146. löggjafarþing — 31. fundur
 23. feb. 2017.
sérstök umræða.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[11:56]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra ferðamála fyrir að verða við beiðni minni um að taka þetta mál á dagskrá. Hér ræðum við um stöðuna í ferðamálum. Staðan er að mörgu leyti góð en að einhverju leyti slæm. Hún er góð að því leyti að hingað streyma ferðamenn og fjöldi þeirra eykst frá ári til árs en slæm að því leyti að ákveðin svæði eru komin að þolmörkum hvað varðar álag og fjölda meðan önnur geta vel tekið á móti fleirum.

Reyndin er sú að ferðaþjónustan er orðin ein meginstoð í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar en tekjurnar dreifast misjafnlega og er umhugsunarefni hvort eðlilegt sé að tekjurnar renni að mestu leyti til suðvesturhornsins á meðan önnur svæði bera kostnað en fá litlar tekjur. Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur ítrekað verið rætt um mikilvægi þess að sveitarfélögin fái auknar tekjur af komu ferðamanna til landsins. Eins og staðan er í dag fá sveitarfélög tekjur af útsvari þeirra sem vinna við ferðaþjónustu auk fasteignaskatta af mannvirkjum sem tilheyra ferðaþjónustunni. Þær tekjur renna af mismiklum þunga til sveitarfélaga og telja sum sig vera nokkuð afskipt vegna þess. Þau telja útgjaldaþrýsting vera fyrir hendi en litlar sem engar tekjur í augsýn til að standa undir nauðsynlegum kostnaði við uppbyggingu og fleira.

Við Framsóknarmenn höfum talað fyrir því að beinum tekjum sem ríkið fær af ferðamönnum verði deilt þannig að 1/3 renni beint til ríkisins, 1/3 til sveitarfélaga og 1/3 í uppbyggingarsjóð. Þannig er hægt að dreifa peningunum þangað sem tekjurnar eru minnstar og þörfin mest þannig að kerfið haldi áfram að stækka og dreifa ferðamönnum skipulega um landið.

En ef við ætlum í raun að dreifa álaginu þurfum við að ráðstafa tekjum ríkisins þar sem sóknarfærin eru minnst fyrir einkaaðila. Hið opinbera þarf að standa undir því að byggja upp grunninnviði vítt og dreift um landið til að styrkja heimamenn í uppbyggingu og skapa grundvöll til tekjuöflunar. Það er góð leið til að jafna tækifæri og styrkja jafnrétti til búsetu.

Hæstv. forseti. Töluvert hefur verið gert úr því að aukin gjaldtaka á ferðamenn hafi fælandi áhrif og geti dregið úr ásókn þeirra til landsins. Það tel ég, líkt og starfshópur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga reyndar líka, vera óþarfa áhyggjur því að ekki veit ég betur en að alvanalegt sé að menn greiði fyrir aðgang að ferðamannastöðum annars staðar og ýmsir skattar og gjöld séu á gistingu. Það er ekki það sem ferðamenn athuga fyrst þegar ákvörðun um ferðalag er tekin.

Aftur á móti eru meiri líkur á að aðgerðaleysi varðandi nauðsynlega uppbyggingu geti laskað orðspor landsins og haft skaðleg áhrif á markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar var hafin markviss vinna við að opna fleiri gáttir inn í landið. Unnið hefur verið með landshlutasamtökum og heimamönnum í að koma beinu flugi til Akureyrar og Egilsstaða. Það er langhlaup og krefst eftirfylgni. Gaman væri að heyra hvort ekki er unnið að því verkefni áfram af fullum þunga.

Stór hluti ferðamanna kemur til landsins til að upplifa náttúruna og jafnvel er alveg sama þótt þeir komi ekki á suðvesturhornið eða til höfuðborgarinnar. Svo má líka benda á að það skiptir ekki máli hvort hringferð um landið hefst í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum eða Seyðisfirði, en það getur skipt okkur miklu máli að dreifa ferðamönnum, styrkja byggðirnar hringinn í kringum landið og fjölga atvinnutækifærum. Ýmislegt kemur í veg fyrir dreifingu ferðamanna. Helst vil ég nefna samgöngur, bágborna vegi og dýrt flug en líka má geta sér þess til að eitthvað vanti upp á markaðssetningu.

Hæstv. forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er stuttur kafli um ferðamál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Vægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar endurspeglist í verkefnum stjórnsýslunnar og langtímastefnumótun. Á næstu árum verður lögð áhersla á verkefni sem stuðla að samhæfðri stýringu ferðamála, áreiðanlegri gagnaöflun og rannsóknum, náttúruvernd, aukinni arðsemi greinarinnar, dreifingu ferðamanna um land allt og skynsamlegri gjaldtöku, t.d. með bílastæðagjöldum.“

Þetta er allt gott og gilt en almennt orðað eins og gengur svo sem með plagg af þessu tagi. En ég velti fyrir mér hvað menn telji skynsamlega gjaldtöku. Samtök atvinnulífsins hafa lagt til að gjaldtaka verði frjáls af virðisaukandi ferðaþjónustu, einhverjir telja leiðina til stýringar á ferðamannastaði vera þá að ferðamenn greiði fyrir aðgengi og upplifun, þ.e. þeir sem njóta, þeir borga, það sé ekki nóg að hafa gistináttagjald og komugjald til að stýra álagi heldur þurfi meira til.

Ég vil því spyrja: Hyggst ráðherra beita sér fyrir gjaldtöku af ferðamönnum og með hvaða hætti? Hvaða afstöðu hefur ráðherra til komugjalda? Hvernig ætlar ráðherra að tryggja sveitarfélögum auknar tekjur af ferðamönnum? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að dreifa ferðamönnum um landið og þá hvernig?



[12:01]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur fyrir að vekja máls á þessu stóra viðfangsefni, ferðamálum og uppbyggingu atvinnugreinarinnar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að vægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar endurspeglist í verkefnum stjórnsýslunnar og langtímastefnumótun.

Ég hef tekið ákvörðun um að frá og með næstu mánaðamótum verði til sérstök skrifstofa ferðamála í ráðuneytinu og hún verði styrkt með mannafla umfram það sem er í dag. Þetta gerum við aðallega með því að forgangsraða innan ráðuneytisins og frá og með næstu mánaðamótum munu fimm starfsmenn helga sig ferðamálum, auk þess sem bætt verður við einum til tveimur stöðugildum þegar líður á árið. Með þeirri breyttu forgangsröðun gefst betra tækifæri til að sinna þeim brýnu verkefnum sem blasa við okkur með það að markmiði að ráðuneytið verði leiðandi í samvinnu við önnur ráðuneyti og stofnanir um hin krefjandi viðfangsefni ferðaþjónustunnar sem varð á skömmum tíma undirstöðuatvinnugrein á Íslandi. Því fylgja verkefni.

Umræðan um ferðaþjónustuna snýst mikið um gjaldtöku. Í fyrsta lagi höfum við gjaldtöku nú þegar, gistináttagjaldið mun þrefaldast frá og með haustinu þegar það fer úr 100 kr. í 300 kr. Auk þess er stefna ríkisstjórnarinnar að búa þannig um hnútana að heimilt verði að leggja á bílastæðagjöld á tilteknum ferðamannastöðum og er unnið að samningu frumvarps um það efni á vegum samgönguráðherra. Þá greiða ferðamenn skatta, eins og við vitum, af virðisaukandi þjónustu og neyslu, svo sem matvælum, auk þess sem umsvif greinarinnar ýta undir hagvöxt og atvinnu. Frekari hugmyndir um sérstaka gjaldtöku á ferðamenn hafa ekki verið ákveðnar. Áform um náttúrupassa sem voru mikið í umræðunni fyrir kosningarnar 2013 náðu ekki fram að ganga og ég mun ekki leggja til þá leið að nýju.

Fyrir þær kosningar ræddu ýmsir kosti komugjalda en minna má á að frumvarp um það efni fór fyrir Alþingi árið 2011 en var þá hafnað í þinginu.

Ég tek undir með málshefjanda að huga þarf að því að sveitarfélögin fái eðlilegan hlut af tekjum vegna ferðamanna til þess að geta staðið undir uppbyggingu á svæðum sínum. Í því sambandi vil ég leggja áherslu á að þeim er nú þegar veitt umtalsverð hlutdeild úr sameiginlegum sjóðum til uppbyggingar, bæði í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og í gegnum hina nýju landsáætlun um uppbyggingu innviða, sem ég vík betur að síðar. Lagt verður fram frumvarp á næstunni frá samgönguráðherra þar sem heimildir sveitarfélaga til að leggja á bílastæðagjald utan þéttbýlis eru rýmkaðar. Skoða þarf í framhaldinu möguleika sveitarfélaga til að afla sér tekna til að standa undir uppbyggingu.

En gjaldtakan er ekki stærsta viðfangsefnið heldur samhæfð stýring ferðamála, að skerpa skipulag greinarinnar, dreifing ferðamanna um landið allt, náttúruvernd og önnur áhersluatriði sem skilgreind hafa verið í vegvísi í ferðaþjónustu, ítarlegri stefnumörkun með þátttöku allra helstu hagsmunaaðila.

Herra forseti. Þótt umgjörð ferðaþjónustu sem atvinnugreinar heyri undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eru flest stór viðfangsefni sem tengjast málaflokknum á forræði annarra ráðuneyta. Sú staða kallar á samhenta stjórnsýslu og þess vegna var ákveðið að setja á fót Stjórnstöð ferðamála síðla árs 2015. Á vettvangi hennar er unnið þvert á ráðuneyti þar sem ráðherrar ferðamála, fjármála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og umhverfis- og auðlindamála sitja saman við borðið með fulltrúum sveitarfélaga og ferðaþjónustunnar í því skyni að samhæfa stjórnsýslu og aðgerðir í ferðamálum. Þetta er mikilvægur vettvangur sem nýta þarf vel til ársins 2020. Málshefjandi leggur hér áherslu á gjaldtöku, tekjur til sveitarfélaga og dreifingu ferðamanna. Allir þessir þættir kalla til að mynda á samstarf og samhæfingu ráðuneyta, enda ekki á valdsviði ferðamálaráðherra að ráðast í gjaldtöku eða skattheimtu, ákveða vegaframkvæmdir eða snjómokstur, sem eru liðir í að stuðla að dreifingu ferðamanna, svo dæmi sé tekið.

Stefna stjórnvalda er að stuðla að betri dreifingu eða flæði ferðamanna um landið, samanber fyrrnefndan vegvísi. Við þurfum með skipulegri hætti en áður að geta komið á framfæri hvað hver landshluti stendur fyrir sem áfangastaður. Þetta gerum við í vinnu við svokallaða stefnumótandi stjórnunaráætlanir, eða DMP-áætlanir, sem er komin af stað, þar sem mörkun fyrir landshlutana verður m.a. unnin í samráði við heimamenn. Þetta skiptir miklu máli. Flugþróunarsjóður hefur hafið starfsemi. Markmið sjóðsins er að stuðla að dreifingu ferðamanna um landið með því að styrkja flug, nú til Akureyrar og Egilsstaða, og almennt út á land. Frumvarp um starfsemi sjóðsins er í vinnslu í ráðuneytinu og kemur vonandi til þingsins á þessu þingi.

Þessi ört vaxandi atvinnugrein er í mínum huga öflug byggðaaðgerð, sjálfsprottin og sjálfbær. Landið allt er fallegt og ákjósanlegur viðkomustaður en við verðum að ráða við fjöldann og vöxtinn í fjölguninni. Uppbygging innviða verður að fylgja með. Það er verkefnið, aðeins þannig byggjum við upp sterka ferðaþjónustu til framtíðar, með auknum gæðum og arðsemi í greininni.

Hæstv. forseti. Ég hefði gjarnan viljað nefna fleiri atriði og næ því ef til vill í seinni ræðu minni. Það er mikilvægt að við ræðum saman eins og við erum að gera hér um þær áskoranir og tækifæri sem felast í ferðamálunum. Hér þurfum við öll að vinna saman og ég fagna tækifærinu til að eiga þetta samtal við þingmenn.



[12:06]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ferðamálin hafa raunar verið talsvert til umræðu í þessum sal á undanförnum árum. Það hafa verið unnar greiningar á ástandinu en líka verið kallað eftir að aðgerðir fylgi greiningu. Við eigum greiningu á því að ófullnægjandi salernisaðstaða sé víðs vegar um landið en enn erum við ekki búin að sjá markvissa aðgerðaáætlun um hvernig nákvæmlega eigi að fjölga þeim. Hæstv. ráðherra sagði hér að uppbygging innviða væri forgangsatriði. Ég er sammála. Langstærstur hluti þeirra ferðamanna sem hingað kemur kemur hingað vegna náttúrunnar og það er mjög mikilvægt að ráðist verði í uppbyggingu á ferðamannastöðum sem miðast við að við virðum þolmörk náttúrunnar og líka að við setjum aukna fjármuni til rekstrar á þessum svæðum. Þá er ég að vitna til landvörslunnar sem verður í auknum mæli að verða heils árs starf víðs vegar um landið á ólíkum svæðum.

Það er hins vegar svo að við sjáum ekki, til að mynda í ríkisfjármálaáætluninni sem nú liggur inni í þinginu, að gert sé ráð fyrir aukningu í uppbyggingu innviða ferðamannastaða, hvorki þegar kemur að rekstri né framkvæmdum. Við sjáum líka að það hefur ríkt ákveðið villta-vesturs-ástand þegar kemur að gjaldtöku. Það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra segir, þetta er mikilvæg atvinnugrein, stærsta útflutningsgrein landsins, gríðarlega flott þróun sem byggir á frumkvæði fólks um land allt, en það skiptir máli að stjórnvöld hafi skýra sýn á þetta. Hæstv. ráðherra sagði að hún hygðist ekki leggja fram frumvarp um náttúrupassa og ég held að það sé gott því að það stangaðist á við almannaréttinn sem hefur verið í íslenskri löggjöf allt frá miðöldum. En við þurfum að finna hér einhverja sátt um hvernig við viljum haga þessari gjaldtöku. Þar þurfum við að virða grundvallarsjónarmið um almannarétt, að för fólks um landið sé áfram frjáls en að gjaldtaka miðist (Forseti hringir.) með einhverjum hætti við veitta þjónustu eða eins og við höfum lagt til, að horft verði til komugjalda sem eru þá skýr og gagnsæ leið til að innheimta frekari tekjur af þeim sem hingað koma.



[12:09]
Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er sannarlega mikilvæg umræða og ég vil taka undir þakkir til hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur fyrir að setja þetta mál á dagskrá í dag. Ráðherra boðar hækkun gistináttagjalds í ræðu sinni og það er vel enda hefur verið kallað eftir því. Það mun, ef mér reiknast rétt til, leiða til þess að hið opinbera mun að öllum líkindum fá inn rúmlega milljarð, sennilega nær 1,5 milljörðum, sem nýtast mun til innviðauppbyggingar á sviði ferðaþjónustu.

Ég vil jafnframt þakka ráðherra fyrir þá skýru framtíðarsýn sem ræða hennar í dag endurspeglar. Hún leggur áherslu á nýjar leiðir í gjaldtöku, á leiðir til að sveitarfélögin geti fengið inn nauðsynlegar tekjur til sín til að standa undir auknu álagi og að síðustu leggur hún áherslu á dreifingu ferðamanna um land allt. Þetta er gleðiefni.

En þetta krefst mannafla og þess vegna vil ég líka fagna því að hæstv. ráðherra hefur boðað hér í dag að sett verði á fót sérstök og vel mönnuð skrifstofa ferðamála í hennar ráðuneyti. Það eru góðar fréttir og endurspegla vel þá áherslu sem ríkisstjórnin leggur á þennan ört vaxandi grundvallaratvinnuveg hér á landi. Þessi áhersla lofar því góðu og er fagnaðarefni fyrir alla hér á landi.

Þá hjó ég eftir því sem ráðherrann minntist á, og hefur verið í umræðunni, um stefnumótandi stjórnunaráætlanir fyrir mismunandi landshluta. Ráðherra talar um samráð við heimamenn, en það væri gaman ef ráðherra gæti komið aðeins inn á það hvernig hún sér það samráð fyrir sér. Þá vil ég (Forseti hringir.) gjarnan spyrja ráðherra nánar út í gjaldtökuna og flugsamgöngur sem lið í að dreifa betur álaginu af ferðamönnum. Ég mun koma betur að því í seinni ræðu minni.



[12:11]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að hæstv. ráðherra ferðamála tekur ekki við öfundsverðu búi, enda einkenndi stefnuleysi þennan málaflokk á síðasta kjörtímabili þegar hann var einnig undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Það er kominn tími til að fara í alvöruaðgerðir þegar kemur að uppbyggingu á miklum grundvallarþörfum ferðaþjónustunnar. Það er eins og ríkt hafi ákveðin tilvistarkreppa nýfrjálshyggjunnar þar sem engu hefur verið komið í verk, þar sem ekki má taka nein gjöld, þar sem ekki má einu sinni byggja klósett því að markaðurinn á einhvern veginn að sjá um þetta sjálfur. Það gengur greinilega ekki lengur. Við sjáum fram á að náttúran verði fyrir skaða, ímynd landsins verði fyrir skaða. Við sjáum að ágangurinn á ákveðna staði landsins er orðinn það mikill að við þurfum að bregðast við, einfaldlega til þess að vernda náttúruna því að þetta er líka spurning um náttúruvernd. Þegar við tölum um aðgangsstýringu og hugsanlega gjaldtöku þá á gjaldtaka líka við sem tegund náttúruverndar. Það er alþekkt um allan heim að þjóðgarðar taka gjald af ferðamönnum sem fara þar í gegn, einfaldlega til þess að viðhalda þeirri náttúruauðlind sem þjóðgarðar eru.

Ég fagna þessari umræðu, enda er kominn tími til að eitthvað verði gert í þessum málum. Við höfum ekki efni á að missa ferðamannaiðnaðinn úr landi, ekki efni á að Ísland verði ekki lengur hluti af ferðamannastraumi heimsins. Það er því mjög mikilvægt að við tökum þessa umræðu og finnum lausnir. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir grunnuppbyggingu á þessu sviði.



[12:13]
Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka samferðafólki mínu í þinginu fyrir margítrekaðar óskir um að ég taki þátt í umræðunni í þingsal. Ég var hrærð og þakklát fyrir að það skyldu skapast alveg sérstakar umræður um það í gær að ég skyldi hafa verið fjarverandi við sérstakar umræður í fyrradag. Það er indælt að vita að manns er saknað svo stíft. Ég reyni að vera hér eins oft og lengi og mér er unnt.

En að ferðamálunum, ég þakka fyrir umræðurnar og hæstv. ráðherra fyrir góða innsýn. Sérstaka athygli vekur sú nálgun sem málshefjandi velur. Nálgunin snýst nefnilega um gjaldtöku og skiptingu tekna af ferðamönnum en ekki um uppbyggingu greinarinnar. Vissulega er mikilvægt að dreifa álagi af ferðamönnum víðar um landið en við þurfum að gera svo miklu meira en það. Við þurfum að fara að bera meiri virðingu fyrir þessu fjöreggi sem okkur var falið að gæta. Við getum ekki á sama tíma og við seljum landið sem hreina náttúruparadís stóraukið aðgengi að náttúruperlum án þess að ráðast í nokkrar mótvægisaðgerðir. Það er líka mikilvægt að tryggja fjölbreytt og vel menntað vinnuafl til að halda úti öflugu og góðu þjónustustigi í ferðaþjónustunni. Til að hámarka gæði og tekjur í ferðaþjónustu þarf að móta stefnu til langs tíma sem hæstv. ráðherra hefur talað fyrir. Með því aukum við lífsgæði okkar Íslendinga líka því að ferðaþjónustan er farin að hafa áhrif á ýmsa grunninnviði í landinu.

Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, þarf að forgangsraða framkvæmdum sem ráðast þarf í til að skapa ekki óþarfa þenslu, verðbólgu eða launaskrið. Þá eru ónefnd enn stærri verkefni eins og sú hugmynd að rafvæða bílaleiguflotann með tilheyrandi uppbyggingu á hleðslustöðvum um land allt.



[12:15]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Fyrir einhverjum tugum ára tók Alþingi þá ákvörðun að gefa þeim sem kaupa sér gistingu hér á landi afslátt af virðisaukaskatti, þann sama afslátt frá almennu þrepi skattsins og almenningur fær af matvælum, orku og bókum. Þessi ákvörðun var tekin í hagstjórnarskyni eins og allar ákvarðanir um skattastyrki. Ákvörðunin var tekin til að freista þess að fjölga ferðamönnum hér á landi og vera með hagstæðari kjör eða svipuð og þau lönd sem við vildum keppa við um ferðamenn. Þegar ákvörðun var tekin um þetta var ferðaþjónustan ekki stór atvinnugrein og vóg ekki þungt í atvinnusögu þeirra tíma.

Nú mörgum árum síðar er ferðaþjónustan orðin ein stærsta atvinnugrein landsins og aflar góðra gjaldeyristekna. Atvinnugreinin vegur mjög þungt í atvinnu og uppbyggingu um allt land og hefur gríðarleg áhrif á efnahag landsins og veldur álagi á innviði sem verður að mæta. Ríkissjóður verður að leggja út fyrir vegaumbótum, bættri aðstöðu á ferðamannastöðum, til að styrkja heilbrigðiskerfið, sjúkraflutninga og löggæslu. Nú þarf að beita þeim hagstjórnartækjum sem ríkisvaldið hefur tök á til að mæta álaginu sem fjöldi ferðamanna veldur. Þá liggur beinast við að færa virðisaukaskatt af gistingu og þjónustu fyrir ferðamenn í almennt þrep eins og aðrar atvinnugreinar landsins búa við sem veita þjónustu eða selja vöru sem neytt er hér á landi. Sú breyting gæfi 10–15 milljarða kr. í ríkissjóð á ári. Það munar um slíka upphæð við uppbygginguna sem er nauðsynleg svo að þær fjárfestingar sem greinin hefur sjálf stofnað til muni borga sig til framtíðar. En slík breyting yrði ekki gerð á morgun heldur þyrfti langan aðdraganda og kæmi það því í fyrsta lagi til framkvæmda haustið 2018 ef ákvörðunin yrði tekin í dag.



[12:18]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við þingmenn erum nýkomin úr kjördæmaviku og ég sem þingmaður Suðurkjördæmis sótti þó nokkra fundi á því svæði. Ferðamálin voru mörgum ofarlega í huga og miðað við þær aðstæður sem hafa orðið til á Suðurlandinu er það engin furða, það er mikil umferð um þetta svæði en á sama tíma eru önnur svæði kannski ekki tóm en tómlegri. Sú sem hér stendur hefur gaman af því á sumrin að fara með tjaldið í skottinu og elta veðrið og það er gríðarlega mikill munur á milli landsvæða á Íslandi og við þurfum að bregðast við því með betri dreifingu ferðamanna. Ein leið er að fjölga gáttum inn í landið, eins og hv. þm. Þórunn Egilsdóttir nefndi áðan. Önnur leið er að auka tengingar á Keflavíkurflugvelli við önnur landsvæði, þ.e. að þeim sem koma til landsins gefist kostur á að halda beint áfram, t.d. norður eða austur eða því um líkt. Það sparar líka álag á vegina sem eru undir mjög miklu álagi.

Tíminn sem við höfum í þessari umræðu er mjög stuttur þannig að maður getur ekki sagt margt en mig langar að segja þó að það er ekki fyrr en 2011–2012 sem straumur ferðamanna fer að aukast verulega á Íslandi. Þetta er mjög stuttur tími, álagið á innviðina er mikið þannig að óhjákvæmilegt er að auka gjaldtöku, en hún þarf að vera skynsamleg og hún þarf að vera sanngjörn.

Nokkrar spurningar til ráðherra áður en ég lýk máli mínu: Hvaða skoðun hefur ráðherra á hugmyndum Framsóknar um að sveitarfélög, ríki og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fái þriðjung peninganna, að auka innanlandsflug um Keflavíkurflugvöll, gistináttagjaldið? Gistináttagjaldið hefur verið hækkað en þykir ráðherra það ekki ójafnræði þar sem hlutfall er mjög mismunandi milli dýrrar og ódýrrar gistingar? (Forseti hringir.) Telur ráðherra ekki ástæðu til að leggja frumvarp (Forseti hringir.) um komugjald fram aftur þar sem það var síðast (Forseti hringir.) lagt fram 2011 og síðan hefur mjög margt breyst?



[12:20]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti vill minna ræðumenn á að halda ræðutíma. Sjálfur er hann ekkert sérstaklega duglegur við það, en það hafa tveir slagað upp í 30 sekúndna markið þannig að þetta er vingjarnleg áminning um það.



[12:21]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Forseti. Þetta er merkileg umræða. Í næstsíðustu ræðu sá ég góða tillögu þar sem var eiginlega lagt til að slátra þessari mjólkurkú sem ferðaþjónustan er. Það er nefnilega þannig að ferðaþjónustan er í samkeppni við önnur lönd og þegar landslagið er skoðað í Evrópu er gistiþjónusta, gistináttaþjónusta, yfirleitt í öðru virðisaukaskattsþrepi en meginþrepi. Það er meginreglan.

Það virðist gleymast í þessu landi varðandi ferðaþjónustuna að hún skilar sennilega í virðisaukaskattstekjur u.þ.b. 30 milljörðum á ári þrátt fyrir uppbyggingarfasa. Í öðru lagi, eitt fyrirtæki, Icelandair, af starfsemi þess falla til 24 milljarðar í skatttekjur til ríkissjóðs. Sennilega er það svipuð tala hjá öðrum hluta ferðaþjónustunnar þannig að ferðaþjónustan skilar u.þ.b. 70–80 milljörðum í ríkissjóð. Það að gera þessa atvinnugrein að einhverri féþúfu kann að leiða til þess, eins og ég sagði áðan, að greininni verði slátrað.

Spurt var: Hvaða leiðir sér ráðherra til að dreifa ferðamönnum um landið? Ráðherrar dreifa ekkert ferðamönnum um landið. Ferðamenn ákveða sína áfangastaði sjálfir. Það er ósköp einfaldlega þannig að dreifing ferðamanna ræðst svolítið af fjarlægð frá flugvelli. Fjarlægðin frá flugvelli er Faxaflóasvæðið og við búum við það. Það er alveg út í bláinn að reikna með því að hér verði mikið um beint flug frá útlöndum til annarra áfangastaða. Keflavíkurflugvöllur er núna með 6,8 milljónir farþega og til að hafa aðra svona stóra gátt inn í landið þarf minnst 3–4 milljónir farþega (Forseti hringir.) vegna þess að uppbygging flugvalla byggist á flughafnarhugmynd þannig að því verður ekki breytt.

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa farið yfir mörkin.



[12:23]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ferðaþjónustan hefur valdið breytingum á samfélagi okkar og hafa þær breytingar verið af margvíslegum toga, menningarlegum, hagrænum og umhverfislegum. Við þurfum hins vegar að huga að bæði jákvæðum og neikvæðum áhrifum ferðaþjónustunnar á íbúana því að það þarf allt að vera í sátt við samfélagið okkar og heimamenn á hverjum stað. Hér hefur verið minnst á dreifingu ferðamanna. Það hefur augljósa kosti að dreifa ferðamönnum eða sjá til þess að það sé framkvæmanlegt, ekki síst til þess að dreifa álagi á náttúruperlur okkar.

Góðar og öruggar samgöngur eru vissulega mikilvægar til þess að svo geti orðið. Gert var ráð fyrir því í samgönguáætlun en því miður ekki í ríkisfjármálaáætlun eða ríkisfjármálastefnunni, ekki frekar en í fjárlagafrumvörpunum. Það er mikilvægt að skilgreina ferðamannaleiðirnar í hverjum landshluta, þ.e. hvers vegna ferðamenn vilja koma þangað. Þar kom hv. frummælandi inn á markaðssetninguna. Það tel ég afar mikilvægt og fagna því þess vegna að ráðherrann hefur ákveðið að leggja mikla áherslu á þessi mál í ráðuneyti sínu þó að þetta sé þvert á ráðuneyti.

Við þurfum líka að hafa bæði viðhald og uppbyggingu á flugvöllunum í lagi ef við meinum eitthvað með því þegar við segjumst vilja dreifa ferðamönnum, og markaðssetja aðra landshluta en suðvesturhornið. Mér finnst að það eigi að vera aðalmarkmið ráðuneytisins núna og þeirra sem undir ráðuneytið heyra að einbeita sér að því.

Við þurfum líka að búa þannig um ferðaþjónustuna að hún geti starfað með t.d. góðri nettengingu.

Varðandi gistináttagjaldið og aðra skatta þá verða sveitarfélögin að fá tekjur af því. Þau eru mörg lítil, ferðamennirnir skilja ekki mikið eftir sig en áníðslan er mikil. Og við þurfum auðvitað líka að sjá til þess að aukin löggæsla og álagið á heilbrigðisþjónustuna og annað slíkt verði fjármagnað til þess að mæta auknu álagi.



[12:25]
Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu ráðherra að hún boðaði hér í dag aðgerðir til innheimtu bílastæðagjalda í samræmi við það sem fram kemur í stjórnarsáttmála. Þetta er sannarlega gleðiefni, enda mun það tryggja hinu opinbera tekjur til uppbyggingar á ferðamannastöðum sem ríkið hefur á forsvari sínu. En það er líka ánægjulegt að hæstv. ráðherra hugar að því hvernig sveitarfélögin geti nýtt sér þetta úrræði.

Þetta mun stuðla að því að staðarhaldarar geta betur sinnt náttúruverndarhlutverki sínu og geta líka betur tryggt öryggi ferðamanna. Það er auk þess gleðiefni hversu mikla áherslu ráðherra leggur á að sveitarfélögin fái hlutdeild í þeim ágóða sem leggst til með auknum fjölda ferðamanna. Þetta skiptir öllu máli, enda gríðarlega mikið álag á þeim sveitarfélögum sem bera hitann og þungann af þessum aukna fjölda. Álagið er einmitt sérstaklega mikið í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi.

Að lokum og í ljósi þess að ráðherrann kemur svo skýrt í ræðu sinni að mikilvægi þess að dreifa álaginu af auknum fjölda ferðamanna um landið allt langar mig að enda á annarri spurningu sem lýtur að flugsamgöngum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi skoðað sérstaklega möguleikana á því að gera minni flugvellina í landinu, t.d. Hornafjarðarflugvöll, þannig úr garði að þeir geti sinnt millilandaflugi og þjónað þeim tilgangi að dreifa betur álagi af auknum fjölda ferðamanna. Telur ráðherra að slíkar breytingar á flugvöllunum og úrbætur á aðbúnaði geti verið liður í þessu átaki?



[12:27]
Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Til að ljúka máli mínu vil ég segja að heilbrigð uppbygging í ferðaþjónustu getur vel orðið hryggjarstykkið í nýrri sókn í dreifbýli. Ég sakna þeirrar áherslu í spurningum málshefjanda en get fullvissað hana um að þingmenn Bjartrar framtíðar munu leggja sitt af mörkum við að móta sýn og stefnu til framtíðar sem eykur gæði ferðaþjónustunnar til lengri tíma.

Ég vil einnig nefna að við gerð stefnumörkunar hvet ég hæstv. ráðherra með tilliti til gjaldtöku og dreifingar til að huga að sjálfbærni í uppbyggingu ferðagreinarinnar sjálfrar, að við drögum úr álagi á samfélagið og okkur sem ríki hvað varðar áhrif á grunninnviði í landinu. Við höfum talað mjög mikið um landsbyggð en hér á höfuðborgarsvæðinu skortir húsnæði sem hefur haft þær afleiðingar á velferðarkerfi okkar og ýmislegt annað að við höfum áhuga á að ferðagreinin sjái um sig sjálf.



[12:29]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég sagði í fyrri ræðu minni að í stöðunni eins og hún er og í rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar og í stöðu ríkissjóðs lægi beinast við að færa virðisaukaskatt af gistingu og afþreyingu í almennt þrep. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða og ef litið er til ástands innviða vegna álags og litið er styrkingar krónunnar sem verður til þess að ferðaþjónustan ryður öðrum útflutningsgreinum frá þá eru skattstyrkir til greinarinnar ekki skynsamlegir.

Mikill meiri hluti þeirra sem nýtir sér gistiþjónustu og afþreyingu fyrir ferðamenn hér á landi eru erlendir ferðamenn, Íslendingar eru þar í miklum minni hluta. Þær aðrar leiðir til gjaldtöku sem ræddar hafa verið lenda flestar jafnt á okkur Íslendingum sem á erlendum ferðamönnum og gefa ekki eins vel til ríkissjóðs. Komugjöld leggjast t.d. á alla þá sem koma til landsins, hvort sem það eru erlendir ferðamenn eða Íslendingar að koma heim úr fríi eða vinnuferðum frá útlöndum. Komugjöldin þyrftu að vera há, nokkur þúsund krónur á ferð, til að ná þeim tekjum sem breytingin á virðisaukaskattinum gæfi.

Mér finnst hins vegar að ef Alþingi vill gefa ferðaþjónustunni skattafslátt við þessar aðstæður, sem ég tel að yrði flokkað undir hagstjórnarmistök þegar sagan verður skoðuð síðar, sé næstbesti kosturinn komugjöld, þótt þau þurfi að vera há og greiðist líka af Íslendingum. Komugjöld sem færu í innviðauppbyggingu ásamt gistináttagjaldi sem rynni til sveitarfélaganna gætu saman gert gagn. Alla vega er algjörlega kristaltært að það verður að grípa um stjórnartaumana og stýra stöðunni frá ógöngum. Það fer illa ef ekkert verður að gert og það mun enginn greiða fyrir það nema íslenskur almenningur með ærnum tilkostnaði og niðurskurði á velferðarþjónustu.(Forseti hringir.) Þess vegna verðum við að taka okkur taki og þótt fyrr hefði verið. Því miður er ekkert að sjá í stefnuyfirlýsingu (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórnar um að taka eigi á málinu. Það eina sem þar er nefnt eru bílastæðagjöld. (Forseti hringir.) Bílastæðagjöld munu ekki mæta þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.



[12:32]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu. Við höfum öll skoðanir á þessu máli og finnum öll, skynja ég hér, hvað þetta brennur á okkur. Hér erum við auðvitað að taka málið fyrir út frá ákveðnu afmörkuðu sjónarhorni. Það er miklu víðtækara en svo og miklu meiri umræða eftir um þennan málaflokk. Ég tek alveg undir það sem fram hefur komið í ræðum þingmanna.

Ég fagna því að ráðherra talar um að leggja sérstaka áherslu á ferðamálin með því að stofna skrifstofu ferðamála. Það er gott að forgangsraða í þá þágu. Hún talaði líka um samhæfingu og þverfaglega vinnu á milli ráðuneyta. Ég náði því ekki alveg hvort heilbrigðisráðherra kemur líka inn í Stjórnstöð ferðamála, í þá vinnu, sem ég tel mjög mikilvægt því að með auknum straumi ferðamanna hefur álagið á heilbrigðiskerfið aukist til muna.

Ráðherra talar um hækkun á gistináttagjaldi. Þá vil ég velta því upp hvort ekki sé rétt að dreifa því. Er rétt að gistináttagjald renni aðeins til þess svæðis þar sem mest af því kemur inn? Er það ekki tæki til að stýra því út, til að byggja upp um landið? Við verðum að gera það. Það er ekkert annað í boði fyrir okkur ef við ætlum að styrkja landsbyggðirnar og koma þessum atvinnuvegi á þann stað sem við viljum. Ferðaþjónustan er gott tæki og góður stuðningur við grunnatvinnuvegina og vinnur vel með þeim í öllum samfélögum um landið.

Það sem við þurfum núna er skýr og afmörkuð stefna. Við þurfum að finna leiðina. Við erum að tala um ferðamannalandið Ísland en það verður að vera land sem við viljum líka búa í.



[12:34]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég gæti örugglega staðið hér í allan dag og rætt þessi mál við þingmenn. Ég ætla að reyna að nýta tímann vel og fara yfir það helsta.

Ég tek undir áherslur hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur á landvörslu. Það er verkefni sem heyrir auðvitað undir umhverfisráðuneytið en kemur aftur og aftur upp á borð mitt sem leið til þess að ná utan um fjölmörg verkefni sem snúa að náttúrunni.

Samráð við heimamenn snýr að miklu leyti að því að vinna með markaðsstofunum. Ég átti sjálf gott samtal við þær í gær einmitt um þetta verkefni og mikilvægi samráðs við heimamenn.

Hér er fjallað um að ekkert sé gert og að hér ríki nýfrjálshyggja. Það eru auðvitað tekin gjöld í dag. Það felst ekki mikil nýfrjálshyggja í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Úr honum er úthlutað til einstaklinga, sveitarfélaga og ríkisins, sem er þó regluverk sem ég er að endurskoða.

Við erum líka með í rauninni miðstýrða landsáætlun. Í henni birtist forgangurinn við innviðauppbygginguna. Hún heyrir líka undir umhverfisráðuneytið og hana þarf að fjármagna. Þar birtist skýr heildarmynd og heildarsýn. Það er því ekki rétt að ekkert hafi verið gert en ég geri ekki lítið úr þeim verkefnum sem áfram þarf að vinna.

Stjórnstöðin er síðan að leggja lokahönd á forgangsröðun verkefna. Þar kemur stóra salernismálið inn í. Það var ekki vilji til að fara í bráðabirgðaaðgerð svolítið fyrir mína tíð. Mér finnst hins vegar koma til skoðunar bara að gera það, því að jafnvel þótt við þurfum síðan að fara í almennilega uppbyggingu getum við ekki verið að fjalla um salernismál í mjög langan tíma.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fer mjög fljótlega að úthluta 600 millj. kr. þannig að það er auðvitað mikil uppbygging að eiga sér stað, svo það sé sagt. Ég er staðráðin í að vanda mig í þessum málaflokki og ætla ekki að ana að neinum grundvallarbreytingum að illa ígrunduðu máli. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir gagnrýni um að þetta hafi tekið tíma tel ég óhætt að segja að ég í það minnsta reyni að vinna hratt og (Forseti hringir.) það er líka mikilvægt að þessi umræða eigi sér stað hérna á þinginu.

Eins og ég segi, (Forseti hringir.) það verður bara einhver annar að óska eftir annarri sérstakri umræðu svo ég geti haldið áfram að tala, ég ætla ekki að fara of mikið fram yfir.