146. löggjafarþing — 24. fundur
 2. feb. 2017.
stefnumótun um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[10:47]
Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að starta þessari umræðu, en ég er með spurningar á svipuðum nótum til hæstv. heilbrigðisráðherra.

Í ljósi þess að margoft hefur komið fram að yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga vill ekki einkarekið heilbrigðiskerfi langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann telji skynsamlegt að fara í stefnumótun um frekari einkavæðingu innan heilbrigðiskerfisins. Og ef svo er, hvort hann muni viðhalda lýðræðislegum vinnubrögðum og ráðfæra sig við þingið eða hvort þetta sé ákvörðun sem hann muni bara taka einn og sér. Hver er afstaða ráðherra til þess að Klíníkin fái samning við Sjúkratryggingar Íslands um að fá greitt úr DRG-greiðslukerfinu? Þarf Klíníkin að sækja starfsleyfi til ráðherra eða hafa Sjúkratryggingar Íslands vald til að semja án aðkomu ráðuneytisins, mun ráðherra þurfa að gefa starfsleyfi samanber 7. gr. heilbrigðislaga?

Ætlar ráðherra að gera einhvers konar mat á því hvers konar áhrif innkoma Klíníkurinnar sem sjúkrahússeiningar muni hafa á opinbera heilbrigðisþjónustu á Íslandi? Bæði hvað varðar mannafla, þjónustugetu og innkomu? Ef svo er, hvers konar mat og hver mun framkvæma það? Hvert er hið formlega ákvörðunartökuferli í sambandi við Sjúkratryggingar Íslands og hvernig er ákveðið hvort Klíníkin fái úr þessum sjóði? svo ég árétti spurningarnar, ég veit að þær eru margar. Vonandi nær hæstv. ráðherra að svara þeim öllum skýrt.



[10:49]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Svör mín eru á svipuðum nótum og þau voru við fyrirspurn hv. þingmanns sem spurði hérna á undan.

Það er nú svo að stór hluti af heilbrigðisþjónustu Íslendinga er unninn af einkaaðilum, sérfræðingum og af sjálfseignarstofnunum þegar kemur sérstaklega að öldrunarþjónustu. Þegar kemur að sérfræðingum og aðgerðum á þeirra vegum o.s.frv. eru þær unnar á grundvelli samnings við Læknafélag Reykjavíkur. Það er í sjálfu sér ekki í bígerð og yrði ekki auðvelt að breyta því kerfi yfir nóttu.

Varðandi starfsemi Klíníkurinnar hefur, eins og ég sagði í svari áðan, Klíníkin starfað á grundvelli þessa samnings og tekið að sér einfaldari aðgerðir eins og aðrar læknastofur hafa gert. Til þess að taka að sér stærri og flóknari aðgerðir þyrfti samning við Sjúkratryggingar Íslands og það yrði á vegum ráðuneytisins og undir pólitísku forræði mínu sem heilbrigðisráðherra að fela Sjúkratryggingum Íslands að gera slíka samninga. Það er alveg ljóst að slíkt yrði aldrei gert nema auðvitað eftir lögum og með tilliti til laga, m.a. þeirra laga sem segja að ekki verði gerðar stórkostlegar breytingar öðruvísi en að taka tillit til heilbrigðiskerfisins í heild og getu opinbera heilbrigðiskerfisins, þar á meðal Landspítalans, til að veita þjónustu. Vitaskuld væri slík ákvörðun aldrei tekin á mínum vegum (Forseti hringir.) öðruvísi en að tekið væri tillit til laga að fullu.



[10:51]
Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessi svör. En ég er með tvær spurningar. Er það sem sagt mat hæstv. ráðherra að við búum í reynd að miklu leyti við einkarekið heilbrigðiskerfi nú þegar en ekki samfélagslega rekið heilbrigðiskerfi? Og svo langar mig líka ofboðslega mikið til að heyra skýrt frá hæstv. ráðherra hvort hann ætli að fara í þessa stefnumótun, að fara í frekari einkarekstur, og hvort hann muni þá ráðfæra sig við þingið eða hvort hann telji að hann hafi umboð til að gera það bara einn og sér, hvort þetta sé ekki erindi sem eigi að koma hingað inn og við þurfum þá að ræða frekar hvort við viljum fara í frekari einkarekstur.



[10:52]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég vil ítreka svör mín um að það er ekki ætlun mín að gera stórkostlegar breytingar á heilbrigðiskerfi Íslendinga. Það er ekki ætlun mín að einkavæða kerfið eða auka stórkostlega einkarekstur í kerfinu. Það er ljóst að íslenska heilbrigðiskerfið er opinbert heilbrigðiskerfi að því leytinu til að greitt er fyrir mestalla heilbrigðisþjónustu af opinberu fé. Það er gert með yfirumsjón og undir ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins og opinberra aðila. Það er engin ætlun mín, eða annarra, held ég, og enginn pólitískur vilji til þess að gera breytingar þar á.

Hins vegar hef ég verið að reyna að útskýra að hluti af rekstri og vinnu í íslenska heilbrigðiskerfinu er unninn af einkaaðilum nú þegar, bæði sjálfseignarstofnunum, sérstaklega þegar kemur að öldrunarþjónustu, en líka sjálfstætt starfandi sérfræðingum og fyrirtækjum þeirra. En það er allt gert með opinberu fé (Forseti hringir.) með eftirliti, umsjón og ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins og opinberra heilbrigðisyfirvalda. Það stendur ekki til að gera breytingar þar á.