146. löggjafarþing — 32. fundur
 24. feb. 2017.
orkuskipti, fyrri umræða.
stjtill., 146. mál. — Þskj. 205.

[15:37]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti, samanber þingskjal 205, 146. mál.

Orkuskipti eru okkur Íslendingum vel kunn, þ.e. að skipta einum orkugjafa út fyrir annan. Á síðustu áratugum höfum við náð markverðum árangri með notkun endurnýjanlegra orkugjafa í okkar orkubúskap, jafnt til heimilis- sem iðnaðarnota. Fyrir um 40 árum síðan var helmingur íbúðarhúsa á Íslandi hitaður upp með innfluttu jarðefnaeldsneyti. Í dag er þetta hlutfall innan við 1%. Það er sannarlega dæmi um vel heppnuð orkuskipti með tilheyrandi jákvæðum efnahagslegum, samfélagslegum og umhverfislegum ávinningi. Minni staðbundin mengun, minni losun gróðurhúsalofttegunda, umtalsverður gjaldeyrissparnaður, bætt orkuöryggi á landsvísu og efling hvers konar nýsköpunar á sviði orkumála. Allt þetta hefur leitt af orkuskiptum síðustu áratuga.

Á sjöunda áratug síðustu aldar höfðu margir efasemdir um þau áform um orkuskipti í húshitun sem þá var ýtt úr vör, enda lágu ekki fyrir augljósar fjárhagslegar forsendur fyrir þeirri aðgerð á þeim tíma. Ég efast um að nokkur í dag muni mótmæla því að um gæfurík og mikilvæg spor hafi verið að ræða. Við þekkjum því vel þær jákvæðu afleiðingar sem orkuskipti hafa í för með sér og mikilvægi þess að halda áfram með sögu orkuskipta á Íslandi.

Segja má að við séum í dag komin á næsta stig orkuskipta á Íslandi. Innflutt jarðefnaeldsneyti er enn ríkjandi á ýmsum sviðum. Það eru því víða tækifæri jafnt sem áskoranir sem blasa við okkur. Fyrst og fremst er áframhaldandi verk að vinna á sviði samgangna, hvort sem um er að ræða samgöngur á landi, á hafi eða í flugi. Mikilvæg skref hafa verið stigin undanfarin ár og hafa aðgerðir stjórnvalda leikið stórt hlutverk í þeim orkuskiptum samgangna á landi sem þegar hafa átt sér stað. Góðan árangur má meðal annars sjá á því að endurnýjanlegt eldsneyti hefur vaxið úr 0,2% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í um 6% á fimm árum. Bæði er hér um að ræða lífeldsneyti sem nú er notað í meira mæli en áður, auk þess sem verulegur vöxtur hefur verið í fjölgun rafbíla sem eru nú fleiri en 1.000 á vegum landsins. Enn er þó langur vegur í að ná fram fullum orkuskiptum í samgöngum á landi. Ég tel að í þeim efnum eigum við að setja okkur bæði metnaðarfull markmið og raunhæf.

Haftengd og flugtengd starfsemi er hins vegar mun skemur á veg komin hvað orkuskipti varðar og er nánast enn á byrjunarreit. Það er því lagt til að útvíkka stefnumótun og aðgerðir fyrir orkuskipti þannig að þau taki til allra sviða sem eru meira og minna háð notkun jarðefnaeldsneytis.

Orkuskipti eru eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og stór þáttur í aðgerðum okkar í loftslagsmálum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar kemur fram að gerð verði aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Áætlunin feli m.a. í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Í stefnuyfirlýsingunni kemur einnig fram að koma þurfi á samræmdu kerfi grænna skatta og í því skyni verði áfram unnið að útfærslu skatta á ökutæki og eldsneyti. Meðfylgjandi tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti er lögð fram í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í sóknaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem kynnt var í lok nóvember 2015 eru tvö verkefni tilgreind sem lúta beint að orkuskiptum, annars vegar um endurnýjaða aðgerðaáætlun til næstu ára vegna orkuskipta, jafnt á landi, lofti sem legi, og hins vegar um eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu. Í sóknaráætluninni kemur nánar tiltekið fram að aðgerðaáætlun til næstu ára vegna orkuskipta, jafnt á landi sem á hafi, verði lögð fram á Alþingi sem tillaga til þingsályktunar á vorþingi 2016 og að áætlunin verði unnin á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Grænu orkunnar, sem er samstarfsvettvangur um orkuskipti sem miðar að því að auka hlut visthæfra innlendra orkugjafa á kostnað innflutts kolefnaeldsneytis. Í samræmi við þetta var tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti lögð fram af þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra á Alþingi í júní 2016 til kynningar. Mælt var fyrir tillögunni í ágúst 2016 og í kjölfarið gekk tillagan til atvinnuveganefndar Alþingis og til umsagnar en ekki náðist að afgreiða hana fyrir þinglok. Sú tillaga til þingsályktunar sem ég mæli hér fyrir er því endurflutt tillaga sama heitis frá síðasta löggjafarþingi, þingskjal 1405, 802. mál. Taka ber þó fram að í þeirri tillögu til þingsályktunar sem ég mæli fyrir hefur verið tekið tillit til ábendinga frá umsagnaraðilum eins og kostur er. Hefur þingskjalið því tekið nokkrum breytingum og verið uppfært. Helsta efnislega breytingin er sú að á grundvelli nýjustu gagna er lagt til að markmið um hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi árið 2030 verði hækkað frá því sem var í fyrri útgáfu, úr 30% í 40%. Önnur yfirmarkmið í tillögunni eru óbreytt frá því sem kynnt var á 145. löggjafarþingi.

Hæstv. forseti. Í megindráttum snýst sú tillaga til þingsályktunar sem ég hér mæli fyrir um markmiðasetningu og aðgerðaáætlun. Markmiðasetning tekur mið af spá orkuspárnefndar Orkustofnunar og möguleikum stjórnvalda til að beita hagrænum hvötum til orkuskipta. Lagt er til að stefnt verði að 40% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi árið 2030 og 10% hlutdeild í haftengdri starfsemi. Markmið þessi eru raunhæf en krefjandi. Ljóst er af niðurstöðum spálíkana að þessum árangri verður ekki hægt að ná nema með aðkomu stjórnvalda þar sem spár sem gera ráð fyrir óbreyttu ástandi skila okkur 27% hlutdeild árið 2030 fyrir samgöngur á landi og enn við núllið fyrir haftengda starfsemi.

Í tillögunni er lagðar til aðgerðir á nýjum sviðum orkuskipta sem hingað til hafa ekki verið í forgrunni, þ.e. á hafi og í flugi, auk þess sem áfram eru lagðar til aðgerðir fyrir samgöngur á landi. Aukin áhersla er á uppbyggingu innviða og mikilvægi dreifikerfis raforku sem er ein af forsendum fyrir orkuskiptum, enda hefur það sýnt sig að nauðsynlegir innviðir þurfa að vera til staðar til að mæta aukinni notkun endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. í tengslum við aukna rafbílavæðingu og raforkunotkun í höfnum.

Ég vil sérstaklega koma inn á það að ég tel brýnt að gefinn verði meiri gaumur að samhengi orkuskipta og nauðsynlegri uppbyggingu á flutnings- og dreifikerfi raforku. Umræða síðustu ára um uppbyggingarþörf flutnings- og dreifikerfis raforku á það til að snúast um of um stóriðju og möguleg stóriðjuáform. Það er að mínu mati mikil einföldun á staðreyndum. Aukið afhendingaröryggi raforku snýr að stærstum hluta að heimilum og smærri fyrirtækjum, að jöfnun búsetuskilyrða, jöfnun atvinnutækifæra og jöfnun möguleika til orkuskipta á landsvísu. Án fullnægjandi flutnings- og dreifikerfis raforku er þannig tómt mál að tala um áform um orkuskipti á landsvísu. Við verðum því að horfa á þessi mál í samhengi og nálgast þau með ábyrgum hætti til lengri tíma af yfirvegun.

Í þingsályktunartillögunni er lögð fram aðgerðaáætlun um orkuskipti til næstu ára. Gert er ráð fyrir að áætlunin verði endurskoðuð á fimm ára fresti og uppfærð eftir því sem ástæða er til á hverjum tíma. Sjálf aðgerðaáætlunin er í 23 liðum sem eiga að stuðla að því að framangreind markmið náist. Aðgerðirnar flokkast í þrjá meginflokka. Númer eitt eru grænir hvatar, annars vegar innviðir og stefnumótun, svo og reglugerðir og rannsóknir. Aðgerðirnar skiptast síðan á samgöngur á landi, hafi og í lofti. Of langt mál er hér að telja upp allar aðgerðirnar í þingskjalinu.

Í tillögunni er komið inn á að stjórnvöld hafi í lok síðasta árs úthlutað styrkjum til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla. 16 verkefni hlutu styrk, samtals að fjárhæð 201 millj. kr., og munu í kjölfarið yfir 100 hleðslustöðvar fyrir rafbíla verða reistar um allt land á næstu þremur árum. Þessir styrkir til innviða senda sterk skilaboð um að hafin sé stórfelld og markviss uppbygging innviða fyrir rafbíla sem mun m.a. auka til muna möguleika á ferðum út fyrir höfuðborgarsvæðið. Í tillögunni er lagt til að starfshópur leggi til almennar aðgerðir sem stuðli að uppbyggingu innviða fyrir vistvænar bifreiðar við heimili og vinnustaði. Þá er lagt til að skoðað verði hvernig hægt sé að auka notkun skipa á raforku í höfnum, bjóða upp á raftengla fyrir langtímastæði við flugvelli og landtengingu flugvéla. Þörf er á því að auka upplýsingagjöf til almennings um bifreiðar, innviði og eldsneyti. Bent er á nauðsyn þess að innviðir verði til staðar fyrir vistvænar bifreiðar á ferðamannastöðum. Þá eru tillögur um samgöngustefnu, vistvæn innkaup og alþjóðlegar mengunarreglur á hafsvæðum.

Eins og áður segir var þessi tillaga til þingsályktunar unnin í samstarfi við Grænu orkuna, samstarfsvettvang um orkuskipti, auk samráðs við fjölda hagsmunaaðila. Græna orkan er samstarfsvettvangur hins opinbera ásamt aðilum úr atvinnulífinu sem tengjast orkuskiptum. Þar eiga sæti fulltrúar fjögurra ráðuneyta, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innanríkisráðuneytis. Fyrir hönd atvinnulífsins eru fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Landsvirkjun, Bílgreinasambandinu og Mannviti.

Hæstv. forseti. Þingsályktunartillaga þessi felur í sér hvatningu og aðgerðir til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, flýta fyrir þróun orkuskipta eins og kostur er en einnig að höggva á hnúta ef hindranir eru í vegi með auknu samstarfi og samvinnu þvert á ráðuneyti. Það er von mín að tillögur þær sem lagðar eru fram í þingskjalinu muni stuðla að áframhaldandi öflugu starfi á sviði orkuskipta og styðji þannig þau metnaðarfullu markmið sem stjórnvöld hafa sett sér á þessu sviði, samfélagi og umhverfi til heilla.

Að því sögðu legg ég til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar.



[15:46]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með framkomna tillögu, þ.e. að hún sé lögð fram, og þá áherslu sem hæstv. ráðherra leggur á þessi mál með því að koma svo snemma fram með þetta mál eins og hún kom vel að í sínu máli. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í einhver atriði í þessu. Ég mun svo kannski koma inn á fleira í ræðu minni hér á eftir. En fyrst ég hef tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra beint langar mig að spyrja, því hér segir varðandi innviði að stefnt skuli að því að raftengingar sem fullnægja raforkuþörf til almennrar starfsemi skipa í höfnum verði aðgengilegar fyrir 2025, hversu langt það verkefni er komið og hversu mikið það er unnið í samvinnu við þá aðila sem sjá um raforkukerfið, Landsnet. Það er ekkert launungarmál að það að leggja línur hefur ekki reynst einfalt. Oftar en ekki endað fyrir dómstólum.

Hæstv. ráðherra talaði um að það þyrfti að setja sér metnaðarfull markmið en þó raunhæf. Kannski er það ósanngjarnt að biðja hæstv. ráðherra um svo viðamikið svar sem mig þó langar að reyna, en ég spyr hvernig þessi stefna rími við aðrar stefnur sem eru annaðhvort við lýði eða þá í farvatninu, hvort það hafi verið horft heildstætt á þetta í tengslum við rammaáætlun, í tengslum við kerfisáætlun Landsnets. Ég mun vonandi sem fyrst eiga orðastað við ráðherra um pólitíska stefnumótun þegar kemur að línumálum. (Forseti hringir.) Hvernig rímar þetta allt saman og hefur þetta verið lesið saman?



[15:49]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Ég byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það er rétt hjá honum, þetta eru stórar spurningar, en svarið er svona í fulleinfaldri mynd: Já, á þetta hefur verið horft saman. Það er hins vegar alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það hefur ekki verið auðvelt mál að koma þessari vinnu áfram. Ég sé ekki fram á að það muni endilega breytast í náinni framtíð. Það er samt verkefni, m.a. okkar verkefni hér, að ná að taka utan um þetta mál og sýna fram á mikilvægi þess á sama tíma og við berum virðingu fyrir þeim áhyggjum sem fólk kann að hafa í þessum efnum.

Þetta hefur líka verið unnið með öðrum ráðuneytum eins og ég kom inn á, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu m.a. og fjármálaráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu sem fer með samgöngumálin. Svarið er í stuttu máli: Já.



[15:50]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mikill aðdáandi stuttra og hnitmiðaðra svara. Það einfaldar oft málin. Fyrst langar mig í seinna andsvari mínu að koma inn á það að hæstv. ráðherra leggur til að þessu máli verði vísað til atvinnuveganefndar. Sjálfur tel ég að þetta sé mál sem eigi allt eins heima á borði umhverfis- og samgöngunefndar og velti því upp, án þess að ég ætli að gera stórkostlegan ágreining um það eða veður yfir því eins og stundum hefur verið gert hér í þingsal, hvort hægt væri að vísa þessu til nefndanna beggja eða í það minnsta búa svo um hnútana að haft verði mikið og gott samstarf þar á milli. Það held ég að myndi hjálpa málinu áfram. Þetta er svo víðfeðmt, eins og hæstv. ráðherra kom sjálfur inn á, og snertir svo margar stefnur og mál sem eru á borði hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að lokum í andsvari mínu út í hagræna hvata sem koma fram á bls. 2 í greinargerðinni. Þar segir í fyrsta efnislið, með leyfi forseta:

„Gjaldtaka í samgöngum verði endurskoðuð þannig að hún tryggi ríkissjóði nægar skatttekjur til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja.“

Hvað er átt við? Er hér verið að boða frekari vegtolla eins og hæstv. samgöngumálaráðherra hefur að ég hygg látið hefja þegar vinnu við að skoða eða í það minnsta boðað það? Hvernig tengist þetta, að tryggja nægar skatttekjur til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja, hagrænum hvötum í orkuskiptum?



[15:52]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Já, takk. Fyrst örstutt um nefndina. Málið hefur áður verið sent til atvinnuveganefndar. Atvinnuveganefnd getur auðvitað óskað eftir umsögn frá umhverfis- og samgöngunefnd. Ég vil bara segja almennt og auðvitað í þessu máli að þetta kallar á samvinnu beggja nefnda. Ég vona að menn vinni málið þannig. Þetta er síðan partur af loftslagsverkefninu, þannig er tenging líka í umhverfisráðuneytið og umhverfisnefnd sömuleiðis.

Skattheimtan er ekki hluti af vegtollaumræðunni heldur snýr þetta að því að við erum auðvitað með hvata í dag, þeir sem kaupa t.d. rafknúinn bíl greiða ekki sömu gjöld og þeir sem keyra á bensínbílum. Það þýðir að ef við ætlum að fjölga rosalega rafbílum greiða færri og færri hin gjöldin sem við nýtum til að byggja upp vegakerfið. Þess vegna kallar þetta á að við endurskoðum þá heildarmynd. Sú vinna er í gangi í fjármálaráðuneytinu. Þetta skýrist af því. Ef við boðum breytingar á myndinni og mögulega breyttan veruleika þurfum við líka að endurskoða alla gjaldtöku til að geta haldið áfram að byggja upp vegi.



[15:54]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir að flytja þessa tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti. Ég hugsa að þannig sé farið með okkur öll hér inni að okkur finnist það vera fögur framtíðarsýn að breyta úr dísli og bensíni í rafmagn, t.d. í bílaflotanum, svo ekki sé talað um skipaflotann, sem er stærra mál og flóknara.

En þetta góða mál er líka háð því að við getum flutt rafmagnið og átt nóg rafmagn til að taka við þeim orkuskiptum sem við reiknum með að þurfi í landinu, á allan bílaflotann. Það eru líka miklu stærri mál sem snúa að höfnum landsins þar sem bátarnir liggja við bryggju og vantar rafmagn. Það háttar svo til víða um landið, sérstaklega á Norðurlandi, Norðausturlandi og Austurlandi að þangað er ekki hægt að flytja meira rafmagn til þess að tengja við hafnir, við fiskimjölsverksmiðjur sem keyrðar eru áfram á olíu. Núna eru þær allar að bræða loðnu og flestar þeirra keyrðar með olíu því að ekki er nógu mikill burður í flutningnum til að flytja rafmagn til þeirra. Þessi fallega sýn, sem ég held að við öll hér inni getum verið sammála um að þetta sé, byggir á því að við séum tilbúin til að búa til það rafmagn sem þarf til þess að mæta þeim hugsjónum og hugmyndum sem fram koma í þessari þingsályktunartillögu. Og ef við viljum framleiða rafmagnið þurfum við að geta flutt það. En við erum alltaf að lenda í því aftur og aftur að í samfélagi okkar vilja allir hafa nóg af rafmagni en næstum ekki nokkur vill að það sé framleitt, hvað þá að það sé flutt. Það hefur alls konar áhrif á umhverfi okkar. Ef við ætlum að rafkeyra alla bíla landsins þarf að setja upp stöðvar hringinn í kringum landið. Þá þarf að flytja það aukna rafmagn sem þarf til þess með burðugra flutningskerfi. Það er auðvitað önnur umræða en hún fylgir einhvern veginn algerlega hinni hugmyndinni.

Þess vegna er gott sem kom fram hjá hæstv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé að auðvitað varðar þetta mál líka umhverfis- og samgöngunefnd. Ég tek heils hugar undir það. Ég held að við þurfum alltaf í svona stórum málum að ná breiðri samstöðu. Ég held að það sé alveg sjálfsagt að atvinnuveganefnd leiti umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli og að við vinnum þetta sem best saman, þingmenn allra nefnda og allra flokka.

Mig langar líka að minnast á örfáa punkta sem ég hef meiri innsýn í en aðrir. Minnst er á að almenningssamgöngur geti komið hérna inn. Ég heyrði fréttir af því um daginn að Reykjavíkurborg hefði verið að kaupa níu rafmagnsstrætisvagna. Það er framför. Algerlega. Við erum á réttri leið þar. Eins og staðan er held ég að við munum setja rafmagnsvagna á allar styttri leiðir. Minnst er á það í þessu frumvarpi, t.d. leiðina milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Það er mjög þarft og gott mál og auðvitað styðjum við það heils hugar.

Síðan er talað um orkusparnað í hafi. Þá er komið inn á fiskiskipaflotann og veiðar og veiðarfæri. Það er orðið miklu flóknara og stærra mál. Við sem þekkjum aðeins til í því vitum að á undanförnum árum hefur það gerst að bæði búnaður veiðarfæra, tóg, ofurtóg og annað slíkt, er orðinn miklu léttari og sterkari en vírinn er nokkru sinni. En á móti kemur að skipin eru orðin langtum stærri og veiðarfærin langtum meiri um sig. Á stærstu flottrollum er opnun á veiðitrolli á við marga fótboltavelli. Það eru risaverkfæri. Þegar menn draga þau eftir kolmunna þarf mikið vélarafl. Það þarf gríðarlegt afl til að draga þessi miklu troll og þessa risahlera sem halda þeim opnum. Á sama tíma og menn auka afköst veiðiskipanna þyngjast veiðarfærin og þótt vélarnar séu orðnar hæfari og betri í því að nýta orkuna kallar það allt á mikla orku. En að sjálfsögðu þurfum við að skoða hvernig við getum haldið áfram að minnka orkunotkun á hvert kíló af veiddum fiski sem við komum að landi. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Hér er verið að tala um leiðir til þess að fara þá leið. Þótt hún sé flóknari en varðandi bílana megum við ekki gefast upp. Við verðum að halda áfram og sjá hvort við náum ekki einhverjum árangri í því. En ég held að við eigum ekki að tala um einhver boð og bönn eða segja til um hvaða veiðarfæri eigi að nota. Lína og net og slík veiðarfæri kalla á miklu minni orku til sjós. Það vitum við allir. Í vondum veðrum eyðist líka meiri orka á sjó við að draga troll eða net. Þannig er það nú. Náttúran spilar líka inn í þetta með okkur.

En ég þakka fyrir þetta frumvarp. Það kom að vísu fram á síðasta þingi, ég man ekki hvort það var bara kynnt eða lagt fram, en nú er það komið hér fram og til umræðu, samfélagi og umhverfi til heilla, eins og ráðherrann sagði svo ágætlega. Ég held að við séum akkúrat öll þar. Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni í atvinnuveganefnd og mun sjá til þess að við höfum samráð um verkefnið við umhverfis- og samgöngunefnd.



[16:01]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ítreka ánægju mína með að þetta mál skuli koma snemma hingað inn frá hæstv. ráðherra. Ég get ekki annað en lýst ánægju minni með orð hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar um góða samvinnu og að finna samvinnuvettvang á milli atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar. Að einhverju leyti er Ásmundur Friðriksson sjálfur sá samvinnuvettvangur, sitjandi í báðum nefndum. Ég treysti því að hann tali fyrir hagsmunum okkar umhverfisverndarmanna og treysti honum vel til þess innan atvinnuveganefndar. Einnig gat ég ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að þar á bæ væri líka ánægja með þá hugmynd.

Þetta er víðfeðmt plagg. Annað væri nú. Það er ansi margt hér undir, orkuskipti í samgöngum. Líkt og hæstv. ráðherra fór yfir byggir þetta á plaggi sem var lagt fram á síðasta þingi. Hér er mikið vitnað í skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðherra um orkuskipti í samgöngum sem lögð var fram á þinginu 2014–2015. Ég hefði kosið að í þessu plaggi væri meira um að búið væri að uppfæra tölur. Mér sýnist að á mörgum stöðum sé vísað til umræddrar skýrslu þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá þinginu 2014–2015. Þó er aðeins búið að uppfæra tölur eins og varðandi hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum. Ég hefði haldið að það ætti að vera þannig að við gætum bara fengið án mikilla vandkvæða tölur yfir hvernig skiptingin væri núna á milli ýmissa flokka og fleira.

Ég kom aðeins inn á það í andsvari mínu hér áðan hvort þetta væru raunhæf markmið, hvort það væri gerlegt að koma upp raftengingum fyrir skip svo dæmi sé tekið fyrir þennan tíma. Ég vona að þau markmið sem hér eru sett náist. Mér hefur af og til á undanförnum árum í umræðum um umhverfismál, eins og ég tel þetta fyrst og fremst vera, þótt að það skorti á að við tengjum samþykktir í þeim efnum við samþykktir á öðrum sviðum. Þannig tali ekki alltaf saman það sem við ætlum að gera þegar kemur að umhverfismálum við það sem við gerum á öðrum sviðum.

Hér er t.d. farið yfir það í greinargerðinni að orkuskipti þar sem jarðefnaeldsneyti er skipt út fyrir raforku auki aflþörf í raforkukerfinu. Hér er vissulega ekki verið að leggja til að jarðefnaeldsneyti sé algerlega skipt út fyrir raforku en í greinargerðinni má þó finna athyglisverðar tölur um aflþörfina. Ég vitna í þetta, með leyfi forseta:

„Verði allar samgöngur á landi, þar með talið bifreiðar á vegum ferðaþjónustunnar rafknúnar sem og fiskimjölsverksmiðjur, iðnaður og hafnir er aflþörfin að hámarki 880 MW og sparnaður í losun CO2 1.411.700 t/ári. Nauðsynlegt er að huga að styrkingu flutnings- og dreifikerfisins svo hægt verði að koma til móts við komandi orkuskipti á landi. Þá þarf einnig að vera til staðar nægjanlegt raforkuframboð til að mæta eftirspurninni.“

Hér finnst mér eins og sé í framhjáhlaupi komið inn á þá tvo þætti sem helst gætu kannski valdið því að tímasett markmið í þessum efnum náist illa, þ.e. orkan sjálf, þ.e. orkuöflunin, og hins vegar dreifing hennar.

Ég kom aðeins inn á það í andsvari mínu áðan að það skortir pólitíska stefnu um raforkudreifingu á Íslandi. Ég hef sent fyrirspurn um þau mál til hæstv. ráðherra. Staðreyndin er sú að samkvæmt raforkulögum frá árinu 2003 hefur ráðherra borið að leggja slíka stefnu fram á þingi á fjögurra ára fresti. Það hefur aldrei verið gert. Í dag er þetta allt of mikið í höndum þess fyrirtækis sem um þetta vélar, sem stendur þannig í fararbroddi fyrir því hvernig eigi að dreifa orkunni, auðlindinni okkar, án þess að fyrir liggi pólitískur vilji stjórnvalda. Öfugt við það sem við þekkjum frá Norðurlöndunum þar sem eru einfaldlega bara samþykktar stefnur þar um.

Í þessari tillögu til þingsályktunar og greinargerðinni sem fylgir eru gríðarlega margir jákvæðir punktar. En ég óttast, eins og ég kom inn á, að það eigi eftir að koma þessari hugsun sem hér er, þeim breytingum sem þarf að gera til að þetta verði að veruleika, alls staðar inn í þær ákvarðanir sem við tökum sem tengjast þessu þegar kemur að orkuöflun og raflínum, svo dæmi sé tekið.

Hér er minnst á rafbíla og bíla sem taka, ef ég man rétt, yfir 20 farþega og kveðið sérstaklega á um afslátt. Hér er þetta, með leyfi forseta:

„Skoðað verði að endurgreiða virðisaukaskatt fyrir hreinorkubifreiðar með fleiri en 22 farþega.“

Þetta er vel. Eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á eru menn þegar að stíga tilraunaskref í þeim efnum. En ég sakna þess aðeins í þessu og held að plaggið hefði orðið töluvert betra ef við hefðum talað um fyrirbæri eins og borgarlínuna líka. Það eru ákveðin orkuskipti í samgöngum að færa stóran hluta umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu yfir í rafknúna vagna eða lestir. Svo við áttum okkur aðeins á tölunum sem við erum að eiga við hér á höfuðborgarsvæðinu: Ef fjölgunin verður eins og spáð er fram að árinu 2040 gætu breyttar ferðavenjur með borgarlínunni þýtt minni útblástur upp á 100 þús. tonn af CO2-ígildum. Svo það sé sett í samhengi var útblástur CO2-ígilda árið 2014 á öllu höfuðborgarsvæðinu 373 þús. tonn.

Í þá átt að ná því markmiði sem hér eru sett varðandi orkuskipti í samgöngum, sem er m.a. að minnka útblástur, ætti borgarlína að vera hér mjög framarlega og vera, miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan, forgangsverkefni að styðja hana.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar við andsvörum mínum áðan. Hún útskýrði ýmislegt fyrir mér sem ég þurfti að fá nánari skilgreiningar á. En ég ætla bara í lokin að brýna okkur til þess, bæði hæstv. ráðherra og okkur hv. þingmenn, að taka svona plagg alvarlega. Hér er talað um að raforkuinnviðir verði til staðar fyrir notkun fiskimjölsverksmiðja, eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á áðan. Það er umtalsvert verkefni að koma upp slíkri tengingu. Þótt við horfum oft á okkur eins og við séum hreinasta og besta land í heimi sem eigum hvað mest af orku er staðreyndin sú að það er víða orkuskortur og ekki alveg ljóst hvernig við ætlum að framleiða orkuna. Um það er deilt. En markmiðin í þessu eru góð. Sum þeirra mættu vera enn róttækari. Hér er t.d. sagt að 20% bifreiða í eigu opinberra aðila eigi að verða vistvæn fyrir (Forseti hringir.) 2020. Stjórnvöld hafa algerlega í hendi sér að setja það markmið ofar og ganga á undan með skýru fordæmi. Best væri náttúrlega ef allir ráðherrabílarnir væru vistvænir á morgun.



[16:12]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með að þessi tillaga til þingsályktunar sé komin fram um að reyna að koma orkuskiptum í ákveðið horf sem er þá drifið áfram af ákvarðanatöku og ívilnunum af hálfu ríkisstjórnarinnar. En þó, þegar ég lít yfir hana, er ýmislegt sem slær mig og gerir eiginlega að verkum að ég lít svo á að þessi tillaga sé bara alls ekki nógu framsækin.

Máli mínu til stuðnings bendi ég á að í stefnuramma Evrópusambandsins, um orku- og loftslagsmál til ársins 2030, sem var settur fram 23. október 2014 er eitt af þremur meginmarkmiðum að ná fram 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við viðmiðunarárið 1990.

En á bls. 21 í greinargerð tillögunnar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun mun markmið um 40% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa valda því að notkun jarðefnaeldsneytis verður nálægt því sú sama og árið 1990 og losun gróðurhúsalofttegunda einnig.“

Það sem gengið er út frá í þessari tillögu er að við reynum að ná 40% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa, m.a. í samgöngum, fyrir árið 2030. Það mun skila okkur á þann stað þar sem við getum farið að byrja að vinna í áttina að því að ná fram þeim markmiðum sem voru sameiginlega lögð fram í stefnuramma Evrópusambandsins. Það er eitt af þeim dæmum sem fær mig til að halda að þetta nái alls ekki nógu langt eins og þetta stendur. Í raun eru margar góðar tillögur þarna inni en við verðum líka að bera þetta saman við önnur lönd. Í Noregi hefur meðal annars verið rætt um að 100% af öllum nýjum bílum sem eru seldir keyri á endurnýjanlegri orku fyrir árið 2025. Það þætti mér framsækið, það þætti mér eftirsóknarverð nálgun.

Það er ýmislegt sem styður þá notkun. Í dag eru að vísu ekki margar bifreiðategundir sem keyra á rafmagni en ljóst er að orkuþéttleiki í rafhlöðum er að aukast mjög hratt. Það gefur okkur ákveðna von. Samhliða því eru fleiri bifreiðaframleiðendur að framleiða bíla sem ganga fyrir hreinni raforku. Að vísu skýtur svolítið skökku við að í tillögunni eru menn svolítið hallir undir metanbíla og jafnvel bíóetanólbíla og þess háttar sem ég held að á þessum tímapunkti sé óhætt að segja að hafi tapað í hugmyndastríðinu um hver skuli vera hinn endanlegi vistvæni orkugjafi. Það er kannski of snemmt að segja þetta en alla vega myndi ég segja að gagnvart bílum sé það tilfellið.

Sömuleiðis má tala um atriði sem varða raforkukostnað. Raforkuframleiðsla á Íslandi hefur lengi þótt mjög góð og ódýr. Mig minnir að gengið sé út frá því að heildsöluverð sé í kringum 36 kr. á megavattstund. Þetta var alveg rosalega lágt verð fyrir tíu árum en í dag er verið að setja upp sólarorkustöðvar víða um heim sem framleiða sólarorku fyrir í kringum 21 kr. á megavattstund. Það hreinlega þýðir að samhliða þessari aukningu á orkuþéttleika rafhlaðna mun raforkuframleiðsla vera að öllu óbreyttu algerlega ósamkeppnishæf innan tíu ára. Það hefur afleiðingar fyrir þá uppbyggingu í stóriðju sem stendur til og sömuleiðis þá stóriðju sem nú þegar er til staðar.

En ég held að við gætum litið á ýmis tækifæri samt sem áður. Í orkuskiptum felst rosalega mikill efnahagslegur ábati fyrir landið. Það er efnahagslegt atriði að vera ekki að eyða peningum í olíu. Það er óþarfi að fólk sé að kveikja í risaeðlusafa til að komast í vinnuna á morgnana. Við getum sparað okkur tugi milljarða á ári sem fara í að kaupa erlenda olíu með því að hraða þessum orkuskiptum. Sá peningur sem sparast mun að sjálfsögðu nýtast til að hliðra þeim kostnaði sem verður til við viðhald vega ef við höldum því til streitu að binda okkur við að einungis fyrstu 12.500 rafbílarnir hljóti ívilnun heldur bara halda því áfram þangað til 100% nýrra bíla eru orðnir rafmagnsbílar. Það væri, held ég, töluvert betra.

Að auki er annað sem mér þætti gott að kæmi fram í þessari tillögu og það er það að við eigum ekki bara að vera neytendur í þessum orkuskiptum, við eigum ekki bara að neyta þess sem kemur. Það eru ótal tækifæri fyrir nýsköpun. Ef ríkið setti fjármagn í að hvetja til tækniþróunar hérlendis, sem stuðlar með einhverju móti að orkuskiptum, er það atriði sem gæti raunverulega gert Ísland að leiðandi landi, bæði í notkun og framleiðslu og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum, umfram þann góða árangur sem hefur náðst, t.d. í jarðborunum á háhitasvæðum og þess háttar. Það er nefnilega fjölmargt sem raunverulega væri hægt að gera hér, einkum mætti tala um skip. Það að setja rafhlöður sem eiga til að vera pínu vatnsfælnar, hætt við að springa komist þær í tæri við vatn — ef við getum fundið örugga leið til að skipta út olíu í stórum skipum eða jafnvel litlum til að byrja með fyrir góðar rafhlöður er það eitthvað sem við getum verið leiðandi í. Sömuleiðis er fullt af tækifærum, held ég, í flugi.

Að lokum langar mig að víkja aðeins að Larsen C íshellunni sem er á Suðurskautslandi. Árið 2016 myndaðist í henni 131 kílómetra löng sprunga sem er, eftir því sem ég best veit, um 100 metra breið og 500 metra djúp í augnablikinu. Það eru aðeins um 20 kílómetrar eftir ósprungnir áður en íshellan hreinlega losnar frá. Gengið er út frá því að hún muni losna frá Suðurskautslandi á þessu ári. Þegar það gerist mun að öllum líkindum verða til 5 þús. ferkílómetra borgarísjaki sem fer út í sjó og mun væntanlega bráðna þar og getur leitt til allt að 10 sentímetra hækkunar á sjávarmáli jarðar að meðaltali. Þetta er ekki stærsti ísjaki sem hefur myndast enda var sá sem ég held að kallist B2 um 11 þús. ferkílómetrar og hann brotnaði frá Ross-íshellunni árið 2000. Þeir eru ansi margir og þeim hefur farið fjölgandi, þessum stóru íshellum sem eru að losna frá. Þetta er stórhættulegt. Þetta er eitthvað sem getur hleypt umhverfi heimsins í slíka óreiðu að við höfum aldrei séð annað eins áður. Á meðan ég tala um tækifæri og efnahagsleg áhrif þess að flytja ekki inn risaeðlusafa í auknum mæli, eða halda því ekki áfram — og við ættum sannarlega að líta til þeirra hagsmuna sem þjóðin hefur af því að hætta að brenna olíu og af því að þróa tækni sem getur komið í stað hennar og nýta orkuna sem við eigum þó til betur og reyna að stuðla að enn ódýrari orkuframleiðslu — held ég að stærsta atriðið í þessum orkuskiptum, og ástæðan fyrir því að við þurfum að spýta töluvert meira í en er í þessari annars ágætu tillögu, sé það að umhverfi jarðar þolir ekki lengur við. Við erum á hættutímum. Við erum á hættutímum sem eru ekki bara mælanlegir í koltvísýringsmagni í umhverfinu heldur í 5 þús. ferkílómetra borgarísjaka sem er um það bil að fara að renna út í sjó.

Ef þetta er ekki tíminn til að grípa til stórvægilegra aðgerða, töluvert stórvægilegri en eru í þessum annars ágætu fyrirmælum og hugmyndum um orkuskipti, þá veit ég ekki hvað. Þetta er tíminn. Við verðum að gera þetta. Núna.



[16:21]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætisþingsályktunartillögu, sem er jákvætt skref í þeim leiðangri sem við erum neydd til þess að halda í. Kannski kem ég inn á einstaka þætti þingsályktunartillögunnar og ræði þá.

Mig langar samt að nota tækifærið til þess að koma inn á það sem vantar í umræðuna og baráttuna í loftslagsmálum. Ég átta mig á því að þeir hlutir eiga ekki endilega heima hér inni, en af því að í málaskrá ríkisstjórnarinnar og umhverfisráðherra er ekkert rætt um að leggja slíkt fram tel ég nauðsynlegt að við förum aðeins út í það og líka vegna þess að bíllinn sem fyrirbæri er nokkuð „sentral“ í þeirri umræðu sem hér er undir. Þá tel ég líka skipta máli að koma inn á þessa þætti, sem ég ætla að gera.

Bíllinn er ein af afdrifaríkustu uppfinningum 20. aldarinnar. Hluti af vandamálinu varðandi bílinn er að sjálfsögðu hvernig hann er drifinn áfram, þ.e. að hann hefur verið drifinn áfram af jarðefnaeldsneyti. Það er nauðsynlegt að bregðast við því með því að skipta yfir í vistvæna orkugjafa. Hins vegar er bíllinn sem fyrirbrigði í sjálfu sér afdrifaríkur alveg óháð því hvernig hann er knúinn. Þar er ég að tala fyrst og fremst um hreyfanleika hans. Það er hreyfanleiki bílsins sem hefur gert það að verkum að borgirnar okkar og þéttbýlið hefur þróast frá hugmyndinni um það sem við getum kallað evrópska líkanið sem var blönduð, þétt, lágreist byggð, sem var byggð í kringum manninn, gangandi, þar sem fólk bjó á efri hæðum og vann á neðri hæðum og sótti svo þjónustu í göngufæri eða með almenningssamgöngum í næsta nágrenni, yfir í það að við færðum okkur og fórum að byggja eftir hinu ameríska líkani bílaborgarinnar sem byggir á allt öðrum prinsippum, nefnilega flokkun og aðgreiningu.

Hvað á ég við með því? Hreyfanleiki bílsins gerir okkur kleift að búa víðs fjarri vinnu, sækja afþreyingu á þriðja staðinn og versla á fjórða staðnum. Með öðrum orðum höfum við teygt á öllu því byggðaumhverfi langt umfram það sem getur nokkurn tímann orðið sjálfbært.

Eins göfugt og það er að skipta yfir í vistvænna eldsneyti án þess að gera nokkuð annað þá gerum við ekki neitt annað með því en að taka á sjúkdómseinkennunum en ráðast ekki gegn sjúkdómnum sjálfum. Þessari þingsályktunartillögu þarf að fylgja aðgerð á öðrum sviðum sem er miklu víðtækari og tekur á öllum innviðum og hinu byggða umhverfi.

Almennt er álitið í dag að um 30%, 40% af allri kolefnislosun sé vegna mannvirkjagerðar. Flestir sérfræðingar eru sammála um að við náum mestum árangri með því að minnka óþarfauppbyggingu. Við þurfum ekki aðeins að byggja smærra og hagkvæmar, við þurfum líka að byggja og búa nær hvert öðru, vegna þess að stytting vegalengda hefur gríðarlega mikið að segja.

Ég teldi að þingsályktunartillögunni þyrftu að fylgja miklu stærri og framsæknari markmið um að gera byggðaumhverfið sjálfbærara. Sem dæmi um að menn eru farnir að átta sig á því, ég held að ég hafi lesið það einhvers staðar, er að 50% af þeim markmiðum sem Reykjavíkurborg ætlar að ná í loftslagsmálum sínum eru beinlínis vegna þéttingar byggðarinnar.

Ég beini því til hæstv. ráðherra að taka þetta upp á ríkisstjórnarfundum og hvet hæstv. umhverfisráðherra til þess að koma fram með tillögu og aðgerðir eða kalla saman hóp sem hvetur okkur til þess að taka á málunum þar sem þörfin er mest. Það verður ekki bara allt í lagi ef bílarnir verða knúnir áfram af einhverju öðru og við höldum áfram að teygja á byggðinni og byggja samgöngumannvirki langt umfram það sem þörf er á. Það kallar bara á annars konar vandamál. Hér eru notaðar tugþúsundir tonna af stáli að óþörfu.

Orkusóun er svo annað. Hér höfum við byggt byggingar í marga áratugi með beinlínis röngum byggingaraðferðum. Afleiðingu þess þekkjum við. Við þekkjum mygluumræðuna. Hún á rót í því að við höfum byggt á vitlausan hátt. Við höfum verið að byggja steinsteyptan vegg of lítið einangraðan að innan, sem krefst þess svo að fólk sem býr í húsunum verður að umgangast það á tiltekinn hátt til þess að koma í veg fyrir vandamál. Orkusóun í íbúðum er alveg gríðarlega mikil.

Þetta snýst ekki bara um orkuskipti, þetta snýst líka um orkusóun og að minnka hana. Töfraorðin eru í rauninni bara þrjú: Það er að byggja betra, byggja minna og nota minna.

Í þingsályktunartillögunni er talað um almenningssamgöngur. Það er rétt og gott sem þar kemur fram um nauðsyn og ávinning þeirra, en það er hins vegar ekki talað um hvað það er sem veldur því að almenningssamgöngur geta orðið fýsilegur kostur. Það þekkja það allir, og það eru í rauninni góðu fréttirnar að þetta eru vandamál sem allar borgir í kringum okkur glíma við, þannig að það eru svo margir staðir og margir sem við getum lært af. Töfraorðið er byggð sem er gerð þannig að hún er með góðu gönguhæfi, hún er þétt; hún unir góðum almenningssamgöngum. En byggð sem er að þróast, eins og höfuðborgarsvæðið, þar sem þéttni og fjöldi íbúða á hvern hektara er alltaf að verða minni og minni, leiðir bara til þess að almenningssamgöngur verða alltaf hálfgerð tálsýn, kostnaðarsamar, tafsamar og óaðgengilegar. Það er engin hvatning í því að hætta að nota einkabílinn.

Við gerum þetta ekki á einu bretti. Við getum ekki reist einhverjar hindranir og við getum ekki komið í veg fyrir að fólk noti einkabílinn. Í sumum tilfellum er það beinlínis nauðsynlegt. En við eigum að fara að byggja upp þannig að fólk vilji nota hann vegna þess að það sé betri kostur. Það er alveg ótrúlega margt merkilegt sem gerst hefur í þessum málum á síðustu árum. En við erum enn aftarlega á merinni vegna þess að við ætlum að aðlaga okkur að þeim ósjálfbæru aðstæðum sem við höfum komið okkur upp og reyna svo aðeins að slá á sjúkdómseinkennin. En við eigum að ráðast að rót vandans.



[16:31]
Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans um þetta mikilvæga mál og margt áhugavert kom fram máli hans. Því er sannarlega ekki að neita að mikilvægur eiginleiki bílsins er einmitt hreyfanleiki hans. En það er annað sem ég vildi spyrja þingmanninn um. Það snýr að því, ef ég skil svona í meginatriðum það sem hann sagði um efni þingsályktunartillögunnar, að hann sé sammála þeim markmiðum sem þar koma fram, hvort hann sé ekki líka sammála því samhengi sem þarf að fylgja að orkuframleiðsla í landinu verði til samræmis við þessa áætlun og hvort ekki sé mikilvægt í allri umfjöllun um annað mál, sem er rammaáætlun og þess háttar, um nýtingu endurnýjanlegrar orku og vatnsaflsvirkjana, að tekið sé sérstaklega mið af þeim efnisatriðum sem fram koma í þessari þingsályktunartillögu.



[16:33]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er ágætt að fá þetta andsvar vegna þess að það getur vel verið að ég hafi hljómað eins og ég væri mjög neikvæður gagnvart þessu plaggi. Það er ég ekki. Mér finnst þetta í rauninni vera gott skref og ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir að koma svona snemma fram með þetta þannig að hægt verði að vinna með þetta. Ég vildi nota tækifærið í byrjun til að lýsa því yfir að við þurfum hins vegar að taka á þessu á mun breiðari grundvelli. Spurningin aftur?



[16:33]
Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Spurning mín til hv. þingmanns er þessi hvort ekki þurfi að fylgja með í samhengi hlutanna, það að nýta endurnýjanlega orkugjafa til að mynda rafmagn, hvort ekki þurfi að fylgja með í allri orkuframleiðslu og áætlunum um nýtingu vatnsaflsvirkjana sem eru hér í landinu að horft sé m.a. til þessa máls sem hér um ræðir.



[16:34]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég tel að nauðsynlegt sé að gera það. Ég hef verið talsmaður þess að við séum býsna djörf þegar kemur að því að búa okkar til orku, þannig að við getum staðið undir þessum markmiðum. Við þurfum hins vegar auðvitað að fara eitthvert meðalhóf í því. En ég tel afdráttarlaust að í því felist að vera maður og byggja upp menningu að nýta náttúruna á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Ég held absalútt að vistvæn raforkuframleiðsla sé liður í því.



[16:35]
Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Skýrsla var unnin í umhverfisráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur og birt árið 2009 undir heitinu Möguleikar til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Til að stuðla að samdrætti í útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá fiskveiðum er takmarkið að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á aflaeiningu, það er að ná sama magni fisks úr sjó með minni tilkostnaði og minna útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Helstu þættir sem koma til greina til að draga úr útstreymi má flokka í þrjá flokka: eldsneytissparnaður, loftslagsvænni orkugjafar, aukin notkun landrafmagns.“

Því má segja að heldur mikil áhersla sé lögð á loftslagsvænni orkugjafa og aukna notkun landrafmagns í orkuskiptaáætlun. Þó að þessir þættir séu vissulega til staðar eru þeir einungis lítill hundraðshluti af vandamálinu eins og það er sett fram í orkuskiptaáætlun.

Í lið B.5 er talað um að athuga hvort einhverjar hindranir komi í veg fyrir notkun raforku í höfnum. Það er áhugaverð athugasemd, en hægt er að svara þeirri spurningu einfaldlega þannig: En flutningskostnaður raforku í höfnum er með því hæsta sem gerist á Íslandi. Það væri gott skref í átt að þessu markmiði að lækka kostnað á raforku í höfnum.

Í lið C.5 er talað um fulla innleiðingu MARPOL-samningsins er varðar brennslu svartolíu í höfnum. Ég fagna þeim lið gífurlega, enda er þetta gott og gilt mál þegar við höfum í huga fjölgun skemmtiferðaskipa í höfnum Íslands.

Það sem þó vantar í flutning málsins eru haldbærar lausnir í losun koltvísýrings á hafi úti. Talað er um að árið 2030 verði raforkuvélar, þ.e. vélar sem ganga einungis fyrir raforku, 2% af heildarnotkun fiskiskipaflotans í stað jarðefnaeldsneytis.

Í sviðsmynd 3 er dregin upp mynd af því að auka losun gróðurhúsalofttegunda fram undir 2025. Burt séð frá því hvort koltvísýringurinn kemur úr lífdísli er hann samt losun. Ef það á raunverulega að ráðast að rót vandans þurfum við að temja okkur umhverfisvænni sóknarkosti. Einn besti valkosturinn við að fækka tonnafjölda brenndrar olíu miðað við tonnafjölda afla er að beita réttu verkfærunum á réttu miðin. Notkun togveiðarfæra þarf að dragast saman umtalsvert og veita þarf frekari heimildir til veiða í minni einingum. Eldsneytisnotkun við togveiðar er um 300 lítrar á tonn og 450 lítrar við notkun frystitogara. Notkun olíu við handfæraveiðar er til samanburðar hins vegar um 120 lítrar á sótt tonn.

Helstu hönnunarþættir sem hafa áhrif á orkunýtingu fiskiskipa eru t.d. heppilegir mótstöðueiginleikar skips; stærð og hönnun, þá sérstaklega stærð; nýtni og stærð aflvélar, þá sérstaklega stærð aflvélar; góð einangruð vistarvera og nýting á kælivatni og afgasi til upphitunar til framleiðslu á rafmagni.

Togveiðarfæri eru mjög stór stuðull í eldsneytisnotkun togara. Um 75% notkunar eldsneytisins fer fram við að toga. Það orsakast af aukinni mótstöðu þegar trollið er dregið eftir skipinu og af auknu álagi við að yfirvinna mótstöðuna. En eldsneytisnotkun togara við orkuframleiðslu við legu í höfnum er einungis 0,6%. Til samanburðar tek ég olíunotkun við handfæraveiðar, en hún er um 2 lítrar á klukkustund á meðan á veiðiskap stendur. Handfærabáturinn drepur á vélinni, lætur síðan strauma og vind um að færa sig til um veiðisvæðið. Hann færist einungis um nokkur hundruð metra í einu og lætur sig síðan reka aftur, sem þýðir að vélin er kannski notuð í tvær til fimm mínútur á hverri klukkustund við veiðar.

Því sakna ég hvata í orkuskiptaáætlun til þess að fá meira fyrir minna, að minnka brennslu eldsneytis.

Píratar hafa lagt fram frumvarp um auknar strandveiðar og bið ég þingmenn að hafa losun gróðurhúsalofttegunda ofarlega í huga þegar sú umræða fer fram.



[16:40]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að fá að taka til máls í umræðu um þessa þingsályktunartillögu, sem mér þykir ákaflega mikilvægt að við séum að taka til umræðu hér svo snemma. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að mér fannst hv. ráðherra slá alveg nýjan tón þegar hún mælti fyrir máli sínu þar sem hún setti þetta verkefni okkar, orkuskipti, í annað samhengi en við höfum tamið okkur kannski að tala um til langs tíma. Hún setti það í það samhengi að til þess að við myndum ná raunverulegum framförum og geta gert öllum landsmönnum kleift að taka þátt í orkuskiptum og því stóra verkefni sem við viljum sannarlega öll ráðast í, þyrftum við að bæta verulega úr dreifikerfi rafmagns um landið.

Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að það er ekki öllum íbúum landsins í rauninni boðlegt eða bjóðandi að tileinka sér nýja orkugjafa, t.d. í samgöngum. Ég hugsa til íbúa á Vestfjörðum, ég hugsa til íbúa á Norðurlandi og Norðurlandi eystra og Norðurlandi öllu og víðar hér um land, að verði notkun t.d. rafknúinna ökutækja, rafmagnsbíla, almenn hér á landi í samgöngum þá er hugsanlega ekki mögulegt fyrir öll heimili landsins að hlaða bíla sína í óbreyttu ástandi. Fyrir gesti sem vilja sækja Norðlendinga eða Vestfirðinga heim og allir stinga bílum sínum í samband, þá er kannski ekki til raforkuflutningskerfi sem flytur orkuna til að hlaða bílana eins og við þyrftum að gera, nema að grípa mögulega til annarra úrræða eins og rafmagnsskömmtunar o.s.frv., sem ég er ekki að segja að sé dómsdagsspá, heldur vil ég vekja athygli á því að ákveðin vandamál eru hér undir. Ef við ætlum að ná þeim góðu áföngum sem við viljum ná þá þurfum við að hugsa um þessa hluti samhliða.

Þetta vildi ég segja að væri hinn nýi tónn sem ráðherra sló í umræðunni um orkuskiptin og fagna honum sérstaklega af því að þetta er raunverulegt vandamál sem við þurfum að takast á við, og er ekki vandamál morgundagsins heldur dagsins í dag.

Það má ýmislegt um tækifæri okkar til orkuskipta fjalla og nefni því til viðbótar, ekki bara takmarkað flutningskerfi, heldur fagna ég því hversu hátt hlutfall orku er endurnýjanlegt, segir í texta tillögunnar, um 70%. Það er náttúrlega mikið fagnaðarefni og setur okkur sem þjóð alveg á einstakan stað. Auðvitað á líka að vera hluti af þessu máli umræða um hvernig við getum sparað orku og nýtt orkuna betur sem við erum nú þegar að framleiða, og hvernig við notum raforkuna. Kannski er einhver handhægasta eða raunhæfasti virkjunarkostur okkar hér um stundir að setja upp varmadælur og varmadælukerfi við þau hús sem eru kynt með rafmagni. Þannig má losa heilmikið rafmagn og notkun hér á landi.

Ég vil líka fjalla um aðra kosti, og ræðumenn sem hér hafa komið á undan hafa heilmikið verið að nefna, t.d. orkunotkun á fiskiskipum eða skipum. Ég nefni það nú samt hér til að halda því til haga að nýjustu skip flotans spara eldsneyti eða nota mun minna eldsneyti við veiðar en við höfum áður þekkt. Hv. þm. Logi Einarsson flutti athyglisverða ræðu áðan um hvernig við eigum að hugsa þessi mál í heild sinni og ég tek undir að við þurfum að gera það. Þá nefni ég einn hlut varðandi fiskiskipin og orku til þeirra, sem ekki er fjallað um í textanum hérna en vildi gjarnan halda til haga og snertir þá líka möguleika landbúnaðarins. Landbúnaðurinn hefur nefnilega mjög mikla möguleika og mikil tækifæri fram að færa til orkuskiptaumræðu og nýrra orkugjafa. Í fyrsta lagi t.d. framleiðsla og ræktun á repju til orkuframleiðslu, hvort sem það er til að knýja bíla eða til að knýja bátavélar.

Ég nefni möguleika landbúnaðarins, bændanna og landeigendanna til að framleiða orku með minni vatnsaflsvirkjunum en okkur er oft tamt að tala um, þ.e. svokallaðar smávirkjanir eða bændavirkjanir. En þær eru líka háðar því að við eflum raforkuflutningskerfin okkar. Þá er ég ekki að tala um stóru byggðalínurnar eða stóru möstrin heldur einfaldlega dreifikerfin sem liggja um sveitir landsins, sem eru margar hverjar orðnar gamlar og komnar til ára sinna og eru tæknilega ófullkomnar, eru ekki þannig byggðar af þeirri kynslóð raforkuflutningskerfa sem við þurfum á að halda, sem í daglegu tali eru stundum kallað þriggja fasa rafmagn og er í raun og veru forsenda þess að menn geti hafið orkuframleiðslu í meiri mæli á bændabýlum, hvort sem það er þá með litlum vatnsaflsvirkjunum, vindorku mögulega. Eða þá sem er líka mótvægisaðgerð í loftslagsmálum, af því að við ræðum mikið um loftslagsmál í tengslum við orkuskipti, raforkuframleiðsla þar sem menn losa orku úr búfjáráburði, sem er svona hin stóra aðgerðin sem landbúnaðurinn almennt getur gripið til til þess að minnka losun frá starfsemi sinni, þ.e. að losa metanorku úr búfjáráburði, sem er víða um lönd orðinn mjög stór orkugjafi í heimi hinna endurnýjanlegu orkugjafa sem okkur er tamt að tala um.

Hagrænir hvatar í þessu sambandi væri verðugt verkefni fyrir atvinnuveganefnd þegar hún fjallar um málið að setja í samhengi við það að nýta mögulega möguleika repjuframleiðslu eða repjuræktunar sem reyndar bindur líka kolefni, nýta möguleika smávirkjana og nýta þá möguleika líka til þess að framleiða raforku úr haug í haughúsum.

Þetta eru allt saman hlutir sem raðast upp í alla þessa mynd hjá okkur. Síðan eru fjölmörg önnur tækifæri sem við höfum í orkuskipti sem við ráðum kannski ekki við að fjalla um í þessu þingmáli en er nauðsynlegt fyrir okkur að huga að sem snerta líka orkuna á bak við þau aðföng sem við erum að nota í okkar helstu atvinnuvegum.

Þetta er í stuttu máli innlegg mitt í þessa umræðu um orkuskipti og þessa ágætu þingsályktunartillögu og byrja þá aftur á því eins og ég gerði upphafi ræðu minnar að segja: Ráðherra slær hér alveg nýjan tón vegna þess að þegar við tölum um orkuskipti og þegar við tölum um að sækja fram og auka t.d. raforku í samgöngum, þá erum við raunverulega að tala um heimilin og við verðum að tala um þetta út frá hagsmunum heimilanna. Heimilin um allt land þurfa á því að halda að við eflum flutningskerfið og bætum það til þess að mögulegt verði að taka þátt í þessu stóra verkefni.



[16:48]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki á mér setið að koma hér aftur upp í pontu eftir að hafa hlustað á ræður hv. þingmanna sem töluðu á undan mér. Mig langar að byrja á því að taka undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni þar sem hann fagnaði nýjum tón sem kæmi frá hæstv. ráðherra. Ég verð bara að segja að ég er nokkuð bjartsýnn á að við getum tekið höndum saman um þessi efni.

Hv. þm. Teitur Björn Einarsson spurði hér áðan út í rammaáætlun. Þess vegna langaði mig bara rétt að koma hér upp og koma aðeins inn á þetta efni í ræðu minni. Eins og ég horfi á þetta þá er þetta efni nátengt svo mörgum öðrum plöggum, stefnum og tækjum og tólum sem stjórnvöld hafa og koma inn á borð okkar á Alþingi þegar við horfum til markmiðanna sem liggja að baki. Vissulega eru hér fjárhagslegir hagsmunir undir líka þegar kemur að því að nýta innlent eldsneyti en ekki innflutt. En undirliggjandi eru að sjálfsögðu þau umhverfismál að minnka útblástur og að ganga bara almennt betur um umhverfið.

Þessi áætlun tengist rammaáætlun, hún tengist kerfisáætlun, hún tengist því sem ég væri til í að sjá; áætlun um orkunýtingu, þ.e. ekki öflun heldur í hvað eigi að nýta orkuna, hversu stóran hluta orkunnar viljum við sjá í iðnaði, hversu stóran hluta til heimila, hversu stóran hluta í græna starfsemi og hversu stóran hluta í orkuskipti. Áætlunin tengist samgönguáætlun. Ætlum við að byggja upp? Ég kom inn á borgarlínu í fyrri ræðu minni og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á landbúnaðinn. Þetta tengist búvörusamningnum. Þar benti hv. þingmaður réttilega á ýmis tækifæri. Í því samhengi þarf að skoða allt, innlenda framleiðslu á móti innflutningi. Hvað þýðir það í útblæstri að flytja inn æ meira af landbúnaðarafurðum? Að ég tali nú ekki um stefnu í loftslagsmálum sem væntanlega verður rædd hér í kjölfarið á nýútkominni skýrslu um stöðuna í loftslagsmálum.

Ég vildi því nýta tækifærið til að hvetja hæstv. ráðherra, ekki að ég haldi að hún þurfi sérstakrar hvatningar við því að mér heyrist hæstv. ráðherra tala á mjög svipuðum nótum og ég hugsa, til þess að horfa heildstæðar á þessi mál en við höfum gert.

Talað hefur verið um þörfina á sérstöku ráðuneyti ferðamála, ég ætla ekki að draga úr þeirri þörf. Ég velti upp þörfinni á sérstöku ráðuneyti loftslagsmála, loftslagsráðuneyti eða loftslagsskrifstofu. Hún væri þvert á öll ráðuneyti og öll mál sem tengdust þeim markmiðum og því ferli sem þar er, færu í gegnum hana, af því að þetta ætti að sytra út í allt stjórnkerfið og vera alls staðar í ráðuneytum, ef við ætlum að ná raunverulegum árangri, sem mér sýnist á öllu og heyrist og er sannfærður um að við hæstv. ráðherra erum sammála um að sé nauðsynlegt.

Áður en ég stíg úr ræðustól ætla ég að koma aftur inn á það til hvaða nefndar málinu er vísað. Það sýnir okkur einmitt hversu nátengt þetta er allt saman. Í raun og veru ætti þetta mál heima í flestöllum nefndum Alþingis. Ég vona bara að það verði sem mest samvinna í þessum efnum, í það minnsta við umhverfisnefnd.



[16:52]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir góðar og uppbyggilegar umræður og taka undir með í fyrsta lagi hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni sem talar m.a. um styrkingu lagnakerfis fyrir skipin, sem er lykilatriði. Orkuöryggi er sömuleiðis ein af áherslum mínum. Það eru vissulega blikur á lofti, sem hefur svo sem komið fram áður í raforkuskýrslu fyrrum iðnaðarráðherra. Við þurfum auðvitað að gæta að eftirspurninni, þá er ég að vísa í raforku. Það kallar á aukið framboð. Það er kannski stóra málið og ekki hægt að líta fram hjá því. Þetta er svo sem ekki eina atriðið í þeim efnum heldur er kallað eftir auknu framboði víða.

Hér var aðeins minnst á borgarlínu. Það er gott mál. Það er hins vegar ekki í þessu, væntanlega vegna þess að það er á forræði sveitarfélaganna, en eins og öll umræðan hérna hefur sýnt er þetta allt partur af stærri mynd. Ég tek undir með held ég öllum hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls að þetta er partur af stærri mynd, en þó megum við ekki gleyma því að þetta er aðeins einn partur af þeirri stóru mynd. Við erum með þetta verkefni sem síðan brotnar niður í mörg verkefni og mörg ráðuneyti og margar stofnanir. Þetta verkefni mun aldrei leysa öll þau verkefni sem við þurfum að ráðast í heldur er það einn liður í mörgum.

Hv. þm. Smári McCarthy tók til máls og talaði um framsýni, að við þyrftum að ganga miklu lengra en hér er gert. Atvinnuveganefnd og eftir atvikum umhverfis- og samgöngunefnd getur skoðað það sérstaklega eða haft einhverja skoðun á því, en ég legg áherslu á að þrátt fyrir að vera öll af vilja gerð með framsýni finnst mér mikilvægt að plaggið sé raunhæft, einmitt þannig að það sé líka hægt að leggja áherslu á að unnið sé eftir því. Það er auðveldara að skauta fram hjá því ef áhugi er mismikill hjá stofnunum eða samfélaginu í heild sinni einhvern veginn, ef framsýnin er þannig að það er kannski ekki lengur raunhæft.

Ef við horfum aftur til ársins 1990 og fram til ársins 2030 þá er veruleikinn svo ótrúlega breyttur að þótt við mundum rafvæða allan bílaflotann er það ekki nóg, við þyrftum þá helst að meina öllum þeim ferðamönnum sem hingað vilja koma og skoða landið okkar fagra að keyra bíla, alla vega ef þeir keyra á eldsneyti, sem ég sem ráðherra ferðamála mun vitaskuld ekki leggja til en segi til þess að setja þetta í samhengi.

Ýmislegt sem hérna kom fram snertir síðan loftslagsmálin í heild og þá vinnu sem er í gangi í umhverfisráðuneytinu, þannig að það er mismunandi fyrir hvað ég svara. Oft var umræðan komin út fyrir þetta plagg og þetta verkefni og þá legg ég aftur áherslu á að þetta er aðeins einn liður í því. Þetta eru auðvitað ekki bara umhverfismál heldur er þetta líka efnahagslegt og orkuöryggi skiptir hérna máli. Þetta er líka atvinnuvegamál og nýsköpunarmál, þess vegna er það einnig vistað hjá atvinnuvegaráðuneytinu.

Hv. þm. Logi Einarsson kom inn á þéttingu byggðar. Ég tek undir með honum að það er gott mál, en þar er myndin sem hann dró upp orðin ansi stór. Sú mynd er stærri en þetta mál. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum, ég er sjálf hrifin af stóru myndinni og áhugavert að ræða hana.

En til að ítreka það geta hvorki bifreiðar né samgöngur í heild sinni verið eina lausnin. Það þarf að vera alveg skýrt.

Ég legg áherslu á að þetta skjal er að sjálfsögðu ekki heilagt. Þetta er lifandi skjal sem mun að öllum líkindum taka einhverjum breytingum í nefnd. Ég er líka sammála því að það sé gott fyrir málið að atvinnuveganefnd sendi það til umsagnar í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég held að það gagnist okkur mjög að fá sem flesta að borðinu, kannski sérstaklega vegna þess að umhverfisráðherra á eftir að koma í meira mæli með verkefni sín hingað, sem eru þá verkefni þingsins að sjálfsögðu. Af því að þetta talar allt saman þá hlýtur að vera gott og gagnlegt að umhverfis- og samgöngunefnd fái að fjalla um þetta mál líka.

Ég vil sérstaklega taka undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni þegar hann fjallar um möguleika landbúnaðarins. Ég fagna þeirri hugsun. Hann fjallaði stuttlega um smávirkjanir. Hv. þingmaður er mikill áhugamaður um þær og hefur smitað mig af þeim áhuga. Ég fagna því. Það er góð nálgun og sjálfbær og góð byggðaaðgerð sömuleiðis.

Ég þekki ekki nákvæmlega, af því að það var unnið fyrir mína tíð í ráðuneytinu, hvort eitthvað hafi verið rætt við landbúnaðinn við vinnsluna. Kannski hefði mátt gera meira og betur í því, en það er þá eitthvað sem nefndin getur skoðað. Aftur legg ég áherslu á uppbyggingu innviða í þessu samhengi og mikilvægi dreifikerfis raforkunnar, sem er nefnilega ein af forsendum fyrir orkuskiptum. Við gætum í rauninni ekki uppfyllt allt það sem hér kemur fram með þá stöðu sem er í dag ef ekkert yrði að gert þar.

Þetta samhengi orkuskipta og nauðsynlegrar uppbyggingar á flutnings- og dreifikerfi raforku skiptir miklu máli. Eins og ég sagði áðan er ekki án fullnægjandi flutnings- og dreifikerfis raforku hægt að tala um áform um orkuskipti á landsvísu. Þess vegna, eins og kom mjög skýrt fram í máli allra hv. þingmanna, verður að horfa á þessi mál í samhengi og nálgast þau með ábyrgum hætti til lengri tíma.

Ég ætla líka að taka undir með Gunnari I. Guðmundssyni, hv. þingmanni Pírata, og þær vangaveltur sem hann reifaði varðandi sjávarútveginn og tel að þær hugmyndir og vangaveltur eigi heima í nefndarvinnunni.

Að lokum ætla ég að segja að ég sé ekki betur en við höfum í þinginu alla burði til að nálgast þetta mál með uppbyggilegum hætti.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til atvinnuvn.