146. löggjafarþing — 38. fundur
 2. mars 2017.
evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, 1. umræða.
stjfrv., 217. mál (EES-reglur). — Þskj. 301.

[17:20]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Þessu eftirlitskerfi er ætlað að vernda hagsmuni almennings og fjármálamarkaðarins með því að stuðla að stöðugleika og heilbrigði fjármálakerfisins á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Ísland varð aðili að hinu samevrópska eftirlitskerfi á fjármálamarkaði í september á síðasta ári, eftir að þingsályktun þess efnis hafði verið samþykkt af Alþingi.

Hinar þrjár evrópsku eftirlitsstofnanir eru Evrópska bankaeftirlitsstofnunin, sem kölluð er EBA, Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin, sem kölluð er EIOPA, og Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin, sem kölluð er ESMA. Allar eru þær sjálfstæðar með eigin fjárhag. Helsta hlutverk þeirra er að vernda almannahagsmuni og stuðla að stöðugleika og skilvirkni í fjármálakerfinu á þeim hluta fjármálamarkaðar sem viðkomandi stofnun starfar. Evrópska kerfisáhætturáðið, ESRB, er einnig hluti kerfisins en það fer ekki með bindandi valdheimildir heldur er því ætlað að meta og vakta kerfisáhættu og greina ógnir sem kunna að steðja að fjármálastöðugleika innan Evrópusambandsins.

Stofnanirnar þrjár sem um ræðir tóku til starfa árið 2011 innan Evrópusambandsins en eftir að reglugerðirnar voru teknar upp í EES-samninginn nær kerfið einnig til EES-ríkjanna.

Reglugerðirnar eru innleiddar eins og þær hafa verið aðlagaðar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Eftirlitsstofnun EFTA verður eftirlitsaðili á því er varðar EFTA-ríkin innan EES og mun fara með bindandi valdheimildir hinna evrópsku eftirlitsstofnana á íslensku yfirráðasvæði gagnvart stjórnvöldum og í undantekningartilvikum gagnvart einstaklingum og lögaðilum.

Ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA verður hægt að skjóta til EFTA-dómstólsins. Eftirlitsstofnun EFTA verður því eftirlitsaðili á sviði fjármálamarkaða innan EES-ríkjanna á sama hátt og hinar evrópsku eftirlitsstofnanir eru gagnvart ríkjum Evrópusambandsins. Um hlutverk ESA, sem er Eftirlitsstofnun EFTA, er fjallað í aðlögunartexta við gerðirnar í ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Mikilvægt er að árétta að valdheimildir þær sem gert er ráð fyrir að ESA fari með eru fyrst og fremst ætlaðar til þrautavara og meginreglan verður áfram fjármálaeftirlit á landsréttargrunni, hér á landi hjá Fjármálaeftirlitinu.

Um hlutverk og valdheimildir er fjallað í reglugerðunum sjálfum sem lagt er til að fái lagagildi. Talsverð umfjöllun var um stofnanirnar, valdheimildir þeirra og aðlögun við upptöku gerðanna í EES-samninginn á síðasta löggjafarþingi. Ítarlega umfjöllun um forsögu þessa máls má finna í tillögu til þingsályktunar sem lögð var fyrir Alþingi og samþykkt í september sl. Þingsályktunartillögunni fylgdi álitsgerð um stjórnskipulegar heimildir til innleiðingar gerðanna.

Lagt er til að fjórum megingerðum um hinar evrópsku eftirlitsstofnanir, þ.e. EBA, EIOPA og ESMA, verði veitt lagagildi ásamt gerðum um Evrópska kerfisáhætturáðið. Reglur um framkvæmd eftirlits eru tíundaðar í athugasemdum við frumvarpið og verður eftirlitið að meginstefnu á hendi Fjármálaeftirlitsins í samvinnu við Eftirlitsstofnun EFTA. Upplýsingagjöf frá FME til evrópskra eftirlitsstofnana er heimiluð með frumvarpinu.

Í frumvarpinu er kveðið á um upplýsingagjöf frá FME, þ.e. íslenska Fjármálaeftirlitinu, til ESA og annarra EES-stofnana. Kveðið er á um aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA á þessu sviði. Þá er lögð til breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem varðar upplýsingagjöf Fjármálaeftirlitsins og leiðir af efni frumvarpsins að öðru leyti.

Með frumvarpinu fylgir rafrænt fylgiskjal sem hefur að geyma reglugerðirnar eins og þær hafa verið aðlagaðar að EES-samningnum. Skjalið er ætlað til upplýsinga.

Virðulegi forseti. Með lögfestingu þessa frumvarps fær Ísland aðgengi að hinu evrópska eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að innleiðing ákvæða um þetta eftirlitskerfi í íslensk lög er forsenda fyrir áframhaldandi þátttöku Íslands í IX. viðauka EES-samningsins sem varðar fjármálaþjónustu. Aðild Íslands að kerfinu er nauðsynleg eigi íslensk fjármálafyrirtæki að geta starfað á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, fyrir fjármálaþjónustu og til að stunda greið viðskipti yfir landamæri. Að endingu ber að árétta að sú lausn sem fékkst við upptöku gerðanna í EES-samninginn, á grundvelli tveggja stoða kerfisins, var sigur fyrir Ísland og EES-ríkin.

Samþykkt þessa frumvarps er einnig forsenda þess að hægt verði að lögfesta ýmsar umbætur í löggjöf á fjármálamarkaði, þ.e. umbætur sem Ísland hefur skuldbundið sig til að innleiða í íslensk lög á grundvelli EES-samningsins og hafa bein tengsl við valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA og evrópsku eftirlitsstofnananna. Lögfesting þeirra umbóta er mikilvæg til að tryggja samkeppnisstöðu aðila á innlendum fjármálamarkaði og stuðla að skýrara lagaumhverfi sem er í samræmi við það sem gildir í nágrannalöndunum.

Ég vil að lokum árétta að ég tel mjög mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga til að styrkja eftirlit á fjármálamarkaði hér á landi og til að tryggja áfram farsæla aðild Íslands að EES-samningnum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.



[17:27]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir framsögu hæstv. fjármálaráðherra og tek undir að þetta lítur út fyrir að vera afar gott frumvarp sem mun bæta eftirlit með fjármálamörkuðum og ekki veitir af.

Mig langar samt til að forvitnast og kannski er þetta í rauninni ákveðin heimspekileg spurning en samt engu að síður mikilvæg fyrir það hvernig við högum stjórnkerfi landsins.

Með þessu er í rauninni verið að búa til ákveðna tvöföldun á eftirlitskerfinu. EBA, ESMA og EIOPA tilheyra svokallaðri ESB-stoð en svo er Eftirlitsstofnun EFTA sem sinnir auðvitað ákveðnu hlutverki líka. Þarna er ákveðin samsvörun og jafnvel mætti að segja tvítekning.

Nú er ég afar hrifinn af EFTA-samningnum og ýmsu sem er þar inni. En mig langar samt svolítið að forvitnast og spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi áhyggjur af þessari tvítekningu. Nú er talað um í frumvarpinu að þetta sé kostnaður í kringum 31 milljón á ári, ef ég mislas ekki, sem er mjög óveruleg fjárhæð fyrir ríkissjóð. En engu að síður erum við að sjálfsögðu að greiða líka til þess að fjármagna Eftirlitsstofnun EFTA og mig langar að spyrja hvort það sé ekki eitthvert svigrúm til þess að nýta samspilið betur með þannig hætti að það sé minni tvítekning og kostnaður minnki og það verði jafnvel meiri skilvirkni í eftirlitskerfum sem við erum aðilar að.



[17:28]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanni fyrir andsvarið. Ég hygg að í spurningu hans felist viss sannleikskjarni, þarna er tvítekning en ástæðan fyrir tvítekningunni er sú að við byggjum þetta á tveggja stoða kerfinu, þ.e. kerfi sem Ísland á beinan aðgang að en við heyrum ekki beint undir þessar stofnanir. Ef þær gera athugasemdir þá eru það ekki aðfararhæfar athugasemdir vegna þess að við heyrum ekki undir þeirra lögsögu beint heldur gerum við þetta í gegnum þessar stoðir okkar, þ.e. ESA og EFTA-dómstólinn. Það yrði ekki fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA myndi gera athugasemd og það gæti þá eftir atvikum farið fyrir EFTA-dómstólinn sem við eigum aðgang að. Við eigum aðgang að báðum þessum stofnunum, en við eigum hins vegar ekki beinan aðgang að þessum stofnunum Evrópusambandsins. Þess vegna er svo mikilvægt að þessi lausn fékkst. En við erum ekki háð eftirliti frá stofnunum þar sem við eigum ekki beinan aðgang.



[17:30]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið og get tekið undir að það er að sjálfsögðu æskilegt að við séum ekki algjörlega háð stofnunum sem við erum ekki aðilar að og höfum ekki neina stjórn yfir. En það leiðir mann kannski að annarri spurningu sem snýst um það hvort ekki sé ástæða til þess að leitast eftir því að það verði hreinlega mun nánari samvinna með þannig hætti að við hefðum beinan aðgang að þessum stofnunum. Nú eru þetta stofnanir Evrópusambandsins og kannski fer þetta svolítið inn á eðli samskipta Íslands og EES-ríkjanna við Evrópusambandið, en þarna er kannski tækifæri til þess að reyna að ná nánari samstarfi með því að fleiri stofnanir Evrópusambandsins yrðu þannig að EFTA-ríkin, og EES-ríkin sér í lagi, hefðu aðgang að þeim. Þó svo að við séum kannski að tala um EBA, ESMA og EIOPA þá verður manni hugsað til fleiri stofnana sem ýmist eru til á grundvelli Evrópusambandsins eða annarrar Evrópusamvinnu sem Ísland hefur misjafnan aðgang að og gæti verið nánari. Það væri áhugavert að heyra hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi einhverjar skoðanir um það hvernig við gætum reynt að nálgast þessar stofnanir frekar með einhverjum breytingum á samvinnuformi okkar.



[17:32]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einfalda svarið við þessu er að við gætum sótt fulla aðild að Evrópusambandinu. (SMc: Eigum við ekki að gera það þá?)Eins og hv. þingmanni er eflaust kunnugt hef ég talið að það væri æskilegt fyrir Ísland að halda áfram á þeirri braut. En við verðum hins vegar að átta okkur á því að í þessu máli sem hv. þingmaður víkur að þá eigum við í sjálfu sér ákveðna aðkomu að þessum stofnunum þótt við höfum ekki stjórnunarvald yfir þeim. Fjármálaeftirlitið hefur, hygg ég, fulltrúa í ráðgjafaráði stofnananna, ég man nú ekki alveg hvað það ráð heitir, og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins að ég hygg og veit reyndar að ýmsir aðrir sem starfa á fjármálamarkaði hafa sótt hjá þeim fundi og ráðstefnur. Það er því ekki þannig að við séum einangruð frá þessum stofnunum heldur höfum við haft við þær mikilvæg samskipti sem auðvitað skiptir mjög miklu máli vegna þess að við viljum taka sem virkastan þátt í þessu eftirliti og gæta þess að reglurnar sem íslensk fjármálafyrirtæki undirgangast séu með sama hætti og sama öryggi hér á landi og annars staðar í Evrópu.



[17:34]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Hér er stórt mál á ferðinni sem felur í sér nánara samstarf Evrópuríkja til að hafa eftirlit með fjármálamörkuðum á EES-svæðinu öllu. Frumvarpið felur í sér að aðild Íslands að evrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði verður lögfest. Kerfinu er ætlað að vernda hagsmuni almennings og fjármálamarkaðarins með því að stuðla að stöðugleika og heilbrigði fjármálakerfisins. Með svokallaðri tveggja stoða lausn verður Ísland hluti af kerfi þar sem fjórar eftirlitsstofnanir koma við sögu. Það eru Evrópska bankaeftirlitsstofnunin, Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin, Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin og Evrópska kerfisáhætturáðið.

Tilgangur þessara fjögurra stofnana er að tryggja þéttara samstarf fjármálaeftirlita aðildarríkjanna, auðvelda beitingu evrópskra lausna vegna vandamála sem varða mörg ríki og styðja við einsleita beitingu og túlkun reglna. Með þessu má segja að kerfisumgjörð fyrir fjármálamarkað innan Evrópska efnahagssvæðisins verði í höndum evrópskra stofnana en daglegt eftirlit með fjármálafyrirtækjum og mörkuðum verði eftir sem áður í höndum einstakra ríkja, að undanskildu eftirliti með lánshæfismatsfyrirtækjum og afleiðuviðskiptaskrám.

Aðkoma Íslands, Noregs og Liechtensteins hefur verið löguð að EES-samningnum á grundvelli tveggja stoða kerfisins. Það var krafa Íslands að svo yrði, m.a. til þess að aðild Íslands uppfyllti stjórnskipunarleg skilyrði og skorður sem Íslandi væru settar við framsal valds til erlendra eftirlitsstofnana.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, verður eftirlitsaðili með fjármálastarfsemi hvað varðar EFTA-ríkin innan EES. Það þýðir að vald til að taka bindandi ákvarðanir, sem liggur hjá evrópsku eftirlitsstofnununum innan ESB, færist til Eftirlitsstofnunar EFTA innan EFTA-stoðarinnar. Allar bindandi ákvarðanir gagnvart stjórnvöldum, og til þrautavara aðilum á fjármálamarkaði, í EFTA-ríkjunum innan EES, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Ákvörðunum þeirrar stofnunar verður hægt að skjóta til EFTA-dómstólsins á sambærilegan hátt og ákvörðunum eftirlitsstofnana innan ESB er unnt að skjóta til dómstóls Evrópusambandsins. Þessi lausn er meðal annars grundvölluð á ítarlegum álitsgerðum lögfræðinganna Bjargar Thorarensen, Stefáns Más Stefánssonar og Skúla Magnússonar. Á fundi fjármála- og efnahagsráðherra ríkja Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna innan EES árið 2014 náðist samkomulag um meginatriði í aðlögun umræddra reglugerða að EES-samningnum. Með samkomulaginu viðurkenndu aðilar mikilvægi hinna nýju eftirlitsstofnana ESB fyrir viðhald og þróun eins samræmds markaðar fyrir fjármálaþjónustu og þar með að umræddar reglugerðir þyrfti að taka upp í EES-samninginn. Lausn var fundin sem tæki tillit til hagsmuna beggja aðila, uppbyggingar og markmiða bæði umræddra ESB-gerða og EES-samningsins, svo og lagalegra og stjórnmálalegra takmarkana Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna innan EES.

Í hnotskurn má segja að með þessu hafi EFTA-ríkin innan EES fyrir sitt leyti viðurkennt mikilvægi hins nýja eftirlitskerfis ESB fyrir innri markaðinn og þar með markmið um einsleitni EES-samningsins. Á móti hafi Evrópusambandið viðurkennt að við aðlögun þessa kerfis að EES-samningnum yrði að taka tillit til grunnreglna samningsins. Þetta tókst, ekki síst fyrir tilstuðlan og viðurkenningu á sjónarmiðum Íslands.

Virðulegi forseti. Það hefur tekist að finna farsæla lausn til að Ísland geti orðið hluti af þessu mikilvæga eftirlitskerfi án þess að ganga fram hjá þeim skorðum sem stjórnskipun okkar setur. Engu að síður er ávallt full ástæða til að vera á varðbergi og minna okkur á nauðsyn þess að takast á við það brýna verkefni að endurskoða stjórnarskrá okkar til að skýra betur þær heimildir sem við höfum til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, þar með talið alþjóðlegra stofnana sem gegna mikilvægu hlutverki í samstarfi á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.