146. löggjafarþing — 37. fundur
 1. mars 2017.
rafræn birting málaskráa og gagna ráðuneyta, fyrri umræða.
þáltill. OH o.fl., 175. mál. — Þskj. 242.

[17:35]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um rafræna birtingu málaskráa og gagna ráðuneyta. Flutningsmenn tillögunnar ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þm. Logi Einarsson, Guðjón S. Brjánsson, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Einar Brynjólfsson, Smári McCarthy og Viktor Orri Valgarðsson. Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að gera nauðsynlegar ráðstafanir svo að unnt verði að veita almenningi rafrænan aðgang að málaskrám og gögnum ráðuneyta í samræmi við 2. mgr. 13. gr. upplýsingalaga. Ráðherra setji í þessu skyni reglugerð sem kveði á um hvernig birtingu þessara upplýsinga skuli háttað og hvernig tryggður skuli viðeigandi vettvangur og aðbúnaður til að veita aðgang að upplýsingunum.“

Herra forseti. Í 13. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er fjallað um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda. Í 2. mgr. er kveðið á um að stjórnvöld skuli vinna markvisst að því að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf jafnóðum aðgengileg með rafrænum hætti. Flutningsmenn leggja til að forsætisráðherra verið falið að grípa til ráðstafana til að unnt verði að birta rafrænar skrár yfir mál sem eru til meðferðar hjá ráðuneytunum, svo sem á vefnum. Löng hefð er fyrir skráningu mála hjá ráðuneytunum og þar er unnið eftir föstu verklagi við skráningu mála og vistun málsgagna. Rétt þykir að Stjórnarráðið gangi á undan með góðu fordæmi og birti málaskrár sínar á vefnum en stofnanir og embætti ríkisins og sveitarfélaga fylgi á eftir. Þá er mikilvægt að ráðuneytum verði gert mögulegt að kaupa eða láta hanna hugbúnaðarlausn til að birta gögnin á vefnum á notendavænan hátt.

Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um birtingu framangreindra gagna, samanber 4. mgr. 13. gr. upplýsingalaga. Í reglugerðinni þarf m.a. að koma fram hvernig skuli standa að birtingu upplýsinga úr málaskrám ráðuneytanna, hvenær skuli birta þær, hvaða upplýsingar um mál skuli birta og hvaða upplýsingar megi ekki birta, svo sem vegna sjónarmiða um persónuvernd og öryggi ríkisins. Í lokamálslið 4. mgr. 13. gr. er sérstaklega tekið fram að reglugerðir sem settar eru samkvæmt ákvæðinu bindi sveitarfélögin og stofnanir þeirra.

Unnt er að líta til Noregs til fyrirmyndar um birtingu málaskráa á vef en frá 2010 hefur norska ríkið birt málaskrár frá á annað hundrað ríkisstofnana á vefnum: Slóðin er: www.oep.no. Síðan vefurinn var tekinn í notkun hafa norsk stjórnvöld birt þar upplýsingar um u.þ.b. 20 milljónir skjala sem hafa orðið til eða borist við úrlausn mála. Fyrirmæli um birtingu málaskráa og tengdra upplýsinga í Noregi er m.a. að finna í reglugerð um opinber skjalasöfn og í reglugerð settri á grundvelli norsku upplýsingalaganna. Strangar reglur gilda um birtingu upplýsinga úr opinberu norsku málaskránni sem snúa að því að tryggja persónuvernd og að viðkvæmar upplýsingar séu ekki birtar.

Mikilvægi birtingar upplýsinga um mál og athafnir stjórnvalda er ótvírætt. Aukin upplýsingagjöf er til þess fallin að auka gagnsæi stjórnsýslunnar auk þess sem hún veitir aðhald og skapar traust um úrlausn verkefna hins opinbera.

Ég legg til að þegar þessari umræðu er lokið fari málið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Herra forseti. Hvatinn að þessu máli er því miður sá að hæstv. forsætisráðherra ákvað að draga að birta mikilvægar upplýsingar, tvær mikilvægar skýrslur með upplýsingum sem vörðuðu almannahag. Hann ákvað að setja þær ekki fram fyrir kosningar. Þær voru tilbúnar en hann ákvað að draga birtingu þeirra þar til eftir kosningar og eftir stjórnarmyndunarviðræður. Við í Samfylkingunni settumst niður til að hugsa hvernig í ósköpunum væri hægt að koma í veg fyrir að hæstv. ráðherrar ákveði einir og sér, sjálfir, hvenær upplýsingar sem varða almannahag komi fyrir sjónir almennings og þeir hagi sér einhvern veginn með hugarfarinu: Ég á þetta, ég má þetta. Hvernig getum við, löggjafarvaldið sem hefur ákveðnar skyldur og eftirlitsskyldur gagnvart framkvæmdarvaldinu, sett einhverjar reglur fyrir þá til að fara eftir? Þá fékk ég ábendingu um hvernig þetta er gert í Noregi. Þess vegna er þetta mál komið hingað. Ég vona sannarlega að það fái skjóta afgreiðslu.

En þó að þetta hafi verið hvatinn hefur málið, nái það fram að ganga, ótvíræða kosti fyrir upplýsingar, fyrir stjórnsýsluna og gagnsæi hennar og væri augljóslega til hagsbóta fyrir okkur hv. alþingismenn en líka fyrir almenning í landinu. Ég vona að málið fái góða vinnu og greiðan aðgang úr hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd aftur hingað inn í sal til afgreiðslu.



[17:41]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Hv. forseti. Ég vil byrja á að fagna að þessi þingsályktunartillaga hafi verið lögð fram af hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Ég held að þetta sé mjög gott mál. Ég held að við eigum að stefna að því að hafa stjórnsýsluna og gögn og málsmeðferð alla eins opna og hægt er. Ég held að þetta geti verið mjög góður liður í því. Ég held að þetta sé mál sem varði einstaklinga og margs konar hagsmunaaðila, að þeir geti haft greiðan aðgang að því að fylgjast með ferli mála og eftir atvikum nálgast þau skjöl sem mál varða. Ég tek eftir því í greinargerð og þarf ekki að taka fram að það þarf auðvitað að hafa hliðsjón af lögum og reglum sem varða persónuvernd og þess háttar. Ég vildi fyrst og fremst lýsa ánægju minni með þetta en jafnframt spyrja hvort hv. þingmaður hafi velt fyrir sér eða hafi einhverjar hugmyndir um það hversu vel við erum undir það búin að ráðast í þetta verkefni, einhverja hugmynd um kostnað og eftir atvikum tímaramma sem gæti verið í þessu. Það væri gaman ef hv. þingmaður gæti aðeins komið inn á þau mál.



[17:43]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það gleður mig sannarlega að hv. þingmaður taki vel í þetta mál. Það er þó a.m.k. eitt atkvæði frá stjórnarmeirihlutanum, sem er nú drjúgt um þessar mundir.

Hv. þingmaður spyr hvernig við séum undirbúin undir að gera þetta. Ég held að við séum þokkalega vel undirbúin. Það eru rafrænar skráningar í ráðuneytunum. Ef við horfum lengra þá eru flest sveitarfélögin líka komin með rafræna stjórnsýslu. Það er helst að tíminn fari í að búa til reglur um það hvað má birta og hvað ekki og hvernig ferlarnir eigi að vera og umhverfið sé notendavænt þannig að það sé aðgengilegt fyrir almenning að skoða og afla sér upplýsinga.

Þetta hefur ekki verið kostnaðarmetið en það þarf auðvitað að gera það. Hæstv. forsætisráðherra er samkvæmt tillögunni falið að fara í þessa vinnu. Allt málið er með stoð í stjórnsýslulögum. Það skiptir miklu máli. Þar er lagastoðin. Síðan getum við litið til frænda okkar í Noregi og lært af þeirra reynslu. Ég er viss um að stjórnsýslan þar er tilbúin til að aðstoða okkur við þetta mál.



[17:45]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég held einmitt að mjög mikilvægt sé að við leitum fyrirmynda. Ég hef aðeins kíkt á norska gagnagrunninn eða gáttina, og án þess að hafa skoðað hana mikið gæti hún verið viss fyrirmynd. Ég held einnig að nauðsynlegt sé að skoða þetta á fleiri stöðum því að ég held að mikilvægt sé að þetta sé notendavænt. Ég held að Norðmenn, eins og kom fram í greinargerðinni, séu með um 20 milljónir skjala inni undir sinni gátt. Það er mikið af pappírum þar.

Að lokum, og ég er svo sem ekki að biðja um neitt sérstakt svar við því, ég held að þetta mál, sem er mjög mikilvægt og mikilvægt að vanda, geri öllum gagn og mál af þessu tagi, upplýsingakerfi af þessu tagi, geti verið aðgengileg fyrir borgarana.



[17:46]
Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál að sjálfsögðu heils hugar, enda er ég einn flutningsmanna þess og tel þetta í góðu samræmi við áherslur okkar Pírata og fleiri á gegnsærri stjórnsýslu og upplýsingaflæði. Ég tel líka að málið ætti að geta verið í mjög góðu samræmi við boðaða stefnu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikts Jóhannessonar, um að opna stjórnsýsluna upp á gátt, tryggja aukið gegnsæi og ráðast í það verk. Vonandi er þetta mál sem við getum náð þverpólitískri sátt um og við fjármálaráðherra.

Mig langar einnig til að minnast á það í samhengi við það sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sagði, að þetta gæti auðveldað okkur almenningi og fjölmiðlum að vera upplýstari um gang og stöðu mála innan ráðuneyta þannig að ekki sé upp á geðþótta ráðherra eða ráðuneytisstjóra komið að ákveða hvenær almenningur og fjölmiðlar eiga rétt á að vera upplýstir um mál og hvenær ekki, hvort það verði hjálplegt umræðunni eða ekki. Vegna þess að við höfum séð það, eins og hv. þingmaður kom inn á, að fordæmi hafa myndast fyrir því að ráðherrar taki ákvarðanir um hvenær heppilegt sé að birta skýrslur, sérstaklega hvort heppilegt sé að gera það í aðdraganda kosninga. Með leyfi forseta, ætla ég að vitna í hæstv. forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson, frá 6. febrúar 2017 í þessum ræðustól þar sem hann segir:

„Hér er spurt um ástæður þess að annars vegar aflandsskýrslan kom ekki til þingsins og ég hef margoft svarað því, það var vegna kosninganna …“

Hæstv. forsætisráðherra tók sem sagt fram að skýrslan hefði ekki komið fram fyrr vegna kosninganna. Ráðherra tók ákvörðun um að birta ekki skýrslu sem var tilbúin innan ráðuneytis, meðvitaða ákvörðun, vegna þess að það voru kosningar í nánd.

Nú er einnig skjalfest það viðhorf hæstv. forsætisráðherra að ef ráðherra tekur slíka ákvörðun sé það eðlilegt svo lengi sem ráðherra getur staðið af sér vantraust á þingi, það sé eini mælikvarðinn, að standa af sér vantraust á þingi, þá hafi ráðherra ekkert rangt gert. Eða eins og hæstv. forsætisráðherra sagði í þingræðu 21. febrúar, með leyfi forseta:

„Hér hafa menn komið upp og sagt, eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, að þeir telji að hér hafi eitthvað refsivert gerst. Og fleiri en einn þingmaður hafa komið hér upp og sagt að ráðherrann hafi misbeitt valdi sínu, hann sé búinn að brjóta lög. Þessir hv. þingmenn þurfa, held ég, aðeins að kafa dýpra og kynna sér þau úrræði sem eru til staðar. Menn hrópa hér: Vantraust, vantraust. Menn verða að fylgja þeim orðum eftir með athöfnum og koma með vantraustsyfirlýsingu.“

Sem sé, þráspurður um hvort ráðherra hafi gerst brotlegur við siðareglur ráðherra, almennt brotlegur við sína pólitísku ábyrgð, þá var svar hæstv. forsætisráðherra það að ef menn telji það, þá verði þeir að leggja fram vantrauststillögu. Eina úrræði minni hlutans eða almennings til að ráðherrar sæti einhvers konar pólitískri ábyrgð fyrir gjörðir sínar er að hafa meiri hluta á þingi fyrir vantrausti.

Við höfum það því skjalfest að viðhorf ráðamanna til þeirra upplýsinga sem þeir liggja á sem æðstu ráðamenn, æðstu yfirmenn stjórnsýslunnar, sé það að þeim sé í sjálfsvald sett hvenær upplýsingarnar eru birtar og hvenær ekki. Þetta er að sjálfsögðu hluti af mjög óheilbrigðu viðhorfi til pólitískrar ábyrgðar sem er mögulega of algengt, allt of algengt, í stjórnmálum. Þetta er líka eitthvað sem mætti vonandi kippa í liðinn með málum eins og þessum, að málaskrár og staða mála ráðuneyta sé opin almenningi og fjölmiðlum óháð pólitísku geðþóttavaldi ráðherra og hvort þeim þyki eðlilegt og heppilegt að birta gögn fyrir kosningar eða ekki.



[17:50]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu fyrir að leggja hana fram og lýsi yfir eindregnum stuðningi mínum við hana. Tillagan sem hér liggur fyrir okkur um rafræna birtingu málaskráa og gagna ráðuneyta rímar mjög vel við grunnstefnu Pírata sem ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins upp úr, með leyfi forseta. Í fyrsta lagi rímar hún vel við grunnstefnu Pírata um gagnsæi og ábyrgð. Þar stendur:

Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni. Vel er hægt að sjá fyrir að með auknum aðgangi að gögnum úr ráðuneytum eigi almenningur töluvert auðveldara með að hafa eftirlit með stjórnsýslunni og því sem er að gerast þar. Eins telja Píratar að gagnsæi eigi mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvarðanatöku. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna. Til þess að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til þess að taka ákvarðanir, en Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafa verið teknar.

Loks rímar þetta mjög vel við 5. gr. grunnstefnu Pírata um upplýsinga- og tjáningarfrelsi þar sem stendur, með leyfi forseta:

Takmörkun á frelsi fólks til þess að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.

Eins og heyrist rímar þessi þingsályktunartillaga afskaplega vel við grunnstefnu Pírata, enda trúum við á að sem mest aðgengi almennings að gögnum leiði til sem bestrar ákvarðanatöku og leiði líka til bætts lýðræðis í landinu og í heiminum í heild. Því er mjög mikilvægt að við finnum okkur miðlægan og áreiðanlegan gagnagrunn þar sem við getum treyst á öryggi gagnanna sem um ræðir, að þar sé ekkert búið að eiga við þau og þetta séu hin opinberu og raunverulegu skjöl sem við erum að skoða hverju sinni.

Svo langar mig að minna þingheim á 15. gr. nýju stjórnarskrárinnar, sem hefur ekki enn litið dagsins ljós, um upplýsingarétt. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum. Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.

Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.“

Efni þessarar þingsályktunartillögu rímar ágætlega við þær takmarkanir sem fram eru teknar, bæði í stjórnarskrá og í grunnstefnu Pírata. Eins og fram hefur komið í framsögu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur er þingsályktunartillagan liður í því að hvetja stjórnvöld til þess að framfylgja þeim lögum sem nú þegar gilda í landinu, en það eru upplýsingalög. Í 1. gr. upplýsingalaga sjáum við hvert markmið þeirra laga er, en það er að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna í þeim tilgangi að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum, möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni og traust almennings á stjórnsýslunni.

Ég tel að með þessari þingsályktunartillögu, þ.e. ef hún verður samþykkt og henni framfylgt, verði mikilvægt skref stigið í átt að því að vinna að markmiðunum sem finna má í upplýsingalögum.

Ég ætla svo að lokum að leyfa mér að lesa úr þeirri grein sem þingsályktunartillagan byggir á, en það er 13. gr. upplýsingalaga er snýr að birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu veita almenningi með reglubundnum hætti upplýsingar um starfsemi sína, svo sem með rafrænni útgáfu skýrslna, samantektum um mikilvæg verkefni eða útgáfu annarra gagna. Stjórnvöld skulu vinna markvisst að því að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf jafnóðum aðgengileg með rafrænum hætti. Hið sama á við um gagnagrunna og skrár. Þess skal gætt að birting gangi ekki gegn einka- eða almannahagsmunum […] Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um það hvernig birtingu upplýsinga skv. 1. og 2. mgr. skuli hagað, þar á meðal um áfanga og tímafresti sem stjórnvöldum eru gefnir til að uppfylla tiltekin markmið og hvernig og hvar upplýsingar skuli birtar […] Tryggja skal, eftir því sem kostur er, jafnt aðgengi almennings að birtum upplýsingum og að birting sé samræmd á milli stjórnvalda.“

Að lokum langar mig að leggja sérstaka áherslu á síðasta atriði þessarar greinar:

„Ráðherra skal jafnframt setja reglur sem tryggja, eftir því sem kostur er, að birting upplýsinga nýtist fötluðum til jafns við aðra.“

Vildi ég að lokum minna hæstv. ráðherra á að í þessari þingsályktunartillögu, verði hún samþykkt og taki ráðherra hana til meðferðar, er lagt til að ráðherra setji reglugerð sem kveði á um hvernig birtingu þessara upplýsinga skuli háttað og hvernig tryggður skuli viðeigandi vettvangur og aðbúnaður til að veita aðgang að upplýsingunum. Ég vil hnykkja á því að sérstaklega verði hafður í huga aðgangur fatlaðs fólks að þeim upplýsingum, hver svo sem fötlun fólksins kann að vera, af því að það eru margvíslegar aðgangshindranir sem fatlað fólk býr við þegar kemur að aðgengi að upplýsingum. Því mætti skoða auðlæsilegt letur en einnig aðgengi fyrir sjónskerta og mögulega líka aðgengi að alla vega einhverjum hluta gagnanna á auðveldara og aðgengilegra máli heldur en stofnanir nota alla jafna.

Þetta langaði mig að minna á að lokum, að tryggt verði aðgengi að þessum gögnum í gagnagrunninum og að við höfum það í huga strax frá upphafi. Sú sem hér stendur er mikill stuðningsmaður þess að við byrjum alla lagasetningu og alla vinnu hins opinbera á því að hugsa fyrst um mannréttindi borganna og hvernig þau skuli tryggð við lagasetningu og framkvæmd og hefjumst svo handa við að smíða eitthvað í kringum það.



[17:58]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Í þessu máli kemur margt gott og áhugavert saman þó að það láti kannski lítið yfir sér. Í fyrsta lagi endurspeglar tillagan almenna þróun sem er að verða í samfélaginu sem viðbragð við þróun í upplýsingatækni. Í dag er miklu auðveldara að koma upplýsingum á framfæri í gegnum netið þannig að almenningur og fjölmiðlar geta nýtt sér gögn og upplýsingar hvar svo sem þær er að finna. Í öðru lagi er sú hugsun að þær upplýsingar sem aflað er fyrir opinbert fé séu almennt og yfirleitt aðgengilegar almenningi. Það sem er opinbert á að vera opið. Þetta er þróun sem hefur svo sem verið í gangi um nokkurra ára skeið. Ég vil t.d. nefna þá aðgerð í umhverfisráðuneytinu, þáverandi hæstv. ráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, þegar landupplýsingagögn í fórum Landmælinga voru gerð gjaldfrjáls enda hafði þeirra allra verið aflað fyrir opinbert fé og því ákveðin tvígreiðsla að vera að rukka fólk aftur fyrir aðganginn þegar tæknin leyfir nú orðið að miðla þeim upplýsingum nokkurn veginn kostnaðarlaust fyrir hið opinbera.

Í þriðja lagi eru hér, og það er kannski stóra málið og hefur verið komið inn á það í fyrri ræðum, viðbrögð við leyndarhyggju sem hefur allt of oft verið við lýði, sérstaklega í kringum rekstur hins opinbera, upplýsingar í fórum ráðuneyta. Ég held að finnist varla sá einstaklingur sem hefur starfað við blaðamennsku sem ekki kann einhverjar sögur af því hvernig ráðuneyti reyna að torvelda aðgang að upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga. Eitt af trixunum sem er hægt að beita er að fara fram á að sá sem beiðist aðgangs að upplýsingum tiltaki nákvæmlega hvaða upplýsingar hann vilji fá, sem er býsna erfitt þegar viðkomandi hefur ekki aðgang að efnisyfirliti málaskrár. Þess vegna er t.d. vefurinn sem hér hefur verið vísað til í Noregi eðlilegt fyrsta stopp norskra blaðamanna þegar þeir leita að upplýsingum hjá hinu opinbera, að sjá hvað það er nákvæmlega sem hægt er að kalla fram.

Þetta eru viðbrögð sem hafa verið nokkuð ríkjandi, en við höfum stöðugt verið að bregðast við þeirri leyndarhyggju, í missterkum gusum frá hruni, þegar okkur sem samfélagi eiginlega opinberaðist á nokkrum stöðum hvað þetta vandamál væri rótgróið og víðfemt og hvað það skipti miklu máli. Ef fjölmiðlar hefðu átt greiðari leið að upplýsingum í aðdraganda hrunsins hefðu þeir kannski getað fjallað öðruvísi um mál. Hefðum við kannski orðið fyrir minni búsifjum í hruninu ef ráðuneyti hefðu ekki beitt undanbrögðum þegar beðið var um upplýsingar?

Hér var vísað til 15. gr. tillagna stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, grein um upplýsingarétt, sem segir í rauninni í einni setningu það sem þessi tillaga til þingsályktunar er að setja fram. Í þessari 15. gr. tillagna stjórnlagaráðs segir, með leyfi forseta:

„Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.“

Í greinargerð með tillögum stjórnlagaráðs er einmitt vísað í norska vefinn sem í þessari þingsályktunartillögu er vísað til. Stjórnlagaráð var einmitt að starfa á þeim tíma þar sem við vorum sem samfélag að átta okkur á stöðunni, vorum að átta okkur á leyndarhyggjunni, við vorum í ákveðnu sjokki eftir hrunið að bregðast við. Þess vegna er kannski skiljanlegt að stjórnlagaráð hafi lagt þetta til. Þar segir m.a. í greinargerð það sem ég hef þegar nefnt áður, með leyfi forseta:

„Vandasamt hefur verið fyrir fjölmiðla að nálgast ýmsar upplýsingar í vörslu opinberra aðila þar sem ekkert yfirlit hefur verið fyrir hendi um tiltekin mál.“

Þess vegna lagði stjórnlagaráð til að herða á frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að birta upplýsingar af því að það er einn af hornsteinunum í lýðræðisríki að fjölmiðlar hafi góðan aðgang að upplýsingum úr fórum hins opinbera og almenningur hafi það líka svo ekki sé hægt að beita undanbrögðum, eins og hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson nefndi til dæmis í kringum skýrslurnar blessaðar sem hefðu birst í málaskrá fjármálaráðuneytisins talsvert fyrr en þær gerðu hér í þingsal.

Frummælandi málsins var spurð af öðrum hv. þingmanni hvort hún hefði skoðað mögulegan kostnað. Þá rakst ég á í gagnasafni Alþingis að búið er að skjóta á þann kostnað. 18. júní 2014 birtist svar forsætisráðherra við fyrirspurn frá þáverandi hv. 10. þm. Reykv. n., Helga Hrafni Gunnarssyni, um upplýsingagjöf og reglugerð samkvæmt upplýsingalögum, þar sem þingmaðurinn spyr ráðherrann hvernig unnið skuli að því að gera málaskrár aðgengilegar á vef. Þar kemur fram að forsætisráðuneytið hafi kynnt sér starf Norðmanna á þessu sviði, eins og fleiri, og að í skoðun sé að fara af stað með tilraunaverkefni sem þó sé háð því að fjármögnun sé tryggð. Nú eru þrjú ár liðin og ekki hefur náðst að tryggja þetta fjármagn. En í því svari er áætlað að kostnaðurinn nemi 10 millj. kr. Það þykir mér ekki mikið. Í raun þykir mér furðu sæta að miðað við það að fyrir þremur árum hafi hér í þessum þingsal verið rætt um þetta mál í tengslum við fyrirspurn þáverandi þingmanns, Helga Hrafns Gunnarssonar, og árin þar áður í tengslum við tillögur stjórnlagaráðs, þá virðist hæstv. þáverandi forsætisráðherra taka nokkuð vel í hugmyndina í svari sínu til þingmannsins 2014. Því sýnist mér á öllu að þetta sé svo löngu tímabært að það ætti að vera nokkuð létt verk að hleypa þessu máli áfram til frekari umræðu og endanlegrar samþykktar hið fyrsta.



[18:07]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna þessu framkomna frumvarpi. Ég held að þetta sé töluvert stærra mál en kann að birtast þegar maður telur hausa í salnum, en það gæti líka verið til marks um það að menn greini ekkert sérstaklega á um það. Þetta er nokkuð í samræmi við þau ummæli sem fulltrúar stjórnarflokkanna hafa haft uppi í tengslum við stjórnarsáttmálann og gott ef það er ekki í samræmi við hann að opna upp á gátt og auka gagnsæið. Ég hef fulla trú á að menn standi við þau orð, enda hefur umræða um opnara samfélag og virkara lýðræði ekki einskorðast við ákveðnar stjórnmálastefnur. Maður getur lesið um það jafnt inn á Pírataspjalli og í pistlum Styrmis Gunnarssonar sem hefur mikið fjallað um þetta. Ég held þetta sé lýðræðismál. Hér höfum við tekið nokkrar sérstakar umræður á síðustu vikum um hvernig hægt er að auka lýðræðisþátttöku, kosningaþátttöku, ekki síst ungs fólks og auðvitað almennings. Ungt fólk er mjög heimavant í hinum stafræna heimi og því er tamt að nýta sér þá tækni sem hér er talað um til þess að afla sér upplýsinga og kynna sér mál. Ég held að þetta sé ótrúlega tímabært og nauðsynlegt skref til þess að opna upp og kveikja áhuga fólks á því að fylgjast með því sem fram fer í samfélaginu á hverjum tíma, svo ég tali ekki um nauðsynlegt aðgengi blaðamanna og möguleika þeirra til að sýna það aðhald sem þeir eiga að veita, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á.

Það er hins vegar örugglega sjaldgæft að hugmyndir að frumvörpum eða þingsályktunartillögum kvikni vegna óheppilegrar hegðunar einstakra ráðherra, eins og gerðist með þetta mál. Það þarf svo sem ekkert að rifja upp enn einu sinni að þáverandi fjármálaráðherra sat á mikilvægum skýrslum sem hefðu alveg örugglega getað haft áhrif á kosningar með einhverjum hætti, alla vega nefndi hann það í svari að skýrslurnar hefðu verið stoppaðar út af kosningum, hvað sem hann átti við með því, ég veit það ekki. Hann talaði líka um það í ræðustól að af því að þetta væri ekki refsivert þá væri ekkert að þessu. En maður verður kannski að gera þá lágmarkskröfu til ráðherra að þeir setji sér strangari viðmið en að bara stoppa þegar kemur að lögbrotum. Sem betur fer er samfélag okkar að langmestu leyti byggt á siðferðilegum viðmiðum, þannig að mér fannst það hálfdapurlegt svar.

Mér finnst þetta bráðnauðsynlegt mál og held að þátttakan í þingsal sýni að það eru eiginlega allir sammála því og menn telji ekki þurfa að ræða þetta neitt í fyrstu umræðu, þannig að ég geri ráð fyrir því að þetta renni í gegn.



[18:11]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það að ég ætla ekki að lengja umræðuna sérstaklega um þetta góða mál. Ég lýsi því hér með yfir að ég styð öll góð mál sem lúta að rafrænni stjórnsýslu. Ég held að mjög mikilvægt sé að við eflum okkur enn frekar í því. Það eykur gegnsæi, eins og hefur verið farið yfir, og er mikilvægt fyrir lýðræðissamfélagið. Það er líka hagkvæmara fyrir samfélagið að rafvæða þjónustuna okkar. Og það er umhverfisvænt. Að öllu því sögðu þá held ég að hér sé um gott mál að ræða. Ég vil brýna okkur öll áfram í því að ýta undir það að stjórnsýslan okkar geti verið rafræn með sem mestum hætti. Þá nota ég tækifærið þegar ég lít yfir þingsalinn, þótt það sé ekki margmenni hér, því að það er mikið af pappír á borðinu þótt við séum öll með spjaldtölvur, tölvur og farsíma, en við í þingsalnum gætum kannski tekið okkur þetta til fyrirmyndar og gerst rafrænni í auknum mæli.



[18:12]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Mig langar bara til að þakka fyrir þær ræður sem hér hafa verið fluttar og þann breiða stuðning sem málið hefur greinilega. Ég vonast til þess að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bregðist hratt við og að við fáum málið fljótt aftur hingað inn til afgreiðslu.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til stjórnsk.- og eftirln.