145. löggjafarþing — 171. fundur
 13. október 2016.
aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands, fyrri umræða.
þáltill. SIJ o.fl., 900. mál. — Þskj. 1808.

[10:51]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 1808 um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis- og fullveldis Íslands, en 1. desember 1918 verða 100 ár liðin frá gildistöku sambandslaganna. Formenn allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi eru flutningsmenn tillögunnar. Atburðirnir sem urðu í júlí 1918, er samningar um fullveldi Íslands stóðu yfir og var lokið 18. júlí með gildistöku 1. desember það ár, verða að telja þeir allra merkustu í sögu þjóðarinnar frá upphafi og því tvímælalaust mikið tilefni til að minnast þeirra með hátíðahöldum á árinu 2018.

Þótt raunverulegum afskiptum Dana af málefnum Íslands hafi í raun lokið með heimastjórn, íslenskum ráðherra, íslensku framkvæmdarvaldi og þingræði í nútímaskilningi, var það ekki fyrr en 1918 sem Ísland öðlaðist sess meðal þjóðanna sem frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Lagt er til að kosin verði nefnd með fulltrúum allra þingflokka er undirbúi hátíðahöld árið 2018 í samræmi við ályktun þessa. Þar mun bera hæst hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þá verður liðin ein öld frá því að samningnum um fullveldi Íslands lauk. Venja hefur skapast um að minnast merkustu atburða Íslandssögunar með slíkum hætti. Efnt verði til hátíðahalda sömuleiðis 1. desember 2018 m.a. við Stjórnarráðið í Reykjavík þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi. Samráð verði haft við félög stúdenta um viðburði þennan dag enda hafa þau haldið minningu um mikilvægi þessa dags dyggilega á lofti.

Af öðrum tillögum sem felast í ályktuninni má nefna að efnt verði til samkeppni um hönnun og útlit stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit, tekið verði saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti 1918. Þá verði stofnað til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar. Jafnframt verði stuðlað að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo fornar bókmenntir Íslendingar séu jafnan öllum tiltækar jafnt á bók sem stafrænu formi. Skólar landsins verða hvattir til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918. Þá er ríkisstjórninni falið að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu náttúruminjasafns. Undirbúin verði ályktunartillaga um uppbyggingu innviða fyrir máltækni íslenskrar tungu og fimm ára áætlun um það efni. Loks verði Þingvallanefnd falið að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að geta lokið kjörtímabilinu í breiðri samstöðu allra flokka um svo þýðingarmikið mál og legg ég til fyrir hönd flutningsmanna að tillagan gangi til síðari umræðu.



[10:55]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að flytja þetta prýðilega mál. Ég er að flestu leyti sammála því. Ég tel að það sé vel við hæfi að Alþingi samþykki þingsályktun af þessu tagi. Hún er í tilefni af því að verið er að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Mig langar þó, herra forseti, að leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki hefði verið við hæfi af þessu tilefni, í ljósi þeirra umræðna sem hafa orðið á síðustu árum um stjórnarskrá Íslands, að Alþingi samþykkti með þessari tillögu einhvers konar hvatningu til sjálfs sín, lýsti markmiði sínu um að verða fyrir þann tíma sem hér er nefndur búið að ljúka gerð nýrrar stjórnarskrár. Við erum að tala hér um tvö ár. Allir stjórnmálaflokkarnir sem sæti eiga á Alþingi og flestir þeirra sem bjóða fram til Alþingis hafa haft mjög skýrar skoðanir á stjórnarskránni. Sömuleiðis held ég að það sé sammæli mjög margra stjórnmálaflokka með hvaða hætti fara eigi höndum um gerð og undirbúning nýrrar stjórnarskrár. Mikil hefur vinna nú þegar farið fram við þann undirbúning. Ég hefði talið að það væri vel við hæfi að Alþingi mundi samþykkja fyrirheit um að hafa lokið gerð nýrrar stjórnarskrár eigi síðar en þegar kemur að þessu afmæli.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra um afstöðu hans til þess.



[10:57]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar menn minnast eins mikilvægra atburða og þessara er margt sem komið getur upp sem væri þess verðugt að setja í slíka ályktun. Við höfum verið að fjalla um það með hléum núna á seinni hluta þessa kjörtímabils hvað eðlilegt sé að setja í þessa ályktun. Lykilatriðið er að mínu mati að menn geti sammælst um verkefnin og að þau séu þess eðlis að um leið og við sammælumst um að farið verði í þau séum við sannfærð um að það gangi eftir.

Í þinginu hafa verið til umfjöllunar breytingar á stjórnarskrá Íslands, þrjú mikilvæg ákvæði sem ég hefði haldið að menn gætu sammælst um að ljúka hér í lok kjörtímabilsins. Það eru mér mikil vonbrigði að það sé ekki raunin að hægt sé að ljúka þeim. Ég held að það hefði verið góður bragur á því að halda áfram endurskoðuninni á stjórnarskránni í góðu samræmi og yfirbragði þess að flestir flokkar væru sammála um þessi þrjú ákvæði. Því miður náðist ekki samstaða um það. Á sama hátt held ég að óráðlegt hefði verið að setja inn í ályktunina einhver þau efni sem menn eru ekki tilbúnir til að sammælast um og vera síðan á sama tíma sannfærðir um að þau gangi eftir.



[10:58]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki ekki út í hörgul baksvið þeirra samræðna sem hæstv. forsætisráðherra kann að hafa átt við forustumenn annarra stjórnmálaflokka um breytingar á stjórnarskránni. Hann tiltók sérstaklega þrjá þætti. Það vill svo til að það eru þeir þrír þættir sem ég ber líka hvað mest fyrir brjósti og tel hvað mikilvægasta varðandi breytingar á stjórnarskránni. Ég get ekki fullyrt um hvort á reynt hafi verið á þá til þrautar. Í öllu falli stöndum við hér nú nokkrum klukkustundum fyrir þinglok og ekkert verður gert í því úr þessu.

Við þau tímamót þar sem við minnumst aldarafmælis sjálfstæðisins og fullveldisins er auðvitað eðlilegt að menn marki spor. Þau eru mörkuð með þessari tillögu. Að flestu leyti eru það efnisleg spor. Gert er ráð fyrir því að ný bygging verði hönnuð. Fyrirkomulag Þingvalla, þjóðhelgarinnar, verði lokið að fullu. Sömuleiðis er talað heldur lauslega um að hvetja skólafólk til þess að minnast þessara tímamóta.

Ég hefði talið að við þessar aðstæður og þessi tímamót hefði það verið eðlilegt að Alþingi lofaði sjálfu sér því að hafa lokið gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir þennan saman tíma. Það setti sér tveggja ára tímamark til þess að lúka stjórnarskránni. Eftir atvikum kynni það, eftir því hvernig vindar mundu blása, að hafa orðið eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi hér áðan um einstök atriði. Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að ná sammælum um það meðal þingheims að gera nýja stjórnarskrá á grundvelli þeirra draga sem stjórnlagaráð á sínum tíma sendi frá sér. Mikil vinna hefur farið fram. Þjóðfundur hefur fjallað um þetta mál, þannig að segja má að þjóðin hafi þegar komið að þessu.

Þess vegna (Forseti hringir.) vil ég ítreka mína spurningu til hæstv. forsætisráðherra: Er ekki (Forseti hringir.) mögulegt enn þá að skoða það áður en þingi lýkur að smella inn í þessa tillögu, ákvæði um (Forseti hringir.) lúkningu nýrrar stjórnarskrár?



[11:01]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka svar mitt. Hv. þingmaður kallar á að ná samstöðu um að ljúka heildarendurskoðun á stjórnarskránni á tveimur árum, en það er reyndar í andstöðu við marga þá flokka sem hér sitja á þingi sem telja að skynsamlegra sé að fara frekar þá leið sem til að mynda nágrannar okkar á Norðurlöndum, Norðmenn og fleiri, hafa farið þar. Þeir hafa sett sér mun lengri tíma fyrir þetta og taka ákveðna kafla fyrir og ljúka þeim. En okkur auðnast ekki einu sinni að setja inn þrjú mikilvæg ákvæði en þau er varða auðlindir í þjóðareigu, þjóðaratkvæðagreiðslur eða aðkomu almennings að beinum þjóðaratkvæðagreiðslum, og í þriðja lagi ákvæði er varðar náttúru landsins. Okkur auðnast það ekki einu sinni eftir alla þá vinnu sem unnin hefur verið. Þá tel ég og taldi það mjög ósennilegt að við ættum að fara að setja ákvæði um þetta inn í þingsályktunartillöguna.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um það að og við höfum oft rætt það, að þegar við þingmenn höldum upp á 1. desember, að æskilegt væri upp á samhengi hlutanna, söguna og annað, að skólar landsins, þ.e. ekki bara stúdentar við háskólana, heldur einnig á öðrum skólastigum, tækju þennan dag til sín með skýrari hætti og færu svolítið yfir hversu mikilvægum áfanga var þar náð í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Af þeim ástæðum er sú ályktun höfð í þingsályktunartillögunni, þ.e. til þess að tryggja að um langa framtíð munum við minnast þessara helstu merkisviðburða í sjálfstæðisbaráttu okkar.



[11:03]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög framkominni þingsályktunartillögu að halda veglega upp á 100 ára afmæli fullveldis og sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar. Þetta er dagur sem er svolítið farinn að falla í gleymsku, ekki síst hjá unga fólkinu. Ég tel það mjög mikils virði að við lyftum þessum atburði aftur á hærri stall og þess vegna er mjög vel við hæfi, eins og getið er um í þingsályktunartillögunni, að minnast hans með ýmsum hætti hvað varðar menningu þjóðarinnar.

Sú sem hér stendur er formaður Þingvallanefndar. Þingvallanefnd hefur á þessu kjörtímabili unnið mjög að stefnumótun þjóðgarðsins. Vil ég þar t.d. nefna að í Þingvallabænum var á vordögum eða í byrjun júní árið 2014 haldinn ágætisfundur með Þingvallanefnd og forsætisnefnd þingsins. Kom þar fram mikill samhljómur með þeim þingmönnum sem þar voru staddir og hefur verið unnið áfram varðandi á stefnumótun sem þar var sett fram í grófum drögum. Hún var sett fram í einum fimm eða sex tillögum. Ég held að gerst hafi nokkur undur á þessum fundi okkar á júnídögum 2014.

Eitt af því sem farið verður í er stækkun á fræðslumiðstöðinni á Hakinu sem unnið hefur verið að hörðum höndum nú á síðustu árum. Er nú svo komið að verið er að taka grunninn að þeirri stækkun. Fræðslumiðstöðin þar er um 200 fermetrar, en við erum að bæta við um 800 fermetrum, ekki síst til þess að geta gert þar sýningarsal undir veglega sýningu um Þingvelli, um menninguna, um náttúrufarið. Það passar því einkar vel að við verðum búin að gera viðbyggingu til þess að opna þar veglega sýningu sem unnið hefur verið að og höfum við fengið fyrirtækið Gagarín til þess að hanna hana.

Þá langar mig að geta þess sem fáir virðast vita um, en saga Þingvalla er náttúrlega svo samofin sögu okkar, íslensku þjóðarinnar, en hún er líka svo margbrotin. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því að Íslendingar voru fyrstir þjóða til að taka sér sumarfrí eða orlof. Þeir tóku sér frí í tvær til þrjár vikur á sumri og þeystu til Þingvalla. Þar var eiginlega settur upp kaupstaður í anda kaupstaða á miðöldum með mjög margvíslegri starfsemi, eins og góð miðaldaþorp voru. Þar voru handverksmenn. Þar voru íþróttir. Þar var dómstóll. Þar voru bruggarar og þar voru skemmtiatriði. Þar var líka hjónamarkaður o.s.frv. Það er alveg einstök mynd sem við getum dregið upp af lífinu á Þingvöllum fyrr á dögum. Þessar sumarbúðir stóðu í nokkrar aldir, sem voru eins og ágætiskaupstaður, af því að á þeim tíma var hvergi kaupstaður til á Íslandi.

Saga Þingvalla er ótrúlega merkileg þegar maður fer að kynna sér hana. Af því að ég nefndi náttúrufar þá eru það síður merkilegt, bæði vatnið sem og öll náttúran þarna.

Ég fagna þessari tillögu sérstaklega sem formaður Þingvallanefndar. En ég er náttúrlega líka mjög hlynnt öðrum tillögum sem eru í þessari ágætu þingsályktunartillögu.



[11:07]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega stoltur af því að mega taka þátt í að minnast 1. desember 1918. Þessi saga eymdar og sigra allar götur frá aldamótunum 1800, eftir Skaftárelda, er mér mjög hugleikin. Sumt af þeirri sögu er skráð hér á göngum hússins, t.d. eins og einn misheppnaður stjórnarskrárfundur 1851, þjóðfundurinn. Hann var talinn misheppnaður, en var þó ekki misheppnaðri en svo að á eftir fylgdi stjórnarskrá nokkrum árum síðar, 23 árum síðar. Þessi ferill frá 1851 og jafnvel fyrr, þegar við vorum sem aumust — það er vert að minnast þess að stóri áfangasigurinn var 1918, þá var fullveldi Íslands staðfest. Vissulega var konugssamband við Danmörku, en Ísland var frjálst og fullvalda ríki 1918. Vissulega var ekki ákveðið þá að nota 1. desember, fullveldisdaginn, sem þjóðhátíðardag. Ég tel að það hefði verið gert fyrr. Það er skráð hér niðri á göngum hússins, þjóðhátíðardagurinn 17. júní var ákveðinn 1911 við stofnun Háskóla Íslands á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar. En fullveldi og sjálfstæði er áþreifanlegt. Það er mælanlegt. Í athugun minni á sögu síðari hluta 20. aldar standa nokkrir hlutir upp úr þar sem þjóðin fann sig á meðal þjóða. Það er t.d. aðild að alþjóðasamtökum strax árið 1944 þegar Ísland gerðist aðili að Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sömuleiðis síðar það ár þegar Ísland gerðist aðili að Alþjóðaflugmálastofnuninni þegar gefin höfðu verið út u.þ.b. 27 flugskírteini. Það var mikil framsýni.

Stundum finnst mér að stóru áfangar 6. áratugarins hafi ekki verið unnir hér á Alþingi heldur hafi það verið tveir einstaklingar sem unnu þá sigra sem gerði Ísland þjóð meðal þjóða. Það gerðist á svipuðum tíma, þ.e. þegar Halldóri Kiljan Laxness var úthlutað Nóbelsverðlaunum fyrir 61 ári og sömuleiðis um næstu áramót þar á eftir var mikil lofgrein í Morgunblaðinu um það að ungur maður hafði unnið 1. og 2. sæti á skákmóti í Hastings, og varð stórmeistari nokkrum árum síðar. Friðrik Ólafsson, stórmeistari, og Halldór Laxness vörðuðu ákveðna sögu í íslensku fullveldi, sjálfstæði. Við skulum minnast þessara áfanga. Ég er stoltur af því að mega taka þátt í afgreiðslu þessarar tillögu. Takk fyrir, virðulegi forseti.



[11:10]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason flutti hér sína sýn á söguna og hvenær endanlega var í gadda slegið að við værum fullvalda og sjálfstæð þjóð. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við þær skýringar, þær eru hans, ég er þeim ekki að fullu leyti sammála. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það hafi verið menn sem tengdust þessari stofnun sem við báðir sitjum á sem lyftu stærstum grettistökum. Hvað um það.

Ég hef áður lýst því hér að ég er hlynntur því að tillaga af þessu tagi verði samþykkt. Við erum að minnast hér gríðarlegra mikils áfanga í sögu Íslands árið 1918, það var auðvitað 1904 sem segja má að raunverulegum afskiptum Dana af málefnum Íslands hafi endanlega lokið og þá hafi þingræði verið innleitt hér með nútímalegum skilningi þess orðs. Eftir 1918 höfðum við sönnu sama arfakóng og þeirri dönsku, en það lá algjörlega klárt að jafnvel þó að utanríkismál væru þó enn að forminu til á þeirra könnu lágu allar ákvarðanir hér. Það er mjög mikilvægt að við minnumst þess að það skiptir máli fyrir litla þjóð að hún varði sína sögulegu leið með einhvers konar atburðum eins og þessum.

Að því sögðu tel ég að það hefði verið hægt að hugsa þessa tillögu betur. Það er ekkert í henni sem ég er beinlínis á móti. En ég hef þegar lýst þeirri afstöðu minni að þegar við erum að minnast sögulegra atburða sem varða fullveldið, sem varða tilvist okkar sem þjóðar, þingræðisins með vissum hætti, þá hefðum við líka átt að beina sjónum að því að sem Alþingi hefur verið mjög upptekið af síðustu ár, sem er stjórnarskráin. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki langt á milli manna í þeim efnum og flokka. Ég hlustaði auðvitað grannt og hef fullan skilning á þeim viðhorfum sem hæstv. forsætisráðherra flutti hér. Hann var heldur úrkula vonar um að möguleiki væri á að ná einhverju landi í því efni. Ég leyfi mér að fullyrða að sá skilningur ekki réttur. Ég leyfi mér líka að fullyrða að nánd kosninga kunni að hafa bjagað mönnum sýn í því efni. Í öllu falli er alveg ljóst að allir flokkar hér á Alþingi hafa lýst ákveðnum viðhorfum sem taka til þeirra stærstu og mikilvægustu þátta sem m.a. mér og hæstv. forsætisráðherra er hvað umhugaðst um. Ég er honum algjörlega sammála um tvo af þeim þremur köflum sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan, án þess að ég ætlaði að fara í nokkra umræðu um það. Í einu efni er ég honum ósammála eða vildi hafa málin öðruvísi.

Það gleður mig auðvitað sem gamlan Þingvallanefndarmann sem er umhugað mjög um náttúru og sögu Íslands að það á sérstaklega af þessu tilefni að lyfta Þingvöllum, ekki bara að hafa þar hátíðarfund, heldur líka hafa þar sýningu um sögu og náttúrufar Þingvalla og sömuleiðis að ljúka stefnumótun um framtíðarfyrirkomulag svæðisins. Þingið hefur látið sig þau mál varða og þau hafa alltaf verið, a.m.k. frá því að ég steig inn á þing, verið í góðum höndum. Þau hafa verið í sérstaklega góðum höndum hjá hæstv. umhverfisráðherra sem hefur haft dygga og skelegga forustu í þeim efnum, í stórum greinum, en líka í ýmsum smærri sem hún veit að mér þykir ákaflega vænt um.

Af því tilefni hefði ég talið að fyrst Þingvellir eiga að verða partur af þessum minningaratburði hefðum við átt að ganga lengra en það að eitt að hafa sýningu um sögu og náttúrufar. Hvort tveggja er mjög mikilvægt og hæstv. umhverfisráðherra sagði réttilega að það mætti vel jafna að mikilvægi náttúrufari Þingvalla og Þingvallavatns, sem er einstakt, við söguna sjálfa. Þegar maður horfir til baka og skoðar með hvaða hætti við höfum reynt að kynna það gagnvart okkar eigin þjóð blasir við að í gegnum tímann hafa einstaka fræðimenn skrifað mjög fræðilegar bækur um Þingvelli sem aldrei hafa náð neinum sérstökum aðgangi að hjörtum almennings í landinu. Skáld eins og Björn Th. Björnsson hafa vissulega skrifað mjög merkar skáldsögur sem byggjast á lífi fólksins sem þarna vann. Ljósmyndarar hafa birt myndir bæði af náttúrunni sjálfri og hið opinbera haft frumkvæði að því að birta bækur með frægum málverkum sem máluð hafa verið með Þingvelli sem fyrirmynd. En aldrei hefur verið skrifuð bók sem tekur bæði á náttúrufari og sögu Þingvalla með einföldum hætti þannig að hún eigi greiða leið til alþýðu manna, bók eða rit sem hægt væri að nota t.d. gagnvart uppvaxandi kynslóðum. Eina ritið sem ég minnist af þessu tagi er auðvitað hin stórkostlega litla alþýðubók Björns Þorsteinssonar prófessors sem tekur á sögu Þingvalla með alveg sérstaklega einföldum og skemmtilegum hætti.

Ég hefði talið að af þessu tilefni ætti þingið einfaldlega að ákveða að slík bók yrði rituð. Ég hef sjálfur áður lagt óformlega fram þá hugmynd að einum af fyrrverandi formönnum Þingvallanefndar, þ.e. Birni Bjarnasyni, sem er sjóður upplýsinga um þetta og tengslaríkur um allt það sem lýtur að náttúru og sögu Þingvalla, yrði t.d. falið slíkt verkefni. Ég vildi gjarnan hafa séð tillögu um það í þeirri ágætu tillögu sem hér er um að ræða.

Það næsta sem ég ætla aðeins að drepa á er að mér finnst vera heldur laust í reipum þegar hér er talað um það að stuðla eigi að því að skólar beini sjónum sínum að þeim merku tímamótum sem urðu með sambandslögunum árið 1918. Ég hefði líka talið fyrst menn ætla sér hér á annað borð að minnast þessara tímamóta að Alþingi átt að ákveða að verja fé til þess að gera námsefni um þetta. Saga fyrri parts síðustu aldar er af skornum skammti, sem var svo mikilvæg í mótun þjóðlífs okkar og mótun okkar sem sjálfstæðrar þjóðar. Ég hefði talið að Alþingi Íslendinga hefði vel getað bætt úr því með því að ákveða að skrifa rit um þessa tíma, hvernig þeir þróuðust, hverjir báru þá uppi, hverjar afleiðingarnar voru og hvernig við njótum þessarar baráttu í dag.

Í síðasta lagi er það auðvitað svo, eins og ríkulega er bent á í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að það eru stúdentar, fyrst og fremst stúdentar við Háskóla Íslands, sem haldið hafa minningu þessa dags á lofti. Ef ekki væri fyrir tilverknað þeirra og árleg hátíðahöld, árlega fundi þar sem þeir kjósa meira að segja á hverju hausti sérstakar nefndir til þess að annast viðkomandi viðburð, nefnd sem þykir slíkur vegsauki að hafa áhrif gagnvart, að um þetta eru stundum harðvítugustu kosningarnar í Háskóla Íslands. Ég hefði talið að frekar ætti að slá í gadda með hvaða hætti íslenskir stúdentar kæmu að þessum hátíðahöldum. Staðreyndin er einfaldlega sú að á sínum tíma og fyrir 1900 og fram að þessum kaflaskiptum voru það fyrst og fremst stúdentar heima og í Höfn sem höfðu veg og vanda af þessari baráttu og báru hana uppi.

Herra forseti. Um leið og ég lýsi því yfir að ég get ekki annað en greitt atkvæði með þessari tillögu tel ég að hana hefði mátt skoða dýpra og það hefði mátt marka fastari spor með henni en gert er. Mér finnst sem sagt að hún hafi verið sett saman á tiltölulega skömmum tíma og það hefði mátt gera þetta miklu betur úr garði með hætti sem hefði gagnast bæði hinum helga stað, hinum upprunalega þingstað Íslendinga, Þingvöllum, og sömuleiðis þeim kynslóðum sem eftir eiga að koma að því er varðar námsefni til þess að gera þessa atburði og sögu þeirra aðgengilegri fyrir þær. Sömuleiðis tel ég að í þessari tillögu hefði átt að gera hærra undir höfði þeim hópi sem sannarlega kom mest að sögu sjálfstæðisbaráttunnar sem voru íslenskir stúdentar, fyrst í Kaupmannahöfn og síðan við Háskóla Íslands.



Till. gengur til síðari umr.