145. löggjafarþing — 151. fundur
 13. september 2016.
störf þingsins.

[13:38]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Forseti. Það sem rekur mig hér upp í dag eru fréttir sem hafa borist frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um að í júlímánuði síðastliðnum hafi verið tilkynnt um fleiri kynferðisbrot á höfuðborgarsvæðinu en síðan í ágúst 2013. Það virðist sem þessi þróun haldi áfram í ágúst og það hefur m.a. annars verið upplýst að fjórar nauðganir hafi verið kærðar eftir síðastliðna menningarnótt í Reykjavík. Þetta er mikið alvörumál að mínum dómi og það er satt að setja óþolandi að konur, því að mest eru það konur sem verða fyrir barðinu á þessum þrælmennum, geti ekki verið óhultar í Reykjavík. Við höfum ekki upplýsingar um þessi brot, þ.e. við höfum ekki upplýsingar um eðli þeirra, þær vantar. Það vantar að vita hvort kringumstæður eru eitthvað svipaðar í þessum málum. Það vantar að vita hvort verið er að byrla konum ólyfjan. Það þurfum við vita vegna þess að við blasir að grípa þarf til aðgerða til að hindra þessa þróun. Það þarf að grípa til forvarna sem mest eru í því fólgnar að beina kastljósinu að gerendum í þessum málaflokki, sem eru að miklum meiri hluta til karlar. Það þýðir að innprenta þarf ungum piltum snemma hvernig maður kemur ekki fram við konur. Þetta þarf að innprenta og karlmenn þurfa að grípa til ráða og tala við aðra karlmenn um að þessi hegðun sé ekki líðandi og ekki sé líðandi að neyta aflsmunar til að koma fram vilja sínum gagnvart konum. Þess vegna hvet ég til þess, herra forseti, að lögreglan á höfðuborgarsvæðinu og Stígamót taki höndum saman og upplýsi okkur betur um kringumstæður þeirra mála sem hér um ræðir, þannig að hægt sé að grípa til ráðstafana til þess að hamla þessari öfugþróun.



[13:41]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í gær birtist okkur í hnotskurn ein af ástæðum þess að stjórnmál og umræðuhefð á Íslandi eru í alvarlegum vanda þegar formaður og varaformaður fjárlaganefndar boðuðu til blaðamannafundar um svokallaða skýrslu sem heitir Einkavæðing bankanna hin síðari. Skýrsla hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur er sögð unnin af og fyrir meiri hluta fjárlaganefndar, en enginn leggur þó nafn sitt formlega við hana. Hún hefur hvorki verið kynnt fjárlaganefnd með neinum formlegum hætti né hefur efni hennar og innihald verið lagt fyrir nefndina til umfjöllunar og við í minni hluta fjárlaganefndar gerum við það alvarlegar athugasemdir. Þetta birtist mér sem heimavinna þingmanna og byggir meira og minna á klippum úr öðrum skýrslum sem er raðað saman í eina súra samsæriskenningu um að þáverandi fjármálaráðherra gengi erinda erlendra kröfuhafa. Við blasir að formaður og varaformaður fjárlaganefndar eru augljóslega að misnota nefndina í marklausum pólitískum leiðangri. Ég get ekki annað en óskað eftir viðbrögðum annarra hv. þingmanna meiri hluta fjárlaganefndar, Haraldar Benediktssonar, Valgerðar Gunnarsdóttur, Ásmundar Einars Daðasonar og Páls Jóhanns Pálssonar. Eruð þið sammála framsetningu skýrslunnar og innihaldi og þeim ásökunum sem þar birtast? Eruð þið þá um leið ósammála niðurstöðu hv. þm. Brynjars Níelssonar sem vann málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd? Þær ásakanir sem hér birtast eru í meginatriðum þær sömu og hv. þm. Brynjar Níelsson var með til umfjöllunar, en hann komst að þeirri niðurstöðu að ásakanir sem fram komu varðandi hlut á aðkomu fyrrverandi fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytisins í endurreisn bankakerfisins ættu sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Það má gagnrýna margar gjörðir þeirrar ríkisstjórnar sem sat á síðasta kjörtímabili, en sú leið sem farin var við að endurfjármagna bankana var vel heppnuð. Ávöxtun ríkisins af þeim fjármunum er svo meira en viðunandi og mun nýtast við frekari uppbyggingu hér á landi. Nær væri að stjórnmálaflokkar töluðu um það með hvaða hætti á að ráðstafa þessum fjármunum til frekari uppbyggingar á Íslandi. Í kosningabaráttunni ættu flokkarnir að bjóða fólki upp á framtíðarsýn fremur en að afhjúpa sig á hvers konar endastöð íslensk stjórnmálahefð er komin.



[13:43]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þegar ég lagði fram fyrirspurn þess efnis hvort ekki væri hægt að koma á ættleiðingum úr flóttamannabúðum fékk ég mörg og mismunandi viðbrögð. Aldrei mundi mér detta í hug að leggja til að börn sem ættu foreldra þarna úti yrðu tekin frá þeim. Ég er að sjálfsögðu að horfa til þeirra barna sem mörg hver hafa horft á eftir fjölskyldu sinni verða sprengjum og byssukúlum að bráð, ættingjar eru órafjarri og/eða hafa enga burði til að sinna þeim. Núna hverfa börn og ungar stúlkur úr þessum búðum nærri því á hverjum degi og það er ekki af því að foreldrar þeirra eða ættingjar hafi komið og sótt þau. Það er vegna þess að litið er á þau sem ódýrt vinnuafl og góðan varning í mansal. Krakkar sem enginn leitar að því það er enginn eftir til að leita að þeim. Smyglarar sem stunda mansal eru núna farnir að nota flóttamannabúðir sem ódýrar stoppistöðvar fyrir varning sinn sem þeir smygla frá öðrum löndum. Erum við virkilega að útiloka alla möguleika yfir höfuð á því að hægt væri að veita einhverjum af þessum börnum örugga framtíð, ást og umhyggju, með aðstoð allra þeirra hjálparsamtaka sem þarna vinna? Ekki einu sinni þeim börnum sem missa foreldra sína eftir að þau komu í flóttamannabúðir svo enginn vafi leikur á að þau standa ein? Þarna eru fimm ára börn sem geta lýst því í smáatriðum hvernig foreldrar þeirra voru myrtir og framtíðin sem blasir við þeim er að dvelja í yfirfullum flóttamannabúðum, þ.e. ef þau eru heppin og lenda ekki í höndum glæpamanna. Það eru til tölur um að nær helmingur barna sem eru fylgdarlaus í flóttamannabúðum í Evrópu hverfi árlega, mörg á innan við 48 klukkustundum eftir að þau koma þangað og mörg hver þeirra finnast aldrei aftur. Börn eru stundum aðskilin viljandi frá fjölskyldum af hálfu smyglara og þeirra sem stunda mansal.

Herra forseti. Ég spyr þá sem að málinu koma og alla þá sem málið snertir: Er virkilega enginn möguleiki og er þetta virkilega svona afkáraleg spurning hjá mér?



[13:45]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það verður að viðurkennast að ég er svolítið ringluð yfir vinnubrögðum við skýrsluna eða ritgerðina sem var unnin af „meiri hluta fjárlaganefndar“. Þetta er ekki þingskjal, bara hv. þm. Guðlaugur Þór (Gripið fram í: Þórðarson.) Þórðarson og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, þau virðast vera framsögumenn og forgöngumenn og talsmenn, en aðallega hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Það var búið að fjalla formlega um þann anga málsins þar sem ætla mátti að misbrestur hefði orðið á í stjórnsýslu, í viðeigandi nefnd sem er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar skilaði hv. þm. Brynjar Níelsson áliti sem er hluti af þingmálaskrá þingsins. Í hans áliti kemur fram að ekkert vafasamt hafi átt sér stað.

Mér finnst þetta hið furðulegasta mál, forseti, í alla staði. Kannski fæ ég einhver svör hér. Kannski svara hv. þingmenn úr fjárlaganefnd okkur þingmönnum sem finnst þetta mál í alla staði skringilegt. Það væri ákaflega gagnlegt að heyra í öðrum þingmönnum úr meiri hluta fjárlaganefndar um þátttöku þeirra í þessu verki. Það er furðulegt, ef þetta er gert í umboði nefndarinnar, að minni hlutinn sé ekkert upplýstur fyrir blaðamannafund í gær um inntak skýrslu sem sett er fram í nafni fastanefndar Alþingis. Mér finnst makalaust að hvorki fyrrverandi fjármálaráðherra og annar varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Oddný Harðardóttir, hafi verið upplýst um þetta né hafi þingmenn í minni hluta nefndarinnar fengið tækifæri til að kynna sér þessa skýrslu eða ritgerð áður en blaðamannafundurinn var haldinn.

Síðan kemur fram í fréttum í dag, með leyfi forseta:

„Aðspurður út í hvort skýrslan sé opinbert gagn og verði birt eins og önnur þingskjöl segir Guðlaugur að enn eigi eftir að meta næstu skref og hvernig farveg skýrslan verði sett í. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir við mbl.is að til að skjöl frá þingnefndum séu birt þurfi þau að fara í gegnum nefndina.“

Ég verð að segja, forseti, að þetta eru alveg ótrúlega (Forseti hringir.) furðuleg vinnubrögð og þingið setur niður við þetta. Það verður að segjast eins og er.



[13:47]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið fimm prófkjör á síðustu dögum og valið á lista, með kjördæmaráði í einu tilfelli, á síðustu dögum. Á næstu örfáu dögum munu framboðslistar Sjálfstæðisflokksins í sex kjördæmum landsins líta dagsins ljós. Í þessum prófkjörum hafa tekið þátt þúsundir flokksmanna og valið á lista samkvæmt eigin samvisku. Með þessu lagi hefur Sjálfstæðisflokkurinn algjöra sérstöðu meðal pólitískra afla á Íslandi hvernig valið er á lista flokksins þar sem mikill fjöldi fólks kemur að, tekur þátt í að marka listana og taka þátt í starfi flokksins. (Gripið fram í: Störfum þingsins?) (BjG: Þetta eru störf þingsins.) Það eru listar flokksins og listar fólksins, (Gripið fram í.) en það er auðvitað öðruvísi hjá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. Þar eru auðvitað ekki margir kallaðir til þegar þarf að velja á listana. (BirgJ: Við höfum þúsund manns.) Svo situr bara einn í (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) restina og velur lifandi eða dauða á listana. Þannig að ég held að þú ættir nú ekki, hv. þingmaður, að hafa hátt um hvernig valið er á lista þegar þú ein situr svo eftir og kroppar þá út sem þér líkar ekki við. (BirgJ: Vertu ekki að fara með …) Þú ert nú bara að (Forseti hringir.) trufla mig í ræðunni þannig að ég gat ekki sagt það sem ég ætlaði að segja. (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)

Þú ættir nú bara … (Gripið fram í: BirgJ: Hættu að ljúga þarna.) þú ættir nú bara að (Gripið fram í: Uss.) (Forseti hringir.) að passa þig á því að vera ekki að …

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð (BirgJ: Hættu að ljúga.) í þingsalnum.)

trufla mig þegar þú hendir fólki út í hafsauga af listunum þínum dag (Forseti hringir.) eftir dag. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig sem Sjálfstæðisflokkurinn vinnur. Við látum fólkið í flokknum velja og síðan samþykkir hann það á fjölmennum og stórum fundum. Þar er enginn einn maður sem hendir neinum út. Hjá okkur ríkir friður um prófkjörin. [Hlátrasköll í þingsal.]

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum og biður hv. þingmenn, hvort sem þeir eru í ræðustól eða úr sætum sínum, að gæta að orðum sínum. Það var ekki gert í þeirri umræðu sem fór hér fram.)



[13:50]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Í ársbyrjun 2014 skipaði hæstv. félagsmálaráðherra starfshóp til þess að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar eiga auk mín sæti fjölmargir fulltrúar þeirra sem málið varðar eins og fulltrúar sveitarfélaga, ráðuneyta, samtaka, félagsmálastjóra, Þroskahjálpar, Landssambands eldri borgara, Öryrkjabandalagsins og kirkjunnar. Það er öflugur hópur sem unnið hefur ötullega við þá endurskoðun sem er meðal annars ætlað að greiða fyrir innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hann bíður enn fullgildingar þrátt fyrir að hafa verið undirritaður fyrir margt löngu af Íslands hálfu, eða þann 30. mars 2007. Í sumarbyrjun lágu fyrir drög að tveimur frumvörpum. Annað er frumvarp til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk sem ætlað er að leysa núgildandi lög af hólmi þar sem lögð er áhersla á ákvæði um þjónustu sem taka mið af og samræmast samningi Sameinuðu þjóðanna. Hitt varðar breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga til þess að bregðast við samfélagsþróuninni og er það jafnframt til samræmis við hin nýju lög.

Nú erum við í starfshópnum að leggja lokahönd á að vinna úr umsögnum sem bárust fyrr í sumar og nú á síðustu dögum, og ganga frá greinargerð. Á dagskrá þingfundar í dag er þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Það fellur ágætlega saman að fullgilda samninginn og að endurskoða lögin. Það er ekki endastöð heldur er það hluti af vegferð þar sem við verðum stöðugt að bæta lagaumhverfið til þess að tryggja jöfn tækifæri, jafnt aðgengi, mannréttindi og virka þátttöku allra í samfélaginu. Auðvitað er tímabært að fullgilda samninginn og þótt fyrr hefði verið. Nú þegar tækifæri gefst er ég ekki í vafa um að samstaða næst hér á Alþingi um það.



[13:52]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ærið tilefni í kjölfar ræðu hv. 7. þm. Suðurk. til að ræða heiðarleika í stjórnmálum. Það var að vísu ekki ræða hans sem fékk mig til að vilja tala aðeins um það heldur atburðir síðustu daga þar sem komið hefur fram opinberlega að fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra telji að brotist hafi verið inn í tölvuna sína sem allir hljóta auðvitað að átta sig á að er mjög alvarlegt.

Nú get ég ekki að því gert að þetta mál er farið að minna mig mjög mikið á hið svokallaða lekamál. Maður á sem sagt að venjast því að taka öllu með mjög miklum fyrirvara. Maður á að venjast því að salta allt sem stjórnmálamenn segja vegna þess að þeim er ekki treystandi til að segja nokkurn tímann eitthvað sem hægt er að staðfesta með raunverulegum gögnum. Þegar hlutirnir eru athugaðir kemur í ljós að það var í skásta falli mjög, mjög villandi sem var sagt. Þessu eigum við að venjast, þessu á almenningur bara að venjast. Þetta á bara að vera hluti af pólitíkinni. Svona haga stjórnmálamenn sér.

Það er til skammar hvernig stjórnmálamenn leyfa sér að hagræða sannleikanum til þess eins að koma höggi á aðra eða lyfta sjálfum sér upp. Það er til skammar fyrir okkur sem fólk, sem manneskjur, ekki bara sem stjórnmálamenn, ekki bara fyrir þessa iðngrein eða hvað við eigum að kalla það. Fólk á ekki að haga sér svona hvort sem það er í stjórnmálum eða ekki. Mér finnst alveg kominn tími til þess að við förum að ræða það sem samviskuspurningu, ekki bara pólitíska spurningu.

Það getur kostað smávinnu að vera heiðarlegur því að stundum þarf maður að leggja vinnu í að kynna sér gögn og hugsa málin til enda. Þegar fólk leyfir sér að sleppa því bara til þess að fá betri höggstað á andstæðingi sínum er það ekki í lagi. Það er óheiðarlegt, virðulegi forseti. Það er þessi hefð, þessi hegðun, sem dregur úr virðingu hins háa Alþingis, ríkisstjórnar og stjórnmálamanna almennt. Mér finnst kominn tími til að við hugsum öll um þetta. Öll sem eitt.



[13:54]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða hér eina skýrslu sem er McKinsey-skýrslan um Landspítalann. Mér finnst það mjög áhugaverð skýrsla og við höfum fengið kynningu á henni í fjárlaganefnd. Svo var haldinn kynningarfundur í heilbrigðisráðuneytinu. Ég hélt að þessi skýrsla mundi fá miklu meiri athygli í fjölmiðlum og mundi verða rædd. Mér finnast góðar tillögur sem þar eru, a.m.k. er þess virði að skoða þær betur. Þar er rætt um kerfisbreytingar að einhverju leyti og svo er það spurningin um hvað við fáum fyrir peninginn. Mér hefur fundist krafan um að setja sífellt meira fé í heilbrigðiskerfið háværari en spurningin um hvað við fáum fyrir peninginn. Hér er t.d. verið að gagnrýna að árangursmælingar skorti. Hvernig vitum við hvað við fáum fyrir peninginn ef við mælum ekki árangurinn?

Það kom mér svolítið á óvart að sjá síðan skýrslu sem kallast skýrsla meiri hluta fjárlaganefndar, fá töluvert mikla athygli í fjölmiðlum. Mitt fréttamat hefði verið að þessi skýrsla hér ætti að fá það pláss.

Ég vænti þess að skýrslan verði líka innlegg í kosningabaráttuna. Ég er í það minnsta forvitin að heyra hvað flokkunum finnst um skýrsluna og hvort þeir sem ná hér völdum muni kannski halda á þá braut sem McKinsey leggur til. Ég hvet fólk til að kíkja á skýrsluna, þetta er ekki erfið eða löng lesning. Ég hvet líka RÚV til að skella í nokkra fréttaskýringarþætti um heilbrigðiskerfið og gera meira af fréttaskýringarþáttum yfirleitt. Ég vil að afnotagjöldin mín fari í það.



[13:56]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég hafði óskað eftir að komast á mælendaskrá í störfum þingsins út af öðru máli eða annarri ræðu sem ég ætlaði að flytja en hún má alveg bíða, hún er tímalaus snilld. En hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir beindi til mín spurningu sem mér er bæði létt og ljúft að svara um þá skýrslu sem hefur verið aðeins til umfjöllunar undir þessum dagskrárlið. Um það vil ég segja að á fundi fjárlaganefndar 27. apríl, ef ég man rétt, var spurningalisti á dagskrá og sýndur nefndarmönnum og öllum í nefndinni kynntur hann og þeim boðið að bæta við hann þannig að málið fór formlega af stað þá í nefndinni og hefur þar af leiðandi verið á dagskrá hennar áður. Spurningar hv. þingmanns um aðdraganda skýrslunnar verða því að skoðast í því samhengi.

Í öðru lagi vil ég segja að í sjálfu sér er ég ekkert ósammála niðurstöðu úttektar hv. þm. Brynjars Níelssonar. En ég vil líka benda á að í skýrslu hans segir, með leyfi forseta:

„Því kann að vakna sú spurning, með hliðsjón af óvissu um verðmæti eignanna, af hverju ekki var gert samkomulag um skiptingu virðisauka eins og gert var í samningum um Landsbankann.“

Hann hefur því líka uppi ákveðin viðvörunarorð og spurningar sem er kannski verið að reyna að fjalla um í þeirri skýrslu sem nú hefur verið unnin og hún byggir líka á nýjum upplýsingum. Ég vil líka benda á að í þeirri skýrslu eru dregin saman þau fylgiskjöl og heimildir sem vísað er í þannig að fólk getur flett því upp.

Skýrslan kemur til umræðu í fjárlaganefnd á morgun. Þar sitjum við hv. þingmaður bæði. Þá höldum við þessari umræðu áfram.



[13:58]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Þann 2. september sl. birtist í Fréttablaðinu grein eftir framkvæmdastjóra Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Ernu Reynisdóttur. Í þeirri grein, sem bar fyrirsögnina „Tökum höndum saman um gjaldfrjálsa grunnmenntun“, segir hún m.a., með leyfi forseta:

„Kostnaður foreldra vegna innkaupa á námsgögnum í upphafi skólaárs getur verið töluverður baggi fyrir barnafjölskyldur. Hefðin fyrir þessari gjaldtöku hefur haldist hér á landi þrátt fyrir að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur, en í honum er kveðið á um rétt barna til grunnmenntunar án endurgjalds. Kostnaðarþátttaka foreldra er því í raun ólögleg samkvæmt sáttmálanum […] Krafan um að foreldrar greiði fyrir námsgögn getur auk þess stuðlað að mismunun sem stríðir gegn ákvæðum barnasáttmálans. Gleymum ekki að skólinn er hornsteinn jafnræðis í samfélaginu og þar eiga börn að geta verið þátttakendur án þess að finna fyrir mismunandi efnahagsstöðu foreldra sinna.“

Það er sorgleg staðreynd að hér á landi þurfa hundruð barna aðstoð frá félagsþjónustu og hjálparsamtökum til að geta keypt námsgögn.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun á vef samtakanna til að kalla eftir stuðningi almennings við að þrýsta á yfirvöld að gera grunnskólann gjaldfrjálsan í raun og virða þau réttindi sem öll börn eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er mjög þörf áskorun hjá samtökunum.

Þann 16. ágúst sl. lagði ég fram frumvarp ásamt fleirum sem tekur einmitt á þessu máli og vil leyfa mér að skora á stjórn þingsins að veita málinu brautargengi nú á þessu þingi og svara með því ákalli sem okkur hefur borist utan úr samfélaginu. Það er mikilvægt að við tryggjum að börn sem búa við bágan efnahag fái örugglega öll þau námsgögn sem þau þurfa. Annars er augljóslega mikil hætta á því að þau fái ekki sömu tækifæri til náms og önnur börn og viðhorf þeirra til skólans verði neikvæð.

Herra forseti. Ég er sannfærður um að íslenska þjóðin er einhuga um að reyna að koma í veg fyrir það og vill að þetta verði tryggt með lögum. (Forseti hringir.) Klárum þetta mál.



[14:01]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fjalla um mál sem hefur verið mér hugleikið um skeið og tengist þingsályktunartillögu sem ég flutti og var samþykkt árið 2014 þar sem Alþingi fól hæstv. utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara væri virtur í samræmi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Í gær kynnti embætti lögsögumanns Evrópusambandsins álitsgerð sína í afar veigamiklu máli sem liggur fyrir Evrópudómstólnum og varðar það hvort viðskiptasamningar Evrópusambandsins og Marokkós geti náð til hernumdra svæða í Vestur-Sahara, t.d. vegna fiskafurða og fisks sem veiddur er í lögsögu hins hernumda lands. Í stuttu máli sagt var niðurstaða lögsögumannsins að svo væri ekki. Þetta mál er ekki bindandi fyrir dómstólinn en er talið munu hafa mjög mikil áhrif á niðurstöðu málsins. Það er risastórt hagsmunamál fyrir hina hernumdu þjóð að yfirlýst verði að Vestur-Sahara teljist ekki hluti af Marokkó samkvæmt samkomulaginu.

Í álitsgerðinni er sérstaklega vitnað til orða hæstv. utanríkisráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, í sölum Alþingis þann 18. apríl sl., þar sem hún svaraði fyrirspurn minni um túlkun á því hvort fríverslunarsamningur EFTA við Marokkó næði líka til Vestur-Sahara. Svar hæstv. ráðherra var einfalt og afdráttarlaust nei.

Það er afar gleðilegt að sjá með beinum hætti dæmi um þingmál, fyrirspurnir og umræður á Alþingi sem hafa bein, jákvæð áhrif á gang mála erlendis. Þetta mál er líka góð áminning um að við Íslendingar getum með jákvæðum hætti lagt okkar lóð á vogarskálar frelsis og lýðræðis (Forseti hringir.) þótt í fjarlægum löndum sé. Vonandi sjáum við meira af svona málum sem við getum þokað áfram.



[14:03]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Það er rétt að staldra við það að í dag hefðum við gengið hér undir eðlilegum kringumstæðum til nýs þings. Í dag er annar þriðjudagur í september og í dag hefði 146. þing hafist að öðru óbreyttu. Í dag horfumst við í augu við þá pólitísku staðreynd að við erum að upplifa mjög óvenjulega tíma. Við erum að horfast í augu við þá staðreynd að fráfarandi ríkisstjórn sá sig tilneydda að boða til þingkosninga áður en umboð hennar var í raun útrunnið. Við erum að sjá núna, virðulegur forseti, þegar við erum komin fram í september, mjög alvarlegar innantökur í báðum stjórnarflokkunum. Staðan er orðin þannig að það eru orðnar aðkallandi spurningar um hvort boðlegt sé að ætla Alþingi að ljúka málum undir þessum kringumstæðum.

Forseti. Stjórnmál snúast um traust og stjórnmál snúast um það að horfa um öxl og horfa fram á veginn. Við eigum að muna þegar við göngum til kosninga í haust hvað það var sem gerðist, að alþjóðleg umfjöllun um skattaskjól og aflandsfélög, Panama-skjölin sem voru afhjúpuð, leiddu það í ljós að forusta íslensku stjórnarflokkanna var persónulega vafin inn í þau mál sem þar voru afhjúpuð. Hversu trúverðugt er það, virðulegi forseti, að þeir flokkar takist á hendur þau mikilvægu málefni sem blasa við í íslensku þjóðlífi, sem er sú staðreynd að innviðir samfélagsins eru í uppnámi, heilbrigðiskerfið, vegakerfið og menntakerfið eru öll í þeirri stöðu að taka þarf ærlega til hendinni. Það verður verkefni næstu ríkisstjórnar og sú ríkisstjórn verður félagshyggjustjórn.



[14:05]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er gott að vera minntur á að í dag hefði nýtt þing átt að koma saman. Með öðrum orðum, það hefði verið betra á stigafundinum hinn umrædda miðvikudag ef tilkynning hv. þm. Höskulds Þórhallssonar á Alþingi um nýja ríkisstjórn hefði verið látin duga en forustumenn ríkisstjórnarinnar ekki komið þar á eftir. Það hefði verið miklu minna klúður út frá því. Ég segi það vegna þess að krafan var um kosningar. Við hefðum átt að vera búin að kjósa, t.d. í byrjun ágúst, en 29. október er í raun allra vitlausasti tíminn sem hægt var að ákveða fyrir kosningar með tilliti til fjárlagagerðar. Þetta vildi ég bara segja í tilefni dagsins.

Hitt atriðið sem mig langar að ræða um er sala á landi Reykjavíkurflugvallar sem hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson stóð fyrir nýlega. Ég tel að hann hafi enga heimild til að selja þetta land. Heimildin var í fjárlögum 2013, í 6. gr. sem fjallaði um að selja land utan girðingar flugvallarins. Þetta er innan girðingar. Þar fyrir utan er þetta gjöf en ekki sala á þessu landi. Ég gagnrýni mjög samning Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, um lokun neyðarbrautarinnar sem leiðir svo til þessarar sölu hér í lokin. Þetta eiga sjálfstæðismenn skuldlaust.

Hitt atriðið sem ég vil ræða varðar fyrirspurn mína í gær til hæstv. iðnaðarráðherra um framkvæmdir á Bakka. Ég ætla að fylgja því aðeins eftir. Það mál þolir enga bið út af veðrum. Þarna er framkvæmdatíminn ekki 12 mánuðir heldur kannski sex mánuðir. Þess vegna erum við að bíða eftir frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessu grafalvarlega máli? Ég segi fyrir mitt leyti: Við alþingismenn verðum að reyna að sameinast um að finna lausn sem allir geta unað við til þess að halda áfram með það verk sem þarna er hafið.



[14:08]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið nokkuð rætt um skýrslu þá sem kynnt var í gær og snýr að einkavæðingunni hinni síðari. Það er áhugavert að fyrst og fremst er verið að ræða um formið en við erum ekki enn farin að ræða um efnið. Ég vonast til þess að við komumst á þann stað að ræða efnið.

Það er rétt hjá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að þar er vísað í skýrslur og úttektir og svör. Þetta er gert til þess að aðilar geti rakið sig áfram í gegnum þetta. Ég mundi ætla að þeir sem tala um mikilvægi þess að hafa allt uppi á borðum og gagnsæi og annað slíkt ættu að fagna því að þessar upplýsingar séu settar fram með þessum hætti. En svo er ekki.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að við einkavæðinguna var ábyrgðin því miður fyrst og fremst hjá skattgreiðendum en ávinningurinn fór allur til eigendanna eða kröfuhafanna. Sem betur fer hefur þetta mál farið vel vegna þess að núverandi ríkisstjórn hefur haldið vel á málum og haldið vel utan um hagsmuni skattgreiðenda hvað þetta varðar. Það sjáum við bæði í bankaskattinum og í stöðugleikaframlaginu. En við komumst ekki hjá því að skoða þessi mál í samhengi við önnur sambærileg mál á síðasta kjörtímabili og er ég þá t.d. að vísa til Icesave, máls Sparisjóðs Keflavíkur og Dróma. Við getum ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið haldið vel á málum af hálfu pólitískra aðila sem þá voru í forustu í landsstjórninni og svo sannarlega, ef við skoðum þau mál sem við höfum nú ekki gert að fullu, eins og t.d. Icesave-málið, að of mikil virðing hafi verið borin fyrir kröfuhöfunum.

Ég vona að okkur auðnist að ræða þessi mál málefnalega og af hófsemd því að það er mikilvægt að læra af mistökunum, sjá hvað vel hefur verið gert og hvað hefur farið miður. (Forseti hringir.) Það er vont að endurtaka mistök.



[14:10]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Eitt mesta félagslega ranglætið sem viðgengst á Íslandi er launamunur kynjanna. Sú staðreynd að konur eru með lægri laun en karlar fyrir sömu störf, sú staðreynd að konur eru í færri stjórnum, færri stjórnunarstöðum, er stærsta félagslega ranglætið sem þrífst í samfélagi okkar og er brýnt mál að laga það. Við höfum sem betur fer verið á þeirri leið hægt og bítandi, ekki nógu hratt að vísu.

Ég nefni þetta hér vegna þess að þessi ræða er aldrei nógu oft flutt. Og það er sérstaklega ástæða til að gera það í kjölfar þess að hv. þm. Ásmundur Friðriksson sér ástæðu til að koma hér upp og breyta þessum dagskrárlið, sem heitir jafnan störf þingsins, í störf flokksins til að guma sig af því sem gerðist í kjördæmi hans og Suðvesturkjördæmi hjá Sjálfstæðisflokknum um liðna helgi. Þó að það sé auðvitað réttur hvers flokks fyrir sig að ákveða hvernig hann skipar á sína framboðslista er ekki hægt að segja neitt annað en að þetta sé alger afturför. Það var algerlega fráleitt fyrir nokkurn þann sem er hlynntur því að afnema það félagslega ranglæti sem felst í ójafnri stöðu kynjanna að kjósa þennan flokk í þessum kjördæmum, algerlega fráleitt.

Ég held að það væri miklu frekar ástæða fyrir kjósendur á Íslandi að taka höndum saman um að ganga enn lengra en gert hefur verið í þinginu, þar sem 46% þingmanna eru konur, og tryggja í næstu kosningum að meiri hluti þingmanna í þessum sal verði konur. (HHG: Heyr, heyr.) Þannig stígum við skref í áttina til framtíðar, til bættrar stöðu kynjanna og í átt að því að afnema það félagslega ranglæti sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson virðist bara ekki gera sér grein fyrir. Hann virðist tilheyra einhverri allt annarri öld í því samhengi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:13]
Birgitta Jónsdóttir (P) (ber af sér sakir):

Forseti. Ég óska eftir að fá að bera af mér sakir í ljósi þess að hv. þm. Ásmundur Friðriksson hélt því fram að ég hefði eitthvað breytt listum í prófkjörum Pírata. Þetta lýsir auðvitað alveg ótrúlega mikilli vanþekkingu á því hvernig Píratar starfa. (Gripið fram í: Þeir segja þetta.) Það hlýtur líka að vera þannig að hv. þingmaður sé að horfa á heiminn út frá sínum eigin flokki. Þingmaðurinn hélt því jafnframt fram að fáir hefðu kosið í prófkjöri Pírata. Það er ósatt, það voru 1.034 sem tóku þátt í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst allt í lagi að þegar þingmenn koma í pontu reyni þeir í það minnsta að halda sig við sannleikann og einbeiti sér að innri vandamálum í sínum flokki, sér í lagi þegar þingmaðurinn kemur hér upp til að ræða undir liðnum um störf þingsins hvað prófkjör Sjálfstæðisflokksins séu stórfengleg.