145. löggjafarþing — 152. fundur
 14. september 2016.
áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, frh. fyrri umræðu.
stjtill., 853. mál (rammaáætlun). — Þskj. 1620.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:43]

[13:05]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili var málaflokkurinn rammaáætlun fluttur yfir til umhverfis- og auðlindaráðuneytis frá iðnaðarráðuneytinu. Á sama tíma var hann líka fluttur til innan þingsins, þ.e. frá iðnaðarnefnd til umhverfis- og samgöngunefndar. Á þessu kjörtímabili hefur einu sinn áður verið fjallað um þennan málaflokk á þinginu og var það þá rökstutt af hæstv. núverandi forsætisráðherra og þáverandi umhverfisráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni að málið færi til atvinnuveganefndar. Það var gert með eftirfarandi hætti úr ræðustól, með leyfi forseta:

„Í þessu máli er fyrst og fremst verið að tiltaka átta kosti sem voru til skoðunar, einn var síðan færður í nýtingarflokk úr biðflokki. Það er ekki verið að færa neinn í verndarflokk. Á grundvelli þess er að mínu mati eðlilegt að málið hljóti umfjöllun í atvinnuveganefnd.“

Hér og nú er um allt annað mál að ræða. Hér er allt undir, allir kostir. Verið er að fjalla um verndarflokkinn, verið er að fjalla um biðflokkinn, verið er að fjalla um nýtingarflokkinn. Með réttu á málið þess vegna heima hjá umhverfis- og samgöngunefnd nema menn rökstyðji faglega þá breytingu (Forseti hringir.) sem verið er að gera. Einu svörin sem umhverfisráðherra gaf hér í gær voru þau að hún treysti atvinnuveganefnd betur fyrir málaflokknum og teldi meiri þekkingu þar innan borðs. (Forseti hringir.) Það eru ekki boðleg rök hjá ráðherra sem fer með umhverfismálin í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:07]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágætar umræður sem urðu um þetta mál hér í gær. Það er alveg rétt að í lok ræðu minnar vísaði ég málinu til atvinnuveganefndar og hafði sjálf komist að þeirri niðurstöðu þar sem þetta hafði verið til mikillar umfjöllunar hjá atvinnuveganefnd fyrir tæpum tveimur árum, menn höfðu kallað þar til gesti, að þá væri heilmikil vitneskja hjá nefndarmönnum. Þá var ég engan veginn að gera lítið úr umhverfis- og skipulagsnefnd, síður en svo, enda hafði ég áður rætt við formann þeirrar ágætu nefndar sem hefur sýnt að bæði hann og nefndin öll standi sannarlega í lappirnar í viðkvæmum málum. En þetta varð sem sagt niðurstaðan þar sem menn höfðu í margar vikur verið að kalla til gesti til atvinnuveganefndar og rætt málin. Þess vegna fannst mér eðlilegt að núna, tæpum tveimur árum síðar, fengi hún málið aftur til umfjöllunar. (Gripið fram í: Ófagleg rök …)



[13:08]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sjálf sit ég í nefndri umverfisnefnd. Í þingsköpum kemur fram að umhverfis- og samgöngunefnd skuli fjalla m.a. um rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála. Ég held að það liggi algjörlega ljóst fyrir að þegar við fjöllum um vernd og orkunýtingu jarðsvæða og rammaáætlun sem heyrir undir umhverfisráðherra þjóðarinnar þá er allt annað mjög óeðlilegt en að málið fari til umfjöllunar í þeirri fagnefnd sem undir umhverfismálaflokkinn heyrir. Það eru mér vonbrigði að hæstv. umhverfisráðherra skuli leggja lykkju á leið sína til að gera lítið úr fagnefnd sem hefur ítrekað fengið frá henni stór og mikil mál, bætt þau með mikilli vinnu. Ég nefni náttúruverndarlög, ég nefni svokallað innviðafrumvarp og núna síðast breytingar á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð sem skilaði töluvert góðri og þverpólitískri og (Forseti hringir.) þverfaglegri niðurstöðu og sumarvinnu hjá sumum okkar, vegna þess að málið var ekki nægilega vel útbúið af hendi ráðherrans og ráðuneytisins. (Forseti hringir.) En að rökin skuli bara vera þessi, að það sé meiri þekking (Forseti hringir.) fyrir hendi í atvinnuveganefnd, finnst mér ráðherranum ekki til sóma. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:09]
Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér og fylgja þeim rökum sem flutt voru hér áður um að þetta mál þyrfti að vera í atvinnuveganefnd vegna þess að verið væri að flytja virkjunarkosti í nýtingarflokk þá hlýtur málið að koma til kasta umhverfisnefndar vegna þess að hér er verið að setja allnokkra kosti í verndarflokk. Hvaða þekking er fyrir hendi innan atvinnuveganefndar á því? Hafa menn verið að vernda eitthvað þar? Eru friðlýsingarferli í gangi hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni? Það er ekki þannig. Ef menn ætla að vera með einhverjar röksemdir hérna á einum tíma þá hljóta þær að ganga heilt yfir. Það gengur ekki að menn séu með einhver hentirök hverju sinni og komi síðan og segi: Ja, vegna þess að við gerðum þetta svona síðast þá ætlum við að gera þetta aftur núna. Það eru bara engin rök.

Við hljótum að gera þær kröfur að menn og stjórnarmeirihlutinn rökstyðji málflutning sinn þannig og að þau rök standi þá.



[13:11]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ef þessu máli verður vísað til atvinnuveganefndar er það hneyksli. Þá er í raun og veru ekki farið eftir þingsköpum þar sem kveðið er á um hvernig eigi að skipa málum í nefndir. Eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór vel yfir áðan var tekin sú ákvörðun á síðasta kjörtímabili að rammaáætlun ætti heima hjá umhverfisnefnd. Það er hvergi minnst á það í 13. gr. þingskapa að atgervi nefnda eigi að ráða nokkru um það hvaða málum er vísað þangað inn. Rök hæstv. umhverfisráðherra áðan eru fyrir neðan allar hellur og fá ekki á nokkurn veg staðist. Hér er grímulaust verið að reyna að taka viðkvæman málaflokk um ráðstöfun verndarsvæða í nýtingarflokk og skella honum inn í atvinnuveganefnd þingsins þar sem ljóst má vera hvaða átektir málið fær. Þetta er fyrir neðan allar hellur (Forseti hringir.) fyrir umhverfismál sem málaflokk, verð ég að segja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:12]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er með ólíkindum að hæstv. umhverfisráðherra skuli ekki standa vörð um þennan málaflokk á þann veg að þau risamál sem hér á að fara með í gegnum þingið á síðustu dögum þess fái ekki faglega umfjöllun hjá þeim þingmönnum og þeirri þingnefnd sem hefur sérhæft sig í að fara í gegnum málefni er lúta t.d. að friðlýsingu. Það er alveg ljóst að ef þetta fer inn í atvinnuveganefnd er verið að setja ákveðinn pólitískan tón um hvert á að stefna með þetta mál og það mun svo sannarlega ekki, forseti, greiða fyrir málinu á síðustu dögum þingsins því að þá er ljóst að ekki verður fagleg umfjöllun um málið, þá er ljóst að hæstv. umhverfisráðherra sem á að standa vörð um umhverfi okkar, er ekki umhverfisráðherra. Það er bara ljóst.



[13:13]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér þykir þessi umræða með algjörum ólíkindum, að það eigi að senda þetta mál inn í atvinnuveganefnd. Við erum að ræða umhverfismál, risastórt umhverfismál, sem er það að virkja náttúruauðlindir Íslands. Að sjálfsögðu á það að fara í umhverfisnefnd. Við erum að ræða það að þegar við skrifum undir risastóra samninga um t.d. loftslagsbreytingar og þar fram eftir götunum gerum við það á forsendum náttúrunnar. Við þurfum að ræða svona áætlanir, eins og rammaáætlun er, á forsendum náttúrunnar. Þess vegna á þetta heima í hv. umhverfis- og samgöngunefnd en ekki atvinnuveganefnd. Þetta snýst ekki um peninga, þetta snýst um hvernig við náum sem bestri framtíð, hvernig við viðhöldum náttúrunni okkar með sem besta móti. Það er alveg með ólíkindum að þau rök skuli koma frá hæstv. umhverfisráðherra að meiri reynsla sé í atvinnuveganefnd. Það er náttúrlega bara til skammar.



[13:14]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru náttúrlega lög í landinu sem ráða því hvernig málum er skipað til nefnda. Það fer ekki eftir áhugasviði nefndarmanna. Við höfum t.d. fengið að sjá að formaður og varaformaður fjárlaganefndar eru mjög áhugasöm um fornleifarannsóknir en ekki sendum við frumvörp um Minjastofnun eða Þjóðminjasafnið til þeirra til meðferðar. Það er auðvitað þannig að hér er forsætisráðherra landsins búinn að segja, meðan hann var ráðherra umhverfismála, að eðlilegt væri að rammaáætlun í heild færi til umhverfisnefndar. Ég óttast það að ríkisstjórnin sé enn við sama heygarðshornið í umhverfismálum. Það standi til að fara að fordæmi Þorgeirs Hávarssonar og taka ófrið ef hann mögulega er í boði, að það eigi ekki að leita samstöðu á grundvelli rammaáætlunar um að koma málinu í gegn í friði og sátt heldur eigi að fara enn einn ganginn að leyfa hv. þm. Jóni Gunnarssyni og félögum hans að hnoðast með málið og skekkja það með tilviljanakenndum ákvörðunum, (Forseti hringir.) ekki á forsendum neinna efnisraka í tímahraki rétt fyrir þinglausnir. Það er ekki boðlegt.



[13:16]
Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart að þessi háttur sé hafður á. Um þetta hefur áður verið tekist í þinginu. Það er skýr vilji þeirra flokka sem fara með meiri hluta í þinginu að þessi málaflokkur eigi að vera á vettvangi atvinnuveganefndar á Alþingi. Þetta hefur áður reynt á á þessu þingi. Báðir þessir flokkar gerðu líka háværar athugasemdir um að þetta skyldi fært til umhverfisráðuneytis á sínum tíma, þótt menn hafi ekki gert breytingu til baka hvað það varðar. Það er auðvitað í raun mjög sorglegt að upplifa hér enn og aftur hvernig menn byrja á einhverju persónulegu skítkasti í þessu máli en það er svo sem við öllu að búast þegar að þessum málaflokki kemur. Atvinnuveganefnd mun að sjálfsögðu fjalla faglega um þetta mál. Hún mun eins og áður senda málið til umhverfisnefndar til þess að fá álit hennar á því. Við munum reyna að leiða þetta mál út í sátt. Þessi rammaáætlun mun ekki á þeim (Forseti hringir.) stutta tíma sem er eftir af þessu kjörtímabili ná neinni niðurstöðu og fara út öðruvísi en að um það verði víðtæk sátt.



[13:18]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst stjórnarandstaðan ekki samkvæm sjálfri sér vegna þess að í dag segir hún að hér eigi að fylgja þingsköpum en þegar greidd voru atkvæði fyrir um tveimur árum um hvort nokkrir virkjunarkostir ættu að fara í nýtingu vildi stjórnarandstaðan að tillagan færi í umhverfis- og samgöngunefnd, þvert gegn því sem þingsköp segja fyrir um.

Ég lít ekki á orð hæstv. umhverfisráðherra sem einhvers konar niðurlægingu í garð umhverfis- og samgöngunefndar, þvert á móti hefur hún sýnt nefndinni fullt traust og það hefur verið afskaplega góð samvinna á milli umhverfisnefndar, umhverfisráðuneytis og umhverfisráðherra sem hefur staðið sig með miklum ágætum. Ég treysti atvinnuveganefnd vel fyrir starfinu, hlustaði á orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem sagðist ætla að leita sátta en verð þó að segja að mér finnst þingsköpin óljós um (Forseti hringir.) hvort málið eigi að fara til atvinnuveganefndar eða umhverfis- og samgöngunefndar. Ég hef verið að skoða það og hallast að því að það gæti verið rétt að málið ætti að þessu sinni, samkvæmt þingsköpum Alþingis, frekar heima hjá umhverfis- og samgöngunefnd.



[13:19]
Haraldur Einarsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um það hvort við ætlum setja vernd og orkunýtingu landsvæða í umhverfis- og samgöngunefnd eða atvinnuveganefnd. Þetta mál er bæði mikilvægt umhverfismál og atvinnumál. Ég held að óþarfi sé að gera ágreining um það í hvora nefndina málið fer. Þingsköpin gera ráð fyrir því að þetta geti farið í báðar nefndir. Ég sjálfur hefði gjarnan viljað fá málið til okkar í umhverfis- og samgöngunefnd en geri ekki athugasemd við að það fari til atvinnuveganefndar. Formaður atvinnuveganefndar boðar hér að hann muni fá umsögn umhverfis- og samgöngunefndar um málið. Á sama hátt, ef málið lendir í umhverfis- og samgöngunefnd mun hún leita eftir umsögn atvinnuveganefndar. Ég held að við ættum bara að greiða atkvæði um þetta og svo mun sú fagnefnd sem fær málið til sín fjalla faglega um það.



[13:20]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki boðlegt. Hér eru hæstv. umhverfisráðherra og formaður umhverfisnefndar sem standa ekki með málaflokknum. Og forseti lætur svo lítið að taka undir þessar tiktúrur. Hvernig var málið búið síðast? Því var með ómálefnalegum rökum vísað inn í atvinnuveganefnd og það var minni hlutinn í þinginu sem kom í veg fyrir að öllum forsendum rammaáætlunar væri hnekkt. Okkur tókst að hafa yfirhöndina í því máli og málið fór aftur til verkefnisstjórnar. Nú kemur svokallaður umhverfisráðherra og treystir ekki umhverfisnefnd Alþingis fyrir málinu. Ég ætlast til þess, hæstv. forseti, vegna ótta (Forseti hringir.) formanns umhverfis- og samgöngunefndar, sem telur að málið kunni að eiga (Forseti hringir.) að fara til hans nefndar, að við bíðum með þessa atkvæðagreiðslu þar til úr því hefur verið skorið af lögfræðingi þingsins.



[13:22]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta hafa verið fróðlegar umræður. Það var auðvitað mjög óheppilegt að hæstv. umhverfisráðherra skyldi orða það svo að það væri meira vit og meiri þekking innan atvinnuveganefndar en umhverfis- og samgöngunefndar. Það voru rökin. Ég beið eftir ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, formanns nefndarinnar. Ég taldi að hann mundi koma og hrekja af sér þann áburð að nefndin sem hann stýrir byggi ekki yfir þekkingu til að fjalla um mál sem beinlínis varðar vernd og nýtingu, en hann kemur hingað og lætur ráðherrann í reynd hengja nefndina upp á löppunum, hann gengur svipugöngin og ég vona að hv. þingmaður verði upplitsdjarfari þegar hann gengur til vígaferlanna sem bíða hans um helgina.

Herra forseti. Ég tel sjálfur að með engu móti sé hægt að bera þetta mál saman við hið fyrra mál sem hér hefur verið vísað til þar sem um var að ræða tillögu um eina tiltekna framkvæmd. Hérna er verið að ræða um að taka virkjunarkosti og setja þá í verndarflokk og ótti okkar er vitaskuld sá (Forseti hringir.) að þessarar tillögu bíði þau örlög hjá atvinnuveganefnd að það eigi að breyta einmitt því. Ég hefði óskað eftir því að hv. formaður nefndarinnar kæmi a.m.k. og hefði skýra skoðun. Hér liggur fyrir að tveir þingmenn Framsóknarflokksins eru (Forseti hringir.) þeirrar skoðunar að málið eigi að fara í umhverfis- og samgöngunefnd. Eigum við ekki, herra forseti, að gefa þeim tíma til þess aðeins að vega þetta og meta, (Forseti hringir.) og ákveða hvort þeir þori að fylgja sannfæringu sinni í málinu?



[13:23]
Forseti (Kristján L. Möller):

Forseti biður ræðumenn að gæta að ræðutíma.



[13:24]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það áðan og vitnaði í ræðu þáverandi umhverfisráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra þar sem hann lýsti því að síðast þegar ein framkvæmd var sett inn í nýtingarflokk hafi það í raun og veru verið frávik. Það var ágætlega rökstutt í ræðu hans, þó að við höfum ekki verið sammála því. Það var a.m.k. tilraun til að rökstyðja það faglega hvers vegna rammaáætlun ætti að fara inn í atvinnuveganefnd. Hér er ekki einu sinni gerð tilraun til að vera faglegur í röksemdum fyrir því af hverju rammaáætlun, verndaráætlun, eigi að fara inn í atvinnuveganefnd, heldur ákveður ráðherra að setja sig á háan hest og dæma atgervi manna í nefndum þingsins.

Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti, og ég fer fram á það að forseti þingsins óski eftir faglegum rökstuðningi frá þessum ráðherra. Í gegnum nefndina, umhverfis- og samgöngunefnd, hefur farið fjöldinn allur af stórum málum í góðu samstarfi við ráðherrann. (Forseti hringir.) Þetta voru þakkirnar fyrir samstarfið nú þegar hún er að hætta.



[13:25]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta eru svo sem ágætar umræður hér. Þær hafa átt sér stað nokkrum sinnum áður á þessu kjörtímabili sem og hinu fyrra, um nákvæmlega sama hlutinn. Það er ljóst að í þingsköpum er ætlast til þess að mál af þessum toga geti farið í hvora nefndina sem er. Hér er lagt til að það fari til atvinnuveganefndar. Ég treysti báðum nefndum fyllilega, það er fagþekking og geta í öllum nefndum þingsins sem er jafnstæð. Þess vegna held að við ættum að ganga til atkvæða, drífa þetta af, það liggur ekkert á bak við, svo ég svari þeim þingmönnum sem hafa verið að ýja því að hér séu undirliggjandi einhverjir baksamningar um að það eigi að fara að gera eitthvað annað. Við gerum okkur öll ljóst að það eru ekki mjög margir dagar eftir af þessu þingi og þessi tillaga er búin að fara í gegnum fyrri umr. Hún fer til einnar fagnefndar sem er jafnstæð annarri og samkvæmt þingsköpum í lagi. Þá held ég að við eigum að drífa það af að greiða atkvæði um það svo að nefndin geti farið að taka til starfa.



[13:26]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hélt að það væri að verða komið nóg af óhreinni verkaskiptingu og loðnum landamærum þingnefnda á þessu kjörtímabili. Má í því sambandi nefna tilburði formanns fjárlaganefndar og aðstoðarmannsins að breyta sjálfum sér í tveggja manna stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. En mér finnst það óendanlega dapurlegt að hlusta á umhverfis- og auðlindaráðherra leggja til að tillaga hennar fari í nýtingarnefndina. Það er auðvitað táknrænt fyrir framgöngu þessarar ríkisstjórnar á þessu málasviði og hún ætlar greinilega að enda eins og hún byrjaði í þeim efnum.

Það eru ekki rök fyrir þessari vísan nú að skapast hafi einhvers konar hefð fyrir óeðlilegri vísan málsins og þess vegna eigi að halda því áfram, auk þess sem málið er allt öðruvísi vaxið. Þetta er á verksviði umhverfis- og auðlindaráðherra, tillagan snýr bæði að nýtingu, bið og verndun og maður spyr sig að lokum: Af hverju stíga þá ekki stjórnarflokkarnir bara skrefið til fulls og færa málaflokkinn frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eða leggja það ráðuneyti niður? Er það kannski það sem þá langar mest til? (Gripið fram í.)



[13:28]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér þykir mjög miður að í þessu máli öllu varðandi áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða skuli koma núna á síðustu stundum upp deilur um hvar tillagan skuli fá frekari afgreiðslu innan þingsins. Það hefur verið leitast við að hafa sátt í þessu máli alla tíð og það hefur verið mér mjög mikils virði að geta unnið þannig til beggja handa. Tillagan hér er að vísu lögð fram í mínu nafni og ætla ég ekki að skorast undan því en í samráði og samvinnu við orkumálaráðherrann. Þannig er þessi tillaga og þess gat ég líka í framsögu minni í gær.

Það var óheppilegt orðalag, svo ég segi það einu sinni enn, ég biðst velvirðingar á óheppilegu orðalagi sem ég viðhafði í gær en endurtek samt að það var niðurstaða mín eftir að ég lá yfir málinu að vegna þeirrar vinnu sem hafði verið viðhöfð í atvinnuveganefnd væri eðlilegt að tillagan færi þangað.



[13:29]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er alls ekki rétt sem hér hefur verið fullyrt, að málið geti samkvæmt þingsköpum farið í hvora nefndina sem er. Það er ekki rétt. Samkvæmt 13. gr. þingskapa eiga ákvarðanir um verndun og nýtingu auðlinda að fara í umhverfisnefnd. Eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að nýta auðlind á það mál erindi inn í atvinnuveganefnd, en á meðan málið er á því stigi að taka ákvörðun um að náttúrusvæði sé tekið í nýtingarflokk á það heima í umhverfisnefnd.

Hæstv. ráðherra dró rökstuðning sinn til baka að hluta til áðan en það sem hún bar hér á borð í gær jaðrar við þingspjöll að mínu mati vegna þess að það er ekki forsvaranlegt að bjóða upp á önnur eins rök fyrir því að flytja mál milli nefnda í trássi við þingsköp. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, það á að leita lögfræðiúrskurðar um þetta. Þingið getur ekki afgreitt þessa tillögu (Forseti hringir.) fyrr en komið er lögfræðiálit um það hvar málið á heima.



[13:30]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég sem varaformaður atvinnuveganefndar vil blanda mér í þetta mál. Við fengum sambærilegt mál um rammaáætlun til atvinnuveganefndar á sínum tíma og var það mjög umdeilt. Ég talaði þá fyrir því að umhverfis- og samgöngunefnd fengi málið til sín, það væri á hennar málasviði. Ekki var hlustað á það, málið fór í atvinnuveganefnd og við þekkjum allar rósirnar sem gerðar voru í því þar.

Þar sem ég er lausnamiðuð manneskja vildi ég gjarnan leiðbeina hæstv. ráðherra í þessum efnum, þ.e. að fela umhverfis- og samgöngunefnd málið en leggja til að báðar nefndirnar ynnu að framgangi þess og kæmu sér saman um vinnubrögð í þeim efnum. Ég held að það sé mikill tvíverknaður að kalla sömu gestina fyrir nefndina aftur og aftur því að síðast óskaði atvinnuveganefnd eftir umsögn umhverfis- og samgöngunefndar.

Gætu menn ekki reynt að horfa á þetta þannig (Forseti hringir.) að nefndirnar ynnu saman að málinu og fengju til sín gesti en að málið væri hjá umhverfis- og samgöngunefnd?



[13:32]
Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er nú óttaleg hártogun sem á sér stað í þessari umræðu. Það stendur í þingsköpum að atvinnuveganefnd skuli sjá um sjávarútvegs-, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækni, atvinnumál almennt og einnig nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar. Um umhverfisnefnd segir að hún skuli sjá um verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.

Þetta er spurning um nýtingu og vernd og það getur hver sem er séð það á þessum texta að það er fullur rökstuðningur samkvæmt þingsköpum að þessu máli sé vísað til atvinnuveganefndar og í raun miklu ríkari þáttur þar sem hér segir að það skuli einnig fjallað um nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar. Það er nákvæmlega það sem hin ráðgefandi verkefnisstjórn er að gera, hún er ráðgefandi í þessu og hún hefur stundað ákveðnar rannsóknir og þetta stendur hér skýrum orðum. Þessu hefur ekkert verið breytt. (Forseti hringir.) Þetta eru auðvitað bara hártoganir sem eiga ekkert upp á borðið í þessu máli. Við skulum bara ljúka atkvæðagreiðslu um þetta.



[13:33]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að ummæli sín væru óheppileg og hefur beðist velvirðingar á þeim. Ég tek það til greina og vona að þingheimur geri það líka. Málið sem hér er undir er alls ekki galið mál, það kom fram hjá mörgum okkar sem tókum þátt í umræðunni í gær að það væri vel þess virði að skoða hvort ekki væri hægt að samþykkja það. Það kann að vera hið besta í málinu fyrir báða vængi umræðunnar. En upphaf þessa máls og þau átök sem hér stefnir strax í drepa alla möguleika á því að málið fari í gegn. Þess vegna beini ég því til hæstv. ráðherra að hún endurskoði afstöðu sína og láti að vilja þeirra sem vilja fá málið til umhverfis- og samgöngunefndar. Það er friðardúfa, það gæti leitt til þess að það tækist að ná sátt um það. Sjálfur er ég alveg reiðubúinn að greiða minn atbeina að því. Hin leiðin leiðir til þess að þetta mál festist hér og það verður ekkert úr því. Þetta er skynsemdarleiðin sem við eigum að fara.



[13:35]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er svolítið skringilegt að það skuli aldrei vera hægt að komast að neinni skynsamlegri niðurstöðu á þessum vinnustað. Ég skil það ekki.

Við höfum stuttan tíma og ég ætla að reyna að vera aðeins jákvæð. Í umræðunum í gærkvöldi um að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks komumst við að samkomulagi um að nýta þá vinnu sem þegar hefur átt sér stað og reyna að tryggja að það góða mál klárist á þessu þingi. Hér er hins vegar þetta mál, enn og aftur umhverfismál, strax sett í hnút algjörlega að ástæðulausu. Ég skora á þingmenn meiri hlutans og ráðherra að endurskoða hug sinn og greiða þessu máli leið inn í þá fagnefnd þar sem besta þekkingin liggur fyrir.



[13:36]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom hér með mjög skynsamlega miðlunartillögu. Ég tek undir óskir hennar og fer fram á það að hæstv. forseti geri hlé á fundi og setjist yfir það með hæstv. umhverfisráðherra, sem gerði það að tillögu sinni að þetta mál færi í nefnd sem það á ekki að fara í samkvæmt þingsköpum, hvort ráðherra geti sætt sig við miðlunartillögu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Ef það gengur ekki fer ég fram á það, hæstv. forseti, að forseti standi með þinginu og setji það ekki í hendur framkvæmdarvaldsins að túlka þingsköp eftir eigin hentugleika heldur láti þá fara fram vinnu þar sem farið verði yfir það, þar sem við förum hina íslensku lögfestuleið, hvort þetta sé yfir höfuð fær leið og hvort við eigum sem Alþingi að láta bjóða okkur þetta. (Forseti hringir.) Þetta eru mínar tillögur og ég óska eftir því að forseti fari að óskum okkar þingmanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:37]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það var nú skrýtið að heyra hæstv. umhverfisráðherra láta eins og það kæmi sér á óvart að þessi tillaga hennar skapaði hér ágreining. Ég veit ekki hvað hún hefði átt að gera annað miðað við forsögu málsins.

Að því marki sem ákvæði þingskapa eru ekki afgerandi hér, sem ég reyndar tel þau vera og alveg ástæðulaust að komast að annarri niðurstöðu þar við lestur þess en að þetta eigi að fara í umhverfis- og samgöngunefnd, en að því marki sem menn telja þau ákvæði ekki afdráttarlaus, til hvers ber þá að horfa? Jú, til verkaskiptingar innan Stjórnarráðs Íslands á grundvelli forsetaúrskurðar. Málaflokkurinn er hjá umhverfis- og auðlindaráðherra. Á hvaða lögum er tillagan byggð sem hér er flutt? Á löggjöf sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Ef menn eru í einhverjum vafa er þetta það sem venjan er að líta til og þá breyta menn samkvæmt því. Þess vegna er fullkomlega óeðlilegt að þessari tillögu frá umhverfis- og auðlindaráðherra sem fer með málaflokkinn skuli vísað yfir í nýtingarnefndina, nefnd sem almennt tekur ekki við málum frá þessum ráðherra heldur frá hinum. Þetta segir sig alveg sjálft.



Till. vísað til atvinnuvn.  með 25:15 atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  EyH,  FSigurj,  HBK,  HarB,  HE,  IllG,  JónG,  KG,  PJP,  REÁ,  RR,  SÁA,  SigrM,  SIJ,  UBK,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS.
nei:  ÁPÁ,  ÁstaH,  BirgJ,  KJak,  KaJúl,  LRM,  OH,  ÓÞ,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  ÖS.
3 þm. (ElH,  HöskÞ,  KLM) greiddu ekki atkv.
20 þm. (BjG,  BjÓ,  BP,  EKG,  ELA,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HHG,  HHj,  JMS,  KÞJ,  LínS,  ÓP,  SDG,  SilG,  VBj,  ValG,  ÞórE,  ÖJ) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[13:40]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég ítreka þá afstöðu mína að ég tel að forseti eigi að ræða við framkvæmdarvaldið um það að hér sé komið með boðlegar röksemdir fyrir því að taka ákvarðanir eins og hér er verið að gera. Það hefur ekki verið gert, ekki á faglegum forsendum í það minnsta. Hér segir síðan í þingsköpum um umhverfis- og samgöngunefnd að nefndin fjalli um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.

Svo skýrt stendur það hér. Ef áætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda á ekki heima undir þessari skilgreiningu, hvað þá? Og að umhverfisráðherra skuli ekki standa með sinni samstarfsnefnd í þinginu, standa með þeim málaflokkum sem eru á hennar málasviði, er mér algjörlega óskiljanlegt. Ég er mjög sorgmædd yfir því að menn séu að taka þetta mál enn og aftur inn í deilufarveg að óþörfu.

Á síðasta kjörtímabili var málið einfaldlega flutt til umhverfis- og samgöngunefndar (Forseti hringir.) sem fjallaði um síðustu áætlun. Það var vegna fráviks sem var rökstutt af þáverandi umhverfisráðherra, núverandi forsætisráðherra, sem málið var tekið fyrir í atvinnuveganefnd síðast.

Málið á heima í umhverfis- og samgöngunefnd.



[13:42]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er útlit fyrir að Alþingi ætli með naumum meiri hluta að stíga það skref að vísa þessu máli til atvinnuveganefndar þingsins. Það er niðurlægjandi fyrir Alþingi að fara þannig með málið og það er niðurlægjandi auðvitað fyrir málaflokkinn að Alþingi skuli samþykkja að honum sé best fyrir komið í atvinnuveganefnd þingsins.



[13:43]
Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Það að þessi þingsályktunartillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sé komin fram er mikið fagnaðarefni. Þess vegna er með ólíkindum að menn skuli ekki geta reynt að klára það í sátt og samlyndi heldur vísa því á þessa braut. Ég verð að segja að ég ætla ekki að greiða atkvæði í þessu máli en ég hef talað fyrir því þann tíma sem ég hef setið á Alþingi að umhverfismálum yrði gert sem hæst undir höfði og að umhverfisnefnd að sjálfsögðu ætti að fjalla um þetta mál. Ég tel hins vegar svo mikilvægt að málið fái afgreiðslu hér að ég mun ekki tefja fyrir því en ég vildi koma þessum sjónarmiðum mínum á framfæri.