146. löggjafarþing — 23. fundur
 1. feb. 2017.
sérstök umræða.

kjör öryrkja.

[15:37]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég óskaði eftir sérstakri umræðu um kjör öryrkja til að fá fram áherslur og stefnu nýrrar ríkisstjórnar um hvernig og hvort bæta eigi kjör þeirra á kjörtímabilinu og hvernig og hvort eigi að ráðast í kerfisbreytingar á lífeyri öryrkja.

Staðreyndin er sú að kjör öryrkja hafa ekki batnað í sama hlutfalli og annarra hér á landi. Í hópi öryrkja eru einstaklingar sem eru líklegastir til að búa við fátækt og búa ekki við mannsæmandi aðstæður. Í lok síðasta þings gerði þáverandi meiri hluti breytingar á lífeyrisgreiðslum þannig að greiðslur til öryrkja í sambúð hækkuðu í 227.833 kr. á mánuði. Fyrir þá sem búa einir var framfærsluuppbót hækkuð til að brúa bilið upp í 280 þús. kr. sem verða lágmarkslaun á árinu 2017.

Framfærsluuppbótin skerðist um krónu á móti krónu. Síðasti stjórnarmeirihluti ákvað að auka vægi þessara 100% skerðinga. Þar til þá hafði verið samstaða um að draga úr þeim í almannatryggingakerfinu, enda eru þær atvinnuletjandi en umræðan hafði verið um að auka atvinnuþátttöku öryrkja. Með þessari ákvörðun dregur verulega í sundur með öryrkjum í sambúð og hinum sem búa einir og viðbótin skerðist öll, króna á móti krónu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar segir, með leyfi forseta:

„Tekið verði upp starfsgetumat og örorkulífeyriskerfið þannig gert sveigjanlegra til að ýta undir þátttöku á vinnumarkaði.“

Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að atvinnuletjandi skerðingum verði breytt. Þegar rætt er um að breyta áherslum frá örorkumati yfir í starfsgetumat eru flestir sammála um að það sé jákvæðari nálgun að meta hvað viðkomandi getur fremur en að leggja áherslu á það sem hann getur ekki. En ég á erfitt með að skilja þessa miklu áherslu á starfsgetumat. Er ekki örorkumatið að viðbættu starfsgetumatinu samtals 100%? Ef við vitum örorkumatið vitum við um leið hver starfsgetan er. Eða er skilgreining á starfsgetumati einhver önnur?

Ég vona að áður en starfsgetumatið verður tekið upp eins og boðað hefur verið muni hæstv. ráðherrann kynna sér vandlega reynslu annarra landa af því og hvaða áhrif endurmatið hefur haft á kjör öryrkja t.d. í Bretlandi. Ég vil benda sérstaklega á tvær rannsóknir á afleiðingum starfsgetumats í Bretlandi sem báðar voru birtar árið 2015. Önnur er gerð af fræðimönnum í háskólanum í Liverpool og Oxford og ber yfirskriftina, með leyfi forseta, First, do no harm, sem þýða má sem: Ekki gera illt verra. Hin er frá sama ári, gerð af fræðimönnum frá háskólanum í Liverpool og heilbrigðisstofnunum í Bretlandi og ber yfirskriftina, með leyfi forseta, Fit For Work Or Fit For Unemployment? sem má þýða sem: Hæfur til að starfa eða hæfur til að vera atvinnulaus? Báðar gefa rannsóknirnar afgerandi niðurstöður um slæm áhrif starfsgetumats á þá sem eru með skerta starfsgetu vegna geðrænna kvilla og langvarandi veikinda.

Við breytinguna yfir í starfsgetumat ættu stjórnvöld að læra af slæmri reynslu Breta og forðast að fara þeirra leið en líta frekar til Noregs þar sem framkvæmd starfsgetumatsins hefur gengið eitthvað betur, þótt hún hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel.

Það hefur ekkert upp á sig að breyta matinu á stöðu fólks sem einhverra hluta vegna er ekki með 100% starfsgetu ef ríkið eða atvinnulífið sem heild hefur engum skyldum að gegna þegar kemur að ráðningu fólks í hlutastörf eða sveigjanlegum vinnutíma. Sumir þurfa á dýrum hjálpartækjum að halda og enn aðrir geta suma daga verið með 100% starfsgetu en í annan tíma aðeins með 20% starfsgetu, svo dæmi sé tekið.

Einnig þarf að taka tillit til aðstæðna, svo sem úti á landi þar sem atvinnulífið er ekki eins fjölbreytt og á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig á að tryggja fólki örugga og mannsæmandi framfærslu? Hvað gerist ef fólk fær ekki vinnu eftir starfsgetumatið? Verður raunin sú að eftir starfsgetumatið fækki fólki á lífeyri en fjölgi í staðinn á atvinnuleysisbótum, sem eru tímabundið úrræði og lakari mánaðargreiðslur? Þaðan gæti leiðin legið á framfærslu sveitarfélaga þar sem bjóðast enn lakari kjör.

Mér finnst að það ætti að vera í forgangi hjá stjórnvöldum, ásamt því að bæta kjör öryrkja verulega, að gera allt sem mögulegt er með stuðning í skólastarfi, með aðstoð við fólk sem getur styrkt stöðu sína, styttingu biðlista í heilbrigðisþjónustu og betri geðheilbrigðisþjónustu ásamt alvöruaðlögun að vinnumarkaði. Sumir munu aldrei geta haslað sér völl á vinnumarkaði. Það þarf líka að taka tillit til aðstæðna þeirra.



[15:42]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að taka þetta mál upp. Í stuttu máli er það þannig að þegar almannatryggingar voru endurskoðaðar á síðasta ári tókst að ljúka endurskoðun á bótakerfi í lífeyrisgreiðslum til aldraðra, en þeirri endurskoðun tókst ekki að ljúka fyrir öryrkja. Þess vegna var gripið til þess bráðabirgðaúrræðis að hækka framfærsluuppbótina sérstaklega til þess að mæta sömu viðmiðum um lægstu tekjur fyrir þá sem búa einir og eru í samningum á almennum vinnumarkaði, þ.e. að þær nái 280 þús. kr. frá upphafi þessa árs og 300 þús. kr. frá upphafi næsta árs.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, þetta er ekki besta lausnin, þarna er um bótaflokk að ræða sem er skertur krónu á móti krónu. En fyrir dyrum stendur endurskoðun á bótafyrirkomulagi örorkubóta og skerðingum með sama hætti og gert var gagnvart öldruðum og vonandi þá með einföldun þar sem um samræmda skerðingu tekna yrði að ræða, óháð því hverjar þær eru, sem er 45% skerðing hjá öldruðum í dag en er með mjög ólíkum hætti þegar kemur að öryrkjum.

Þessu munum við beita okkur fyrir að verði lokið sem fyrst og raunar er á þingmálaskrá ráðuneytisins frumvarp þess efnis á yfirstandandi þingi.

Umræðan snýr hins vegar einnig að upptöku eða innleiðingu starfsgetumats. Þar vil ég segja að þetta er mjög ofarlega á okkar forgangslista. Í mínum huga er þetta alveg gríðarlega mikilvægt verkefni. Þetta er ekki ein alhliða lausn þegar kemur að örorku, við vitum það mætavel, og það er fjöldi fólks sem þetta á ekki við um. Raunar hefur það verið mjög lengi í umræðum um örorku að snúa frá því að meta fólk út frá því sem það getur ekki, eins og hv. þingmaður nefndi, yfir í að meta það út frá því hvað það getur. Það eru aðrir og fleiri þættir sem skipta þar máli.

Við glímum við örorkuvanda. Við sjáum mjög aukna örorku á undanförnum þremur áratugum eða svo þar sem hlutfall fólks á örorkubótum hefur farið úr u.þ.b. 3% í þeim hópi sem er á aldrinum 16–60 ára, í um 9% í dag. Það er um þreföldun á hlutfalli á um þremur áratugum. Það er samfélaginu öllu og viðkomandi einstaklingum alveg einstaklega dýrkeypt. Við þekkjum afleiðingar örorkunnar í minni virkni, félagslegri einangrun, auknum heilbrigðisvanda o.s.frv. Þetta snýr ekki bara að kostnaði almannatrygginga, þetta snýr fyrst og fremst að lífsgæðum fólks og þeim tækifærum sem því standa til boða. Þess vegna leggjum við stóraukna áherslu á starfsgetumat og í framhaldi af því starfsendurhæfingu. Þar þarf að horfa til allra þátta. Horfa þarf til þess hvernig tekst til í endurhæfingunni, sem við höfum þegar ákveðna reynslu af í gegnum Virk, sem hefur náð ágætisárangri, en við vitum líka að það eru ýmis tilvik, þyngri tilvik, þar sem við þurfum að veita meiri stuðning í aðdraganda starfsendurhæfingar og þurfum ná betur utan um það. Það er líka alveg ljóst að við þurfum að veita meiri stuðning þegar kemur að því að fólk ljúki starfsendurhæfingu og fer að leita að starfi eða fer jafnvel í nám. Það eru þættir sem við erum að skoða í tengslum við endurskoðun laganna, hvernig við getum náð utan um málið betur í heild sinni.

Við þurfum líka að fjárfesta í þessum málaflokki miklu meira en við höfum gert. Við þekkjum auðvitað vandamálin, aðdraganda örorku og það er á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar að stórauka geðheilbrigðisþjónustu fyrir ungt fólk. Við þurfum að horfa til sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustunnar bæði í grunnskóla og menntaskóla. Við þurfum að horfa til þess hvað veldur því að börnum líður illa í skóla og flosna á endanum upp úr skóla, sem stóreykur áhættuna á örorku þegar fram í sækir. Við sjáum vandann sem fylgir greiningu á grunnskólastigi sem eykur á endanum verulega hættuna á örorku á seinni stigum. Við þurfum að ná utan um það allt saman og verður það liður í áætlunum okkar um innleiðingu starfsgetumats og starfsendurhæfingar.

Að lokum. Það er að mörgu að hyggja þegar kemur að stöðu öryrkja almennt. Við þurfum að vanda okkur í þeirri umræðu. Við þurfum að sýna metnað og í mínum huga þurfum við að fjárfesta í því að hjálpa fólki til annarrar úrlausnar en örorku. Við þurfum auðvitað að sjá fólki farborða með framfærslu, með bótafjárhæðunum, og það hefur þegar verið gert (Forseti hringir.) með 280 þús. kr. viðmiðinu og 300 þús. kr. viðmiðinu. En við þurfum ekki síður að huga að því hvernig við komum í veg hina miklu fjölgun fólks á örorku og hvernig við getum aukið virkni fólks og verið með réttu hvatana til atvinnuþátttöku fyrir þá aðila sem það á við.



[15:48]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að hefja umræðu um kjör öryrkja. Það er gríðarlega mikilvægt mál því að við erum jú að tala um hóp af fólki sem stendur oft mjög höllum fæti í samfélagi okkar. Það er í mjög viðkvæmri stöðu og er hættara við því að búa við fátækt en flestum öðrum hópum. Við hljótum alltaf að þurfa að taka mið af því þegar við ræðum þessi mál.

Sem samfélag hljótum við að vilja að sem flestir taki þátt og þátttaka á vinnumarkaði er í raun lykill fullorðins fólks að samfélagsþátttöku. Auðvitað er þar gott að líta til getu fólks frekar en vangetu, en hér verðum við að passa okkur á því að láta ekki einhver orð afvegaleiða okkur sem kunna að hljóma vel. Ef við köfum ekkert ofan í það sem stendur á bak við þau orð er hætta á því að það gerist. Þess vegna er mikilvægt þegar talað er um breytingar og jafnvel einföldun á almenna tryggingakerfinu, og þá er oft talað um það að taka upp starfsgetumat, að það verði aldrei til þess að grunnnetið í velferðarkerfinu verði einfaldlega svo gisið að fólk falli á milli möskvanna. Það er þess vegna mikilvægt þegar við ræðum breytingar á kerfinu að það verði alltaf þrepaskipt þannig að fólk falli hreinlega ekki niður á milli. Það var röng áhersla sem lögð var í tíð síðustu ríkisstjórnar að auka vægi krónu á móti krónu skerðinga. Ég hef áhyggjur af því að það muni gera okkur virkilega erfitt fyrir að breyta kerfinu því að þar fórum við í ranga átt.

Að lokum vil ég segja að það er mikilvægt að við hlustum eftir sjónarmiðum (Forseti hringir.) Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar þegar kemur að frítekjumörkum vegna atvinnutekna og að við smíði á nýju kerfi lítum við til þess að kerfið (Forseti hringir.) virki atvinnuhvetjandi fyrir alla, líka þá sem hafa mjög litla starfsgetu.



[15:51]
Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Til að styrkja enn frekar stöðu öryrkja og gera umbætur á almannatryggingakerfinu verðum við að byggja á heildstæðri stefnu sem miðar í fyrsta lagi að því að tryggja viðunandi framfærslu öryrkja, í öðru lagi að því að stuðla að meiri endurhæfingu með það að markmiði að auka samfélagslega virkni öryrkja og í þriðja lagi að efla forvarnastarf á vinnumarkaði, í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu sem miðar að því að draga úr nýgengi örorku.

Sem betur fer hefur kaupmáttur öryrkja vaxið jafnt og þétt á síðustu árum, þökk sé m.a. aukinni hagsæld og góðri stjórn ríkisfjármála á síðasta kjörtímabili, en augljóslega þarf að halda áfram á þeirri braut. Minna má þingmenn á í þessu sambandi að framlög til þessa málaflokks í fjárlögum jukust um 10%, tæpa 5 milljarða, milli áranna 2016 og 2017. Þá er fagnaðarefni að ríkisstjórnin stefnir að því að taka upp starfsgetumat. Það er að öllum líkindum árangursríkari leið en núgildandi örorkumat til að stuðla að því að fólk komi aftur inn á vinnumarkaðinn hafi það staðið utan hans um tíma.

Að síðustu, frú forseti, getur það ekki verið látið afskiptalaust að nefna að karlkyns öryrkjum á aldrinum 20–24 ára hafi fjölgað mest allra aldurshópa, um 27% á fimm ára tímabili á árunum 2010–2015. Meginorsök örorku þessa unga fólks er geðraskanir. Þeirri þróun verðum við að snúa við. Ég bind miklar vonir við að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, m.a. með sálfræðiþjónustu á heilsugæslum og í framhaldsskólum, reynist mikilvægt skref til að auka lífsgæði (Forseti hringir.) og virkni þessa hóps.



[15:53]
Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að koma þessu máli í umræðu. Það er mjög mikilvægt. Staðan í velferðarmálum í dag er skýrt dæmi um skort á framsýni og heildstæðri stefnumótun um hvernig samfélag við viljum byggja. Hver er okkar framtíðarsýn í velferðarmálum? Ég ætla að vera alveg ofurbjartsýn og gefa mér að við sem samfélag sjáum ávinninginn í því að leysa úr læðingi þann gífurlega mannauð sem við búum yfir og skapa jöfn tækifæri og aukið frelsi einstaklingsins til að blómstra innan samfélagsins. Viðunandi framfærsla á ekki að vera ölmusa heldur sjálfsagður réttur allra í samfélaginu, réttur sem gerir þeim sem ekki geta unnið kleift að lifa þrátt fyrir atvinnuleysið og veitir þeim sem geta unnið eða vilja reyna að vinna nauðsynlegt öryggi ef heilsa þeirra bregst eða versnar. Viðunandi framfærsla léttir á því yfirþyrmandi álagi sem fylgir því að vera veikur, þurfa að gefa starfsframa sinn upp á bátinn og því tabúi sem fylgir því að vera öryrki í íslensku samfélagi, álagi sem er að sliga íslenska öryrkja og íþyngir þeim í veikindum þeirra. Við vitum öll hvað áhrif óöryggi og það álag sem því fylgir hefur á heilsu okkar.

Króna á móti krónu skerðing leiðir ekki af sér viðunandi framfærslu heldur fælir fólk frá vinnumarkaðnum þar sem skerðingin klippir gat á öryggisnetið, öryggisnet sem þjónaði varla tilgangi sínum fyrir. Starfsgetumatið virðist hafa það að markmiði að fækka öryrkjum frekar en að hjálpa þeim og hefur sú stefna verið tengd við aukna sjálfsmorðstíðni og aukna notkun þunglyndislyfja í þeim löndum þar sem þetta hefur verið prófað.

Stefna sem tekin er á grundvelli sparnaðar á einum stað í kerfinu án heildstæðrar yfirsýnar er mikil skammsýni. Það að setja fólki skorður og auka álag fram yfir það að auka frelsi til sjálfsákvörðunartöku og til að lifa sómasamlegu lífi á þeirra eigin forsendum þjónar samfélaginu ekki og hefur þær afleiðingar að færa bara til kostnað í kerfinu. Kostnaðurinn færist úr almannatryggingakerfinu yfir í heilbrigðiskerfið eða mögulega refsivörslukerfið. Skynsamlegasta og langsamlega skilvirkasta leiðin til að fækka öryrkjum og þar með minnka kostnað í almannatryggingakerfinu er sú að efla efnahagslegt og félagslegt frelsi einstaklinga í samfélaginu. (Forseti hringir.) Hættum þessari skammsýni og eflum hvert annað til að lifa hér sómasamlegu lífi með gleði, fegurð og ást að leiðarljósi. Það er ekki óskhyggja heldur raunsætt markmið sem algjörlega er hægt að ná ef við bara kjósum það.



[15:56]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, bæði framsögumanni og svo ráðherra fyrir svörin. Ég er með spurningar sem ég vonast til þess að ráðherra geti svarað þegar hann kemur í sína seinni ræðu.

Það liggur fyrir í þingmálaskránni og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að ætlunin sé að koma með frumvarp um innleiðingu á starfsgetumati og væntanlega líka breytingar á lífeyri öryrkja. Það sem ég myndi vilja spyrja ráðherrann um er hvað hann áætlar, og hans ráðuneyti, að sú breyting muni kosta. Þar sem nú liggur ný fjármálastefna fyrir þinginu og er núna til vinnslu í fjárlaganefnd þar sem segir að af þeim sökum væri óvarlegt að stofna til nýrra og varanlegra útgjalda á grundvelli þess afgangs sem þar liggur fyrir spyr ég hvernig megi samræma þetta tvennt, annars vegar fjármálastefnuna og hins vegar fyrirætlanir ráðherra sem leggja til breytingar. Er ráðherrann með loforð, sem ég vona svo sannarlega, um að tryggja að fjármagn fáist í þessar breytingar? Hér erum við ekki að tala um einhverja tugi eða hundruð milljóna heldur erum við að tala um milljarða. Það er nauðsynlegt að fá að heyra frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar hvort það fjármagn verði ekki örugglega tryggt.

Annar þáttur sem ég held að sé mjög mikilvægur og ráðherrann vonandi getur líka komið inn á er að það er mjög mikið óöryggi og hræðsla hjá öryrkjum gagnvart þeim breytingum sem hér er verið að tala um. Ég fann svo sannarlega fyrir því þegar ég vann að þessum breytingum.

Hvernig hyggst ráðherrann nálgast innleiðingu á þessum breytingum? Hver verður staða þeirra sem eru þá fyrir í kerfinu og síðan þeirra sem koma nýir inn í kerfið? Fyrst og fremst spyr ég hvort það sé ekki tryggt (Forseti hringir.) að þetta verði fjármagnað.



[15:58]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Varla líður sá dagur að okkur berist ekki fregnir eða skilaboð með einum eða öðrum hætti um bágan hag öryrkja. Það þekkja þingmenn. Þetta er hópur einstaklinga og fjölskyldna sem býr við raunverulega fátækt, að fæða og klæða börn, fylgja eftir viðmiðunum leikfélaganna, kljást við skerðingar sem koma til þegar barn á heimili verður 18 ára og vonbrigði þegar breytingar og yfirlýstar umbætur í almannatryggingakerfinu verða að minna en engu.

Frá síðustu áramótum eru t.d. örorkugreiðslur skilgreindar sem atvinnutekjur þegar húsaleigubætur eru metnar. Þetta bitnar harkalega á mörgum, sérstaklega þeim sem búa einir og getur numið tugum þúsunda á mánuði. Húsaleiga hækkar stöðugt á geggjuðum fasteignamarkaði. Í aðdraganda kosninga lýstu allir flokkar því yfir að forgangsatriði væri að bæta kjör öryrkja og jafnaðarmenn lýstu því yfir að leiðrétta þyrfti kjörin aftur til 1. maí 2016. Nú er næsta víst að það verður ekki og áhugi á réttarbótum fyrir þennan viðkvæma hóp virðist hafa dofnað þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.

Samkvæmt útreikningi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands var kaupmáttur heildartekna örorkulífeyrisþega árið 2015, sem tekið er fram, nær sá sami og árið 2009, hafði einungis hækkað um 1% þrátt fyrir lága verðbólgu. Hins vegar hafði kaupmáttur heildarlauna fullvinnandi hækkað um 15%. Þetta blasir við og er þetta eitthvert réttlæti? Sæmir þetta einu ríkasta velferðarsamfélagi í heimi?



[16:00]
Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að taka undir þakkir til hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur fyrir að fara fram á þessa sérstöku umræðu hér í dag. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt fjallað um að allir þeir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma eða slysa eigi að fá tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið. Þetta á þó auðvitað við, og kannski óþarfi að taka það fram, í þeim tilfellum þar sem því verður komið við.

Með því að stuðla að því eins og kostur er að þeir sem á einhverjum tímapunkti verða fyrir skerðingu á starfsgetu nái sér eins mikið á strik og mögulegt er spornum við gegn óþarflega mikilli aukningu í tíðni örorku hér á landi. Auk þess, og það er gríðarlega mikilvægt að hafa það í huga, eykur þátttaka á vinnumarkaði, jafnvel þótt hún sé takmörkuð, samfélagslega virkni og lífsgæði þeirra sem hafa orðið fyrir slíkri skerðingu. Liður í því að ná þessu markmiði er að tekið verði upp títtnefnt starfsgetumat. Þannig verður örorkulífeyriskerfið gert sveigjanlegra sem aftur ýtir undir þátttöku á vinnumarkaði.

Auk þess langar mig að nefna, virðulegur forseti, að það er jafnframt stefna ríkisstjórnarinnar að unnið verði að því að efla sjálfstæði fólks með fötlun, bæði hvað varðar atvinnuþátttöku og samgöngur. Ríkisstjórnin vinnur nú að því í samráði við sveitarfélög að notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest sem eitt af þjónustuformum fólks með fötlun. Það er nefnilega grundvallaratriði að fólk með fötlun hafi val um að stýra þjónustu sinni sjálft.

Að lokum er vert að nefna að það er metnaðarmál hjá þessari ríkisstjórn að hinni löngu tímabæru innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lokið hið fyrsta enda hefur það dregist allt of lengi.



[16:02]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Því miður blasir við að það vantar verulega upp á það að bati í þjóðarbúskapnum undanfarin ár og kaupmáttaraukning á vinnumarkaði hafi skilað sér til þeirra sem reiða sig á almannatryggingakerfið um framfærslu. Þar á milli hefur myndast vaxandi bil. Því miður voru breytingar á bæði almannatryggingalögum hvað varðar aldraða og aftur öryrkja í haust sem leið meingallaðar að því leyti til að menn völdu ódýrustu en um leið mjög gallaða leið í báðum tilvikum til að láta það heita svo að þróun lægstu launa væri elt uppi, 280.000 krónurnar, en það eru eins og kunnugt er aðeins þeir aldraðir sem búa einir og fá fulla heimilisuppbót sem ná þessu marki og í tilviki öryrkjanna var nánast öll hækkunin tekin í gegnum hækkun á framfærslutryggingu gegnum lögin um félagslega aðstoð sem aftur skerðist króna á móti krónu fyrir tekjur. Það er ekki hægt að gefa því háa einkunn.

Ég er litlu nær, satt best að segja, um áform núverandi ríkisstjórnar í þessum efnum nema að það eigi að taka upp starfsgetumat í staðinn fyrir örorkumat. Það höfum við heyrt fyrr og það er búið að standa til lengi. Ég held að það verði að vara við þeirri oftrú á starfsgetumat í staðinn fyrir örorkumat að það bæti stöðu þeirra sem fyrir eru í kerfinu, að það hækki fjárhæðir, að það hafi slík áhrif.

Nýgengi örorku er líka áhyggjuefni, sérstaklega meðal ungra karla, en ætla menn að breyta því með starfsgetumati í staðinn fyrir örorkumat? Á ekki að ráðast að rótum vandans? Er það er ekki þar sem uppspretta hans er? Við vitum vel af t.d. veikleikum geðheilbrigðisþjónustunnar og stuðningi við ungt fólk sem á í vanda, þar þarf að takast á við vandann, þar sem uppsprettan er. Flokkunin eftir á er annað mál og leysir ekki þann undirliggjandi vanda.

Þetta snýst um hið stóra samspil greiðslna úr almannatryggingakerfinu, lífeyrisréttinda og annarra tekna. Þar held ég að við séum ekki komin á endastöð og megn óánægja t.d. um (Forseti hringir.) niðurstöðuna um síðustu áramót, að frítekjumark vegna atvinnutekna sé aðeins 25.000 kr. á mánuði. Hvar sem maður fór um í janúar heyrði maður óánægjuna með það. Fólk talaði í stórum stíl um að þetta myndi letja það frá því að afla sér tekna þótt það hefði starfsorku eða möguleika á því.

Ég held að það þurfi að halda áfram að vinna þessi mál af miklum krafti og vonandi gengur eitthvað undan núverandi hæstv. ráðherra í þeim efnum.



[16:05]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er sárt að ekki skyldi vera hægt að ljúka endurskoðun á málaflokki öryrkja í síðustu endurskoðun almannatrygginga sem fram fór á síðasta ári en þar strandaði m.a. á starfsgetumati og viðhorfum til þess. Í umræðunni hefur komið fram að starfsgetumatið ætti að vera einhvers konar refsing til að koma í veg fyrir örorku. Ég lít hins vegar á starfsgetumat fyrst og fremst sem tæki til að mæla getu til virkni og síðan til þess að auka virkni öryrkja á vinnumarkaði. Það er engin lausn að úrskurða fólk til örorku ævilangt. Það er lausn að virkja fólk til starfs í því samfélagi sem það fæðist og býr í. Ég á þá við að virkni sé í félagsstörfum og atvinnu og það leiðir þá til bættrar líðanar og betri möguleika til framfærslu.

Ég tel að öryrkjar séu ekki einn og samstæður hópur. Það er t.d. rétt að horfa á öryrkja sem aldrei geta aflað sér nokkurra réttinda í lífeyrissjóðum, þeirra sem fæðast til örorku, sömuleiðis þeirra sem verða öryrkjar snemma á atvinnuferli og síðast en ekki síst þeirra sem detta út af vinnumarkaði vegna slysa eða annarra þátta eða veikinda seinna á starfsævinni. Þetta þarf að horfa á í hlutum, tel ég. Ég held að það verði betri lausn á því að horfa á þetta í hlutum en ekki steypa alla í sama ferli og að það sé hægt að auka virkni fólks til starfa og þátttöku í samfélaginu.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.



[16:07]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það gleður mig að heyra að það eigi að fara í alvöruvinnu sem lýtur að framkvæmd á þeirri stefnu sem hér var samþykkt um geðheilbrigðismál og að settur verði sérstakur fókus á geðheilbrigðismál ungs fólks. Mér finnst það mjög mikilvægt og ég vonast til þess að í samvinnu við þingið verði unnin langtímastefnumótun, eins og ég hamra alltaf á, í þeim málaflokkum sem kalla eftir miklu samráði á milli flokka þannig að ekki sé verið að hræra í þessu milli kjörtímabila.

Í ljósi þess að nú erum við með við ríkisstjórnarborðið þrjá flokka sem eru frekar til hægri langar mig að brýna fyrir núverandi valdhöfum, þar á meðal hæstv. ráðherrum, að einfalda kerfin. Þessi flækja í kerfunum og hvað þau eru orðin umfangsmikil gerir það að verkum að allt of margir falla á milli. Það eykur í sjálfu sér vantraust á þessa stofnun sem og óöryggi hjá fólki sem þarf að nýta sér stuðning samfélagsins til að geta lifað mannsæmandi lífi. Þarna er um að ræða fólk sem þarf á sköttunum okkar að halda til að geta lifað með reisn þótt það lendi í skakkaföllum í lífinu og mörg okkar eru ánægð með að borga skatta til að standa undir því.

Orðið öryrki er ömurlegt orð. Það hefur vond áhrif að fá þetta orð yfir sig. Ég hef séð það bæði á nánum ættingjum og öðru fólki þannig ef við getum fundið leið til þess að breyta hugmyndinni um örorku, að við hættum líka að setja fólk í prósentur, ættum við að gera það en fyrst og fremst finnst mér svo mikilvægt að við hættum að (Forseti hringir.) hafa kerfi þar sem fólk er latt til þess að geta verið virkt í samfélaginu. Þess vegna eru Píratar alfarið á móti krónu á móti krónu skerðingum í öllum málaflokkum sem lúta að öryrkjum og eldri borgurum.



[16:10]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum kjör öryrkja og ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég vil byrja á að segja hversu mikilvægt það er að sátt verði milli forystu og grasrótar Öryrkjabandalagsins og stjórnvalda við innleiðingu á nýju kerfi vegna greiðslu örorkubóta. Mikilvægt er að þegar þetta nýja kerfi verður komið á verði skilgreint og talað um hver ábyrgð ríkis verði, hver ábyrgð atvinnulífsins verði og annarra þátta upp á það hvernig atvinnulífið og samfélagið eigi að spila með nýjum kerfisbreytingum.

Ég ítreka mikilvægi þessarar sáttar og þess að þessar kerfisbreytingar komist á, sérstaklega ef við erum að horfa á þá launaflokka sem liggja undir fyrir öryrkja í því nýja kerfi sem unnið var að því að reyna að koma á, að við náum að sameina þessa launaflokka og minnka skerðingar, að krónu á móti krónu skerðingu verði hætt.

Nauðsynlegt er líka að nægt fjármagn fylgi með til að breytingar geti átt sér stað. Í nýrri ríkisfjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar er þó ekki það fjármagn að finna, ég finn það a.m.k. ekki. Ég bið hæstv. félagsmálaráðherra að gera okkur hv. þingmönnum og öðrum grein fyrir fjármununum og hver kostnaðurinn er á bak við þetta nýja kerfi.

Ég verð einnig að lýsa áhyggjum mínum yfir aukningu á nýgengi örorku. Við sjáum margt ungt fólk koma inn á örorku núna, margt hvert sem á við félagslega erfiðleika að stríða. Ég árétta í þessari stuttu ræðu nauðsyn þess að við vinnum betur að forvörnum, bætum aðgengi að sálfræðingum og styttum biðlista eftir greiningum. Einnig vil ég minnast á snemmtæka íhlutun í skólakerfinu sem getur skipt gríðarlega miklu máli í að hjálpa einstaklingum að verða (Forseti hringir.) virkir þátttakendur í samfélaginu og líða betur, sem skiptir öllu máli.



[16:12]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Hæstv. ráðherra minntist á fjölgun öryrkja og ég ætla ekki að þrátta við hann um þá prósentutölu þótt ég hafi upplýsingar um aðra tölu. Ég minni á að það er ekki við öryrkja að sakast þegar býsnast er yfir fjölda þeirra. Þeir hafa farið í gegnum strangt mat á örorku og haft áhyggjur af afkomu sinni á sama tíma.

Reyndar hafa þeir flestir gengið í gegnum mikla vanlíðan og kvíða í því ferli sem heldur oftast áfram eftir matið vegna þess að lífeyririnn er svo lágur og endar ná ekki saman. Helstu ástæður örorku, auk stoðkerfisvanda, eru geðræn vandamál. Geðræn vandamál eru mun algengari í löndum þar sem ójöfnuður ríkir en í samfélögum sem einkennast af meiri jöfnuði. Það á reyndar almennt við um heilsu og líðan fólks.

Öryrkjar hér á landi búa við flókið almannatryggingakerfi, lágan lífeyri og í sumum tilfellum auk þess niðurlægingu og skömm. Umræðan hefur oft ýtt undir það og þetta er ólíðandi.

Ef okkur er alvara með því að grípa til aðgerða sem virka til að fækka fólki með örorkumat eigum við að stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu. Mér finnst það augljóst, enda er ég jafnaðarmaður, en til að sannfæra aðra styðja rannsóknir þá ályktun að með því að auka tekjujöfnuð sé hægt að bæta félagslega og andlega líðan allra í samfélaginu. Þó að jákvæðar afleiðingar jöfnuðar séu meiri fyrir þá sem minnst hafa njóta þess einnig aðrir sem meira bera úr býtum.

Ég er því ánægð með þá hugsun hæstv. ráðherra að fjárfesta eigi í málaflokknum, vona að sú verði raunin og að við munum öll græða á að bæta kjör öryrkja.

Að lokum vil ég segja að það verður að bregðast strax við neikvæðum áhrifum sem breytingar á húsnæðisbótum hafa á kjör öryrkja. Hækkun húsaleigu á sama tíma, (Forseti hringir.) hvort sem er hjá sveitarfélögunum eða á almennum markaði, og þetta hefur nýlega komið í ljós, hefur afar slæm áhrif á kjör öryrkja, sem slæm voru fyrir.



[16:15]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessa góðu umræðu. Það er ánægjulegt að fá að taka þátt í henni. Það er alveg rétt að ekki er við öryrkja að sakast um fjölgun öryrkja. Ég held að það sé miklu frekar áminning fyrir okkur sem berum ábyrgð á þessum stuðningskerfum um að þau hafi kannski ekki virkað sem skyldi. Við þurfum að tryggja að þau tryggi ásættanlega framfærslu en það er ekki nægjanlegt, það er ekki lausnin. Við þurfum líka að tryggja að fólk fái stuðning til virkni og stuðning við endurkomu til atvinnu þar sem því verður við komið.

Ég tel að við þurfum að nálgast þetta með miklu heildstæðari hætti. Þegar kemur að geðheilbrigðismálunum, líðan í skóla, þessum leiðum inn á örorkuna, t.d. í gegnum langtímaatvinnuleysi sem við þekkjum, þurfum við að sýna miklu meiri metnað í að styðja fólk til virkni aftur frekar en að leysa bara úr framfærsluvanda þess með úrskurði um örorkubætur.

Ég tek líka heils hugar undir þá umræðu að við mættum alveg tala um þetta með öðrum hætti. Við erum að tala um fólk með skerta starfsgetu, stundum enga starfsgetu. Orðið eitt og sér hefur fengið afskaplega neikvæða hleðslu í umræðunni, sem er miður.

Eins og ég segi þurfum við að nálgast þetta með heildstæðum hætti þannig að stuðningskerfin styðji hvert við annað og við gætum þess, með svipuðum hætti og umræðan er um heilbrigðiskerfið okkar, að stuðningskerfin okkar tali saman, hvort heldur er í geðheilbrigðisþjónustunni, þegar kemur að starfsgetumati og starfsendurhæfingu, og á endanum að snúa þeim aftur til vinnu sem hægt er, að fólk detti ekki á milli skips og bryggju í þeim efnum, að það þurfi ekki að búa við óttann um að missa framfærslu á vegferð sinni í gegnum þessi úrræði þannig að við náum utan um vandann með sæmilega heildstæðum hætti.

Við þurfum líka að horfast í augu við að við séum oft og tíðum með ranga hvata í þessu kerfi. Það er alveg rétt að króna á móti krónu er alveg afskaplega óheppilegt kerfi þegar við erum að (Forseti hringir.) reyna að hvetja til aukinnar virkni, aukinnar atvinnuþátttöku. Þetta þurfum við að endurskoða.

Við þurfum líka að horfa til þess hvernig við styðjum við lágtekjuhópa, óháð því hvaðan tekjur þeirra koma, að við séum ekki með ranga hvata þar heldur þegar kemur að spurningum um kostnað. Við vitum að þetta verður kostnaðarsamt kerfi. Það er talið í milljörðum að fara í gegnum þessar endurbætur. Við höfum í nýrri ríkisstjórn einvörðungu lagt fram nýja ríkisfjármálastefnu, krónur og aurar eru ekki komin fram enn þá, en við höfum talað mjög skýrt um að við munum forgangsraða ríkisútgjöldum í þágu heilbrigðiskerfis og velferðarkerfis. Þetta er liður í því og við munum tryggja að þarna fáist nauðsynlegt fjármagn.