145. löggjafarþing — 168. fundur
 11. október 2016.
yfirvofandi kennaraskortur.

[10:50]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég er hér komin til að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um yfirvofandi kennaraskort sem við sjáum fram á á næstu árum og áratugum. Samkvæmt meistararitgerð Helga Eiríks Eyjólfssonar, um nýliðun í kennarastéttinni, héldu ekki nema tveir þriðju af nýútskrifuðum kennaranemum á bilinu 2008–2012 til starfa í grunnskólum landsins, eftir útskrift. Af þessu má ráða að einn þriðji hluti nýútskrifaðra kennara fór á þessu tímabili ekki til starfa í grunnskólum eða leikskólum landsins. Þar að auki kemur fram í meistararitgerð Helga að það er mjög líklegt að fólk hætti störfum í grunnskólum landsins innan fyrstu fimm áranna eftir að það hefur störf. Karlmenn eru líklegri til þess að hætta í starfi sem kennarar. Ég tel þetta mjög umhugsunarvert. Við sjáum fram á að kennurum fjölgar ekki í takt við nýliðun þjóðarinnar. Nýnemum í kennarastétt hefur fækkað um 60% frá 2008.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig beri að bregðast við þessu. Hvaða vinna á sér stað sem stendur í ráðuneytinu til þess að gera kennarastarfið meira aðlaðandi? Nú hafa laun hækkað að einhverju ráði en á sama tíma hefur námið líka lengst. Við erum að tala um að það að vera kennari sé svo gott sem sérfræðistarf. Það virðist ekki vera svo að álag og menntun endurspeglist í launum. Hvernig gerum við kennarastarfið meira aðlaðandi?



[10:52]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Hér er opnað á mjög mikilvægt mál. Hvað varðar þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til þá er það rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að laun kennara hafa hækkað. Ég vil nefna tiltölulega nýgerða kjarasamninga við framhaldsskólakennara þar sem laun þeirra voru hækkuð umtalsvert. Í ljósi verðbólguþróunar á samningstímanum er mér til efs að kaupmáttur kennaralauna hafi nokkurn tímann vaxið jafn mikið, í það minnsta í langa tíð, og gerst hefur hér hvað varðar laun framhaldsskólakennara.

Það er alveg klárt mál, og ég held að það skilji það allir, að launaþátturinn skiptir gríðarlega miklu máli. Þessi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á að laun kennara yrðu hækkuð og auðvitað var það umdeilt á sínum tíma. Ég man vel eftir umræðu hér í þingsal og í samfélaginu, þegar þeir kjarasamningar voru gerðir við framhaldsskólakennara, um það hvort ekki hefði verið gengið of langt. Ýmsir þeir sem voru í forustu fyrir verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur voru þeirrar skoðunar að gengið hefði verið of langt í þeim kjarasamningum og laun kennara hækkuð of mikið. Ég var ósammála því. Ég taldi nauðsynlegt að hækka laun kennara með þeim hætti sem gert var.

Ég bendi á, virðulegur forseti, að með þeirri ákvörðun að fara úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi á framhaldsskólastiginu erum við líka — þó að það séu auðvitað alveg sérstök rök fyrir þeirri ákvörðun — að bregðast við þeim vanda sem hv. þingmaður nefnir. Aldurssamsetning kennara er óhagstæðari en áður hvað það varðar að það eru fleiri eldri kennarar, en með því að við förum úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi léttir á þeim þættinum í framhaldsskólunum. Kerfisbreytingar á framhaldsskólastigi og umtalsverðar launahækkanir, sem sættu reyndar gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar og fleiri, hafa mætt þessu ástandi að nokkru.

Áfram verður að halda hvað varðar (Forseti hringir.) þessa þróun, en ég mun koma að fleiri þáttum í síðara svari mínu.



[10:55]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Áhyggjur mínar og spurning mín beinist kannski frekar að leikskólanum og grunnskólanum. Margt gott hefur verið gert hvað varðar framhaldsskólakennslu. Við sjáum hins vegar fram á að við fáum ekki kennara í grunnskóla landsins. Það er of mikið álag, þeir virðast ekki geta sinnt þessu starfi sem skyldi. Það vantar fjármagn, það vantar beinan fjárstuðning í rekstur skólanna. Það er náttúrlega á hendi sveitarfélaganna en ekki síst ríkisins. Framhaldsskólinn er eitt, en bætt ástand þar lagar ekki vanda grunnskólanna, og ekki heldur leikskólanna. 30% starfsfólks í leikskólum hefur leikskólakennaramenntun. Það hlýtur að vera eitthvað sem við þurfum að taka mjög alvarlega.

Af hverju er þetta svona? Af hverju helst fólk ekki í starfi í grunnskólum og í leikskólum landsins?



[10:56]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði að það væri ekki síst verkefni ríkisins að útvega fjármagn fyrir grunn- og leikskólana. En það er rangt. Þessi skólastig eru á forræði sveitarfélaganna. Hv. þingmaður þekkir það auðvitað. Ríkið semur ekki við kennara á því skólastigi og rekur ekki þessar stofnanir, það eru sveitarfélögin. (Gripið fram í.) Nei, ríkisvaldið er eitt, það er hið opinbera. Hið opinbera skiptist í ríkisvald annars vegar og sveitarfélögin hins vegar og það eru sveitarfélögin sem með samningum hafa þessa skóla, sjá um rekstur þeirra og kjarasamninga.

Ég vil nefna hér eitt verkefni sem skiptir máli hvað varðar spurningu hv. þingmanns. Það liggur fyrir að grunnskólinn á Íslandi er í öllu alþjóðlegu samhengi mjög vel fjármagnaður. Aftur á móti höfum við verið að skoða, og fengið erlenda aðila í samstarf með okkur til þess, skólastefnuna „Skóli án aðgreiningar“, hvernig gengið hefur með innleiðingu þeirrar stefnu, hvort við séum að fjármagna skólana nægilega vel í ljósi þeirrar stefnu sem þar liggur fyrir. Aðstaða kennara til þess að framfylgja því skiptir máli, það er eitt af því sem við erum að skoða, þ.e. starfsumhverfi kennara í ljósi þeirrar stefnumótunar. Það er eitt af því sem við þurfum að fást við. (Forseti hringir.)

Þetta er vissulega, og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, vandamál, sérstaklega hvað varðar grunnskólana og leikskólana. Og það þarf að mæta því hér á næstu árum.