alþingi. Framsýn kallar eftir úttekt stjórnvalda á áhrifum þess fyrir landbúnaðarhéruðin og starfsmenn í matvælaiðnaði verði tollverndinni breytt. Það er algjört ábyrgðarleysi af stjórnvöldum að staðfesta breytingarnar frá Alþingi nema allar forsendur liggi fyrir hvað áhrifin varðar.“

Þegar við ræddum þetta sama plagg, þessa sömu þingsályktunartillögu síðastliðið vor las ég líka upp úr þessari ályktun. Ég hafði haft samband við forsvarsmenn Framsýnar til að spyrja þá, sem marga aðra, hver afstaða þeirra væri til málsins. Þeir sögðu mér að ég skyldi lesa ályktun þeirra, hún hefði að geyma varnaðarorð. Og ég las hana upp. Þetta stendur enn. Það sem ég vildi segja og sagði hér áðan: Auðvitað er skömminni skárra að hafa ekki hrapað að samþykkt málsins síðastliðið vor, að gefa þessu alla vega einhverjar vikur og mánuði til skoðunar, en það er bara ekki nóg að gert. Við þurfum að skoða þetta betur. Við eigum að huga þarna að framtíðarhagsmunum okkar.

Þetta mál snýst um svo margt. Þetta snýst um að tryggja heilnæmar matvörur á boðstólum á Íslandi fyrir alla, fyrir tekjulága og tekjuháa. Alla. Sami matur fyrir alla. Í öðru lagi viljum við tryggja heilnæma matvöru á hagkvæmu verði. Við viljum búa til fyrirkomulag eins og hefur verið gert í mjólkuriðnaðinum t.d. sem tryggir mjólkurafurðir á hagkvæmu verði. Það hefur tekist að gera. Við eigum að huga að þessu. En hvort tveggja þarf að fara saman. Það er ekki bara spurning um að fá einhverja matvöru, heldur góða, heilnæma matvöru. Við eigum í þriðja lagi að stuðla að matvælaöryggi, að íslenskt samfélag verði sjálfbært eins og kostur er um framleiðslu matvæla. Auðvitað gengur það ekki á öllum sviðum á Íslandi vegna þess hvernig við erum í sveit sett, hvar við búum, við þurfum alltaf að flytja talsvert inn af matvælum til Íslands og við flytjum eitthvað út. En við þurfum að huga að þessu. Og í fjórða lagi þurfum við að horfa til atvinnunnar. Auðvitað þurfum við að hlusta á fólkið í verkalýðssamtökunum sem er að biðja okkur að stíga ekki skref sem eru líkleg til þess að svipta fólk atvinnu sinni og atvinnu í matvælaiðnaði. Eigum við ekki að taka þau varnaðarorð og þær beiðnir alvarlega? Eigum við ekki að hlusta á Bændasamtökin? Eigum við ekki að hlusta á þessi aðildarfélög Alþýðusambands Íslands? Taka varnaðarorð þeirra alvarlega? Undir þau vil ég svo sannarlega taka.

Að lokum þetta, hæstv. forseti: Fyrir okkur er þetta örlagaskref. Við erum lítil þjóð. Við erum 330 þús. manns. Við erum að semja við 400–500 milljón manna markað. Það skiptir engu máli á þeim markaði hvað gerist. En fyrir okkur á Íslandi, 330 þús. manna þjóð með viðkvæman landbúnað, þá eigum við að taka alvarlega varnaðarorð þeirra sem þar starfa og bera umhyggju umfram allt annað fólk fyrir þessum atvinnuvegi.



[17:35]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú eiginlega óhjákvæmilegt að koma í ræðustól og veita hv. þingmanni andsvar, enda erfitt að finna ræðu sem ég er meira ósammála en þessari ágætu ræðu sem minn góði vinur var að flytja rétt í þessu. Hv. þingmaður ruglaði saman fjöldamörgum þáttum til þess að finna rökstuðning fyrir þeirri einangrunarhyggju sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill viðhafa í landbúnaðarmálum öllu öðru fremur. Hann misnotar sjálfbærnishugtakið til þess að réttlæta að breyta Íslandi í einhvers konar víggirta eyju þar sem ekkert er flutt út og ekkert inn. Hugmyndin að baki þessum samningi er sú að landbúnaðurinn sé atvinnugrein sem þurfi að geta ekki bara varist heldur líka sótt fram. Hún þurfi að geta sótt út á aðra markaði. Þess vegna er í samningnum samið um tollfríðindi við önnur lönd og á móti látum við heimildir til innflutnings þar sem er okkur auðveldast að leggja þær á móti. Við búum þarna til sóknarfæri fyrir íslenska framleiðslu sem á möguleika úti um allan heim, skyr, smjör, lambakjöt, séríslensk vara sem hefur íslensk sérkenni og við getum stutt þar af leiðandi við atvinnuframþróun. Alþýðusamband Íslands hefur kallað eftir þessu árum saman, að opnaðar verði heimildir með viðskiptasamningum við önnur ríki til útflutnings á íslenskum landbúnaðarvörum, þannig að Íslendingar sætti sig ekki við að landbúnaður verði alltaf deyjandi atvinnugrein heldur búi til möguleika til þess að hann geti vaxið, störfum í landbúnaði geti fjölgað. Það virðist vera stærsta ógnin í huga hv. þingmanns. Svo flytur hann hér hræðslusögurnar sem hann er svo oft búinn að flytja um að útlend matvara sé svo baneitruð að hana sé ekki hægt að éta. Fyrir nokkrum árum sagði hann að það væri hvergi hægt að fá linsoðin egg í útlöndum því egg væru almennt svo stórskaðleg í Evrópu. Allt hefur þetta margsinnis verið hrakið. Alltaf verður okkur í sjálfsvald sett að setja heilbrigðisreglur. Ekkert hér kemur í veg fyrir það. Hér er bara verið að tala um að hugsa (Forseti hringir.) stórt fyrir íslenskan landbúnað, gefa honum færi til að vaxa.



[17:37]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvort hann viti hversu oft salmonella hefur fundist í eggjum í íslenskum búðarhillum, bara segja mér frá þessu. Það væri gaman að heyra það. Það væri líka gaman að heyra hann spjalla svolítið um það hvort hann telji það rangt sem dýralæknar og þeir sem standa að heilbrigðiseftirliti telja vera mikilvæga auðlind, þ.e. íslenska landbúnaðarframleiðslu. Finnst honum það vera hræðsluáróður að benda á að sýklalyf í kjöti á Evrópumörkuðum eru margföld á við það sem hér finnst? Eru þetta ekki raunsæir hlutir sem íslenskur löggjafi verður að horfa til? Er það ekki svo? Þurfum við ekki að horfa til þessa?

Finnst honum líka ekki skjóta skökku við að 330 þúsund manna markaður semji við 500 milljón manna markað um kíló á móti kílói, ekki sömu gerðar í kjöti en þetta er prinsippið? Þar sem breytingarnar geta skipt sköpum í öðru tilvikinu en mælast ekki í hinu. Þarf ekki að horfa til þessa?

Síðan aðeins um orðanotkun. Hv. þingmaður sagði að ég hefði ruglað saman ýmsum þáttum. Það gerði ég ekki. Ég tvinnaði saman ýmsa efnisþætti vegna þess að þessi mál eru að sönnu samtvinnuð. Við erum að tala heildstætt um íslenska landbúnaðarframleiðslu og eigum að horfa til allra þeirra vídda sem þar er að finna, heilnæmis matarins, verðlagsins, sjálfbærninnar og hins, hvort við erum reiðubúin að ráðast í kerfisbreytingar sem munu stuðla að því að störfin flytjist úr landi.



[17:39]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heilnæmi íslenskrar framleiðslu er mikilvægt og er auðlind og það sama má segja um litla lyfjanotkun. Allt er þetta samt hlutir þar sem við verðum að taka okkur á. Upplýsingar um þetta eru ekki mjög aðgengilegar, brotnar niður á bú t.d. Rekjanleiki matvæla er ekki tryggður. Það er okkar eigið sjálfskaparvíti. Ég fór út í Krónu um daginn og keypti svínakjöt. Þar stóð: Íslenskt svínakjöt. Svo stóð með smáu letri fyrir neðan: Upprunaland: Spánn. Þetta er íslenskt sjálfskaparvíti og hefur ekkert með neina alþjóðasamninga að gera. Við þurfum að setja skýrari viðmið sjálf. Við þurfum líka að aga okkar eigin framleiðslu. Við þurfum að auðvelda okkar eigin framleiðendum að koma upplýsingum á framfæri um að þeir standi sig vel. Við þurfum að auka samkeppni á milli þeirra þannig að góðu búin njóti þess í háu verði en hin sem nota meiri lyf, sem búa lakar að dýrum, gjaldi fyrir í verði. Þess vegna á líka að tryggja að búin séu opin fyrir fjölmiðlum þannig að aðbúnaður sé augljós, allir geti fylgst með að dýrunum sé vel sinnt. Þetta er nefnilega hluti af nýrri hugsun í íslenskum landbúnaði, þ.e. að afnema sullumbulls-aðferðafræðina sem flokkur hv. þingmanns hefur talað fyrir, þar sem öllu er hrært í einn pott, eitt verð fyrir alla, engin sérkenni á markaði, engin samkeppni milli afurðastöðva, engin samkeppni milli framleiðenda. Það ber dauðann í sér, mun fækka störfum, draga úr möguleikum á sóknartækifærum fyrir íslenskan landbúnað, vinna gegn höfuðsóknarmöguleikunum sem eru sérkennin, sérstakur uppruni, sérstakar vinnsluaðferðir. Það er það sem er mikilvægt, að afnema skussaverndina, auka á samkeppnina og tryggja að það sé mikil samkeppni fyrir opnum tjöldum milli ólíkra framleiðenda og ólíkra afurðafyrirtækja.



[17:41]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér talaði maður sem vill fara að flytja inn kínverskar hænur okkur til matar, án þess að við fáum nokkurn tíma að sjá hvað er á boðstólum. Það er þetta sem menn eru að kvarta yfir í Bretlandi, að maturinn og uppruni hans sé ekki sýnilegur, hvaðan hann kemur, hvort kjúklingarnir koma frá Kína eða Taílandi eða hvaðan þeir eru. Úr hvernig búum þeir koma o.s.frv.

Ég tek hins vegar algerlega undir það með hv. þm. Árna Páli Árnasyni að slíkir hlutir eiga allir að vera sýnilegir og aðgengilegir. Eftirlit í íslenskri matvælaframleiðslu þarf að stóraukast. Við þurfum að laga það, þar sem pottur er brotinn, þangað eigum við að sjálfsögðu að beina sjónum okkar, hvort sem er í svínakjötsframleiðslunni, kjúklingaframleiðslunni eða annars staðar. En við verðum að láta íslenska landbúnaðarframleiðslu njóta sannmælis engu að síður. Það verðum við að gera. Við búum yfir mjög mikilvægri auðlind sem við eigum að verja og passa upp á. Það er það sem ég er að tala um. Ef mönnum finnst það vera mikil íhaldssemi þá finnst mér það ekki. Mér finnst að við eigum að vera galvösk í þessu, að standa vörð um það sem sannarlega gott er í framleiðslu okkar. Ég ítreka að við eigum að horfa til starfanna líka, hlusta á verkalýðshreyfinguna, hlusta á þá sem passa upp á störfin, og við eigum að viðurkenna það, ef satt er, með t.d. salmonellu í eggjum, að okkur hefur tekist að komast hjá því að fá það í búðirnar. Þetta er bara staðreynd. Við eigum að hlusta á dýralæknana í Keldum og annars staðar sem vara okkur við, sem benda okkur á hvað við höfum. Er það eitthvað rangt? Er það eitthvað afturhaldsmiðað? (Forseti hringir.) Nei. Þetta er framtíðin. Þetta er nefnilega framtíðin.



[17:43]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að halda aðeins áfram með þá umræðu sem átti sér stað í andsvörum rétt áðan í sambandi við gæðaframleiðslu og framtíðina. Þegar kemur að landbúnaðarframleiðslu vil ég taka undir með hv. þingmönnum um að íslensk framleiðsla er almennt gæðaframleiðsla. Ég held því fram að gæðaframleiðsla eigi sér mjög góða framtíð, eigi mjög sterkan stað á markaði og þá ekkert síður að henni sé gert að keppa jafnvel við aðra vöru. Ég vil meina að það sé alls ekki rétt leið til þess að tryggja áfram gæði íslenskrar landbúnaðarframleiðslu að banna samkeppni við aðra landbúnaðarframleiðslu. Ég tel ekki að það sé besta leiðin til þess að tryggja að íslenskir neytendur hafi góðan smekk fyrir vandaðri vöru og leiti hana sérstaklega uppi ef hann er ekki með val um annað fyrir framan sig. Mig langaði bara að koma því að í beinu framhaldi af umræðunni hér á undan.

Þó að sá samningur sem hér liggur fyrir líti út fyrir að fela í sér talsvert mikla breytingu, mikla aukningu á innflutningi og útflutningi frá því sem verið hefur er mikilvægt að horfa til þess að sá innflutningur sem stefnt er að samkvæmt samningnum á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu er að miklu leyti í samræmi við þann innflutning sem er nú þegar á undanþágum vegna skorts á íslenskum markaði. Það á kannski ekki við um ostana en innflutningur á kjöti á íslenskan markað á undanþágum hefur farið sívaxandi vegna þess hreinlega að íslensk landbúnaðarframleiðsla hefur ekki haft undan. Þegar kemur að innflutningnum mun sá samningur sem hér er þess vegna hafa afskaplega litla breytingu í för með sér fyrir íslenska landbúnaðarmarkaðinn eða matarmarkaðinn, nema þá helst varðandi osta.

Þá vil ég vitna til þess stórkostlega fordæmis sem við höfum þegar við opnuðum á innflutning á grænmeti til Íslands. Það var vissulega mjög stórt skref þegar galopnað var á innflutning á grænmeti til Íslands og íslensk ylrækt og íslensk grænmetisframleiðsla var sett í stórhættulega samkeppni við innflutta vöru, svo maður noti orðalag sem viðhaft hefur verið í umræðunni. Niðurstaðan af því var ekki dauði og djöfull fyrir framleiðendurna heldur þvert á móti tækifæri fyrir íslenska framleiðendur til þess að einbeita sér að gæðavöru og markaðssetja hana sérstaklega sem íslenska framleiðslu með mjög góðum árangri. Vitaskuld þýddi það ekki að sú framleiðsla færi út úr styrktarkerfi landbúnaðarins frekar en annar landbúnaður í öðrum löndum sem er alls staðar styrktur á einhvern hátt. En það sem gerðist var að framleiðslan var tekin út úr tollavernd, þ.e. henni var gefið tækifæri á að keppa um verð, gæði og uppruna við aðra vöru. Kom þá bara í ljós að íslenskir neytendur eru engir vitleysingar, þeir höfðu smekk fyrir vandaðri vöru og völdu íslenska vöru. Ég sé ekki að það sé nokkur ástæða til þess að vantreysta neytendum þegar kemur að öðrum tegundum matar, að íslenskir neytendur finni ekki mun á íslenskum og erlendum osti eða íslensku lambi og erlendu. Maður hefur nú aldeilis tekið eftir því eftir að byrjað var að flytja inn útlenskar rjúpur að íslenskir neytendur vilja varla viðurkenna að það sé sami fuglinn þegar kemur að bragðinu.

Þess vegna tel ég að það skref sem hér er tekið til að opna á innflutning á erlendri matvöru sé varfærið og í raun upphafið að því að gera íslenskum landbúnaði kleift að auka gæðin, auka sérhæfingu sína og gera meira af því að vera með sérstaka vandaða vöru. Ég tel að það muni breyta landbúnaðinum yfir í framleiðslu í sókn og að það muni bæta hann. Hann fer í virka samkeppni frá því að vera iðnaður sem því miður hefur oft verið í miklum varnarleik.

Fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem talaði hér á undan, að hann væri hræddur við að ef boðið yrði upp á samkeppni í íslenskum matvörumarkaði yrði flutt hér inn ódýr matvara í samkeppni við íslenska matvöru og að fátækt fólk yrði neytt til þess að velja sér þá ódýra og lélega matvöru. Ég get tekið undir að það er vandamál í matvöruframleiðslu, framleiðslu, dreifingu og neyslu alls staðar í heiminum eftir því sem matvælaframleiðsla verður iðnvæddari og dreifðari og auðvitað sjáum við mun á annars vegar ódýrri iðnaðarvöru sem framleidd er í miklu magni og dreift, og hins vegar hágæðavöru sem er lífræn og selst dýru verði.

Ég spyr mig: Er það hlutverk okkar á Alþingi að vernda íslenska neytendur frá því að velja vitlaust? Er það okkar hlutverk að koma í veg fyrir að ljót föt séu flutt inn til landsins? Er það okkar hlutverk að banna að áfengi sé selt á Íslandi vegna þess að fyrir einhverjum er áfengi eitur? Ég segi nei, herra forseti, ég treysti íslenskum neytendum fullkomlega sem borðað hafa mat alveg frá því að þeir fæddust til þess að velja sér matvöru og tek undir með öllum sem talað hafa um að við eigum að nota tækifærið til að bæta merkingar á matvælum, bæta upprunamerkingar og gera íslenskum framleiðendum og þeim sem framleiða gæðavöru auðveldara fyrir við að merkja vöru sína í samræmi við gæði. Ég hef litlar áhyggjur af því að íslenskir neytendur séu svo vitlausir að þeir muni unnvörpum velja sér lélega vöru. Það hefur sýnt sig að íslenskir neytendur eru þvert á móti miklir smekkneytendur þegar þeir fá val.

Stundum hefur verið talað um það í þessari umræðu að samningurinn sé atlaga að matvælaöryggi Íslendinga. Mig langar aðeins til að koma inn á það vegna þess að matvælaöryggi er mikilvægt hverri þjóð, hverju landi. Mig langar aðeins að kafa í hugtakið matvælaöryggi. Hvað þýðir það? Það þýðir öruggt aðgengi að matvælum. Þá vil ég benda á að Ísland er eitthvert mesta matvælaframleiðsluland í heimi. Aðgengi okkar að matvælum er í raun og veru óendanlegt. Við framleiðum sjávarafurðir og flytjum út í risastórum stíl. Það kom líka í ljós í heimsstyrjöldunum á síðustu öld, sérstaklega í þeirri fyrri en líka í þeirri seinni, að þegar Íslendingar þurftu að semja við önnur lönd um inn- og útflutning gengu þeir samningar ekki út á innflutning á matvælum til þess að tryggja matvælaöryggi á Íslandi, þvert á móti gengu samningarnir alltaf út á að flytja út íslensk matvæli til þess að flytja inn erlenda olíu, kol eða annað slíkt vegna þess að staðreyndin er sú að þessi fámenna þjóð á þessari stóru eyju býr sennilega við meira matvælaöryggi en nokkurt annað svæði á jörðinni, alla vega í Evrópu.

Matvælaöryggi byggir nefnilega ekki á því að við höfum stöðugt og öruggt aðgengi að sykruðu jógúrti eða lambakótilettum eða einhverjum tegundum af matvælum. Matvælaöryggi gengur út á það að við höfum aðgengi að matvælum yfir höfuð og að við séum með dreifikerfi sem virkar fyrir þær. Þar hef ég engar áhyggjur af okkur. En þess utan tel ég að íslenskur landbúnaður muni styrkjast við það að komast á stærri markaði. Það er lykilatriði í þessari umræðu vegna þess að þeir sem eru skeptískir á þessa samninga, þeir sem eru skeptískir á inn- og útflutning á landbúnaðarvörum og mat, gefa sér einhvern veginn alltaf að íslenskur landbúnaður eigi undir högg að sækja í samkeppni, að íslenskur landbúnaður eigi undir högg að sækja í útflutningi, í útrás, að íslenskur landbúnaður geti ekki staðið fyllilega og náð góðu verði á erlendum mörkuðum. Þar leyfi ég mér nefnilega að vera alveg sérstakur bjartsýnismaður. Ég fagna því að hér sé stigið nokkuð stórt skref, sem mætti vissulega vera stærra, í tollfrjálsum útflutningi á íslenskum landbúnaði. Ég tel að íslenskur landbúnaður eigi þvert á móti mjög mikla möguleika, sérstaklega á sérhæfðum lúxusmarkaði í öðrum löndum. Með styrkum stoðum í útflutningi erum við í raun og veru komin með aðra stoð undir íslenska landbúnaðarframleiðslu sem þarf þá ekki lengur að byggja allt sitt á innanlandsmarkaði. Hann er vissulega sveiflukenndur, það fer eftir tískustraumum en ekki síður núorðið eftir því hversu margir útlendingar heimsækja okkur á hverjum tíma, þannig að ég fagna sérstaklega þessum samningi á útflutningsendanum vegna þess að ég tel að hann muni leiða af sér hvata fyrir íslenskan landbúnað til að herða sig og bæta sig enn frekar en ella.

Ég get heldur ekki komið inn í umræðuna án þess að ræða aðeins þau orð sem fallið hafa hjá hv. þingmönnum um íslenska verslun, og sérstaklega þeim sem talað hafa gegn þessum samningi. Gefið hefur verið í skyn að íslensk verslun sé einhvers konar almenningsóvinur, að íslensk verslun hafi illt eitt í huga þegar kemur að dreifingu matvæla og sé í því einu að pína framleiðendur niður í verði til þess að geta okrað á neytendum. Mér þykir það úr lausu lofti gripið. Mér þykja það mjög stórkarlalegar yfirlýsingar. Mér þykir ástæða til þess að vara við þeirri hugsun vegna þess að íslensk verslun er eins og öll önnur þjónusta á Íslandi, hún er til til þess að þjónusta íslenskan almenning og íslenska neytendur. Þegar íslensk verslun hefur ýtt á að fá að auka innflutning hefur það ekki síst verið til þess að auka fjölbreytni og úrval fyrir íslenska neytendur. Það hefur í afskaplega fáum ef nokkrum tilvikum orðið til þess að ýta íslenskri framleiðslu út af markaði. Ég veit ekki til þess að innflutningur á mæjónesi hafi bitnað á íslenska mæjónesgeiranum.

Fyrir helgi, í fyrri hluta þessarar umræðu, var rætt nokkuð mikið um heilbrigði og hættuna við óheilbrigðan, erlendan mat. Mig langar aðeins að koma að því að þrátt fyrir að við búum á eyju og þrátt fyrir að við höfum að miklu leyti haft nokkuð strangan verndarmúr utan um íslenska landbúnaðarframleiðslu er það nú alls ekki svo að allur matur á Íslandi sé upprunninn hér á landi og að við höfum ekki flutt inn matvöru, enda býr mikill meiri hluti mannkyns utan Íslands og neytir erlendrar matvöru. Mikill meiri hluti fólks virðist gera gert það án þess að það verði því til sérstaks heilsutjóns. Það er engin sérstök ástæða til þess að ætla að öðruvísi verði með íslenska neytendur.

Það hefur líka sýnt sig með þann innflutning sem verið hefur á matvöru frá Evrópusambandinu sem er framleidd undir sömu heilbrigðisreglum, undir sömu stöðlum og gilda hér á landi í gegnum EES-reglur og EES-samninginn, að neysla á þessum afurðum hefur alls ekki orðið mörgum Íslendingum að fjörtjóni. Íslendingar hafa líka fengið ágætisreynslu af því að smakka útlendan mat á ferðum sínum í útlöndum.

Fram kom fram hjá gestum fyrir utanríkismálanefnd að smithætta ætti ekki síður við um mannlega gesti en framleiddan mat og að flutningur fólks á milli landa, sem er sífellt að aukast, væri ekki síður áhyggjuefni.

Í lokin langar mig til þess að segja að við búum í Evrópu. Við erum hluti af EES. Þegar kemur að heilbrigðisstöðlum í neytendamálum eru þeir mjög sterkir og sennilega sterkari í Evrópu en annars staðar á hnettinum. Íslendingar, íslenski markaðurinn og íslensk framleiðsla heyra undir þetta sterka kerfi. Þessi samningur er á milli Íslands og Evrópusambandsins þannig að hann er samningur um gagnkvæman flutning á matvöru innan svæðis, í raun og veru innan sama kerfis. Þetta er ekki inn- og útflutningur frá ólíkum svæðum heldur er þetta flutningur innan svæðis markaðslega séð og gagnvart regluverki. Það skiptir miklu máli að við erum ekki að opna á tollfrjálsan innflutning við fjarlæg lönd þar sem allt aðrir staðlar gilda. Þvert á móti erum við að tryggja að innflutningur á matvörum til Íslands er frá löndum þar sem framleiðslan er vönduð og eftirlit er gott.

Auðvitað er eftirlit í Evrópusambandinu gott. Við þekkjum það svo vel sjálf og íslenskir framleiðendur í sjávarútvegi þekkja það alveg sérstaklega vel vegna þess að þessar reglur og kröfur evrópskra kaupenda á sjávarafurðum hafa gert það að verkum að íslenskir framleiðendur hafa aukið gæði framleiðslu sinnar svo stórkostlega mikið að söluvirðið, svo sem verðmæti afurðanna, hefur tvöfaldast án þess að magn hafi neitt aukist. Ég tel því að íslenskur landbúnaður eigi möguleika í þessum útflutningi ekki síður en í samkeppninni hér á landi.

Sá sem hér stendur tekur undir nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar. Ég geri það vegna þess að niðurstaða nefndarálitsins er fyrst og fremst að mæla með því að samningurinn verði samþykktur þó svo að ýmislegt sé reifað sem fram kom hjá gestum og í umræðum nefndarinnar. Frumlagið í nefndarálitinu er að mæla með því að samningurinn verði samþykktur. Ég tel ekki að þetta sé endanlegur samningur. Ég hefði að mörgu leyti viljað sjá hann víðtækari, bæði fyrir hönd íslenskra neytenda og íslenskra bænda, en það er þróun sem mun eflaust verða á lengri tíma. Ég hlakka til þess að sjá þá tíma.



[18:03]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir um margt áhugaverða ræðu. Mig langar eiginlega að byrja þetta andsvar mitt á því að spyrja hv. þingmann, þótt hv. þingmaður hafi svo sem ekkert komið inn á það í ræðu sinni, en það hefur verið talað talsvert um tengslin á milli tollasamnings við Evrópusambandið annars vegar og hins vegar búvörulaganna sem við ræddum í síðustu viku en sitt sýnist hverjum um það hversu nátengd þau tvö mál eru í umræðunni. Sjálf hef ég haldið því fram að þó svo að málin séu skyld og að sumu leyti kannski ólíkar hliðar á svipuðu máli sé ekki órjúfanlegt samhengi þar á milli, þ.e. þegar kemur að afgreiðslu málanna. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji nauðsynlegt að afgreiða þessi mál saman á þessu þingi. Hins vegar verð ég að segja vegna ræðu hv. þingmanns að mér fannst túlkun hans dálítið merkileg og það voru eiginlega dylgjur um viðhorf okkar til íslensku verslunarinnar. Ég hef í það minnsta gagnrýnt að mér finnist í þessum samningi litið fyrst og fremst til verslunar- og viðskiptahagsmuna en ekki nægilega mikið horft til samfélagslegra og umhverfislegra þátta. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Telur hv. þingmaðurinn að þeim þáttum séu gerð nægileg skil í umfjöllun okkar um málið?



[18:06]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Svo ég reyni að svara þeim spurningum sem til mín er beint þá tel ég engin sérstök tengsl á milli þessa tollasamnings og búvörulaganna í afgreiðslu á þinginu. Þetta er auðvitað hvor sinn lagabálkurinn, hvor sín lögin. En þau fjalla hins vegar um sama umhverfi. Þau fjalla bæði um íslenska landbúnaðarframleiðslu og umhverfi hennar annars vegar og íslenska neytendur og umhverfi þeirra hins vegar. Málin eru því ekki óskyld. Þess utan eru atriði í búvörusamningunum sem eru beinlínis sett fram til þess að virka sem mótvægi við þessum tollasamningi, sem ég vil meina að gangi allt of langt í því að núlla út samkeppnismöguleikana sem felast í tollasamningnum.

Nei, ég hef aldrei haldið því fram að þetta tvennt ætti saman. Það breytir því ekki að ég stóð að því ásamt félögum mínum í Bjartri framtíð að vera með frávísunartillögu á búvörusamningana þar sem ég taldi þá ekki tilbúna. En ég tel fulla ástæðu til að samþykkja þessa tollasamninga strax, ekki síst til þess að hjálpa til og ýta undir útflutning, íslenskum landbúnaði til heilla eða hvað maður á að segja.

Ég held að ég verði að koma að seinni spurningunni sem beint er til mín um umhverfisvinkilinn í seinna andsvari.



[18:08]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tel mikilvægt að fá það fram við þessa umræðu hvernig hv. þingmaður telur tengslin vera milli þessarar þingsályktunartillögu annars vegar og hins vegar lagabálks, hvernig þeim tengslum sé háttað. Ég tek undir með hv. þingmanni, við erum í það minnsta sammála um að þessi mál þurfi ekki að afgreiða saman.

Svo ég bæti aðeins við spurningarnar til hv. þingmanns þá langar mig að spyrja út í tvennt í viðbót. Annars vegar um það sem hv. þingmaður sagði um að langflestir í útlöndum borði mat án þess að það sé þeim til heilsutjóns, ég held það hafi verið nokkurn veginn inntakið í því sem hv. þingmaður sagði. Ég held út af fyrir sig að það sé oftast rétt. Það kemur hins vegar fram að tíðni matborinna sýkinga á Íslandi er minni en í ýmsum öðrum löndum. Þetta kom m.a. fram í umsögn frá sóttvarnalækni. Telur hv. þingmaður ekki að við þurfum að taka mið af því? Það kom einnig fram fyrir hv. utanríkismálanefnd að það skorti hreinlega fjármagn til þess að hægt sé að taka sýni úr matvælum á Íslandi, þar á meðal þeim innfluttu. Telur hv. þingmaður ekki í það minnsta (Forseti hringir.) að tryggja þurfi þá fjármuni til að hægt sé að taka sýni? (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að halda því fram að það séu sýkingar í öllum útlendum mat en það kom fram hjá sóttvarnalækni að þessi tíðni matborinna sýkinga væri hærri erlendis og þar með minni (Forseti hringir.) á Íslandi. Ég kemst víst ekki yfir meira.



[18:11]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal reyna að tala hratt svo ég komist yfir þetta. Ég vil meina að það sé ástæða til að tryggja og ef þarf bæta í eftirlit með matvöru til sölu á Íslandi, hvort sem hún er innlend eða erlend. Ég get samþykkt það að ýmsar sýkingar í mat eru eflaust hærri á ákveðnum svæðum og jafnvel innan Evrópusambandsins heldur en á Íslandi, það kom alla vega fram hjá gestum nefndarinnar, en það þýðir ekki að þær séu óheyrðar á Íslandi. Auðvitað eru sýkingar í matvælum almennt vandamál. Ísland er ekkert galdraríki gagnvart því. Eftir því sem matvælaframleiðsla verður iðnvæddari og í stærri stíl, og það hefur líka gerst á Íslandi, þeim mun meiri og ríkari áhersla þarf að vera á því að fylgjast með því. Ég get fullkomlega tekið undir það. Ég get hins vegar ekki séð að það hafi neitt með þennan samning að gera sem leyfir fyrst og fremst innflutning sem er á mjög svipuðu róli og sá innflutningur sem nú þegar er á sér stað.

Varðandi umhverfismálin er ég sammála því að umhverfismálin þurfi að skoða í sambandi við mat. Það kom einmitt fram hjá gesti fyrir nefndinni að það eitt að hætta að borða kjöt mundi minnka umhverfisfótspor viðkomandi fimmfalt. Það hefur í sjálfu sér ekki endilega allt með það að gera hvar matvælin eru framleidd. Það er lítið sem ekkert af íslenskum matvælum sem eru ekki að einhverju leyti framleidd með innfluttu fóðri eða (Forseti hringir.) algjörlega lyfjalaust. (Forseti hringir.) Hins vegar segi ég: Við eigum að treysta neytendum til þess að velja gæðavöruna. (Forseti hringir.) Ég hef engar áhyggjur af því að hann hafi ekki vit til þess.



[18:13]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður um tollamálin. Ég er ekki sammála síðasta ræðumanni að öllu leyti. Það er alveg ljóst. Ég hefði haft áhuga á að heyra hvað framsóknarmönnum finnst um þessa tollasamninga. Viðhorf þeirra hafa almennt ekki komið fram í þessum umræðum. Það hefði verið áhugavert að eiga samtal við þá því að það hefur komið fram hjá einhverjum sjálfstæðismönnum sem hafa talað að þau eru þessu afar hlynnt flest.

Mig langar að byrja á að fara í það sem var verið að ræða en dregið var í efa, að öll matvara erlendis frá væri meira og minna menguð og fólki liði samt ágætlega og allt það. Til er mjög áhugaverð grein sem ber yfirskriftina: „Þingmenn þrettán landa ESB pissuðu plöntueitri.“ Þar er farið yfir þær áhyggjur sem uppi eru vegna notkunar skordýraeiturs og gróðureyðingarefna í landbúnaði víða um lönd þar sem leiddar hafa verið að því líkur að þetta sé farið að hafa áhrif á heilsu fólks sem neytir afurða þar sem slík efni eru notuð til framleiðslunnar. Þetta er Roundup sem margur Íslendingurinn hefur kannski heyrt af og opinberar stofnanir hafa notað töluvert. Það ætti náttúrlega að banna. Þetta er baneitraður fjandi. En Evrópusambandið frestaði samt sem áður í annað sinn í maí á þessu ári að greiða atkvæði um að staðfesta bann við notkun þess innan ESB. Þetta inniheldur glýfosat sem er mest notaða plöntueitrið í landbúnaðinum í Evrópu. Þetta er auðvitað bisness, ekkert annað. Árið 2011 er notkunin á þessum glýfosatgróðureyðingarvörum 650 þúsund tonn. Árið á undan var söluandvirðið um 6,5 milljarðar bandaríkjadollara. Það eru gríðarlegir hagsmunir undir hjá þeim sem framleiða þetta. Það hefur verið talað um að það geti tvöfaldast frá því 2011 til loka næsta árs. Það er talað um að um 85% af erfðabreyttu korni árið 2012 hafi verið með innbyggt þol fyrir þessum gróðureyðingarefnum.

Það hefur líka komið inn til Evrópusambandsins vaxandi fjöldi umsókna um að fá að rækta erfðabreytt korn. Það er eitt af því sem hefur verið lykilatriði í TTIP-tollaviðræðunum við Bandaríkin. Observer birti einhver leyniskjöl sem hafa verið í umræðunni þar sem ESB var að bjóða heilmikinn tollaafslátt sem hefur í för með sér að bandarískt nautakjöt á greiða leið inn í Evrópusambandið. Eins og þeir sem vita eitthvað um þessi mál er kunnugt er það framleitt að stórum hluta með erfðabreyttu kornfóðri.

Vinir jarðar eru samtök sem hafa látið sig þetta mál varða. Tölur þeirra bera með sér að glýfosat hafi fundist í þvagi 44% þeirra sýna sem tekin voru í 18 Evrópulöndum. Það er mestmegnis úr Roundup en líka önnur efni. Evrópusambandið opnar ekki fyrir þessar tölur, þ.e. um magn gróðureyðingarefna sem notað er í löndum sambandsins. Glýfosat er algengasta eiturefnið í landbúnaði í Bretlandi og líka í kringum 35% af illgresiseyðisnotkuninni í Danmörku. Í Þýskalandi hefur því verið úðað á um 4,3 milljónir hektara árlega eða tæp 40% af ræktarlandinu. Það liggur því alveg fyrir að notað er gríðarlega mikið af hættulegum efnum. Það var í apríl sem opinberuð var rannsókn á þvagsýnum sjálfboðaliða, þingmanna innan ESB, þar sem 48 þingmenn frá 13 ESB-löndum tóku þátt og lögðu fram þvagsýni. Flestir voru frá Belgíu, Frakklandi og Þýskalandi. Í öllum sýnunum sem skoðuð voru fannst þetta eiturefni. Það fundust að meðaltali 1,7 míkrógrömm af glýfosati í þvagi hvers þingmanns, það er 17 sinnum meira en heimilt er t.d. í drykkjarvatni í Evrópu. Hlutfallið var misjafnt, allt frá fimm sinnum meira en í drykkjarvatninu og upp í 42 sinnum meira. Hæsta glýfosathlutfallið var í þingmönnum frá Litháen, Spáni og Króatíu, en lægsta í Finnlandi, Írlandi og Ítalíu. Niðurstaðan var í raun sú að maturinn sem þingmennirnir neyta í mötuneyti þingsins inniheldur þetta glýfosat í umtalsverðu magni.

Önnur þýsk rannsókn, Urinale 2015, var með 2 þúsund sýni. Þar kom í ljós að 99,6% þátttakenda voru með yfir 1% af glýfosati miðað við viðmiðunarmark í drykkjarvatni í líkama sínum.

Það er líka að finna í þýskum bjór. Í einni af þekktustu bjórtegundum Þýskalands var magnið allt að 30 míkrógrömm í lítra, eða þrítugfalt það magn sem eðlilegt er talið í vatni. Í rannsókn sem var gerð var á 48 bændum, konum þeirra og 80 börnum í Bandaríkjunum árið 2004 greindist miklu meira innihald af þessum óþverra en í þingmönnunum. Það er því alveg ljóst að það sem við höfum státað af á Íslandi, að vera með nánast sýklalausa og heilbrigða framleiðslu, hlýtur að skipta máli. Með þetta eins og annað þá er þetta vaxandi heilbrigðisvandamál. Það hefur m.a. komið fram hjá landlækni. Auðvitað þyrftum við að gera slíka rannsókn á Íslandi og er löngu tímabært og væri mjög áhugavert að gera bæði rannsókn á þeim sem ferðast mikið og þeim sem ferðast sáralítið og borða mestmegnis innlenda framleiðslu. Ég held að það væri hið raunsanna viðmið sem mundi fást og kannski sýna stöðu íslensks landbúnaðar eins og hún raunverulega er.

Hér var líka talað um matvælasýkingar. Við getum ekki horft fram hjá ábendingum landlæknis o.fl. þar sem kemur fram að við ferjum um gríðarlangan veg mjög mikið af þeirri fæðu sem við erum með á borðum dagsdaglega, ávexti og grænmeti. Eins og ég sagði í ræðu fyrir helgi í búvörulögunum þá fáum við kannski epli frá Kína og þau eru voða falleg á grænmetismörkuðunum. En það er eitthvað sem heldur þeim fallegum. Þau ferðast þúsundir kílómetra. Þau koma ekki öll sama dag til okkar en þau haldast falleg lengi áfram. Þetta eru viðkvæmar vörur, eins og við vitum. Það hlýtur eitthvað að hafa gengið á fyrst þau geta ferðast þúsundir kílómetra og samt verið svona falleg. Ég er ekki alltaf viss um hvaðan maturinn sem ég neyti dags daglega kemur.

Svo eru það neikvæðu áhrifin og vistsporið sem flutningarnar hafa í för með sér. Maður á að geta treyst því að matvælin sem maður er með fyrir framan sig séu framleidd við bestu skilyrði, án eiturefna og séu laus við óværu og sjúkdóma. Það á örugglega eftir að koma í ljós. Þetta er vaxandi vandamál í heiminum. Hnattvæðing matarforðans veldur því að matvælasýkingar koma enn frekar og meira upp á yfirborðið en hefur verið. Það er talað um að í Bandaríkjunum einum saman valdi sýklar úr mat um það bil 48 milljónum veikindatilfella og hundruð þúsunda sjúkrahússinnlagna og alls konar þess háttar. Ég held að það sé óábyrgt að halda því fram og alhæfa að allir þeir sem fara til útlanda og borða erlendan mat eða búa þar lifi ágætu lífi o.s.frv. og þess vegna sé ekkert hættulegt við að flytja inn. Það er ekki allur matur mengaður eða yfir mengunarstöðlum. En þetta er vissulega eitthvað sem við eigum ekki að kynda undir, ekki frekar en einhverju öðru.

Hér var líka nefnt að skortur væri á kjöti sem hefði orðið til þess að innflutningur hefði aukist og að það mundi hafa lítil áhrif á markaðinn þótt innflutningur væri aukinn. Ég er því ekki sammála. Auðvitað hlýtur það að hafa ýmislegt í för með sér ef flutt er inn í samkeppni vara og ekkert vitað um aðbúnaðinn, því að það gilda ekki sömu reglur. Við skulum átta okkur á því. Við settum sem betur fer reglur varðandi velferð dýra. Við ætlumst til þess að kýrnar gangi úti á sumrin. Ég held að það sé ekkert, og verð þá leiðrétt ef einhver veit betur, annað land en Noregur sem það gerir. Við setjum bændum okkar miklu stífari skilyrði en lönd sem við segjum að heimilt sé að flytja inn frá. Það eru líka öfugmæli. Það er hvorki sanngjarnt né erum við samkvæm sjálfum okkur ef það á að verða niðurstaðan.

Það vantar alla greiningu á þessum afleiðingum. Það er morgunljóst. Það eru Bændasamtökin ein sem koma með greiningu. Ráðuneytið kemur með þetta algerlega óklárt og illa unnið, leyfi ég mér að segja. Það er ekkert um afleiðingar sem þetta hefur fyrir íslenskan landbúnað, hvorki fyrir hinar dreifðu byggðir né yfir höfuð. Ég held að það sé ekki hægt að afgreiða þetta mál án þess að það liggi fyrir. Ég vona svo sannarlega að við sjáum að okkur með þetta. Talað er um að afnám tolla hafi engin áhrif eða lítil á bændur en það gerði það annars staðar, t.d. í Danmörku. Afkoman versnaði mjög. Það varð hrina gjaldþrota, sérstaklega í hvíta kjötinu. 200 fjölskyldubú fóru á hausinn, hef ég einhvers staðar lesið. Þar var fyrst og fremst vegna þess að verðið var svo lágt fyrir mjólkina og svínakjötið. Það er ekki ósennilegt að það verði afleiðing þess þegar tollarnir koma hér að fullu inn. Mér finnst það ekki siðferðislega í lagi. Við erum að kaupa jafnvel styrkt innflutt kjöt eða önnur matvæli við aðstæður sem við höfum ekki hugmynd um hvernig eru. Við getum ekki tryggt uppruna. Það er líka eitt sem er ekki í lagi. Þetta er eitthvað sem ég get alla vega ekki tekið undir. Og svo er það líka þetta, eins og ég er búin að benda áður á, að við höfum haft tækifæri, samkvæmt 25. gr. dýravelferðarlaga, sem varðar dreifingu og merkingu dýraafurða, það er hægt að banna eða takmarka innflutning frá löndum sem gera ekki jafn ríkar kröfur um aðbúnað dýra og íslensk lög kveða á um, en það hefur ekki verið nýtt fram til þessa. Þá erum við að bjóða íslenskum bændum upp á ójafnan samanburð, þegar við ætlumst til þess að þeir framleiði vöru við miklu stífari skilyrði en bændur okkar þurfa að gera.

Ég held að það sé 0,009% sem markaðurinn sem við fáum aðgang að er á móti miklu stærra aðgengi í hlutfalli við þjóðina. Við erum bara 330 þúsund og erlendi markaðurinn margfalt stærri. Íslenskir bændur fá ekki sambærilegan aðgang og ESB fær inn til okkar. Það er líka eitt af því sem er svo mikið ójafnræði í, ef við horfum á það. Hér hefur verið talað um ostana og að flytja inn osta sem ekki eru framleiddir hér. Vissulega er það allt í lagi en þá fyndist mér að við þyrftum að skoða þetta. Eru dýrin í sambærilegri aðstöðu? Eru kröfurnar til þeirra sem flytja inn þær sömu og við gerum hér? Af hverju gerum við þessar kröfur hér en finnst í lagi að gera þær ekki annars staðar? Svo er því haldið fram að þetta hafi ekki áhrif á íslenska ostamarkaðinn en auðvitað hefur þetta allt áhrif. Það er alveg ljóst. Ég ætli ekki endilega að segja að ég leggist gegn innflutningi á erlendri vöru, það má ekki túlka orð mín þannig. Mér finnst bara hættan vera fyrir hendi á mörgum stöðum og svolítil hræsni í því, sérstaklega varðandi þær kröfur sem við gerum.

Í einni af umsögnunum sem bárust við þetta mál er tekið fram að ástæða sé til þess að geta þess að allur tollkvóti ESB, þ.e. varðandi afurðir hér, mjólkurafurðirnar, sé á formi birgðavöru þar sem geymsluþol er í mánaðavís en stærsti hluti tollkvóta frá Íslandi er ferskvara þar sem geymsluþolið er um 30 dagar. Við erum að tala um allt aðra vöru, ferskvöru annars vegar og vöru með miklu lengri líftíma hins vegar. Það er ekki líku saman að jafna.

Það hefur líka komið fram varðandi þessa tolla og í umræðunni fyrir helgina að innflutningurinn á fuglum og svíni væri fyrst og fremst frá öðrum norrænum löndum þar sem staðan væri svipuð hvað varðaði sýklalyfjaónæmi. Á síðasta ári voru 43% af svínakjöti flutt inn frá Danmörku. Það var ekki flutt inn frá neinu öðru norrænu ríki. Það voru 27% frá Spáni og 20% frá Þýskalandi. Sama má segja um kjúklinginn, 25% kom frá Danmörku, 60% frá Þýskalandi en ekkert annað frá hinum norrænu ríkjunum, bara svona til að hlutirnir séu réttir. Það skiptir líka máli þegar verið er að ræða hvaðan kjötið kemur. Þetta snýr að mjög mörgum. Þetta er mikilvægt í stóra samhenginu. Ef það verður þannig að svínakjötsinnflutningur eykst mjög mikið sem verður til þess að grafa undan mörgum svínabúum þannig að við getum nánast talað um hrun í greininni, þá verður að hafa í huga að það er t.d. sú framleiðsla sem heldur sláturstöðvunum við efnið allan ársins hring. Sauðfjárbændur slátra ekki nema kannski tvo mánuði á ári. Kornið eða fóðrið mundi hafa áhrif á hækkandi verð til handa þeim bændum sem eftir stæðu. Það er mjög margt í keðjunni sem getur haft áhrif þarna. Ég hvet meiri hlutann til þess að skoða þetta betur en hefur verið gert. Það er óábyrgt af þinginu að afgreiða svona viðamikið mál eins og hér er undir án þess að taka tillit til þeirra aðvarana sem hafa verið raktar í umsögnum frá mjög mörgum aðilum, ekki bara bændum heldur líka frá landlækni o.fl. Það þarf að greina þetta. Ráðuneytið hefur haft tíma til að láta greina þetta. Mér vitanlega hefur það ekki komið fram. Ég verð þá leiðrétt ef það er þannig. Þetta er í mínum huga eins og óútfylltur tékki. Hverjar eiga mótvægisaðgerðirnar að vera? Þær eru ekki nægjanlegar í búvörusamningnum varðandi aðbúnað eða annað slíkt til að mæta þessu, hvorki hjá svína-, eggja- né kjúklingabændum. Það er ljóst að gera þarf miklu meira ef við ætlum að reyna að bjóða bændum upp á viðunandi skilyrði sem geta orðið til þess að þeir geti tekist á við það sem fram undan er.

Frú forseti. Ég hef farið yfir þau atriði sem ég hef áhyggjur af. Ég hef lesið mjög mikið og reynt að kynna mér það sem um þetta hefur verið sagt og skrifað, ekki bara, svo því sé haldið til haga, af hálfu bændaforustunnar heldur líka fleiri aðilum og erlendis frá, eins og ég benti á varðandi t.d. það sem gerðist í Danmörku. Við erum ekkert öðruvísi en önnur lönd hvað það varðar. Við þurfum að vera klár á því hvað þetta þýðir í öllu tilliti fyrir neytendur og byggðina í landinu.



[18:33]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta mál enda mikið þjóðþrifamál. Vegna þess að nokkur umræða hefur spunnist um það hvort málið sé tengt breytingum á búvörulögum og búvörusamningi er rétt að ég upplýsi það að í öllum samtölum sem ég átti við þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra meðan á samningsgerð um búvörusamninga stóð, þá lýsti ég þeirri skoðun minni og okkar í Samfylkingunni að það væri algjörlega ljóst að samhliða áframhaldandi stórfelldum útgjöldum til stuðnings íslenskum landbúnaði sem við styddum þyrftu þau útgjöld að vera þannig að þau hefðu eins lítil neikvæð áhrif á samkeppni og kostur væri, styddu við framþróun í landbúnaði og samhliða þyrfti að koma innleiðing á þessum tollasamningi með þeim hætti að hann opnaði dyr eins og mögulegt væri fyrir íslenska neytendur. Vegna þess að það væri nauðsynlegt til að tryggja bæði gæða- og verðaðhald fyrir íslenskan landbúnað.

Ég tek eftir því í umræðunni að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa tekið að sér að vera fulltrúar afturhalds og einangrunarhyggju og landlokunar í þessu máli. Ég verð að segja að mér þykir hugmyndaauðgin í því sem hér hefur verið fram borið af þeirra hálfu ansi mikil. En hér er aldrei sagt neitt nýtt. Eini valkosturinn við breytingar sem felast í þessum tollasamningi er einhvers konar hugsun um að landið eigi að vera lokað og víggirt, landbúnaður eigi bara að vera sjálfsþurftarframleiðslubúskapur fyrir íslenska þjóð en ekki samkeppnishæf atvinnugrein. Ég er í grundvallaratriðum ósammála þeirri stefnumörkun. Ég tek eftir að þingmenn VG hafa síðan pakkað þessu inn í orðskrúð sem tengist sjálfbærni og umhverfisspori og öðru slíku. En ef menn misnota með þeim hætti sjálfbærnishugtakið að reyna að byggja á því rökstuðning fyrir því að byggja tollmúra um ríkustu lönd í heimi þá eru menn jafnframt að segja að fátækustu lönd í heimi eigi alltaf að vera fátæk af því það megi aldrei flytja nokkurn hlut milli landa. Alþjóðaviðskipti ganga út á að þau lönd sem ríkust eru og hafa mesta kaupgetuna opni markaði sína fyrir framleiðsluvörum þeirra sem hafa samkeppnisyfirburði á öðrum sviðum og svo gagnkvæmt.

Það hefur mikið verið talað um hversu skaðlegt það sé að opna landið að þessu leyti fyrir innflutningi. Mér finnst ágætt að hugsa landbúnaðinn eins og aðrar atvinnugreinar. Við erum matvælaframleiðendur sem sinnum útflutningi í sjávarútvegi sem á engan sinn líka. Íslenskur sjávarútvegur hefur aukist og tekið tröllaukið stökk fram á við í gæðum og verðmæti eftir að við jukum útflutningsfrelsið, opnuðum markaði. Hugtakið gámafiskur var algengasta orðið í kvöldfréttum sjónvarps árið 1991. Hugtakið gámafiskur hefur ekki heyrst síðan við fórum í EFS vegna þess að nú er fiskur unninn á Íslandi. Við fluttum inn til landsins störf sem áður voru unnin í útlöndum, jukum verðmætin hér og bjuggum til ný tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg. Alveg sama getum við gert með landbúnaðinn. Af hverju er Mjólkursamsalan að semja um framleiðslu á skyri í útlöndum? Jú, það er vegna þess að við höfum ekki tollkvóta til að flytja það út. Við getum ekki fundið vinnu fyrir íslenskar hendur í íslenskum landbúnaði. Þess vegna hefur á ársþingi Alþýðusambands Íslands síðustu 15 árin stöðugt verið kallað eftir auknum aðgangi fyrir tollfrjálsan útflutning á landbúnaðarvörum til annarra landa til að hægt sé að fjölga störfum í íslenskum landbúnaði.

Framtíðarsýnin sem við fáum að heyra frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs — ég biðst afsökunar á því að taka þá mjög hérna fyrir því að þeir hafa stillt sér upp í stórskotaliðinu til varnar í þessu máli — framtíðarsýnin sem þeir bjóða upp á er sú að íslenskur landbúnaður eigi að vera grein þar sem störfum getur ekki annað en fækkað vegna þess að vélvæðing eykst, tæknin batnar og erfiðum störfum fækkar blessunarlega í landbúnaði eins og öllum öðrum greinum. Það þýðir þá að þar fækkar fólki alveg eins og í sjávarútveginum. Þar hefur fólki fækkað um 2% á ári frá 1990. En störf í greinum tengdum sjávarútvegi, þekkingargreinum, hafa aukist miklu meira. Þess vegna eru verðmætin sem sjávarútvegurinn býr til fyrir okkur svo mikil. Það er nákvæmlega það sama sem við getum gert í landbúnaði ef við bara hristum af okkur þetta ömurlega hugarfar afturhalds og einangrunarhyggju sem mun ekkert annað gera en kæfa landbúnaðinn.

Þekkt er sagan eftir John Steinbeck af risanum í Mýs og menn sem vildi vernda músina. Hann elskaði músina svo mikið að hann hélt henni í lófa sínum. En ást hans var svo mikil að hann gætti sín ekki og hann kramdi hana. Það er mikilvægt að menn varist það að drepa yndið sitt vegna þess að þeir vilji verja það svo mikið.

Tækifærin fyrir íslenskan landbúnað byggjast þvert á móti á því að opna landið núna, auka útflutningsmöguleika íslensks landbúnaðar vegna þess að við erum svo gæfusöm að við opnuðum ekki landið árið 1960 eða 1970 þegar áherslan var öll á verksmiðjuvædda framleiðslu, alveg eins og var hér með mjólkursölulögunum 1934 þegar samkeppnin var bönnuð milli framleiðenda. Vandinn er sá að VG er ekki enn þá búið að fatta að það er mjög vont að leyfa ekki samkeppni milli framleiðenda. Ef menn vilja alvöru lífrænan iðnað, ef menn vilja samkeppni á grundvelli uppruna og vörugæða, þá verður að leyfa samkeppni milli ólíkra vinnsluaðila. Það er nauðsynlegt.

Gamla mjólkursölukerfið frá 1934 var byggt á því að ekki var til nóg af mjólk og hún var ekki nógu holl og ekki nógu tryggt að hún væri hrein. Þess vegna fóru menn í það að byggja stórfellt vélvætt kerfi til hreinsunar á mjólk, vinna hana og senda hana eins á alla staði. Ég skil alveg sjónarmiðin þar að baki. Menn vildu tryggja aðgang að heilnæmri næringu fyrir fátækt fólk. Ég skil það alveg. En í því sköðuðu menn líka fjölbreytni og sóknarfæri í greininni. Það var bannað að selja Borgarnesskyr, sem var besta skyr á landinu, og öllu skyri hrært saman, jafnt lélegu skyri og góðu, og enn þann dag í dag er ekki í kerfinu auðvelt að finna uppruna vöru. Það er ekki auðvelt að greina skrokkana eftir nákvæmri gerð vegna þess að í kerfinu er enn þá að finna leifar þessarar skussaverndar þar sem allir eru verðlagðir eins og allt hrært í sama potti.

Þess vegna þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð kemur og myndar skjaldborg um ofbeldishegðun Mjólkursamsölunnar gagnvart minni keppinautum þá eru menn algjörlega vegavilltir á því hvert landbúnaðurinn þyrfti að vera að fara. Hann þarf nefnilega að fara meira og meira í fjölbreytnina. Eitt er það að einn aðili sjái um að safna mjólkinni um allt land, ég get svo sem alveg keypt það, það er enginn vandi að koma því fyrir. En að síðan séu margir litlir aðilar og margir aðilar sem keppi í vöruþróun og gæðum til að auka vörugæðin. Hvað er að gerast núna með tilkomu Örnu til dæmis? Jú, það er allt í einu komið fyrirtæki sem treystir sér til að bjóða miklu heilnæmara skyr og AB-mjólk, og þar er ekki nema helmingurinn af sykurmagninu sem okkur hefur verið boðið upp á frá Mjólkursamsölunni hingað til. Þannig að ef ekki hefði orðið fyrir þessa samkeppni frá Örnu þá værum við bara enn þá að grauta í okkur þessu sykurgumsi frá Mjólkursamsölunni óáreitt. Er það gott út frá einokunarsjónarmiðum? Nei. Þess vegna held ég að svo mikilvægt sé fyrir okkur að tileinka okkur sóknarhug fyrir íslenskan landbúnað.

Helsta áhyggjuefni mitt af þessum samningi er hvernig hann verður innleiddur. Ég hef áhyggjur af því að kvótarnir verði áfram boðnir upp. Hér höfum við fengið að heyra miklar varnarræður gagnvart því að veruleg hætta sé á að hingað komi inn ódýr matvæli og ekki nógu góð matvæli. Fyrirkomulagið með uppboðum og kvótum tryggir að við fáum ódýr matvæli vegna þess að menn bjóða svo mikið í kvótana að þeir hafa ekki efni á að kaupa dýrustu vöruna. Ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji holla matvöru, gæðamatvöru, þá á að hætta að bjóða upp kvótana, því að þeir eru það sem þvingar innflytjendur til að taka alltaf ódýrustu vöruna í innflutningi. Þegar Ísland skrifaði upp á samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina 1994 undirgengumst við það markmið að við vildum hafa tollkvótana sem áttu að tryggja jafnt samkeppni í verði og gæðum svo að varan kæmi inn á verði sem þvingaði innlenda framleiðslu til þess að vera ekki með einokunarprísa og gæðum þannig að það kæmi eitthvað annað heldur en vöruframboðið sem fyrir er. Við munum öll hvernig ostaframboðið var á Íslandi árið 1994, það hefur kannski ekki breyst neitt rosalega mikið hjá einokunarrisanum og mörgu ábótavant svo sem í vöruþróun þar, en samkeppnin utan frá var alltaf hugsuð til þess að veita innlendri framleiðslu þetta tvíþætta aðhald. Uppboð á innflutningskvótum eyðileggur þetta hvort tveggja, eyðileggur gæðaaðhaldið vegna þess að innflytjendurnir verða að flytja inn lakari vöru. Þess vegna finnst mér það skjóta skökku við þegar þeir sömu sem leggjast gegn því að við hættum að bjóða upp kvótana, koma hingað upp og kvarta yfir gæðum framleiðslunnar sem flutt er inn. Því meira sem kvótar eru boðnir upp þeim mun lakari vara verður flutt inn.

Síðan er það þannig að sú vara sem flutt er inn hingað til lands er auðvitað þannig úr garði gerð að hún verður að uppfylla gæðakröfur, sömu gæðakröfur og heilbrigðiskröfur og eru á innlenda framleiðslu. Hverju landi er síðan í sjálfsvald sett að setja upprunamerkingarkröfur. Það hefur Ísland bara ekki gert. Það er að hluta til vegna þess að arfleifð okkar í þessari grein er of mikið lituð af þessari sögu skussaverndarinnar. Að kerfið hefur ekki verið gírað inn á sérhæfingu og að þeir sem geri vel fái að njóta þess í verði og gæðum og vörumerki, heldur þvert á móti að öllu sé hrært í einn pott og það sem standi á nótunni sé bara svínakjöt, íslenskt. Svo fór ég að lesa smáa letrið, þar stóð upprunaland: Spánn. Þetta er heimaskapaður vandi. Þetta er sjálfskaparvíti Íslendinga. Við verðum að taka ákvörðun um hvernig við ætlum að hafa landbúnaðinn. Við getum ekki haldið áfram að gera eins og vinir mínir í Vinstri grænum að tala niður mikilvægi samkeppni á afurðastigi, mikilvægi vöruþróunar á afurðastigi og tala svo upp einokunarhyggjuna á móti. Þetta er algjörlega fráleitur málflutningur og vísar ekki áfram á nokkurn hátt fyrir íslenskan landbúnað.

Mikilvægasta verkefnið okkar núna er að þróa kerfið áfram þannig að stuðningurinn verði eins lítið framleiðsluhvetjandi eða framleiðslustýrandi og mögulegt er, hann styðji við dreifðar byggðir og búsetu þar, hann styðji við fjölbreytt verkefni sem bændur geti tekið að sér og fái greitt fyrir. Ég sé ekkert ofsjónum yfir fé sem varið er í stuðning við innlenda landbúnaðarframleiðslu, en ég sé ofsjónum yfir því ef það á að festa greinina áfram í sömu framleiðslufjötrum og við eigum að halda áfram að greiða, almenningur í landinu, með tollverndinni alla þá fjármuni sem verið er að greiða án þess að það vísi einhverja leið áfram fyrir greinina. Greinin á annað og betra skilið en að vera læst í þessum fjötrum ofstjórnar og einhæfni.

Það sem þessi takmarkaði innflutningur veitir er tvennt. Hann veitir aðhald fyrir innlenda framleiðslu, gæða- og verðaðhald ef kvótarnir verða gefnir en ekki boðnir upp. Og hann veitir kærkomið tækifæri fyrir þær greinar íslenskrar landbúnaðarframleiðslu sem geta flutt út og hafa sérstöðu til þess til að gera það. Gæfa okkar er sú, eins og ég sagði áðan, að við fórum ekki að flytja inn fyrir 30 árum síðan meðan alls staðar í Evrópu var enn þá iðnvæddur landbúnaður þar sem áherslan var á ódýrar kjúklingabringur, ódýrt þetta og ódýrt hitt, unnið í verksmiðjubúum og verksmiðjubúskap. Blessunarlega er orðin bara allt önnur áhersla alls staðar í hinum vestræna heimi hvað þetta varðar. Ég hef enga trú á öðru en íslenskir neytendur muni, ef íslensk stjórnvöld drattast til að innleiða upprunareglur, vera tilbúnir að greiða dýru verði góða vöru. Þegar mér var boðið upp á að kaupa íslenskt svínakjöt, upprunaland Spánn, þá hefði ég verið tilbúinn að borga tvöfalt hærra verð fyrir upprunamerkt svínakjöt frá fjölskyldubúi sem væri vottað með litla lyfjanotkun. Þetta eru allt hlutir sem við þurfum að byggja upp hjá okkur til að tryggja sérstöðuna. Fordæmi frá garðyrkjunni segir okkur að Íslendingar eru tilbúnir að borga tvöfalt hærra verð fyrir innlenda framleiðslu en erlenda ef hún er upprunamerkt og þeir tengja við hana. Það er því ekkert að óttast hvað það varðar.

Mér þykir því þessi málflutningur, þessi grautarlegi málflutningur þar sem öllu er hrært saman, jafnt heilbrigðiskröfum og upprunamerkingum og reynt að láta í það skína að að okkur steðji skelfileg vá vegna þess að hér séu að mokast inn einhverjar taílenskar kjúklingabringur, vera bara þannig að hann sé ekki mönnum bjóðandi. Okkur er í lófa lagið að setja þær upprunareglur sem við viljum setja. Þær geta þá gilt um alla, líka okkar eigin framleiðslu. Ég held að það sé mikilvægt fyrir hana. Ég held að sóknarfærin fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu séu óendanleg í þessum heimi, þar sem áherslan verður sífellt meiri á heilnæmi og uppruna og sífellt minni á vélvæðingu. Það er gæfa okkar að við erum að byrja að opna þessa umgjörð nákvæmlega núna þegar hugmyndin um verksmiðjubúskap hefur, hvað eigum við að segja, lifað sig úti í hinum stóra heimi.

Ég ætla að hafa það sem lokaorð mín að ég trúi því sannarlega að íslenskur landbúnaður geti vaxið. Þess vegna er þessi samningur svo mikilvægur. Það er svo mikilvægt að setja fram hugsunina inn í þessa grein, hætta að horfa á hana sem grein sem sé algjörlega óhugsandi að geti vaxið og horfa á hana sem grein þar sem við búum til þær væntingar að geti fjölgað störfum, aukið framleiðslu og flutt út. Það væri gaman. Ég held það væri besta gjöfin sem við getum gefið íslenskum landbúnaði, að skapa þær aðstæður.



[18:51]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var um margt merkileg ræða hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Honum verður tíðrætt um það að hann telji fulltrúa míns ágæta þingflokks vera fulltrúa afturhalds og einangrunarhyggju þegar kemur að þessum samningi. Ég verð að segja það og kemur kannski engum á óvart að ég er því algjörlega ósammála og tel einmitt að það sem ég og félagar mínir í Vinstri grænum höfum verið m.a. benda á, bæði í nefndaráliti og í umræðum, er að horfa til framtíðar. Við viljum taka fleiri þætti undir. Ég verð að segja að það kom mér sannast sagna talsvert á óvart í ræðu hv. þingmanns, fyrrum formanns Jafnaðarmannaflokks Íslands, hvað ræða hans gekk mikið út á það að auka samkeppni eins og að samkeppni væri upphaf og endir alls. Samkeppni getur alveg verið ágæt á ýmsum sviðum en ég tel að hún sé ekki eini mælikvarðinn sem hægt er að nota eða skynsamlegt að nota og tel reyndar að það sé mjög hættulegt, þó svo að hér sé um að ræða tollasamning, að festast í slíkri umræðu og hugsa bara um verslunar- og viðskiptahagsmuni en horfa ekki til samfélagslegra og félagslegra þátta, umhverfislegra þátta og lýðheilsusjónarmiða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að hægt sé að nota samkeppni sem eina stóra mælikvarðann (Forseti hringir.) þegar kemur að máli eins og þessu sem við ræðum hér, hvort við verðum ekki að taka fleira inn í.



[18:54]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú gott að hv. þingmaður er að átta sig á muninum á jafnaðarstefnunni og hreinni vinstri stefnu, því að jafnaðarstefnan hefur alla tíð lagt áherslu á það að samkeppni sé besta leiðin í atvinnustarfsemi. Það er vegna þess að þá finna menn kröftum sínum viðnám og keppa í gæðum. Ég spyr hv. þingmann á móti: Telur hv. þingmaður það vont að það komi fyrirtæki eins og Arna og keppi, bjóði upp á minna sykurmagn og meiri vörugæði en einokunarfyrirtækið Mjólkursamsalan hefur talið sér sæma að bjóða okkur upp á hingað til, dragi úr óhollustu, í samkeppni og græði kannski eitthvað á því, fái markaðshlutdeild út á það, bjóði upp á nýja tegund vöru, laktósafría vöru sem ekki hefur verið boðið upp á áður — ekki fyrr en Mjólkursamsalan reyndar vissi að þær væru að koma, þá nýttu þeir tækifærið og skelltu einni lítilli línu af laktósafrírri mjólk á markaðinn áður til þess að passa að skemma fyrir litla keppinautnum? Er hv. þingmaður almennt á því að það sé vont ef samkeppni myndast á afurðastigi þannig að bændur fái hærra verð vegna þess að það er komin ný afurðastöð sem býður betra verð fyrir vöruna? Þetta er það sem samkeppni gerir. Hún eykur verðmæti og hún kemur í veg fyrir að bændur þurfi t.d. að sæta afarkostum eins og núna í verðlagningu á lambakjöti sem einmitt flokkssystir hv. þingmanns hefur gert athugasemdir við. Það er það sem samkeppnin gerir. Hún tryggir að menn þurfi ekki að sæta afarkostum eins eða fárra og þess vegna er hún svo mikilvægt.

Ég er búinn að hrekja í minni ræðu allan málflutning um að hér sé bráð lýðheilsuhætta eða heilbrigðishætta á ferðinni eða eitthvað slíkt. Það er bara yfirvarp. Eftir stendur hvort menn vilja gefa samkeppni séns, opna landið eða hvort menn eru algjörlega ákveðnir í því að vera bara í einangrunarhyggjunni sama hvað tautar og raular.



[18:56]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg endurtekið það sem ég sagði í mínu fyrra andsvari að ég tel að samkeppni eigi við á ýmsum sviðum og geti oft verið af hinu góða, en ég tel hins vegar að hún geti alls ekki verið upphaf og endir alls og alls ekki eini mælikvarðinn sem við setjum á hlutina. Ég verð að vera algjörlega ósammála hv. þingmanni í því að hann sé búinn að hrekja eitthvað sundur og saman það sem við höfum fært fram um umhverfisleg og lýðheilsuleg sjónarmið í þessum samningi, síður en svo. Við höfum bent á ýmislegt þar máli okkar til stuðnings. En gott og vel, ef við erum ósammála um þetta þá verður bara svo að vera.

Ég er algjörlega sammála því að þessi samningur og búvörusamningurinn tengist. Þó svo að ég telji að afgreiðsla málanna þurfi ekki að vera samantengd þá ætla ég ekki að gera lítið úr því að efnislega sé ýmislegt í þessum málum sem tengist. Þá hefur það komið fram að skipaður var starfshópur á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis til að kanna áhrif af tollasamningnum og lagðar fram tillögur um það sem þyrfti að skoða sérstaklega. Eitt af því sem ég hef gagnrýnt er þá það sem í rauninni gerist, það er stefna meiri hlutans á þingi að samþykkja þennan tollasamning fyrst en fara svo í einhverjar aðgerðir sem lagðar hafa verið (Forseti hringir.) til í öðru ráðuneyti. Telur þingmaðurinn rétt farið að málum eða tekur hann undir áhyggjur mínar af því að með því að fara þessa leið séum við í raun (Forseti hringir.) að skrifa undir opinn tékka þar sem vilji er til að skrifa undir tollasamninginn og fullgilda hann (Forseti hringir.) en svo ætlum við bara að sjá til hvort það sé eitthvað innan lands sem við þurfum svo seinna að breyta?



[18:58]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú bara glaður að heyra að hv. þingmaður þrætti ekki við mig um mikilvægi samkeppni á afurðastiginu og ég bið hana að taka þetta upp við hv. þm. Ögmund Jónasson á næsta þingflokksfundi vegna þess að það er greinilega hægt að finna ávinning af samkeppni í búvöruframleiðslu. Samkeppni er auðvitað ekki upphaf og endir alls, enginn hefur haldið því fram, en hún hefur góð áhrif í búvöruframleiðslu og sérstaklega afurðastiginu.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um, innleiðinguna á samningnum, þá var þessi nefnd mjög athyglisverð sem var bara skipuð fulltrúum framleiðenda. Það sýnir enn og aftur hinn skakka hugsunarhátt í þessu máli. Ég skil ekki hvernig menn geta almennt lagt slíkar nefndir til grundvallar í svona málum. Auðvitað þurfa neytendur að koma að borði líka, verslunin líka og satt að segja hefur talsmátinn í garð verslunarinnar hérna í þingsölum upp á síðkastið náttúrlega verið þannig að jaðrar við atvinnuróg. Ég held að menn mundu ekki geta komist upp með að segja svona hluti utan þessa salar, satt að segja.

Í þessum tillögum er sumt þess eðlis að það stenst ekki alþjóðlegar skuldbindingar Íslands eins og það að halda áfram uppboðum á innflutningskvótum og nota peningana úr uppboðunum til þess að styðja innlenda framleiðslu. Ísland má ekki gera þetta. Við erum búin að skrifa upp á það. Þetta er bannað. Þá erum við að breyta innflutningskvótum í fjáröflunartolla og til þess höfum við enga heimild. Það sem ég vil gera og lýsti í ræðu minni áðan er að Ísland setji strangar upprunareglur sem gildi um alla innlenda sem erlenda framleiðslu. Ég held að það muni gagnast innlendri framleiðslu. Það er eitthvað sem við getum gert og er okkar að gera. En til þess þurfum við ekki að loka landinu. Til þess þurfum við ekki innstæðulausan hræðsluáróður um það hvað erlend framleiðsla sé vond og skelfileg og skítug og svakaleg.



[19:01]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Forseti. Þetta er fróðleg umræða um tollasamninginn sem hér liggur undir, viðskiptasamning Íslands við Evrópusambandið, og skiptar skoðanir á því hvernig hann muni koma út fyrir land og þjóð. Það er hægt að draga þetta hvort í sína áttina, þetta er auðvitað ekki svart og hvítt. Hv. þm. Árni Páll Árnason talar mikið um afturhaldssemi okkar vinstri grænna og einangrunarhyggju. Ég vísa því algerlega til föðurhúsanna að eitthvað slíkt sé í okkar málflutningi heldur viljum við að horft sé á áhrif tollasamningsins á þá aðila sem eiga mikið undir eins og bænda, það sé horft til neytenda og greining fari fram á því hvaða áhrif samningurinn hafi á atvinnu og byggð í landinu. Ég held að allir þessir þættir séu svo mikilvægir að eðlilegt sé, þegar ákveðið er að stórauka innflutning inn í landið á tollfrjálsri landbúnaðarvöru eins og þarna er verið að tala um, að slík greiningarvinna liggi fyrir. Það er ábyrgt að gera það og horfast í augu við það hvernig menn ætla að beita sér í mótvægisaðgerðum. Eða ætla menn að fljóta sofandi að feigðarósi og horfa upp á fjölda búa, bæði í svínakjöts- og alifuglakjötsframleiðslu, eggjaframleiðslu og annarri kjötframleiðslu í landinu, gjalda þess að fá slíkt magn inn á markaðinn til viðbótar við það sem fyrir er, sem gæti haft þær afleiðingar að framleiðsla og búrekstur legðist af víða um sveitir landsins? Ég held að það sé ekki óábyrgt að kalla eftir greiningarvinnu. Annað eins hefur verið gert um fjölmarga aðra hluti sem hafa efnahagsleg og þjóðhagsleg áhrif á Ísland sem heild.

Það má alveg nefna að talað er um að auka innflutning á svínakjöti á næstu fjórum árum úr 200 tonnum í 700 tonn, á alifuglakjöti úr 200 tonnum í 856 tonn, af unnum kjötvörum úr 50 tonnum í 400 tonn og pylsumagnið úr 50 tonnum í 250 tonn. Það munar um minna. Það getur reynst erfitt að reisa við matvælaframleiðslu ef sú framleiðsla dregst skarpt saman í kjölfar þessa og öll sú virðisaukakeðja sem fylgir vinnslunni og því að framleiða og fullvinna þessa vöru hér heima og koma henni á markað. Þar liggur auðvitað fjöldi starfa undir. Það er ekkert sem segir að sá mikli innflutningur sem boðaður er og tollasamningurinn felur í sér komi endilega neytendum til góða. Við höfum verið að auka tollfrjálsan innflutning og höfum stigið þau skref hægt og bítandi. En það er líka óánægja með að tollar á innfluttu kjöti hafi ekkert uppreiknast og það er krafa um að slíkt verði gert. Við þekkjum það líka að í dag, bæði í alifugla- og svínakjöti, nýta menn sér tollkvótana þannig að dýrustu hlutarnir eru fluttir inn, beinlausir bitar. Síðan þegar skortur verður á svínasíðum sem beikon er framleitt úr kemur sá innflutningur allur til viðbótar og er frjáls, svo að magnið er gífurlegt inn á markaðinn.

Það er mjög eðlilegt að við vinstri græn höldum til haga mikilvægi þess að á Íslandi er heilbrigði landbúnaðarafurða einstakt og ber af. Það er lítil lyfjanotkun. Varan er að mestu laus við kampýlóbakter og salmonellu sem hlýtur að skipta okkur gífurlegu máli.

Síðan eru það upprunareglur, að íslensk landbúnaðarframleiðsla sitji við sama borð og erlend landbúnaðarframleiðsla þegar afurðir þaðan eru fluttar til landsins í gegnum gagnkvæma tollasamninga. Annað skekkir auðvitað algerlega samkeppnisstöðu okkar við innflutta vöru. Það er hneyksli að hæstv. landbúnaðarráðherra sé ekki búinn að innleiða þær reglur að það eigi að vera hægt að upprunamerkja og að fyrir hendi séu upprunareglur um þá vöru sem við fáum til landsins svo neytendur geti haft á hreinu hvaðan hún kemur. Í dag höfum við ekki hugmynd um við hvaða aðstæður varan sem kemur til landsins erlendis frá er framleidd og hvort þar gildi lög um velferð dýra eins og við höfum sett hér á landi þar sem mjög strangar kröfur eru gerðar til landbúnaðargeirans um meðferð dýra, að varan sé hrein og algerlega hægt að rekja uppruna hennar og hún sé laus við lyfjanotkun eins og mögulegt er. Allt þetta er í einhverju tómarúmi og svartholi þegar kemur að öllum þeim innflutningi sem er til landsins. Það verða menn að lagfæra hið snarasta. Þetta er óásættanlegt.

Ég vil einnig koma inn á vistsporin sem fylgja því að flytja jafn mikið magn af landbúnaðarafurðum til landsins og stefnt er að í þessum samningi. Auðvitað eigum við að horfa til þess hvað það mengar minna að framleiða sem mest af landbúnaðarafurðum hér heima. Þó að við þurfum að flytja inn til rekstursins fóður og einhverja aðra framleiðsluvöru segir það sig sjálft að við drögum úr mengun með því að framleiða sem mest af landbúnaðarafurðum hér heima. Mér finnst það með ólíkindum að fyrrverandi formaður jafnaðarmannahreyfingarinnar á Íslandi gefi lítið fyrir þetta og telji það eitthvert lýðskrum á ferð hjá okkur vinstri grænum þegar við vekjum athygli á þessu í heildarsamhenginu, varðandi loftslagsmál og þau markmið sem voru sett á loftslagsráðstefnunni í París. Eigum við ekki að horfa á alla þætti? Ég vek athygli á þeirri breytingartillögu sem liggur fyrir þinginu frá okkur vinstri grænum um að umhverfisáhrif búvörusamningsins verði greind. Það á líka að horfa til þess og bera saman muninn á því að framleiða sambærilega vöru hér á Íslandi og að flytja hana um heimsins höf, t.d. frá Asíu. Það hlýtur að skipta máli að við reynum að draga sem mest úr loftslagsmengun. Allt skiptir máli í því samhengi.

Ég hef komið inn á það að verið er stofna ákveðnum atvinnugreinum í uppnám, þá nefni ég sérstaklega hvíta kjötið. Félag kjúklingabænda og Svínaræktarfélag Íslands mótmæla harðlega þeim tollasamningi sem nú liggur fyrir Alþingi. Með leyfi forseta, vitna ég í umsögn þeirra þar sem segir:

„Samningurinn var gerður án þess að fyrir lægi greining á neikvæðum áhrifum hans fyrir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu. Stefna stjórnvalda í tollamálum grefur undan þeim starfsskilyrðum sem þarf til að bæta velferð dýra, baráttu við smitsjúkdóma og lyfjalausan landbúnað.“

Ég held að þarna sé meginatriðið dregið saman í mjög kjarnyrta yfirlýsingu og lýst áhyggjum sem er innstæða fyrir. Í umsögninni koma líka fram áhyggjur varðandi kjúklingaframleiðslu, alifuglaframleiðslu, með leyfi forseta:

„Þróunin í kjúklingum hefur verið á þann veg að tollverndin hefur rýrnað svo mikið að verulegur hagur er af því að flytja inn verðmætari hluta kjúklingsins svo sem eins og bringur á þeim tollum sem gilda á innflutning frá ESB. Þetta hefur verulegar afleiðingar fyrir framleiðendur enda bringur ein verðmætasta vara kjúklingabúa. Hlutdeild innflutnings í heildarmarkaði hefur vaxið úr 8% árið 2010 í 20% 2015. Innleiðing fyrirliggjandi tollasamnings tekur ekki á þessu heldur mun aukið framboð tollkvóta lækka verð á tollum sem mun ýta undir innflutning og veikja innlenda framleiðslu.“

Er þetta endilega það sem við viljum? Þurfum við ekki að horfa til afleiðinganna þegar er verið að sturta svo gífurlegu magni af kjöti inn á íslenskan markað á stuttum tíma? Ég held að við þurfum að gera það. Menn hafa líka áhyggjur varðandi framleiðslu á kindakjöti og nautakjöti í þessum efnum, í raun og veru allan kjötmarkaðinn, því þetta hefur áhrif á alla kjötframleiðslu innan lands. Ástandið er þannig núna í Evrópu í þeim löndum sem við höfum verið að fá svínakjöt og kjúklingakjöt frá, Ítalíu, Spáni og Danmörku svo einhver séu nefnd, að verðið hefur hrunið út af viðskiptabanni við Rússland. Þá fáum við inn á markaðinn hér ódýrara kjöt meðan þetta ástand er. Bændur í þessum greinum í Evrópu búa við vond kjör vegna þessa og neyðast til að lækka verð á afurð sinni. Þetta er ekki ástand til lengri tíma heldur er um að ræða verðfall á vörunni og hún kemur inn á markað hér og skekkir alla samkeppnisstöðu. Þetta verður ekki til frambúðar en hvaða áhrif hefur það á getu greinanna hérna til að halda áfram framleiðslu? Það vitum við ekkert um. Hætta er á að mörg fjölskyldubú sjái sæng sína uppreidda og þurfi að bregða búi. Þá sjáum við ekki fram á að greinin rísi aftur eins og ekkert sé þegar markaður hér kallar eftir aukinni innanlandsframleiðslu á hvítu kjöti, lambakjöti eða nautakjöti.

Það er því margt í mörgu í þessu máli sem við þurfum að horfa til. Við vinstri græn hugsum líka til neytenda í þessum efnum. Það er mikilvægt að neytendur fái góða og heilnæma vöru á eðlilegu verði. Við teljum að það eigi að vera eðlilegt samspil þarna á milli. Við leggjumst alls ekki gegn því yfir höfuð að landbúnaðarvörur séu fluttar inn á tollkvótum. En við viljum að það sé eitthvert jafnvægi á milli innanlandsframleiðslu og innanlandsmarkaðar og hins gífurlega stóra markaðar sem Evrópa er. Við getum ekki keppt tonn á móti tonni, þetta örsamfélag okkar á móti risamarkaði í Evrópu. Það er ekki sanngjarnt að stilla því þannig upp.

Talandi um samkeppni: Það er oft látið eins og það sé léttvægt þegar við tölum fyrir því að við þurfum að horfa á heildarmyndina, efnahag okkar og atvinnulíf, kjör bænda og hvernig stuðningur við bændur skilar sér til neytenda og alla virðiskeðjuna sem fléttast saman. Hvorki bændur, neytendur né byggðir landsins eru eyland, þetta spilar allt saman, og þegar einhverjir hlekkir í þessari keðju eru slitnir út þá geta hlutirnir farið af stað og margt hrunið undan, undirstöðurnar veikst og dómínó-áhrifin geta orðið eitthvað sem við ráðum síðan ekkert við. Þegar er talað um samkeppni eins og hún sé upphaf og endir alls í þessum heimi skulum við líka horfa til þess að oftar en ekki hefur verið farið í nafni samkeppni inn á ýmsa markaði með undirboð til þess að ná yfirtökum. Þegar menn hafa hrakið minni aðila út af markaðnum hafa þeir komið aftur og boðið vöruna eða þjónustuna á allt öðru verði og uppsprengdu. Við skulum líka hafa í huga að aðstæður eru mjög mismunandi og ekki víst að svokölluð markaðslögmál geti gilt alls staðar. Við þurfum líka að horfa á samfélagsleg áhrif og aðrar breytur en taka ekki bara samkeppni eina og sér út fyrir sviga og halda að hún standi ein fyrir hinu eina og sanna réttlæti og tryggi neytendum alltaf það besta þegar upp er staðið. Það þarf svo margt annað að haldast í hendur og aðstæður verða að vera þannig að það verði ekki samkeppni fárra sem ýti þeim smærri út af markaðnum.

Talandi um smærri aðila: Sú ánægjulega frétt birtist nýverið að mjólkurstöðin Arna í Bolungarvík sé að stækka við sig og byggja sig upp á Ísafirði til að framleiða osta. Við þurfum líka að standa vörð um innlenda ostaframleiðslu þó að við opnum t.d. á innflutning á hörðum, upprunamerktum ostum og gefum smærri aðilum í verslun sem sérhæfa sig í þeirri vöru möguleika á að hafa gott aðgengi að henni. Ég er alveg á því að við eigum að hafa þetta í bland án þess að ógna innanlandsframleiðslu. Ég held að menn geti það alveg ef þeir vanda sig í þessum efnum.

Hv. þm. Árni Páll Árnason kom inn á það að við vinstri græn værum að styðja einokunarframkomu MS. Það er með ólíkindum að hv. þingmaður láti slíkt út úr sér. Að sjálfsögðu styðjum við það ekki að fyrirtæki sem hefur einokunarstöðu á markaði komi þannig fram við minni framleiðendur að þeir sitji ekki við það borð að fá afurðina, mjólkina, til framleiðslu á eðlilegu verði. Við höfum talað fyrir því og vonumst til að fá fram breytingar í þeim efnum, að minni aðilar fái vöruna á kostnaðarverði sem eðlilegt er og fái næga mjólk til framleiðslu. En það má líka nefna að fyrirtæki eins og Arna í Bolungarvík hefur lýst yfir að það treysti sér ekki til að safna sjálft mjólkinni úti um allt land og treystir (Forseti hringir.) á að MS sjái um það og útvegi fyrirtækinu þá vöru eins og hefur verið hingað til.



[19:21]
Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil sem formaður hv. utanríkismálanefndar, sem gat ekki verið viðstödd umræðuna í síðustu viku, tala örstutt. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið, ég held að flest hafi komið fram sem mikilvægt er og auðvitað kristallast ólík sjónarmið í því. Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri og þakka hv. utanríkismálanefnd og öllum fulltrúum þar fyrir mjög góða vinnu í sambandi við þessa tillögu. Það var mikið um hana fjallað og þurfti margt að fara yfir þannig að við fengum á fund okkar marga gesti. Margir höfðu á málinu sterkar skoðanir og algerlega andstæðir pólar mættust þar, eins og var við að búast. En umræðan gekk vel og ég vil þakka nefndarmönnum fyrir það.

Meginþemað í þeim samningi sem er til umfjöllunar og það verkefni sem skiptir máli er að mínu mati, og meiri hluta hv. utanríkismálanefndar sem öll skrifar undir nefndarálitið fyrir utan fulltrúa Vinstri grænna, að við fáum fleiri tækifæri, og mér finnst það aðeins gleymast í umræðunni, sem samfélag, matvælaiðnaðurinn í þessu landi fær fleiri tækifæri til að flytja út og koma á markað afurðum sínum. Það skiptir líka máli. Í öllum samningum sem gerðir eru, hvort sem þeir eru á milli manna eða ríkja, gefur maður og tekur. Þarna fáum tækifæri til að koma okkar góðu vöru á framfæri annars staðar. Mér finnst það skipta miklu máli. Okkur fannst það vega þungt í afstöðu okkar, sem er sú að samþykkja beri þennan samning. Við getum tekist á um hvort í því felist raunveruleg tækifæri til góðs eða ills, tækifæri til að flytja inn fleiri afurðir. Mín skoðun er sú, og endurspeglast í því nefndaráliti sem liggur frammi, að það sé til góðs. Það sé ekki aðeins til góðs fyrir íslenska neytendur, ekki aðeins fyrir íslenskan matvælaiðnað, ekki aðeins fyrir íslenska bændur heldur fyrir íslenskt samfélag í heild sinni. Mér finnst menn líka hafa skautað fram hjá því að ákveðnir aðilar sem gáfu umsagnir, eins og ASÍ, heildarsamtökin, gáfu jákvæða umsögn og töldu mikilvægt að samningurinn yrði samþykktur með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Hið sama gerðu Neytendasamtökin. Þetta vóg auðvitað mjög þungt í allri umræðu innan utanríkismálanefndar. Ég tel því að samningurinn sé til góðs.

Það má auðvitað fara yfir og ræða, og við ræddum það lengi á fundum okkar, hvernig þessi skipti hefðu nákvæmlega átt að eiga sér stað, hvort það var nægilegt samráð haft í ferlinu o.s.frv. Ég ætla ekki að fella neina dóma um það en fyrst og síðast tel ég, eins og meiri hluti nefndarinnar, að þarna sé á ferðinni góður samningur. Ég vil líka taka undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni og það er svolítið sérkennilegt að ég, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skuli vera honum hjartanlega sammála og hefði í raun og veru getað flutt sömu ræðu og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar gerði. Það kemur mér á óvart, en minnir kannski á þá skurðpunkta sem eru í íslenskum stjórnmálum, að hlusta á rök félaga okkar í Vinstri grænum, hvernig þeir bera fram málið og hvaða afstöðu þeir kjósa að taka í því. Ég ætla ekkert að lesa frekar í það en fyrir mér er það tal um fortíð, tal um eitthvað sem var, um hættur sem eru ekki raunverulega til staðar og einkennist að mínu mati af skorti á trausti gagnvart neytendum sjálfum sem geta valið, eiga að velja og við eigum að treysta. Ég held líka að íslenskur landbúnaður sé alveg orðinn fullvaxta þegar kemur að þessu. Ég held að íslenskur landbúnaður geti alveg tekist á við þær ógnir sem í þessu felast. Ég held að íslenskur landbúnaður sé hreinn, standist samkeppni við það allra besta, sé á þeim tímapunkti í sínum þroska, getum við sagt, að aldrei hafi verið önnur eins eftirspurn eftir slíkum vörum. Ég held að öll samfélög í heiminum séu að þróast í átt til þess. Ég held því að við ættum að taka því fagnandi að hann fái aukna samkeppni, fái að spreyta sig annars staðar og verði þá, eins og flest okkar teljum örugglega, verðmeiri og verðmætari en afurðir sem ekki eru eins heilnæmar og við teljum íslenskan landbúnað vera.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að árétta að þetta fellur saman við búvörusamninginn. Við vitum það öll. Það var rætt um það, því að það hefur komið nokkuð til umræðu í salnum í kvöld, hvort þetta eigi að vera rætt á sama tíma og í samhengi við búvörusamninginn. Það gerðu allir ráð fyrir því. Vinnan tók mið af því. Ég tel að það sé ágætlega farsælt. Ég held t.d. að ég hefði átt mjög erfitt með, og á reyndar á mjög erfitt með og mun að öllum líkindum ekki styðja þann búvörusamning sem liggur fyrir og hef áður sagt það, að vinna með það mál án þess að þetta væri hliðarviðfangsefni. Ég held að það séu mörg kerfi á Íslandi og ég hef lengi verið þeirrar skoðunar í íslenskum stjórnmálum að mörg kerfi á Íslandi séu löngu gengin sér til húðar, þurfi verulegrar ígrundunar við og þurfi verulegs hugrekkis við til að menn þori að takast á við nýjar áskoranir og vinna öðruvísi með þær. Ég held að búvörusamningurinn og landbúnaðarmál almennt séu gott dæmi um það. Það hvernig við nálgumst landbúnaðarmál er að mínu mati — og ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum annarra en ég frábið mér, eins og stundum er gert í þessari umræðu, að það að til staðar séu í huga manns efasemdir um núverandi landbúnaðarkerfi feli í sér andstöðu við íslenska matvælaframleiðslu eða bændur. Ég tel þvert á móti að þeir séu mjög vel hæfir og færir en mín skoðun er sú að við séum búin að njörva þetta kerfi niður í endalausar reglur, endalausar reglugerðir, endalaus formsatriði um hluti sem síðan kæfa það sem við síst viljum kæfa. Ég vildi óska að þingheimur hefði, ég hef reyndar ekki séð það undanfarna áratugi og skal viðurkenna að ég er ekki viss um að það gerist á næstu áratugum, sameiginlega hugrekki til að takast á við það kerfi, eins og svo mörg önnur, með það að leiðarljósi að íslenskur landbúnaður er frábær atvinnugrein, getur gert miklu betri og meiri hluti en við veitum honum tækifæri til. Þessi samningur er að mínu mati skref í rétta átt hvað það varðar. Hann er til góðs fyrir neytendur, matvælaiðnaðinn, bændur og alla sem að þessu koma, til góðs fyrir íslenskt samfélag. En fyrst og síðast verðum við að treysta þessum geira og treysta neytendum. Þess vegna fagna ég því að um þetta mál náðist eins góð samstaða og raun ber vitni á vettvangi utanríkismálanefndar.



[19:28]
utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar. Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði hiklaus tækifæri. Með tillögunni sem nú er lögð fram til þingsályktunar er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Samningurinn tekur til viðskipta með óunnar landbúnaðarvörur og viðskipta með unnar landbúnaðarvörur og felur í sér umtalsverða aukningu á tollfrjálsum innflutningskvótum auk þess sem tollar eru felldir niður á fjölda tollskrárnúmera. Með samningnum er samið um niðurfellingu tolla og aukinn kvóta á innflutning og útflutning á landbúnaðarafurðum. Samningurinn felur í sér hagsbætur fyrir neytendur með auknu vöruúrvali og lægra verði auk þess sem hann felur í sér tækifæri fyrir íslenska framleiðendur.

Ljóst er að mismunandi sjónarmið hafa komið fram um samninginn og hugsanleg áhrif hans. Ég tek undir með meiri hlutanum þegar hann áréttar að innflutningskvótar sem samið er um eru mjög svipaðir árlegum innflutningi undanfarin tvö ár, enda sjáum við það á öllum tölum sem við höfum verið að skoða er varða innflutning. Nauðsynlegt er þó að tryggja að stoðum sé ekki kippt undan matvælaframleiðslu í landinu. Matvælaöryggi á Íslandi hefur verið mikið, sýkingar eru fátíðar og gripið er fljótt og vel inn í þegar þær koma upp. Mikilvægt er að tryggja fæðuöryggi Íslendinga og horfa til allra þátta og áhrifa af samningnum. Þess vegna tel ég mikilvægt að farið verði í aðgerðir í tengslum við fyrirliggjandi samning og þá að þær séu til þess fallnar að leiðrétta skekkta samkeppnisstöðu og skapa jafnstöðu íslensks landbúnaðar og íslenskrar framleiðenda við erlenda keppinauta.

Eins og þingheimi er kunnugt um skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp í apríl til að kanna áhrif tollasamnings við Evrópusambandið og nýrra aðbúnaðarreglugerða frá júní 2016. Starfshópnum var ætlað að meta áhrif samningsins á einstakar búgreinar og þó einkum svína- og alifuglarækt, sem og að meta kostnað og áhrif nýrra reglugerða um velferð búfjár á þær búgreinar. Hópurinn hefur lagt fram tillögur í átta liðum þar sem tekið er á mörgum af þeim álitaefnum sem gerð er grein fyrir í áliti meiri hlutans sem lagt hefur verið nú fyrir, m.a. um tollkvóta, jöfnun samkeppnisstöðu innlendra aðila og reglur um heilbrigðiskröfur til landbúnaðarvara.

Ég tek heils hugar undir með meiri hluta atvinnuveganefndar sem tekur undir þessar tillögur. Auk þess ber ég fullt traust til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann fari gaumgæfilega yfir þær og skoði sérstaklega upprunamerkingar og lyfjanotkun.

Annars þakka ég meiri hluta utanríkismálanefndar fyrir vel unnin störf og verður gott þegar búið verður að klára þetta mál.



[19:32]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að nota þetta tækifæri nú þegar hillir undir lok umræðunnar og spyrja hæstv. ráðherra í ljósi orða hennar varðandi starfshópinn sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði, hvort henni finnist það ekki skjóta skökku við að samþykkja tollasamninginn fyrst, eins og hér er lagt til, og fara síðan að skoða þau áhrif sem hann kann að hafa eða mun hafa hér á landi og fara eftir á í aðgerðirnar. Finnst hæstv. ráðherra það ekki skjóta skökku við að við skulum byrja á að skrifa undir og fara svo að skoða afleiðingarnar sem af samningnum kunna að hljótast? Í mínum huga þyrfti að gera það þveröfugt, þ.e. fyrst að greina betur áhrifin og síðan að taka afstöðu til samningsins. Það er m.a. þess vegna, og það er hluti af rökstuðningnum fyrir því að ég í mínu nefndaráliti og við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til að málinu verði vísað til hæstv. ríkisstjórnar og því frestað vegna þess að ekki er búið að greina áhrifin af samningnum.



[19:34]
utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég árétta að komið hefur fram að þeir innflutningskvótar sem samið er um núna eru mjög svipaðir þeim árlega innflutningi sem verið hefur undanfarin tvö ár. Starfshópurinn var skipaður 8. apríl síðastliðinn. Margar af þeim tillögum sem þar eru lagðar fram eru komnar til framkvæmda eða eru við það að komast til framkvæmda, þannig að ég er að sumu leyti róleg yfir því og treysti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyllilega til þess að tryggja það að greinin verði ekki undir í samkeppni við þá erlendu aðila sem flytja inn vörur hingað. Ég treysti líka því að gæðin í íslenskum landbúnaði, hjá svínaræktendum og alifuglaræktendum, séu bara umtalsverð. Það hefur sýnt sig að neytendur eru mjög duglegir við að velja íslenskar afurðir vegna þess að þeir vita hversu heilnæmar þær eru. Ég held því að miðað við hvernig málið er vaxið og magn þess innflutnings sem um er að ræða að við getum þokkalega vel við unað. Hins vegar finnst mér mjög mikilvægt að við skoðum málið mjög gaumgæfilega og höldum áfram að tryggja framkvæmd þeirra tillagna sem starfshópurinn hefur lagt til.



[19:36]
Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en verð að viðurkenna að ég er eiginlega enn ruglaðri í því hvað það þýðir í raun og hver sé þá sýn hæstv. ráðherra á þetta því að mér fannst eins og mætti skilja svar hæstv. ráðherra sem svo að í rauninni væri vinna starfshópsins óþörf.

Ég hef áhyggjur af því að með því að fara þessa leið, þ.e. að skrifa fyrst undir, ef Alþingi fullgildir tollasamning við Evrópusambandið en fer síðan að skoða áhrifin, þýði það í rauninni að við séum að gefa hér út óútfylltan tékka þar sem við vitum ekki enn þá til hvaða mótvægisaðgerða mun mögulega þurfa að grípa. Það liggur ekkert mat fyrir á því hver tilkostnaðurinn yrði af því og þá sömuleiðis kostnaðurinn fyrir íslenska skattgreiðendur. Mér finnst ekki að bæði verði sleppt og haldið í þessu máli, annaðhvort hljótum við að líta svo á að það þurfi að fara í einhverjar mótvægisaðgerðir og ég tel nokkuð víst að svo sé að þær munu kosta eitthvað. Þess vegna hefði þurft að gera það á undan en ekki þegar búið er að skrifa undir samkomulagið.



[19:38]
utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þingmaðurinn hafi kynnt sér tillögur starfshópsins. Ég er að hugsa um að lesa þær nokkrar upp svo hún átti sig á því um hvað þær fjalla. Ég held að þær komi akkúrat inn á þau álitamál og þær áhyggjur sem sumir hafa haft af þessum samningi. Ég nefni í fyrsta lagi að lagt er til að skorti í tilteknum skrokkhlutum verði beint inn í tollkvóta með því að afmarka hluta ESB-tollkvótans fyrir þá vöruflokka sem er skortur á, í öðru lagi að við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beinum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, og í þriðja lagi að tollkvótum verði úthlutað oftar á ári, allt að fjórum sinnum í stað einu sinni til að viðhalda jafnara flæði inn á íslenskan markað. Einnig nefni ég að lagt er til að stjórnvöld leiti allra leiða til þess að setja frekari reglur um fyrirkomulag innflutnings með tilliti til gæðakrafna, einkum og sér í lagi er snertir lyfjanotkun og heilbrigðiskröfur til afurða.

Ég nefni þessar fjórar tillögur sérstaklega og mér finnst mjög brýnt að þær komist til framkvæmda. Ég hef leitað upplýsinga í atvinnuvegaráðuneytinu um það hvar þær eru staddar og mér skilst að framgangur þeirra sé þó nokkur.