146. löggjafarþing — 33. fundur
 27. feb. 2017.
samgöngumál í Reykjavík.

[15:22]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru nú um 64% landsmanna, þar fyrir utan ferðast bróðurparturinn af þeim 1,7 milljónum ferðamanna sem hingað koma til landsins um svæðið. Það er því afar brýnt að umferðarmál svæðisins séu í góðri samvinnu við sveitarstjórnir þess. Í sérstökum umræðum í síðustu viku fullyrti hæstv. samgönguráðherra að Reykjavíkurborg hefði ekki samþykkt mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar þrátt fyrir að slíkt væri í samþykktri samgönguáætlun, áætlun sem ríkisstjórn virðist reyndar ekki hafa hugsað sér að fullfjármagna.

Tillögu um mislæg gatnamót á vegamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar var hafnað af borgarráði árið 2006 þegar Sjálfstæðisflokkur var í meiri hluta, m.a. með vísan til þess að flytja þyrfti vestari kvísl Elliðaánna úr farvegi sínum vegna framkvæmdarinnar og einnig að þeim hafi verið harðlega mótmælt af íbúasamtökum hverfisins. Í framhaldi voru gerðar tillögur um úrbætur á gatnamótunum. Síðan þá hafa ekki borist erindi um gatnamótin frá Vegagerðinni til Reykjavíkurborgar. Verkefnið er ekki á samgönguáætlun Alþingis fyrir 2015–2018 sem samþykkt var af Alþingi 2016. Það er heldur ekki inni í samgönguáætlun samgöngumála 2011–2022 sem samþykkt var af Alþingi árið 2012. Það er hins vegar gert ráð fyrir 1 milljarði í verkefnið undir lok samgönguáætlunar 2015–2026, en hún hefur ekki verið samþykkt af Alþingi. Það verður því ekki séð að ráðherra fari með rétt mál. Verkefnið er ekki í samþykktri samgönguáætlun.

Spurningarnar eru því sáraeinfaldar:

1. Stendur ráðherra enn við orð sín frá því í síðustu viku?

2. Ef ekki, finnst ráðherra þá við hæfi að koma hingað upp og leiðrétta orð sín?

Í þriðja lagi langar mig að vita hver samskipti ráðherra við borgarstjórn Reykjavíkur hafa verið um þessi mál eftir að hann tók við.



[15:24]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst af öllu vil ég nú ræða það sem kom hér fram, þ.e. að ríkisstjórnin hafi ekki hugsað sér að fullfjármagna samgönguáætlun. Það var Alþingi sem samþykkti samgönguáætlun til fjögurra ára og hún var samþykkt 12. október 2016. Það var þetta þing hér sem afgreiddi í breiðri sátt fjárlagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár þar sem skorti 10 milljarða upp á að hægt væri að standa við samgönguáætlun sem nokkrum vikum áður var samþykkt í þinginu. Það er ekki ríkisstjórnarinnar að fullfjármagna það, það er Alþingis sem fer með fjárlagavaldið.

Skemmst er frá því að segja varðandi þessi gatnamót, og aðrar framkvæmdir sem að þessu snúa hér á höfuðborgarsvæðinu, að ekki hefur náðst samstaða við Reykjavíkurborg um að stíga skref, sem að margra mati er mjög mikilvægt, til að greiða fyrir umferðarflæði á höfuðborgarsvæðinu. Við erum hér með einhver slysamestu gatnamót landsins, þar með talið þessi umtöluðu gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar þar sem slysatíðni er há. Við erum með önnur mislæg gatnamót þarna rétt hjá, sem er Miklabraut/Reykjanesbraut. Þar er slysatíðni mjög lág, en það er af því að þau eru mislæg, hitt eru ljósastýrð gatnamót. Þrátt fyrir hugmyndir um að fara í borgarlínu og auka almenningssamgöngur, sem ég er sem ráðherra mjög hlynntur að verði skoðað ítarlega, mun það ekki leysa öll okkar vandamál í þessum efnum.

Hvort ég hef farið eitthvað fram úr mér varðandi það að þetta væri á samgönguáætlun — ég biðst þá bara velvirðingar á því ef svo er. En aðalatriðið er það að ég mun núna, á fundi sem fyrirhugaður er með yfirvöldum í borginni (Forseti hringir.) á næstu dögum, taka þetta mál upp ásamt öðrum sem hafa verið í ágreiningi við Reykjavíkurborg.



[15:26]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það er virðingarvert hjá hæstv. ráðherra að leiðrétta málflutning þó svo að það hafi verið afar varfærin leið sem var farin þar. En ég vil líka leiðrétta annað sem kom fram hjá ráðherra í síðustu viku. Hann sagði að gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar væru hættulegustu gatnamót landsins. Það eru þau ekki. Þau eru í dag tíundu hættulegustu gatnamót landsins þrátt fyrir að vera ein þau fjölförnustu. Breytingarnar sem skiluðu þessum árangri kostuðu 200 millj. kr. Sá kostnaður er aðeins brotabrot af því sem mislæg gatnamót áttu að kosta. Á sínum tíma var gert ráð fyrir að sá kostnaður yrði 12 milljarðar. Mig langar að spyrja ráðherra aftur: Hefur hann verið í sambandi við borgarstjórn Reykjavíkur um þessi mál síðan hann tók við?



[15:27]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Enn og aftur vil ég ítreka mikilvægi þess að menn skoði reynsluna af því hvernig mislæg gatnamót virka ef þau eru borin saman við ljósastýrð gatnamót. Það þarf engum blöðum um það að fletta hversu mikilvægt það er fyrir umferðarflæði og umferðaröryggi að hafa mislæg gatnamót.

Við getum líka alveg horft á þær leiðir sem liggja hér t.d. bara suður í Hafnarfjörð. Af hverju erum við ekki með ljós á öllum þessum stöðum þar sem eru mislæg gatnamót og er búið að koma fyrir í nágrannasveitarfélögunum? Maður getur rétt ímyndað sér hvernig umferðin gengi ef það væri. Umferðarflæðið stöðvar allt við þessi ljósastýrðu gatnamót. Við það skapast mikil slysahætta. Þessi gatnamót með tilliti til umferðaróhappa eru með þeim hættulegustu sem eru í landinu. Það þarf ekkert að velta því fyrir sér. Þarna hafa ekki orðið mörg alvarleg slys en mjög mörg umferðaróhöpp sem eru samfélagi okkar mjög dýr. (LE: Hefur ráðherrann verið í samskiptum við …?) Ég ítreka síðan, af því að það er spurt um samskipti mín við Reykjavíkurborg, að við urðum að fresta að gefnu tilefni fundi sem fyrirhugaður var með(Forseti hringir.) borgarstjóra og hans fólki fyrir stuttu en sá fundur er á dagskrá næstu daga.