145. löggjafarþing — 156. fundur
 23. september 2016.
umgengni um nytjastofna sjávar o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 679. mál (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni). — Þskj. 1107.

[16:04]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1107 sem er 679. mál, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald.

Með frumvarpinu er lagt til að settar verði reglur um það sem í frumvarpinu er nefnt öflun sjávargróðurs. Með því er átt við slátt á þangi og öflun á þara. Við þekkjum að alls staðar þar sem klettar, klappir og stórgrýti kemur upp úr sjó á fjöru við Ísland vex þang. Mest er af klóþangi við Ísland og er klóþangið sú tegund sem er uppistaðan í þangmjölsframleiðslu, bæði hér á Íslandi og í öðrum löndum þar sem sambærileg starfsemi er stunduð, t.d. í Noregi, Kanada og á Bretlandseyjum. Á Breiðafirði, þar sem löng reynsla er af þessari starfsemi, eru ótal sker, flögur og eyjar, sem skapa á tiltölulega litlu svæði mjög víðlenda strandlengju. Um leið er þar mikill munur flóðs og fjöru. Það gerir það að verkum að verulega mikið er af þangi í firðinum.

Mörgum er kunnugt um að snemma á 8. áratugnum var sett upp sérhæfð verksmiðja til þurrkunar á sjávargróðri á Reykhólum á Reykjanesi í Reykhólahreppi. Þegar sú starfsemi hófst fólst í henni mikið brautryðjendastarf sem margir komu að, bæði einkaaðilar heima í héraði, ráðgjafar sem og stofnanir. Þróa þurfti að aðferðir við slátt á þangi, söfnun þess, löndun í verksmiðju og að sjálfsögðu þurrkun hráefnisins þegar í land væri komið. Þýðingarmesta hráefni verksmiðjunnar á Reykhólum hefur frá upphafi verið klóþangið, en jafnframt hefur þari verið nýttur þar. Þari er tekinn utarlega í Breiðafirði með svonefndri togkló sem grípur hann. Um er að ræða tvær tegundir af þara, hrossaþara og stórþara. Jarðhitinn á Reykhólum var undirstaða þess að verksmiðjan reis þar. Færibandaþurrkari, sem notaður er til að vinna mjöl úr þanginu og þaranum, var þróaður af íslenskum aðilum á sínum tíma með aðstoð Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og reyndist svo vel að hann varð fyrirmynd að yfir 20 þurrkurum sem notaðir eru víða um land við þurrkun á þorskhausum, svo dæmi sé tekið.

Þá er ánægjulegt að sjá að fyrir stuttu var sett á fót verksmiðja við hlið Reykhólaverksmiðjunnar sem vinnur salt úr Breiðafirði og notar til þess affallsvatn úr verksmiðjunni. Það rímar vel við markmið okkar Íslendinga um að nýting náttúruauðlinda okkar sé sjálfbær og að leitað sé leiða til aukinnar verðmætasköpunar. Starfsemin á Reykhólum virðist ganga ágætlega, hún er eðlilega undirstaða byggðarinnar í þorpinu þar vestra.

Rakið er í skýringu með frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir að öflun þangs og þara í Breiðafirði hefur til þessa ekki lotið beinu eftirliti eða stjórn opinberra aðila. Engar reglur hafa verið settar um til að mynda sláttubúnað eða öflunartæki, skráningu afla eða meðferð hans. Ætla má að ekki hafi fram að þessu verið talin ástæða til að setja slíkar reglur. Þangsláttur hefur farið fram í samráði við fjörueigendur á hverjum stað, en þangið vex aðeins í fjörunni og þar með innan netalaga sjávarjarða. Verksmiðjan á Reykhólum mun lengst hafa leigt sláttupramma sína til sjálfstæðra verktaka sem öðlast hafa mikla þekkingu á einstökum sláttusvæðum. Það er mikilvægt að við mótum reglur á þessu sviði og að við lærum af þessari reynslu.

Á síðustu missirum höfum við orðið vör við aukinn áhuga á nýtingu þangs og þara og virðist sá áhugi að mestu eða öllu bundinn við Breiðafjörð. Í það minnsta tveir aðilar hyggjast hefja slíka starfsemi á næstunni eins og m.a. hefur komið fram í fjölmiðlum. Líklegt virðist að þessi aukni áhugi tengist góðum markaðsaðstæðum, en aukin eftirspurn virðist eftir þörungum til notkunar í alls kyns iðnaði, m.a. sem svonefnd hleypiefni og íblöndunarefni í áburði. Ýmsar þörungaafurðir eru ákjósanlegar til að bæta bragð, útlit og hollustu matvara og er aukin eftirspurn eftir þeim í líftækni og jafnvel til heilsubótar eða lækninga. Það er ánægjulegt að sjá þá þróun eiga sér stað, en aukin fullvinnsla á því hráefni hér á landi hlýtur að vera kappsmál af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Ég vil sérstaklega geta þess í því sambandi að á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefur að undanförnu verið unnið að mótun lífhagkerfisstefnu fyrir Ísland, þ.e. hvernig stjórnvöld, atvinnulífið og borgarar geta eflt lífhagkerfi okkar. Hinn aukni áhugi á nýtingu knýr á um að settar verði reglur um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni, eins og stefnt er að með frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir.

Í því sambandi vek ég sérstaka athygli á því að gert er ráð fyrir að aukin áhersla verði lögð á rannsóknir á þangi og þara í Breiðafirði og á áhrif nýtingar á vistkerfið, en um auknar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á þessu sviði er fjallað í skýringu með frumvarpinu.

Þá vil ég að endingu geta þess að frumvarp þetta hefur því miður legið alllengi inni á Alþingi án þess að mælt hafi verið fyrir því og því vísað til nefndar. Ég vona að samstaða takist engu að síður um að afgreiða það fyrir þinglausnir.

Ég vil einnig geta þess að ráðuneytið hefur átt samráð við helstu hagsmunaaðila á síðustu mánuðum. Það hefur getið af sér nokkrar tillögur um breytingar á frumvarpinu sem ég vil beina til atvinnuveganefndar að taka tillit til eða taka til athugunar og meðferðar.

Í frumvarpinu er gefið yfirlit um áhrif þess á fjárhag ríkissjóðs. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu, en þar er ítarlega fjallað um frumvarpið og gerð grein fyrir efni þess.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.



[16:10]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald eða öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Ég vil byrja á að taka það fram að ég tel mjög gott að við getum notað sjávargróður, þang og þara, í þessu tilviki til þess að auka fjölbreytni í atvinnumálum þjóðarinnar, svo þeim parti er ég fyllilega sammála. Eins og ég ætla að koma að í ræðu minni eru önnur atriði í málinu sem ég í það minnsta tel rétt að spyrja nokkurra spurninga um.

Í fyrsta lagi langar mig að nefna að líkt og hæstv. ráðherra sagði sjálfur í máli sínu er nokkuð um liðið síðan þetta mál kom fram. Ég fletti því raunar upp og málinu var útbýtt hér 4. apríl. Það er fyrst núna og ef við teljum ekki þennan dag með sem er senn búinn hér á þingi þar sem þetta er síðasta málið sem er á dagskrá, þá eru fjórir þingdagar eftir af endurskoðaðri starfsáætlun Alþingis. Það gefur því augaleið að hér gefst ekki mikill tími fyrir hv. atvinnuveganefnd til þess að rannsaka málið og skoða, sé það vilji hæstv. ráðherra að málið klárist fyrir kosningar.

Það virðist vera sem það sé sett talsverð pressa og mikill hraði á að þetta mál verði klárað. Nú vill svo til að ég fór á fund í hv. atvinnuveganefnd með einungis örfárra mínútna fyrirvara, eins og stundum gerist í dagsins amstri á Alþingi, og þá kom einmitt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og var að kynna ýmis efnisatriði þessa frumvarps fyrir nefndarmönnum og það án þess að búið væri að mæla fyrir frumvarpinu. Það finnst mér benda til þess að það sé þrýstingur á að þetta mál fari hratt í gegnum þingið. Mér finnst ástæða til að staldra við það eitt og sér og setja spurningarmerki við þau vinnubrögð.

Nú er þetta vissulega ekki stærsta og flóknasta málið sem er verið að mæla fyrir á síðustu dögum þingsins. Það eru vissulega enn önnur stærri og miklu víðfeðmari og flóknari mál sem einnig er verið að setja á dagskrá síðustu dagana og ber þar kannski fyrst að nefna frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar, sem lúta m.a. að hækkun á lífeyrisaldri, sem og frumvarp um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem bæði eru miklu stærri mál en þetta og flóknari að fjalla um. En engu að síður má segja að þetta mál verði hluti af stærri heild og safnast þegar saman kemur.

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan er ég hlynnt því að við notum sjávargróður í atvinnuskyni en tel gríðarlega mikilvægt, líkt og þegar kemur að öðrum auðlindum okkar hér á landi eða við landið, að við förum við vel með auðlindina og vöndum okkur við að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti.

Það kom fram í þeirri kynningu sem var haldin í hv. atvinnuveganefnd af hálfu embættismanna úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að það sé á vegum Hafrannsóknastofnunar verið að vinna að rannsóknum á þara og þangi og eins og er tekið fram í texta með frumvarpinu þá eru núna rannsóknir í gangi en eitthvað í að niðurstöður komi úr því. Það var reyndar nefnt á fundi hv. atvinnuveganefndar, sem ég hef nokkrum sinnum vísað í, að einhverra niðurstaðna væri að vænta jafnvel strax í nóvember.

Mér þykir mikilvægt í svona máli að stigið sé varlega til jarðar og tel þess vegna að ef niðurstaðna er að vænta eftir rétt rúman mánuð, kannski einn og hálfan mánuð, sé betra að fara sér hægt, láta náttúruna njóta vafans og bíða eftir betri upplýsingum, því að það er um viðkvæmt lífríki að ræða.

Á það hefur svo einnig verið bent og ég fann m.a. grein á netinu á síðunni snæfellingar.is þar sem er bent á að það sem þar er kallað skógar sjávar, sem ég held að sé frekar fallegt orð yfir þang og þara, þeir séu undirstaða alls lífríkis í Breiðafirði og bent á að þar hrygni t.d. grásleppan og æðakollan ali unga sína í klóþangsbreiðunum og bent á að fari menn of geyst í þara- og þangtöku muni það raska tilveru þessa lífríkis.

Ég tel því að þótt auðvitað sé gott og mikilvægt að rannsaka það hversu hraður vaxtatími þangs er, líkt og Hafrannsóknastofnun er m.a. að rannsaka til þess til að mynda að vita hversu mikið megi taka af þessum gróðri hverju sinni og hversu lengi þurfi að hvíla svæði, þá verði að skoða þetta lífríki í stærra samhengi.

Mér hugnast því illa með tilliti til náttúrunnar að hér sé farið of geyst og ekki beðið eftir niðurstöðum úr rannsóknum sem eru alla vega að einhverjum hluta til svo að segja handan við hornið. Ég held að það yrði þessari atvinnugrein frekar til hagsbóta og hún verði líklegri til að geta blómstrað til framtíðar ef við vinnum grunnheimavinnuna vel. Það þýðir að bíða eftir í það minnsta þeim rannsóknaniðurstöðum sem er stutt í, þó svo að alltaf þurfi að halda áfram rannsóknum. Ég held að hér sé verið að byrja í raun á röngum enda með því að byrja á að fjalla um hvernig eigi að úthluta mönnum eða fyrirtækjum leyfum til að nýta auðlindina og miklu nær sé að byrja á rannsóknunum og hafa þannig grunninn undir eitthvað sem verður vonandi í framtíðinni blómstrandi atvinnugrein á hreinu.



[16:21]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má svo sem deila um hvort þetta er andsvar eða eitthvað annað, en ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að skýra nokkra hluti örlítið betur.

Það er rétt að málið hefur legið töluvert lengi. Núna þessa vikuna hefur sá sem hér stendur þurft að bíða til að geta mælt fyrir málinu, eðlilega, vegna þess að önnur mál hafa verið á dagskránni en hins vegar er málið í sjálfu sér ekki mjög flókið eða íburðarmikið ef má orða það þannig. Það er fyrst og fremst hugsað til þess að ná utan um þessa auðlind, þetta eru fyrstu skrefin í því til að ná utan um verkefnið. Með frumvarpinu er ekki verið að byrja að heimila nýtingarrétt, það er ekkert í þessu sem segir að menn geti, eftir að búið er að samþykkja það á þingi, rokið út og farið að nýta auðlindina meira en gert er í dag. Það er fyrst og fremst verið að skapa umgjörð, ramma inn þessa auðlind, byrja að taka þau skref. Síðan kemur að sjálfsögðu í ljós hvað auðlindin er stór eða hvað hægt er að nýta af henni, þá tökum við mið af því í framhaldinu. Við töldum rétt vegna þess áhuga sem er til staðar í dag að stækka kannski það sem fyrir er, nýta það betur, nýir aðilar vilja koma inn, byrja á að setja þennan ramma utan um starfsemina og svo tökum við á hinu þegar það liggur fyrir hvað auðlindin getur verið mögulega stór eða lítil, það fer eftir hvernig við skilgreinum það.

Það er líka mjög mikilvægt að hér komi fram að við vildum eiga gott samtal við helstu hagaðila varðandi þetta mál og höfum gefið okkur góðan tíma í það. Það er ein ástæðan fyrir því að þetta hefur kannski gengið rólega hjá okkur. Hitt er líka að í þessu felast mikil tækifæri fyrir þau byggðarlög sem þarna eru undir, byggðarlög sem eru rótgróin í þessum bransa ef má orða það þannig, líka fyrir nýja aðila að koma inn ef auðlindin þolir slíkt. Við munum, ég er sammála hv. þingmanni með það, að sjálfsögðu ekki taka neina áhættu með nýtingu á auðlindinni.



[16:23]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og fyrir að skýra málið enn frekar. Mér finnst það gott ef við erum í það minnsta sammála um að hér þurfi að fara varlega. (Sjútvrh.: Sammála þessu.) Það held ég að sé alla vega mjög dýrmætur byrjunarpunktur og er það alltaf þegar um viðkvæma náttúru er að ræða.

Líkt og hæstv. ráðherra nefndi einnig liggur fyrir að nýir aðilar vilja komast þar inn. Ég trúi því að þeir hljóti að fylgjast með því sem hér er gert ef þeir hafa áhuga á að koma þarna inn og ég er þeirrar skoðunar að þess vegna þurfi Alþingi í meðferð sinni á málinu að sýna það mjög skýrt að við viljum stíga varlega til jarðar. Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er einmitt sú að mér er alvara málsins ljós. Ég átta mig fyllilega á því að þetta getur skipt mjög miklu máli fyrir byggðarlög á Snæfellsnesi eða við Breiðafjörðinn þar sem þangtaka getur skipt miklu í atvinnulegu tilliti, en vil ítreka að það er einmitt þess vegna sem ég legg á það áherslu að rannsóknavinnunni sé vel sinnt áður en farið verður út í aðra vinnu því að það er einmitt þannig sem við getum byggt upp til framtíðar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.