146. löggjafarþing — 33. fundur
 27. feb. 2017.
byggingarkostnaður og endurskoðun laga.
fsp. EyH, 74. mál. — Þskj. 131.

[16:33]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég beini hér tiltölulega einfaldri spurningu til umhverfis- og auðlindaráðherra um byggingarkostnað og endurskoðun laga. Ég held að við höfum öll orðið vör við að mikið er rætt þessa dagana um húsnæðisvandann. Eftirspurn er langt umfram framboð. Sérfræðingar eru sammála um að þann vanda megi fyrst og fremst rekja til þess að mjög lítið hefur verið byggt frá því eftir hrun. Þegar maður fer í tölur Hagstofunnar um fullgerðar íbúðir, sem ná alveg aftur til 1970, kemur fram að það virðast aldrei hafa verið færri en um 1.200 íbúðir sem voru fullgerðar á ári frá 1970 til hrunsársins. Eftir hrun hafa milli 565 til 1.149 íbúðir verið fullgerðar, á árunum 2009–2015.

Það hefur verið rætt hér í þessum ræðustól að það veki nokkra athygli að þrátt fyrir þessa stöðu sé ekkert fjallað um húsnæðismál í stjórnarsáttmála. Ekkert er að finna í þingmálaskrá umhverfis- og auðlindaráðherra sem varðar byggingu íbúðarhúsnæðis, og það þrátt fyrir að flest lög sem varða byggingu húsnæðis og skipulag mannvirkja heyri undir ráðherrann. Ég hef saknað þess að ráðherra hefur ekki tjáð sig neitt að ráði um byggingu íbúðarhúsnæðis.

Fyrir stuttu kom fréttatilkynning frá félags- og jafnréttismálaráðherra á vef velferðarráðuneytisins um að nú væri búið að skipa starfshóp fjögurra ráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, umhverfisráðherra og samgönguráðherra, sem er ætlað að skila tillögum í húsnæðismálum innan fárra vikna. Í fréttatilkynningunni kemur fram að honum er meðal annars ætlað að huga að umbótum í skipulagslöggjöf til að einfalda þéttingu byggðar og athuga núgildandi byggingarreglugerð með einföldun gagnvart byggingu minni og hagkvæmari íbúða í huga.

Spurning mín er svohljóðandi, virðulegi forseti:

Hyggst ráðherra endurskoða skipulagslög og lög um mannvirki með það í huga að lækka byggingarkostnað íbúðarhúsnæðis?

Mig langar að vita hvort segja megi að verið sé að svara þessu í áðurnefndri fréttatilkynningu. Ég spyr hvort ráðherrann hafi í hyggju að vinna áfram að þeim frumvörpum sem var verið að vinna að í ráðuneyti hennar fyrir ríkisstjórnarskiptin, um breytingar á lögum um mannvirki og breytingu á skipulagslögum, um einföldun stjórnsýslu byggingarmála með lækkun byggingarkostnaðar vegna íbúðarhúsnæðis að leiðarljósi. Ég spyr hvort þetta sé allt sem starfshópnum er ætlað að huga að eða hvort líka sé verið að skoða hvernig almennt megi hraða ferlinu, hvernig megi til dæmis auðvelda einstaklingum að byggja, hvort það sé áfram skoðun ráðuneytisins að það eigi (Forseti hringir.) að halda sig við 55 m² íbúðir varðandi algilda hönnun eða hvort menn séu tilbúnir að skoða stærri viðmið. Ég spyr líka (Forseti hringir.) hvernig við getum almennt bætt yfirsýnina og gert áætlanir þannig að tryggt sé að þeir ráðherrar sem sitja hér saman geti betur unnið að framboði húsnæðis.



[16:37]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég sé að fyrirspyrjandi er að spyrja annan ráðherra um sama mál. Það er bara gott (Gripið fram í.) að hún nær okkur báðum hérna. Það er mjög hentugt, mjög gott, því að þetta mál sem hún ræðir á auðvitað heima innan margra ráðuneyta.

Svo ég svari fyrstu spurningu hennar: Já, ég hef verið að skoða þetta mál og skoða vinnu starfshóps, sem er ekki alveg búin, sem fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra setti af stað og var væntanlega gert í samvinnu við hv. þingmann þegar hún gegndi ráðherrastöðu í félagsmálaráðuneytinu.

Sá starfshópur skilaði tillögu til þáverandi ráðherra í desember 2015. Þar voru tillögur um lagabreytingar sem gætu haft í för með sér lækkun á byggingarkostnaði sem lutu m.a. að einföldun stjórnsýslu við útgáfu byggingarleyfis og að gagnaskilum, að aukinni áherslu á innra eftirlit í stað ytra eftirlits á framkvæmdatíma, auknum sveigjanleika varðandi kröfur um byggingarstjóra og frekari samræmingu skipulagslaga við lög um umhverfismat áætlana.

Í framhaldi af vinnu starfshópsins voru svo gerðar breytingar á byggingarreglugerð, eins og þingmaðurinn væntanlega þekkir. Þær tóku gildi 29. apríl 2016. Þær breytingar lutu einkum og helst að aðkomu, umferðarlögum og innri rýmum mannvirkja sem og stjórn mannvirkjamála hvað varðar minni háttar framkvæmdir sem undanþegnar voru byggingarleyfi.

Þá hefur þessi starfshópur á undanförnum mánuðum unnið að tillögum, því að næsta spurning laut að því hvort þær tillögur færu að skila sér í lagabreytingum. Svarið við því er því já, ég vænti þess að skipulagslög, nr. 123/2010, taki mið af tillögum umrædds starfshóps. Við miðum við að frumvarp til breytinga á lögum um mannvirki og skipulagslög verði lagt fram á haustþingi 2017.

Þessu til viðbótar þá hefur, eins og hv. þingmaður las upp eða greindi frá, hv. félags- og jafnréttismálaráðherra haft frumkvæði að því að koma á fót þverfaglegu teymi, ef maður getur sagt það, eða samráðsvettvangi ráðherra sem hefur með þau mál að gera þar sem við ræðum hvort við getum hagað málum betur. Mér hefur heyrst að hann vilji ekkert endilega vera að gera fleiri skýrslur um sama mál, því að þessu hefur verið unnið talsvert, heldur að við förum að taka það saman sem þegar hefur verið gert og koma því í framkvæmd, þannig að það er fullur hugur á því, það er í vinnslu.



[16:40]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er áhugavert efni, ekki síst í ljósi þess að mannvirkjageirinn stendur fyrir 30% af allri kolefnislosun í heiminum. Það verður samt að passa sig á því, þegar menn ætla að fara að slaka á í byggingarreglugerðum, að ekki sé alltaf verið að slaka á í kröfum gagnvart þeim hópum sem minnst mega sín og minnka alltaf kröfurnar um aðbúnað og rými. Það er miklu frekar að fá okkur sem höfum efni á að búa stærra og kaupa stærra til að búa minna. Í dag býr hver Íslendingur í 65 m² en Finninn í 34. Það erum við sem meira höfum sem þurfum aðeins að slaka á.

Síðan þarf að passa sig á að gefa engan afslátt af gæðum bygginganna. Umræðan um íslenska vegginn, mygluna sem hugsanlega hefur stafað af honum og því álagi sem hefur skapast með nútímalifnaðarháttum — það þarf að gæta að þessu.



[16:42]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þeim skallabletti í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem húsnæðismálin eru. Ég held ekki endilega að breyting á lögum sé stóra lausnin í húsnæðismálum en mig langar að nýta tækifærið til að lýsa mig í hópi vina byggingarreglugerðarinnar, eins og mér heyrðist hv. þm. Logi Einarsson gera.

Byggingarreglugerð þykir mér hafa tvennan tilgang sem of mikið hefur verið sneitt að á undanförnum árum. Annars vegar er það neytendavernd og gæði; að tiltaka hvernig á að byggja mannvirki þannig að við stöndum ekki frammi fyrir því eftir nokkur ár að þurfa að verja milljörðum á ári í mygluskemmdir.

Hins vegar er það spurningin um það hvernig samfélag við viljum byggja. Algild hönnun kveður á um að við gerum samfélagið aðgengilegt fyrir alla þannig að við séum ekki að dæma fatlað fólk (Forseti hringir.) til vistar í sérhönnuðu húsnæði heldur sé hvert einasta mannvirki sem er reist aðgengilegt fyrir fólk þannig að hver sem er geti búið hvar sem er, að það þurfi bara (Forseti hringir.) aðeins að breyta tækjum innan stokks; að rýmið bjóði upp á að við veljum okkur öll búsetu þar sem við viljum.



[16:43]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þá umræðu sem verið hefur hér, það er mjög mikilvægt að ráðast í átak og að samstarf sé milli ríkis og sveitarfélaga varðandi úthlutun lóða, skipulag og fleiri þætti til þess að auðvelda fólki að fara af stað og byggja litlar og meðalstórar íbúðir. Mjög hátt og sífellt hækkandi fasteignaverð er meðal annars vegna þess að mikill skortur er á litlum og meðalstórum íbúðum í okkar annars ágæta samfélagi.

Einnig vil ég leggja áherslu á að við aukum sveigjanleika í byggingarreglugerð. Það tel ég að sé mjög vel hægt án þess að það komi niður á aðgengismálum eða algildri hönnun. Við þurfum að leyfa fólki að hafa meira um það að segja sjálft hvernig það skipuleggur húsnæði sitt í samvinnu við þá (Forseti hringir.) sem það hyggst leita til án þess að kostnaður sé of íþyngjandi og það komi niður á ýmsum aðgengismálum.



[16:45]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Forseti. Ég ætla líka að þakka fyrir þessa umræðu, ég held að hún sé mikilvæg. Það er ánægjulegt að sjá þessa frétt um samræmdar aðgerðir og samstarfshóp ráðherranna, ég held að það sé mikilvægt.

En mig langaði aðeins að koma inn á hagtölur um íbúðamarkaðinn. Mér líður stundum eins og bankar og aðrir séu að keppast við að koma með sem mest spennandi tölur um hver raunveruleg þörf sé inn á íbúðamarkaðinn. Þá langar mig að heyra það frá ráðherra hvar þessar hagtölur liggja núna. Ég veit að það var hluti af landsskipulaginu að safna þeim saman. Það er eiginlega hálffurðulegt, miðað við allar þær upplýsingar sem við höfum hjá hinu opinbera, hjá byggingarfulltrúaembættunum, að við höfum ekki betri upplýsingar um hvað sé á leiðinni inn á markað. Við erum alltaf svolítið að elta skottið á sjálfum okkur. Hér erum við að tala um að minni íbúðir skorti en þær eru kannski allar handan við hornið.

Ég ætla líka að taka undir þessa umræðu um gæði og mikilvægi fjölbreytni (Forseti hringir.) í íbúðabyggð. Við verðum að huga að samfélagslegum auði þegar þar að kemur. Það er ekki gott þegar heilu hverfin eru tekin undir einsleita byggð. Það er mjög mikilvægt að blanda þessu.



[16:46]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í mjög svipuðum aðstæðum á árum áður var Breiðholtið byggt. Það var mjög hátt leiguverð, erfitt fyrir fólk að komast inn á íbúðamarkað. Þá tóku aðilar höndum saman og fundu út úr því hvernig væri hægt að byggja á hagkvæman hátt og hratt. Þessi aðgerð heppnaðist mjög vel þrátt fyrir að, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefnir, hverfið hafi orðið pínulítið einsleitt. Það er reynsla sem við tökum áfram í næstu aðgerð.

Sem strákur bjó ég í Þorlákshöfn. Þar var til dæmis Eyjahraunið byggt eftir Eyjagosið. Það var byggt mjög hratt, mjög snöggt. Þörf var á. Nú er þörf á. Ég skil ekki af hverju ekki er búið að gera ýmislegt.



[16:47]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Þetta er mjög mikilvægt málefni sem er verið að ræða. Ég kem til að taka undir með mörgum sem hér hafa talað um að þetta þarf einhvern veginn allt í senn að haldast í hendur, gæði, fjölbreytni, neytendavernd, aðgengismál, verð og blöndun. Þetta getur kannski ekki allt farið saman í sömu íbúðinni en búa þarf þannig um hnúta að við hugsum um aðgengismál, um mismunandi íbúðir, eigum við að segja misflottar. Það er kannski eðlilegt að fólk sem er komið um eða yfir miðjan aldur geti keypt sér dýrari og betur útbúnar íbúðir meðan þeir sem eru að byrja kaupa sér einfaldari og ódýrari íbúðir. En þær íbúðir eiga náttúrlega að standast gæðakröfur og allt þess háttar. (Forseti hringir.) Ég tek undir þetta með að passa upp á að búa ekki til sérmerkt hverfi þar sem hlutir eru mismunandi.



[16:49]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin og áhuga samþingmanna minna á þessu málefni. Ég vona að þessi áhugi verði til þess að starfshópurinn skili hratt og vel af sér. Ég vil gjarnan fá að koma þeirri ábendingu á framfæri við umhverfis- og auðlindaráðherra að á þingmálaskrá félags- og jafnréttismálaráðherra er mál sem tengist húsnæðismálum. Það gæti hugsanlega orðið bandormur ef hægt væri að koma þar inn með breytingar eða jafnvel að ráðherra bætti aðeins við listann hjá sér. Hugsanlega er þarna eitthvað sem við gætum gert fyrir vorið en ekki beðið með það fram á haustið að koma með nauðsynlegar breytingar sem hafa jafnvel verið töluvert lengi í undirbúningi.

Ég vil taka undir það sem talað er um hér varðandi fjölbreytnina. Það er nauðsynlegt að huga að öllum heimilum, eins og ég hef margoft orðað. Það þýðir að við þurfum að vera með fjölbreytt húsnæði. Vandinn sem við erum stöðugt að fást við — og ég er einmitt með tvær fyrirspurnir sem snúa að því, annars vegar til forsætisráðherra og hins vegar til fjármálaráðherra, um það einfaldlega hvaða upplýsingar við höfum í höndunum um þær fjárfestingar sem eru í gangi núna. Við erum með þessi gögn, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir benti hér á. Þau eru til hjá sveitarfélögunum. Þau eru til hjá Skipulagsstofnun. En það virðist vera að þau skili sér ekki inn, jafnvel ekki sem hagtölur, sem við byggjum síðan stórar ákvarðanir á sem snúa að fjármálum ríkisins. Það sýndi sig t.d. að spár um íbúðafjárfestingar árið 2015 gengu alls ekki eftir. Maður spyr sig hvort það sé vegna þess að við höfum ekki nægilega góð gögn.

Ég vil að lokum hvetja ráðherranna til þess að huga að fjölbreytni þannig að við séum ekki bara að tala um þéttingu svæða heldur hvernig við getum hraðað skipulagsferli almennt, hvernig við getum auðveldað einstaklingum jafnt sem lögaðilum að byggja. (Forseti hringir.) Það hefur sýnt sig að við höfum ekki náð að viðhalda nægilega vel þekkingunni eftir hrun, við misstum fólk og tæki úr landi. En við erum hins vegar með ungt og hraust fólk sem hefði hugsanlega áhuga á því í dag að byggja sjálft. Af hverju tryggjum við ekki fjölbreytnina og, að lokum, samtalið við sveitarfélögin?



[16:51]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna og öllum þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni; hún hefur verið mjög gagnleg fyrir mig. Eins og hv. þm. Logi Einarsson kom inn á þá er kolefnisspor — ég hef verið á kafi í loftslagsmálum eftir að ég tók við embætti — byggingariðnaðarins gríðarlega hátt. Þess vegna skiptir miklu máli að gera vel í byggingarreglugerð, svo að við séum ekki að byggja húsnæði sem er svo kannski ekki nægilega gott eða ekki eftir nægilega ígrunduðu skipulagi eða hentar ekki; húsnæði sem þarf þá að rífa niður og byggja annað. Það gengur ekki svona.

Ég vil hafa það á hreinu að í allri umræðu sem á sér stað, alla vega í mínu ráðuneyti, er ekki verið að ræða um að slaka á byggingarreglugerð, alls ekki, heldur að lagfæra ferla og bæta skilvirkni stofnana og eftirlitsaðila til að hlutirnir geti gengið betur fyrir sig. Aðgengi, neytendavernd og gæði skipta auðvitað höfuðmáli. Við megum ekki breyta byggingarreglugerð til þess að fórna þessu. Það held ég að sé ekki hugmynd eins né neins.

Varðandi það sem kom hér fram frá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og hv. málshefjanda, um það hvað sé á leiðinni inn á markaðinn, er það alveg rétt að svo virðist vera að ekki séu til samræmdar hagtölur um þau mál. Það skiptir líka öllu máli fyrir ríkissjóð og alla (Forseti hringir.) fjármálaframsetningu að við vitum hvað er að fara koma, vitum um þá þenslu sem kannski er væntanleg svo að við getum hagað öðrum fjárfestingarverkefnum til samræmis. Þetta er til vinnslu hjá Skipulagsstofnun. Ég vonast til að við getum fært eitthvað fram sem fyrst.