146. löggjafarþing — 19. fundur
 26. janúar 2017.
fjármálastefna 2017–2022, frh. fyrri umræðu.
stjtill., 66. mál. — Þskj. 123.

[14:35]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er lögð fyrir þingið tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu í samræmi við lög um opinber fjármál. Það sem verður að hafa í huga áður en við ræðum þessa tillögu sérstaklega er bakgrunnur hennar sem er lagaramminn um opinber fjármál. Það var auðvitað ekki einhugur í þingsal um þær fjármálareglur sem urðu að lögum í lagarammanum þar sem miðað er við tiltekinn heildarjöfnuð, tiltekna skuldastöðu og sett ákveðin skilyrði. Um þetta var talsvert tekist á í þessum sal þegar við ræddum lögin um opinber fjármál og þau voru gagnrýnd af ýmsum hagfræðingum fyrir nákvæmlega þetta atriði, þ.e. fjármálaregluna sem slíka. Fjármálareglur sem slíkar sem eru settar í lögum um opinber fjármál eru gríðarlega pólitískar reglur. Þetta eru ákveðin hagstjórnarmarkmið sem ég hefði talið eðlilegt að væru ekki lögbundin með þeim hætti sem er gert í lögum um opinber fjármál, heldur væru þau hluti af fjármálastefnu hverrar ríkisstjórnar. Mér finnst í sjálfu sér óeðlilegt að lögbinda slík markmið á þann hátt sem gert var í lögum um opinber fjármál. Ég tel að þau hindri svigrúm ríkisstjórnar á hverjum tíma til þess að nýta hagstjórnina til sveiflujöfnunar.

Við sjáum það strax á þessari tillögu að stefnu sem hér er lögð fyrir að nákvæmlega þannig birtast þessi lögbundnu markmið. Ég ætla ekki að kalla hæstv. fjármálaráðherra einan til ábyrgðar fyrir því, þetta er auðvitað samkvæmt lögum sem voru samþykkt á Alþingi af meiri hluta á sínum tíma, en ég tel að alls ekki hafi farið fram nægjanleg umræða um markmiðin, til að mynda úti í samfélaginu. Það má segja að hún hafi verið mjög af skornum skammti þó að einstaka fjölmiðlar hafi tekið þessi mál upp. Þarna er í raun og veru verið að lögbinda tiltekna hagstjórnarstefnu. Alveg sama hvaða skoðun maður hefur pólitískt þá getur maður velt því upp hversu eðlilegt það er að lögbinda slíka stefnu. Á sínum tíma var því svarað til að það gæti þá verið nýs meiri hluta að endurskoða markmiðin, en ég les þessa tillögu sem svo að ekki sé vilji til að breyta markmiðunum. Það er kannski ekki skrýtið í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn fer fyrir ríkisstjórninni og lagði mikla áherslu á þessi markmið á sínum tíma.

Af hverju hef ég áhyggjur af þessum fjármálareglum? Jú, ég tel að þær bindi mjög hendur framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins til þess að taka ákvarðanir um innspýtingu í þau kerfi sem við teljum að þarfnist innspýtingar. Við sjáum það strax á þessari tillögu sem ég benti á áðan í stuttu andsvari að hún er mjög aðhaldssöm. Hér er lögð til mjög aðhaldssöm stefna. Áherslan er fyrst og fremst á að niðurgreiða skuldir og fjármagna lífeyrisskuldbindingar eins og kemur fram í 3. lið. Það er ekki lagt til að nýta einskiptisgreiðslur inn til þess að fara í einhvers konar innspýtingu í samgöngumál þrátt fyrir gríðarlega uppsafnaða þörf á því sviði. Hér er sett ákveðið markmið um að heildarútgjöld verði ekki umfram 41,5% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu.

Við erum oft ekki að tala um sömu hlutina þegar við ræðum hvað við eigum við þegar við tölum um útgjöld ríkisins. Heildarútgjöld ríkisins eru í raun og veru allt sem fer úr ríkissjóði, þar með talið vaxtagjöldin, millifærslukerfið, fjárfestingar. Allt slíkt. Tökum sem dæmi búvörusamninga sem gætu heyrt undir millifærsluna. En þegar við tölum um samneysluna þá eigum við við það sem við getum kallað rekstur stofnana ríkisins; heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir eða hvað það er. Þegar við reynum að átta okkur á samneyslunni, þ.e. rekstri og þjónustu eins og hún er skilgreind af Hagstofunni, þá var samneyslan á árinu 2015 23,61%. Það er samneysla hins opinbera, þetta sem við erum alltaf að tala um í þessum sal, sem er í senn okkar stóra bitbein en líka áherslumál, það eru velferðin, menntakerfið, þessi mikilvægu mál fyrir allan almenning í landinu.

Samneyslan hefur farið niður á við hér á landi. Við sjáum það klárt og kvitt þegar við skoðum hvernig samneyslan hefur verið að þróast hér og þegar við berum þróunina á Íslandi saman við önnur Norðurlönd. Þegar Íslendingar tala um að velferðarkerfið sé ekki jafn öflugt hér og annars staðar á Norðurlöndum og að menntakerfið sé ekki jafn öflugt hér og annars staðar á Norðurlöndum, þetta er sígild umræða, sjáum við það svart á hvítu þegar við berum saman samneysluna í þessum ríkjum. En við verðum líka að átta okkur á því að tekjuöflunin er með öðrum hætti. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að greiðsluþátttaka sjúklinga er hærri hér er annars staðar á Norðurlöndum. Skattarnir, hinir almennu skattar, eru líka hærri annars staðar á Norðurlöndum en hér, en á móti kemur meiri þjónusta og lægri gjöld á sjúklinga.

Þetta er auðvitað grundvallar pólitískt spursmál. Því hefur nú stundum verið haldið fram að vinstri og hægri séu úrelt hugtök í pólitískri umræðu, en þetta eru lykilhugtök þegar við ræðum stefnumótandi plagg á borð við þá ríkisfjármálastefnu sem hér hefur verið lögð fram. Hún endurspeglar í grundvallaratriðum muninn á vinstri og hægri, því hún er íhaldssöm. Hér er ekki lögð til aukin tekjuöflun til lengri tíma. Það kom skýrt fram hjá hæstv. ráðherra í framsögu hans áðan að ekki væri fyrirhugað að auka tekjuöflun, hugsanlega að breyta tekjuöfluninni en ekki auka hana. Á sama tíma eru sett skýr viðmið um heildarútgjöld sem segja þó ekki alla sögu því þau endurspegla ekki þennan þátt samneyslunnar.

Ef við miðum við það sem stendur í greinargerð, sem snýst um að heildarútgjöld muni ekki aukast, þá getum við dregið þá ályktun að samneyslan muni þar af leiðandi ekki aukast frá því sem hún er á árinu 2015, 23,61%. Á sama tíma erum við með opinbera fjárfestingu sem hefur verið í sögulegu lágmarki. Um það er ekki deilt. Það eru bara staðreyndir. Sú opinbera fjárfesting sem við höfum séð hefur kannski fyrst og fremst farið fram í gegnum opinber félög í eigu ríkisins. Það er ástæðan fyrir því að það er algjörlega ófullnægjandi ástand í samgöngumálum. Það skiptir engu máli hvort við erum að tala um ástand vega, fjölda einbreiðra brúa, snjómokstur eða nýframkvæmdir. Hér sameinuðust þingmenn úr öllum flokkum fyrir örfáum mánuðum um metnaðarfulla samgönguáætlun sem ekki var svo fullfjármögnuð í fjárlögum þessa árs. Við sjáum ekki neinar stórar breytingar á því í þessari ríkisfjármálastefnu.

Nú er það rétt sem hæstv. ráðherra kom að í framsögu sinni áðan að við getum ekki rætt einstaka málaflokka fyrr en við fáum ríkisfjármálaáætlun. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að hún mun verða til umræðu í mars/apríl eða þar um bil. Þá fáum við auðvitað miklu betra tækifæri til þess að ræða hina einstöku málaflokka. Hér erum við með hinar stóru línur. En ég hef verulegar áhyggjur af því ef ætlunin er að halda í raun óbreyttri ríkisfjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar því að það hefur komið fram að þannig liggur í því. Þetta er nánast óbreytt stefna. Þá sjáum við ekki fram á þá uppbyggingu sem ég held að almenningur kalli eftir. Nú er alltaf vandmeðfarið að tala fyrir munn einhvers óskilgreinds almennings, en þó höfum við ýmislegt til að byggja á. Ég nefni 86.000 undirskriftir Íslendinga sem skrifuðu með opin augu undir þá kröfu að framlög til heilbrigðismála ættu að fara upp í 11% af vergri landsframleiðslu. Hér hafa hv. þingmenn í gegnum þá umræðu sagt: Ja, vissi fólk eitthvað hvað það var að skrifa undir? Jú, vitið þið, ég hef alveg trú á því að fólk viti vel hvað það er að gera þegar það kýs í kosningum eða skrifar undir slíkar kröfur. Ég held að fólk viti bara ósköp vel hvað það er að gera. Ég hef trú á fólki. Þetta er krafa frá almenningi í landinu ef við getum orðað það þannig. Við verðum ekki við þeirri kröfu ef Alþingi ætlar að fylgja þessari stefnu, eða ég segi nú meiri hluti Alþingis. Mér er til efs að minni hlutinn, a.m.k. ekki Vinstri hreyfingin – grænt framboð, muni kvitta upp á þessa stefnu. Þá komum við ekki til móts við kröfur almennings í landinu um verulega aukin útgjöld til heilbrigðismála.

Ég hef líka áhyggjur af því að menntamálin fái ekki þau auknu framlög sem þau sannarlega þurfa ef meiri hlutinn ætlar að standa við þær væntingar sem hann er búinn að gefa um að efla öll skólastig, hvernig sem hann ætlar að fara að því, því að ekki eru þau nú öll á hendi ríkisins, ef við tökum bara einfalda hluti eins og OECD-viðmiðin og Norðurlandaviðmiðin þegar kemur að fjármunum á hvern nemanda. Nema þessi nýja ríkisstjórn ætli líka að taka upp stefnu fyrri ríkisstjórnar um að fækka hreinlega nemendum. Það verð ég að segja að er ekki nógu metnaðarfull stefna að mínu viti ef við ætlum að efna til sóknar í þeim málaflokki.

Tími minn er útrunninn, frú forseti. Ég hef því ekki fleiri orð að sinni.



[14:45]
Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hennar greinargóðu ræðu. Mig langar að spyrja, fyrst og fremst mér til upplýsingar sem nýjum þingmanni, hvað það er nákvæmlega í lögum um opinber fjármál sem hún telur að sníði þinginu og þá framkvæmdarvaldinu of þröngan stakk til að geta brugðist við á þann hátt sem hún myndi vilja. Hverju myndi hún vilja breyta í þeim lögum til þess að þau lög veittu henni nægjanlegt svigrúm til þess að bregðast við?



[14:46]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þekkir lög um opinber fjármál þar sem þessar fjármálareglur eru settar, þ.e. að heildarjöfnuðurinn yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður, árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu og fleiri slík skilyrði. Gagnrýni okkar í Vinstri grænum er sú að með því að setja slík hagstjórnarleg skilyrði í lög sé verið að setja pólitíska stefnu inn í lagaramma. Við teljum, þó að því hafi verið haldið fram, og það kemur auðvitað fram í greinargerð, að ef einhvers konar áföll ríða yfir, og við getum velt fyrir okkur hver ætli að skilgreina þau áföll — að það sé óþarfi að við mörkum framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma jafn þröngan ramma um þá hagstjórn sem framkvæmdarvaldið á hverjum tíma vill beita, því að lög hafa að sjálfsögðu gildi.

Okkar skoðun er sú að það væri mun eðlilegra að slíkar reglur, þó að þær séu ekki þau sömu og Maastricht-skilyrðin, væru á einhvern hátt sambærilegar reglur. Maastricht-skilyrðin má rökstyðja þannig að þau skipta máli fyrir alþjóðlegt samstarf nokkurra þjóða þar sem þarf að hafa einhvers konar slík skilyrði. En þar sem við erum ekki í slíku alþjóðlegu samstarfi spyr ég: Af hverju er það ekki ríkisstjórnarmeirihluta á hverjum tíma að setja sér sín hagstjórnarmarkmið fremur en að binda í lög frekar aðhaldssöm hagstjórnarmarkmið um tiltekinn halla, tiltekna skuldastöðu, tiltekinn afgang, sem felur að okkar mati í sér takmarkanir á getu ríkisins til þess að jafna sveiflur? Það er stóra gagnrýnin á fjármálareglurnar.

Raunar voru önnur atriði í þessum lögum sem ég hefði gert athugasemdir við og ég nefndi áðan í andsvari. Þær varða fyrst og fremst við framkvæmd laganna sem varða aðhaldshlutverk Alþingis. Ég get kannski komið að því í seinna andsvari við hv. þingmann.



[14:48]
Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir svarið. Mig langar að fá örlítið nánari útlistanir á því. Þarna er verið að setja ákveðin hagstjórnarviðmið inn í lög, væntanlega til þess að auka fyrirsjáanleika ríkisfjármála fram í tímann og um leið að auka trúverðugleika í ríkisrekstri. Er það þá hennar skoðun að engar slíkar viðmiðanir ættu að vera í lögum, að ríkisstjórn hvers tíma ætti einfaldlega að leggja þær fyrir sig í sinni áætlun, eða er það hennar skoðun að einhverjar slíkar viðmiðanir mættu vera til staðar? Hverjar þá?



[14:49]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er almennt fylgjandi þeirri hugsun sem birtist í lögum um opinber fjármál um að eðlilegt sé að ríkið geri sér fimm ára áætlanir. Það eitt og sér finnst mér skipta mjög miklu máli. Það skiptir máli fyrir stofnanir sem starfa innan ríkisins, hvaða væntingar þær geta gert sér um framlög og annað slíkt. En þegar búið er að lögbinda það til að mynda að ef skuldir ríkisins fara yfir tiltekið hlutfall skuli þær lækka um tiltekið hlutfall árlega, þá spyr ég: Hvert er þá svigrúm framkvæmdarvaldsins til þess að forgangsraða fjármunum til velferðar- og menntamála, segjum á krepputímum, í stað þess að lækka skuldir? Ekki samkvæmt lögunum. Þá var því svarað hér til að þá mætti nú bara taka lögin úr sambandi. Ókei, ef taka má lögin úr sambandi, af hverju erum við þá með það yfir höfuð í lögum? Er þá ekki bara eðlilegra að hver og ein ríkisstjórn marki sér stefnu sem miðast við stöðu efnahagsmála á hverjum tíma og pólitíska sýn hverrar ríkisstjórnar? Þessi markmið einkennast mjög af þeirri niðurskurðarstefnu sem rekin hefur verið til að mynda innan Evrópusambandsins á undanförnum árum sem viðbrögð við kreppu sem hefur fyrst og fremst orðið til þess, að mínu viti og margra hagfræðinga, að framlengja þá kreppu, dýpka hana, og það bitnar verulega á útgjöldum ýmissa ríkja ESB til velferðar- og menntamála.

Síðan vil ég segja hvað varðar lög um opinber fjármál að þeim fylgdu fjárveitingar til allra ráðuneyta til að innleiða hina breyttu aðferðafræði við að skipuleggja fjármál ríkisins. Ég styð það. Það er mjög gott. En Alþingi fékk ekki aukafjárveitingu til þess að þingmenn geti sinnt hér sínu mikilvæga aðhaldshlutverki við það að fylgja því eftir hvernig fjármunum ríkisins er dreift. Það er stærsta og mikilvægasta verkefni þingsins á hverjum tíma. Þetta er pólitísk stefnumótun meiri hlutans og það er mjög mikilvægt að minni hlutinn taki líka þátt í þeirri stefnumótun. En Alþingi hefur því miður ekki fengið nægjanlegt svigrúm til að fylgja eftir sínu lögboðna hlutverki. Ég leyfi mér að segja að ég hef áhyggjur af hlutverki Alþingis þegar kemur að fjárstjórnarvaldinu, sem samkvæmt (Forseti hringir.) stjórnarskrá liggur hér og hvergi annars staðar. Ég tel að Alþingi hafi ekki verið gefið nægjanlegt svigrúm til að sinna því hlutverki.



[14:52]
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við stígum stórt og ánægjulegt skref í dag þar sem þetta er í fyrsta sinn sem ríkisstjórn á Íslandi leggur fram fjármálastefnu í upphafi kjörtímabils, fjármálastefnu til næstu fimm ára sem byggist á ákveðinni varfærni, stöðugleika, festu, gagnsæi og síðast en ekki síst öryggi og framsýni. Við erum loksins að treysta umgjörð opinberra fjármála og innleiða nauðsynlegan aga í ríkisfjármálin.

Hér er horft til framtíðar og hér setjum við langtímamarkmið um bætta efnahagslega stöðu ríkissjóðs þar sem dregið er verulega úr skuldum hans og jafnframt forgangsraðað í þágu grunnstoða samfélagsins. Ólíkt því sem við höfum áður fengið að kynnast er ekki ráðgert að seilast dýpra ofan í vasa skattgreiðenda. Við ætlum að lækka skuldir og forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar án þess að leggja auknar byrðar á fólkið í landinu. Það á að vera sameiginlegt markmið okkar að nýta uppsveifluna í efnahagslífinu til að byggja upp til framtíðar. Þannig hefur það þó ekki alltaf verið. Við þekkjum fjölmörg dæmi á liðnum árum um skammsýna stjórnmálamenn sem hafa unnið að því að auka umsvif ríkisins á öllum sviðum, blása ríkisbáknið út burt séð frá því hvort á því var nokkur nauðsyn. Reikningurinn var síðan bara sendur næstu kynslóð, skattgreiðendum framtíðarinnar. Stjórnmálamenn hafa verið, og eru sumir hverjir enn, ósparir á annarra manna fé og telja ekkert athugavert við stóraukin og ósjálfbær útgjöld ríkissjóðs ár eftir ár.

Það er fagnaðarefni að nú, með fjármálastefnu hins opinbera til næstu fimm ára, sé sköpuð umgjörð til að horfa fram á veginn, til að gera vel í dag og að það sem gert er gagnist jafnframt framtíðarkynslóðum. Það þurfum við að einhenda okkur í að gera á fleiri sviðum stjórnmálanna. Þau eiga ekki einungis að snúast um þetta kjörtímabil, heldur um framtíðina.

Frú forseti. Staða ríkissjóðs er góð en hún er líka vandmeðfarin. Það er bjart fram undan svo lengi sem við fylgjum ábyrgri fjármálastefnu, ekki bara með okkar hag heldur hag framtíðarkynslóða að leiðarljósi. Skuldir dagsins í dag eru nefnilega skattar framtíðarkynslóða og það er ekki bara frasi heldur staðreynd. Þrátt fyrir hraðan viðsnúning á allra síðustu árum býr ríkissjóður enn við einhverja þyngstu vaxtabyrði í Evrópu. Þess vegna verðum við að leggja okkur öll fram til þess að draga úr skuldum ríkisins. Mikið verk er fyrir höndum. Við verðum t.d. að þora að horfa til sölu ríkiseigna sem mikilvægrar og ekki síður nauðsynlegrar leiðar til að grynnka á skuldum og lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Þannig yrði ríkissjóður betur í stakk búinn til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar á næstu árum þar sem allir eru sammála um að víða sé úrbóta þörf. Við hljótum öll að geta verið sammála um að útgjöldum ríkisins er ekki best varið í vaxtakostnað.

Með lægri ríkisskuldum skapast einnig aukið svigrúm til að lækka skatta, bæði á heimilin og fyrirtækin í landinu. Allt of lengi hafa stjórnmálamenn litið á skattgreiðendur sem óþrjótandi uppsprettu fjármagns. Því viðhorfi og þeirri vanvirðingu í garð vinnandi fólks þarf að eyða.

Helmingur þeirra þingmanna sem nú hafa tekið sæti á Alþingi er nýr. Nú á sér stað kynslóðabreyting þar sem ungu fólki er treyst fyrir krefjandi verkefnum. Ég vona að í krafti þessara umskipta munum við í frekara mæli sjá tækifæri í nýrri hugsun, að við leysum ekki verkefnin á sama hátt og gert hefur verið í áraraðir heldur stöldrum við og veltum fyrir okkur af alvöru hvert hið raunverulega hlutverk ríkisins er. Í því sambandi ætti ekki að vera neinn vafi um það að tryggja lögreglu og Landhelgisgæslu nægilegt fjármagn til að tryggja öryggi. Nýlegir og því miður jafnframt sorglegir atburðir í okkar þjóðfélagi hafa undirstrikað mikilvægi þess að vel sé búið að þessum aðilum enda ættu allir að vera sammála um að verkefni þeirra séu meðal þess að vera raunverulegt hlutverk ríkisins.

Virðulegi forseti. Íslendingar hafa, því miður, fengið að kynnast of mörgum og of miklum sveiflum í hagkerfinu. Okkur hefur tekist illa að tryggja stöðugleika og við virðumst of oft missa tökin, ekki síst þegar vel gengur. Áskorun okkar nú er að viðhalda þeirri góðu stöðu sem við búum við í dag og styrkja um leið þær stoðir sem velferð okkar og öryggi hvílir á. Útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu eru eiginlega hvergi hærri meðal þróaðra ríkja en á Íslandi. Ef enn skortir fé í viss verkefni, sem við erum sammála um að geri, hlýtur vandamálið að liggja í augum uppi. Það felst í rangri forgangsröðun og nýtingu þeirra fjármuna sem fyrir eru.

Það þarf kjark til að búa í haginn fyrir framtíðina, ekki síst þegar vel árar í hagkerfinu eins og nú. Það að sýna ábyrgð og festu er ekki alltaf fallið til vinsælda, til skemmri tíma litið, en til lengri tíma er það þó nauðsynlegt. Það er von mín að þessi ríkisstjórn standi undir þeirri ábyrgð sem henni er falin, vandi til verka og sinni því sem raunverulega skiptir máli, að halda hagkerfinu gangandi og skapa svigrúm fyrir atvinnulífið til að unnt sé að bæta hag og tryggja öryggi almennings. Sú fjármálastefna sem nú er lögð fram er meðal fyrstu skrefa af mörgum til þess.



[14:58]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óska hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur innilega til hamingju með jómfrúrræðuna. Hún var flott eins og allt sem kemur frá hv. þingmanni, flutti hana vel þó að ég sé sannarlega ósammála nánast held ég hverju einasta orði sem hún sagði. [Hlátur í þingsal.]

Ég vil líka fá að nota tækifærið og óska henni til hamingju með formennskuna í allsherjar- og menntamálanefnd, því að ég er sannfærð um að hún mun sinna því verkefni eins vel og hún hefur sinnt öðrum verkefnum sem hún hefur tekið að sér.

Ég vil hins vegar gjarnan, vegna þess að ég veit hversu vel þingmaðurinn hefur staðið sig sem stjórnmálamaður þrátt fyrir að vera með skoðanir mjög ólíkar mínum, fá að spyrja hv. þingmann hvort hún telji, því að það er eitthvað sem ég veit að við erum sammála um að mikilvægt sé að huga að, að það sé svigrúm innan þessarar fjármálastefnu að framfylgja stjórnarsáttmálanum sem snýr að fötluðu fólki, sérstaklega varðandi þá innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð og raunar þeim auknu kröfum sem ég veit að hagsmunasamtök fatlaðs fólks hafa verið að leggja áherslu á varðandi innleiðingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.



[14:59]
Forseti (Jóna Sólveig Elínardóttir):

Forseti vill taka undir hamingjuóskir til 4. þm. Reykv. n. sem nú kemur og svarar andsvari.



[14:59]
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Takk fyrir þetta. Ég hlakka sömuleiðis til að starfa með hv. þingmanni í allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég held að það sé alveg ljóst þegar við ræðum um forgangsröðun í ríkisrekstri að við einblínum á nokkur atriði og það fá. Það var einmitt það sem ég var að koma að í ræðunni, að við þurfum að hugsa hvert hlutverk ríkisins er. Hlutverk ríkisins, það væri kannski hægt að setja það saman í fimm atriði, eru heilbrigðismál, menntamál, samgöngur, öryggismál ríkisins og svo eru það auðvitað velferðarmál og almannatryggingar. Þar fellur undir að sjá þeim fyrir góðu lífi sem ekki geta gert það sjálfir og að tryggja frelsi fatlaðra einstaklinga til eigin lífs. Við höfum það í ríkisstjórnarsáttmálanum að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð sem eitt af meginformum þjónustu við fatlað fólk og það rýmist innan þessarar forgangsröðunar. En þar sem þarf að gæta sín í eyðslu er á öðrum sviðum en þessum og þar þurfum við að endurhugsa hlutina.



[15:01]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir svarið. Það var gott eins og ég vissi að það yrði.

Til viðbótar vil ég benda á að áætlaður hefur verið umtalsverður kostnaður sem felst í innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. En jafnframt hefur verið kynnt að ætlunin sé líka að fara að taka upp starfsgetumat og breytt lífeyriskerfi fyrir öryrkja. Þar eru að sjálfsögðu fatlaðir einstaklingar líka sem treysta á alla sína framfærslu úr almannatryggingum.

Gróft kostnaðarmat hefur verið á bilinu 2–5 milljarðar við það að fara í þær breytingar sem nú liggja fyrir varðandi starfsgetumatið og breytt lífeyriskerfi. Má þá líka túlka það þannig að þeir fjármunir muni finnast fyrir árið 2017 til að tryggja framfærslu fatlaðs fólks?



[15:02]
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég ætla ekki að lofa því fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að þeir fjármunir finnist, en ég ætla að lofa því fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að hún muni einhenda sér í að bæta í almannatryggingakerfið eins og gert var á síðasta kjörtímabili í greiðslum fyrir eldri borgara þar sem það kerfi var allt lagað, farið var í stórar kerfisbreytingar fyrir málefni eldri borgara. Það sama erum við að fara að gera fyrir öryrkja. Það er ein af grundvallarstoðum þess sem ríkið á að sjá um.



[15:02]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fjármálastefnan fyrir árin 2017–2022 er nú lögð fram í samræmi við lög um opinber fjármál. Í 10. gr. þeirra laga stendur, með leyfi forseta:

„Ef grundvallarforsendur fjármálastefnu bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna, sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum, skal ráðherra leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um breytingar á stefnunni eins fljótt og kostur er.“

Við erum hér ekki að ræða eitthvert lítið og léttvægt plagg þó að textinn sé ekki upp á margar síður. Þetta er stefna sem sett er fyrir næstu fimm ár, eða fyrir kjörtímabilið. Henni má ekki breyta nema eitthvað stórkostlegt komi upp á. Þess vegna er svo mikilvægt að fara mjög vandlega yfir allar forsendurnar, yfir rammann sem settur er. Fjármálaráðið, sem á líka samkvæmt lögum um opinber fjármál að meta stefnuna og athuga hvort hún sé í samræmi við fjármálareglurnar og þau gildi sem eru undir lögunum um opinber fjármál, mun skila umsögn sinni eftir tvær vikur. Fjárlaganefndin mun síðan auðvitað fara mjög vandlega yfir þetta allt saman. Ég hlakka til að fá umsögn fjármálaráðsins sem væntanlega er þá með aðgang að gögnum sem við höfum ekki enn fengið að sjá sem eru undir þessari stefnu.

Eins og fram hefur komið í umræðunum voru deilur um 7. gr. laganna um opinber fjármál þegar við vorum að fara yfir lögin um opinber fjármál og eins um greinarnar þar á eftir, um fjármálareglurnar. Að öðru leyti voru þau lög samþykkt í góðri sátt enda komu að samningu þess frumvarps fjórir fjármálaráðherrar. Fjármálareglurnar komu nýjar inn og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra lagði áherslu á að þær yrðu þar inni þrátt fyrir óeiningu sem um þær eru.

Talað er um það í texta með stefnunni að mikilvægt sé að nota ríkisfjármálin til sveiflujöfnunar, en greinarnar í opinberu fjárlögunum takmarka einmitt þann sveigjanleika að nota megi öryggisfjármálin til sveiflujöfnunar.

Talað er um efnahagshorfur í greinargerð með stefnunni. Meðal annars kemur fram að gert er ráð fyrir kröftugum hagvexti á árinu 2017, eða um 5%, og að hann verði í kringum 3% á síðari hluta tímabils. Innlend eftirspurn, einkum einkaneysla, atvinnuvegafjárfestingar og vöxtur ferðaþjónustu eru þar aðaldrifkraftarnir. Dregið er fram í greinargerð um efnahagshorfurnar, eins og fram hefur komið í mörgum öðrum greiningum frá opinberum stofnunum og öðrum, að það eru veikleikamerki og hættumerki í hagkerfinu núna. Þar er alltaf dregið fram að ósjálfbær vöxtur ferðaþjónustunnar feli í sér hættumerki ef þetta heldur áfram svona. Vöxturinn hefur áhrif á gengið, hann hefur á styrkingu krónunnar og á spennu á húsnæðismarkaði, einkum á ákveðnum landsvæðum o.s.frv. Allt hefur þetta stórkostleg efnahagsleg áhrif. Það hlýtur að vera, virðulegur forseti, að stjórnvöld þurfi að beita tækjum sínum til þess að reyna að draga úr hættunni.

Komið hefur fram í umræðum fyrr í dag að hæstv. ríkisstjórn hyggst ekki taka á vexti ferðaþjónustunnar eða beita þar þeim möguleikum sem ríkið hefur eða þeim hvötum sem ríkið hefur, annaðhvort með sköttum eða gjöldum. Þetta er stærsta atvinnugrein landsins. Hún er á hæsta skattstyrk. Það er ekkert sambærilegt við þann skattafslátt sem þeir fá sem nýta sér ferðaþjónustuna, sem eru að mestu leyti erlendir ferðamenn. Afslátturinn í neyslusköttum er þar umtalsverður og í fjárlagafrumvarpinu er skattafsláttur til ferðaþjónustunnar metinn á um 20 milljarða. Það er eitthvað bogið við það þegar stærsta atvinnugreinin er með slíkan afslátt.

Í greinargerð með stefnunni er talað um að það sem drífa þurfi hagvöxt framtíðarinnar sé nýsköpunar- og sprotastarfsemi. Þar ættum við auðvitað að beita hvötunum til þess að ýta undir að nýsköpun og sprotastarfsemi nái þeirri stöðu að geta orðið undirstaða fyrir hagvöxtinn í framtíðinni.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talaði um að gjöldin sem þau ætluðu að setja á og tengdust ferðaþjónustunni væru bílastæðagjöld. Virðulegur forseti verður að fyrirgefa mér þó að mér finnist það svolítið spaugilegt í þessu samhengi að tala um að það sem gera þurfi í ferðaþjónustunni sé að setja á bílastæðagjöld. Það er bara fínt fyrir bílastæðin og rekstur þeirra, en varla dugar það fyrir álagi á heilsugæsluna, á lögregluna, á vegina, á sjúkraflutninga, sem fylgja ósjálfbærum vexti ferðaþjónustunnar. Það hlýtur að þurfa að bregðast við þessum hættumerkjum með einhverju móti, eða er hugmyndin sú að almenningur í landinu beri þann kostnað annaðhvort með skertri þjónustu eða hærri álögum?

Við erum nú ofarlega í hagsveiflunni. Við þekkjum það, Íslendingar, að við förum upp og niður. Þegar maður er á toppnum hefur það verið talin góð latína að lækka ekki skatta. Við ættum auðvitað að tala hér um hærri veiðigjöld, hærri neysluskatta á ferðamenn, hugsanlega þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt og alvöruhátekjuskatt í þessu árferði og búa þannig til svigrúm til þess að efna þau loforð sem eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að setja aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og í öldrunarþjónustuna. En í textanum er talað um að ekki sé óhætt að fara í varanlega útgjaldaaukningu á kjörtímabilinu við þær aðstæður sem lýst er í textanum með fjármálastefnunni, á grundvelli þess afgangs sem búinn er til vegna hagsveiflunnar. Ef dæmið yrði leiðrétt fyrir hagsveiflunni væri reksturinn í járnum.

Ég hef áhyggjur af því að hér sé verið að senda okkur þau skilaboð að staðan sé bara svona og að það eigi ekki að gera neitt í henni, það eigi ekki að skapa svigrúm fyrir velferðarkerfið og stoppa í þau göt sem þar eru. Ég hef áhyggjur af því að verið sé að senda okkur slík skilaboð þar sem gildi fjármálastefnunnar sé varfærni og því sé óvarlegt og ekki í samræmi við lög um opinber fjármál að fara í varanlega útgjaldaaukningu í velferðarkerfinu.

Tíminn er allt of stuttur. Ég á alveg eftir að tala um slagorðið „Breytum vöxtum í velferð“, sem er greinilega búið að setja á hilluna því að það á að breyta vöxtum í afgang.



[15:13]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er hið stefnumarkandi plagg hverrar ríkisstjórnar á hverjum tíma. Þar er ekki margt sem kemur á óvart, það er hægt að segja það.

Eins og fram kom í andsvörum í upphafi þessa máls við hæstv. ráðherra er þetta framhald á þeirri stefnu sem lögð var fram af síðustu ríkisstjórn. Því miður ber plaggið þess merki að lítið verður hægt að gera eða koma til móts við það sem við vinstra fólk a.m.k. höfum talið að þyrfti að gera. Það fyrsta sem manni dettur í hug er að dregið hefur úr hlut tekjuskatts í fjáröflun ríkissjóð í tíð síðustu ríkisstjórnar. Einnig hefur verið horfið frá þeirri beitingu tekjuskattsálagningar í tekjujöfnunarskyni sem innleidd var á starfstíma vinstri stjórnarinnar og þriggja þrepa skattkerfi þar sem álagningarprósenta réðst af fjárhæð tekna og svo álagningu auðlegðarskatts. Síðasta ríkisstjórn lét það vera meðal sinna fyrstu verka að falla frá álagningu auðlegðarskatts, þ.e. álagningarprósenta tekjuskatts á einstaklinga var lækkuð og milliþrepið í skattstiganum var afnumið. Eins og gefur að skilja koma þessar ráðstafanir ekki öðrum skattgreiðendum að gagni, eins og við höfum ítrekað séð í öllu því sem rannsakað hefur verið, og koma þeim til góða sem eru með góðar tekjur og eignamiklir. Með þessu var dregið úr tekjujöfnunaráhrifum tekjuskattsálagningarinnar sem við Vinstri græn erum afskaplega mótfallin.

Svo er það hið háa hlutfall skatta á vöru og þjónustu þar sem hlutdeild virðisaukaskattsins er yfirgnæfandi. Skattstefnan og mótun hennar heldur áfram núna, að mér sýnist, en algjörlega er litið fram hjá kjarajöfnunarhlutverki skattkerfisins af því að neytendur vöru- og þjónustu greiða allir sama virðisaukaskattshlutfallið án tillits til tekna eða efnahags. Eins og við þekkjum leggst það á ýmsar nauðsynjar sem almenningur þarfnast og er augljóst að skattbyrði þeirra sem hafa úr minna að moða er heldur þyngri en hjá hinum. Því miður virðist þetta vera áframhaldandi og ekki eru boðaðar neinar breytingar í þessum efnum.

Svo hafa verið felld niður vörugjöld og tollar á annan varning og matvæli og annað slíkt sem engin vissa er um að skili sér að fullu til neytenda, af því að þessi ríkisstjórn hefur í stefnuyfirlýsingum sínum og í kosningabaráttunni talað um hag neytenda og sett þá framarlega, einkum flokkur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Þær lækkanir sem nú þegar hafa orðið og boðaðar eru í stefnu í landbúnaðarmálum eru ekki til þess fallnar að laga þetta ástand, eða ég held ekki. Það er eitt að boða framboð, annað að boða velferð og hitt að boða það þannig að það skili sér til neytenda.

Ef horft er til þess að talin er hætta á að eftirspurnarþensla verði til þess að hrinda af stað verðbólgu og skapa viðskiptahalla við útlönd er óhætt að segja að lækkun skatta og annarra opinberra gjalda, sem ég rakti hér áðan, hafi vakið athygli, enda er það þekkt og staðfest að slíkar ráðstafanir eru síst til þess fallnar að draga úr eftirspurnarþenslu. Eins og fram kom í morgun, andstætt þeim sjónarmiðum sem ítrekað hafa birst í skýrslum peningastefnunefndar er beinlínis varað við skattalækkunum og þær taldar stríða gegn markmiðum um að lækka stýrivexti.

Ráðherrann sagði þó að reksturinn væri í járnum ef tekið væri tillit til hagsveiflunnar. Það höfum við Vinstri græn ítrekað bent á allt síðasta kjörtímabil. Því er ekki breytt hér. Reglulegir tekjustofnar hafa verið veiktir og reksturinn byggist mjög á óreglulegum tekjum, staðan í ríkisfjármálum í dag byggist fyrst og síðast á þessum óreglulegu tekjum.

Það vakti athygli mína að ráðherrann sagði að það vantaði u.þ.b. 5 milljarða til að ná markmiði um niðurgreiðslu skulda. Ég gat ekki betur heyrt en hann boðaði annaðhvort samdrátt eða aukna einkaneyslu eða að einhvers staðar annars staðar þyrfti að draga saman í kerfinu til þess að ná þessu markmiði, því að ekki væri gert ráð fyrir auknum tekjum nema að verulega litlu leyti. Þá nefndi hann grænan skatt eitthvað aðeins í sjávarútveginum og svo bílastæðagjöld. Það er vert að vekja athygli á því að bílastæðagjöld eiga ekki að standa undir neinu öðru en byggingu og rekstri bílastæðanna, en ekki koma sem beinar tekjur í ríkissjóð.

Það segir hér á bls. 3 í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Mikill og viðvarandi vaxtamunur við önnur lönd hefur líka þann annmarka til lengri tíma litið að drepa í dróma fjárfestingar í nýsköpunar- og sprotastarfsemi sem hagvöxtur framtíðarinnar þarf í auknum mæli að byggjast á.“

Síðar er verið að talað að tryggja stöðugleika og einnig að opinber fjármál vinni með peningastefnu Seðlabankans.

Það sem ég rakti áðan finnst mér ekki harmónera við það sem hér kemur fram þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi líka sagt að Seðlabankinn hafi gefið grænt ljós á þetta þar sem þetta snýr að þessu ári, ef ég hef skilið rétt.

Ef ég tók rétt eftir þá minntist ráðherrann á lækkun tryggingagjalds. Gjaldið var lækkað um 0,5% í tengslum við kjarasamninga. Í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar var talað um að auka hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldinu þannig að ráðstöfunarfé mundi aukast í samræmi við útgjaldaaukann sem fylgir hækkun á þakinu af því að greiðslurnar verða væntanlega með svipuðum hætti og kannski meiri eins og þær voru 2009. Ég tala nú ekki um ef einhverjar hugmyndir eru uppi um að lengja það, því að ítrekað hefur verið bent á að brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla þannig að það er bara partur af hlutverki velferðarþjónustunnar að gera það, fyrir utan það að sjóðurinn er ekki mjög illa staddur akkúrat í augnablikinu. En ég tel að staðan sé vanmetin.

Hæstv. félagsmálaráðherra segir að staðið verði við áform fyrri ríkisstjórnar um uppbyggingu í húsnæðismálum. Það hleypur á milljörðum á næstu misserum.

Svo verð ég að koma inn á launaþróun öryrkja og eldri borgara af því að hér er talað um að lítið megi gerast þar. Það má ekki semja um launahækkanir umfram verðbólgumarkmið og framleiðnivöxt þjóðarbúsins, kemur fram hér. Við þekkjum öll ákallið hjá öryrkjum um betri kjör og líka jöfnun kjara eldri borgara, því að það komu bara fáir vel út úr því.

Hér var áðan verið að ræða notendastýrða persónulega aðstoð sem er ekki fjármögnuð. Ég hef því miklar efasemdir um að þau áform eins og hér var sagt áðan séu fjármögnuð í þessari áætlun, ég tala nú ekki um samgönguáætlun, en ég fæ símtöl og tölvupósta á hverjum einasta degi og oft á dag vegna þess.

Löggæslan. Sýslumennirnir eru undirfjármagnaðir. Það kom fram og var viðurkennt þegar við afgreiddum fjáraukalögin og lokafjárlögin voru til umræðu. Gæslan er ekki fullfjármögnuð, af því að hér minntist hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á að setja þyrfti að peninga í hana og ætti að fjármagna þá starfsemi vel. Þeir eru ekki hér til staðar, það er alveg klárt mál.

Ég er þess vegna mjög spennt að sjá þegar áætlunin kemur. Hún kemur vonandi — ja, ég veit ekki hvort ég á að segja fljótlega vegna þess að ég hef óskað eftir sérstakri umræðu við ráðherrann, ég vona að hún verði í næstu viku, um aðkomu einstaklinga og hvernig þeir eiga að bera sig að við að koma málum sínum á framfæri. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við finnum út úr því, því að kerfið var augljóslega ekki tilbúið, ekki einu sinni ráðuneytin eða aðrir þegar við vorum að reyna að keyra þetta mál í gegn í desember. Það var ekki bara vegna þess að það væri svo mikill hraði heldur var það hreinlega svo að kerfin voru ekki tilbúin. Þess vegna getum við tæplega ætlað þeim sem fjær standa að þeir standi klárir á því hvernig þeir eiga að bera sig að og hvernig þeir skuli nálgast þetta. Ég vona að við náum utan um það.

Virðulegi forseti. Maður talar á innsoginu hérna eins og aðrir því að þetta er svo stuttur tími. En ég mun eiga aðild að því að fjalla um þetta mál í fjárlaganefndinni. Það verður áhugavert. Fjármálaráð hefur hálfan mánuð til þess að fara yfir málið. Það verður bara áhugavert að sjá hvernig það kemur út og hvernig gestir sem við fáum í heimsókn bregðist við því.



[15:23]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að sýna smákurteisi sem ég var sekur um að sýna ekki hér áðan. Tíminn var svo skammur í andsvörunum, við vorum svo mörg, að mér láðist að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með að vera kominn í þá stöðu að flytja hér fjármálastefnu og til hamingju með að vera kominn í embættið. Það læðist þó sá grunur að manni að maður þurfi hálfpartinn líka að samhryggjast því að það hlýtur að vera dálítið erfitt að standa hér og flytja fjármálastefnu hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, ekki síst eftir að hafa farið í gegnum kosningabaráttu fyrir skemmstu, gagnrýninn á þann ráðherra sem þá sat við völd, boðandi kerfisbreytingar og nýja tíma. Þá hlýtur það að vera dálítið ankannaleg staða að standa hér og tala fyrir óbreyttri stefnu fyrri ríkisstjórnar. Það er ekki bara eitthvað úr kollinum á mér, heldur beinlínis viðurkenndi hæstv. fjármálaráðherra það í andsvörum áðan aðspurður um hvernig brúka ætti fé úr einskiptisaðgerðum, því að þá vísaði hann beint í fyrrum fjármálaráðherra og þá stefnu sem samþykkt hefði verið á þingi síðastliðið vor.

Það er dálítið sérkennilegt að ræða fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar, nýs hæstv. fjármálaráðherra úr nýjum flokki sem boðaði miklar kerfisbreytingar, sem byggir algjörlega á fyrri fjármálastefnu. Varðstaða hefur verið um fjármálastefnu Bjarna Benediktssonar. Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ræður enn för í þessari fjármálastefnu.

Þó má segja að hæstv. fjármálaráðherra hafi sent forverum sínum kannski ekki kaldar kveðjur, en svona hálfvolgar, því að í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Ytri aðstæður hafa fyrst og fremst stuðlað að því að verðbólga hefur haldist lág undanfarin tvö ár.“

Þetta er kannski ekki alveg í samræmi við það sem fyrrverandi fjármálaráðherra hefur sagt, sem hefur gumað töluvert af hagstjórnarkænsku sinni og fyrri ríkisstjórnar, því að hér er beinlínis fullyrt að staða verðbólgumála hér á landi undanfarin tvö ár sé ytri aðstæðum að þakka.

Í umræddri þingsályktunartillögu er töluvert farið yfir verkefnið sem fram undan er, hagstjórnarverkefnið, að það sé sveiflujöfnun fyrst og fremst. Með leyfi forseta segir:

„Greiningaraðilar sem fjalla um efnahagsmál, bæði innlendir og erlendir, eru samdóma um að brýnt sé á komandi misserum að hagstjórnartækjum, bæði á sviði peningamála og opinberra fjármála, verði beitt með samhæfðum hætti til að sporna gegn þenslu og ofhitnun …“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Hagstjórnarverkefnið fram undan beinist því einkum að sveiflujöfnun með hagstæð efnahagsskilyrði fremur en að takast þurfi á við bresti eða áföll í efnahagslífinu.“

Þetta eru ágætisfyrirheit, en þrátt fyrir þau fyrirheit og þetta verkefni sem hér er ágætlega útlistað á ekki að treysta tekjugrunn ríkisins. Það er eins og hæstv. fjármálaráðherra sé það eitur í beinum að treysta tekjugrunn ríkisins sem nota það sem tæki til sveiflujöfnunar, sem er þó engin nýlunda að slíkt gæti gengið. Sömu markmið eru í þessari fjármálastefnu og þeirri fyrri sem lögð var fram síðasta sumar og samþykkt. Hér er sagt að tekjuaukningunni séu settar skorður af hagsveiflunni. Ég reyndi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þetta í andsvörum í morgun. Ég verð að játa að ég fékk ekki alveg botn í svarið, en ég er náttúrlega nýr þingmaður og skil kannski ekki allar flækjurnar í þessu. En ég skil þó það sem segir í umsögn Seðlabanka Íslands við fjármálastefnuna frá síðasta vori. Þar segir um þessi markmið, með leyfi forseta:

„Stefnumiðið virðist því fyrir fram setja skorður við sjálfvirka sveiflujöfnun á tekjuhlið opinberra fjármála og fela í sér að ef hagvöxtur reynist kröftugri skuli gefa eftir tekjur. Þetta er sérlega bagalegt í ljósi þess að reynsla undanfarinna áratuga gefur vísbendingu um að hin hagsveiflutengdu áhrif séu í raun sterkari en hefðbundnar aðferðir við mat á sveifluleiðréttum jöfnuði hafa leitt í ljós og til þess fallið að ýta undir hagsveifluna fremur en milda. Frumgjöld hafa á hinn bóginn tilhneigingu til að lækka í takt við aukinn hagvöxt, en til þess að mæta sjálfvirkri slökun sem felst í ofangreindri tekjureglu yrði að skera útgjöld enn frekar niður.“

Þjált og fallegt og nokkuð skýrt.

Seðlabankinn segir þetta í umsögn um fjármálastefnuna í vor. Ég reyndi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þessa gagnrýni Seðlabankans og hvernig hann svaraði henni. Það er, líkt og ég kom aðeins inn á áðan, eins og það sé einhver trúarsetning þvert ofan á það sem getur talist hagfræðilega skynsamlegt að hækka ekki skatta, svo ég segi það hreint út; orðið sem margir virðast óttast að taka sér í munn í stjórnmálum nútímans, treysta ekki tekjugrunn ríkisins er það kallað þegar við stjórnmálamenn viljum ekki standa einhvers staðar fyrir framan almenning og tala um skattahækkanir. Tekjugrunnur ríkisins hefur verið veiktur mjög á undanförnum árum. Það er alveg ljóst. Ef öll þessi hagsveifla, þ.e. ef öll útgjöldin eiga að rúmast innan hagsveiflunnar þá erum við ekkert að fara í þau útgjöld sem flokkarnir lofuðu á færibandi rétt fyrir kosningar, stóðu keikir fyrir framan kjósendur sína og lofuðu hinu og þessu, en koma núna og segja: Þetta verður reyndar allt að rúmast innan hagsveiflunnar, það er smáa letrið sem við gleymdum að segja ykkur frá á fundinum sem við héldum með ykkur fyrir nokkrum mánuðum. Skattar eru nefnilega áhrifamikið tæki til að slá á þenslu eins og Seðlabankinn bendir á, að treysta tekjugrunninn.

Í tillögunni er nefnilega eins og oft og tíðum sé sagt A, hver eigi að vera markmiðin, en kjark skorti til að segja B, að til að ná þessum markmiðum þurfi að beita þeim aðferðum að treysta tekjugrunninn, að hækka skatta, valda skatta. Hér er enginn að tala um einhverja almenna skattahækkun á almenning. Ég velti fyrir mér og spurði hæstv. fjármálaráðherra að því í morgun, en hann svaraði engu: Kom aldrei til greina að skattleggja þá sem mestar eignir eiga til að afla samfélaginu tekna? Kom aldrei til greina að skoða fjármagnstekjuskatt, hann yrði kannski þrepaskiptur eða jafnvel hækkaður? Kom ekkert af þessu til greina?

Ég þykist muna eftir því að hafa hlustað á hæstv. fjármálaráðherra eftir að viðræðum fimm flokka lauk í, nú er maður svo tímavilltur, var það ekki í nóvember, desember? talandi um alls kyns tillögur Viðreisnar til tekjuöflunar. Voru það einhverjir milljarðar sem hann var kominn upp í sem Viðreisn eða þau voru tilbúin til að leggja til? Hvar eru þær tillögur í þessari fjármálastefnu? Kannski hvergi af því að þetta er fjármálastefna fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, sem hér er lögð fram.

Hvað þýðir fjármálastefnan verði hún samþykkt? Hvað um gagnrýni Seðlabankans ef á ekki að auka tekjurnar? Hvað þýðir ef niðursveifla verður? Verður þá niðurskurður, erum við að horfa fram á það?

Hér er talað um hagvaxtarskeið upp á a.m.k. áratug. Engu að síður er sérstaklega sleginn varnagli. Hér er sagt, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að verulegar launahækkanir á árunum 2015 og 2016 hafi enn sem komið er ekki leitt til hárrar verðbólgu er mikilvægt að ekki verði samið um launahækkanir á komandi misserum umfram verðbólgumarkmið og framleiðnivöxt þjóðarbúsins.“

Er aldrei sú staða uppi að það sé í lagi að fara bara í almennilegar launahækkanir? Tíu ára hagvaxtarskeið er ekki til þess. Vissulega þarf að hafa varann á og allt það. Við þingmenn erum nýbúnir að þiggja töluvert mikla launahækkun, getum við aldrei horft framan í það að kannski sé lag að fara í almennilegar launahækkanir? (Forseti hringir.)

Ég mun kannski koma hingað upp aftur. Ég frétti áðan að ég ætti rétt á annarri ræðu. Ég kem því kannski bara aftur og klára mál mitt á eftir.



[15:34]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu til nýrrar fjármálastefnu til næstu fimm ára sem sett er samkvæmt lögum af nýrri ríkisstjórn í upphafi kjörtímabils. Það er gott að geta rætt það á fyrstu þingdögunum. Aðstæður sem uppi eru í samfélaginu þekkjum við vel og koma fram í greinargerðinni. Nú hefur verið eitt það lengsta hagvaxtarskeið sem við höfum upplifað og miklar og jákvæðar breytingar hafa orðið á kjörum fólks bæði með hækkun launa, auknum kaupmætti launa, ráðstöfunartekna, ásamt verulega bættri stöðu ríkissjóðs og þeirri staðreynd að nú eru tekjur og eignir staða þjóðarbúsins í fyrsta skipti jákvæðar frá upphafs lýðveldistíma. Það kemur því ekki á óvart að hér sé haldið áfram með þá fjármálastefnu sem verið hefur í gildi og þessi nýja ríkisstjórn reynir að setja mark sitt á stefnu næstu ára. Það sem miðað er við eru grunngildi fjármálastefnunnar þar sem liggja til grundvallar orð eins og sjálfbærni, þannig að skuldbindingar verða viðráðanlegar og ekki eru lagðar ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir, varfærni í fjármálum og að leitað verði eftir efnahagslegum stöðugleika. Eins og við þekkjum er verið að leita eftir festu í áætlanagerð og einnig gagnsæi í því sem ríkið setur fram með því að leggja fram áætlunargerð til nokkurra ára.

Það er held ég af því góða. Við höfum rætt það í þinginu um allnokkurt skeið. Fyrir þó nokkuð mörgum árum voru sett hér lög um sveitarstjórnir. Þar voru settar inn fjármálareglur. Ég gagnrýndi það á þeim tíma, líklega 2010, að það væri merkilegt ef við í þinghúsinu gætum sett öðrum skýrar reglur um hvernig skynsamlegt væri að menn færu með opinbert fé, þ.e. sveitarfélögin, en treystum okkur ekki til að gera það sjálf. Það höfum við síðan gert núna og smátt og smátt er að koma mynd á þetta, þó þannig að stofnefnahagsreikningur fyrir ríkissjóð, sem birta á samhliða þessu, verður ekki til fyrr en næsta haust.

Þær fjármálareglur sem við miðum við, afkomuregla og skuldareglan sem og skuldalækkunarregla, eru allar uppfylltar, eða skuldareglan verður uppfyllt á árinu 2019, ef ekki fyrr. Það er ein spurning sem spyrja þarf, þ.e. hvort við gerum það of hratt miðað við aðrar áætlanir ríkisins og áherslur ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu innviða. Auðvitað er hugsunin sú, og hún er skynsamleg, að lækka skuldir, og þar með vexti og afborganir ríkissjóðs til þess að skapa varanlegt svigrúm til þess að geta farið í útgjaldaaukningu í einstökum málaflokkum.

Það sem mig langar að ræða hérna er hvernig sú stefna, sem við munum síðar sjá fjármálaáætlun byggða á, verður útfærð, hvernig hún rímar við önnur áform ríkisstjórnarinnar um innviðauppbyggingu. Þar spilar auðvitað margt inn í. Þar er fjármálastefnan eitt sem af henni leiðir, fjármálaáætlun, peningastefna Seðlabankans er svo annar þáttur sem þarf auðvitað að ríma við þessa þætti. Gengisþróunin á landinu sem hefur verið með þeim hætti að gengið hefur styrkst um 15% á síðasta ári, 13% frá því í mars, og gríðarlega umfangsmikil hefur orðið hækkun frá því 2009 eftir að gengisfallið varð. Nú er svo komið að gengisþróunin er farin að hafa veruleg áhrif á allar atvinnugreinar sem og vaxtastigið í landinu. Það þarf líka að spila saman við losun hafta. Það þarf líka að spila saman við vinnumarkaðinn og vinnumarkaðsmódelið sem menn hafa verið að reyna að koma hér á, því að allt miðar þetta að því að vera einhvers konar jöfnunartæki, hagstjórnartæki, til þess að koma á stöðugleika og vinna þar af leiðandi gegn þenslunni. Hér er lagt mikið upp úr því og ítrekað nokkrum sinnum að sýna þurfi varfærni og festu. Ég hef einnig heyrt það á ræðum stjórnarþingmanna.

Þess vegna er það nokkuð merkilegt ef maður kíkir síðan aðeins á greinina á afkomumarkmiðin, með leyfi forseta. Ég vitna hér í það sem stendur á bls. 5:

„Með þessari stefnu um viðvarandi afgang er unnt að vinna gegn þenslu í þjóðarbúskapnum og viðhalda efnahagslegum stöðugleika sem, samhliða ráðstöfunum eigna, verði nýttur til að lækka skuldir hins opinbera niður fyrir lögbundið skuldahlutfall.“

Aftur skynsamlegt, hversu hratt á það að gerast miðað við þau útgjaldaáform sem menn eru með uppi, en skynsamlegt að framfylgja þeim reglum sem við setjum okkur sjálf.

Aðeins síðar á þessar blaðsíðu:

„Við mat á framvindu opinberra fjármála þarf að hafa í huga að undanfarin ár hafa efnahagsaðstæður hér á landi verið hagfelldar og verða áfram miðað við fyrirliggjandi hagspár. Þótt stefnan feli í sér afgang á heildarjöfnuði fyrir hið opinbera á tímabilinu má rekja stóran hluta þess afgangs til hagsveiflunnar. Ætla má að ef leiðrétt væri fyrir henni væri afkoma ríkissjóðs í járnum.“

Með öðrum orðum, þau útgjöld sem við höfum þegar samþykkt hérna á þinginu taka í raun og veru allan þann bata sem þó hefur orðið, að því undanskildu að hér er gríðarleg hagvaxtarsveifla. Ef hún breytist vegna einhverra utanaðkomandi þátta, hvort sem væri nú náttúruhamfarir eða annarra þátta sem menn hafa nefnt hér, t.d. áframhaldandi gengisstyrking, þá getur þetta gjörbreyst.

Því kemur þessi setning síðar í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Af þeim sökum væri óvarlegt að stofna til nýrra og varanlegra útgjalda á grundvelli þessa afgangs og má segja að gild rök standi til þess að nýta bata í fjármagnsjöfnuði til niðurgreiðslu skulda fremur en að lækkandi vaxtagjöld leiði til vaxtar frumgjalda.“

Það er akkúrat vandinn. Þetta plagg eitt og sér er skynsamlegt til þess að búa til festu og stöðugleika, en á sama tíma er ríkisstjórnin uppi með áform um veruleg útgjöld, aukningu í heilbrigðismálum, í menntamálum, í samgöngumálum og öðrum þáttum. Hvernig verður það samrýmanlegt öðruvísi en að velta fyrir sér auknum tekjum? Einhverjum breytingum á sköttum? Við erum háskattaland í dag. Eru byrðarnar sanngjarnar? Er skynsamlegt að fara í endurskoðun á skattkerfinu? Það er vitað mál að millitekjufólk er að borga hærri skatta hlutfallslega á Íslandi en á Norðurlöndunum. Er ekki skynsamlegt að fara í endurskoðun á því og hugsanlega jafna byrðarnar eitthvað aðeins öðruvísi þó svo að það myndi hafa það í för með sér að skattar á þá sem hæstar tekjur hafa myndu hækka að einhverju leyti, til að mynda þá sem hafa fulla atvinnu af því að versla með fé? Þeir sem eiga 100 kindur þurfa að reikna sér reiknað endurgjald, en sá sem vinnur við að versla með annars konar fé þarf ekki að reikna sér endurgjald; hann borgar bara fjármagnstekjuskatt. Hann borgar ekkert útsvar til sveitarfélagsins og hann borgar þar af leiðandi bara það hlutfall af því sem hann borgar í fjármagnstekjuskatt. Er það nokkuð sem hæstv. fjármálaráðherra gæti velt fyrir sér til að auka tekjurnar og eiga þar af leiðandi möguleika á því að fara í vaxandi útgjöld án þess að það rýri þessa stefnu?

Fjallað er um ferðaþjónustuna í þessu plaggi og einnig í þeim gögnum sem fjármálaráðuneytið birti í dag í greiningarvinnu sem sett var af stað í tíð síðustu ríkisstjórnar varðandi hvað hægt væri að gera til þess að koma í mótvægisaðgerðir vegna styrkingar krónunnar. Væri hugsanlegt að setja á komugjöld í ferðaþjónustu eða fara yfir ferðaþjónustuna og styrkja þá grein með einhverjum hætti? Það þarf auðvitað að gera í ferðaþjónustunni, því sífellt hækkandi gengi veldur því að líka ferðaþjónustan verður fyrir áhrifum af styrkingu krónunnar en ekki bara hinar útflutningsgreinarnar.

Það er líka ljóst að það þarf að hafa samhæfða og heildstæða stefnu í fjármálum hins opinbera, ekki bara ríkissjóðs heldur í fjárfestingum opinberra fyrirtækja. Talað er um það í þessu plaggi að mikil þensla sé á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum séð það áður, bæði launaskrið og þensla á húsnæðismarkaði. En er staðan sú sama annars staðar (Forseti hringir.) á landinu? Á að fara að draga úr fjárfestingum Landsnets varðandi raforkuöryggi, samgöngur úti á landi, vegna þess að það er þensla á höfuðborgarsvæðinu? Á að fara að draga úr útgjöldum (Forseti hringir.) Isavia og uppbyggingu þeirra á Leifsstöð til þess að draga úr ferðaþjónustunni? Eða á að draga úr útgjöldum Isavia á öllum öðrum flugvöllum á landinu? Það eru spurningar (Forseti hringir.) sem við munum spyrja þegar fjármálaáætlunin kemur fram. Við munum halda áfram að spyrja þessara spurninga og vonumst til að fá svör. En stóra spurningin er þessi: Hvernig samrýmist það að fara í innviðauppbyggingu og leggja fram þetta plagg?



[15:45]
Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta ágæta mál sem lagt er fram í síðara sinn, það var lagt fram í fyrra sinn í upphafi kjörtímabils. Ég þakka sömuleiðis hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir góðan fund í morgun um málið.

Búið er að reifa ýmislegt í ræðum í dag um efni þessarar ályktunar og hefur margt gott komið fram þar, bæði um það hversu skynsamleg og hversu óskynsamleg tillagan er eins og hún er sett fram. En mig langar frekar að einbeita mér að nokkrum öðrum atriðum og þá fyrst og fremst gagnrýni á það hvernig fjármálastefnan sjálf er skipulögð. Með fjármálastefnunni eru öll fjármál ríkisins bundin við hlutföll af vergri landsframleiðslu, sem samkvæmt ýmsum greiningum er fyrst og fremst mælikvarði á peningamagn í umferð frekar en raunverulegri framleiðslu eða þess háttar, sér í lagi vegna aukins ferðamannastraums sem hefur að jafnaði lítil áhrif á peningamagn í umferð í krónum talið.

Það hefur reynst hagfræðingum ansi erfitt að finna góða leið til þess að meta framlag ferðaþjónustu til vergrar landsframleiðslu. Þar af leiðandi hefur það ákveðin áhrif á heildarkerfið eins og það er sett fram. Það er mjög gott markmið út af fyrir sig að greiða niður ríkisskuldir og þess háttar, en það er mjög skrýtið að reikna það sem afgang sem þurfi að skila frekar en að taka sambærilega upphæð inn í fjárlög og láta þá vanefndir við þau skuldalækkunaráform teljast til halla í einhverjum skilningi en ofefndir, þ.e. það sem er umfram áætlun.

Það eru þessi tvö atriði sem mér finnast skrýtin í framsetningunni, annars vegar atriðið að negla allt niður við verga landsframleiðslu frekar en ákveðnar krónutölur, og svo hins vegar að gengið sé út frá því að skila tiltekinni aukaafkomu umfram núllið og nota það sem skuldalækkun frekar en að gera ráð fyrir ákveðinni skuldalækkun.

Mikið hefur verið rætt um að nota eigi allar óreglulegar greiðslur og einskiptisgreiðslur eða fjárstreymi í hraðari skuldaniðurfærslu, sem er svo sem ágætt. Það sem angrar mig helst varðandi það er að ekki hefur komið fram nein heildstæð áætlun um hvernig lækka eigi vaxtakostnað sem þrátt fyrir hlutfallslega lága skuldastöðu Íslands samanborið við Evrópusambandslönd hefur verið sá almesti á svæðinu. Við erum með töluvert hærri vaxtabyrði en t.d. Þýskaland ef við berum það saman. Þó er hún nú frekar há hjá þeim. Að því sögðu er frekar sorglegt að ríkisstjórnin skuli státa sig af því að lánshæfismat skuli vera upp á A- hjá Standard & Poor's, en við borgum 70 milljarða kr. á ári í vaxtakostnað. Það tvennt finnst mér ekki ganga alveg nógu vel saman í ljósi þess hvernig vaxtakostnaðurinn hefur verið að þróast undanfarin ár. Til að mynda voru skuldir í janúar 2014 1.447 milljarðar, eða 81,7% af vergri landsframleiðslu, og hrein skuld þá 885 milljarðar, eða um 50% af vergri landsframleiðslu. Vaxtagjöldin þá voru 75 milljarðar, en ef við berum það saman við stöðuna núna erum við með skuldir upp á 1.122 milljarða, sem eru 46,7% af vergri landsframleiðslu. Hrein skuld hefur lækkað niður í 755 milljarða, eða 31,4% af vergri landsframleiðslu, en við erum með vaxtagjöld upp á 70 milljarða.

Maður hefði haldið að hægt væri að ná fram töluvert meiri lækkun á vaxtagjöldunum miðað við þessa lækkun á skuldunum þó að það sé í ákveðnu hlutfallslegu samhengi, ekki síst vegna hækkandi eða batnandi lánshæfismats ríkissjóðs. Þarna er kjarni málsins vegna þess að vandamálið í ríkisfjármálum í augnablikinu er ekki bara skuldastaðan sem slík, þó svo að það sé vissulega mjög gott markmið að reyna að ná skuldum niður fyrir 30%, heldur sá að vextir eru almennt allt of háir á Íslandi. Það bitnar illa á ríkissjóði. Það bitnar illa á neytendum. Það bitnar illa á öllum þeim sem þurfa á fjármagni að halda. Fjármagnskostnaðurinn er hreinlega of hár.

Að vísu skal segja að í töluna fyrir janúar 2017, hreina skuld upp á 755 milljarða kr., vantar sennilega einhvern hluta niðurgreiðslu vegna stöðugleikaframlaga, sem ég veit ekki hvort búið er að fullreikna inn í. En það myndi í rauninni undirstrika enn frekar það sem ég er að segja, að það þarf samt að gera ráð fyrir 70 milljörðum kr. í vaxtagjöld á árinu.

Ég vona því að það komi heldur betur spennandi tillögur um vaxtalækkun frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem fyrst vegna þess að á þessu þarf að taka sem fyrst.

Annað sem hægt er að segja um fjármálastefnuna á þessu augnabliki er kannski fyrst og fremst að settar eru fram rosalega margar mjög skrýtnar forsendur. Ein forsendan sem ég hjó eftir í umræðu um málið og í því sem komið hefur fram er að gengið er út frá því að þróun einkaneyslu eigi eftir að fara minnkandi. En við sjáum að í febrúar á síðasta ári 2016 lagði Hagstofan fram spá um þróun einkaneyslu sem gerir ráð fyrir því að einkaneysla fari vaxandi árið 2017 og svo muni hún minnka niður í frekar lága tölu, mig minnir um 2,1%, í kringum árin 2020–2021. En í nóvember á síðasta ári kom ný spá frá Hagstofunni sem gerir ráð fyrir töluvert meiri einkaneyslu á árunum 2017–2018, en einhverra hluta vegna kemur út sama lokaspáin fyrir árin 2020–2021. Þetta þarf að útskýra töluvert betur ef gengið er út frá því að einkaneysla muni minnka með þessum hætti.

Ef forsendur í svona löguðu eru rangar eða byggðar á lélegum líkum er augljóst að niðurstaðan verður ekki góð. Það er kjarni málsins að það vantar að gera ráð fyrir meiri sveigjanleika en gert er ráð fyrir í fjármálastefnunni. Taka þarf betur tillit til óvissuþátta sem upp koma og þarf samhliða þessu að koma fram með miklu betri áætlun um hvernig laga skuli vaxtakostnað almennt og draga úr þeim rosalega kostnaði sem fylgir því að reyna að fjármagna einhver verkefni á Íslandi.



[15:54]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta eru nú svo stór mál þegar þingsályktunartillögurnar koma inn um ríkisfjármálaáætlun eða fjármálastefnu að í raun þyrftum við að huga að því í þingsköpunum að fyrir slíkar umræður væri gefinn rýmri tími en fyrir venjulegar þingsályktunartillögur, þegar ríkisfjármálin í heild sinni, ég tala nú ekki um stefnan til næstu fimma ára er undir, þá er ansi þröngt skorinn stakkur að hafa tíu mínútur.

Ritari Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, tók hér til máls og var ákaflega glöð og stappaði stálinu í menn í leiðinni í því að fara að standa sig í einkavæðingunni og sölu ríkiseigna. Það er víðar gleðin í þeim herbúðum um þessar mundir, þeirra sem vilja minnka umsvif ríkisins og færa einkagróðaöflunum sem mest til að maula á. Verslunarráð er að vakna til lífsins. Núna er gaman. Nú er svolítið komið 2007 aftur. Íhaldsstjórn, hægri stjórn og þá stendur ekki á tillögunum þaðan um hvað eigi að gera. Selja allar fasteignir ríkisins. Gera ríkið að allsherjarleiguliða. Hverjir ætli kaupi? Ætli það verði almenningur? Nei, ætli það verði ekki fínu, nýju fasteignafélögin, nýju gróðamaskínurnar, hvað þær heita allar saman, Reitir og Heimavellir, þar sem fjármagnið er að leita sér að nýrri aðferð til að skammta sér ríflegan gróða, og að mínu mati eitt það hættulegasta sem hefur gerst á fasteignamarkaði á Íslandi í áratugi. Er þá mikið sagt eins og ástandið er þar. Ætli það verði þá ekki ráð, segir Verslunarráð, að bæta öllu opinberu húsnæði í viðbót inn á markaðinn og ríkið yrði leigjandi. Hver er reynsla Alþingis af því, frú forseti, að vera leigjandi í miðborginni? Hvernig hefur það gengið að borga svimandi háa leigu fyrir skrifstofuhúsnæðið í kringum þingið, á uppspenntum markaði hér í Kvosinni og húsnæðið í alls konar ástandi eins og kunnugt er? Nei, ég ætla að vona að menn staldri aðeins við í þeim efnum þrátt fyrir gleði sína.

Formaður okkar Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, fór vel yfir þetta í byrjun fyrir okkar hönd og þá fyrirvara sem við höfum haft á um þessa nálgun og ég tel að séu mikilvægir og mikilvægt sé að ræða þetta sem grundvallarmál í stjórnmálum, því að þetta tengist beint inn í sjálfan kjarna pólitískrar umræðu um samfélagsgerðina sem við viljum búa í. Það eru auðvitað mínimalistarnir sem vilja sem allra minnst í opinberum höndum og sem allra mest í höndum einkagróðaaflanna og svo aðrir sem vilja annars konar samfélagsmódel, sem vilja trausta tekjuöflun í þágu vel rekins samábyrgs velferðarsamfélags sem tryggi mönnum velferð og velsæld í gegnum það.

Nú er að sjálfsögðu gott að menn séu ábyrgir í sinni fjármálastefnu og það er alveg sérstaklega mikilvægt þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við völd, því að hann hefur eins og kunnugt er borið ábyrgð á því að klúðra efnahagsmálum Íslendinga umfram nokkurn annan stjórnmálaflokk í lýðveldissögunni. Það liggur bara fyrir. Ættingjar hans í Viðreisn og annars staðar þurfa líka að passa sig að þeir séu ekki með eitthvað af veiðinni í sér.

Ég fagna því í sjálfu sér og mér líður betur sem vinstri manni sem vill ábyrg ríkisfjármál — ég vil ekki að menn eyðileggi þau reglubundið með hruni eða einhverju öðru og aðrir þurfi svo að hafa fyrir því að vinna þau upp aftur — að ábyrgð sé lögð til grundvallar. Það er gott. Það er líka mikilvægt að greiða niður skuldir, að sjálfsögðu.

En við þurfum auðvitað alltaf að ræða hvað eigi að vera í forgangi á hverjum tíma, þar á meðal það: Á það að vera svo fortakslaust áhersluatriði að greiða niður hinar bókfærðu skuldir ríkisins, hinar peningalegu skuldir ríkisins, að við söfnum skuldum annars staðar? Ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt. Ég held að við séum að gera stórfelld mistök í því núna og stefnum í að gera, sérstaklega næstu árin miðað við þessar áherslur, að safna skuldunum annars staðar, greiða niður hinar sýnilegu bókfærðu skuldir, peningalegu skuldir í bókum ríkisins, en safna þeim annars staðar í grotnandi innviðum og í ómættum þörfum sem blasa við okkur á næstu árum.

Tvennt blasir þar alveg sérstaklega við. Vegakerfið í landinu er að eyðileggjast. Við erum ekki að undirbúa okkur undir þá sprengju sem er í vændum varðandi þörf fyrir umönnun aldraðra. Við þurfum þúsundir hjúkrunarrýma á næstu 10–15 árum og sprengjan kemur þar inn upp úr 2020, segir greining velferðarráðuneytisins. Er þá ekki skynsamlegt að fara að huga að því? Er það ekki skuld líka hjá ríkinu ef við vanrækjum algjörlega, ekki bara að byggja upp innviðina í þágu framtíðar- og nútíðarþarfa, heldur jafnvel að halda þeim við? Við erum svo neðarlega með þá hluti að það er að valda þjóðhagslegu tjóni. Það er einfaldast að sýna þetta og sanna í vegakerfinu. Það sem gerist ef viðhald og umhirða vegakerfisins fer niður fyrir ákveðið stig þá byrja vegirnir bókstaflega að skemmast, eins og hús sem er látið leka árum saman án þess að laga lekann. Það er það sem er að gerast í stórum stíl, t.d. á þjóðvegi 1. Það verður mun dýrara og ráðast þarf fyrr meira og minna í endurbyggingu hans alls vegna þess hvað viðhaldið er lítið og hann þolir ekki þungaflutningana sem eru á veginum í dag.

Ég tel að greina þurfi það þjóðhagslega og gott ef sú nefnd sem fær málið til sín fari aðeins yfir það. Þarna þarf að finna eitthvert jafnvægi. Já, við viljum að sjálfsögðu öll sjá skuldir ríkisins lækka sem hraðast þannig að vaxtakostnaðurinn minnki, en það er líka skuld að vanrækja augljóslega það sem ríkið, vonandi er samstaða um það, þarf að sjá um og á að sjá um, eins og að innviðir landsins séu í lagi.

Ég hef líka miklar efasemdir um þann stífa ramma sem hér er lagður vegna þess að ég held að við séum ekki að skapa þar svigrúm til þess að takast á við hluti sem bíða okkar eins og allra annarra, og þeir eru að banka upp á hjá okkur núna af vaxandi þunga, þ.e. breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og þörfin fyrir að leggja meira inn í heilbrigðismál og málefni aldraðra. Nýlega er búið að skrifa undir það að við eigum að stefna að því að koma útgjöldum til heilbrigðismála í 11% af vergri landsframleiðslu, með öðrum orðum að hækka um sirka 2–2,5% framlögin til heilbrigðismála miðað við verga landsframleiðslu. Það eru talsverðar tölur. Við ætlum væntanlega að láta ríkið taka á sig þá hækkun, því að menn vilja á sama tíma, ef eitthvað er, draga úr kostnaði sjúklinga í kerfinu enda er hann mikill. Er svigrúm fyrir það á næstu árum? Nei, það sé ég ekki. Á sama tíma þurfum við að takast á við ýmiss konar framfarir í heilbrigðisþjónustunni, læknavísindunum, nýjum lyfjum, nýjum tækjum og tólum sem er krefjandi verkefni og hefur verið að leiða til þess á undanförnum árum hjá flestum samanburðarþjóðum okkar að hlutfall heilbrigðisútgjalda af vergri landsframleiðslu er að hækka.

Hvar getur eitthvað annað gefið eftir á móti ef við erum ekki tilbúin að setja neitt nýtt fé inn í kerfið og bara hagsveiflan svokallaða á að fjármagna þetta? Vill einhver benda mér á þau svið? Er það í menntamálum, menntun, rannsóknum og þróun? Nei, varla. Við þurfum helst að auka það til að ná upp í meðaltal OECD og svo Norðurlandanna. Er það ekki það sem við viljum gera? Er það í löggæslunni? Er það í rekstri sýslumannsembættanna? Nei, veruleikinn er sá að við eigum enn eftir að vinna upp slaka á mörgum sviðum frá aðhaldsárunum eftir hrun. Aðilar koma til okkar og segja: Við erum 8% lægri í raunverulegum fjárveitingum til að veita okkar þjónustu þrátt fyrir aukinn fjölda ferðamanna, þrátt fyrir fjölgun landsmanna, en við vorum 2006, 2008. Færri lögreglumenn eru á vakt á Akureyri í dag en voru um aldamótin o.s.frv.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er með 9% minni fjárveitingar til að veita þjónustu sína á höfuðborgarsvæðinu en hún var með 2008. Þegar búið er að taka tillit til launabreytinga þá hefur reksturinn sjálfur verið með 9% minni fjárveitingar. Þarna er slaki sem við eigum eftir að vinna upp. Heldur einhver því fram að lagt hafi verið of mikið í þetta á sínum tíma? Ég held ekki. Við þekkjum þær þrengingar sem menn eru þar búnir að ganga í gegnum.

Ég held því fram að mikil mistök hafi verið gerð í hagstjórn og ríkisfjármálum á síðasta kjörtímabili, sorgleg mistök, með því að afsala jafn miklum tekjum úr ríkissjóði og gert var. Tvennt hefði átt að gera fyrr. Annars vegar að færa eitthvað af þeim tekjustofnum yfir til sveitarfélaga því að afkoma sveitarfélaga er ekki nógu góð og stefnir ekki í að verða nógu góð næstu fimm árin samkvæmt þessari fjármálastefnu. Þau eiga í raun og veru að halda sjó. Hins vegar hefðum við átt að halda inni einhverju af þessum tekjum. Við gátum gert sirka þrennt við það; bætt aðeins betur í innviðina, greitt niður skuldir fyrir þær skatttekjur og við hefðum getað gert fleiri góða hluti við þær.

Ég er því ekki sannfærður um að við séum að hitta á rétta jafnvægið í þessu þótt ýmislegt sé ágætlega gert. Hér er skotið inn (Forseti hringir.) í raun glænýjum hlutum, pólitískum markmiðum sem hafa ekkert með lögin um opinber fjármál að gera, eins og það að setja bara absalútt þak á umfang samneyslunnar í landinu. Sagt er að það eigi að vera 41,5% (Forseti hringir.) af vergri landsframleiðslu, hin opinbera, en í reynd er í textunum talað um að það eigi að vera lægra. Þetta er algjört nýmæli og hefur ekkert með lögin að gera. Þetta er pólitísk yfirlýsing þessarar ríkisstjórnar. Hún vill svona hafa bönd á sjálfri sér (Forseti hringir.) að samneyslan vaxi örugglega ekki úr því sem nú er og helst lækki.



[16:05]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Líkt og ég kom inn á áðan langar mig að tala aðeins meira um þetta mál. Ég er þeim galla gæddur að halda um of að að því komi að ég segi akkúrat rétta hlutinn þannig að upp renni ljós fyrir þeim sem á hlýða. Kannski er ég einhleypur þess vegna.

Mig langar að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið áðan. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir það rétt í þessu hver staðan er varðandi þörfina. Er það ekki það sem við eigum að hugsa fyrst og fremst um, af hverju við erum að þessu. Af hverju erum við að þessu? Það er enginn að innheimta gjöld og skatta, einhverja fjármuni í ríkissjóð, bara af því það er skemmtilegt. Við gerum það af því að þörf er fyrir það.

Ég skil hæstv. fjármálaráðherra samt vel að vilja vera varfærinn. Á hans herðum hvílir hvorki meira né minna en rekstur ríkissjóðs alls, það er engin smábyrði að bera, og kannski ekki síst þegar staðan er eins og hún er. Í tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Við mat á framvindu opinberra fjármála þarf að hafa í huga að undanfarin ár hafa efnahagsaðstæður hér á landi verið hagfelldar og verða áfram miðað við fyrirliggjandi hagspár. Þótt stefnan feli í sér afgang á heildarjöfnuði fyrir hið opinbera á tímabilinu má rekja stóran hluta þess afgangs til hagsveiflunnar. Ætla má að ef leiðrétt væri fyrir henni væri afkoma ríkissjóðs í járnum.“

Það er nú ekki sérstaklega góð staða, eða hvað? Hver er þá ályktunin sem við drögum af því? Ef við leiðréttum fyrir hagsveiflunni væri afkoma ríkissjóðs í járnum. Við þurfum að styrkja tekjugrunninn. Einhver skyldi ætla það. Nei, ekki hæstv. núverandi ríkisstjórn eða hæstv. fjármálaráðherra. Því að í tillögunni segir:

„Af þeim sökum væri óvarlegt að stofna til nýrra og varanlegra útgjalda á grundvelli þessa afgangs og má segja að gild rök standi til þess að nýta bata í fjármagnsjöfnuði til niðurgreiðslu skulda fremur en að lækkandi vaxtagjöld leiði til vaxtar frumgjalda.“

Allt hið besta mál að lækka vaxtagjöld og greiða niður skuldir. En er ekki einboðið að ef staðan er sú að ríkissjóður, rekstur hans, er í járnum ef leiðrétt er fyrir hagsveiflunni, sem hljóta nú að vera nokkur tíðindi fyrir fráfarandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, er þá ekki eðlilegt að álykta sem svo að endurskoða þurfi rekstur ríkisins, bæta þurfi rekstur ríkissjóðs, auka þurfi tekjurnar til að standa undir samneyslunni sem við öll höfum boðað hér?

Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á í lok máls síns þá er það nefnilega þannig að í tillögunni er sett þak á það hver umsvif hins opinbera eiga að vera. Þessu er einhvern veginn laumað hér inn eins og við eigum í afgreiðslu fjármálastefnu í „forbifarten“ að samþykkja það að heildarumsvif opinberra aðila í efnahagsstarfseminni vaxi ekki umfram 41,5%.

Ég veit það ekki, hv. Alþingi. Mér finnst þetta slík pólitísk stefna að það liggur við að ég vilji að þingsályktunartillagan verði lögð fyrir allar nefndir Alþingis, ég held þó að það samræmist ekki þingsköpum, því að þetta er ekkert smáræði sem við erum að ræða hér um. Það sem ég óttast að búi hér á bak við er massífur einkarekstur eins og það heitir á fínu máli, einkavæðing. Ég trúi því ekki að þessi ríkisstjórn, hún þarf nú að sætta sig við að vera ekki sérstaklega vinsæl miðað við kannanir, treysti sér út á þann ólgusjó að ætla sér ekki að setja neina fjármuni í nein verkefni, hún ætli sér ekki að koma upp neinum stofnunum eða setja neins staðar inn fjármuni, en hún ætli að gera það þannig að umsvif hins opinbera aukist ekki. Þá er nú orðið þröngt um hvernig það verður gert.

Ég held að raunin sé sú að á bak við liggi mikil áform um einkarekstur næstu ára. Það er mikil pólitísk stefna sem þarf að ræðast, ekki sem einhver neðanmálsgrein (Forseti hringir.) í tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til fjárln.