146. löggjafarþing — 10. fundur
 21. desember 2016.
kjararáð, 3. umræða.
frv. BjarnB o.fl., 7. mál. — Þskj. 19, nál. m. brtt. 45 og 46.

[22:37]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að flytja nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um kjararáð nú við 3. umr. málsins.

Nefndin fjallaði um málið milli 2. og 3. umr. og fékk til sín Björn Rögnvaldsson og Sigurð Helga Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Skúla Magnússon frá Dómarafélagi Íslands, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins.

Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við 1. gr. frumvarpsins, sem sett var fram í 2. umr., þar sem kveðið er á um að kjararáð skuli vera stjórnsýslunefnd. Athugasemdirnar lutu einkum að því að stjórnsýslunefndir taki almennt ákvarðanir um réttindi og skyldur manna og að slíkar nefndir falli undir stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þessar athugasemdir en telur mikilvægt að kveðið verði á um að ráðið skuli falla undir stjórnsýslulög eftir því sem við á sem og upplýsingalög, nr. 140/2012. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis.

Jafnframt leggur nefndin til breytt orðalag á síðari málslið 1. gr. í því skyni að kjararáð fjalli um starfskjör nefndarmanna í fullu starfi hjá þeim úrskurðarnefndum sem þar eru tilgreindar. Þá leggur nefndin til að dómarar í Félagsdómi falli undir ákvörðun kjararáðs um laun og önnur starfskjör til að tryggja betur sjálfstæði dómsins.

Nefndin ræddi ákvæði 4. gr. frumvarpsins og áréttar að kjararáð skuli í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjara á vinnumarkaði.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef farið í gegnum munnlega og hægt er að skoða lið fyrir lið í nefndaráliti meiri hlutans.

En stuttlega um það sem við erum að gera hér, virðulegi forseti, með þessum breytingum á kjararáði. Markmiðin eru tvíþætt, annars vegar að fjölga þeim aftur sem taka laun samkvæmt samningum á hefðbundinn hátt. Það hafa verið um 580 manns undir kjararáði og nú er þeim fækkað í 150, eða eitthvað á því bili. Þá er annað markmið að þeir sem ekki geta samið um laun á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna, sem sagt þeir sem eru undir kjararáði, hafi meiri aðkomu að málum þegar ákvarðanir eru teknar um laun og starfskjör þeirra en nú.

Í þriðja lagi, sem er kannski það mikilvægasta og umlykur þetta frumvarp, er lögð mikil áhersla á að breyta starfsaðferðum kjararáðs, að við höfum það skýrt og vitum hvernig kjararáð starfar í ákvörðunum sínum, hverju það tekur mið af, og að við höfum það skýrt, eins og kemur fram í 4. gr. frumvarpsins sem ég er mjög ánægð með og við hnykkjum sérstaklega á, að ráðið skuli gæta þess að launin sem það ákvarðar séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu. Í því skyni skal kjararáð fylgjast með og leggja mat á kjarasamninga og almenna launaþróun.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili en legg til að breytingartillögur meiri hlutans verði samþykktar.

Ég vil þakka nefndinni fyrir umfjöllun um málið, hún hefur verið mjög ítarleg. Ég vil þakka öllum nefndarmönnum fyrir að taka sér tíma og fara um víðan völl í umræðum um það hvernig fyrirkomulagi um kjararáð er best fyrir komið. Ég held að við höfum komist að ágætri niðurstöðu.



[22:42]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni meiri hluta fyrir framsöguna og taka undir þakkir hv. þingmanns til nefndarinnar fyrir störf hennar. Þetta hafa verið mjög fróðlegar umræður og gagnlegar. Ég vil einnig fagna því sérstaklega sem er fram komið í b-lið breytingartillögunnar frá meiri hluta nefndarinnar um að kjararáð skuli í störfum sínum fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem við á sem og ákvæðum upplýsingalaga, sem hefur nú verið áréttað og er þá alla vega tryggt með þessum lögum. Ég fagna því mjög. Ég gleðst yfir því að það sé á þessum lista.

Ég hef enn þá nokkrar athugasemdir við frumvarpið, þ.e. breytingartillögur. Þær snúa einnig að auknu gagnsæi í störfum nefndarinnar. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að nú gilda upplýsingalög um störf nefndarinnar þannig að almenningur og fjölmiðlar og aðrir þeir sem láta sig málið varða hafa núna óskoraðan rétt til þess að leita eftir upplýsingum hjá kjararáði, rétt sem hefur ekki verið skýr í lögum fram að þessu. Ég fagna því að þetta ákvæði sé komið inn.

Hvað varðar stjórnsýslulögin er ég persónulega einkar glöð yfir því þar sem ég sendi fyrir hönd þingflokks Pírata upplýsingabeiðni sem ég taldi geta fallið undir stjórnsýslulög til kjararáðs án þess að hafa fengið svar enn þá. Tel ég mig núna betur upplýsta um rétt minn fyrst meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar er sammála mér um að kjararáð skuli fylgja stjórnsýslulögum eftir því sem við á. Það er fagnaðarefni.

Mér þykir hins vegar undarlegt í ljósi þess að markmiðið með þessu frumvarpi er að auka gagnsæi gagnvart kjararáði að ekki hafi fengist betri hljómgrunnur fyrir því að bæta inn ákvæði þar um að kjararáð skuli birta fundargerðir sínar opinberlega og að kjararáði beri að halda hagsmunaskráningu og birta hana opinberlega. Minnihlutaálitið sem ég legg fram hefur tekið nokkrum breytingum frá síðustu umræðu, m.a. vegna ýmissa ábendinga og umræðna sem hafa farið fram, bæði innan nefndar og utan, og ber það þess merki. Fyrst ber að líta til fyrri breytingartillögunnar en þar þótti ég vera að biðja um svokallaða mörgæs með kröfum mínum um að í kjararáði sætu einstaklingar með ákveðna menntun og hæfi sem ég hafði tilgreint sérstaklega hvert væri. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þá ábendingu og hef ég breytt breytingartillögunni að því marki að hún rúmar frekar stærri mengi í þjóðfélaginu um hverjir geta setið í þessu ágæta ráði. Því mælum við með því að ráðsmenn skuli hafa menntun og/eða reynslu við hæfi. Er það í raun og veru eitthvað sem ég tel að margir í þingsal gætu verið ásáttir um að kjararáðsmenn ættu að hafa, menntun og reynslu sem nýtist þeim í starfi. Það er venjulega æskilegt þegar skipað er í ráð og nefndir.

Eins hafa mér borist ábendingar um að ekki væri nógu skýrt hvernig kjararáði væri ætlað að birta hagsmunaskráningu sína. Ég hef skýrt það ákvæði. Það er nú á þessa leið, með leyfi forseta:

„Ráðsmenn skulu birta hagsmunaskráningu sína opinberlega og með aðgengilegum hætti og setja sér reglur þar um.“

Ég tek fram í nefndarálitinu, minnihlutaálitinu, að hægt væri að nota hagsmunaskráningu Hæstaréttar til viðmiðunar um hvernig slík hagsmunaskráning gæti litið út, þótt aðstæður þessara tveggja aðila séu ekki að öllu leyti sambærilegar þá megi vissulega hafa hliðsjón af þeim. Það er því í álitinu.

Loks held ég að það hljóti að vera töluverður hljómgrunnur hér inni eða víða í þjóðfélaginu fyrir því að fundargerðir kjararáðs skuli birtar opinberlega og með aðgengilegum hætti. Mér finnst sjálfsagt mál að hægt sé að fylgjast með því sem er á dagskrá kjararáðs hverju sinni og störfum ráðsins almennt og yfirleitt, hvenær það fundar og hvernig fundargerðir þess líta út yfirleitt.

Virðulegur forseti. Breytingartillögur mínar ganga í raun og veru út á að bæta enn frekar það gagnsæi sem við erum öll svo dugleg að tala um þegar kemur að kjararáði. Það er einfaldlega með því að gera kröfu um að við höfum sem bestar upplýsingar um þá sem starfa í þessu ráði og ákvarða okkur og öðrum æðstu embættismönnum þjóðarinnar laun, að við vitum hvaða hagsmuna ráðið hefur að gæta, að við vitum hvernig fundir þess líta almennt út, alla vega beinagrindin, og að við höfum einhvers konar ábyrgðarklausu í lögum um að þeir sem skipa ráðið skuli hafa menntun og/eða reynslu sem nýtist þeim í starfi. Þetta finnst mér allt vera mikilvægar breytingartillögur og því legg ég til að þær verði samþykktar.

Ég vil mæla enn og aftur með því að kjararáð fylgi ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem við á og ákvæðum upplýsingalaga, af því að mér finnst umræðan sem hefur farið fram svolítið merkileg.

Að lokum langar mig aðeins að tala um það að mér finnst allt of hratt farið í þessa atkvæðagreiðslu. Ég sé ekki forsendurnar fyrir því að við verðum að klára þetta mál fyrir áramót. Meðal þeirra ástæðna sem mér finnst fyrir því að við afgreiðum þetta mál ekki fyrir áramót er að við vorum í ákveðinni tilvistarumræðu um kjararáð í nefndinni, kjararáð var hvorki fugl né fiskur og ekki er einhugur um hvort kjararáð sé framkvæmdarvaldið, hvort það sé eitthvað allt annað, sérstakt snjókorn eins menn tala stundum um, hvort það sé hluti af löggjafarvaldinu eða einhvers konar dómstóll og þá hvernig dómstóll. Mér finnst sérstakt ef svarið við þeirri grundvallarspurningu hvað kjararáð er liggur ekki ljóst fyrir að við séum að ákveða hér ný heildarlög um kjararáð. Ég fæ víst ekki ráðið öllu, frú forseti, og þetta mál skal afgreiðast. Ég legg til að það verði afgreitt með breytingartillögum minni hlutans og alveg sérstaklega með b-lið breytingartillögu meiri hlutans.



[22:50]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með það hvernig breytingartillögur hv. þingmanns hafa tekið breytingum á milli umræðna. Nú erum við ekki lengur með rígnegldar þröngar skilgreiningar á þeim bakgrunni sem ráðsliðar þurfa að hafa, heldur opnari skilgreiningu á hæfi þeirra.

Ég, eins og hv. þingmaður, er mikill áhugamaður um opna og gagnsæja stjórnsýslu og það að almenningur hafi aðgang að sem mestum gögnum úr stjórnsýslunni. Ég sé þess vegna ekkert að því að fundargerðir kjararáðs skuli birtar opinberlega þó að ég efist um að það sé mikið krassandi í þeim. Mér finnst mómentið frekar vera í frumvarpinu þar sem kjararáði er gert að rökstyðja með ítarlegri hætti ákvarðanir sínar. Þar þykir mér sigurinn hafa unnist. En það er sjálfsagt að bæta gögnum í staflann sem eru almenningi aðgengileg.

Ég staldra aðeins við hagsmunaskráningargreinina. Í grunninn held ég að rétt sé að þeir sem höndla með opinbert vald, þar séum við alla vega með það í huga hvort við eigum að skrá opinberlega hagsmuni okkar eða ekki. Svo höfum við náttúrlega shæfisreglur stjórnsýslulaga þar að auki. Í þessu tilviki spyr ég mig hvort grein eins og þessi myndi ná utan um dæmi sem hv. þingmaður nefndi í síðustu umferð um að ef lögmenn skipi kjararáð, hvort það væri einhvers konar hagsmunaárekstur gagnvart dómurum sem þeir ákveða kjörin hjá. (Forseti hringir.) Ég sé ekki að við getum með nokkru móti náð utan um þann vanda í lagagrein, hvorki þessari né annars konar.



[22:52]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil kannski árétta að áhyggjur mínar eru þess eðlis að meiri hluti kjararáðs eru starfandi lögmenn. Komst ég ekki að þeirri niðurstöðu fyrr en ég var búin að fletta upp í leitarvélinni Google öllum nöfnum þeirra sem sitja í kjararáði og fletta í gegnum þó nokkrar leitarniðurstöður líka. Mér þætti eðlilegt að helstu upplýsingar um þá sem sitja í kjararáði liggi fyrir á vefsíðu kjararáðs. Í raun og veru er það helsta markmið með þessari hagsmunaskráningu.

Með þessari breytingartillögu legg ég til að kjararáði verði í sjálfsvald sett nákvæmlega hvernig það setur fram hagsmunaskráningu sína, það taki mögulega mið af því hvernig Hæstiréttur ætlar sér að birta sína hagsmunaskráningu. Mér finnst kjararáð kannski ekki fara með jafn mikilvæga hagsmuni og dómstólar landsins, en alveg virkilega mikilvæga samt sem áður. Mér finnst mjög eðlilegt og í raun og veru nauðsynlegt að fram komi hvaða störfum öðrum en setu í kjararáði kjararáðsmenn sinna og helstu tengsla sem þeir njóta. Því finnst mér í ljósi þeirra ákvarðana sem kjararáð tekur frekar nauðsynlegt og æskilegt að það sé aðgengilegt á síðu kjararáðs þannig að ekki sé þar einhver listi af nöfnum, sem er svo sem ekkert sérstaklega erfitt að afrita og líma inn í leitarglugga en tekur samt tíma og er ekki upplýsandi. Mér þykir það eðlilegt miðað við þær spurningar sem hafa vaknað víðs vegar, og ekki bara gagnvart því að lögmenn starfi þarna. Það er svolítið „existential“ spurning líka hvort það skipti öllu máli eða hvort það raunverulega stefni hlutleysi dómstóla í hættu. Ég er ekki búin að gera það almennilega upp við mig. En ég hefði alla vega viljað sjá það strax og vita það strax. Ég tel að hagsmunaskráningin geti skilað því.



[22:54]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að herra forseti, lagamenntaður sem hann er, hv. þingmaður og lögfræðingurinn, fyrirgefi mér þó að ég taki undir með þingmanninum og segi að ég telji ekki endilega til bóta að hafa lögfræðinga í hverju rúmi í stofnunum, ráðum eða nefndum, segi ég heimspekimenntaður maðurinn, sem nýt ekki sama aðgangs að ráðum og lögfræðingar virðast gera.

Ég er enn að melta hvort hagsmunaskráning í átt að því sem dómstólar hafa eða sem við þingmenn höfum sé endilega það sem þurfi, hvort nægi ekki einmitt eins og hv. þingmaður nefndi, að upplýsingar kjararáðs um þá sem í ráðinu sitji séu ítarlegri án þess endilega að við teljum allt upp sem þeir gera utan kjararáðs, allt sem þeir eiga og allt sem þeir eru. Mér þykir gott að geta farið á heimasíðu kjararáðs eða hvaða opinbera apparats sem er og séð þar einmitt bakgrunn fólks, hvers konar sort af fólki er búið að safna saman þar og hvort þetta sé einmitt eins einsleitur hópur og kjararáð er þessa stundina. Hagsmunaskráningin sem slík mundi ekkert endilega ná utan um það. Það væri kannski frekar, og það er einmitt það sem við vinnum með tillögu meiri hluta nefndarinnar, að kjararáð heyri með skýrum hætti undir stjórnsýslulög, að þar höfum við hæfisskilyrðin. Það að ráðsliði sé vanhæfur til að skera úr um kjör ákveðinna hópa kemur þá væntanlega til kasta ráðsins við hverja einustu ákvörðun. Þannig að umfram þá breytingu spyr ég mig hversu mikið við vinnum með ítarlegri hagsmunaskráningu.



[22:57]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að fá að setja þetta upp í samhliða dæmi: Hagsmunaskráning er birt opinberlega þar sem fram koma helstu önnur störf sem ráðsmenn sinna utan starfa sinna sem kjararáðsmenn. Fundargerðir kjararáðs eru birtar opinberlega þar sem fram kemur þegar hæfisskilyrði kjararáðsmanna eru tekin fyrir. Þá fáum við kannski að vita hvenær kjararáðsmenn ákveða virkilega að víkja vegna hagsmuna sinna eða ekki. Það væri þá hægt að bera það saman við þá hagsmunaskráningu sem liggur fyrir.

Þetta væri ekki mögulegt ef við værum ekki með þessa fínu þrennu sem ég er að leggja til í breytingartillögunni vegna þess að það væri töluvert erfiðara að verða sér úti um allar þessar upplýsingar, samt auðveldara nú orðið á upplýsingaöld, en það væru samt sem áður nokkrir snúningar á meðan við gætum haft þetta allt saman aðgengilegt og fínt á vefsíðu kjararáðs. Það tæki ekkert sérstaklega langan tíma að kippa því í liðinn. Hagsmunaskráning er að mínu mati bara mikilvægt verkfæri fyrir almenning til að vera með það á hreinu að verið sé að vinna að hag almennings og að engir sérhagsmunir ráði för í ákvörðun kjararáðs né annarra mikilvægra stofnana í þessu landi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[22:58]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki hér til þess að veita andsvar heldur vil ég þakka fyrir ræðu hv. þingmanns og þakka henni fyrir hlut hennar í vinnu nefndarinnar. Ég vil líka fara aðeins yfir það sem við sýsluðum þar þegar við reyndum að setja kjararáð klárt undir upplýsingalög. Það var í hugum sumra alveg skýrt, eins og við hv. þingmaður munum, en í praxís var það ekki eins algilt, líkt og ákveðinn þingflokkur í þessu húsi mátti reyna þegar illa gekk að fá upplýsingar frá kjararáði. Við skoðuðum hvort við ættum að setja stöðu nefndarinnar inn sem stjórnsýslunefnd en féllum frá því og ákváðum að hnykkja á því að kjararáð heyrði undir stjórnsýslulög og þar með upplýsingalög. Þetta var afrakstur góðrar vinnu og var ekki síst vegna framlags hv. þingmanns. Ég vil þakka fyrir það.

Einmitt út af því sem kom fram áðan, af því að við erum að hnykkja á því að kjararáð heyrir undir stjórnsýslulög, þá eru þar hæfisreglur sem ég mundi ætla að ættu við líka. Mig langar að spyrja hv. þingmann um b-lið breytingartillögu hennar. Maður sér auðvitað ekkert athugavert við það að nefnd eins og kjararáð birti fundargerðir sínar á vef, en mig langar að spyrja hvort henni sé kunnugt um að aðrar sambærilegar nefndir geri það, og væntanlega gera það einhverjar, hvort það sé að finna stoð í lögum um að svo beri að gera.



[23:00]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir andsvarið og fyrir tækifærið til að árétta þetta. Mér er ekki kunnugt nákvæmlega hvaða úrskurðarnefndir hafa þetta fyrir reglu akkúrat núna. Ég sat hins vegar í framkvæmdaráði Pírata þar sem við birtum allar okkar fundargerðir og það tíðkast víða í stjórnum, ráðum og nefndum fyrirtækja veit ég. Fundargerðir innihalda venjulega hverjir eru mættir á fundina og hvenær, hver dagskrá fundarins er og líka ef einhverjir víkja af fundi, annaðhvort af því þeir þurfa að fara eitthvað annað eða vegna einhvers konar hæfisvesens. Með því að impra á því að stjórnsýslulög gildi um kjararáð gerum við í fyrsta sinn kröfu um það, þótt hún kunni að hafa verið óformlega í gildi samkvæmt starfsreglum kjararáðs, þó að mér skiljist að alla vega stjórnsýslulög hafi hingað til mögulega verið einhvers konar leiðbeiningarreglur en ekki endilega gildandi reglur, að hæfi verði tekið fyrir.

Það sem ég tel að breytist með því að birta fundargerðir kjararáðs opinberlega er einfaldlega að almenningi verður gert auðveldara að glöggva sig á því sem gerist á fundum þess, hverjir sitja þá og af hvaða tilefni fólk víkur af fundi, vegna hæfis eða annars.



[23:02]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið frá upphafi svolítil gildra, myndi ég segja. Ég met það bara pólitískt að það sé svolítil gildra. Það kemur upp vandamál, það eru kosningar, kjörstjórnir sem sitja líka í kjararáði og sinna þessum málum taka ákvörðun um að hækka laun þingmanna — mér var sagt að hækkunin væri 43% en ég hef verið að tala um 47%, en það er alla vega einhvers staðar á því róli á þessu ári. Að sjálfsögðu ofbýður fólki, samfélaginu, kennarar segja störfum sínum lausum vegna þessa og þingmenn og ráðherrar eru spurðir hvert málið sé, hvað þeir ætli að gera í þessu. Bjarni Benediktsson kemst mjög vel frá því með því að segja: Ég lagði fram frumvarp um kjararáð, það er bara ekki búið að samþykkja það, það er eiginlega minni hlutanum að kenna. Hann leggur það síðan fram aftur, fær aðra með sér á það. Málið er ekki jafn sterkt hvað varðar ákvæðið um að það megi ekki fara umfram almenna launaþróun sem er nákvæmlega það sem kjararáð gerði. Það er ekki jafn sterkt í þessu frumvarpi. Búið er að árétta af nefndinni, það er líklega þess vegna sem hv. framsögumaður ætlar að koma hérna í andsvar, það er búið að árétta af nefndinni eftir að ASÍ og SA komu fyrir nefndina og ráðuneytið — þeir vildu fá áréttinguna inn í lögskýringargögnin sem er búið að gera að vísu. En það var ekki inni, þau sögðu að gott væri að árétta það, það væri ekki jafn sterkt og það var í hinu frumvarpinu. Mögulega er búið að laga það og þá er það gott, en við skulum sjá inn í framtíðina af því að eins og þetta er orðað þarna sýnist mér það vera samt sem áður enn þá veikara, en ókei, kannski er bara rétt að búið sé að árétta þetta í nefndarálitinu.

Kjararáð tók ákvarðanir á kjördag um að hækka laun þingmanna langt umfram almenna launaþróun á markaði. Jafnvel þótt við förum aftur til 2006 er þetta samkvæmt fjármálaráðuneytinu alla vega 13% hækkun umfram almenna launaþróun þannig að kjararáð tók ólöglega ákvörðun. Í lögunum eins og þau standa núna segir að þeir megi ekki í ákvörðunum sínum skapa hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks, sem er klárlega það sem ASÍ og SA sögðu að væri að gerast, að ef Alþingi myndi ekki annars vegar snúa þróuninni við eða hafna þessari þróun eins og ASÍ og SA sögðu. En svo voru þeir sammála um að það væri upplausn á vinnumarkaði í boði í Alþingis.

Nú leikur vafi á hvort þetta ákvæði sé jafn sterkt, en núna er þetta, myndi ég segja, lögbrot og ég mun að öllum líkindum kæra það. Ég er búinn að tala við lögfræðinginn minn aftur og við erum byrjaðir að vinna í því að kæra þessa ákvörðun sem var tekin á kjördag um að hækka laun þingmanna svona mikið.

Sú kæra er náttúrlega ekki jafn sterk ef eitthvað gerist þangað til að lækka þá þessi laun aftur í áttina að almennri þróun á launamarkaði. Ef það myndi gerast væri ég náttúrlega ekki með mikið mál í höndunum af því að þá væri búið að leiðrétta þetta, þá væru þingmenn á endanum komnir á þann stað en væru ekki að fara umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði. Það væri gott. Og það er hægt að gera. Formenn allra flokka, nú get ég ekki sagt ykkur hvað var rætt á forsætisnefndarfundi í dag af því að ákveðinn trúnaður er um það og ég mun athuga hvort ég geti ekki fengið þeim trúnaði létt hvað það varðar, en ég get að minnsta kosti sagt ykkur hvað formaður okkar skrifaði undir í bréfi til forsætisnefndar með formönnum allra annarra flokka. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp til laga um kjararáð. Í því felst veigamikil breyting á því hverjir eiga að heyra undir ráðið, svo og á störfum þess að öðru leyti.

Neðangreindir formenn flokka beina því til forsætisnefndar Alþingis að nefndin taki jafnframt til endurskoðunar reglur um þingfararkostnað, þ.e. starfstengdar greiðslur til alþingismanna, sem eru fastar mánaðarlegar greiðslur, í ljósi gagnrýni sem fram hefur komið á kjör þingmanna á opinberum vettvangi eftir úrskurð kjararáðs um laun þjóðkjörinna fulltrúa frá 30. okt. sl.“

Formenn allra flokkanna vísa því til forsætisnefndar að bregðast við þessari stöðu, m.a. að forsætisnefnd gæti tekið til endurskoðunar reglur um þingfararkostnað o.s.frv.

Svo held ég áfram, með leyfi forseta:

„Vonast er til þess að þessar aðgerðir, þ.e. frumvarpið og breytingar á reglum um starfstengdar greiðslur alþingismanna, muni reynast grundvöllur almennrar sáttar um starfskjör alþingismanna.“

Þetta væri ein leið. Eins og menn hafa sagt er ekki gott að alþingismenn grípi með lögum inn í úrskurð kjararáðs. Meginreglan er að það sé ekki gott. Aftur á móti, á meðan kjararáð ákveður laun þingmanna eru það þingmenn sjálfir í forsætisnefnd sem ákveða önnur kjör þingmanna. Það er alveg ljóst, og við vitum það og alveg hægt að fá staðfest að á þeim tíma þegar kjararáð var ekki að hækka laun þingmanna og þeir voru undir almennri launaþróun voru alls konar kjör ákveðin í forsætisnefnd, ný kjör sett inn og þau hækkuð þannig að heildarígildi launa og kjara var hærra út af því að ekki var verið að hækka launin hjá þingmönnum. Kjörin voru hækkuð í forsætisnefnd þannig að forsætisnefnd getur réttilega brugðist við.

Og hvernig væri rétt að bregðast við? Alþingi samþykkti lög á sínum tíma um að ekki mætti fara með laun þingmanna umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði. Kjararáð tók ákvörðun sem m.a. fjármálaráðuneytið sagði í sínum tölum að hefði farið 13% umfram. Ef Alþingi er samkvæmt sjálfu sér, samkvæmt þeim lögum sem verið er að breyta núna og verið að setja inn að við eigum að vera innan almennrar launaþróunar, getur nákvæmlega þessi sama forsætisnefnd lækkað þessi kjör sem voru hækkuð á sínum tíma út af því að launin fóru ekki upp. Núna eru launin farin upp og þá er hægt að lækka kjörin þannig að heildarlaunakjör þingmanna fari ekki upp fyrir almenna launaþróun á vinnumarkaði. Það væri sómi að því ef forsætisnefnd Alþingis myndi gera það hið fyrsta.



[23:09]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú vil ég byrja á að taka fram að ég er ekki hér né heldur nokkur annar þingmaður til þess að verja þann úrskurð sem kom fram hjá kjararáði síðasta kjördag. Þvert á móti er verið að taka til í þessu frumvarpi svo að annað eins komi ekki fyrir aftur. Ég vil bara hnykkja á því. Hér eru ekki uppi andstæðar fylkingar um þetta. Formenn eða forsvarsmenn allra flokka voru fyrst um sinn einhuga um þetta. En svo heltist úr lestinni. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því sem ég ætla ekkert að leggja mat á.

Ég vil aðeins segja: Um þessar breytingar á lögunum megum við vera viss um, eins og kemur fram í 4. gr. þessa frumvarps, að við erum að styrkja það að kjararáð hegði sér ekki með þeim hætti sem gert var á kjördag síðastliðinn. Það verður ólöglegt fyrir ráðið að ákveða í svona stökkum eins og þá var gert. Því ber að fylgja, taka tillit til, það skal, það kemur fram, það skal ætíð fylgja þróun á launamarkaði. Þarna erum við að styrkja þetta. Það mátti skilja á hv. þingmanni að við værum einhvern veginn að veikja þetta ákvæði og það er bara einfaldlega rangt. Og ég vil halda því til haga.

Við höfum átt gott samstarf, nefndarmenn, og fulltrúi þingflokks Pírata sem hv. þingmaður er í hefur svo sannarlega gert sitt þar. Því ber að fagna hvað samstaðan hefur verið mikil. (Forseti hringir.) Mér finnst ástæða til að árétta þetta hér eftir ræðu þingmannsins. Annars hef ég ekkert meira við hana að athuga.



[23:11]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þegar þau lög, sem enn eru í gildi, um kjararáð voru samþykkt 2006, en verið er að fella úr gildi núna og samþykkja ný lög sem eru mjög svipuð en greinargerðin og lögskýringargögnin fylgja ekki, ákváðu menn: Við skulum taka þessi lögskýringarákvæði úr gömlu kjaradómslögunum inn í kjararáðslögin. Það er ekki gert nú. Þar er meðal annars sagt að ekki megi skapa hættuna á að raska kjarasamningum þorra launafólks. Það er mjög sterkt ákvæði. Það var sérstaklega áréttað, með leyfi forseta, í greinargerðinni með frumvarpinu sem er í lögum núna um kjararáð: „að ekki sé hætta á að úrskurðir Kjaradóms raski kjarasamningum þorra launafólks og stefni þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu.“ Þetta er sterkara ákvæðið. Það er ekki lengur til staðar ef við samþykkjum þessi lög.

Annað sem kemur fram aðeins neðar, með leyfi forseta. Það er á bls. 7 í frumvarpinu eins og það var lagt fyrir svo og öll lögskýringargögnin í greinargerðinni: „Kjaradómi ber þannig að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaði en ekki móta hana.“

Síðar segir: „Þessu ákvæði var með öðrum orðum ætlað að vera eins konar almenn umgjörð um ákvarðanir Kjaradóms sem byggðar væru á viðleitni til þess að tryggja bæði innra og ytra samræmi í ákvörðunum Kjaradóms. Í frumvarpinu um kjararáð sem hér er gerð grein fyrir er fylgt sömu stefnu og hún reyndar ítrekuð með því að í síðari málsgrein 8. gr. frumvarpsins“ — sem er núna enn þá inni — „er sérstaklega kveðið skýrar að orði um þetta efni …“

Þessi lögskýringargögn eru farin. Þannig að þetta er ekki jafn sterkt.



[23:14]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Greinargerð sem kemur frá ráðuneyti hefur ekki sama gildi og lagaákvæði. Við erum að ræða um ný lagaákvæði sem við erum að setja á Alþingi sem eru sterkari en fyrir voru. Það trompar nú eiginlega hitt, finnst mér, og er almennt talið. En ég heyri að þetta skiptir hv. þingmann miklu máli. Einmitt þess vegna fannst okkur mikilvægt að mæta því sjónarmiði í því nefndaráliti sem meiri hlutinn kom með í 3. umr. þar sem við tökum fram í nefndaráliti, sem er lögskýringargagn, að við höfum sérstaklega rætt um 4. gr. og áréttum mikilvægi hennar. Það er því algerlega búið að vopna sig með öllum tiltækum ráðum. Við berum hér belti og axlabönd hvað þetta varðar og getum ekkert haft þetta skýrara, svo það komi fram. En um þetta erum við hv. þingmaður kannski ósammála, en ég segi og stend fast á því að lagaákvæði sem við setjum hér í þingsal trompa greinargerð frá ráðuneyti. Absalútt.



[23:15]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála þingmanninum. Að sjálfsögðu trompa lagaákvæði greinargerðir. En þegar verið er aftur á móti að túlka þessi lagaákvæði þarf að fara í greinargerð. Og enn er inni þetta sama lagaákvæði, með leyfi forseta: „Kjararáð skal í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjara á vinnumarkaði.“ En það sem vantar er lögskýringargagnið, greinargerð, sem ég las áðan, í fyrra andsvari. Það vantar inn í þessi mjög sterku ákvæði um hvað þetta þýði, að það megi ekki skapa hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks og stefna þar af leiðandi efnahagslífinu í hættu, að þetta sé rammi utan um hitt. Það er farið.

Hér kemur líka fram og hv. þingmaður hefur lesið það áður, en þetta er allt í 4. gr. Nú les ég málsgreinina þar á undan, með leyfi forseta:

„Við ákvörðun starfskjara þeirra sem kjararáð ákveður laun fyrir skal ráðið gæta þess að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu.“

Ég hef einmitt heyrt hv. þingmann nefna þetta: í samræmi við laun í þjóðfélaginu. En sjáðu: Þau laun, kjararáð getur ákveðið að þau laun séu laun á við sambærilega aðila, sem er akkúrat þetta ytra samræmi. Það er akkúrat það sem þeir gerðu í ákvörðun sinni núna. Þeir tóku ákvörðun um að hækka laun þingmanna í samræmi við, að vísu innra samræmi, innra samræmið var við hæstaréttarlögmenn sem hafði verið tekið aftur á móti við ytra samræmi við aðra í samfélaginu. Það að taka samræmi við laun leysir ekki þetta vandamál.

Og ef ég held áfram þarna, með leyfi forseta: „Í þessu skyni skal kjararáð fylgjast með og leggja mat á kjarasamninga og almenna launaþróun.“

Fylgjast með og leggja mat á er mjög vægt þegar ekki er tryggt sterklega með greinargerð hvað þetta eigi að þýða. Því að þeir gerðu það núna, fylgdust með og lögðu mat á, en lögðu bara það mat að þeir mættu samt sem áður hækka laun þingmanna alla vega um 13%, samkvæmt fjármálaráðuneytinu, umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði.