146. löggjafarþing — 39. fundur
 6. mars 2017.
valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).
fsp. BirgJ, 169. mál. — Þskj. 236.

[16:13]
Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Fullgilding OPCAT-bókunar sem er viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um pyndingar var samþykkt á Alþingi 19. desember 2015. Í bókuninni er kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga til að koma í veg fyrir illa meðferð og pyndingar.

OPCAT-eftirlitið er annars vegar framkvæmt af innlendri eftirlitsnefnd sem setja þarf sérstaklega á fót hér á landi og hins vegar starfar alþjóðleg eftirlitsnefnd á grundvelli samningsins sem heimsækir aðildarríkin, skoðar aðstæður á stofnunum og er innlendu eftirlitsnefndinni einnig til aðstoðar. Þær stofnanir sem eftirlitið lýtur að eru fangelsi en einnig stofnanir á borð við geðsjúkrahús og heilbrigðisstofnanir sem vista frelsissvipt fólk. Innlenda eftirlitsnefndin mun fara í reglulegar og jafnvel óvæntar könnunarferðir á stofnanir og í fangelsi.

Tryggja þarf að nefndin hafi fullkominn aðgang að húsakynnum, starfsfólki og vistmönnum sem hún getur rætt við einslega ef henni sýnist svo. Tryggja þarf að starf nefndanna verði þverfaglegt og að að því komi til að mynda lögfræðingur, læknir og sálfræðingur. Auk þess ber að tryggja nefndinni sjálfri og viðmælendum hennar viðhlítandi vernd gegn mögulegum refsi- og hefndaraðgerðum. Þá þarf réttur nefndarinnar til allra upplýsinga og gagna að vera ótvíræður. Brýnt er að nefndin hafi nægt fjármagn til að geta sinnt skuldbindingum sínum.

Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um fullgildingu bókunarinnar kemur fram að ríkið hafi eitt ár frá fullgildingu hennar til að koma innlenda eftirlitinu á laggirnar en geti fengið frest í þrjú ár geri ríki um það sérstaka yfirlýsingu þegar bókunin er fullgilt. Þrátt fyrir að rúmt ár sé frá samþykki Alþingis fyrir fullgildingu hefur bókunin enn ekki verið formlega fullgilt af Íslands hálfu.

Ég óska því eftir upplýsingum um hvernig unnið er að innleiðingu OPCAT-bókunarinnar og hvenær er áætlað að eftirlit samkvæmt henni geti hafist.

Í OPCAT-bókuninni kemur einnig fram að alþjóðlegu nefndinni sé falið að vera ríkjum til aðstoðar og ráðgjafar þegar innlenda eftirlitið er innleitt. Á alþjóðavettvangi starfa frjáls félagasamtök gegn pyndingum sem búa yfir mikilli þekkingu um eftirlitsstarfið. APT-samtökin voru sérstaklega stofnuð til að þrýsta á um gerð alþjóðasamnings um eftirlit með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga. Þetta markmið samtakanna varð að veruleika árið 2002 þegar OPCAT-bókunin var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Verkefni APT-samtakanna í dag eru margvísleg en m.a. veita samtökin aðstoð og ráðgjöf til ríkja á innleiðingartímabilinu sem og aðstoða þau innlendu eftirlitsnefndina.

Getur hæstv. dómsmálaráðherra upplýst hvort eitthvert formlegt samráð hafi átt sér stað við ráðgefandi aðila hjá Sameinuðu þjóðunum eða alþjóðleg félagasamtök eins og APT-samtökin við undirbúning innleiðingarinnar? Hvernig er samráði hlutaðeigandi hagsmunaaðila (Forseti hringir.) háttað við innleiðingu innlenda eftirlitsins?



[16:16]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina og ætla svo sem ekki að endurtaka allt sem hv. þingmaður rakti hér sem var allt satt og rétt og varðar aðdraganda þessa máls, þingsályktunartillögu nr. 8/145 sem samþykkt var í desember 2015 þar sem Alþingi fól ríkisstjórn að fullgilda fyrir Íslands hönd valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum sem manna á meðal gengur undir nafninu OPCAT.

Það er rétt að nefna líka að Ísland hefur sætt gagnrýni á alþjóðavettvangi fyrir að hafa ekki fullgilt bókunina, m.a. á vettvangi nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og nefndar Sameinuðu þjóðanna. Í allsherjarúttekt mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi sem fram fór á árinu 2011 fékk Ísland m.a. tilmæli sem lutu að því að ljúka þessu verki. Núna er að ljúka annarri allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna gagnvart Íslandi. Í skýrslu sem stjórnvöld skiluðu vegna hennar kemur fram að það sé verið að vinna að fullgildingu þessarar bókunar. Íslensk stjórnvöld hafa líka samþykkt fjölda tilmæla sem fram komu í fyrirtöku mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna 1. nóvember sl. Við erum að fullgilda þá bókun.

Það er rétt að halda til haga að í þessari OPCAT-bókun er kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila sem falið er að heimsækja reglulega stofnanir sem vista frelsissvipta einstaklinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að pyndingar og önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Það er hins vegar alveg á forræði aðildarríkjanna að taka ákvörðun um fyrirkomulag hins innlenda eftirlits. Undirbúningur vegna innleiðinganna stendur yfir og hefur m.a. verið unnið að því að kortleggja þá staði sem eftirlitið mun lúta að. Þá er um það að ræða að þetta eru allt staðir sem vista frelsissvipta einstaklinga, jafnvel þótt vistunin vari einungis í skamman tíma. Þetta eru auðvitað einkum fangelsi, fangaklefar á lögreglustöðvum, deildir þar sem geðsjúkir eru vistaðir, heimili á vegum barnaverndaryfirvalda og deildir á hjúkrunarheimilum þar sem heilabilaðir eru vistaðir. Þessar stofnanir heyra bæði undir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið, sumar þeirra eingöngu undir annað þeirra. Þegar ég fór sjálf að kynna mér þessi mál varð mér auðvitað spurn hvort þetta eftirlit færi ekki þegar fram eðli málsins samkvæmt, t.d. hjá velferðarráðuneytinu, þegar um spítala er að ræða. Auðvitað fer landlæknir með ákveðið eftirlit. En það kom mér á óvart að landlæknir skuli t.d. ekki hafa að mér skilst eftirlit með öldrunarstofnunum, dvalarheimilum. Svo er a.m.k. ekki í þessu tilliti.

Stjórnvöld hafa rætt við aðila á vegum Sameinuðu þjóðanna vegna undirbúnings fullgildingarinnar en samráð, bæði við þá og innlenda hagsmunaaðila, mun fara fram á síðari stigum.

Það hefur verið eindregin tillaga innanríkisráðuneytisins að umboðsmanni Alþingis verði falið innlenda eftirlitið og hefur Alþingi fyrir sitt leyti fallist á það. Embætti umboðsmanns uppfyllir öll skilyrði sem kveðið er á um í bókuninni og nýtur almenns trausts í samfélaginu. Það verður því að telja embættið einstaklega vel til þess fallið að sinna þessu mikilvæga verkefni enda hefur sú leið verið farin víða í Evrópu og á öllum Norðurlöndunum. Er ekki annað að sjá en að það hafi reynst vel.

Hefur innanríkisráðuneytið unnið að þessum undirbúningi í samstarfi við umboðsmann, m.a. með því að kortleggja umfangið. Eftir stendur hins vegar að undirbúa nauðsynlegar breytingar á lögum um umboðsmann. Það er alveg óhjákvæmilegt.

Því miður tókst ekki að koma verkefninu fyrir á fjárlagalið innanríkisráðuneytisins fyrir árið 2017. Innanríkisráðuneytið vinnur núna að því að finna leiðir til að fjármagna verkefnið en vonir standa til þess að velferðarráðuneytið og Alþingi komi að því ásamt ráðuneytinu með einhverjum hætti. Það væri æskilegt að tryggja eitthvert fjármagn strax á þessu ári en fulla fjármögnun verkefnisins frá árinu 2018, hefja undirbúning verkefnisins hjá umboðsmanni Alþingis síðar á þessu ári og koma því fyrir á fjárlögum fyrir 2018. Með því móti væri í raun hægt að fullgilda bókunina í ár.

Hvað kostnaðarmatið varðar liggur það ekki endanlega fyrir. Það fer eftir endanlegu umfangi en fyrstu tillögur sem hafa verið lagðar á borðið sæta núna endurskoðun.



[16:21]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg spurning sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir bar upp. Ég held að við hljótum að vera öll sammála um að við viljum að vel sé fylgst með því og að það leiki enginn vafi á því að á Íslandi séu ekki stundaðar pyndingar af hálfu stofnana. Hæstv. ráðherra kom inn á það í svari sínu og ef ég skildi hana rétt að hreinlega vanti fjármagn til þess að hægt sé að fylgja eftir samþykkt Alþingis. Kunnuglegt stef, verður maður að segja, að því er virðist.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Er það þá hreinlega vegna þess að ekki hefur verið tryggt fjármagn á fjárlögum sem það hefur dregist að þessu eftirliti sé komið á þótt það hafi legið ljóst fyrir að Ísland hefði ár til þess að undirbúa sig og hafi ekki sótt um þennan þriggja ára frest?



[16:22]
Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég þakka svörin. Það er ánægjulegt að þetta mál sé í einhverju ferli þó að þetta gerist í raun afar hægt. Það er mjög alvarlegt að ekki séu neinir fjármunir settir í þessa vinnu. Mér finnst það ótækt. Það var mjög vel reifað þegar við tókum þetta mál í gegnum þingið að til að hægt væri að framfylgja ákvörðun Alþingis þyrftu að fylgja peningar. Ég skora á þingheim, ríkisstjórnina og hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að settir verði peningar í þessa vinnu.

Mig langar jafnframt að skora á hæstv. ráðherra að tryggja að nýta sér þá viðamiklu þekkingu sem samtökin APT búa yfir og ég vona að þeirra víðtæka þekking verði nýtt.

Varðandi þetta málefni er mjög mikilvægt að við opnum málaflokkinn. Ég held að það væri mjög gagnlegt að hafa málþing eða opna fundi þar sem tryggð yrði þátttaka bæði erlendra og innlendra aðila sem kunna til verka og hafa faglega og jafnvel persónulega reynslu á þessu sviði til að við getum tryggt að svona mikilvægar samþykktir séu þess eðlis að allir sem starfa með eða eru aðstandendur fólks í þessum málaflokki séu meðvitaðir um réttindi frelsissviptra einstaklinga. Þeim aðilum sem eru frelsissviptir í heilbrigðiskerfinu fjölgar t.d. stöðugt. Það kemur verulega á óvart að ekki hafi verið (Forseti hringir.) neitt eftirlit með heilabiluðum einstaklingum og aðbúnaði þeirra.



[16:25]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Já, það er þannig með þetta blessaða fjármagn að það þarf að forgangsraða því. Það er takmarkað. Það kemur í ljós eins og í öllum ráðuneytum að mönnum er þröngt sniðinn stakkurinn. Þegar kemur að forgangsröðun hljóta menn að líta líka til þess hversu brýn verkefnin eru. Þetta verkefni er vissulega brýnt en við megum samt ekki gleyma því að við búum við alveg ágætisfyrirkomulag á Íslandi. Ég vona að það hvarfli ekki að nokkrum manni að hér séu stundaðar einhvers konar pyndingar. (Gripið fram í.) Það er vissulega rétt að margir eru frelsissviptir, heilabilaðir, aldraðir og aðrir til lengri eða skemmri tíma. Þá ber líka að hafa í huga að þeim er öllum skipaður talsmaður þannig að við erum með ýmis úrræði til að fylgjast með og reyna að stemma stigu við því að gengið sé á réttindi þeirra sem vistaðir eru tímabundið eða til lengri dvalar þar sem frelsi þeirra er skert.

Að þessu sögðu tek ég alveg undir málflutning málshefjanda og þess hv. þingmanns sem tekið hefur þátt í umræðunni. Þessu þarf að halda til haga og koma því fyrir í sýnilegra formi en blasir við mönnum dagsdaglega. Ég vil hins vegar árétta að það er margt annað sem styður við réttindi einstaklinganna sem þarna um ræðir. Það er kannski ekki allt fengið með því að setja á laggirnar stofnun (Gripið fram í.) eða markvisst eftirlit. Þetta eftirlit fer fram á svo mörgum (Forseti hringir.) vígstöðvum. (Gripið fram í.)