146. löggjafarþing — 20. fundur
 31. janúar 2017.
sjómannaverkfallið.

[14:28]
Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sjómannaverkfallið hefur nú staðið í yfir einn og hálfan mánuð og er farið að hafa víðtæk áhrif á þau sveitarfélög sem eru háð sjávarútvegi. Í sumum tilfellum er um að ræða að 40% tekna þeirra komi óbeint eða beint frá sjávarútvegi eins og fram kom í viðtali við Pál Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóra í Fjarðabyggð í Morgunblaðinu í dag.

Af þessu má ljóst vera að talsverð óvissa ríkir hjá mörgum sveitarfélögum vegna verkfallsins auk þess sem mörg þessara samfélaga hafa haldið að sér höndum hvað varðar fjárfestingar og samneyslu. Ljóst er að sjómenn og fjölskyldur þeirra finna verulega fyrir verkfallinu og fiskverkafólk lendir nú í alvarlegum vandræðum.

Að auki eru erlendir markaðir að glatast vegna þess að ekki er hægt að koma ferskum fiski að.

Því vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fyrsta lagi: Hefur ráðuneytið metið hversu lengi sjómannaverkfallið geti staðið án þess að valda varanlegum skaða í þessum byggðarlögum? Í öðru lagi: Hefur ráðherrann látið reikna út hver skaðinn verður í þessum byggðarlögum og hvert þjóðhagslegt tap er vegna sjómannaverkfallsins? Í þriðja lagi: Hyggst ráðherrann reyna að liðka til við að leysa sjómannaverkfallið? Ef svo er: Með hvaða hætti? Og í fjórða lagi: Er verið að skoða mótvægisaðgerðir í þessum byggðarlögum?



[14:29]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Hæstv. forseti. Já, ég deili áhyggjum hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur af þeim víðtæku áhrifum sem verkfall sjómanna hefur á íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf. Við erum ekki eingöngu að tala um fiskiskipin og fiskvinnsluna sem slíka sem ég hef miklar áhyggjur af, fiskverkunarfólkið, heldur ekki síður þau afleiddu störf sem við höfum sem betur fer séð spretta upp í gegnum nýsköpun, nýjan markað o.s.frv. Verkfallið hefur víðtæk áhrif á sveitarfélögin, bæði á landsbyggðinni en líka í þéttbýlinu, og á fólk sem hefur menntað sig til þess að efla og styðja við sjávarútveginn.

Þetta eru fjórar spurningar sem hv. þingmaður spyr mig um. Höfum við metið hvaða áhrif þetta hefur á sveitarfélögin? Við erum ekki farin af stað með formlega vinnu en við höfum rætt það innan okkar raða hvernig og hvort við getum komið með einhverjar mótvægisaðgerðir. En eins og hv. þingmaður veit eflaust eru byggðamálin m.a. farin, því miður, úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, en þetta er eðlilega samstarf á milli þeirra ráðuneyta sem um þessi mál fjalla ásamt samtali við sveitarfélögin. Það er alveg ljóst að við munum skoða hver áhrif verkfallsins verða, ekki síst á hinar dreifðu byggðir landsins þar sem atvinnulífið er fábrotnara en á suðvesturhorninu. Við þurfum einfaldlega að horfast í augu við það og skoða hvað hægt er að gera til þess að styðja við sveitarfélögin.

En ég vil undirstrika það sem ég hef sagt og tel varhugavert að gera, því að hv. þingmaður spyr hvort það eigi að liðka til: Er hv. þingmaður þá að tala um að við eigum að koma inn í deiluna með einhverjum sértækum aðgerðum? Ef hv. þingmaður er að tala um það segi ég nei. Ef hv. þingmaður er að tala um að setja lög á sjómannaverkfallið segi ég aftur skýrt nei. Til lengri tíma, líka skemmri, er mikilvægt að ríkisvaldið sendi skýr skilaboð til deiluaðila á vinnumarkaði. Það er þeirra að sjá um þetta verkfall, það sem við getum í raun einkum (Forseti hringir.) gert er að hvetja menn til dáða, láta fólk axla ábyrgð í því að leysa kjaradeilur. Ég held að það sé fortíðarmál (Forseti hringir.) að láta ríkið koma inn í þetta eins og staðan er í dag.



[14:32]
Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði hins vegar viljað fá aðeins skýrari svör. Það veldur mér talsverðum vonbrigðum að ráðuneytið sé ekki komið lengra í því að meta umfang þessa stóra máls, hvaða áhrif það muni hafa á þessi byggðarlög og hvaða þjóðhagslegu áhrif sjómannaverkfallið hefur á okkur.

Ég hefði haldið að það væri algert forgangsmál hjá hæstv. ráðherra að fara í þetta mál og koma með aðeins skýrari svör í þingið. Verkfallið hefur nú staðið yfir í einn og hálfan mánuð. Ég er mjög hissa á að stefnan sé ekki skýrari og að ekki sé búið að vinna meira í þessu máli. Það kemur mér verulega á óvart.

Við vitum að gjaldeyristekjurnar frá sjávarútvegi eru afskaplega miklar. Fyrir mörg byggðarlög er það lífsspursmál að þetta verkfall leysist. Ég hefði því haldið að ráðherrann væri betur undirbúin að svara þessu en með þeim svörum sem við höfum fengið hér í dag.



[14:33]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Hæstv. forseti. Ég tel það mjög alvarlegt ef þingmenn vilja í miðri kjaradeilu að stjórnmálamenn sendi mjög skýr skilaboð út í kjaradeilurnar. Það tel ég mjög varhugavert. Ég undirstrika það sem ég sagði áðan, við erum að sjálfsögðu byrjuð á því að undirbúa mat á aðgerðum sem hugsanlega þarf að fara í og kanna hvaða áhrif verkfallið mun hafa til skemmri og lengri tíma á hinar dreifðu byggðir landsins. En ég tel varhugavert ef þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, ætli til að mynda að koma með lagafrumvörp sem beint er inn í kjaradeiluna, ef menn ætla t.d. að setja fram ákveðin viðmið um olíuverð, sem er heit kartafla í þessum viðræðum. Ég vara við því að stjórnmálamenn blandi sér í þessa deilu með beinum eða óbeinum hætti.

Við erum tilbúin í sjó og land og eins og hv. þingmaður veit hefur ráðuneytinu í gegnum tíðina verið sæmilega stjórnað og þannig er því stjórnað áfram. Við erum tilbúin til þess að verja og styrkja hinar dreifðu byggðir landsins nú sem endranær.