146. löggjafarþing — 17. fundur
 24. janúar 2017.
stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:31]
Forseti (Unnur Brá Konráðsdóttir):

Nú flytur hæstv. forsætisráðherra stefnuræðu sína fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og fram munu fara umræður um hana sem verður útvarpað og sjónvarpað héðan úr Alþingishúsinu. Umræðurnar skiptast í þrjár umferðir. Forsætisráðherra hefur 18 mínútur til framsögu en aðrir þingflokkar en þingflokkur forsætisráðherra hafa tíu mínútur í fyrstu umferð, í annarri og þriðju umferð hafa þingflokkarnir fimm mínútur hver.

Röð flokkanna er í öllum umferðunum þessi: Sjálfstæðisflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Píratar, Viðreisn, Framsóknarflokkur, Björt framtíð og Samfylkingin.

Ræðumenn fyrir Sjálfstæðisflokk verða Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í fyrstu umferð, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í annarri umferð og Valgerður Gunnarsdóttir, 8. þm. Norðaust., í þriðju umferð.

Ræðumenn fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð verða Katrín Jakobsdóttir, 2. þm. Reykv. n., í fyrstu umferð, í annarri Ari Trausti Guðmundsson, 6. þm. Suðurk., og í þriðju umferð Rósa Björk Brynjólfsdóttir, 5. þm. Suðvest.

Fyrir Pírata tala Ásta Guðrún Helgadóttir, 3. þm. Reykv. s., í fyrstu umferð, Björn Leví Gunnarsson, 7. þm. Reykv. n., í annarri umferð og Viktor Orri Valgarðsson, 7. þm. Reykv. s., í þriðju.

Fyrir Viðreisn tala Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, í fyrstu umferð, í annarri Hanna Katrín Friðriksson, 5. þm. Reykv. s., og í þriðju umferð Jóna Sólveig Elínardóttir, 9. þm. Suðurk.

Fyrir Framsóknarflokk tala Sigurður Ingi Jóhannsson, 2. þm. Suðurk., í fyrstu umferð, í annarri Lilja Alfreðsdóttir, 9. þm. Reykv. s., og í þriðju umferð Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 2. þm. Norðaust.

Fyrir Bjarta framtíð tala í fyrstu umferð Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, í annarri Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, og í þriðju umferð Theodóra S. Þorsteinsdóttir, 12. þm. Suðvest.

Ræðumenn Samfylkingarinnar verða í fyrstu umferð Logi Einarsson, 9. þm. Norðaust., Oddný G. Harðardóttir, 10. þm. Suðurk., í annarri og Guðjón S. Brjánsson, 8. þm. Norðvest., í þriðju umferð.



[19:34]
forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók við á Bessastöðum þann 11. janúar sl. Hin nýfædda ríkisstjórn fær góðar ytri aðstæður í arf. Þannig er staða efnahagsmála sterk og góðar horfur til framtíðar. Ný ríkisstjórn tekur með sér frá alþingiskosningum sterka kröfu um uppbyggingu grunnþjónustu og samfélagslegra innviða.

Stjórnarsáttmálinn fjallar um innviðauppbyggingu og stöðugleika. Innviðauppbyggingin er kjarninn í sáttmálanum, sama hvort litið er til heilbrigðismála, menntamála, almannatrygginga, fjölskyldumála, samgöngumála eða nýsköpunar. Jafnframt vill ríkisstjórnin byggja upp áframhaldandi jafnvægi í efnahagsmálum. Með hliðsjón af þessu eru leiðarstef, eða gildi, ríkisstjórnarinnar tvö; jafnvægi og framsýni. Jafnvægi skapar nauðsynlega festu og aga — sígandi lukka er best. Framsýni veitir kraftinn til að byggja upp, komast lengra, gera betur.

Beinum fyrst sjónum að jafnvæginu. Jafnvægi er flókið hugtak, enda felur það í sér jafnvægi í ólíkum aðstæðum og ólíkum verkefnum. Við sækjumst eftir framförum en um leið viljum við að þær færi okkur nýtt jafnvægi og aðlögun að bættri útkomu.

Þjóðfélagið er safn þeirra einstaklinga sem það byggja, einstaklinga með ólíka sýn, hæfileika og skaphöfn.

„En þó eru sumir sem láta sér lynda það að lifa úti í horni, óáreittir og spakir,“ segir í ljóði Tómasar Guðmundssonar. „Því það er svo misjafnt sem mennirnir leita að, og misjafn tilgangurinn, sem fyrir þeim vakir.“

Jafnvægi í þjóðfélaginu snýst ekki eingöngu um ytri gæði. Það snýst einnig um það hvernig við nýtum þau til að rækta það sem býr innra með okkur. Vísbendingar streyma inn sem benda til að við getum gert miklu betur, bæði sem þjóð og einstaklingar, til að láta okkur líða vel. Of margir upplifa vanlíðan, kvíði og þunglyndi þjaka marga og því miður ekki síst unga fólkið okkar. Það er ekki léttvægt í huga unglings, ef hann finnur til depurðar vegna þess að viðbrögð við því sem hann setur inn á samfélagsmiðla standa ekki undir væntingum. Þetta er nýr veruleiki sem við þurfum að hjálpa börnunum okkar að átta sig á.

Ríkisstjórnin stýrir ekki hamingju einstaklinga en aðgerðir ríkisstjórnar hafa vissulega áhrif á siglingu þjóðarskútunnar, hvert hún stefnir, hvort á henni sé slagsíða og hvernig búið er að áhöfninni. Svo má leiða líkur að því að umræðan á Alþingi geti einnig haft áhrif á sálarlíf þjóðarinnar. Jafnvægið í þjóðfélagsgerðinni kemur nefnilega bæði að ofan og að neðan. Það kemur ekki af sjálfu sér, það þarf að vinna í því.

Það er margt sem hefur þar áhrif. Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar um að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif. Ríkisstjórnin hefur með stefnuyfirlýsingu sinni gert heilbrigðismál að forgangsverkefni. Hluti af því verkefni er að móta skýrari stefnu um hvernig við stýrum síaukinni eftirspurn og hvert skútan skuli sigla. Þjóðin eldist og tækninni fleygir fram. Verðmætasköpun þjóðarbúsins, sem standa verður undir heilbrigðisútgjöldum, eykst hægar en getan til að vinna á sjúkdómum. Áskoranir í heilbrigðisþjónustu eru margar. Við leysum þær ekki allar með nýju fjármagni. Til þess er fjármagnið af of skornum skammti. En góð efnahagslega staða Íslands og gott lífeyriskerfi gera okkur samt sem áður betur í stakk búin en flestar aðrar þjóðir til að takast á við þennan vanda. Framleiðsla á hvern Íslending, leiðrétt fyrir kaupmætti, var ein sú mesta í heimi árið 2015, um fjórðungi hærri en að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum. Þetta þýðir að við getum gert kröfu um að lífsgæði hér á landi endurspegli þessa afar sterku stöðu.

Jafnvægi felst einnig í að styðja þá til sjálfshjálpar sem aðstoðar þurfa við. Ríkisstjórnin hyggst taka upp starfsgetumat og gera örorkulífeyriskerfið sveigjanlegra til að ýta undir þátttöku á vinnumarkaði. Einnig mun hún leitast við að fólk með fötlun geti sjálft stýrt þjónustunni sem það fær. Markmiðið er að auka lífsgæði og samfélagslega virkni.

Ísland er fjölmenningarsamfélag, ríkt af mannauði sem verður að fá að njóta sín. Ríkisstjórnin ætlar að auðvelda innflytjendum að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Góðir landsmenn. Hér má enn taka dæmi af því hversu miklu jafnvægið getur skipt fyrir samfélagsgerðina. Ein helsta áskorunin í flóknum heimi íslenskra fjölskyldna er jafnvægið á milli vinnu og einkalífs. Þar skipta aðgerðir í jafnréttis- og fjölskyldumálum miklu. Svo vitnað sé til Bríetar Bjarnhéðinsdóttur:

„Vér heilsum glaðar framtíðinni, þar sem karlar og konur vinna í bróðerni saman að öllum landsmálum, bæði á heimilunum og á Alþingi.“

Þessi aldargamla draumsýn Bríetar er nær því að verða að veruleika nú en nokkru sinni áður og kannski nær því í okkar samfélagi en nokkru öðru. Ríkisstjórnin mun gera sitt til að stuðla að því.

Síðast en ekki síst snýst jafnvægi um efnahagsmál. Það er mikil áskorun fyrir ríkisstjórn að taka við góðu búi í efnahagsmálum. Það er ekki sjálfgefið að því sé hægt að viðhalda og að aldrei gefi á bátinn. Hér hefur ríkt góður hagvöxtur í mörg ár og hagsagan kennir okkur að magrari ár kunni að vera handan við hornið. Við þurfum að leita leiða til að auka jafnvægi og minnka sveiflur, t.d. með samstillingu peningastefnu, fjármálastefnu hins opinbera og vinnumarkaðar, með endurskoðun ramma peningastefnu Seðlabankans, með nýju vinnumarkaðslíkani að norrænni fyrirmynd og með nýjum stöðugleikasjóði sem haldi utan um arð af orkuauðlindum.

Fjárlög ársins 2017 voru samþykkt í góðri sátt á Alþingi í desember. Í þeim er kveðið á um rúmlega 50 milljarða kr. útgjaldaaukningu frá árinu 2016, eða um 8% af útgjöldum ríkisins. Þessi hækkun er fyrst og fremst til velferðarmála og hún er fordæmalaus. Hækkunin er til komin vegna skýrra krafna samfélagsins um að aukin útgjöld renni til grunnþjónustu og innviða. Aukin útgjöld ríkisins á tímum mikils hagvaxtar eru almennt gagnrýnd af hagfræðingum því að hagkerfið þurfi ekki á innspýtingu að halda við slíkar aðstæður en það er mikilvægt að hafa í huga að þessi innspýting í grunnþjónustu er svar við ákalli samfélagsins sem gekk í gegnum sársaukafullan niðurskurð eftirhrunsáranna.

Tekist hefur vel að lækka skuldir ríkissjóðs, sérstaklega með stöðugleikaframlögum, en vaxtagjöld eru enn allt of há. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að við greiðum um 70 milljarða kr. í vexti á árinu. Það er 10 milljörðum minna en fyrir tveimur árum en það er engu að síður allt of há fjárhæð og með hæstu vaxtagjöldum í Evrópu þegar horft er á hlutfall af landsframleiðslu. Við getum ekki sætt okkur við að greiða hæstu vaxtagjöld í Evrópu sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er þess vegna brýnt verkefni að lækka áfram skuldir og þar með vaxtagjöld ríkisins. Og það leiðir af sjálfu sér að það er stórt velferðarmál að lækka skuldir því að þannig eykst svigrúm til að gera betur á öllum sviðum.

Jafnvægið á milli aukinna útgjalda í grunnþjónustu og efnahagslegs stöðugleika er stærsta verkefni þessarar ríkisstjórnar eins og margra annarra ríkisstjórna á undan henni. Verkefnið krefst ögunar og samstillts átaks. Ríkisstjórnin kemur ekki ein að þessu verkefni. Samstilling hagstjórnar er á margra höndum.

Góðir landsmenn. Víkjum þessu næst að hinu leiðarstefi stjórnarsáttmálans, framsýni. „Framtíðin er ekki eins og hún var hér áður fyrr,“ segir hnyttið spakmæli sem mörgum er eignað. Spakmælið lýsir síbreytilegum heimi, framtíðin á morgun verður örugglega öðruvísi en framtíðin í gær. Einstaklingar búa sig undir óræða framtíð með framsýni. Þeir reyna iðulega að gera það sem þeir telja að muni koma sér og sínum að gagni. Mennta sig, leggja fyrir, koma sér upp þaki yfir höfuðið og koma börnum sínum sómasamlega til manns. Sama á við um þjóðfélög. Þau eiga að setja sér markmið á grunni bestu fáanlegu upplýsinga og rannsókna. Vinna síðan af krafti að því að ná settum markmiðum.

Eitt þessara markmiða er um bætta lýðheilsu. Nýjar rannsóknir sýna að við Íslendingar erum eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða þegar kemur að mataræði og hreyfingu. Við sem ríkisstjórn höfum sett okkur það verkefni að móta heilbrigðisstefnu þar sem haft verður að leiðarljósi að veita góða þjónustu þegar eitthvað bjátar á, en gera jafnframt forvörnum og lýðheilsumarkmiðum hátt undir höfði. Þannig horfum við til framtíðar í þeim tilgangi að bæta heilsu landsmanna og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið vegna lífsstílstengdra sjúkdóma.

Tökum annað dæmi úr allt annarri átt. Í upphafi tíunda áratugarins var mikil umræða um einhæfan útflutning. Við fluttum fyrst og fremst út fisk. Eggin voru öll í sömu körfunni. Talað var um að við þyrftum að stórauka útflutning til að lífskjör okkar gætu staðist samanburð við nálægar þjóðir. Við þyrftum jafnframt að auka fjölbreytni útflutnings. Aðgerðir okkar þyrftu að beinast að þessu.

Nú aldarfjórðungi síðar hefur verðmæti útflutnings á föstu verðlagi þrefaldast. Okkur hefur tekist að halda uppi góðum lífsgæðum á nær alla mælikvarða sem máli skipta. Það sem meira er, okkur hefur tekist að skjóta fleiri og sterkari stoðum undir útflutning. Við sýndum framsýni og það skilaði góðum árangri. En við verðum að halda áfram og standa okkur í samkeppni þjóðanna. Við þurfum að tvöfalda verðmæti útflutnings á næstu 15 árum. Hvernig gerum við það? Varasamt er að treysta á að okkur takist það með því einu að auka magn útfluttrar vöru, svo sem sjávarfangs eða málma. Nær er að leggja áherslu á aukna verðmætasköpun og þá kannski sérstaklega úr því sem við höfum þegar úr að spila. Og við verðum að byggja á hugviti til að framleiða vörur og þjónustu í alþjóðlegri samkeppni. Þar liggja sóknarfæri okkar til aukins útflutnings til framtíðar. Nýsköpun og þróun eru lykilorðin. Ríkisstjórnin hyggst styðja myndarlega við rannsóknir og þróun og hlutverk samkeppnissjóða verður víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina.

Til að ná þessum árangri og bæta samkeppnishæfni Íslands þurfum við að bæta menntun. Menntun er lykillinn að framtíðinni. Hún gerir okkur kleift að skapa það hugvit sem útflutningur okkar byggist á. Menntun gerir börnin okkar betur fær að standast alþjóðlega samkeppni en setur jafnframt þá pressu á okkur að bjóða ungu kynslóðinni samkeppnishæf lífskjör í alþjóðavæddum heimi. Menntun gerir okkur líka betur í stakk búin að takast á við tæknibreytingar. Ný bylting í atvinnuháttum er fram undan en við vitum ekki enn hvaða áhrif hún mun hafa á einstakar atvinnugreinar. Eitt dæmi: sjálfakandi bílar. Við vitum ekki hvort með þeirri tækni muni bílum fjölga, eða mun þeim mögulega fækka? Menntun hjálpar okkur að takast á við hið óvænta og óþekkta þótt óljóst sé hvernig menntunin verði að lokum nýtt. Ríkisstjórnin mun því beita sér fyrir því að öll skólastig verði efld. Það er framsýni.

Ein stærsta ógn samtímans er hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda. Við þurfum að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna. Svo aftur sé vitnað í Tómas:

En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl

þó deilt sé um hvort hótelið sjálft muni græða.

En við, sem ferðumst, eigum ei annars völ.

Það er ekki um fleiri gististaði að ræða.

Í aðgerðaáætlun í tengslum við Panama — Parísarsamkomulagið [Hlátur í þingsal.] — er ríkisstjórnin með áform um að setja græna hvata og hvetja til skógræktar, landgræðslu og orkuskipta í samgöngum. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að ekki verði efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna mengandi stóriðju.

Ljóð Tómasar á einnig vel við um ferðaþjónustuna, hinn nýja burðarás gjaldeyristekna í íslenskum þjóðarbúskap og helstu ástæðu ört vaxandi gjaldeyrisforða. Velgengni þessarar atvinnugreinar byggist á þrotlausri vinnu og öflugu markaðsstarfi. Við þurfum hins vegar að fara að öllu með gát. Við þurfum að hugsa fram á veginn og ekki glutra niður einstæðu tækifæri til langtímahagsældar með skammtímasjónarmiðum og einskiptisgróða. Jafnframt er nauðsynlegt að öðlast betri skilning á áhrifum ferðaþjónustunnar á aðrar atvinnugreinar, ekki hvað síst á sprotafyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast með miklu þakklæti á þrotlaust starf lögreglu, björgunarsveita og Landhelgisgæslunnar undanfarna daga við leit og rannsókn á máli Birnu Brjánsdóttur. Með hjálp fjölmiðla höfum við fylgst með þrautþjálfuðu fólki leggja nótt við dag til að upplýsa þetta átakanlega mál sem hefur hreyft við okkur öllum. Í sorginni yfir að sjá svo sviplega á bak ungri konu í blóma lífsins hefur verið huggun í þeim samhug og samstöðu sem þjóðin hefur sýnt, í viðbrögðum almennings sem hefur leitað Birnu, veitt upplýsingar og sýnt foreldrum hennar og ástvinum hlýju og stuðning. Ég votta fjölskyldu Birnu og aðstandendum innilega samúð mína.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Ríkisstjórnin er að hefja nýtt kjörtímabil, nýja vegferð sem stendur fram á þriðja áratug þessarar aldar. Á kjörtímabilinu minnumst við 100 ára fullveldis Íslands og 75 ára afmælis lýðveldisins. Við getum verið stolt af forfeðrum okkar og -mæðrum, baráttuþreki þeirra og framtíðarsýn. Þau tóku við þröngu búi en með vilja og framsýni tókst að bæta kjör þjóðarinnar. Við getum einnig verið stolt af því hvernig við, kynslóðirnar sem á eftir fylgdu, höfum byggt upp velferðarsamfélag í fremstu röð. Við getum verið stolt af landinu okkar.

Við eigum að halda þessu góða starfi áfram og hlúa vel að umhverfi okkar sem er í sífelldri þróun. Ríkisstjórnin setur sér þannig það markmið að Ísland verði eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar. Samfélag þar sem mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum mynda sterkan grunn.



[19:52]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. forsætisráðherra um þann samhug og samstöðu sem þjóðin hefur sýnt að undanförnu eftir að ung kona var svipt framtíð sinni með óhugnanlegum hætti. Við skulum öll standa saman gegn ofbeldi og tryggja að unga fólkið fái að eiga framtíð sína í friði.

Það eru víða blikur á lofti í heiminum, það er víða ófriðlegt. Víða hafa kosningaúrslit komið mörgum í opna skjöldu, úrslit sem endurspegla vaxandi gjá milli ólíkra hópa í samfélögum vestan hafs og austan og sýna að hægt er að bregðast við með ólíkum hætti.

Stjórnmálamenn geta nefnilega gert hvort tveggja, þeir geta byggt múra eða þeir geta byggt brýr. Ég segi að við eigum að byggja brýr en til þess þarf að takast á við hin raunverulegu stóru verkefni. Sum þeirra nefndi hæstv. forsætisráðherra í ræðu sinni eins og til að mynda loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar þar sem við þurfum að sýna raunverulegar aðgerðir. Við þurfum að undirbúa vinnumarkaðinn á Íslandi til að takast á við þá tækniþróun sem mun geta gerbreytt honum hér eins og annars staðar og síðast en ekki síst þarf að tryggja jöfnuð og þar með félagslegan stöðugleika. Það heyrði ég hæstv. forsætisráðherra ekki ræða mikið í ræðu sinni áðan. Slíkt verkefni kallar nefnilega á raunverulegar kerfisbreytingar og sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við er ekki ríkisstjórn utan um slíkar breytingar.

Það segir sína sögu að hæstv. forsætisráðherra ákvað að vitna í Tómas Guðmundsson og kvæði hans frá fjórða áratug síðustu aldar því að stjórnarsáttmálinn er um margt í besta 1920-stíl, kannski táknrænt að hann er undirritaður af þremur karlmönnum þrátt fyrir batnandi kynjahlutföll á þingi. Kynning fjármálaráðherra, sem við heyrðum af í fjölmiðlum, á ríkisfjármálastefnu nýrrar stjórnar er sömuleiðis íhaldssöm. Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við boðar nefnilega íhaldssama stefnu. Það má kalla hana jafnvægi, það má líka kalla hana kyrrstöðu því að ætlunin er að fresta nauðsynlegri eflingu velferðar og menntakerfis, það á ekki að byggja meira upp en rúmast innan hagsveiflunnar. Það má ekki afla aukatekna til að byggja upp aðþrengt velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Undir þetta er kvittað í ræðu hæstv. forsætisráðherra þegar hann segir: Fjármagnið er af of skornum skammti. Hins vegar, segir ráðherrann, þarf að gera eitthvað í þeim hughrifum að samfélagssáttmálinn um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið.

Hughrifin birtast líklega í 86.000 undirskriftum frá Íslendingum sem kröfðu stjórnmálamenn um aukin framlög til heilbrigðismála. Hughrifin birtast í því að greiðsluþátttaka sjúklinga hér á landi er umtalsvert meiri en annars staðar á Norðurlöndum á sama tíma og skortir fjármuni til að tryggja mönnun og viðunandi aðstæður. Og ætli það skapi ekki líka ákveðin hughrif að í tíð núverandi hæstv. forsætisráðherra í fjármálaráðuneytinu lækkaði skattbyrðin á tekjuhæstu hópana og þyngdist á aðra hópa. Sumir myndu reyndar kalla þetta staðreyndir fremur en hughrif.

Góðir landsmenn. Íslendingar vita vel að betur hefur árað í efnahagslífinu að undanförnu og margir hafa það betra nú en fyrir nokkrum árum sem er gott. Slík staða skapar sóknarfæri en líka áskoranir, eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega. En stjórnun efnahagsmála snýst ekki einungis um að viðhalda góðu ástandi. Hún snýst um að móta stefnu til framtíðar þannig að við hlúum að atvinnugreinum okkar, tryggjum að þar sé skýr sýn en ekki togað í ólíkar áttir. Það er svo sannarlega áskorun að vinna með stærstu útflutningsgrein okkar um þessar mundir, ferðaþjónustunni, tryggja tekjustofna til uppbyggingar innviða og stefna að umhverfisvænni ferðaþjónustu sem uppfyllir í senn metnaðarfull loftslagsmarkmið og tryggir vernd einstakrar náttúru. En það er líka hægt að halda bara áfram að bíða og sjá, leyfa landeigendum að innheimta gjöld þvert á náttúruverndarlög og bíða eftir að tröllin komi þrammandi niður úr fjöllunum, öll sem eitt, og sæki framlág um störf í ferðamannaiðnaðinum, svo vitnað sé í skáld frá 21. öldinni til tilbreytingar.

Það er áskorun að tryggja að efnahagsbatinn skili sér til allra hópa en ekki aðeins ríkustu hópanna í samfélaginu — þó að stuðningur við ríkisstjórnina sé mestur í þeim hópum. Það er áskorun að tryggja lýðræði í stað auðræðis og það er full ástæða til að leiðrétta stöðu tekjulægstu hópanna þegar kannanir sýna okkur að nokkur þúsund börn líða efnislegan skort í okkar ríka samfélagi. Til að tryggja jöfnuð og félagslegan stöðugleika þarf að ráðast í kerfisbreytingar, skattleggja fjármagnið og létta skattbyrðinni af tekjulægstu hópunum. Þar væri hægt að byrja á sjúklingasköttunum sem eru hærri hér en annars staðar og um leið væri hægt að afla aukinna tekna af þeim sem hafa mest milli handa því að ef aðhald er sett á útgjöld í velferðarmálum í stað þess að hækka skatta á auðmenn er í raun verið að hækka álögur á venjulegt fólk fremur en þá ríkustu. Það er í velferðina sem venjulega fólkið sækir sín verðmæti. Við skulum ekki ímynda okkur að hér sé ekki misskipting eins og annars staðar í hinum vestræna heimi. Við vitum vel að ríkustu 10% hér eiga þrjá fjórðu alls auðs samkvæmt tölum frá 2012 og ekki er ólíklegt að skattalækkanir og skuldaleiðréttingar síðustu þriggja ára hafi enn aukið á þá misskiptingu. Við viljum ekki að staðinn verði vörður um slíkan ójöfnuð eins og hér er boðað.

Félagslegur stöðugleiki mun nefnilega líka skipta máli í því verkefni sem hér hefur verið nefnt, að takast á við þær tæknibreytingar sem munu á næstu árum og áratugum gerbreyta vinnumarkaðnum eins og við þekkjum hann. Þar þarf að hafa í huga réttindi launafólks, bætt kjör, og vissulega líka aukna menntun. Þess vegna þurfum við að sjá tölusett markmið þannig að fjárframlög til háskólanna nái OECD-meðaltalinu og í framhaldinu meðaltali Norðurlandanna. Við þurfum að tryggja að framhaldsskólarnir okkar geti opnað dyr sínar fyrir öllum aldurshópum ólíkt því sem verið hefur og tryggt fjölbreytt nám sem mætir þörfum nemenda. Þarna eru ekki boðaðar nægjanlegar breytingar, þarna skortir skýr tölusett markmið en vissulega er talað um fjölbreytt rekstrarform sem þýðir á mannamáli einkarekstur og útvistun sem almenningur í landinu hefur engan sérstakan áhuga á en Samtök atvinnulífsins hafa vissulega verið áhugasöm um.

Virðulegi forseti. Það gladdi mig að heyra hæstv. nýjan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lýsa því yfir að ekki yrðu sett lög á verkfall sjómanna enda yrði slík ráðstöfun ekki líkleg til að skapa sátt um greinina. Ég vil segja hér að ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra um þessa áherslu.

Ég vil líka segja að ég bind vonir við nýjan hæstv. umhverfisráðherra sem hefur boðað metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Við treystum því að hún komi fram fljótlega og að ráðherra taki líka höndum saman við þingmenn Vinstri grænna um að nýjum hálendisþjóðgarði verði komið á fót. Við þingmenn Vinstri grænna munum styðja ráðherrann til allra góðra verka í þessum málaflokki.

En eins og við vitum öll mun líka þurfa kerfisbreytingar til að ná raunverulegum árangri í loftslagsmálum. Spurningin er hvort ríkisstjórnin sem virðist að mörgu leyti svo furðulega íhaldssöm muni komast í gegnum það því að í loftslagsmálunum dugir ekki að hafa öflugan umhverfisráðherra, öll ráðuneyti og allar stofnanir þurfa að vinna saman og þar mun reyna mikið á forystu ríkisstjórnarinnar.

Góðir landsmenn. Kerfisbreytingar voru orð síðustu kosningabaráttu. Heilir flokkar voru stofnaðir um slíkar breytingar í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum sem og Evrópusambandsaðild. Þessir sömu flokkar eru mættir í ríkisstjórn sem fyrst og fremst mótast af stefnu Sjálfstæðisflokksins — allt á réttri leið, sagði hann í síðustu kosningabaráttu og nánast endurprentar stefnuskrána í stjórnarsáttmálanum. Kerfisbreytingar bíða betri tíma. Ekki er hægt að gera allt í einu enda er framtíðin löng, segir nýr fjármálaráðherra. Manni kemur annar ráðherra í hug úr sjónvarpsþáttunum „Já, ráðherra“ sem var einmitt ritstjóri blaðsins Reform sem mætti þýða Kerfisbreytingar áður en hann varð ráðherra stjórnsýslumálefna. Frasinn um að Róm hafi ekki verið byggð á einum degi varð honum einmitt mjög tamur eftir að hann tók við embætti og kynntist sínum ágætu embættismönnum.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB sem sett var á dagskrá fyrir kosningar verða allt í einu að bíða eftir því að rykið setjist eftir Brexit. Skyndilega er Róm ekki byggð á einum degi og menn fara að vitna í Tómas Guðmundsson í leit að innblæstri. Tómas Guðmundsson orti raunar fleira en Hótel jörð, t.d. þetta:

„Og satt er það að stundum hef ég þurft / á öllu mínu ístöðuleysi að halda.“

Einhvern veginn komu mér þessi orð í hug þegar nýr stjórnarsáttmáli birtist eftir margra mánaða tal um kerfisbreytingar, nokkurn veginn kerfisbreytingalaus.

Góðir landsmenn. Við sem sitjum á Alþingi erum öll fulltrúar almennings. Þess vegna er meginverkefni okkar að tryggja að allir í samfélaginu séu á sama báti og hafi tækifæri til að njóta alls þess sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Þannig stuðlum við að félagslegum stöðugleika, samkennd og bættum lífsgæðum, en við þurfum ríkisstjórn sem er reiðubúin til að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að bæta lífskjör allra til framtíðar. Kerfum sem standa vörð um forréttindi sumra þarf að breyta, góðir landsmenn, og til þess þarf líklega öðruvísi ríkisstjórn en þá sem nú hefur tekið við.

Eitt er þó það verkefni sem við ættum öll að geta sameinast um sem hér sitjum þótt ekki séum við sammála um þetta og það er að byggja brýr. Á hverjum degi hittum við slíka smiði, strætóbílstjórann sem heilsar öllum og minnir mann á að öll njótum við virðingar í bílnum hans, leikskólakennarann sem leysir úr vanda ólíkra barna með ólíkan bakgrunn, fólk sem hingað kemur frá öðrum löndum, jafnvel á flótta, en kennir okkur svo ótal margt og gerir líf okkar fjölbreyttara og betra. Þarna eru þjóðarleiðtogar sem auka skilning milli ólíkra þjóða og þingflokksformenn sem leysa hnúta en herða þá ekki en við hittum líka þá sem smíða múra, vilja alltaf loka sig inni og breyta engu. Ég held að í öllum löndum heims sé eitt mikilvægasta verkefnið núna fyrir stjórnmálin að leggja brúarsmiðunum lið, óháð því hvar við stöndum í flokki. Ég vona að það geti í það minnsta orðið okkar sameiginlega verkefni. — Góðar stundir.



[20:04]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ég er ekki frá því að það þurfi ákveðið hugrekki til þess að mynda þriggja flokka ríkisstjórn með eins manns meiri hluta eins og við sjáum nú. Þetta verður sérstakt kjörtímabil fyrir margra hluta sakir, enda voru úrslit þessara kosninga um margt óvenjuleg. Aldrei hefur fjórflokkurinn fengið jafn lítið fylgi og nú og aldrei hefur hlutfall nýrra þingmanna verið jafn hátt. Þá hafa konur á þingi aldrei verið fleiri og aldrei fleiri flokkar komist að. Þetta endurspeglar þá skýru kröfu sem er uppi í þjóðfélaginu um endurnýjun, fjölbreytni og ný vinnubrögð í stjórnmálum.

En hvað gerðist svo? Þeir flokkar sem í aðdraganda kosninga skreyttu sig ferskum umbótafjöðrum og lofuðu samræðustjórnmálum, meiri kurteisi og nýjum vinnubrögðum, hafa myndað bandalag um óbreytt ástand. Viðreisn og Björt framtíð vega salt við Sjálfstæðisflokkinn. Sú ríkisstjórn sem nú hefur verið mynduð er langt frá því að vera okkar draumaríkisstjórn, en við Píratar munum beita þingstyrk okkar að fullu, veita ríkisstjórninni aðhald eins og kostur er, en styðja góð mál þegar þau koma fram.

Virðulegi forseti. Sannleikurinn er sagna bestur. Í því ljósi er það sjálfsögð krafa að ráðherrar ríkisstjórnar Íslands segi Alþingi og þjóðinni satt og rétt frá. Lög um sannleiksskyldu ráðherra eru í gildi í mörgum nágrannalanda okkar en lög um ráðherraábyrgð sem hér eru í gildi tryggja ekki þessa mikilvægu ábyrgð ráðherra gagnvart þingi og þjóð.

Ég vil leggja áherslu á þetta í ljósi nýliðinna atburða þar sem fyrrverandi fjármálaráðherra bar því við að hann vildi ekki setja ákveðna skýrslu í kosningasamhengi, skýrslu sem í stóra samhenginu fjallaði um ástæðu þess að kosningum var flýtt. Í stuttu máli sagt leyndi ráðherra upplýsingum sem fram komu um eignir Íslendinga í skattaskjólum í aðdraganda kosninga sem haldnar voru vegna þess, mögulega, að upp komst að hann sjálfur og tveir samráðherrar hans voru nefndir í Panama-skjölunum.

Það er því miður ekkert sem gerir ráðherrum skylt samkvæmt íslenskum lögum að birta mikilvægar upplýsingar að eigin frumkvæði. Þetta er mál sem við Píratar munum berjast fyrir á þessu kjörtímabili, rétt eins og því síðasta. Það er nefnilega þannig að í siðuðum lýðræðisríkjum er það kallað spilling þegar stjórnmálamenn beita opinberu embætti sínu í þágu persónulegra og pólitískra hagsmuna. Þá er það kallað lygi þegar menn fara vísvitandi með rangt mál. Nú reynir á nýtt þing að sýna að tal okkar allra um ný vinnubrögð og ábyrgð í stjórnmálum sé ekki orðin tóm.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála og stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra er talað um fátt sem hönd á festir en þó er þar talað um framsýni. Orðið „samræðustjórnmál“ hefur einnig verið einkennisorð eins stjórnarflokksins. Sömuleiðis eru orð um að það þurfi að breyta fiskveiðikerfinu, landbúnaðarkerfið þurfi að bæta, betri vinnubrögð hér og þar og þar fram eftir götunum, og svo er það sátt. En þegar á hólminn er komið er það sátt svo lengi sem það hentar þeim sjálfum og þeirra hagsmunum. Það skiptir greinilega máli að vera besti vinur aðal. Að byrja þingið á því að neita minni hlutanum um nefndasetu sem endurspeglar þingstyrk eru ekki ný eða fersk vinnubrögð, heldur afturför og spilling því að spilling snýst ekki einungis um misbeitingu valds heldur um atferli sem dregur úr trausti á stofnunum og reglum samfélagsins. Sérhagsmunagæsla hins ofurnauma þingmeirihluta er gott dæmi um þetta.

Góðir landsmenn. Það er neyðarástand í heilbrigðismálum á Íslandi. Í viðtali við Morgunblaðið 16. júlí sl. viðurkenndi hæstv. forsætisráðherra, þá fjármálaráðherra, með leyfi forseta, „að 20% sjúklinga treysta sér ekki til að leita heilbrigðisþjónustu vegna bágrar fjárhagsstöðu“. Í dag segir hæstv. forsætisráðherra hins vegar að ótryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu séu bara hughrif. Alveg eins og það er víst geðveiki að finnast ekki allt vera í fína lagi á Íslandi. Að tala svona til þjóðarinnar um okkar alvarlegu vandamál, viðkvæmustu vandamál okkar, heilsu okkar, ber ekki vott um virðingu fyrir nýfengnu umboði.

Virðulegi forseti. Það er ómögulegt að rækta það sem býr innra með okkur í aðstæðum þar sem ekkert tillit er tekið til mismunandi þarfa og hugmyndaheima fólks. Lítið er um tækifæri til að hafa áhrif á ytri aðstæður þegar meiri hlutinn valtar alltaf yfir restina. Auðvitað er þjóðfélagið speglun á því sem er að gerast í æðstu valdastofnun þjóðfélagsins. Hvernig aðstæður er verið að skapa hér á þingi? Hér er verið að búa til aðstæður þar sem þingmenn eru sífellt að keyra á yfirsnúningi vegna skipulagsleysis og óöryggis um störf þingsins, of lítils undirbúningstíma þegar fjallað er um risastór mál í þingsal, eins og flýtiafgreiðsla fjárlaga fyrir jól er til vitnis um, en eins og hæstv. forsætisráðherra nefnir þá líður fæstum vel á yfirsnúningi.

Hvernig væri ef við myndum byrja á því að skapa þetta draumaumhverfi sem hæstv. forsætisráðherra talar um, hér á þessu þingi? Það er vondur bragur á því hvernig núverandi stjórnarflokkar hafa gengið fram t.d. varðandi nefndaskipan, notað smáa letrið í samningnum til hins ýtrasta í stað þess að virða anda laga um þingsköp sem samþykkt voru árið 2011 eftir ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir bankahrunsins. Þau þingsköp voru sniðin einmitt að því að gera framkvæmdarvaldið minna ráðandi en það hafði verið fyrir hrun, til þess að fjölbreytnin í samfélaginu kæmist að, fengi að njóta sín, en rétt eins og hv. forsætisráðherra nefnir þá er Ísland fjölmenningarsamfélag. Það þýðir að ólíkar skoðanir, ólíkir flokkar, ólíkar stefnur og ólíkur uppruni þurfa að eiga sæti við borðið. Og það er í lagi að vera ósammála en á málefnalegum og upplýstum grundvelli.

Af hverju brýst óþolinmæði og reiði fram? Að minni reynslu er það vegna þess að fólk upplifir að það hafi ekkert vald. Að ekki sé hlustað á það sem það hefur fram á að færa. Að verið sé að valta yfir það og það sem það hefur til málanna að leggja á ómálefnalegum grundvelli. Á þeim grundvelli að það sé ekki í réttu liði.

Virðulegi forseti. Við erum ekki lauf í vindi, eins og framtíðarsýn hæstv. forsætisráðherra gefur til kynna. Það er nauðsynlegt að hafa skýra mynd um hvert við ætlum að stefna. Við getum undirbúið okkur fyrir framtíðina. Við getum tekið ákvörðun um hvert skal stefna, t.d. að auka gagnsæi, að fylgja stjórnsýslulögum og að samþykkja nýja stjórnarskrá. Við getum meira að segja undirbúið okkur undir komu sjálfkeyrandi bíla.

Hvar er framsýni og stefna ríkisstjórnarinnar? Við þurfum að taka ákvörðun um hvert við ætlum að stefna sem þjóðfélag og taka viðeigandi skref í þá átt. Við þurfum að hætta að beita okkur bara fyrir hlutunum í orði og fara að framkvæma.

Hæstv. forsætisráðherra minntist á menntun, að hún væri það mikilvægasta sem hægt væri að hugsa sér. Ætlar ríkisstjórnin að afnema 25 ára regluna í framhaldsskólum? Eða er það of óþægilegt?

Góðir landsmenn. Mig langar að lokum að minna á að nú sem aldrei fyrr er þörf á því að efla rödd mannréttinda og jafnréttis, tjáningarfrelsis og lýðræðis í heiminum. Ísland getur gert það. Við þurfum að standa við stóru orðin, ekki einungis gagnvart kjósendum okkar og þjóð heldur heimssamfélaginu í heild. Við Píratar munum standa við okkar og halda ótrauð áfram að berjast fyrir mannréttindum og lýðræðisumbótum. Það eina sem er öruggt er að framtíðin mun koma okkur á óvart en við tökum henni opnum örmum.



[20:13]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Á fyrstu dögum nýrrar og frjálslyndrar ríkisstjórnar er ástæða til bjartsýni. Ytri aðstæður eru um margt góðar. Sumir kynnu að segja að það þýddi að ekki væri ástæða til breytinga en góðæri er einmitt rétti tíminn til að hugsa hlutina upp á nýtt og ráðast í nauðsynlegar umbætur, umbætur sem stuðla að lífskjörum sem eru samkeppnishæf við það sem gerist í löndunum í kringum okkur.

Þversögnin sem blasir við þjóðinni er að hún þarf á tvennu að halda, breytingum og stöðugleika. Við höldum í það góða en breytum hinu. Við viljum kerfisbreytingar en engar kollsteypur. Við verðum að treysta jafnrétti í sessi á öllum sviðum, ekki síst rétt kynjanna til jafnra áhrifa og jafnra launa. Allir sem hafa vilja og getu til þess að vinna eiga að hafa rétt til þess, óháð aldri. Hið opinbera og fyrirtæki á almennum markaði hafa sett sér reglur um að enginn skuli vinna eftir ákveðinn fjölda afmælisdaga. Þjóðfélagið tapar með þessu miklum mannauði og fjölda vinnufúsra handa á sama tíma og víða er skortur á vinnuafli.

Stöðugleiki virkar kannski ekki spennandi, kannski vegna þess að orðið minnir á stöðnun. Stöðugleiki í efnahagslífinu væri aftur á móti bylting á Íslandi. Þjóðin hefur vanist miklu meiri sveiflum í launum og gengi en flest önnur ríki heims, a.m.k. í hinum vestræna heimi. Uppsveiflan er algjört æði en fallið sem óhjákvæmilega kemur í kjölfarið ef menn fara of hátt er ömurlegt. Það væri bylting að hafa langvarandi stöðugleika hér á landi. Það væri bylting að hafa verðlag líkt því sem gerist erlendis. Íslendingar þekkja vel að kjarabætur sem felast í því að launin hækki um ákveðna krónutölu sem verður að engu í verðbólgu eru engar kjarabætur.

Já, það væri bylting að hafa vexti sambærilega við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum Íslands. Og það væri mikil breyting frá því sem nú er ef traust á grunnstoðum samfélagsins, eins og æðstu stjórn ríkisins, ríkisstjórn og Alþingi, færi á nýjan leik að aukast.

Í þessum heimi er margt sem Alþingi og ríkisstjórn geta ekki breytt. Alþingi skapar ekki verðmæti. Það eru fyrst og fremst fyrirtækin og starfsmenn þeirra sem skapa þann auð sem velferðarkerfi okkar byggist á. Þó er margt sem við alþingismenn og ríkisstjórn getum haft áhrif á. Við getum skapað góða umgjörð fyrir fólk og fyrirtæki. Við getum auðveldað innflutning á landbúnaðarvörum. Samningur við Evrópusambandið um gagnkvæma niðurfellingu tolla af ýmsum vörum mun tvöfalda innflutning á landbúnaðarvörum á sumardögum. Þá mega dýrir tollkvótar ekki verða til þess að hækka verð til neytenda óeðlilega mikið. Hagur neytenda og valfrelsi þeirra verður að vera í öndvegi.

Við getum líka haft áhrif á vexti og vaxtagreiðslur. Af málefnasviðunum 34 í fjárlögum er ekkert sem kemst í hálfkvisti við þá 70 milljarða kr. sem vaxtagreiðslur eru nema sjúkrahúsrekstur sem fær 77 milljarða. Augljósasta leiðin til að bæta afkomu ríkisins er að lækka vaxtabyrðina.

Og hvað eigum við að gera til þess? Ábyrgur ríkisrekstur. Niðurgreiðsla skulda. Afnám hafta og þar með betra lánshæfismat. Allt lækkar þetta vaxtagjöld. Lánshæfiseinkunn ríkisins hækkaði frá B og upp í A — hvenær? Sama daginn og ný ríkisstjórnin tók við. Hærri einkunn leiðir til lægri vaxta. Það voru góðar fréttir en við getum gert enn betur. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að unnið verði að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðla að óstöðugleika og skýra að nokkru leyti hvers vegna vextir eru að jafnaði miklu hærri hér á landi en í nágrannalöndum. Vinna er þegar hafin við að undirbúa endurskoðun peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands með það fyrir augum að auka stöðugleika í gengi. Ný peningastefna þarf að veita öryggi svo fyrirtæki geti staðið af sér hagsveiflur og gert langtímasamninga. Launþegar verða líka að hafa vissu um að launin dugi fyrir útgjöldunum og að verðbólga éti ekki upp kjarabæturnar.

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Þjóðfélag byggir á trausti manna á milli og ekki síst trausti á stofnunum. Besta leiðin til að skapa sér góða ímynd er að hegða sér vel. Sáttfúsir og lausnamiðaðir þingmenn og ráðherrar byggja í sameiningu upp traust þjóðarinnar. En þetta getur verið svolítið snúið. Víðtækt samráð þýðir að halda þarf marga fundi og gera margt sem tafið getur afgreiðslu mála. Það er þó fyllilega réttlætanlegur fórnarkostnaður samanborið við virði þess að samstaða náist um helstu mál, að traust sé milli manna og trúverðugleiki aukist.

Tortryggni er meinsemd í þjóðlífinu. Þess vegna er nauðsynlegt að stjórnvöld vinni fyrir opnum tjöldum eins og frekast er unnt. Gagnsæi og greið svör eru aðferðirnar til að draga úr grunsemdum um að eitthvað misjafnt eigi sér stað. Eitt fyrsta verk mitt í fjármálaráðuneytinu var að ákveða að kostnaðarreikningar ráðuneytanna og stofnana þeirra yrðu allir aðgengilegir almenningi á netinu. Unnið hefur verið að undirbúningi um hríð og stefnt er að því að þetta gerist á vordögum.

Ríkið getur víða sýnt ráðdeild. Nýlegar tilraunir með sameiginleg innkaup margra stofnana hafa sparað milljarða. Alþingismenn, við sem hér erum, eru vörslumenn almannafjár og þurfa að gæta þess að fara vel með. Markmiðið er nefnilega ekki að eyða sem mestu í góð málefni heldur að gera eins mikið gott fyrir peningana og hægt er. Við í ríkisstjórninni segjum svarta hagkerfinu og skattaskjólunum stríð á hendur. Í kjölfar skýrslu um umfang aflandseyjaeigna Íslendinga hef ég átt fundi með bæði ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, m.a. í því skyni að loka skattasmugunum.

Kæru landar. Forgangsmálin eru skýr og koma fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Heilbrigðismálin eru í forgangi. Umbætur í landbúnaði og sjávarútvegi sem skapa betri sátt um greinarnar eru nauðsynlegar. Stöðugt gengi gerir Ísland samkeppnishæft við nágrannalöndin. Íslenskt atvinnulíf er ekki bara í samkeppni við erlend fyrirtæki, Ísland er í samkeppni við útlönd um gott fólk. Lífskjör á Íslandi verða að vera sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum þannig að við höldum í okkar besta fólk.

Það er skynsamlegt að byggja upp innviði, bæta fjarskiptakerfið, laga vegi og leggja nýja. Við gerum samt ekki allt í einu. Mér er það minnisstætt þegar hv. þingmaður, formaður Vinstri grænna, talaði um að oft hefðu stjórnvöld haft háleitar hugmyndir en færst of mikið í fang og reynt að þvinga í gegn breytingar án þess að leita sátta. Það er óskynsamleg aðferð og lítt vænleg til varanlegs árangurs.

Við Íslendingar eigum að efla frelsið á öllum sviðum, rífa niður höft og múra og auðvelda viðskipti milli landa. Jón Sigurðsson, sjálfstæðishetjan góða, sagði ætíð að frjáls viðskipti væru forsenda fyrir velmegun þjóðarinnar og raunverulegu sjálfstæði hennar.

Góðir Íslendingar. Við höfum margoft sýnt að á dögum gleði og sorgar stöndum við saman sem einn maður. En hvað um dagana þar á milli? Enginn ætlast til þess að við séum sammála um stórt og smátt en við getum verið sammála um vinnubrögð. Við getum verið sammála um það að vinna öll af heilum hug, að ræða af virðingu hvert við annað og hvert um annað. Enginn stækkar á því að smækka annan.

Baráttumál Viðreisnar eru frelsi og jafnrétti á öllum sviðum. Eflum bræðralag með þjóðinni og ryðjum þannig brautina fyrir frelsið og jafnréttið.



[20:23]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Ný ríkisstjórn hefur tekið við á Íslandi og er rétt að óska henni velfarnaðar í þeim verkefnum sem fyrir liggja og snúa að heill og velferð þjóðarinnar. Sem betur fer tekur stjórnin við góðu búi. Það góða bú varð til á vakt Framsóknarflokksins. Viðreisn kom þar hvergi nærri og ég man ekki til þess að viðhengi hennar, Björt framtíð, hafi lagt mikið til málanna við endurreisn íslensks efnahagslífs. Þó minnist ég þess að fyrrverandi formaður þess flokks lagði fram tillögu til þingsályktunar „um seinkun klukkunnar og bjartari morgna“.

Tvö veigamikil atriði urðu til þess að hlutir fóru að ganga betur á Íslandi eftir að kjörtímabili fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar lauk, bæði mál sem Framsóknarflokkurinn setti á oddinn fyrir kosningarnar 2013. Hið fyrra var hin almenna aðgerð til að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán sem bætti eiginfjárstöðu margra heimila stórkostlega. Er nú svo komið að skuldsetning íslenskra heimila er með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndum — en var áður hæst allra. Hitt er losun hafta sem virðist ætla að takast eins vel og björtustu vonir stóðu til. Þessi tvö risastóru mál lögðu m.a. grunninn að aukinni hagsæld á Íslandi. Það er ágætt fyrir nýja ríkisstjórn að hafa það í huga. Sérstaklega ættu þeir að hugsa sinn gang sem töldu Íslandi best borgið með því að greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum, Icesave, og með því að ganga í Evrópusambandið, hið brennandi hús eins og jafnaðarmaðurinn Jón Baldvin Hannibalsson orðaði það víst. Það er munur á þeim sem vildu rétta íslenskum heimilum hjálparhönd með leiðréttingunni og sækja fé sérstaklega til þess og hinum sem endilega vildu að ríkissjóður greiddi tugmilljarða til að þóknast útlendum kröfuhöfum. Það má eiginlega teljast með nokkrum ólíkindum að slíkir höfðingjar skuli nú stjórna landinu. En vonandi hafa þeir lært af sinni villu.

En hvað um það, nú er daginn farið að lengja og því verða morgnarnir bjartari þó að ekki hafi verið hróflað við klukkunni. Og það mun birta til í ýmsum skilningi ef rétt verður á málum haldið. Í þeim efnum er ekki nóg að fara með hendingar úr skrifum genginna snillinga þó að þeir séu úr Grímsnesinu. Það þarf meira að koma til.

Hæstv. forsætisráðherra varð hér áðan tíðrætt um jafnvægi. Jafnvægi væri annað leiðarstef nýrrar ríkisstjórnar. Samkvæmt ræðu hæstv. forsætisráðherra er mikilvægt að það þurfi að vera jafnvægi í þjóðfélagsgerðinni. Það er rétt hjá honum, ég er sammála því mati. Í kafla í ræðu hans má lesa eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram þau hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif.“

Það var og. Það sem hæstv. forsætisráðherra á líklega við hér er að það sé tilfinning margra að tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé ekki eins gott og það gæti verið. Það kemur á óvart að forsætisráðherra skuli líta svo á að skortur á aðgengi að heilbrigðisþjónustu skuli byggjast á hughrifum. Ég held að það sé lítil stemning fyrir svona ályktunum, ekki síst hjá því ágæta fólki sem býr úti á landi og hefur ekki eins góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og þó þeir hafa sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þegar forsætisráðherra ræðir um jafnvægi væri gott að hafa í huga jafnvægi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. En ég vil líka taka fram að ég tel enga sérstaka ástæðu til að ætla að það sé honum hulið, þvert á móti.

Virðulegi forseti. Stuðningur við ríkisstjórnina meðal landsmanna hefur nú verið mældur og er fjórðungur ánægður með hana. Þeir sem eru mjög ánægðir eru innan við 10%. Það sem vekur nokkra athygli þegar rýnt er í niðurstöðu Maskínu, sem gerði könnunina, er að ríkisstjórnin nýtur mikillar hylli hjá þeim sem háar tekjur hafa. Þar er hlutfall ánægðra um þriðjungur. Og enn hækkar hlutfall ánægðra þegar hópurinn sem telur sig hafa hærri tekjur en meðaltekjur heimila í landinu er veginn. Þar er ánægjan um 40%. Þetta er í sjálfu sér ekkert vandamál en segir okkur kannski eitthvað um þá skírskotun sem hin nýja stjórn hefur. Og af því að forsætisráðherra var að tala um jafnvægi í ræðu sinni vil ég hvetja hann og ríkisstjórn hans til að huga sérstaklega að þessu.

Það var ekki augljóst eftir kosningar hvernig ríkisstjórn yrði mynduð, svokallað flækjustig var hátt, aðallega vegna þess að ýmsir höfðu verið með ótímabærar og stórkarlalegar yfirlýsingar fyrir kosningar og jafnvel eftir. Ég vil þó segja hér að ég tel, og er þess raunar fullviss, að aðrir möguleikar hafi verið uppi á borðum. Hægt hefði verið að mynda annars konar stjórn sem hefði mun breiðari pólitíska skírskotun en sú hægri stjórn sem var mynduð undir stjórn og forystu þeirra Engeyjarfrænda. Forsætisráðherra er mætavel kunnugt um það. En sá á kvölina sem á völina og 25% ánægja er niðurstaðan með það val. En það sem er liðið er liðið. Framtíðin er það sem mestu máli skiptir. Nú er bara að vona að þær traustu undirstöður sem lagðar voru fyrir efnahagslegar framfarir og hagsæld á tíma síðustu ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins haldi.

Ágætu landsmenn. Svo sem fram hefur komið er nauðsynlegt að ráðast í uppbyggingu innviða, t.d. í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, samgöngum og ferðaþjónustu svo nokkuð af því helsta sé upp talið. Við þurfum að byggja upp innviði í öruggum skrefum eftir því sem er fjárhagslega skynsamlegt. Verkefni okkar er að auka fé til innviðauppbyggingarinnar samhliða því að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem nú þegar fara til þessara málaflokka.

Mér fannst ýmislegt vanta í stefnuræðu forsætisráðherra og saknaði þess raunar líka í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Mér fannst vanta framsýni í atvinnumálum, m.a. um hvernig hægt er að byggja upp öflugt atvinnulíf hringinn í kringum landið, t.d. á grunni menntunar, nýsköpunar, lífhagkerfisins þar sem eru óendanlegir sóknarmöguleikar.

Vinna, vöxtur og velferð, manngildi ofar auðgildi eru einkunnarorð okkar Framsóknarmanna. Til þess að búa til góða velferð verður að vera traust atvinna hringinn í kringum landið, fyrir alla landsmenn. Það er ekki ástæða til að örvænta um framtíð Íslands. Nú sem fyrr höfum við úr miklu að spila og enginn á að þurfa að líða skort. Við munum væntanlega fá meira af því sama á næstu árum. Verðbólga verður lág, hagvöxtur mun halda áfram, kaupmáttur launa mun vonandi styrkjast enn frekar. En það mun koma að því að um hægist. Því er mikilvægt að tryggja hagsmuni okkar sem þjóðar til framtíðar. Það verður best gert í sátt. Fólk má ekki fá þá tilfinningu að sumir séu jafnari en aðrir, vegna ákvarðana sem teknar eru á vettvangi stjórnvalda. Stjórnmálamenn eiga að vera þjónar fólksins, ekki herrar. — Góðar stundir.



[20:31]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæra Alþingi. Góðir Íslendingar. Það er alltaf sérstök tilfinning að standa hér í ræðustól á hinu háa Alþingi og það á alveg sérstaklega við þegar þing er sett, stefnuræða hæstv. forsætisráðherra er rædd og ný ríkisstjórn tekur til starfa. Það skal alveg viðurkennast að þessi tilfinning er enn sterkari núna þegar sá sem hér stendur og minn flokkur, Björt framtíð, er þátttakandi í ríkisstjórn í fyrsta skipti. Björt framtíð á hlut að máli í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og stjórnarsáttmálanum sem liggur að baki ræðu hæstv. forsætisráðherra. Ekki er laust við að því fylgi stolt en líka aukaskammtur af auðmýkt að standa í þessum sporum hér í kvöld. Það hefur oft áður gustað um íslensk stjórnvöld, en það er óhætt að segja að síðustu mánuðir, já, eiginlega allt síðasta ár, hafi boðið upp á óvæntari og óvenjulegri vendingar en meira að segja við Íslendingar eigum að venjast. Það er harla óvenjulegt að við séum að ræða stefnuræðu forsætisráðherra núna, tæpum þremur mánuðum eftir kosningar, hvað þá eftir að þing er búið að koma saman og starfa vikum saman án formlegs meiri hluta og afgreiða fjárlög ársins hvorki meira né minna.

Eftir upplausn vorsins í fyrra, ákvörðunina um að flýta kosningum og haustkosningar í lok október, upphófst tímabil óvissu með endalausum stjórnarmyndunarviðræðum í allar áttir. Úrslit kosninganna settu tóninn þar sem niðurstöður kosninganna voru mjög óljósar. Enginn skýr meiri hluti lá fyrir. Það var á ábyrgð okkar þingmannanna og þingflokka að ná saman um starfhæfa ríkisstjórn. Eftir langa meðgöngu er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tekin til starfa.

Ég er þess alveg fullviss að þetta verður góð ríkisstjórn. Til hennar er ekki stofnað í flýti eða með flumbrugangi. Ég er stoltur af stjórnarsáttmálanum sem endurhljómar í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra. Þessi ríkisstjórn er stofnuð um frjálslynd og framfarasinnuð gildi. Við leggjum áherslu á fjölbreytni og jafnvægi, á mannréttindi og framtíðina. Í hverjum málaflokknum á fætur öðrum er horft til þess að allir landsmenn eigi aðgengi að þjónustu og réttindum óháð uppruna, búsetu eða efnahag. Aðgengi að samfélaginu er lykilstef. Í stjórnarsáttmálanum er skýr áhersla á langtímahugsun, stöðugleika og sjálfbærni. Þetta þykja mér göfug gildi og mjög mikilvæg.

Í mínum huga er það ein af grunnskyldum okkar sem störfum í stjórnmálum að taka ábyrgð og fara vel með það vald sem við erum kosin til að fara með. Það er ekki sama hvernig það er gert. Björt framtíð er stofnuð utan um hugmyndina um að bæta vinnubrögðin, að bæta samvinnu og að nálgast stjórnmálavafstrið sem þjónustustarf. Við tökum þetta mjög alvarlega og tökum þátt í myndun ríkisstjórnarinnar með það að leiðarljósi. Þessi hugsun speglast vel í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Við ætlum að vinna vel og gera betur.

Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að staðfesta siðareglur ráðherra. Til stendur að opna bókhald Stjórnarráðsins. Þetta er raunveruleg ætlun okkar. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samstiga um að gera betur. Okkur er alvara og áherslan á bætt vinnubrögð er svo langt frá því að vera orðin tóm.

Það væri að æra óstöðugan að endurtaka áherslur ríkisstjórnarinnar úr stjórnarsáttmálanum enda hefur hæstv. forsætisráðherra nú þegar gert það ágætlega í sinni ræðu. Ég hvet alla til að kynna sér sáttmálann og hvet til þess að okkur verði haldið við efnið næstu árin. Ekki veitir af. Og þetta er samvinnuverkefni.

Björt framtíð ákvað að leggja áherslu á heilbrigðis- og umhverfismálin í stjórnarsamstarfinu. Ég treysti því að hæstv. umhverfisráðherra fari yfir sinn mikilvæga málaflokk hér á eftir. En ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á þann málaflokk sem heyrir undir mig sem heilbrigðisráðherra. Eitt meginstefið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er samhæfð, örugg og aðgengileg heilbrigðisþjónusta. Þrátt fyrir að heilbrigðisþjónustan á Íslandi sé að mörgu leyti mjög góð þá þarf að samhæfa hana enn betur og líta á alla þætti hennar sem hluta af sömu heild. Áform nýrrar ríkisstjórnar miða að því að tengja betur þjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa, heimaþjónustu og hjúkrunarheimila. Með því að styrkja heilsugæsluna, heimaþjónustu og hjúkrunarheimili, svokallaða grunnþjónustu, verður dregið úr þörf fólks til að sækja dýrari og flóknari þjónustu.

Ein mikilvæg leið til að auka aðgengi fólks að góðri þjónustu er aðgengi að ýmsum fagstéttum í framlínu heilsugæslunnar. Einkum má nefna sálfræðinga og sjúkraþjálfara. Betra aðgengi að sálfræðingum er liður í áherslum ríkisstjórnarinnar um bætta geðheilbrigðisþjónustu, ekki síst stuðning við börn og foreldra.

Íslenskur almenningur hefur margoft sýnt að uppbygging heilbrigðiskerfisins er forgangsmál. Ríkisstjórnin tekur undir þetta og setur málaflokkinn í sérstaka áherslu. Það eru forréttindi fyrir mig að fá að fara fyrir þessum mikilvægu málum á næstunni í samvinnu við allt það frábæra fólk sem starfar í geiranum.

Það er óhætt að segja að íslensk stjórnmál hafi sveiflast og þvælst í eins konar rússibanareið óvenjuleika undanfarið. Staðan er óvenjuleg og hún er ný. Öll þurfum við að tileinka okkur nýja siði. Við þurfum að þróa áfram samvinnu þvert á flokka, þvert á meiri hluta og minni hluta, og auka samráð um allt í samfélaginu. Við verðum að leggja áherslu á vönduð vinnubrögð, gagnsæi og heiðarleika. Það er hvorki lúxus né hjóm, þvert á móti er það algjör nauðsyn bæði fyrir okkur í ríkisstjórn og aðra flokka á Alþingi.

Það er engin ástæða til þess að óttast þetta. Við kunnum þetta allt. Ef það er eitthvað sem sá sem hér stendur hefur lært í endalausum stjórnmálaumræðum og stjórnarmyndunarumræðum upp á dag síðustu mánuðina þá er það að þessar breytingar til batnaðar eru til umræðu í öllum flokkum. Við erum öll að velta þessu fyrir okkur og ég vil meina að kjósendur hafi sent okkur skýr skilaboð um að gera betur með því að neyða okkur upp úr hjólförum vanans með óljósum niðurstöðum kosninga sem neyddu okkur til að fara út fyrir boxið. Mikið var það fallega gert af kjósendum og ég þakka fyrir þótt það hafi kostað og eigi eftir að kosta okkur stjórnmálamenn alls konar vesen og óþægindi og uppbrot á venjum og hefðum. Það er hollt og það er gott fyrir framtíðina. Hún er áfangastaðurinn og hana verðum við að einblína. Verum óhrædd að breyta. Vinnum saman. Gerum vel og verum góð. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða ferð.



[20:39]
Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Það er sjálfsögð kurteisi að óska nýskipaðri ríkisstjórn velfarnaðar í starfi og vona að störf hennar verði þjóðinni til heilla.

En þegar það hefur verið sagt, þá er líka rétt að halda því til haga að hverjum og einum er í sjálfsvald sett hvernig hann efnir gefin loforð. Sama á við um flokka. Ef við berum saman kosningaloforð stjórnarflokkanna og stjórnarsáttmálann birtist nefnilega merkilegt ósamræmi. Stórfelld uppbygging heilbrigðis- og menntakerfis, viðamiklar kerfisbreytingar, þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-viðræður, breytingar á stjórnarskrá — þetta eru allt mál sem virðast hafa fundið sér nýjan og óvæntan farveg í stjórnarsamstarfinu. Flokkarnir lofuðu þessu fyrir kosningar en slík fyrirheit er ekki að finna ekki í sáttmálanum.

Við þekkjum nýleg dæmi úr matvælaframleiðslu þar sem kjötlokur voru án kjöts og brúnegg, með vistvænum stimpli, voru lítið annað en útlit. Þetta kölluðu menn vörusvik og vörunum var skilað. Því miður er ekki hægt að skila atkvæði jafnvel þótt leiddur hafi verið til valda í forsætisráðherrastólinn maður sem sat á mikilvægri skýrslu um gríðarleg undanskot Íslendinga til aflandseyja og annarri sem sýnir að ríkisstjórn sem hann sat í á síðasta kjörtímabili mokaði peningum í ríkasta hluta landsins í nafni leiðréttingar en skildi ungt og efnaminna fólk eftir.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um sterka stöðu efnahagslífsins og uppgang ríkisins. Vissulega hefur ýmislegt lagst með okkur. En málin vandast þegar talað er eins og þjóðin sé ein manneskja. Stundum henda atburðir sem láta okkur hrökkva við. Við áttum okkur á því að hér búa 340 þús. Íslendingar og þar skiptir hvert og eitt okkar máli. Allar landsins vísitölur og meðaltöl segja nefnilega aðeins litla sögu. Á bak við allar þessar tölur er fólk af holdi og blóði og fólk sem býr við allt of ólík kjör. Á Íslandi búa t.d. yfir 6 þús. börn við fátækt, kjör öryrkja eru óviðunandi og aldraðir verða margir að neita sér um læknisþjónustu sökum fjárskorts. Opinber þjónusta hefur einfaldlega laskast.

Við slíkar aðstæður verður að leggja áherslu á að jafna byrðar fólks. Þyngri á þá sem eru aflögufærir en hlífa þeim sem standa höllum fæti og venjulegu launafólki. Engin slík áform eru uppi, því miður, þvert á móti. Uppbyggingu innviða á svo að greiða með óljósum væntingum um bólgnara efnahagskerfi.

Þetta mun veikja hið norræna velferðarmódel, ójöfnuður mun aukast og arðurinn færast á æ færri hendur. Og það munu völdin þá gera líka. Við sjáum nú þegar að auðugustu einstaklingar landsins hreiðra um sig samtímis í sjávarútvegsfyrirtækjum, tryggingafyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum, dagblöðum og nú síðast á óþroskuðum og viðkvæmum leigumarkaði.

Ísland er ríkt land og hér eru aðstæður til að skapa eitt samfélag fyrir alla. Það nægir ekki að ríða net sem grípur þá sem falla milli skips og bryggju, við verðum byggja samfélag sem aðstoðar fólk til sjálfsbjargar og gerir því kleift að byggja á styrkleikum sínum, samfélag þar sem allir fá tækifæri og verkefni við hæfi. Þetta er ekki einungis réttlætismál, heldur er samfélag jöfnuðar langlíklegast til að vera friðvænlegt, litríkt og samkeppnishæft.

Kæru landsmenn. Nú þurfum við að horfa til langrar framtíðar og huga að málefnum almenns launafólks, ekki síst ungu fólki. Ungt fólk er okkar dýrmætasta auðlind. Í dag getur það valið sér allan heiminn að vettvangi og það er síður en svo sjálfgefið að Ísland verði fyrir valinu. Það þarf örugga vinnu, góða opinbera þjónustu, fjölbreytta afþreyingu en það þarf líka að búa einhvers staðar. Þetta fólk mun bera uppi samneyslu framtíðarinnar og það er hörmulegt hvernig við ætlum að nesta það út í þetta ferðalag.

Það er ótrúlegt að hvorki í stjórnarsáttmálanum né í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra skuli húsnæðismál gerð að forgangsatriði. Uppbygging langtímaleigumarkaðar sem ekki byggir á gróðasjónarmiðum fyrirtækja er forgangsmál. Það verður að grípa strax til aðgerða og koma í veg fyrir að ungar fjölskyldur lendi á vergangi vegna rándýrs og ótryggs leigumarkaðar.

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Atvinnulífið er að taka stakkaskiptum. Tæknibyltingin mun hafa meiri áhrif á líf okkar en flesta grunar. Mörg almenn störf munu heyra sögunni til og verða framkvæmd af tölvum eða vélum. Smjörþefinn finnum við þegar við innritum okkur í flug, greiðum fyrir vörur í IKEA eða notum heimabankaþjónustu. Það er mikilvægt að gæta þess að ágóði af þessari hagræðingu renni einnig til samfélagsins en ekki bara í hendur fyrirtækjaeigenda, sem myndi ýta undir enn ójafnari skiptingu eigna og fjármagns. Allar rannsóknir sýna að þau störf sem þó verða áfram unnin af mönnum munu krefjast sérhæfingar og menntunar. Það er því nauðsynlegt fyrir velgengni okkar og hamingju að hér verði áfram mikil atvinnuþátttaka og því væri það mikil skammsýni ef við tækjum þessa hluti ekki alvarlega.

Vanfjármagnað menntakerfi er ekki leiðin til þess. Við þurfum að aðlaga skólastarfið að þessari nýju framtíð. Í henni verður menntun hluti af tilveru einstaklingsins alla ævi, með einhverjum hætti. Þeir dagar eru liðnir að ungur einstaklingur komi út á vinnumarkaðinn með prófskírteini í hönd og öruggan lykil að framtíðinni. Atvinnulífið mun í auknum mæli kalla eftir skapandi og hugmyndaríkum einstaklingum, með frumkvæði og þá eiginleika verðum við að byrja að styrkja strax í grunnskóla. Þetta mun vissulega kosta mikið af peningum en við höfum ekki efni á að spara í þessu.

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Lítil þjóð hefur ekki efni á því að standa í ára- og áratugalöngum innbyrðis deilum. Skipting arðs af náttúruauðlindum er dæmi um mál sem verður að nást sátt um og ekki síður ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindunum. Annað og einfaldara mál, sem er furðulegt að ekki hafi náðst að leiða til lykta, er staðsetning flugvallar í Reykjavík. Á sama tíma og við landsbyggðarfólk eigum réttmæta kröfu um gott aðgengi að stjórnsýslu, heilbrigðis- og menntakerfi og menningu höfuðborgarinnar, verðum við líka að virða og skilja sjónarmið Reykvíkinga. Umræðan um þétta og skilvirka byggð er ekki einungis spurning um öryggis- og heilbrigðismál, heldur líka umhverfismál. Með skynsamlegri uppbyggingu þéttbýlis eigum við einna mest að sækja í loftslagsmálum og loftslagsmál eru einhver mikilvægustu mál samtímans.

Höfuðborgin þarf á sterkri landsbyggð að halda en landsbyggðin þarf líka á kraftmikilli höfuðborg að halda. Mannkyn sem hefur náð að koma sér til tunglsins hlýtur að geta leyst einfalt, tæknilegt úrlausnarefni af þessum toga þannig að allra sjónarmiða sé gætt. Sérstaklega þegar lausn í því máli getur beinlínis falið í sér ávinning fyrir alla ef við höldum rétt á spöðunum. Þingið getur heldur ekki legið endalaust í skotgröfunum. Í grundvallaratriðum erum við mjög ósammála um margt og við skulum endilega takast á um það. En sé hins vegar horft til úrslita kosninganna ætti þingið þó að geta náð breiðri sátt í mikilvægum málum. Ég nefni umhverfis- og loftslagsmál, stjórnarskrármálið, málefni flóttamanna og sjávarútvegsmál.

Við Íslendingar, kæru landsmenn, getum vel búið við sömu kjör og aðstæður og frændur okkar á Norðurlöndunum. Í samstarfi við systurflokka okkar og verkalýðshreyfinguna höfum við greint hvað það er sem einkennir norræna velferðarmódelið og hvernig við getum styrkt það á nýrri öld. Við þurfum að huga að þremur grunnstoðum: Velferðinni, þar sem hið opinbera tryggir jöfn tækifæri allra, skipulögðum vinnumarkaði, þar sem launafólk, atvinnurekendur og hið opinbera eru sameiginlegir aðilar að kjarasamningum, og ábyrgri efnahagsstjórn.

Því miður hafa stjórnvöld á liðnum árum glatað tækifærum til þess að koma á friði á vinnumarkaði með því að reka hér hægri sinnaða skatta- og velferðarpólitík. Allt bendir til þess að ný ríkisstjórn muni feta sömu slóð. Áfram verði sem sagt vegið að velferðinni.

Ríkisstjórnin gefur ekki skýr fyrirheit um hvernig á að takast á við vanda þúsunda barna sem búa við skort, húsnæðisvanda ungs fólks eða aukna misskiptingu í samfélaginu. Við þetta verður ekki unað.

Kæru landsmenn. Íslenskir jafnaðarmenn hafa unnið stóra áfangasigra. Lög um verkamannabústaði, almannatryggingar, jöfn laun karla og kvenna og Lánasjóður íslenskra námsmanna eru dæmi um réttarbætur þar sem þeir lögðu styrkasta hönd á plóginn. Þá er ótalið framlag okkar í þágu viðskiptafrelsis og opnari samskipta við önnur ríki.

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Þótt við jafnaðarmenn séum tímabundið agnarlítill þingflokkur munum við berjast áfram fyrir hugsjónum okkar: Fyrir almannahagsmunum, gegn sérhagsmunum, og af alefli gegn því að lýðræðið láti í minni pokann fyrir auðræði.



[20:49]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Framsýnn maður er í eðli sínu yfirleitt bjartsýnn maður. Hann kvíðir ekki framtíðinni heldur lítur á hana sem tækifæri til að gera betur, komast lengra. Ég lít björtum augum á framtíð okkar Íslendinga. Verkefni verða leyst og vinnubrögð verða vandaðri.

Það er skylda stjórnmálamanna að stýra okkar góða samfélagi til enn betri vegar með langtímahugsun að leiðarljósi. Þess vegna er við hæfi að framsýni skuli vera annað af tveimur helstu leiðarstefum í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Við ætlum að nýta tækifærin og takast á við áskoranir. Undanfarin ár hefur margt verið mjög vel gert. Hvað sem líður dægurþrasi stjórnmálamanna þá er staðreyndin sú að staða Íslands er öfundsverð. Grundvöllurinn að þessu öllu er dugnaður þjóðarinnar, þor atvinnulífsins til að nýta tækifæri og kjarkur stjórnvalda til að takast á við fordæmalaus vandamál.

Allar framfarir byrja sem hugmynd, fræ. Við réttar aðstæður geta slíkar hugmyndir aukið verðmætasköpun og jafnvel breytt lífi okkar. Við erum lánsöm að búa í landi sem er fullt af tækifærum og þar sem möguleikar fólks til að grípa þessi tækifæri eru jafnari en víðast hvar annars staðar. Það að láta hugmynd verða að veruleika er sjaldnast fjarlægur draumur heldur í flestum tilfellum innan seilingar.

Þegar við heyrum um stórkostlegar uppgötvanir og framfarir hættir okkur til að einblína á nánast ofurmannlega snilligáfu tiltekinna einstaklinga en vanmeta jarðveginn sem þeir spruttu upp úr, tækifærin sem þeir fengu, menntunina sem þeir nutu og aðstæðurnar sem þeir bjuggu við. Það sem ráða mun úrslitum um hvernig okkur farnast í framtíðinni er hversu vel okkur tekst að tryggja umhverfi sem stuðlar að því að hæfileikar allra fái að njóta sín. Ef við vinnum að því að tryggja að allir hafi tækifæri til að þroska hæfileika sína til fulls mun það hætta að koma okkur á óvart að svo fámenn þjóð eigi afreksfólk í íþróttum, framúrskarandi vísindamenn, farsæla listamenn, nú eða landslið kvenna og karla á stórmótum. Þannig samfélag er eftirsóknarvert og heilbrigt.

Það að gefa öllum tækifæri og skapa rétta umgjörð felur jafnframt í sér virðingu fyrir því að áhugi fólks liggur á mismunandi sviðum. Allt of fáir sækja iðn- og tæknimenntun hér á landi. Við því verður að bregðast. Iðnmenntun er þýðingarmikil fyrir okkar samfélag og skilar okkur meira skapandi samfélagi. Iðnmenntun kemur fólki jafnframt að í krefjandi og spennandi störf.

Hér eftir sem hingað til liggja dýrmætustu tækifærin í hugviti og nýsköpun í víðustu merkingu þeirra orða. Það á við á öllum sviðum, í öllum geirum, ekki bara hjá einkaaðilum heldur einnig í margvíslegri þjónustu sem hið opinbera veitir, ýmiss konar velferðarþjónustu, menntun og víðar. Sjávarútvegurinn hefur sýnt okkur hvernig hugvit og nýsköpun hafa stuðlað að því að til eru íslensk fyrirtæki sem nýta í dag yfir 95% af hverjum þorski en við nýttum áður innan við helming. Ekki leikur vafi á að hliðstæð tækifæri liggja víða.

Annar frumatvinnuvegur okkar, orku- og stóriðjugeirinn, býður einnig upp á sóknarfæri og þau eru miklu fjölbreyttari en nýjar virkjanir og verksmiðjur þótt umræðan vilji gjarnan festast þar. Fyrirtækin í þessum geira kaupa vörur og þjónustu af hundruðum íslenskra fyrirtækja fyrir tugi milljarða á ári, vélar og búnað sem íslensk fyrirtæki hafa þróað og hannað frá grunni og selja nú jafnvel til iðjuvera um allan heim. Þessi þáttur er oft vanmetinn þegar fjallað er um efnahagslegt mikilvægi stóriðju og líklegt er að þarna megi sækja auknar tekjur með hugvitið að vopni hringinn í kringum landið.

Góðir landsmenn. Ekki þarf að fjölyrða um gífurlegan vöxt ferðaþjónustunnar. Skynsamleg innviðauppbygging, umhverfisvernd og öryggismál ferðamanna eru aðkallandi. Tækifærin í ferðaþjónustu eru fleiri og fjölbreyttari en að fjölga fólki. Aukin gæði, aukin hæfni, aukin arðsemi, þetta eru allt mikilvæg markmið. Hafin er vinna við að þróa nám fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu sem auka mun gæði, verðmætasköpun og arðsemi í greininni þar sem byggt verður m.a. á reynslu frá Skotlandi og Kanada.

Tækifærin í ferðaþjónustu eru ekki síst úti á landsbyggðinni og miklu skiptir að nýta þau vel. Flest viljum við öfluga og blómlega byggð um landið. Hún er hluti af sjálfsmynd okkar sem þjóð og við þurfum á henni að halda, rétt eins og landsbyggðin þarf á höfuðborginni að halda. Við sjáum víða á landsbyggðinni hvernig ferðamenn hafa skapað forsendur fyrir fjölbreyttari þjónustu, söfnum, verslunum og veitingastöðum, að ógleymdum margvíslegum list- og menningarviðburðum. Allt gerir þetta landið okkar sterkara og betra og áhugaverðara. Athugum að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sem blómstrað hafa um land allt undanfarin ár hafa verið og eru í nýsköpun.

Við höfum séð frumkvöðla ná árangri á sífellt fleiri sviðum á undanförnum árum. Tryggja verður að jarðvegurinn fyrir sköpunargleði þeirra og framtak verði áfram fyrir hendi. Kosturinn við hugvitið er að öfugt við flestar aðrar auðlindir þekkir það engin takmörk, svo lengi sem við gætum okkar á því að takmarka það ekki sjálf með því að draga úr möguleikum fólks til að nýta það. — Góðar stundir.



[20:55]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Á mínum stutta þingmannsferli hef ég heyrt úr ræðustól staðhæfingar eins og þær að ekki sé hægt að eyða sömu krónunni tvisvar, að menn geti ekki fengið allar sínar kröfur uppfylltar og nú síðast að framtíðin sé okkur hulin. Hvað annað? Við sem erum eldri en tvævetur, bæði þingmenn og kjósendur, hljótum að óska eftir bitastæðari orðum en þeim sem hæfa tilteknu skólastigi en varla Alþingi. Við viljum sjá og heyra umræður um raunveruleg vandamál, öruggar framfarir, ólíka hugmyndafræði og síðast en ekki síst stefnuræðu sem stendur undir heiti, fjallar um markmið og leiðir í stað útlistunar á almennum hugtökum eins og stöðugleika, jafnvægi og framsýni, með eða án ljóðatilvitnana.

Ekki lasta ég það sem stefnt er að á vegum nýrrar ríkisstjórnar, svo sem að auka nýsköpun, fé til heilsugæslu eða annað sem gæti horft til aukinnar samneyslu, jöfnuðar og bættrar afkomu tugþúsunda. Við erum þó mörg sem sjáum fá ljós í því sem hæstv. forsætisráðherra nefnir stefnu sína og fjórðungsstjórnarinnar af því að ræða hans fjallar fyrst og fremst um markmið en ekki leiðir, um gildi en ekki lausnir. Þar með erum við litlu nær um hvað bíður landsmanna næstu fjögur árin — og þó: Innviðauppbygging sem greiða á fyrir með aukinni verðmætasköpun og hagvexti. Hvort tveggja er óútfylltur víxill. Hvort tveggja byggir á kökukenningunni: Vinnandi fólk fær ekki stærri hlut í kökunni nema hún stækki fyrir þess atbeina. Þetta svarar ekki ákalli tugþúsundanna um betri heilbrigðisþjónustu, samgöngur, menntakerfi og almannatryggingar. Þarna fer einfaldlega úthugsuð hagfræði auðhyggjunnar. Með henni má vernda hag 10% þjóðarinnar sem eiga 60% eigna eða þess 1% sem tekur við 44% allra fjármagnstekna. Það er til mikið fjármagn, handan allra hagsveiflna, sem taka má af til samneyslunnar án þess að samfélagið brotni. Í því er fólgin úthugsuð félagshyggja, við getum sem sagt valið á milli hægri og vinstri og má vera að óánægja með nýja ríkisstjórn í skoðanakönnun endurspegli þrotna þolinmæði gagnvart tregðu við að lagfæra skemmda innviði og styrkja landsbyggðina þegar næg efni eru til þess.

Hæstv. forsætisráðherra ber fyrir sig gagnrýni fjölda hagfræðinga á aukin útgjöld ríkisins þegar hagvöxtur er mikill. Sem jarðvísindamaður get ég fullyrt að álíka margir hagfræðingar, hvað þá jarðfræðingar, eru á öndverðri skoðun. Aftur má velja á milli hægri og vinstri en það er stakur óþarfi að leyna því að hagvísindi eru pólitísk og umdeilanleg, þau eru fjarri því að líkjast náttúrulögmálum. Vernd hinna efnamiklu er aðeins einn flokkur hagfræði sem hæstv. ráðherra velur sér og sínum.

Landsmenn góðir. Til þess að marka stefnumið og leiðir þarf raunhæfa greiningu á samfélagsstöðunni. Skammt dugar að telja að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu hafi kallað fram neikvæð hughrif hjá almenningi, eins og heyrðist hér í upphafi. Almenningur finnur glöggt á huga og líkama hvað er að: Í heilbrigðiskerfinu er raunveruleikinn dökkur og í andstöðu við nýja stjórn er greining almennings réttust: Kerfið í heild er við þolmörk og þjónustustig er víðast hvar ekki sæmandi. Ef greiningar tíu ráðherra eru með sama sniði og hjá forsætisráðherra er vonlítið að úrlausnir verði teknar í sátt.

Tvennt undir lokin, herra forseti. Við höfum aðeins 13 ár til að standa við Parísarsamkomulagið. Eftir er að útskýra hvað gera skal annað en að búa til græna hvata, rækta skóg, auka landgræðslu og hafa orkuskipti í samgöngum eins og fram kom áðan. Verkefnin eru margfalt fleiri, þau kosta milljarða og þarfnast mikillar samvinnu en einnig vandaðra markmiða í öllum geirum umhverfismála. Þarna fer mikilvægasta mál jarðarbúa til langs tíma litið og um það hefði hæstv. Bjarni Benediktsson átt að fjölyrða. Í öðru lagi sneiðir ráðherrann og fjórðungsstjórn hans fram hjá flestöllu sem horft getur til stjórnunar á viðbrögðum í greininni, þ.e. þeirri hröðu fjölgun ferðamanna og frumskógarlögmálum sem þar ríkja enn um of, þrátt fyrir framfarir. Þolmörk staða, svæða og landsins alls ef sjálfbærni, náttúruleg, félagsleg og hagræn, á að ríkja — sem hún ekki gerir — kalla á umræðu og ákvarðanir sem virðast rýrar í stjórnarsáttmálanum. Auðlindastjórnun nær auðvitað til stærsta atvinnuvegarins.

Að lokum: 100 ára fullveldi örþjóðar í stóru en gjöfulu landi er merkileg tilraun og afrek að mörgu leyti. Á sömu öld jókst jöfnuður, fyrst og fremst vegna baráttu launamanna, lengi framan af. En í þrjá til fjóra áratugi hefur ójöfnuður aukist og velferðin trosnað um of, slík sýn er gjörólík sýn hæstv. forsætisráðherra og þeirra flokka sem mynda ríkisstjórnina. Það er kjarni máls. Um hann og leiðir til annars konar samfélags en þeirra mun samtal okkar hér á þingi snúast af heilum hug, átök jafnt sem samvinna og það á líka við um þjóðfélagið allt. — Ég þakka áheyrnina.



[21:01]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Beint lýðræði og sjálfsákvörðunarréttur. Gagnrýnin hugsun og upplýst stefna. Borgararéttindi. Friðhelgi einkalífs. Gagnsæi og ábyrgð. Upplýsinga- og tjáningarfrelsi.

Þetta er grunnstefna Pírata í hnotskurn, leið okkar að betra samfélagi til framtíðar, þar sem fólk er sett í forgang og þeir valdaminni eru verndaðir gegn misbeitingu hinna valdameiri.

Á undanförnum árum hefur margt gerst sem varðar stefnu Pírata. Loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB var svikið. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá var grafin í nefnd. Ráðherrar leyndu almenning upplýsingum og lugu að þjóð og þingi. Heilbrigðiskerfi og menntakerfi sveltur þrátt fyrir að almenningur vilji forgangsraða þar umfram aðra þjónustu hins opinbera.

Á þessu kjörtímabili eru Píratar utan ríkisstjórnar og munu sinna því hlutverki af sanngirni og ákveðni. Afstaða Pírata er óháð því hverjir talsmenn þeirra eru. Píratar eru málefnalegir og vinna samkvæmt því. Í stefnuyfirlýsingu og þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er að finna nokkur mál sem Píratar gætu stutt væru þau vel útfærð. Við þorum hins vegar að gagnrýna eins harðlega og þarf til þess að vernda hag þeirra sem við vinnum fyrir, vernda hag fólksins í landinu.

Sem dæmi um slíka gagnrýni má nefna að í stefnuræðu forsætisráðherra er fullyrt að fjárlög ársins 2017 hafi verið samþykkt í góðri sátt á Alþingi. Það eru í besta falli hughrif forsætisráðherra. Píratar upplifðu enga slíka sátt. Píratar þurftu að berjast fyrir því að ekki yrði niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Píratar þurftu að berjast. Fjárlögum var bjargað með samningi um aukin framlög til heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, samgöngumála og löggæslu. Það var engin sátt, það var samningur þar sem enginn var sérstaklega ánægður með niðurstöðuna. Píratar frábiðja sér svona eftirásöguskýringar og krefjast heiðarlegri vinnubragða.

Góðir landsmenn. Framtíðarsýn Pírata um réttlátt og sanngjarnt samfélag byrjar hér. Stefna Pírata er skýr. Í síðustu kosningum lögðum við áherslu á að endurreisa heilbrigðiskerfið, endurvekja traust og tækla spillingu, tryggja réttláta dreifingu auðs af sameiginlegum auðlindum, auka aðkomu fólks að ákvarðanatöku og að uppfæra samfélagssáttmálann okkar. Píratar eru með lausnir í heilbrigðismálum, umhverfismálum, húsnæðismálum, menntamálum, málefnum aldraðra, málefnum öryrkja og auðlindamálum, lausnir sem henta fólki. Lausnir sem við búum til saman og tökum ábyrgð á saman. Píratar vilja að eignarhald fyrirtækja sé gagnsætt og aðgengilegt af því að hagsmunatengsl og skattundanskot eru vandamál.

Píratar vilja sanngjarnt kosningakerfi. Lýðræðið er bara jafn gott og kosningakerfið leyfir. Við hefjum þetta kjörtímabil með ríkisstjórn sem skortir lýðræðislegt umboð. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samtals með minni hluta atkvæða á bak við sig, færri atkvæði en stjórnarandstöðuflokkarnir til samans. Stjórnarandstaðan er með stuðning fleiri kjósenda en ríkisstjórnin, samt er ríkisstjórnin með meiri hluta þingsæta. Ríkisstjórnin er með lagalegt umboð, ekki lýðræðislegt.

Skortur á lýðræðislegu umboði er ekki eina vandamál þeirrar ríkisstjórnar sem nú er að taka við. Nýlega komst fólk að því að forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, hélt skýrslu, með upplýsingum sem vörðuðu almannahag, leyndri fyrir kjósendum. Ekki er nóg með það heldur varð ráðherra uppvís að því að reyna að ljúga um það hvenær skýrslan var tilbúin. Píratar vilja lögfesta sannleiksskyldu ráðherra af því að það er glæpsamlegt ef ráðherra lýgur að þingi eða þjóð.

Nú upplýsti hæstv. heilbrigðisráðherra að siðareglur nýrra ráðherra hefðu verið samþykktar á nýliðnum fundi. Þessar siðareglur eru mjög góðar og innihalda grein þar sem m.a. er sagt að ráðherra leyni ekki upplýsingum og hafi frumkvæði að birtingu þeirra. Hræsni forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, er algjör í þessu máli.

Góðir landsmenn. Nú reynir á nýtt Alþingi og val um hvaða vinnubrögð eiga að ráða ferðinni. Verða það lýðræðisleg vinnubrögð með gagnsæi og ábyrgð að leiðarljósi eða áframhaldandi misbeiting valds, Panama og spilling?



[21:06]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Virðulega Alþingi. Góðir áheyrendur. Það eru fjölmargir sterkir og jákvæðir punktar í samstarfssáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Meðal minna uppáhalds eru átak í geðheilbrigðismálum og uppbygging í öldrunarmálum. Líka hertar aðgerðir gegn skattundanskotum og áhersla á græna skatta. Reyndar er áherslan á umhverfismál mikið fagnaðarefni og sama má segja um áherslu á valfrelsi neytenda í landbúnaðarmálum sem og jafnlaunavottunin, bættir verkferlar vegna kynferðisbrota og skilgreining á stafrænu kynferðisofbeldi í hegningarlögum.

Ég fagna ákvæðum sem lúta að því að opna íslenskt samfélag enn frekar á margvíslegan máta, eins settu markmiði um að jafna atkvæðavægi og svo er það peningastefnan. Ekki má gleyma henni, maður lifandi. Ég ætla hins vegar ekki að eyða fleiri orðum í að telja upp einstaka áhersluatriði stjórnarsáttmálans. Mig langar að dvelja við það sem mér er efst í huga núna, jafnrétti í sinni víðustu mynd, frjálslyndi og opið samfélag. Það er ánægjulegt að vera hluti af stjórn sem setur jafnrétti, velferð og frjálslyndi framar öðru. Í því felst framsýnin sem er rauður þráður í stjórnarsáttmálanum.

Aðeins um jafnréttið. Árið 2017 er enn að finna óútskýrðan launamun kynjanna. Eitt af því sem ríkisstjórnin ætlar að leggja áherslu á er að útrýma þessum mun. Með lögbundinni jafnlaunavottun undirstrikum við ekki bara góða stöðu Íslands þegar kemur að jafnrétti kynjanna, heldur að við viljum gera enn betur, við viljum útrýma þeim mismun sem eftir situr. Til viðbótar er líka ánægjulegt að sjá fyrirtæki á borð við CCP, eitt þekktasta fyrirtæki okkar Íslendinga, nota tækifærið þegar það fékk jafnlaunavottun sem viðurkenningu á starfskjarastefnu sinni til að kanna sérstaklega launajafnrétti meðal innlendra og erlendra starfsmanna fyrirtækisins. Jafnréttið á sér nefnilega margar myndir.

En það er að fleiru að huga. Rannsóknir sýna okkur að kvíði og þunglyndi eru vaxandi meðal ungs fólks. Það er einfaldlega forgangsverkefni okkar að grípa hér inn í á fyrirbyggjandi hátt svo vandinn vaxi ekki og verði óviðráðanlegur fyrir börnin okkar — og kerfið — þegar börnin fullorðnast. Við ætlum því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, t.d. með því að gera sálfræðiþjónustu aðgengilega í framhaldsskólum. Við þurfum líka að hafa í huga í því efni að markviss vinna gegn staðalmyndum og kynjahyggju er mikilvæg til að uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu sem m.a. beinast gegn fólki með geðræn vandamál.

Við viljum öll búa í öruggu og frjálsu samfélagi. Það er ekki sjálfgefið. Eitt stærsta mein okkar litla samfélags er hryllingur kynferðisbrota og heimilisofbeldis. Við þurfum öll að taka höndum saman í baráttunni þar. Velferð samfélagsins okkar er í húfi. Einn einstaklingur sem líður er einum of mikið. Þetta er ekkert flóknara en það.

Virðulegi forseti. Þegar horft er á heimsmyndina eins og hún blasir við þessa dagana er erfitt að fyllast ekki kvíða. Nær hvert sem litið er, nær eða fjær, eru dæmi um uggvænlega þróun þar sem svonefndir öfgaflokkar hafa náð eða eru nálægt því að ná fótfestu, jafnvel í rótgrónum lýðræðisríkjum þar sem menn hafa sannarlega vítin að varast. Lygilega oft eru fyrstu merkin hertar aðgerðir gegn frelsi og velferð kvenna. Síðan er það hinsegin fólk, annars staðar dómarar, kennarar, fjölmiðlafólk og svo auðvitað útlendingarnir. Í þessu ljósi er enn mikilvægara en áður að við Íslendingar höldum á lofti merkjum frjálslyndis, umburðarlyndis og jafnréttis, ekki bara hér á landi heldur sem leiðarljós í alþjóðlegu samstarfi.

Þessi áhersluatriði eru mjög í anda Viðreisnar. Við trúum því að við gerum Ísland að betri stað fyrir okkur öll með því að styðja við frjálslyndi og jafnrétti á sem flestum sviðum þjóðfélagsins með því að gleyma ekki að við megum aldrei sofa á verðinum þegar kemur að lýðræði og mannréttindum, með því að bera virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum. Eins og stendur í upphafi stjórnarsáttmálans, með leyfi forseta:

„Ísland á að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar.“

Og ég trúi því að okkur farnist best í þeirri uppbyggingu í samstarfi og samskiptum við þær þjóðir sem standa okkur næst, hvort sem er í viðskiptum eða menningu.

Góðir áheyrendur. Ég lýk máli mínu hér undir áhrifum einnar af mörgum innblásnum ræðum Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrúar Bandaríkjanna: Í íslensku samfélagi gerum við ekki greinarmun á okkur og hinum, við viljum ekki umræðu sem segir „við“ og „þið“. Í frjálsu, ábyrgu, jafnréttissinnuðu og framsýnu íslensku samfélagi eru bara „við“. — Ég þakka áheyrnina.



[21:12]
Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið afar vel. Lánshæfi ríkissjóðs hefur hækkað í A-flokk, m.a. vegna lækkandi skulda ríkissjóðs, mikils innstreymis gjaldeyris og góðrar ytri stöðu þjóðarbúsins. Þá hafa stöðugleikaframlög slitabúanna gert það að verkum að heildartekjur ríkissjóðs eru við 1.000 milljarða á fjárlögum síðasta árs. Ég er því ekki alveg viss um að þetta tengist nýlegri skipan hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eins og hann virðist jafnvel halda því að hækkun lánshæfismats ríkissjóðs er langhlaup og hann hefur aðeins nýhafið störf.

Algjör grundvallarbreyting hefur orðið frá fyrri tímum þar sem hrein erlend staða þjóðarbúsins er nú jákvæð í fyrsta sinn síðan mælingar hófust. Seðlabankinn hefur brugðist við þessu mikla innflæði með auknum kaupum á gjaldeyri. Gjaldeyrisforðinn er orðinn rúm 40% af landsframleiðslu, en kostnaður við hann að sama skapi er umtalsverður. Eitt stærsta verkefni hagstjórnarinnar verður að bregðast við þeim breytingum sem hafa átt sér stað á viðskiptajöfnuðinum.

Góðir landsmenn. Einn liður í því væri að setja á laggirnar Stöðugleikasjóð Íslands. Slíkur sjóður hefði það eitt af meginmarkmiðum að stuðla að sveiflujöfnun í hagkerfinu. Þjóðir sem eru ríkar að auðlindum líkt og Ísland hafa sett upp svipaða sjóði til að ná betur utan um hagstjórnina. Norski olíusjóðurinn er eitt besta dæmið um slíkan sjóð.

Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um stofnun sjóðs með svipað hlutverk. Til að mynda er getið um slíkan sjóð í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og tel ég það vera afar jákvætt. Almennt er gengið út frá því að auðlindagjöld standi undir sjóðnum, bæði stofnframlagi og vexti hans. Slíkt er vissulega mögulegt en það tæki langan tíma að byggja upp myndarlegan höfuðstól til ávöxtunar. Skilvirkara væri að nota hluta af stöðugleikaframlögunum sem höfuðstól stöðugleikasjóðsins, kaupa upp hluta af gjaldeyrisforða Seðlabankans og stækka sjóðinn svo smám saman með tekjum af auðlindum landsins, þ.e. sjávarútvegi, orkugeiranum og ferðaþjónustu.

Ég held að flestum landsmönnum sé ljóst að efnahagslegri endurreisn sé vel á veg á komið. Hins vegar hefur vantað upp á samfélagslega sátt í þjóðfélaginu. Má segja að lítill stuðningur við ríkisstjórnina sé vitnisburður um slíkt. Okkur stjórnmálamönnunum ber að hlusta gaumgæfilega eftir því hver voru skilaboðin í síðustu kosningum.

Góðir landsmenn. Við í Framsóknarflokknum teljum að brýnasta verkefnið fram undan sé að fjármunum sé forgangsraðað í þágu heilbrigðismála. Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Við viljum fjárfesta enn frekar í innviðum kerfisins og stíga markviss skref svo allir fái notið góðrar þjónustu án tillits til efnahags. Við munum því leggja til á þingi að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heildstæða heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum þar sem m.a. þarf að taka tillit til þeirra miklu tækniframfara sem eru að eiga sér stað í heilbrigðismálum. Við viljum að Ísland sé þar fremst í flokki og geti boðið upp á eina tæknivæddustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Þjóðin kallar eftir því að heilbrigðismálum sé sinnt betur og við verðum að axla þá ábyrgð.

Samkeppnishæfni Íslands skiptir okkur öll máli. Einn liður í því er að menntakerfi okkar undirbúi framtíð þjóðarinnar. Í alþjóðlegum samanburði hafa skólarnir okkar verið að gefa eftir. Við verðum að bregðast við þeirri þróun. Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og framtíðin byggir á styrk þess. Við í Framsóknarflokknum leggjum ríka áherslu á að efla menntun í landinu með jöfnum tækifærum og hagsmunum þjóðarinnar að leiðarljósi. Við viljum fjárfesta í menntakerfinu þannig að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins árið 2020.

Góðir landsmenn. Vandi fylgir vegsemd hverri. Kjöraðstæður eru í íslensku efnahagslífi og mikilvægt að rétt sé haldið á málum. Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri til að gera vel og forgangsraða vel. Brýnt er að þingið vinni vel saman að góðum málum.

Ég óska nýrri ríkisstjórn velferðar og tel að henni farnist best með virku og öguðu aðhaldi frá minni hlutanum. — Eigið góðar stundir.



[21:18]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Góða Alþingi. Bjartari morgnar eða áburðarverksmiðja. Kæri hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson. Í vali milli ólíkra áherslna felst ekki kvöl heldur frelsi. Það á að vera leiðarstef hverrar ríkisstjórnar að búa í haginn fyrir framtíðina og fyrir komandi kynslóðir. Stjórnmál á Íslandi hafa of oft birst sem viðbragðakennd og oft eru menn í fáti að bregðast við orðnum hlut; fjármálakreppu, umhverfisvá eða yfirfullum spítala. Svona atburðir dúkka upp á yfirborðið þegar besta leiðin til úrlausnar er löngu útrunnin. Besta leiðin er framsýni og forvarnir, hvort sem um ræðir heilbrigðiskerfi, fjármálaumhverfi eða umhverfi og náttúruvernd. Best væri að vinna okkar stjórnmálamanna færi öll í það að undirbyggja betra samfélag, vera skrefi á undan uppákomunum, svo framtíð komandi kynslóða sé minna sem óskrifað blað en frekar vandlega undirbúin og vörðuð.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd. Við vitum að hlýnandi sjór við Íslandsstrendur og súrnun sjávar með tilheyrandi áhrifum á fiskstofna eru afleiðingar loftslagsbreytinga. Við sjáum jöklana okkar bráðna og minnka að umfangi frá ári til árs. Við vitum ekki hvort Golfstraumurinn muni halda styrk sínum og stefnu og gera landið byggilegt áfram. En við vitum hvað þarf að gera til að bregðast við þessari óheillaþróun. Það er ekki í boði að bíða með það. Við verðum að draga stórfellt úr losun gróðurhúsalofttegunda með öllum tiltækum ráðum. Binda aukið magn kolefnis úr andrúmslofti í jarðvegi og gróðri. Við verðum líka að draga úr auðlindasóun. Þetta er ekki ný umræða. Hún hefur átt sér stað á alþjóðavettvangi allt frá því Brundtland-skýrslan, sem kom út árið 1987, setti fram hugtakið sjálfbær þróun. Hlutirnir hafa þokast hægt síðan en ég bind miklar vonir við að Parísarsamkomulagið verði til þess að hraða verulega viðbragðsaðgerðum á heimsvísu.

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Ég geng bjartsýn til verka í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Björt framtíð er grænn flokkur sem vill að umhverfis- og náttúruvernd verði grunnstef í allri stefnumótun stjórnvalda, hvort sem það er á sviði auðlindanýtingar, menntunar, velferðar eða lýðheilsu. Við viljum fylgja sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna til að efla velsæld og velferð allra íbúa landsins. Við viljum innleiða grænt lágkolefnishagkerfi á Íslandi sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, fullnýtingu afurða og öflugri nýsköpun á sviði líftækni og hugvits. Það er gleðiefni að þessi leiðarstef eru gegnumgangandi í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. En til að þetta megi verða þarf öflugt samstarf og þverpólitíska sátt um leiðir að markmiðum.

Stefnuyfirlýsing þessarar ríkisstjórnar boðar að umhverfis- og náttúruverndarmál skuli skipa veigamikinn sess næstu árin. Þar ber hæst að ekki verður efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingu á mengandi stóriðju. Það er þó alveg ljóst að allir ráðherrar verða að vinna saman að því að uppfylla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum svo Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég mun beita mér fyrir því að sjálfbær auðlindanýting verði í hávegum höfð í starfi þessarar ríkisstjórnar og að virði afurða auðlinda verði aukið með betri nýtingu, ekki með aukinni ásókn.

Ég mun sömuleiðis fylgja því fast eftir að ráðstöfun nýtingarréttinda í auðlindum í opinberri eigu verði gagnsæ. Eigendastefna verði gerð fyrir Landsvirkjun þar sem m.a. verði markmið um að hámarka virði orkunnar og að fyrirtækið starfi í góðri sátt við íslenska náttúru og landsmenn.

Náttúruvernd verður sömuleiðis gert hátt undir höfði á þessu kjörtímabili. Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði lögð fyrir Alþingi til samþykktar.

Það er mér einnig sérstök ánægja að nefna að við munum vinna heildstæða áætlun um vernd miðhálendisins og stefna að myndun hálendisþjóðgarðs í kjölfarið. Það þarf að gera í samtali og sátt við ýmsa aðila og við höfum þegar hafist handa. Þá eru ýmis óleyst friðlýsingarmál sem ég mun beita mér fyrir að leiða til lykta, til að mynda friðun Kerlingarfjalla og Þjórsárvera.

Virðulegi forseti. Það heyrist stundum að Ísland sé svo lítið í samhengi þjóða að okkar athafnir skipti ekki miklu máli. Ég er ósammála. Allt skiptir máli. Lítið samfélag í gjöfulu landi hefur alla burði til að bregðast hraðar við en þau sem stærri eru. Við getum og eigum að setja okkur markmið um að vera í fararbroddi á alþjóðavettvangi hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, í náttúruvernd og í að aðlaga okkur að lágkolefnishagkerfi framtíðarinnar. Við eigum að vera landið sem aðrar þjóðir horfa til og læra af. Þannig leggjum við helst okkar af mörkum í því alþjóðlega og sameiginlega verkefni að vernda jörðina fyrir komandi kynslóðir.

Gangi okkur öllum sem best. Góðar stundir.



[21:24]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Fögur fyrirheit voru gefin í ræðu forsætisráðherra. Það þarf sannarlega að efla innviði samfélagsins og byggja upp grunnþjónustu og það var líka skýr krafa almennings fyrir kosningar. Ég treysti hins vegar ekki þessari ríkisstjórn til að gera það sómasamlega, hvað þá til að hafa jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi í verkum sínum, enda er því svo sem ekki lofað.

Leiðarstef ríkisstjórnarinnar eru tvö að sögn forsætisráðherra; jafnvægi og framsýni. Það hljómar alls ekki illa, en ég veit, og ég tel að þjóðin viti það líka af fyrri reynslu af verkum íhaldsaflanna, að skilningur okkar á þeim hugtökum er harla ólíkur. Jafnvægi í þeirra skilningi merkir að öllum brögðum megi beita. Hvort sem það er að fela auð fyrir skattinum, fela skýrslur fyrir almenningi fram yfir kosningar eða afvegaleiða umræðu með fölskum loforðum og skrautsýningum.

Það er hins vegar rétt sem forsætisráðherra segir að þjóðfélagið er safn þeirra einstaklinga sem það byggja, með ólíka sýn og þarfir og það er vissulega „misjafn tilgangurinn, sem fyrir þeim vakir.“ En til að þjóðfélagið virki sem skyldi þurfa allir að leggja sitt að mörkum. Panama-skjölin sýna að stór hópur fólks kýs að geyma auðæfi sín í skattaskjólum og er þannig í stöðu til að ákveða sjálft, hve mikið eða hvort það leggur sitt að mörkum til samneyslunnar en fær samt að njóta góðs af öllu því sem þjóðfélagið hefur upp á að bjóða. Því fólki finnst jafnvægið fólgið í því að aðrir beri þeirra byrðar við rekstur velferðarkerfisins.

Það sem Panama-skjölin upplýstu okkur um eru ákveðin merki um siðrof sem varð á Íslandi þegar ýmsir nýttu sér ófullnægjandi regluverk og lítið eftirlit til að velta byrðum yfir á aðra. Ójöfnuður jókst í samfélaginu og græðgi náði nýjum hæðum. Þessi hegðun var og er meinsemd og þá meinsemd þarf að uppræta. Það er ekki hægt að tala um jafnvægi, jöfn tækifæri eða sátt í samfélagi þar sem slíkt er látið viðgangast.

Nýlega las ég skáldsöguna Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur og sú bók varð mér mikið umhugsunarefni. Þessi hrollvekjandi skáldsaga vakti hjá mér hugrenningar um hve auðveldlega siðuð samfélög geta hrunið við áföll. Hversu brothætt samfélög eru í raun. Tekist er á við hvað það er að tilheyra fjölskyldu og vera Íslendingur, hvað sameini okkur og sundri og hve stutt getur verið í sérhygli, fordóma og öfgaþjóðernishyggju.

Bókin vakti upp hugsanir um hvað hefði getað gerst hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins, en þó enn frekar um ýmsar hörmungar sem bæði sagan og nútíminn geyma um hrun menningarríkja. Þegar fólk telur sig ekki lengur þurfa að fylgja leikreglum samfélagsins.

Öll viljum við góða og örugga framtíð fyrir börn og afkomendur og við Íslendingar höfum verið lánsöm. En illska og hörmungar finnast víða í kringum okkur. Við höfum horft á Sýrland líða undir lok á fáum árum, og við sitjum hálfmáttvana hjá yfir þeim ósköpum þegar hundruð þúsunda saklausra er fórnað í illskiljanlegum stríðsátökum. Við getum ekki leitt flóttamannavandann hjá okkur. Það er bara ein jörð, eitt hótel jörð, og við Íslendingar erum ekki einu gestirnir. Ófriður og loftslagsváin er það sem rekur flóttafólk áfram í leit að betra lífi og margir vilja koma til okkar. Við eigum að mæta þessum vanda af samúð og mannúð og koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Ísland er fjölmenningarsamfélag eins og forsætisráðherra benti á í ræðu sinni og það þýðir að við verðum að bregðast við, mjög ákveðið og skýrt, gegn fordómum, öfgum og hatursorðræðu. Öfgafull þjóðernishyggja er að færast í aukana víða um heim. Við verðum að mæta slíku af ákveðni.

Ég vil því að lokum hvetja alla íslenska stjórnmálaflokka til að tengjast ekki með nokkrum hætti popúlískum öfgaflokkum eða þjóðernissinnum hvort sem er á Norðurlöndum, í Evrópu eða vestan hafs og varast daður við slíka hugmyndafræði.

Kæru landsmenn. Tökum öll afstöðu með mannréttindum og lýðræðisöflum, jöfnuði og réttlæti. Tökum öll skýra afstöðu gegn öfgum og fordómum. — Góðar stundir.



[21:30]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn allir. Við höfum nú í kvöld hlýtt á ræður þingmanna frá öllum sjö flokkunum sem eiga sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili. Eins og gefur að skilja eru skoðanir þeirra og áherslur mismunandi og það ber að virða. Virðing fyrir skoðunum annarra er mjög mikilvæg og það er engin skoðun hin eina alrétta.

Oft hefur sjónarhornið, hvaðan horft er til, áhrif á útkomuna. Í Íslandsklukkunni, skáldsögu Halldórs Laxness, segir Arnas Arneus í samræðum sínum við þær Eydalínssystur um sannleikann: „Það er fjall í Kinninni fyrir norðan, sem heitir Bakrángi ef maður sér austaná það, Ógaungufjall ef maður stendur fyrir vestan það, en utanaf Skjálfanda kalla sjófarendur það Galta.“

Það er mín skoðun og trú að sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við stjórnartaumum í landinu með Bjarna Benediktsson í forsæti muni vinna af heilindum að áframhaldandi uppbyggingu til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Það er afar mikilvægt að við séum meðvituð um að hver hlekkur í þeirri keðju sem Ísland byggir er mikilvægur fyrir heildina, rétt eins og höfuðborgarsvæði þrífst ekki án landsbyggðar og landsbyggð ekki án höfuðborgar.

Við erum ein þjóð í einu landi og því betur sem okkur tekst að vinna saman að uppbyggilegum hlutum, þeim mun betur vegnar okkur sem þjóð. Hlutverkin, eða störfin, eru margvísleg og misþung en séu þau rækt af samviskusemi og eins vel og hverjum er unnt leiðir það til góðs. Við búum í mjög mörgu tilliti við góðar aðstæður í samanburði við aðra íbúa heimsins. Það er hollt að velta því fyrir sér öðru hverju og vera ánægður, glaður og jákvæður. Þær tilfinningar smita út frá sér og stuðla að framgangi góðra hluta. En neikvæðni og bölmóður draga þróttinn úr.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru leiðarstefin jafnvægi og framsýni, eins og hæstv. forsætisráðherra og fleiri hafa rakið hér á skýran hátt. Lögð er áhersla á innviðauppbyggingu samfélagsins og það er afar brýnt, ekki síst með tilliti til hins nýja og sístækkandi atvinnuvegar þjóðarinnar, ferðaþjónustunnar, sem teygir anga sína víða og eykur enn á mikilvægi góðra aðstæðna til að fara um landið okkar á öruggan hátt.

Því verður aukinn kraftur lagður í uppbyggingu í samgöngumálum á öllum sviðum með hagkvæmni og öryggi í forgrunni og til að bæta búsetuskilyrði og atvinnutækifæri um allt land. Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar og treysta innviði innanlandsflugs og sjúkraflugs til framtíðar, sem er gríðarlega mikilvægt verkefni, ekki síst fyrir alla þá sem búa á landsbyggðinni.

Það eru gömul sannindi og ný að umgengni er alla jafna í samræmi við umhverfið, alhliða góð þjónusta og gott viðmót í hverju sem er skilar góðu til baka. Með stórauknum fjölda ferðamanna er nauðsynlegt að tryggja öryggi þeirra og landsmanna á allan þann hátt sem hægt er. Aukin löggæsla er sannarlega nauðsynleg, bæði á þjóðvegum og inni í bæjum. Starfsöryggi lögreglumanna verður einnig að vera tryggt. Lögreglumenn eiga ekki að vera einir á vakt á stórum svæðum eins og þekkist úti um land. Það er því mikilvægt að unnið sé að uppbyggingu löggæslu, ekki síst á landsvísu, eins og kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Á öllum skólastigum er verið að vinna mikilvægt starf við að mennta ungt fólk, þjálfa það til framtíðarstarfa og kenna því gagnrýna og skapandi hugsun, að horfa fram á veginn og sjá tækifæri til að gera betur fyrir sig og sitt samfélag. Við þurfum að vera í stakk búin til að takast á við allt aðrar kröfur til allra skólastiga sem koma til með breyttri samfélagsgerð, atvinnuháttum, fjölmenningu og alþjóðavæðingu. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að efla öll skólastig til þess að takast á við krefjandi hlutverk með framsýni að leiðarljósi.

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Til hamingju með nýja ríkisstjórn sem verður ríkisstjórn allra landsmanna og allra landsvæða. Verkin munu tala.



[21:36]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Helstu áskoranir okkar nú felast í tveimur risastórum verkefnum, verkefnum sem eru tilkomin af mannanna völdum og eru því á hendi mannanna sjálfra að leysa úr, þ.e. hlýnun loftslags og vaxandi ójöfnuður í heiminum. Það er ískyggilegt hvernig loftslagsbreytingar og ójöfnuður tengjast órjúfanlegum böndum. Mengandi frumiðnaður hefur oftast haldist þétt í hendur við láglaunastörf sem verkafólk hefur unnið við óviðunandi starfsaðstæður víða um heim. Við verðum öll að sameinast um að sporna við hlýnandi loftslagi og vaxandi ójöfnuði. Höfum við ekki hreinasta vatnið og bestu loftgæði sem um getur? Kannski. En við þurfum að leggja miklu meira á okkur en við höfum gert undanfarin ár til að sporna við loftslagsbreytingum.

Við þurfum að taka Parísarsamkomulagið alvarlega og leggja af stað í raunverulegar aðgerðir sem virka. Hvað með ójöfnuðinn? Höfum við það ekki öll bara býsna gott hér með sterka stöðu efnahagsmála líkt og hæstv. forsætisráðherra benti á í sinni stefnuræðu? Ójöfnuður er staðreynd og fer því miður vaxandi um allan heim. Um það vitnar m.a. glæný skýrsla Oxfam-samtakanna sem sýnir að átta karlmenn eiga meiri peningaleg auðæfi en helmingur alls mannkyns.

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að ætla að ójöfnuður fari ekki vaxandi á Íslandi og sterk teikn eru á lofti um að það hafi gerst undanfarin ár. Um það vitna tölur sem sýna að ríkasta eina prósentið á Íslandi þénar nálægt helmingi fjármagnstekna og að ríkasti fimmtungur landsmanna á 87% af öllu eigin fé í landinu. Og aðgerðir síðustu ríkisstjórnar á borð við skuldaleiðréttinguna juku líka ójöfnuðinn. Nú hefur komið í ljós að sú risavaxna aðgerð að gefa 72,2 milljarða úr ríkissjóði til tiltekins hluta þjóðarinnar kom þeim mest til góða sem áttu mest og þénuðu mest. Þau 20% Íslendinga sem hafa hæstar tekjur fengu samtals 22 milljarða úr ríkissjóði. Á sama tíma og fjármagn til heilbrigðismála, menntunar og annarra innviða hefur skort.

Virðulegi forseti. Hinir ríku halda áfram að verða miklu ríkari á Íslandi eins og annars staðar. Ójöfnuðurinn eykst. Hér er um grafalvarlegan hlut að ræða. Það er enginn samfélagslegur sáttmáli til um það að hinir ríku verði ríkari á meðan hinir efnaminni sitja eftir og hafa minna á milli handanna. Það hefur ekkert með lýðræði að gera að fjármunum okkar allra sé skammtað til hinna efnameiri. Það hefur ekkert með lýðræði að gera að samfélag sem býr við gnægð náttúruauðlinda geti ekki skipt arðinum af þeim jafnt. Það er enginn samfélagslegur sáttmáli til um að börn efnaminni foreldra búi við skort og hafi minni aðgang að gæðum samfélagsins en börn efnameiri foreldra. Það er nefnilega engin sátt til um ójöfnuð. Ójöfnuður er ólíðandi út frá öllum siðfræðilegum viðmiðum um réttlátt samfélag.

Virðulegi forseti. Forsætisráðherra er tíðrætt um jafnvægi í stefnuræðu sinni. Það er kannski ekki að undra að forsætisráðherra sækist eftir jafnvægi þar sem síðustu ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkur hefur tekið þátt í hafa ekki beint stuðlað að samfélagslegu, stjórnmálalegu eða efnahagslegu jafnvægi. Það var ekkert jafnvægi í því að ákveða byggingu Kárahnjúkavirkjunar eða setja Ísland á lista viljugra þjóða vegna innrásarinnar í Írak. Það var ekkert jafnvægi í efnahagshruninu fyrir átta og hálfu ári eða í lekamálinu, Orku Energy eða í Panama-skjölunum á síðasta kjörtímabili.

Ein af skilgreiningum orðsins jafnvægi sem forsætisráðherra vill leitast eftir er að eitthvað sé jafn þungt og kyrrt, rólegt og stillt. En íslenskt samfélag á ekki að vera þungt og kyrrt. Íslenskt samfélag á ekki að vera kyrrstöðusamfélag afturhalds og íhalds, heldur á það að vera á stöðugri hreyfingu og í framþróun. Það gerum við m.a. með því að leggja áherslu á menntun og opna faðminn fyrir þeim sem leita til okkar eftir nýjum tækifærum. Ég fagna því ef forsætisráðherra ætlar sér að leggja áherslu á þetta tvennt.

Það er sannarlega ósk okkar flestra að hér ríki ró og friður. En eigum við að vera róleg og stillt? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að arði auðlindanna sé ekki skipt jafnt á milli okkar allra? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að fjögur til sex þúsund íslensk börn búa við skort og fátækt? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að íslenskt stóreignafólk og stjórnmálamenn fari með peningana sína út úr íslensku hagkerfi, úr okkar sameiginlegu sjóðum, og feli á aflandseyjum? Það er ekki hægt að segja okkur að hér eigi að vera jafnvægi, að við eigum að vera róleg og stillt á meðan ójöfnuður fer vaxandi í íslensku samfélagi.

Kæru landsmenn. Framsýni hefur ekkert með vaxandi ójöfnuð að gera. Framsýni er að minnka ójöfnuð og draga með öllum ráðum úr loftslagsbreytingum, að vinna saman að sátt í samfélaginu þar sem allir geta notið sín og haft sömu tækifæri óháð kyni, stétt eða stöðu. Það ætti að vera markmið okkar allra. — Ég þakka þeim sem hlýddu.



[21:41]
Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn. Hæstv. ráðherrar. Kæra þjóð. Við verðum að læra af reynslunni.

Í tungutaki nýrrar ríkisstjórnar verður stöðnun að stöðugleika, íhald að jafnvægi og framsýni kallast það víst að falla í gamla farið. En það er engin framsýni í því að boða jafnvægi um óbreytt ástand. Að boða áframhaldandi leyndarhyggju, meirihlutaræði og ábyrgðarleysi er ekki jafnvægi. Að leita jafnvægis á brostnum grunni leiðir til ójafnvægis og á endanum til kollsteypu.

Þetta þekkjum við svo vel en sum okkar eru fljót að gleyma. Um leið og peningarnir flæða inn sjá sum okkar eintóm auramerki og gleyma öllu því sem við áttum að hafa lært um virkara lýðræði, faglegri stjórnsýslu og sanngjarnara hagkerfi, um að hagtölur á blaði eru ekki upphafið og endirinn á ábyrgð stjórnmálamanna.

Hæstv. forsætisráðherra benti á það áðan að ný ríkisstjórn tæki við völdum við góðar ytri aðstæður og það er alveg rétt. Ferðamannastraumurinn margfaldast ár eftir ár með tilheyrandi gjaldeyristekjum, ofgnótt af makríl synti til Íslandsstranda og krónan styrkist gagnvart nærliggjandi hagkerfum.

Þessar góðu ytri aðstæður hafa vissulega jákvæð áhrif á efnahag landsins en þær eru ekki pólitík. Makríllinn kom ekki til Íslands til að fá leiðréttingu á húsnæðislánum sínum og ferðamenn laðast ekki að landinu vegna lækkandi veiðigjalda.

Ábyrgð okkar liggur í því hvernig við aðlögumst breyttum aðstæðum, það er pólitíska spurningin. Það er ekki hægt að monta sig af hagvexti þegar við getum ekki veitt fólki lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu eða geðheilbrigðisþjónustu, tryggt öryrkjum mannsæmandi líf, eldri borgurum lágmarksframfærslu eða námsmönnum viðunandi aðstæður.

Við Píratar viljum nýta ytri aðstæður til að bjarga velferðarkerfi okkar. Við viljum líka nýta tækifærið til að laga loksins það sem alltaf hefur verið að í íslensku samfélagi, allt það sem opinberaðist okkur svo harkalega í hruninu en hefur síðan setið á hakanum.

Góðir Íslendingar. Við þurfum að tryggja pólitíska ábyrgð í reynd, virkt lýðræði og faglega stjórnsýslu. Við þurfum öflugar eftirlitsstofnanir, aukið gegnsæi og upplýsingafrelsi, víðtæk mannréttindi, réttlátt kosningakerfi, auðlindir í þjóðareigu og aukna sjálfbærni. Við þurfum nýja stjórnarskrá sem tryggir okkur þá hluti og við þurfum að virða þessi gildi með verkum okkar á þingi.

Ný ríkisstjórn virðist ekkert hafa lært. Stöðugleiki og stöðnun eru kjörorðin, stjórnarsáttmálinn er froða og þingið byrjar á harkalegu meirihlutaræði. Allt sem við lærðum virðist gleymt vegna góðra ytri aðstæðna. Allt er í góðu lagi, af því að þetta reddaðist.

En þetta mun ekki alltaf reddast, við þurfum að læra af sögunni, alveg eins og spilafíkill þarf að breyta hegðun sinni þótt hann fái öðru hverju vinning.

Lýðræði okkar er ekki í lagi þó svo að gjaldeyristekjur streymi inn í landið. Arðrán náttúruauðlinda landsins er ekki í lagi þótt það birtist í hárri landsframleiðslu. Stjórnmálin okkar eru ekki í lagi. Til marks um þetta er að traust almennings á stjórnmálum er í sögulegu lágmarki og kjörsókn í almennum kosningum hefur aldrei verið minni. Enn alvarlegra er kannski að þetta vantraust og áhugaleysi virðist mest hjá ungu kynslóðunum, hjá okkur sem munum erfa þetta land. Þeir sem fjálglega tala um framsýni ættu kannski að taka þau skilaboð alvarlega. Skilaboðin eru t.d. þau að það er ekki allt í lagi að ráðherra skattamála eigi eignarhaldsfélag í skattaskjóli og að bankamaður spyrji fyrir hans hönd: Þarf eignarhaldið að koma fram? Það er ekki í lagi að sami ráðherra ákveði upp á sitt eindæmi að fresta birtingu skýrslu um eignir Íslendinga í skattaskjólum og það er svo sannarlega ekki í lagi að sá ráðherra segi nei þegar hann er boðaður á fund Alþingis um málið.

Og, nei, það er heldur ekki í lagi að ganga til kosninga út á það að berjast gegn fúski í íslenskum stjórnmálum og leiða svo til æðstu metorða mann sem hefur ítrekað gerst sekur um nákvæmlega það.

Góðir Íslendingar. Við Píratar höfum ekki gleymt því að við sem þjóð þurfum að gera stórtækar breytingar á kerfum okkar, á lýðræðinu og því hvernig við stundum stjórnmálin.

Góðu fréttirnar eru þær að tækifærið lifir. Þrátt fyrir allt féll ríkisstjórn í þessum kosningum og flokkar sem töluðu fyrir róttækum breytingum fengu mikinn meiri hluta atkvæða, þótt sumir þeirra virðist nú hafa hlaupist undan. En við gefumst ekki upp, við höldum áfram að berjast fyrir ábyrgum stjórnmálum og réttlátara samfélagi — gegn ójafnvægi, spillingu og valdhroka. Við munum ekki gleyma.



[21:46]
Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Þakklæti er mér efst í huga í kvöld. Þakklæti fyrir að hafa fengið að alast upp í gjöfulu lýðræðisríki og fyrir að fá að búa hér í öryggi á varhugaverðum tímum. Þakklæti fyrir að fá að vera borgari í réttarríki þar sem frelsi einstaklingsins og mannréttindi eru í hávegum höfð.

Það eru forréttindi að fá að vinna frjálslyndum málefnum brautargengi á tímum þegar frjálslyndi á undir högg að sækja í heiminum og sótt að því bæði frá hægri og vinstri. Kjósendur Viðreisnar í Suðurkjördæmi fólu mér að berjast fyrir frjálslyndum málum á Alþingi. Ég tek það umboð mjög alvarlega. Ég get sagt þeim og öðrum landsmönnum með stolti að sú stefna sem birtist í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sú frjálslyndasta sem nokkru sinni hefur verið boðuð í upphafi kjörtímabils hér á landi. Þetta er stjórnarsáttmáli þar sem sett eru þau meginmarkmið að Ísland eigi að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar, sáttmáli sem fjallar sérstaklega um mikilvægi mannréttinda, jafnréttis, umhverfisverndar, sem fjallar sérstaklega um mikilvægi athafnafrelsis, viðskiptafrelsis og alþjóðlegrar samvinnu. Þetta er sáttmáli sem allir frjálslyndir Íslendingar geta verið stoltir af.

Frelsi fylgir ábyrgð. Alþingi er m.a. treyst fyrir því að fara eins vel með almannafé og kostur er. Staðreyndin er sú að meiri hluti landsmanna kaus flokka sem annaðhvort töluðu fyrir óbreyttri eða lægri skattheimtu. Það sýnir okkur að landsmenn vilja að farið sé af ábyrgð með þá fjármuni sem þeir greiða í opinbera sameiginlega sjóði og að innviðir, heilbrigðisþjónusta og menntun verði í forgangi næstu árin. Þeim sjálfsögðu væntingum mun þessi ríkisstjórn standa undir.

Um leið ber okkur að sýna fyrirhyggju. Við þurfum að búa í haginn fyrir mögulega efnahagslega niðursveiflu. Ef það tekst þá verða hugsanleg áföll eða áskoranir í þjóðarbúskapnum ekki jafn erfið og raun hefur borið vitni. Við eigum að sýna metnað og einsetja okkur að komast vel undan vetri með skýrri framtíðarsýn og vandaðri áætlanagerð.

Framtíðarsýn. Framtíðarsýn er nauðsynleg í efnahags- og peningamálum en ekki síður í utanríkismálum enda málaflokkarnir nátengdir. Ísland er eyland, en þó alls ekki í þeirri merkingu að það geti þrifist í einangrun. Öryggi og velmegun Íslendinga byggist algerlega á jákvæðum og virkum samskiptum samfélagsins í heild við grannríki og umheiminn.

Það gleymist oft að þessi samskipti snerta nánast alla þætti í daglegu lífi okkar. Við getum farið frjáls og áhyggjulaus ferða okkar vegna þess að bandalagsríki tryggja frið og stöðugleika í okkar heimshluta. Greiðar samgöngur byggja á milliríkjasamningum líkt og öll fjarskipti og viðskipti. Þá eru grundvallarmannréttindi einnig skilgreind og varin í samstarfi við önnur ríki. Þátttaka Íslands við gerð slíkra samninga og varðstaða um íslenska hagsmuni byggist á því að fullveldi landsins sé tryggt.

Eitt af þeim verkfærum sem Íslendingar hafa til að standa vörð um fullveldið og til að verja hagsmuni sína er skilvirk utanríkisþjónusta. Nánast allir gildandi milliríkjasamningar sem Ísland á aðild að hafa verið gerðir og eru framkvæmdir með þátttöku utanríkisþjónustunnar, en hún er gríðarlega mikilvægt tæki til að efla sóknina og hagsmunagæsluna á alþjóðavettvangi.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Sem smáríki verður Ísland að fylgjast öðrum betur með þróun og horfum í alþjóðamálum og sigla á milli skerja í því brimróti sem blasir við á næstu áratugum. Smáríki á borð við Ísland geta ekki varið fullveldi sitt með efnahagslegu eða hernaðarlegu bolmagni. Ísland getur aðeins varið fullveldi sitt með trúverðugleika. Þess vegna skiptir öllu máli að við höldum vel á spöðunum. Við þurfum að halda áfram að byggja upp ímynd okkar á alþjóðavettvangi, bæði sem fullgilds þátttakanda í alþjóðaviðskiptum og samherja í samstarfi innan þeirra alþjóðastofnana sem við erum aðilar að. Þá þurfum við einnig að halda áfram að byggja upp jákvæða en jafnframt raunsæja sjálfsmynd. Það gerum við m.a. með ábyrgri efnahagsstjórn, uppbyggingu öflugra innviða í almannaþágu og góðum stjórnarháttum. — Góðar stundir.



[21:52]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Nú höfum við lesið stjórnarsáttmálann. Við höfum hlustað á stefnuræðuna. En við erum engu nær um það til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð. Var það bara vegna þess að hún var talin ívið skárri kostur en áframhaldandi óvissuástand, áframhaldandi stjórnarkreppa, sem fylgdi hinum undarlegustu kosningum síðari áratuga? Hver eru markmiðin, ég tala nú ekki um aðferðirnar? Við vitum það ekki og erum engu nær eftir umræðuna í kvöld.

Það var mjög lýsandi að þegar nýr forsætisráðherra var spurður að því í fjölmiðlum fyrir fáeinum dögum hvaða mál stæðu upp úr hjá nýrri ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar þá kom honum ekki annað til hugar en að nefna ríkisfjármálaáætlun, það væri líklega ríkisfjármálaáætlun sem stæði upp úr. Þetta er lögbundið plagg sem fjármálaráðherra leggur fram á hverju ári og það stendur upp úr hjá þessari ríkisstjórn á fyrsta þingi hennar. Ráðherrann hefði allt eins getað fylgt þessu eftir með því að segja að svo yrði líklega kosið í nefndir og síðan mætti vænta þess að það yrðu eldhúsdagsumræður einhvern tíma undir lokin. Það væri það sem stæði upp úr. Ekkert nýtt, engin stefna, engin sýn.

Þegar ríkisstjórn tók við árið 2013 var til staðar sýn en ekki aðeins sýn heldur líka stefna um það hvernig menn ætluðu að hrinda þeirri sýn í framkvæmd. Það var strax hafist handa við undirbúning og einungis sex mánuðum eftir að ríkisstjórnin tók við var ráðist í framkvæmd á risastórum breytingum. Hér segja menn okkur, svona í bland við einhverja frasa, að fyrsta árið fari í að meta stöðuna, meta heilbrigðiskerfið, peningastefnuna, kalla til fjölflokkasamráð, og líklega fjölþjóðlegt samráð líka, og svo sjái menn hvað komi út úr því.

En auðvitað ættum við að gleðjast, virðulegur forseti, yfir því sem er kannski einna mikilvægast við myndun þessarar ríkisstjórnar og það er að tvíhöfða flokkurinn Viðreisn/BF skuli hafa gefið eftir nánast öll megináhersluatriði sín úr kosningabaráttunni þegar stjórnin var mynduð, a.m.k. á pappírnum. En hvað gerist á bak við tjöldin? Formaður Viðreisnar/BF er alræmdur plottari að eigin mati. Hann tekur að sér að plotta, ekki einungis fyrir sjálfan sig heldur aðra líka. Hvaða plott bjó að baki þegar þessi ríkisstjórn var mynduð? Hvert var viðeigandi plott, svo ég noti orð formanns Viðreisnar, þegar ríkisstjórnin var mynduð? Hvað þurfti t.d. Sjálfstæðisflokkurinn að gefa eftir til þess að endurheimta Viðreisn og fylgitungl þess flokks og fá þá til fylgilags við sig?

Reyndar vakti athygli mína að nýr fjármálaráðherra sá ástæðu til að setja ofan í við nýjan forsætisráðherra þegar á kynningarfundi þar sem verið var að kynna ríkisstjórnina og sagði honum að hann ætti að passa sig að eyða ekki of miklu úr kassanum sem hann myndi halda utan um. Það er kannski ekki svo skrýtið því að ég hef aldrei áður heyrt formann Sjálfstæðisflokksins státa sig sérstaklega af því hversu mikið honum hafi tekist að auka útgjöld ríkissjóðs milli ára. Það held ég að hafi ekki gerst áður í sögu þess annars ágæta flokks fyrr en nú.

En hvað með allt hitt? Hvað með kröfur samtaka sem urðu til undir nöfnum á borð við Áfram Icesave og Já ESB? Hvert verður viðeigandi plott í samstarfi við þá flokka? Hvert verður viðeigandi plott þegar kemur að því að fara í gegnum hvers konar fjármálakerfi við ætlum að hafa í landinu, endurmeta það? Hvert verður viðeigandi plott í samskiptum við Evrópusambandið?

Nýr forsætisráðherra tók reyndar Seðlabankann með sér þegar kassarnir voru fluttir úr Arnarhvoli niður í Stjórnarráð. Hvers vegna gerði hann það? Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Hvað ætlar nýr forsætisráðherra sér með Seðlabankann? Það var reyndar nefnt að skoða ætti peningastefnuna, en hvernig? Sjálfstæðisflokkurinn vill, held ég, sjálfstæða peningastefnu, annar stjórnmálaflokkur myntráð og sá þriðji ganga í ESB og leysa málin þannig. Hvernig verður þetta leyst og hvernig verður tekist á við okurvextina og verðtrygginguna?

Að sögn vann núverandi forsætisráðherra að því árum saman, eða frá því snemma á síðasta kjörtímabili, að meta í fjármálaráðuneytinu hvernig staðið yrði að því að vinna sig út úr kerfi verðtryggingar. Skyldu þau blöð og sú vinna hafa fylgt í kössunum þegar flutt var úr Arnarhvoli í Stjórnarráðið eða skyldi sú vinna öll hafa farið í pappírstætarann? Það verður tíminn að leiða í ljós, virðulegi forseti. Tími minn er nánast á þrotum svo áform mín um að hrósa nokkrum ráðherrum — ekki mörgum — eru þar með farin út um þúfur í bili, en það vinnst tími til þess síðar.

Aðalatriðið er þetta: Með örfáum undantekningum er þetta ríkisstjórn með óljósa sýn, takmarkaða stefnu og engar leiðir til að hrinda henni í framkvæmd. En á meðan þessir flokkar eru í ríkisstjórn verðum við líklega að vonast til þess að það verði þannig áfram.



[21:58]
Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn í þessum ræðustól í kvöld. Ég vil koma til starfa á Alþingi með trú og von um góðan árangur, von um gott samstarf við allt það fólk sem þjóðin valdi til ábyrgðar.

Flestir flokkar töluðu um breytt vinnubrögð í aðdraganda kosninga og að traust þyrfti að ríkja um störf helstu lykilstofnana og fyrirtækja samfélagsins. Vantraust hefur ríkt og uppgjör efnahagshrunsins er ekki lokið. Við erum enn að endurskoða ákvarðanir, aðgerðir og eftir atvikum aðgerðaleysi sem hafði mikil áhrif á líf einstaklinga hér á landi. Skuldastaða margra fyrirtækja og heimila stökkbreyttist. Fólk hætti allt í einu að vera lántakendur og viðskiptavinir í banka og varð skuldarar með greiðsluvanda. Sumir fengu leiðréttingu án mikillar fyrirhafnar, en aðrir gátu ekki og höfðu ekki efni á að verjast og misstu mikið. Sumt af því verður aldrei bætt.

Það sem hægt er að bæta er hins vegar margt og vinnubrögð stjórnmálamanna er eitt þeirra. Nú er nefnilega tækifæri til að láta verkin tala og standa við stóru orðin. Okkur verður að auðnast að yfirvinna aðferðafræði gömlu stjórnmálanna þar sem hagsmunir stjórnmálaflokka, einstakra stjórnmálamanna og vildarvina þeirra voru teknir fram yfir hagsmuni heildarinnar.

Hér á þingi verður okkar að auðnast að vinna saman sem ein heild um málefni og hagsmuni almennings en ekki hrökkva strax í skotgrafir sem snúast um krepptan hnefa, gífuryrði og að slá pólitískar keilur. Umbjóðendur okkar hafa engan áhuga á að við stöndum hér inni og berjum okkur á brjóst yfir að hafa unnið slag sem snerist um völd. Þeir vilja sjá okkur leysa verkefni sem blasa við og gera það vel.

Nú er tækifæri til að skapa fyrirmyndarlandið sem forsvarsmönnum sumra stjórnmálaflokka hefur verið tíðrætt um. Nú er tækifæri til að þingmenn allra flokka sýni þá samstöðu sem þjóðin kallar eftir. Nú er tækifæri til að allir flokkar starfi í anda umbóta og sátta.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar leggur hér af stað með verðug markmið um uppbyggingu grunnþjónustu og samfélagslegra innviða. Ég ber þá von í brjósti að við náum sátt um að móta skýra stefnu í mikilvægum málaflokkum eins og t.d. heilbrigðisþjónustu, menntamálum, ferðamálum, umhverfismálum og útlendingamálum, að við náum að snúa við þeirri þróun að hér sé eilíft verið að bregðast við vanda eftir að hann kemur upp. Við eigum að vera fyrri til og vera viðbúin þegar vandinn kemur upp. Best væri ef við gætum komið í veg fyrir hann. Við gerum það ekki öðruvísi en með því að skoða stöðu okkar og rýna inn í framtíðina, vinna eftir skýrri stefnumörkun sem allir hafa komið að. Við eigum að greina viðfangsefnin, skilgreina þjónustu, setja okkur markmið og búa til leiðir saman.

Í mínum huga eru þingmenn og stjórnmálaflokkar ekki annaðhvort með eða á móti. Við erum ekki við og þið. Við erum öll í sama liði. Okkur var falið mikilvægt verkefni þar sem hagsmunir þjóðarinnar liggja undir, ekki hagsmunir stjórnmálaflokka eða okkar þingmanna. Mörg þeirra verkefna sem finna má í stefnuyfirlýsingu og í þeim þingmálum sem lögð verða fram á vorþingi eru mál sem allir flokkar lögðu ríka áherslu á í aðdraganda kosninga. Nú mun reyna á það hvort þeim flokkum sem ekki eiga aðild að núverandi ríkisstjórn var alvara með þeim yfirlýsingum um að vinnubrögð í stjórnmálum þörfnuðust yfirhalningar.

Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa ekki annað í hyggju en að eiga gott samstarf við alla flokka á þingi hér eftir sem hingað til. Þannig og bara þannig getum við fundið bestu mögulegu lausn mála. Það er einlæg von mín að aðrir þingmenn séu sama sinnis. Ég ætla mér að vinna af heiðarleika í þessu samstarfi þriggja flokka sem myndað hafa meiri hluta og samstarf við þá flokka sem ekki eiga aðild að ríkisstjórn. Ég vil að þjóðin geti treyst mér. Ég vil að þjóðin geti treyst valdhöfum og helstu lykilstofnunum samfélagsins. Ég vil að menn komi hér hreint fram og tengi sig hagsmunum þjóðarinnar sem kaus okkur til valda. Þannig og aðeins þannig náum við árangri.



[22:03]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Við höfum í kvöld hlýtt á stefnuræðu forsætisráðherra og umræður og viðhorf stjórnmálaflokka á Alþingi en nýrri ríkisstjórn fylgja góðar óskir um velfarnað í öllum sínum verkefnum.

Stefnuræða forsætisráðherra var ljóðræn á köflum og full með fögrum fyrirheitum eins og komið hefur fram. Mörgum þótti nýleg stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar vera fátæk að innihaldi, lítið vera sem hönd á festi og flest leysast upp í fyrirvara og viðtengingarhætti. Eftir umræður kvöldsins er þetta enn blindingsleikur. Hverjar eru áherslurnar þegar til kastanna kemur? Hver er sýn nýrrar ríkisstjórnar um bætt og betra samfélag fyrir alla?

Fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra að gildi eða leiðarstef ríkisstjórnarinnar eru af tvennum toga og heita jafnvægi og framsýni, rammíslensk hugtök sem vekja jákvæð hughrif. En hvað tákna þau raunverulega í huga þeirra sem nú fara með húsbóndavaldið? Heitir það jafnvægi að standa vörð um óbreytt ástand og skiptingu sameiginlegra gæða landsmanna eða þetta stöðuga, góða samband milli stjórnvalda og þeirra sem ráða yfir dýrmætustu auðlind þjóðarinnar gegn málamyndaafnotagjaldi? Er skilningurinn sá að ekki megi hrófla við þeirri kyrrstöðu og því jafnvægi sem ríkt hefur undanfarin ár um lífskjör barnafjölskyldna, aldraðra og þeirra sem hafa skerta starfsorku?

Frú forseti. Góðir landsmenn. Það eru allir sammála um að efnahagslegt jafnvægi, stöðugleiki og ábyrg fjármálastjórnun sé hornsteinn velferðar. Á hinn bóginn hefur ríkt smánarlegt ójafnvægi gagnvart stórum hluta þegnanna, hið efnahagslega og félagslega ójafnvægi. Það er ekki sæmandi í velferðarsamfélagi að þúsundir einstaklinga eigi tæplega til hnífs og skeiðar. Við vitum líka að í landinu býr fámennur hópur sem hefur ofgnótt fjár handa á milli og því miður eru engin merki um að nýrri ríkisstjórn sé kappsmál að draga úr ójöfnuði og vinna að auknu réttlæti og sanngirni að þessu leyti. Er þetta jafnvægið sem forsætisráðherra á við? Ef eitthvað er hefur óréttlætið eitt verið stöðugt í jafnvægi og því verður að aflétta.

Framsýni er annað leiðarstef nýrrar ríkisstjórnar. Það verður tæplega sagt um Sjálfstæðisflokkinn sem hefur verið ráðandi stjórnmálaafl í áratugi á Íslandi að framsýni hafi verið í forgrunni eða ábyrgð og umhyggja fyrir náttúru og umhverfi þessa lands. Viðreisnarbrot Sjálfstæðisflokks fylgir nú gagnrýnislítið sínum gamla húsbónda og sú hætta vofir yfir að horft sé til framtíðar, bjartrar framtíðar eftir atvikum, á nákvæmlega sama hátt og áður, með hagsmuni útvalinna í huga. Ný kynslóð kallar hins vegar eftir annarri hugsun, öðrum leiðum, og virðingu fyrir sameiginlegum eigum landsmanna, náttúru og auðlindum.

Við í Samfylkingunni, frú forseti, hvetjum almenning til að gleyma ekki kosningaloforðum stjórnarflokkanna. Hengið þau á ísskápinn í eldhúsinu, límið þau á rúmstokkinn í svefnherberginu, látið þau ekki hverfa úr huganum. Hin góðu mál jafnaðarmanna hafa reynst þeim haldgóð til skyndinota en efndir að engu orðið. Við höfum dæmin ljóslifandi fyrir okkur. Dýrmæt gildi okkar um aukinn jöfnuð, sanngjarna skiptingu gæðanna, samhjálp og réttlæti í þágu almennings eru hins vegar sígild og fyrir þeim munum við jafnaðarmenn áfram berjast, fáliðuð um sinn á þingi.

Góðir landsmenn. Hávær umræða var um heilbrigðismál á nýliðnu ári sem snerist að umtalsverðu leyti um Landspítala og þann vanda sem blasir við starfseminni, bæði í rekstri og aðstöðuleysi. Spítalinn gegnir eins og allir vita lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu landsmanna og ekki verður undan því vikist að skapa honum grundvöll til eðlilegrar starfsemi. Fleiri þættir heilbrigðisþjónustunnar valda áhyggjum og brýnt að horfa til þeirra. Heilsugæslan, grunnþjónustan er í lamasessi í Reykjavík og ekki síður á landsbyggðinni. Á allflestum heilsugæslustöðvum þar er læknisþjónusta veitt að hluta til eða öllu leyti í skammtímaverktöku. Svona hefur þetta verið frá efnahagshruni þegar stofnanir lutu allt að fjórðungsniðurskurði í fjárveitingum og bera enn ekki barr sitt. Þetta er eitt dæmi af mörgum þar sem landsbyggðin fer halloka og nýtur ekki jafnræðis. Fyrirheit nýrrar ríkisstjórnar er að vinna að stefnumótun í heilbrigðisþjónustu og krafan er vitaskuld sú að hugað verði að endurreisn á öllu landinu.

Frú forseti. Kæru landsmenn. Ný ríkisstjórn tekur við þegar vel árar, atvinnuvegir í blóma, afkoma góð og ytri aðstæður jákvæðar. Þegar svona háttar til eigum við að hefja raunverulega endurreisn velferðarsamfélagsins þar sem enginn er undanskilinn og allir eru með. Ef það verður raunin gleðjast sannir jafnaðarmenn þúsundum saman, hvar sem þeir eru í sveit settir á Íslandi.

Góðir landsmenn. Eigið góðar stundir.