146. löggjafarþing — 33. fundur
 27. feb. 2017.
lækkun virðisaukaskatts á gleraugum og linsum.
fsp. KJak, 105. mál. — Þskj. 164.

[16:17]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég tek hér upp mál sem lýtur að virðisaukaskatti á linsum og gleraugum, nátengt annarri umræðu sem við höfum stundum átt hér í þinginu sem lýtur að virðisaukaskatti á lyfjum, en lyf og linsur og gleraugu, öll þessi mikilvægu lækningatæki, ef við getum orðað það sem svo, eru í efra þrepi virðisaukaskattskerfisins.

Nú er það svo að í neðra þrepinu, sem er 11%, eru afmarkaðir þættir. Þar er auðvitað fyrst að nefna matvæli sem bera 11% virðisaukaskatt. En þar er líka að finna bækur og tónlist, þar er að finna ferðaþjónustu og þætti á borð við smokka og taubleiur sem færðir voru í þetta lægra þrep, smokkarnir af þeim ástæðum að mikilvægt væri að þessi tegund getnaðarvarna bæri lægri virðisaukaskatt, taubleiur af umhverfisástæðum. Það má segja að það séu ekki endilega skýrar línur um það hvað lendir í hvoru þrepi virðisaukaskattskerfisins.

Við höfum oft rætt þessi mál á þingi. Oft má heyra þær raddir úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu, nánast óháð flokkum, en þó ekki alveg, sem þar eiga ráðherra, að best sé að hafa bara eitt virðisaukaskattsþrep, það sé einfaldast að hafa þetta ekki í of mörgum þrepum. Það er sú krítería sem hefur verið mjög ráðandi t.d. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en þegar kemur að skoðun er það líka sú stefna sem skilar því að tekjulægri greiða í raun og veru hærri skatta hlutfallslega, þ.e. ef við tökum til að mynda matvæli og hækkun á matarskatti á sínum tíma þá lagðist hún þyngst á tekjulægsta fólkið því að hlutfallslega hærri hluti af útgjöldum þess fer í matvæli. Þess vegna getur virðisaukaskattskerfið verið mikilvægt pólitískt tæki þó að sjálfsögðu hafi það ekki eins mikil jöfnunaráhrif og þrepaskiptur tekjuskattur.

En þarna þurfum við auðvitað að ræða málin málefnalega. Ég tel að fullkomlega eðlilegt sé að hafa fleiri en eitt þrep í virðisaukaskattskerfinu. Hins vegar held ég líka að full ástæða sé til að ræða betur hvað eigi heima í hvoru þrepi. Ég er raunar með aðra fyrirspurn hér á eftir sem lýtur sérstaklega að bókunum og hvernig við viljum stuðla að starfsumhverfi bókaútgáfu, og er henni beint til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, þá ekki síst út frá virðisaukaskattinum. En fyrirspurnin sem ég beini til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er hvort hann telji ástæðu til að skoða þessi mál hvað varðar gleraugu, sem er auðvitað ekki val nokkurs manns að nota. Þau eru í efra þrepi virðisaukaskattskerfisins. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að það er eðlilegt að skoða þau mál heildstætt, t.d. í samhengi við lyfin. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér eru það 33 Evrópulönd sem leggja virðisaukaskatt á lyf en 23 af þessum 33 eru með lyfin í lægra þrepi. Ísland er með þau í hærra þrepi. (Forseti hringir.) Svipaðar tölur hef ég fundið um gleraugu í nágrannalöndum okkar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann ástæðu til að endurskoða þetta?



[16:21]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Gleraugu og linsur með styrk falla í almennt þrep virðisaukaskatts og bera 24% skatt. Við mat á því hvort rétt sé að lækka virðisaukaskatt á gleraugum og linsum og skattleggja slíkar vörur í neðra þrepi skattsins vegast á hugmyndir annars vegar um sértækar ívilnanir og hins vegar það sjónarmið að fækka eigi undanþágum í virðisaukaskattskerfinu og einfalda frekar kerfið með aukna skilvirkni að leiðarljósi.

Á starfstíma síðustu ríkisstjórnar var almennt þrep virðisaukaskatts lækkað úr 25,5% í 24% og lægra þrepið hækkaði úr 7% í 11%. Þannig var bilið milli almenna og lægra þrepsins minnkað. Jafnframt var skattstofninn breikkaður. Jafnræði milli skyldra atvinnugreina jókst og dregið var úr hvata til undanskota. Í skýrslu frá sérfræðingateymi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá maí 2014 og nýlegum úttektum innlendra sérfræðinga á skattkerfinu hefur verið bent á nauðsyn þess að einfalda virðisaukaskattskerfið. Einn þáttur þess er að fækka undanþágum í kerfinu og hvers konar frávikum frá breiðum stofni og almennu þrepi.

Virðisaukaskattskerfið er stærsti einstaki skattstofninn fyrir ríkissjóð. Samkvæmt mælingum OECD er töluvert svigrúm til staðar til að bæta tekjuskilvirkni virðisaukaskatts á Íslandi. Aukin tekjuskilvirkni kerfisins næst meðal annars fram ef sem fæstar undanþágur og ívilnanir eru til staðar í löggjöfinni. Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að ná fram meiri árangri í tekjujöfnun með því að einfalda virðisaukaskattskerfið ásamt því að beita markvissum aðgerðum á öðrum sviðum en að beita virðisaukaskatti í slíku skyni. Þetta er til dæmis tekið fram í áðurnefndri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í maí 2014.

Aðildarríki OECD hafa almennt ekki undanþegið gleraugu og linsur frá virðisaukaskatti eða þá haft slíkar vörur í lægra þrepi virðisaukaskatts. Skoðun ráðuneytisins á lægra þrepi skattsins í aðildarríkjum sambandsins leiddi í ljós að aðeins eitt aðildarríki skattlagði gleraugnalinsur í lægra þrepi virðisaukaskatts.

Á þessu má sjá að nánast öll aðildarríki OECD hafa ákveðið að skattleggja slíkar vörur í almennu þrepi virðisaukaskatts en einstök ríki kunna eftir atvikum að koma með öðrum hætti til móts við þá sem þurfa á gleraugum og linsum með styrk að halda. Ríkið kemur til móts við einstaklinga vegna kostnaðar við gleraugnakaup að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, samanber lög nr. 160/2008, um Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og reglugerð nr. 1155/2005 um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugnakaup. Einnig má nefna að þeir sem eru skráðir í stéttarfélög geta fengið margvíslega styrki vegna gleraugnakaupa og linsukaupa. Þá geta þeir einstaklingar sem fá greiddar atvinnuleysisbætur óskað eftir því við sitt stéttarfélag að halda áfram greiðslu til félagsins og njóta þannig þeirra styrkja og annarra hlunninda sem stéttarfélögin bjóða félagsmönnum sínum upp á. Þá geta foreldrar sem sækja um fæðingarorlof óskað eftir því að greiða í stéttarfélög meðan á fæðingarorlofi stendur.

Virðulegi forseti. Á þessu má sjá að einstaklingar, jafnt þeir sem eru á vinnumarkaði sem og þeir sem fá greiddar atvinnuleysisbætur og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, geta almennt séð fengið styrki úr sínum stéttarfélögum vegna kaupa á gleraugum og linsum með styrk. Með vísan til þessa tel ég það ómarkvisst að virðisaukaskattur vegna kaupa á gleraugum og linsum verði færður úr almennu þrepi í lægra þrep virðisaukaskatts.



[16:25]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim sem ganga með gleraugu. Þegar ég var að vinna sem starfsmaður á leikskóla skemmdust gleraugun mín. Bara heima. En það var ekki sjens að ég hefði efni á að kaupa ný, þrátt fyrir styrk frá stéttarfélagi. Ég er ekkert viss um að lægra virðisaukaskattsþrep hefði hjálpað þar neitt til frekar.

Þetta tæki er mér nauðsynlegt þegar ég sest undir stýri á bíl og því um líkt. Ég hef alltaf litið á þetta eins og hækjur eða ýmislegt annað, hjólastól þess vegna. Þetta er mér lífsnauðsynlegt tæki. Annars er ég ekkert með í venjulegu samfélagi. Ég fékk að reyna það í leikskólanum. Það var ekkert auðvelt. Ég var orðinn rosalega duglegur að þekkja krakka hinum megin á lóðinni eftir því hvort þau voru rauð eða blá kúla. [Hlátur í þingsal.] (Forseti hringir.) Ég styð alla vega einhvers konar stefnu í þá átt að viðurkenna þetta sem almennara hjálpartæki en nú er gert.



[16:26]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það veldur mér töluvert miklum vonbrigðum að hlusta á hæstv. ráðherra kerfisbreytingaflokksins fara hér með þvílíka þulu um flækjustigið í því að einfalda virðisaukaskatt á nauðsynjum. Ég hef verið með linsur síðan ég var unglingur, var með rosalega stór gleraugu þegar ég var krakki og var lögð í einelti, að sjálfsögðu, út af því. En kostnaðurinn við gleraugu, t.d. hjá þeim sem eiga ekkert rosalega mikla peninga, er mikill, sérstaklega hjá börnum. Því langar mig að hvetja hæstv. ráðherra til að leggja til að færa þessi nauðsynlegu hjálpartæki niður í lægra þrepið og forða okkur frá flækjustiginu sem birtist svo ískyggilega í ræðu hæstv. ráðherra þegar hann var að útskýra hverjir hefðu rétt en gleymdi alveg að fara með hverjir ættu (Forseti hringir.) ekki rétt á þessum stuðningi þegar þeir mest þurfa á því að halda.



[16:27]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að Píratar eru miklir gleraugnaglámar enda ætla ég að lýsa yfir vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra þegar kemur að þessu málefni. Gleraugu eru dýr. Ég hef verið með gleraugu síðan ég var sex, sjö ára. Ég er blind án gleraugna. Gleraugun mín kosta mjög mikinn pening. Þegar ég var stúdent var ekkert hlaupið að því að kaupa sér ný gleraugu. Við erum að tala um hátt í 100 þús. kr. Fyrir lágtekjufólk, sér í lagi fyrir barnmargt fólk, eru þetta miklar fjárfestingar. Sjón er ættgeng þannig að oft er um að ræða sömu fjölskyldurnar. Ég veit alla vega að í minni fjölskyldu eru 100% fjölskyldumeðlima með gleraugu. Þannig að þetta er bara nauðsynlegt hjálpartæki, nauðsynlegt fyrir mig til að geta lifað lífinu og svo marga aðra. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með svör hæstv. fjármálaráðherra og vona að hann hugsi sinn gang.



[16:29]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum sem tóku þátt. Fyrst vil ég segja að ég tel eðlilegt að hið opinbera styrki þá sem þurfa að nýta gleraugu. Hvort virðisaukaskattskerfið er besta leiðin til þess, ég er ekkert að leggja mat á það í þessari fyrirspurn. Það kann að vera að það sé einfaldast, eins og hér hefur verið rætt úti í sal, að þetta verði hluti af almennu greiðsluþátttökukerfi. En það er alveg á hreinu að hið opinbera á að styrkja og styðja betur við þá sem þurfa að nota gleraugu því að það er ekki val neins. Ég tek það fram að ég hef sjálf aldrei þurft að nýta slík hjálpartæki. (Gripið fram í: Bíddu bara.) Þetta er hins vegar nokkuð sem við heyrum mikið af, við þingmenn.

Ég vil hins vegar segja það út af svörum hæstv. ráðherra, hann segir hér skýrt að hann vilji ekki lækka virðisaukaskatt á gleraugum og linsum, væntanlega þá ekki á lyfjum heldur. En mig langar þá að inna hæstv. ráðherra, því að hann talar um að hann vilji fækka undanþágum í virðisaukaskattskerfinu: Lítur hæstv. ráðherra á lægra þrep virðisaukaskattskerfisins sem undanþágu? Vill hæstv. ráðherra að virðisaukaskattskerfið verði eitt þrep? Vill hæstv. ráðherra hækka matarskatt? Vill hæstv. ráðherra hækka skatta á bækur? Eða taubleiurnar og smokkana sem ég nefndi hér, sem Alþingi ákvað að færa í lægra þrep virðisaukaskatts eftir talsverða umræðu hér á þingi. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt atriði sem þarf að ræða hér á Alþingi.

Við vitum og þekkjum alveg ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er að það eigi bara að vera eitt virðisaukaskattsþrep, tiltölulega hátt. Og svo er sagt: Ja, það er hægt að beita tekjujöfnun á móti. En hvað á þá að gera, hæstv. ráðherra? Ætlar hæstv. ráðherra þá að beita sér fyrir aukinni þrepaskiptingu í kerfinu? Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir hækkun persónuafsláttar ef það á að taka upp eitt þrep í virðisaukaskatti? Því eins og ég sagði hér áðan: Það að hækka matarskatt til að mynda á sínum tíma bitnaði mest á lágtekjufólki. (Forseti hringir.) Og víða um heim er virðisaukaskattskerfið nýtt til þess að koma til móts við lágtekjufólk í ýmsum málum.



[16:31]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég get svarað hv. þingmanni og málshefjanda því að ég er þeirrar skoðunar að það sé heppilegra að það sé eitt virðisaukaskattsþrep. Ég get ímyndað mér að þá væri það einhvers staðar á milli 18 og 19%. Þegar hv. þingmaður talar um að lægra virðisaukaskattsþrepið sé matarskattur lýsir það því óvenjulega viðhorfi að það eina sem fólk noti sé matur. Það sýndi sig í fyrra eða hittiðfyrra, þegar virðisaukaskattskerfinu var breytt, að almenn útgjöld heimilanna jukust ekki vegna þess, þó svo að matarútgjöldin hafi hækkað voru önnur útgjöld sem lækkuðu á móti. Venjulegt fólk nýtir ýmiss konar vöru.

Það er vissulega rétt að það getur verið þungbært fyrir ákveðnar fjölskyldur að vera með gleraugu. Eins og hér kom fram hefur ríkið þar ákveðna möguleika til að koma til móts við þá sem verst eiga í því og jafnframt hef ég minnt á að stéttarfélög veita víðtæka styrki þeim sem þar eru. Þetta er áhugaverð umræða en ég hygg hins vegar að það sé rétt að virðisaukaskattskerfið sé ekki það besta til að ná árangri í þessu. Hér var bent á að gleraugu gætu kostað um það bil 100 þús. kr. og það væru mjög miklir peningar og jafnvel óyfirstíganlegt fyrir suma. Það yrði líka væntanlega óyfirstíganlegt ef þau kostuðu 88 þús. kr. og yrði mörgum mjög erfitt. Það eitt myndi ekki leysa vandann.