146. löggjafarþing — 22. fundur
 31. janúar 2017.
sjúkratryggingar, 1. umræða.
frv. OH o.fl., 4. mál (samningar um heilbrigðisþjónustu). — Þskj. 4.

[19:15]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum og sú breyting sem ég mæli fyrir lýtur að samningum um heilbrigðisþjónustu.

Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Logi Einarsson og Guðjón S. Brjánsson.

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 145. löggjafarþingi af þingmönnum úr þingflokki Samfylkingarinnar en 1. flutningsmaður þá var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju nánast óbreytt.

Lagðar eru til breytingar á lögum um sjúkratryggingar er varða samninga um heilbrigðisþjónustu eins og áður sagði. Lagt er til að við 40. gr. laganna, sem fjallar um samninga um heilbrigðisþjónustu, bætist tvö ný skilyrði fyrir samningsgerð. Annars vegar er lagt til að svo að ráðherra sé heimilt að ganga til samninga um rekstur heilsugæslu eða heilbrigðisstofnana, samanber 14., 15. og 17. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, þurfi að liggja fyrir ályktun Alþingis þar sem kveðið verði sérstaklega á um hvaða samninga ráðherra beri að gera sem og helstu forsendur þeirrar samningsgerðar.

Í því felst að ráðherra, eða eftir atvikum aðrir þingmenn, leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar þar sem ráðherra verði falið að ganga til samninga um rekstur tiltekinnar heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar, einnar eða fleiri, og að í ályktuninni verði markaður skýr rammi utan um það umboð sem ráðherra hefur til samningagerðarinnar hverju sinni. Aðrar forsendur samningsgerðar sem kveðið er á um í 40. gr. laganna munu einnig gilda um samninga sem ráðherra gerir að fenginni ályktun Alþingis að því leyti sem ekki er mælt sérstaklega fyrir um þær forsendur í ályktuninni. Tilgangur þessarar breytingar er að ráðherra hafi skýrt umboð lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar hverju sinni til að ganga til samninga við einkaaðila um rekstur mikilvægra grunnstoða heilbrigðiskerfisins. Að óbreyttu getur ráðherra tekið stefnumótandi ákvarðanir fyrir heilbrigðiskerfið án þess að þurfa að bera þær undir þingið. Það finnst okkur flutningsmönnum þessa frumvarps algerlega óásættanlegt.

Stefna síðustu ríkisstjórnar var að færa sífellt meira af grunnstoðum velferðarkerfisins í einkarekstur. Svo virðist sem ný ríkisstjórn sé á sama máli. Að mati flutningsmanna verður ekki við það unað enda þarf að virða vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar um að grunnþjónusta, líkt og heilbrigðisþjónusta, verði veitt af hinu opinbera. Tryggja þarf að einkaaðilar fleyti ekki rjómann ofan af í samningum við hið opinbera á þann veg að þeir fái greitt án þess að axla sambærilegar skyldur og opinberir aðilar þurfa að gera. Tryggja þarf að allir landsmenn hafi jafnan aðgang að þjónustunni og að greiðsluþátttöku sjúklinga verði haldið í lágmarki. Þá hafa fræðimenn margir bent á að einkarekstur í heilbrigðiskerfi auki frekar heildarkostnað en að hann dragi úr honum vegna hás stjórnunarkostnaðar, aukins eftirlitskostnaðar, ósveigjanleika í þjónustusamningum og ósamhæfðrar og ósamfelldrar þjónustu. Í könnun sem gerð var í apríl 2013 kom fram að 80% landsmanna vildu að rekstur heilbrigðisþjónustu yrði fyrst og fremst á vegum hins opinbera. Þá hafa nýlega rúmlega 86 þúsund manns skrifað undir undirskriftalista þess efnis að setja eigi heilbrigðismálin í forgang og leggja aukið fé í heilbrigðiskerfið.

Með frumvarpinu er einnig lögð til sú breyting á 40. gr. laga um sjúkratryggingar að í samningi um heilbrigðisþjónustu skuli kveðið sérstaklega á um ráðstöfun hagnaðar sem til verði í rekstri þess einkaaðila sem gerður er samningur við. Skal í samningnum m.a. kveðið á um að viðkomandi aðila sé óheimilt að greiða arð til eigenda sinna. Í ákvæðinu felst því skilyrðislaust bann við arðgreiðslum þegar gerðir eru samningar um heilbrigðisþjónustu og jafnframt verði heimilt að kveða á um hvernig hagnaði skuli að öðru leyti ráðstafað. Ákvæðið gildir um alla samninga um heilbrigðisþjónustu sem gerðir eru á grundvelli laga um sjúkratryggingar og rétt að taka fram samhengisins vegna að gildissvið þess er því mun rýmra en ákvæði a-liðar 1. gr. þessa frumvarps. Tilgangur þessa ákvæðis er augljós en hann er að koma í veg fyrir að skattfé almennings, sem varið er til að veita landsmönnum heilbrigðisþjónustu, verði varið í arðgreiðslur til eigenda félaga sem hafa gert samning við ráðherra um veitingu heilbrigðisþjónustu og greitt er fyrir að hluta eða öllu leyti með skattfé almennings. Skattfé sem Alþingi hefur ákveðið með fjárlögum að nýta skuli í heilbrigðiskerfinu á með sönnu að nýta þar. Ef afgangur er í rekstri einkaaðila sem fjármagnaður er með skattfé ber að nýta þann afgang til fjárfestingar í rekstrinum og auka þannig gæði þjónustunnar, bæta umbúnað sjúklinga og starfsskilyrði og menntun starfsfólks og stuðla með því að betri heilbrigðisþjónustu sem nýtir almannafé á ábyrgan hátt. Með þessari tillögu er horft til tillagna sama efnis í Svíþjóð en þar hefur sýnt sig með auknum einkarekstri í velferðarþjónustu síðustu ár að arðgreiðslur til eigenda félaga sem starfa í velferðarþjónustu hafa ekki gefið góða raun og sænskir sósíaldemókratar hafa lagt til að slíkum aðilum verði bannað að greiða arð. Árétta ber að eigendur slíkra fyrirtækja geta eftir sem áður greitt sér þau laun sem þeir telja hæfileg miðað við reksturinn. Þeir munu hins vegar ekki geta greitt sér út arð, en skatthlutfall af arðgreiðslum er mun lægra en af launagreiðslum.

Gildandi samningar um heilbrigðisþjónustu halda gildi sínu en við endurnýjun þeirra þurfa þeir að vera í samræmi við ákvæði frumvarps þessa verði það þá orðið að lögum.

Virðulegi forseti. Að lokum óska ég eftir því að frumvarpið gangi til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.



[19:22]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ágæta yfirferð á framlögðu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Mér þykir þetta gott mál. Þetta er skynsamlegt mál og ég mun styðja það. Sú sem hér stendur og minn flokkur höfum þá stefnu, eins og það er orðað í ályktun flokksins, að gjalda varhuga við einkarekstri. Þess vegna finnst mér það í mjög góðu samræmi við þá stefnu þar sem einkarekstur er ekki útilokaður en það þurfi meira til en ákvörðun ráðherra til að taka slíka ákvörðun. Heilbrigðiskerfið er kerfi okkar allra eins og ég sagði í ræðu um málið sem var á undan á dagskrá þá viljum við öll, já, ég þori nánast að fullyrða að sama í hvaða flokki við erum, að allir Íslendingar hafi jafnan aðgang að góðu heilbrigðiskerfi. Við viljum takmarka greiðsluþátttöku fólks því að með aukinni greiðsluþátttöku eykst mismunun gagnvart þeim sem hafa minna á milli handanna og leita sér þá síður læknisþjónustu, heilbrigðisþjónustu. Það viljum við ekki.

Ég er ein af þeim 80% sem vilja að heilbrigðiskerfið okkar sé hjá hinu opinbera. Ég hef trú á því að það tryggi þann jöfnuð sem skiptir samfélagið mjög miklu máli. Ójöfnuður er það sem grefur undan okkur, grefur undan sáttinni, eykur óánægju og leiðir til ófriðar. Um heilbrigðiskerfið, menntakerfið og aðra slíka þjónustu á að gilda að allir hafi sama aðgang að þeirri þjónustu að mínu mati.

Ég kannast þó ekki við það sem kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur að stefna síðustu ríkisstjórnar hafi verið sú að auka við einkavæðingu. Ég er ekki með tölur með mér en ég held að þetta komi líka fram í McKinsey-skýrslunni frá 2016, að sú stefna og sú framkvæmd hafi verið meira áberandi áður. En eins og ég segi og hef sagt, við þurfum svo sem ekki að vera að leita endalaust að sökudólgum, hver gerði hvað og hvernig og allt þetta. Við þurfum að horfa til framtíðar.

Forstjóri Landspítalans og fleiri sérfræðingar sem þekkja heilbrigðiskerfið mjög vel hafa talað um á undanförnum dögum í umræðunni um Klíníkina sem er einkarekin heilbrigðisþjónusta að slík þjónusta muni veikja heilbrigðiskerfið, aukinn einkarekstur muni veikja heilbrigðiskerfið okkar. Það er full ástæða til að hlusta á slík varnaðarorð. Þetta frumvarp gengur akkúrat út á það að ef til kemur, ef uppi eru hugmyndir um að fara með þessa þjónustu í einkarekstur, sé varnaglinn sá að ákvörðunin þurfi að fara í gegnum Alþingi, fara í gegnum nánari skoðun þar og svo verði þar tekin ákvörðun. Hún liggi ekki bara hjá einum manni og einu ráðuneyti.

Auð auki tek ég undir þau sjónarmið sem málsflytjandi, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, fór yfir varðandi arðgreiðslur. Þar er ég líka algerlega sammála. Það er óeðlilegt í besta falli að ríkisfé fari í arðgreiðslur. Af sjálfsögðu á það að renna aftur inn í reksturinn, honum til hagsbóta og til uppbyggingar.

Þetta er gott mál. Ég styð það og ég vona að það fái góða umfjöllun og afgreiðslu í Alþingi.



[19:26]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka flutningsmanni, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir að flytja þessa þingsályktunartillögu, sem er flutt öðru sinni, um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Sömuleiðis vil ég nota tækifærið og þakka fyrir umræðuna alla um heilbrigðisþjónustu og þingsályktunartillögu hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur um heilbrigðisáætlun.

Heilbrigðisþjónusta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur fyrir alla landsmenn, en jafnframt afar viðkvæmur. Við sem höfum starfað í þeim geira þekkjum það giska vel. Landið er allt á iði og búsetuhættir landsmanna eru að breytast. Það er ekki óeðlilegt að við förum að huga að breytingum á því hvernig við viljum veita þessa þjónustu. Þetta er í senn jafnréttismál og byggðamál líka. Í þessu getur falist byggðastefna stjórnvalda. Ekki byggðastefna byggðastefnunnar vegna því að með því að byggja upp heilbrigðisþjónustu um allt land gerum við líka fagfólki kleift að búa vítt og breitt um landið.

Samgöngur hafa breyst og batnað. Taka ber mið af því. Og síðan hefur ekki síst þekking bæði íbúanna og einstaklinganna, landsmanna yfir höfuð, aukist. Við vitum meira um heilbrigðisþjónustu og heilsufar en við vissum fyrir 20 árum. Við erum miklu meðvitaðri um gæði þjónustunnar. Krafan um bestu mögulegu þjónustu verður stöðugt ríkari.

Sömuleiðis eru breytt viðhorf fagfólks sem vinnur við heilbrigðisþjónustu. Það er eitt viðfangsefnið. Nú er það liðin tíð að læknir sé reiðubúinn að setjast einn að í litlum bæ og binda sig á vöktum daginn út og daginn inn mánuðum saman. Þetta er fortíð. Við verðum að miða að því í okkar vinnu að búa fagfólki sem vill vinna í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni ásættanlegt starfsumhverfi. Síðan að taka afstöðu til þessara þátta, sem eru hvar við eigum að veita þjónustu, hvar við eigum að hafa uppi heilbrigðisstofnanir eða heilsugæslustöðvar og hvaða þjónustu, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á. Og hvað tilheyrir grunnþjónustunni. Sumir segja að á hverri og einni einustu heilsugæslustöð eigi að vera t.d. möguleiki á að taka röntgenmyndir. Fagfólk er ekki endilega sammála um þetta atriði svo það sé tekið. Það eru svona málefni sem við þurfum að skapa okkur samkomulag um. Þetta er mjög erfitt að gera innan hverrar og einnar heilbrigðisstofnunar því að málið er svo viðkvæmt heima fyrir.

Síðan eru það þau atriði sem lúta að heilbrigðisumdæmunum, sem eru átta í landinu. Hvaða vald og verkefni eigum við að veita og fela þeim, og hvaða sjálfstæði, faglegt og fjárhagslegt? Þarna eru sóknarfæri fyrir landshluta, getum við sagt.

Við vitum að heilbrigðisþjónustan á Íslandi hefur gengið í gegnum miklar þrengingar á undanförnum árum. Við höfum ekki náð vopnum okkar enn sem komið er. Þetta endurspeglaðist í umræðunni sem var hörð á köflum um málefni Landspítalans, þessarar mikilvægustu heilbrigðisstofnunar á landinu, núna skömmu fyrir jólin í aðdraganda fjárlagagerðar. Mönnum hefur svolítið orðið tíðrætt um að Landspítalinn fái mikla athygli, en hann er auðvitað mikilvægasta heilbrigðisstofnun landsmanna, sú heilbrigðisstofnun sem við lítum öll til ef mikið liggur við. Það er bara þannig. Það er ekki óeðlilegt þótt sú stofnun fái mikla athygli og lögð sé áhersla á það, bæði af starfsmönnum og stjórnendum þar, að vel sé búið þar um hnútana. Hins vegar er það nú þannig að Landspítalinn á ekki að gera alla hluti. Hann á ekki að vera upphaf og endir á öllu. Okkar mein eru ekki þess eðlis að þau séu lífshættuleg í öllum tilvikum og það eru ýmisleg meðalstór læknisverk og allumfangsmikla heilbrigðisþjónustu hægt að veita annars staðar en á Landspítala. Komið var inn á það einmitt áðan að slíkt væri hægt að veita t.d. á suðvesturhorninu, á Suðurnesjum væri heilbrigðisstofnun sem væri í túnfæti flugvallarins. Er ekki hægt að hugsa sér að einn af þeim spítölum á suðvesturhorninu legði áherslu á að veita t.d. útlendingum heilbrigðisþjónustu?

Það er náttúrlega alvarlegt þegar stærsta heilbrigðisstofnun okkar á erfitt með að rækja sitt lögbundna hlutverk vegna fjárskorts. Við vitum í hvaða sporum aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu hafa verið. Í þéttbýliskjörnum, á mesta þéttbýlissvæði landsins eru heilbrigðisstofnanir sem eru vel búnar. Þær eru með aðgerðaaðstöðu sem er vannýtt. Ég geri ráð fyrir að nýtingin á aðgerðaaðstöðunni á heilbrigðisstofnunum á Akranesi, Selfossi, í Keflavík, sé svona 50–70%. Þó að þær séu vel nýttar að öðru leyti.

Þær stofnanir gætu verið virkir þátttakendur í ýmsum verkefnum í ríkara mæli, m.a. á aðgerðasviði, ef hugur stjórnvalda stæði til þess. En það stefnir bara í aðra átt. Mikilvægasta atriðið í þessu öllu saman er að þótt aðstaðan á þessum þremur stofnunum sem ég nefndi sé ágæt, það eru t.d. tvær glæsilegar skurðstofur í Keflavík, kemur það að litlu gagni ef við höfum ekki þjálfaðan, góðan mannafla. Það áttum við í Keflavík en eigum kannski ekki lengur nema að mjög litlu leyti vegna þess að þær skurðstofur eru í lítilli notkun. Það er það mikilvægasta, að hafa þjálfaðan mannskap. En það kemur ekki í veg fyrir að nýta megi þær stofnanir miklu betur eins og kom fram í máli þingmanna áðan, starfsfólkið er miklu hreyfanlegra en sjúklingarnir.

Mikill þrýstingur er á að færa aukinn hluta heilbrigðisþjónustunnar til einkaaðila. Einkaaðilar líta auðvitað einfaldlega á þennan geira sem gróðavænleg viðskipti og fara svo sem ekki dult með það. Heilbrigðisþjónusta er hins vegar ekki eins og hver önnur vara. Þetta eru ómæld verðmæti. Einkarekin þjónusta sem starfrækt er á viðskiptalegum grunni á að skila hagnaði, enda liggja milljarðar undir í fjárfestingu. Reynsla annarra þjóða af starfsemi af þessu tagi er almennt á eina lund; rjóminn er fleyttur ofan af og sérhæfing í tiltölulega einföldum valaðgerðum og gróðavænlegum verkefnum á sér stað. Það er engin heildaryfirsýn og ábyrgð. Þar er almennt ekki um bráðaþjónustu að ræða. Viðbúnaður til að takast á við hliðarverkefni eða „komplikasjónir“ eða ef eitthvað fer úrskeiðis, er gjarnan látinn lönd og leið og í hendur opinberra sjúkrastofnana sem þurfa að glíma við „akút“ tilfellin sem oft eru tímafrek, samsett og flókin. Menntunarþátturinn er skilinn eftir, rannsóknir og þjálfun starfsmanna. Þetta eru veigamikil atriði og fyrst og fremst samfélagsverkefni sem opinberar heilbrigðisstofnanir, í okkar tilfelli Landspítali, annast fyrst og fremst.

Síðast en ekki síst er það mikill misskilningur að með þessu náum við markmiðum um að lækka kostnað í heilbrigðisþjónustu. Reynslan víðast hvar er sú að hið öndverða gerist. Þjónustan verður auk þess ósamstæðari og lakari þegar á heildina er litið.

Það er skaðlegt að leggja á þessar brautir nú þegar almenna heilbrigðiskerfið er í grunninn vanfjármagnað og við bíðum enn eftir raunverulegri stefnu í málaflokknum.

Að lokum vil ég segja þetta, virðulegi forseti: Það er algerlega ótækt að ráðherra einn og án aðkomu þingsins skuli geta tekið svo afdrifaríkar og stefnumarkandi ákvarðanir, að færa viðkvæma þjónustu, eins og gegnir um heilbrigðisþjónustu í þágu almennings, í hendur einkaaðila. Það er dirfska, svo ekki sé meira sagt. Ekki síst þar sem það er þvert á yfirlýstan og staðfestan vilja þorra þjóðarinnar þegar spurt er.



[19:38]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langaði að koma upp í stutta ræðu og fagna því máli sem hér um ræðir og þakka hv. þingmönnum Samfylkingarinnar fyrir að leggja þetta góða mál fram og þá sérstaklega hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur.

Ég er með nokkra punkta á nokkrum blöðum sem vöknuðu við framsögurnar sem fram hafa farið. En í fyrsta lagi langar mig að ræða það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að tilgangur þessara breytinga er að ráðherra hafi skýrt umboð lýðræðislegra kjörinna fulltrúa þjóðarinnar hverju sinni til að ganga til samninga við einkaaðila og að hann þurfi að hafa slíkt umboð. Það er mjög mikilvægt að ráðherra hafi skýrt umboð. Ég tek undir þetta, að hann hafi skýrt umboð frá Alþingi til að ganga til samninga. Hann geti ekki bara ákveðið einn og sér hvernig og hvaða stefna sé tekin í heilbrigðismálum. Ég tel að þetta sé náskylt því máli sem við ræddum hér á undan þessu um mikilvægi stefnumótunar. Eins og hv. þm. Halldóra Mogensen sagði áðan þá verðum við að vita hvert við ætlum að stefna og hvaða átt við ætlum að fara í.

Ef maður horfir á það frá svolítið sanngjörnu sjónarmiði þá er líka jákvætt að hæstv. ráðherrar hverju sinni þurfi ekki að taka þessa ákvörðun einir, að það sé stefna til langs tíma, stefnumótandi mál til langs tíma, við bakið á þeim, og þeir viti hvaða umboð þeir hafi frá lýðræðislegum fulltrúum, hv. þingmönnum á Alþingi, þingheimi, til þess að taka ákvörðun um í hvaða átt skuli stefna.

Í öðru lagi langaði mig að minnast á atriði sem fram kemur í greinargerð með þessu ágæta frumvarpi, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Tryggja þarf að einkaaðilar fleyti ekki rjómann í samningum við hið opinbera á þann veg að þeir fái greitt án þess að axla sambærilegar skyldur og opinberir aðilar þurfa að gera.“

Þetta er jafnframt mjög mikilvægt. Í síðustu viku komu fréttir um það að landlæknir hefði veitt Klínikinni leyfi til þess að opna legudeild til þess að stytta biðlista eftir ákveðnum skurðaðgerðum. Í framhaldi af því höfum við báðir hv. þingmenn, ég, Elsa Lára Arnardóttir, og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, óskað eftir fundum í ákveðnum nefndum vegna málsins. Í fyrramálið fer fram fundur í hv. velferðarnefnd með aðilum vegna þessa máls.

Ég átti ýmis samtöl við fagfólk um helgina, en fagfólk með ákveðnar og mismunandi skoðanir hefur haft samband um helgina eftir fréttatilkynningar um þessa þætti og lýst skoðunum sínum á þessu fyrir mér og þær eru jafn mismunandi og þær eru margar. En það sem fram kom og stóð mjög mikið upp úr í þeirri umræðu eru áhyggjur fagfólks af því að í einkarekna kerfinu geti fyrirtækin ákveðið hvaða aðgerðir verða framkvæmdar. Þau geti valið sér hagkvæmari aðgerðir, sem jafnvel hraustara fólk kannski kemur í, á meðan við erum með ríkisreknu sjúkrahúsin og heilbrigðisstofnanirnar sem eru skyldugar til að taka við öllum aðgerðum, sama hvort þær eru hagkvæmar eða ekki. Ég hafði ekki alveg gert mér grein fyrir því. Við heyrum oft umræðuna um að þetta sé bara fínt, við fáum meira fyrir peninginn með því að fara inn í einkarekna kerfið. En í samtölum mínum við fagfólk stóð jafnframt upp úr að það er ekki hægt að bera saman hagkvæmni hins opinbera og einkarekna vegna hins eðlisólíka sviðs sem er þar á bak við, einkareknu fyrirtækin geta valið aðgerðirnar á meðan hin eru skyldug til að taka allt. Mér finnst þetta því mjög góður texti sem fram kemur í greinargerðinni um þetta.

Jafnframt langar mig aðeins að ræða það sem kemur fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er einnig lögð til sú breyting á 40. gr. laga um sjúkratryggingar að í samningi um heilbrigðisþjónustu skuli kveðið sérstaklega á um ráðstöfun hagnaðar sem til verði í rekstri þess einkaaðila sem gerður er samningur við. Skal í samningnum m.a. kveðið á um að viðkomandi aðila sé óheimilt að greiða arð til eigenda sinna.“

Þetta tel ég jafnframt mjög mikilvægt því hér er um að ræða heilbrigðisþjónustu. Ríkið veitir einhvern stuðning inn í þennan þátt. Um er að ræða skattfé almennings og það þurfa að vera skyldur og mjög skýrar skorður um það hvað verður um þennan hagnað. Auðvitað viljum við að starfsfólkið hafi góða vinnuaðstöðu, sjúklingarnir góða aðstöðu og tækin séu góð, og það verða að vera mjög skýrar skorður um það að ef hagnaður verði af greininni renni hann til þeirra þátta.

Ég styð þetta mál. Ég hlakka til, þar sem ég sit í hv. velferðarnefnd, að taka það til umræðu og tel það geti haft ákveðin samlegðaráhrif með stefnumótunarákvæðunum varðandi stefnumótun í heilbrigðismálum og verði gott að taka þetta allt samhliða. Ég hlakka til.



[19:44]
Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Aftur bara stutt. Mig langar til þess að fagna þessu góða frumvarpi. Sem nýr þingmaður í velferðarnefnd hlakka ég ótrúlega mikið til að viða að mér upplýsingum um þetta mál af því að við verðum að skoða það. Ég tek undir með hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur um að það tengist því sem við vorum að ræða áðan varðandi heilbrigðisáætlun.

Þegar kemur að svo stefnumótandi ákvörðunum eins og þarna eru finnst mér að þær eigi að bera undir þingið. Í rauninni mundi ég ganga lengra og segja að við ættum að bera þetta mál undir þjóðina af því að við þurfum að taka ákvörðun um það í sameiningu sem þjóðfélag hvert við viljum stefna. Það sem ég var að reyna að segja áðan og átti erfitt með af því að ég var að reyna að þýða enskan málshátt, er að ef við vitum ekki í hvaða höfn við siglum þá er engin vindátt hagstæð. Það er mikilvægt að við ákveðum saman hvert við viljum stefna í þessum málum.

Það eru mörg mál sem koma inn núna sem tengjast ofboðslega mikið, eins og stefnan varðandi heilbrigðisáætlun til framtíðar, þetta mál og einnig sérstakar umræður um málefni öryrkja, sem verður mjög góð og áhugaverð umræða. Og Klíníkin verður rædd í fyrramálið í velferðarnefnd. Þá fáum við gesti og ræðum það mál. Það er mjög flott að við tökum svona umræðu og tökum ákvarðanir fyrir framtíðina.

Það er mjög varasamt að færa gróðasjónarmið inn í heilbrigðiskerfið. Það er í eðli viðskipta þar sem markmiðið er hagnaður að vilja bæta við sig viðskiptavinum. Það er eiginlega þvert á það sem við stefnum að í heilbrigðiskerfinu, við viljum ekki fjölga þar. Það skiptir gríðarlega miklu máli í heilbrigðisáætlun að við tökum forvarnir fyrir. Við getum t.d. alveg sparað í heilbrigðiskerfinu. Það er bara spurning um sameiginlega ákvörðun um hvers konar samfélagi við viljum búa í. Viljum við minnka álag og stress með því að skapa fjárhagslegt öryggi og afnema óvissu um framtíðina? Þessir þættir hafa bein áhrif á kostnað í heilbrigðiskerfinu. Viljum við skapa mannsæmandi líf fyrir öryrkja? Það hefur bein áhrif á heilbrigðiskerfið.

Eins og staðan er í dag erum við ofboðslega mikið í því að færa til kostnað úr einu kerfi yfir í annað. Ég held að það sé út af því að það er skortur á heildarsýn á því hvert við viljum stefna sem þjóðfélag. Ég skora á þingmenn að taka þetta einu skrefi lengra og spyrja þjóðina fyrst. Tökum þessa ákvörðun saman.



[19:48]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil rétt í lok þessarar umræðu þakka fyrir hana og þakka fyrir jákvæðar og góðar ræður.

Ég held að ekki sé vanþörf á þessu frumvarpi og ég held að sé mikilvægt að það gangi hratt og vel í gegnum þingið og verði samþykkt. Ég átta mig á því að það fer kannski lengri tími í stefnumörkunina þó að ég skilji vel að þetta eigi vel saman. En það eru hættumerki á lofti. Það er nýbúið að bjóða út heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og nú er verið að þrýsta á það að samþykkja einkasjúkrahús. Þetta eru stórar ákvarðanir sem skipta miklu máli fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir þjónustu íbúa landsins og það hallar á opinbera kerfið núna. Auk þess, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, er það samdóma álit mikils meiri hluta Íslendinga að heilbrigðisþjónustan eigi mest að vera í opinberum rekstri. Þess vegna getur það ekki gengið að slík ákvörðun liggi hjá einum manni og fari fram hjá þinginu. Það er alveg útilokað að við getum sætt okkur við það þannig að við þurfum að samþykkja þetta frumvarp fljótlega og áður en ráðherrar fara að nýta sér þessar heimildir í lögunum.

Af því að hér var verið að tala um stefnumótun og hafnir og vindáttir þá datt mér í hug Lísa í Undralandi og kötturinn, þegar Lísa spurði köttinn: Hvaða leið á ég að fara? Og kötturinn sagði: Hvert viltu fara? Hún sagði: Ja, ég vil bara fara eitthvað, segir hún, bara eitthvað. Þangað kemstu örugglega, sagði kötturinn, einkum ef þú ferð nógu langt.

Mér finnst að við eigum að hafa þetta í huga þegar við erum að taka stefnuna í svona mikilvægu máli eins og heilbrigðisþjónusta er og í þeim málum sem við höfum verið að ræða hér í dag.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.