146. löggjafarþing — 31. fundur
 23. feb. 2017.
aðkoma ráðherra að lausn sjómannaverkfallsins.

[10:48]
Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Lok sjómannaverkfallsins voru á allra vörum um síðustu helgi. Skip héldu úr höfn áður en atkvæðagreiðslu lauk. Við höfum heyrt margt frá fundi þar sem ráðherra kom og batt enda á verkfallið. Samningsaðilar sjómanna sögðust hafa vaknað upp við vondan draum á fundinum með ráðherra. Mörgum er ofarlega í huga fjölmiðlaumfjöllun í lok verkfallsins.

Fyrst hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra situr hér fyrir svörum þá er mér spurn: Hvaða tilboð var það sem ráðherrann færði samningsaðilum sem þeir gátu ekki hafnað?



[10:48]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég held að mikilvægt sé að draga fram að það er mikið fagnaðarefni að við stöndum nú frammi fyrir því að skipin okkar eru komin til hafs á ný og byrjuð að sigla aftur til baka í hafnir með fullfermi. Það er líka mjög mikilvægt að samningsaðilar leystu þetta sín á milli, án formlegrar aðkomu ríkisins á endanum. Það er mikið ánægjuefni að deilunni er lokið, þeirri tíu vikna langvinnu deilu þar sem menn áttuðu sig algjörlega á sinni ábyrgð. Þeir fundir og þau samtöl sem ég hef átt, bæði með útgerðarmönnum og forystumönnum í sjómannahreyfingunni, voru mjög skýr. Þeir áttuðu sig á ábyrgð sinni og vildu axla hana. Þetta var snúið, um tíma áttu menn erfitt með að tala saman. Á endanum var það þannig að það upplegg sem ég kynnti sjómönnum sem og útgerðarmönnum — rétt er að draga fram að það upplegg fólst m.a. í ákveðinni aðkomu útgerðarinnar, þeir komu með mjög markvissum hætti inn í það tilboð sem ég kynnti síðan sjómönnum — það var upplegg sem þeir fóru síðan ekki eftir. Þeir ákváðu að leysa þetta sín á milli.

Þess vegna tel ég mikilvægt núna þegar deilan er leyst, skrifað hefur verið undir samninga, menn eru farnir, eins og ég sagði áðan, til hafs á ný, að við horfum fram á við og reynum að byggja upp sátt og tryggja sátt í kringum sjávarútveginn, reynum að læra af þessari deilu. Hvað er það sem við lærum? Ég held að þau ákvæði sem eru í samningunum séu mjög mikilvæg, að menn átti sig á því hvernig best er að semja. Eigum við ekki að horfast svolítið í augu við raunveruleikann, eins og t.d. það að menn semji eftir hugsanlega skipa- eða útgerðarflokkum? Ég held að það sé mikilvægur hlutur sem menn fara núna sameiginlega yfir, þ.e. forystumenn sjómanna og útgerðarmanna.

Ég held að nú sé ekkert annað eftir en að horfa fram á við til að reyna að tryggja enn frekari sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein.



[10:50]
Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Forseti. Ég endurtek spurninguna: Hvaða tilboð var það sem hæstv. ráðherra færði samningsaðilum sem þeir gátu ekki hafnað? Og númer tvö: Hver var óformleg aðkoma ráðherra, nákvæmlega? Væri ekki ráð að sjómannaforystan og ráðherrann myndu koma sér saman um sameiginlega yfirlýsingu um efnisinnihald téðs tilboðs sem ekki hefur verið rætt, þannig að hvorugur aðilinn geti bent á hinn við upplýsingu málsins og hafið sé yfir allan vafa að ráðherra hafi ekki farið fram með gerræðislegum hætti?



[10:51]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Það lá alveg ljóst fyrir af minni hálfu og það var margítrekað í margra vikna samtölum við sjómannahreyfinguna sem og útgerðarmenn að ég myndi ekki fara þá leið sem hefur verið nefnd sértæk leið, að endurvekja sjómannaafsláttinn með einum eða öðrum hætti. Það lá allan tímann skýrt fyrir. Ég kynnti og lagði fram tillögu sem m.a. fól í sér, eins langt og maður komst, af því að ég var að reyna að tengja við kröfur sjómanna sem voru eðlilegar hér á árum áður, það var eðlilegt, a.m.k. ekki óeðlilegt að menn hefðu sjómannaafslátt á árum áður, en í dag eru viðhorfin önnur. Ég reyndi því að tengja aðrar stéttir inn í slík hlunnindi, fleiri en sjómenn, með ákveðnum takmörkunum þó. Segjast verður eins og er að það var ekki hægt nema með aðkomu útgerðarinnar, það verður líka að draga fram. Eftir stendur að deilan leystist, þannig eigum við að hugsa um þetta. Við eigum frekar að ræða hér, frekar en það sem gerðist í fortíðinni, hvernig við getum byggt upp bæði sjómenn, þessa grjóthörðu stétt sem vinnur í erfiðu umhverfi, og traustið í kringum rekstur útgerðarinnar. Ég tel það vera mikilvægasta hlutverk Alþingis á þessu kjörtímabili, að byggja upp sátt í kringum greinina.