146. löggjafarþing — 37. fundur
 1. mars 2017.
sérstök umræða.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:27]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er hingað komin til þess að eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um framtíðarsýn hans í málaflokknum. Mig langar til að byrja mína umræðu á því að nefna þá undirskriftasöfnun sem umlukti í rauninni alla opinbera umræðu í aðdraganda kosninga og snerist um það að krefjast þess að Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins. Þetta varð m.a. til þess að allir flokkar, held ég, hafi sett heilbrigðismálin í forgang og það er meira að segja svo að hæstv. ríkisstjórn segir í samstarfsyfirlýsingu sinni að sá málaflokkur sé efst á blaði og hæstv. ráðherra fer þar auðvitað með mikilsvert hlutverk.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að það eru sannarlega líka blikur á lofti. Við þekkjum það í stjórnmálum á öllum tímum að peningaöflin sækja að velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu þegar vantar viðnám fyrir fjármagnið, vantar leiðir til þess að hagnast, að þá er sótt í innviði almannahagsmunanna. Það höfum við séð fyrr og nú.

Það eru ekki síður blikur á lofti nú en fyrr og kannski einmitt með mjög afgerandi hætti þegar umsókn einkaaðila um að fá samning við Sjúkratryggingar Íslands um eitthvað sem er ekki hægt að kalla annað en einkarekið sjúkrahús liggur fyrir og hæstv. ráðherra stendur frammi fyrir því að taka afstöðu til þess. En um leið hefur hæstv. ráðherra sagt bæði í ræðu og riti og á Alþingi jafnvel að hann vilji fullvissa okkur og Alþingi, þingheim, um það að hann muni ekki gera grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu. Það eru hans orð. Það standi ekki til. Hann vilji vinna að heildstæðri heilbrigðisstefnu áður en nokkuð annað verði gert, svo ég vitni beint í orð hans. Það er afar mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að hægt er að gera býsna miklar breytingar á núverandi kerfi á grundvelli gildandi laga. Þess vegna er það svo að ekki eru allar breytingar þannig sem gætu verið í pípunum sem þyrftu að fara til umfjöllunar á Alþingi, og eru m.a. breytingar sem lúta að rekstri einstakra stofnana. Til að mynda sáum við það á síðasta kjörtímabili að því er varðar einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Spurningin sem liggur því í loftinu er í fyrsta lagi: Hver telur hæstv. ráðherra að séu eðlileg framlög til heilbrigðiskerfisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Þá er sérstaklega spurt um framlög til opinbera kerfisins, þ.e. framlög til opinbera kerfisins í samanburði við einkareknu kerfin. Við vitum að það hefur verið svo á undanförnum árum að opinber framlög til einkareknu þjónustunnar hafa vaxið hlutfallslega meira svo tugprósentum nemur en til hinnar opinberu þjónustu.

Þarna er í raun og veru mjög hallað á og við verðum að muna það og halda því til haga að þarna er alltaf um að ræða fjármögnun frá almenningi, sama hvert féð rennur. Þó að sett sé meira fé í heilbrigðisþjónustuna þýðir það ekki endilega að stutt sé við hið opinbera kerfi sem snýst um jöfnuð.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hver sé afstaða hans til skiptingar fjármuna til málaflokksins.

Loks vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra, því að hann býr nú vel að vera með öflugan landlækni sér við hlið og til að gefa sér ráðgjöf í málefnum heilbrigðisþjónustunnar, hvort hann er sammála landlækni að því er varðar mikilvægi þess að nýta lýðheilsutæki á borð við einkasölu ríkisins á áfengi til að takmarka aðgengi að þeirri vöru í samræmi við raunar opinbera stefnu ríkisins í vímuefnamálum.

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hans til sykurskatts með svipuðum rökum, en þarna er í hvoru tveggja dæminu um að ræða lýðheilsutæki.



[15:32]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa sérstöku umræðu og fyrir ræðu hennar, góðar hugleiðingar og ágætar spurningar. Ríkisstjórn Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins hefur sett heilbrigðismálin í forgang, eins og hv. þingmaður tók fram í ræðu sinni, og í stefnu ríkisstjórnarinnar er sérstök áhersla á heildræna nálgun á heilbrigðisþjónustuna og að landsmenn hafi aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hér er ég að vitna beint í stjórnarsáttmálann en líka vegna þess að hv. þingmaður minntist á það að ég hef, svo ég vitni, í ræðu, riti og meira að segja á Alþingi rætt sérstaklega um að heilbrigðismálin eigi að vera í forgangi og ég vilji setja heildræna heilbrigðisstefnu, horfa yfir allt sviðið áður en ég fari að gera einhverjar stórar breytingar á kerfinu eins og það er. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að það sem ég hef sagt í ræðu, riti og á Alþingi stendur jafn mikið hér í dag og það gerði þegar ég sagði það síðast.

Það er tekið fram í stjórnarsáttmálanum að heilbrigðismálin séu sérstakt forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Það er í takt við þá umræðu sem hv. þingmaður minntist á í kjölfar m.a. stórrar undirskriftasöfnunar og margra skoðanakannana þar sem kemur fram að mikill meiri hluti landsmanna telur að heilbrigðismálin eigi að vera í forgangi. Það er þess vegna fyrir mér mjög mikilvægt að þetta sé fyrsta atriðið og aðalatriðið sem dregið er upp í stjórnarsáttmálanum sem áhersluatriði og réttilega mikil ábyrgð sem hvílir á þeim sem hér stendur.

Þegar við tölum um að setja heilbrigðismálin í forgang erum við að tala um að auka fjármagn í málaflokkinn. Við erum að tala um uppbyggingu á innviðum heilbrigðisþjónustunnar, bæði varðandi aðstöðuna en ekki síður varðandi mannaflann, starfsaðstöðu heilbrigðisstétta og við þekkjum umræðu frá síðustu dögum um stöðuna þegar kemur að hjúkrunarfræðingum. Það skiptir miklu máli fyrir okkur, ekki bara í skammtímanum heldur til lengri tíma, að við byggjum undir heilbrigðisstéttirnar.

Þessa dagana er í gangi vinna að undirbúningi fimm ára fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar og í því samhengi er auðvitað verið að skoða bæði útgjaldaþörf en líka tekjuáætlun og útlit fyrir næstu árin. Það er dálítið erfitt að tala nákvæmlega um upphæðir á meðan þessi vinna er akkúrat í gangi en það er alla vega ljóst að með þeirri áherslu um að heilbrigðismálin séu í forgangi er ætlunin að auka í málaflokkinn og að auka hlutfallslega, sem hlutfall af landsframleiðslu. Ég hef samt verið dálítið efins um að ríghengja viðmiðið við ákveðna prósentu af landsframleiðslu vegna þess að landsframleiðsla skoppar upp og niður og við viljum heldur ekki festa okkur í fyrirframgefinn sparnað ef landsframleiðsla minnkar.

Ég vil minna á að þessi viðspyrna, eða hvað við eigum að kalla það, í heilbrigðiskerfinu, fjármögnun heilbrigðiskerfisins, er löngu hafin. Bara á milli fjárlaga fyrir árið 2016 og fjárlaga fyrir árið 2017, fjárlög sem voru samþykkt á Alþingi áður en ríkisstjórnin myndaði meiri hluta og tók við völdum, er gert ráð fyrir 10% aukningu á milli ára til heilbrigðismála. Það munar um minna. Auðvitað er stór hluti af því sem fer í fastar hækkanir, launaliði o.s.frv., en þar er verið að stíga stór skref.

Uppbygging nýs Landspítala er sömuleiðis mjög stórt skref.

Ég verð eiginlega að biðjast afsökunar á að ég hafi ekki komist nema rétt inn í umræðuna og það sem ég hafði undirbúið fyrir hana og vona að ég komi betur inn í hana í seinni ræðu og tali þá enn hraðar en mér tókst núna.



[15:37]
Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þetta mál til umræðu. Mig langar að nýta tækifærið til að deila með ykkur stefnu Pírata í heilbrigðismálum. Þar kemur m.a. fram að við eigum öll rétt á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, að jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé grundvallarmannréttindi sem allir eigi að fá að njóta, að stefnt skuli að því að heilbrigðisþjónusta og nauðsynleg lyfjakaup verði gjaldfrjáls, að aðbúnaður og kjör heilbrigðisstarfsfólks verði bætt verulega og fjársvelti heilbrigðiskerfisins hætt.

Píratar vilja einnig færa sálfræðiþjónustu inn í almannatryggingakerfið, færa þjónustu tannlækna inn í almannatryggingakerfið og viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir vímuefnanotendur í vanda, í stað refsingar. Jafnframt leggja Píratar áherslu á langtímastefnumótun um forvarnir. Í fyrsta sinn í mannkynssögunni eru fleiri dauðsföll á heimsvísu tengd offitu en undirþyngd — íhugið þessa staðreynd augnablik. Neysluvenjur eru hluti af uppeldi og menntun og í ljósi þess að neyslutengdir sjúkdómar hafa breiðst út, jafnvel meðal yngstu aldurshópa, sem sagt sykursýki og ýmsir fylgikvillar offitu og hreyfingarleysis, virðist augljóst að stórátak í forvörnum og fræðslu um gildi góðs mataræðis og hreyfingar er nauðsynlegt, ekki bara til að bæta lífsgæði og lífslíkur þjóðarinnar og hjálpa fólki til að taka meiri ábyrgð á eigin heilsu, heldur einnig til að minnka álagið á heilbrigðiskerfið.

Þarna er atriði sem ég myndi vilja fara lengra með. Hvernig væri að byrja á forvörnum í skólakerfinu? Um leið og börn hafa þroska til á að kenna heilbrigða lífshætti og forvarnir í skólum. Við þurfum nefnilega að vinna saman til að finna lausnir og horfa heildrænt á kerfin okkar. Það væri gagnlegt að heyra hvort hæstv. heilbrigðisráðherra fyndist ekki ráð að spjalla við hæstv. menntamálaráðherra um það hvort þeir gætu ekki unnið saman að því að auka hlutdeild forvarna í heilbrigðisþjónustu.



[15:39]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu og ætla að byrja þar sem síðasti hv. þingmaður endaði, á forvörnum í heilbrigðisþjónustu. Ég held að þær séu einn af stærstu þáttunum í þessu efni og mun fjalla um þær, hvernig fjármagnið kemur við heilbrigðisþjónustuna og mikilvægi nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu.

Forvarnirnar eru mjög víðtækur þáttur og ætla ég að nefna nokkur dæmi. Fyrst er það sem ég hef talað hvað mest um, þ.e. að umferðaröryggi er heilbrigðisþjónusta. Umferðarslys á Íslandi valda því að 200 einstaklingar þurfa á heilbrigðiskerfinu og almannatryggingakerfinu að halda á hverju ári. Umferðarslysin kostar samfélagið um 50 milljarða.

Svo þurfum við að seinka þörf fólks til að fara í hjúkrunarrýmin, reyna að stuðla að því að fólk sé sem heilsuhraustast sem lengst. Einn liður í því er til að mynda að stytta biðlista eins og eftir liðskiptaaðgerðum. Þá held ég að við þurfum að fara færar leiðir í því efni, hvort sem það er hjá einkareknum eða opinberum aðilum. Við eigum ekkert að vera feimin að semja við Klíníkina varðandi það. Ég held að það sé töluvert af fólki sem þarf mun meira á heilbrigðiskerfinu að halda ef það þarf að bíða lengi eftir liðskiptaaðgerðum með tilheyrandi kostnaði.

Þá komum við að fjármagninu. Við þurfum að nýta sem best það fjármagn sem fer í heilbrigðiskerfið. Þar held ég að fjölbreytt rekstrarform gefi okkur svigrúm til að fara mismunandi leiðir og hvernig við getum gert það sem best. Það er líka mikilvægt að hafa nýsköpunina þar þannig að starfsfólkið sjálft sé tilbúið að finna nýjar leiðir og hafi áhuga á að starfa í heilbrigðiskerfinu, ef þar er skapandi umhverfi þar sem það getur látið krafta sína njóta sín. Oftar en ekki eru (Forseti hringir.) öflugar konur, eins og hjúkrunarfræðingar og fleiri sem eru í nýsköpuninni. Við eigum að gera þeim það kleift. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:42]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Undanfarin ár hefur það verið skýr og sanngjörn krafa landsmanna að allir hafi góðan og greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Krafan er að allir hafi aðgang óháð stöðu, búsetu eða efnahag. Hún er mjög skiljanleg því að þrátt fyrir að á síðasta kjörtímabili hafi verið gefið verulega í til málaflokksins þarf meira til. Það þarf að bæta inn meira fjármagni, bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna, aðstöðu sjúklinga og síðast en ekki síst þarf stefnumótun í heilbrigðismálum.

Í því samhengi þarf að líta til þjóðarsjúkrahúss okkar landsmanna, þ.e. Landspítalans, en einnig til þeirra öflugu heilbrigðisstofnana sem við eigum víða um landið. Þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun er forgangsmál Framsóknarmanna á þessum þingvetri. Markmið tillögunnar er að hæstv. heilbrigðisráðherra vinni heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Þessa áætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum því að þar liggur þekkingin, það er fólkið sem þekkir til aðstæðna, sóknarfæra og þess sem betur má fara í kerfinu. Okkur Framsóknarmönnum þykir mikilvægt að fagfólkið komi víða að af landinu því að aðstæður geta verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða heilsugæslu á landsbyggðinni eða bráðadeild Landspítalans, svo við tökum dæmi.

Núna er þetta forgangsmál okkar Framsóknarmanna í umsagnarferli innan hv. velferðarnefndar Alþingis og hafa nokkrar umsagnir þegar borist um málið, m.a. frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem segir að félagið leggi áherslu á að við gerð heilbrigðisáætlunar fyrir Ísland verði haft samstarf við fagfólk í heilbrigðisstéttum og lýsir því yfir að hjúkrunarfræðingar séu m.a. tilbúnir til þátttöku í þeirri vinnu.

Ég ætla því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé sammála okkur Framsóknarmönnum og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga um mikilvægi þess að fagfólk komi að gerð þessarar áætlunar og hvort hann ætli sér að styðja málið. Inn á önnur atriði kem ég í seinni ræðu minni.



[15:44]
Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir þessa sérstöku umræðu hér í dag um framtíðarfyrirkomulag heilbrigðisþjónustu hér á landi. Ég vil taka undir með málshefjanda þegar hún segir að það hafi verið virkilega ánægjulegt að allir flokkar gátu sameinast um það í aðdraganda kosninga að það þyrfti að setja heilbrigðismálin í forgang. Þetta var eitthvað sem við upplifðum öll í þessum „rúndum“ sem við tókum áður en ríkisstjórnin var mynduð, þetta var eitthvað sem við gátum öll verið sammála og sameinast um.

Við erum nefnilega öll sammála um að það er algert grundvallaratriði að allir hafi aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu. Þetta er einmitt forgangsmál hjá ríkisstjórninni eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kemur réttilega inn á. Ein leið til að standa við þetta tengist einmitt öðru forgangsmáli ríkisstjórnarinnar, að vinna að því að ná fram stöðugleika í efnahags- og peningamálum hér á landi. Eitt meginmarkmið með því, fyrir utan auðvitað að auka lífsgæði okkar allra, allra landsmanna með auknum stöðugleika, er að ná niður vaxtakostnaði. Með því að ná niður vaxtakostnaði höfum við nefnilega úr meiru að spila inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið, velferðarkerfið almennt, án þess að þurfa að auka skattbyrði á landsmenn. Allir græða. Meiri stöðugleiki þýðir aukin lífsgæði fyrir alla og ríkið hefur úr meiru að spila.



[15:46]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu sem sannarlega er tímabær. Vonandi leikum við oft þetta mikilvæga grunnstef í samfélaginu; heilbrigðisþjónustan, velferðarmálin.

Hver er framtíðarsýn okkar í heilbrigðisþjónustu? Er til einhver stefna í heilbrigðismálum? Um það er deilt. Velferðarráðuneytið segir að stefnan sé skýr en lærð skoðun á því stenst því miður ekki. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, doktor í stjórnsýslufræðum, hefur bent á ýmislegan vanda í skipulagi heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Hún segir að því miður séu heilbrigðismálin sjaldnast skoðuð í heild, við séum helst upptekin af því að bregðast við hrópum og köllum, slökkva elda og takast á við það sem hæst ber hverju sinni, jafnvel bregðast við persónulegum uppáhaldsviðhorfum fagfólks. Framtíðarsýn eða mótaðar hugmyndir um hvert skuli halda séu ekki til. Ráðamenn þjóðarinnar hafi á undangengnum árum tileinkað sér í stórum stíl þá trú að húsbygging, bygging spítala, sé stefnumótun í heilbrigðismálum.

Eins er farið með ákvarðanir um skiptingu fjár milli stofnana annars vegar og sérfræðiþjónustunnar utan þeirra hins vegar. Hvers vegna er það ákveðið að ofan hvort aðgerðir og meðferð sjúkdóma fari fram innan eða utan sjúkrahúsa? Hvers vegna fá ekki heilbrigðisstofnanir landsins að stunda þá sérfræðilæknisþjónustu sem þær hafa getu og vilja til og fái að sitja við sama borð og læknastofur sérfræðinga úti í bæ? Fái tækifæri til að horfa til einstaklingsins og þeirrar þjónustu sem hann þarf á að halda? Hvers vegna fá heilbrigðisstofnanir ekki að veita þá þjónustu sem þær telja sér hagkvæmt að framkvæma og fá greitt fyrir það án þess að þurfa að spyrja ráðamenn heilbrigðismála hvort það rúmist í þeirra verkahring?

Svörin við þessum spurningum telur Sigurbjörg að felist í fyrirkomulaginu á fjármögnun þjónustunnar sem heldur heilbrigðisstofnunum landsins í spennitreyju með ómarkvissum og ógagnsæjum hætti. Því þarf að breyta og það er hægt.



[15:48]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þegar rætt er um framtíðarsýn í heilbrigðismálum held ég að segja megi að meðal landsmanna sé sátt og sterk krafa um það í fyrsta lagi að heilbrigðismálin eigi að njóta forgangs í uppbyggingu innviða og bættri þjónustu á komandi árum. Ég held í öðru lagi að líka sé breið sátt um grunnhugmyndafræðina, þ.e. að við rekum opinbert heilbrigðiskerfi, fjármagnað á sameiginlegum grunni með skattfé og að allri gjaldtöku sé stillt mjög í hóf ef hún yfir höfuð fyrirfinnist gagnvart notendum. Í þriðja lagi held ég að sátt sé um innra skipulag heilbrigðisþjónustunnar svo langt sem það nær, þ.e. að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaður í kerfinu og að hana þurfi að efla sem slíka. Það er líka sátt um þörfina fyrir uppbyggingu á nýjum Landspítala þó að eitthvað hafi verið deilt um staðsetninguna.

Þá má spyrja hver sé vandinn ef við erum sammála um þetta meira og minna, a.m.k. þjóðin og að einhverju leyti gildir það um stjórnmálin. Hver væri vandinn ef t.d. hæstv. heilbrigðisráðherra kæmi í ræðustólinn og segði: Já, ég er sammála þessum grunnstoðum kerfisins á Íslandi, það á byggjast upp og eflast, það á að vera á sameiginlegum grunni, fjármagnað af sameiginlegu aflafé landsmanna í gegnum skattkerfið, gjaldtaka á ekki að viðgangast og heilsugæslan og nýr Landspítali eru þar grunnstoðir?

Vandinn er að ágeng öfl í þessu landi eru alltaf að reyna að troða inn breytingum sem ganga í öfuga átt. Kerfið er orðið miklu blandaðra en það ella þyrfti að vera. Þar liggur vandinn. Og þar þarf hæstv. heilbrigðisráðherra að standast prófið. Það verður að setja því skorður að við veikjum sífellt hið opinbera heilbrigðiskerfi og setjum milljarða á milljarða ofan í viðbót á ári hverju út í einkareksturinn. Það verður að tala mannamál um þetta. Hvers konar heilbrigðiskerfi viljum við á Íslandi? (Forseti hringir.) Viljum við sameiginlegt, opinbert heilbrigðiskerfi að norrænni eða kanadískri fyrirmynd eða viljum við færa okkur í átt til Bandaríkjanna?



[15:50]
Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa góðu og þörfu umræðu. Mig langar að koma með vinkil um framlögin til heilbrigðiskerfisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Mér finnst það áhugaverð umræða, tók þátt í því á þeim tíma og fannst þetta góð hugmynd. Ég er enn á því og mér finnst þetta líka vera partur af þeirri heildarstefnumótun sem er verið að boða. Þetta er einn mælikvarði, en án þess að ákveða fyrir fram að framlögin séu hlutfall af vergri landsframleiðslu finnst mér mikilvægt að skilgreina þjónustuna. Mig langar að taka sem dæmi öldrunarmálin sem mér finnst gríðarlega mikilvæg. Þau verða klárlega vaxandi kostnaður til framtíðar ef við bregðumst ekki við.

Nú er búið að gera mjög góða lýðheilsustefnu á landsvísu sem mér finnst áhugaverð og held að sé mikilvægt innlegg í heildarstefnumótunina. Ég hef mikinn áhuga á að skoða lýðheilsustefnuna sérstaklega og partur af henni er að öll sveitarfélög verða heilsueflandi samfélög. Partur af lýðheilsustefnunni er líka að markvissar forvarnir fari fram á sviði næringar, hreyfingar, geðræktar og slysavarna svo eitthvað sé nefnt. Kannski er ekki hægt að segja að við séum að spara kostnað en þetta er mikilvægt upp á gæði þjónustunnar og við eigum að nýta allar leiðir til að efla samráð og samstarf ríkis og sveitarfélaga til að tryggja fólki góða þjónustu, sérstaklega góða nærþjónustu.



[15:53]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er kannski ekkert ýkja langt síðan við áttum í mjög sambærilegum samræðum hér á þinginu. Að sjálfsögðu erum við þingmenn frekar óþreyjufull um að fara að fá skýra sýn í þessum málaflokki, enda er þetta sá málaflokkur sem almenningur lagði hvað mesta áherslu á í aðdraganda kosninga og það hefur verið mjög skýrt þegar rýnt er í skoðanakannanir um hvernig almenningur vill að við þingmenn, þar með taldir ráðherrar, forgangsröðum okkar sameiginlegu fjármunum. Heilbrigðiskerfið er þar langefst á blaði ár eftir ár.

Því langar mig í ljósi þessa að spyrja hæstv. Óttar Proppé, ráðherra heilbrigðismála, hvenær við þingmenn getum átt von á því að fá að sjá þessa heildarsýn. Stendur til að við fáum tækifæri til að koma eitthvað að henni áður en hún er meitluð í stein? Ég geri mér grein fyrir því að það er erfitt að koma með langtímaáætlun í svo stórum málaflokki og hef haft veður af því að hæstv. ráðherra hafi leitað í fortíðina, sem er mjög gott því að mikil vinna hefur átt sér stað í ráðuneytinu og víðar. Er ráðherrann kominn eitthvað á leið? Getur hann komið með skýrslu til okkar um hvaða mál það eru sem brenna á ráðherranum, sem verða rauði þráðurinn í veru hans í embætti heilbrigðisráðherra? Síðan væri mjög gagnlegt að heyra hvernig hæstv. ráðherra hefur tekist til að fá það neglt niður að fá fjármuni í þennan málaflokk í langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar.



[15:55]
Hildur Sverrisdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það eru forréttindi að búa í ríki þar sem ríkir þverpólitísk sátt um mikilvægi góðs heilbrigðiskerfis fyrir alla og mikilvægi þess að umræða um það sé til gagns til að bæta alla þjónustu í heilbrigðiskerfinu eins vel og hægt er. Til að svo megi verða verður umræðan oft að vera skýrari. Það hefur sérstaklega borið á að hugtakið einkarekstur virðist oft vera á misskilningi byggt og allt of algengt að þar sé ekki verið að meina rekstur með venjulegri ríkisaðstoð, eins og rétt er, heldur eitthvað allt annað. Sem vinsamlegt dæmi nefni ég orð hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar frá 7. desember sl., með leyfi forseta:

„En yfirleitt erum við að tala um einkarekstur þar sem almannafé er einnig notað til styrktar rekstrinum, með almannatryggingum eða öðru. … ég vil eiginlega ekki kalla það einkarekstur, mér finnst það vera annað. Einkarekstur þar sem hið opinbera borgar með finnst mér vera meira verktaka eða eitthvað því um líkt. Þetta er kannski hugtakanotkun sem væri þægilegt að hafa skýrari. Mér finnst einkarekstur vera þannig að menn eru algjörlega á eigin forsendum og viðskiptavinir borga allan hlutann.“

Forseti. Fyrir utan að þessi orð hv. þingmanns eru ágætt dæmi um mismunandi skilning og tilfinningu fyrir hugtökum nefni ég þau einnig hér til að taka undir með honum um að þessi hugtakanotkun ætti einmitt að vera skýrari. Það er grunnforsenda í allri umræðu um framtíðarsýn heilbrigðiskerfisins sem svo gárast út í samfélagið allt í alla almenna umræðu að notuð séu sömu hugtök yfir sömu þætti heilbrigðiskerfisins til að forða óþarfaruglingi, óvissu og óöryggi um þetta mikilvæga mál hjá fólkinu í landinu.



[15:57]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Eins og í fyrri ræðu minni ætla ég að halda áfram að ræða forgangsmál okkar Framsóknarmanna í þessari umræðu. Í fyrri ræðu minni ræddi ég mikilvægi þess að samstarf sé við starfsmenn í heilbrigðisstéttum við gerð heilbrigðisáætlunar og tekur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga meðal annars undir orð okkar um mikilvægi þess.

Ég ætla að koma inn á önnur atriði þessa máls. Þau eru að við gerð heilbrigðisáætlunar skuli taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Það er nauðsynlegt að mati okkar Framsóknarmanna því að undanfarin ár hafa heilbrigðisstofnanir víða um landið verið sameinaðar. Þær sinna nú margar hverjar heilu landsfjórðungunum og oft er um erfiðan veg að fara á milli starfsstöðva.

Samkvæmt tillögunni skal einnig taka tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða, sumarhúsabyggða, svo að eitthvað sé nefnt. Auk þess skal jafnframt líta til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álaginu af Landspítalanum.

Ég ætla því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé sammála okkur Framsóknarmönnum um mikilvægi þess að efla heilbrigðisstofnanir víða um landið, fela t.d. Kragasjúkrahúsunum hér í nágrenni höfuðborgarinnar aukin sérhæfð verkefni og létta þar með álaginu af Landspítala og bæta inn fjármagni til að styrkja heilsugæslu og bráðaþjónustu á þessum Kragasjúkrahúsum.

Virðulegur forseti. Við hv. þingmenn Framsóknarflokksins vonum að hæstv. heilbrigðisráðherra sé sammála okkur um nauðsyn þess að ráðast í þessi mál því að við verðum að svara því hver framtíðarsýn fagfólks og stjórnmálamanna um heilbrigðismál er, hvert við ætlum að stefna. Viljum við efla heilbrigðisstofnanir víða um landið eða á að bjarga málunum með auknum einkarekstri? Hvað vilja landsmenn? Það hefur komið skýr krafa um það sem við þekkjum öll. Hér er um að ræða stórar spurningar en taka þarf ákvörðun. Það er fyrir löngu orðið tímabært.



[15:59]
Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Forseti. Hér í seinna innleggi mínu vil ég koma því að að það er algjörlega augljóst að við þurfum að skapa svigrúm til þess að endurskoða greiðsluþátttöku almennings með það að leiðarljósi að fólk veigri sér ekki við að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Það er óverjandi að það að greinast með illvígan sjúkdóm kollvarpi fjárhag fólks og fjárhag heimila. Það er óásættanlegt að fólk geti verið í þeirri stöðu hér á landi að það hafi ekki efni á að veikjast. Það er óásættanlegt. Þess vegna hefur verið sett fram skýr stefna um að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu hjá þessari ríkisstjórn. En það er ekki nóg. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu þarf líka að vera gott. Það þarf að vera viðunandi aðstaða til þess að við getum sinnt þeim sem veikjast svo að sómi sé að.

Ríkisstjórnin leggur þess vegna áherslu á að endurbyggingu Landspítala við Hringbraut verði lokið eigi síðar en 2023. Auk þess er gríðarlega mikilvægt að styrkja heilsugæsluna um land allt sem fyrsta viðkomustað. Þar leggjum við líka mikla áherslu á uppbyggingu öldrunarþjónustu.

Síðan talandi um landsbyggðina. Það er gleðiefni að segja frá því að ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á og tekur sérstaklega fram í stjórnarsáttmála að það á að leggja áherslu á að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Ég hlakka til þess að sjá þá vinnu sem verið er að inna af hendi innan ráðuneytisins á því sviði, sem ég vona að við megum eiga von á að sjá eitthvað um fljótlega. Þetta er nefnilega gríðarlega mikilvægt fyrir fólk í landsbyggðakjördæmunum.

Mig langar kannski í seinni ræðu minni að spyrja hæstv. ráðherra hvernig málin standa (Forseti hringir.) í þessum málaflokki og hvenær við megum eiga von á að sjá efni um þetta mikilvæga mál.



[16:01]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar höfum náð ágætum árangri á mörgum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Ég nefni meðferð margra bráðasjúkdóma sem þó skilja eftir einstaklinga sem flestir verða aldrei alveg samir eftir. Þess vegna þurfum við að gefa því meiri gaum að viðhalda heilbrigði og fyrirbyggja sjúkdóma, forvarnir. Í Evrópulöndum, nágrannalöndum okkar, fara tæplega 3% útgjalda til heilbrigðismála í forvarnir að jafnaði. Á Íslandi er hlutfallið helmingi lægra, um 1,6% að líkindum. Þarna liggja tækifærin. Íslenska heilbrigðiskerfið telst til svokallaðra félagslegra kerfa með vísan til heilbrigðiskerfa Norðurlandanna en hefur þó færst nokkuð frá sinni kjörmynd með tilfærslu á rekstri og framkvæmd frá hinu opinbera til einkaaðila, í einkaframkvæmd. Þetta hefur gerst með ómarkvissum og ógegnsæjum hætti og stefnulaust. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að endurteknar rannsóknir sýni svo ekki fari á milli mála að almenningur telur að heilbrigðisþjónustan eigi að vera starfrækt af hinu opinbera.

Þetta gerist þrátt fyrir að erlendar rannsóknir gefi til kynna að sjúkrahús, sem dæmi, sem rekin eru af hlutafélögum á hagnaðargrundvelli eru dýrari í rekstri en sjúkrahús sem ekki eru rekin með þeim hætti og veiti síst betri þjónustu.

Heilsugæslan í landinu býr við mikinn brest. Þetta er mikilvægasti hluti heilbrigðisþjónustu landsmanna. Stjórnvöld gera nú tilraunir með nýtt rekstrarform í heilsugæslunni með einkarekstri. Það hlýtur að vera krafa þegnanna að allar heilsugæslustöðvar í landinu fái að sitja við sama borð og við gagnsæi í fjárveitingum. Það á einnig við um hlutverk og þjónustu annarra heilbrigðisstofnana í öllum landsfjórðungum. Stefnumótun og framtíðarsýn skortir.

En spurt er: Verður allur vandi heilbrigðiskerfisins bara leystur með auknum fjárveitingum? Og svarið er að mínu áliti: Nei. Auknir fjármunir munu aðeins hjálpa til við að (Forseti hringir.) fela þann innbyggða skipulagsvanda sem fjármögnun heilbrigðiskerfisins býr því nú og frestar því að á vandanum verði tekið. Vísa ég í því sambandi til niðurstaðna McKinsey-skýrslunnar sem mjög hefur verið vitnað til.



[16:04]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu. Hann var búinn að gefa okkur fyrirheit um að dýpka þau í lokaræðu sinni. Hann vísar í væntanlega stefnumörkun og segir að áður en farið yrði í stórar breytingar myndi það byggja á almennri stefnumörkun og framtíðarsýn. Þegar hann talaði sjálfur um stöðu heilbrigðiskerfisins 25. janúar 2016 sagði hann sem hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Mér finnst mikilvægt að við komumst frá þvargi um tölurnar, upp eða niður, og einbeitum okkur að því að gera gangskör í alvöruuppbyggingu og áætlun þar um, sem er ekki bara einhvers staðar inn í framtíðina, óljósa framtíð, ef vel gengur, heldur að fylgja eftir þessari tilfinningu í samfélaginu sem við sjáum í þessari undirskriftasöfnun og sjáum trekk í trekk í skoðanakönnunum. Landsmenn vilja sterkari og hraðari uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu eftir langan tíma. Ég kalla eftir því að við sjáum áætlun um það …“

Virðulegi forseti. Nú er þáverandi hv. þingmaður og núverandi ráðherra með þetta verkefni á sínu borði. Ég bið hann að upplýsa þingið um grundvallarafstöðu sína sem pólitískur leiðtogi þessa málaflokks til almenns opinbers kerfis sem fjármagnað er úr sameiginlegum sjóðum, helst án gjaldtöku. Ég bið hæstv. ráðherra að svara þessum spurningum skýrt af því að þetta er grundvöllurinn undir alla stefnumörkun og alla sýn á mögulegar breytingar og alla sýn á ásókn gróðaaflanna í samfélaginu, á innviði samfélagsins og þar með talið heilbrigðiskerfisins.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að standa með opinberu heilbrigðiskerfi í þágu heildarinnar eða ætlar hann að halla sér á hina hliðina og hafa sérstaka samúð með þeim sem hyggjast hagnast á veiku fólki?



[16:06]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Nú ríður á að tala hratt. Í fyrsta lagi sem viðbrögð við tilvitnuðum orðum í þann sem hér stendur frá 25. janúar 2016 um áætlun um hvert skuli stefna. Nokkrum mánuðum eftir það kom fram fjármálaáætlun til fimm ára og á grundvelli hennar 10% aukning til heilbrigðiskerfisins í fjárlögum 2017. Vinna við fimm ára fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar er í gangi og ætti að svara mörgum spurningum sem hér hafa komið fram, í henni mun sjást stefnumörkun í takt við þá áherslu á heilbrigðismálin sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum.

Í sambandi við þau skýru svör sem kallað er eftir frá þeim sem hér stendur um framtíðarsýn á heilbrigðiskerfið er sú skýra sýn í takt við annars vegar stjórnarsáttmálann og hins vegar það sem sá sem hér stendur hefur margoft sagt áður, að ég hef ekki sérstaklega í huga eða langar til að gera stórkostlegar breytingar á heilbrigðiskerfinu nema til að styrkja það og styðja. Í dag fara upp undir 30% af opinberu fjármagni sem fer í heilbrigðisþjónustu á einhvern hátt í rekstur á vegum sjálfseignarstofnana, sjálfstæðra sérfræðinga — eða hvað? Ég hef engar sérstakar áætlanir um að gera stórar breytingar þar á.

Ég tek undir með þeim sem tala um forvarnir. Það er mikilvægt að við horfum á heilbrigðismálin, ekki bara út frá því hvernig við bregðumst við sjúkdómum og áföllum heldur líka hvernig við fyrirbyggjum það með því að byggja undir heilbrigði.

Hér er ég með ansi marga punkta sem ég veit að ég næ ekki að fara yfir en ég vísa enn og aftur til orða í stjórnarsáttmálanum um uppbyggingu heilsugæslunnar, (Forseti hringir.) um uppbyggingu óháð búsetu og óháð fjárhag.

Þegar kemur að neyslustýringu, sykri, áfengi o.s.frv., styð ég lýðheilsumarkmið en ég er ekki fullviss um að það (Forseti hringir.) sé bara ein ríkislausn á öllum málum. En við verðum að taka frekari umræðu síðar. (Gripið fram í: Skrifaðu grein. …)