145. löggjafarþing — 166. fundur
 7. október 2016.
um fundarstjórn.

frumvarp um raflínur að Bakka.

[17:00]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum nú um nokkra hríð verið að fjalla um línumálið svokallaða í atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég á sæti. Það hefur vakið nokkra athygli að í minnisblaði frá iðnaðarráðuneytinu eru nokkur mál reifuð og loks gerð ákveðin tillaga að breytingu 3. gr. frumvarpsins þar sem í röksemd kemur fram að meginmarkmið frumvarpsins sé að breyta náttúruverndarlögum. Það er meginmarkmið frumvarps sem kemur frá iðnaðaráðuneytinu að breyta náttúruverndarlögum sem er umhugsunarefni fyrir það fyrsta.

Í öðru lagi fékk umhverfis- og auðlindaráðuneytið erindi frá umhverfis- og samgöngunefnd þar sem óskað var álits ráðuneytisins á bæði breytingum á náttúruverndarlögum og áhrifum þessa frumvarps á Árósasamninginn og EES-reglur. Það er skemmst frá því að segja að eftir fund nefndarinnar með ráðuneytinu í dag, seinni partinn í dag, liggur það fyrir svo alvarlegt sem það er að vegna ákvarðana ráðuneytisstjóra og ráðherra málaflokks umhverfismála var ákveðið að svara ekki erindi frá Alþingi með efnislegum hætti. Það er afar alvarlegt að löggjafarþingið geti ekki treyst því að ráðherrar og ríkisstjórnin standi með þinginu í því (Forseti hringir.) að fá bestu mögulegu upplýsingar þegar svo alvarleg álitamál eru annars vegar.



[17:01]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur í þessu máli. Það kemur í ljós eftir næstum því vikubið hjá okkur fulltrúum í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins, sem höfum óskað eftir upplýsingum úr umhverfisráðuneytinu um viðbrögð þess við þeirri stöðu sem upp er komin í máli Bakka, að það er ekki hægt að skilja fulltrúa ráðuneytisins öðruvísi en að ráðherra hafi beinlínis beitt sér gegn því að það kæmu einhver svör úr ráðuneytinu, að hið pólitíska vald sest á embættismenn ráðuneytisins og kemur í veg fyrir að hingað berist skýringar í þingið til þingnefndar sem á að fjalla um þetta mál. Það er auðvitað fulkomlega ótækt þegar þannig er og ljóst í því sem gerðist á fundi með atvinnuveganefnd áðan þar sem okkur fulltrúum í umhverfis- og samgöngunefnd bauðst að sitja sem gestir eins og við höfum alltaf fengið að gera í þessum málaflokkum, sem ættu reyndar að varða umhverfisnefndina, (Forseti hringir.) að það þarf að ræða þetta mál miklu betur, fara með miklu vandaðri hætti yfir það í þinginu.



[17:03]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir áhyggjur þeirra tveggja hv. þingmanna sem töluðu hér á undan mér varðandi svörin frá umhverfisráðuneytinu. Í fyrsta lagi bárust þau seint og í öðru lagi bárust þau illa. Það er rétt sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir segir, við þurfum að geta treyst á að við getum sótt okkur sérfræðiaðstoð og þekkinguna sem býr í ráðuneytinu því að annars, virðulegi forseti, þurfum við að fara að búa til betra kerfi í kringum þingið og þingmennina. Það gengur náttúrlega ekki eins og það er núna, að við hv. þingmenn höfum ekki aðgengi að bestu mögulegum sérfræðingum eins og önnur þing hafa. Við þurfum miklu öflugri lagaskrifstofu til þess að geta sótt upplýsingar til. Það er því mjög alvarlegt þegar umhverfisráðuneytið bregst við með þessum hætti af því að við höfum ekkert annað að leita.



[17:04]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég sat ekki þann fund sem hv. þingmenn sátu sem töluðu á undan mér, en ég hlýt að lýsa yfir áhyggjum mínum þegar um er að ræða inngrip í lög og reglur sem við störfum samkvæmt almennt. Hér er um að ræða mjög alvarlegt inngrip sem rökstutt hefur verið með því að miklir hagsmunir séu undir og ekki síst þá ríður á að lagasetning sé eins vönduð og hægt er. Þar sem þessi lagasetning snýst um réttarfar á sviði umhverfis- og náttúruverndar er mjög einkennilegt að ekki sé hægt að fá upplýsingar frá því ráðuneyti sem er með þann málaflokk. Það er því ekki nema eðlilegt að gera alvarlegar athugasemdir við það því að það er okkar hlutverk hér á Alþingi að ef farið er í slík inngrip, sem eru mjög alvarleg, að tryggja það sé þá gert með eins vönduðum hætti og hægt er. Til þess þurfa allar upplýsingar að liggja á borðinu. Við ræðum hér um réttarumhverfi (Forseti hringir.) fyrir umhverfi og náttúru í landinu. Við viljum ekki taka ákvarðanir sem geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar hvað það varðar.



[17:05]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil koma hér upp til þess að taka undir áhyggjur frá félögum mínum, hv. þingmönnum sem hafa áður talað um að verið sé að taka hér í gegn lagasetningu sem fer á skjön við almennt réttarfar. Ég hef miklar áhyggjur af því að í raun og veru sé verið að gera ríkið skaðabótaskylt. Við erum að fara á skjön við marga alþjóðasáttmála ef við heimilum að þetta fari svona í gegn. Ég verð líka að segja, forseti, að það vekur furðu mína að lesa þetta minnisblað frá umhverfisráðuneytinu. Ber ekki umhverfisráðuneytinu að standa vörð um náttúru landsins? Ef það eru vafaatriði þá hlýtur að vera sérfræðiþekking þar innan borðs sem getur skilað áliti sem er eitthvað meira en þetta, það var hvorki fugl né fiskur.



[17:07]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég verð að fá að bæta við það sem ég sagði áðan varðandi þetta mál að það er auðvitað grafalvarlegt þegar fulltrúar ráðuneytis koma eftir langa bið á fund okkar þingmanna og lýsa því yfir, í jafn afdrifaríku máli og hér er á ferðinni, að það sé gríðarleg óvissa á ferðinni um lagaleg áhrif þeirrar lagasetningar sem hér um ræðir, í hverri spurningunni á fætur annarri sé mikil óvissa á ferðinni. Við erum að tala um þá stöðu sem blasir þannig við borgurunum að það er ákveðinn kæruréttur sem verður til þegar framkvæmdaleyfi eru veitt. Úrskurðarnefndin, eftir því sem við komumst næst hér í þinginu, mun skila af sér í næstu viku. En áður en það gerist ætlar þingið að grípa inn í ferlið og hafa af borgurum kæruréttinn, aðkomu þeirra, og getur ekki veitt fullnægjandi svör um áhrifin sem af því hlýst. Það gengur ekki.



[17:08]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég bið forseta að leggja við hlustir undir þessum athugasemdum okkar. Það sem við erum að segja er að við erum hér með breytingar á lögum sem lúta að mati á umhverfisáhrifum, náttúruvernd, sem snúa að skipulagsmálum, Árósasamningi, kærunefnd umhverfis- og auðlindamála. Öll þessi löggjöf er á hendi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Öll þessi löggjöf. Hver og einn einasti lagabálkur. Svo þegar umhverfis- og samgöngunefnd fer þess á leit við umhverfis- og auðlindaráðuneytið að veita sérfræðilega umsögn upplýsingar um einstaka þætti þessa máls þá víkur ráðuneytið sér undan því. Af hverju? Það er af því að ráðherrann vill það ekki, forseti.

Ég spyr: Er það svo að umhverfisráðherrann vill halda upplýsingum, þekkingu og faglegu mati á svona alvarlegu inngripi frá Alþingi?



[17:09]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég á eiginlega ekki til orð yfir að lýsa vandlætingu minni á framferði hæstv. umhverfisráðherra. Það hefur oft verið þannig, forseti, að spurningar hafa verið lagðar fyrir hæstv. ráðherra og ráðherrann hefur ítrekað vanvirt Alþingi með því að svara ekki eða hefur ekki vit á málaflokknum, sem er mjög alvarlegt mál og kristallast í raun í því svari sem kemur frá ráðuneytinu. Ef það er rétt að það sé ráðherrann sjálfur sem hlutast til um málið á þann veg að hann vilji ekki halda þinginu upplýstu er það alvarlegt. Ég tel réttustu stöðuna vera þá að gefa málinu þann tíma sem það þarf og að við fáum þær upplýsingar sem okkur ber að fá til þess að sé hægt að samþykkja það, annars er ljóst að málið verður að fara út af borðinu í heild.