146. löggjafarþing — 10. fundur
 21. desember 2016.
ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017, 2. umræða.
stjfrv., 2. mál (breyting ýmissa laga). — Þskj. 2, nál. 38, 42 og 44, brtt. 39, 40 og 43.

[21:19]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir meirihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017. Áður en ég fer í helstu breytingar ætla ég að rekja í stuttu máli aðalefnisatriði frumvarpsins. Þar er m.a. um að ræða hækkun barnabóta í takt við forsendur fjármálaáætlunar, en hækkunin er 3% og eignarmörk bótanna hækka um 12,5%. Tímabundnar útreikningsreglur vaxtabóta eru framlengdar um eitt ár að frátöldum eignarmörkum bótanna sem hækka einnig um 12,5%. Útgjöld vegna vaxtabóta haldast óbreytt frá fjármálaáætlun. Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir 2,2% hækkun á krónutölugjöldum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins, auk 2,5% sérstakrar hækkunar til að slá á þensluáhrif. Þetta er samtals 4,7% hækkun. Sama hækkun er á framlagi í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Gerð er breytingartillaga varðandi tóbaksgjaldið, gert ráð fyrir verulegri hækkun frá því sem er í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir því að á árinu 2017 verði tekjuaukning upp á 500 millj. kr. sem mun hafa örlitla hækkun í för með sér á vísitölu neysluverðs, þ.e. sem nemur 0,053%.

Þá er gert ráð fyrir hækkun á gistináttagjaldi úr 100 kr. í 300 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu.

Það er líka gert ráð fyrir talsverðri hækkun í frumvarpinu á gjaldskrá FME í samræmi við áætlaðan rekstrarkostnað. Um þessa miklu hækkun varð talsverð umræða í nefndinni og hér er auðvitað byggt á því að rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins muni aukast mjög vegna verkefna sem séu óhjákvæmileg vegna breytinga á löggjöfinni, tilskipana sem hafa verið innleiddar, sem og breytinga á lögum frá Alþingi þar sem gerðar eru auknar kröfur til eftirlits. Þar af leiðandi verður ekki hjá því komist að hækka þessa gjaldskrá.

Í meðferð málsins fyrir nefndinni komu líka fram mikil vonbrigði með að tryggingagjald skuli ekki vera lækkað sem menn töldu, sérstaklega Samtök atvinnulífsins, að gert hefði verið ráð fyrir við gerð kjarasamninga og hefði raunverulega verið forsenda samninganna. Miðað við fjármálaáætlun er gert ráð fyrir þessum tekjum í ríkissjóð og það kann líka að hafa áhrif að ekki er komin meirihlutaríkisstjórn í landinu og slíkar ákvarðanir eru þar af leiðandi látnar bíða. Það var hreinlega ekki gert ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætlun að þetta lækkaði og það máttu menn svo sem vita.

Það er líka breyting varðandi niðurfellingu virðisaukaskatts á umhverfisvænum hópbifreiðum. Strætó bs. kom fyrir nefndina, var að kaupa rafmagnsvagna og óskaði eftir því að gjöldin yrðu lækkuð hvað þá varðar. Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingu á ákvæðinu í þá veru að bætt verði við upptalningu ökutækjaflokka þeim flokkum sem strætisvagnar falla undir og þar með jafnframt aðrar stærri gerðir hópferðabifreiða. Þetta er lítils háttar ívilnun en lagt er til að hún nái til hópferðabifreiða fyrir 22 farþega eða fleiri. Vegna fjárhæðartakmarkananna í 3. mgr. ákvæðisins verður hlutfallslega um tiltölulega lága ívilnun að ræða en meiri hlutinn lítur á breytinguna sem fyrsta skrefið í átt að breyttu umhverfi og nýrri stefnumörkun í málefnum umhverfisvænna hópferðabifreiða. Nefndin hefur verið upplýst um að slík vinna er þegar hafin í ráðuneytinu og er mælst til þess að henni verði lokið fyrir haustþing 2017.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til eru smávægilegar. Það er verið að leiðrétta vöruflokkanúmer í 40. gr. frumvarpsins og breytingar á sólarlagsákvæði í lögum um fjarskiptasjóð vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem getið er í inngangi að nefndarálitinu en ég las ekki upp.

Með þeim breytingum sem hér eru taldar upp leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir álitið skrifa allir nefndarmenn en Björt Ólafsdóttir og Smári McCarthy skrifa undir það með fyrirvara. Þau telja að málið hefði þurft meiri umfjöllun og að nefndin hefði þurft meiri tíma til afgreiðslu þess. Smári McCarthy styður breytingartillögu meiri hlutans en mun að auki leggja fram fleiri breytingartillögur.

Undir álitið rita Benedikt Jóhannesson formaður, Brynjar Níelsson framsögumaður, Elsa Lára Arnardóttir, Sigríður Á. Andersen og Vilhjálmur Bjarnason, og Björt Ólafsdóttir og Smári McCarthy með fyrirvara.



[21:27]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður sem talaði á undan fór kannski ekki alveg rétt með þegar hann sagði að allir nefndarmenn skrifuðu undir það álit sem hann mælti fyrir því að sú sem hér stendur er ekki á meðal þeirra og mun núna mæla fyrir nefndaráliti 1. minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Það er ekki skrýtið að hér séu hv. þingmenn á öndverðum meiði í ljósi þess að umræða um skattamál er auðvitað hápólitísk og hefur einmitt sett svip sinn á pólitíska umræðu að undanförnu hvernig við viljum afla tekna til að standa undir samfélagslegum verkefnum.

Það hefur staðið yfir mikil umræða í fjárlaganefnd um það hvaða útgjöld hv. þingmenn eru sammála um að nauðsynlegt sé að ráðast í í ljósi aðstæðna þar sem ekki er pólitískur meiri hluti fyrir hendi á Alþingi. Það er mikilvægt ef tekst að ná ákveðinni sátt um þau útgjöld en það liggur líka fyrir að erfitt hefur reynst að ná sátt um það hvernig við öflum tekna til þess að byggja upp samfélagið og hvernig við viljum búa að almennum borgurum.

Stundum er gefið í skyn að umræða um skattamál sé fyrst og fremst tæknilegs eðlis en svo er ekki. Þetta er auðvitað grundvallarpólitískt mál því að skattar eru ekki aðeins nauðsynlegt tæki til þess að afla tekna til að standa undir samfélagslegum verkefnum heldur líka mikilvægt jöfnunartæki.

Að mati margra fræðimanna er skattkerfið langáhrifamesta tæki samfélagsins til að auka jöfnuð í samfélaginu. Vitna ég þar m.a. til franska hagfræðingsins Thomas Piketty sem er líklega mest seldi hagfræðingur samtímans, sem skrifaði merka bók sem heitir einfaldlega Auðmagnið. Þar bendir hann á að þrátt fyrir að velferðarkerfið sé að sjálfsögðu mikilvæg stoð jöfnuðar í samfélaginu er það samt svo að skattkerfið er mun áhrifaríkara tæki ef við viljum tryggja jöfnuð. Máli sínu til stuðnings bendir hann á hvernig ójöfnuður eða jöfnuður, hvort sem við köllum það, hefur þróast í vestrænum samfélögum, hvaða áhrif skattbreytingar hafa haft á þá þróun og sérstaklega hvernig samþjöppun fjármagns hefur aukið ójöfnuð, miklu meiri ójöfnuð en við sjáum almennt í tekjudreifingu í samfélaginu. Þegar við ræðum það hér á landi, stjórnmálamenn úr öllum flokkum, sem öll erum mjög dugleg að hreykja okkur af því að hér ríki mjög mikill jöfnuður miðað við önnur ríki, þá erum við yfirleitt að tala um jöfnuð í tekjum. En þegar litið er til jöfnuðar í eignum kemur einmitt fram að það er þar sem ójöfnuðurinn hefur aukist, ekki aðeins á Íslandi þar sem ríkustu 10% eiga 3/4 eignanna heldur ekki síst annars staðar á Vesturlöndum. Þegar við skoðum ríkasta 1% sem hefur mikið verið til umræðu, alla vega annars staðar í hinum vestræna heimi, þá er fyrst og fremst verið að tala um ójöfnuð í eignum.

Piketty bendir á jöfnuðinn sem mikilvægt hagstjórnarmarkmið. Skoðum þær rannsóknir sem nú er unnið að innan hagfræðinnar. Ég nefni t.d. skýrslu OECD, sem seint verður talin til róttækra stofnana, frá desember 2014. Þar er vitnað til rannsókna sem sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti og tekjuójöfnuður hefur haft mælanleg áhrif til að draga úr slíkum vexti. Við getum séð að jöfnuður er ekki aðeins réttlætismarkmið, hann er líka mikilvægt efnahagslegt markmið. Það sama hefur verið til umræðu hjá hagfræðingum í Cambridge háskóla sem hafa bent á að breska hagkerfið hafi vaxið hlutfallslega minna en það hefði gert vegna hagstjórnarstefnu nýfrjálshyggjunnar.

Jöfnuður er því ekki einungis pólitískt markmið, hann er líka efnahagslegt markmið. Um það eigum við ekkert að vera feimin við að tala. Það er mikilvægt að við fylgjumst vel með þeirri þróun á Íslandi þó að ég, eins og aðrir hv. þingmenn, geti viðurkennt að hér sé jöfnuður meiri en víðast hvar annars staðar og ekki síst þegar kemur að almennri tekjudreifingu. Við eigum að vera ánægð með það.

Ég vitna í efnahagsyfirlit VR frá því í október á þessu ári sem sýnir að kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 3,8% á milli áranna 2014 og 2015. Það voru eingöngu tekjuhæstu 20% sem fengu meiri hækkun. Þetta er vísbending sem við eigum að hlusta eftir og taka mark á því að hún gæti bent til þess að tekjuójöfnuður sé að aukast í samfélaginu. ASÍ hefur bent á að ríkustu 20% fái nærri helming allra ráðstöfunartekna og sýnt hefur verið fram á að með skattbreytingum á nýliðnu kjörtímabili jókst skattbyrði allra hópa nema tekjuhæstu 20%, en skattbyrði þeirra minnkaði meira en svo að hægt sé að útskýra það með launahækkunum. Það eru vísbendingar um að tekjujöfnuður sé að minnka eftir að hafa aukist mjög á árunum eftir hrun.

Eins og við munum öll jókst ójöfnuður í þjóðfélaginu fyrir hrun en minnkaði talsvert í hruninu, bæði vegna þess að mikill auður tapaðist en einnig vegna þess að aðgerðir síðustu ríkisstjórnar beindust að því að vernda þá sem lægstar höfðu tekjurnar.

Ég vitnaði áðan til eignastöðunnar. Hún er kannski stærsta málið þegar kemur að ójöfnuði hér á landi sem og á Vesturlöndum. Einmitt þess vegna hefur verið bent á mikilvægi auðlegðarskatts og þrepaskipts fjármagnstekjuskatts en hvort tveggja er lagt til í breytingartillögum, allítarlegum viðurkenni ég, með nefndarálit þessu.

Slíkar aðgerðir miða að því réttlætis- og hagstjórnarmarkmiði að auka jöfnuð en eru líka mikilvæg tekjuöflun til að styrkja innviði samfélagsins sem hafa verið vanræktir um langt skeið. Þar geta víst flestir í þessum sal verið sammála. Hvarvetna blasa við áskoranir, hvort sem litið er til heilbrigðiskerfis, menntakerfis eða samgangna um land allt. Og enn er mikið verk óunnið í að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Til að þessi uppbygging geti farið fram með efnahagslega ábyrgum hætti er mikilvægt að styrkja tekjustofna ríkisins til frambúðar. Réttlátasta leiðin til þess er að skattleggja fjármagnið þar sem það er að finna. Slík skattlagning dregur enn fremur úr peningamagni í umferð, sem ýmsir hv. þingmenn hafa lýst yfir áhyggjum yfir í dag í tengslum við annað mál sem var til umræðu fyrr í dag, og getur þar með nýst til að slá á þenslu sem er orðið verulegt áhyggjuefni. Við blasir að þegar ný ríkisstjórn verður mynduð hlýtur hennar fyrsta verkefni að vera að setja saman aðgerðaáætlun um það hvernig eigi að draga úr þenslu til þess að koma í veg fyrir kollsteypu í efnahagslífinu. Skattalækkanir fyrrverandi ríkisstjórnar, eða starfsstjórnarinnar sem nú situr, hafa hins vegar verið sem olía á eld og hvatt til þenslu, þvert á ráðleggingar Seðlabankans sem hefur ítrekað bent á að ríkisfjármálastefnan þurfi að styðja við peningamálastefnu. Skattalækkanir hafa þar verið nefndar sérstaklega sem aðgerð sem þjónar öfugum tilgangi, þ.e. eykur þenslu fremur en hitt.

Hér eru líka lagðar til nokkrar aðrar tillögur sem eru ekki endilega af þessum meiði en þó má segja að lýðheilsuskattur sem er lagður til snúist líka um að auka jöfnuð. Við sjáum líka ákveðinn ójöfnuð þegar kemur að heilsufari. Hér er lögð til afar hógvær leið sem er að skattleggja sérstaklega gosdrykki, sykraða gosdrykki og gosdrykki með viðbættum sætuefnum. Á heimasíðu landlæknisembættisins kemur fram að samkvæmt nýlegri rannsókn á mataræði 6 ára barna fá börn að meðaltali 11% orkunnar úr viðbættum sykri. Það þarf víst ekki að segja ykkur hv. þingmönnum það sem hér eruð staddir að þetta er talsvert yfir almennum ráðleggingum. Þetta hlutfall er 13% hjá 9 ára börnum og 16% hjá 15 ára börnum. Tæplega 60% 6 ára barna borða of mikinn sykur. Yfir helmingur af viðbætta sykrinum kemur úr sykruðum gos- og svaladrykkjum, sælgæti og ís hjá 9 ára börnum og tæplega 70% hjá 15 ára börnum. Á heimasíðu landlæknisembættisins kemur einnig fram að í grein sem birtist árið 2011 í The Lancet, einu þekktasta tímariti heims um heilbrigðismál og lýðheilsu, var lagt mat á hvaða aðgerðir stjórnvalda í Ástralíu skiluðu mestum ávinningi og árangri í því að sporna gegn offitu þar í landi. Niðurstaða greiningarinnar var sú að skattar á óholla mat- og drykkjarvöru væri áhrifaríkasta leiðin til að bæta heilsu og draga úr útgjöldum vegna hennar. Af þessum sökum leggur 1. minni hluti til að settur verði sérstakur skattur á sykraða gosdrykki, þ.e. að þeir verði færðir upp í efra virðisaukaskattsþrep. Íslendingar drekka að meðaltali 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári og eigum við þar einhvers konar Norðurlandamet og örugglega Evrópumet og kannski heimsmet, og borða að meðaltali 45–48 kg af sykri á ári. Ef þessar rannsóknir eru skoðaðar nánar þá sést að neyslan eykst eftir því sem neðar færist í aldursstiganum. Hér er lögð til sú breyting að vöruflokkar sem innihalda sykraða gosdrykki verði færðir í hærra virðisaukaskattsþrep en lýðheilsumarkmiðið með þeirri breytingu er ótvírætt, þetta er þróun sem við sjáum mjög víða annars staðar í heiminum, enda er ekki aðeins um lýðheilsumarkmið að ræða sem eykur lífsgæði fólks því að þetta dregur svo sannarlega úr neyslu á sykri. Þetta er ekki einungis tekjuöflunaraðgerð sem getur nýst til að styrkja þá mikilvægu innviði sem við erum öll sammála um að styrkja, þetta er líka aðgerð sem snýst um að — nú er algerlega stolið úr mér hvað ég ætlaði að segja en það var eitthvað afar mikilvægt. Nú þarf ég að horfa og muna hvað þetta var. Það kemur kannski á eftir. En það voru þrenns konar markmið sem ég var búin að hugsa upp. Það var lýðheilsumarkmið, tekjuöflunarmarkmið ... Jæja, þetta kemur.

Umhverfis- og auðlindaskattar eru næst á dagskrá. Ég vil þá nefna næst að íslenskt samfélag stendur frammi fyrir mjög miklum áskorunum sem felast í loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi og samfélag. Við ræddum aðeins kolefnisgjald á dögunum þegar mælt var fyrir þessu frumvarpi. Ég myndi segja að það væri forgangsverkefni að setja hagstjórnina í samhengi við breyttar aðstæður í heiminum, það þarf að endurskoða hagræna mælikvarða og koma á loftslagsbókhaldi í ríkisrekstrinum. Það þýðir ekki að við séum stöðugt að samþykkja einhverjar áætlanir út og suður. Við getum nefnt orkuskiptaáætlun sem var samþykkt á síðasta þingi. Hennar sér hvergi stað í neinu öðru í ríkisrekstrinum. Hún er bara eitthvert plagg úti í bæ, nánast ótengt öllu öðru og á meðan stendur yfir endalaus endurskoðun t.d. á skattkerfinu til þess að auka græna skatta. En það virðist eiga að taka nokkur ár. Við höfum ekki þann tíma. Ég benti á um daginn og ítreka að kolefnisgjald er áhrifamesta skattlagningin til að draga úr notkun óendurnýjanlegra orkugjafa, m.a. hefur Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, bent á þetta og telur að kolefnisgjald sé mun skilvirkari aðferð til þess að draga úr þessari notkun heldur en markaður með losunarheimildir eins og hefur tíðkast innan ESB. OECD, aftur sú róttæka stofnun, hefur bent á að kolefnisgjald og skattar á bensín, dísilolíu og olíu til upphitunar séu almennt lægri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. OECD hefur enn fremur bent á að gjald sem ýmsar þjóðir hafa lagt á útblástur koltvísýrings sé um það bil 80% of lágt til þess að það nýtist sem skyldi til að verja loftslag jarðarinnar en í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar kemur fram að kolefnisgjald á 90% losunar þjóða sé undir lágmarksviðmiði og að ekkert gjald sé lagt á full 60% losunarinnar. Með því að hækka gjöldin og láta þau ná til fleiri eldsneytistegunda, eins og steinolíu og kola, væri hægt að draga markvisst úr losun á gróðurhúsalofttegundum og öðrum mengunarvöldum. 1. minni hluti telur rétt að afnema undanþágur frá kolefnisgjaldi. Ég vitna til að mynda í kox og kol sem m.a. má finna í rafskautum sem nýtt eru í stóriðju hér á landi, sem hafa verið undanþegin þessu gjaldi. Ég legg það ekki til í breytingartillögunni hér því ég tel að það þurfi meiri tíma. Eins og kunnugt er var þessu áliti og breytingartillögu með því dreift fyrir örfáum mínútum því að lítill tími hefur verið til að fara djúpt í þessi málefni. Ég legg hins vegar til hækkun á gjaldinu fyrir næsta ár, að það verði ekki 5% heldur 10%. Ég vona svo sannarlega að stuðningur fáist við þessa eðlilegu hækkun sem er ekki bara, og nú ætla ég að fara aftur yfir markmið og vona að ég muni þau núna, til að afla tekna heldur líka til að stuðla að mikilvægum umhverfissjónarmiðum þegar kemur að loftslagsmálum. Þetta er eitthvað sem allir hv. þingmenn hljóta að geta verið sammála um.

Allir hér, ekki allir hér en flestir flokkar fyrir kosningar, töluðu talsvert um gjaldtöku á ferðaþjónustuna. Ég vænti þess að hv. þingmenn fleiri en ég hafi setið óteljandi fundi um gjaldtöku á ferðaþjónustu. Það gerði ég a.m.k. fyrir kosningar og langt aftur í tímann. Þegar frumvarp um náttúrupassa steytti hér á skeri fyrir einhverjum árum voru menn sammála um það á þingi, hv. þingmenn, að nú þyrfti að finna einhverja leið til að koma á skilvirkri gjaldtöku á ferðaþjónustu og best væri að fara blandaða leið, svo ég vitni í ræður sem þá voru fluttar. Rætt var um gistináttagjald og komugjöld. Í þessu fjárlagafrumvarpi er lögð til þreföldun á gistináttagjaldi. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við þá breytingu en legg til komugjöld á ferðamenn. Ég vil taka fram að ferðaþjónusta er orðinn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar, eins og allir vita, og hefur átt ríkan þátt í efnahagsbata samfélagsins. Hún skilar þegar miklum verðmætum til okkar, sem við eigum að gleðjast yfir. Hins vegar held ég að það sé algerlega morgunljóst að það skortir fjármuni til uppbyggingar, ekki bara í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða heldur skortir fé til uppbyggingar annarra innviða. Ég nefni samgöngur sem dæmi. Ég nefni líka rekstur í kringum friðuð svæði, til að mynda landvörslu sem er í algerum molum hér á landi. Það vantar stóraukna fjármuni til heilsárslandvörslu á friðlýstum svæðum þannig að við getum tryggt almennilega umgengni um þessi svæði, að staðið sé almennilega að þeim svæðum þannig að við göngum ekki á þá auðlind sem náttúra Íslands er tvímælalaust. Það er sú auðlind sem dregur ferðamennina hingað til lands. Rúm 80% koma hingað út af þeirri auðlind, sem við þurfum að styrkja. Þótt jákvætt sé að hækka gistináttagjaldið myndi ég telja það ónógan tekjustofn. Við leggjum því til komugjöld á hvern farseðil, 1.000 kr. frá og með 1. september. Það verður mjög áhugavert að sjá afstöðu hv. þingmanna til þessa tekjustofns sem ég veit að margir hverjir hafa lýst yfir stuðningi við í umræðum á undanförnum mánuðum.

Að lokum vil ég benda á að í allmörgum þeirra umsagna sem bárust nefndinni vegna þessa frumvarps sem er til umfjöllunar, m.a. frá Alþýðusambandi Íslands en líka frá Öryrkjabandalagi Íslands og fleiri aðilum, er bent á að tekju- og eignaviðmið þau sem barna- og vaxtabætur skerðast eftir hafi ekki hækkað til samræmis við vísitölur og verðlagsþróun undanfarin ár. 1. minni hluti leggur til úrbætur í þessa veru þannig að þær fjárhæðir hækki um 35% frá því sem nú er í stað þeirrar 12,5% hækkunar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég mun leggja til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem má finna í meðfylgjandi þingskjali. Eins og hv. þingmenn sjá er þar gerð grein fyrir öllum þessum breytingartillögum. Gerð er breytingartillaga um tekju- og eignaviðmið fyrir barna- og vaxtabætur í fyrstu liðunum. Síðan er lagt til ákvæði til bráðabirgða um nýja gerð auðlegðarskatts þar sem undanskilið er húsnæði til eigin nota, eins og hv. þingmenn Samfylkingarinnar lögðu sérstaklega til fyrir þessar kosningar. Enn fremur er lögð til skattlagning á gosdrykki með viðbættum sykri og sætuefnum. Það kemur í 4. lið í breytingartillögunum og þar eru talin upp þau númer sem þeir drykkir heyra undir þannig að þarna heyrir ekki undir t.d., eftir því sem ég hef verið fullvissuð um af fjármálaráðuneyti, ósætt sódavatn. Síðan kemur undir ákvæði um gistináttaskatt og svo er lagt til að inn fari ákvæði um komugjöld og er farið nokkuð ítarlega yfir þau. Í 7. lið er farið yfir kolefnisgjaldið og í 8. lið er lagt til, og það gleymdi ég að nefna hér, það er gott að ég les þetta líka, sérstakt hátekjuþrep í tekjuskatti á tekjur yfir 2 millj. kr. á mánuði, það bætist við álag á það þrep. Enn fremur liggur inni tillaga frá hv. þm. Smára McCarthy, fulltrúa Pírata, sem ég mun styðja og miðar að því að fresta fækkun þrepa í þrepaskipta skattkerfinu. Að lokum er álag á fjármagnstekjuskatt, að 25% fjármagnstekjuskattur verði lagður á fjármagnstekjur einstaklinga utan rekstrar sem eru umfram 2 millj. kr. á tekjuári.

Ég hef ekki í hyggju að hafa þessa ræðu miklu lengri. Ég vil ítreka að hv. þingmenn fá hér tækifæri til að sýna afstöðu sína í verki, til gjaldtöku á ferðaþjónustu, til lýðheilsumarkmiða, en á þessu kjörtímabili hefur verið starfandi ráðherranefnd um lýðheilsumál. Ég mun taka sérstaklega eftir því hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra greiðir atkvæði um þetta mikilvæga lýðheilsutæki sem er lagt til. Hér er líka hægt að taka afstöðu til þess hvort við teljum að skattkerfið eigi í raun að nýtast til jafnaðar í samfélaginu, fyrir utan að gert ráð fyrir að þessar tillögur geti allar skilað umtalsverðum tekjum til að standa undir þeim útgjöldum sem hv. þingmenn hafa reytt hár sitt yfir á undanförnum dögum og vikum við að finna leiðir til að fjármagna heilbrigðiskerfið sem okkur þykir öllum svo vænt um, menntakerfið sem við vitum öll í hjarta okkar að er lykillinn að framtíð okkar í þessum heimi, kjör hinna lægst launuðu, aldraðra og eldri borgara, vegina okkar sem við erum öll sammála um og vitum allt um að eru vanræktir. Hér er ágætistækifæri, frú forseti, til þess að sýna hug sinn í verki til slíkrar tekjuöflunar.



[21:45]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Logi Einarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mun styðja, og við í þingflokki Samfylkingarinnar, þær breytingartillögur sem eru gerðar af meiri hlutanum og einnig af hv. þingmönnum Katrínu Jakobsdóttur og Smára McCarthy eftir tilefnum, en ég vil þó gera grein fyrir sjónarmiðum okkar.

Vinnan við gerð fjárlaga og tekjuöflun fer fram við nokkuð sérstakar aðstæður. Ríkisstjórn landsins er starfsstjórn þar sem ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn. Hún reiðir sig því ekki á neinn sérstakan meiri hluta á þingi. Því hefur verið reynt að vinna málið í nokkuð þverpólitískri sátt í nefndinni og er sérstök ástæða til að hrósa nefndarmönnum þar. Frumvarpið var lagt fram samhliða fjárlögum en hvort tveggja byggir á ríkisfjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar sem lögð var fram síðastliðið sumar. Það er því ómögulegt að nálgast frumvarpið eins og um ópólitískt plagg sé að ræða. Það byggir á þessari ríkisfjármálaáætlun fallinnar ríkisstjórnar. Að mati Samfylkingarinnar er þörf á meiri fjárfestingu í heilbrigðis- og menntakerfi og sérstaklega þarf að huga að því að bæta kjör barnafjölskyldna, leigjenda, fyrstu kaupenda, aldraðra og öryrkja. Allt of margir í þessum hópum búa við of kröpp kjör. Auðvelt er að fjármagna þessi brýnu verkefni með því að auka tekjur ríkisins af auðlindum með því að innheimta hærri veiðigjöld og/eða bjóða út kvóta og auka tekjur af ferðamönnum sem koma til Íslands af áður óþekktum fjölda. Það er hægt að innheimta tekjur af stórnotendum raforku og auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins.

Við afgreiðslu á slíku frumvarpi birtast alltaf skýrar áherslur flokka á hvernig afstaða þeirra er í útgjalda- og skattamálum. Þar kemur gleggst fram hvernig samfélag menn vilja byggja upp, hvaða aðstöðu þeir vilja búa borgurunum, hver skipting eigna er, tekna og með hvað hætti skattar eru lagðir á hvern og einn.

Þannig birtast í þessu frumvarpi flatar krónutöluhækkanir á ýmsar vörur, svo sem bensín, tóbak og áfengi. Sumar þeirra verða seint taldar nauðsynjavarningur, einhverjar kannski beinlínis hættulegar. Markmiðið virðist þó ekki vera það að leggja þær á vegna lýðheilsusjónarmiða, þá hefði verið miklu nærtækara að leggja á sykurskatt. Þeim er fyrst og fremst ætlað að afla tekna. Gallinn við slíka skattheimtu er að hún bitnar mesta á tekjulægstu heimilunum á sama tíma og aðrar skattbreytingar sem nýttust tekjulægri heimilunum eru látnar eiga sig. Mun betur færi á því að skattbreytingarnar sem nú er verið að gera legðust á breiðu bökin í samfélaginu, þá sem best standa. Við skulum rifja upp að stórútgerðin hefur hagnast um mörg hundruð milljarða á síðustu árum og skattar hafa lækkað á þau 20% sem mestar tekjur hafa. Samfylkingin vill snúa frá þeirra skattstefnu sem hefur verið rekin síðustu þrjú ár. Samfylkingin tekur heils hugar undir umsögn Alþýðusambands Íslands en þar segir að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 sé hvorki til þess fallið að styðja nægilega vel við hinn efnahagslega né hinn félagslega stöðugleika.

Seðlabankinn benti líka í umsögn sinni um fjármálastefnuna, sem bankinn sendi fjárlaganefnd 21. maí sl., að ef ekki sé talið álitlegt að draga úr fjárfestingum opinberra aðila þurfi að draga úr öðrum útgjöldum eða afla hinu opinbera aukinna tekna, t.d. með hærri sköttum. Það er boðskapur sem á enn við í dag, sem menn ættu kannski að muna svona skömmu eftir að flokkarnir lofuðu útgjaldaaukningu í aðdraganda kosninga. Nýtt þing hefur núna tækifæri til þess að tryggja félagslegan stöðugleika til jafns við þann efnahagslega og auka jöfnuð í samfélaginu. Það er besta leiðin til þess að bæta lífskjörin í landinu og stuðla að friði á vinnumarkaði.

Frú forseti. Það er mikilvægt að arðurinn af auðlindum landsins nýtist til þess að lækka tekju- og neysluskatta landsmanna og standa undir fjármögnun öflugs velferðarkerfis. Það þarf að horfa sérstaklega til þess að ríkið innheimti sanngjarna auðlendarentu í sjávarútvegi, orkuvinnslu og af tekjum ferðamanna. Þær eiga að standa undir uppbyggingu við ferðamannastaði og öðrum kostnaði vegna komu þeirra, svo sem í heilbrigðiskerfinu, við löggæslu og björgunarstörf.

Líkt og síðastliðin ár er ekki gengið nógu langt í að leggja á sanngjörn auðlindagjöld. Það verður að horfa til útboðs aflaheimilda, álagningar nýrra raforku- og umhverfisskatta og afnema undanþágu ferðamanna frá almennu virðisaukaþrepi. Við í Samfylkingunni höfum áætlað að með útboði aflaheimilda sé auðveldlega hægt að hækka auðlindarentu í sjávarútvegi sem nemur 15 milljörðum á ári. Við teljum sömuleiðis að hægt sé að ná í um 10 milljarða með því að afnema undanþágu seldra gistinátta frá almennu virðisaukaþrepi, en í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að skattstyrkir til ferðaþjónustu nemi um 20 milljörðum árið 2017.

Frú forseti. Það er hægt að auka tekjur ríkisins af auðlindum landsmanna um a.m.k. 30 milljarða. Það hlýtur að vera eitt mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar.

Ungt skuldsett fólk eða fólk á leigumarkaði býr margt hvert við erfiðar aðstæður. Leigumarkaður er dýr og ekki allir sem hafa efni á útborgun á íbúð og geta ekki stutt nógu vel fjárhagslega við börnin sín. Það eru yfir 6.000 börn sem bjuggu við fátækt á Íslandi árið 2014. Þess vegna er brýnt að styðja betur við þessa hópa. Skilvirkasta leiðin til þess er að hækka barnabætur sem eru tekjutengdar og vaxtabætur sem eru bæði tekju- og eignatengdar. Þannig væri stuðningi beint þangað sem þörf er fyrir hann. Bæturnar hafa lækkað að raunvirði á undanförnum árum og færa þarf aukið fjármagn í málaflokkinn til þess að hækka viðmiðunarfjárhæðir og draga úr tekjuskerðingum.

Mikilvægasta skattalækkunaraðgerðin er lækkun tryggingagjalds sem leggst á launagreiðslur. Hún gagnast litlum og meðalstórum fyrirtækjum best, en þau byggja mörg hver á hugviti og bjóða upp á vel launuð störf og fjölbreytt. Góð starfsskilyrði þessara greina eru lykilatriði í þróun íslensks atvinnulífs. Í þeim felst líka mikilvæg byggðastefna, þó að það atriði vilji oft gleymast.

Frú forseti. Það er mikilvægt að vinna gegn aukinni misskiptingu. Það gerum við með því að tryggja öllum jöfn tækifæri með rekstri á öflugu opinberu velferðarkerfi. Nýlegar rannsóknir viðurkenndra erlendra aðila, t.d. OECD, sýna að þeim hagkerfum sem búa við minnsta misskiptingu farnast best. Beita þarf skattkerfinu hér á landi betur til þess að auka jöfnuð. Það þarf sérstaklega að horfa á þá sem mest eiga, en ríkasta 1% landsmanna á um 20% af öllum eignum og ríkasta 5% landsmanna næstum helming allra eigna.

Til að fá meiri tekjur í ríkissjóð af þessum eignum er skynsamlegt að leggja á stóreignaskatt yfir tilteknum mörkum þar sem ein húseign væri undanþegin. Loks þurfum við að leggja á fjármagnstekjuskatt.

Frú forseti. Til að auka tekjujöfnuð og tryggja ríkissjóði meiri tekjur telur Samfylkingin mikilvægt að hér á landi sé þrepaskipt skattkerfi. Þar þarf sérstaklega að horfa til þess að taka upp nýtt skattþrep á laun þeirra sem hæst hafa launin. Mér sýnist að það séu fram komnar breytingar í þá veru og við munum að sjálfsögðu styðja þær.

Í frumvarpinu sem er til umfjöllunnar er eitt skattþrep fellt út og er áætlað að kostnaður vegna þess nemi um 3,8 milljörðum. Breytingar í þá veru gagnast best þeim sem eru með 700 þús. kr. í mánaðarlaun og skattbyrði þeirra lækkar eingöngu um 6.000 kr. á mánuði. Miklu betur hefði farið á því að nýta þetta svigrúm til að lækka tryggingagjald og/eða styðja betur við barnafjölskyldur og þá sem eru í vandræðum á erfiðum húsnæðismarkaði, t.d. með hærri framlögum í barna- og vaxtabóta. Þá þyrfti að ráðast myndarlegar í uppbyggingu almennra leiguíbúða, eins og kveðið er á um í samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins. Ekki vil ég gleyma öldruðum og öryrkjum sem bíða enn eftir bót sinna mála.

Þetta er verkefni sem væntanlega bíður næstu ríkisstjórnar.



[21:55]Útbýting:

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[21:57]

Of skammt var liðið frá útbýtingu þskj. 45.–46. — Afbrigði samþ. með 52 shlj. atkv.

[21:57]
Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Þótt ég hafi skrifað undir meirihlutaálit efnahags- og viðskiptanefndar geri ég það með fyrirvara því að það er ýmislegt sem mér hefði þótt ágætt að hefði verið bætt við það nefndarálit og tekið með í reikninginn ásamt því að það eru ýmis atriði sem var ekki sérstaklega rætt um í nefndinni en mér finnst full ástæða til að tekið sé tillit til hér. Því legg ég fram mínar eigin breytingartillögur.

Engu að síður finnst mér mjög gott hve vel vinnan í nefndinni gekk í þessu máli og sömuleiðis fagna ég báðum minnihlutaálitunum, frá Vinstri grænum og Samfylkingunni, þótt ég sé ekki sjálfur á þeim álitum. Það eru hreinlega ágætisbreytingartillögur í minnihlutaáliti hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Þó get ég sagt að þótt ég styðji margar aðgerðirnar þar þykir mér ástæða til að vísa í 4. kafla í bók eftir Peter Kropotkin, The Conquest of Bread, sem myndi sennilega útleggjast á íslensku sem Sigurinn yfir brauðstritinu, eitthvað í þá veruna, en þar er tekist svolítið á við eina af stóru spurningunum sem koma fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, um hvort skattar séu endilega heppilegasta leiðin til að stuðla að jöfnuði í samfélaginu og hvort kerfisbreytingar sem miða að því að auðsöfnun verði með jafnari hætti séu ekki eðlilegri leið til að skapa varanlegri jöfnuð. Sömuleiðis hafa Píratar ekki verið neitt sérlega hrifnir af t.d. sykurskatti sem leið til að stýra neyslu, enda erum við afskaplega trúuð á getu fólks til að taka upplýsta ákvörðun um svona mál séu góðar upplýsingar fyrir hendi. Þó er kannski ástæða til að benda á nauðsyn þess að farið verði í gott lýðheilsuátak varðandi sykurneyslu.

Breytingartillögurnar sem ég legg fram eru fyrst og fremst byggðar á ýmsum samtölum sem áttu sér stað í kringum tilraunir til stjórnarmyndunar á sínum tíma og voru helst hugmyndir sem ýmsir flokkar töldu að væru kannski ágætar. Ég tek þar ekki inn stærstu breytingarnar sem voru ræddar í hinum ýmsu hópum enda hafa margar þeirra verið teknar til umræðu í fjárlaganefnd. Svo er margt sem krefðist það víðtækra breytinga að það hefði bara ekki verið viðeigandi að bæta því við í þetta safnlagafrumvarp. Ég valdi engu að síður nokkur góð atriði sem hljóða upp á 1 milljarð hér og 1 milljarð þar, eins og sagt er. Ef þetta safnast allt saman verða til úr þessu raunverulegir peningar, eins og einhver orðaði það, en þessar tillögur ættu að geta orðið gott veganesti fyrir komandi ríkisstjórn, hver svo sem hún verður, sé henni umhugað um endurreisn heilbrigðiskerfisins eða að laga innviði landsins, samgöngur og annað, eða styrkja menntun eða hvað svo sem stjórnmálaflokkarnir á Alþingi kunna að hafa lofað fyrir síðustu kosningar.

Breytingartillögur nr. 1 og 4 lúta að frestun á niðurfellingu milliskattþreps og lækkun á almennum tekjuskatti um áramót. Með þeim er lagt til að bráðabirgðaákvæði við lög um tekjuskatt og lög um staðgreiðslu opinberra gjalda sem nú eru í gildi verði framlengt um eitt ár. Þetta er í rauninni bráðabirgðaákvæði sem má rekja til 5. og 8. gr. síðasta bandorms, þ.e. safnlagafrumvarps, sem var samþykktur í fyrra en þessi tillaga var mjög oft reifuð sem leið til að afla peninga til þess einmitt að styrkja heilbrigðiskerfið.

Ég vil árétta að Píratar eru alls ekki almennt hlynntir því að viðhalda háu skattstigi í landinu en engu að síður eru kannski þannig aðstæður í samfélaginu núna, afgangur af fjárlagafrumvarpinu það lítill, að það er ærin ástæða til að afla þeirra 3,8 milljarða kr. sem er búist við að aflist með þessum aðgerðum sem geta þá farið í að hefja enduruppbyggingu heilbrigðiskerfisins þó að þessi breyting gildi bara til eins árs.

Önnur breytingartillagan lýtur að svokölluðum „tax free“ endurgreiðslum. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. um virðisaukaskatt getur ráðherra kveðið svo á með reglugerð að endurgreiða megi virðisaukaskatt af vörum sem aðilar búsettir erlendis kaupa hérlendis og hafa með sér þegar þeir hverfa úr landi, enda séu uppfyllt skilyrði sem ráðherra telur nauðsynleg. Í fylgiskjali með reglugerðinni sem má finna á vef ráðuneytisins eru endurgreiðslufjárhæðirnar tilgreindar, en í dag er það þak til staðar að mest megi endurgreiða 15% af verði vörunnar. Það er töluvert hátt hlutfall. Er ég með þessari breytingartillögu að leggja til að það endurgreiðsluþak verði lækkað í 7%. Þessi hugmynd var líka rædd í sambandi við síðustu stjórnarmyndunarviðræðutilraun og var áætlað að hún gæti skilað 1 milljarði kr. á ári.

Þess ber að geta að þetta er í nokkru samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Mig minnir að endurgreiðsluþakið sé um 9% í Svíþjóð. Það gengur á ýmsa vegu en þetta er yfirleitt ekki jafn há prósenta og á Íslandi.

Þriðja breytingartillagan lýtur að virðisaukaskatti af bifreiðum og legg ég hér með til að sú undanþága sem er á virðisaukaskatti vegna rafbíla og umhverfisvænna bíla sé framlengd, ekki bara til eins árs eins og hefur verið lagt til í breytingartillögu nefndarinnar, heldur til ársins 2020. Þetta var rætt nokkuð í nefndinni, en ekki var samstaða um að fara í þessa aðgerð og kannski talað um að síðar mætti fara í heildstæðari aðgerðir. Mig langaði samt að varpa þessari hugmynd inn í umræðuna vegna þess að það er nokkuð um að innflytjendur þessara bíla leggi á hærra verð vegna þess að þeir eiga von á því að þessi heimild falli niður hvenær sem er. Hún var upprunalega lögð á til þriggja ára, ef mig misminnir ekki, og svo hefur hún verið framlengd um eitt ár í senn. Ég held að það sé bara ágætismál að framlengja hana til ársins 2020 eins og mörg nágrannalönd okkar hafa gert, m.a. Noregur, til að við sýnum ákveðinn styrk gagnvart þeim orkuskiptum sem margir hafa rætt um og stutt.

Fimmta breytingartillagan lýtur að framlagi til þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs. Þar legg ég til að beðið verði með hækkun á framlögum í eitt ár í viðbót. Í fyrra var frestað hækkun með síðasta safnlagafrumvarpi þessarar tegundar. Í rauninni má segja að það sé í anda jólanna að kirkjan láti af sínu til að styðja styrkingu heilbrigðiskerfisins eða jafnvel að þetta gæti farið í útlendingamál, flóttamannamál og þess háttar. Ýmislegt mætti gera við þessa fjárhæð sem er ekkert rosalega há ef út í það væri farið. Það er kannski nokkuð sem þyrfti að ræða nánar.

Sjötta breytingartillagan lýtur að losunarheimildum. Í frumvarpinu er lagt til að gjald fyrir koltvísýringslosun lækki úr rétt rúmlega 1.000 kr. í 968, minnir mig, ég er ekki með tölurnar fyrir framan mig. Með þessu er verið að bregðast við þeim breytingum sem hafa orðið á Evrópumarkaði á kostnaði við þessar losunarheimildir. Er það að hluta til komið til vegna þeirrar hugmyndar að setja hámark og stunda svo viðskipti með heimildirnar. Þó lít ég svo á að hækkun upp í 1.100 kr. myndi skapa ágætishvata til að losa síður koltvísýring vegna þess að þá yrði mismunurinn á markaðsverðinu og þessari upphæð eftir hjá þeim sem hafa losunarheimildir þegar þeir selja þær áfram ef þeir gera það. Kannski getur þetta orðið til þess að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni.

Þetta eru afskaplega litlar og kannski svolítið fyndnar breytingar. Ég veit ekki hversu mikill stuðningur verður við þær, en mér finnst engu að síður fínt að þingið fái að taka þær til meðferðar.

Ég vil að lokum segja að meirihlutaálitið sem ég skrifa undir nær mörgum mjög ágætum breytingum sem náðist sátt um í nefndinni og ég þakka öðrum hv. þingmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir þá vinnu vegna þess að hún var mjög góð og kannski verður þetta með í pakkanum í næstu umferð.



[22:09]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017. Þetta hangir auðvitað allt saman á sömu spýtunni; fjárlögin, fjáraukinn og þetta frumvarp, ýmsar forsendur fjárlaga, ég ætla því að ræða þessi mál í því stóra samhengi. Mælt hefur verið fyrir nefndaráliti okkar Vinstri grænna, 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, þar sem koma fram tillögur okkar til breytinga á frumvarpinu.

Varðandi skatta almennt hefur raunin verið sú að á síðasta kjörtímabili hefur skattbyrði á þá tekjuminni og meðaltekjufólk verið að hækka en ekki á þá efnameiri. Þau 20% sem eru með mestar tekjur í landinu hafa ekki verið að fá á sig aukna skatta. Þessi stefna er auðvitað þvert á stefnu Vinstri grænna, sem er sú að skattleggja eftir efnum og aðstæðum, að þeir sem hafi hærri tekjur beri meiri skattbyrði en þeir sem eru tekjulægri og tekjulágt barnafólk og ungt fólk sem er að koma sér fyrir í lífinu, að horft sé til þeirra með lægri tekjuskatti og horft til þess að vaxtabætur og barnabætur fari upp og séu í takt við þá vísitölu og verðlagsuppbætur. Það kemur einmitt fram í frumvarpinu að því hefur ekki verið mætt varðandi barnabætur og vaxtabætur. Því leggjum við Vinstri græn til að þær bætur sem snúa fyrst og fremst að ungu fólki verði hækkaðar um 35% í stað 12,5%.

Það vilja allir að velferðarkerfið sé gott, samgöngur góðar og að menntakerfið sé það besta í heimi, en það hræðast flestir að tala um hvernig á að afla tekna til að standa undir þeim hlutum sem við teljum svo sjálfsagða í þjóðfélaginu þar sem við viljum að jöfnuður ríki. Og að aðgengi fólks að menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu sé gott og ekki sé spurt um hvar menn eru staddir í þjóðfélagsstiganum eða hvaða tekjur menn hafa, heldur að greiður aðgangur sé að heilbrigðisþjónustu og að aðgengi að menntun snúi ekki að forgangsröðun varðandi hverjir hafa efni og hverjir ekki.

Nýlega kom fram að stór hluti þjóðar okkar, allt of stór hluti, hefur dregið að leita sér tannlæknaþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Það er auðvitað ekki eðlilegt að hlutirnir séu þannig að fólk veigri sér að sækja þá sjálfsögðu heilbrigðisþjónustu eins og að fara til tannlæknis og að sækja almennt þjónustu til heilbrigðiskerfisins, hvort sem það er í formi læknisþjónustu, sérfræðiþjónustu eða lyfja vegna þess að viðkomandi hefur ekki efni á að veita sér slíka þjónustu.

Við Vinstri græn höfum lagt mikla áherslu á það í umræðum undanfarnar vikur um myndun ríkisstjórnar að afla verði tekna til að mæta uppsafnaðri þörf í þjóðfélaginu, innviðauppbyggingu og í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Takmarkaður skilningur hefur verið á því. Allir hafa viljað ganga langt í þeim efnum en þegar kemur að því að fjármagna þá þætti hafa menn hrokkið af standinum og ekki treyst sér til að afla tekna til að standa undir því sem okkur þykir sjálfsagt á hátíðarstundum að sé með því besta í heimi hér á landi í okkar ríka samfélagi. En við Vinstri græn höfum ekki verið feimin við það að vilja forgangsraða og við viljum líka taka skatta, því að skattar eru auðvitað bara það sem keyrir samfélag okkar áfram, en það verði að vera réttlát skattlagning og hlífa verði þeim sem minna mega sín og að þeir beri meiri byrðar sem hafa bakið til þess í þeim efnum.

Nú er gerð mikil krafa um að við horfum til þess að ferðaþjónustan beri líka þá þörf á uppbyggingu í landinu sem fylgir þeim mikla ferðamannastraum sem kemur til landsins. Það er mjög slæmt að ekki hafi verið lögð á komugjöld á þessu kjörtímabili og mikill vandræðagangur hefur verið varðandi tekjuöflun og ekkert hefur komið út úr því að neinu gagni. Við erum ófeimin við að leggja til komugjöld. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þessi þingsalur tekur í þá breytingartillögu okkar og reynir þá á hvort menn telji að skattleggja eigi ferðamenn til landsins með þeim hætti, sem ég tel vera mjög einfalda og skilvirka leið og hefði átt að fara í fyrir löngu síðan. Okkur veitir ekki af fjármunum til innviðauppbyggingar vegna mikils álags í þjóðfélaginu vegna fjölgunar ferðamanna. Þarna er leið sem er mjög sjálfsögð og ferðageirinn sjálfur hefur tekið undir hana og fjöldi annarra í þjóðfélaginu sem þekkja vel til málaflokksins.

Í frumvarpinu er lögð til þreföldun á gistináttagjaldi, frá 100 kr. upp í 300 kr. Gistináttagjaldið í sjálfu sér er ekki mjög há fjárhæð í heildarsamhenginu. Það eru um 1,2 milljarðar núna í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Skýringin á því að þeir fjármunir eru þar til staðar er vegna þess að fyrri ríkisstjórn kom seint fram með tekjur í sjóðinn svo sveitarfélögin höfðu ekki tækifæri og tíma til að undirbúa sig til að sækja um í hann, þess vegna er kannski meira í sjóðnum heldur en annars væri.

Ég spyr: Út af hverju er verið að hækka þetta bara upp í 300 kr. og horfa ekkert til hvers konar gisting þar er á bak við, að setja gistináttagjald upp á 300 kr. á fimm stjörnu hótel eða á tjaldstæði eða ódýra gistingu? Út af hverju í ósköpunum er ekki haft eitthvert viðmið varðandi verðlagningu gistingar í þessum efnum? Ég held að það væri ekki flókið. Fyrirmyndin er víða erlendis. Ég hefði viljað sjá gistináttagjaldið taka mið af verðmæti gistingar. Það væri miklu eðlilegra að horfa til þess.

Við Vinstri græn tölum fyrir sykurskatti. Hann var felldur niður af fyrri ríkisstjórn en matarskattur var hækkaður aftur á móti á síðasta kjörtímabili. Það er með ólíkindum að sú ráðstöfun hafi verið gerð. Hækkun matarskatts úr 7% upp í 11% hækkaði auðvitað verðlag og hafði áhrif á kjör almennings í landinu. Það er mjög slæmt að menn hafi valið þann kost að hækka matarskattinn þar sem enginn kemst hjá því að kaupa mat til að framfleyta sér, en fólk getur almennt dregið úr sykurneyslu og sleppt sykruðum vörum ef því er að skipta. Það var hugsað til þess að bæta lýðheilsu í landinu og þess vegna leggjum við þennan sykurskatt til aftur og vonum að skilningur í þeim efnum hafi aukist frá því sem var hjá fyrrverandi meiri hluta hér á þingi þegar hann tók þá ákvörðun að leggja af sykurskattinn.

Við leggjum líka til hækkun á kolefnisgjaldi sem er í takt við Parísarsamkomulagið.

Við leggjum til að barna- og vaxtabætur hækki.

Heilt yfir stöndum við frammi fyrir því núna við þessar sérstöku aðstæður að við erum að reyna þvert á pólitíkina, þvert á flokka, að ná samkomulagi í fjárlögum, reynum að koma þeim saman án þess að hér liggi fyrir einhver meiri hluti eða minni hluti og þurfi þá að taka tillit til þess og fjárlögin munu auðvitað bera þess merki að þar eru menn að sjóða saman niðurstöðu sem hugnast kannski ekki neinum en út frá mismunandi forsendum.

Við Vinstri græn höfum talað fyrir því að afla tekna þar sem tekjumöguleikar eru hjá þeim efnameiri og hjá stórfyrirtækjum í landinu með hærri tekjuskatti á þá tekjuhæstu, hátekjuskatt og auðlegðarskatt og skatt á stórfyrirtæki, orkuskatt eins og ég hef talið hér upp, og að veiðigjöld hækki á stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækin sem hafa verið með myljandi hagnað undanfarin ár en tökum tillit til þeirra útgerða sem eru á allt öðrum stað og eru ekki að mala gull, sérstaklega ekki nú um stundir þegar gengi krónunnar er eins hátt og raun ber vitni. Við viljum horfa til jöfnuðar varðandi sjávarútvegsfyrirtækin innbyrðis alveg eins og við gerum varðandi almenning í landinu í gegnum tekjuskattinn, að horft sé til þess hvar menn eru staddir hvað varðar öflun tekna og stöðu þeim í efnum.

Við viljum aftur á móti taka verulega á varðandi innviðauppbyggingu og eflingu heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins, en við horfumst í augu við það að við náum því ekki fram við þessar aðstæður núna fyrir þessi áramót við frágang fjárlaga, þar verðum við að ná fram sem mestu, en vonumst til þess að ný ríkisstjórn, hver sem hún kann að verða, taki sig til og bæti úr þeim málaflokkum sem ég hef nefnt hér í fjárauka næsta árs. Því að þörfin er brýn. Það getur orðið samfélaginu dýrt að halda áfram að svelta velferðarkerfið og innviðauppbyggingu og vera alltaf að gera það minnsta sem hægt er að komast upp með, líka varðandi það fólk í landinu sem býr við bágust kjörin, að þar þarf auðvitað að taka virkilega á. Ákveðið var í lok síðasta kjörtímabils að bæta úr hvað varðar elli- og örorkulífeyrisþega. Það er gott, en það þarf að gera betur. Við horfum líka til þess að ekki var um að ræða afturvirkni varðandi kjör þessara hópa. Það er auðvitað mjög óréttlátt að það hefur heldur ekki náðst í þeirri vinnu allra flokka á Alþingi að mæta því og lenda því máli.

Í umræðunni undanfarið hefur verið rætt mikið um kaup og kjör þingmanna. Ég hef velt því upp hvort ekki ætti að setja þá hópa undir kjararáð ef stefnan er að taka presta þjóðkirkjunnar út úr kjararáði, hvort opnist ekki glufa fyrir að taka öryrkja og aldraða undir kjararáð og hafa einhver viðmið þar við þá hópa sem þar eru áfram, að það héldi kannski ákveðnum ballans þar í báða enda. Ég held að alveg mætti skoða það í fullri alvöru.

Við erum núna þar stödd að við erum að reyna að ná málamiðlun á þingi við afgreiðslu þeirra stóru mála sem bíða afgreiðslu. Fjárlagafrumvarpið ber þess vitni. En varðandi forsendur fjárlaga höfum við Vinstri græn viljað sýna á spilin hvað snýr að þeim málum þar sem við teljum möguleika á að afla tekna til að standa undir okkar vilja til að bæta samfélagið og byggja upp.



[22:25]Útbýting:

[22:25]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég mun fjalla nánar um tvo málaflokka sem hér komu við sögu. Ferðaþjónustan, sem er stærst atvinnugreina nú orðið, gildasta líflína íslensks hagkerfis undanfarin ár, stendur fyrir miklum tekjum. Tekjur ríkisins munu vera metnar á 60–70 milljarða kr. Hvort það er nákvæmlega rétt veit ég ekki, en í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á að setja u.þ.b. 2 milljarða kr. sem er að mínu mati og í hlutfalli við þetta óeðlilega lág upphæð. Gjaldið eða framlagið hefur verið lækkað um 600 millj. kr. en hefði þurft að hækka um a.m.k. 1 milljarð kr. ef vel væri. Þetta fé hefur ekki nýst af mörgum ástæðum sem hafa reyndar komið fram. Það hefur staðið á framlögum sveitarfélaga. Sum þeirra eru ekki það burðug að þau hafi fé til framkvæmda, mótframlög. Skipulagsmál hafa reynst flókin oft og tíðum. Það fé sem var sett frá ríkisins hálfu kom seint fram. Það er alla vega alveg ljóst að það eru mjög margir staðir utan þjóðgarða sem eru bókstaflega í sárum, sumir mjög miklum, og það þarf eins konar bráðaviðgerðir og snarbætt aðgengi á þeim stöðum. Það er of þröngt um þennan sjóð og skorið um nögl til hans.

Eitt og annað er þó jákvætt í fjárlagafrumvarpi og því sem fylgir, sem fram hefur komið, t.d. þjóðgarðsmiðstöðvar, sem ég hef nefnt áður, og Vatnajökulsþjóðgarður stærstur allra fær þó nokkurt fé til framkvæmda, enda hefur hann þolað umferð betur á flestum stöðum en minni þjóðgarðarnir, þá á ég við bæði Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þeir eru miklu minni, eins og menn vita, og orðnir mun skemmdari en stóri þjóðgarðurinn við Vatnajökul. Þessir minni þurfa miklu meira fé, einkum Þingvallaþjóðgarður, en verið hefur látið af hendi rakna. Við því þarf að bregðast. Eins þarf verulega aukið fé í landvörslu, það hefur líka komið fram, landvörslu í þjóðgörðunum og á friðuðum svæðum. Í því sambandi er mjög brýnt að endurskoða sem allra fyrst hlutverk og valdsvið landvarða. Við vitum að þeir hafa leyfi til þess að beina orðum til fólks og biðja um eitt og annað, en þeir hafa ekki valdsvið til að skipa fyrir eða valdsvið sem er í átt við lögreglu. Á því þarf auðvitað að gera bragarbót, ekki síður en að setja meira fé til landvörslu á mjög mörgum stöðum á landinu.

Frú forseti. Ég vil víkja að sérstökum þætti í ferðaþjónustunni. Það er þannig að menningar- og náttúrunytjar geta ekki gengið upp án verndunarminja og alls umhverfis og til þess greina menn þolmörk, jafnt félagsleg sem náttúruleg og jafnt fyrir staði sem svæði og fyrir landið í heild. Við viljum flest að atvinna sé fjölbreytt en ekki að aðeins þrjár greinar beri upp langmest af henni, hvað þá ein atvinnugrein. Við viljum flest að sjálfbærni sé viðmið í ferðaþjónustu og sú stefna hefur verið mörkuð. Þá skulum við muna að hugtakið nær yfir félagslega og hagræna sjálfbærni ekki síður en að náttúran verði nytjuð á þann hátt að hún standi jafn góð eftir eða betri.

Við munum þá enn og aftur hugtakið „þolmörk“. Þegar sumir stjórnmálamenn eða framámenn í ferðaþjónustu telja að við getum tekið við miklu fleiri ferðamönnum, eins og það er orðað, vekur það margar spurningar. Eru þá engin þolmörk til? Hvað merkja orðin miklu fleiri? Engum dytti í hug að skipuleggja fiskveiðar með því að muldra eitthvað um miklu fleiri fiska. Munum líka að reiknaðar sviðsmyndir sýna að skyndilegur samdráttur í ferðaþjónustu myndi hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið allt.

Meðal fyrstu skrefa til úrbóta auk fjármagns til þjóðgarða og til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eru auknar rannsóknir innan ferðaþjónustunnar, skipulagsbreytingar í ferðaþjónustu og stofnanaflórunni og endurskoðun laga um ferðaþjónustu nauðsynlegar. Ég hef talað fyrir nýju ráðuneyti ferðamála og það ætti vissulega að vera til mikilvægrar umræðu á næstunni þegar fjöldi ferðamanna telst í milljónum og viðvarandi skortur á vinnuafli er staðreynd í greininni. Nýja meginatvinnugrein landsins ber að umgangast eins og þær sem áður voru það.

Á næsta ári og árum bíður okkar mikið og fjölþætt verkefni við að bæta úr innviðum, ástandi landsins allt of víða og skipulagi vegna ferðaþjónustu, bæði hvað varðar handavinnu, ef svo má að orði komast, og útvegun fjármagns til að geta tekið við ferðafólki í milljónavís, eins þótt viðmið séu við skynsamleg þolmörk sem við ákveðum og virðum. Fjárlög 2017 og fjáraukalög og fjárlög þar á eftir hljóta að verða að endurspegla það mörg ár fram í tímann.

Frú forseti. Að öðru en skyldu málefni, ég lofaði að tala um tvö málefni og það seinna er loftslagsmálin. Þegar stjórnvöld víða um heim sjá fram á æ alvarlegra ástand heima fyrir og í samskiptum þjóða, t.d. í Asíu þar sem gríðarlegur mannfjöldi er háður jökulvatni jafnt sem sjávarstöðu, er tvennt í stöðunni á alþjóðavísu. Við verðum í fyrsta lagi að vinna gegn manngerðum orsökum loftslagsbreytinga, það er orðið óumdeilanlegt. Það merkir hraðan og mikinn samdrátt í losun gróðurhúsagasa og stórfellt átak í landvernd, endurheimt lággróðurs og votlendis og ræktun skóga sem binda grösin á landi. Allt þetta snýr beint að Íslandi.

Í öðru lagi verður að lina og lágmarka áhrif veðurfarsbreytinga á samfélög þjóða. Það merkir mótvægisaðgerðir og ákvarðanir um hvernig samvinna þjóða, ekki bara um rannsóknir og upplýsingar, getur hjálpað þeim sem harðast verða úti og líka þegar það bankar á okkar dyr.

Frú forseti. Nógu margar einhlítar skýrslur liggja frammi og nægar rannsóknarniðurstöður eru opinberar til þess að hefjast megi handa fyrir alvöru við bæði þessi verkefni. Hingað til hafa hvorki orðið nægar framfarir við að minnka losun né heldur við að ákvarða viðbrögð við rýrnun jökla, súrnun hafsins eða hækkun sjávarborðsins á heimsvísu. Þetta allt merkir ekki að minnka skuli rannsóknir eða fræðslu um stöðu og horfur, aðeins að rannsóknir eru ekki lengur í fyrsta sæti og eiga ekki að hljóta mesta athygli stjórnvalda, ákvarðenda, fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana. Þar þurfa skjótar aðgerðir að koma í staðinn. Við þurfum að koma málunum á þetta séríslenska reddingarsvið sem við erum fræg fyrir.

Við skulum beina aukinni athygli, nægum peningum og heildrænu skipulagsstarfi að því að ná markmiðum sem íslensk stjórnvöld samþykktu á Parísarráðstefnunni, ég hef nefnt þetta áður, með skilmerkilegri áætlun, markmiðssettri hvert ár og fullfjármagnaðri. Við göngum ekki á bak orða okkar og skuldbindinga, það gerir ekkert okkar. Það eru aðeins 13 ár til stefnu í fyrsta áfanga.

Eitt og annað í fjárlögum og fjáraukalögum styður vissulega við baráttuna gegn loftslagsvánni en það þarf að gera betur. Það hlýtur að lita tekjuöflun og fjárútlát næsta árs og allra áranna 13. Ég nefni kolefnisgjald. Ég nefni umhverfisvænni bíla, sem hefur verið minnst á. Þetta er auðvitað allt til bóta en, eins og ég segi, betur má ef duga skal.

Frú forseti. Bæði ferðaþjónustan og loftslagsmálin eru risastór málefni. Svokölluð sóknaráætlun í loftslagsmálum með 16 atriðum er vanfjármögnuð nú um stundir og önnur áætlun sem kallast landsáætlun um uppbyggingu innviða, sem var samþykkt frá Alþingi 2016, er einnig vanfjármögnuð. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi orkuskiptaáætlun sem er einnig sannkallað huldubarn í því samhengi.

Við komumst ekki mörg hænufet með þessum vinnubrögðum. Það má fullyrða að það er næg þörf fyrir fjármagn, hvort sem er beint frá ferðaþjónustunni í formi gjalda, úr álögum á ferðamenn sem komugjöld eða úr öðrum tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga.

Varðandi komugjöldin er það að segja að komið hafa fram viðbárur um að þau muni bremsa ferðamannafjöldann til Íslands en ég held að það geti ekki átt við vegna þess að 1,5 milljarðar manna eru á faraldsfæti um jörðina og við erum að taka hingað inn eins og 1 prómill. Þótt vikukostnaður við ferð á Íslandi, sem er sagður vera um 200 þús. kr., hækki um 1 eða 2 þús. kr., 1 þús. kr. er lagt til í tillögum Vinstri grænna, er ég alveg viss um að það er til nægt fólk sem kippir sér ekki upp við það. Ég held því ekki að komugjöld eða hækkað gistináttagjald, sem ætti að vera hlutfallstala á verði gistingar, eins og hv. þingmaður nefndi á undan mér, að þær gjaldahækkanir séu með þeim hætti að það trufli eitthvert flæði ferðamanna hingað og séu til þess fallnar að koma í staðinn fyrir þolmörk eða annað þess kyns sem er nauðsynlegt að við ákvörðun fyrr en síðar.

Við Vinstri græn viljum að ferðaþjónustunni og náttúrunni jafnt sem fólki líði vel í landinu og teljum að aukið fjármagn, bættir innviðir, virt þolmörk og öflug ferðaþjónusta geti og eigi að fara saman. Tillögur okkar um framlög og tekjur bera þess vitni. Ég hvet hv. þingheim til að samþykkja þær.