146. löggjafarþing — 33. fundur
 27. feb. 2017.
radíókerfi og fjarskiptakerfi.
fsp. SSv, 137. mál. — Þskj. 196.

[19:16]
Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það var greint frá því á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar þann 26. janúar sl. að truflunum í almennum radíókerfum hefði fjölgað til muna hér á landi. Tafla sem birt er með þessari frétt sýnir að þetta hefur gerst á undanförnum tveimur árum. Þar sem radíókerfin eru mjög mikilvægur þáttur í samskiptum milli einstaklinga og einnig til að stjórna ýmiss konar mikilvægum stjórn- og samskiptabúnaði svo sem vegna flugumsjónar, vöktunar af ýmsu tagi, viðvörunar og boðunar til að mynda í heilbrigðiskerfinu og vegna náttúruvár, þá geta bilanir á radíókerfum haft mjög alvarlegar afleiðingar. Þróun þessarar bilanatíðni í radíókerfum er uggvænleg og felur í sér ákveðinn öryggisbrest. Því tel ég rétt að spyrja ráðherra hvernig hann telji að bregðast skuli við slíkum truflunum í almennum radíókerfum hér á landi og þeim nefnda öryggisbresti sem þeim fylgir.

Hin spurningin lýtur að þróun nettenginga og fjarskiptakerfa hér á landi, en þannig er að ráðist hefur verið í lagningu ljósleiðara hér á landi og verður að ætla að það lagnakerfi muni verða grunnþáttur í nettengingum og fjarskiptum hér á landi í fyrirsjáanlegri framtíð. En gangi áætlanir erlendra stórfyrirtækja eftir þá gæti orðið mögulegt að nota samband um gervihnetti til nettenginga innan fárra ára.

Þar með er forvitnilegt að fá skoðun ráðherra á því eða upplýsingar hjá honum um það hvort fylgst sé með þróun gervihnattatækni með markvissum hætti af hálfu íslenskra stjórnvalda. Einnig spyr ég hvernig best sé að tryggja fjarskiptaöryggi Íslendinga bæði innan lands og við umheiminn. Hvaða þýðingu telur hæstv. ráðherra að eignarhald á þessum fjarskiptabúnaði og flutningskerfum hafi í því sambandi?

Hér er því um að ræða tvær spurningar, annars vegar um það hvernig bregðast skuli við truflunum í almennum radíókerfum með tilliti sérstaklega til öryggissjónarmiða og svo hins vegar varðandi þróun nettenginga og fjarskiptakerfa með tilliti til nýrrar tækni og mögulegra nettenginga um gervihnetti.



[19:18]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessar spurningar. Það er alveg rétt að orðið hefur vart við auknar truflanir í radíókerfunum okkar. Í frumvarpi til breytinga á fjarskiptalögum sem nýlega var kynnt á vefsíðu ráðuneytisins er m.a. fjallað um breytingar á árgjöldum fyrir notkun á tíðnum. Þar kemur fram að tekjum til Póst- og fjarskiptastofnunar af þessum gjöldum sé ætlað að standa undir kostnaði við truflanavakt í ljósi fyrirséðrar aukningar á fjarskiptatruflunum og á komandi árum vegna aukinnar nýtingartíðni rofsins. En besta leiðin til að minnka áhættu eða hættu á truflunum er að auka á fræðslu um innflutning ólöglegra tækja, þ.e. tækja sem ekki eru CE-merkt og fræðslu um rétta uppsetningu endurvarpa.

Í því sambandi má geta þess að fyrir liggur nýleg tilskipun um vottun þráðlauss sendibúnaðar nr. 214/53 sem stendur til að innleiða í íslensk lög. Í henni er gert ráð fyrir að eftirlitsstjórnvald hafi sektarheimildir ef búnaður uppfyllir ekki kröfur viðurkenndra tæknistaðla sem leitt getur til þess að búnaðurinn valdi fjarskiptatruflunum. Hér er um að ræða sektarheimild sem fyrst og fremst mundi beinast að sölu og innflutningsaðilum þráðlauss sendibúnaðar. Stefnt er að því að innleiða þessa tilskipun á haustþingi.

Jafnframt kemur til greina að breyta fjarskiptalögum á þann hátt að Póst- og fjarskiptastofnun hafi almenna sektarheimild gagnvart þeim aðilum sem starfrækja búnað sem veldur fjarskiptatruflunum. Sérstaklega kemur til skoðunar að mæla fyrir um slíkar sektarheimildir ef um ítrekuð brot er að ræða. Hafa verður í huga að fjarskiptatruflanir skapa ekki eingöngu hættu á að rof verði á mikilvægum fjarskiptum á borð við flug- og neyðarfjarskipti, heldur getur einnig farið mikill tími og kostnaður við að greina og staðsetja truflanirnar.

Hvernig við sjáum fyrir okkur þróun nettenginga og fjarskiptakerfa hér á landi með tilliti til tækni á borð við nettengingar og gervihnetti og hver séu viðhorf okkar til eignarhalds á slíkum kerfum með tilliti til fjarskiptaöryggis? Nettengingar í gegnum gervihnetti nýrra staðla á svæðum þar sem ekki er möguleiki að bjóða þjónustu í öðrum fjarskiptakerfum, t.d. fastlínu- eða farnetsþjónustu eru almennt mjög dýrar og bjóða ekki upp á gæði þjónustu, hraða og svartíma sem notendur eiga að venjast. Það er því ekki fyrirséð að nettengingar í gegnum gervihnetti verði almennur valkostur við útbreiðslu nettenginga á landsvísu. Sem dæmi má nefna mun fjarskiptasjóður færa tíu síðustu heimili af netsambandi um gervihnött yfir á aðra gerð nettenginga fyrir sumarið 2017. Flest voru slík heimili um 50 talsins árið 2010 en þeim hefur fækkað jafnt og þétt, þá einkum með tilkomu aukinnar útbreiðslu farnets á markaðslegum forsendum, einkum 3G, en einnig með sértækum aðgerðum. Nettengingar um gervihnött munu þó áfram nýtast til að koma á fjarskiptasambandi á hafsvæðum.

Hvað varðar þann lið spurningarinnar sem snýr að fjarskiptaöryggi er það skoðun okkar að áfram verði starfrækt öflugt fjarskiptakerfi hér á landi. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort slíkt kerfi þurfi óhjákvæmilega að vera að hluta eða öllu leyti í eigu hins opinbera. Þó verður að hafa í huga að hér er um að ræða almannaþjónustu sem nú er fjármögnuð að mestu leyti af hinu opinbera.

Núverandi neyðarfjarskiptakerfið TETRA sem starfrækt er af Neyðarlínunni býr þó ekki yfir eiginleikum til háhraðagagnaflutnings. Við framtíðarþróun fjarskiptakerfa fyrir öryggis- og neyðarþjónustu hefur verið horft til aukins hraða, háhraða, gagnflutningsgetu og horfa hin Norðurlöndin í þá átt. Búast má við að það verði sama þróun hér á landi.

Ráðuneytið hefur óskað eftir því við Póst- og fjarskiptastofnun að stofnunin taki það til skoðunar hvaða möguleikar séu fyrir því að skilgreina sérstakt tíðnisvið fyrir háhraða gagnflutning í öryggisfjarskiptum, hvort sem það verður með áframhaldandi þróun á TETRA-kerfinu eða með annarri tækni.

Nettengingar um gervihnött eru einu möguleikarnir til að sinna nettengingum á skipaleiðum á norðurslóðum utan svæða sem ná farnetsþjónustu frá landi. Þeir gervihnettir sem eru á sporbaug um miðbaug eru þeim takmörkunum háðir vegna lögunar jarðar að þeir dekka ekki svæðið norðan 72. breiddargráðu. Það er því mikilvægt að Ísland beiti sér ásamt öðrum þjóðum í Norðurskautsráðinu að fleiri pólgangandi gervihnöttum verði komið á braut um jörðu. Það er sérstaklega mikilvægt vegna öryggismála, vegna aukinnar siglingaumferðar um þessi svæði.



[19:23]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. frummælanda fyrir að vekja máls á mikilvægu efni sem tengist grundvallarinnviðum samfélagsins. Af því að hæstv. ráðherra nefndi TETRA-kerfið er það ágætt dæmi um hversu alvarlegar afleiðingar það hefur ef illa tekst til með þessi kerfi. Skipta þurfti út á einu bretti öllum TETRA-stöðum landsins af því að þær voru útsettar fyrir hlerunum og ekki sá öryggissamskiptamáti sem ætla mátti. Í þeim fréttum sem bárust nú í janúar frá Póst- og fjarskiptastofnun af truflunum kom jafnframt fram að það væri aðallega skortur á mannafla og tækjum sem stæði stofnuninni fyrir þrifum á truflanavaktinni, sem kemur séstaklega niður á landsbyggðinni.

Mig langar að spyrja ráðherrann: Ætlar hann að taka sérstaklega á þessu? Er hann með áform um að færa framkvæmdahluta (Forseti hringir.) fjarskiptaáætlunar, sem gilti árin 2011–2014 en engin nýrri (Forseti hringir.) áætlun er til?



[19:25]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði til þess að spyrja ráðherra um annars konar tækni sem væri hægt að nýta til dreifingar á netsambandi, t.d. Super Wi-Fi sem notar lægri tíðni en sjónvarpstíðnina til þess að ná tengingum við netið og er mun langdrægari en núverandi þráðlaus tækni, og hvort einhver annars konar tækni en gervihnattasamband hafi verið skoðuð til þess að ná tengingu í dreifðum byggðum eða jafnvel heilum borgum.



[19:26]
Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja ráðherrann, fyrst hann var að tala um stöðlun fjarskiptabúnaðar á Íslandi, hvort það hafi komið til tals að staðla búnað á fiskiskipum þar sem borið hefur á því að menn séu ekki með búnað sem hefur tvívöktun rása og þar af leiðandi er ekki verið að hlusta á tilskilda neyðarrás á sama tíma og menn eru að sökkva í kringum þá. Fyrst það á að fara að endurskoða þessi lög þá væri mjög áhugavert að það yrði alla vega tekið tillit til þess.



[19:26]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Mér líður pínulítið eins og ég sé maðurinn sem er að berjast gegn litasjónvarpinu vegna þess að ég er að minna á að það sé ekki komið svart/hvítt sjónvarp alls staðar eins og var hér fyrir örfáum áratugum þegar þá umræðu bar hvað hæst.

Mig langar einfaldlega að minna hæstv. ráðherra á, við áttum orðastað um þetta á dögunum, að það er því miður ekki þannig að allir hafi almennilegan aðgang að netinu í dag. Í frumvarpi sem hæstv. ráðherra leggur fram í næsta mánuði, samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, um nethlutleysi og innleiðingu á TSM-reglugerð segir, með leyfi forseta:

„Í reglunni felst viðurkenning á því hversu mikilvægur netaðgangur er fyrir hinn almenna borgara í frjálsu og tæknivæddu samfélagi.“

Þetta ættum við að hafa í huga og kannski sérstaklega þegar kemur að fjármunum til uppbyggingar kerfisins.



[19:28]
Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör og hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni.

Ég tel að þessi litla fyrirspurn hér ætti að vera kveikja fyrir hæstv. ráðherra til þess að taka þennan málaflokk til enn þá markvissari skoðunar í ráðuneytinu vegna öryggisþáttarins en ekki síður þess þáttar sem lýtur að ráðstöfun opinbers fjár og mikilvægi þess að tækniframfarir séu vaktaðar með skipulegum hætti, að það sé ekki undir hælinn lagt hvað sé nýtt og hvað sé mikilvægt o.s.frv. heldur sé þetta gert með skipulegum hætti.

Hér hefur verið rætt um ýmsar hliðar þessara mála. Ég varð þess áskynja sem nefndarmaður í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að það kom meira að segja þannig fyrir að þingflokkur Pírata var ítrekað á undan ráðuneytinu með að nefna tækniframfarir. Ég vænti þess að sú áminning sem var viðvarandi á síðasta kjörtímabili hafi orðið til þess að ráðuneyti fjarskipta sé meira á tánum ef svo má að orði komast varðandi þennan þátt.

Ég neita því ekki að ég er dálítið hugsi yfir svörum hæstv. ráðherra sem lúta að öryggisfjarskiptum. Ég hef miklar mætur á því að leggja áherslu á fræðslu almennt, en þegar um er að ræða svona mikla öryggishagsmuni hefur maður auðvitað áhyggjur af því að ekki sé til öflugra plan B en hæstv. ráðherra fór hér yfir. En ég vænti þess að þessi fyrirspurn og þátttakan í henni í dag verði til þess að hæstv. ráðherra beini sjónum sínum í æ ríkari mæli að þessum málaflokki.



[19:30]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir það að full ástæða er til þess að taka þennan málaflokk til alvarlegrar skoðunar. Það eiga sér stað tækniframfarir á þessum vettvangi sem allt venjulegt fólk á bara mjög erfitt með að fylgjast með og ná utan um. Þarna verðum við að treysta á sérfræðinga. Þess vegna get ég nú bara alls ekki tjáð mig um það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var að vísa til um eitthvert Super Wi-Fi áðan. Ég verð að vísa til einhverra sem þekkja þetta betur en ég.

Það er auðvitað alveg rétt sem hv. þm. Gunnar I. Guðmundsson segir hér með vöktunina á rás 16 eða neyðarrásinni að þetta hefur breyst og þetta er áhyggjuefni. Þetta hefur breyst með öðrum bættum fjarskiptum sem við höfum og tækninni hefur fleytt alveg rosalega hratt áfram á þessu sviði. Ég var starfandi í björgunarsveita- eða neyðargeiranum í mörg ár. Ég man allt frá því við vorum að þvælast um fjöll og firnindi með einhverjar CB-stöðvar sem heyrðist ekki í fyrr en maður var kominn eitthvert út á örkina. Síðan byggði Slysavarnafélagið Landsbjörg upp mjög öflugt VHF-neyðarkerfi með endurvarpssendum út um allt land. Það kerfi er svo sem til enn þá og því er við haldið, en það varð gríðarleg breyting á öllu umhverfi þegar TETRA-stöðvarnar komu. Það var auðvitað leitt þetta hlerunarmál sem kom upp, en það var tæknivandamál sem var leyst og var til lausn á. Við munum örugglega sjá mikla þróun á þessu.

Þetta kemur auðvitað inn á það sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði áðan varðandi tengingarnar og aðgang að netinu, en þar erum við að horfa á algjöra byltingu á landsvísu á þessu kjörtímabili. Við erum með fullfjármagnaða núna, miðað við áætlanir okkar, netvæðingu landsins (Forseti hringir.) þar sem yfir 99% af öllum heimilum í landinu munu verða beintengd við háhraðanet.