145. löggjafarþing — 161. fundur
 3. október 2016.
um fundarstjórn.

viðvera stjórnar og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:50]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú er það upplýst að formaður og varaformaður annars stjórnarflokksins eru á kosningaferðalagi úti á landi. Það er út af fyrir sig ekkert við það að athuga, auðvitað eiga forustumenn í stjórnmálum að vera á kosningaferðalögum um landið í októbermánuði. En það er einmitt ástæðan fyrir því að hér á ekki að standa yfir þingfundur, (Gripið fram í.) vegna þess að kosningabaráttan á að vera hafin og störfum á Alþingi á að vera lokið.

Virðulegi forseti. Ég beini þeim eindregnu tilmælum til forseta að fundarhöldum verði hætt þangað til stjórnarflokkarnir vita sitt rjúkandi ráð, vita hvaða mál þeir vilja afgreiða og hvaða áætlanir þeir vilja hafa hér uppi, því að þetta algera stefnuleysi gengur ekki, virðulegi forseti.



[11:51]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er búið að boða fund þingflokksformanna kl. 12 og klukkuna vantar átta mínútur í 12. Er ekki öllum ljóst að það er bara della af forustu þingsins að halda þessum fundi áfram í sjö mínútur og taka til við næsta dagskrármál? Til hvers er þessi vitleysisgangur? Til hvers eru svona stælar í samskiptum við Alþingi, að gera ekki það sem augljóst er, að gera hlé á fundinum að afloknum óundirbúnum fyrirspurnatíma og taka til við fundarhöld um það hvernig við ætlum að ljúka þessu hér? Tíminn er runninn út, virðulegi forseti. Tími ríkisstjórnarinnar er runninn út, tími þessa þingmeirihluta er runninn út. Við þurfum að komast í það að ræða við kjósendur í landinu. Það er komið að kosningum og það er komið að endalokum þessa meiri hluta.



[11:52]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Nú má eiginlega segja að mér detti allar dauðar lýs úr höfði. Mér finnst þetta nánast fyndið. Hæstv. forseti sagði fyrr í morgun að ekki hefði náðst samtal til að komast að niðurstöðu um það hvaða málum eigi að ljúka. Nú kemur í ljós af hverju samtalið næst ekki. Það er vegna þess að formaður og varaformaður annars stjórnarflokksins eru á ferðalagi um landið í nákvæmlega sama tilgangi og við ættum að vera það líka, þ.e. þeir eru í kosningabaráttu. Hér sjáum við fyrir okkur hæstv. utanríkisráðherra, varaformann Framsóknarflokksins, þannig að gagnálykta má að þetta séu formaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður hans sem eru víðs fjarri þingstörfum. Það er þess vegna, vegna fjarveru þeirra, sem ekki er hægt að eiga samtölin sem eiga að leiða til einhvers konar niðurstöðu. Ég tók ekki þátt í umræðum um fundarstjórn forseta í morgun en nú er svo fram af mér gengið, frú forseti, (Gripið fram í.) að mér finnst ekki hægt annað en að fresta þessu þingi (Forseti hringir.) þangað til hægt er að færa þann herramann sem stýrir Sjálfstæðisflokknum hingað til þings þannig að hægt sé að eiga við hann samtal. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:53]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað. Þetta er auðvitað hálfhjákátlegt, og þetta var það sem við vorum að benda á í morgun að það er kominn tími á að við förum að eiga samtal við fólkið í landinu með því að hitta það augliti til auglitis. Það á ekki bara við um suma. Það eru ekki forréttindi sumra, ríkisstjórnarflokkanna eða annarra, heldur á þetta við um okkur öll. Þess vegna er algjörlega ótækt að vera hér inni án þess að búið sé að ganga frá því.

Auðvitað er tíminn liðinn til að hægt sé að hefja næsta lið, þ.e. þær fyrirspurnir sem hér á að bera fram. Það er þinghlé frá kl. 12 og tíminn sem fyrirspyrjandi og ráðherra hafa er umfram þann tíma sem eftir lifir fram að hádegi. Ég tel því einboðið að við ljúkum þessu núna og sjáum svo til hvað kemur út úr þessu á eftir í samtali þingforseta við þingflokksformenn. Vonandi sjá formenn ríkisstjórnarflokkanna sér fært að mæta hér til fundar og eiga samtöl við formenn stjórnarandstöðunnar.



[11:55]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Virðingarleysið gagnvart forseta Alþingis er algert hjá hans eigin flokki. Virðingarleysi formanns Sjálfstæðisflokksins og varaformanns hans er algert gagnvart þinginu og almenningi í landinu. Virðingarleysi Framsóknarflokksins gagnvart þinginu er algert, því að ekki hef ég heyrt núverandi forsætisráðherra og nýkjörinn formann flokksins tala um hvernig við ætlum að ljúka þessu þingi.

Við erum búin að gera það sem við áttum að gera á þessu þingi, sem var afnám hafta, og nú getum við farið heim, virðulegi forseti. Það er ekkert annað sem þarf að afgreiða á þessu þingi því að það stóð aldrei til að afgreiða nein önnur mál. Við höfum leyft ríkisstjórninni að taka í gegn öll þau mál sem hún hefur getað klárað en það er stjórnarandstaða í ríkisstjórninni og það er bara þannig, forseti. Því fyrr sem þið viðurkennið það, þeim mun betra.