146. löggjafarþing — 9. fundur
 21. desember 2016.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 6. mál (breyting á A-deild sjóðsins). — Þskj. 6, nál. m. brtt. 15, 16 og 17, nál. 18.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:17]

[15:04]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við þær breytingar sem hér eru lagðar til á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er mikil andstaða innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ekki síst vegna þess að málið virðist mæta mikilli andstöðu hjá þeim sem verða fyrir áhrifum af því. Hugsunin á bak við það var allan tímann að ná almennri sátt um þær breytingar að jafna lífeyrisréttindi í landinu. Eins og fram kom í ræðu minni um málið í gær er afar óheppilegt að aðilar hafi túlkað það samkomulag sem gert var með svo ólíkum hætti og ákaflega slæmt að við séum að vinna að því í jafn miklu tímahraki og raun ber vitni þannig að því mætir gríðarleg andstaða úti í samfélaginu.

Ég mælist til þess að sú tillaga sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur nú fengið senda í dag verði tekin til skoðunar í nefndinni milli 2. og 3. umr. Það er tillaga sem kemur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja um mögulega sátt í málinu. Ég legg til að málið fari til nefndar milli umræðna. Með þeim rökum mun ég sjálf sitja hjá við afgreiðslu málsins á þessu stigi, en eins og ég segi er veruleg andstaða við málin innan Vinstri grænna.



[15:05]
Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er sameiginleg afstaða þingflokks Samfylkingarinnar að það sé rétt að jafna lífeyrisréttindi milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins. Því miður hefur málið þó sem hér um ræðir ekki verið nægilega vel unnið og það sést best á þeim ólíka skilningi sem aðilar hafa á því hvort frumvarpið uppfyllir yfir höfuð það samkomulag sem gert var í haust og þetta frumvarp byggir á. Þingflokkur Samfylkingarinnar styður allar þær breytingar sem hér voru lagðar fram, bæði frá meiri hluta og minni hluta.

Herra forseti. Ég legg sérstaka áherslu á að hv. þingmenn samþykki þær breytingar sem 2. minni hluti, þ.e. ég, leggur fram. Þær snúast í fyrsta lagi um að tryggja geymd lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna en hins vegar að varúðarsjónarmiðum. Þessar breytingar eru í takt við það samkomulag sem gert var í haust og mæta að hluta þeim athugasemdum sem borist hafa nefndinni. Breytingarnar eru mikilvægar til að meiri (Forseti hringir.) sátt skapist um jöfnun lífeyrisréttinda og auka þannig líkurnar á því að heildarsamkomulag við aðila vinnumarkaðarins nái fram um bætt lífskjör í landinu.



[15:07]
Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í áratugi hefur ríkið, opinberi vinnumarkaðurinn, staðið að lífeyrissjóðakerfi sem er ekki sjálfbært. Það safnast upp halli á hverju einasta ári. Allir virðast vera sammála um að höggva þurfi á þennan hnút og hér gefst einstakt tækifæri til að gera það með peningum af stöðugleikaframlaginu. Allir eru ánægðir með það, allir hafa talað fyrir mikilvæginu, en svo er fólk aðeins farið að heltast úr lestinni þegar kemur að því að laga þetta alveg til framtíðar. Það er mjög miður, virðulegi forseti, og ekki á neinn hátt ábyrg afstaða. Það er verið að gera kerfisbreytingar samhliða peningainnspýtingunni svo snjóboltinn haldi ekki áfram að rúlla og hlaða á sig aftur.

Ef þetta er ekki gert stöndum við uppi á nákvæmlega sama stað eftir nokkur ár. Er það það sem fólk vill? Vilja hv. þingmenn bjóða ungu fólki upp á það sem skattgreiðendum framtíðarinnar? Þetta lendir á því.

Svo er ekki síður mikilvægt að jafna kjör milli opinbera markaðarins og hins almenna. Það þurfum við að gera í framhaldinu, (Forseti hringir.) það verður auðveldara verkefni nú þegar við lögum þetta lífeyrisréttindakerfi allt saman.



[15:08]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er þyngra en tárum taki að þetta mál sé komið í það óefni sem það er. Það fór vel af stað í haust þegar samningsaðilar sýndu hvor öðrum mikið traust. Því miður brást hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson því trausti og lagði fram frumvarp sem var ekki í samræmi við samkomulagið sem skrifað var undir. Það er tómt mál um að tala að einhver sátt ríki um þetta mál, verði frumvarpið samþykkt er einfaldlega verið með valdboði að breyta lífeyrissjóðakerfi í andstöðu þeirra sem við það búa.

Áhöld eru um hvort frumvarpið standist stjórnarskrána, áhöld eru um hvort lífeyrisréttindi séu hluti af launakjörum eða ekki, en það eru engin áhöld um að þetta er ekki í neinni sátt.

Ég mun greiða atkvæði gegn frumvarpinu og lýsi vonbrigðum yfir því að við skulum ekki hafa getað unnið jafn mikilvægt mál í meiri samstöðu og með því að hlusta meira hvert á annað.



[15:09]
Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Því miður hefur ekki náðst sú samstaða um það markmið sem er þessu máli til grundvallar. Í samfélaginu er ágætissamstaða um að gera þurfi þessar kerfisbreytingar en málshraðinn hefur verið of mikill, ekki hefur verið unnið nægjanlega að því að tryggja ýmis skilyrði þess að það geti farið í gegn með þeim hætti sem verið er að leggja til. Það hefur ekkert mat komið fram á heildrænum efnahagslegum áhrifum þess. Það gæti verið að þetta verði hættulegt hagkerfinu, það er auk þess brot á samkomulagi við launamenn sem felst í þessu. Þar af leiðandi get ég ekki í augnablikinu samþykkt að málið sé tekið fyrir. Ég myndi gjarnan vilja, ég mun segja nei, en ég myndi óska þess að við gætum unnið þetta betur, í betra tómi og ekki taka óþarfaáhættu með samfélagið.



[15:11]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er enn eitt málið sem við erum að vinna í of miklu tímahraki rétt fyrir jól. Þetta er grundvallarmál sem ætti að vera sátt um. Flestir eru sammála um markmiðið en framkvæmdin hefur gengið eitthvað illa hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þannig að þeir aðilar sem eiga hlut að samkomulaginu á móti ríkinu eru flestir, ef ekki allir, að verða ósáttir, benda á stóra vankanta á málinu, að það geti mögulega brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti, og hvetja okkur til að keyra málið ekki í gegn í flýti. Ég held að það sé sjálfsagt að verða við því og ég mun ekki geta stutt þetta mál.



[15:12]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég má til með að taka undir þau varnaðarorð sem hér hafa komið fram um þessa atkvæðagreiðslu. Málið er á þann veg að það er flókið og mun hafa miklar breytingar í för með sér. Vafamál er um hvort þetta brjóti á eignarréttinum, hinum stjórnarskrárbundna sem ég hefði haldið að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki mikið fyrir að taka þátt í, að taka slíka áhættu miðað við málflutning hans áður fyrr. En málið er líka þannig að ógagnsæi er mikið, það er lítil umræða í samfélaginu og þeir sem eiga þessi réttindi eru ekki meðvitaðir um það sem er verið að gera í þingsal. Því skora ég á þingheim að fara almennilega yfir málið, ræða það í þaula og hafa þetta ferli mun opnara og gagnsærra.



[15:13]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er orðið svolítið síðan ég hóf afskipti af stjórnmálum. Þegar ég byrjaði í þeim töluðu menn um að þeir vildu sjá það gerast sem gerist núna ef við samþykkjum þetta mál. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa komið að málinu, sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra og öllum þeim aðilum sem hafa farið í þetta erfiða verk. Við eigum bara þennan eina möguleika núna af ástæðum sem allir þekkja. Ég efast ekki um að allir hv. þingmenn sem að þessu máli hafa komið hafi unnið ötullega og samviskusamlega að því.

Það sem eftir stendur er ýmislegt en það tengist ekki beinlínis þessu máli. Við erum að stíga mjög stórt skref og komandi kynslóðir munu þakka þeim sem að þessu stóðu fyrir að klára þetta verk.



[15:14]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram er búið að vinna að þessu máli í mjög langan tíma. Markmiðið er að skapa annars vegar samræmt og sjálfbært lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn, verkefni sem ég held að hér inni séu allir sammála um. Til að það geti gengið eftir eru breytingar tryggðar til þess að ekki verði um að ræða skerðingu á réttindaávinnslu núverandi sjóðfélaga. Reyndar er gengið svo langt að þeir sem eru 60 ára og eldri munu líka njóta þeirrar tryggingar.

Staðan er einfaldlega sú að við getum greitt yfir 100 milljarða til að klára þetta mál núna, þ.e. 108 milljarða. Valkostirnir sem við stöndum frammi fyrir eru þeir að gera ekkert og að hækka iðgjöld bæði hjá ríki og sveitarfélögum um 4–5%, um verulegar fjárhæðir, og senda reikninginn inn í framtíðina, á komandi kynslóðir. Það er valkosturinn sem við stöndum frammi fyrir núna. Við erum einfaldlega í óvanalega góðri stöðu til að höggva á þann hnút sem margir hafa verið að kljást við í (Forseti hringir.) mjög langan tíma.



[15:15]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er þó nokkuð mikil einföldun á þessu máli að halda því fram að það sé sjálfsagt og eðlilegt að allir verði sammála um það. Það er ekkert sjálfsagt og eðlilegt. Það voru stórkostleg tíðindi þegar gert var samkomulag við heildarsamtök opinberra félaga.

Þannig er mál með vexti að ekki hafa allir verið á eitt sáttir um þetta mál frá upphafi. Í gegnum allt ferlið hafa komið athugasemdir. Margir opinberir starfsmenn vilja ekki neina breytingu af neinu tagi að bakábyrgð ríkisins verði afnumin. Þeir eru til. Þeir hafa birst í þessari meðferð málsins hér á þingi. Þau félög hafa haft uppi hávær mótmæli. Þetta var viðbúið. En það er allt önnur umræða en sú hvort frumvarpið sé í samræmi við samkomulagið.

Það er rangt þegar því er haldið fram að samkomulagið sem undirritað var í haust hafi gengið út frá því að bakábyrgð ríkisins myndi lifa fyrir alla (Forseti hringir.) opinbera starfsmenn þar til þeir lykju störfum. Það er rangt. Það er grundvallarforsenda sem gengið var út frá allan tímann að bakábyrgðin yrði afnumin.



 1. gr. samþ. með 43:12 atkv. og sögðu

  já:  ATG,  ÁslS,  ÁsF,  BenJ,  BÁ,  BjarnB,  BjÓ,  BHar,  BN,  ELA,  EyH,  GBr,  GÞÞ,  GBS,  HafG,  HKF,  HarB,  HildS,  JónG,  JSV,  JSE,  KÞJ,  LA,  LE,  NicM,  NF,  OH,  ÓBK,  ÓP,  PawB,  PállM,  SÁA,  SIJ,  SilG,  TBE,  ThÞ,  UBK,  ValG,  VilÁ,  VilB,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórE.
nei:  AIJ,  BirgJ,  BjG,  BLG,  EB,  GIG,  HallM,  JÞÓ,  KÓP,  SMc,  SSv,  ÞÆ.
5 þm. (KJak,  LRM,  SJS,  SÞÁ,  VOV) greiddu ekki atkv.
3 þm. (ÁstaH,  RBB,  SDG) fjarstaddir.

 2.–6. gr. samþ. með 42:12 atkv. og sögðu

  já:  ÁslS,  ÁsF,  BenJ,  BÁ,  BjarnB,  BjÓ,  BHar,  BN,  ELA,  EyH,  GBr,  GÞÞ,  GBS,  HafG,  HKF,  HarB,  HildS,  JónG,  JSV,  JSE,  KÞJ,  LA,  LE,  NicM,  NF,  OH,  ÓBK,  ÓP,  PawB,  PállM,  SÁA,  SIJ,  SilG,  TBE,  ThÞ,  UBK,  ValG,  VilÁ,  VilB,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórE.
nei:  AIJ,  BirgJ,  BjG,  BLG,  EB,  GIG,  HallM,  JÞÓ,  KÓP,  SMc,  SSv,  ÞÆ.
6 þm. (ATG,  KJak,  LRM,  SJS,  SÞÁ,  VOV) greiddu ekki atkv.
3 þm. (ÁstaH,  RBB,  SDG) fjarstaddir.

Brtt. í nál. 17 felld með 35:6 atkv. og sögðu

  já:  BLG,  EB,  GBr,  GIG,  LE,  OH.
nei:  ÁslS,  ÁsF,  BenJ,  BÁ,  BjarnB,  BHar,  BN,  ELA,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  HafG,  HKF,  HarB,  HildS,  JónG,  JSV,  JSE,  KÞJ,  LA,  NF,  ÓBK,  PawB,  PállM,  SÁA,  SIJ,  SilG,  TBE,  UBK,  ValG,  VilÁ,  VilB,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórE.
19 þm. (AIJ,  ATG,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  HallM,  JÞÓ,  KJak,  KÓP,  LRM,  NicM,  ÓP,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  ThÞ,  VOV,  ÞÆ) greiddu ekki atkv.
3 þm. (ÁstaH,  RBB,  SDG) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:18]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þessi breyting lýtur að þeim sem eiga geymd réttindi. Það er ástæða til að tryggja öllum sjóðfélögum lífeyrisauka en ekki bara þeim einum sem greitt hafa til sjóðsins síðustu 12 mánuði. Þarna á ég við þá einstaklinga sem greitt hafa til sjóðsins, jafnvel í mjög langan tíma, en hafa ákveðið að færa sig yfir á almenna markaðinn en fá ekki lífeyrisaukann ákveði þeir að snúa aftur inn í opinbera kerfið.

Þetta er fyrst og fremst sanngirnismál, að þeir séu jafnsettir þeim sem starfa innan opinbera kerfisins í dag. Breytingin miðar að því að þessi hópur geti fært sig aftur yfir á opinbera markaðinn og njóti þess þá að hafa lagt þar af mörkum áður. Með þessu er líka verið að mæta markmiðum samkomulagsins um meiri hreyfanleika milli hins opinbera og almenna vinnumarkaðarins en verður ef breytingartillagan verður ekki samþykkt.



[15:19]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það eru margar ágætar breytingartillögur við það meingallaða frumvarp sem er verið að greiða atkvæði um. Ég mun samþykkja þær allar nema þá sem nú er til atkvæðagreiðslu þó að ég muni segja nei við öllum ákvæðum frumvarpsins. Tillögurnar sem komu fram í nefndarálitunum eru ágætar og til þess að gera gott úr slæmu.

Ég mun hins vegar sitja hjá við þessa.



 7. gr. samþ. með 39:12 atkv. og sögðu

  já:  ÁslS,  ÁsF,  BenJ,  BÁ,  BjarnB,  BjÓ,  BHar,  BN,  ELA,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  HafG,  HKF,  HarB,  HildS,  JónG,  JSV,  JSE,  KÞJ,  LA,  NicM,  NF,  ÓBK,  ÓP,  PawB,  PállM,  SÁA,  SIJ,  SilG,  TBE,  ThÞ,  UBK,  ValG,  VilÁ,  VilB,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórE.
nei:  AIJ,  BirgJ,  BjG,  BLG,  EB,  GIG,  HallM,  JÞÓ,  KÓP,  SMc,  SSv,  ÞÆ.
9 þm. (ATG,  GBr,  KJak,  LRM,  LE,  OH,  SJS,  SÞÁ,  VOV) greiddu ekki atkv.
3 þm. (ÁstaH,  RBB,  SDG) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:20]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er mikilvægt eins og hér hefur komið fram að standa við samkomulagið sem frumvarpið byggir á. Greinin sem hér um ræðir tók breytingum frá því að hún var lögð fram síðastliðið haust. Þar var kveðið á um greiðslur úr varúðarsjóði ef 10% rýrnun yrði á tryggingafræðilegri stöðu varúðarsjóðsins á einu ári. Það var í samkomulagi sem var gert í haust og kemur fram í viðaukanum við það samkomulag.

Í þessari tillögu er lagt til að tímabilið sem miðað er við verði fimm ár án þess að þeir aðilar sem samið var við hafi fengið fullnægjandi skýringar á því. Þessi vinnubrögð rýra traust á milli aðila.



Brtt. í nál. 15 samþ. með 49 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ATG,  ÁslS,  ÁsF,  BenJ,  BÁ,  BjarnB,  BLG,  BjÓ,  BHar,  BN,  EB,  ELA,  EyH,  GÞÞ,  GIG,  GBS,  HafG,  HallM,  HKF,  HarB,  HildS,  JónG,  JÞÓ,  JSV,  JSE,  KJak,  KÞJ,  LA,  NicM,  NF,  ÓBK,  ÓP,  PawB,  PállM,  SÁA,  SIJ,  SilG,  SMc,  SJS,  TBE,  ThÞ,  UBK,  ValG,  VOV,  VilÁ,  VilB,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórE.
11 þm. (AIJ,  BirgJ,  BjG,  GBr,  KÓP,  LRM,  LE,  OH,  SÞÁ,  SSv,  ÞÆ) greiddu ekki atkv.
3 þm. (ÁstaH,  RBB,  SDG) fjarstaddir.

 8. gr., svo breytt, samþ. með 39:12 atkv. og sögðu

  já:  ÁslS,  ÁsF,  BenJ,  BÁ,  BjarnB,  BjÓ,  BHar,  BN,  ELA,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  HafG,  HKF,  HarB,  HildS,  JónG,  JSV,  JSE,  KÞJ,  LA,  NicM,  NF,  ÓBK,  ÓP,  PawB,  PállM,  SÁA,  SIJ,  SilG,  TBE,  ThÞ,  UBK,  ValG,  VilÁ,  VilB,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórE.
nei:  AIJ,  BirgJ,  BjG,  BLG,  EB,  GIG,  HallM,  JÞÓ,  KÓP,  SMc,  SSv,  ÞÆ.
9 þm. (ATG,  GBr,  KJak,  LRM,  LE,  OH,  SJS,  SÞÁ,  VOV) greiddu ekki atkv.
3 þm. (ÁstaH,  RBB,  SDG) fjarstaddir.

 9. gr. samþ. með 39:12 atkv. og sögðu

  já:  ÁslS,  ÁsF,  BenJ,  BÁ,  BjarnB,  BjÓ,  BHar,  BN,  ELA,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  HafG,  HKF,  HarB,  HildS,  JónG,  JSV,  JSE,  KÞJ,  LA,  NicM,  NF,  ÓBK,  ÓP,  PawB,  PállM,  SÁA,  SIJ,  SilG,  TBE,  ThÞ,  UBK,  ValG,  VilÁ,  VilB,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórE.
nei:  AIJ,  BirgJ,  BjG,  BLG,  EB,  GIG,  HallM,  JÞÓ,  KÓP,  SMc,  SSv,  ÞÆ.
9 þm. (ATG,  GBr,  KJak,  LRM,  LE,  OH,  SJS,  SÞÁ,  VOV) greiddu ekki atkv.
3 þm. (ÁstaH,  RBB,  SDG) fjarstaddir.

Brtt. í nál. 16(nýtt ákv. til brb.) samþ. með 50 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ATG,  ÁslS,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BjÓ,  BHar,  EB,  ELA,  EyH,  GBr,  GIG,  GBS,  HafG,  HallM,  HarB,  HildS,  JónG,  JÞÓ,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LE,  NicM,  NF,  OH,  ÓBK,  ÓP,  PállM,  SIJ,  SilG,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  TBE,  ThÞ,  UBK,  ValG,  VOV,  VilÁ,  VilB,  ÞÆ,  ÞórE.
10 þm. (BenJ,  BN,  GÞÞ,  HKF,  JSV,  JSE,  PawB,  SÁA,  ÞKG,  ÞorstV) greiddu ekki atkv.
3 þm. (ÁstaH,  RBB,  SDG) fjarstaddir.
5 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:24]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er lagt til bráðabirgðaákvæði sem er ætlað að koma til móts við athugasemdir sem komu fram við frumvarpið um að lífeyristökualdur tiltekinna stétta ætti hugsanlega að vera lægri en annarra stétta út frá álagi í starfi. Til að koma til móts við þessi sjónarmið er lagt til að skipaður verði starfshópur með fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði sem greini með heildstæðum hætti þörf á því að lækka lífeyristökualdur fyrir tilteknar stéttir.



[15:25]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við í þingflokki Bjartrar framtíðar tökum undir þau sjónarmið sem komu fram fyrir nefndinni, til að mynda hjá stéttum eins og sjúkraliðum sem vinna afskaplega þung störf, það skuli skoðað dálítið í samræmi við störf hvort hækkun á lífeyristökualdri sé skynsamleg. Þess vegna greiðum við þessari tillögu atkvæði okkar.



[15:25]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um breytingartillögu 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, frá Vinstri grænum, Katrínu Jakobsdóttur. Við í Framsóknarflokknum greiðum atkvæði með þessu bráðabirgðaákvæði sem snýr að því að ráðherra skuli við gildistöku laga þessara skipa starfshóp með fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði sem greini með heildstæðum hætti þörf á því að lækka lífeyristökualdur fyrir tilteknar stéttir.

Við segjum já.



[15:26]
Benedikt Jóhannesson (V):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Viðreisnar styður það sjónarmið sem hér kemur fram, að það geti vel komið til greina að ákveðnar stéttir hafi annan eftirlaunaaldur en almennt gengur og gerist. Hins vegar telur þingflokkurinn að óeðlilegt sé að löggjafinn sé með þessum hætti að blanda sér inn í mál á vinnumarkaðnum, auk þess sem þingflokkurinn telur að tillagan sem hér er komin fram sé gölluð vegna þess að gert er ráð fyrir aðkomu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði en til dæmis ekki Samtaka atvinnulífsins sem við teldum að myndi þá styrkja málið. Þessi tillaga kom reyndar ekki fram í nefndinni og hefði verið hægt að ræða hana þar. En við munum ekki greiða atkvæði og ég greiði ekki atkvæði.



[15:27]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en gert aðeins grein fyrir atkvæði mínu því að ég samþykki þessa breytingartillögu þó að ég sé á móti þessu frumvarpi. Mér finnst breytingartillagan mjög til bóta. Það hefði betur verið farið í þessa vinnu mun fyrr í ferlinu. Þá værum við með málið mun ljósara fyrir okkur nú en við erum, því miður.

Ég styð breytingartillöguna þó að ég sé andvígur því að frumvarpið í heild sinni verði samþykkt.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr. 

Frumvarpið gengur (eftir 2. umr.) til efh.- og viðskn.