146. löggjafarþing — 37. fundur
 1. mars 2017.
þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, 1. umræða.
frv. SilG o.fl., 117. mál (fánatími). — Þskj. 176.

[19:39]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum, fánatími.

Auk mín eru flutningsmenn frumvarpsins hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, Þórunn Egilsdóttir og Eygló Harðardóttir.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna til að rýmka þann tíma sem fáninn má vera við hún og auka þannig almenna notkun hans. Lagt er til að efnisákvæði um fánatíma færist í lög og reglugerð ráðherra lúti því einungis að fánadögum.

Meginefni frumvarpsins er í 3. efnismgr. 1. gr. þar sem lagt er til að heimilt verði að hafa fánann við hún að nóttu til yfir bjartasta tímann hér á landi, 15. maí til 15. ágúst ár hvert. Þannig þyrfti ekki yfir sumarið að hafa áhyggjur af því að brjóta lögin heldur gæti fáninn verið við hún allan sólarhringinn.

Einnig er lagt til að heimilt verði að hafa fánann við hún að nóttu til á öðrum tímum árs ef hann er flóðlýstur. Hafa ber í huga að umrædd lýsing raski ekki um of nánasta umhverfi, samanber ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um ljósmengun, einkum 1. mgr. í grein 10.4.2.

Svo virðist sem íslenskar reglur um notkun fánans séu rýmri en annars staðar á Norðurlöndunum. Í Noregi má draga fánann að húni frá kl. 8 frá mars til október en kl. 9 frá nóvember til febrúar. Þá skal taka fánann niður við sólsetur en ekki seinna en kl. 21 ef sólin sest síðar en þá. Í Danmörku skal ekki draga fánann að húni fyrir kl. 8 og hann skal taka niður við sólsetur. Þá má hafa fánann dreginn að húni eftir sólsetur ef hann er upplýstur en tekið er fram í handbók um danska fánann að venjuleg götulýsing nægi t.d. ekki. Í Svíþjóð gildir svipaðar reglur og í Noregi, þ.e. að frá mars til október má flagga frá kl. 8 og frá nóvember til febrúar frá kl. 9 og skal taka fánann niður í síðasta lagi kl. 21 en hann má vera lengur við hún ef hann er upplýstur.



[19:41]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir framsöguna. Ég get eiginlega ekki á mér setið að eiga örlítinn orðastað við hv. þingmann um þetta mál hafandi skrifað í námi mínu um þjóðerni og þjóðernistákn. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að virðing og helgi tákna verði ekki lögfest, það sé ekki hægt að koma því á með valdboði að ofan. Þess vegna er ég sjálfur þeirrar skoðunar, þrátt fyrir að hafa gegnt því embætti á minni ævi að draga fána að húni að morgni og gæta þess að draga hann aftur niður að kvöldi, að engar reglur eigi að gilda um hvenær fólk megi flagga þjóðfánanum finni fólk hjá sér þá þjóðerniskennd að vilja hylla það að tilheyra íslenskri þjóð, hvenær sem er sólarhringsins, hvenær sem er ársins, fólk eigi að mega gera það án þess að löggjafinn skipti sér af því.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort í vinnu við þetta frumvarp hafi komið upp sú hugmynd að það yrði hreinlega hverjum og einum í sjálfsvald sett hvernig hann og hvenær hann flaggaði fánanum, þrátt fyrir, eins og segir í greinargerðinni, að víða annars staðar á Norðurlöndum sé það á svipaðan máta og hv. þingmaður fór ágætlega yfir í ræðu sinni?



[19:43]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir afar áhugavert andsvar. Ég get svarað því til að í þessari vinnu hefur sú hugmynd ekki komið upp að rýmka reglurnar, ganga enn lengra og hafa engar reglur um þjóðfánann. Ég hef ekki átt sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en það er sú nefnd sem hefur haft þetta frumvarp til umfjöllunar þegar það hefur komist alla leið til nefndar. Það sem ég hef heyrt innan úr nefndinni er í raun að menn séu almennt mjög íhaldssamir og vilji helst engu breyta. Það að rýmka reglurnar á þann hátt að fáninn megi vera við hún allan sólarhringinn á bjartasta tíma ársins er stór biti fyrir mjög marga að kyngja. Ég held því að við ættum að byrja á litlu skrefunum og þetta er eitt þeirra. Markmið frumvarpsins er náttúrlega að fáninn sé sýnilegri. Ég sæi það fyrir mér miðað við þá hugmynd að fáninn megi vera við hún ef hann er upplýstur og þá líka í skammdeginu að fáninn okkar yrði víðar en hann er núna, til að mynda við stofnanir og hótel, hér er mikið af ferðamönnum.

Ég held að þetta sé mjög róttæk hugmynd fyrir marga og því skulum við byrja þarna og sjá hvort þetta fær afgreiðslu í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.



[19:45]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur gott svar við andsvari mínu. Ég hefði kannski átt að taka það fram í upphafi máls míns áðan að ég styð alla rýmkun á þessum reglum, þannig að ég er sammála hv. þingmanni um að það sé allt til bóta. Persónulega finnst mér ýmislegt í reglunum um fánann orka hjákátlega, get ég eiginlegt leyft mér að segja hér, alls kyns reglur um hvernig eigi að fara með hann. Eftirlit með því að reglunum sé fylgt er náttúrlega ekki neitt, þannig að maður veltir því fyrir sér til hvers við erum þær.

Hvað varðar þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslands og ríkisskjaldarmerkið velti ég fyrir mér því sem hv. þingmaður kom inn á varðandi flóðlýsingu. Hér segir að fáninn megi vera uppi á öðrum tímum ef hann er flóðlýstur. Ég ætla að taka fram að mér finnst þetta ekki vera það stórt mál að ég ætli að gera mikinn ágreining úr því, svo að það sé sagt, en velti því fyrir mér á léttum nótum, en þó kannski með alvarlegum undirtóni, hvort þetta gæti ekki einfaldlega skapað mismunun vegna aðstæðna fólks. Sé einhver það vel búinn að hann geti flóðlýst fánann í garði sínum getur hann flaggað honum allan sólarhringinn og hyllt Íslendingseðli sitt, en sá eða sú sem ekki hefur ráð á flóðlýsingu verður að láta sér nægja sólarljósið.



[19:47]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sýnileg mismunun með lýsingu á þjóðfána er áhugaverður punktur. Það kom fram áðan að hugmyndin með flóðlýsingu gildir tæpast við venjuleg íbúðahverfi þar sem ljósmengun yrði náttúrlega of mikil af flóðlýsingunni. Ég sæi ekki fyrir mér íbúðahverfi í Grafarvoginum og svo væri einn ríkur náungi með flóðlýstan fána og héldi vöku fyrir nágrönnunum. Ég sæi þetta frekar fyrir mér í opnari rýmum, eins og ég sagði áðan, kannski við hótel eða í atvinnuhverfum frekar en íbúðahverfum. Ég tel því (Gripið fram í.) tiltölulega litlar líkur á því að þetta muni verða mjög sýnileg mismunun eftir efnahag fólks. En þetta er gott að hafa í huga. Nefndin getur tekið til athugunar að passa upp á það.

Ég er sammála hv. þingmanni varðandi reglurnar sem við fylgjum. Um þær gildir það sama og aðrar reglur ef þær eru of flóknar og of margar, og maður lærir þetta sem foreldri þegar maður er að ala upp börnin sín, það er betra að hafa fáar reglur og fara eftir þeim. Það þarf að hafa fáar reglur og fara eftir þeim ef maður ætlar að ná árangri. Það hlýtur að gilda það sama um fánann, það þarf að fækka reglunum, einfalda þær og fara eftir þeim svo að fólk taki raunverulega mark á þeim.

Ég segi að við eigum samt að fara varlega og hugsa það vel þegar við breytum reglum um þjóðfánann. Við eigum að sýna fánanum virðingu á öllum tímum. Veðurfarið er náttúrlega mjög erfitt hér og fer illa með fána og við þurfum að hafa það í huga. En ég er spennt að sjá umsagnir sem berast nefndinni á næstu vikum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.