146. löggjafarþing — 38. fundur
 2. mars 2017.
kostnaður við breytingu á Stjórnarráðinu.

[10:32]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég átti orðastað við hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir stjórnartillögu um breytta skipan ráðuneytis Stjórnarráðs Íslands eða stofnun nýs dómsmálaráðuneytis. Við ræddum í þeirri umræðu um kostnað við þær breytingar. Það olli okkur mörgum hverjum áhyggjum að við þær umræður kom í ljós að ekkert kostnaðarmat hafði farið fram. Hæstv. ráðherra svaraði raunar svo að það væri alveg ljóst að það myndi hafa einhvern viðbótarkostnað í för með sér að taka eitt ráðuneyti og breyta því í tvö, eins og hann orðaði það í umræðum. Hann nefndi ákveðna grunnþjónustu, sérstakan ráðuneytisstjóra o.s.frv. Ég bað hæstv. ráðherra að skerpa á þessu svari, á hvaða skala þær tölur væru sem þarna væru á ferðinni, hvaða tölur á ársgrundvelli væru þar undir, 10 milljónir, 50 eða 100. Nú hefur komið í ljós í meðförum nefndarinnar á málinu að eftir nokkurn tíma hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekist að ná út tölunni 120 milljónir á ársgrundvelli, sem þessi breyting mun kosta. Þetta hugarfóstur nýrrar ríkisstjórnar, þ.e. að smíða sérstakt ráðuneyti undir núverandi dómsmálaráðherra, kostar nánast hálfan milljarð á kjörtímabilinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hann talaði um að hann sæi leiðir til að hagræða fyrir þessu annars staðar í Stjórnarráðinu, hvar standi til að gera það og hvort þessi tala sé í samræmi við það sem hann hélt, og af hverju hann gerði þinginu ekki grein fyrir því á sínum tíma eða hvort þessi tala komi honum óþægilega á óvart eins og þeirri sem hér stendur.



[10:34]
forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að segja frá því að þessi tala kemur mér á óvart og mér finnst hún í raun og veru ekki koma til greina. Mér finnst ekki koma til greina að við leggjum upp með að það þurfi þegar ekki er verið að bæta við ráðherra, þegar ekki er verið að bæta við nýjum bíl og bílstjóra, þegar ekki er verið að bæta við í sjálfu sér nýjum ritara, heldur eingöngu verið að gera aðskilnað á milli tveggja ráðuneyta. Það er ekki verið að bæta við nýju húsnæði eða neinu slíku og þá finnst mér ekki koma til greina að lagt sé upp með það af hálfu ráðuneytisins að eftir aðskilnaðinn þurfi að kosta yfir 100 milljónum meiru til til þess að starfsemi geti haldið áfram óbreytt. Það finnst mér ekki koma til greina. Það er alveg ábyggilegt að það voru ekki slíkar tölur sem voru nefndar til sparnaðar þegar gömlu ráðuneytunum var smellt saman inn í nýtt ráðuneyti.

Þess vegna vil ég láta þess getið á þessu stigi að mér finnst ekki koma til greina að halda áfram með málið á þeim forsendum. Þetta þarf að hugsa aftur og betur. Ég tek fram í því sambandi, eins og vísað var til, að ég geri mér grein fyrir því að þetta mun kosta einhver störf, t.d. eins og það að auglýsa stöðu ráðuneytisstjóra. Auðvitað er verið að kosta einhverju til. En ég geri þá kröfu til stjórnkerfisins í heild sinni, og í þessu tilfelli Stjórnarráðsins, að menn leiti sífellt leiða til sparnaðar og grípi ekki tækifærin til þess að bæta við sig meira en aðstæður kalla á.



[10:36]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýr svör. Það er svo að í því kostnaðarmati sem nefndin fékk nú á dögunum er gert ráð fyrir sjö nýjum starfsmönnum, þar á meðal, ef virðulegur ráðherra vildi leggja við hlustir, tveimur nýjum sérfræðingum, sem ég hefði haldið að væru til staðar í núverandi innanríkisráðuneyti fyrir uppskiptingu. Ég heyri það á hæstv. ráðherra að hann telur rétt að endurskoða þessa ákvörðun, þ.e. endurskoða a.m.k. þetta fyrirkomulag. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji að í þeirri endurskoðun sé rétt að freista þess að fara þá leið að hæstv. dómsmálaráðherra sitji í óuppskiptu innanríkisráðuneyti, eins og við bentum á hér við 1. umr. málsins að kæmi vel til greina til að samnýta stoðkerfi Stjórnarráðsins og til að halda kostnaði í lágmarki, því að það getur ekki talist ábyrg nýting opinbers fjár að gera þetta með þessu móti. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra og biðja hann að hnykkja á þeim orðum sínum hvort ekki sé rétt skilið hjá mér að málið eins og það er lagt fram miðað við þessar forsendur, þ.e. hálfan milljarð á kjörtímabilinu, sé stopp.



[10:37]
forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem ég er einfaldlega að segja er þetta: Ég er enn þeirrar skoðunar að rétt sé að koma á fót sérstöku ráðuneyti dómsmála annars vegar og sérstöku ráðuneyti samgöngumála, sveitarstjórnarmála, hins vegar. Það verður hins vegar ekki af því ef ráðuneytið sem á í hlut, innanríkisráðuneytið, getur ekki fært fyrir þingið aðra áætlun sem er raunhæfari varðandi kostnaðinn af þessu en sú sem nú hefur borist nefndinni. Við munum ekki halda áfram með málið ef kostnaðurinn er yfir 100 milljónir við uppskiptinguna eina og sér án þess að það séu nein ný mál sem færast til ráðuneytanna. Það er alveg ljóst í mínum huga og kemur ekki til greina. Ég er hins vegar alveg sannfærður um að ef menn fara betur yfir þetta mál munu þeir sjá að hægt er að gera þetta án þess að kosta þetta miklu til. Þannig vil ég sjá málið klárast.