146. löggjafarþing — 20. fundur
 31. janúar 2017.
takmörkun á ferðafrelsi íslensks ríkisborgara.

[14:01]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra mun á eftir eiga orðastað við þingið um stjórnmálaástand í Bandaríkjunum sem er í sérstakri umræðu að frumkvæði Pírata. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um mál sem tengist því ástandi en varðar okkur beint hér á landi, það mál sem kom upp í gær þegar Íslendingi var meinað að fara til Bandaríkjanna. Hann var kominn upp í flugvél þar sem hann ætlaði að fara að keppa á US Open í taekwondo en var leiddur út úr vélinni vegna þess að svo vildi til að þessi íslenski ríkisborgari er fæddur í Íran og er með tvöfalt ríkisfang, íranskt og íslenskt.

Það hefur komið fram í fréttum að hæstv. ráðherra átti fund með aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í morgun þar sem hann kom á framfæri mótmælum íslenskra stjórnvalda við þeirri tilskipun sem við sjáum þarna í verki. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta þýði í raun að það fólk sem er með tvöfalt ríkisfang, þ.e. íslenskt ríkisfang og síðan ríkisfang í einhverjum af þessum löndum — þýðir þessi tilskipun að íslenskur ríkisborgararéttur er bara núllaður út? Að réttindi þessara aðila hverfi við það að verða íslenskir ríkisborgarar og að tilskipunin virki þannig í raun?

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra, og ég vil fagna því að hann hafi þegar komið mótmælum íslenskra stjórnvalda á framfæri: Verður þeim fylgt eftir með einhverjum frekari hætti? Eigum við von á skriflegum mótmælum íslenskra stjórnvalda við bandarísk stjórnvöld? Var þetta mál sérstaklega tekið upp, þ.e. hvað varðar ferðafrelsi íslenskra ríkisborgara?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess hvernig þetta mál er framkvæmt. Það virðist vera á reiki hvort viðkomandi persóna hafi mátt ferðast til Bandaríkjanna eða ekki, en á endanum er hann leiddur út úr flugvél eftir að hafa fengið fullvissu um að hið íslenska vegabréf mundi duga, og því langar mig að spyrja: Eru íslensk stjórnvöld í einhverjum samskiptum við flugrekstraraðila um það hvernig nákvæmlega á að framfylgja (Forseti hringir.) þessari tilskipun, sem ég hlýt náttúrlega að taka fram hér í lokin að er skelfileg, ósanngjörn og skerðir eitt af því sem okkur er dýrmætast sem er auðvitað ferðafrelsið.



[14:04]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og hv. þingmaður vísaði til ræðum við stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum í sérstakri umræðu á eftir og munum þá vafalaust koma að þessu máli. Það eru nokkuð margar fyrirspurnir hjá hv. þingmanni. Ég ætla að reyna að fara yfir það helsta þannig að vonandi kemur þá skýr mynd á það sem hv. þingmaður spyr um.

Ég tók þetta mál upp á fundi með aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í morgun og fulltrúa sendiráðsins, bæði hvað varðaði þennan einstakling en sömuleiðis þá einstaklinga sem eru með tvöfalt ríkisfang. Staðan er einfaldlega þessi: Þetta var góður og upplýsandi fundur. Sjónarmið okkar mættu skilningi. Það fer ekki á milli mála að þau fara beint til stjórnvalda í Bandaríkjunum. Mér fannst mikilvægt að koma þessum skilaboðum skýrt og milliliðalaust á framfæri og m.a. þess vegna áttum við þennan fund.

Það sem snýr að framkvæmdinni á þessu er að í ljós kemur að það koma nokkuð misvísandi skilaboð frá hinum ýmsu löndum. Það er ákveðin biðstaða í bandarísku stjórnkerfi vegna stjórnarskiptanna. Ég er bjartsýnn á að menn þar vestra, og það eru þeir sem ráða framkvæmdinni á þessu, muni reyna að vinna bug á þessu sem fyrst. Það þarf ekkert að hafa mörg orð um það að þetta er ekki ásættanleg staða sem viðkomandi einstaklingur sem hv. þingmaður vísar í er í og aðrir sem eru í svipaðri stöðu.

Þetta er hins vegar nokkuð sem við fáum að vita og kemur í ljós núna á næstu dögum. Við gerum allt hvað við getum í íslensku utanríkisþjónustunni til þess að hjálpa okkar (Forseti hringir.) ríkisborgurum. En við höfum hins vegar ekki vald til að framkvæma þessa tilskipun, eðlilega.



[14:06]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Auðvitað er málið miklu stærra en það sem ég var sérstaklega að spyrja um. Það verður rætt hér á eftir og snýst um grundvallarréttindi borgaranna til að ferðast á milli staða. Við erum minnt á það með áþreifanlegum hætti hversu dýrmætt ferðafrelsið er okkur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega um það sem snýr þá að íslenskum ríkisborgurum, þ.e. fólki með tvöfalt ríkisfang. Það var tekið upp á fundi í morgun. Verður þessum mótmælum fylgt eftir með einhverjum frekari hætti? Eins og ég skil það teljast það formleg mótmæli sem færð eru fram með munnlegum hætti við erindreka annars ríkis, og hæstv. ráðherra má gjarnan staðfesta það. En verður eitthvað frekar aðhafst? Hæstv. ráðherra hefur rætt að hugsanlega verði farið í samstarf við Norðurlöndin. Nú liggja fyrir frekari fréttir þar sem norrænir ríkisborgarar fá sömu meðferð og íslenskir ríkisborgarar, þ.e. séu þeir með tvöfalt ríkisfang, verður þá eitthvað sérstakt aðhafst á þeim vettvangi?

Ég ítreka (Forseti hringir.) það sem varðar — það er rétt sem hæstv. ráðherra segir: Við erum ekki ábyrg fyrir framkvæmd þessarar tilskipunar. En hvernig getum við tryggt að þeir flugrekstraraðilar sem hér eru starfandi, og fjöldi manns millilendir hér á leiðinni til Bandaríkjanna, séu sem best upplýstir um hvað bíður?



[14:08]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það var strax á sunnudagsmorgun sem ég tjáði mig um afstöðu íslenskra stjórnvalda í þessu máli. Þá þegar hóf íslensk utanríkisþjónusta að starfa til að reyna að vinna úr þessum málum, fá upplýsingar og sömuleiðis að hjálpa þeim einstaklingum sem um ræðir og íslenska utanríkisþjónustan mun halda því áfram. Hv. þingmaður getur verið alveg viss um það. Við gerum það sem við getum og í okkar valdi stendur til að koma þessum málum í eins góðan farveg og mögulegt er.

Mótmælunum hefur verið komið á framfæri með skýrum og afdráttarlausum og milliliðalausum hætti. Síðan munum við vinna með sendiráðum okkar, og höfum verið í sambandi við þau um heiminn, og sömuleiðis bandaríska sendiráðinu og bandarískum stjórnvöldum. Við munum gera hvað við getum til að fylgja þessum málum eftir. Hv. þingmaður getur verið alveg viss um að alveg eins og menn hafa unnið mjög mikið núna á þessum tveimur sólarhringum verður þeirri vinnu haldið áfram.