145. löggjafarþing — 155. fundur
 22. september 2016.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, 1. umræða.
stjfrv., 873. mál (breyting á A-deild sjóðsins). — Þskj. 1689.

[14:20]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Frumvarpið er að meginstefnu byggt á samkomulagi milli annars vegar heildarsamtaka opinberra starfsmanna og hins vegar fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Samkomulagið kveður á um nýtt samræmt lífeyriskerfi þar sem allt launafólk nýtur sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Helstu atriði samkomulagsins eru þessi:

Launakjör á opinberum og almennum vinnumarkaði verða samræmd og jöfnuð samkvæmt sérstakri bókun um það efni.

Launafólki verður gert betur kleift að færa sig milli almenns og opinbers vinnumarkaðar hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi teljandi áhrif á ávinnslu lífeyrisréttinda

Sjóðfélögum í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna verða tryggð sambærileg réttindi og þeir hafa nú með 120 milljarða kr. framlagi hins opinbera til að mæta ófjármögnuðum framtíðarskuldbindingum vegna þeirra.

Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verður fullfjármagnað og kerfið sjálfbært.

Tilurð þessa samkomulags má rekja til viðræðna aðila vinnumarkaðarins um nauðsyn þess að koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Ein af forsendum þess að ná fram slíkri samræmingu er að færa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna í svipað horf og nú gildir á hinum almenna vinnumarkaði. Hafa viðræður um breytta skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna farið fram á vettvangi starfshóps um LSR sem skipaður var í mars 2011 og í eiga sæti fulltrúar annars vegar heildarsamtaka opinberra starfsmanna og hins vegar fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðherra.

Í frumvarpinu er lagt til að lagaákvæði um A-deild verði að meginstefnu til felld brott í lok árs 2016 og að deildin verði frá og með 1. janúar 2017 starfrækt á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og samþykkta sem um hana gilda. Þar með er horfið frá því að kveða á um föst réttindi sjóðfélaga á grundvelli breytilegs iðgjalds í lögum líkt og nú er gert.

Það er og gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins leggi til breytingar á samþykktum sjóðsins þar sem nýtt réttindakerfi verður sett upp, miðað við fast iðgjald, og fjallað verður um aðra þætti sem þýðingu hafa, til að mynda um skipulag sjóðsins að öðru leyti og fjárfestingarstefnu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði framlag, svonefndan lífeyrisauka, þ.e. þann mismun sem er á annars vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt jafnri réttindaávinnslu og 65 ára lífeyristökualdri og hins vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri, og leggi fjármagn í sérstakan varúðarsjóð.

Samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga er það sameiginlegt mat að í ljósi fjárhagsstöðu ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaga hins vegar sé það í þágu settra markmiða um opinber fjármál að ríkissjóður taki yfir um 20,1 milljarðs kr. skuldbindingu sem sveitarfélögin hefðu ella borið vegna fjárframlaga til A-deildar LSR. Jafnframt er það sameiginlegur skilningur að í viðræðum ríkis og sveitarfélaga næstu missiri um fjárhagsleg samskipti, m.a. vegna áhrifa lagabreytinga, verði tekið tillit til þess stuðnings ríkisins við sveitarfélög sem felst í yfirtöku skuldbindinganna. Eftir sem áður munu sveitarfélögin bera kostnað vegna A-deildar Brúar og eykur það hreinar skuldir sveitarfélaganna til muna.

Lengi hefur verið stefnt að því að mynda einn vinnumarkað á Íslandi með samræmdum kjörum, en einn liðurinn í því er að samræma lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði, bæði til þess að auðvelda samanburð á kjörum hópanna og til þess að tryggt sé að launamenn og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi geti flutt sig til á vinnumarkaði og á milli lífeyrissjóða hvenær sem er á starfsævinni án þess að það hafi teljandi áhrif á réttindaávinnslu þeirra.

Almenni markaðurinn hefur þegar tekið upp aldurstengda ávinnslu en Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér samkomulag í desember 2004 um að taka upp aldurstengda réttindaávinnslu í sjóðum á samningssviði þeirra. Henni var komið á í sjóðum með tiltekinni aðlögun. Þannig héldu þeir sjóðfélagar sem voru greiðandi við breytinguna að jafnaði rétti til jafnrar réttindamyndunar að tilteknu hámarki til loka starfsævinnar og iðgjald umfram það hámark reiknast til réttinda samkvæmt almennum reglum um aldurstengda ávinnslu.

Í þessu sambandi þykir rétt að líta til þess að þær forsendur sem gengið var út frá við setningu laga nr. 1/1997 hafa ekki gengið eftir þegar litið er til tryggingafræðilegra forsendna. Þannig var tryggingafræðileg staða A-deildar í árslok 2015 neikvæð um rúma 57 milljarða kr., þ.e. um 8,8% af heildarskuldbindingum sjóðsins. Sú staða kallar enn fremur á breytingar. Til að sjóðurinn komist í jafnvægi þyrfti iðgjald launagreiðenda að hækka úr 11,5% í 15,1% þannig að iðgjald í heild yrði 19,1%. Í núverandi kerfi safnast réttindi eftir jafnri réttindaávinnslu. Slík ávinnsla leiðir til þess að króna sem borguð er inn fyrir starfsmann sem er t.d. 66 ára gefur jafn ríkuleg réttindi og fyrir starfsmann sem er t.d. 20 ára þrátt fyrir að króna þess yngri eigi eftir að safna ávöxtun í 47 ár en þess eldri í einungis eitt ár. Þetta leiðir til þess að ungar kynslóðir niðurgreiða réttindi eldri kynslóða.

Eins og staðan er nú er útilokað að A-deild geti verið sjálfbær meðan deildin er með jafna réttindaávinnslu sökum aldurssamsetningar sjóðfélaganna. Aldurstengd réttindaávinnsla leiðréttir þetta misvægi þar sem kerfið gerir ráð fyrir því að iðgjöld skapi réttindi í samræmi við þann tíma sem þau ávaxtast í sjóðnum. Þá leiðir aldurstenging til þess að afkoma lífeyrissjóðsins er óháð aldurssamsetningu sjóðfélaga. Flestir lífeyrissjóðir á almennum markaði hafa undanfarin ár leiðrétt þetta misræmi og það er áríðandi að sama leið verði farin til þess að koma jafnvægi á A-deild.

Í frumvarpinu er því lagt til að lagaákvæði um A-deild verði í meginatriðum felld brott og samhliða verði samþykktum fyrir sjóðinn breytt og þar kveðið á um að hann byggi á aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri. Með þessu verður aldurstengd réttindaávinnsla fest í sessi í íslenska lífeyrissjóðakerfinu.

Frumvarpið felur í sér grundvallarbreytingar á skipan lífeyrismála þorra opinberra starfsmanna eins og ég hef reifað. Réttindaávinnsla sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar verður aldursháð en ekki jöfn yfir starfsævina en samhliða þeirri breytingu er halli á framtíðarskuldbindingum LSR og Brúar að fullu fjármagnaður af opinberum launagreiðendum, auk þess sem lífeyristökualdur verður hækkaður úr 65 árum í 67 ár.

Þessar breytingar eru til samræmis við það sem tíðkast á almennum markaði. Til að tryggja réttindi núverandi sjóðfélaga verður greidd eingreiðsla launagreiðenda inn í deildina sem lögin ná til og mun það tryggja að breytingin verði ekki gerð á kostnað þeirra sjóðfélaga sem hafa áunnið sér réttindi. Breytingin tryggir að sjóðurinn verður sjálfbær og því er óvissu um framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs gagnvart sjóðnum jafnframt eytt með þessari aðgerð.

Frumvarpið er mikilvægur liður í jöfnun lífeyrisréttinda á íslenskum vinnumarkaði þar sem gert er ráð fyrir að viðmið lífeyris verði 76% fyrir allan vinnumarkaðinn. Fyrr á árinu tók almenni markaðurinn skref í þessa átt þegar Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu samning þar sem lífeyrismótframlag vinnuveitenda er aukið í áföngum til jafns við mótframlag á opinberum vinnumarkaði. Sú aðlögun verður að fullu komin til framkvæmda um mitt ár 2018.

Á heildina litið mun breytingin hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn þar sem hún eykur val og sveigjanleika vinnuafls. Vinnuafl mun eiga auðveldara með að flytja sig á milli opinbera og almenna markaðarins með breytilegri eftirspurn markaðanna. Einnig eru langtímaáhrif af jöfnun lífeyrisréttinda á milli almenna og opinbera markaðarins til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á þjóðarbúið í heild þar sem óvissu verður eytt um framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs, rekstur opinberu lífeyrissjóðanna verður gerður sjálfbær og sveigjanleiki á vinnumarkaði aukinn.

Í augsýn er að í kjölfar þessara ráðstafana og skyldra áforma verði Ísland, eitt örfárra ríkja í heiminum, með fullfjármagnað og samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Slík staða felur í sér afar þýðingarmikinn styrkleika til frambúðar, bæði fyrir fjármál hins opinbera og efnahagskerfið í heild.

Þess verður að geta í þessu samhengi að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er enn með þó nokkuð mikinn uppsafnaðan halla á sínum skuldbindingum. Eignastaða sjóðsins er ekki líkleg til að standa undir þeim skuldbindingum sem gefnar hafa verið og vantar mikið upp á. Það er á þeim grunni og þeim forsendum sem í fjárlögum undanfarin ár hefur verið vakin athygli á þessari skekkju og við hyggjumst hefja strax á næsta ári innborgun inn á þessa skuldbindingu til að lágmarka þær greiðslur sem ella þurfa að koma til í framtíðinni. Í kringum árið 2026 tæmist eignastaða Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í B-deild á móti skuldbindingum og þá sitja skuldbindingarnar einar eftir og ríkissjóður mun þá frá þeim tíma, verði ekkert gert í millitíðinni, þurfa að greiða út á bilinu 25–30 milljarða ár hvert til að mæta þeim þegar útgefnu skuldbindingum.

Með fyrirframgreiðslu inn á þessa skuldbindingu sem boðuð hefur verið í langtímaáætlun í ríkisfjármálum er dregið úr því höggi eða því umfangi sem fellur á ríkið í framtíðinni og greiðslunum dreift yfir lengri tíma. Það tel ég að sé afar skynsamleg ráðstöfun sem við eigum að sammælast um að styðja, ella erum við að ýta vandanum enn frekar á undan okkur.

Ég kom inn á það að Ísland er eitt örfárra ríkja í heiminum sem með þeim breytingum sem við erum hér að boða mun hafa virkt og fullfjármagnað lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna. Þetta er ekkert smávegis mál, þetta er risastórt hagsmunamál framtíðarkynslóða. Í samhengi hlutanna er í raun og veru merkilegt hve lítið er horft til þátta eins og þessa þegar metin er staða einstakra þjóðríkja. Ég nefni sem dæmi að matsfyrirtæki horfa algerlega fram hjá uppsöfnuðum skuldbindingum ríkissjóða þegar lagt er mat á getu þeirra til að standa við skuldbindingar sínar í framtíðinni. Að jafnaði horfa matsfyrirtækin einungis til skuldbindinga sem falla til á næstu fimm árum og þar með eru uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar algerlega fyrir utan radar matsfyrirtækjanna. Þetta er merkilegt, ekki síst fyrir þær sakir að víða í Evrópu er byggt á gegnumstreymiskerfi, þ.e. frá morgni til kvölds er verið að dæla út loforðum um að fólk eigi inni hjá viðkomandi ríkisstjórnum lífeyrisréttindi einhvern tímann í framtíðinni sem skattgreiðendur þess tíma munu þurfa að sjá um að standa undir. Á sama tíma er lýðfræðileg þróun í þessum sömu löndum sú að fólk eignast sífellt færri börn, landamærin eru orðin galopin, Evrópusambandið er orðið einn stór vinnumarkaður og engin trygging fyrir því að skattgreiðendurnir verði til staðar þegar reynir á þessar miklu skuldbindingar í framtíðinni.

Þegar síðan við bætist að svæði eins og Evrópusambandið er í aukinni samkeppni við önnur heimssvæði eins og Asíu sem er í örum vexti, Suðaustur-Asíu, ég tala nú ekki um Suður-Ameríku eða eftir atvikum Afríku og Indland sem spáð er að muni vaxa mun örar en þessi svæði, dregst upp nokkuð dökk mynd. Við skulum hafa það ávallt í huga þegar við ræðum um stöðu ríkissjóðs, lífskjör okkar Íslendinga og þann grunn sem þau eru byggð á og horfur á Íslandi til lengri tíma, hversu lánsöm við erum að hafa fyrir löngu síðan tekið ákvörðun um að leggja til hliðar til að eiga fyrir þeim skuldbindingum sem eru hér undir.

Þetta er líka mikilvægt í öðru samhengi. Ég nefni t.d. að það horfir til þess að lífeyrissjóðakerfið muni smám saman létta af almannatryggingum þeim byrðum sem á því kerfi hvíla vegna þess að í dag höfum við því miður nokkrar kynslóðir sem hafa ekki yfir starfsævina náð að byggja upp fullnægjandi lífeyrisréttindi. Úr þessu mun draga í framtíðinni. Það mun þess vegna létta á almannatryggingakerfinu með þeirri sjóðsöfnun sem hefur átt sér stað. Það er vel vegna þess að það mun tryggja að við verðum þeim mun betur í stakk búin til að styðja við þá sem á þurfa að halda þegar kemur að almannatryggingum og því stuðningskerfi sem við ætlum að hafa í gildi á Íslandi til að styðja við þá sem höllum fæti standa, þá sem hafa orðið fyrir áföllum, þá sem þurfa á stuðningi frá samborgurum sínum að halda hverju sinni. Þéttriðið velferðarnet verður þeim mun betra sem önnur kerfi spila betur með því eins og lífeyriskerfið.

Ég ætla að lokum að setja þetta mál aðeins í stærra samhengi, í samhengi við það verkefni okkar á Íslandi að vinna að auknum stöðugleika, lægri verðbólgu og lægra vaxtastigi til lengri tíma.

Vaxtagjöld heimilanna í landinu eru um 100 milljarðar á ári og meðalvaxtastigið liggur í kringum 5%. Það þýðir að hvert prósent sem okkur tekst að lækka í vaxtabyrði heimilanna mundi létta af þeim u.þ.b. 20 milljörðum í vexti á ári. Tvö prósentustig mundu létta af heimilunum 40 milljörðum af vaxtagreiðslum á ári.

Þetta mál hér, jöfnun lífeyrisréttinda, er einn áfanginn, ein varðan á leiðinni í átt að nýju vinnumarkaðsmódeli á Íslandi sem er bráðnauðsynlegt að komist á og áfram verði unnið að til þess að við færum okkur nær vinnumarkaðslíkani Norðurlandanna. Þar hefur mönnum auðnast að búa þannig um kjarasamningagerð, bæði á almenna og opinbera markaðnum, að mun sjaldnar hefur reynt á það að teknar séu út í kjaraviðræðum hækkanir sem eru umfram framleiðniaukningu í hagkerfinu og þar af leiðandi hefur það sjaldnar gerst að vegna samninga á vinnumarkaði hafi orðið til verðbólguþrýstingur sem hefur leitt til hækkandi verðlags og síðan hærra vaxtastigs í kjölfarið. Vinnumarkaðurinn þar hefur sem sagt betur stutt við opinberar aðgerðir til að viðhalda stöðugleika.

Hér væri freistandi fyrir mig að fara að tala um hvað hið opinbera getur gert en ég ætla bara að vísa í fyrri ræður mínar um lög um opinber fjármál, að við höfum gert mjög margt, sveitarfélögin og ríkið, til að vinna að sama markmiði. En þetta er mál sem snertir vinnumarkaðinn sérstaklega og er ekki bara forsenda þess að hægt sé að halda áfram með SALEK-samkomulagið heldur er líka forsenda þess að yfir höfuð sé hægt að tala áfram um möguleika til þess að jafna launakjör á milli almenna og opinbera markaðarins og að hægt sé að tala af einhverri alvöru um það að veita opinberum starfsmönnum launaskriðstryggingu í anda þess sem átt hefur við á Norðurlöndunum.

Launaskriðstrygging er krafa opinbera markaðarins og skiljanlega vegna þess að reynslan hefur sýnt að launaskrið á sér einkum stað á almenna markaðnum á meðan kjarasamningar eru grundvöllur launaþróunar hjá opinberum starfsmönnum. Þetta hefur leitt til spennu í kjaraviðræðum, þetta hefur jafnvel leitt til verkfalla, þetta hefur leitt til þess að það brotnar upp úr ítrekað og við höfum lent í höfrungahlaupi í kjarasamningagerð, bæði milli einstakra stétta, hvort sem er á almenna eða opinbera markaðnum, og eins líka á milli þessara tveggja markaða. Við hljótum öll að vilja vinna að því að koma í veg fyrir slíkt í framtíðinni og halda áfram vinnunni í áttina að gerð nýs vinnumarkaðslíkans. Jöfnun lífeyrisréttinda er einn hornsteinninn að slíku nýju vinnumarkaðslíkani.

Mér finnst ástæða til að nota tækifærið hér og þakka öllum þeim sem hafa komið að þessari vinnu í gegnum tíðina, þetta er vinna sem hefur staðið yfir í mörg ár, bæði í stjórnkerfinu og í stéttarfélögunum, í heildarsamtökum þeirra, og á vettvangi sveitarstjórnanna í landinu. Það er svo langt í frá sjálfgefið að margra ára vinna af þessum toga endi með gerð samkomulags og breiðri samstöðu eins og á við hér. Við þekkjum það úr umræðunni að það eru einstök dæmi um að félög telji sig ekki skuldbundin af samkomulaginu en ríkið getur að sjálfsögðu ekki átt samtal og gert samninga við hvert og eitt félag í landinu heldur hlýtur ávallt að beina orðum sínum að heildarsamtökum á vinnumarkaði. Það er sérstaklega ánægjulegt að svo virðist sem yfirgnæfandi meiri hluti félaganna hafi veitt forustumönnum sínum stuðning til að ganga frá þessu máli.

Ég ætla líka að segja að það var grundvallarnálgun við alla vinnu í þessu máli að við ætluðum að verja þau réttindi sem þegar voru áunnin í kerfinu hjá þeim sem teljast til opinberra starfsmanna. Það þýðir að við þurftum að búa þannig um hnútana í samningagerðinni að enginn bæri skarðan hlut frá borði, en á sama tíma stóð aldrei til að fara að bæta sérstaklega eða enn frekar stöðu einstakra hópa opinberra starfsmanna. Þessu markmiði er náð með viðaukaframlaginu, lífeyrisviðaukanum, og ég held að það sé óhætt að segja að tímasetningin hentar ágætlega vegna þess að ríkissjóður stendur sterkt um þessar mundir og er aflögufær til að fullfjármagna A-deildina. Það er ekkert sjálfgefið að ríkissjóður verði það á komandi árum á sama tíma og menn hyggja á byggingu nýs Landspítala, vilja styrkja almannatryggingakerfið, hyggjast taka sérstaklega á greiðsluþátttöku sjúklinga, horfa fram á að gera þurfi enn frekari samgöngubætur á Íslandi, vilja auka framlög til menntakerfisins til að við nálgumst nágrannaþjóðir okkar og samanburðarþjóðir í framlögum á nemanda, hvort sem er á háskólastigi eða annars staðar. Það er ekki sjálfgefið að ríkið geti sinnt öllum þeim krefjandi og útgjaldafreku verkefnum og lokað ófjármögnuðum skuldbindingum í lífeyrissjóðakerfinu. En þær aðstæður eru uppi núna, þess vegna er tækifærið til staðar til að binda um þetta mál. Ég tel að það sé ástæða til að þakka öllum þeim sem hafa komið að því í gegnum tíðina.

Þegar við göngum lengra eftir þessari braut munum við sjá skref í átt til nýs vinnumarkaðslíkans sem ég hef hér rakið þar sem grundvallarhugsunin verður vonandi sú að þegar kemur að gerð kjarasamninga í framtíðinni munum við hafa þróað með okkur samkomulag um það hvernig við festum fingur á því svigrúmi sem er til staðar hverju sinni til launahækkana í landinu. Við þurfum að finna einhvers konar vettvang til að taka það samtal, tæki til að mæla svigrúmið sem er til staðar hverju sinni þannig að það verði ekki ágreiningsefni á sama tíma og við þurfum að ræða um það hvernig eigi að skipta svigrúminu. Við höfum í gegnum tíðina rætt hvort það væri svigrúm og hversu mikið svigrúmið væri til launahækkana yfir höfuð og svo höfum við þurft að takast á um það hvernig ætti að skipta svigrúminu, samanber síðustu kjaralotu þar sem í senn var rætt um það að stórhækka lægstu laun, meta menntun til launa og að í landinu væru sérfræðingar sem mundu flytja til útlanda ef kjör þeirra mundu ekki lagast mjög verulega á sama tíma. Í framtíðinni komumst við vonandi út úr þeirri stöðu með nýju vinnumarkaðslíkani sem hefur þá breytingu í för með sér að við höfum þróað módel til að mæla og komast að samkomulagi um hvert svigrúmið er og kjaralotan snýst þá um að dreifa því, skipta því svigrúmi í kjarasamningum.

Einn grundvallarþáttur þess vinnumarkaðslíkans eins og ég sé það fyrir mér verður sá að almenni markaðurinn og ekki síst útflutningsgreinarnar verði leiðandi í kjarasamningsgerðinni, opinberi markaðurinn fylgir þá í kjölfarið og njóti launaskriðstryggingar með sjálfvirkum launauppfærslum á gildistíma kjarasamningsins til samræmis við þær launahækkanir sem eiga sér stað hjá almenna markaðnum. Þetta væri módel sem væri mjög í anda þess sem hefur reynst vel annars staðar.

Mikilvægur þáttur í því að komast á þennan stað væri sá að eyða ágreiningi um launaójöfnuð milli markaðanna. Samhliða því samkomulagi sem liggur hér til grundvallar um jöfnun lífeyrisréttinda er bókun um að við setjum fjármuni í að rannsaka launamun milli almenna og opinbera markaðarins. Við ætlum að þróa aðferðafræði til að mæla slíkan launamun og við ætlum síðan að taka á honum sérstaklega. Við ætlum að láta á það reyna að það verði gert innan ramma SALEK-samkomulagsins en takist það ekki ætlum við að taka það inn í kjarasamningslotuna. Ég ætla að halda því til haga í því sambandi að það er svo sem ekki og hefur aldrei verið sameiginlegur skilningur á milli opinbera og almenna markaðarins um umfang slíks launamunar eða hvort hann sé merkjanlegur yfir höfuð ef því er að skipta. Það er í sjálfu sér áskorun að finna út úr því en við göngum til þess verks af fullum heilindum og hlustum eftir kröfunni sem t.d. hefur birst nýlega frá Landssambandi lögreglumanna og öðrum stéttarfélögum um mikilvægi þess að unnið verði í þessu. Við göngum til þess verks af fullum heilindum á grundvelli þeirrar bókunar sem hefur verið gerð um það efni.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að hér á þinginu geti myndast góð samstaða um að ljúka þessu máli. Það er afskaplega mikilvægt í mínum huga. Við stöndum frammi fyrir því að án samkomulags af þessum toga þurfum við annaðhvort að hækka iðgjald hins opinbera vegna skekkjunnar í réttindum á móti eignum eða slá því enn og aftur á frest. Þar fyrir utan eru væntingar bundnar við það af hálfu allra okkar samningsaðila sem eru hvorki meira né minna en öll heildarsamtökin á opinbera markaðnum að málið fái farsælan endi á þingi.

Allir helstu hagsmunaaðilarnir sem eiga eitthvað undir þeim breytingum sem verið er að kynna í þessu frumvarpi eru samningsaðilar á sama tíma, með þeim fyrirvara sem ég hef nefnt áður að við höfum ekki verið að semja við hvert og eitt aðildarfélag heildarsamtakanna. Af þeim ástæðum tel ég að málið sé það vel þroskað hjá hagsmunaaðilum að menn ættu að geta komið mjög vel undirbúnir inn í umræðu í nefndarstörfum þingsins og þingið ætti að hafa allar upplýsingar fyrir framan sig á skömmum tíma. Verði frumvarpið að lögum taka breytingarnar gildi 1. janúar næstkomandi.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og til fjárlaganefndar (Gripið fram í.) að þessari umræðu lokinni.



[14:49]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Líkt og fram kom í framsögu hæstv. ráðherra er hér um gríðarlega viðamikið mál að ræða. Það skiptir miklu, þar sem við erum að fjalla um lífeyri landsmanna, að við förum vandlega yfir það og vöndum til verka.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í samspil þessa kerfis og almenna kerfisins. Í þessu frumvarpi er lagt til að lífeyristökualdur hækki úr 65 árum í 67 ár. Fyrir þinginu liggur hins vegar einnig frumvarp frá hæstv. velferðarráðherra þar sem lögð er til breyting í almannatryggingakerfinu, þ.e. að lífeyrisaldur hækki í áföngum úr 67 ára aldri upp í 70 ár. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hugað hafi verið að samspili þessara tveggja kerfa við vinnslu þessa máls.



[14:50]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ákveðið samspil er til staðar í þessum tveimur kerfum hjá okkur. En að sjálfsögðu vonumst við til þess að þeim sem eru virkir á vinnumarkaði yfir starfsævina auðnist að byggja upp lífeyrisréttindi með iðgjaldagreiðslum sínum sem verða þess valdandi að ekki reyni á þau réttindi sem eru til staðar hverju sinni í almannatryggingakerfinu. Sú hækkun á lífeyristökualdrinum samkvæmt almenna almannatryggingakerfinu sem vísað var til á að eiga sér stað yfir mjög langt tímabil, yfir áratugi. Ég sé þetta þess vegna ekki fyrir mér sem sjálfstætt vandamál þannig séð, en því er ekki að leyna að hér er verið að ganga út frá því að starfslok geti orðið um 67 ára aldurinn en á sama tíma öðlist (Forseti hringir.) menn ekki réttindi til ellilífeyris fyrr en við 70 ára aldurinn í framtíðinni. En þetta þarf ekkert endilega að stangast eitthvað á.



[14:52]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar, vegna þess að lífeyrir fólks er framfærsla fólks og er þess vegna svo gríðarlega mikilvæg, þá verðum við að huga að því hvað áhrifin á einum stað komi mögulega til með að gera á öðrum stað. Ég tel þess vegna mikilvægt að þetta sé skoðað í heildarsamhengi. Þó svo að auðvitað sé hægt að vona að fólk vinni sér góðan lífeyri yfir starfsævina er veruleikinn hins vegar sá að fólk lendir í alls konar aðstæðum yfir ævina og þá kemur auðvitað til kasta ríkisins. Þess vegna skiptir þetta máli.

Í báðum kerfum er um að ræða sveigjanleg starfslok, möguleiki á sveigjanleika í því. Ég er mjög hlynnt því prinsippi. Þess vegna tel ég alveg óskaplega brýnt (Forseti hringir.) að farið verði í að reyna að greina eftir bestu getu hvert samspilið er þarna á milli. Það er jú framfærsla fólks sem við erum með í höndunum í þessum málum.



[14:53]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að við nálgumst umræðu um þessi tvö kerfi, almenna og opinbera lífeyrissjóðakerfið annars vegar og síðan almannatryggingakerfið hins vegar, út frá því að þetta eru í hvoru tveggja tilvikinu réttindakerfi. Við erum sem sagt að tala um réttinn til þess að fara á lífeyri 67 ára eftir að hafa byggt upp ákveðin réttindi í millitíðinni. Við erum ekki að tala um skylduna til að fara á lífeyri 67 ára, við erum að tala um það að sá sem vinnur fulla starfsævi eigi rétt á að hefja töku lífeyris við tiltekið aldursmark. Síðan getur fólk valið að starfa lengur eftir atvikum, hvort sem er í opinbera geiranum eða á almennum markaði.

Ég veit ekki hvort ég er að misskilja eitthvað hér, en mér finnst ekki sjálfgefið að þó að við setjum rétt til að hefja töku lífeyris í lífeyristryggingakerfinu við 67 ára aldursmarkið þurfum við nauðsynlega að hafa réttinn til töku (Forseti hringir.) ellilífeyris samkvæmt almannatryggingum á því sama ári.



[14:54]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er virkilega … (Gripið fram í.)

(Forseti (BjÓ): Forseti vill biðja um einn fund í salnum.)

Forseti. Þetta er vissulega merkilegt og mikið frumvarp og tekur ekki bara til líðandi dags heldur tekur það til framtíðarinnar. Við erum að tala um ellilífeyri fólks langt inn í framtíðina. Ég átta mig á því að þetta hefur verið unnið lengi og væntanlega, ekki væntanlega, ábyggilega líka mjög vel. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að okkur á löggjafarsamkundunni, sem stöndum á endanum ábyrg fyrir þeim lögum og reglum sem settar verða inn í framtíðina fyrir fólk sem hefur lokið starfsævi sinni, er ætluð vika til þess starfs.

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Deilir hann ekki þessum áhyggjum pínulítið (Forseti hringir.) með mér?



[14:56]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég get alveg deilt því að ég hefði viljað hafa rýmri tíma og meira svigrúm, lengri umsagnarfrest o.s.frv., en ég tel samt að við höfum skyldu til að láta reyna á það til fulls hvort ekki geti myndast samstaða á þinginu. Það sem færir mér bjartsýni í brjóst hvað það varðar er sú staðreynd að allir þeir sem hagsmuni eiga undir eru aðilar að samkomulaginu og hafa kynnt sér málið nú þegar í þaula. Þetta mundi allt saman horfa öðruvísi við ef við værum að skella hér fram eftir árangurslausa tilraun til að ná samningum frumvarpi þar sem við segðum: Það hefur ekki tekist neitt samkomulag en þá ætlum við að höggva á hnútinn með þessu frumvarpi. Þá værum við í allt annarri stöðu. Þetta byggir allt á samkomulagi. Þess vegna trúi ég því að þetta sé framkvæmanlegt.



[14:57]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Stórar starfsstéttir hafa komið fram og lýst áhyggjum sínum af þessu. Hjúkrunarfræðingar segjast hafa fylgst með þessu í blöðunum eða fréttum. Lögreglufélagið, sjúkraliðar, það eru heilmikil og stór og mikilsverð stéttarfélög sem vinna hjá hinu opinbera sem segjast ekki upplýst um þetta. Ég hef miklar áhyggjur af því að keyra eigi þetta í gegn á þessum tíma.

Virðulegi forseti. Það verða ekki ragnarök 29. október. Það verður hér þing væntanlega um miðjan nóvember og áramótin eru í lok desember, þannig að það er nægur tími til að láta þetta liggja fyrir og fólk átti sig á að þetta er núna orðið endanlegt alvöruplagg sem margir hafa bara (Forseti hringir.) ekki áttað sig að væri svona langt komið.



[14:58]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef að sjálfsögðu engu við mál mitt að bæta um þetta atriði. Ég tel að það skipti miklu að þingið taki málið til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu. Það má alveg halda fram rökum fyrir því að hægt væri að gera þetta seinna og í meiri rólegheitum, en ég segi á móti að þetta mál er fullþroskað, komið er að frágangi þess og samningar um málið eru undirritaðir eftir kynningu hjá öllum heildarsamtökum og atkvæðagreiðslu þar og frumvarpið endurspeglar þá niðurstöðu.



[14:59]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort skynsamlegt sé að fjármagna allt að helminginn af í útlögðum kostnaði sem ríkissjóður þarf að leggja út, verði þessar breytingar að lögum með LÍN-skuldabréfum. LÍN-skuldabréfin eru mjög sérstök skuldabréf að því leytinu til að þau eru fjárfesting í menntun. Hér mun eiga sér stað algjör grundvallarbreyting ef við ætlum allt í einu að fara að framselja LÍN-skuldabréf til að fjármagna Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það er grundvallarbreyting á því hvernig lánasjóðurinn var upphaflega hugsaður. Ekki hefur verið hafður sá háttur á hingað til að framselja skuldabréf LÍN, þannig að það vekur mér furðu, svo ekki sé meira sagt, af því að það hefur ekki verið gert áður. Ég veit ekki einu sinni hvort það er lagaheimild í núverandi lögum til að framselja skuldabréf. Ég velti fyrir mér hvort (Forseti hringir.) þetta sé eðlilegt með hliðsjón af því hvers lags skuldir þetta eru.



[15:00]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki um það segja. En kannski er einhver misskilningur hér á ferð. Þegar rætt er um skuldabréf Lánasjóðs íslenskra námsmanna er verið að ræða um kröfu ríkisins á Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er ekki verið að tala um kröfur lánasjóðsins á hendur nemendum vegna lána sem nemendur hafi tekið hjá sjóðnum. Það er hvor sinn hluturinn. Hérna er einfaldlega um að ræða að ríkið á kröfu á lánasjóðinn vegna fjárhagslegra samskipta þessa sjóðs sem lögaðila og ríkisins. Hann hefur fjármagnað sig með verðtryggðum bréfum sem bera nokkuð góða vexti og gætu talist heppileg eign fyrir lífeyrissjóðina og á sama tíma ágætiseign til að ráðstafa í þessu samhengi vegna þess að þeir fjármunir eru þá áfram bundnir í bréfunum en fara ekki út til þess að valda einhverri þenslu.



[15:01]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Það útskýrir alla vega það sem ég var að velta fyrir mér. En þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort allar forsendur í frumvarpinu miðist við að ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna verði 3,5% til framtíðar. Er það eitthvað sem við getum fest til frambúðar, þ.e. að gera þessa ávöxtunarkröfu á þessa lífeyrissjóði? Þar að auki langar mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi tölur um það hversu margir sjóðfélagar í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins greiða viðbótarlífeyrissparnað. Þetta er vettvangur til þess að fá upplýsingar um það. Það kemur ekki fram í greinargerðinni með frumvarpinu, mér að vitandi. Það eru þessar tvær spurningar sem eru voða einfaldar: Er verið að festa ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna í 3,5%? Eru til einhverjar tölur um hversu margir sjóðsfélagar í A-deild greiða viðbótarlífeyrissparnað?



[15:02]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki upplýsingar um það hversu margir í A-deildinni greiða viðbótarlífeyrissparnað. Það er hugsanlegt að hægt sé að nálgast þær í nefndarstarfi. Varðandi 3,5% er það þannig að þegar horft er til baka hefur það gengið ágætlega upp hjá lífeyrissjóðunum að starfa á grundvelli þeirrar reiknireglu. Það er í fyrsta lagi ekki verið að breyta neinu varðandi þann útreikning eða þær forsendur í frumvarpinu. En svarið við því hvort við getum byggt á útreikningum sem gefa sér 3,5% ávöxtun til frambúðar liggur í raun í því hvort við getum viðhaldið hér að minnsta kosti 3,5% hagvexti um ókomna tíð. Það er alveg ástæða til að velta því fyrir sér. Menn eiga ekki að gefa sér neitt í þeim efnum um alla framtíð.



[15:04]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með öðrum um að þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt mál og mikilvægt að þingið vinni vel og vandlega úr því. Ég er ekki að gera lítið úr getu þingmanna og þingnefnda en það er vissulega áhyggjuefni hversu stuttur tími gefst fyrir það. Ég velti fyrir mér fjármögnun hluta ríkisins, þ.e. þessum 90 milljörðum sem færa á inn í kerfið til að uppfylla skuldbindingar ríkisins, sem hingað til hafa næstum því verið hugmynd vegna þess að þær skuldir hafa ekki verið í fjármálakerfinu. En núna fara þessir peningar inn í lífeyrissjóð og fara af stað. Þetta eru upphæðir af þvílíkri stærðargráðu að hætta er á að þær hafi mjög mikil og þensluhvetjandi áhrif á fjármálakerfið. Mig langaði aðeins að heyra (Forseti hringir.) hug hæstv. fjármálaráðherra til þessa.



[15:05]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og lesa má í greinargerð með frumvarpinu er þetta áfram til skoðunar á vissan hátt. Það er orðað þannig í greinargerðinni: „Af vaxtaberandi eignum ríkissjóðs sem unnt væri að nýta sem framlag til lífeyrisaukasjóðs LSR hefur helst komið til skoðunar að framselja hluta af endurlánum ríkisins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).“

En í grunninn hefur verið hugsað um þetta þannig að ríkið væri í færum til að lækka lausafjárstöðu sína hjá Seðlabankanum sem næmi um einum þriðja af framlaginu. Eignir á borð við þá sem hér er nefnd gætu komið til álita sem næsti þriðjungur, og svo lokaþriðjungurinn með útgáfu nýrra skuldabréfa. En ég tek undir með hv. þingmanni að það skiptir miklu hér að þetta verði ekki til þess að valda þensluáhrifum. Tekist hefur ágætissamtal um það við LSR og er gagnkvæmur skilningur á mikilvægi þess. (Forseti hringir.) Þess er að vænta að endanlegur frágangur þessa máls verði í þeim búningi að slík skaðleg áhrif verði lágmörkuð.



[15:06]
Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þetta er vissulega áhyggjuefni. Við fljótan lestur, við höfum nú ekki haft tíma til annars, á frumvarpinu og greinargerðinni er þetta vissulega nefnt, en mér finnst mikilvægt að við höfum þetta sérstaklega í huga. Það er nú þegar áhyggjuefni hvað fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna er farin að hafa gríðarleg áhrif á ótrúlegustu sviðum íslensks efnahagslífs eftir að fjármagnshöftin voru sett á. Það virðist bara sífellt bæta í og hér erum við að tala um alveg risastóra mögulega viðbót inn í það. Það er því gott að heyra að þessi mál eru undir. Ég hlakka til að heyra meira af því í meðförum þingsins.

Ég hef áhyggjur af því að lífeyrissjóðakerfið og þetta fjármagn er farið að leika svo stóran þátt í efnahagslífinu yfir höfuð að það fer sjálft að verða ábyrgt (Forseti hringir.) fyrir þeim hagvexti sem hæstv. ráðherra minntist á að væri grundvöllurinn undir öllu klabbinu. Hefur ráðherra ekki áhyggjur af því hvort kerfið geti yfirleitt verið sjálfbært til lengri tíma?



[15:08]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn áhuga á að ræða einmitt þennan þátt málsins ekki bara í tengslum við þetta frumvarp heldur í stærra samhengi hlutanna og tel að það hafi opnast tækifæri fyrir okkur Íslendinga vegna þeirra breytinga sem eru að verða á samsetningu hagkerfisins. Ör vöxtur ferðaþjónustunnar skilar miklum gjaldeyristekjum inn í landið, sem aftur getur opnað dyrnar fyrir okkur gagnvart útlöndum fyrir erlendar fjárfestingar. Miklar fjárfestingar í útlöndum af hálfu lífeyrissjóðakerfisins án innstreymis gjaldeyris á sama tíma gætu sett mjög mikinn þrýsting á gjaldmiðilinn. Án gjaldeyrisskapandi greina væri í raun og veru tómt mál að tala um miklar erlendar fjárfestingar þessara sjóða. Þar sem gjaldeyrisinnstreymið er svona ört vaxandi virðast okkur vera að opnast nýjar dyr í þessum efnum. Það er meira en full ástæða fyrir okkur til að fara að taka til gaumgæfilegrar skoðunar greiðslujafnaðarmódel Íslands fram á við litið, hversu langt við eigum að ganga á sama tíma og við tryggjum sterka stöðu útflutningsgreinanna í því að nánast setja lágmark á erlenda (Forseti hringir.) fjárfestingu lífeyrissjóðanna í stað þess að vera velta fyrir okkur hvert hámarkið er.



[15:09]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég á ekki sæti í efnahags- og viðskiptanefnd, hvað þá fjárlaganefnd, og vil bara segja til að byrja með að lífeyrismál, lífeyrissjóðir og skuldbindingar eru ekki mín sterkasta hlið. Mér finnst mikilvægt að setja mig inn í þetta mál af því að það er risastórt og skiptir miklu máli. Ég er ánægð með að það sé komin niðurstaða, komin víðtæk sátt að því er virðist í það hvernig við höggvum á þennan hnút eða leysum það að lífeyrisskuldbindingar okkar, þau kerfi eru ekki sjálfbær. Það hefur verið að safnast upp halli sem menn hafa ekki séð fyrir endann á en núna er komin tillaga til að breyta kerfum og borga inn á þannig að við getum farið að færa þetta í þá átt að við munum ekki búa við þessa stöðu um aldur og ævi. Það er í sjálfu sér mjög jákvætt og ég vona að við fáum nægan tíma til þess að kafa almennilega ofan í málið því að það er sannarlega þörf á því. Ég mun hlusta með andakt á það hvað aðrir reyndari þingmenn hafa að segja um þetta mál, mér finnst mikilvægt að við gerum þetta vel.

Það er mikilvægt að við séum ekki eingöngu núna að greiða inn í þetta ósjálfbæra kerfi og laga það heldur að við búum líka svo um hnútana að við þurfum ekki að fara að gera það aftur eftir einhver ár, 20–30 ár. Auðvitað eru ákveðin tímamörk á SALEK-samkomulaginu sem hér liggur undir en þó ekki knappari tímamörk en svo að það er í a.m.k. ár í viðbót, ef ekki lengur. 2018 minnir mig.

Við þurfum að athuga hvort þessar kerfisbreytingar haldi og ef ekki þurfum við að búa svo um hnútana að þær geri það. Það gengur auðvitað ekki að við séum alltaf á einhverra ára fresti að borga inn á þetta.

Við þurfum að athuga hvort ákveðnir hópar koma verr út úr þessum breytingum en aðrir. Mér skilst að verið sé að gera þá breytingu að fara yfir í aldurstengda ávinnslu lífeyrisréttinda hjá opinberu sjóðunum og þá spyr ég mig hvort það skapi áhættu á verðminni réttindum þeirra langskólagengnu af því að þeir koma seinna út á atvinnumarkaðinn. Oft eru það konur. Við vitum að konur eru langskólagengnari, þær eru meiri hluti nemenda í háskóla. Þær koma þá síðar út á atvinnumarkaðinn því að þær eru að fjárfesta í sinni menntun, og hvað? Eiga þær þá minni lífeyrisréttindi fyrir vikið? Mér þætti vænt um að þetta væri skoðað sérstaklega í fjárlaganefnd sem fer yfir málið og hún skoði heilt yfir hvaða hópar það gætu verið sem eru kannski viðkvæmir fyrir þessari breytingu. Auðvitað þurfum við að passa að gæta jafnræðis.

Varðandi lífeyrissjóðina þá heyrði ég að hæstv. fjármálaráðherra kom aðeins inn á, þegar hann svaraði hér andsvari, fjárfestingu lífeyrissjóðanna erlendis. Þar nefndi hann að það væri dálítið erfitt upp á stöðugleika gjaldmiðla, það mætti ekki vera of mikið útstreymi úr landinu af fjármagni. Í fullkomnu kerfi, kerfi þar sem við værum ekki með lítinn gjaldmiðil sem er viðkvæmur fyrir sveiflum á inn- og útflæði, væri kannski best að mínu mati að hafa þær fjárfestingar hvað mest erlendis til að eiga þar eins konar varasjóð ef allt um þrýtur á Íslandi eins og hefur gerst. Þá ætti stór hluti landsmanna og allir varasjóði í erlendri mynt. Efnahagsumhverfið erlendis hefur verið stöðugra en það sem við búum við á Íslandi og þá væri ágætt að hafa einhvern part af sparnaði okkar í þannig kerfi.

Eins er það þannig með alla þessa lífeyrissjóði á Íslandi að þeir eru margir og misgóðir, ef við getum sagt sem svo, maður getur kannski lent í því að borga í einhvern ákveðinn lífeyrissjóð, sem er auðvitað lögbundið en maður getur ákveðið hvaða sjóður það er, en svo kemur kannski seinna meir í ljós þegar maður er að fara að taka út réttindi sín að sá sjóður er frekar rýr út af einhverju, kannski af því að það eru margir öryrkjar í þeim sjóði, það eru kannski heilu stéttirnar sem vinna slítandi vinnu og missa starfsþrek, fara á örorku og þá skilst mér að maður eigi einhvern veginn sjálfur líka, af því að tekið er úr sameiginlegum sjóði, minna á milli handanna. Ég held að það sé mikilvægt að við förum kannski aðeins að hugsa um það að stækka þessa sjóði, minnka áhættuna með því að vera með fjárfestinguna meira erlendis. Auðvitað höfum við ekki getað gert það hingað til út af gjaldeyrishöftum og öllu því, en núna erum við vonandi að horfa fram á veginn hvað það varðar.

Annað í þessu er að smæðin á Íslandi gerir það að verkum að þeir sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða eru líka oft þeir sem eiga fyrirtæki og bera hag þeirra fyrirtækja fyrir brjósti. Þeir þurfa kannski að standa í því að taka ákvarðanir um hvar eigi að fjárfesta og þá er mjög vont og býður upp á spillingu og líka tortryggni að heilu lífeyrissjóðir landsmanna séu að fjárfesta í fyrirtækjum tengdra aðila hjá stjórnum lífeyrissjóðanna. Það gengur ekki upp. Smæð landsins býður kannski samt ekki upp á annað þannig að ég held að við þurfum að fara að hugsa um að koma þessu dálítið í annan form, hafa meira erlendis.

Ég ætla ekki að lengja þetta mikið, ég hlakka bara til þess að hlusta á umræðuna og ég hlakka til að heyra vangaveltur þingmanna um hvað verði að skoða sérstaklega. Ég hef sagt og stend við það að mér finnst mikilvægt að við vinnum vel í þessu máli. Það á ekki að gera með einhverri skemmri skírn og ef við þurfum að vera einhvern tíma að því gerum við það bara. Við erum til þess kosin og þá gerum við það.



[15:19]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um mjög umfangsmikið og stórt hagsmunamál allra landsmanna, ekki síst opinberra starfsmanna, sem varðar lífeyriskjör okkar allra og það kerfi sem við byggjum upp í kringum það. Ég ætla eins og aðrir að fagna því að þessi vinna sé komin á þetta stig. Hún er búin að standa árum saman. Þetta er ekki flokkspólitískt viðfangsefni heldur eitthvað sem við þvert á flokka látum okkur auðvitað varða. Þetta er vinna sem hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar og hafa reyndar verið löng hlé í þeirri vinnu en grundvöllurinn var stöðugleikasáttmálinn á sínum tíma.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að erindisbréfið hafi verið að fara yfir stöðu A- og B-deildar sjóðsins og koma með tillögur að framtíðarlausnum á vanda þeirra. En töluvert vantaði upp á að sjóðurinn ætti fyrir framtíðarskuldbindingum.

Í skemmstu máli, hæstv. forseti, er ekki verið að taka á vanda B-deildarinnar eða með nokkru móti að ganga inn í hana. Nú má vel vera að það sé ómögulegt, ég skal ekki segja, en það er ekki einu sinni verið að leggja til í fjárlögum það sem þarf til að mæta skuldbindingunum sem nema hundruðum milljarða sem eru ófjármagnaðar í B-deildinni. Þannig að þetta leysir nú ekki nema hluta vandans og af einhverjum ástæðum er B-deildin tekin út fyrir sviga og virðist ekki eiga að sæta breytingum á meðan A-deildin á að gera það, enda er hún annars eðlis.

Ég tel hér um mikið hagsmunamál að ræða. Ég veit líka að unnið hefur verið mikið í þessu og að hagsmunaaðilar eru aðilar að þessu og hafa unnið þessa vinnu.

Það breytir því ekki að Alþingi setur lögin og mikilvægt að við skiljum hvað það er sem við erum að gera, hvaða ákvarðanir við erum að taka til framtíðar sem varða lífskjör fólks á eftirlaunaaldri.

Ég ætla að játa að ég hef ekki enn náð að átta mig á því, en mér virðist sem við sem erum að greiða núna í A-deildina á þessu ári komum inn í þetta lífeyrisaukakerfi. En þeir sem voru þarna inni áður geri það ekki og þeir sem koma inn á næsta eða þarnæsta ári ekki heldur. Þetta er t.d. bara svona einfalt atriði sem ég hef ekki enn náð að átta mig á.

Það eru miklu stærri álitamál sem mér finnst að Alþingi þurfi að fjalla um. Það er hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að vinnan sem núna liggur fyrir er unnin í samráði stéttarfélaganna sem semja gjarnan um þessa hluti í kjarasamningum og þá leið fer það inn í lögin.

Það breytir ekki því að löggjafarvaldið getur ekki framselt þetta vald til aðila úti í bæ. Við getum fengið þá í lið með okkur og notið góðs af þeirra vinnu, en við verðum líka að skilja svo flókið mál áður en við getum gert það að lögum frá Alþingi.

Þá vil ég koma inn á það sem kom fram í andsvari hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur áðan að við erum líka hér í þinginu að fjalla um breytingar á lögum um almannatryggingar. Það er mikilvægt kerfi. Þar hafa verið uppi hugmyndir um að við getum bara á nokkrum dögum afgreitt það. Í því frumvarpi er eitt atriði sem vekur æ áleitnari spurningar, það er um eftirlaunaaldurinn 70 ár, reyndar á 24 árum, en í þessu frumvarpi á að færa eftirlaunaaldur úr 65 árum upp í 67 ár. Í frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar segir að ákveðin ákvæði taki ekki gildi fyrr en að ári liðnu af því að það eigi eftir að breyta lögum um lífeyrissjóði til að þau geti orðið að veruleika. Ekki er verið að taka á því í þessu verkefni.

Ég held að mjög óskynsamlegt sé að gera grundvallarbreytingar á báðum þessum kerfum í algjörlega einangraðri vinnu hvor frá annarri. Ég held að það sé akkúrat lag núna til að taka alla þá vinnu sem unnin hefur verið og komin er ákveðin niðurstaða í og vinna þessi mál samhliða hér í þinginu. Við erum að tala um mikilvægar kerfisbreytingar í tveimur mikilvægum kerfum sem spila saman og sameiginlega mynda réttindi og kerfi sem fólk grundvallar framfærslu sína á allt að 30–40 árum. Nú er ég kannski dálítið að ýkja, en við getum sagt að meðalaldur er að hækka þannig að í tæp 20 ár getum við sagt að þetta eigi að sjá okkur fyrir lífsviðurværi. Við afgreiðum það ekki bara á nokkrum dögum. Ég skil ekki alveg þá hugmynd. Þetta er ekki flokkspólitískt þras. Þetta er bara vilji þingmanna til að vanda sig í vinnunni og setja góð lög sem eru til hagsbóta fyrir þá sem undir lögin falla. Hér er sannarlega verið að stíga í þá átt að jafna lífeyrisréttindi fyrir alla nema þá sem eru í B-deildinni, svo við höldum því til haga, og svo er komið inn á það í samkomulaginu og þess sé getið í greinargerð að það þurfi jafnframt að jafna launakjör á almenna markaðnum og opinbera markaðnum.

Ég stend hér sem kvenkyns þingmaður og mér er vel kunnugt um kyndbundinn launamun á Íslandi. Það hefur verið nánast ógjörningur að vinna bug á þeim launamun. Þegar ég les eitthvert orðalag um að leitast skuli við að jafna þessi kjör þá hrís mér hugur við því, ekki að ég sé ekki sammála því markmiði, en hvernig ætlum við að ná því fram? Jú, gera þarf rannsóknir á því hvernig kjör eru á almenna markaðnum og opinbera markaðnum. Við höfum rannsakað kjör áratugum saman til að reyna að finna út hvernig við vinnum gegn kynbundnum launamun, en ég hef bara miklar áhyggjur af þeirri vinnu. Ég efa ekki að fögur fyrirheit eru hér að baki, en ég vil fá grundvallarumræðu um þetta. Við erum að tala um stórar stéttir háskólamenntaðra kvenna, svo sem eins og kennara og hjúkrunarfræðinga sem og allra þeirra stétta sem eru með sérmenntun, eins og t.d. sjúkraliðar, og hafa látið sér lynda lægri laun í skiptum fyrir atvinnuöryggi og trygga afkomu á efri árum.

Það eru því miklir hagsmunir í húfi. Rétt eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir minntist á verðum við að skoða þetta mál með kynjavinkli og við verðum líka að skoða það með kynslóðavinkli. Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvaða áhrif þetta hefur á kjör þeirra sem á eftir koma.

Síðan talaði hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir um 3,5% ávöxtunarviðmiðið hjá lífeyrissjóðunum. Við göngum hér út frá því að það verði óbreytt. Það vita allir að það er þetta viðmið sem myndar vaxtagólf á Íslandi, sem m.a. gerir það mjög flókið að afnema verðtryggingu af skuldbindingum, og þetta er ríkisstjórnin sem ætlaði að komast út úr verðtryggingunni, en þarna er ákveðið grundvallaratriði sem þarf að ræða sem og stærð kerfisins, eins og komið hefur verið inn á af ýmsum þingmönnum.

Við erum líka að tala um að við erum annars vegar með opinbert kerfi og hins vegar almennt kerfi. Almenna kerfið er óöruggara kerfi en hið opinbera, en það hefur þó verið í raun með ríkisábyrgð í gegnum bréf Íbúðalánasjóðs sem lífeyrissjóðirnir hafa fjárfest í og eru með ríkisábyrgð.

Lífeyrissjóðirnir hafa grundvallarstöðu í íslensku efnahagslífi. Þeir skipta sköpum fyrir framfærslu fólks á efri árum og við þurfum að horfa til margra þátta þegar við gerum grundvallarbreytingu á þessum kerfum.

Nú er það auðvitað þannig að við þurfum líka að setja okkur mörk. Ekki er hægt að tyggja alla þessa bita í einu, það verður að búta fílinn niður og taka þetta í skrefum, en mér finnst mikilvægt þegar við gerum þessa breytingu að við séum búin að ákveða hvað það er sem þurfi að skoða betur. Við tökum þetta auðvitað í skrefum, en þegar við stígum þetta mikilvæga skref finnst mér nauðsynlegt að við sammælumst um hvaða skref verði stigin í framhaldinu.

Það hefur líka verið rætt um stærð lífeyrissjóðanna innan hagkerfisins. Þeir eru auðvitað fastir innan hafta þótt vonandi geti þeir farið að fjárfesta meira erlendis, en þeir eru orðnir mjög stórir og þurftafrekir í íslensku hagkerfi. Það er lífsnauðsynlegt að þeir fari að komast út með hluta af sínum fjármunum til fjárfestinga. Við þurfum líka að fá yfirlit yfir hvernig líklegt er að það geti þróast á næstu árum. En ég tel varasamt og nánast ógjörning að afgreiða málið bara sisvona á nokkrum dögum. Ég ber virðingu fyrir því að hér hafi verið komist að samkomulagi. Við eigum að leggja okkur fram um að reyna að vinna lögin í anda þess samkomulags því að þar hafa komið að aðilar sem eiga ríkra hagsmuna að gæta. En við verðum líka að gera það með opin augun og verðum að gera það þannig að við skiljum hvaða breytingar við erum að samþykkja og vitum í hvaða samhengi við erum að samþykkja þær og hvað við ætlum að gera í framhaldinu.

Ég hef heyrt þeirri hugmynd fleygt að þetta frumvarp sem og frumvarpið um breytingar á lögum um almannatryggingar ættu að fara í milliþinganefnd til sameiginlegrar umfjöllunar. Ég tek heils hugar undir slíkar hugmyndir. Ég tel að við eigum að vanda okkur og leysa þetta þannig af hendi að við höfum raunverulegan skilning á því sem við erum að gera og séum raunverulega að gæta hagsmuna fólks varðandi framfærslu þess á efri árum.

Ég ítreka að þetta er ekki flokkspólitískt mál, þetta er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur öll. Við getum auðveldlega unnið að þessu saman og tekið okkur þann tíma sem við þurfum til að leysa þetta vel af hendi.



[15:33]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég er enn þá svolítið að reyna að koma mér inn í þetta mál. Það er nú þannig á þessu þingi þessa dagana að hent er inn fleiri og fleiri stórum málum, eins kjánalegt og það nú er.

Ég velti fyrir mér tvennu í sambandi við þetta. Nú höfum við í hv. velferðarnefnd, þar sem hv. þingmaður er formaður, verið að ræða almannatryggingamálið og komið hefur í ljós að þar er fleira sem þyrfti að ræða en í rauninni var augljóst alveg í blábyrjun málsins, þ.e. þegar það fór til nefndar eftir 1. umr. var ljóst á nefndarfundum að það þyrfti að ræða meira. Ég er orðinn heldur svartsýnn á að við náum því í þessari tilraun nema menn ætli að fara að breyta starfsáætlun með tilheyrandi brölti, sérstaklega þegar við erum svona nálægt kosningum, þá er það náttúrlega erfiðara en venjulega mundi ég halda. Þetta mál virðist vera stærra í fljótu bragði.

Mig langar svolítið að reyna að skilja, ef hægt er að útskýra það með einhverjum einföldum hætti, stærðarhlutfallið eða samhengi þessara tveggja mála. Mér þykir augljóst strax að við komum til með að ræða þetta mál að einhverju leyti þegar kemur að almannatryggingamálinu og svo væntanlega öfugt. Þó fer þetta mál til fjárlaganefndar samkvæmt ræðu hæstv. ráðherra. Ég velti fyrir mér málsmeðferðinni og stærðinni og hvernig við reynum að komast yfir þetta mál þannig að sem best fari.

Fyrst og fremst langar mig að spyrja hv. þingmann, sem ég treysti vel til að hafa rétta hagsmuni í húfi þegar kemur að þessum málaflokki: Telur hv. þingmaður að þetta frumvarp leysi vandann sem að steðjar? Er þetta lausnin? Eða er líklegt að fleiri mál þurfi seinna til að greiða úr þessu? Ég er sjálfur svolítið þannig að ég trúi ekki á ókeypis peninga, alla vega ekki í einfaldri mynd, en mér er óljóst hvort þetta sé lausnin sem að (Forseti hringir.) er stefnt eða hvort þetta sé skref í átt að einhverri lausn sem við erum ekki alveg búin að finna út úr enn þá.



[15:36]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið.

Þetta er auðvitað lausn á ákveðnu vandamáli. Hvað var lagt upp með í þessari vinnu? Annars vegar að jafna lífeyrisréttindi á milli almenna markaðarins og opinbera markaðarins. Það þýðir að lífeyriskjörin á opinberum markaði, sem voru betri, gætu orðið lakari, en það veit ég ekki af því ég hef ekki nægilega yfirsýn yfir það, og verið er að jafna síðan almenna markaðinn upp á við. Nákvæmlega hver sú niðurstaða verður veit ég ekki, en markmiðið er að jafna réttindin. Hins vegar að leysa vandann í A-deildinni, sem er með ófjármagnaðar skuldbindingar og hefði lögum samkvæmt átt að vera búið að hækka iðgjöldin inn í en það dróst af því þessi vinna var í gangi.

Svo erum við með þriðju stærðina, B-deildina, þar sem eru hundruð milljarða undir og hún er ósnert í þessu máli.

Ég held að þetta sé mikilvæg lausn til framtíðar, en hvort fjármögnunin er hins vegar nægjanleg, það á þingið eftir að skoða. Hvernig kjörin verða milli þessara tveggja hópa og svona ólíkra hópa, það á eftir að skoða. Samspilið við nýja almannatryggingakerfið, ef það færi óbreytt í gegn, þar er augljóslega ekki bara aldurinn vandamál. Ég get því með engu móti sagt hvort þetta sé lausn. En ég leyfi mér þó að fullyrða að þetta sé mjög mikilvægt skref til að jafna réttindin og að þetta sé sannarlega skref í rétta átt.



[15:38]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrðist á öllu að þetta væri skref í rétta átt og virðist ekki vera umdeilt. Þá velti ég fyrir mér öðru sem er staðreynd, ef við ímyndum okkur þetta einfalt, almannatryggingamálið fór til hv. velferðarnefndar, þetta mál fer til hv. fjárlaganefndar. Ég geri fastlega ráð fyrir að ástæðan fyrir því að málin fari í tvær mismunandi nefndir sé sú að hér sé verið að eiga við fjármálalegar undirstöður þess hvernig kerfið verði fjármagnað, á meðan við ræðum réttindi notenda í almannatryggingamálinu.

Ég fæ ekki séð í fljótu bragði, með öllum fyrirvörum um að ég er enn að kynna mér málið og þekki þessa hluti ekki mjög vel, hvort þetta hafi einhver áhrif á notendur eða hvort það komi til með að hafa einhverjar afleiðingar sem ýmist kæmu niður á réttindum notenda eða væru réttindum þeirra til bóta. Mér er það óljóst. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti eitthvað frætt mig um það. Þetta virðist nefnilega ef maður lítur á þetta í samanburðarskjali þá er svolítið mikið tekið út og svolítið mikið sett inn.

Mér er alltaf óljóst í þessum málum í fljótu bragði hvaða áhrif það hefur á raunveruleg réttindi til framtíðar. Þegar um er að ræða breytingar í þessum málaflokki virðist vera tilhneiging til að gera breytingar sem hafa ófyrirséðar afleiðingar á réttindi notenda, eitthvað sem er ekki alveg ljóst þegar frumvörpin eru samin. Vissulega erum við viðbúin þessum vandamálum þegar kemur að almannatryggingamálinu og þeim hluta málaflokksins, en mér er það ekki ljóst þegar kemur að þessum hluta, þ.e. þessum fjármálalega, fjárlagalega eða þeim þætti sem varða fjármálin og rekstrarstöðuna og allt það. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti frætt mig eitthvað um það.



[15:40]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrirsjáanleikann og hvaða áhrif þetta hafi held ég að sannarlega sé hægt að finna það út með því að fara yfir málið að ákveðnum gefnum forsendum til að sjá hvaða áhrif þetta muni hafa. Um það er held ég ekki neinn vafi, en það þarf að gefa sér tíma í þá vinnu. Það þekkjum við bæði úr nefndavinnu á þinginu að það tekur sinn tíma að komast inn í mál, velta upp ólíkum spurningum og teikna upp ólíkar sviðsmyndir. Það er það sem vinna okkar gengur út á. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir þessu af því ég hef ekki náð að kynna mér þetta sérstaklega vel. Og áðan var afgreitt hingað inn frumvarp til fjáraukalaga sem ég hef verið að reyna að kynna mér, var tekið á dagskrá með afbrigðum. Það er með engu móti að maður komi hingað sæmilega búinn til leiks, hvað þá að hægt sé að afgreiða málin á nokkrum dögum.

Áhrifin eru mismunandi eftir því á hvaða aldri fólk er og hversu mikið það fer á milli markaða, þ.e. hins opinbera og hins almenna. Ég held að það sé mjög mismunandi hvaða áhrif þetta hafi. Kannski er þetta allt til bóta. Ég hef bara ekki neinar forsendur til að meta það á þessari stundu.

Síðan fer málið til fjárlaganefndar, það er rétt. Þar undir heyra lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. En nú eiga þau réttindi að fara inn í lög um lífeyrissjóði sem heyra undir efnahagsnefnd. Svo erum við í velferðarnefnd með almannatryggingakerfið. Það er auðvitað þannig að lífeyriskerfi landsmanna er í þremur stoðum, almannatryggingastoðinni sem ein nefnd er að fjalla um, lífeyrissjóðunum sem fjárlaganefnd á að fara að fjalla um og síðan erum við með séreignarsparnaðinn sem er núna (Forseti hringir.) í efnahags- og viðskiptanefnd og er verið að gera að einhvers konar húsnæðissparnaði. Þessi grundvallarréttindi (Forseti hringir.) verða núna í þremur nefndum en ekki samræmdu vinnuferli. Það er ekki (Forseti hringir.) heppilegt.



[15:43]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir hennar ræðu. Eins og efni máls standa til, þetta er mjög yfirgripsmikið mál, þá kom hún víða við í ræðu sinni enda annað nálega óumflýjanlegt.

Mig langar að halda áfram þaðan sem frá var horfið í síðasta andsvari og einnig um það sem ég kom inn á í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag, en það er um samspil þessara ólíku kerfa sem saman halda utan um lífeyri fólks, sem er auðvitað alveg gríðarlega mikilvægt mál því að þetta er framfærsla fólks. Ég er þess vegna sammála hv. þingmanni um að við verðum að vanda mjög til verka.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að það verði að rýna þessi tvö mál saman, því að líkt og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni verður að skoða þetta með kynslóðagleraugum en einnig kynjagleraugum. Hún hefndi stórar kvennastéttir, svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Það er einmitt í þessum stóru kvennastéttum sem nýgengi örorku er hvað hæst, hjá konum sem fara á örorku rétt áður en kemur að lífeyrisaldri. Ég spyr hvort við verðum ekki að skoða þetta samspil milli örorku, lífeyris og breytinga á lífeyrisaldri. Hvort við verðum ekki að nálgast þetta heildstætt og hvort okkur beri ekki í raun skylda til þess.



[15:45]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að við þurfum að skoða samspil þessara ólíku kerfa. Varðandi breytingar á lögum um almannatryggingar er einmitt verið að leggja upp með að lífeyrisaldur verði 70 ár. Hér er verið að færa hann úr 65 upp í 67, það er sem sagt verið að keyra annað prógramm. Okkur var sagt við kynningu á þessu að það væri síðan næsta skref. Mér finnst mjög óheppilegt að við séum að stíga ólík skref í þróun þessara kerfa samtímis í ólíkum nefndum þingsins.

Það hefur líka komið fram, í umfjöllun okkar um almannatryggingarnar, að með hækkun lífeyrisaldurs upp í 70 ár munum við auka allverulega nýgengi örorku, því að við hvert ár umfram 60 fjölgar þeim sem eiga við sjúkdóma að stríða og verða að draga allverulega úr vinnu eða yfirgefa vinnumarkaðinn. Þá mun örorkubyrðin aukast á lífeyrissjóðunum.

Nú veit ég ekki hvaða áhrif það hefur á stöðu sjóðanna hvort ég byrja 67 ára að taka ellilífeyri eða örorkulífeyri út úr lífeyrissjóðunum. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða, tryggingastærðfræðilegar forsendur þar. Þetta hefur auðvitað áhrif á mismunandi lífeyrissjóði.

Eins og ég sagði áðan er margt undir í þessu. Við verðum einhvern veginn að afmarka okkur af því að við verðum að taka einn bita í einu. En við verðum að hafa heildarmyndina til að ákveða hvaða skref við treystum okkur til þess að stíga hverju sinni.



[15:47]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta með fílinn og bitana og hvar eigi að byrja að bíta og byrja að vinna, þetta er stórt og umfangsmikið. Það verður, held ég, ekki endurtekið nógu oft hversu mikilvægt þetta er og hve miklu máli skiptir að vandað sé til verka. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson minntist einnig, í andsvari áðan, á hinar ófyrirséðu afleiðingar. Ég held að þar þurfum við að vera mjög vel vakandi því að í almannatryggingakerfinu er gert ráð fyrir því að fólk geti farið á hálfan lífeyri frá lífeyrissjóðunum og hálfan lífeyri úr almannatryggingakerfinu, og svo blandast inn í það ólíkur lífeyristökualdur, þannig að við erum komin með rosalega margar ólíkar breytur sem þarf að reyna að hafa stjórn á til þess hreinlega að vita hvaða áhrif þetta kemur allt til með að hafa á lifibrauð fólks. Svo það er ekkert smáræði sem er undir.

Hv. þingmaður minntist hér áðan á milliþinganefnd. Nú verð ég að játa að ég hef ekki af þeim neina reynslu og hv. þingmaður nefndi milliþinganefnd fyrir almannatryggingafrumvarpið og einnig fyrir þetta lífeyrisfrumvarp þar sem það liggur fyrir að þetta fer inn í tvær ólíkar þingnefndir og réttilega er þriðja málið hjá þriðju þingnefndinni. Þarf ekki að vera einhver sem síðan rýnir þetta heildstætt? Þarf ekki að vera (Forseti hringir.) einhver samgangur þarna á milli nefnda til að við náum utan um þessar gígantísku breytingar sem við erum þó flest að einhverju marki sammála um að séu mikilvægar?



[15:50]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel tvímælalaust að nú, þegar allar þrjár stoðir lífeyriskerfisins eru undir, til breytinga á Alþingi, þurfi að skoða það heildstætt. Varðandi þessa vinnu við almannatryggingarnar og áhrifin inn í lífeyrissjóðina þá er vinnan þannig að þegar við fáum frumvarp til nefnda byrjum við á að fá kynningu frá ráðuneytinu, sendum frumvörpin síðan út til umsagnar, fáum gesti og smám saman fer maður dýpra og dýpra í málin. Við erum komin áleiðis í því í velferðarnefnd. Það er ýmislegt sem maður sér þarna eins og til dæmis með þennan hálfa lífeyri sem á að vera hægt að taka, en það er mjög illframkvæmanlegt mál, verður nánast ógjörningur að framkvæma það. Við fórum að spyrja okkur: Af hverju er verið að hækka þetta upp í 70 ár? Við erum með hagfelldari aldurssamsetningu en aðrar þjóðir, ætlum við líka að vera með hæsta lífeyrisaldurinn? Ég hef ekki fengið almennileg svör við því.

Einhverjir hafa sagt við mig: Það er af því að lífeyrissjóðirnir vildu það því að tryggingastærðfræðilega skiptir það máli fyrir þá. Það kom ekkert sérstaklega fram í máli Landssambands lífeyrissjóða þegar fulltrúar þaðan komu fyrir nefndina. Hins vegar sér maður, þegar maður skoðar útreikningana, að með þessari hækkun lífeyrisaldurs mun kostnaðurinn af henni sléttast út eftir 10 ár út af hækkun á lífeyrisaldri. Það eru engin sérstök haldbær rök þarna. (Forseti hringir.) Við erum svo með frumvarp sem gerir ekki ráð fyrir þessari breytingu. Við þurfum bara að taka okkur tíma og við (Forseti hringir.) þurfum að skoða þetta allt saman um leið og við berum virðingu fyrir allri þeirri vinnu sem hefur verið lögð í þetta af ýmsum aðilum.



[15:52]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er frekar jákvæð gagnvart þessu máli. Mér hefur fundist mjög mikilvægt að búið væri til eitt samræmt lífeyriskerfi þar sem almenni markaðurinn og opinberi markaðurinn sætu við sama borð. En það er alveg ljóst að það eru ýmsar áskoranir hérna og þetta mál þarf að fá góða umfjöllun.

Eitt af því sem talað er um er að það eigi að jafna launakjör á milli opinbera og almenna markaðarins. Það er auðvitað mjög mikilvægt þegar við erum að búa til samræmt lífeyrissjóðakerfi. En það er á sama tíma mjög flókið verkefni. Laun og kjör eru kannski ekki alveg sami hluturinn. Við erum með stórar stéttir sem eru í raun bara hjá hinu opinbera og þar af leiðandi er erfitt að bera þær saman við eða finna sambærilegar stéttir á almenna markaðnum. Þetta eru gjarnan stórar kvennastéttir. Eins og hefur verið komið inn á í fyrri ræðum hefur okkur tekist illa að jafna launamun kynjanna, eiginlega alveg ótrúlega illa. Þá getur maður nú ímyndað sér hvað þetta gæti orðið flókið. En við erum líka með alls konar réttindi hjá sumum opinberum stéttum, ákveðin réttindi sem flokkast sem launakjör, getum við sagt, þó að það séu ekki beinlínis peningar í vasann. Hvernig á að reikna það út, t.d. það að geta farið í námsleyfi? Atvinnuöryggi er líka annað sem sumar stéttir búa við að miklu leyti en aðrar alls ekki. Ákveðin stétt hjá hinu opinbera hefur t.d. tök á því að fá leyfi frá störfum í ákveðinn tíma, jafnvel til að sinna þingstörfum eða einhverju öðru. Aðrar stéttir hafa það ekki. Þetta er meiri háttar flókið mál.

Ég væri mjög fylgjandi því ef menn mundu virkilega fara í þá vinnu að jafna launakjör því að það á ekki að skipta máli hvort fólk er á almennum markaði eða hjá hinu opinbera og að laun verði kannski einfaldari og þar af leiðandi auðveldara að bera þau saman. Það er stundum verið að flækja málin og í kjarasamningum eru jafnvel stéttir, í staðinn fyrir að semja um að hækka launin, að semja um aðra þætti. Þegar við ætlum síðan að jafna þennan mun getur það reynst verulega flókið. Ég held að það sé líka tækifæri til að fara aðeins í gegnum þetta og minnka kannski flækjustigið. Í einhverjum tilfellum hafa t.d. stéttir samið um það við hið opinbera að fá einfaldlega betri lífeyrisréttindi. Þá erum við hreinlega að velta boltanum inn í framtíðina.

Ástæðan fyrir því að ég er mjög hlynnt þessu er fyrst og fremst sú að við erum að búa til kerfi sem er sjálfbært. Þá er ég að sjálfsögðu ekki að segja að það geti ekki verið einhverjar hindranir í vegi. Ég sá t.d. að bent var á að breyting yfir í aldurstengdar áherslur réttinda gæti komið niður á langskólagengnum og þá kannski frekar konum. Það eru alls konar svona þættir sem við þurfum að horfa til.

En það sem skiptir máli er að búa til sjálfbært kerfi þar sem sérstaklega hið opinbera veitir ekki meiri þjónustu en það hefur efni á á hverjum tíma, að það verði ekkert til sem heiti að ýta vandanum inn í framtíðina. Við vitum hvernig staðan er með t.d. B-deildina og A-deildina sem átti að vera sjálfbær en er það nú ekki alveg. B-deildin er þannig að ef ekkert yrði gert færu að falla árið 2030 margir milljarðar á ríkissjóð á hverju ári til að standa undir þeirri ábyrgð sem þar er. Það er mikill ábyrgðarhluti af okkur að takast ekki á við vandamálin hér og nú og það er það sem mér sýnist menn vera að reyna að gera hér.

Ég ætla því að fara í þessa vinnu þokkalega bjartsýn. Það er mikil vinna sem hefur farið fram. Maður hefur heyrt að einstaka stéttir séu ósáttar og ég þarf að kynna mér það nánar, enda fer þetta mál væntanlega til fjárlaganefndar og við erum bara að ræða það í 1. umr., maður hefur t.d. heyrt það með lögreglumenn og -konur. Ég hef reyndar samúð með þeirri stétt sem hefur samið frá sér verkfallsréttinn en virðist ekki njóta þess síðan í kjörum. Það er margt sem þarf að taka tillit til, það er ljóst.

Hins vegar liggur fyrir að breytingin mun koma misjafnlega út fyrir fólk. Við fengum dæmi um það. Ég vona að þegar við förum að ræða málin fáum við dæmi um hvernig þetta getur komið út fyrir ýmsa hópa. Dæmið sem var nefnt þegar við fengum kynningu á þessu var t.d. að það er munur á því hvort starfsmaður sem fer út á vinnumarkaðinn byrjar hjá hinu opinbera og færir sig svo yfir á almenna markaðinn eftir fertugt eða byrjar á almenna markaðnum og fer yfir í opinbera geirann um fertugt. Þá vinnur viðkomandi sér inn miklu betri réttindi eins og staðan er í dag. Ég held að við eigum að passa að það sé ekkert í kerfinu sem geri að verkum að fólk festist einhvers staðar. Við viljum auka sveigjanleika þannig að fólk geti farið á milli, frá hinu opinbera yfir á almenna markaðinn og aftur til hins opinbera eða hvernig sem það er, og tapi aldrei réttindum á því. Mér finnst það algert grundvallaratriði. Svo þekkjum við það örugglega mörg í kringum okkur að ef lífeyrissjóðir sem eru á almenna markaðnum fjárfesta illa eða lenda einhvern veginn illa í því bitnar það á sjóðfélögum. Það er fullkomlega eðlilegt að fólki sem er á almenna markaðnum finnist það óréttlátt. Það er ekki eins og sjóðfélagi hafi einhver stórkostleg áhrif á hvað er að gerast í lífeyrissjóðunum. Ég þekki dæmi um lífeyrissjóð þar sem hámenntað fólk hefur valist í stjórnir og lífeyrissjóðirnir fóru eiginlega á hausinn í hruninu. Þá sitja sjóðfélagar uppi með tjónið og ríkið bætir það ekkert, ólíkt því sem gerist í opinbera geiranum.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri og mun fylgja málinu eftir og skoða það í fjárlaganefnd. Tíminn er knappur. Samkvæmt starfsáætlun á þingi að ljúka í næstu viku. Mér finnst það mjög bagalegt hve mörg mál, mörg góð mál, eru að koma inn á þessum síðustu dögum. En ég ætla að leyfa mér að trúa því að þó að þau mörg hver klárist ekki verði tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið þegar ný stjórn tekur við, vonandi í nóvember.



[16:01]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður hefur óneitanlega talsvert meira vit á þessu máli en ég. Ég hef afskaplega lítið vit á þessum hluta en á vonandi eftir að gefa mér meiri tíma til þess að kynna mér það áður en það er afgreitt endanlega. En ég verð að segja eins og er að þegar kemur að þessum málaflokki snúast áhyggjur mínar um hvernig hann skarast við annað mál sem er almannatryggingamálið. Hv. 3. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður sagði áðan að það væri aðallega hvað varðaði lífeyristökualdurinn. En eins og fram kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra fer málið til hv. fjárlaganefndar en ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd. Við erum að vísu með áheyrnarfulltrúa í fjárlaganefnd án atkvæðisréttar. Ég verð að segja eins og er að mér hefði þótt betra að málið færi til velferðarnefndar ef ég ætlaði að fara að tileinka mér djúpstæðan skilning á því. Ég hef smávægilegar áhyggjur af því að þessi mál fari svolítið vítt og breitt inni á þinginu og séu ekki rædd á sama sviði. Þá missum við kannski af einhverju samhengi sem gæti verið mikilvægt. Oft kemur það ekkert upp fyrr en við nefndarstörfin sjálf, þá kemur kannski í ljós að málin skarast að einhverju leyti og það jafnvel mikilvægu.

Það hræddi mig pínulítið í ræðu hv. þingmanns þegar hún sagði að þetta kæmi einhvern veginn misjafnlega niður á fólki eða væri hætt við því. Nefndi hv. þingmaður lögreglumenn í því sambandi. Það vekur mér pínulítinn ugg. Mér finnst mikilvægt að allt komi fram sem þarf að koma fram um á hverjum þetta gæti bitnað ef það liggur fyrir nú þegar. Það er annað sem ég veit ekki. Ég þigg með þökkum allt sem hv. þingmaður getur frætt okkur um í því efni.



[16:03]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að ef þetta mál skarast við eitthvert annað mál er það ekki gott. En mér finnst við hljóta að geta hugsað í lausnum. Ég hef aldrei skilið af hverju má ekki halda sameiginlega nefndafundi og vera þá svolítið opin gagnvart því t.d. ef við tökum þetta mál fyrir að velferðarnefnd þá boðið á fundi og þar fram eftir götunum. Ég held að við þurfum bara að vera opin fyrir því. Við höfum alveg gert það í tengslum við fjárlögin þegar málefnin heyra undir aðrar nefndir.

Ég veit svo sem ekki enn þá hvernig þetta mun bitna á fólki. Þess vegna munum við kalla eftir raunverulegum dæmum. En ég get alveg trúað að það sé eitthvað til í því að þetta kerfi geti komið verr við þá sem fara seinna út á vinnumarkaðinn, fólk sem er lengur í námi, sem eru í dag konur, jafnvel í meiri hluta, kvennastéttir, hjúkrunarfræðingar og aðrar slíkar stéttir. Það þarf að skoða hvernig það kemur við þær stéttir. Það má þá að sama skapi segja, eins og þingmaður talar um, að þetta geti stangast á við mál sem eru í velferðarnefnd. Það er líka verið er að ræða Lánasjóð íslenskra námsmanna og hvernig haga eigi öllu varðandi námsmenn. Það getur vel verið að það skarist líka einhvern veginn við þetta mál. Þetta er risastórt. En mér finnst þetta áhugavert. Ég er svo ánægð að þetta sé að minnsta kosti komið á þennan stað. Málið hefur lengi verið í bígerð og gríðarlega mikil vinna þarna á bak við. Við þurfum að horfa á þetta með mjög gagnrýnum augum og reyna að bæta það. En ég verð að viðurkenna að ég held að það þurfi að gera kerfisbreytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Það er í raun ótrúlega gott að ríkið geti núna sett 100 milljarða inn í kerfið. Það er ekkert víst að það verði hægt (Forseti hringir.) eftir sjö ár þannig að við getum ekki þráttað um það í mörg ár. (Forseti hringir.) En auðvitað verðum við að tryggja að þetta sé gott mál þegar við sleppum því út úr þinginu.



[16:05]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er rétt ef það er metið er út frá efni frumvarpsins og þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar m.a. af hæstv. fjármálaráðherra, að talsverð vinna liggur á bakvið þetta, sem er auðvitað gott og sér í lagi mikilvægt þegar kemur að þessum málaflokki. Hins vegar hjálpar það ekki þegar við nálgumst kosningar og þinglok að fá inn mál sem er þó ofboðslega vel unnið en það er líka ofboðslega mikið unnið. Það þýðir að það er þá meira sem þingmenn þurfa að setja sig inn í ef þeir eru ekki inni í málaflokknum þá þegar, sem er vissulega raunin í tilfelli þess sem hér stendur. Það krefst meiri tíma að fara yfir meira efni. Og því meira sem það er unnið, því meira þarf að skoða, jafnvel þótt það sé bara að kanna hvort niðurstöður þeirra ýmsu hópa og sérfræðinga sem koma að málunum samræmist pólitískum markmiðum hverju sinni, sem er ekki endilega augljóst fyrir fram, hvað þá þegar svo lítið er eftir af þinginu og svo mörg stór mál eru til umræðu.

Hv. þingmaður kom inn á aðra tengingu, þ.e. hvenær fólk kemur inn í kerfið. Það er önnur tenging sem við höfum lauslega rætt í velferðarnefnd í sambandi við almannatryggingamálið. Mér finnst það undirstrika að þetta mál þurfi í raun að vera rætt á báðum stöðum. Sumt af þessu eru mjög sambærilegar áhyggjur, sambærilegar áskoranir. Þótt hér sé tekist á um tiltekinn þátt tiltekins kerfis, nefnilega fjármálalegar undirstöður, þá er það samt sem áður þannig að ef það hefur áhrif á réttindi fólks hlýtur það líka að eiga heima í velferðarnefnd. Án þess að ég ætli að stinga upp á því með einhverjum formlegum hætti hér, alla vega ekki án þess að ráðfæra mig við aðra þingmenn utan pontunnar, velti ég fyrir mér hvort málið þurfi ekki líka að fá umsögn hv. velferðarnefndar í fjárlaganefnd þannig að fjárlaganefnd geti þá tekið tillit til þeirra álitamála sem koma upp í sambandi við velferðarhlutann af þessu öllu saman.



[16:07]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já. Það er hárrétt sem þingmaðurinn segir. Ég áttaði mig ekki á því í fyrra andsvari mínu að auðvitað er oft beðið um álit frá öðrum nefndum. Það væri klárlega við hæfi hér. Mér finnst þetta snúast fyrst og fremst um að jafna lífeyrisréttindi og jafna launamun á milli opinbera og almenna kerfisins. Það er stórmál. Ég skil að vissu leyti þær áhyggjur sem viðraðar hafa verið varðandi það að við ætlum að reyna að hífa upp laun opinberra starfsmanna þannig að þau jafnist á við laun á almenna markaðnum. En getum við einhvern veginn treyst því að það heppnist? Erum við ekki búin að vera að reyna að jafna launamun kynjanna heillengi?

Það að verkalýðsfélögin, opinber og á almennum markaði, hafi komið sér saman um og séu búin að fara í þessa vinnu og eru sátt við þetta að miklu leyti finnst mér sýna að þetta mál hefur verið vel unnið. Auðvitað á maður að vera gagnrýninn á málið en þó að það komi núna frá þessum stjórnvöldum á þessum tíma vil ég alla vega halda í bjartsýnina og segja: Byrjum að vinna þetta. Það sem er vont er að ríkisstjórnin hendir inn fullt af risastórum málum og hefur enn ekki sagt okkur hvaða mál eiga að vera í forgangi. Það er það sem mér finnst óþægilegt. Ef það væri bara þetta mál og einhver tvö önnur gætum við kannski einhent okkur í þau, en við erum með svo mikið undir að mér sem þingmanni fallast eiginlega hendur. Ég veit varla hvar ég á að byrja varðandi það allt. Það væri mjög gott skref ef stjórnvöld færu núna að kalla okkur á fund og segðu: Þetta eru málin sem við viljum klára. Ef þetta er eitt af þeim þá klárum við þetta mál. En varðandi öll hin málin sem eru líka undir veit ég bara ekki.



[16:10]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður segir, sem er ábyggilega rétt og hefur verið margsagt í dag, að þetta hafi verið unnið í mörg ár og sé samkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins. Samt snertir þetta fyrst og fremst lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna og síðan á einhvern veginn að reyna að jafna launakjörin hjá ríkinu, hjá hinu opinbera, og á almenna vinnumarkaðnum. En svo eigum við sem munum bera hina endanlegu ábyrgð að afgreiða þetta á einni viku. Nú er oft borið saman starfið hér á Alþingi okkar Íslendinga og til dæmis starfsvenjur í nágrannalöndunum. Við viljum gjarnan miða okkur við önnur norræn ríki. Þar eru t.d. gerðar miklu minni breytingar í þinginu á frumvörpum sem koma inn en hér tíðkast. Það má kannski segja að undirbúningur á þessu frumvarpi sé svolítið í anda þess sem þar þekkist og við eigum að þakka fyrir það.

Mér finnst þetta samt ansi bratt og langar að vita hvort þingmaðurinn deili því ekki með mér. Við eigum fyrir framtíðina, fyrir eftirlaun fólks í framtíðinni, að setja okkur inn í þetta á einni viku, því á endanum verður það Alþingi sem ber ábyrgðina. Það dugar þá ekkert að segja: Þetta var samkomulag aðila vinnumarkaðarins og kom hérna inn. Það er Alþingi sem ber ábyrgðina. Er ekki svolítið bratt að ætla að láta okkur gera þetta á einni viku?



[16:12]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek algerlega undir það sem hv. þingmaður segir, líka þetta með hvernig við fáum málin inn í þingið, hversu vel og illa unnin þau geta verið. Það er eins og sum frumvörp fari ekki einu sinni í almennilegt umsagnarferli eða að tekið sé tillit til alls konar atriða áður en þau koma til okkar. Þetta mál er einmitt ólíkt mörgum málum því að það hefur gríðarlega mikil vinna farið fram. En það breytir því ekki, eins og hv. þingmaður segir, að við berum ábyrgð á því og við þurfum líka að kalla eftir umsögnum og skoða það frá öllum hliðum. Ég veit ekki hvort við klárum þetta mál en ég lít svolítið þannig á það að við byrjum að vinna þetta og gerum það sem við getum. Sú vinna verður aldrei til einskis vegna þess að næsta ríkisstjórn heldur væntanlega áfram með málið. Kjósendur geta þá spurt flokkana út í það: Er þetta mál sem þið ætlið að halda áfram með? Ég ímynda mér að það sé vilji fyrir þessu máli úti í þjóðfélaginu. Við í fjárlaganefndinni vorum að fá fjáraukalögin. Við erum með opinber innkaup sem er mál sem við eigum eftir að klára. Skýrslan góða eða plaggið er nú komið úr okkar höndum. En eins og hv. þingmaður þekkir er nóg að gera í öllum nefndum. Það eru nokkrir dagar, fjórir þingdagar, þar til þingi lýkur. Ef við ætluðum að klára þetta mál væri það töluvert erfitt. Eins og ég sagði í andsvari áðan mundi það hjálpa mikið til á þessum punkti ef stjórnvöld eða ríkisstjórnin gæfi eitthvað út um hvað menn eru að hugsa, hvaða mál við eigum að leggja áherslu á á þinginu. Við erum með allt of mikið undir. En ég er eiginlega alveg viss um að hvort sem við náum að klára þetta eða vinnum það eitthvað verður þetta mál sem verður haldið áfram með af næstu ríkisstjórn. Ég yrði mjög hissa ef svo yrði ekki.



[16:14]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála þingmanninum um það. Ég vona, ég vil næstum segja, virðulegi forseti, að menn séu með réttu ráði og láti sér ekki detta í hug að þetta verði klárað á einni viku. En á hinn bóginn tel ég víst að málið verði tekið upp á næsta kjörtímabili. Það liggur ekki lífið á í þeim efnum.

Það varð umræða hérna áðan um hvaða nefndir fjölluðu um málið. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson lagði áherslu á að honum fyndist þurfa að fjalla um það í velferðarnefnd og í samhengi við frumvarpið um almannatryggingar. Ég er ekki alveg viss um það. Í velferðarnefnd er fjallað um almannatryggingar. Þetta er um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Þetta er ekki um okkur öll. Velferðarnefnd á að fjalla um það. Ég er alveg ósammála því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að einhvern tímann komi að því að við þurfum ekki að hugsa um almannatryggingar fyrir einhvern hóp fólks vegna þess að fólk verði búið að vinna sér inn lífeyrisréttindi. Ég er algerlega ósammála því. Auðvitað minnkar hluti almannatrygginga. Almannatryggingar eiga að vera fyrir okkur öll en ekki fyrir einhverja sem eru, ef ég leyfi mér að segja það, út undan í þjóðfélaginu. Almannatryggingar eru fyrir allt fólk. Svo eru sumir sem þurfa ekki að nota þær upp í topp. En þess vegna (Forseti hringir.) er ég alveg á móti því að þetta sé sérstakt velferðarplagg fyrir alla þjóðarheildina. Þetta er um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og við erum ekki öll starfsmenn þess.



[16:17]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski eins gott að ég er að fara að hætta á þingi því að ég er alltaf sammála síðasta ræðumanni. Mér fannst hv. þingmaður færa ágæt rök fyrir því að velferðarnefnd ætti ekkert að koma nálægt málinu. Hins vegar held ég að það sé alveg sársaukalaust í rauninni þegar kallað er eftir áliti annarra nefnda. Nefndin getur svolítið metið hvort hún telji ástæðu til þess. Það er svo sem ekkert verra að fá meiri upplýsingar.

Varðandi hvað þetta mál og mörg önnur stór mál koma seint inn vil ég minna á mikilvægi þess að þegar ráðherrar taka við völdum vindi þeir sér beint í málin og forgangsraði í ráðuneytum sínum. Við erum að fá mál sem ráðherrar hafa haft þrjú ár til þess að vinna. Þetta mál er ekki endilega eitt af þeim en ef við erum að tala um að þetta komi ofan í mörg stór mál er rétt að rifja það upp að menn eyddu gríðarlegu púðri í skuldaniðurfellinguna fyrsta árið og alls konar vitleysismál. Fyrsta málið var að hætta við að hækka skatta á gistingu sem fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið. Mér finnst menn ekki hafa verið með forgangsröðunina á hreinu.

Nú er svo komið að ríkisstjórnin ákveður sjálf að stytta kjörtímabilið og þá verður hún að lifa með því og forgangsraða hvaða málum hún ætlar að koma í gegn. Þetta mál kemur því miður, ofan í öll önnur málin, mjög seint inn. Ég er ekki bjartsýn á að við náum að klára það. Ef við ætlum að vera hérna í viku er alveg á hreinu að við gerum það ekki. Þá er spurningin: Ætlum við að vera hérna fram í kosningar? Hvaða stemning er fyrir því? Verða þingmenn á svæðinu? Það getur jafnvel verið erfitt að manna, fá ráðherrann í óundirbúnar fyrirspurnir og í störf þingsins, fá þingmenn til að vera hérna til að taka við fyrirspurnum ef maður óskar eftir því. Þetta tímahrak sem við erum komin í er ekki gott. En þessi ríkisstjórn hefur haft þrjú ár. Hún hefði getað gert ýmislegt miklu betur á þeim þremur árum.



[16:19]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar ég hóf nám við hinn ágæta skóla Menntaskólann við Hamrahlíð var reynt að koma þar á kerfisbreytingu, um haustið, hygg ég, sem fólst í því að nemendur við skólann skyldu upp frá þeirri stundu fara að stunda íþróttir í íþróttahúsi Vals á Hlíðarenda, sem þá var í heldur hrapallegu ásigkomulagi og langt frá skólanum. Þetta sætti mikilli gagnrýni og leiddi til þess að eitt þúsund nemendur skólans efndu til allsherjarsetuverkfalls sem ég hygg að hafi staðið í eina tvo daga og skólayfirvöld vissu ekki sitt rjúkandi ráð hvernig ætti við að fást. Eftir langar og strangar samningaviðræður varð niðurstaðan sú að skólayfirvöld féllu frá áformum sínum um að láta menntaskólanemendurna stunda leikfimi, en nemendurnir féllust hins vegar á að ekki yrðu gerðar athugasemdir við að nýnemar, sem kæmu í skólann upp frá því, þyrftu að stunda leikfimi. Þannig tókst smátt og smátt að koma því á að allir nemendur við skólann stunduðu leikfimi, en þeir sem voru í skólanum einmitt þarna, þegar átti að innleiða það, sluppu allir við það.

Það er ekki alveg laust við að mér hafi komið þessi svolítið vanheilagi samningur í hug þegar ég sá þetta samkomulag um lífeyrismálin, því að sumt virðist manni a.m.k. vera skylt. Auðvitað hafði maður alltaf vissar siðferðislegar efasemdir um þetta samkomulag sem gert var í MH forðum tíð. Það sem maður hefur áhyggjur af í þessu samkomulagi — sem er merkilegt og ég tel mikilvægt að þingið skoði það með jákvæðum huga og fari vel yfir það hvort það sé ekki raunverulega það mikilvæga framfaraskref sem að var stefnt — er að verið sé að fjármagna réttindi þeirra kynslóða sem sitja núna við borðið, okkar kynslóða kannski, þannig að þær kynslóðir sleppi vel frá þessu uppgjöri, en hins vegar verði réttindi þeirra kynslóða sem á eftir koma heldur rýrari fyrir vikið. Þannig væri það svolítið eðlisskylt samkomulaginu í MH um að þeir sem á eftir kæmu skyldu þurfa að fara í leikfimi — þó að það sé út af fyrir sig jákvætt að stunda leikfimi, ég segi það nú ekki, það er öllum mönnum hollt. Það hlýtur að vera það sem við hljótum fyrst og fremst að rýna í: Hallar hér á kynslóðirnar sem á eftir koma?

Auðvitað kann það líka að vera þannig að búið sé að veita þeim kynslóðum sem nú hafa áunnið sér þessi réttindi þau og það sé hvort eð er þannig að komandi kynslóðir þurfi að borga þau, ef ekki í rýrari réttindum sínum þá einfaldlega með hærri skattgreiðslum. Það held ég að hljóti að vera stærsta áhyggjuefnið þegar menn rýna þetta frumvarp. Við höfum séð alþjóðlega þróun í þessa veru og þinginu barst einmitt nýlega býsna athyglisverð skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra, sem við þingmenn Samfylkingarinnar kölluðum eftir síðasta vor, um stöðu ungu kynslóðarinnar. Það er margt sem bendir til þess að hún búi, ekki bara á Íslandi heldur víða um lönd, í raun og veru í fyrsta sinn við lakari efnahagsleg skilyrði, þegar hún er að stíga fyrstu skrefin á fullorðinsárum, en kynslóð foreldranna gerði. Það höfum við ekki séð áður sem almenna reglu að börnin búi við lakari kjör á ungdómsárum sínum en foreldrar þeirra gerðu þegar þau voru að koma sér upp heimili og fjölskyldu.

Það er býsna alvarleg þróun ef það er að gerast ekki bara á einu sviði heldur á mörgum sviðum. Það er klárlega að gerast í húsnæðismálunum. Engum blöðum er um það að fletta að þar eru skilyrði verri en þau hafa verið fyrir kynslóðirnar á undan. Það er sömuleiðis þannig að hlutur ungs fólks í atvinnutekjum er lægri en áður var, þ.e. þau eru einfaldlega með minna kaup. Einnig er ástæða til að hafa áhyggjur af því að verið er að draga úr hlutum eins og vaxtabótum og barnabætur eru hér fráleitt jafnöflugar og við gjarnan vildum. Það gefur enn ríkari ástæðu til að hafa áhyggjur af stöðu þessarar kynslóðar. Ekki er á það bætandi að lífeyrisréttindi þeirra verði líka lakari en foreldrakynslóðarinnar. Ég treysti því að rýnt verði vel í þetta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og skoðað hvaða áhrif þessar breytingar hafa á svokallaða kynslóðareikninga.

Hafandi sagt þessi almennu varnaðarorð þá hefur það auðvitað verið keppikefli margra, og okkar fólk í fjármálaráðuneytinu vann að því á sínum tíma, að reyna að leysa úr þessu verkefni, sem er að fjármagna verulega miklar lífeyrisskuldbindingar sem stofnað hefur verið til vegna A-deildarinnar. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að það skuli hafa tekist. Það eru auðvitað samningarnir við kröfuhafa sem sumpart skapa hin efnahagslegu skilyrði til þess að þetta sé núna unnt. Það var þannig að hinn 12. mars 2012 flutti þáverandi stjórnarmeirihluti frumvarp til laga sem bannaði að fjármunir slitabúanna yrðu fluttir úr landi. Í framhaldinu var farið í viðræður um það hvernig hægt væri að leysa úr þeim miklu eignasöfnum þannig að Ísland stæði efnahagslega sjálfstætt og sterkt eftir. Það gerir það nú og tækifæri er til þess í ár að leggja talsverða fjármuni inn og mikilvægt að nýta það einstaka tækifæri sem afkoma ríkissjóðs á yfirstandandi ári er.

Það er líka gleðiefni að svo mörg stéttarfélög, með svo ólíka hagsmuni, skuli hafa komist að heildarsamkomulagi um það hvernig leysa megi úr þessu máli. Það var sannarlega ekki auðvelt úrlausnarefni og full ástæða til að þakka þeim mörgu aðilum sem hafa komið að því að vinna úr þessu stóra og flókna máli þeirra framlag í því. Um leið er það því miður þannig að ákveðin stéttarfélög hafa lýst sig ósammála niðurstöðunni. Ég vil leggja ríka áherslu á að þó að þetta hafi verið samkomulag á milli heildarsamtaka sé eðlilegt að nefndin, sem fær þetta mál til umfjöllunar á milli umræðna, kalli á fulltrúa þeirra stéttarfélaga sem hafa lýst sig ósammála þessu samkomulagi og fái fram þeirra sjónarmið í málinu. Það eru stéttarfélög sem varða okkur Íslendinga miklu, velferðarþjónustu og öryggismál í landinu.

Við erum hér að tala um, ef ég hef skilið það rétt, lögreglumenn, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, stéttarfélag hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og e.t.v. fleiri félög sem hafa farið fram hjá mér eða hafa bæst nýlega í þennan hóp. Þetta eru slíkar lykilstéttir í okkar landi að það er algjörlega nauðsynlegt að fá fram sjónarmið þeirra og kanna sérstaklega hvort það eru einhverjir þættir sem sérstaklega lúta að vaktavinnu, eða réttindum sem tengjast slíkum ákvæðum, sem halli á í þessu samkomulagi, eða a.m.k. reyna að leita eftir því hvort það er eitthvað sem þessi félög eiga sammerkt og veldur því að þau eru ekki sátt við þessa niðurstöðu, hvort með einhverjum hætti væri hægt að koma til móts við þær athugasemdir sem þessi félög gera.

Það er ákaflega eftirsóknarvert, ef það er hægt, að jafna lífeyriskjör fyrir opinbera starfsmenn annars vegar og fyrir almennan vinnumarkað hins vegar. Það auðveldar bæði tilflutning fólks milli starfa hjá hinu opinbera og á einkamarkaðnum. Það er líka sjálfsögð krafa um jafnræði. Það veldur tortryggni hjá þeim sem vinna á hinum almenna vinnumarkaði að lífeyriskjör opinberra starfsmanna séu með einhverjum hætti betri, jafnvel þó svo að opinberir starfsmenn og hið opinbera útskýri það með því að kjörin á móti, fyrir vinnuna sjálfa, séu lakari hjá hinu opinbera en á hinum almenna markaði. Þá er það vefengt og miklu betra að þetta sé bæði gagnsætt og sömu kjör séu einfaldlega fyrir sambærileg störf, hvort sem þau eru unnin á almennum markaði eða einkamarkaði.

Hins vegar er ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af því að fyrirætlanir um að bæta kjör ákveðinna stétta sem fylgja þessu samkomulagi, að slíkar frómar óskir, liggur manni við að segja, gangi ekki eftir. Það er forsenda fyrir því að þetta gangi upp að ákveðinn tilflutningur verði í launum á þann hátt að tilteknar stéttir taki á vissu tímabili ákveðnum hækkunum umfram aðrar. Við höfum oft og einatt séð slík áform sem hafa að engu orðið. Þess vegna er mikilvægt að byggja það inn í fráganginn á þessu í þinginu að reyna að treysta umgjörð þessara áforma sem allra best þannig að þeir sem í hlut eiga geti haft sem mest traust á því að þau gangi eftir.

Um leið er mikilvægt að huga að því hvort sá aðskilnaður sem verið hefur milli lífeyrissjóða ýmissa opinberra aðila og lífeyrissjóða á almennum markaði sé óþarfur, hvort þetta eigi að gefa frekari færi á að hagræða í rekstri lífeyrissjóðakerfis okkar, sameina sjóði, gera þá að öflugri einingum, draga úr rekstrarkostnaði þeirra þannig að sem mest af þeim fjármunum sem þeir sýsla með geti farið til þess sem þeir voru stofnaðir um, að greiða lífeyri en ekki verja því í stjórnunarkostnað af nokkru tagi.

Við, jafnaðarmenn hér áður og fyrr, höfum talað fyrir hugmyndum um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Ég held að út af fyrir sig geti þeir nú verið eitthvað fleiri, en ég held hins vegar að þeir séu allt of margir eins og nú stendur og því miður er veruleg sóun sem fylgir þeim fjölda sjóða sem nú eru reknir og full ástæða til að huga að því að treysta enn betur réttindi sjóðfélaganna með því að hagræða sem mest í rekstri þeirra og jafnframt að leitast við að tryggja sjóðfélögum bein áhrif á stjórnir þeirra, kannski ekki með því að þeir kjósi alla stjórnina í sínum lífeyrissjóði en a.m.k. að sjóðfélagar fái að kjósa nokkra fulltrúa beinni kosningu sjálfir inn í stjórnir sjóðanna.



[16:34]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er að velta fyrir mér hugmynd hv. þingmanns, og þeirra jafnaðarmanna sem hann er í flokki með, um að hafa einn lífeyrissjóð fyrir alla. Mér finnst það áhugaverð hugmynd. Hins vegar hefur það oft verið gagnrýnt hér og talað um að lífeyrissjóðir á Íslandi hafi ofboðslega mikil umsvif, að þeir séu fyrirferðarmiklir í hagkerfinu og að það sé ekki endilega æskilegt fyrirkomulag.

Þá velti ég fyrir mér: Ef við værum með einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, sem ætti að sjá um þessar skuldbindingar og þarfir fyrir okkur öll, væri þá ekki um að ræða lífeyrissjóð sem hefði þvílík ítök í íslensku efnahagslífi að það væri orðið tvísýnt með það hvernig það ætti að ganga upp án þess að rótföst breyting yrði á því hvernig hagkerfið virkar? Getur hagkerfið þolað það að einn lífeyrissjóður verði fyrir alla landsmenn? Er það endilega efnahagslega skynsamlegt að einn risastór lífeyrissjóður, sem sjái um þarfir allra landsmanna, sé til staðar? Er það ekki ofboðslega mikil samþjöppun fjármálalegs valds? Þýðir það ekki að það sé þá sjóðurinn sem yrði yfirgripsmikið vald í íslenska kerfinu? Ég velti þessu fyrir mér.

Mér finnst sú hugmynd áhugaverð að hafa eitt kerfi fyrir alla en ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta yrði útfært. En það yrði vissulega skemmtilegra að tala um það en allar þessar mismunandi útfærslur sem við ræðum hér og reynum að finna lausnir á upp á hundruð milljarða eftir því sem ég fæ best séð.



[16:37]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að spurningar hv. þingmanns séu fullkomlega eðlilegar. Við verðum að hafa í huga, Íslendingar, að við erum aðeins 0,3 milljónir manna. Það eru einfaldlega engar forsendur fyrir því að reka allan þennan fjölda af lífeyrissjóðum sem við gerum fyrir svona fátt fólk. Það geta alveg verið sjónarmið að halda þurfi uppi einhverjum fjölbreytileika eða samkeppni, kannski vera með þrjá, fjóra sjóði eða eitthvað slíkt. En það er ekki grundvöllur fyrir fleiri en tveimur, þremur eða fjórum atvinnufyrirtækjum í öllum stærstu atvinnugreinum landsins og það sama á við um lífeyrissjóðina. Við erum ekki með 30 olíufélög eða tryggingafélög eða viðskiptabanka. Þetta er einfaldlega allt of lítið land til þess að einhver glóra sé í því rekstrarlega að haga því með þeim hætti.

Þegar við tölum um stóra sjóði getum við bara horft til frænda okkar Norðmanna sem hafa sýnt gríðarlega mikinn aga í sinni sjóðsöfnun og ávöxtun síns lífeyrissjóðs. Norski olíusjóðurinn er auðvitað lífeyrissjóður Norðmanna og þar er öllu safnað á einn stað. Það gerir að verkum að það er gríðarlega mikið aðhald og agi með fjárfestingum þess sjóðs og ávöxtunarstefnu hans. Ég held að við mættum sannarlega við því að auka mjög aðhald, aga og eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðanna á Íslandi, jafnhrapallega og fór fyrir fjárfestingum þeirra fyrir aðeins örfáum árum þegar gríðarlegar fjárhæðir urðu að engu fyrir augunum á okkur.



[16:39]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef efasemdir um slíkt kerfi, þ.e. ef það væri einn sjóður. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að ekki sé svigrúm fyrir meira en þrjú, fjögur fyrirtæki á þessum markaði í svona litlu landi, samanber bankakerfið kannski. En þá verður maður líka að velta fyrir sér hvort ekki sé best að við hugsum lífeyrisskuldbindingar meira út á við þannig að þær séu ekki lokaðar inni í þessu litla hagkerfi. Ég velti því fyrir mér.

Maður heyrir hér út um allt að lífeyrissjóðirnir kaupi upp mikið af fasteignum, þeir valdi fasteignabólu, sérstaklega þegar fjármagnið er fast innan fjármagnshafta. Við eldumst og það verður meira og meira vandamál eins og við sjáum af almannatryggingamálinu sem er til meðferðar í hv. velferðarnefnd. Vandinn heldur áfram að stækka, það vandamál að við þurfum að sjá fyrir fólki sem er orðið of gamalt til að vinna, fyrir utan það fólk sem á bara skilið að geta notið ævikvöldsins, eins og við jafnaðarmenn erum vissulega sammála um.

Mér finnst við hljóta að þurfa kerfi sem er annaðhvort ofboðslega umsvifamikið í íslensku hagkerfi gagnvart fasteignum og bara hagkerfinu almennt sem ég tel óhollt, og enn óhollara ef um er að ræða einn sjóð. Hv. þingmaður á kannski frekar við eitt kerfi, ég ætla ekkert að fara meira út í það, ég er ekki viss um að ég skilji pælinguna rétt ef ég á að segja alveg eins og er. Síðan er það hitt hvort við eigum ekki að leita meira út á við og reyna að tryggja framtíðarskuldbindingar erlendis þar sem markaðir eru stöðugri og meiri fyrirsjáanleiki en er hér á Íslandi. Er það kannski ekki tilfellið? Ég velti því fyrir mér.



[16:41]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Norski olíusjóðurinn, sem við nefndum áðan, er að öllu leyti, hygg ég, með fjárfestingar sínar utan Noregs, a.m.k. að mjög verulegu leyti. Það stafar af því að þar er um að ræða tímabundnar tekjur, kannski í einhverja áratugi, sem Norðmenn telja ástæðu til að ávaxta með þeim hætti. Það getur þess vegna verið hyggilegt, það fer eftir því hvaða fjármunir það eru.

Það er vinsæl skoðun nú að fara eigi með peninga lífeyrissjóðanna úr landi og ávaxta þá þar. Það hefur samt undrað mig í þeirri umræðu að unga kynslóðin skuli láta bjóða sér það, skuli ekki mótmæla því. Á meðan hæstu raunvextir í heimi eru á Íslandi og íbúðalánin hjá ungu fólki kalla á margfalt hærri vaxtagreiðslur í hverjum einasta mánuði hjá þeim en í nokkru öðru nálægu landi, hvers vegna ætti unga fólkið þá að fallast á að lánsfjármagnið sé flutt úr landi til að áfram sé hægt að halda uppi háum raunvöxtum á Íslandi?

Það er hagsmunamál gamla fólksins að fá að flytja peningana úr landi svo að hér sé takmarkað framboð af fjármunum og vextir áfram mjög háir. Hagsmunir ungu kynslóðarinnar virðast vera alveg augljósir í því að gamla fólkið fái einmitt ekki að fara með peningana sína úr landi og halda með þeim hætti raunvaxtastigi í landinu heldur eigi þessir peningar að vera hér til að fjármagna húsbyggingar fyrir nýjar kynslóðir á hagstæðum kjörum. Þetta, sem ég hefði haldið að væri einhver stærsta pólitíska efnahagslega álitamálið á Íslandi, ræðir ekki nokkur maður.



[16:43]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var mjög yfirgripsmikil og það sem stakk mig mest var þegar hv. þingmaður talaði um íþróttir í MH. Það er góð samlíking í sjálfu sér af því að þetta snýst um hvernig við ætlum að halda hlutunum gangandi.

Í Þýskalandi eru lífeyrissjóðakerfin gegnumstreysmislífeyrissjóðir eða gegnumstreymiskerfi þar sem peningurinn sem lagður er í lífeyrissjóðina á hverjum tíma borgar fyrir lífeyri þeirra sem eru á lífeyri á sama tíma. Það sem lagt er upp með hér er í raun uppsafnaður lífeyrir, uppsafnað lífeyriskerfi, þar sem hver og einn á að standa undir sjálfum sér í framtíðinni. Það eru gallar og kostir við kerfin tvö.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann hyggi að ekki væri mögulega betra að vera með einfalt gegnumstreymiskerfi þar sem iðgjöldin og framlag til lífeyrissjóðanna væru lægri, væru metin á hverjum tíma og að það væri ákveðinn samfélagssáttmáli um að við sæjum um hvert annað á þeim tíma sem við lifum, í stað þess að vera að reyna að spara fram í tímann. Ég legg inn í minn lífeyrissjóð, ég er ekki 67 ára eftir 40 ár, ég verð 67 ára eftir alla vega 41 ár. Fyrir mig er það mjög langur tími.

Ég spyr: Er ekki betra að reyna að hugsa um nútíðina í stað þess að vera að hugsa svona langt fram í tímann? Það er spurning mín.



[16:45]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að þetta eigi að vera blanda af báðum þessum hlutum. Ég held að almannatryggingar eigi að vera fyrir alla og vera gegnumstreymiskerfi, en sjóðsöfnun í lífeyrissjóðum eigi að bætast þar við. Ég hygg nú að þótt verulegur hluti lífeyriskerfisins sé í gegnumstreymiskerfi í Þýskalandi þá höfum við líka stór og öflug söfnunarkerfi eins og Allianz er besta dæmið um. Í Þýskalandi er það raunar þannig að þýskir lífeyrissjóðir eiga um helminginn af öllu húsnæði, hygg ég að ég fari rétt með, og reki að meira eða minna leyti sem leigufélög. Það er kannski það hlutverk sem hefur verið uppistaðan í lífeyriskerfum bæði á Íslandi og annars staðar. Mér finnst allt of mikil viðleitni hjá lífeyrissjóðunum til þess að reyna berjast frá því og yfir í einhver markaðsviðskipti. Lífeyrissjóðakerfið hefur fjármagnað lán til íbúðarhúsnæðis í landinu. Það eru um 2 þús. milljarðar í lífeyrissjóðakerfinu. Heimilin í landinu skulda 2 þús. milljarða. Það er pólitísk og samfélagsleg ákvörðun hversu miklar vaxtakröfur lífeyrissjóðirnir okkar sjálfra ætla að gera á húsnæðislánin okkar af því að þetta leggst á okkur á ólíkum tímum ævinnar. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við höfum verið að gera allt of háar ávöxtunarkröfur á ungu kynslóðina og að fyrst og fremst þurfi að endurskoða þann þátt.

En varðandi spurninguna held ég að við eigum að hafa blöndu af gegnumstreymiskerfi í almannatryggingunum og síðan sjóðasöfnun þar til viðbótar.



[16:47]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Ég hygg að ég sé að miklu leyti sammála hv. þingmanni varðandi þetta, það væri náttúrlega best að vera með eins konar blöndu. En er þetta frumvarp ekki í raun það skref sem við þurfum að taka? Núverandi fyrirkomulag um lífeyri í A-deild LSR er frekar fáránlegt, það verður bara að viðurkennast, þannig að það er alveg kominn tími til að við endurskoðum forsendurnar fyrir því hvernig þetta er fjármagnað og líka hver lífeyrisréttindi fólks eru, af því að það er svolítið sérstakt að einstakar stéttir hafa það miklu betra en aðrar.

Ég spyr hvort það séu ekki þeir sem fá hvað mest út úr núverandi kerfi sem munu þurfa að taka skerðingu, af því að þeir fá svo miklu meira en manneskja sem rak sitt eigið fyrirtæki alla ævi, eins og t.d. afi minn og amma sem eru nú upp á tryggingakerfið komin og ekki er það nú nógu gott.

Á heildina litið, er þetta að mati hv. þingmanns skref í þá átt að leiðrétta ákveðinn ójöfnuð sem myndast hefur í kerfinu og er í raun skapaður af kerfinu sjálfu? Við megum ekki gleyma því að við erum að búa til lög um lífeyrissjóð, lífeyrissjóðinn okkar. Það eru ekki allir sem hafa þau forréttindi. Er þetta jöfnunarskref eða hvað?



[16:49]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé jöfnunarskref. Ég held hins vegar að lífeyriskerfi okkar einkennist því miður allt of mikið af ójöfnuði, dæmin sem við höfum fyrir okkur um það eru allt of sterk.

En aftur að þessu með söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og gegnumstreymissjóði. Eftir hrun voru lífeyrissjóðirnir meira og minna þjóðnýttir. Í raun og veru breyttust þeir á tiltölulega stuttum tíma í gegnumstreymissjóði en hafa kannski að uppistöðu til verið það fyrir vegna þess að uppistaðan í eignum þeirra var náttúrlega bara skuldaviðurkenningar sem gefnar voru út af opinberum aðilum á Íslandi. Hver er munurinn á því að vera með lífeyrissjóð sem segist eiga fyrir framtíðarskuldbindingum sínum og það sem hann á er bara skuldabréf á ríkissjóð og sveitarfélög, eða að vera með sjóð sem segist hafa skuldbindingu hins opinbera til þess að borga lífeyri í framtíðinni? Í raun er hvort tveggja bara gegnumstreymissjóðir til framtíðar þannig að um eiginlega sjóðasöfnun verður ekki að ræða nema um sé að ræða eignir í öðru en opinberum pappírum eða erlendar eignir, eins og við ræddum í andsvörum áðan.

Það má spyrja sig að því hversu skynsamlegt það sé fyrir ríkið hafa yfir höfuð milligöngu um það. Átti ríkið til að mynda að vera með Íbúðalánasjóð sem hafði milligöngu um að lífeyrissjóðirnir lánuðu sínum eigin sjóðfélögum, og taka síðan á sig 200–300 milljarða tap á þeim viðskiptum? Af hverju eiga lífeyrissjóðirnir bara ekki að annast þær íbúðalánaveitingar til sinna eigin sjóðfélaga með beinum hætti? Maður spyr sig.



[16:52]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er nú tvímælalaust eitt af stærri málum sem komið hefur á borð okkar þingmanna á þessu þingi og jafnvel þótt fleiri þing væru tekin. Málið er eiginlega mjög stórt af tveimur ástæðum. Annars vegar er það af því að tölurnar í því eru mjög stórar, hér er um að ræða ráðstafanir í hagkerfinu upp á 100 milljarða plús/mínus, og svo er þetta auðvitað stórt mál og búið að vera lengi eitt af stóru málunum í lífeyrismálum okkar og ein af stóru framtíðarspurningunum um lífeyriskerfið í landinu. Að sjálfsögðu er það fagnaðarefni svo langt sem það nær að hér sé komin niðurstaða eftir áralangar viðræður og viðleitni til að ná að borðinu og samræma lífeyrisréttindin, lífeyrisréttindaávinnsluna í landinu og gera kerfið einsleitara en áður var. Þeir sem lengi hafa fylgst með þessum málum vita náttúrlega af spennunni sem verið hefur oft uppi milli almenna vinnumarkaðarins og almennu lífeyrissjóðanna annars vegar og opinbera vinnumarkaðarins og opinberra lífeyrissjóða hins vegar.

Menn hafa lengi rætt um að samræma þetta og hugmyndirnar verið af ýmsum toga, allt upp í að búa til einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Það er í sjálfu sér ekki aðalatriði málsins hvort lífeyrissjóður eru einn, tveir eða fleiri, heldur eru það lífeyrisréttindin og réttindaávinnslan sem er stóra málið í þeim efnum.

Ég vil taka það skýrt fram þó ég muni hér á eftir viðra ýmsar efasemdir um þetta mál og sérstaklega einhverja flýtiafgreiðslu á því að ég er að sjálfsögðu eindreginn stuðningsmaður þess að við jöfnum lífeyrisréttindi landsmanna og byggjum vinnumarkaðinn og síðan samfélagið á einsleitri réttindaávinnslu þannig að staða manna sé sem allra jöfnust óháð því hvort þeir eru á almennum eða opinberum vinnumarkaði, hafi þar af leiðandi ekki teljandi áhrif þótt þeir færi sig á milli né á hvaða skeiði ævinnar það er. Það hljóta allir að sjá að þetta er stórkostleg framför fyrir alla, fyrir þá sem eru á vinnumarkaði, fyrir þá sem í hlut eiga þannig, en líka fyrir vinnuveitendurna og atvinnulífið og hið opinbera.

Árið 2009 sammæltust menn um það í tengslum við svokallaða stöðugleikasamninga, sem margt gott leiddu með sér, að setja kraft í þessa vinnu. Ég fylgdist með henni næstu árin og reyndi að leggja því lið að þetta væri unnið áfram, en niðurstaðan var alltaf lengi vel að það væri samt skynsamlegra að gefa hlutunum tíma heldur en keyra eitthvað áfram með offorsi. Sú hefur líka orðið raunin á í tíð núverandi hæstv. fjármálaráðherra, hann hefur gefið þessu tíma í yfir þrjú ár og samkomulag náðist nú á dögunum. Það eru veruleg tímamót.

Ég hygg að megi segja og tek undir með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem vonandi er ekki langt undan þegar ég tala svona fallega um hann, að að sjálfsögðu er það gríðarlega stórt mál fyrir Ísland ef okkur tekst vel til áfram með að byggja upp fullfjármagnað og samræmt lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn. Við erum með sterkan efnivið í það þótt það hafi verið óleyst verkefni eins og þessi sem snúa að tvískipta lífeyrismarkaðnum og tilteknum framtíðarskuldbindingum sem við eigum enn eftir að leggja inn á.

Hæstv. ráðherra nefndi, og ég hafði gaman af því, að matsfyrirtækin gera ekki mikið með það hvernig mismunandi þjóðir standa að vígi hvað varðar að hafa byggt upp og lagt í sjóði til að eiga fyrir framtíðarlífeyrissparnaði. Nú er það þannig með Ísland að við erum í fremstu röð í heiminum ásamt með, og það hefur væntanlega ekki breyst mikið, Hollandi og Sviss, við eigum hæst hlutfall hreinna eigna miðað við verga landsframleiðslu í eignum til að greiða út lífeyri, um 150–160% trúi ég það sé hjá okkur í augnablikinu. Holland og Sviss hafa verið á svipuðum slóðum.

Noregur með sinn olíusjóð, sem þeir öðrum þræði líta að sjálfsögðu á sem eftirlaunasjóð þó að hann sé vissulega fyrst og fremst fjárfestingarsjóður til að taka olíugróðann úr umferð og kveikja ekki í norska hagkerfinu og leggja til framtíðar, t.d. þegar olíutekjurnar fara minnkandi þá geti menn jafnað út það áfall. Við reiknuðum það einhvern tímann út að gamni að Íslendingar áttu meira í lífeyrissjóðum og það var fljótlega eftir hrunið, fljótlega eftir að þeir höfðu orðið fyrir nokkru höggi, samt átti Ísland meira í lífeyrissjóði á mann en Noregur í sínum norska olíusjóði.

Fram hjá þessu er mjög oft horft þegar staða þjóða er borin saman. Þess var ég áskynja rétt eins og núverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra benti á. Ég notaði þetta t.d., benti matsfyrirtækjum og fjárfestum á þetta 2011 þegar við vorum í mikilli kynningarlotu í aðdraganda þess að ríkið gaf út skuldabréf á erlendum markaði í fyrsta sinn í ein sjö ár, eða fimm, sex ár, 2011. Ég benti mönnum á að skoða það hvernig við værum á vegi stödd að þessu leyti borið saman við aðrar þjóðir sem voru, að mínu mati, með of hátt lánshæfismat vegna mikilla innbyggðra veikleika í þeim efnum, svo maður tali ekki um þjóðir sem eru í bullandi efnahagsþrengingum eins og Grikkir. Ég ætla ekki að fara í þá sorgarsögu hér en það er t.d. eitt sem er þeim mjög erfitt og það er að þeir eiga nánast enga lífeyrissjóði, mjög afmarkað þá fyrir tiltekna hópa. Landið sem slíkt er nánast án eigna upp í framtíðarlífeyrisgreiðslur og þar er eftirlaunaaldur alveg niður í 55 ár. Þið getið ímyndað ykkur hvernig það dæmi lítur út.

Bandaríkin eru til að mynda í miklum vanda þarna, ef það væri allt saman fært til bókar. Þeir eiga gríðarlegar ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar gagnvart hermönnum, opinberum starfsmönnum og ýmsum öðrum slíkum. (Gripið fram í.) Já, já og fleiri þjóðir. Þetta er alveg sjálfsagt að lyfta fram. Þess vegna hef ég alltaf eindregið mælt því góða skrefi bót og talað fyrir því að það var gæfuspor fyrir Ísland að ramba inn á þá braut um 1970 að hefja uppbyggingu söfnunarsjóða en ekki veðja á gegnumstreymiskerfi.

Varðandi niðurstöðuna skil ég vel að þeir sem horfa á sína stöðu og þá sem þegar er inni í menginu telji þetta ágæta niðurstöðu. Það er hún fyrst og fremst vegna þess að ríkið reiðir fram núna í fjármunum allt sem þarf til að rétta A-deildina af. Það er í raun rausnarlegri niðurstaða af hálfu ríkisins en ég hygg að menn hafi reiknað með þar sem oft var rætt um að einhverja blöndu yrði væntanlega að fara, hækkun lífeyrisaldurs, jafnvel hækkaðra iðgjalda og svo kæmi ríkið með eitthvað í púkkið. Hér reiðir ríkið þetta fram og gerir líka vel við sveitarfélögin, tekur af þeim skuldbindingar upp á um 20 milljarða kr.

Ég skil því vel að þeir sem horfa á sína stöðu og eru þegar inni í menginu telji að þetta sé nokkuð gott. Það er sérstaklega með varúðarsjóðum og lífeyrisaukasjóðum tekið á því að enginn missi í neinu við breytinguna, þeir sem eru inni í menginu núna. Staðan lítur allt öðruvísi út til framtíðar litið. Þar held ég vakna áhyggjurnar og án efa er það einn þátturinn í því að fjögur fjölmenn félög innan opinberra starfsmanna og t.d. sjálfstætt félag eins og Félag hjúkrunarfræðinga er ósátt við þessa niðurstöðu. Það getur annars vegar verið af því að menn séu meira að horfa á framtíðina heldur en núið og/eða að viðkomandi hópar telji sig ekki sem slíka koma nógu vel út úr dæminu.

Að því þarf að sjálfsögðu að hyggja. Það getur ekki verið ætlunin að sulla þessu gríðarlega stóra máli í gegnum Alþingi án þess að allir fái að koma sjónarmiðum sínum vel að. Við megum gæta okkar í því að gera engin mistök þótt við séum velviljuð því að sjálfsögðu er freistandi að reyna að læsa þessa niðurstöðu inni eftir þetta samkomulag. En það fer svo sem ekkert heldur ef þingið er samstillt í því að vinna að þessu máli vel, þá verður það bara að ráðast hvort það er boðlegt hvað vinnubrögð snertir að klára þetta núna.

A-deildin er sem sagt meðhöndluð með þessum hætti. En inn í þetta koma síðan mörg önnur mál sem sum hafa verið nefnd, eins og það að hér á að hækka lífeyristökualdurinn um tvö ár. Það er til ákveðins samræmis. Það er þá minna bil á milli opinberra og almenna markaðarins, einmitt þegar verið er að stefna að hækkun þar, og í almannatryggingalögum er hins vegar stefnt að því mánuð fyrir mánuð að hækka eftirlaunaaldurinn úr 67 í 70 ár. Það er mörgum stórum spurningum ósvarað í tengslum við þau mál öllsömul.

Ég nefni það í leiðinni að það hefur allt of lítill gaumur verið gefinn að því að staða einstakra hópa, mismunandi starfsstétta, er mjög ólík þegar kemur að því að taka á sig hækkun eftirlaunaaldurs. Hvað með erfiðisvinnustéttirnar sem eru býsna slitnar nú þegar miðað við núverandi eftirlaunaaldur? Er ekki ansi hætt við því að nýgengi örorku vaxi hratt ef við bætum þremur árum við hjá fiskvinnslufólki, múrurum? Auðvitað þekkjum við aðrar stéttir eins og sjómenn, lögreglumenn og slíka sem hafa talið sig eiga að hafa sveigjanleika til að geta hafið töku lífeyris fyrr vegna mikils álags í starfi og slits. Að því þarf að hyggja.

Það er óumflýjanlegt að gera greiningar á því hvernig þetta kemur við einstaka hópa o.s.frv. Það þarf líka að skoða vel samspil almannatrygginganna og lífeyrissjóðanna, það þarf þess hvort sem er, en þetta gefur okkur tilefni til að horfa þar á ýmsa hluti. Hæstv. ráðherra segir, og alveg réttilega, það er engin stórspeki, að þessi uppbygging lífeyrissjóðanna og auknar greiðslur frá þeim létti byrðum af ríkinu í almannatryggingakerfinu. Í því þarf að hyggja að tvennu.

Það er annars vegar millibilstíminn sem við erum stödd á. Enn eru 15–25 ár eftir þangað til lífeyrissjóðakerfið er að segja má fulluppbyggt fyrir alla í skilningnum að þá er nógu langt um liðið frá 1998, að allir hafa greitt af öllum tekjum sínum í lífeyrissjóð. En það er ekki fyrr en að þó nokkrum árum í viðbót liðnum sem það er eiginlega orðið yfirgnæfandi vægi. Við skulum ekki gleyma því að fram til áranna 1995–1998 þegar má segja síðasta stóra breyting eigi sér stað eftir langt ferli, það er ekki fyrr en þá sem allir eru skyldugir til að greiða í lífeyrissjóð af öllum tekjum sínum. Sumir voru fram undir það utan lífeyrissjóða og menn höfðu ekki greitt nema af dagvinnulaunum. Nú er þetta að telja inn af vaxandi þunga í kerfinu ár frá ári og innan 15–25 ára verður þetta að mestu leyti orðið þannig að þá er fólk að komast inn á eftirlaunaaldur sem hefur greitt af öllum tekjum sínum í lífeyrissjóð yfirgnæfandi hluta ævinnar.

Það verður samt ekki þannig að allir verði í þeirri stöðu. Þess vegna þurfum við að huga að því samhengi líka. Tveir hópar munu augljóslega ekki verða í þeirri stöðu að eiga í vændum sæmilegan lífeyri út úr lífeyrissjóðum eftir 10, 25 ár. Það verða náttúrlega þeir sem aldrei hafa komist inn á vinnumarkaðinn, öryrkjar. Það verða þeir sem hafa búið eða búið og starfað erlendis hluta ævinnar og eftir atvikum myndað lífeyrisrétt annars staðar og geta tekið hann til sín heim, en ekki endilega.

Það verður einn hópur enn, herra forseti, sem af vaxandi þunga kemur inn í þetta kerfi okkar á næstu árum og það er fólk af erlendum uppruna sem flytur hingað og inn á vinnumarkaðinn eða í samfélagið á miðjum aldri og mun þar af leiðandi aldrei ná að byggja upp nema sirka hálfan lífeyrisrétt og heldur ekki rétt til greiðslna úr almannatryggingakerfi, vegna þess að þar kemur svonefnt búsetuhlutfall við sögu og menn mynda rétt þar í samræmi við þann árafjölda sem þeir hafa verið með lögheimili í landinu.

Þessi hópur fer vaxandi. Þess vegna mun gamla módelið ekki verða eins og menn einu sinni héldu, að þetta væri einsleitt samfélag þar sem allir verða komnir með fullan lífeyrissjóðarétt og þar taki að mestu leyti almannatryggingakerfið yfir. Það verður ekki þannig. Við munum þurfa öflugt almannatryggingakerfi til að styðja við bakið á þeim sem minni rétt hafa myndað ef við ætlum ekki að hafa gjá í lífskjörum þeirra hópa sem eru að færast inn á eftirlaunaár á komandi árum.

Þess vegna þyrftum við að geta gefið okkur góðan tíma til að fara yfir þetta mál, fara yfir stóra almannatryggingafrumvarpið, skoða þetta, rýna inn í framtíðarsamhengið. Það er hrollur í mér, ég verð að segja að ég tel mig ekkert verkkvíðinn mann, herra forseti, en það er dálítill hrollur í mér ef menn ætla að lenda þessum stóru kerfisbreytingum báðum, nýju almannatryggingalöggjöfinni og þessari grundvallarbreytingu í lífeyrissjóðamálum, á örfáum sólarhringum. Ég verð hreinlega að segja: Verði þeim að góðu sem vilja þá keikir standa fyrir því að þetta hafi fengið nógu góða skoðun. Ég er allur af vilja gerður til þess að við reynum að standa þverpólitískt á bak við þessi mikilvægu mál og vinna þau eins vel og langt og við komumst og ekki lengra fer ég, það er þannig.

Síðan hefði verið æskilegt ef hæstv. fjármálaráðherra hefði aðeins gefið okkur gleggri mynd af tvennu sem er mjög fljótandi enn þá í þessum efnum. Það er í fyrra lagi: Hvernig verður háttað greiðslum eða endurgreiðslum þeirra stóru ríkisaðila (Forseti hringir.) sem eiga sjálfir að taka á sig inngreiðslurnar vegna A-deildarinnar, gera það (Forseti hringir.) upp við ríkið? Hvernig verður greiðslan af hendi reidd (Forseti hringir.) upp á 90 milljarða frá ríkinu? Hvernig verður hún samansett (Forseti hringir.) nákvæmar heldur en kannski 1/3: 1/3: 1/3?



[17:07]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var fróðleg eins og endranær. Ég hygg að það sé hæpið að við náum þessum báðum málum í gegn á þessu þingi, sér í lagi vegna þess að við höfum ekki fengið neina forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á málum þannig að við getum heldur ekki forgangsraðað okkar vinnu í samræmi við það, vandamál sem við í minni flokkunum glímum stanslaust við, að vita ekki fyrir hvaða próf við eigum að læra heima, hvað þá hvenær, sem er óþolandi. Nóg um það, það er ekki hv. þingmanni að kenna.

Ég hef sömu áhyggjur og hv. þingmaður af almannatryggingakerfinu í framtíðinni þegar það er orðið ljóst að þetta verður ekki eins og menn ætluðu sér í upphafi og gerðu ráð fyrir að samfélagið yrði mjög einsleitt í mjög langan tíma. Það er vegna þess að mismunandi hópar afla sér misjafnra réttinda eftir því sem tíminn líður. Þessu hef ég verulegar áhyggjur af eins og reyndar því almennt hvernig samfélagið bregst við svo stórum og viðamiklum breytingum á samsetningu þjóðar eins og við eigum við að etja og ég hygg langflestar þjóðir sömuleiðis og munu halda áfram að gera.

Þá velti ég fyrir mér hvort næsta skref sé þá ekki að huga að einhvers konar alþjóðlegu samstarfi um almannatryggingar. Ég hendi þessu fram vegna þess að ég veit að hv. þingmaður þekkir málaflokkinn mjög vel og hefur verið mjög lengi á Alþingi og vil spyrja hvort eitthvað slíkt sé raunhæft eða hver fyrstu skrefin væru ef menn vildu pæla í slíku. Ég tel einsýnt og óttast það að ef það verður mjög skýr munur á þeim þjóðfélagshópum sem hafa þessi réttindi og þeim sem hafa þau ekki mun það valda togstreitu sem við viljum forðast ef við mögulega getum. Það eina sem mér dettur í hug er alþjóðlegt samstarf um almannatryggingar. Hvaða aðrar leiðir, ef einhverjar, gætum við farið ef ekki þá leið?



[17:10]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka herra forseta sem tókst að heimilisfæra mig rétt að lokum. Mér verður stundum á sjálfum að segja Norðausturkjördæmi eða eitthvað svoleiðis, þannig að ég skil forseta vel.

Varðandi afgreiðslu þessara stóru mála er þetta nokkuð snúið vegna þess að upp að vissu marki væri gott að einhver ein þingnefnd ynni þetta með heildaryfirsýn en svo er ekki. Nú erum við með þá stöðu að almannatryggingamálin sem hafa mikla skörun inn í þetta og öfugt er í velferðarnefnd og þessu máli leggur hæstv. fjármálaráðherra til að verði vísað til fjárlaganefndar, ekki efnahags- og viðskiptanefndar sem almennt hefur þó verið með þessi mál. Þetta er svolítið tætingslegt. Kannski er þetta að einhverju leyti vegna álagsins hérna og vinnustöðunnar, þessu sé skotið til fjárlaganefndar af því að efnahags- og viðskiptanefnd er drekkhlaðin verkefnum. Nú ber ég verulega virðingu fyrir fjárlaganefnd eins og kunnugt er og þetta er ekki sagt í neinni niðrandi merkingu í hennar garð, en hún hefur auðvitað ekki verið sérstaklega með þessi mál að undanförnu.

Varðandi framtíðina og þá stöðu sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson bendir réttilega á í framhaldi af mínum hugleiðingum þá verðum við að vanda okkur verulega vel. Við megum ekki teikna inn í framtíðina hóp sem verður dæmdur til miklu lélegri stöðu en ella væri. Jú, alþjóðlegt samstarf, t.d. norrænt samstarf skiptir máli. Eitt af því sem hjálpar til er að skattlagning lífeyristekna sé sem svipuðust í löndum þar sem er mikið flæði á milli og að það gangi greiðlega að flytja lífeyrisrétt milli landa ef menn hafa unnið hluta ævinnar í einu landi og hluta ævinnar í öðru. En það eru vandamál í því efni, jafnvel innan Norðurlandanna, og þrátt fyrir alla viðleitni til að draga úr hindrunum í þeim efnum erum við alltaf að takast á við vandamál sem leiða af mismunandi skattlagningu, mismunandi réttindum og aldursmörkum og öðru slíku.

Ég á mér eina stóra draumsýn um hvað væri best í hinum besta heimi allra heima, það er að frá 16 ára aldri væri greitt fyrir alla í lífeyrissjóð, alltaf, þannig að öryrkjar og námsmenn og aðrir slíkir (Forseti hringir.) fengju samfélagslaun og af þeim væri greitt (Forseti hringir.) í lífeyrissjóð þannig að allir yrðu nákvæmlega eins settir (Forseti hringir.) þegar þeir kæmust á eftirlaunaaldur 67, 70 ára gamlir eða hvað það nú verður.



[17:12]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ein leið til að takast á við vandann hjá einhverjum af þessum hópum. Annað sem mér hefur dottið í hug er að einstaklingar sem fara kannski seint að byggja upp réttindi þurfi einfaldlega að byggja þau upp hraðar og leggja meira til. Á móti kemur að menn hafa ekki tímann með sér í liði sem er svo mikilvægt fyrir langtímafjármálagjörninga eins og að byggja upp lífeyrisréttindi eða það mundi ég halda.

Ég er líka alveg sammála hv. þingmanni með að mér finnst óþægilegt hvernig þessi málaflokkur fer til mismunandi nefnda. Ég talaði reyndar aðeins um það áðan líka og fleiri haft nefnt það að málið fari til hv. fjárlaganefndar á meðan almannatryggingamálið fer til hv. velferðarnefndar og síðan er enn annað mál sem er líka tengt þessu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, nefnilega það sem gefur sumu fólki færi á nýta greiðslur sínar til að borga inn á húsnæðislán. Það skiptir líka máli í þessu sambandi, sérstaklega ef við erum að fara einhverjar nýstárlegar leiðir til að byggja upp fyrir framtíðina og jafnvel þó að um sé að ræða húsnæði sem við þurfum öll þá kemur það samt sem áður málaflokknum við.

Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki hreinlega kominn tími á að í náinni framtíð verði þingnefnd sem fjalli um þetta málefni eitt og sér, þ.e. hvernig við bregðumst við því vandamáli að hópurinn sem er kominn yfir vinnualdur stækkar og slík vandamál verða svo einkennandi fyrir samfélagið í framtíðinni að það ætti í raun og veru að vera sérstök þingnefnd sem héldi utan um það og tækist á við það öllum stundum með ýmsum hætti. Mér sýnist þetta vera málaflokkur sem hefur svo marga anga að það sé ekki hægt að hafa þetta tætt út um allt Alþingi eins og raun ber vitni núna. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um það.



[17:15]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

(Forseti (EKG): Forseti verður nú að fara að leiðrétta sig varanlega, er búinn að kynna þennan hv. þingmann svo oft til leiks hér í púltinu. Hafði með pennaglöpum sínum ruglað sjálfan sig í ríminu.)

Ég þakka virðulegum forseta fyrir. Það hefur að vísu stundum komið til tals að ég yrði fluttur milli kjördæma en niðurstaðan hefur alltaf orðið sú að ég hef haldið mig fyrir norðan og ég hyggst gera það enn um sinn. (Gripið fram í.)

Í fyrsta lagi varðandi vinnuna að þessu þá væri þetta, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir mun hafa nefnt í gær, náttúrlega alveg dæmigert stórmál sem þingið þyrfti að gefa sér góðan tíma til að fjalla um og væri gott að setja í milliþinganefnd til að hafa samfellu í skoðun á. Þannig var þetta unnið 1995–1998 þegar síðasta stóra breyting kom inn, það var niðurstaða kjarasamninga í árslok 1995 sem setti það mál af stað. Það var unnið hér í tvö ár í nefndum og síðan í þinginu og milliþinganefnd og annan þingvetur og tók gildi 1998 ef ég kann þá sögu rétt.

Varðandi aðra hluti sem snúa að framtíðinni. Ég nefni aftur þessa hugmynd sem er svo sem ekkert ný og kannski ekki bara mín að langbest væri að lífeyrisréttindaávinnsla allra væri jöfn á starfsaldursskeiðinu hvort sem menn væru á vinnumarkaði eða ekki. Þeir sem þurfa stuðning frá samfélaginu til framfærslu, öryrkjar og aðrir slíkir, þeir sem eyða hluta ævi sinnar í nám — kerfið væri útbúið þannig að það væri greitt fyrir þá í lífeyrissjóð, þeir mynduðu lífeyrisrétt. Fyrir ríkið mundi þetta þegar upp væri staðið ekkert endilega kosta meira, en stóri munurinn yrði sá að allir yrðu eins settir á eftirlaunaskeiðinu. Ef við vöndum okkur ekki hér þá verða þeir hópar líka verst settir sem eftirlaunamenn sem hafa átt erfiðast á starfsævinni. Það er svo ósanngjarnt að menn skuli eftir erfiðisvinnu fyrir lág laun eða flutninga milli landa eða annað því um líkt líka þurfa að eyða efri árunum við bág kjör.

Síðan er það rétt sem hv. þingmaður sagði að það þyrfti að vera hraðari ávinnsla hjá tilteknum (Forseti hringir.) hópum, sjómönnum, bændum, múrurum, lögreglu, þannig að þeir gætu fyrr hafið töku (Forseti hringir.) lífeyris án skertra réttinda. Þá þarf að byggja inn hraðari ávinnslu með sérsamningum fyrir þá hópa.



[17:17]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög athyglisverðar umræður. Sérstaklega hefði ég áhuga á að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon greina betur frá þeim útreikningum sem liggja að baki þeirri fullyrðingu að það að fara þá leið sem hann lýsti, að ríkið greiddi iðgjöld í lífeyrissjóði fyrir tiltekna hópa sem ekki eru virkir á vinnumarkaði, mundi þegar upp er staðið ekki kosta ríkið neitt meira. Ef svo er finnst mér að það sé leið sem eigi að skoða mjög rækilega.

Hv. þingmaður lýsti ákveðnum efasemdum um að rétt væri að senda málið til hv. fjárlaganefndar, tók sérstaklega fram að af hans hálfu væri það hvorki flím né kerskni að orða það svo. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni, mér finnst að meiri hluti fjárlaganefndar hafi ekki beinlínis síðustu vikur sýnt það af verkum sínum að það sé endilega ávísun á farsæld að senda málið þangað.

Það sem mig langaði hins vegar til að segja að ég er töluvert jákvæðari á þetta mál en hv. þingmaður, ég held að markmiðið sé mjög gott. Ég held að það sem menn ætla sér að gera með þessu, að reyna að jafna á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, bæði lífeyrisréttindi og síðan líka, eins og er yfirlýst markmið í sérstakri yfirlýsingu aðilanna, að jafna á næstu tíu árum launamuninn. Þetta er dásamlegt markmið, eitt af því sem menn mundu vilja vinna langa ævi í stjórnmálum til að stuðla að.

Ég get svo deilt með hv. þingmanni áhyggjum af því að það muni hugsanlega ganga illa að afgreiða málið á þessum stutta tíma. Hann hefur verið fjármálaráðherra. Er yfir höfuð hægt að afgreiða mál eins og þetta án þess að leyfa öllum þeim hópum og starfsstéttum sem undir eru að koma og eiga orðastað við fagnefndir þingsins og segja álit sitt á því, t.d. þeim fjórum starfsgreinafélögum sem hafa lýst andstöðu og stéttarfélagi hjúkrunarfræðinga, sem mér virtist beinlínis lýsa fullri andstöðu, kannski fyrst og fremst á grundvelli samráðsleysis? (Forseti hringir.) En er hægt að taka svona stórt mál með skemmri skírn (Forseti hringir.) í gegnum þingið án þess að (Forseti hringir.) þeir hópar fái að segja sitt?



[17:20]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Tíminn leyfir ekki að fara lengra út í þessar vangaveltur um öðruvísi kerfi þar sem (ÖS: Hvað með fyrirheit um …?) lífeyrisgreiðslur væru byggðar upp fyrir alla hópa, líka þá sem ekki eru á vinnumarkaði á tilteknu æviskeiði eða jafnvel alla ævina. En ef við tökum einfaldað dæmi af einstaklingi, ungum öryrkja, sem fer jafnvel aldrei inn á vinnumarkaðinn. Það sem mundi einfaldlega gerast er að ef ríkið bætti við örorkulífeyrinn iðgjöldum í lífeyrissjóð og sá lífeyrissjóður er ávaxtaður og síðan þegar öryrkinn kemur á eftirlaunaaldur liggur lífeyrissparnaður hans fyrir í sjóði og tekur við í staðinn fyrir að ríkið þyrfti áfram í gegnum almannatryggingakerfi að skapa honum sómasamlega afkomu af því að hann ætti ekki lífeyrisrétt. Með einum eða öðrum hætti verður að tryggja lífskjör þeirra sem ekki hafa eigið aflafé til að komast sómasamlega af, öryrkjum, þeim sem flytja hingað á miðjum aldri og eiga hvorki fullan rétt í lífeyrissjóðum né almannatryggingum o.s.frv.

Nei, það er erfitt að afgreiða stórmál af þessu tagi. Í fyrsta lagi er það svo stórt að menn þurfa að hafa góða sannfæringu fyrir að verið sé að gera rétt. Í öðru lagi er þetta svo nátengt kjörum hópa, þetta er í raun og veru svo samtvinnað við kjörin sem viðsemjendurnir eiga, að þeir sem ekki eru aðilar að samkomulaginu eru líka viðsemjendur, þeir eiga líka sinn sjálfstæða samningsrétt. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að það eru ekki allir á bak við þetta. Það eru stórir og fjölmennir hópar sem geta tekið til sín sinn samningsrétt og beitt honum. Ríkið verður auðvitað að átta sig á því að það er gríðarlega mikilvægt að hlusta á öll sjónarmið og reyna ef mögulegt er að laða fram samstöðu. Við þurfum að ræða við þá sem gera athugasemdir, eru ósáttir. Er eitthvað sem hægt er að gera (Forseti hringir.) til að ná öllum um borð?



[17:22]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Þá spyr ég hv. þingmann um skoðun hans á eftirfarandi: Telur hann að einhverjar líkur séu til þess þegar svona víðtækt samkomulag hefur tekist að það mundi ónýtast eða spillast, jafnvel þó að það biði þrjá, fjóra, fimm mánuði eða tæki þann tíma sem þyrfti til eðlilegrar meðgöngu svona stórs máls? Telur hann að það mundi leiða til þess að málið næði ekki framgangi, jafnvel þó að skipti yrðu á ríkisstjórn? Ég tel ekki, allt ekki. Ég tel meira að segja að svona stórmál batni oft við það að vera undir fleiri en einni ríkisstjórn. Ég hefði gaman af að heyra álit hv. þingmanns á því.

Spurningin sem mig langaði helst til að flytja er þessi: Hvernig sér hv. þingmaður afleiðingarnar af samspili þessara breytinga annars vegar og hins vegar því að hækka lífeyrisaldurinn um tvö ár? Hvað þýðir það gagnvart framtíðinni? Er það rétt hjá mér að það kynni að leiða til þess að kynslóðir framtíðarinnar mundu bera hlutfallslega minna úr býtum í gegnum réttindin sem þær ávinna sér en við eða jafningjar okkar, jafnaldrar okkar sem eru í kerfunum eins og þau eru núna?



[17:24]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr svo viðamikilla spurninga að það er beygur í manni að reyna að glíma við þær. Í fyrsta lagi af því að hann ræddi um að hann væri jafnvel jákvæðari í garð þessa frumvarps en ég, þá hefur hann kannski misst af blábyrjun ræðu minnar þar sem ég einmitt tók það fram og fagnaði því að þetta væru gríðarlega mikilvæg markmið sem þarna væru sett upp og þar á ég að sjálfsögðu við uppbyggingu á einsleitu réttindaávinnslukerfi fyrir alla landsmenn í lífeyrismálum. Það er gríðarlega stórt og mikilvægt mál, þannig að landamærin milli opinbera kerfisins eyðast eins mikið út og mögulegt er. Það er réttindaávinnslan og rétturinn sem skiptir öllu máli, ekki spurningin um hvort þetta eru einn eða tveir eða fleiri lífeyrissjóðir. Þess vegna er verið að setja hér alveg rétt markmið hvað það snertir, að jafna lífeyrisréttindin upp á við. Það er gleðileg niðurstaða því að fram að þessu hafa menn stundum talað jafnvel í hina áttina, að það yrði bara að taka niður lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna til að þau mættu almenna vinnumarkaðnum kannski einhvers staðar á miðri leið. Nú er það bara útkljáð. Við ætlum með allan vinnumarkaðinn upp í þessi hlutföll og reyna að jafna launamuninn í leiðinni, allt saman gríðarlega mikilvægt.

Svo er það stóra spurningin um framtíðina. Ég sagði einmitt í ræðu minni, ég skil vel að þeir sem horfa á þetta í núinu og fyrir sig og eru inni í menginu í dag telji sig sæmilega sátta vegna þess að það á enginn að missa neins í þeim efnum. En þetta er miklu meira spurningin um framtíðina. Að sjálfsögðu taka þeir hópar á sig lenginguna og þá staðreynd að ríkið er ekki lengur ábyrgt á bak við A-deild LSR í þeim skilningi sem það hefur verið, að þó að hún eigi að vera sjálfbær þá er ríkið skuldbundið til, með ráðstöfunum, að tryggja mönnum réttindin og þá með hærri iðgjöldum ef þyrfti. Ef ég skil rétt þá hverfur þessi ábyrgð. Eftir það verður kerfið að standa á eigin fótum.

Þess vegna er alveg skiljanlegt að þeir sem hafa kannski efasemdir um að launajöfnunin (Forseti hringir.) gangi svo jafn greitt og menn vonast til að þetta náist (Forseti hringir.) allt á sex til tíu árum, séu órólegir.



[17:26]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að tala um „realismann“ í kringum það hvernig meðferðin á þessu máli getur orðið í þinginu, og reyndar aðeins um það að staðan hér er orðin heldur dæmigerð. Menn búast væntanlega við því að klára þetta mál, það er væntanlega þess vegna sem það er lagt hér fram, án þess að fyrir liggi nein forgangsröðun á þeim málum sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að ná í gegn á þessu þingi og þar af leiðandi á þessu kjörtímabili. Það gerir öðrum erfiðara fyrir með að forgangsraða því hvaða mál þau eiga að kynna sér. Ég líki þessu oft við það að maður viti ekki fyrir hvaða próf maður á að læra og ekki hvenær prófið verður haldið. Það eru óþolandi aðstæður þegar um er að ræða hvert risastóra málið á fætur öðru. Það er óþolandi staða. Það verður að breytast í framtíðinni, ekki vegna þess að það er óþægilegt eins og það er, heldur vegna þess að það kemur niður á möguleikum þingmanna til að kynna sér málin almennilega, sér í lagi ungum þingmönnum eins og þeim sem hér stendur sem hefur ekki verið lengi á þingi og hefur þar af leiðandi ekki haft mikinn tíma til þess að kynna sér þessa risastóru málaflokka, eins og þessi er vissulega. Mér þykir mikilvægt að hafa það í huga þegar við afgreiðum svona stór mál — eða við virðumst ætla að afgreiða svona stór mál fyrir þinglok. Ég ætla að láta það duga um það mál að svo stöddu við 1. umr. og halda áfram með þá ágætu umræðu sem var milli hv. 4. þingmanna Reykjav. n. og Norðaust., þeim sérlega háttvirtu kjördæmum.

Það er mikil vinna á bak við þetta frumvarp eins og komið hefur fram, sem sést þegar maður les frumvarpið. Það er mikil baksaga og greinilega mikil hugsun um hvernig glíma eigi við þau vandamál sem frumvarpinu er ætlað að leysa, þ.e. að jafna muninn á almenna markaðnum og opinbera markaðnum að þessu leyti, og sömuleiðis að laga þann vanda sem lengi hefur verið yfirþyrmandi, að fyrirsjáanlegt sé að á ríkið skelli mikil skuldbinding sem ráða þurfi við á skömmum tíma.

Í frumvarpinu er nefnd sú hæsta tala sem ég hef séð í frumvarpi hingað til, alla vega í frumvarpi af þessu tagi. Um er að ræða 100 milljarða sem er óljóst er, alla vega eftir því sem ég fæ best séð, á nákvæmlega hversu löngum tíma verða reiddir af hendi eða hvernig það virkar allt saman. Ég á eftir að fá það á hreint og verður það væntanlega útkljáð í nefnd, kannski fjárlaganefnd. Ég mundi venjulega ætlast til þess, þótt ég ætli ekki að krefjast þess formlega hér og nú, að það fengi líka umræðu í velferðarnefnd vegna þess að þetta eru skyld mál og snertir réttindi fólks, að því er virðist af ræðum annarra þingmanna sem hér hafa talað. Þá er mikilvægt að það sé á hreinu í velferðarnefnd, ekki bara vegna málsins heldur líka vegna starfs velferðarnefndar og hlutverks hennar, á hvaða hátt það er þannig að hægt sé að meta slík áhrif í samhengi við önnur mál, svo sem almannatryggingamálið sem þar er til meðferðar og vissulega málaflokkinn í heild sinni.

Það að mikil vinna sé á bak við þetta frumvarp og að mikið hafi verið lagt í það þýðir að það tekur sinn tíma að komast inn í forsendurnar fyrir því, þá er alveg sama hversu mikil sátt er um það vegna þess að ef einn eða tveir hópar eru ósáttir þarf að skilja hvers vegna það er og er mikilvægt fyrir hið háa Alþingi að hér sé góð meðvitund um hvers vegna hlutirnir eru gerðir eins og raun ber vitni. Hér erum við í umhverfi eins og sagan sýnir þar sem ekki er alveg hægt að treysta því að allt sé í lagi með mál sem þó er sagt að sátt ríki um.

Það skiptir því verulegu máli að þingið fái nægt svigrúm til þess að fara yfir þetta mál. Ég fullyrði að það svigrúm er ekki til staðar miðað við gildandi starfsáætlun. Svo mikið er víst. Jafnvel þótt við litum til kosninga mundi starfsáætlun breytast. Ef starfsáætlun breytist þannig að við ljúkum þingi nær kosningum kemur það líka niður á starfinu vegna þess að slík ráðstöfun á tíma hins háa Alþingis mundi valda því að hér verður erfiðara að eiga við önnur mál, fyrir utan það að miðað við reynsluna eru allar líkur á því að hingað komi inn enn fleiri mál sem geta vel varðað stjórnarskrá eða eitthvað því um líkt og annað sem við þurfum einnig tíma til að ræða almennilega en munum ekki hafa tíma fyrir.

Mig langaði rétt aðeins að nefna eitt atriði, það er reyndar dágóður tími síðan það var nefnt hér síðast af hv. þingmanni. Það er annar þáttur lífeyrisréttindanna sem okkur hefur láðst að kanna til hlítar; það er ekki bara að jafna muninn á rétti fólks á almenna markaðnum og opinbera markaðnum, heldur líka kynjamunurinn. Þótt Ísland sé meðal fremstu þjóða í heiminum í dag hvað varðar kynjajafnrétti, sem við hljótum að vera stolt af þótt margt sé enn eftir, er það hluti af þróun þar sem við höfum mjög nýlega náð glæsilegum árangri, eða árangri sem maður gæti sagt vera eitthvað nálægt því að vera glæsilegur. Þar sem við erum að ræða málefni sem varðar heilu áratugina, í raun heilan starfsaldur, mun fólk núna og í náinni framtíð nýta sér ýmis lífeyrisréttindi eða almannatryggingakerfið. Það var á vinnumarkaðnum — eða ekki — á tímum þar sem ekki var gert ráð fyrir því að konur og karlar og önnur kyn ættu að vera jöfn samkvæmt lögum og réttindum. Við þurfum því að hugsa um það sjálfstætt. Þetta mál er ekki hugsað til þess að laga það vandamál, en það er mjög mikilvægt ef við lítum til þess því að þó að það sé mikilvægt markmið að jafna muninn á almenna og opinbera markaðnum megum við ekki gleyma þessu markmiði heldur. Þetta er jú málaflokkur sem er víðfrægur meðal almennings fyrir það hvað hann fær litla athygli á Alþingi, og því er enn verra að það sé svo stutt í að þessu þingi ljúki. Ég ímyndaði mér að ég hefði meiri tíma til þess að tala um þetta, virðulegi forseti, en mér finnst rétt að nefna þetta vegna þess að það kemur málinu við, ekki frumvarpinu sem slíku, en málaflokknum og það er mikilvægt að hafa þetta á hreinu.

Komið hefur fram ágætishugmynd um milliþinganefnd, sem ég veit reyndar ekki hvernig er útfærð, enda hef ég aldrei verið á þingi milli þinga. En ef það er til þess fallið að málið fái betri yfirferð þingsins hygg ég að það sé mjög góð lausn, ef það er þá lausn. Ég mundi styðja þá hugmynd með þeim fyrirvara að ég hef einungis heyrt um hana í umræðum í dag og veit þess vegna ekki nákvæmlega hvernig hún yrði útfærð.

Þá langar mig að gera að umræðuefni áhugaverða hugmynd sem ég heyrði frá hv. þingmanni Norðausturkjördæmis, það er sú hugmynd að alltaf sé greitt iðgjald frá ríkissjóði ef þörf er á, þannig að lífeyrisréttindi byggist upp fyrir alla, að allir hafi lífeyrisréttindi þegar að því kemur. Án þess að ég vilji eigna einhverjum öðrum hugmyndina minnir þetta mig pínulítið á það sem stundum er kallað borgaralaun, kannski mætti kalla þetta borgaralífeyrisréttindi eða eitthvað því um líkt. Ég hendi því bara fram til þess að hafa einhvern merkimiða fyrir þessa ágætu hugmynd. En ég hef nokkrar áhyggjur af þessu og öðru vandamáli sem koma mun upp eða sem hefur komið upp, sem er það að sumt fólk fer inn á vinnumarkaðinn afskaplega seint miðað við það sem mögulegt er. Það eru til Íslendingar í dag sem fóru seint að borga í lífeyrissjóð og afla sér lífeyrisréttinda. Fólk flutti á milli landa, Íslendingar til útlanda og útlendingar til Íslands. Þá er hætt við að það verði til ákveðin skekkja þarna sem menn dreymdi ekki um að yrði til staðar þegar þeir settu á fót þau lífeyriskerfi sem við höfum í dag, og reiknuðu með fullri virkni eftir 15, 25 ár eitthvað svoleiðis, að sögn þeirra þingmanna sem hér hafa talað í dag. Hvernig sem á það er litið er það vandamál sem ungu fólki eins og mér finnst eins og hafi átt að vera búið að leysa fyrir löngu í æsku okkar og á uppeldisárunum. Það er vissulega barnaleg hugsun, en hún er eðlislæg, held ég. Ég held að sé okkur eðlislægt að ímynda okkur að það sé einhvern veginn búið að leysa þann augljósa vanda að þegar fólk verður gamalt hætti það fyrr eða síðar að geta unnið að einhverju marki. Þá ímyndar maður sér einhvern veginn í nútímasamfélagi þar sem við erum með snjallsíma og guð má vita hvað, að þetta sé vandamál sem hafi fyrir löngu verið leyst. Svo er auðvitað ekki.

Við erum hérna í miðjum klíðum að leysa þessi vandamál og þá koma auðvitað upp ný. Það eina góða er að þetta gerist það hægt að hægt er að sjá með þó nokkurri vissu inn í framtíðina, nema auðvitað þegar forsendurnar bresta eins og t.d. gerðist 2008, og sem getur gerst við mjög stórar þjóðfélagsbreytingar, svo sem þegar aldurssamsetning breytist hraðar en menn bjuggust við eða einhverjar aðrar samsetningar. Fyrir því þurfum við alltaf að vera vakandi þegar kemur að þessum málaflokki.

Ég hygg þó að sú hugmynd sem reifuð var hér áðan, sem ég ætla að leyfa mér að kalla borgaralífeyri, gæti vissulega komið til móts við það. Ég tek dæmi um einstaklinga sem alast hér upp, eða 16–18 ára einstaklinga sem fara í skóla. Þeir lenda kannski á örorku, eða hvað svo sem það er sem gerir það að verkum að fólk fer ekki út á vinnumarkaðinn, en eftir stendur fólk sem flytur kannski hingað og er komið á þann aldur að það nær aldrei að byggja upp nein teljandi réttindi. Það er annað vandamál sem við þurfum að huga að. Það eina sem mér dettur í hug í fljótu bragði er að þetta fólk þurfi að byggja upp réttindi sín hraðar, sem er ekki augljóst hvernig það á að gera í ljósi þess að langtímafjárfestingar almennt krefjast langs tíma eðli málsins samkvæmt. Þegar maður fer í langtímafjárfestingar vinnur maður öðruvísi með fjármagnið en ef um skammtímafjárfestingar er að ræða og sér í lagi ef þörf er á því að ávaxta peninginn hratt. Á móti kemur að þegar maður er einungis á vinnumarkaði í 10, 20 ár þarf einungis að gera ráð fyrir verðbólgu í 10, 20 ár, þannig að það kemur að vísu á móti, en þetta er eitthvað sem þyrfti klárlega að ræða til hlítar.

Á lokamínútum ætla ég að varpa fram hugmynd sem ég held að verði nauðsynlegt að innleiða einhvern tímann í náinni framtíð. Hún er að við þurfum aðeins að hugsa um þær samfélagsaðstæður að fólk almennt sé ekki á vinnumarkaði stóran hluta ævinnar. Það geti gerst út af tækniframförum. Að vísu verð ég gera fyrirvara. Menn hafa spáð núna fyrir um það í 150 ár eða síðan í iðnbyltingunni að bráðum verði tækin svo ofboðslega frábær og æðisleg að hún taki af okkur alla vinnuna og við verðum öll atvinnulaus. Núna mælist 2,9% atvinnuleysi á Íslandi þrátt fyrir miklu meiri tækniframfarir en við höfum getað ímyndað okkur síðastliðin 150 ár. Það er sá fyrirvari sem ég geri.

Hins vegar hafa orðið tækniframfarir, eins og málgreining og fleira sem tekur við því sem við höfum hingað til sinnt, sem maður hefði aldrei getað ímyndað sér að mundi gerast. Ég ætla ekki að segja lögfræði eða forritun eða svo háæruverðug störf — segi ég og horfi á 5. þm. Reykjav. n. En samt, kannski gerist það á næstu áratugum.

Ég held enn fremur að með allar þessar tækniframfarir í framtíðinni ættum við að geta leyft okkur meiri frítíma í lífinu. Mér finnst ekki rökrétt að við séum að vinna að jafnaði átta tíma á dag miðað við einhverja iðnbyltingarstaðla. Mér finnst miklu frekar að við eigum að nýta þá gríðarlegu verðmætaaukningu sem á sér stað í samfélaginu með tækniframförum til þess að vinna minna. En það þýðir að við þurfum að hafa kerfi sem gera ráð fyrir því kerfi sem við höfum ekki í dag. Borgaralaun er ein af þeim hugmyndum sem hugsuð er til þess að reyna að búa til einhvern veginn þannig raunveruleika. Það á eftir að sjást hversu raunhæft það verður. Það kemur ekki í ljós næstum því strax. En ég hygg að það sé þess virði að velta fyrir sér hvernig maður mundi búa til kerfi sem gerir ekki ráð fyrir því að við séum alltaf að vinna þar til við getum allt í einu ekki unnið. Ég held að það sé alveg kominn tími til þess að koma fram með einhverjar stórar lausnir til þess að gera slíkt að raunveruleika án þess að það sé stanslaus krísa vegna þess að við gleymdum að gera ráð fyrir því að einn daginn yrðum við öll gömul, eða vonandi sem flest í það minnsta.

Nú hef ég ekki tíma fyrir meira, virðulegi forseti. En ég ítreka að mér finnst að þetta mál þurfi miklu meiri tíma en við höfum hér eftir á þingi til þess að ræða það.



[17:41]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hélt hv. þingmaður langa ræðu, tíu mínútna ræðu, (HHG: Korter.) korters ræðu, byrjaði á því að segja að þetta væri risamál og við hefðum ekki nægan tíma að lesa það og eyddi svo restinni af ræðutímanum til að fjalla um allt annað en málið. [Hlátur í þingsal.] Að vísu er þetta risamál í þeim skilningi að það eru gífurlegir hagsmunir undir fyrir sjóðfélaga í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, en þetta er ekkert flókið mál. Það sem verið er að gera hér er að ríkið er að leggja til fjármuni svo sjóðurinn verði sjálfbær, að ekki þurfi að hækka iðgjöldin. Þetta er gífurlegt hagsmunamál fyrir sjóðfélaga. Það er búið að tala um þetta lengi. Það er líka verið að samræma og jafna lífeyrisréttindi í landinu. Þetta er allt þekkt umræða. Það er búið að reyna að ná þessu samkomulagi lengi. Svo næst samkomulag og þá telja menn sig ekki geta afgreitt þetta á viku af því að það er verið að tala um eitthvað allt annað, tala um borgaralaun, hvort taka eigi greiðslur strax til öryrkja og borga í lífeyrissjóð. Það er bara allt önnur umræða, allt önnur.

Ég vil fá frekari rökstuðning fyrir því af hverju við getum ekki afgreitt þessi atriði, þetta frumvarp, á einni viku. Það er búið að vinna þetta í óratíma. Við vitum allt um þetta. Þetta er bara spurning um að taka pólitíska ákvörðun. Viljum við þetta eða ætla menn og sjóðfélagar virkilega að berjast gegn þessu og reikna með hækkun á iðgjöldum um ókomna framtíð?



[17:43]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er í þessu máli verið að taka út, samkvæmt skjali sem ég útbjó áðan, fjórar og hálfa blaðsíðu, heilan kafla, úr lögunum. Það er gott ef það er svo hugmyndafræðilega einfalt eins og hv. þingmaður nefndi, en það er hins vegar þannig fyrir okkur ungu kynslóðina á hinu háa Alþingi sem þekkir einfaldlega málaflokkinn ekki nógu vel að við þurfum tíma til að kynna okkur málið. Það er bara þannig og hv. þingmaður verður að gjöra svo vel og lifa við það.

Hitt er að mér var sagt áður en ég steig í pontu að mín ræða yrði sú síðasta svo ég hef enga ástæðu til þess að standa hér og tefja málið. Þetta er síðasta ræðan og þetta verður síðasta andsvarið, ég geri ráð fyrir því nema einhver annar hafi beðið um orðið sem mér sýnist ekki. Ég tala um það sem ég tala um hér vegna þess að mér finnst mikilvægt að tala um það. Ef við ætlum bara að halda okkur við efnisatriði þessa máls þá ætti náttúrlega helst að sleppa 1. umr. til að byrja með vegna þess að 1. umr. er til þess ætluð, eins og ég skil þetta alla vega, að við ræðum þá hluti sem koma málaflokknum við þannig að það megi taka þá til hliðsjónar og inn í samhengið í nefndarstörfum sem koma á eftir, getur væntanlega skipt meira máli við 2. umr. eftir íhugun nefndar og þeirra sem á hlýddu. En eftir stendur að ég hef enga ástæðu til þessa að vera hér og tala eitthvað inn í nóttina vegna þess að þetta er síðasta ræðan eins og var skýrt hér áður.

Nú getur vel verið að hv. þingmaður hafi engan áhuga á borgaralaunum og hafi engan á huga á þeim hugmyndum sem eru til þess fallnar að reyna að búa til einhverja framtíðarlausnir í málaflokknum. Enn fremur getur verið, og ég ætla reyndar að fullyrða að svo sé, að hv. þingmaður hafi miklu meiri skilning á þessum málaflokki og miklu meiri reynslu en sá sem hér stendur. En það þýðir að sá sem hér stendur verður að velta fyrir sér fleiri möguleikum og verður að taka meiri tíma í að kynna sér það og tala um það. Það er bara þannig. Hv. þingmaður verður, með fullkominni virðingu, að lifa við það.



[17:45]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get auðvitað lifað við allt þetta og margt fleira. Ég átta mig bara ekki á því hvað það er í þessu máli sem kallar á svona rosalega mikinn tíma og miklar vangaveltur. Þarna er verið að ná fram hlutum loksins sem búið er að tala um svo lengi sem ég man (HHG: Sem er lengra en ég hef lifað.) Já, minni mitt er að vísu ekki langt.

Hérna er tiltölulega einfalt atriði. Ég skal alveg viðurkenna það, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, að ég hef engan áhuga á borgaralaunum frekar en skattgreiðendur í Sviss. Bara engan. Ég tel það vonda hugmynd. En það er allt önnur umræða. Ég held, hv. þingmaður, að við eigum að fara í þetta mál, leyfa auðvitað þeim sem hér hafa gert athugasemdir sem eru einhver fjögur félög að koma athugasemdum sínum og rökum á framfæri. Við höfum afgreitt miklu stærri mál á skemmri tíma en þetta, mál sem varða efnahag landsins og gífurlega hagsmuni, og ég sé enga ástæðu fyrir því að við getum ekki afgreitt þetta. Það hefur komið mér á óvart hversu margir þingmenn hafa rætt að það sé ekki hægt að afgreiða þetta mál af því að tíminn sé svo skammur. Ég sé engin rök fyrir því og ég óska eftir því frá hv. þingmanni að vita hvaða rök eru fyrir hendi og hvað gerir að verkum að við getum ekki afgreitt þetta mál á skömmum tíma sem er gífurlegt hagsmunamál fyrir þá sem hér um ræðir, (Forseti hringir.) að við gerum sjóðinn sjálfbæran og samræmum réttindi.



[17:47]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ætti kannski að leita til eigin formanns og þingflokksformanns til að geta svarað þeirri spurningu vegna þess að ástæðan fyrir því að hér mun ganga erfiðlega að klára mál er sú að það liggur engin forgangsröðun fyrir og hefur þó verið beðið nógu lengi eftir því, miklu lengur en þörf ætti að vera á.

Á þessu kjörtímabili hef ég tekið eftir því að ef tekið er til máls og stjórnarmeirihlutinn verður óþolinmóður þá byrjar hann jafnan að saka minni hlutann um málþóf, það kemur fyrir fyrr en síðar. Ég veit að það er ekki í gangi hér, (BN: Ég minntist ekki einu sinni á það.) nei, eins og ég segi, ég veit að það er ekki í gangi hér. Þá vek ég athygli á því að síðan í vor hefur þingið gengið með afbrigðum vel og allir eru sammála um það. Svo á lokametrunum þá er hent inn máli eftir mál, þar á meðal þetta. Þetta er kannski ekki stórt mál fyrir hv. þingmann Brynjar Níelsson sem er í 19 manna þingflokki og hefur nokkra ráðherra til að útskýra hlutina fyrir sér, fyrir utan auðvitað að hafa langa reynslu af bæði störfum og lífi, en það er einfaldlega aðstaða sem ekki allir þingmenn búa við, það er bara ekki þannig. Hér eru fjölmörg önnur mál til umræðu í velferðarnefnd og í allsherjar- og menntamálanefnd, þeim nefndum sem ég þarf að fylgjast með t.d., og það gerir að verkum að erfiðara er að taka fyrir öll mál og klára þau. Það er einfaldlega málaþunginn, sérstaklega á svo skömmum tíma. Það veldur þessum aðstæðum.

Ef við ætlum að klára þetta mál skellum því á forgangslista. En málið er bara að ég ákveð það ekki. Það er meiri hlutinn sem ákveður það. Við bíðum og bíðum eftir forgangsröðun. Ef við ætlum að klára þetta mál þá get ég réttlætt það að eyða þó nokkrum tíma í að setja mig inn í það. Ef við ætlum ekki að klára það þá sleppi ég því og eyði tíma mínum í eitthvað sem ég veit að muni klárast. Þessa forgangsröðun vantar og hún er á ábyrgð meiri hlutans, ekki minni hlutans. (BN: Þetta mál verður að klára.)