146. löggjafarþing — 25. fundur
 6. feb. 2017.
framsal íslenskra fanga.
fsp. EyH, 73. mál. — Þskj. 130.

[16:23]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um framsal íslenskra fanga erlendis til afplánunar á Íslandi. Ég held að við getum sagt að nánast á hverju ári lesum við fréttir af ógæfu íslenskra ungmenna sem verða uppvís að glæpum í fjarlægum löndum, ekki hvað síst tengt fíkniefnasmygli. Aðstæður í fangelsum í þeim löndum eru oft skelfilegar, alvarleg mannréttindabrot daglegt brauð í þessum fangelsum sem eru yfirfull og beinlínis lífshættuleg. Nýlega fjallaði stórblaðið The Guardian um hræðilegar aðstæður í brasilískum fangelsum þar sem átök milli gengja innan fangelsismúranna hefðu ítrekað leitt til hryllilegra fjöldamorða. Þetta eru aðstæður sem við hér á Íslandi getum engan veginn ímyndað okkur eða náð utan um.

Ýmsir gætu kannski sagt að þeir sem fremja glæp eigi að taka út sína refsingu, en ég vona að hæstv. ráðherra taki undir með mér að mjög mikilvægt sé að huga að mannréttindum allra þegna íslenska ríkisins, líka þeirra sem gera mistök og brjóta lög.

Það virðist líka vera algengt að afplánunarsamningar liggja ekki fyrir gagnvart þeim löndum þar sem aðstæður eru hvað verstar og þar sem mannréttindi eru fótum troðin. Það hefur gilt t.d. um Brasilíu.

Í fyrirspurn um framsals- og fangaflutningasamninga til fyrrverandi utanríkisráðherra frá hæstv. fyrrverandi þingmanni, Össuri Skarphéðinssyni, í fyrra kom fram að heimilt er, að vissum lagaskilyrðum uppfylltum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, að fullnægja svokallaðri viðurlagaákvörðun frá erlendum dómstól á Íslandi þrátt fyrir að afplánunarsamningur sé ekki fyrir hendi. Bæði ríkin þurfi hins vegar að samþykkja og ákvörðun um beitingu þeirrar lagaheimildir væri í höndum þess ráðherra sem fer með flutning dæmdra manna samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna í Stjórnarráði Íslands.

Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra hvort unnið sé að því að koma á framsali íslenskra fanga erlendis til afplánunar á Íslandi án þess að fyrir liggi sérstakur framsals- eða fangaflutningasamningur við viðkomandi land. Og hvort ráðherrann hafi mótað sér stefnu eða sýn á framsal íslenskra fanga erlendis til afplánunar á Íslandi þó ekki liggi fyrir sérstakur framsals- eða fangaflutningasamningur við viðkomandi land.



[16:26]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt eins og fyrirspyrjandi kom inn á að á þessu sviði eru í gildi lög nr. 56/1993, um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, en með þeim lögum var uppfylltur sá alþjóðasamningur sem Ísland er aðili að, þ.e. samningi Evrópuráðsins um flutning fanga frá árinu 1983, og síðari samningsviðauka við hann, sem og samningi Evrópuráðsins um alþjóðlegt gildi refsidóma sem er frá árinu 1970.

Rétt er að halda því til haga að aðilar að þessum samningi eru 64 ríki. Og það eru fjölmörg ríki utan Evrópu, þar á meðal ákveðin ríki Suður-Ameríku sem eru aðilar að þessum samningum, ekki þó Brasilía, sem hér er sérstaklega nefnd í fyrirspurninni. Þetta eru sem sagt samningar sem eru grundvöllur að flutningi erlendra refsidóma á milli fjölmargra ríkja, bæði innan Evrópu og utan.

Þess utan hefur Ísland aldrei gert tvíhliða samninga um fullnustu refsidóma við erlent ríki heldur byggt á þessum alþjóðlegu samningum og þeim lagaheimildum sem er að finna í íslenskum lögum í þeim efnum. Það er rétt einmitt að árétta að í 3. gr. laganna er heimilt að ákveða þegar sérstakar ástæður mæla með því að fullnusta viðurlagaákvörðun hér á landi sem íslenskur ríkisborgari eða maður búsettur hér á landi hefur hlotið samkvæmt dómi eða annarri ákvörðun dómstóls í öðru ríki. Það er rétt að nefna að slíkur flutningur getur þó ekki orðið nema með samþykki beggja ríkja og að sjálfsögðu með samþykki fangans sem um ræðir.

Tvíhliða samningur við annað ríki um flutning á fullnustu refsidóma verður ekki gerður án samráðs við dómsmálaráðuneytið sem fer með málefni fanga og flutning dæmdra manna. Af hálfu dómsmálaráðuneytisins hefur ekki verið unnið að gerð tvíhliða samnings við Brasilíu eða nokkurt annað ríki um flutning á fullnustu refsidóma.

Innanríkisráðuneytinu er kunnugt um að fulltrúar sendiráðs Íslands í Washington hafi átt samskipti við fulltrúa sendiráðs Brasilíu í Washington um leyfi til þess að greiða fyrir flutningi á fullnustu refsidóma sem kveðnir hafa verið sérstaklega upp í Brasilíu yfir íslenskum ríkisborgurum.

Rétt er að nefna að önnur Norðurlönd hafa ekki gert fangaflutningasamning við Brasilíu og hyggjast ekki gera slíkan samning í bráð. Norðmenn hafa þó samið um einstaka fanga í einstökum málum.

Að svo stöddu tel ég farsælla að beita þeirri sérstöku lagaheimild í 3. gr. sem ég reifaði hér áðan, þ.e. þegar sérstakar ástæður mæla með því, t.d. mannúðarsjónarmið sérstök, einkum með vísan kannski til ungs aldurs hins íslenska ríkisborgara, þá tel ég farsælla að nota þá lagaheimild til að leita eftir möguleikum á flutningi fanga til Íslands. Slíkur flutningur á fullnustu erlendra refsidóma getur þó ekki farið fram nema bæði ríkin samþykki það.

Hins vegar, af því að spurt var um það hvort einhver stefna hafi verið sérstaklega mörkuð í þessum efnum, þá hefur það ekki verið gert með formlegum hætti þótt málið hafi verið skoðað af og til, bæði í utanríkisráðuneytinu og í dómsmálaráðuneytinu eins og þá hét, og í innanríkisráðuneytinu líka. Það eru auðvitað margvísleg sjónarmið sem þarf að hafa í huga. Tvíhliða samningar, þeim er auðvitað ætlað að vera tvíhliða. En menn hafa metið það svo að ekki séu kannski miklar líkur á því að t.d. brasilískir fangar hér á landi myndu óska eftir því að afplána dóma í Brasilíu og ekki er endilega víst að ríki vilji taka við föngunum. Þetta er eitt sjónarmið sem þarf að hafa í huga og með hliðsjón af möguleikum og svigrúmi hins íslenska refsivörslukerfis að þjónusta bæði erlenda ríkisborgara og íslenska ríkisborgara sem hafa brotið af sér erlendis og eru kannski sumir með víðtæk tengsl við alþjóðlega glæpastarfsemi sem hið íslenska refsivörslukerfi hefur kannski ekki mikla reynslu af. En það er auðvitað sjálfsagt að skoða þetta.

Ég tel hins vegar að svo stöddu að 3. gr. laganna veiti fullt svigrúm til þess að grípa inn í einstök (Forseti hringir.) tilvik með tilliti til mannúðarsjónarmiða og sérstaklega ef um er að ræða unga brotamenn.



[16:31]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga umræðuefni. Mér finnst mikilvægt, eins og hv. þingmanni, að hugsa út fyrir rammann og að við einbeitum okkur sérstaklega að löndum þar sem hætta er á að grundvallarmannréttindi íslenskra ríkisborgara séu fótumtroðin. Ég vil því beina athugasemd minni að hæstv. dómsmálaráðherra, hvort hún sé meðvituð um hversu margir fangar eru í fangelsum landa þar sem ekki liggur fyrir framsalssamningur og hvernig málum þeirra er háttað. Eins er ég forvitin um hvernig samstarfi dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins er háttað í þessum efnum. Eru þau með einhvers konar vinnuteymi? Er fyrirhugað eitthvert sérstakt samstarf til að tryggja að þeir fangar sem eru í löndum þar sem ekki liggja fyrir samningar njóti þar alla vega aðstoðar utanríkisráðuneytisins og mögulega líka samvinnu dómsmálaráðuneytisins um að koma þeim heim?



[16:32]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mjög nauðsynleg. Mig langar bara að vekja athygli á því að á síðasta kjörtímabili skrifaði Ísland undir og löggilti Evróputilskipun sem lýtur að handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar. Þetta var þingmál nr. 463.

Við Píratar gagnrýndum þetta því það virðist vera sem það sé lítil meðvitund um hvað þetta þýði. Þetta þýðir að hægt er að framselja íslenska ríkisborgara til Evrópuríkja, ekki bara Norðurlandanna eins og áður hefur verið. Mig langaði að spyrja hvort ekki hefði verið þá tilefni til þess að kanna leiðir til að búa til samninga á milli landa. Því að fangelsi í Brasilíu eru ekki þau einu sem eru viðurstyggileg.



[16:34]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum kærlega fyrir svör hennar og öðrum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það er gott að heyra að ráðherrann telur að núverandi lagaumhverfi gefi henni nægar heimildir að hennar mati til að geta beitt sér í málum sem koma upp þar sem brotið er á mannréttindum íslenskra þegna og jafnvel líf þeirra í stórhættu.

Ég vil hins vegar benda á að í fyrirspurn sem var beint til þáverandi utanríkisráðherra kom fram að hafinn væri undirbúningur að samningi um þetta við sérstaklega Brasilíu. Hins vegar kemur fram í svari ráðherrans að hún telji, og vísar þá til hinna Norðurlandanna, að þar hafi ekki verið gerðir þess háttar samningar. Og það sé vegna þess að erfitt sé að sjá fyrir sér að slíkur samningur gæti í reynd verið tvíhliða.

Ég tel líka að í svari ráðherrans hafi komið fram ákveðin sýn og ákveðin áhersla á hvernig hún vill nálgast einstök mál og nefndi sérstaklega ungan aldur og aðstæður sem þyrfti að meta hverju sinni. Eins og kom fram í máli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur erum við ekki að tala bara um einstakt land heldur getur það verið fjöldinn allur af löndum þar sem aðstæður geta orðið með þeim hætti að viðkomandi einstaklingar eru einfaldlega í hræðilegum aðstæðum.

Ég vil því eindregið hvetja ráðherrann til að vinna áfram í þessum málum, um framsal íslenskra fanga erlendis til að afplána hér á Íslandi, að íhuga það að marka stefnu um hvernig hún sér fyrir sér að beita þessu lagaákvæði og ég tek jafnframt undir mikilvægi þess að gott (Forseti hringir.) samstarf sé milli utanríkisþjónustunnar og innanríkisráðuneytisins varðandi málefnið.



[16:36]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Já, það er gott samstarf, að sjálfsögðu, á milli utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins í þessum málum. Ég hef ekki tölur yfir það hversu margir íslenskir ríkisborgarar sitja t.d. í dag í fangelsum í löndum skulum við kalla sem ekki eru aðilar að nefndum Evrópuráðssamningi. En fyrir liggur að það eru líklega eitt til fimm mál á ári sem varða heimflutning fanga frá löndum sem eiga aðild að Evrópuráðssamningnum. Svona í grófum dráttum. Það þarf auðvitað ekki endilega að vera að íslenskum stjórnvöldum berist einhverjar upplýsingar um Íslendinga í fangelsum erlendis. Það er því kannski undir hælinn lagt hvort það gerist. En þegar það gerist er það yfirleitt einmitt ósk um einhverja aðstoð vegna aðbúnaðar í viðkomandi ríki, aðbúnaðar í fangelsi viðkomandi ríkja.

Það má líka geta þess að þau mál sem hafa komið upp og varða t.d. Brasilíu, þá hafa menn náð nokkrum árangri í samskiptum við fangelsismálayfirvöld í því ríki. Þótt það hafi kannski ekki leitt til framsals fanganna er hægt að beita sér með ýmsum öðrum hætti til að tryggja að íslenskur ríkisborgari njóti mannréttinda og viðeigandi aðbúnaðar í fangelsi, hvort sem er í Brasilíu eða annars staðar.

Það er einmitt það sem við þurfum að fylgjast með. Við bregðumst auðvitað við öllum óskum og fyrirspurnum sem að þessu lúta og munum gera áfram.

Ég þakka fyrir mjög ánægjulegar umræður um þetta. Án efa verða þessi mál til skoðunar, að minnsta kosti í öllu falli í dómsmálaráðuneytinu svo ég svari nú bara fyrir það en alveg örugglega líka í utanríkisráðuneytinu eftir því sem tilefni gefur til.