146. löggjafarþing — 29. fundur
 21. feb. 2017.
ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 39/2016 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 130. mál (félagaréttur, EES-reglur). — Þskj. 189.

[15:38]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016, um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn um félagarétt, og fella inn í samninginn tilskipun um birtingu tiltekinna stórra fyrirtækja og samstæðna á ófjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um fjölbreytileika.

Tilskipunin kveður á um tvær leiðir til að auka gagnsæi og greiða aðgang að upplýsingum um áhrif tiltekinna stórra fyrirtækja á samfélagið. Í fyrsta lagi leggur tilskipunin skyldu á stór félög sem tengd eru almannahagsmunum að birta yfirlit yfir ófjárhagslegar upplýsingar í skýrslu stjórnar félagsins. Slíkt yfirlit skal innihalda upplýsingar um þróun, árangur og stöðu félagsins í umhverfis-, félags- og starfsmannamálum, stefnu félagsins í mannréttindamálum og hvernig það spornar við spillingu og mútum.

Ef félag fylgir ekki ákveðinni stefnu á þessum málefnasviðum skal skýr og rökstudd skýring á því hvers vegna það er ekki gert koma fram í yfirlitinu.

Í öðru lagi leggur tilskipunin þá skyldu á félög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði að birta í skýrslu stjórnar lýsingu á stefnu félagsins um fjölbreytileika í tengslum við stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn félagsins. Með fjölbreytileika er átt við þætti á borð við aldur, kyn eða menntunarlegan og faglegan bakgrunn. Ef engri slíkri stefnu er fylgt innan félagsins skal koma fram í skýrslunni skýring á því hvers vegna svo sé.

Tilskipunin tekur til tiltekinna stórra félaga og leggur því ekki sömu skyldur á lítil og meðalstór félög.

Með lögum um breytingar á lögum um ársreikninga, sem samþykkt voru á síðasta löggjafarþingi, var tilskipunin innleidd í íslenskan rétt. Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands þar sem hún kallaði á lagabreytingar hér á landi. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[15:41]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka ráðherra snaggaralega framsögu hans og jafnframt óska ég honum til hamingju með að ná að fela ágætistillögu í mjög leiðinlegum og ógagnsæjum titli. Við erum að tala um eitthvað sem er kallað ófjárhagslegar upplýsingar, sem mætti jafnvel hengja orðu á einhvern í ráðuneytinu fyrir að hafa fundið hugtakið yfir því að þetta er ágætismál. Það að fyrirtæki skili ákveðnu bókhaldi um upplýsingar sem tengjast þróun varðandi umhverfi, félags- og starfsmannamál, virðingu fyrir mannréttindum og varnir gegn spillingu er eitthvað sem er eiginlega dálítið stórt mál og ekkert sem þarf að fela í orðagjálfri þýðingarmiðstöðvarinnar.

Mig langar hins vegar að spyrja ráðherrann. Nú gerir tilskipunin sem hér er verið að innleiða ráð fyrir að þessar reglur nái til félaga sem eru með yfir 500 starfsmenn starfandi á ársgrundvelli. Miðað við það sem stendur i tímaritinu Frjálsri verslun sem kom út á síðasta ári voru fyrirtæki af þeirri stærðargráðu ekki nema 26 hér á landi. Íslenskur atvinnumarkaður er frábrugðinn því sem gerist víða í Evrópu.

Mig langar þess vegna að spyrja ráðherrann hvort komið hafi til álita í ráðuneytinu að víkka reglurnar aðeins miðað við það sem var lagt upp með í Brussel og láta þær ná yfir smærri fyrirtæki hér á landi en þau sem hafa 500 manns starfandi.



[15:43]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé hægt að skammast út í starfsmenn ráðuneytisins fyrir þýðingarnar. Eins og kemur fram í framsögunni er þetta nokkuð sem er tekið upp í EES-nefndinni. Ég held að það skipti máli, þó svo að menn geti alveg haft skoðun á því að orðin geti verið skýrari. Ég held að máli skipti að þýðingin sé eins bein og hún getur orðið, þannig að ekki sé um neinn misskilning að ræða.

Eins og kemur fram hjá hv. þingmanni er markmiðið með þessari tilskipun gott. Við þekkjum þó að þrátt fyrir að menn setji slíkar reglur er því miður ekki tryggt að menn komi í veg fyrir allt sem við viljum ekki sjá. Það þekkjum við af fenginni reynslu.

Aðeins varðandi fjöldann. Ég held að það skipti máli að nú tekur hv. utanríkismálanefnd málið fyrir og þá er það þingsins að fara yfir það. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér er talað um fyrirtæki þar sem meðalfjöldi ársverka er 250, ekki 500, og heildareignir 3 milljarðar kr. og hrein velta 6 milljarðar. Það er til viðmiðunar. Ég veit að það er ekki í samræmi við það sem stendur í greinargerðinni, en þetta er eitthvað sem ég tel að hv. nefnd þurfi aðeins að fara yfir og skoða. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum og ég er með hér, og eru ekki í samræmi við það sem kemur þarna fram, eru þetta 80–100 fyrirtæki.

Við þurfum líka að hafa í huga að allar þessar reglur hafa kostnað í för með sér. Það skiptir máli, sérstaklega þegar fyrirtækin er mjög lítil eða meðalstór, og öll fyrirtæki á Íslandi eru þannig, að við göngum ekki þannig fram að við séum með of íþyngjandi reglur, jafnvel þótt markmiðin séu góð. (Forseti hringir.) Markmiðin með eiginlega öllum reglum eru góð, en það skilar sér ekki alltaf í þeim árangri sem við viljum sjá.



[15:45]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kalla mig góðan að hafa náð að fá ráðherra til að víkka umfang reglnanna fjórfalt frá því sem var í framsöguræðunni, bara frá ráðherrabekknum og upp í púlt. Verst að þetta eru ekki nema tvær lotur sem við höfum í andsvörum, annars væri hægt að láta þetta ná yfir enn fleiri fyrirtæki.

Það er rétt sem ráðherrann segir að þetta er á vissan hátt íþyngjandi fyrir fyrirtækin sem þurfa að standa skil á þessum upplýsingum og leysir ekkert öll mál. Fyrir stærri fyrirtæki sem hvort sem er skila ítarlegum ársreikningum er mjög lógískt að nota sömu ferð til að taka saman það sem heitir á máli EES-nefndarinnar, svo ég hafi það rétt, ófjárhagslegar upplýsingar, sem skipta máli. Þótt tilvist þessara skýrslna ein og sér tryggi ekki að fyrirtæki t.d. forðist spillingu og mútur þá er upplýsingaskyldan eitthvað sem er hægt að nota til að koma böndum á slíka starfsemi þegar eftir því er kallað.

Ég bíð þess spenntur að sjá hvernig málið heldur áfram að þróast í næsta innleggi ráðherrans og jafnvel í meðförum nefndarinnar. Það er aldrei að vita nema þetta verði fyrr en varir alltumlykjandi regluverk sem miðar að því, eins og við ráðherra erum greinilega sammála um, að rekstrarumhverfi fyrirtækja, upplýsingaskil þeirra, leiði fram betri fyrirtækjakúltúr hér á landi, að ákveðnar ófjárhagslegar upplýsingar verði til staðar til að sé hægt að meta hvort fyrirtæki eru rekin á góðan hátt, ekki bara fjárhagslegan.



[15:47]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvör hans. Bara svo það sé á hreinu var ekki misræmi milli framsöguræðunnar og svartsýnis í spurningunni heldur var ég að vísa í greinargerðina. Þetta er eitthvað sem ég tel að hv. nefnd eigi að skoða.

Við höfum alveg á hreinu að það er bannað að múta á Íslandi. Þetta breytir engu þar um. Spilling er sömuleiðis bönnuð þótt það sé víðfemt hugtak sem menn nota sumir ansi frjálslega. En þetta liggur alveg fyrir og því engin breyting hvað það varðar. Miðað við allar þær mælingar sem ég hef séð hefur verið mjög lítið um það að ræða, ef eitthvað, á Íslandi í samanburði við ýmis önnur lönd.

Við megum heldur ekki blekkja okkur. Ég geri ráð fyrir því ef eitthvert fyrirtæki ætlaði að stunda slíkt myndi það ekki beinlínis setja það í svona skýrslu. Það er þó alveg jafn bannað fyrir og eftir. Það sem við þurfum að hafa í huga þegar við setjum svona reglugerðir — og ég hef aldrei séð reglugerð sem er sett með það að markmiði að koma einhverju slæmu áleiðis, ásetningurinn er alltaf góður — er að ef þær útheimta mikla vinnu, ég tala nú ekki um í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, þá gerum við rekstrarumhverfi fyrirtækjanna mjög erfitt.

Nú er það þannig að við öll sem erum hér í vinnu erum á launum hjá skattgreiðendum og verðmætin sem eru sköpuð í þessu þjóðfélagi eru hjá fyrirtækjunum. Við erum í samkeppni við fólk, sérstaklega yngra fólk. Þeir sem eru yngri hafa fleiri tækifæri en við sem erum eldri höfðum á þeirra aldri. Það mun verða mun meira í nánustu framtíð. Við eigum alltaf að hafa í huga að við viljum hafa þannig umhverfi að við verðum með unga fólkið okkar, ef það svo kýs, hér á landi og með lífskjör eins og þau gerast best annars staðar.

Ég hvet hv. nefnd (Forseti hringir.) til að meta alla þessa hluti og fara vel yfir þá. Við komum fram með þessi mál og síðan er það þingsins að fara yfir þau og meta.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.