145. löggjafarþing — 168. fundur
 11. október 2016.
tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 854. mál. — Þskj. 1621.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[12:27]

[12:23]
Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að náðst hefur góð samstaða um þetta mál í þinginu. Við höfum á síðustu missirum innleitt nýjar endurgreiðslureglur varðandi kvikmyndaiðnaðinn í landinu og nú erum við að bæta hér við tímabundnum endurgreiðslum vegna hljóðritunar á tónlist. Þetta er talið af þeim sem starfa í þessum geira mjög mikilvægt og verði til þess að styrkja og efla grósku á þessum vettvangi hérlendis.

Ég vil að gefnu tilefni nefna það í þessu samhengi að það varð að sátt í hv. atvinnuveganefnd í gær að nefndarmenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar mundu leggja fram þverpólitískt mál sem snýr að frjálsum félagasamtökum í landinu, þ.e. að þau geti þegar þau eru að fara að byggja sér aðstöðu yfir starfsemi sína leitað til fjármálaráðuneytisins um samning og fengið endurgreiddan virðisaukaskatt þar sem þau eru endagreiðendur að virðisaukaskatti.

Í ljósi þess hversu vel hefur tekist til við að ná samstöðu um svona mál og að keyra svona ívilnandi (Forseti hringir.) mál í gegn held ég að við ættum að sameinast um það í þinginu og horfa til þessa máls og afgreiða það með sama hætti.



[12:24]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að þetta mál sé að verða að lögum. Ég þakka hv. þingi og hv. atvinnuveganefnd kærlega fyrir góða og öfluga vinnu að þessu máli. Við sjáum það, sérstaklega á þessum dögum núna, hversu vel okkur hefur orðið ágengt varðandi kvikmyndaiðnaðinn þegar stór verkefni eru í gangi hér, ég vil ekki segja úti um allt land en víða um landið, með tilheyrandi efnahagslega jákvæðum áhrifum og jákvæðum áhrifum á kvikmyndagerðina. Það frumvarp sem við erum að leiða í lög í dag er nýmæli og ég ber miklar væntingar til þess að við munum sjá viðlíka árangur á tónlistarsviðinu. Ég fagna því og þakka kærlega fyrir góða vinnu sem þingið hefur veitt í þessu máli.



[12:25]
Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með öðrum sem hér hafa talað og fagna því að þetta mál sé komið fram og samstaða um að styrkja hljóðritun á tónlist með svipuðum hætti og kvikmyndagerð. Hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á mál í atvinnuveganefnd sem snýr að frjálsum félagasamtökum og ég tek heils hugar undir með honum. Af því tilefni bendi ég á mál sem ég hef lagt fram og er í efnahags- og viðskiptanefnd, sem snýr að íþrótta-, ungmenna- og æskulýðsfélögum. Ég styð þetta mál heils hugar.



Frv.  samþ. með 48:1 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁsF,  ÁstaH,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BP,  BN,  EKG,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HallM,  HarB,  HE,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  LínS,  MGM,  ÓÞ,  ÓP,  PVB,  PJP,  REÁ,  RR,  RM,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SÞÁ,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  SÁA.
1 þm. (ÓBK) greiddi ekki atkv.
13 þm. (ÁsmD,  HBK,  HHj,  HöskÞ,  KÞJ,  KLM,  LRM,  OH,  SDG,  SJS,  VigH,  ÖJ,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:26]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Af hverju heita þessi lög lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist? Ég held að það sé ekki nokkur ætlun að lögin verði til skamms tíma, ekki frekar en lög um tímabundna endurgreiðslu til kvikmyndagerðar sem hafa verið í gildi í áratugi. Nú þegar hefur því verið lýst yfir að menn séu komnir í biðsalinn að bíða eftir frekari sértækum aðgerðum til ívilnunar í skattalegu tilliti. Ég bendi á t.d. myndlistarmenn, þeir taki sér þá bara sæti fyrir aftan félagasamtökin sem eru komin á biðlistann. Enn og aftur samþykkir Alþingi sértækar aðgerðir til ívilnunar tilteknum stéttum, þvert ofan í þær hátíðarræður sem menn sammælast hér yfirleitt um að halda um mikilvægi vandaðrar lagasetningar, um að lög séu skýr, einföld, gagnsæ og almenn, enn og aftur.