145. löggjafarþing — 154. fundur
 20. september 2016.
fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, frh. síðari umræðu.
stjtill., 865. mál. — Þskj. 1637, nál. 1670, brtt. 1676.

[15:04]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp fyrst og fremst til að fagna því að við séum að ná þessum mikilvæga áfanga. Mig langar að þakka hv. utanríkismálanefnd og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, sem er framsögumaður þessa máls, fyrir hversu hraðar hendur þau höfðu við vinnslu málsins, en það er nýkomið inn í þingið. Það var líka full ástæða til því að verið hefur óeðlilegur dráttur á þessu máli. Það er langt síðan við undirrituðum samninginn, árið 2007. Það hefur tekið allt of langan tíma að klára þetta mál.

Þegar hér var verið að flytja málaflokk fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga settum við inn bráðabirgðaákvæði um að leggja ætti fram framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem m.a. væri tímasett fullgilding. Hún átti að fara fram 2013 en nú er komið árið 1016. Þetta er löngu tímabært réttindamál fyrir hóp fólks sem skiptir mjög miklu máli að fái bætta réttarstöðu til að sækja réttindi sín.

Ég þakka fyrir að utanríkismálanefnd hafi byggt á skýrslu velferðarnefndar, en við höfum nýlega fjallað um tillögu hv. þm. Kristjáns L. Möllers og fleiri um fullgildingu samningsins. Við sögðum jafnframt þegar við afgreiddum það mál frá okkur með skýrslu að við vildum í raun ekki samþykkja þá þingsályktunartillögu því að við bentum á að Alþingi væri þegar búið að samþykkja fullgildinguna og að mikilvægt væri að klára líka valfrjálsu bókunina sem og lögfestingu á samningnum. Hv. þm. Páll Valur Björnsson hefur lagt fram hér breytingartillögu um að við fullgildum líka valfrjálsu bókunina. Mér líst mjög vel á þá tillögu og vil fá skýr rök fyrir því af hverju það kynnu að vera vandkvæði á að samþykkja hana, því að ég hyggst samþykkja hana nema lögmæt rök liggi gegn því. Óska ég eftir þeim rökum hér í umræðunni, ef einhver eru.

Ég vil segja að þessi fullgilding mun valda því að það verður auðveldara fyrir fatlað fólk að byggja á samningnum fyrir dómstólum. Auk þess felur fullgildingin í sér samráðsskyldu við hagsmunaaðila, fatlað fólk, samtök þeirra og önnur samtök sem eru á þessu málasviði. Með fullgildingunni verður íslenska ríkið bundið af þjóðarrétti til að uppfylla þær skyldur sem kveðið er á um í samningnum auk þess sem við förum undir sérstaka eftirlitsnefnd sem mun skila innan tveggja ára frá fullgildingu skýrslu um framkvæmd samningsins hér á landi. Auk þess sem skuggaskýrslu aðila hér á landi verður skilað þar sem bent er á það sem betur má fara og komið með tilmæli til úrbóta.

Eins og segir í breytingartillögunni frá hv. þm. Páli Vali Björnssyni eigum við að ganga lengra með valfrjálsu bókuninni því að viðaukinn felur í sér mikilvægar réttarbætur. Annars vegar er það kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna og hins vegar er það leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum. Flutningsmaður tillögunnar mun að sjálfsögðu gera betri grein fyrir þessu en ég geri í mínu máli.

Þá er mjög mikilvægt að við tökum líka ákvörðun um lögfestingu samningsins. Hún tryggir best réttarstöðu fatlaðs fólks og ekki verður sami túlkunarvandinn fyrir hendi og þegar einungis er búið að fullgilda samninginn. Lögfestingin tryggir að hægt sé að byggja rétt fólks á samningnum fyrir dómstólum með beinum hætti. Ég endurtek: Þetta er sérlega ánægjulegt og ég fagna þessu mjög, en við eigum fleiri skref fyrir höndum. En þetta er stórt og mikilvægt skref. Ég óska öllum þeim til hamingju sem hafa á síðustu árum barist fyrir fullgildingu þessa samnings, staðið fyrir kynningu á honum og verið óþreytandi að herja á okkur stjórnmálamenn, ég vil óska öllu þessu fólki, innan Öryrkjabandalagsins, Þroskahjálpar og fleiri samtaka og einstaklingum innilega til hamingju með árangurinn. Þetta hefur kostað þrotlausa baráttu en við skulum vona að hún hafi verið þess virði.

Þá vil ég benda á að það er þó nokkuð af lögum sem við eigum eftir að breyta til þess að við uppfyllum skyldur samningsins. Nú stendur upp á okkur að klára það á næsta þingi sem út af stendur til þess að aðgerðir Alþingis eins og þessi fullgilding séu ekki bara orðin tóm. Við getum ekki verið ómerkingar. Við þurfum að fylgja þessu máli eftir með nauðsynlegum lagabreytingum.

Að lokum, hæstv. forseti, ég er ánægð með þennan áfanga og endurtek þakkir mínar til hv. utanríkismálanefndar. Það var sannarlega kominn tími til að fullgilda þennan mikilvæga mannréttindasamning.



[15:10]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er langþráð stund að fá sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til fullgildingar hér á Alþingi og búið að bíða þess í nærfellt áratug að sú stund renni upp. Það er þeim mun meiri ástæða til að þakka hv. utanríkismálanefnd og framsögumanni, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, fyrir snöfurmannlega afgreiðslu á málinu sem staldraði þar aðeins við á einum fundi, í örfáa daga, og er strax komið hér til lokaafgreiðslu. Sömuleiðis þakka ég hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir vinnu velferðarnefndar að málinu í tengslum við þingsályktunartillögu Kristjáns L. Möllers.

Ég vil nota þetta tækifæri og færa sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra Lilju Dögg Alfreðsdóttur þakkir fyrir að hafa komið með þetta fljótt og vel inn þó að hún hafi stutt staldrað við í ráðherraembætti enn, hún er nú fjarstödd umræðuna vegna funda erlendis, en það munar sannarlega um að hafa loksins fengið málið inn í þingið. Ég verð þó að gera athugasemdir við að utanríkisráðherra skuli ekki hafa látið fylgja með fullgildingu á valfrjálsu bókuninni. Ég þakka hæstv. utanríkismálanefnd fyrir að beina því til Stjórnarráðsins að hefja þegar vinnu að því að valfrjálsa bókunin geti fengið fullgildingu líka því að það var náttúrlega aldrei gengið út frá neinu öðru en að Íslendingar yrðu meðal þeirra þjóða sem fullgiltu sáttmálann allan með viðaukum, en væru ekki í hópi þeirra skussa, ef ég má segja svo, sem gera það ekki.

Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að enn þarf að gera allnokkrar lagabreytingar til að fullgildingin sé komin fram í raun og veru. Ég held að þar séu þó mest hrópandi tilskipanir Evrópusambandsins um bann við mismunun á vinnumarkaði sem settar voru árið 2000. Virðulegur forseti, ég endurtek: árið 2000. Evrópusambandið bannaði mismunun á evrópskum vinnumarkaði árið 2000. Við Íslendingar erum aðilar að evrópskum vinnumarkaði. Núna er komið árið 2016 og enn hefur það ekki verið innleitt í íslenskan rétt. Í 16 ár hefur það ekki verið innleitt í íslenskan rétt. Sjálfur kom ég að þessu máli að beiðni þáverandi félagsmálaráðherra árið 2007 til að greiða úr deilum, ég gerði það með hv. þm. Birgi Ármannssyni. Við náðum samhljóða samkomulagi með öllum aðilum vinnumarkaðarins um það hvernig leiða ætti þessar tilskipanir í íslensk lög. Sú niðurstaða hefur legið í félagsmálaráðuneytinu í átta ár (Gripið fram í: Segðu af hverju.) og hún hefur verið á málaskrá ríkisstjórnar á hverju einasta hausti allan tímann síðan. Ég heyri að hæstv. ráðherra kallar „segðu af hverju“. Ég held að sé best að ráðherrann sjálfur geri grein fyrir því hvers vegna það frumvarp hefur aldrei komið fram, hvers vegna það hefur ekki fengið afgreiðslu í þinginu. Það er okkur öllum til vansa að í 16 ár hafi verið bannað að mismuna á evrópskum vinnumarkaði nema á Íslandi. Við fáum væntanlega svörin við því síðar í umræðunni. Ég treysti því að ráðherrann kveðji sér hljóðs og skýri það vegna þess að þetta er náttúrlega hvað augljósasti ágallinn á íslenskri löggjöf hvað varðar réttindi fatlaðs fólks eins og staðan er í dag.

Árið 2006 var ég af sendur þáverandi félagsmálaráðherra Páli Péturssyni og þáverandi utanríkisráðherra Valgerði Sverrisdóttur til samningaviðræðnanna um sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í New York og kynntist því nokkuð með hvaða hætti sáttmálanum var lent. Hluti af því að ná samkomulagi allra þeirra ólíku þjóða sem starfa saman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var hin valfrjálsa bókun þar sem eru annars vegar kvörtunarleiðir fyrir einstaklingana og hins vegar réttur eftirlitsnefndarinnar til að rannsaka hluti í þeim löndum sem fullgilda valfrjálsu bókunina.

Ástæðan fyrir því að þetta varð að valfrjálsri bókun var að þar voru ríku löndin, þróuðu löndin, velferðarsamfélögin, að búa til leið fyrir fátækustu löndin í heiminum þar sem málaflokkur fatlaðra er mjög vanþróaður, til þess að þau gætu fullgilt sáttmálann en fengju ekki um leið og þau hefðu gert það yfir sig aragrúa af kærumálum og rannsóknarnefndir til að taka stofnanirnar hjá þeim í gegn. Þess vegna var valfrjálsa bókunin hugsuð, fyrir lönd eins og Kína sem hikuðu við það að inn kæmu vestrænar rannsóknarnefndir til þess að fara í gegnum munaðarleysingaheimilin þar eða aðbúnað barna með geðheilbrigðisvanda eða önnur slík stór samfélagsmál, en hún var aldrei hugsuð fyrir velferðarríki Vesturlanda, þó að eitt og eitt ríki hafi kosið að fullgilda hana ekki. Það var alltaf út frá því gengið að norræn velferðarríki teldu mikilvægt að okkar borgarar gætu kvartað til nefndar Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum, rétt eins og menn gerðu hér út af veiðum í hafinu við Ísland, eins og frægt er, þegar menn leituðu til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Auðvitað viljum við að íslenskir borgarar geti leitað með kvartanir til alþjóðlegra stofnana ef þeir fá ekki réttindi sín fram hér innan lands.

Auðvitað óttumst við ekki að alþjóðleg nefnd komi hér og skoði aðbúnað fatlaðra á Íslandi með sama hætti og að við fáum hingað eftirlitsnefndir sem kanna ástand mála í fangelsismálum eða í málefnum barna eða öðrum slíkum málum.

Ég held að þetta hljóti bara að vera einhver frestun á því að fullgilda valfrjálsu bókunina. Ég treysti því og trúi að það muni fylgja strax í kjölfarið því að það þekkir fatlað fólk því miður af eigin raun að falleg orð á blaði eru til lítils ef ekki er hægt að leita neitt, ef það er ekki uppfyllt. Kvörtunarleiðin er auðvitað hluti af því.

Að þessum minni háttar aðfinnslum sögðum ítreka ég að ég fagna því að ráðherrann skuli hafa komið með þetta svo fljótt inn eftir að hann tók við embætti og að utanríkismálanefnd hafi afgreitt málið svo rösklega að þessi stund sé loksins að renna upp hér í þinginu að sáttmálinn sé fullgiltur og hlakka til að heyra útskýringar félagsmálaráðherra á stöðu vinnumarkaðarins.



[15:19]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að nú sé að koma að því að Ísland fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég hef áður sagt það í umræðu um þetta mál og þennan samning að þetta er einhver merkilegasti mannréttindasamningur sem gerður hefur verið, vegna þess að eins öfugsnúið og það hljómar tryggir hann ekki fötluðu fólki ný réttindi í raun. Staða mála hefur einfaldlega verið þannig að í þeim mannréttindasáttmálum sem fyrir eru og eiga vitaskuld að ná til allra hefur raunin verið sú að mannréttindavörnin hefur þegar á reynir ekki náð til fatlaðs fólks. Þess vegna er þörf á þessum samningi og þess vegna eigum við auðvitað að fullgilda hann.

Það hefur dregist allt of lengi að Ísland kláraði þá vinnu sem byrjað var á árið 2007 þegar Ísland skrifaði undir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk. Á vettvangi Alþingis hefur oft verið ýtt á eftir því að fullgildingin yrði kláruð. Bent hefur verið á að það þurfi að breyta lögum til þess að íslensk löggjöf uppfylli þennan samning og hefur vissulega verið unnið að ýmsum lagabreytingum, en sú vinna hefur gengið allt of hægt. Ég fagna þess vegna að nú sé ákveðið að fara fullgildingarleiðina þó svo að enn séu ýmis lög sem á eftir að laga og breyta. Ég held að það að fullgilda samninginn verði til þess að þeirri vinnu muni vinda hraðar fram.

Þegar hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögunni kom berlega í ljós vilji til að vinna málið hratt og til að ljúka því. Þá var jafnframt bent á að flutt hafi verið þingmannamál sem var nánast samhljóða þessu máli sem hv. velferðarnefnd hefur haft til umfjöllunar en það hafði ekki verið klárað. Það verður þess vegna ekki hjá því komist að maður velti því fyrir sér: af hverju er skyndilega þessi mikli velvilji til að klára málið núna á lokametrunum? Sá vilji hefur allan tímann verið til staðar hjá okkur í stjórnarandstöðunni. Því miður verð ég að segja að eins glöð og ég er yfir þessum áfanga þá læðist sú hugsun að mér að það sé vegna þess að hæstv. ríkisstjórn áttar sig á því þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks, sérstaklega þegar kemur að málefnum öryrkja, að hún hefur ekki gert neitt fyrir þann hóp.

Ekki er allt fatlað fólk öryrkjar, en hins vegar er stór hluti af hópnum, sem tilheyrir einnig hópnum öryrkjar, sem verður af ýmsum ástæðum að reiða sig á greiðslur úr almannatryggingakerfinu til að framfleyta sér, m.a. vegna þess að fólk fær ekki vinnu. Ég vona svo sannarlega að með fullgildingu samningsins verði breyting þar á. Samningurinn fjallar til að mynda um skuldbindingar sem snúa að aðgengi, að vinnustaðir séu aðgengilegir fötluðu fólki. Það er eitt af því sem þar er undir. Eins ánægð og ég er með að hér eigi að fullgilda samninginn finnst mér þetta varpa nokkrum skugga á að ekki hafi verið gert meira til að bæta kjör fatlaðs fólks á kjörtímabilinu.

Með fullgildingu á samningi sem þessum verður ekki gjörbreyting á einni nóttu á högum fatlaðs fólks í samfélaginu, alls ekki. Það verða áfram ýmsar hindranir sem gera það að verkum að fatlað fólk mun enn þá þurfa að berjast fyrir réttindum sínum, bættum hag og því miður einnig því að geta tekið þátt í samfélaginu sem fullgildir og virkir samfélagsþegnar.

Líkt og ég sagði í umræðu í gær um staðfestingu á Parísarsamningnum er vinnan í rauninni rétt að byrja. Það er tiltölulega auðvelt að skrifa undir samning, en síðan er öll vinnan sem á eftir kemur í rauninni sú erfiða. Það er svolítið svipað með Parísarsamninginn og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að hér erum við komin með vegvísinn að því sem við ætlum að gera en eigum samt enn þá eftir að koma því í lög og framfylgja samningnum þannig að öll hin fallegu orð þýði virkilega bætt mannréttindi fyrir fatlað fólk. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að við öll sem hér erum inni og allir aðrir í samfélaginu þekki þennan samning, tileinki sér hugmyndafræði hans til þess að allt sem við gerum, og að öll lög sem sett verða á Alþingi speglist í þessum samningi. Það er þannig sem við tryggjum að fatlað fólk sitji við sama borð og aðrir í þessu samfélagi þegar kemur að mannréttindum. Við verðum að komast út úr grúppuhugsuninni, þ.e. að við fjöllum um einhver almenn mál og svo tökum við málefni fatlaðs fólks út fyrir sviga og fjöllum um þau sér.

Bent hefur verið á að þegar kemur að loftslagsmálunum þurfum við að taka áætlanir eins og samgönguáætlun og rýna í hana með loftslagsgleraugum. Það má í rauninni nota alveg sömu rök hér og segja að þegar kemur að málum eins og samgönguáætlun þurfum við einnig að rýna slíkar áætlanir með þennan samning að leiðarljósi.

Í 9. gr. samningsins er fjallað sérstaklega um aðgengi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem almenningi er opin eða látin í té, bæði í þéttbýli og dreifbýli.“

Hér er auðvitað verið að nefna miklu fleiri þætti en bara það sem snýr að samgöngum. Bæði vegna þess að þetta var nefnt í tengslum við Parísarsamninginn og einnig í ljósi þess að síðar í dag á að ræða samgönguáætlun finnst mér mikilvægt að setja það í þetta samhengi. Samgöngumál eru gríðarlega mikilvægt mál þegar kemur að samfélagsþátttöku. Það er til lítils að búa í aðgengilegu húsi og hafa jafnvel aðgengilegan vinnustað ef leiðin þar á milli er ekki aðgengileg. Þá er auðvitað tómt mál að tala um að fólk geti tekið þátt á vinnumarkaði. Það er heildarhugsunin að muna eftir því að fatlað fólk er eins og allt annað fólk þátttakendur í flóknu samfélagi. Við verðum alltaf í öllum málum að muna eftir því að við erum alls konar og höfum ólíkar þarfir. Það þarf að hafa það í huga og taka tillit í allri löggjöf og regluverki. Hér hef ég ekki einu sinni minnst á það sem snýr að sveitarfélögunum, en það gildir auðvitað það sama um þau, þetta gildir um allt samfélagið. Við verðum að tileinka okkur þennan hugsunarhátt.

Það hjálpaði til við vinnu og afgreiðslu hv. utanríkismálanefndar á málinu að hv. velferðarnefnd var búin að vinna að málinu, hún hafði fengið til sín gesti og skilaði skýrslu sem við í nefndinni gátum byggt starf okkar á. Mér finnst það mikilvægt sem fram kemur í skýrslu hv. velferðarnefndar að næsta skref sé að lögfesta samninginn. Hreyfing fatlaðs fólks hefur kallað eftir því. Ég held að það sé alveg klárlega það næsta sem við á Alþingi þurfum að skoða þó svo að fullgildingin sé mikilvægt skref á þeirri leið.

Nefndin ákvað að sameinast í nefndaráliti sínu um að taka þingsályktunartillöguna eins og hún kom frá utanríkisráðherra og leggja til að hún yrði samþykkt óbreytt. Eftir að við afgreiddum málið frá okkur kom breytingartillaga frá hv. þm. Páli Val Björnssyni þess efnis að einnig ætti að fullgilda valkvæðan viðauka við samninginn og undirrita hvort tveggja. Ég er því alveg fyllilega sammála. Auðvitað er best að gera það og mun ég styðja að við gerum það, ég teldi það vera bestu afgreiðsluna. Engu að síður, hvort sem það nær fram að ganga í þessari lotu eða hvort það verður það næsta sem þarf að gera þá lýsi ég því hér með yfir að ég tel að þetta þurfi líka að gera þó svo að ég viti ekki alveg hvort okkur tekst að gera það í þessari lotu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé í það minnsta alveg gríðarlega mikilvægt að við förum í fullgildingu samningsins sjálfs því að það fleytir okkur talsvert langt fram á veginn.

Það var mjög fróðlegt að hlusta á ræðu hv. þm. Helga Hjörvars áðan þar sem hann lýsti aðdragandanum að því hvernig þessi valkvæða bókun varð til. Ég verð nú að viðurkenna að þó svo að ég þekki mjög vel til þessa samnings þekkti ég ekki hina pólitísku hlið málsins, hvernig málið hafði verið afgreitt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er auðvitað ekki hægt annað en að taka undir það að það er mjög skrýtið að ríkt land eins og Ísland treysti sér ekki til að ganga alla leið í þessu efni. Ég mundi því vilja að við freistuðum þess að fara alla leið í þessu máli núna, en ef ekki þá vitum við klárlega hvar næstu skref liggja. Líkt og ég sagði áðan tel ég að annað næsta skref ætti að vera að lögfesta samninginn og svo að sjálfsögðu að fara í þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru og reyndar er gerð ágætlega grein fyrir í athugasemdum með þingsályktunartillögunni. Þegar við verðum búin að fullgilda samninginn er nú eins gott að vanda þar til verka og passa að allar þær lagabreytingar sem þar verður farið í séu í samræmi við samninginn sem og öll önnur lög sem við á Alþingi munum samþykkja í framtíðinni.

Ég vil að lokum brýna hv. þingmenn til að kynna sér samninginn, tileinka sér hugmyndafræði hans og æfa sig í að beita honum og rýna öll þingmál með gleraugum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á nefinu. Þannig held ég að okkur muni vegna betur sem samfélagi. Það er mjög stór liður í að við getum búið hér til samfélag sem er virkilega fyrir alla þar sem allir geta tekið þátt burt séð frá líkamlegu eða andlegu atgervi og að við getum blómstrað í öllum okkar fjölbreytileika.



[15:37]
Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki oft sem manni finnst vit, reynsla og þekking drjúpa af hverju orði, en það fannst mér um ræðu hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, sem flutti hér afar málefnalega og innihaldsríka ræðu. Það er alveg hárrétt sem hún sagði líka að við erum alls konar og það þarf að vera pláss fyrir alla. Það sem við erum að gera hér í dag er eitt skref að því og kannski töluvert stærra skref en margir gera sér grein fyrir.

Það var eitt atriði sem mig langaði til að hnykkja á varðandi þennan samning sem upp í huga minn kom undir ræðu hv. þingmanns. Það er alveg rétt að þessum sáttmála er ekki ætlað að skapa ný réttindi og flest þau réttindi sem hann veitir eru þegar tryggð í öðrum sáttmálum. En það sem skilur með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun og eldri samninga um mannréttindi er að í þessum nýja samningi eru réttindin í mörgum tilvikum mun betur útfærð og nánar aðlöguð að veruleika fólks með fatlanir til að veita því virkari og skýrari réttarvernd. Þannig er t.d. alveg sagt skýrt að í tjáningarfrelsinu felst það m.a. að ríkjunum ber skylda til að viðurkenna og stuðla að notkun táknmáls og blindraleturs. Það segir líka alveg skýrt í samningnum varðandi rétt til menntunar, sem við vitum að er til staðar, að það er réttur til menntunar án aðgreiningar.

Samningurinn kveður líka skýrar á um rétt fatlaðra til að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu. Það felur í sér að ríkinu ber, að samningnum lögfestum, að tryggja fötluðum tækifæri (Forseti hringir.) til að velja sér búsetustað og líka að velja með hverjum þeir búa. Samningurinn strikar betur undir (Forseti hringir.) og útfærir og útskýrir réttindin sem eru til staðar. (Forseti hringir.) Það er akkurinn með samningnum.



[15:39]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdina og verð nú að viðurkenna að ég verð alltaf pínulítið stressuð þegar hv. þingmaður skjallar mig og hugsa: jæja, nú gerði ég kannski einhver mistök. En ég get alveg staðið undir hólinu að þessu sinni í það minnsta og tel mig (Gripið fram í.) þekkja þennan samning ágætlega. Það gleður mig að heyra að hv. þingmaður hefur greinilega kynnt sér samninginn og skilur inntak hans. Það eru mjög mikilvæg atriði sem hv. þingmaður benti á. Ég kom áðan með tenginguna við samgönguáætlun í ræðu minni en auðvitað er hægt að yfirfæra þetta á svo miklu fleiri svið.

Varðandi menntunina held ég að við þurfum einmitt sérstaklega að hafa það í huga því að núna hefur í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar verið þrengt ansi mikið að fjölbreytileikanum og svigrúminu þegar kemur að námi á framhaldsskólastigi. Ég held að við þurfum að vera mjög meðvituð um að styttri námstími og í rauninni minna val geti haft mjög mikil áhrif á námsmenn sem hafa einhvers konar skerðingu. Þar þurfum við líka hafa þetta undir.

Af því að hv. þingmaður nefndi einnig réttinn til sjálfstæðs lífs og búsetu þurfum við líka að hafa það í huga þegar kemur að hlutum eins og t.d. byggingarreglugerð. Hvaða reglur setjum við um hvernig húsnæði eigi að vera hannað og hvenær megi (Forseti hringir.) slá af kröfum um aðgengileika þess?

Ég er ánægð að sjá (Forseti hringir.) hvað hv. þingmaður er kominn langt í að beita hugsun samningsins á regluverk og nefni þess vegna þessi tvö dæmi í viðbót þar sem er svo augljóst að við þurfum að hafa gleraugu þessa samnings á nefinu.



[15:42]
Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að skjall mitt er að öllu leyti hættulaust. Það geta allir þingmenn borið vitni um sem hafa setið með mér á þingi síðustu 25 árin.

Það er ástæða fyrir því að ég hef kynnt mér þennan samning. Ég var ráðherrann sem á sínum tíma í tíð síðustu ríkisstjórnar tók málið upp sem utanríkisráðherra við borð ríkisstjórnarinnar. Það var ýmislegt sem menn veltu fyrir sér þar. Ýmsir embættismenn sögðu að öll þau réttindi sem væri fyrir í þessum samningi væru hvort eð er fyrir hendi. Það var þess vegna sem ég fór að skoða þennan samning og komst að því að það var vissulega rétt, en gildi hans felst í skýringum og útfærslum og undirstrikunum á því hver rétturinn er.

Þessi samningur, sem nú er orðinn partur af réttarkerfi Íslands, mun verða meira en táfesta fyrir marga sem eru að berjast fyrir réttindum fólks með fatlanir. Ég nefni t.d. það mál sem hv. þm. Páll Valur Björnsson tók hér upp fyrr í dag varðandi fötluð börn. Þessi samningur veitir meira en táfestu í baráttunni fyrir þeim réttindum sem þar eru.

Eigum við t.d. að velta fyrir okkur þeim einstaklingum sem eru að berjast fyrir því að hér verði framlengdir samningar um notendastýrða persónulega þjónustu? Þeir samningar eru í uppnámi, eins og ráðherrann veit sem situr hér á bekknum. Þetta fólk mun finna í þessum samningi skýrari syllu til að standa á í baráttu sinni við kerfið. Það er barátta sem við eigum að styðja þau í og það erum við að gera með því að samþykkja þennan samning.

Í reynd erum við að treysta undirstöðu baráttunnar fyrir auknum réttindum fólks með fatlanir og þroskahamlanir og bæta frá því sem áður var. Það er gildi þessa samnings.



[15:44]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nákvæmlega gildi samningsins eins og segir hér í athugasemd með þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, en staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þessara réttinda.“

Það er alveg skýrt. Auðvitað hefði það alltaf átt að vera þannig en sú er bara ekki raunin. Það er auðvitað út af þessu sem baráttuhreyfingar fatlaðs fólks á Íslandi, sem og auðvitað annars staðar í heiminum, hafa þrýst svo mjög á um að Ísland fullgildi þennan samning vegna þess að hér er búið að skrifa það svo vel inn og útskýra það og útfæra hvernig mannréttindi fatlaðs fólks verði varin og tryggð. Því miður hefur það verið raunin þrátt fyrir að fatlað fólk eigi í orði kveðnu að búa við sömu réttindi og allir aðrir hefur það alls ekki verið svo í raunveruleikanum.

Þess vegna er það fagnaðarefni að hér sé alla vega að vinnast áfangasigur í dag. Það er fullt af verkefnum eftir, en hreyfing fatlaðs fólks getur núna farið að leggja meiri áherslu á aðra en einnig brýna þætti þegar kemur að því að bæta stöðu fatlaðs fólks í samfélagi okkar. Þrátt fyrir að hér séum við að fara að stíga mikilvægt skref (Forseti hringir.) er ýmislegt enn þá óunnið sem við þurfum að gera og bæta.



[15:46]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og flestallir þingmenn að fagna því að við ætlum í dag að fara að samþykkja þingsályktunartillögu um fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Eins og flestum er kunnugt hef ég lagt fram breytingartillögu við þá tillögu því að mér finnst eiginlega með ólíkindum að við skulum ekki fullgilda líka valkvæðu bókunina. Ég hef á ferli mínum sem þingmaður síðustu þrjú ár kynnst ótrúlega mörgu fólki sem hefur með málefni fatlaðra að gera og þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu. Margt af þessu fólki hefur kennt mér og viðtöl mín við það hafa sýnt mér að við höfum ekki staðið okkur vel í málefnum fatlaðs fólks, langt frá því. Ég hygg að tillaga þessi sé til komin núna á haustdögum vegna þess að hv. þm. Kristján Möller og fleiri þingmenn lögðu fram þingsályktunartillögu um sama mál sl. vetur. Ég held að ef hún hefði ekki verið lögð fram værum við ekki að fara að fullgilda þennan samning í dag, það er ósköp einfalt mál. Eins og fram hefur komið þarf að leiða í lög ýmsar lagabreytingar svo hægt sé að uppfylla þennan samning. Komið hefur fram í ræðum að þar með talið er til dæmis bann við mismunun.

Eftir tvo daga er eitt ár síðan við í Bjartri framtíð lögðum fram frumvarp til laga um breytingu á einmitt þessu, þ.e. um breytingu á ákvæðum ýmissa laga um bann við mismunun. Það hefur ekki einu sinni fengist rætt í nefndum. Það segir mér að ekki fylgir mikill hugur máli þegar fara á að samþykkja þetta. Því miður. Það frumvarp hefði verið búið að leysa dálítið stóran vanda hvað varðar innleiðingu laga. Við hefðum getað fullgilt þennan samning.

En burt séð frá því eru mjög gleðileg tíðindi að við ætlum að fara að fullgilda þennan samning, það er mjög stórt skref í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Fólk sem lætur sig málefni fatlaðs fólks varða kom náttúrlega fyrir hv. velferðarnefnd til að ræða þá tillögu sem var lögð fram og ég nefndi hér áðan. Eitt af því sem fær mig til að hafa mikinn áhuga á þessum málum og það að leggja líka fram valkvæða bókun er að m.a. segir í umsögn Öryrkjabandalagsins, með leyfi forseta:

„Fatlað fólk er stærsti minnihlutahópur heims og er áætlað að um 650 milljónir manna séu með einhvers konar fötlun. Þessi hópur mætir bæði lítilsvirðingu og vanmati og er ýtt lengst út á jaðarinn. Þrátt fyrir að margir mannréttindasáttmálar hafi breytt lífi margra sem tilheyra minnihlutahópum til hins betra með aukinni vernd, hefur fatlað fólk staðið fyrir utan þá framþróun og breytingu. Óháð mannréttinda- eða fjárhagsstefnum ríkja, þá er fatlað fólk sá hópur sem síst nýtur mannréttinda sinna. Sífellt er komið í veg fyrir að fatlað fólk fái notið sömu tækifæra til jafns við aðra eins og að lifa sjálfstæðu lífi og taka virkan þátt í samfélaginu.“

Þau benda enn fremur á í umsögn sinni að samningurinn svari þessu kalli, að breyta þessu. Þau segja líka, með leyfi forseta:

„Með samningnum viðurkenna aðildarríki fatlað fólk sem virka borgara og samfélagsþegna en ekki sem óvirka þiggjendur góðgerðar og velferðar.“

Ég fagnaði því að samningurinn skyldi vera samþykktur og það gerðist mjög snöggt. Það má þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir að hafa tekið á málinu af festu og reynt að flýta því í gegn. En það er búin að vera smá ólund í mér síðan ég sá að búið var að ákveða, og það var til síðari umr. í dag, að við skyldum ekki stíga skrefið til fulls og fullgilda valkvæðu bókunina. Margt fólk hefur látið sig málefni fatlaðra varða í áratugi og barist fyrir réttindum þess, eins og t.d. samtökin Þroskahjálp, en þar eru í forsvari Árni Múli Jónasson sem er framkvæmdastjóri landssamtakanna og Bryndís Snæbjörnsdóttir sem er formaður þeirra. Þau skrifuðu grein í ágúst í Kjarnann um þetta málefni sem mér er mjög hugleikin. Mig langar að lesa hana fyrir ykkur, með leyfi forseta.

„Mannréttindi og metnaðarleysi. Hvað eru mannréttindi?“ er yfirskrift þessarar greinar.

„Mannréttindi eru tiltekin lagaleg réttindi sem er viðurkennt að eru öllu fólki svo mikilvæg að þjóðir heims hafa komið sér saman um að öll ríki verði að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að allir fái notið þessara réttinda, alltaf og alls staðar.  

Grundvallarmannréttindi eru skilgreind í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948 og skýrð og útfærð í mannréttindasamningum sem ríki heims hafa fullgilt og þar með skuldbundið sig til að virða og framfylgja. Dæmi um mikilvæg mannréttindi er rétturinn til að njóta frelsis, hafa skoðanir og tjá þær, stunda nám og atvinnu og hafa aðgang að heilsugæslu og að njóta þessara mannréttinda og annarra lagalegra réttinda til jafns við aðra en fá ekki verri tækifæri til þess vegna tiltekinna einkenna eða stöðu, svo sem kynþáttar, kynferðis, trúarbragða eða fötlunar.  

En það er eins með mannréttindi og önnur lög að þau eru brotin. Sumir eru heiðarlegir og fara að lögum, aðrir brjóta lög ef þeir telja sig hafa persónulegan ávinning af því og komast upp með það. Sum ríki taka mjög alvarlega þá skyldu sína að tryggja öllum mannréttindi, önnur vanrækja það eða reyna að komast hjá því. Og á sama hátt og sá sem er heiðarlegur nýtur virðingar og trausts annars fólks í samfélaginu nýtur ríki sem virðir vel skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum virðingar og trausts annarra ríkja í alþjóðasamfélaginu.“

„Evrópuráðið og eftirlit með mannréttindum“ er yfirskrift kafla 2.

„Það er ekki til nein alheimslögregla sem bregst við þegar ríki brjóta alþjóðleg mannréttindalög á fólki. Þess vegna hafa ríki samið um að fela fjölþjóðlegum stofnunum að fylgjast með hvernig einstök ríki standa sig við að tryggja fólki þau mannréttindi sem þau hafa skuldbundið sig til að gera. Evrópuráðið er mjög mikilvæg slík stofnun sem nýtur mikillar virðingar á alþjóðavettvangi.

Evrópuráðið var stofnað árið 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimsstyrjaldarinnar. Aðildarríki þess eru 47 að Íslandi meðtöldu. Hlutverk Evrópuráðsins er að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. 

Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins er sjálfstæð stofnun innan ráðsins sem hefur meðal annars það hlutverk tryggja að aðildarríkin framfylgi samningum og tilmælum frá ráðinu. Álit og ábendingar mannréttindafulltrúans skipta því mjög miklu máli og hafa mikið vægi á vettvangi Evrópuráðsins og í aðildarríkjum þess. 

Nils Muiznieks, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, var í heimsókn á Íslandi fyrr í þessum mánuði til að kynna sér ástand mannréttindamála. Að lokinni heimsókninni ræddi hann við fjölmiðla og sagðist þar furða sig á metnaðarleysi Íslendinga í mannréttindamálum. Hann sagði m.a.:

„Ég tel Ísland vera auðugt land miðað við mörg þeirra landa sem ég hef komið til. Hér ríkir lýðræði og það á sér langa sögu hér og það kemur mér á óvart að þið hafið ekki sýnt meiri metnað við að axla þessa ábyrgð og stefna að framförum.“

Mannréttindafulltrúinn benti sérstaklega á að Íslendingar hefðu ekki enn þá skuldbundið sig til að framfylgja samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá árinu 2007 með því að fullgilda samninginn en langflest í ríki í heiminum hafa gert það, þar með talin öll Norðurlandaríkin nema Ísland.

Þetta er að sjálfsögðu mikill áfellisdómur yfir íslenskum stjórnvöldum frá aðila sem þau hljóta og verða að taka mark á.

Hvers vegna er mikilvægt að Ísland fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?

Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki tækifæri til sjálfstæðs og eðlilegs lífs og verja það fyrir mismunun á ýmsum mikilvægum sviðum. Með fullgildingu samningsins skuldbindur ríkið sig til að tryggja fötluðu fólki öll þau lágmarksréttindi sem samningurinn mælir fyrir um og til að gera nauðsynlegar breytingar á íslenskum lögum, reglum, stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu til að tryggja að kröfur sem samningurinn gerir verði uppfylltar.  Þegar ríki fullgildir samninginn skuldbindur það sig til að gefa eftirlitsnefnd sem starfar samkvæmt samningnum reglulega skýrslur um hvað það hefur gert til að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Við þá skýrslugjöf skulu ríki hafa samráð við fatlað fólk með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. Eftirlitsnefndin fjallar um skýrslurnar og beinir síðan  tilmælum sínum til ríkjanna um það sem betur má fara og brýnt er að gera.

Þessar skýrslur og umfjöllun nefndarinnar um þær og tilmæli hennar um ráðstafanir og úrbætur fela í sér mjög mikilvægt aðhald gagnvart hlutaðeigandi ríkjum og gagnlegar leiðbeiningar fyrir stjórnvöld um hvað þau þurfa að gera og bæta til að uppfylla kröfur samningsins.

Valfrjáls bókun við samninginn. 

Ísland undirritaði valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um leið og það undirritaði samninginn sjálfan árið 2007. Valfrjálsa bókunin mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná því fram sem þeir telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum.

Eftirlitsnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valfrjálsu bókunina verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks verður meira og mannréttindi þess betur varin.“

Um þetta snýst málið. En ég ætla að klára þessa grein því þau halda áfram og segja:

„Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var tekinn í íslensk lög árið 2013. Það var gert til að tryggja enn betur en gert var með fullgildingu samningsins þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um. Sömu rök eiga við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með því að lögfesta samninginn verður mannréttindum fatlaðs fólks veitt aukin vernd og réttaröryggið eykst. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi og stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki.

Lögfesting samningsins um fatlað fólk mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum fatlaðs fólks.“

Þau segja að lokum í þessari grein sinni:

„Rekum af okkur slyðruorðið!

Því miður verður ekki hjá því komist að taka undir orð mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins um að það lýsi furðulegu metnaðarleysi í mannréttindamálum að hafa ekki enn þá komið því í verk að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þó að níu ár séu nú liðin frá undirritun samningsins og langflest ríki í heiminum hafi fullgilt hann.“

Höfundar greinarinnar skora því á íslensk stjórnvöld að reka nú af sér slyðruorðið með því að fullgilda samninginn án frekari tafa og einnig valfrjálsu bókunina við hann og taka síðan samninginn í íslensk lög eins skjótt og verða má.

Hér talar fólk af þekkingu og viti. Ég ákvað í framhaldi af því að hafa lesið greinina og velt henni fyrir mér lengi að leggja fram breytingartillögu um þessa tillögu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „sem undirritaður var“ í tillögugreininni komi: og valkvæðan viðauka við samninginn, sem hvort tveggja var undirritað.“

Ég legg fram þessa breytingartillögu. Hér er lögð fram þingsályktunartillaga um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hæstv. utanríkisráðherra hefur nú lagt fram. Ég vil breyta henni þannig að hún nái til hins valkvæða viðauka við samninginn. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra felur viðaukinn í sér tvær leiðir til viðbótar þeim sem samningurinn sjálfur mælir fyrir um, sem eftirlitsnefnd með samningnum getur nýtt sér. Annars vegar er um að ræða kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndarinnar, hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum með samþykki viðkomandi aðildarríkis. Valkvæða bókunin veitir einstaklingum og hópum kæruleið ef þeir telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt sér þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná því fram sem þau telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum. Eftirlitsnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra, eins og fram hefur komið hér áður. Með því að fullgilda valkvæða viðaukann verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks verður meira og mannréttindi þess verða betur varin. Það er nákvæmlega það sem ég sagði áðan.

Í athugasemdum með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra segir: Ekki er lagt til að svo stöddu að viðaukinn verði fullgiltur hér á landi. Ekki er skýrt neitt nánar hvers vegna. Það væri mjög fróðlegt að fá að vita hvers vegna svo er ekki. Hvers vegna er ekki sagt frá því í greinargerðinni að ekki standi til að fullgilda þennan viðauka og skýringar á því? Hvað veldur að það er ekki hægt?

Ég heyrði úti í bæ í gær að ástæðan væri sú að embættismenn eða kerfið mæltu ekki með því. Mér skilst líka að embættismannakerfið sé ekkert voðalega hrifið af því að við séum að fullgilda þennan samning. Hvers vegna er það? Eiga einhverjir andlitslausir embættismenn að ákveða hvort við fullgildum samninga eða ekki? Ég er ekki sammála því, en þetta hef ég heyrt. Ég sel það ekki dýrar en ég keypti það. Það var fulltrúi sem er fatlaður sem sagði í gær á hinni heimsfrægu Facebook að embættismannakerfið kærði sig ekki um það og mælti ekki með því. Það finnast mér léleg rök fyrir því að gera það ekki.

Ég legg til að þessi valkvæði viðauki, eða valfrjálsa bókun eins og hún er líka kölluð, verði fullgiltur um leið og samningurinn sjálfur og að þingsályktunartillögu þeirri sem hér liggur fyrir verði breytt samkvæmt því. Ég hef fengið mikinn stuðning vegna þessarar tillögu úti í samfélaginu. Fólk gleðst yfir að við skulum gera þetta. Það gleðst líka yfir að við skulum fullgilda samninginn, en ég hef fengið miklar áskoranir frá fólki úti í samfélaginu um að halda þessu til streitu. Ég nefni til dæmis áskorun sem barst öllum þingmönnum og ráðherra frá Tabú, sem er femínísk hreyfing sem beinir sjónum sínum að margháttaðri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Hún er sprottin af baráttukrafti kvenna sem hafa sjálfar mátt þola misrétti, ofbeldi og kúgun á grundvelli fötlunar sinnar. Ég vil lesa bréfið sem kom frá Tabú í dag, með leyfi forseta.

„Tabú, femínísk fötlunarhreyfing, skorar á Alþingi að samþykkja tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, ásamt breytingartillögu Páls Vals Björnssonar þingmanns, þess efnis að samhliða fullgildingu samningsins verði valkvæður viðauki hans einnig fullgiltur.

Fullgilding viðaukans er nauðsynleg svo raunveruleg breyting verði á réttarstöðu fatlaðs fólks á Íslandi. Með viðaukanum er annars vegar tryggt að einstaklingar hafi aðgang að kvörtunarleið til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hins vegar að nefndin geti rannsakað alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis. Ísland hefur staðfest viðauka annarra alþjóðlegra mannréttindasamninga og því ætti það sama að gilda um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Við skorum á þingheim að sýna þá virðingu og þann metnað fyrir mannréttindum fatlaðs fólks, að fullgilda samninginn með valkvæða viðaukanum og þannig taka nauðsynleg skref í átt að því að tryggja réttarstöðu fatlaðs fólks á Íslandi, svo hún verði sambærileg réttarstöðu fatlaðs fólks í öðrum velferðarríkjum.“

Ég tek heils hugar undir þessa áskorun og vona að þingheimur samþykki breytingartillögu mína. Það eru engin efnisleg rök fyrir að gera það ekki. Það hafa engin rök verið færð fyrir því hvers vegna það er ekki gert og engar skýringar gefnar á því.



[16:04]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bað um að fá að fara í andsvar áðan til að spyrja hv. þingmann hvort hann þekkti einhver rök gegn því að samþykkja einnig valkvæða viðaukann. Hv. þingmaður sagði þá að hann hefði heyrt að það væri einhver andstaða vegna embættismanna. Ég hafði hætt við að fara í andsvar vegna þess að hv. þingmaður kvaðst ekki þekkja þau rök. Ég hafði þá ekki neina spurningu. En svo fór ég að velta fyrir mér: Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að einhver sé á móti valkvæðum viðauka af þessu tagi? Ég var að hugsa hérna áðan, með þakklæti í huga, að þetta er óumdeilt mál. Það er óumdeilt að við eigum að fullgilda þennan samning. Hv. þingmenn úr öllum flokkum hafa kvartað mikið yfir að það hafi ekki verið gert nú þegar, fyrir utan auðvitað hagsmunaaðilana sjálfa. En ég man ekki til þess að einhver hafi sagst vera á móti því að fullgilda þennan samning. Ég hef aldrei heyrt neinn stinga upp á því, hvað þá að færa rök fyrir því. Það mundi vekja hjá mér mikla furðu ef einhver væri á móti fullgildingu samningsins. Ég mundi velta fyrir mér hvernig rök kæmu fram. Kostnaður? Tími? Er einhver löggjöf laumufarþegi eða hvað? Ég veit ekki hvað í ósköpunum það gæti verið sem fólk mundi setja sig upp á móti í samningnum. Svo er það hinn valkvæði viðauki, sem ég verð að vísu að viðurkenna að ég þekki bara af frásögn hv. þingmanns og þeim gögnum sem komu inn á Alþingi. Getur hv. þingmaður gert sér í hugarlund hvað gæti valdið andstöðu við valkvæða viðaukann sem ekki á við um samninginn sjálfan? Ég er bara svolítið forviða. Ég veit ekki einu sinni alveg að hverju ég á að spyrja. Ég er svolítið hissa. Hvað á maður að segja?



[16:06]
Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég veit það ekki en mig grunar það samt. Sumir eru hræddir við að þetta muni þýða miklar málsóknir og aukin útgjöld og kannski mikla vinnu fyrir embættismenn. Ég held að það sé nærtækasta skýringin. Árið 2012 var ákveðið af þáverandi ríkisstjórn að fara í þá vinnu að fullgilda samninginn og átti að klára það árið 2014. Við erum að gera það fyrst núna árið 2016. Hvers vegna? Hvað stendur í veginum fyrir því? Hvers vegna hefur þetta ekki verið gert? Ég velti því oft fyrir mér hvernig í ósköpunum það hefur tekið Ísland, eitt af auðugustu ríkjum heims, níu ár að fullgilda þennan samning. Hvað liggur að baki?

Ég segi eins og hv. þingmaður, ég velti því fyrir mér og veit ekki alveg hvers vegna fólk er á móti því að samþykkja þennan viðauka. Ég hef engin svör við því. Það er hægt að fabúlera fram og til baka um hvers vegna það er ekki gert, en maður má passa sig að vera ekki óábyrgur í tali. En ég held stundum að embættismannakerfið og kerfið okkar allt saman, stjórnsýslukerfið, þvælist fyrir þjóðþrifamálum. Ég vildi óska þess að ég hefði svar við þessari spurningu en ég hef það ekki. Ég er alveg jafn hissa og hv. þingmaður á því hvers vegna ekki var ákveðið að gera þetta strax. En eins og ég sagði í ræðustól áðan heyrði ég það frá einstaklingi sem er framarlega í réttindabaráttu fatlaðra að embættismannakerfið hefði ekki mælt með því að þetta væri gert. Það er það eina sem ég get svarað hv. þingmanni um hvers vegna viðaukinn er ekki samþykktur.



[16:08]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér hefur sjaldan ef nokkurn tíma liðið jafn klaufalega að koma í ræðustól með spurningu því að ég er svo forviða sjálfur. En ef ástæðan er sú, sem við getum auðvitað ekki gefið okkur hér nema með frekari gögnum, vísbendingum, að embættismannakerfið óttist málsóknir og í stuttu máli vesen, eru það þá ekki bara frekari rök fyrir að staðfesta þennan valkvæða viðauka? Þýðir það ekki bara að það er meira að en við áttum okkur á? Ég mundi halda það.

Ef þetta eru rökin þættu mér það vera rök fyrir því að staðfesta viðaukann, en ekki rök gegn því. Mér þætti skárra, segi ég í ákveðnu ábyrgðarleysi, að það væri bara engin þörf á þessu. Það mundi engu breyta. Hlutirnir væru í svo góðu lagi. Ég efast reyndar um að það sé tilfellið, en það væri skömminni skárra en hitt að þetta mundi færa okkur svo mikið vesen vegna þess að það væri svo mikið tilefni til að nýta hina valkvæðu viðbótarbókun, þ.e. ef sögusögnin er sönn. En það hættir svo sem seint að koma manni á óvart það sem maður heyrir úr kerfinu. Það er ýmislegt að í réttindamálum á Íslandi, ekki bara í þessum málaflokki heldur víðar. En ég spyr hv. þingmann: Ef það er tilfellið að embættismenn eða einhverjir aðilar innan kerfisins óttist áhrif þessarar valkvæðu viðbótarbókunar, eru það þá ekki rök fyrir því að samþykkja hana?



[16:10]
Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það eru bara fullkomin rök fyrir því. Það hafa engin önnur rök verið lögð fram sem réttlæta að gera þetta ekki. Það er bara þannig. Ég hef alla vega ekki séð þau og þau hafa ekki verið nefnd hér í neinni umræðu, þ.e. hvers vegna þetta er ekki gert. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að það séu einmitt rökin fyrir því að við ættum að samþykkja þetta, ef það sem ég nefndi áðan er rétt, sem er náttúrlega ekki staðfest heldur bara orðrómur. Það er með ólíkindum að við skulum ekki vera búin að samþykkja þennan samning, fullgilda hann og lögfesta hann. Ég lít svo á að við séum öll hluti af sama líkamanum og eigum öll að njóta sömu réttinda burt séð frá því hver líkamleg staða okkar er.

Það var meðal annars það sem stóð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að vinna ætti að raunverulegu jafnrétti allra burt séð frá því hver staða fólks í samfélaginu væri. Þetta mun gera það. Fatlað fólk, sem berst fyrir þessum réttindum, leggur gríðarlega áherslu á að viðaukinn verði líka samþykktur. Hann veitir stjórnvöldum miklu betra aðhald og tryggir það að embættismenn og þeir sem fara með þessi mál í stjórnkerfinu vinni vinnuna sína og vandi sig. Ef við gerum það er ekkert að óttast. Við þurfum ekkert að óttast ef menn vinna vinnuna sína og gera þetta vel. En við eigum að sjá sóma okkar í því að samþykkja samninginn og bæta þessum valkvæða viðauka við og sýna að við viljum raunverulega að allir standi jafnir í þessu samfélagi. Það hefur ekki verið svo. Fatlað fólk hefur mátt þola gríðarlega kúgun, mismunun og ofbeldi hér á Íslandi sem og annars staðar áratugum saman. Það er löngu kominn tími til að því linni og að fatlað fólk hafi fullkomin réttindi á við alla aðra borgara í þessu landi.



[16:12]
Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér hefur hv. þm. Páll Valur Björnsson farið í sannkallaðri eldmessu yfir valkvæðu bókunina. Í reynd hafa í þessari umræðu engin rök komið fram gegn því að fullgilda hana samhliða samningnum sjálfum. Hv. þingmaður sagðist eðlilega vera mjög súr yfir því. En kynni að vera að það sé samt sem áður, miðað við að þessari umræðu er ekki lokið, möguleiki á því að gera það? Enginn hefur mælt gegn því. Hæstv. félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir er viðstödd umræðuna. Ég held að hjarta hennar slái þannig að það kynni að vera mögulegt, miðað við þau rök sem hv. þingmaður hefur flutt fyrir máli sínu, að fá hana til þess að taka ákvörðun og beita sér fyrir því að í atkvæðagreiðslu hér á eftir verði þetta samþykkt. Mundi t.d. maður eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson leggjast gegn því? Ég á mjög erfitt með að sjá það.

Það sem mér finnst hafa skýrst í þessari umræðu er að hér er um mjög einfalda athöfn að ræða. Það er ólíklegt að staðfesting eða fullgilding valkvæðu bókunarinnar mundi hafa neinn annan nýjan kostnað í för með sér fyrir ríkið umfram það sem staðfesting samningsins sjálfs felur í sér. Ef ég má gefa hv. þingmanni ráð er það að fara núna og tala við hæstv. ráðherra á meðan hann er heitur og kanna hvort ekki sé grundvöllur fyrir enn ríkari samstöðu sem nær ekki bara til samningsins heldur líka til valkvæðu bókunarinnar og kanna í ljósi þessarar málefnalegu umræðu hvort ekki sé að skapast grundvöllur fyrir því að ganga frá því hér á eftir að valkvæða bókunin verði líka staðfest. Ella verðum við að fara fram á það að hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) sem er hér við umræðuna, færi rök gegn því.



[16:14]
Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alltaf gott að tala við hæstv. ráðherra. Ég hef átt mjög góð samskipti við hana í gegnum tíðina. En ég get alveg tekið undir að ég trúi því ekki að tillagan verði felld. Það eru engin rök og enginn hefur komið hér fram og sagt hvers vegna ekki ætti að samþykkja valkvæðu bókunina. Mér fróðari menn um þessi mál hafa bent á að það kostar ríkið ekki neitt. Það fylgi nákvæmlega sömu reglu og þegar samningurinn verður fullgiltur. Við erum náttúrlega ekki búin að ganga frá öllum lagabreytingum sem fara þarf í, en við erum samt sem áður búin að ákveða að fullgilda samninginn og flöggum því að við munum vinna að því að breyta lögum. En ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, auðvitað eigum við bara að reyna að sammælast um að samþykkja þetta og sýna í verki að við viljum standa fullkomlega með réttindum þessa fólks. Við höfum dregið það í níu ár að fullgilda samninginn. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra komi hér upp og skýri hvers vegna valkvæða bókunin er ekki með í þetta skiptið.



[16:15]
Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að minnsta kosti að hv. þingmaður eigi hér meðan þessari umræðu vindur fram að fara og eiga fund með hæstv. félagsmálaráðherra og beita sannfæringarkrafti sínum og freista þess að ná samstöðu um þetta mál. Eins og hv. þingmaður hefur lýst nákvæmlega felst í reynd tvennt í valkvæðu bókuninni. Í fyrsta lagi er búin til sjálfstæð kæruleið fyrir íslenska einstaklinga sem njóta réttar og verndar samkvæmt samningnum sjálfum, sem við erum vonandi að samþykkja á eftir að verði fullgiltur. Í öðru lagi felst í þessu möguleiki fyrir hina sjálfstæðu eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna að rannsaka hvort vera kynni að hér ættu sér stað kerfisbundin brot á samningnum. Ég sé ekki að það hafi í för með sér neina hættu fyrir samfélag sem telur að það sé að vinna af heilindum að því að bæta hag fatlaðra. Þetta skaðar engan. Þetta getur einungis hnikað rétti og lífi einstaklinga með fötlun fram á við. Þetta mundi bæta orðstír og frammistöðu íslensku ríkisstjórnarinnar.

Öll þurfum við á aðhaldi að halda. Það er það eina sem þetta snýst um. Það þarf enginn að vera hræddur um þetta. Rökin gegn þessu er mjög erfitt að sjá. Þess vegna tel ég að ef engin frekari rök koma gegn þessu sé erfitt að hafna því í atkvæðagreiðslu hér á eftir. Þess vegna sýnist mér að í umræðunni sé að skapast grundvöllur fyrir því að kannað verði hvort ekki sé hægt að ná samstöðu hinna tveggja vængja Alþingis um að klára málið hér á eftir. Ég hvet hv. þingmann til að leita eftir því.



[16:18]
Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir hvatninguna. Það væri nú aldeilis gott fyrir okkur öll hér og ásýnd Alþingis ef þetta mundi takast. Ég mun kannski eiga orðastað við hæstv. félagsmálaráðherra hér á eftir um það hvort hægt sé að ná samstöðu um að samþykkja þetta og tek hreinlega undir allt sem hv. þingmaður sagði. Það er ekkert sem lagt hefur verið hér fram sem rökstyður að gera þetta ekki. Kannski á annað eftir að koma fram í ræðum stjórnarþingmanna, en hingað til hefur ekkert komið fram og enginn hefur komið og mótmælt því að eitthvað sé í þessum viðauka sem sé erfitt að framkvæma núna akkúrat á þessari stundu.



[16:19]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég byrja eins og aðrir á því að fagna því að þetta mál sé komið á þetta stig. Ég vænti þess að það fái hér mildilega afgreiðslu. Mér finnst rétt að minnast á að það er fagnaðarefni að mál eins og þessi séu óumdeild. Það hefur þó gerst í mannkynssögunni að þótt hefur heldur sjálfsagt að mismuna fólki á ýmsum grundvelli, reyndar mestalla mannkynssöguna, næstum því alls staðar.

Við getum fagnað því að lifa á tímum þar sem viðleitnin er sú að draga úr órétti, ójafnræði og óréttlæti af hvaða tegund sem er. Ég vil þó minna á um hvað málið fjallar því að ég hef ekki enn þá heyrt neinn telja það upp. Ég ætla að lesa hérna upp þau réttindi sem samningurinn fjallar sérstaklega um, sem er þó nokkur listi:

Jafnrétti og bann við mismunun.

Réttur til lífs, frelsis og mannhelgi.

Réttarstaða til jafns við aðra.

Frelsi frá því að sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Frelsi frá því að sæta misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.

Réttur til líkamlegrar og andlegrar friðhelgi.

Ferðafrelsi og réttur til ríkisfangs.

Réttur til að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu.

Skoðana- og tjáningarfrelsi.

Virðing fyrir einkalífi.

Virðing fyrir heimili og fjölskyldu.

Réttur til menntunar.

Réttur til heilsu.

Réttur til vinnu.

Réttur til viðunandi lífskjara.

Réttur til þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi.

Réttur til þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.

Ástæðan fyrir því að ég les þetta hérna upp er sú að þetta eru allt réttindi sem fólk tekur jafnan sem sjálfsögðum hlut. Það hljómar ekki eins og eitthvað sem við ættum að þurfa að berjast sérstaklega fyrir árið 2016, en það er samt þannig af einhverjum ástæðum. Það er því gleðiefni að við séum að gera það þótt seint sé.

Þegar kemur að þessum málaflokki finnst mér líka þess virði að horfa aðeins inn á við og minna sig á hvað það er sem klikkar, hvað það er sem veldur óréttlætinu. Það er nefnilega misjafnt milli hópa. Vissulega eru fordómar gagnvart fötluðu fólki til staðar, fordómar af ýmsu tagi og ýmsir hlutir sem fólk gerir á hlut fatlaðs fólks af einskæru tillitsleysi. Svo ég nefni einfalt en því miður algengt dæmi er þegar bílastæði fatlaðs fólks eru notuð af fólki sem ekki er fatlað og þarf ekkert að nota slík bílastæði. Slíkt er ef til vill sambærilegt við það tillitsleysi og skeytingarleysi sem endurspeglast í fordómum gagnvart ýmsum öðrum hópum í gegnum tíðina eins og t.d. gagnvart konum eða hinsegin fólki, börnum, öldruðum, og svo mætti lengi telja. En þegar kemur að fötluðu fólki er svo mikilvægt að við áttum okkur á því að það er ekki nóg fyrir okkur að draga úr þessum fordómum. Við þurfum að leggja til vinnu og hafa áhuga á að draga úr órétti sem þetta fólk verður fyrir. Þegar kemur t.d. að meginatriðunum, að jafnrétti kynjanna er mikilvægast að draga úr því sem við sem einstaklingar gerum rangt. Þegar kemur að réttindum fatlaðs fólks er það ekki nóg. Við þurfum vissulega að gera það, en það er ekki nóg. Við þurfum líka að passa að samfélagið sjálft sé hannað fyrir fatlað fólk. Það eru t.d. einfaldir hlutir eins og að hafa dyr nógu breiðar, að hafa salernisaðstöðu þannig að fatlað fólk geti notað hana, að hafa bílastæði fyrir fatlað fólk og fleira í þeim dúr. Það þarf að vinna að því að laga. Það má ekki gleyma því. Þetta er ekki bara spurning um að hætta að beita fordómum, eða hvað það er.

Vandinn er í sjálfu sér ekki bara hvað við gerum, heldur líka hvað við gerum ekki. Það er munur á því að ætla að veita einhverjum frelsi með því að beita hann ekki ófrelsi annars vegar og hins vegar því að frelsa þann sem er ranglega fangelsaður. Tökum fyrir skýrustu myndina sem ég get hugsað mér: Við stærum okkur ekkert sérstaklega af því að ganga frjáls um götur bæjarins vegna þess að við höfum ekki verið sérstaklega fangelsuð. Það felst enginn kostnaður í að tryggja það frelsi. Þvert á móti. Það fælist kostnaður í að taka það burt. Þegar kemur að réttindum fatlaðs fólks þurfum við að átta okkur á því að við eigum frekar að líta á það eins og að einhver hafi verið beittur ófrelsi og við þurfum að laga það. Það kostar erfiði. Það kostar athygli og oft og tíðum peninga. Við þurfum að vera algerlega reiðubúin til þess að inna það starf af hendi og gera það sem gera þarf til þess að tryggja frelsi þessa fólks, því þegar allt kemur til alls snýst þetta um frelsi.

Þegar þetta ágæta mál verður samþykkt, og ég segi þegar, er mikilvægt einnig að við fylgjum því eftir því að sú töf sem orðið hefur á málinu finnst mér benda til ákveðins skeytingarleysis. Og eins og ég sagði áðan hafa þingmenn allra þingflokka kvartað undan þessu og viljað fá þennan samning fullgiltan, en það hefur tekið alveg fáránlega langan tíma. Ég leyfi mér að nota þau orð, virðulegi forseti; alveg fáránlega langan tíma. Það er engin ástæða til að bíða svona lengi. Þetta er bara skeytingarleysi sem fær einhvern veginn að viðgangast. Ég óttast að eftir að málið verður samþykkt verði skeytingarleysi gagnvart þeim lagabreytingum sem þarf síðan að fara í. Hv. þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur lagt fram frumvarp sem varðar þetta mál en það fékk því miður ekki framgöngu. En þau eru fleiri, eins og fram kemur í greinargerð tillögunnar. Það er mjög mikilvægt að þessi frumvörp verði lögð fram á komandi kjörtímabili og samþykkt. Þá vil ég sérstaklega nefna frumvarp til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun. Það er nokkuð sem tekur tíma og erfiði að búa til og þá er mikilvægt að það sé gert, að ekki sé bara beðið með það vegna þess að við erum búin að klappa okkur á bakið fyrir að fullgilda þennan samning. Ég óttast svolítið að sú verði raunin. Það virðist vera mynstrið.

Eins og ég sagði áðan fagna ég því hversu óumdeilt þetta er. Mér finnst því gleðiefni að sjá mál sem mér og mörgum öðrum finnst sjálfsagt. Mér finnst ýmislegt mjög sjálfsagt sem er þó umdeilt. En þetta er óumdeilt, sama hversu sjálfsagt einum og einum þingmanni finnst það. Það er gleðiefni. Þess vegna velti ég fyrir mér hvers vegna ekki er lagt til að samþykkja einnig valkvæða viðaukann. Hv. þm. Páll Valur Björnsson, sá sérstaklega háttvirti þingmaður, hefur lagt fram breytingartillögu um að þessi valkvæði viðauki verði einnig samþykktur. Eins og hann vék hér að í ræðu sinni komu engin rök fram gegn því í greinargerðinni. Þar er einfaldlega fullyrt að það verði ekki samþykkt að svo stöddu án þess að þar komi einhver rök. Í andsvörum áðan spurði ég hv. þingmann hvort hann gæti ímyndað sér einhver rök eða hvort hann hafi heyrt af einhverjum rökum. Hann kom fram með ákveðna tilgátu, sem reyndar var byggð á afspurn — við skulum nú kannski ekki alveg trúa því sjálfkrafa, maður á ekki sjálfkrafa að trúa illu upp á annað fólk. En það er klárlega umhugsunarefni sem hann sagði. Eins og sést í greinargerð var ákveðið að samþykkja hann ekki. Það er ekki eins og hann hafi gleymst. Tekin var meðvituð ákvörðun um að gera það ekki. Mér finnst það skrýtið og pínulítið áhugavert í ljósi þess hversu óumdeild fullgilding samningsins sjálfs er. Ég hlakka til — eða kvíði fyrir eða bæði, ég veit ekki alveg hvort — að heyra hvað það er sem stendur í vegi fyrir því. Þarna er á ferðinni mál sem ég held að ríki eins og Ísland ætti léttilega að geta staðið við. Það felur í sér réttarbætur fyrir fatlað fólk. Annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg og kerfisbundin brot gegn samningnum með samþykki viðkomandi aðildarríkis. Ég hefði haldið að Ísland ætti ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af því. En þar sem ég veit hvernig farið er með fólk á Íslandi kæmi mér heldur ekki á óvart að það væri full þörf fyrir þetta, vonandi ekki oft, en það kæmi mér ekkert á óvart að það gerðist. Íslendingar eru ekki jafn ofboðslega framarlega í réttindamálum og við teljum okkur stundum trú um að við séum. Það er bara þannig. Því miður.

En eina tilgátan sem ég hef heyrt um sem ástæðu fyrir því að valkvæði viðaukinn sé ekki með að þessu sinni er sú að hann feli í sér auknar málsóknir og slíkt. Eins og ég fór yfir í stuttu spjalli við hv. 10. þm. Suðurkjördæmis, Pál Val Björnsson, álít ég það rök fyrir því að gera þetta. Ef þörf er á málsóknum, ef tilefni er til málsókna er mikilvægt að það sé farvegur fyrir þær málsóknir. Ef ekki er þörf fyrir þær koma fordæmi væntanlega hratt, álitamál verða útkljáð og hægt verður að halda áfram, hver svo sem þau eru. Ég sé alla vega ekki fyrir mér að jafn vel stætt ríki og Ísland, sem er í þokkabót lítið samfélag og getur tiltölulega auðveldlega brugðist við ýmsum kröfum um breytingar — það er það reyndar eitt af því jákvæða við það að vera fámenn þjóð með lítið hagkerfi að við getum gert hlutina hratt. Hlutirnir geta gerst mjög hratt á Íslandi og gera það reyndar almennt.

Við eigum ekki að vera hrædd við að taka upp svona viðauka, ekki síst af þeirri ástæðu. Við ættum alveg að ráða við það. Við höfum vissulega efni á því. Ég hef enga trú á því að við höfum ekki efni á því, að fjárskortur geti verið gild ástæða þess að hafna hinum valkvæða viðauka.

Ég velti fyrir mér hvernig fer með atkvæðagreiðslur um þessa breytingartillögu. Ég ætla ekki að leyfa mér að óska hv. þingmanni til hamingju með það fyrir fram að hún verði samþykkt. En ef hún verður ekki samþykkt verður nú heldur betur rætt um það. Það er eins gott að menn hafi gild rök gegn því ef menn ætla ekki að samþykkja viðaukann.

Ein leið til að líta á málið, jafnvel ef það kallar á aukið „vesen“ fyrir yfirvöld eða embættismenn þeirra, er að líta á þetta sem vexti, að líta á þetta þannig að fatlað fólk hafi lánað okkur réttindi sín á meðan við höfum dregið lappirnar með að fullgilda þennan samning. Við köllum það bara bætur eða vexti á því láni að taka þennan valkvæða viðauka með, þ.e. ef við ætlum að líta á það sem eitthvað annað en sjálfsagðan hlut.

Eins og kannski er ljóst greiði ég atkvæði með þessu öllu saman enda er að mínu mati ekki annað forsvaranlegt á þessum tímapunkti og þótt fyrr hefði verið.



[16:31]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk og nefndarálit hv. þingnefndar utanríkismála, álit sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór í gær mjög vel og glögglega yfir. Í fyrri umr. um málið fór ég yfir þörf, forsendur og nauðsyn þess að við klárum loks að fullgilda samninginn enda er, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson orðaði það, stjórnvöldum til vansa hversu langan tíma það hefur tekið. Í greinargerð með sjálfri tillögunni er allítarlega farið yfir þá vinnu sem hefur átt sér stað eða er í burðarliðnum og sem er nauðsynleg til að við klárum þetta mál.

Þetta er ekki endastöð. Eins og ég nefndi þá í ræðu um þingsályktunartillöguna er þetta stöðug vegferð þar sem við tryggjum sjálfsögð mannréttindi og erum á vaktinni með það. Ég vil vitna orðrétt í nefndarálit hv. utanríkismálanefndar, með leyfi forseta:

„Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, en staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þessara réttinda. Markmið samningsins er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra …“

Kjarninn í þessu öllu saman er að allir hafi jöfn tækifæri og aðgengi og má í því samhengi vitna til 9. gr. samningsins sjálfs. Ég kom jafnframt inn á það í umræðu um tillöguna að ég hef farið fyrir starfshópi sem hæstv. velferðarráðherra skipaði í ársbyrjun 2014 sem hefur haft það verkefni að endurskoða lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög um málefni fatlaðs fólks. Ég fór þá í ræðu yfir störf nefndarinnar og jafnframt er í greinargerð með tillögunni komið inn á það. Staðan nú er sú að hópurinn lagði drög að frumvörpum ásamt greinargerð, frumvörpum sem fóru í umsagnarferli í ráðuneytinu í sumar. Hefur starfshópurinn á þeim tíma fengið mjög gagnlegar ábendingar sem verið er að taka tillit til og niðurstöðu er að vænta sem birtist í frumvarpi til nýrra laga um málefni fatlaðs fólks. Samningurinn hefur allan tímann verið hafður til hliðsjónar og svo breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna því til samræmis. Aukinheldur er auðvitað tekið tillit til þeirra samfélagslegu breytinga sem hafa orðið en eins og við þekkjum hefur málaflokkurinn yfirfærst frá ríki til sveitarfélaga og ítarleg skýrsla um fjárhagslegt og faglegt endurmat átt sér stað, nú síðast í desember. Þá er auðvitað notendastýrð persónuleg aðstoð form sem við höfum verið að þróa og vinna að á liðnum árum og sérstakur starfshópur hefur unnið með það mál og við í endurskoðunarstarfshópnum höfum átt samvinnu og samráð við hann. Það er form sem hentar mörgum, kannski ekki öllum, en er sannarlega til þess fallið að mæta réttindum margra til að stýra sínu eigin lífi.

Allt að einu snýr kjarni samningsins að jafnrétti sem er tryggt í 65. gr. stjórnarskrár Íslands. Ég vona að við getum sameiginlega staðið að því að varða þessa vegferð með yfirlýsingu sem í þessum mannréttindasamningi felst. Ég fagna því hvernig samstaðan um það birtist á Alþingi um þetta efni og hvet beinlínis til þess og þakka um leið snörp viðbrögð og vinnu hv. utanríkismálanefndar í úrvinnslu málsins.

Í lokin legg ég áherslu á það sem kemur fram í nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar, þ.e. hvatningu til stjórnvalda um að hafa hraðar hendur með undirbúning fullgildingar gagna svo ljúka megi ferlinu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna svo hæstv. utanríkisráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir geti klárað þetta ferli.

Hér hefur þó nokkuð verið komið inn á breytingartillögu hv. þm. Páls Vals Björnssonar um valfrjálsa bókun. Um það vil ég segja að í nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar kemur fram að standi vilji Alþingis til að fullgilda hana þurfi aðra ákvörðun þar um og ég trúi því að hv. utanríkismálanefnd vilji ígrunda það mál og færa sterk rök fyrir því, a.m.k. yfirfara málið áður en ákvörðun verður tekin eða þetta lagt fyrir þingið í atkvæðagreiðslu.



[16:37]
Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Fyrst og síðast vildi ég koma hingað upp til að fagna þeim áfanga sem við erum að ná og þeirri samstöðu sem um málið hefur náðst. Ég vil einnig nota tækifærið og þakka hv. utanríkismálanefnd og öllum fulltrúum í nefndinni hversu liðlega og vel var tekið á því að afgreiða þetta stóra mál hratt og örugglega út úr nefndinni. Það hefði aldrei verið gert nema vegna þess að fram hafði farið mikil og góð umræða á vettvangi hv. velferðarnefndar áður vegna tillögu sem komið hafði frá nokkrum þingmönnum um mikilvægi þess að klára málið. Það hjálpaði til við að klára málið á eins stuttum og snöggum tíma og raun ber vitni. Fyrst og síðast vil ég færa nefndinni þakkir fyrir það.

Ég vil líka nefna það sem allir aðrir hv. þingmenn hafa gert að þetta er risastórt mál og við erum að ná stórkostlega miklum áfanga. Ég ætla ekki að gera eins og sumir hv. þingmenn hafa gert í dag, að kenna einhverjum um þær tafir sem orðið hafa á málinu eða finna ástæðuna fyrir því að málið hefur hvílt í tæp níu ár án þess að við því hafi verið hreyft. Margir hafa komið að því, en það hafa jafnmargir unnið að því, og vonandi miklu fleiri, að tryggja að við erum nú að ná þeim árangri að fara að fullgilda samninginn.

Það var vel gert hjá hv. þingmanni og framsögumanni hv. utanríkismálanefndar Össuri Skarphéðinssyni í gær að fara yfir nefndarálitið frá hv. utanríkismálanefnd. Ég ætla ekki að gera það, ég veit að þar var vel áréttaður sá skilningur nefndarinnar og okkar allra að það að samþykkja og ganga frá þessu verki núna er ekki bara einhver staðfesting og handaupprétting. Því fylgja miklar skuldbindingar. Við þurfum að vinna með það áfram í formi breytinga á lögum og vinna eftir því kerfi. Við þurfum svo að tryggja að það sé alveg ljóst að okkur er alvara. Þetta er ekki einungis staðfesting og formleg athöfn sem fram fer þegar við fullgildum samninginn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna næstkomandi föstudag, eins og stendur til að gera, heldur fylgja því miklar skuldbindingar fyrir þing og þjóð og ríkisstjórn að gera slíkt. Ég vil árétta að við séum meðvituð um hversu alvarlegt og stórt mál þetta er.

Hér hefur verið talsverð umræða um það sem kallað hefur verið valkvæða bókunin og hefur verið lögð fram breytingartillaga um að við staðfestum hana samhliða þessu. Þær upplýsingar sem hv. utanríkismálanefnd fékk og ég hef einnig fengið frá aðilum sem að þessu koma í umræðunni, förum við ekki í gegnum þá athöfn með samninginn næstkomandi föstudag, það liggur alveg fyrir. Þá þyrftum við að bíða með fullgildinguna vegna þess að ákveðin gögn sem þurfa að fylgja fullgildingunni liggja ekki fyrir varðandi viðbótarbókunina. Ríki hafa farið misjafnar leiðir í því. 166 ríki hafa fullgilt þennan samning, 90 ríki hafa látið þessa bókun fylgja með, önnur hafa beðið með að gera það vegna þess að þau eru ekki tilbúin með gögnin sem þessu tengist.

Nú getum við bent hvert á annað og velt fyrir okkur hvers vegna gögnin og við séum ekki tilbúin. Hv. utanríkismálanefnd lagði alla áherslu á að ljúka þessu, eins og kemur fram í nefndarálitinu þar sem stendur orðrétt, virðulegur forseti:

„Nefndin hvetur stjórnvöld til þess að hafa hraðar hendur svo að fullgildingargögn verði tilbúin innan þess tíma og ljúka megi fullgildingarferlinu með afhendingu þeirra til Sameinuðu þjóðanna.“

Athöfnin á fara fram næstkomandi föstudag. Öll gögn er tengjast fullgildingu samningsins sjálfs liggja fyrir. Gögnin sem tengjast hinni valkvæðu bókun liggja hins vegar ekki fyrir. Það er ástæða þess að við verðum að klára þetta og það er ástæða þess að nefndin segir orðrétt í nefndaráliti sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Standi vilji Alþingis til að fullgilda hana þarf því aðra ákvörðun þar um.“

Ég efast ekki um að hv. utanríkismálanefnd, og hv. þingmenn og þingið allt vilji klára bókunina. Standi vilji manna til að klára það allt saman bendir allt til þess að við þyrftum að bíða eftir gögnum. Það er valmöguleiki að taka þetta saman, en þá verður fullgildingin ekki á næsta föstudag á þeim fundi sem hæstv. utanríkisráðherra situr núna fyrir okkar hönd.

Það er þess vegna sem talin var ástæða fyrir okkur, og við mátum það þannig í nefndinni, að mikils virði væri að koma málinu hingað inn þrátt fyrir að hin valkvæða bókun gæti ekki fylgst með.

Ég vildi útskýra það og árétta. Svo er það í höndum þingsins að taka ákvörðun um hvort menn vilja bíða eða gera þetta með þessum hætti. Til útskýringar vildi ég engu að síður að þetta kæmi fram. Þetta var rætt á fundi nefndarinnar.

Fyrst og síðast, óháð umræðu um valkvæðu bókunina, árétta ég skoðun mína um að að sjálfsögðu eigi Ísland að ganga frá henni líka, hugur okkar stendur til þess. Mér finnst að þingið ætti að klára það hratt og örugglega, en til þess að það gerist verða gögnin að vera til staðar. Ég treysti komandi þingi til að sjá til þess.

Við vitum það öll og einnig þeir sem unnið hafa að þessum málum á þingi lengur en ég, að það er stærsta skrefið að fullgilda samninginn eins og hann liggur fyrir núna. Það er langmikilvægast að gera það. Síðan eigum við að sjálfsögðu að ganga með sama hætti fram gagnvart valkvæðu bókuninni og velta fyrir okkur hvort við viljum lögfesta samninginn.

Stærsta skrefið sem löggjafinn getur tekið núna og er tilbúinn að taka er að fullgilda þennan samning. Hann getur afhent fullgildinguna til Sameinuðu þjóðanna í þessari viku ef okkur tekst að afgreiða málið hratt og örugglega. Ég vona innilega að okkur takist það og að mér hafi tekist að skýra afstöðu mína hvað varðar valkvæðu bókunina því að eftir henni var spurt.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég óska okkur öllum til hamingju með þennan stóra dag og fyrst og síðast þeim sem barist hafa fyrir því máli í mörg ár að þetta yrði að möguleika. Það er að gerast og gerir það á næstu dögum með formlegri staðfestingu ef þingið ákveður að þannig verði það.



[16:44]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar fyrir prýðilega ræðu og fyrir að fara inn á það mál sem við vorum að ræða áðan, þ.e. um valkvæða viðaukann. Eins og ég sagði áðan á maður ekki fyrir fram að trúa því illa sem sagt er um fólk. Þess vegna þykir mér mjög vænt um að fram komi einhver rök um hvers vegna viðaukinn á ekki að fylgja með í þetta sinn. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það.

Að því sögðu velti ég fyrir mér hvort það komi einnig í veg fyrir að Alþingi heimili ríkisstjórninni að undirrita fullgildingu viðaukans. Er ekki hægt að veita heimildina en beita henni seinna, þ.e. eftir að gögnin eru reiðubúin? Til vara spyr ég: Ef þingsályktunin sjálf er þess eðlis að hún felur í sér að gera þurfi hvort tveggja í einu, væri ekki hægt að breyta breytingartillögunni, og það er hægt, í tvær málsgreinar þar sem önnur fjallaði um að fullgilda samninginn og hin fjallaði um að fullgilda einnig valkvæða viðaukann þegar þau gögn liggja fyrir? Ég sé nefnilega ekki hvers vegna það ætti að tefja ferlið. Mér þykja rökin góð, við viljum ekki tefja málið frekar, svo mikið er víst. Ef rökin eru þau að breytingartillaga hv. þm. Páls Vals Björnssonar tefji málið hygg ég að það sé skilningur á því, enda kvarta margir undan því hvað málið hefur tekið langan tíma, burt séð frá því hverjum það er að kenna.

Í stuttu máli, virðulegi forseti. Er ekki hægt að redda þessu og veita þessa heimild til yfirvalda án þess að henni sé beitt akkúrat í dag?



[16:46]
Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og vangavelturnar. Ég þori ekki alveg að fullyrða um það nákvæmlega hér og nú, en hefði þó talið og segi án allrar ábyrgðar, að þingið gæti haft hér áhrif, annaðhvort í formi þess að árétta það í nefndaráliti með skýrari hætti eða í formi þess að afstaða þingsins kæmi fram sem fæli það í sér að ríkisstjórn Íslands væri falið að klára málið. Það er örugglega hægt að vinna það einhvern veginn þannig enda felur það ekki í sér — og nú er ég að hugsa upphátt og bið hv. þingheim afsökunar á því — að ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherra þyrfti að mæta á fund með einhver gögn, en það fæli hins vegar í sér vilja þingsins til að klára málið. Þá er það orðið annars eðlis, mundi ég halda, en að senda hæstv. ráðherra til fundar með ókláruð gögn. Mér finnst það vera allt annað mál. Er hægt að breyta tillögunni þannig að hún nái utan um það? Ég ætla ekki að fullyrða um það. Mér finnst það hljóma allt öðruvísi að miða við upplýsingarnar sem við fengum í hv. utanríkismálanefnd. Það er fyrsta hugleiðing mín.



[16:48]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hagsmunaaðilarnir, nefnilega fatlað fólk, yrðu mjög glaðir ef við mundum sýna það í verki, að því gefnu að það sé mögulegt, að við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma að hinum valkvæða viðauka ef það tefur ekki málið í heild sinni. Ég held að það sé fullt tilefni til að skoða þann möguleika til hlítar í dag. Ég veit ekki hvort það þarf endilega að greiða atkvæði í dag til að ekki verði töf á föstudaginn, ég þekki það ekki, en hv. þingmaður kinkar kolli. Þingfundur má standa til miðnættis í dag. Ég velti fyrir mér hvort það sé nægilegur tími. Við höfum heilu klukkutímana. Mér finnst þetta ekki það flókið mál.

Spurningin er í raun og veru: Er hægt að veita þessa heimild núna og fullgilda samt samninginn á föstudaginn en bregðast við valkvæða viðaukanum seinna hvað varðar framkvæmd? Það er spurningin sem mér finnst liggja fyrir á þessum klukkutíma og legg til að við finnum svör við því. Ég ætlast ekki til að hv. þingmaður svari því hér og nú enda erum við í umræðunni og þetta er nokkuð sem við verðum að skoða. Ég skil mætavel ef hv. þingmaður getur ekki svarað því hér og nú.

En spurningin er ekki flókin. Alþingi hlýtur að hafa þurft að eiga við svona áður, þ.e. að veita heimild sem ekki er nýtt endilega einhverjum dögum seinna. Ég held að hér sé tækifæri til að sýna í verki að okkur er alvara með að flýta málinu eins mikið og mögulegt er. Ef það tekst ekki finnst mér samt að við eigum að vera algjörlega skýr í afstöðu okkar og leyfa ekki þessum valkvæða viðauka að tefjast meira en algjörlega er nauðsynlegt.

Eins og fyrr greinir sýnist mér samt, mér til ákveðinnar gleði, að verði ekki efnisleg andstaða hér á bæ við þennan valkvæða viðauka og það er mikilvægt að það komi líka fram.



[16:50]
Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég árétta það sem ég sagði og legg til að meðan umræðan fer fram sé aðeins sest yfir málið og kannað hvort einhver flötur sé á því að gera það. Mér finnst alla vega ekkert koma í veg fyrir slíkt, þetta er bara spurning hvernig hlutirnir eru orðaðir. Ég var einungis að vekja athygli á því að það gæti tafið þetta stóra mál, gæti tafið heildarhugsunina og árangurinn ef við mundum samþykkja breytingartillögu sem gerir okkur ókleift að fullnusta hitt. En sé einhver önnur leið til að sýna vilja okkar allra til að þessi viðbótarbókun sé til staðar þá stendur alla vega ekki á mér að setjast yfir málið og reyna að finna lausn í því.



[16:51]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mál sem er mjög ánægjulegt að við séum að klára í dag eftir stutta og snarpa vinnu hæstv. utanríkismálanefndar. Ég verð hins vegar að segja að það er dapurt að það sé 20. september árið 2016 sem við erum að samþykkja þetta, en betra er seint en aldrei. Við ræðum tillögu til þingsályktunar sem hæstv. utanríkisráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir flutti fyrir nokkrum dögum um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þessi góði og ánægjulegi samningur var undirritaður af hálfu Íslands 30. mars 2007 eftir að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafði samþykkt hann.

Í upphafi þessa þings flutti ég ásamt tólf öðrum þingmönnum sams konar tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég flutti það mál og það fór til velferðarnefndar sem kallaði eftir umsögnum og kallaði til sín gesti, ræddi það mál eftir að húsnæðismálin voru búin og skilaði því með tillögu, niðurstöðu sem er prentuð við nefndarálitið sem heitir Skýrsla velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og getið er um á vef Alþingis.

Við fyrri umræðu þessa máls gat ég, í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra, um þá tillögu sem þarna hafði legið inni sem væri hægt að taka strax og samþykkja. Í umræðu fæddist sú hugmynd að þingsályktunartillagan færi til utanríkismálanefndar í stað allsherjar- og menntamálanefndar, eins og hæstv. ráðherra lagði til. Við frekari skoðun á þingsköpum kom í ljós að staðfesting á alþjóðasamningum, eins og hér er um að ræða, er verkefni utanríkismálanefndar. Ég verð að segja ráðherranum til hróss að hún gerði það að tillögu sinni. Málið gekk til utanríkismálanefndar þar sem það var tekið fyrir á einum fundi. Stuðst var við þau gögn og umsagnir sem velferðarnefnd hafði unnið vegna umræddar þingsályktunartillögu sem ég og tólf aðrir þingmenn fluttu við upphaf þessa þings og er það vel.

Jafnframt kemur fram að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, framsögumaður málsins, og nefndin öll, undir stjórn hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur — ég tek það fram að nefndin öll vann þetta mjög hratt og vel sem gerir að verkum að við erum að ræða þetta við síðari umræðu og væntanlega verður þetta samþykkt síðar í dag. Það er nauðsynlegt vegna þess að á morgun, í síðasta lagi á fimmtudag, hyggst hæstv. utanríkisráðherra skila inn fullgildingarskjölum fyrir Íslands hönd á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum. Þess vegna segi ég: Það er ánægjulegt hvað hæstv. utanríkismálanefnd hefur unnið þetta hratt. Framsögumaður málsins, Össur Skarphéðinsson, flutti nefndarálitið hér í gær og fjölmargir lýsa yfir stuðningi við málið, enda held ég að þingheimur allur muni standa að samþykkt þessarar þingsályktunartillögu, vonum seinna.

Þegar ég flutti þá tillögu sem ég hef gert að umtalsefni stóð þar inni, ef ég man rétt, að 156 ríki væru aðilar að þessum samningi auk Evrópusambandsins sem hefur staðfest hann líka, 157 ríki og Evrópusambandið. Í dag hef ég fengið upplýsingar um að 10 ríki hafi bæst við á þessu ári, ríki sem heita Antigúa og Bermúda staðfestu samninginn 7. janúar 2016, Srí Lanka staðfesti hann 8. febrúar, Brunei 11. apríl, Comoros 16. júní, Finnland 11. maí og Holland 14. júní síðastliðinn. Ríkin eru orðin 166 en aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, eftir því sem ég best veit, eru um 190. Það er þess vegna sem ég kem hér í ræðustól til að ræða þetta við síðari umræðu, þetta mikilvæga og þarfa mál sem við ætlum að samþykkja núna þannig að ráðherra geti afhent fullgildingarskjölin á fullgildingarfundi sem er á morgun eða fimmtudaginn. Það er ánægjulegt og gott.

Umræða hefur spunnist um hinn valkvæða viðauka sem kallaður er. Ég get ekki séð það neins staðar í tillögunni að sérstaklega sé fjallað um hann, hann er hluti af samningnum að mínu mati. Ég segi hiklaust: Af því að við erum svona sein að gera þetta eigum við að skoða það mjög alvarlega að fullgilda valkvæða viðaukann líka. Ég spyr til vara, vegna þess að ég veit að um það hefur verið rætt, hvort við gætum hugsanlega haft þar inni að hinn valkvæði viðauki verði staðfestur svo fljótt sem auðið er. Mér berst til eyrna að ef við samþykktum þetta gæti það frestað því sem á að gerast á morgun eða á fimmtudag. Ég trúi því og treysti að hæstv. utanríkismálanefnd, með hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í broddi fylkingar og framsögumann málsins hv. þm. Össur Skarphéðinsson, leiti leiða til að við klárum þetta algjörlega hér í dag.

Við skuldum þeim sem þetta fjallar um, þ.e. okkar minnstu bræðrum og systrum, að staðfesta samninginn, fullgilda hann og við eigum að stíga skrefið til fulls. Ég fór yfir þetta í upphafi ræðu minnar. Ég nefndi hæstv. utanríkisráðherra Lilju Alfreðsdóttur og þá farsælu niðurstöðu sem varð; mjög fljót og góð utanríkismálanefndar sem gerir það að verkum að við erum að ræða þetta hér og nú.

Virðulegi forseti. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja jafna stöðu allra einstaklinga óháð skerðingum. Samningurinn er leiðarvísir að því hvernig tryggja skuli fötluðu fólki sömu mannréttindi og tækifæri og öðrum. Í samningnum felst viðurkenning alþjóðasamfélagsins á því að fatlað fólk hafi í gegnum tíðina ekki notið sama réttar og tækifæra til samfélagsþátttöku og aðrir. Samningurinn byggist á félagslegri sýn og fötlun samanber 2. mgr. 1. gr. samningsins sem segir að til fatlaðs fólks teljist meðal annars þeir sem eru með langvarandi, líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Þetta eru fögur fyrirheit. Þetta er fallega orðað í samningnum og í greinargerð, en ég er að lesa hér kafla upp úr greinargerð að tillögu sem ég ásamt tólf öðrum þingmönnum fjallaði um. Um þetta er líka fjallað í tillögu hæstv. utanríkisráðherra. Öll erum við sammála um þetta mál.

Vegna mikilvægi málsins ætla ég ekki að orðlengja meira um þennan samning. Ég hygg að við séum öll sammála um samþykkt hans. Við ættum í raun að biðjast afsökunar á að vera ekki búin að gera það fyrr eins og með svo margt annað. Það er yfirsterkara því að fara í frekari umræðu um þetta mál eða lengja umræðuna.

Það sem mér finnst mikilvægast, virðulegi forseti, er að við leitum að lausn til að heimila fullgildingu á samningnum öllum og valkvæða viðaukanum og reynum að sýna það á Alþingi að við getum unnið saman að sátt um mál og fundið lausnir. Ef tímapressan er svona mikil eins og ég gerði að umtalsefni áðan, ef það eru einhver vandkvæði með valkvæða viðaukann vegna þýðingar eða annað, gæti það gerst sem ég get ekki hugsað mér að gerist, þ.e. að fresta þyrfti því að afhenda fullgildingarskjölin. Ég get ég ekki hugsað mér það. Ég trúi ekki öðru en við á Alþingi getum sest niður og fundið lausn á þessu máli hvað þetta varðar. Svo ég segi: Í mínum huga var þetta allt saman undir í þeirri tillögu sem flutt var í haust. Ég get ekki séð neins staðar fjallað um að viðaukinn sé undanskilinn.

Virðulegi forseti. Ég ætla að standa við það sem ég sagði áðan og ljúka máli mínu um þetta mikilvæga og góða mál sem ég vonast til að við samþykkjum sem allra fyrst. Þess vegna ætla ég ekki að lengja umræðuna meira en ég hef gert með rétti mínum til að ræða þetta við síðari umr.



[17:03]
Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að utanríkismálanefnd tókst að afgreiða málið með mjög snörpum vinnubrögðum var tvíþætt: Í fyrsta lagi sú tillaga sem hv. þingmaður var búinn að leggja hér fram ásamt mér og ýmsum öðrum þingmönnum, sem var hin sama og hæstv. utanríkisráðherra lagði síðar fram. Það gerði það að verkum að búið var að vinna alla grunnvinnuna. Niðurstöður rannsóknarvinnu fagnefndarinnar lágu fyrir þegar málið kom til utanríkismálanefndar vegna þess að utanríkisráðherra lagði fram tillögu sem var stafrétt hin sama og tillaga hv. þingmanns, þannig að honum ber að þakka.

Í öðru lagi ber að þakka hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sýndi mikinn skilning og sveigjanleika við það að beita þessum vinnubrögðum og nýta vinnu annarrar nefndar. Þökk sé henni.

Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti líka tímamótaræðu áðan. Hún lýsti því yfir að hún styddi það að valkvæða bókunin yrði tekin upp en taldi á því tæknilega annmarka. Hv. þm. Kristján L. Möller er með meiri reynsluboltum sem sitja á þinginu. Ég spyr hann þess vegna: Telur hann ekki að hægt sé að gera hvort tveggja; að taka tillit til ákveðinna tæknilegra annmarka, vegna þess að fullgildingarfundurinn er ekki á morgun heldur hinn, með því að við klárum fullgildingu samningsins um réttindi fatlaðra en staðfestum jafnframt og samþykkjum breytingartillögu hv. þm. Páls V. Björnssonar með þeirri breytingu, og hins vegar að sú bókun og fullgilding taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017? Þá erum við búin að klára samninginn um réttindi fatlaðra og búin að gefa fyrirmæli um það inn í framtíðina að unnið verði með hraði þannig að t.d. 1. janúar 2017 sé (Forseti hringir.) hægt að ganga frá hinu, eða, eins og kom fram frá öðrum hv. þingmanni áðan, eins fljótt og auðið verði þannig að við klárum þetta í dag.



[17:05]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér spyr hv. þm. Össur Skarphéðinsson, framsögumaður málsins, út í hina tæknilegu annmarka, ef þeir eru einhverjir, vegna valkvæða viðaukans. Hann spyr um hvort ekki sé hægt að samþykkja tillögu frá hv. þm. Páli Vali Björnssyni, e.t.v. með viðauka sem gæti verið, eins og hv. þingmaður nefnir, áramótin 1. janúar 2017, eða svo fljótt sem auðið er. Ég segi fyrir mitt leyti að ef engir tæknilegir annmarkar eru á því að hafa dagsetninguna með mundi ég frekar vilja hafa það þannig, að Alþingi talaði skýrt til framkvæmdarvaldsins. Við höfum samþykkt að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með hinum valkvæða viðauka. En vegna þess hvernig stendur á, í raun vegna þess hversu seint málið kom inn — en það hefur þó verið unnið faglega, vel og hratt af utanríkismálanefnd, m.a. með því að nýta gögn úr annarri nefnd, sem er til fyrirmyndar á Alþingi — þá setjum við þetta inn. Ef einhverjir tæknilegir örðugleika eru hjá framkvæmdarvaldinu að gera þetta allt saman á næstu einum til tveimur dögum vil ég að það komi skýrt fram hjá Alþingi að við ætlumst til að framkvæmdarvaldið staðfesti valkvæða viðaukann 1. janúar 2017 eða „eins fljótt og auðið verður“. Það er lausnamiðuð leið, það er málamiðlun sem er kannski nauðsynleg vegna tæknilegra annmarka, eins og hv. þingmaður talaði um. Þess vegna segi ég: Jú, við skulum reyna að gera þetta.

Fyrir alla muni, virðulegi forseti, vil ég segja að við látum þennan dag ekki renna án þess að klára þetta mál. Við skuldum fólki það og í raun og veru ættum um leið að biðjast afsökunar á að vera ekki búin að því fyrir lifandi löngu.



[17:07]
Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir kom hér snöfurmannlega í ræðustól fyrr í dag og lýsti því yfir að af hennar hálfu væri engin fyrirstaða fyrir því að valkvæða bókunin yrði samþykk. Það væru einungis tæknilegir örðugleikar sem gerðu það að verkum að ekki væri hægt að gera það í dag. En hún lýsti fullum og ótvíræðum stuðningi við það.

Annar þingmaður, hv. þm. Willum Þór Þórsson, talaði hér með þeim hætti áðan að ég gat ekki skilið betur að en hann, þingmaður Framsóknarflokksins, væri nákvæmlega þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, að hann vildi styðja valkvæðu bókunina til framkvæmdar og framgangs.

Þá finnst mér að við séum komin í stöðu sem hægt er að leysa. Það liggur fyrir að allir sem tekið hafa til máls eru ekki bara stuðningsfólk samningsins um réttindi fatlaðra heldur eru þeir líka þess fýsandi að valkvæða bókunin verði einnig fullgilt. Það eru ákveðin tæknileg úrlausnarefni, segir formaður utanríkismálanefndar. Gott og vel. Þá leysum við það með þeirri aðferð sem við erum að ræða. Við fullgildum samninginn um réttindi fatlaðra. Við samþykkjum breytingartillögu hv. þm. Páls Vals Björnssonar um að við gerum það líka gagnvart valkvæðu bókuninni en skjótum hins vegar fullgildingunni inn í framtíðina, t.d. 1. janúar 2017, eða „eins fljótt og auðið verður“. Þá fær embættismannakerfið allan þann tíma sem það þarf til að undirbúa fullgildingu bókunarinnar, en þingið hefur fyrir sitt leyti afgreitt málið og er búið að gefa skýr fyrirmæli um vilja sinn. Málið er leyst.



[17:09]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einn af örfáum kostum við að þetta eru síðustu dagar þessa þings er að menn ætla að samþykkja margar tillögur. Það leiðir oft til þess að minni hluti og meiri hluti setjast niður yfir mál og tala sig til niðurstöðu, finna lausnir. Ég nota ekki orðin stjórn eða stjórnarandstæðingar í þessu tilviki. Í þessu máli erum við öll meiri hluti. Þess vegna fagna ég því sem hér hefur komið fram varðandi hinn valkvæða viðauka og segi, vegna þess að hv. þingmaður nefndi dagsetninguna 1. janúar 2017: Það má bæta það með því að segja að hann taki gildi eigi síðar en 1. janúar 2017. Það er kannski enn þá betra. Því fyrr því betra ef embættismannakerfið treystir sér til að klára hinn valkvæða viðauka fyrr.

Ég treysti hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, framsögumanni málsins, svo og öðrum nefndarmönnum í utanríkismálanefnd til að vinna að lausn á málinu meðan umræðan stendur yfir. Ég get boðið upp á það, virðulegi forseti, að halda hér fleiri ræður á meðan menn sitja í hliðarherbergjum Alþingis til að finna lausn á þessu máli. En aðalatriðið er við klárum tillöguna með fullgildingu samningsins. Ég vonast til að við öll, meiri hluti og minni hluti, finnum sameiginlega lausn á hinu. Aðalatriðið er að hæstv. utanríkisráðherra geti afhent fullgildingarskjölin á fullgildingarfundi, sama hvort hann er á morgun miðvikudag eða fimmtudag. Hæstv. ráðherra er á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og mér finnst fara vel á því að hæstv. utanríkisráðherra klári þetta allt saman. Það er aðalatriðið.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði: Leitum ráða til að finna lausn (Forseti hringir.) og klárum þetta núna þrátt fyrir að það sé vonum seinna. (Forseti hringir.) Við hefðum átt að vera búin að því fyrir lifandi löngu. Við verðum sennilega ríki nr. 167 sem fullgildir samninginn.



[17:12]
Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Nú þegar dregur að lokum þessarar umræðu vil ég sem framsögumaður að áliti utanríkismálanefndar þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég hafði vænst þess að hæstv. félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttir, sem hefur setið mestan part undir umræðunni mundi líka taka til máls. Kannski er hún á mælendaskrá. Ég er þeirrar skoðunar að við séum að stíga mikið gæfuspor. Ég tel glæsilegt að sjá hversu mikil samstaða virðist ríkja meðal þingheims um að ljúka fullgildingu þessa samnings. Má eiginlega segja að það sé með ólíkindum að tekist hafi að ganga frá málinu á þeim skamma tíma sem var til stefnu. Hæstv. utanríkisráðherra lagði málið fram í síðustu viku. Það var rætt um miðja viku. Á föstudaginn lauk utanríkismálanefnd afgreiðslu málsins.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir þann skilning og lipurð sem hún sýndi áhugamönnum um framgang málsins innan utanríkismálanefndar. Það hefði ekki verið hægt að koma málinu svona hratt til þingsins rétt áður en því á að ljúka nema vegna þessa skilnings. Mikilvægt er að það komi fram.

Sömuleiðis þarf líka að liggja fyrir að það var ekki síst vegna þess að hv. þm. Kristján L. Möller hafði frumkvæði að því að leggja fram ásamt tólf öðrum þingmönnum þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins um réttindi fatlaðra. Ég var í hópi þeirra og var mér kærkomið að ljá nafn mitt til stuðnings því máli. Þess vegna er ég hér sem framsögumaður nefndarálitsins. Auðvitað var það skrýtið að hæstv. utanríkisráðherra lagði síðar fram tillögu sem var nákvæmlega stafrétt sama tillagan og við hin lögðum fram áður. Eini munurinn var sá að við höfðum ekki aðgang að þýðingu á samningnum, sem er flókinn og mikill, yfir á íslensku, en það hafði utanríkisráðuneytið vitaskuld. Að því leyti til gekk sú tillaga tæknilega framar. Söm var gjörðin. Ég ætla ekki að fara í neitt skæklatog um það hver á frumkvæðisrétt að málinu. Það sem skiptir mestu máli er að menn eins og hv. þm. Kristján L. Möller og Ásmundur Friðriksson, hvor á sínum væng stjórnmálanna, eru sameinaðir um að styðja þennan samning. Ég tel líka að við séum búin að ræða okkur niður á eins konar samstöðu um að hægt er að ganga líka frá breytingartillögu sem hv. þm. Páll Valur Björnsson lagði fram um valkvæða bókun. Mjög margir eru þeirrar skoðunar að það færi vel á því og væri langbest ef hægt væri að klára líka samþykkt valkvæðu bókunarinnar. Við þingmenn vitum að það eru fjölmargir innan Öryrkjabandalagsins, í forustu þess og meðal ýmissa samtaka fatlaðra, sem eru þess fýsandi. Þess vegna held ég að sú samstaða sem hefur komið fram eigi að nýta til að við klárum það mál líka.

Ég fagna sérstaklega skörungsskap hv. þm. og formanns utanríkismálanefndar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem vatt sér í stólinn áðan og sagði það algjörlega skýrt að hún sæi engin efnisleg andmæli gegn því að samþykkja valkvæði bókunar líka. Hún tiltók hins vegar tiltekna tæknilega örðugleika sem hún hafði fengið upplýsingar um frá embættismönnum í innanríkisráðuneytinu og öðrum ráðuneytum. Ég tek það gilt. Þá segi ég á móti: Við skulum þá koma til móts við bæði sjónarmiðin. Það er hægt, auk þess að samþykkja fullgildingu samningsins sjálfs um réttindi fatlaðra, að samþykkja líka breytingartillögu að jafnhliða verði ríkisstjórninni falið að fullgilda valkvæðu bókunina en skjóta þar dagsetningu inn í framtíðina og orða hana með svofelldum hætti, frú forseti: „eigi síðar en 1. janúar 2017.“ Það þýðir að embættismannakerfið og ráðuneytin hafa tíma frá deginum í dag til að undirbúa innleiðinguna og gera það við fyrsta tækifæri en hafa samt sem áður yfir sér þá svipu að þau verði að gera það eigi síðar en 1. janúar 2017. Þá mundu allir ganga sáttir frá þessu máli og allir hefðu af því mikinn sóma.

Sá samningur sem hér er til umræðu, svo ég víki að honum og læt lokið þeim kafla ræðu minnar sem fjallar um valkvæðu bókunina, felur í sjálfu sér ekki í sér nýmæli hvað réttindi varðar fyrir þá sem búa við fötlun eða einhvers konar þroskahömlun. Flest réttindin sem er að finna í hinum fjölmörgu greinum samningsins er líka að finna í ýmsum öðrum sáttmálum þar sem þau eru sömuleiðis tryggð. Þessum sáttmála er ekki áskilið að skapa ný réttindi. Það sem skilur á milli þessa samnings um réttindi fatlaðra frá Sameinuðu þjóðunum og ýmissa annarra eldri mannréttindasamninga er, eins og ég hef rakið fyrr í dag, að í þeim nýja samningi sem fjöllum um eru réttindin útfærð miklu betur og nánar og þau eru aðlöguð að veruleika fatlaðs fólks í því skyni að veita mönnum virka og raunhæfa réttarvernd.

Ég hef í máli mínu fyrr í dag tekið tvö dæmi um hvað það er sem þessi samningur skýrir betur varðandi t.d. tjáningarfrelsi. Í samningnum er tekið algjörlega skýrt fram að sú vernd tjáningarfrelsis fatlaðs fólks, sem í samningnum felst, þýðir að ríkjum sem samþykkja og fullgilda þennan samning ber skylda til að viðurkenna og stuðla að því að táknmál verði notað og sömuleiðis blindraletur. Sömuleiðis felst í samningnum sú skýring að réttur til menntunar skuli vera án aðgreiningar. Það er eitt af því sem hefur verið gamalt og nýtt baráttumál þeirra sem hafa verið að reyna að tosa fram réttindi fatlaðra Íslendinga.

Sömuleiðis skiptir miklu máli og er kannski aðalatriðið í samningnum sem miðar að því að hafa hliðsjón af því sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði í dag svo fagurlega: Við erum öll alls konar fólk. Ég sagði á móti að finna þurfi pláss fyrir alla. Við erum öll sérstök. Okkar starf sem vinnum að því að bæta réttindi fatlaðra, á mínum vinnustað, vitaskuld býr í brjósti okkar vilji til að veita öllum frelsi til að haga sínu lífi eins og menn vilja án þess að þeir séu hamlaðir vegna þess að þeir bera fötlun. Það þýðir til dæmis að menn eiga að fá að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í sínu samfélagi. Það þýðir að menn eiga að hafa búsetufrelsi, réttinn og aðstoð samfélagsins til að búa með þeim hætti sem þeir vilja og með þeim hætti sem þeir telja sér best henta.

Menn hafa rætt hérna um hina valfrjálsu bókun við samninginn. Það má velta fyrir sér hver þau réttindi eru sem þar koma til viðbótar. Þau eru mikilvæg í augum sumra og kannski mikilvægust í augum einstakra hópa eða einstaklinga. Valfrjálsa bókunin við þennan samning heimilar einstaklingum eða hópi einstaklinga sem telja sig vera þolendur brots á ákvæðum samningsins að taka sitt mál til alþjóðlegrar eftirlitsnefndar, sem á að setja upp um framkvæmd samningsins án tillits til þess hvaða flokki réttindabrotið tilheyrir. Það er ekki annað og meira en það. Íslendingar hafa enga ástæðu til að óttast þetta. Í þessu felst aukin réttindabót og margir telja þetta mikilvægt. Þetta gerir t.d. hinni sjálfstæðu eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna kleift að rannsaka til að mynda kvartanir um það að kerfisbundin brot á réttindum fatlaðra kunni að vera framin á Íslandi. Stjórnvaldið segir í dag að um ekkert slíkt sé að ræða. Hver er þá áhætta þess að heimila og styðja samþykkt valfrjálsu bókunarinnar? Vitaskuld engin.

Frú forseti. Það er auðvitað margt sem á eftir að gera. Þegar sú ríkisstjórn sem ég sat í setti af stað vinnu til að undirbúa samþykkt þessa samnings var það partur af sérstakri framkvæmdaáætlun sem var samþykkt árið 2012 í málefnum fatlaðra. Þá var skrifræðisberserkjum kerfisins falið m.a. það verkefni að undirbúa fullgildingu þessa samnings eigi síðar en 2014. Það hefur dregist úr hömlu, hugsanlega vegna þess að menn lögðu sig í líma við að saumfæra íslenskan rétt. Farið var yfir öll lög í íslenskum rétti til að komast að því með hvaða hætti þyrfti að bæta íslensk lög þannig að þau samrýmdust og stæðust gagnvart ákvæðum samningsins um réttindi fatlaðra. Í mörgum efnum er búið að gera bragarbót þar á, búið er að breyta nokkrum lögum, t.d. kosningalögum. Gerðar voru breytingar til að mæta ákvæðum 29. gr. samningsins, á kosningalögum árið 2012. Það voru sömuleiðis gerðar breytingar á íslenskri löggjöf árinu á undan, árið 2011, þegar Alþingi samþykkti lög um réttindagæslu fatlaðs fólks. Það eru margar breytingar sem nú þegar hafa leitt af viðleitni okkar og ákvörðun um að vinna að því að fullgilda samninginn. En betur má ef duga skal. Komið hefur fram í þessari umræðu að það eru fjölmörg lög sem enn þarf að lagfæra.

Eins og hv. þm. Kristján L. Möller sagði og ég veit að hv. þm. Brynjar Níelsson, fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins, er okkur báðum sammála um að það er ekki vansalaust að enn skuli ekki hafa komið fram frumvarp til laga um bann við mismunun. Slík lög hafa gilt í 16 ár innan Evrópusambandsins, þess sambands sem sumir vilja alls ekki ganga í. Að minnsta kosti þeir sem vilja lifa í umhverfi þar sem hvers konar mismunun er bönnuð, þeim mundi líða vel innan þess góða sambands. Ég ætla ekki að blanda þeirri umræðu í þetta. Við þurfum sem sagt að sjá hér frumvarp um bann við mismunun.

Sömuleiðis liggur það líka fyrir að til að svara mörgum greinum samningsins um réttindi fatlaðra þarf að koma fram frumvarp um þjónustu við fatlað fólk og sömuleiðis frumvarp sem breytir lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þegar þessi frumvörp hafa komið fram er auðvitað langt komið.

Ég get ekki lokið þessari ræðu, frú forseti, án þess að minnast á tilraunaverkefni um NPA, þ.e. bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var við lögin 1992, átti að vera lokið fyrir árslok 2014. Á þeim tíma síðan 2014 og til dags dato átti ráðherra að leggja fram frumvarp til laga þar sem yrði lagt til að notendastýrð persónuleg aðstoð yrði lögfest sem eitt meginform þjónustu við fatlað fólk. Það gerðist í árslok 2014 og síðan aftur 2015 að því verkefni var frestað með tilheyrandi óvissu og erfiðu ástandi fyrir alla þá sem undir það falla. Ef hæstv. ráðherra, Eygló Harðardóttir, er hér einhvers staðar nærstödd eins og hún á auðvitað að vera, þá spyr ég hana: Hvenær ætlar ráðherra sér að leggja fram það frumvarp? Nú eru að koma þinglok og það bólar ekkert á því.

Í mínu sveitarfélagi, Reykjavík, eru 13 einstaklingar sem eru með samning um notendastýrða persónulega þjónustu. Það er fólk sem er með samning út árið 2016. Sama gildir um fólk í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og Vestmannaeyjum. Það er algjör óvissa uppi um framhald þessa verkefnis. Það er mjög brýnt að fá svör frá hæstv. ráðherra og ég vil fá þau svör í þessari umræðu um hvernig hæstv. ráðherra ætlar að svara stöðu þessa hóps. Þetta er fólk sem er með starfsfólk með uppsagnarfrest og þyrfti helst að vita eigi síðar en um næstu mánaðamót ef á að segja upp þeim starfsmönnum með þriggja mánaða fyrirvara. Ráðherra þarf að skýra þetta mál um leið og hún kemur hingað, væntanlega til að berja sér á brjóst fyrir að sitja í ríkisstjórn sem er að leggja fram tillögu um fullgildingu á samningi um réttindi fatlaðra. Hvað með réttindi þeirra sem njóta NPA?

Frú forseti. Margt annað gæti ég sagt. En að lokum vil ég segja að þetta er hátíðisdagur, gleðidagur, og gleðiefni að hann skuli bera upp á sama dag (Forseti hringir.) og félagið Átak, félag fólks með þroskahamlanir, var stofnað árið (Forseti hringir.) 1993. Það er sannarlega við hæfi að Átak og fullgilding þessa samnings muni í framtíðinni bera sama afmælisdag.



[17:27]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég mun ekki hafa hér langt mál enda er áhugi hjá okkur öllum á að ljúka umfjöllun um þessa tillögu þannig að senda megi fullgildingarskjölin vestur um haf í tæka tíð þannig að Ísland, þótt seint sé, verði í hópnum sem þá bætist við sem fullgildur aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að standa í þeim sporum í vissu um að skjölin eru á leið vestur um haf og að við loksins hysjum upp um okkur buxurnar í þessum málum, en það er um leið dapurlegt að vera í þessum sporum að áliðnum septembermánuði 2016, að enn hafi Ísland ekki fullgilt samninginn í ljósi þess að Alþingi tók þá ákvörðun í júnímánuði 2012 að það skyldi gera og batt við það vonir að u.þ.b. eitt eða eitt og hálft ár mundi duga. Þá var í áætlunum um framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra lagt upp með að á árinu 2013 yrði unnt að ljúka þessu verki. Það hefur reynst tafsamara en þetta. Mér finnst ágætt að menn horfist stundum í augu við sjálfa sig. Þess vegna fagna ég því að utanríkismálanefnd tekur í nefndaráliti sínu undir þá einkunn velferðarnefndar að í þessum efnum hafi stjórnvöld ekki staðið sig sem skyldi. Við erum einfaldlega ekki að kveinka okkur undan því og viðurkennum fúslega að hér hafa málin ekki verið unnin með sómasamlegum hætti.

Að þessu sögðu er það að sjálfsögðu betra seint en aldrei og má segja að það sé komið alveg fram á síðustu stundu og auðvitað langt fram yfir hana. Þetta er ekki boðlegt fyrir þróað ríki eins og Ísland sem ekki á að vera í þeim óskaplegu vandræðum hvað varðar t.d. lagalega úrvinnslu mála af þessu tagi, að breyta þeim lagaákvæðum sem til þarf, og ekki skortir okkur heldur efnin til þess sem ein af ríkari þjóðum heimsins að leggja það í þennan málaflokk sem til þarf.

Eins og áður segir var stefnan auðvitað mótuð í sjálfu sér strax með undirskrift samningsins á sínum tíma. Við skulum ætla að menn geri slíkt ekki nema með það að markmiði að fullgilda síðan gjörninginn og það er strax, eins og kunnugt er, 30. mars 2007 þannig að auðvitað er alveg dæmalaust að komin séu hátt í tíu ár. Það er þó að sjálfsögðu mál til komið að ljúka þessu.

Ég vil í þriðja lagi segja varðandi valfrjálsa viðaukann að í nefndaráliti utanríkismálanefndar kemur fram að þar hafi ráðuneytið fullvissað nefndina um eða það hafi komið fram fyrir nefndinni að ekki stæði til að fullgildingin næði nema til samningsins sjálfs. Þetta er svolítið annað en í raun og veru var rætt í velferðarnefnd þar sem við tókum þetta mál fyrir. Þá mátti alveg eins skilja á fulltrúum ráðuneyta sem komu fyrir nefndina að í raun og veru væri mögulegt að fullgilda hvort tveggja. Nú er upplýst að það sé ekki hægt, þ.e. náist ekki á morgun eða fyrir tilskilinn tíma, vegna þess að fullgildingarskjölin hafi verið útbúin miðað við samninginn einan, ekki valkvæðu bókunina, en það kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að Alþingi taki prinsippafstöðu til þess máls. Ég tel einboðið að gera það. Mér er kunnugt um að í vinnslu er breytingartillaga sem mundi af hálfu Alþingis klára málið, að Alþingi gæfi framkvæmdarvaldinu ekki bara heimild til að skila inn fullgildingarskjölunum heldur gjarnan skipaði framkvæmdavaldinu fyrir verkum um að það skyldi gert fyrir einhver tiltekin tímamörk. Þá þarf ekki að fara með málið hingað fyrir Alþingi aftur, þegar sú prinsippákvörðun hefur verið tekin. Það er afar einfalt að bæta því við með viðeigandi texta og verður vonandi gert áður en við göngum til atkvæða um málið.

Í fjórða lagi vil ég nefna að ég hef algjörlega sannfærst um það eftir skoðun á þessu máli í vetur í velferðarnefnd að við eigum að lögfesta samninginn, síðan eigum við eins fljótt og mögulega er gerlegt að gefa öllum samningnum lagastoð, taka hann upp í lagasafnið sem lög. Á því er munur og að fullgilda á grundvelli þingsályktunartillögu og gera svo tilteknar ráðstafanir í sérlögum hér og þar. Það er hafið yfir allan vafa í mínum huga að staða samningsins verður sterkust með því að hann sé lagatexti. Þetta hafa nægjanlega margir málsmetandi lögfræðingar sem ég tek mark á sannfært mig um enda ekki langt að sækja fordæmin því að einhverjir tveir mikilvægustu samningar sem eru á þessu sviði eða segja má að séu skyldir, mannréttindasáttmáli Evrópu og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, eru báðir lög á Íslandi. Þeir voru sem sagt ekki bara fullgiltir af Íslands hálfu heldur var þeim líka gefin sú stoð að þeir væru lög í landinu. Hver ein og einasta grein þeirra er lög og menn geta leitað réttar síns á grundvelli þeirra.

Þetta er mín afstaða, að þessu verki verði ekki lokið fyrr en við höfum ekki einasta fullgilt bæði samninginn og valfrjálsu bókunina heldur líka lögtekið a.m.k. samninginn sjálfan. Ég veit svo sem ekki hvort menn hafa gengið svo langt að lögtaka viðauka eða bókanir, ég efast um það, ég hygg að það sé t.d. bara mannréttindasáttmálinn sjálfur sem er lög á Íslandi. Að mínu mati er fullgildingin jafn sjálfsögð og lögfestingin sem vonandi kemur í framhaldinu og þótt hún komi til er ekki þar með sagt að allt sé tryggt í þeim efnum, að fatlað fólk muni sjálfkrafa njóta allra þeirra réttinda sem samningnum er ætlað að færa því. Það er bara ekki þannig. Ég held að við eigum að vera okkur mjög meðvituð um það, um leið og við fögnum þessu sem löngu tímabærum áfanga, að þar með er ekki allt í höfn. Það þarf vilja til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að markmið samningsins og tilgangur náist og til þess að fatlað fólk njóti réttinda hans að öllu leyti eins og hægt er. Það þarf mikinn metnað til þess, fjármuni, að sumu leyti kannski hugarfarsbreytingu, meðvitund um málaflokkinn og mikinn skilning á því. Að einhverju leyti snýst þetta kannski um uppfræðslu og hugarfarsbreytingu í landinu líka, auðvitað alveg sérstaklega í stjórnsýslunni og annars staðar sem þessi réttindi koma við sögu, í framkvæmd, fjárlögum o.s.frv.

Auðvitað er engu að síður áfangi að fullgilda og síðan lögtaka samninginn. Hann skapar þar með grundvöll og tryggingu fyrir því að menn geti sótt réttindin ef stendur upp á stjórnvöld að standa sig í stykkinu. Þess vegna held ég að lögfestingin sé ákaflega mikilvæg því að það er enginn vafi á því að það er sterkara að fara með ágreiningsmál sem kynnu að rísa um það hvort stjórnvöld hafa gert það sem til þarf og nauðsynlegt er og hægt er að ætlast til af þeim. Þá er betra að það sé sótt á grundvelli laga en ekki bara fullgildingar.

Draumsýn mín er að t.d. á næsta ári verði valfrjálsa bókunin fullgilt af Íslands hálfu og að innan skamms tíma í framhaldi af því verði samningurinn lögfestur. Ég er svo bjartsýnn að trúa á að ég muni upplifa þá stund á Alþingi.



[17:37]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að heyra aðeins meira um þá hugmynd sem hann flutti hér um að gera samninginn sjálfan að lögum. Barnasáttmálinn og mannréttindasamningur Sameinuðu þjóðanna voru lögfestir fyrir mína tíð þannig að ég veit ekki hvernig slíkt virkar. Er það gert með því að ráðherra er látinn búa til slíkt frumvarp? Eru sett lög sem segja að samningurinn sé í gildi og síðan er farið eftir þeim lagatexta þegar slík mál eru fyrir dómi? Ef hv. þingmaður gæti sagt mér hvernig það mundi virka í praxís þætti mér mjög fróðlegt að heyra það.



[17:38]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég man þessa sögu rétt var barnasáttmálinn lögfestur eftir fullgildingu, einhverjum árum eftir fullgildingu var hann tekinn upp sem lög. En í tilviki mannréttindasáttmálans kann ég nú ekki alveg forsöguna, hvort hann var hreinlega innleiddur strax með þeim hætti og gerður að lögum og varð hluti af lagasafninu. Þá varð hver einasta grein hans sem slík hluti af íslenska lagasafninu. Það var bara gert með venjubundnum hætti eins og þegar lög eru sett, það ég best veit, með því að samningurinn kom í raun inn sem frumvarp og var lögtekinn.

Það er kannski flókið mál fyrir okkur leikmennina sem ekki eru löglærðir að útlista í smáatriðum hver munurinn á þessu er, en hann er til staðar, það hef ég algerlega sannfærst um eftir að hafa spurt lögfræðinga út úr um þetta mál. Lögfræðingar viðurkenna það sem koma að borðinu hinum megin og eru í þeirri stöðu að eiga að veita fötluðum þjónustu eða tryggja þeim réttindin t.d. frá sveitarfélögunum. Þeir eru þeirrar skoðunar að það breyti málinu að samningurinn sem slíkur sé lögfestur. Ég trúi því.

Á mannréttindasáttmálann hefur náttúrlega reynt gríðarlega mikið og Ísland hefur aftur og aftur orðið að breyta fyrirkomulagi hluta hjá sér vegna þess að mannréttindasáttmálinn var innleiddur og gerður hér að lögum og menn gátu sótt rétt sinn á grundvelli hans, samanber aðskilnað sýslumanna og lögreglu og margt fleira í þeim dúr, dóma og rannsókna í sakamálum og þetta sem við þekkjum. Frægt var þegar maður var tekinn á reiðhjóli á Akureyri og það dró þann langa slóða að við urðum að skipta upp löggæslu og dómskerfinu (Forseti hringir.) í framhaldinu vegna þess að við fengum ákúrur frá (Gripið fram í.) Mannréttindanefnd Evrópu.



[17:40]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu en á þessari gleðistundu þegar við erum að ljúka þessari umræðu um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er mér ofarlega í huga þakklæti til þeirra sem hafa komið að þessu máli á undanförnum missirum og árum. Þetta er mikil réttarbót fyrir þá einstaklinga sem eiga þarna í hlut. Markmið samningsins er, eins og fram kemur í 1. gr. hans, að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Þetta eru göfug og falleg orð.

Núna eftir örskotsstund ætlum við að samþykkja þennan samning og auk þess mun liggja fyrir breytingartillaga um valkvæða viðaukann sem er mikilvægt að ríkisstjórnin komi til framkvæmda þegar á næsta ári. Nú liggja fyrir drög að samkomulagi um þá meðferð. Ég er ánægður að þingið sýni þennan vilja í verki að klára þessi mál í dag og vil bara óska okkur til hamingju þegar atkvæðagreiðslunni er lokið. Takk fyrir.



[17:41]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil þakka utanríkismálanefnd fyrir hversu hratt og vel hún hefur unnið þetta mál og vil einnig þakka velferðarnefnd fyrir hennar framlag við vinnslu málsins.

Hér hefur margítrekað komið fram í dag hversu mikilvægt það er að við séum að sameinast í að samþykkja fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég held að við séum öll sammála um að við hefðum gjarnan viljað standa hér fyrr, getað klárað samninginn fyrr. En ég held það hafi líka komið mjög skýrt fram í umræðunni að þetta er ákveðið upphaf, við munum halda áfram við að vinna að fullgildingunni, að innleiða í lög það sem samningurinn felur í sér. Þar eru nokkur mál sem heyra undir mig sem ég tel einmitt mjög brýnt að komi inn í þingið, það eru breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem eru mjög mikilvægar, og líka lög um málefni fatlaðs fólks sem hefur verið unnið að í töluverðan tíma. Það er líka einkar jákvætt að hafa fundið hér hvernig þingið hefur leitað leiða til að gera þessa tillögu enn betri með því að huga að viðauka sem var við samninginn og koma því skýrt á framfæri að það er vilji þingsins að sjá þann viðauka innleiddan hér á Íslandi líka.

Í umræðunni var nokkrum spurningum beint til mín. Ég vildi fá að leggja sérstaka áherslu á það hér að ég tel mjög mikilvægt að innleitt verði í lög bann við mismunun á vinnumarkaðnum og líka ákveðin mismununarákvæði sem snúa að öðrum mismununarþáttum. Það er oft þannig að maður vill gjarnan gera miklu meira en maður getur kannski gert á hverjum tíma. Áherslur mínar, þegar hefur komið að málefnum fatlaðs fólks, hafa verið að fylgja eftir vilja þingsins, að tryggja að við höfum fjármagn í þau verkefni sem þingið hefur falið okkur í gegnum framkvæmdaáætlun sem var samþykkt í tengslum við það að við fórum að vinna að þessari fullgildingu. Sett var mjög metnaðarfull framkvæmdaáætlun en meðal annars vegna erfiðra aðstæðna í ríkisfjármálunum var fjármagn ekki tryggt.

Ég hef jafnframt lagt mjög mikla áherslu á það að ljúka yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaganna og vinna með sveitarfélögunum að því að þróa og efla þá þjónustu sem fatlað fólk á rétt á til að geta lifað sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar. Einnig kom fram í umræðunni, sem sneri að framfærslu fatlaðs fólks, að ég hef lagt mjög mikla áherslu á að horfa á þá þætti sem hefur sýnt sig aftur og aftur í rannsóknum að skipta hvað mestu máli þegar kemur að fátækt fólks, þ.e. skortur á húsnæði, húsnæðiskostnaður og heilbrigðiskostnaður.

Við höfum náð miklum árangri með góðri samstöðu hér í þinginu, með nýju félagslegu húsnæðiskerfi, greiðsluþátttökukerfi og með því að tryggja aukna fjármuni inn í heilbrigðiskerfið. Ég skal hins vegar viðurkenna að það urðu mér vonbrigði að ekki skyldi nást samstaða, í nefnd um breytingar á almannatryggingunum, um breytingar á bótakerfi öryrkja og þar af leiðandi einnig fatlaðs fólks. Það hefur tafið alla vinnu og ég hef ekki getað komið inn með sambærilegar breytingar og lagt er til varðandi lífeyri aldraðra.

Ég hef oft hugsað til fyrstu ræðu forseta Íslands hér í þinginu, þegar hann talaði um mikilvægi málamiðlana, um að þær skipta líka máli; að við tökum höndum saman, stígum skref fram á við og stefnum í rétta átt. Falleg orð skipta máli, en við verðum líka að tryggja að við framfylgjum þeim, að við tryggjum fjármagn og vinnum áfram að hlutunum eitt skref í einu. (Gripið fram í.) Hér erum við að stíga gott skref, mikilvægt skref, en við munum halda áfram að stíga fleiri skref og vinna að réttindum fatlaðs fólks því að það er gífurlega mikilvægt.

Enn á ný ítreka ég þakkir mínar til þingsins og það er að lokum ánægjulegt að fá að vera hér sem starfandi utanríkisráðherra. Ég þakka þá um leið hæstv. ráðherra Lilju Dögg Alfreðsdóttur fyrir að hafa lagt þetta mál fram í þinginu.



[17:48]
Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það fer hæstv. ráðherra vel að vera í gervi utanríkisráðherra eins og reyndar mörgum öðrum. Ég varpaði til hæstv. ráðherra spurningu í dag sem varðaði notendastýrða persónulega aðstoð. Ég spurði hana út í stöðu þess verkefnis og benti henni á að á sama tíma og við erum að samþykkja að fela ríkisstjórninni að fullgilda samninginn um réttindi fatlaðra er hópur fólks hér í Reykjavík og í mörgum byggðarlögum með allt sitt líf í uppnámi. Þetta er fólk sem býr við fatlanir og hefur haft samning um NPA. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum átti hæstv. ráðherra að leggja fram, fyrir lok síðasta árs og fyrir lok þessa árs líka, frumvarp um hvernig eigi að haga því í framtíðinni. Þetta er fólk sem hefur samninga sem renna út núna um áramótin. Hver er staða þess fólks? Það er í fullkomnu uppnámi.

Ég hef beðið eftir því að fá tækifæri til þess að spyrja hæstv. ráðherra út í þetta. Hér gefst tækifærið. Undir umræðunni í dag þá varpa ég þessum spurningum til hennar. Ég tel afar brýnt fyrir þetta fólk að fá að vita hver framtíð þess er. Það lifir við mikla óvissu og það er hagsmunamál fyrir afar marga að fá úr því skorið hvað verður um samningana sem þetta fólk hefur og sömuleiðis um hvaða áform menn hafa um að lögleiða NPA. Það er kannski full seint í rassinn gripið að spyrja um það núna á þessum degi þegar formlega er boðað til kosninga. Mig langar samt sem áður til að spyrja hæstv. ráðherra í fullri vinsemd: Hvernig á að leysa mál þessa fólks?



[17:50]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Ég tek undir það með hv. þingmanni að NPA, eða notendastýrð persónuleg aðstoð, er mjög mikilvæg þjónusta. Það skipti mig mjög miklu máli að við lykjum því tilraunaverkefni sem við hófum og fengjum fram niðurstöður úr því. Verkefnið fór seinna af stað en við ætluðum, það vill oft verða þannig með tilraunaverkefni. Ég á von á því að fá lokaniðurstöður og leiðbeiningar frá verkefnisstjórninni um verkefnið. Ég vildi bæta því við að nefnd á mínum vegum hefur verið með til umsagnar frumvarp um breytingar á þeirri þjónustu sem snýr að fötluðu fólki. Þar er gert ráð fyrir að þetta þjónustuúrræði verði lögfest.

Nefndin er ekki enn búin að skila þessum drögum til mín heldur vildi setja málið í umsagnarferli og bregðast við umsögnum. Það hefur verið gagnrýnt að gert er ráð fyrir að að einhverju leyti sé verið að framlengja tilraunaverkefnið meðan komist er að samkomulagi varðandi tekjuskiptingu við sveitarfélögin. Ég vil bara fá að segja það hér að ég tel að við eigum að lögfesta þetta. Við getum ekki haft þetta áfram sem tilraunaverkefni heldur á þetta að vera úrræði sem við bjóðum upp á. Við þurfum að finna þá leið með sveitarfélögunum hvernig við leysum þann kostnað sem fellur á sveitarfélögin í tengslum við það. Það er verkefnið sem er fram undan.



[17:52]
Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki dreg ég í efa góðan vilja ráðherrans, en góður vilji er léttur í vasa alveg eins og orð. Þarna er kannski ekki um stóran hóp einstaklinga að ræða, en allmarga sem eiga allt sitt undir þessu. Hæstv. ráðherra var falið, með lögum ef ég man rétt, með sérstöku bráðabirgðaákvæði í lögum, að leggja fram frumvarp um þetta. Það tókst ekki fyrir 2014, eins og mig minnir að standi í lögunum. Hún átti að gera það fyrir 2015, það tókst ekki heldur. Nú erum við að koma í kosningar og ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra ætli að ganga úr stóli félagsmálaráðherra án þess a.m.k. að tryggja það hver verður framtíð þeirra sem búa við þessa samninga.

Hæstv. ráðherra hefur skilmerkilega og ærlega sagt frá stöðu málsins og sagt þinginu frá því, að því er mér skildist, að ágreiningur innan nefndarinnar sem vélaði um þetta frumvarp valdi því að ekki er hægt að koma því fram, ágreiningur sömuleiðis um fjárskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Ég spyr hana núna þegar mánuður er til kosninga og það blasir við að það gæti tekið langan tíma að mynda ríkisstjórn: Hvernig ætlar hún að skiljast við þessa einstaklinga? Það væri góður bragur á því, í lok þessarar umræðu, að hún legði fram nokkuð skýra sýn um það hvernig hún ætlar að sjá til þess að framtíð þeirra verði ekki í fullkominni óvissu.



[17:53]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi tekið eftir því að ég er vön að berjast fyrir mínum málaflokkum. Það er hins vegar þannig að til þess að reyna að ná niðurstöðu skiptir máli að hlusta á ólík sjónarmið og ná málamiðlun eins og ég fór yfir í ræðu minni. Ég hef heyrt það mjög skýrt frá fötluðu fólki að mikilvægt sé að þetta úrræði verði lögfest. Menn lögðu líka áherslu á að það yrði að fá niðurstöðu í tilraunaverkefnið. Við tryggðum fjármagn til tilraunaverkefnisins og því er að ljúka.

Ég legg líka mjög mikla áherslu á, og það þarf að endurspeglast í þeim frumvörpum sem munu koma hér inn í þingið, sveigjanleika í þjónustu við fatlað fólk. Það er það sem ég heyri að verið er að kalla eftir. Það er ekki þannig að menn sjái fyrst og fremst fyrir sér kostina við það að vera atvinnurekendur eða að borga starfsfólki laun, heldur að fólk geti valið þá þjónustu á þeim tíma þegar því hentar til að lifa sjálfstæðu og frjálsu lífi. Það er það sem þarf að endurspeglast í þeim frumvörpum sem koma hér til þingsins. Það er það sem nefndin hefur verið að vinna að. Ég vona svo sannarlega að tekið verði tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið fram þannig að við getum haldið áfram að bæta líf fatlaðs fólks hér á Íslandi.



[17:55]Útbýting:

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:57]

Of skammt var liðið frá útbýtingu brtt. 1688. — Afbrigði samþ. með 41 shlj. atkv.

[17:58]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að draga til baka breytingartillögu mína við tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á þskj. 1676, en jafnframt að mæla fyrir annarri breytingartillögu á þskj. 1688. Hún heitir: Breytingartillaga við tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Flutningsmenn ásamt mér, Páli Val Björnssyni, eru hv. þingmenn Hanna Birna Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Breytingartillagan hljóðar þannig:

„Við tillögugreinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá ályktar Alþingi að valkvæður viðauki við samninginn skuli einnig fullgiltur fyrir árslok 2017.“

Lagt er til að auk samningsins verði viðauki hans einnig fullgiltur. Viðaukinn felur í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk, annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis.

Á dauða mínum átti ég von frekar en að sú tillaga sem ég lagði hér fram hefði þessi áhrif. En það er gott að þetta hristi hressilega upp í umræðunni um réttindi fatlaðs fólks. Það sýndi kannski að við stöndum okkur ekki nógu vel og höfum ekki staðið okkur nógu vel í því að verja réttindi fatlaðs fólks. Ég lagði þessa tillögu fram í góðri trú um að hægt væri að samþykkja valkvæðu bókunina með, ég hélt hreinlega að það væri þannig. Ég dreg þá tillögu til baka vegna þess að ég fékk staðfestingu á því frá ráðuneytisfólki, frá hæstv. félagsmálaráðherra, hv. formanni utanríkismálanefndar o.fl., að þessi vinna væri ekki til staðar, að það ætti eftir að vinna alla vinnu hvað varðar þessa valkvæðu bókun. Það er alveg hreint ótrúlegt að í níu ár skuli ekki vera búið að vinna neitt hvað þetta varðar. Það undirstrikar það sem ég sagði áðan að við stöndum okkur ekki nógu vel í þessum málaflokki. Það er bara þannig.

Á Alþingi vinnur gott fólk. Við komumst hér að þeirri niðurstöðu áðan í þverpólitískri sátt að leggja þessa breytingartillögu fram. Það eiga allir hrós skilið fyrir það, enda eigum við ekki að rífast um eignarhald á tillögum hvað varðar réttindi fólks í landinu. Þar eigum við að standa saman öll sem eitt. Fatlað fólk er íbúar þessa lands eins og við og á að njóta nákvæmlega sömu réttinda og við. Þessi valkvæða bókun tryggir réttarstöðu fatlaðra fullkomlega og gerir það þannig að þau eru algjörlega jafnsett öðrum í samfélaginu. Um það eigum við ekkert að rífast. Við eigum að sjá sóma okkar í að klára það.

Við erum að fara að fullgilda samninginn á eftir sem er frábært skref og því fagna allir í samfélaginu. Þetta er áfangasigur. Við unnum annan áfangasigur með því að þetta mál verður staðfest á næsta ári og fullgilt. Síðan hættum við ekki fyrr en búið er að lögfesta það. Við eigum að undirgangast það hér — við verðum kannski fá hér þegar líður á haustið, en þeir sem koma til þings í haust — að stefna að því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá getum við haldið hátíð. Þetta eru góðir sigrar sem við unnum í dag, áfangasigrar, og við skulum öll gleðjast yfir því.



[18:01]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti hvetur þingmenn almennt til bjartsýni.



[18:01]
Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að endurtaka ræðu sem ég flutti fyrr í dag um mikilvægi þessarar staðfestingar og fullgildingar sem ég vona að við klárum hér á eftir. Það er stórt og mikilvægt skref og allir eiga þakkir skilið sem í þessum sal sitja og miklu víðar fyrir þann stóra áfanga.

Aðeins vegna breytingartillögunnar sem hér hefur verið kynnt þá held ég að í því felist líka annar sigur. Það er mjög ánægjulegt að vera á vinnustað sem stundum hugsar einungis í lausnum og það gerðist hér á síðustu klukkustund þegar þingmenn sáu að fær leið var til lausna. Ég vil líka nota tækifærið og þakka embættismönnum sem komu hér í löngum bunum til að hjálpa okkur til að tryggja að þetta gæti orðið að veruleika með þessum hætti. Nú hefur þingið og allir hv. þingmenn, ef þetta verður samþykkt, sagt hátt og skýrt að við teljum mikilvægt að þessi samningur verði fullgiltur en að menn muni líka tryggja að valkvæða bókunin og viðaukinn liggi fyrir eigi síðar en fyrir árslok 2017. Það er alveg skýrt hér og leggur góðar línur fyrir framhaldið.

Ég var stolt af að vera þingmaður þegar við leystum þetta svona. Innilegar þakkir fyrir það. Ég held að menn geti verið bjartsýnir og væri farsælla ef við mundum klappa hvert öðru á bakið í dag í staðinn fyrir að vera í baksýnisspeglinum og meta hver á hvað í þessu máli. Til lukku með það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)