146. löggjafarþing — 13. fundur
 22. desember 2016.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 6. mál (breyting á A-deild sjóðsins). — Þskj. 37, brtt. 41 og 72.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[21:21]

Brtt. 72 samþ. með 38 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁslS,  ÁsF,  BenJ,  BÁ,  BjarnB,  BjÓ,  BHar,  BN,  EB,  ELA,  EyH,  GBS,  HafG,  HKF,  HarB,  HildS,  JónG,  JSV,  JSE,  KÞJ,  NicM,  NF,  ÓBK,  ÓP,  PawB,  PállM,  SDG,  SÁA,  SIJ,  SilG,  TBE,  ThÞ,  UBK,  ValG,  VilÁ,  VilB,  ÞorstV,  ÞórE.
22 þm. (AIJ,  ATG,  ÁstaH,  BirgJ,  BjG,  BLG,  GBr,  GIG,  HallM,  JÞÓ,  KJak,  KÓP,  LE,  OH,  RBB,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VOV,  ÞKG,  ÞÆ) greiddu ekki atkv.
3 þm. (GÞÞ,  LA,  LRM) fjarstaddir.

Brtt. 41 samþ. með 48 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ATG,  ÁslS,  ÁsF,  BenJ,  BÁ,  BjarnB,  BjÓ,  BHar,  BN,  ELA,  EyH,  GBr,  GBS,  HafG,  HKF,  HarB,  HildS,  JónG,  JSV,  JSE,  KJak,  KÞJ,  LA,  LE,  NicM,  NF,  OH,  ÓBK,  ÓP,  PawB,  PállM,  RBB,  SDG,  SÁA,  SIJ,  SilG,  SJS,  SSv,  TBE,  ThÞ,  UBK,  ValG,  VilÁ,  VilB,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórE.
13 þm. (ÁstaH,  BirgJ,  BjG,  BLG,  EB,  GIG,  HallM,  JÞÓ,  KÓP,  SMc,  SÞÁ,  VOV,  ÞÆ) greiddu ekki atkv.
2 þm. (GÞÞ,  LRM) fjarstaddir.

[21:21]
Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mikilvægt að jafna lífeyriskjör í landinu milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins. Staða ríkissjóðs er með þeim hætti að það er að mörgu leyti einstakt tækifæri til að gera það núna. Þess vegna hafa vinnubrögðin verið vonbrigði. Menn hafa ekki unnið nógu þétt með samningsaðilum og reynt að finna ásættanlegar lausnir. Það dugir ekki að slökkva elda á einum stað ef þeir eru jafnharðan kveiktir einhvers staðar annars staðar.

Samfylkingin lagði fram tvær mjög veigamiklar breytingartillögur á frumvarpinu sem hefðu gert það ásættanlegra að okkar mati en þar sem þær voru felldar treystum við okkur ekki til að greiða þessu frumvarpi atkvæði.



[21:22]
Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál fékk ekki nógu góða umræðu enda mjög stórt, mjög flókið og margt í því. Það var ekki tekið nógu vel tillit til afstöðu þeirra sem verða fyrir kjaraskerðingu vegna þessa máls. Að mínu mati var líka hvorki tekið nægilega mikið tillit til efnahagslegra forsendna né ýmissa annarra atriða sem skipta miklu máli.

Þetta eru vinnubrögð sem við ættum ekki að temja okkur þannig að ég vildi gjarnan að við gengjum miklu hægar í svona máli í framtíðinni. Ég á ekki von á að það verði stöðvað að sinni en það væri afskaplega æskilegt.



[21:23]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er um grundvallarkerfisbreytingu að ræða sem byggir á samkomulagi sem er túlkað með mjög ólíkum hætti. Það er mjög slæmt að gera slíkar breytingar með þeim hraða sem við höfum starfað á í þinginu. Það er umhugsunarefni hversu miklar deilur eru um þessar breytingar. Þótt sjálfsagt sé rétt að aldrei verði allir sáttir við slíkar breytingar tel ég að þingið geti gert miklu betur. Innan Vinstri grænna eru margir andstæðingar þessara breytinga en þar eru líka þeir sem eru sammála því markmiði að jafna lífeyrisréttindi en telja að miklu betur hefði mátt standa að þessum málum.



[21:24]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þegar þetta mál kom fram fyrst á síðasta kjörtímabili var lagt til að sett yrði á fót nefnd sem myndi halda áfram að vinna með málið á milli kjörtímabila. Því var hafnað. Því miður eru miklir vankantar á málinu og lítið tillit hefur verið tekið til þeirra sem hafa kallað eftir að tekið væri mark á þeim ábendingum sem hafa komið frá þeim. Þetta er unnið með allt of miklu hraði. Ekki hefur gefist tími til að fara almennilega yfir þær umsagnir sem hafa borist og fá gesti. Ekki hefur verið búin til sú nauðsynlega sátt sem til þarf til að fara í svona stórar breytingar. Eins og hefur komið fram hefur ekki heldur verið farið nægilega vel yfir þau efnahagslegu áhrif sem þetta getur haft. Því get ég hvorki setið hjá né greitt þessu leið, málið er ekki tilbúið, og ég mun greiða atkvæði gegn því.



[21:25]
Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að laga lífeyrissjóðakerfin okkar og jafna réttindi á milli opinbera vinnumarkaðarins og hins almenna. Það er mikilvægt til að vinnuafl geti flætt á milli þessara tveggja markaða. Svo er líka mikilvægt að fara að jafna kjör á milli þessara tveggja vinnumarkaða. Það bíður okkar.

Ef við gerum ekki neitt í því að jafna lífeyrisskuldbindingarnar og greiða inn á þetta núna hækka iðgjöld. Og hver tekur það á sig? Þá hækka iðgjöld í lífeyrissjóði og verða sem nemur 20% af launum mánaðarlega. Það er tekjuskerðing fyrir fólkið í landinu. Er það betra? Það hefur ekkert verið rætt.

Ég vil bara að við skoðum þetta í heildarsamhengi. Það er mikilvægt. Við höfum fjallað um þetta mál frá því í haust og það hefur fengið mikla umfjöllun í þinginu.



[21:27]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hef kynnt mér þetta mál lítillega og fylgt því eftir síðan það var fyrst lagt það fram. Ég vildi að ég gæti greitt atkvæði með því af því að það gæti skapað grundvöll fyrir ákveðna góða þætti varðandi sátt á vinnumarkaði með SALEK-samkomulaginu, hvernig við gætum með rammaumgjörð um kjarasamninga unnið okkur í átt að því að gera þá í sátt. Þetta mál er hins vegar allt of lítið rætt hérna. Það er kerfisáhætta sem hv. þm. Smári McCarthy, okkar maður í nefndinni, hefur bent á, áhætta sem getur skapað virkilega hættu fyrir okkur. Það þarf ekki að gera þetta strax þótt það myndi líta miklu betur út, það er rétt. Ég minni þingmenn á að sumir sem sátu á sínum tíma í þessum þingsal samþykktu að Íbúðalánasjóður mætti ekki greiða upp sín lán en að þeir sem tækju lán hjá Íbúðalánasjóði mættu það. Það þýddi gríðarlega kerfisáhættu fyrir ríkið. Samt minnir mig að það hafi verið samþykkt samhljóða í þessum þingsal. Ég skoðaði það á sínum tíma. Núna gætum við verið að gera sama hlutinn. Kerfisáhætta er möguleg og þess vegna mun ég greiða atkvæði gegn þessu.



[21:28]
Einar Brynjólfsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Jólin nálgast og þá tíðkast að gefa gjafir. Útgerðarmenn landsins gáfu okkur þingmönnum síld í fötu. Jólagjöfin sem stór hluti launþega fær frá Alþingi þessi jólin felst í afnámi áunninna réttinda. Umrætt frumvarp hefur í almennu tali á göngum Alþingis verið kallað um frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda. Það er réttnefni. Sú jöfnun fer þannig fram að launþegar opinbera geirans missa það forskot sem þeir hafa haft í lífeyrismálum. Launþegar almenna markaðarins munu líklega halda því forskoti í launagreiðslum sem þeir hafa haft lengst af. Þar stendur hnífurinn í kúnni, hér er á ferð eignaupptaka.

Orð þeirra sem hæst hafa talað um stjórnarskrárvarinn einkaeignarrétt við ýmis tækifæri reynast nú lítils virði og ég hlýt að segja nei.



[21:29]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá mörgum hv. þingmönnum sem hafa komið í pontu á undan mér og sagt að málið sé vanreifað. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson hefur í tvígang komið hingað inn í sal með frumvarp sem samningsaðilar hans við samkomulag sem undirritað var í haust telja að sé ekki í samræmi við samkomulagið. Það eru svo mikil áhöld um að þetta samkomulag standist jafnvel stjórnarskrá, að það sé verið að afnema afturvirkt ábyrgð á lífeyrisréttindum, þetta fjallar um lífeyrisréttindi sem er óvissa um hvort séu hluti af launakjörum og eigi þar með ekki heima í þessum þingsal. Það eru svo mörg áhöld um þetta mál en eitt er víst og það er að samningsaðilar eru ósáttir. Verði þetta frumvarp að lögum sem mig rennir í grun að verði er Alþingi að lögþvinga breytingar á lífeyrisréttindum í ósátt við þá sem breytingin nær yfir. (Forseti hringir.)

Ég segi nei við þessu frumvarpi.



Frv., svo breytt, samþ. með 38:14 atkv. og sögðu

  já:  ÁslS,  ÁsF,  BenJ,  BÁ,  BjarnB,  BjÓ,  BHar,  BN,  ELA,  EyH,  HafG,  HKF,  HarB,  HildS,  JónG,  JSV,  JSE,  KÞJ,  LA,  NicM,  NF,  ÓBK,  ÓP,  PawB,  PállM,  SDG,  SÁA,  SIJ,  SilG,  TBE,  ThÞ,  UBK,  ValG,  VilÁ,  VilB,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórE.
nei:  AIJ,  ÁstaH,  BirgJ,  BjG,  BLG,  EB,  GIG,  HallM,  JÞÓ,  KJak,  KÓP,  SMc,  SSv,  ÞÆ.
8 þm. (ATG,  GBr,  LE,  OH,  RBB,  SJS,  SÞÁ,  VOV) greiddu ekki atkv.
3 þm. (GÞÞ,  GBS,  LRM) fjarstaddir.