146. löggjafarþing — 28. fundur
 9. feb. 2017.
fæðingar- og foreldraorlof, 1. umræða.
frv. SilG o.fl., 110. mál (fæðingarhjálp). — Þskj. 169.

[16:23]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Meðflutningsmenn mínir eru Birgitta Jónsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Logi Einarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þórunn Egilsdóttir, Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja Sigurðardóttir.

Lagt er til að á eftir 17. gr. laganna komi ný grein, 17. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

„Foreldrar sem þurfa að sækja fæðingarhjálp utan heimabyggðar.“

Á eftir 22. gr. laganna komi ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

„Foreldrar sem þurfa að sækja fæðingarhjálp utan heimabyggðar.“

Lagt er til að lög þessi öðlist þegar gildi.

Frumvarp þetta var fyrst lagt fram á 144. löggjafarþingi og endurflutt á 145. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú lagt fram lítið breytt.

Með fæðingarhjálp er í frumvarpi þessu átt við hverja þá aðstoð eða þjónustu sem veitt er af faglærðu heilbrigðisstarfsfólki í tengslum við tilvonandi eða yfirstandandi fæðingu og almennt er talin nauðsynleg til að tryggja eins vel og verða má líf og heilbrigði barns og móður eftir fæðingu. Nokkrum hópi fólks stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingarhjálp í heimabyggð og þarf því að dveljast fjarri heimili sínu fyrir fæðingu til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp þegar að fæðingu kemur. Af þessu getur stafað nokkur aðstöðumunur milli þessa hóps og þeirra sem eiga kost á fæðingarhjálp í heimabyggð og þurfa því ekki að dveljast annars staðar meðan beðið er fæðingar. Þessu frumvarpi er ætlað að leiðrétta hluta þess aðstöðumunar.

Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að foreldrum sem þurfa að dveljast utan heimilis til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp, og geta ekki vegna vegalengdar eða landfræðilegra aðstæðna sótt heimili sitt daglega, verði heimilað að hefja fæðingarorlof eða töku fæðingarstyrks þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, sem staðfestur skal með læknisvottorði, eða fyrr ef staðfest er með læknisvottorði að þess sé þörf. Almennt er talið ráðlegt að barnshafandi konur séu nálægt fæðingarstað ekki síðar en þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, eða í 38. viku meðgöngu miðað við 40 vikna meðallengd meðgöngu. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að foreldrar geti hafið fæðingarorlof eða töku fæðingarstyrks fyrr ef staðfest er með læknisvottorði að þess gerist þörf að móðir sé fyrr nálægt fæðingarstað. Mat á því hvort þess sé þörf að barnshafandi móðir dveljist fjarri heimili sínu til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp fyrir fæðingu er fyrst og fremst læknisfræðilegt. Alla jafna má ætla að sú fæðingarhjálp dugi sem býðst í umdæmissjúkrahúsum, samanber 3. málslið 1. mgr. 18. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Í sérstökum tilvikum gæti foreldrum þó verið nauðsynlegt af læknisfræðilegum ástæðum að sækja sérhæfðari þjónustu annað. Það getur t.d. átt við í tilviki fjölburafæðinga og þegar vandamál í fæðingu eru fyrirsjáanleg. Rétt er að miða við að hitt foreldrið geti þurft að dveljast fjarri heimabyggð samtímis barnshafandi móður.

Í frumvarpinu er miðað við þriggja vikna tilkynningarfrest til samræmis við það viðmið sem fram kemur í 2. málslið 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þó er gert ráð fyrir að heimilt verði að víkja frá þeim fresti ef ófyrirséð er hvenær foreldrar þurfa að hefja fæðingarorlof eða töku fæðingarstyrks. Það gæti átt við þegar upp koma óvæntir atburðir sem krefjast þess að foreldrar dveljist nálægt fæðingarhjálp fyrr en ráð var fyrir gert. Að öðru leyti er ráðgert að hvort foreldri fyrir sig sæki um greiðslur í fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk til samræmis við gildandi reglur laganna.

Með frumvarpinu er hins vegar lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða -styrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Að öðrum kosti ættu foreldrar, sem þurfa að nýta fæðingarorlof eða -styrk til að sækja fæðingarhjálp fjarri heimili sínu, að öðru jöfnu minna fæðingarorlof eða -styrk eftir til að nýta til umönnunar og samvista við börn sín eftir fæðingu en foreldrar sem búa þar sem fæðingarþjónusta er í heimabyggð. Sú staða er andstæð jafnræðissjónarmiðum og ekki barni fyrir bestu, samanber 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Gert er ráð fyrir að framlenging fæðingarorlofs nemi þeim dagafjölda sem foreldri dvelst utan heimilis, sem miðast jafnan við tímabilið frá því að foreldri fer frá heimili til að vera nálægt fæðingarhjálp og fram að fæðingu barns. Þar sem greiðsla fæðingarstyrks miðast aðeins við heila mánuði er gert ráð fyrir að framlenging hans nemi að jafnaði einum mánuði, en geti þó numið tveimur mánuðum ef sérstakar aðstæður krefjast þess að foreldri dveljist lengur fjarri heimili. Þá er gert ráð fyrir að foreldrum sem hefja töku fæðingarstyrks fyrr en ella vegna þessara aðstæðna verði heimilað að skipta töku styrksins upp í tímabil, sem jafnan er óheimilt. Kallar þetta á breytingu á 6. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 1218/2008.

Að þessu sögðu langar mig að nefna nokkur atriði til viðbótar. Eins og ég sagði hér fyrr í máli mínu þá leiðréttir þetta frumvarp, ef það fæst samþykkt, ekki þann aðstöðumun sem er á fólki hér á landi varðandi aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu.

Annað atriði sem tengist þessu, ef við tölum sérstaklega um fæðingar og fæðingarhjálp, er sá húsnæðiskostnaður sem fólk utan af landsbyggðinni þarf að leggja út fyrir þegar það þarf að dvelja fjarri heimili sínu vikum og jafnvel mánuðum saman fyrir fæðingardag barnsins. Þetta eru háar upphæðir. Fólk dvelur kannski þrjár til sjö vikur, og jafnvel lengur, fjarri heimili sínu og þarf að leigja húsnæði. Ég þekki til þess að fólk er að taka Airbnb-íbúðir á leigu. Sumir hafa aðgang að verkalýðsbústöðum. Sumir eiga fjölskyldu og vini sem geta hýst þau, en ekki allir. Það er líka ákveðnum vandkvæðum bundið að fá inni hjá öðrum fjölskyldum þegar jafnvel fleiri börn eru með í för. Þetta er ekki lítið mál og þetta er mjög kostnaðarsamt. Þetta er líka atriði sem við verðum að ræða hér á þingi, þ.e. hvernig við ætlum að uppfylla að fullu lög um heilbrigðisþjónustu. Við getum það kannski ekki alveg, það er kannski meira teorískt, en samt getum við farið nær því að uppfylla núgildandi lög um heilbrigðisþjónustu, þ.e. að tryggja öllum jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, svo að það gildi hér jafnræði. Það gerir það ekki.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að gerð verði heilbrigðisáætlun þar sem tekið verði tillit til mismunandi landfræðilegra þátta, samgangna og fleiri þátta. Þetta snýr náttúrlega líka að fæðingaraðstoð. Þetta tekur yfir alla heilbrigðisþjónustu, slík áætlun mundi gera það. Þetta er, eins og ég sagði, einn angi af mjög mörgu sem við þurfum að huga að.

Hér fyrr í vikunni var mjög góð umræða um heilsugæsluna í landinu sem hv. þm. Guðjón S. Brjánsson hóf. Það kom mjög sterkt fram, í máli þeirra þingmanna sem töluðu í þeirri umræðu, að uppbygging heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu væri jákvæð en fyrr en síðar þyrfti að huga að heilsugæslunni og heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni. Þannig að víða er pottur brotinn.

Við vitum öll að heilbrigðiskerfið hefur fengið að finna fyrir því, sérstaklega í kjölfar hrunsins. Ég ætla ekki, eins og ég hef áður sagt, að leita að neinum sökudólgum, það er enginn tilgangur með því. Það sem við þurfum að gera er að horfa til framtíðar. Hvaða framtíðarsýn höfum við? Við þurfum að horfa á stóru myndina. Ég hef átt mörg samtöl við marga varðandi heilbrigðiskerfið, sérstaklega síðustu vikur og mánuði. Mér finnst oft að fólk horfi svo þröngt á hlutina, horfi á þá út frá sjálfu sér og horfi á ómöguleikann fyrst og fremst; nei, þetta er ekki hægt. Það er allt hægt. Ef við höfum plan, erum með áætlun, erum með sýn.

Ég líki þessu við það að vera innanhússhönnuður. Þú kemur inn í handónýta íbúð og það stendur manneskja við hliðina á þér og horfir á sömu íbúð: Þetta er forljótt, þetta er ómögulegt, þetta getur aldrei orðið neitt. En þú sem hönnuður horfir á íbúðina, sérð möguleikana, sérð tækifærin og sérð fyrir þér hvernig þetta gæti orðið og svo bara finnur þú út úr því. Það þarf náttúrlega að panta smið og pípara og það þarf að velja alls konar efni. Jú, jú, þetta er flókið og þetta getur verið erfitt og stundum er maður næstum því að fara að gefast upp — og nota bene ég er ekki innanhússhönnuður.

Það er eins með heilbrigðiskerfið. Við þurfum að hafa þessa sýn. Við þurfum að trúa því að við getum farið í ákveðna átt og bætt kerfið. Í leiðinni getum við fundið út úr þeim hindrunum sem eru til staðar ef viljinn er fyrir hendi.

Við hér á Alþingi erum með gríðarlega mikið vald. Við erum með löggjafarvald. Ef lög eru fyrirstaðan þá getum við alltaf breytt þeim. Heilbrigðiskerfið er mannanna verk. Lögin sem við samþykkjum eru okkar lög, þessu getum við breytt. Fólk segir: Þetta er svo dýrt og svona. Jú, jú. Það kom líka fram í sérstöku umræðunni um heilsugæsluna að hlutirnir kosta, en þá verður maður líka alltaf að spyrja sig: Erum við með því að spara á einum stað að fara í meiri kostnað á öðrum stað? Við þurfum að horfa heildrænt á kerfið okkar. Við getum gert það betra og nýtt fjármunina betur ef við horfum á það út frá heildarkerfinu, ekki bara út frá Landspítalanum, bara út frá heilsugæslunni á landsbyggðinni eða höfuðborginni eða bara út frá sjúkraflutningum. Horfum á þetta í heildarsamhengi.

Það frumvarp sem ég mæli fyrir er kannski lítill partur í því að koma til móts við fólk sem nýtur ekki jafnræðis, en þarna er hægt að koma til móts við það með ákveðinni lagabreytingu á meðan við erum að gera kerfið þannig að hægt sé að tryggja fólki betri heilbrigðisþjónustu um land allt.



[16:36]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum hennar framsögu og lýsi ánægju með þetta frumvarp. Ég tel það vera eitt mikilvægasta hlutverk þingsins að búa fólki í þessari stöðu, verðandi og nýbökuðum foreldrum, sem áhyggjulausasta tilveru. Af nógu er að taka þegar nýtt líf kemur í heiminn sem flækir lífið þó að ekki bætist við stress vegna búsetu.

Ég rak augun í einn málslið sem mig langar að spyrja þingmanninn aðeins út í, þ.e. 1. gr., síðasti málsliður þar, með leyfi forseta:

„Réttur foreldra til fæðingarorlofs skal framlengjast sem nemur þeim tíma sem þeir dveljast utan heimilis fram til fæðingar af þeim sökum sem greinir í 1. mgr.“

Ég spyr vegna þess að þetta er mjög skýrt orðað, en lög um fæðingarorlof eru það ekkert alltaf. Foreldrar geta fengið að hefja töku fæðingarorlofs fyrr í gildandi lögum ef læknisvottorð sýnir að heilsa móður kallar á. Ef öryggi á vinnustað verðandi móður kallar á að hún sé frá vinnu þá getur viðkomandi hafið töku fæðingarorlofs einum jafnvel tveimur mánuðum fyrr en ella.

Það hvort rétturinn framlengist finnst mér ekki koma jafn skýrt fram í lögunum. Ég man ekki alveg hvort það sé síðan tekið almennilega fram í reglugerðinni, ég vænti þess og vona það alla vega. Þingmaðurinn kannski þekkir það betur. En mig langaði bara að þakka þingmanninum fyrir að taka þetta svona skýrt fram hér í frumvarpinu og spyr hvort ekki væri gott að nefndin athugaði hin tilvikin í leiðinni, hvort álíka (Forseti hringir.) skýrleiki væri æskilegur í öðrum sambærilegum tilvikum.



[16:38]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skildi ekki almennilega hvernig ég á að skýra þetta betur, hvort eitthvað er óljóst (Gripið fram í.) hvernig … Jú, ég tek þá að sjálfsögðu undir það með þingmanninum að þegar málið gengur til nefndar þá er rétt að skoða aðra þætti. En ég þekki ekki reglugerðina.



[16:39]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, þ.e. fæðingarhjálp. Ég ætla að byrja þessa stuttu ræðu á að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir framsögu í þessu mikilvæga máli. Mig langar líka að árétta þá góðu sátt og þverpólitísku vinnu sem oft er hér á Alþingi. Þingmenn fimm flokka standa að þessu máli og það sýnir hvað okkur hv. þingmönnum mörgum hverjum, ég mundi halda flestöllum, er umhugað um úrbætur í mörgum velferðarmálum, m.a. fæðingarorlofsmálum.

Þetta mál er eitt af forgangsmálum Framsóknarflokksins á þessum þingvetri, en fyrsta forgangsmálið er heilbrigðisáætlun fyrir Ísland, sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kom örlítið inn á í ræðu sinni og gerði grein fyrir því. Áhersla okkar Framsóknarmanna á velferðar- og heilbrigðismálin er mjög mikil. Við munum það líklega öll að flestallir flokkar töluðu um mikilvægi þess að efla velferðar- og heilbrigðismál í nýafstaðinni kosningabaráttu og fundu að það var mikill vilji meðal landsmanna til að unnið væri að því. Við erum að reyna það sem við getum til þess að svara því kalli.

Eins og fram kom í ræðu flutningsmanns er hér um að ræða breytingu á 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof og breytingu á 22. gr. sömu laga. Snýr það að því að barn foreldra sem þurfa að sækja fæðingarhjálp utan heimabyggðar njóti jafnræðis á við þau börn sem fæðast í heimabyggð og að foreldrar geti tekið fæðingarorlof frá þeim degi sem barnið kemur í heiminn.

Samkvæmt því sem kom fram hjá framsögumanni málsins mun réttur foreldra til fæðingarorlofs framlengjast um sem nemur þeim tíma sem þeir dveljast utan heimilis fram til fæðingar ef þetta frumvarp til breytingar á lögunum verður samþykkt á Alþingi, sem ég vona svo sannarlega að verði.

Í 22. gr. laganna segir m.a. að réttur foreldra til fæðingarstyrks skuli jafnframt framlengjast. Það er mjög mikilvægt að horfa í báða þessa þætti því að ákveðinn hópur foreldra í fæðingarorlofi fær eingöngu fæðingarstyrk á meðan aðrir njóta fæðingarorlofs, sem er ákveðið hlutfall af tekjum viðkomandi, eins og lögin eru byggð upp núna.

Eins og fram kom í ræðu hv. flutningsmanns, Silju Daggar Gunnarsdóttur, langar mig að fara örlítið inn á þá heilbrigðisáætlun sem við Framsóknarmenn vorum með sem forgangsmál á þessum þingvetri. Með leyfi forseta ætla ég eingöngu að lesa upp markmið þeirrar tillögu, en það snýst um eftirfarandi:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlunin verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga.“

Þar komum við inn á það að við erum með heilbrigðisstofnanir víða um landið. Tökum Vestfirði sem dæmi. Við getum í rauninni horft á Vestfirði sem eyland. Það eru erfiðir vegir á milli ýmissa byggðarlaga sem lokast oft yfir veturinn. Þar af leiðandi þurfa verðandi foreldrar oft að fara að heiman til að fá þá þjónustu sem þau þurfa á að halda til að gæta að öryggi barns og foreldra. Verið er að vinna að þessum breytingum til að koma til móts við þennan hóp í því frumvarpi sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir leggur fram.

Jafnframt segir í markmiði með þingsályktunartillögu um heilbrigðisáætlun að tekið verði tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða, sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt. Við vinnu heilbrigðisáætlunar eigi að líta til þess hvort við höfum sóknarfæri til að nýta enn betur heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala, því að undanfarin ár og áratugi hefur sífellt meiri þjónusta verið að færast til höfuðborgarsvæðisins, og þá er oft og tíðum minni þjónusta og minni sérhæfing á landsbyggðinni. Það hefur orðið þróunin, kannski vegna starfsmannamála, og er ýmislegt um það að segja, og svo kannski vegna tækninnar. Ég þori ekki að segja um það.

Í vinnu við heilbrigðisáætlun eru m.a. fæðingar undir. Þar er mjög mikilvægt að horfa til þess hvernig við getum aukið þjónustu við verðandi mæður á landsbyggðinni. Við vitum að á ýmsum stöðum á landsbyggðinni, eða einhvers staðar er það svo alla vega að það er ekki einu sinni sónartæki og foreldrarnir þurfa að fara til Reykjavíkur til að fara í sónar. Það er því mjög mikilvægt að hafa allt undir í heilbrigðisáætluninni til þess að skoða hvar við höfum sóknarfæri og samlegðaráhrif til þess að vinna að betri og bættari þjónustu við fólk sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda, sama hver hún er víða um landið.

Í lok minnar stuttu ræðu vil ég líka benda á að það er mjög mikilvægt að þetta góða mál komi í hv. velferðarnefnd. Nú þegar erum við með breytingar eða frumvarp í hv. velferðarnefnd sem snýr að breytingum á fæðingarorlofslöggjöfinni, sem er eitt af forgangsmálum þingflokks Vinstri grænna. Það mál er komið í efnislega meðferð í hv. velferðarnefnd. Ég tel það styrk fyrir málin að hafa þau samtímis í nefndinni og jafnframt að vera búin að fá kynningu á þingmálaskrá hæstv. félagsmálaráðherra og fá að vita hvar áherslur hans liggja er varða fæðingarorlofsmálin, þannig að hægt sé að taka það mál til umræðu á sama tíma í hv. velferðarnefnd. Það eru mörg atriði sem horfa þarf á. Það er mjög mikilvægt að horfa á þau atriði sem snúa að því sem frumvarpið tekur á sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir leggur fram um að börn sem fæðast fjarri heimabyggð njóti til jafnræðis á við börn sem fæðast í heimabyggð.

En það eru fleiri þættir sem ég ætla að fara örstutt í sem þarf að horfa á og taka umræðu um, þ.e. ætlunarverk hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra um tillögu Vinstri grænna í fæðingarorlofsmálum og frumvarp hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur um það sem við höfum farið yfir hér. Þar ætlum við að lengja fæðingarorlofið. Er pólitísk sátt um það? Viljum við hafa ákveðið gólf varðandi greiðslur, að þær verði ekki lægri en ákveðin upphæð þegar fólk fer í fæðingarorlof? Hvert er hámarkið sem við viljum hafa? Það er umræða sem við þurfum að taka. Það þarf að taka umræður um fæðingarstyrkinn, hversu hár hann á að vera. Hann hefur verið mjög lágur. Viljum viljum hækka hann? Það er mjög mikilvægt að horfa í það allt saman. Ég tel það verði mikil umræða um það.

Það var mjög mikil umræða um mál Vinstri grænna þegar það var til umræðu í þingsal um daginn þar sem fólk velti fyrir sér ýmsum þáttum. Ég og hv. þm. Halldóra Mogensen ræddum m.a. um þær áhyggjur sem við höfum haft af einstæðum mæðrum sem hafa sumar hverjar ekki nýtt rétt sinn í fæðingarorlofi að fullu því að þær hafa ekki haft aðstöðu til þess og hafa þurft að fara mjög snemma aftur út á vinnumarkaðinn. Það á við um þær einstæðu mæður þar sem faðirinn er ekki til staðar.

Við höfum líka verið sammála um að mjög mikilvægt er að stíga mjög varlega til jarðar í þeim efnum því að þetta snýst um jafnrétti. Þetta er eitt af stóru jafnréttismálunum okkar sem við höfum unnið stóra sigra í löggjöf á undanförnum árum og áratugum.

Ég ætla að láta þetta gott heita. Ég vona að umrætt frumvarp njóti velgengni í hv. velferðarnefnd og að við eigum góðar og miklar umræður um það og náum að afgreiða málin vel úr nefndinni til þeirra sem á þeim þurfa að halda.



[16:50]
Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Mig langar til þess að byrja á því að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Ég tek heils hugar undir orð hennar áðan varðandi heildræna sýn og möguleikana á að endurskoða heilbrigðiskerfið. Ég tek undir það að allt sé hægt. Þetta er bara spurning um vilja. Hvað viljum við gera?

Þetta mál um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof finnst mér svo sjálfsagt að ég skil ekki að það sé ekki löngu búið að koma þessu í gagnið. Ég skoðaði vef Ljósmæðrafélags Íslands. Samkvæmt honum er ein ljósmóðir á Ísafirði. Sumar konur á sunnanverðum Vestfjörðum sækja fæðingarhjálp þangað. Það er ekki óalgengt að konur þurfi að flytjast þangað í nokkrar vikur og bíða eftir fæðingu í leiguhúsnæði eða búa inni á ættingjum. Það sama á við á Norðurlandi sem er stórt dreifbýlt umdæmi þar sem vegalengdir eru miklar. Þar eru tveir fæðingarstaðir. Á Austurlandi er aðeins ein fæðingardeild.

Konur sem hafa ekki þann valkost að fæða nærri heimilinu sínu þurfa sjálfar að standa straum af þessum kostnaði. Þetta er umtalsverður kostnaður. Þetta er húsnæði og launalaust leyfi maka og ferðalög maka og barna. Það þarf að taka börnin úr skóla. Þetta er alls konar rót á fjölskyldulífinu. Að þurfa að keyra langar vegalengdir og oft yfir fjallvegi til að sækja fæðingarþjónustu, leigja húsnæði, taka börnin úr skóla, missa úr vinnu — þetta er allt saman kostnaðarsamt og skapar mikið óöryggi. Það er erfitt að meta hvenær best er að leggja af stað í ferðalagið, enda er ómögulegt að segja til um hvenær fæðingin muni eiga sér stað. Ég hefði talið það algjört forgangsmál að búa þannig um verðandi mæður að öllu aukaálagi væri haldið í algjöru lágmarki. Þetta skiptir máli fyrir þroska barnsins, öryggi móðurinnar, tilfinningalíf og efnahag fjölskyldunnar. Það að ástandið sé svona yfir höfuð er nægilega slæmt. Það allra minnsta sem við getum gert er að framlengja fæðingarstyrk og fæðingarorlof þessara fjölskyldna.



[16:52]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen kærlega fyrir innlegg hennar í þessa umræðu. Það er gott að heyra að við erum sammála og gott að heyra að fleiri hafi sterka trú á því að hægt sé að breyta kerfinu. Maður þarf fyrst og fremst að hafa trúna og heildarsýn og mjög mikla þolinmæði.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvað henni finnist um húsnæðiskostnaðinn sem við höfum báðar nefnt í ræðum okkar. Nú veit ég til þess að bæði Færeyingar og Grænlendingar niðurgreiða húsnæðiskostnað fyrir verðandi foreldra, bæði föður og móður, greiða hann að fullu þannig að fólk þarf ekki að greiða neitt þegar það fer til fæðingarstaðar, vegna þess að þessar þjóðir búa eins og við í dreifbýlu landi og konur þurfa oft að fara langt í burtu til að fæða börnin sín. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns varðandi það.



[16:53]
Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Mér finnst verða að gæta jafnræðis í þessum málum. Fólk sem býr úti á landi þarf að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu og fólk annars staðar, hvernig sem við gerum það, hvort sem það er einhvern veginn hægt að bjóða upp á þessa þjónustu nær fólkinu þar sem það býr eða greiða niður húsnæðiskostnað fyrir fjölskyldur sem þurfa að ferðast langar vegalengdir til þess að eignast börn. Ég veit ekki hvor valkosturinn er betri eða hvað er í raun og veru hægt en eins og hv. þingmaður talaði um áðan munum við aldrei komast að þessum lausnum nema við förum að skoða kerfið heildrænt, förum að móta okkur stefnu og taka skref í átt að henni. Mér finnst best að hugsa þetta þannig: Við finnum markmiðið fyrst, hvert viljum við fara, hvernig við viljum þróa þetta og þá getum við farið að spá í hvaða lausnir eru bestar.



[16:55]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var áhugavert að heyra. Nú er staðan sú að verðandi mæður greiða fyrir dvöl á sjúkrahóteli hér í borginni, 1.500 kr., en á sama tíma þurfa verðandi feður að greiða 6.000 kr. fyrir sömu aðstöðu, sem er mjög mikil mismunun og í rauninni ólíðandi. Mér fannst áhugavert að heyra hv. þingmann opna á það við skoðuðum hverjir möguleikarnir eru, hvort mögulega sé hægt að bjóða upp á annars konar dvöl en t.d. sjúkrahótel eins og við höfum núna. Maður veltir fyrir sér hvort það væri hagkvæmt fyrir ríkið, af því að verðandi mæður og verðandi feður eru ekki sjúklingar. Af hverju erum við með þetta fólk á sjúkrahóteli? Út af því að ekkert annað er í boði. Maður veltir fyrir sér hvort ríkið ætti mögulega að koma að því að byggja litlar hagkvæmar íbúðir fyrir verðandi foreldra á þeim stöðum þar sem fæðingarþjónusta er í boði, þar sem foreldrar gætu dvalið sér að kostnaðarlausu, þeir foreldrar sem eru í þeirri aðstöðu að geta ekki eignast barn heima hjá sér.



[16:56]
Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta eru allt mjög mikilvægar vangaveltur og eitthvað sem við þurfum að hugsa til. Ein af ástæðunum fyrir því að ég var ánægð að enda í velferðarnefnd er vegna þess að eitt af því sem ég held mest upp á við þetta starf er að fá tækifærið til að viða að sér mikilvægum upplýsingum til að geta svo mótað sér betur skoðanir á því hvernig best sé að hafa þetta, til þess að finna þetta samstarf, setja hugmyndirnar okkar saman og komast að góðum niðurstöðum. Ég hlakka til að skoða þetta mál betur og önnur mál tengd því af því það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt. Það hefur verið rætt hérna að ekki fæðast nægilega mörg börn hér á landi. Við þurfum að fjölga fæðingum og við þurfum að búa betur um verðandi mæður og fjölskyldur yfir höfuð.



[16:57]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að flytja þetta góða mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Það er nú líklega flutt í þriðja sinn.

Það er af sem áður var að börn á Íslandi fæddust hringinn í kringum landið á sjúkrahúsum sem þá hétu. Nú eru þessir staðir orðnir færri og líklega eru það fyrst og fremst tveir staðir, Landspítalinn að sjálfsögðu og Sjúkrahúsið á Akureyri, sem hafa skilgreint hlutverk í þessu tilviki, sem geta tekið á móti börnum og tekið á móti mæðrum sem eignast börn sín þar þó að um áhættufæðingar sé að ræða. Að auki er Akranes eini staðurinn með fullan viðbúnað til þess að gera bráðakeisara enn sem komið er. En það er alveg víst að unnið er að því ljóst og leynt að fækka þeim stöðum þar sem fæðingar eiga sér stað með svo öruggum viðbúnaði, eins mikið og hægt er. Einhver álitamál eru um hvað þessir staðir eigi að vera margir, en togið snýst fyrst og fremst um Landspítala.

Hvers vegna gerist þetta? Það eru auðvitað ýmsar ástæður. Fagfólk er af skornum skammti úti um landið og fjárframlög eru klippt niður.

Síðan viljum við auðvitað öll að börn okkar fæðist við sem öruggastar aðstæður og að áhættan sé sem minnst og að allt gangi vel. Auðvitað er það svo í langflestum tilvikum, sem betur fer, enda höfum við Íslendingar náð afar góðum árangri á þessu sviði og hvað bestum árangri á veraldarvísu.

Sú tillaga sem hér um ræðir, breytingin sem um er að ræða, finnst mér vera hófsamleg og í henni er vottur af jafnréttishugsun gagnvart þeim sem búa á landsbyggðinni. Það er gríðarlega mikið rask og óþægindi fyrir fólk að þurfa að taka sig upp, kannski með löngum fyrirvara frá fleiri börnum eða allri fjölskyldunni og flytja um langan veg. Það er alveg undir hælinn lagt hvort þær fæðingarstofnanir sem enn eru eftir, Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri, geti greitt götu foreldra með því að útvega þeim húsnæði á meðan á dvöl stendur. Það tekst alls ekki alltaf. Ég veit að á Akranesi er gert ráð fyrir því að verðandi mæður geti dvalið í húsnæði stofnunarinnar fyrir fæðingu. Komið hefur í ljós að það er bráðnauðsynlegur þáttur í starfseminni einmitt vegna þeirra sem koma lengra að.

Ég vona að þessari tillögu vegni vel í meðförum nefndar og að það verði heldur léttbærara fyrir foreldra sem þurfa að taka á sig þetta óþægindaálag. Það er ekki útlit fyrir að það verði þannig á ný að börn fæðist allan hringinn í kringum landið, því miður. Það er hægt, en það þarf mikið til.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.