146. löggjafarþing — 23. fundur
 1. feb. 2017.
greiðsluþátttaka sjúklinga, fyrri umræða.
þáltill. LE o.fl., 49. mál. — Þskj. 106.

[17:08]
Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um greiðsluþátttöku sjúklinga. Það er eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á þessu þingi. Auk mín eru flutningsmenn hv. þm. Guðjón S. Brjánsson og Oddný G. Harðardóttir.

Með leyfi forseta segir í þingsályktunartillögunni:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að kveða í reglugerð á um að ekki skuli taka gjald af sjúkratryggðum fyrir heilsugæslu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og að hámarksgreiðslur sjúkratryggðra fyrir læknisþjónustu utan heilsugæslu skuli vera 35.000 kr. á ári, svo og að draga úr hlutdeild aldraðra og öryrkja í kostnaði við tannlækningar.“

Í fyrirmyndarþjóðfélagi leitast stjórnvöld við að jafna kjörin. Slíkt samfélag er miklu líklegra til að verða kraftmikið og friðsælt og ein af ljótum birtingarmyndum ójöfnuðar er þegar einstaklingar hafa ekki ráð á að leita sér nauðsynlegrar læknisþjónustu. Hér er því lögð fram þingsályktunartillaga sem leitast við að mæta því.

Það er ekki síst með öflugri þjónustu sem er aðgengileg öllum, óháð stöðu, búsetu og efnahag, sem ríkisvaldið hefur tækifæri til að jafna kjör landsmanna. Þá er tillagan, verði hún samþykkt, mikilvægt framlag til að stuðla að friði á vinnumarkaði. Eitt af þeim atriðum sem stéttarfélög hafa barist hvað harðast fyrir er einmitt að stjórnvöld efli félagslegan stöðugleika.

Á síðasta þingi varð að lögum frumvarp þáverandi heilbrigðisráðherra um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu með gildistöku 1. febrúar 2017, mál nr. 676. Þar var rætt um þak á heilbrigðiskostnað sjúkratryggðra til að draga úr mestu greiðslum, einkum langveikra. Lagabreytinguna átti að fjármagna eingöngu með tilfærslu kostnaðar yfir á aðra sjúklinga. Það leiðir til þess að kostnaður meginþorra sjúklinga með tilfallandi heilbrigðiskostnaði hækkar talsvert, þar á meðal kostnaður lífeyrisþega og annarra viðkvæmra hópa sem verður þá sérstaklega hætt við að leiti sér síður nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu en ella. Þannig mundi heildarkostnaður um 85 þúsund almennra sjúklinga hækka um 31% og heildarkostnaður um 37 þúsund aldraðra og lífeyrisþega hækka um 73% samkvæmt greinargerð með frumvarpinu.

Í því frumvarpi var gert ráð fyrir að sjúklingar greiddu að hámarki 95.200 kr. á ári. Við meðferð málsins boðaði þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra þó að hámarksgreiðslur yrðu ekki hærri en 50.000 kr. á ári.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja það enn of mikla greiðslubyrði, auk þess sem ekki er fast í hendi að loforðið standi, enda ný ríkisstjórn tekin við.

Flutningsmenn telja að taka eigi strax stærra skref í átt að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Með tillögunni er heilbrigðisráðherra falið að tryggja með reglugerð að í fyrsta lagi sjúkratryggðir greiði ekki meira en 35 þús. kr. á ári fyrir læknisþjónustu, í öðru lagi að heilsugæsla verði gjaldfrjáls og í þriðja lagi að kostnaður vegna tannlækninga aldraðra og öryrkja verði lækkaður umtalsvert. Áætla má að kostnaður ríkissjóðs vegna þessara breytinga frá því sem nú er verði um 7 milljarðar kr. á ári.

Virðulegur forseti. Ódýrri eða gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu er stundum andmælt með þeim rökum að hún verði þá misnotuð og tækifæri til að stýra henni glatist. Því er til að svara að það er mjög kostnaðarsamt fyrir samfélagið ef sjúklingur dregur að leita sér lækninga og annarrar heilbrigðisþjónustu. Síðan tekur slík stýring fyrst og fremst til þeirra sem eiga ekki fyrir heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafa næg fjárráð hugsa sig ekki tvisvar um áður en þeir fara til læknis.

En þó að tillagan verði samþykkt á endanum þarf samt að gera betur á næstu árum, enda verður kostnaðarþátttaka sjúklinga samt sem áður of mikil. Lyf eru til dæmis áfram aðskilin frá annarri heilbrigðisþjónustu og sérstakt greiðsluþátttökukerfi í gildi vegna þeirra. Þetta leiðir til þess að kostnaður sjúklinga sem þurfa bæði meðferð með lyfjum og aðra heilbrigðisþjónustu getur numið samanlögðu hámarki innan beggja kerfa. Þá er ekki tekið tillit til samanlagðs heildarkostnaðar fullorðinna einstaklinga innan sömu fjölskyldu. Þannig getur heildarkostnaður heimilis vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja áfram verið mjög mikill. Loks er kostnaður vegna sálfræðiþjónustu fullorðinna áfram undanskilinn almennri greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og þessi kostnaður leggst mjög þungt á marga einstaklinga sem gjarnan eru í erfiðri stöðu fyrir. Það er t.d. algengt að meðferðartími hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi kosti á bilinu 12.000–15.000 kr. Því er mjög brýnt að fjölga sálfræðingum sem starfa hjá heilsugæslustöðvum um allt land.

Virðulegur forseti. Að lokum: Það þarf að stórbæta þessa stöðu með það fyrir augum að jafna stöðu fólks og gera öllum kleift að leita sér lækninga án þess að það stefni fjárhag þeirra og tilveru í vanda. Slíkt er ekki einungis réttlætismál heldur borgar þetta sig líka fyrir samfélagið. Það þarf því einnig að gera raunhæfa áætlun í framhaldinu um hvernig og hvenær gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta getur orðið að veruleika.

Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu gangi málið til umfjöllunar til hv. velferðarnefndar.



[17:15]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma hér stutt upp og ræða örlítið þingsályktunartillögu um greiðsluþátttöku sjúklinga frá þingflokki Samfylkingarinnar, þeim hv. þm. Loga Einarssyni, Guðjóni S. Brjánssyni og Oddnýju G. Harðardóttur.

Þetta er afar gott mál og ég get verið mjög sammála því sem þar kemur fram, að hámarksgreiðslur og þeim markmiðum að vilja lækka kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Þetta er mjög gott markmið. Í tillögunni er kveðið á um að hámarksgreiðslur sjúkratryggðra fyrir læknisþjónustu utan heilsugæslu skuli vera 35 þús. kr. á ári, svo og að draga úr hlutdeild aldraðra og öryrkja í kostnaði við tannlækningar. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni, en þar segir meðal annars:

„Á síðasta þingi varð að lögum frumvarp þáverandi heilbrigðisráðherra um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu með gildistöku 1. febrúar 2017.“

Það er 1. febrúar í dag, er það ekki? Jú.

Því miður þurftum við í þingsal í gær að fresta gildistöku þeirra laga. Ástæðan var sú, eins og ég rakti í máli mínu í gær við það mál, að reglugerð ráðherra kom seint fram og jafnframt vorum við með sérstakar aðstæður í pólitíkinni á þeim tíma. Það voru haustkosningar til Alþingis.

Drög að reglugerð fóru í umsagnarferli, það komu ábendingar og athugasemdir sem hæstv. ráðherra reyndi að bregðast við sem varð til þess að málið gekk seint og sjúkratryggingar þurfa lengri tíma til að forrita sitt kerfi eftir þeim ákvæðum og þeim kostnaðarliðum sem fram komu í reglugerð ráðherra.

Auk þess hefur komið fram líka að efla þurfi heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og er það hluti af þeim lögum sem við urðum að fresta í gær. Enn er verið að vinna að þessari styrkingu en komið er inn fjármagn til þess að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað.

Mig langar, af því að ég fæ ekki leiða á því meðan staðan er þessi, að tala um mikilvægi þess að þegar við tölum um að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað horfum við á landið allt. Í umræðunni er mjög áberandi talað yfirleitt um heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Manni finnst stundum á umræðunni eins og það sé hin eina heilsugæsla, einhvern veginn. Þótt hún sé mikilvæg höfum við líka mikilvægar heilbrigðisstofnanir víða um landið.

Í frumvarpinu kemur fram að gert var ráð fyrir, í umræddu frumvarpi sem við frestuðum í gær, að greiðslur ættu að vera að hámarki 95.200 kr. ári, og það kemur hér fram í greinargerðinni að við „meðferð málsins boðaði þáverandi heilbrigðisráðherra þó að hámarksgreiðslur yrðu ekki hærri en 50.000 kr. á ári.“

Ég sem hv. þingmaður átti sæti ásamt hæstv. forseta í hv. velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili þegar þetta mál var til efnislegrar umræðu í velferðarnefnd. Ég held að ég geti fullyrt að það hafi allir eða flestallir hv. þingmenn í nefndinni á þeim tíma þótt þakið of hátt og höfðu áhyggjur af þeirri tilfærslu kostnaðar sem við sáum fram á að yrði í kerfinu. Þá fannst okkur þær 95.200 kr. verulega há kostnaðarhlutdeild fyrir þá sem fara sjaldan til læknis.

Í þverpólitískri sátt innan nefndarinnar náðum við eftir margar málamiðlanir og mikið samtal að koma okkur niður á að um 50 þús. kr. væri stórt skref í rétta átt sem við næðum að stíga með því að ná allri nefndinni saman. Það var afar ánægjulegt þegar hv. nefndarmenn og framsögumaður málsins náðu þeim samningum við hæstv. ráðherra sem að málinu komu. Það var skref í rétta átt.

En við erum sammála og það kom að mig minnir fram í nefndaráliti hv. velferðarnefndar á þeim tíma að þetta væru mikilvæg fyrstu skref í málinu. Allir vildu gera betur. Eins og fram kemur einnig í greinargerðinni með þessari tillögu er mikilvægt að samtvinna þessi kerfi saman, að við stígum stærri skref á næstum árum um að lyfjagreiðsluþátttökukerfið og þessi kostnaður sem við greiðum þegar við förum til læknis verði eitt kerfi sem haldi utan um sjúklingana. Og með tíð og tíma að við stígum fleiri skref, eins og maður skynjar á greinargerðinni, og að við viljum ganga lengra um ferðakostnað sjúklinga. Þrátt fyrir að við viljum efla heilbrigðisstofnanir víða verður alltaf ákveðin læknisþjónusta á höfuðborgarsvæðinu. Við vinnum þá að því að ferðakostnaður komi í ríkari mæli inn undir greiðsluþátttökukerfið, tannlækningar og sálfræðiþjónusta og svona mætti auðvitað áfram telja, þeir liðir sem eru ekki undir okkar kerfi í dag.

Eins og kemur fram í greinargerðinni er kostnaður vegna sálfræðiþjónustu fullorðinna áfram undanskilinn almennri greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og getur verið mjög mikill. Algengt er þannig að hver meðferðartími hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi kosti á bilinu 12–15 þús. kr. Þetta er það sem maður heyrir á fólki í dag. Þetta væri líka jafnframt eitt af stærstu skrefunum sem við gætum stigið í betra aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu. Við erum að tala til dæmis um það að hjálpa fólki til virkni og fleira.

Mig langar þó að minnast á mál sem mér fannst mjög gott á síðasta kjörtímabili, þó að það þurfi að gerast hraðar og jafnvel að fjölgun þurfi að vera meiri. Unnið er eftir bresku módeli í því að fjölga sálfræðingum á heilbrigðisstofnunum víða um landið. Þetta held ég að sé skref í rétta átt. Að sálfræðingarnir fari inn á heilbrigðisstofnanir sem hluti af þeim þverfaglegu teymum sem verða að starfa þar. En ég verð að segja að þetta þarf að gerast hraðar. Módelið er gott og ég tel að það sé alla vega skref í rétta átt.

En í mjög löngu máli sem átti að verða stutt hef ég lýst ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu. Ég hlakka til sem hv. nefndarmaður í velferðarnefnd að taka á málinu og samvinnu hv. þingmanna um það.