146. löggjafarþing — 32. fundur
 24. feb. 2017.
fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu, fyrri umræða.
stjtill., 177. mál. — Þskj. 248.

[17:01]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Georgíu sem undirritaður var 27. júní 2016 í Bern í Sviss.

EFTA-ríkin og Georgía hófu viðræður um gerð fríverslunarsamnings í september 2015 og lauk viðræðunum í febrúar 2016. Í samningnum er kveðið á um gagnkvæma niðurfellingu og lækkun tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Tollar munu þannig falla niður frá gildistöku samningsins á hvers kyns sjávarafurðir og iðnaðarvörur, sem fluttar eru út frá Íslandi til Georgíu. Sama á við um helstu landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi til útflutnings. Samningurinn mun því bæta samkeppnisstöðu íslenskra útflytjenda sem flytja vörur sínar til Georgíu.

Aðildin er jafnframt liður í því sameiginlega verkefni EFTA-ríkjanna að bæta markaðsafkomu fyrirtækja þeirra að mörkuðum víðs vegar um heim. Að þessum samningi samþykktum hafa EFTA-ríkin sameiginlega gert 27 slíka fríverslunarsamninga við 38 ríki eða ríkjahópa.

Í þingsályktunartillögunni er gerð grein fyrir helstu efnisþáttum fríverslunarsamningsins. Þar kemur fram að samningurinn inniheldur m.a. ákvæði um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, rétt til stofnsetningar, verndun hugverkaréttar, opinber innkaup, svo og viðskipti og sjálfbæra þróun.

Útflutningur frá Íslandi til Georgíu hefur verið lítill í gegnum tíðina, en hann hefur þó aukist undanfarin ár og nam tæpum 300 millj. kr. á síðasta ári. Innflutningur frá Georgíu hefur einnig verið lítill. Með gagnkvæmri niðurfellingu og lækkun tolla skapar samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum á milli landanna.

Georgía er kannski ekki öflugt efnahagsveldi, en við eigum þess þá heldur að semja við þau lönd sem ekki eru komin á sama stað og við því að það er algjörlega útilokað að þau nái þeirri efnahagslegu velmegun sem við og þau lönd sem við berum okkur saman við höfum, nema með aðgangi að öðrum mörkuðum.

Ég vek athygli á því, ég ætla ekki að lesa yfir alla þingsályktunartillöguna, að í forsendum samninganna, og þannig er það almennt með EFTA-ríkin, koma líka fram ýmis ákvæði sem tengjast hlutum sem við viljum sjá og eru þau nánar tiltekið á bls. 1 og bls. 2 í þingsályktunartillögunni.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.



[17:04]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans hér og langar að spyrja hann út í það sem hann nefndi reyndar í örstuttu máli í framsöguræðu sinni, þ.e. sem lýtur að sjálfbærri þróun og að það sé eitt af því sem hér er tiltekið. Ég sé að í 10. kafla er einmitt fjallað um viðskipti og sjálfbæra þróun þar sem fram kemur að efnahagsleg þróun, félagsleg þróun og umhverfisvernd séu sjálfstæðir þættir sem styðji með gagnkvæmum hætti við sjálfbæra þróun. Mér finnst að okkur sem tökum þátt í stjórnmálum á 21. öld beri skylda til að velta fyrir okkur hlutum eins og sjálfbærri þróun, en ekki síður loftslagsmálum og loftslagsbreytingum.

Mig langar að eiga aðeins orðastað við hæstv. ráðherra um það og þetta samspil, að hluta til almennt, ég vil nota tækifærið vegna þess að hér er verið að tala um fullgildingu á fríverslunarsamningi við fjarlægt ríki. Ég held að við þurfum alltaf að hugsa um þessi mál. Það er rétt að Georgía er ekki öflugt efnahagsveldi og hægt er að styrkja stöðu ríkja með viðskiptum. En við þurfum líka að hugsa um vistsporið sem hlýst af flutningi vara ríkja á milli.

Mig langar þess vegna að spyrja: Hefur eitthvað verið rætt um hvort það eigi bara að auka almennt viðskipti (Forseti hringir.) á milli EFTA-ríkjanna og Georgíu eða á að líta sérstaklega á þær vörur sem skortur er á í þessum ríkjum og er þess vegna nauðsynlegt að flytja á milli ríkjanna, en er ekki bara þannig að það geti (Forseti hringir.) verið efnahagslega gott fyrir einhverja aðila í ríkjunum?



[17:07]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hennar. Ég vek athygli á því að ég las tillöguna ekki alla upp áðan. Það sem ég er að vísa til, af því að hv. þingmaður vísaði í sjálfbæra þróun og umhverfismálin, er að á bls. 2 kemur fram, með leyfi forseta:

„Áréttuð er skuldbinding ríkjanna um að stefna að sjálfbærri þróun sem og viðurkenning þeirra á mikilvægi samræmis í stefnumálum á sviðum viðskipta, umhverfis og vinnu.“

Svo er ítrekaður vilji samningsaðila til að beita ákvæðum samningsins í samræmi við markmið um vernd umhverfisins og hagkvæma auðlindanýtingu.

Svo er ýmislegt annað sem tengist ekkert ósvipuðum málum. Varðandi það hvort verið sé að vísa í stýringu á vörum sem skortur er á, þá er ekki tekið tillit til þess í þessum samningum, enda vitum við ekki hvernig svona mál þróast.

Ég vonast til þess að einhverjir útflytjendur hér sjái sóknarfæri í þessu og viðskiptatækifæri. Þeir gera það ekki nema þeir séu með einhverjar vörur sem þeir hafa að bjóða þarna. En á sama tíma og ekki síst vonast ég til þess að þetta ýti undir efnahag Georgíu og geri þá sjálfbæra, því að þeir eru að mörgu leyti í mjög erfiðri stöðu. Mér finnst það vera siðferðilega skylda okkar sem segjumst vilja hjálpa fátækari ríkjum að ekki bara tala um það. Með fullri virðingu fyrir þróunaraðstoð, sem er auðvitað mjög mikilvæg, þá gerir hún ekkert ef við hjálpum ekki viðkomandi ríkjum og fólkinu í þessum löndum til að verða efnahagslega sjálfstæð og verða sterkari en í dag. Við gerum það ekki nema opna markaði okkar. Vonandi munu einhverjir aðilar í Georgíu geta selt einhverjar vörur hingað. Hverjar þær eru hef ég ekki hugmynd um, enda þekkjum við ekki leiðir fólksins og markaðarins og munum aldrei geta séð það almennilega fyrir.



[17:09]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki ósammála hæstv. ráðherra þegar kemur að því að við þurfum að ýta undir og stuðla að sjálfbærni samfélaga. Ein af leiðunum er vissulega í gegnum viðskipti. Það er nokkuð sem ég tel að við þurfum að athuga. Ég tel hins vegar að við þurfum líka alltaf að hafa loftslagsbreytingar í huga og hvernig við tökumst á við þær. Þess vegna þurfum við líka alltaf að muna að sumar vörur er kannski óþarfi að flytja um langan veg, þá beri frekar að horfa til loftslagsmarkmiðanna.

Ég er eingöngu að hvetja til þess að við gerð annarra samninga verði þessi tvö sjónarmið undir þegar verið er að vega og meta mál, hvort sem það er í vinnu hæstv. ráðherra eða okkar þingmanna við gerð þingmála, því að ég held að við verðum alltaf (Forseti hringir.) að hafa þetta sjónarmið undir líka, sem eru loftslagsmálin.



[17:10]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar hér um mjög mikilvæga hluti sem eru umhverfismálin, sem fara eðli máls samkvæmt þvert á landamæri. Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður er sammála mér um áherslu varðandi fríverslun. Ég held ef við ætlum að ná árangri í umhverfismálum þurfi menn í fyrsta lagi að huga að þeim og setja sér markmið, en ég held að það verði aldrei gert nema við náum árangri í tækniframförum. Í rauninni snýst þetta um að við tökum þann hluta heimsins sem er á þeim stað sem við vorum á fyrir löngu síðan, og koma honum á þann stað sem við erum á núna, en ekki með þeim hætti sem við gerðum það. Þau lönd sem standa sig best þegar kemur að umhverfismálum eru þau sem njóta mestu efnahagslegu velmegunarinnar. Við Íslendingar höfum margt fram að færa hvað það varðar. Það liggur líka fyrir að ef allir nýttu orkuna eins og við (Forseti hringir.) þá væri ekki þessi vandi í heiminum í dag. Þetta snýst um að flytja þekkinguna annað, m.a. til Georgíu.



[17:12]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna einlæglega þessum fríverslunarsamningi við Georgíu. Ég hugsa nú að ég sé ein af fáum í þessum þingsal sem farið hafa til Georgíu og var þar um hríð, þannig að ég fagna þessu alveg einstaklega mikið, ef svo má segja.

Það sem mig langar til að fá að vita, kannski meira fyrir forvitnissakir, er hvort utanríkisráðherra muni beita sér með einhverjum hætti fyrir markaðssetningu Íslands í Georgíu og öfugt. Nú veit ég að Georgía er mjög auðugt land og þar er allt í bullandi vexti, ef svo má segja. Kaupmáttur hefur verið að aukast þar í landi og aðstæður breytast mjög hratt m.a. út af Evrópusambandinu og þeim fríverslunarsamningum sem verið er að gera. Ég tel þetta því vera mjög gott skref fyrir Georgíu, en líka fyrir Ísland af því að eins og hæstv. ráðherra minntist á áðan er ekki langt síðan við vorum á svipuðum stað og Georgía. Það er ekki langt síðan heilu þorpin í Georgíu fengu rafmagn til sín. Eftir fall Sovétríkjanna var allt í lamasessi. Þetta land þarf á miklum stuðningi að halda.

Mig langar til að fá að vita hvort utanríkisráðherra er með einhverja áætlanagerð eða hugmyndir um það hvernig við gætum kynnt Ísland betur, og mögulega öfugt, og hvernig hægt væri að fara í gagnkvæma samvinnu þegar kemur að að kynna Georgíu fyrir Íslandi. Ég tel að það væri mjög farsælt.



[17:14]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir orð hennar og er ánægður að heyra að hún fagni þessum samningi og vil upplýsa það úr því að við ræðum það að hv. þingmaður er ekki sá eini í þessum þingsal sem farið hefur til Georgíu. Ég fór að vísu rétt eftir opnunina, eftir að austantjaldsríkin voru frelsuð undan oki kommúnismans. Þá var það nú þannig, af því að hv. þingmaður nefndi orkumálin, að rafmagnið fór af í Tíblisi að meðaltali á 20, 30 mínútna fresti. Það var áhugavert að vera á þeim stað þar sem ástandið var þannig. Það er nú gaman að ræða það.

Varðandi spurningu hv. þingmanns þá snýr þetta annars vegar að því hvernig við munum beita okkur fyrir því að kynna vörur okkar og þjónustu í landi eins og Georgíu og hvernig við kynnum það sem Georgíumenn hafa upp á að bjóða, en ég er ekki búinn að vera lengi í ráðuneytinu. Ég hef hins vegar ýmsar hugmyndir sem tengjast því sem hv. þingmaður nefndi. Annars vegar held ég að við getum hugsanlega gert betur varðandi kynningu á því sem við höfum upp á að bjóða og auðvitað í Georgíu og öðrum löndum. Ég lít sérstaklega til þróunarríkjanna. Við þurfum að vera mjög einbeitt í því hvernig við hjálpum þróunarríkjunum. Ég veit ekki hvernig Georgíumenn standa hvað það varðar, við erum í það minnsta ekki með neina þróunaraðstoð þar og ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki undirbúinn undir tölur varðandi þjóðarframleiðsluna í Georgíu, en við styðjum þetta ríki sannarlega ekki með beinum hætti.

En ef við ætlum að hjálpa þeim löndum sem ég nefndi, það á auðvitað við öll lönd, þá þurfum við líka að hjálpa þeim að kynna vörur sínar á mörkuðum eins og hjá okkur. Það snýr ekki að einstökum löndum, en eins og hv. þingmaður nefnir réttilega er þetta eitt af því sem við verðum að gera ef við ætlum (Forseti hringir.) að hjálpa þeim löndum á þeim stað sem við viljum sjá þau á.



[17:16]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að hæstv. ráðherra hefur nú farið til Georgíu eins og ég sjálf. Það er nú ekki svo langt síðan ég var þar, einungis fimm ár eða svo.

Ég held að það séu ákveðin sóknarfæri með þessum fríverslunarsamningi, rétt eins og hæstv. ráðherra nefnir, og þá ekki einungis þegar kemur að fríverslun og verslun heldur líka einfaldlega með þróunaraðstoð. Þar má t.d. nefna að þegar kemur að orkumálum eru sóknarfæri í Georgíu og Ísland hefur ákveðna kunnáttu þar að lútandi, sem og þegar kemur að kvenréttindum. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra gæti beitt sér fyrir því þar sem kvenréttindi eru þar fótum troðin, ef svo má segja. Það hefur lítið breyst. Það eru aðallega konurnar sem bera uppi georgískan efnahag eins og stendur. (Forseti hringir.) Það er af mörgum orsökum sem ég myndi glöð ræða við hæstv. ráðherra um.



[17:17]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur erum við sammála ég og hv. þingmaður. Ég held að það sé eitthvað sem við getum verið ánægð með að við höfum í þróunaraðstoð okkar að stórum hluta lagt áherslu á að miðla því sem við gerum vel. Hv. þingmaður nefndi tvennt af því. Það er hvort tveggja í Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á Íslandi. Hv. þingmaður nefndi jarðhitann. Það er nokkuð sem við höfum verið að kenna víðs vegar um heim mjög lengi. Það verður enn þá meiri eftirspurn eftir því og er mikilvægt að gera það núna m.a. út af því sem hv. þingmaður talaði um og hv. þingmaður Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi hér áðan varðandi loftslagsmálin. Við erum með skóla Sameinuðu þjóðanna í jarðhitamálum. Við erum með skóla Sameinuðu þjóðanna í sjávarútvegsmálum, þótt það hjálpi ekki alveg Georgíu, og skóla í jafnréttismálum, sömuleiðis í landgræðslu. Það skiptir auðvitað máli fyrir okkur þar sem okkur hefur tekist vel til, að við miðlum þeirri reynslu til annarra (Forseti hringir.) þjóða. Ég get ekkert annað sagt en ég er sammála hv. þingmanni.



[17:18]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu sína. Mig langar að spyrja hann aðeins nánar út í nokkur atriði. Í fylgiskjali með fríverslunarsamningnum er tekið fram að Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss muni árétta þá skuldbindingu sína að styðja við lýðræði, réttarreglur og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, m.a. eins og fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu sömu stofnunar.

Mig langar til þess að heyra hugmyndir hans um nákvæmlega hvernig þessi fríverslunarsamningur muni stuðla að og styðja við lýðræði, réttarreglur og mannfrelsi nú þegar út er komin ný skýrsla Human Rights Watch-mannréttindasamtakanna. Þar kemur m.a. fram að alþjóðaglæpadómstóllinn heimilaði saksóknara sínum í janúar á síðastliðnu ári að fara í rannsókn á stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni á tímum styrjaldar á milli Rússlands og Georgíu 2008. Í febrúar síðastliðnum gaf sérstakur ráðgjafi Sameinuðu þjóðanna varðandi ofbeldi gegn konum út mjög svarta skýrslu þar sem fram kom að alvarlega hátt hlutfall er í landinu varðandi ofbeldi gegn konum. Sömuleiðis gáfu ein fremstu mannréttindasamtök í Georgíu, samtök ungra georgískra lögfræðinga, út skýrslu á síðasta ári sem sýndi fram á að útbreiddar eru pyndingar á borgunum af hálfu yfirvalda sem aldrei hafa verið rannsakaðar. Þarna eiga sér stað mannréttindabrot og ég hef mikinn hug á því að heyra hæstv. utanríkisráðherra og hugmyndir hans um hvernig Ísland getur stigið þarna inn með þessum fríverslunarsamningi. Þó svo að ástandið hafi e.t.v. batnað eitthvað síðastliðin ár í Georgíu er þarna um að ræða ástand í landi þar sem mannréttindi borgaranna eru fótum troðin. Mig langar að heyra hugmyndir hæstv. ráðherra um hvernig Ísland getur komið þarna að.



[17:21]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir gríðarlega mikilvæga hluti sem eru mannréttindi. Bara svo það sé sagt þá uppfylla þau lönd sem við eigum viðskipti við, jafnvel mjög mikil, ekki þau skilyrði sem við gerum þegar kemur að mannréttindum. Það held ég megi segja að sé almenna reglan. Þó að um sé að ræða misalvarleg mannréttindabrot mundum við samt sem áður ekki sætta okkur við slíkt hér. Ef mann fara á Amnesty-síðurnar og skoða lönd í Evrópu og Evrópusambandinu, þá er þar víða pottur brotinn, þó að ég voni að það sé nú ekki eins og þau tilfelli sem hv. þingmaður vísaði í hér. Það sama á við um mörg lönd, auðvitað ekki öll, en mörg lönd sem eru lengra frá okkur.

Þá er það spurningin: Hvernig nálgast menn það? Við Íslendingar getum gert ákveðna hluti. Númer eitt þá getum við sýnt gott fordæmi, sem ég held að sé lykilatriði. Í öðru lagi getum við talað fyrir þessum málum á alþjóðavettvangi. Það er nokkuð sem ég hyggst gera og mun gera eftir nokkra daga á þar til bærum vettvangi. En síðan er það spurningin: Eigum við að reyna að auka samskipti milli þeirra landa sem við erum ósátt við varðandi mannréttindamál, eða eigum við að minnka þau? Ég held að almenna reglan sé sú að því meiri samskipti sem við eigum við þjóðir þeim mun meiri líkur eru á því að við getum borið út þær hugmyndir sem við stöndum fyrir og erum sammála um. Það er ekki þannig að öll þau ríki sem við gerum fríverslunarsamninga við (Forseti hringir.) séu nákvæmlega á þeim stað sem við vildum sjá varðandi þá málaflokka sem hv. þingmaður nefndi.



[17:23]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó svo að ég hafi kannski ekki fengið þau skýru svör sem ég hefði viljað heyra frá hæstv. ráðherra. Spurning mín áðan snerist um þá skuldbindingu sem Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss árétta í samningnum, um að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti. Það er gott að sýna gott fordæmi og tala fyrir mannréttindum á alþjóðavettvangi. En spurning mín snerist nákvæmlega um fullgildingu fríverslunarsamnings á milli EFTA-ríkjanna og Georgíu, hvernig við getum stigið inn með skýrum og öflugum hætti og talað og uppfyllt skuldbindingar okkar sem hér er skýrt kveðið á um í þessum samningi, af því að það er svo sannarlega víða pottur brotinn í því landi, eins og ég var að reyna að rekja hér áðan og vitnaði í skýrslu Human Rights Watch.

Ég hefði gjarnan viljað fá (Forseti hringir.) að heyra aðeins skýrar um það, meira en að tala fyrir mannréttindum og sýna gott fordæmi á alþjóðavettvangi. Ég vil því ítreka spurningu mína: Hvernig sér hæstv. utanríkisráðherra það nákvæmlega fyrir sér hvernig við getum beitt okkur?



[17:24]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig svar hv. þingmaður vill fá, hvernig það getur verið skýrara. Hv. þingmaður þekkir þessi mál mjög vel. Hv. þingmaður veit að við höfum ekki lögsögu í þessum ríkjum. Hv. þingmaður veit það líka að ekki munum við beita hervaldi til að koma þessum hugmyndum í gegn. Hv. þingmaður veit það alveg að við getum gert ákveðna hluti, sem ég vona að ég og hv. þingmaður séum sammála um að við eigum að gera.

Ástæðan fyrir að þetta er nefnt í samningnum er náttúrlega til þess að leggja áherslu á þetta. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt getum við náttúrlega bent á að menn standi ekki við það sem þeir skrifuðu undir. En við getum ekki breytt ástandinu í þessum löndum með valdi, ekki þarna eða annars staðar. Við höfum bara enga stöðu til þess. Jafnvel þó að við segjum að við gerum ekki neina fríverslunarsamninga við eitt einasta land, mun það ekki breyta þeim hlutum í neinum grundvallaratriðum. Reyndar held ég að það hefði slæm áhrif. Ég held að það mundi gera baráttuna erfiðari fyrir þá sem verða fyrir mannréttindabrotum í þessum löndum. Ég segi (Forseti hringir.) bara eitt við hv. þingmann og þingheim: Ég mun beita mér fyrir því eins og ég get, en við skulum alveg átta okkur á því að það er fyrst og fremst í orðum.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.